Bænatré heimsins

Litríkt birkitré var í Hallgrímskirkju á föstunni. Á æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar í byrjun mars 2019 var lögð áhersla á náttúruvernd og mannvernd. Lagt var til að tré yrðu sett í kirkjurnar og síðan gæti kirkjufólkið náð sér í garnspotta og bundið á tréð. Garnið var í sjö litum og fólk valdi sér þann lit, sem vísaði til þeirra bænaefna sem skipti það mestu máli.

Ég sótti birkitré austur í Árnessýslu og kom fyrir í jólatrésfætinum mínum við prédikunarstól kirkjunnar. Það var hrífandi að taka þátt í gjörningnum, binda garnspottana og biðja. Tréð varð litríkt í messunni og brosti við sól og mönnum. Ekkert ýtti á að taka tréð niður strax og ferðamennirnir héldu áfram að binda sína bænaspotta á birkitréð allt fram til miðvikudagsins í kyrruviku.

Í öðrum kafla biblíunnar er sagt frá alls konar trjám og lífsins tré sérstaklega nefnt. Tré hafa fangað athygli okkar og þau hafa gefið mannkyni ávexti til næringar. Tré hafa orðið tákn um öryggi, næringu, andlega líðan og velferð. Í 32. passíusálmi íhugar t.d Hallgrímur Pétursson merkingu hins græna trés og líka hins visnaða. Kristnir menn hafa um allar aldir munað, að kross Jesú var tré í þágu lífsins. Og trén, sem tákn umhverfisverndar, hafa svo sprottið upp úr jarðvegi kristninnar.

Föstutréð í Hallgrímskirkju sló í gegn. Það var tákntré sem kallaði fólk til bæna. Tréð bar bænatákn alls heimsins. Og svo grænkaði það! Á bak við alla spotta og litina sprungu birkibrumin út. Lífið lifir. Bænir virka og Guð heyrir ágætlega.

Strípað altari og Guð

Notre Dame, Frúarkirkjan í París brann. Eldöldurnar flæddu um helgidóminn og eyddu öllu sem fyrir varð. Þegar eldurinn hafði umbreytt öllu, syngjandi helgimyndum og bænmettuðum þakbitum í öskusvartan geim – blasti  undrið við slökkviliðsmönnum. Upp úr sóthrúgunum við altarið reis tákn hins heilaga, krossinn. Eyðingin vinnur ekki sigur, tákn himinsins tjáir líf í sortanum.

Í lok þessarar skírdagsmessu verða bikar og brauðhús borin út. Líka ljósastjakar, dúkar, þerrur og allt, sem á altarinu er. Veisluborð kirkjunnar verður strípað öllu því, sem á því er í messunni. Allt burt af altarinu. Af hverju? Tákn hins heilaga eru tekin burtu þegar föstudagurinn langi sækir að.

Þetta er undarlegur gjörningur, sem er líka tjáning lífsafstöðu og trúarjátning. Þegar við játum hið góða og trú til Guðs er hið næsta að horfast í augu við, að líf í þessum heimi hefur skuggahliðar, sekt, misgerðir, ofbeldi og dauða – þetta sem við viljum ekki en er samt.  Þegar við berum allt af altarinu tjáum við líka, að í okkur búi líka möguleikar hins illa. Og við þörfnumst hjálpar. Að vera mennskur er ekki aðeins að gera gott heldur líka að gera mistök og fremja afbrot. Þegar við berum út af altarinu táknum við fyrir sjálfum okkur, að við erum ekki aðeins vinir Jesú, heldur líka andstæðingar hins góða.

Píslarsaga Jesú í Biblíunni er ekki aðeins saga um vonda menn, sem voru illir í garð eins manns. Hún er sagan um okkur öll, möguleika allra manna til að snúa baki við því, sem við þó erum. Við erum ekki aðeins með lærisveinum Jesú við borð skírdagsins, heldur líka meðal hermannanna, sem veittust að honum. Við erum líka prestarnir, sem ekki vildu horfast í augu við að Guð talaði. Við erum öll Gyðingar, öll Rómverjar, öll fjandmenn Guðs – en er samt líka boðið að borði Jesú.

Á máli kirkju og trúar er Guð heilagur af því Guð gefur líf og allt hið góða. Guð er ljós- og lífvaki heimsins. Það er mál páskanna, þegar dauðinn deyr og lífið lifir. En svo er allt hitt raunverulegt, það sem veiklar og drepur lífið, allt þetta sem æpir á okkur á dögum dymbilviku. Stóru skuggamál manna og heims. Óréttlæti er óvinur lífsins, hernaður gegn náttúrunni er af hinu illa. Mannréttindabrot eru verk óhelgi, mismunun fólks vegna kynferðis, litarháttar og trúar sömuleiðis. Þegar nafn hins heilaga er notað í þágu óttans og til að vanhelga og niðurlægja fólk er líf vanhelgað. Þegar málstaður trúar og hins heilaga er misnotaður er borð veislunnar nakið og engum til lífs og gleði. Ranglæti og lífsspilling hvers konar er nakið altari, stípað borð. Guð minn, Guð minn hví hefur þú yfirgefið mig? Við berum áhöld og tákn hins heilaga burt úr helgidóminum á eftir til tákns um hvað við erum öll, hver veröldin er og til áminningar um hvað er heilagt.

Hvar varstu?

Í nokkur ár átti ég samleið með þýska rithöfundinum Heinrich Böll. Ég laðaðist að dýpt og sagnagáfu þessa merka Nóbelhöfundar og þess vegna urðu mér bækur hans ákjósanlegar til þýskuæfinga. Ein af bókum Böll, sem ég las, var Wo warst du, Adam?(Hvar varstu, Adam?).Þetta er bók um mannlíf í stríði, hvernig mennska þverr í drápsaðstæðum – en þá sjást englarnir. Hvers er ábyrgðin? Hvar er mennskan og manndómurinn þegar stríð geisa? Hvar erum við þegar góð skipan samfélags er rofin, þegar elskusemi er gerð útlæg, lægstu hvatir ráða, vondir menn stjórna og ofsi er óhaminn? Hvar varstu? Það er spurning Guðs til Adams. Hvar varstu og hvar ertu þegar brot eru unnin? Hin guðlega spurning er sístæð, sívirk – hún hvílir alltaf á þér. Ertu ljósvera eða myrkravera?

Böll segir frá kristinni stúlku af gyðingaættum, en hafði gengið í kaþólskan klausturskóla. Hún hafði notið góðrar söngmenntunar og líka tekið kristna trú. Hún frétti af útrýmingarherferð og að fjölskylda hennar væri í hættu. Þvert á ráðleggingar vina hélt hún til síns heima. Þar fann hún systur sína, sem var í svipuðum erindagerðum og hún sjálf. Fólkið þeirra hafði verið flutt á brott og þær voru gómaðar og sendar í fangabúðir. Þar stjórnaði SS-foringi, sem elskaði tónlist en hataði trú. Og hann dæmdi fólk til lífs eða dauða í samræmi við eigin músíkviðmið. Eina lífsvon fanga í búðunum var að þeir gætu spilað á hljóðfæri eða sungið. Hinum ómúsíkölsku var fargað sem óþörfum skepnum. Hinum söngvinu og hljóðfæraleikurum var þyrmt og til varð vel spilandi hljómsveit og öflugur kór í búðunum, sem söng og spilaði sig frá dauðanum.

Lofsöngur engilsins

Fólk var stöðugt flutt í þessa eyðingarstöð. Foringinn settist í skrifstofu sína og dæmdi til lífs eða dauða allt eftir tónlistargetu fanganna. Þegar kom að kaþólska gyðingnum skipaði hann þessari grönnu stúlku að syngja fyrir sig. Hún lauk upp munni sínum og þvert á væntingar hljómaði mikil og fögur sópranrödd hennar og fyllti veröld tilheyrenda. Söngundrið barst út um opinn skrifstofugluggan og út í veröld þjáningarinnar. Íbúar búðanna hljóðnuðu. Menn hættu störfum og færðu sig nær til að hlusta. Nazistaforinginn hlustaði stjarfur á dásemdina. Hann vissi, að stúlkan söng af snilli og kunnáttu. En hann vissi líka jafnvel hvað hún söng af slíkri innlifun, að allir hlustuðu – sanctus– lofgerðaróð hinnar kristnu messu – heilagur, heilagur, heilagur. Ástin til fegurðar og tónlistar bullaði annars vegar í manninum sem hlustaði – og andúðin kraumaði líka gegn hinu trúarlega. Hatrið réði fingrum mannsins. Með dásamlegan sanctusí eyrum þreif hann skambyssu sína. Þegar lofsöngurinn hljómaði skaut hann: „Heilagur, heilagur, heilagur ert þú Drottinn…“ Hann sem hafði aldrei fyrr drepið með eigin hendi skaut nú þennan engil lofsöngsins, boðbera hinnar hreinu fegurðar. Hún féll og hann hélt áfram að skjóta og gata grannan stúlkulíkamann meðan síðustu hljómar hennar dóu út í kyrrð búðanna og í bland við skothvellina.

Hvað er heilagt? Hvar varstu Adam? Hver er heilagur – maður – flokkur – manngert smælki eða Guð?

Í þágu lífs

Jesús kallaði vini sína til kvöldverðar á skírdegi. Við borðið skilgreindi Jesús lífið með ákveðnum hætti. Leiðtoginn laut til þjónustu. Hann þvoði fætur vina sinna. Og alla tíð síðan hafa vinir Jesú komið saman við borð. Lífið í ríki hins heilaga – guðsríkinu – varðar þjónustu, samfélag, umhyggju, fórnfýsi, viðsnúning gilda, að smátt og stórt sé sett í samhengi. Að lífið verði gert heilagt, virt sem slíkt og iðja manna sé helguð því sanna.

Hver er miðjan í þessari kirkju, miðjan í Notre Dame, já kirkjubyggingum heimsins? Það er borðið. Kristnin er borðátrúnaður, helgaður gestrisni, þjónustu, velvilja og umhyggju. Þau orð, sem presturinn hefur yfir við upphaf altarisgöngunnar, eru orð Jesú og það sem Páll postuli skrifaði. Kirkjan hefur síðan endurtekið, íhugað og tekið sér til hjarta. Þetta er líkami minn … þetta er blóð mitt. Í þessum orðum er heilagleikinn tjáður. Hvað er heilagt?

Í veislu himins er samkvæmt kristinni túlkun veröldin sætt við sjálfa sig og Guð. Allt er dregið út úr dimmri vonsku og inn í veröld ljósrar gæsku, helgað Guði. Hið heilaga hefur alltaf verið frátekið til ákveðins samhengis í gyðing-kristnum átrúnaði. Hið heilaga er það, sem er Guðs – og Guð einn er heilagur. Þegar menn játa þann sannleika, taka sér stöðu í því samhengi – og taka afleiðingum þess í lífi sínu og iðju – er rétt lifað og veröldin er helguð. Orðin hljóma í þeim anda, söngurinn verður með ákveðnu sniði og móti: „Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn… Þetta er líkami minn, þetta er blóð mitt.“ Það merkir að þú, stúlka, drengur, karl, kona, já þú ert heilagur og heilög – þú ert undursamlega sköpuð, þú ert stórkostlegur. Þú ert mennsk vera, þú ert líka guðleg vera. Þú ert engill Guðs, sendiboði hins heilaga, söngvari eilífðar.

Á altarinu eru tákn um lífið og að það er heilagt. En í messulok, þegar öll táknin hafa verið borin burt, verða fimm rósir lagðar á nakið borðið. Föstudagurinn verður þeim langur og til fjörtjóns. Blómin munu slúta fram yfir brún og verða æpandi tákn fram á páskamorgun. Rósir á altari eru mál elskunnar. Þær eru tákn síðusárs og meina heims og manna. Gróa sárin – verða páskar? Kemur lausnin heims og þín?

Guð geymi þig á göngu þessara bænadaga, varðveiti þig í nótt, veiti þér styrk til að mæta þér og Guði í atburðum komandi daga.

Hver er heilagur? Söngurinn hljómar, syngdu hann með lífi þínu, í huga þínum, með verkum þínum og orðum.

Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn Guð allsherjar.

Skírdagur, 18. apríl 2019, kl. 20.

Skýtur presturinn engla?

Fyrir mörgum árum fór að vitja konu, sem hafði ekki lengur fótavist. Þegar við höfðum rætt saman um stund, reis hún upp við dogg í rúmi sínu, horfði alvörugefin á prestinn sinn og spurði: “ Er það rétt, að presturinn skjóti engla?” Ég hváði við og hún endurtók: “Er það rétt, að presturinn skjóti engla?” Til skýringar bætti hún við, að hún hefði heyrt, að presturinn hefði gengið til rjúpna, henni væri illa við slíkt og teldi það löst á ráði allra manna og hvað þá klerks. Já, ég viðurkenndi að ég hefði skotið svoleiðis engla og hún áminnti sálgæti sinn að hætta slíku. Síðan hef ég ekki skotið engla mér vitandi. Sjokkspurning hinnar öldruðu konu hafði tilætluð áhrif. Ekki held ég þó, að það sé dauðasynd að skjóta rjúpur. Öll nærumst við á því, sem lifað hefur og gefur öðru líf. Það er einn þátturinn í speki hinnar kristnu hefðar um líf Jesú og lífgjöf heimsins.

Vegir Drottins

Hvað er trú og hvernig kemur hún fram? Hvernig er Guð? Hefur guðstrú einhver áhrif á siðferði fólks? Og ef svo er hvað gerir trúað fólk og hvernig bregst það við lífskreppum? Getur verið að trú sé stundum hindrum í samskiptum? Eða eru kreppur fólks fremur tengdar geðrænum sveiflum fólks en hugmyndum þess eða lífsskoðun? Það eru svona spurningar sem eru að baki þáttaröðinni, sem sýnd var í ríkissjónvarpsstöðum Norðurlanda haustið 2018. Sýndir voru tíu þættir í fyrri umferð, en sú seinni enn ekki verið sýnd á Íslandi, hvað sem verður.

Í Vegir Drottins er fylgst með litríkri en furðulegri prestsfjölskyldu í Danmörku. Ég þekki margar prestsfjölskyldur, íslenskar sem erlendar. Sumar eru skrítnar – en þessi prestsfjölskylda í Kaupmannahöfn er ólík öllum þeim, sem ég þekki. En dramatíkin verður nú að hafa eitthvað til að vinna með. Góð saga á ekki að líða fyrir sannleikann eða jafnvel trúverðuleikann. Og Vegir Drottins er ekki um raunverulega fjölskyldu og ekki heldur um danskt kirkjulíf. Heldur hvað?

Flest fer úrskeiðis í lífi Jóhannesar prests, fjölskyldu hans og söfnuði. Lestir mannanna eru fyrirferðarmiklir og talsverður skortur er á dyggðum. Fjölskyldufaðirinn er drykkjurútur, litrík týpa en bæði nærsýnn og þröngsýnn í guðfræði. Svo heldur þessi íhaldsami og sjálfumglaði karl framhjá konunni sinni. Þau eiga tvo syni sem eru ólíkir. Sá yngri er hlýðinn gæðadrengur sem tapar áttum, viti, ráði og rænu eftir að hann varð konu að bana í herþjónustu erlendis. Og hann deyr í lok tíunda þáttar, verður fyrir bíl og helst að skilja að sektin, sem hann bar, hafi orðið honum til dauða. Eldri sonurinn er vargur í samskiptum, en tekur þó sönsum þegar hann fer út fyrir kassa fjölskyldulífsins og opnar fyrir visku og húmor austursins. Svo er það mamman, sem hefur þjónað karli sínum og kerfum hans alla tíð. Hún hefur ekki hlustað vel á sjálfa sig fyrr en norsk tónlistarkona spilar upp tilfinningar hennar. Það dagar á prestsfrúna, að hún hafi bælt hneigðir sínar. Í dramatískri flækju þáttanna gerist margt og hraðinn er mikill. Stóru spurningar um lífið þyrlast upp. Hver er tilgangur með þessu lífi? Hvernig eigum við að lifa sem manneskjur? Hver eru tengsl mín við aðra? Hvað með Guð? Er Guð farinn, dáinn, úreltur? Eru vegir Guðs órannsakanlegir, þ.e. ófærir eða kannski óvæntir?

Um valdið sem brotnar

Í þáttunum verðum við vitni að því þegar djúptækar breytingar verða og gamall heimur hrynur. Jóhannes, fjölskyldufaðirinn, er tákn fyrir úrelt karla-valdakerfi. Það stenst ekki lífið, menningarlegan fjölbreytileika, breytt samfélag, innflytjendastraum og breytt samfélagsviðmið. Gamli presturinn stenst ekki siðferðilega, guðfræðilega eða félagslega. Hann bregst öllu og öllum, sjálfum sér, konu sinni, sonum og þar með Guði, sem hann notar sem einhvers konar vonaregó sjálfs sín. Og Jóhannes prestur er æpandi tákn, um úrelta valdastofnun trúmála og þegar dýpst er skoðað valdastofnanir almennt.

Trú?

Eru þættirnir um trú og Guð? Nei, ekki sérstaklega. En kirkja og trú kemur oft við sögu vegna þess að það er prestsfjölskylda en ekki forstjórafjölskylda sem er notuð til að tala um samfélagsbreytingar, gildaþróun og breytt lífsmynstur fólks, sem reynir á samskipti og tengsl. Þættirnir Vegir Drottins eru minna um Guð og trú en um fordóma og úrelt gildi, sem leiða fólk í ógöngur, siðferðiskrísur og samslátt gilda og hugmynda á breytingatímum vestrænna samfélaga. Stofnanir, og þar með talin kirkjustofnun, höndla illa að þjóna fólki í kreppum og á hraðferð í tilraunum með gildi. Tröppustofnanir þjóna oft fremur þörfum stjórnenda og eigenda en þörfum fólks. Kirkjur í hinum vestræna heimi mega gjarnan muna að yfirmenn, kirkjueigendur, hafa tilhneigingu til að nota stofnun í eigin þágu. Í þáttunum er trú túlkuð, sem flótti frá lífinu fremur en aflvaki lífs fólks í lífsbaráttu. Trú í þessum þáttum aðskilur fólk frekar en tengir saman í samfélag, sem er skilgreining kirkju. Trú í þessum þáttum lengir bil milli fólks og skaðar hið mannlega, sem er andstæða klassísks trúarskilnings kristninnar.

Aðalpersónan hefur einfeldningslega afstöðu til trúar, siðferðis og lífs. Hann lifir í aðskildum siðferðisheimum. Á góðum dögum getur Jóhannes prestur haldið smellnar ræður, en svo lemur hann fólk óhikað með þröngsýnum boðskap lífsfjarlægrar bókstafshyggu. Hann réttlætir alls konar bresti og eigin óra með trú og guðstengslum. Trúartúlkun þáttanna er því fremur sjúkleg en heilbrigð. Í prestsfjölskyldunni eru blóðböndin sterk þó allt sé í rugli. Allir hafa sínar þarfir og upplifanir, sem þó er ekki unnið úr. Þar er hreyfikraftur þáttanna. Þetta er lemstruð fjölskylda, sem passar að ræða ekki erfiðu málin og tabúin. Og kannski eru margar nútímafjölskyldur þannig. Fólk vill vel, vill vera gott við hvert annað, stendur saman á tímum áfalla en á erfitt með að höndla aðalmál lífsins og vinna í gegnum vandamálin.

Skíthælar

Vegir Drottins fjalla sýna hve fólk getur verið miklir skíthælar. Söguhetjur þáttanna eru sjúkar. Annar sonurinn, sem virðist góður, er morðingi. Hann deyr að lokum vegna brots, sem ekki var unnið með. Áföll í lífinu deyða. Hinn sonurinn snýr baki við trú og siðferði og verður sjálfhverfur notandi fólks. Honum er þó ekki alls varnað fremur en mörgum dólgum heims. Þættirnir fjalla um spillt vald, valdastofnanir og frekju fremur en um kærleika. Þó prestakraginn hafi verið hengdur á þessa þætti eru þeir um hið sammannlega en ekki sérkirkjulega.

Sýndarlíf og völd

Vegir Drottins sýna okkur sýndarmennsku marga í samfélagi okkar. Leikrit fólks, sýndargerningar, gagnvart öllum öðrum verða að halda áfram. Allir eiga og verða að leika sitt hlutverk samkvæmt stýrikerfi hins drottnandi stjórnanda. Og þegar þarfir vanhæfs stjórnanda og spilltrar stjórnar stýrir ferð fer illa. Vont vald spillir. Hið illa veldur böli og dauða. Fjölskyldan í þáttunum gæti verið hvaða valdafjölskylda sem er, peningafólk, eigendur fyrirtækis með marga í vinnu, pólitísk valdafjölskylda. Staða og vald spilla þegar eftirlit og ganrýni fær ekki að hreinsa vitleysu og spillingu. Prestar eiga trúnaðarsamtöl við fólk á ögurstundum lífs og vita að í öllum fjölskyldum er eitthvað rotið í pokahorninu. Margir burðast með stór og óuppgerð mál, sem grátið er yfir þegar mismikið elskaðir fjölskyldumeðlimir deyja.

Elskan mest?

Hver elskar mest? Það er eiginlega mamman. Hún elskar karlinn sem er ómögulegur, drengina sína sem eru um margt mjög misheppnaðir, hún elskar líka norsku vinkonu sína. Hún talar ekki stöðugt um Guð en þjónar í kærleika.

Sonurinn Ágúst er einfeldningurinn. Hann vill vel og hegðar sér vel. Reynir að þóknast en er veikur í ósjálfstæði sínu. Hann höndlar ekki sekt og vinnur ekki úr. Í þúsundasta lið… sekt kynslóðanna kemur fram í honum og á honum. Hann deyr vegna sektar sinnar en kannski annarra líka. Getur einn dáið fyrir marga? Ágúst er sem fulltrúi ungs fólks. Hann leitar að hlutverki en misskilur sjálfan sig, stöðu sína og hlutverk, og stendur utan við líf fólks.

Húmor og leikur

Mér hefur lengi þótt húmor fléttast um allt hið danska samfélag. Og hlýja kímni hefur oftast liðast inn í danskar kvikmyndir og þætti. En furðulegt nokk, það vantar alveg húmor í Vegi Drottins. Í starfi presta sem eru alltaf við mörkin, dauða og fæðingu, kreppur og stórhátíðr er hláturinn eins eðlilegur og hinn djúpi grátur. Samtöl verða því gjarnan snarpdjúp. Í kviku fólks er myrkur og ljós, reiði og hlátur. En í samtölunum í þáttunum eru flest samtöl yfirborðsleg og án sveiflu, dýptar og húmors. Það eru fáir prestar sem eru svoleiðis. Í þessum þáttum er heilmikið talað um Guð en mjög lítið um hvernig trú hefur áhrif á gott líf. Fjölskyldudramað stýrir öllu og svo er trú og Guð eins og uppfylliefni.

Þættirnir eru sjónræn veisla. Myndatakan er flott, myndmálið kraftmikið og flæðandi táknmálið vekur marga þanka. Stjörnufans danskra leikara kemur fram. Lars Mikkelsen er frábær leikari, en karlinn, sem hann leikur verður heldur leiðigjarn þegar á líður. Ann Elenora Jörgensen túlkar prestsfrúna vel á leið hennar út úr meðvirkni og til sjálfsvirðingar. Simon Sears er skemmtilega frakkur og sveiflar sér milli andstæðna manns í leit að sjálfi, heilbrigði og trú. Adam Price er óumdeilanlega meistari. 

 

Nr 7 Þú skalt ekki stela

Föstudaginn 15. mars dreif að ungt fólk úr öllum áttum og allir stefndu að Hallgrímskirkju. Unglingar í 8.-10. bekk og fjöldi úr framhaldsskólunum og nokkur eldri líka. Þau komu með mótmælaspjöld, litrík spjöld með hvatningarorðum um aðgerðir í náttúruverndarmálum: „Ekki stela framtíðinni.“„Það er engin pláneta B.“ „Framtíð okkar er í húfi.“ Þau voru komin til að mótmæla loftslagsmengun og hvöttu til aðgerða. „Gerið eitthvað áður en það er of seint“ stóð á mörgum spjöldum. Sum mótmælenda fóru að föstutré Hallgrímskirku, sem hafði verið flutt úr kórnum og út á Hallgrímstorg. Unga fólkið batt bænabönd á tréð og mislit böndin táknuðu mismunandi bænir. Föstutréð er birkitré og er að bruma og grænkar smátt og smátt. Svo gengu þúsund mótmælendur af stað undir söng kirkjuklukknanna niður Skólavörðustíginn og niður á Austurvöll.

Stela framtíð?

Í huga mér hljómaði setning Gretu Thunberg til heimsbyggðarinnar og skilaboðin voru á spjöldum líka: „Þið stelið framtíð okkar.“ Þeirri ákæru er beint til valdhafa og forréttindafólks heimsins, sem keyra áfram neyslukapphlaupið. Unga fólkið vekur athygli á stóru málunum og vill ekki að neinn steli framtíðinni. Þau berjast gegn stuldi lífsins. Ég stóð svo við Leifsstyttuna og horfði á eftir framtíðarfólkinu, sem vill góða framtíð en ekki mengaða veröld. Ég og mín kynslóð getum ekki annað en viðurkennt, að við höfum brugðist því hafið er að fyllast af plasti, hitastig lofthjúps jarðar er að hitna vegna okkar neyslu. Hreint vatn, sem er öllu lífi nauðsyn og raunar bæði náttúruréttindi og mannréttindi, er dýrmæti sem aðeins minnihluti mannkyns nýtur. Stelum við? Ætla ég að vera þjófur? En þú? Að menga er að stela heilbrigði annarra. Að stela framtíðinni er stórkostlegt afbrot – dauðasynd.

Sjöunda orðið

Þessar vikurnar ræðum við Hallgrímskirkjuprestar um boðorðin. Við vissum vel, að boðorðin eru merkileg. En við höfum líka enduruppgötvað hve andi þeirra er nútímalegur þegar búið er að skræla frá umbúðir fortíðarsamfélags. Boðorðin eru lífsviska, áttavitar fólks, sem vissi hvað þrælabúðir voru og hvað þrældómur spillts valds gat verið hræðilegur. Boðorðafólkið vildi ekki búa við helsi heldur frelsi. Og heilbrigt samfélag verður ekki til nema að fólk njóti mannréttinda og samfélagið hafi góðar reglur sem hemja ofbeldi. Fólk er ekki og má aldrei vera bara hjól í vél, tæki í þágu valdahópa. Gott samfélag verður til þegar fólk fær að vera það sjálft og fullveðja. Inntak boðorðanna er virðing fyrir Guði en líka djúp, ástrík virðing fyrir mönnum. Boðorðin tjá manngildi og mikilvægi mennskunnar.

Að stela fólki

Í dag beinum við sjónum að sjöunda boðorðinu. Hvernig er það? Jú, þetta sem bannar að stela. Þegar ég fór að skoða uppruna þess brá mér. Sumir fræðimenn sem sé telja, að þetta boðorð hafi upprunalega ekki verið vörn fyrir eignarrétt, heldur hafi fremur átt við fólk. Boðorðið hafi eiginlega verið bann við að stela fólki, gera fólk að þrælum, kaupa og selja þræla. Í hefðum Gyðinga hefur um aldir verið lögð áhersla á, að boðið varði mannrán. Þetta breytti sýn minni og skilningi á boðinu og opnaði það. Allt í einu varð boðorðið ágengara en sjálfsögð sannindi um efnislega hluti. Boðorðið er þá ekki bara almennt um fjármálagjörninga, viðskipti, kaup og sölu eða vernd eignarréttar, sem vissulega er mikilvægt í siðuðu samfélagi. Boðið varðar fremur fólk en eigur þess. Ef við manntengjum boðorðið verður betur skiljanlegt, að Jesús túlkaði siðfræði og lagahefð þjóðar sinnar fremur í þágu fólks en peninga. Við vitum, að Jesús var alltaf með hugann við velferð einstaklinga. Hann talaði um manngildi óháð lit, kyni og stöðu fólks. Hórseka konan var honum jafn mikils virði og musterispresturinn. Útlendingurinn var í huga hans jafngildur Gyðingum. Þorparinn var jafn mikilvægur og landstjórinn. Það var ekkert við og þið, yfirstéttin og undirsátar, betri og verri. Jesús felldi saman öll boðorðin og siðvit hebrea og Gyðinga og sagði, að aðalmálið væri, að við elskuðum Guð og náungann eins og okkur sjálf. Gullna reglan og tvíþætta kærleiksboðið? Það eru boðorðaprédikanir Jesú.

Manngildið og mennskan

Í ljósi þessarar manngildisáherslu las ég í liðinni viku greinar, blöð og fréttir með nýjum hætti. Boðið gegn því að stela getur átt við eða gilt fyrir öll þau tilvik þegar einhverjir brjóta á öðru fólki, ræna tíma og rétti, æru og vinnu, frelsi og lífsgleði. Það eru þjófar skv. boðorðinu, sem gera lítið úr skólafélögum og einelta aðra. Þeir pabbar eða mömmur, sem fara illa með börn sín og ástvini, svifta þau bernskunni eru þjófar. Það eru margir þjófar í hjónaböndum, sem fara illa með maka sína. Þeir stela raunverulega. Þjófarnir eru víða. Ertu þjófur? Stelur þú? Kannski ekki peningum, en stelur þú lífsgleði annarra, hamingju eða möguleikum? Og stelur þú framtíðinni?

Stela bernskunni

Sævar Þór Jónsson, lögmaður, sagði frá í nístandi blaðaviðtali í Morgunblaðinu, að þegar hann var átta ára þegar hann var misnotaður. Þrír ofbeldismenn níddust á honum og rændu hann bernsku og lífshamingju. Ofbeldi af því tagi er brot á mörgum boðum – slíkir menn eru bófar, þeir eru þjófar og ræningjar mennskunnar. Og það hefur verið verkefni Sævars Þórs að vinna úr þessu ofbeldi síðan. Og nú hefur Sævar Þór lagt draugana til hvílu – vonandi hinnar hinstu. Í haust, 2. október, mun hann segja frá – hér í Hallgrímskirkju – hvernig hann lifði af þetta bernskurán og brást við. Það er merkileg og rosaleg saga, sem hann hefur að segja, en líka saga um upprisu og hvernig fólk getur brugðist við missi, brotinu á sjöunda boðorðinu – og brotum á anda boðorðanna.

Eltihrellar stela

Ásta Ragnarsdóttir, hjá Bakkastofu á Eyrarbaka og fyrrum námsráðgjafi í Háskóla Íslands, sagði frá því fyrir skömmu, að hún hefði orðið fyrir barðinu á eltihrelli, sem sendi henni hræðilega hótunarpósta. Ástu var hótað líkamsmeiðingum, íkveikju og fleiri skelfingarefnum. Börn Ástu og Valgeirs Guðjónssonar, manns hennar, læstust inn í svartholi þessarar aðsóknar. Að lokum bognaði Ásta gagnvart hryllingnum, sagði sig frá vinnu sinni til að reyna að slíta sig frá ofsóknarfólkinu. Eltihrellar valda skaða, stela friði heimilis og fjölda fólks, meiða sálir og valda andlegum og félagslegum hörmungum. Eltihrellar eru þjófar og í sumum tilvikum morðingjar líka. Þeirra glæpur er rosalegur. En það var mikilvægt og hetjulegt, að Ásta sagði þessa sögu.

Rán á heimilum

Mörg okkar munum eftir bókinni Myndin af pabba,sem er saga Thelmu Ásdísardóttur. Í bókinni er sagt frá ofbeldi, sem faðir Thelmu beitti hana, systur hennar og fjölskyldu. Gerður Kristný, rithöfundur og skáld, skráði söguna og bókin stuðlaði að viðhorfsbreytingu Íslendinga (og endurskoðunar samfélagsins og þar með dómstóla) varðandi kynferðisofbeldi. Gerður Kristný hefur skrifað fleira um þetta þungbæra efni og m.a. áleitna og nístandi ljóðabók Sálumessu, sem var gefin út á síðasta ári – 2018, sem kallast á við efni Thelmubókarinnar. „Það sem aldrei er rætt virðist ekki vera til,“ segir Thelma (s. 215) í frásögn sinni af kynferðisofbeldi bernskunnar. Myndin, sem Thelma dró upp af föðurnum, er skelfileg, en sýnir einnig að hann var ekki bara djöfull í mannsmynd, heldur persóna sem átti líka góðar hliðar. Saga Thelmu er lýsing á hvernig hún, sem þolandi ofbeldis, gat snúið sér til lífs, birtu og frelsis. Thelma varð fyrir því, að faðir rændi hana og systur hennar bernskunni og fjölskylduna hamingjunni. Þessi pabbi var þjófur. Og þannig er það í mörgum fjölskyldum og mörgum hjónaböndum. Margir makar eru þjófar í samskiptum. Býrðu við stuld í þínum tengslum? Viltu að stolið sé af þér?

Að segja sögurnar er mikilvægur eflingargjörningur og heilsuátak hversu erfitt sem það nú er fólki. Sævar Þór,  Ásta og Thelma eru hetjur. „Sannleikurinn mun gera yður frjálsa,“ sagði Jesús Kristur. Þau orð eru sönn. Sú speki, er líka skráð í hornsteini Alþingishúss okkar Íslendinga og varðar okkur öll.  

Endurskoðun og framtíðin

Þegar við endurskoðum boðorðið um stuld – og tengjum við fólk en ekki bara fé – opnast ýmsar gáttir. Þú skalt ekki stela. Já, við eigum ekki að stela peningum og við eigum að vernda eignarréttinn. Og ég uppgötvaði, að við ættum helst að hugsa um þetta boð í tengslum við fólk. Allt fólk er dýrmætt, djásn í augum Guðs. Fólk, sem er notað, er rænt og af því stolið. Virðum fólk og stelum engu af lífsgæðum þess, frelsi, tíma og sjálfsvirðingu. Við erum öll jafngild, óendanlega dýrmæt. Jesús mat einstaklinga og eilíft gildi þeirra. Þannig megum við einnig vera. „Þið stelið framtíð okkar“ segir framtíðarfólkið. Nei, við viljum ekki stela. Við viljum lifa með ábyrgð í nánum samskiptum, í samfélagi okkar, í uppeldi, vernd gilda og náttúru. Og andi boðorðanna er að elska Guð, virða fólk og vernda líf.

Hallgrímskirkja 24. mars 2019. 

Lexía: 2. Mós 20.2-3,15

Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. … Þú skalt ekki stela.

Pistill: Róm. 13.8-10

Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin: „Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,“ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.

Guðspjall: Matt. 6.19-24

Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera. Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt mun allur líkami þinn bjartur. En sé auga þitt spillt verður allur líkami þinn dimmur. Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið. Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.