Er þú brýst fram gegn bylnum
berðu höfuðið hátt.
Óttastu ei myrkrið
né ógn þess og mátt.
You’ll nvever walk alone er söngur Liverpool í Englandi og tugir þúsunda syngja hann hástöfum á leikjum. Helgi Símonarson, frændi minn á Þverá í Svarfaðardal, sagði mér fyrst frá þessum söngsálmi Púlara. Hann var kennari og bóndi fyrir norðan og líka mikill áhugamaður um fótbolta og sérstaklega Liverpool. Og hann varð elsti stuðningsmaður Liverpool í heimi, náði 105 ára aldri. Árið 2000 var fullyrt í leikjaskrá Liverpool að hann væri elsti stuðningsmaður félagsins í heiminum.
Liverpool-liðið er merkilegt. Það hefur orðið kraftaverk, eiginlega upprisa í því liði. Það er að nýju orðið eitt besta fótboltafélag í heimi. Blómaskeið félagsins var fyrir mörgum árum. Þá vann liðið frækna sigra heima og erlendis. En það sem fer upp kemur niður. Í mörg ár var liðið gott meðallið í ensku úrvaldsdeildinni. En svo réð Liverpool Jürgen Klopp til að byggja upp. Og síðan hefur hann endurnýjað liðsandann og smitað gleði til stuðningsmanna. Óháð fyrsta eða öðru sætinu í Englandi eða fyrsta eða öðru sætinu í Meistaradeild Evrópu er liðið orðið eitt það besta í heimi – að nýju.
Af hverju skyldi það vera – og af hverju hefur prestur áhuga á anda fótboltaliðs? Klopp og Kristur tengjast nánum böndum. Það getur haft – og á að hafa – áhrif á líf fólks að trúa á Guð. Svo er ekki alltaf því fólk er mismunandi. Sumir nota, misnota trú eftir þörfum, en aðrir leyfa trú að móta afstöðu sína og samskipti við fólk. En þegar allt er eðlilegt skilar trú mannvinsemd og hlýrri afstöðu og tengingum veröldinni.
Í viðtali var Jürgen Klopp spurður hvernig velgengnin skipti hann sjálfan máli? Klopp svaraði einfaldlega: „Ég er kristinn. Ég er ekki aðalkarlinn heldur einn af mörgum. Við erum lið.“ Þetta er kjarnamál. Að vera kristinn hefur afleiðingar, á að hafa afleiðingar og móta hvernig kristinn maður beitir sér í lífi og starfi, tengist öðrum og lítur á sjálfan sig í tengslum. Klopp hefur frá unglingsárum tekið trú sína alvarlega og í samskiptum við fólk tekur hann afleiðingum af hvað trú merkir. Allir, sem fylgjast með fótbolta, hafa séð hvernig Klopp umgengst annað fólk af virðingu. Hann byggir upp liðsheild. Hann er náinn leikmönnum, brosir til þeirra, eflir sjálfstraust þeirra, tekur utan um sína menn, er mjög skapríkur og einbeittur í störfum en alltaf ræður mannvirðing för, tillitssemi, hógværð og heildarhugsun. Og hvort sem hann tapar eða vinnur virðir hann alltaf mótherjana, talar vel um þá bæði fyrir leiki og eftir leiki. Kristur hefur áhrif á Klopp – og það er þess vegna að Liverpool er upprisið. Kristur hefur áhrif og má hafa áhrif.
Hvað merkir að vera kristinn – að trúa á Guð? Það merkir að við erum hluti af heild. Við erum ekki nafli alheimsins, við erum ekki svarthol eigingirninnar, sem allt sogar til sín. Okkar hlutverk er að styðja aðra, líta ekki á okkur sjálf sem miðju veraldar, heldur sem mikilvæga þátttakendur í stóru teymi fólks. Þegar við skiljum það skiljum við betur eðli tengsla og trúar.
Við mannfólkið erum einstök og dýrmæt. Lífsverkefni okkar eru að rækta siðvitund, visku, mannvirðingu og góð tengsl, við sjálf okkur og fólkið okkar. Kristin trú er ekki vitsmunasamþykki kenninga heldur líf. Að trúa á Jesú Krist er að lifa í tengslum við Guð og menn, sjá sig í samhengi og glepjast ekki til að trúa að maður sé betri, snjallari og klárari en allir aðrir. Stuðningsmenn Liverpool syngja hástöfum: „You´ll never walk alone.“ Það eru orðin sem standa yfir Shankley-hliðinu á Anfield. Sú tjáning rímar við meginstef kristninnar. „Þú ert aldrei einn.“
Fótboltinn getur fallið, Liverpool getur dalað, allt getur hrunið í kringum okkur – en þó erum við ekki eða verðum yfirgefin. Guð er yfir og allt um kring. Til að verða afburðamaður í fótbolta krefst æfinga. En til að þið verða afburðamenn í lífinu hjálpar að vera eins og Klopp, taka mark á trú og leyfa henni að móta samskipti og líf. Kristur hefur áhrif.
Hrísgrjón eru jafnan betri bökuð en soðin og hrísgrjónabökun heppnast oftast. Bragðið er fíngert en fágað og því er réttara að velja sósu með af vandvirkni. Ég eldaði þennan rétt um síðustu jól og hann var dásamlegur og svo aftur nú eftir páska og þá var Jón Kristján, dugmikill hjálparkokkur. Rétturinn, sem er frá Ottolenghi, er fagur og hægt að bera fram með alls konar meðlæti, grænmeti, kjötrétttum eða fiski.
Fyrir sex.
Hráefni
400 gr basmatihrísgjón
50 gr smjör
800 ml sjóðandi vatn
40 gr minta
150 gr fetaostur – skorinn í 1 cm bita
Salt og pipar
Salsa
50 gr grænar ólífur, þunnt skornar
1 granatepli – fræ úr einum ávexti – ca 90 gr
50 gr valhnetur, saxaðar og þurrristaðar lítillega á pönnu
3 msk ólífuolía
1 tsk sæta (t.d. stevía eða hunang)
10 gr minta
2 hvítlauksrif – marin
Matreiðslan
1 Forhita ofninn í 230°C
2 Setja hrísgrjónin í fat með háum köntum. Krydda með ca 1 tsk af maldonsalti og pipar. Hella vatninu yfir og koma smjörinu fyrir líka. Raðið mintunni yfir og lokið með álpappír (eða loki fatsins ef það er til). Setja í ofninn og baka í 25 mínútur eða þar til hrísgrjónin eru fullbökuð og vökvinn að mestu horfinn úr botninum.
3 Útbúa salsað – en bíða með að setja mintuna yfir.
4 Taka hrísgrjónin úr ofninum fullbökuð. Taka burt álþynnuna (lokið). Taka mintuna af, henda stilkunum en nota mintublöðin og setja yfir réttinn. Smella fetaostinum yfir hríusgrjónin og salsað þar yfir. Svo er afgangnum af mintunni dreift yfir.
Bera fram heitt og ráð að njóta þessa augnayndis og bragðgæðanna – og vert að þakka fyrir.
Borðbænina samdi Sigurður Ægisson, Siglufjarðarprestur:
Það sem heimurinn þarfnast nú er kærleikur – var sungið áðan. Og systur kærleikans eru efi og trú. Og saman eru þær frábærar systur, sem þurfa helst að tala mikið saman til að lífið megi þroskast gæfulega. Og þær hafa margt að segja um líf og dauða, veg og von, tíma og eilífð. Hvað er hinum megin? Hvernig er eilífðin? Á tímanum eftir páska eru þeir textar Biblíunnar gjarnan lesnir sem varða hvað tekur við, þegar dauðinn deyr og lífið lifir. Lífskraftur páska litar þennan tíma gróandans. Og ég las guðspjall síðasta sunnudags, sem greinir frá samtali Jesú og Tómasaar, sem ekki þekkti veginn, sem Jesús talaði um. Hann vissi ekki hvert Jesús færi og spurði, því trú, elska og efi bjuggu í honum. Og Jesús svaraði: „Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið.“ Systurnar mega gjarnan ferðast saman og upplýsa álitaefnin. Öll spyrjum við einhvern tíma um hvað taki við. Og nú kveðjum við Selmu, þökkum fyrir líf hennar og gjafir. Við minnumst hennar, blessum minningarnar og beinum huga í hæðir vonanna.
Hugsandi líf
Selma fékk að halda á nýfæddum börnum og fagna þeim. Henni var í mun að vernda smáfólkið og að ungviðið mætti lifa vel. Við, sem höfum notið reynslunnar að lykta af nýburum og skoða þá, vitum að fátt er stórkostlegra en horfa í augu þeirra og finna elskuna og umhyggjuna hríslast hið innra. Öll vorum við slík smápeð. Hvað hugsuðum við þá? Og ef við förum lengra: Um hvað hugsaðir þú þegar þú enn varst í kviði móður þinnar? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega gastu heyrt hljóð, fannst til með mömmu þinni, fannst fyrir vellíðan hennar, þegar henni leið vel. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í. Nei, en þú varst samt sprellifandi. Smátilveran var þér fullkomlega nægileg. En þó tilveran væri stærri en móðurlífið skildir þú hana ekki. Við fæðumst öll fákunnandi um veröldina. Það er nóg sem gefið er til að hefja lífið. Kunnáttan, skilningurinn kemur síðar þegar þroskinn vex í þessari raunveröld okkar. Við fáum og njótum þess, sem er okkur nægilegt á hverju skeiði. Fóstrið hefur allt og nýtur síðan elskuarma til stuðnings eftir fæðingu til nýrrar veraldar. Og dæmið af fóstrinu er til skýringar um, hvernig við getum ímyndað okkur eða hugsað um eilífa lífið. Hvað tekur við eftir dauðann? Þó að þú hafir ekki getað ímyndað þér hvað tæki við þegar þú fæddist þá tók tilveran við og var margbreytileg og fjölskrúðug. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það hugsanlega orðið mun stórkostlegra en þú ímyndar þér, rétt eins og tilveran varð litríkari og fjölbreytilegri en barn í móðurkviði hefði getað hugsað sér. Efinn á sér systur í trúnni og kærleikanum. Tómas efasemdarmaðurinn spurði hvernig væri hægt að vita um veginn. Svarið var: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið / kærleikur, efi og trú.
Æviágrip
Nú kveðjum við Selmu. Boðskapur kristninnar er boðskapur vonarinnar. Heimsmyndin er opin. Trú okkar í móðurkviði náttúrunnar er trú á, að meira sé í vændum en aðeins lokaðir ferlar. Í eða af þeirri trú talar prestur við útför. Í þeim anda kveðjum við í dag.
Selma fæddist í síðsumars alþingishátíðarárið 1930. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Hjálmarsdóttir og Sigurjón Sigurbjörnsson. Mamman var að austan, úr Loðmundarfirði, en pabbinn af Vesturlandi, frá Hítarnesi. Þau höfðu kynnst á Seyðisfirði en vegna atvinnu Sigurjóns fluttu þau til Vestmannaeyja. Ingbörg sá um heimilið og Sigurjón starfaði sem tollþjónn og verslunarstjóri. Inga var eldri systirin og fæddist árið 1929, ári á undan Selmu.
Vestmannaeyjar voru gjafmildur uppeldisreitur þeirra systra. Mikil fjölgun íbúa varð í Eyjunum á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þegar Selma fæddist voru íbúarnir á fjórða þúsund og hafði fjölgað tífalt á undanliðnum áratugum. Samfélag í þennslu er ungu fólki jafnan spennandi. Mikið var um að vera, alltaf eitthvað nýtt á seiði og oftast gaman fyrir börn að vaxa úr grasi. Selma hugsaði alla tíð með gleði til baka til bernskunnar í Eyjum. Hún naut þess, sem samfélagið hafði að bjóða og naut tengsla við marga æ síðan, jafvel vestur í Ameríku þegar þau Friðþjófur fóru til náms og starfa.
Selma sótti skóla í Vestmannaeyjum. Á unglingsárum hennar voru foreldrarnir farnir að horfa til lands. Fjölskyldan flutti svo til Reykjavíkur undir lok fimmta áratugarins. Þau bjuggu m.a. um tíma á Ránargötu. Sigurjón fór að vinna hjá Gefjunni og Selma fékk vinnu hjá því fyrirtæki einnig. Svo vann hún við afgreiðslustörf og m.a. hjá hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur.
Uppvaxtarárin voru ekki ein samfelld gleðitíð. Selma var átjan ára þegar hún smitaðist af berklum. Hún var send á Vífilsstaði. Hún var lánsöm og náði heilsu.
Selma eignaðist Ágústu þegar hún var 22 ára. Faðir hennar var Axel Kristjánsson.
Og svo fékk Selma óvænta hjálp við að búa Ágústu góðar aðstæður. Hún fékk happdrættisvinning, sem hún lagði inn í byggingarfélag í Kópavogi. Og svo var hús byggt og fjölskylda Selmu flutti í fallegt Sigvaldahús í Lindarhvammi.
Svo kom Friðjófur Björnsson inn í líf Selmu og Ágústu. Þau gengu í hjónaband í mars árið 1957. Ágústa sagði frá, að það hefði kannski ekki verið alveg einfalt fyrir móður hennar því dóttirin var með eyrnaverk nóttina fyrir giftinguna og því haldið Selmu á vaktinni! Haukur kom í heiminn í ágúst síðar á árinu. Lífið blómstraði hjá ungu hjónunum, sem komu sér fyrir í kjallaranum á Lindarhvammi. Selma rak verslunina Hlíð á Hlíðaveginum í Kópavogi um tíma og seldi vörur til hannyrða og einnig ritföng og snyrtivörur. Þegar þau Friðþjófur ákváðu að stækka við sig og fengu íbúð í Sólheimum lauk Selma verslunarrekstri. Sigurjón fæddist árið 1962.
Friðþjófur lauk læknisnámi og ljóst var að fjölskyldan færi út fyrir bæjarmörkin. Fyrsta stopp var Vopnafjörður, en þar var Friðþjófur héraðslæknir á árunum 1964-65. Og svo var það vangaveltan um framhaldsnám. Selma var opin fyrir ævintýrum. Þau hjónin ræddu hugsanlega námsstaði. Selma taldi að fyrsti kosturinn væri Ameríka fremur en Evrópa, Bandaríkin frekar en Svíþjóð. Og Friðþjófur hlustaði alltaf vel á konu sína. Og vestur fóru þau. Og Ameríkudvölin var þeim og fjölskyldunni mikið ævintýri. Þau voru langdvölum bæði í Baltimore og Milwaukee. Selma góð mamma sem lagði gott til barna sinna og ameríkutíminn var fjölbreytilegur vaxtar- og þroskatími.
Þegar námi lauk var stefnan tekin heim. Við tóku aðlögun, að koma sér fyrir að nýju á Íslandi, koma börnunum til manns og alls konar störf biðu þeirra allra. Selma starfaði sjálf lengst hjá Tryggingastofnun ríkisins eða í um 15 ár.
Ágústa er kennari í Fjölbraut í Garðabæ. Maður Ágústu var Þorsteinn Snædal, sem lést fyrr á þessu ári. Ágústa á tvo syni, Daða og Óttar. Börn Daða og Gunnhildar Ólafsdóttur, konu hans, eru Þórdís og Axel. Sambýliskona Óttars er Eva Lind Gígja og börn hennar eru Skarphéðinn og Snæfríður.
Haukur lærði myndlist og hefur starfað sem sjómaður og vinnslustjóri á íslenskum og erlendum skipum. Hann býr nú á Spáni. Kona hans er Rannveig Gylfadóttir. Dóttir hennar er Urður Hákonardóttir og á hún dæturnar Kríu og Örk.
Sigurjón er heimspekingur.
Minningarnar
Síðustu árin hefur Selma búið á Droplaugarstöðum vegna Alzheimersjúdómsins. Og þökk sé starfsfólki Droplaugarstaða. Þolendur Alzheimer og ástvinir líða fyrir og ganga í gegnum alls konar álag og tilfinningar þegar tilveran verpist, orðin hverfa og tengingar rofna. Selma naut langrar og inntaksríkrar æfi. Hún var hæfileikarík, fór víða og sá margt. Og nú er færi til að teygja sig aftur og rifja upp það sem hún var, gerði og gaf af sér.
Hvaða minningar áttu um Selmu? Manstu fagurkerann? Hún hafði skoðun á húsagerð og líka hvaða arkitektar voru bestir. Hún mat gæði mikils og vildi fremur það sem var vandað en hitt. Og svo hafði hún líka skoðun á uppröðun og fyrirkomulagi á heimili sínu. Hún hafði sem sé gott auga og fagurkerinn hafði líka auga fyrir fallegum fötum. En svo var í henni sveifla, hún gat jafnvel átt það til að gefa unga fólkinu fólkinu undirföt af djarfara taginu.
Manstu lestrardugnað Selmu? Hún las ekki bara reyfara og rómana heldur lagði í doðranta líka og rússnesku stórskáld 19. aldarinnar voru m.a. vinir hennar.
Manstu kátínu hennar og hlýju, hlátra og skemmtiefni? Mér þótti gaman að sjá hlýjuna í augum hennar þegar við hittumst á Droplaugarstöðum. Og við sjáum kímna glettnina á myndunum í sálmaskránni.
Og hvernig var maturinn hennar Selmu? Manstu hve góður kokkur hún var?
Manstu geðslag hennar og skapfestu? Selma var ákveðin og viljasterk, hafði skoðanir á sínum málum og fjölskyldunnar. Og manstu að hún var jafnan umtalsfróm? Og svo var sambandið við Ingu systur hennar gefandi.
Manstu hve ferðaglöð Selma var? Hún hafði gaman af að skoða veröldina. Hún fór með foreldrum sínum um landið og síðan með manni sínum um heiminn. Selma naut þess, að Ágústa og bræðurnir voru sjálfbjarga, og gat því farið með Friðþjófi í lengri og skemmri vinnu- og námsferðir. Þau hjón fóru víða og það var gaman hjá þeim. Þau voru samstiga.
Selma kenndi börnum sínum bænir. Það er gott að geta varðveitt traust barnsins og þora að vona. Vera í stöðu nýbura á vegi merkingarinnar. Og orð Jesú um veginn, sannleikann og lífið varða, að Guð er merkingarvaki lífsins og móðurfaðmur. Við vitum ekki hvernig handantilveran er því hið biblíulega málfar er ekki bókstafleg lýsing. Mál trúarinnar er myndræn hliðstæðu-orðræða. En við megum ímynda okkur að gæði og dásemd í vistarveru eilífðar taki dýrð Vestmannaeyja og Baltimoore fram.
Og svo verður sungið nú á eftir – og þetta eru brot af eilífðinni – himnaríkismyndir:
Ó, hve fegin vildi ég verða aftur
vorsins barn og hérna leika mér.
Kemur ekki vor að liðnum vetri?
Vakna ́ei nýjar rósir sumar hvert?
Guð geymi Selmu og varðveiti þig. Amen.
Minningarorð í útför í Fossvogskapellu 16. maí. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Erfidrykkja í Hótel natura.
Í skírnargjöf gaf Kristín barnabörnum sínum skuldabréf og sálmabækur. En í fermingargjöf gaf hún þeim Biblíu og gjaldeyrisreikninga. Hvað segir það um afstöðu Kristínar til lífsins? Voru krónur og Biblía á pari? Jafngild? Var þetta einhvers konar gildahagfræði? Var þessi tvenna í skapandi sátt í lífi hennar?
Það var heillandi að funda með fólkinu hennar Kristínar og hlusta á þau segja frá persónueinkennum hennar og lífi. Þau sögðu litríkar sögur af djúpum kærleika og með elskublik í augum. Kátlegar sögur þeirra voru mettaðar virðingu, aðdáun og þakklæti. Já, Kristín var svo heilsteypt, skynsöm, vitur og hagsýn. Hún hafði orðið fyrir röð af áföllum, sem hefðu brotið flesta, en ekki hana. Kristín hafði vilja, gáfur og getu til að vinna úr, læra af og vaxa af. Hún var ekki aðeins góð í viðskiptum. Hún var þroskuð kona, sem vissi að í lífinu voru góðir dagar en líka vondir, að ekkert væri öruggt í þessum heimi. En hún átti alltaf haldreipi, festu og líftaug í trú. Guð var henni nærri alla daga æfinnar.
Krónur og Biblía, gjaldeyrisreikningar og guðsorðið. Og Kristín höndlaði vel, raðaði af visku, umvafði fólk – alla – með umhyggju og elskuorðum. Hún lifði í glaðværri fyrirhyggju, skapaði atvinnu fyrir fjölda fólks, var ráðholl samferðafólki, vinum og ástvinum um allt sem máli skipti, líka varðandi makaval! Og hún hafði áhuga á pólitík, getu eða getuleysi amerískra forseta, bókum, styttum bæjarins og bankamálum. Öll veröldin kom saman í Kristínu Einarsdóttur, sem hafði áhuga á tímanlegri og eilífri velferð ástvina og veraldarinnar. Allt varð stórt, íhugunarefni og merkilegt í lífi Kristínar, sem dó á afmælisdegi sínum og fermingardegi – 95 ára gömul. Hún ákvað sinn helgidag, lokaði hringnum og hvarf inn í ljósið.
Upphaf, fjölskylda og barnlán
Kristín Einarsdóttir fæddist í Reykjavík 1. maí árið 1924. Baráttudagur verkalýðsins var hátíðisdagur í lífi hennar og fjölskyldu. Það var engin kröfugerð heldur fagnaðargerð í fjölskyldunni, engir samningar heldur lífsgæði fólks, sem var bundið saman af gildum og gæðum. Foreldrar Kristínar voru hjónin Einar Guðmundsson, steinsmiður, og Sigfríður Gestsdóttir, húsmóðir. Þau bjuggu í húsi við Grettisgötu, sem Einar hafði reist. Yfir þrjátíu ára aldursmunur var á þeim hjónum. Einar var á sjötugsaldri þegar Kristín fæddist og hún var aðeins 6 ára þegar hann kvaddi þennan heim. Tilvera þeirra mæðgna breytist snarlega við fráfall heimilisföðurins. Aðstæður í kjölfar dauðsfalls Einars urðu til að þær misstu hús, heimili og öryggi. Það var fjármálakreppa í veröldinni og heilsa Sigfríðar var skert og dóttirin varð fyrir tilvistarkreppu. Kristín tók lífsreynsluna til hjarta en vann úr. Hún lærði þegar í frumbernsku, að líf yrði að tryggja sem best. Alla æfi síðan vann hún að lífsláni og lífsleikni, í hinu innra sem hinu ytra. Og það er tákn um styrk og fyrirhyggju, að Kristín var aðeins 19 ára þegar hún keypti lóð á Selfossi. Lóð var henni tákn um rétt og öryggi til framtíðar.
Fyrstu árin bjó Kristín í Reykjavík, hér í nágrenni Hallgrímskirkju, en síðan var hún langdvölum á Selfossi. Þar bjó móðurfólk hennar og Kristín hafði af því skjól, gleði og blessun. Og barnabörn Kristínar sögðu, að á Selfossi hefði amma þeirra fundið hamingjuna. Já, meira segja í Kaupfélagi Árnesinga! Þar vann Kristín og hitti norður-þingeyska sjarmörinn og glæsimennið Bjarna Ragnar Jónsson, sem ók um sveitir með mjólk og fólk. Þau Bjarni og Kristín felldu hugi saman og gengu í hjónaband í ágúst árið 1945. Kristín hvatti bónda sinn til dáða og hann lærði húsgagnasmíði og var dugmikill framkvæmdamaður. Þau Kristín byggðu þó ekki á lóðinni á Selfossi heldur fluttu suður.
Kristín og Bjarni nutu barnaláns. Börn þeirra eru þrjú.
Fríða er elst. Hún lærði hjúkrunarfræði og starfaði við sína grein. Maður hennar er Tómas Zoëga. Þau eiga fjögur börn og níu barnabörn.
Anton Bjarnason var næstur. Hann er íþróttakennari að mennt. Kona hans er Fanney Hauksdóttur. Þau eiga þrjá syni, sjö barnabörn og eitt langömmubarn.
Yngstur er Bjarni. Hann er húsgagnasmiður og kvæntur Kristínu Jónsdóttur. Þau eiga þrjár dætur og sjö barnabörn.
Kristín lagði vel til síns fólks og uppskar ríkulega í samskiptum við þau.
Lífið
Kristín smitaðst af berklum árið 1949. Þá voru engin lyf til við þeim sjúkdómi og Kristín var einangruð frá fólkinu sínu og var vistuð á Vífilsstöðum. Hvernig líður móður fjarri fjölskyldu sinni og börnum í slíkum aðstæðum? Mánuðirnir liðu og samtals var Kristín fjarsett sínu fólki á þriðja ár. Og Bjarni var tekinn beint úr fangi hennar og settur á vöggustofu. Kristín, þessi ábyrga, skipulagða og ástríka kona sá á bak nýfæddum drengnum, sem hún mátti ekki hafa í fanginu. Hann var slitinn af henni, en það var svo hann sem sat hjá móður sinni þegar hún fór inn í himininn. Í því er djúpt innrím lífsláns Kristínar.
Allt var gert til að reyna að lækna Kristínu og hún fékk ný berklalyf strax og þau komu til landsins. Hún tók meðferð vel og gekk heil út af Vífilsstöðum í mars árið 1952. Næstu tvö ár var Kristín að ná fullum styrk. Líf Bjarna og Kristínar var ástríkt og annasamt. Það var gaman hjá þeim, þau voru samstillt og dönsuðu lífmikinn dans hvunndags og á hátíðum. Þegar Kristín fann máttinn vaxa keypti hún verslun á horni Klapparstígs og Grettisgötu og rak um tíma. Kristín kunni að reikna, gerði sér grein fyrir góðum tækifærum og átti ekki í neinum vandræðum með að sjá samhengi viðskipta, tækifæra og ógnana. Kristín sá um fjármálin og Bjarni um framkvæmdir. Og áður en yfir lauk hafði Kristín keypt og selt margar fasteignir, skapað eign og lagt fyrir, ekki vegna sjálfrar sín heldur vegna barna sinna. Í henni sat bernskurreynslan og Kristín ætlaði að gera það, sem hún mátti til að börnin hennar yrðu aldrei snauð á götunni. Flest gekk þeim Bjarna í haginn, heilsa Kristínar var góð, umsvif þeirra voru mikil og börnin blómstruðu. Í lok sjötta áratugarins fengu þau lóð í Goðheimum 10 og hófu byggingu fjórbýlishúss. Þegar Bjarni var að ljúka framkvæmdum í apríl árið 1961 og var að bora fyrir svalafestingu á efstu hæð hússins varð slys. Hann féll til jarðar og lést. Þriðja stóráfallið í lífi Kristínar. Alger kúvending.
Ung kona með mikla lífsreynslu og ung börn, en með stálvilja hið innra og lífsvisku. Þá var þarft að hafa hlýtt hjarta og kaldan heila. Kristín tók ákvörðun um að vinna sjálfstætt til að lágmarka vinnutíma en hámarka tekjur. Hún vann í uppmælingu og skúraði. Hún vann í mötuneyti og svo líka niður á hótel Borg. Og henni lánaðist að halda fjölskyldunni saman, tryggja velferð barna sinna og koma þeim til manns.
Helgi
Í mannlífsdeiglu Kaupfélags Árnesinga höfðu Kristín og Helgi Ólafsson kynnst. Nokkrum árum eftir dauða Bjarna lágu leiðir þeirra Kristínar saman að nýju. Bæði höfðu þá misst maka sína. Þau Kristín gengu í hjónaband í miðju Vestmannaeyjagosinu, í apríl árið 1973. Þau voru samstillt og samstiga, bæði félagslynd og kunnáttusöm í samskiptum. Þegar þau Kristín urðu hjón rak Helgi fasteignasölu. Helgi lést í árslok 1992.
Frumkvöðull
Kristín, sem var alla tíð athugul og íhugul, gerði sér grein fyrir að ferðamennska myndi aukast á Íslandi. Þau Helgi keyptu húsið á Flókagötu 1 og Kristín opnaði þar gistihús. Kristín var varkár en líka áræðinn frumkvöðull. Hún var eins konar frú airbnb þess tíma. Og til að hún þyrfti ekki að tala við gesti sína aðeins með augum og höndum lagði Kristín í enskunám. Þegar hún var erlendis í heimsókn hjá fólkinu sínu tók hún námskeið og bætti málgetu sína. Gistikennarar í Háskólanum leigðu hjá Kristínu. Erlendir nemendur fengu rúm og herbergi hjá henni líka. Fólk á vegum fyrirtækja leigði og svo var tekið á móti ferðamönnum með slíkri elskusemi og gæðaþjónustu, að orðspor gistihúss Kristínar fór víða. Helgi studdi konu sína í ferðaþjónustunni og þau hjón hikuðu ekki við að gera Íslandsupplifun útlendinganna einstaka og fóru m.a. með þá í skoðunarferðir. Kristín umvafði gesti sína elsku og hlýju og þjónustustigið var hátt. Gæðaþjónustan skilaði margfalt til baka. Kristínu gekk allt að sólu í ferðaþjónustunni. Hún færði út kvíar sínar í næstu hús, nágrannarnir leigðu henni herbergi og hófu svo eigin rekstur. Um tíma var rekin ferðaþjónusta í fjölda húsa í þyrpingunni í kringum Kristínu og Helga. Þetta var afraksturinn af blómstrandi starfi þeirra. Kristín var einn af frumkvöðlum nútíma ferðaþjónustu á Íslandi. Þökk sé henni.
Hallgrímskirkja
Á Flókagötuárunum var Kristín einnig ötull meðlimur Kvenfélags Hallgrímskirkju. Kristín mat starf kirkjunnar mikils og vildi efla safnaðarlífið og bæta aðstöðuna. Kristín var m.a. gjaldkeri kvenfélagsins sem bakaði upp kirkjuturninn og kom kirkjunni undir þak. Og hún naut mikillar virðingar fyrir störf sín og var kjörinn heiðursfélagi Kvenfélags Hallgrímskirkju. Á sjötíu og fimm ára afmæli félagsins – fyrir tveimur árum – heimsóttum við fulltrúar Hallgrímskirkju Kristínu til að votta henni virðingu og þökk fyrir störf hennar. Það gladdi hana. Kristín var ekki aðeins í kvenfélagsstarfinu heldur voru þau Helgi í framvarðasveit orgelsöfnunar. Hann var sóknarnefndarmaður og hún kvenfélagskonan og þau keyptu pípur og buðu til sölu og lögðu nafn, tíma og elju til að kosta byggingu þessa stórkostlega hljóðfæris, sem nú kveður Kristínu hinsta sinni. Fyrir hönd Hallgrímskirkju þakka ég þjónustu Kristínar og Helga í þágu safnaðarins.
Minningarnar
Þegar ég sat og hlustaði á afkomendur Kristínar segja frá henni streymdi frá þessu hæfileikaríka og vel ræktaða fólki elskusemi, þakklæti, gáski, gjafmildi, umhyggja, húmor og mannúð. Kristín vissi alla tíð, að veldur hver á heldur, að það er okkar að nýta hæfni, möguleika, tækifæri og vinna úr sorgarefnunum. Hún vissi að lífið krefðist þess að við nytum bæði hörku demantsins og mýktar silkisins. „Þett er gangur lífsins – svona er lífið“ sagði hún stundum. Lífið snýst alla vega, dagarnir eru ekki allir góðir. Kristín var mikil af sjálfri sér. Hún ræktaði sinn innri mann, nærði sál sína, aflaði sér stöðugt fræðslu og menntunar, agaði sig og tamdi sér elskuríka afstöðu gagnvart fólki. Hún veitti afkomendum sínum atvinnu, var svo lánsöm að geta miðlað þroska, visku, siðferði, trú og von til síns fólks við rúmfataskipti, þrif, matseld, morgunverðarborð og kaffibolla. Hún kenndi sínu fólki að grennslast fyrir um fréttir, pólitík, persónumál, huga vel að makavali og horfa upp í himininn. Kristín var alltaf uppspretta ástar og umhyggju, örlát og gjafmild. Hún var úrræðagóð, lausnamiðuð, fróðleiksfús og vinnusöm. Alla tíð hafði Kristín augu á þeim sem áttu bágt eða voru jaðarsett í lífinu. Og Kristín studdi þau sem þörfnuðust aðstoðar.
Opinn himinn
Og nú eru skil orðin. Nú prjónar Kristín ekki lengur á barnabörn og langömmubörnin. Hún fer ekki lengur fínt í ræða makaval eða brýna fyrir konunum í fjölskyldunni að gefa körlunum gott að borða þegar þeir koma þreyttir úr vinnunni! Hún ekur ekki framar vinkonum sínum á fundi og viðburði út í bæ. Hún fræðir ekki framar um styttur bæjarins eða þylur bæja- og ábúenda-nöfn í sveitum landsins. Hún rekur ekki lengur framættir fólks og tengir saman. Fer ekki í skíðaskálann með fólkinu sínu. Er ekki framar þessi helga návist himinsins, tenging við Guð – og ásjóna Guðs. Hún er farin til karlanna sinna, ástvinanna og í fang móður. Að miðla visku himsins er ekki öllum gefið, en Kristín var engill í heimi – ásjóna gæsku Guðs. Já, skuldabréf og gjaldeyrisreikningar eru til nota í tíma, en skuldabréf eilífðar fékk hún í trúnni. Kristín lifði af ástríkri ákefð í þessum heimi, en nú er hún horfin til uppsprettu ástarinnar, farin inn í faðm móður allrar miskunnar, Guðs.
Guð geymi hana og varðveiti þig.
Amen.
Minningarorð við útför í Hallgrímskirkju 13. maí, 2019. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja á Kjarvalsstöðum.
Á þessum mæðradegi ræðum við um himininn og móður allrar miskunnar, Guð. Margar sögur eru um hvernig fólk hugsar um líf handan dauða. Lína langsokkur var móðurlaus og horfði oft upp í himininn og hugsaði um mömmu sína. Henni fannst hliðin, sem að okkur snýr, öfuga hliðin á himninum, vera falleg og dró því þá ályktun, að hin hliðin hlyti að vera enn betri fyrst rangan væri svona flott.
Veraldarvefurinn ber vott um, að himininn er mikilvægt umhugsunarefni. Ég fletti með Google og komst að því að 640 milljón síður koma upp þegar leitað er undir orðinu heaven. Himmel vísaði á 173 milljónir síðna. Og þegar íslenska orðið himinn var sett inn voru vísanirnar 634 þúsund. Paradís er það, sem flestir vona og um það efni eru á vefnum 664 milljónir vísanir.
Himnaríkisdæmi
Áhuginn er mikill, en svo eru hugmyndirnar um himnaríki mjög mismunandi. Allir foreldrar þekkja glímuna við að skýra út dauðann fyrir börnum, lífsför langömmu eða afa inn í eilífðina. Síðan verður að skýra hvar Guð býr og hvar ekki. Barnið gerir sér bókstaflegar ímyndir og skýringar. Niður er vont, upp er gott.
Í Gullna hliðinu notaði Davíð Stefánsson – í viðbót við stefin úr Opinberunarbók Jóhannesar – kotbændatúlkun á himinhliðinu. Húmor er til hjápar við að nálgast flókin mál, en kannski fjallaði Gullna hliðið fremur um meðvirka eiginkonu hins látna en ferð þeirra hjóna að himinhliðinu!
Í Islam hefur himindýrðin verið útmáluð með munúðarfullum sögum um líkamsnautnir hinna hólpnu í Paradís. Í fornöld vildu norrænir spennufíklar og dýrkendur hermennsku gjarnan halda leikjum áfram. Í Valhöll var hryllingi stríðsins sleppt en haldið í gamanið. Spíritistar fregnuðu og kenndu á sínum tíma, að himinvíddir væru alla vega sjö og sálin færi mishratt um þær veraldir á þroskaferli sínum. Joe Hill talaði um “You’ll get pie in the sky, when you die.” Astrid Lindgren dró upp dásamlega veröld í Rósadal Nangijala í bókinni Bróðir minn Ljónshjarta, sem flestir íslenskir krakkar hafa heyrt eða lesið. Himnaríkið, sem Astrid Lindgren lýsti, var þróunarveröld rétt eins sálarheimar spíritista.
Frá hinu þekkta til hins óþekkta
Himinsýn – mynd Þorsteins Jósepssonar
Hvernig verða himnaríkismyndir til? Eins og barnið, sem sér stjörnurnar og skilur með sínum forsendum, erum við öll misstór börn, sem liggjum á bakinu, störum upp í himininn og skiljum og tjáum með okkar viti hvað verður. En orð um aðra veröld eru ekki og verða aldrei sannanleg lýsing. Við getum aldrei talað um himininn í öðru en líkingum. Myndmálið er tæki til að tjá það, sem við höfum hugboð um, dreymir um og vonum.
Til að staðsetja trúarhugmyndir okkar, sem varða himnaríkið og framhaldið, ættum við íhuga fyrst hvernig við manneskjurnar hugsum. Það er þarft að muna hvernig við lærum og þroskumst. Við byrjum alltaf þar sem við erum, lærum út frá því sem við kunnum, skiljum alltaf út frá hinu þekkta.
Himinvarp
Munum, að menn varpa þrá og djúpsettum hugmyndum upp á himin vonanna. Það þarf ekki mikið hugarflug til að gera sér grein fyrir að þá múslima, sem dreymdi munúðarfulla drauma um tilkippilegar meyjar, voru kynsveltir karlar. Kannski má sjá í elýsesískri þægindaveröld Grikkja að einhverju leyti vörpun á vonum þeirra, sem var annað hvort of heitt eða kalt. Vísast var Valhallarveröldin draumur hermanna og spennufíkla, sem hræddumst hrylling stríðs en þráðu spennuna áfram. Gullslegin hús og prýdd veröld himnaríkis er vörpun á þrá hins fátæka manns. Kannski er Disneyland einna besta raungering hinna barnalegu drauma.
Himnaríkið þitt
En hvert er þitt himnaríki? Íhugaðu og virtu vonir þínar og reyndu að greina þína himinveröld. Það er mikilvægt og frjótt að vinna það verk því þá lærir þú betur að þekkja þig. Þér mun örugglega ekki takast að búa til himininn. En ef þér lánast vel gerir þú þér kannski betur grein fyrir takmörkunum sjálfs þín, mörkum hinnar mannlegu ímyndunar og skilnings og hvert er sumarland þinnar dýpstu þrár.
Búa ykkur stað
Verið ekki áhyggjufull minnir Jesús vini sína á í guðspjalli dagsins. Ég fer frá ykkur til að undirbúa framtíðarveröld ykkar, búa ykkur stað því vistarverur guðsríkisins eru svo margar að komu ykkar þarf að undirbúa. Tómas var nægilega jarðtengdur og í sambandi við sjálfan sig að hann viðurkendi, að hann skildi Jesú ekki, vissi ekki hvaða leið lægi til ríkis Guðs og hvernig himnaríkið yrði. Hvernig eigum við að vita hvaða leið við eigum að fara?
Jesús tekur af allan vafa um, að það sé hann sem opnar hliðið, það sé hann sem gerir veginn og segir efasemdarmanninum Tómasi, að hann sé vegurinn sjálfur, sannleikurinn og lífið. Þar með gerði hann grein fyrir himninum, skýrði út eðli og gerð hans.
Fósturhugmyndir
Oft horfi ég dáleiddur á litlu börnin, sem ég skíri og velti vöngum yfir upplifunum þeirra og hugsunum. Einu sinni varstu svona peð. Hvað hugsaðir þú, hvernig var veröld þín? Var hún ekki talsvert ólík veröld þinni nú?
Og hvað hugsaðir þú þegar þú enn varst í kviði móður þinnar? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega gastu heyrt hljóð, fannst til með mömmu þinni, fékkst innskot af adrenalíni í æðar þínar, þegar hún var hrædd eða spennt, fannst fyrir vellíðan hennar, þegar henni leið vel. Þá slakaðir þú á í kyrrð mömmunnar. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í.
Vissir þú í móðurbumbunni nokkuð um bíla, neyslu, fátækt, kreppu eða loftslagsvá? Nei, en þú varst samt sprellifandi. Smátilveran var þér fullkomlega nægileg. En þó tilveran væri stærri en móðurlegið skildir þú hana ekki. Þú og öll börn fæðast fákunnandi um veröldina. Það er nóg sem gefið er til að hefja lífið. Kunnáttan, skilningurinn kemur síðar þegar þroskinn vex í þessari raunveröld okkar. Eitt skref í einu og góðir hlutir gerast hægt. Góðar mömmur og góðir pabbar eru undraverðir leiðbeinendur og þroskavakar.
Hin stórkostlega fæðing
Við fáum og njótum þess, sem er okkur nægilegt á hverju skeiði. Fóstrið hafði allt og síðan elskuarma til stuðnings eftir fæðingu til nýrrar veraldar. Og það er okkur til skilningsauka þegar við hugsum um eilífa lífið. Hvað tekur við eftir dauðann? Hvernig verður hinum megin? Getur þú ímyndað þér það? Þó að þú hafir ekki getað ímyndað þér hvað tæki við þegar þú fæddist þá tók tilveran við og var margbreytileg og fjölskrúðug. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það orðið mun stórkostlegra en þú getur ímyndað þér, rétt eins og tilveran varð litríkari og fjölbreytilegri en barn í móðurkviði hefði getað hugsað sér.
Margir eiga í erfiðleikum með trú og eru kvíðnir gagnvart óvissuferðinni inn í eilífðina. Fólk á í erfiðleikum með hvað við tekur, reynir að fá botn í hugsanir sínar, uppgötva með skynsemi sinni um framhaldið. Að vera kristinn er að fylgja Jesú alla leið. Hann dó en hann reis upp. Þú munt deyja, allir þínir munu deyja, en Jesús vill að þú og allt þitt fólk rísið upp til eilífs lífs. Hann fór alla leið og leiðir þig leiðina líka. Vegurinn, sannleikurinn og lífið.
Þú mátt horfa með augum barnsins og ímynda þér réttuna á himinum. Þú getur gert þér grein fyrir, að allt eru þetta aðeins vísbendingar því þú ert í móðurkviði náttúrunnar. Þú átt eftir að fæðast til réttunnar, inn í faðm þeirra sem elska þig. Og sá móðurfaðmur er Guð. Jesús Kristur, er búinn að hanna og smíða stórkostlega veröld. Þar eru vistarverur handa þér. Við vitum ekki hvernig hún verður nákvæmlega, því hið biblíulega málfar er ekki bókstafleg lýsing heldur er mál Biblíunnar myndrænt, hliðstæðu-orðræða. En þú mátt trúa Jesú, að hann verði nærri og það er aðalatriðið.
Ferðin þín inn í eilífðina byrjar ekki í framtíð, heldur í bernsku þinni, þegar rétta himinsins umvafði tilveru þína við skírnarfontinn. Eilífðarlífið er byrjað í þér – það byrjaði í skírninni. Þú ert á meðgönguskeiði en fæðing til himins verður síðar. Notaðu lífið, þessa meðgöngu anda þíns og sálar til að leyfa hinum andlegu líffærum að þroskast vel. Stressaðu þig ekki yfir því þótt þú skiljir ekki öll hljóð og áhrif himinsins nú þótt þau berist þér í gegnum náttúrubumbuna og móðurleg kirkjunnar. Þegar þú deyrð, fæðist þú til nýrrar tilveru og þá muntu sjá ljós, liti og dýrð sem tekur fram öllu því, sem þú ímyndar þér á fósturskeiði trúar þinnar. Spennandi! Já, svo sannarlega því lífið lifir fyrir Jesú Krist.
Hallgrímskirkja 3sdepaska 2019, mæðradagurinn, messunni úrvarpað á RÚV. Slóðin verður opin einhverja daga: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/gudsthjonusta/24228?ep=7hi3bm
Lexía: Slm 126
Þegar Drottinn sneri við hag Síonar
var sem oss dreymdi.
Þá fylltist munnur vor hlátri
og tungur vorar fögnuði.
Þá sögðu menn meðal þjóðanna:
„Mikla hluti hefur Drottinn gert við þá.“
Drottinn hefur gert mikla hluti við oss,
vér vorum glaðir.
Snú við hag vorum, Drottinn,
eins og þú fyllir þurra farvegi í Suðurlandi.
Þeir sem sá með tárum
munu uppskera með gleðisöng.
Grátandi fara menn
og bera sáðkorn til sáningar,
með gleðisöng koma þeir aftur
og bera kornbindin heim.
Pistill: 2Kor 4.14-18 Ég veit að Guð, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja mig ásamt Jesú og leiða mig fram ásamt ykkur. Allt er þetta ykkar vegna til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar. Fyrir því læt ég ekki hugfallast. Jafnvel þótt minn ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi minn innri maður. Þrenging mín er skammvinn og léttbær og aflar mér eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. Ég horfi ekki á hið sýnilega heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt en hið ósýnilega eilíft.
Guðspjall: Jóh 14.1-11 „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“ Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“ Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.