Lax, graslaukssósa og bygg

Uppskriftin er auðveld og hentar ágætlega bæði fyrir gestaboð sem og heimilismáltíð. Vert er að vinna sósuna nokkrum klukkutíum fyrir máltíð eða jafnvel deginum áður. 

Uppskrift ætluð 4

laxaflök, 800 gr, roðflett og beinlaus notið ekki sjóeldisfisk heldur fisk úr ám eða landeldisfisk) 
8 súrdeigsbrauðsneiðar
1 dl rifinn óðalsostur eða pizzuostur
1 tsk oreganó
1 tesk tímían
1 tsk salt
rifinn börkur af 2 limeávöxtum (þ.e. límónum)
safi úr 1 limeávexti
2 hvítlauksrif, pressuð
(150 g smjör – má sleppa)

Stillið ofninn á 200 gráður. Smyrjið stórt eldfast fat og leggið laxaflökin á fatið og saltið fiskinn. Setjið brauðsneiðarnar, ostinn, kryddið, börkinn og safann af limeávextinum og pressaðann hvítlaukinn í blandara og tætið vel í sundur. Látið vélina ekki ganga of lengi, þá verður brauðið blautt. Dreifið mylsnunni jafnt yfir laxaflökin. Bakið í 15 mínútur. Takið flakið úr ofninum og setjið smjör í litlum bitum ofan á – eða bræðið smjörið og hellið jafnt yfir.

Berið laxinn fram með graslaukssósunni, byggi, og uppáhaldssalati. Ég fer ýmsar leiðir bæði vegna bragðs og til að gefa liti á diskinn. 

Graslaukssósa
200 ml majones
200 ml sýrður rjómi
1 dl smátt klipptur eða saxaður graslaukur
2 msk smátt söxuð steinselja
1 tsk oreganó
ferskmalaður pipar og cayenne pipar á hnífsoddi
safi úr ½ limeávexti (þ.e. safi ur hálfri límónu)

Blandið öllu vel saman og kælið helst í a.m.k. 3 klst.

Sagan um fiskidráttinn mikla í fimmta kafla Lúkasarguðspjalls er mögnuð og verð íhugunar með fiskmeti. Fiskur er gamalt Kriststákn, sem kristnir menn frumkirkjunnar teiknuðu í sandinn til að tjá á hvern þeir tryðu. Kirkjan er kölluð til veiða í margvíslegum skilningi. Bragðgóður kirkjufiskur hentar í kirkjusamhengi og hefur í sér heilnæma merkingardýpt sem tjáir hlutverk kirkjunnar í veröldinni.

Bæn: Þökkum Drottni því að hann er góður, því miskunn hans varir að eilífu.

Verði ykkur að góðu.

Myndin er af Ísak, syni mínum. Hann var kátur þegar hann veiddi sjóbirting í Eystri Rangá fyrir mörgum árum. Nýrunninn sjóbirtingur hentar ágætlega í þessum rétti. Fyrsti lax Þórðar, elsta sonar míns, sem hann veiddi í Bíldfellshylnum í Soginu fyrir enn fleiri árum, var eldaður skv. þessari uppskrift. Vinir okkar Elínar elduðu réttinn fyrir hjónavígsluveisluna okkar á aðfangadegi páska 2000. Þetta er því hjónahamingjuréttur og ekki einkennilegt að Elín biður stundum um hann í kvöldmatinn. Kokkur segir þá amen. 

Ertu á leið í langa göngu?

Hvernig á maður að undirbúa göngu á Jakobsveginum, Laugavegsgöngu, suðurgöngu til Rómar eða Santíagó-göngu frá Portúgal? Jú, með því að ganga sig upp, þjálfa skrokkinn, taka til lágmarksfarangur og afla hagnýtra upplýsinga. En er eitthvað fleira sem vert er að gera? Hvað með fararblessun?

Fyrir nokkrum vikum komu hjón í Hallgrímskirkju. Þau voru á leið til útlanda í mjög langa göngferð og fannst mikilvægt að tengja alveg inn í himinn og báðu því um fararblessun. Ég las fyrir þau pílagrímatextann í 121. Davíðssálmi. Svo krupu þau við altarið og ég bað fyrir þeim og blessaði þau. Þau fóru létt í spori út úr kirkjunni. Þau gerðu afar góða ferð og gengu nærri tvær og hálfa milljón skrefa. Skömmu síðar kom svo maður í messu í kirkjunni og hann bað um fararblessun líka. Hann var líka á leið í ofurgöngu. Hann var blessaður á bak og brjóst. Þegar hann fór út úr Hallgrímskirkju sagði hann: „Nú er ferðin byrjuð.“ Nú gengur hann langa leið í suður-Evrópu.

Bílferðir eru góðar, hjólaferðir skemmtilegri en löngu gönguferðirnar bestar. Ég hef farið margar Íslandsgöngur og oft gengið Laugaveginn. Og mér þótti skemmtilegast þegar við hjónin fórum með tvíburum okkar þegar þeir voru sex ára. Ég hef líka gengið hluta Jakobsvegarins og nú langar mig að ganga meira í Evrópu og jafnvel líka í Ísrael. Göngur eru ekki bara líkamlegar áreynsluferðir, heldur fremur reisur andans. Margir ganga langt til að vinna úr lífsreynslu, áföllum og sjúkdómum. Önnur marka skil á ævigöngunni og leita að merkingu handan hins yfirborðslega.

Stækkandi hluti þjóðarinnar leggur því upp í pílagrímareisur. Prestar og djáknar þjóðarinnar taka á móti fólki, sem vill fara í kirkjuna sína og þiggja blessun til ferðar. Við Hallgrímskirkjuprestar skírum við æviupphaf og blessum líka fólk þegar það finnur til þarfar, þegar það stendur á krossgötum eða byrjar nýja reisu í lífinu. Ertu að fara af stað? Blessun er í boði. Ferðabæn Hallgríms Péturssonar er líka dásamleg:

Ég byrja reisu mín,

Jesú í nafni þín.

Höndin þín helg mig leiði.

Úr hættu allri greiði.

Jesú mér fylg í friði,

með fögru englaliði.

 

 

Guðbjörg Þórisdóttir + minningarorð 

Ljóðið læðist

að leyndum dyrum vitundarinnar

bíður.

Þú heyrir hvíslað –

hlustar í spurn

opnar

finnur yl ljóssins.

Fyrr en varir

eruð þið orðnir vinir –

þú, ljóðið og ljósið.

 

Þetta skrifaði Guðbjörg 22. júní 2004 kl. 00:30. Hún orti með orðum, augum og athöfnum. „Gott hjá þér“ sagði hún við okkur mörg. „Gott hjá þér,“ segjum við þegar við kveðjum Guðbjörgu.

Guðbjörg var svo kraftmikil og hugumstór, að hún varð öllum eftirminnileg. Hún þorði að teikna og lita út fyrir rammann – bæði á blaði og í lífi – og því urðu myndirnar af henni litríkar. Myndir af konu, skapandi og fullri af lífsorku, ást á lífinu, áhuga á fólki og inntaksríkum bókmenntum, sem spegluðu lífið. Og í þessum minningarbrotum eru dregnar upp nokkrar af myndunum af Guðbjörgu, skólastjóranum, mömmunni, fræðaranum og lífskúnsternum. Myndir eru fyrir lífið, til að gleðjast yfir og læra af.

lindargullið og eldflugan

Það var fyrsti dagurinn í skólanum og unglingarnir þekktu ekki Guðbjörgu, spunagetu hennar, kennslutækni, uppeldisfærni eða kátínu hennar. Þeir voru komnir í kennslustofuna og biðu eftir kennaranum. Allt í einu vatt Guðbjörg sér inn með rautt sjal á öxlum. Hún fór úr skónum og stökk svo upp á stól og þaðan fór hún upp á kennaraborðið. Svo hóf hún, öllum á óvart og án þess að kynna sig, að þylja texta sem þau höfðu aldrei heyrt áður:

„Mig dreymdi ég geingi útí skóg einsog í fyrra þegar ég gekk útí skóg með stöllu minni; og stóð ein í rjóðrinu við lækinn. … Títa, litla grýta, liljan hvíta, mýrispýta, lindargullið og eldflugan mín…“

Og svo flutti Guðbjörg áfram, með tilþrifum og til enda Unglinginn í skóginum. Nemendurnir göptu, störðu á kennarann – upp á borði – og reyndu að fylgjast með framvindu orðagjörningsins. Svo þegar galdurinn hafði náð inn í unglingakvikurnar stökk Guðbjörg niður á gólf og skellihló. Hún hafði náð þeim. Hópurinn gerði sér þá grein fyrir að kennsla væri ekki óhjákvæmilega ítroðsla, heldur leikhús lífsins, sálarstækkandi gaman. Guðbjörg varð þeim – og flestum sem kynntust henni – heimsljós. Halldór Laxnes var góður, en hún líka. Bókmenntir voru fyrir lífið og hún líka.

Úrræðagóð

Önnur mynd. Guðbjörg var alltaf sjálfbjarga, aldrei farþegi í lífinu. Ef hana vanhagaði um eitthvað kláraði hún dæmið sjálf. Þegar allir krakkar voru blankir í uppvexti hennar var hún allra snjöllust og dugmest í sölu merkja og happdrættismiða. Hún greindi markaðinn fullkomlega, vissi hvar, í hvaða húsum, væri hægt að selja og hvar söluhorfur voru þungar. Og þó Guðbjörg setti allt á fullt í námi í Hagaskóla og yrði dúx í ýmsum fögum vann hún meðfram skóla (hún fékk Heimsljós að launum fyrir námsafrek, áritað af þeim merka skólamanni Birni Jónssyni, skólastjóra Hagaskóla). Hún vann í Bæjarútgerðinni og ormhreinsaði karfaflök á flughraða. Svo puðaði hún í Víði. Fyrri hluta daganna afgreiddi hún í verslun, í sjoppunni á kvöldin og svo skúraði hún áður en hún lognaðist út af í rúminu heima. Yfirferðin, krafturinn og getan urðu henni uppspretta fjár og möguleika. Hún átti alltaf pening því hún var svo úrræðagóð, vinnusöm, kraftmikil og marksækin. Þær eigindir nýttust henni í vinnu og í einkalífi.

Laxveiðin

Guðbjörg var ekki stangveiðikona – og var raunar ekki vel við að deyða fisk og slíta úr honum öngul. En hún átti hins vegar dásamlega og gamanleitandi vini, sem höfðu húmor fyrir lífinu. Hún ræddi einu sinni laxveiði við vinkonu sína. „Strákarnir fara í veiði og af hverju ekki við?“ Og þær ákváðu að skella sér í veiði. Þær gíruðu sig upp, náðu sér í hinn fullkomnasta búnað, fóru að ánni í grænum vöðlum með flugunet til varnar mývarginum og leið svona líka ljómandi vel á árbakkanum og hlógu sig máttlausar yfir vankunnáttu að kasta flugu. En aflatölur voru ekki aðalmálið og engum sögum fer af Maríulöxum eða uggabiti. Þetta voru gleðiveiðar. Slíkar veiðar eru göfugastar. Og myndin af þeim með stangir og í vöðlum veltandi á bakkanum í hláturrokum er heillandi, eins og sena í gamanmynd. Vinkvennahópur Guðbjargar var landslið vináttunnar. Gleði, alúð og umhyggja áttu sér ekki takmörk í samskiptum.

Máltakan

Guðbjörg hafði áhuga á börnum, mat börn mikils. Hún var heilluð af þroskaskeiðum þeirra og vissi að börn geta og þora. Hún ræddi við börn eins og jafningja. Þegar Guðbjörg gekk með litlum börnum úti leiddi hún ekki ungviðið í þögn. Allt varð að umræðuefnum. Laufin á götunni, droparnir sem féllu á nebbann, vindstrokan sem lék um kinn, litir dagsins, fólkið á ferð og kisarnir sem stukku yfir stéttarnar. Og tilgangurinn? Máltaka. Það var ekki bara gaman að ræða við börn, skemmta sér yfir hugarflugi og tengingum, heldur voru djúp og ákveðin rök að baki hjá henni. Allt getur orðið viðfangsefni samtals. Öll veröldin er full af viðburðum, sem má færa í orð. Því meira sem talað er við börn, því meiri líkur á góðum málþroska, sem Guðbjörg vissi að skilaði sér í námi, líðan, úrvinnslu og útspili lífsins. Allt gat orðið að spennandi kennslutækjum. Jafnvel kenndi Guðbjörg barni að lesa með því að nota texta mjólkurfernu.

Svo átti Guðbjörg til að efna óvænt til upplestra. Í fjölskyldu hennar ganga ýmsar sögur um slíka viðburði. Einu sinni á góðviðrisdegi norður í Skriðu í Aðaldal voru allir útivið og við leika. Þá kallaði Guðbjörg allan hópinn inn í stofu, setti ungviðið í hring og svo byrjaði hún að lesa Heimsljós. Það var þessum börnum á sólskinsdegi allra fjærst huga að setjast niður inni til að hlusta á Laxnes, en þessi lestur varð þeim ógleymanlegur og frásögnin um drenginn sat í sjö ára barnssál og hefur ekki vikið þaðan síðan. Tungumálið er glitvefnaður mennskunnar. Guðbjörg vissi, að við deyjum þegar við verðum orðlaus en getum lifað vel í ríkidæmi máls, sagna og ljóða. Í upphafi var orðið og heimsljós er fyrir fólk og heim.

Partí á Leifsgötunni

Guðbjörg var æðrulaus í lífinu. Hún hafði ótrúlegt þolgæði og var umburðarlynd gagnvart uppátækjum fólks. Þau systkin, Einar og Þóra Karítas, útskrifuðust frá MR sama vorið. Allur árgangurinn fagnaði á Kaffi Reykjavík en þar var lokað klukkan þrjú um nóttina. Þá þótti þeim systkinum ekki nóg komið og buðu öllum heim á Leifsgötu til halda partýinu áfram. Þau höfðu trú á, að mamma þeirra væri sama sinnis – ef hún væri vakandi. Húsið fylltist af stúdentshúfum og hlátri. Í miðju skrallinu kom einn stúdentinn til Þóru og sagði við hana. „Þóra, þú hefðir nú mátt segja mér, að mamma þín væri sofandi inni í herbergi. Ég settist ofan á hana.“ En Guðbjörg rumskaði bara og sneri sér á hina hliðina. Partýið hélt áfram og hún svaf gleðskapinn af sér. Henni fannst svo sjálfsagt, að allur stúdentafansinn hefði komið heim á Leifsgötu og hafði húmor fyrir að nýstúdentinn hefði sest á hana.

Uppeldið

Og svo var það móðirin og uppalandinn. Guðbjörgu varð aldrei orða vant og átti ekki í neinum vanda með að ala upp dreng. Einar var ellefu ára og fjölskylduvinur vildi endilega gefa honum riffil. Hinn góðviljaði gefandi hafði sjálfur fengið rifilinn þegar hann var ellefu ára og taldi Einar vera færan um og hafa þroska til að taka við svo merkilegri og karlmannlegri gjöf. En Guðbjörg var enginn aðdáandi stefnu amerísku riffilsamtakanna og gerði sér jafnframt grein fyrir að hún glímdi við alvöru uppeldismál. Ekki væri hægt að setjast á drenginn og kremja úr honum byssulöngunina. En hún var snarráð og sagði við son sinn, að hún skildi að hann langaði í vopnið, en upplýsti hann um, að ef hann tæki ákvörðun um að þiggja ekki rifilinn að gjöf myndi hún gefa honum myndavél, sem væri hægt að skipta um linsur á – sem sé reflexmyndavél. Þetta var ekki eins og í grískum harmleik, tveir kostir og báðir vondir. Nei, þetta voru alvöru kostir – þroskakostir – sem drengurinn varð sjálfur að velja á milli. Báðir góðir fyrir hann sjálfan. Og við getum ráðið í framvinduna og valið því Einar hefur síðan mundað myndavélar og hefur lifibrauð sitt af því að mynda. Uppeldi er ekki skipunarmál, heldur að virkja frelsið, að hjálpa fólki að velja hið góða, að sækja í dýptir og vinna með drauma, óskir, þrá, tilfinningar. Guðbjörg var uppeldismeistari.

Vögguljóð og vitjun

Svo voru þær mægður á ferð í Norðurleiðarútunni á leið í Aðaldal. Mamman notaði tímann til að kenna dóttur sinni vögguljóð. Og einhvers staðar á leiðinni var stúlkubarnið uppnumið af tilfinningunni og söng hástöfum í rútunni „Íslenskt vögguljóð á Hörpu“ eftir Laxness. Það varð til að einn farþeginn fór að hágráta, en færði svo dótturinn hundrað krónu seðil í sönglaun. Kostuleg og áleitin sena – kennslan, uppeldið hennar Guðbjargar virkaði. Hún hafði tök á að kveikja í fólki, ná inn fyrir. Einu sinni kenndi hún Sölku Völku með öðrum kennara. Og niðurstaða nemendanna var: Hjá hinum kennaranum er Salka Valka baráttusaga og frásögn um verkalýðsbaráttu. En það er allt öðru vísi hjá Guðbjörgu. Hún sýnir að Salka Valka væri eiginlega ástarsaga. Nemendurnir lærðu þar með, að túlkun skipti máli og lesandinn væri ekki líflaus viðtakandi, heldur virkur þátttakandi í margþættu og opnu túlkunarferli. Guðbjörg var nemendum sínum snjall túlkunarfræðingur og hafði hug á að helga sig þeim fræðum í doktorsnámi en veikindi hindruðu.

Þrír piltar og kennari

Guðbjörg var natinn kennari, hafði vakandi áhuga á nemendum sínum. Ekki aðeins, að þeir læsu og lærðu fögin sín, heldur að þeir nytu sín sem manneskjur og tækju út þroska. Og það voru ekki aðeins börnin hennar og barnabörn, vinir hennar og fjölskylda, sem áttu skjól hjá henni, heldur líka nemendurnir. Það er falleg sagan af því þegar Guðbjörgu var boðið út að borða þegar hún var 41 árs. Nemendur hennar þrír, átján ára piltar, sendu henni boðskort og keyrðu svo með hana í óvissuferð frá Laugum í Reykjadal og til Akureyrar til að dekra við hana á afmælinu. Það voru ungir nemendur, sem langaði að þakka fyrir frábæra kennslu og persónulegan stuðning og bjóða henni út að borða. Guðbjörg hafði líka húmor fyrir svona öflugum unglingum, sem kunnu sig svo vel. Þakklætisbréfin frá nemendum, sem höfðu notið og heillast, bárust henni allt til lífsloka. Í þeim eru færðar þakkir fyrir, að hún hafi stutt og skilið, reist við og haft á þeim trú þegar mest lá við.

Ahrif og efling

Guðbjörg hafði áhrif, en ekki aðeins meðal nemenda. Hún var kunn fyrir mikil áhrif á samkennara og samverkafólk sitt og kom þeim til þroska með glaðværri og einbeittri stefnufestu. Einu sinni vildi hún fá samverkakonu sína til að stýra þorrablóti, sem hin taldi öll tormerki á, að henni væri fært vegna feimni. Guðbjörg gaf sig ekki og sagði með blik í augum: „Þú skelfur bara óttann úr þér.“ Og það gekk auðvitað eftir. Enginn sá skjálfandi hné veislustjórans og hún sigraðist á feimninni. Guðbjörg kunni að hvetja og gaf sig ekki í vaxtarmálum. Og hún þorði að brjóta niður veggi í skólahúsum til að bæta kennsluaðstöðu, þorði að breyta kennsluháttum í þágu nemenda, breytti þrepskiptu stjórnfyrirkomulagi skóla í teymisvinnu. Og hún var óhrædd að gera tilraunir og smellti sögudýnu inn í skólann svo þreyttir gætu lagt sig og líka sagt þar sögur. Guðbjörg var alltaf með nemendur í huga, bætt vinnulag og námsmöguleika og vildi tryggja þroskakosti allra. Hin jarðarsettu og stuðningsþurfandi áttu alltaf vísan stuðning í Guðbjörgu.

Í þjónustu

Það var guðbjörgunarlegt, eitthvað himneskt í vökulum kærleika Guðbjargar. Hún hafði alla tíð áhuga á kossi tíma og eilífðar, fangbrögðum himins og jarðar. Hún velti vöngum yfir hvort hún ætti að læra til prests, en nám eða vígslur skiptu engu máli því hún var alla tíð prestur sínu fólki, engill í öllum víddum og á krossgötum lífins. Hún horfði á Maríu og Jesú á myrkum tíma bernskunnar. Þegar lítil frænka austur á Skógum var miður sín eftir að hafa séð á bak hundi sínum stakk Guðbjörg upp á, að haldin yrði útför. Frænkunni fannst tilvalið, að fá Guðbjörgu fremur en sóknarprestinn til að jarðsyngja besta vininn. Og svo söng Guðbjörg Ó Jesú bróðir bestiyfir hundinum í skógarrjóðri. Ekkert var eðlilegra en sr. Guðbjörg sinnti þeirri prestsþjónustu og frænkunni leið betur á eftir.

Gjafir Guðbjargar

Guðbjörg hafði stefnumál sín á hreinu og er okkur fyrirmynd. Hvað var það sem hún skildi eftir hjá okkur? Hún skrifaði lífssögur í fólkið sem hún bjó til eða þjónaði, varð þeim ljós heimsins, hló með þeim og magnaði til átaka við lífið, Laxnes og myrkrið. Hún kenndi okkur öllum að líta upp og þora og leyfa ástinni að trompa allt hitt. Líka að þakka fyrir að geta það sem við gætum gert. Hún gaf veröldinni systkinin Einar og Þóru Karítas. Hún skildi eftir hjá okkur bókina Mörk, sem þær mæðgur unnu saman um kynferðislegt ofbeldi bernskunnar. Hún var æðrulaus þegar ritið var samið og eftir að hafa hlustað á upplestur á bókinni sagði hún við dóttur sína: „Jú þetta er ein útgáfa af mínu lífi.“ Í bókinni gerir Guðbjörg upp myrkan átakatíma. Mörk sannfærði mig ekki aðeins um, að það er vilja- og ákvörðunar-mál hvort við verðum fórnarlömb eða ekki, heldur líka, að Guðbjörg hafði tamið sér sama hugarfar og Nelson Mandela, að fara ekki út í lífið kvartandi eða með biturleika vegna fortíðar. Áföll geta fangelsað fólk, en þolendur geta ákveðið að skila hlekkjunum og verða frjáls. Guðbjörg var frjáls í sínu lífi og stóð með hinu stóra, gjöfula, menntandi, gleðinni og gildum. Hún vissi, að allir verða fyrir ágjöf, við getum staðið saman, við megum vera með augun á hverju öðru – eins og hún – til að skynja hvort hægt sé að styrkja. En lífið er ekki næturvakt áhyggna, heldur tími til að hlægja, syngja, stökkva upp á borð til að þylja um unglinga í skóginum, dreyma og „durga sig upp“ – eins og hún orðaði það – og drífa sig í gleðina. Guðbjörg var áræðin, kjörkuð, bóngóð, jákvæð – kvartaði ekki, æðrulaus, hispurslaus, næm, umhyggjusöm, vitur, kærleiksrík, ljósleitandi og glaðsinna. Hún skrifaði svo fagurlega:

„Þú sem lánaðir mér lífið

og lagðir mig

við hið mjúka brjóstið

hennar mömmu.

Hvernig skila ég þér lífinu aftur?

Og hvar verður mamma þá?“

Nú er hún farin inn í himininn – í ljósið. Guðbjörg lést í dagrenningu og fæddist inn í ljós eilífðar. Þar er allt rétt, bjart, gott og sjáanlegt. Og við megum leyfa himingluggum að vera okkur opnir – ljós heimsins skín okkur. Og það er fagnaðarerindi öllum.

Guð geymi Guðbjörgu og Guð geymi þig.

Megnið af þessu sem hér er skráð var flutt í Hallgrímskirkju 12. ágúst, 2019. Svo bættist sitthvað við í flutningi. Kistulagning í Kepellunni í Fossvogi 9. ágúst. Erfi á Kjarvalsstöðum eftir athöfn. Bálför og jarðsett síðar í Hólavallagarði, kirkjugarðinum við Suðurgötu. 

Brauð og brauðberar

Hver er miðjan í öllum kirkjum heimsins? Eru það kirkjubekkirnir, prédikunarstóllinn eða altaristaflan? Nei það er borðið, altarið. Og það er ekki skenkur fyrir kerti, blómavasa og bækur. Altarið er borð  fyrir veislu.  Jesús notaði öll tækifæri til veisluhalda. Hann braut brauð og veitti vel.

Í palestínsku samhengi var hveitirækt mál lífsins og brauð tákn um lífsgæði. Þegar kornuppsprettan brást var vá fyrir dyrum og allir sultu. En þegar kornakrar náðu þroska var víst, að allir myndu njóta næringar og lífið lifði. Því var gestrisni metin mikils. Jesús reisti sér ekki minnisvarða af grjóti eða með hernaðarsigrum, heldur vildi að fólkið hans nyti matar – og gæfi öðrum með sér. Ölturu í kirkjum minna á, að allir þarfnast næringar, ekki aðeins andlegrar heldur líkamlegrar einnig, venjulegrar fæðu, t.d. brauðs og matar og drykks, sem gerir fólki gott. Að allir njóti gæða er hinn kristni boðskapur. Það eru mannréttindi að allir fái notið fæðu. Og það merkir líka að allir eigi að njóta friðar, öryggis, gæsku og lands. Svo róttækur er boðskapur kristninnar og svo árangurstengt er það líf sem okkur er boðið að lifa. 

Hvað gerir þér gott? Fjölbreytilegt fæði og í hæfilegum skömmtum. Svo er það hin fæðan, t.d. tengsl við fólk, tilfinninganæring, líkamleg hreyfing, gæfa í tengslum og vinnu, að einhver sjái þig og meti, brosi við þér og segi þér að þú sért mikils virði.

Hvað gerir þér gott? Máttu leyfa þér að breytast? Getur þú breyst til góðs? Er eitthvað sem þú mátt hætta og úskrifa úr þínu lífi? Sorg, harmur, glötuð tengsl, horfin ást, samband, efni, vinna, hlutir, upplifanir – eitthvað sem þú dregur á eftir þér og verður þér lífshemill? Hvað geir verður þér til næringar?

Svo er hin víddin, hin hlið sama máls. Hvað getur þú gert til að aðrir njóti lífsins? Getur þú sagt eitthvað jákvætt og nærandi við samferðafólk þitt og ástvini? Getur þú bakað brauð og fært einhverjum syrgjandi, einmana eða þurfandi? Getur þú umlukið einhver með kærleiksríkum bænum? Öll getum við fært öðrum eitthvað sem verður þeim til góðs, næringar og hlýju. Ég er brauð lífsins sagði Jesús. Í því er veröld okkar og lífsgæði skilgreind. Við erum brauðberar Guðs, friðflytjendur, málsvarar réttlætis og góðs lífs.

Ferðasögur og Saga

Hvað gerir þér gott? Hvernig getur frí orðið þér til góðs á þessu sumri? Hvað verður þér til heilsu og eflingar? Hvað verður þér brauð lífs? Ef þú ert í leyfi eða ræður algerlega þínum tíma – já hvað gerir þú? Og hvað gerir þú þessa mestu fríhelgi sumarsins?

Sumaráform fólks eru með ýmsu móti. Til er dugnaðarfólk, sem ætlar sér mikil afrek í sumarleyfinu, að byggja sumarbústað, mála alla íbúðina og skoða líka Austfirði! Við erum komin af vertíðarfólki, heyannafólki og tarnafólki og vinnusemi hefur löngum verið talin dygð á Íslandi. En að vinna hamslaust í sumarleyfi er hvorki ákjósanleg eða óumflýjanleg örlög. Að vinna er ekki tilgangur sumarleyfis. 

Frí er fyrir fólk en fólk ekki fyrir frí. Að “gera” eitthvað í leyfi er stundum nauðsyn, en að “vera” er mikilvægast. Besta markmið leyfis er reynsla sem nær til dýpta. Frí ætti að þjóna hvíld, hleðslu, ástvinum, andríki og uppbyggingu. Þá verður frí þjónn hamingju.

Ferðasögur
Við, sem eigum vini á facebook, sjáum sumarleyfamyndirnar á vefnum. Ekki aðeins á facebook heldur líka á Instagram, Flickr eða öðrum síðum. Svo eru ferðasögurnar. Og það er við þær, sem mig langar til að staldra við í dag. Það merkilega er, að þegar fólk segir sögur af ferðum sínum er það oft að tala um sjálft sig og líðan sína. Frásögurnar eru með margvíslegu móti og sumar hrífandi eða rosalegar. Þegar þú segir ferðasögu þína hverju ertu þá að lýsa? Getur verið að þegar þú segir ferðasögur þínar sértu að lýsa hver þú ert? 

Sum segja töfrandi undrasögur, sem fylla eyrun af músík, nefið af lykt, heilann af myndum og hugann af fögnuði. Ímyndunaraflið fer á flug og við upplifum undur og stórmerki og fáum jafnvel nýja sýn á lífið.

Aðrir segja harmþrungnar ferðasögur: „Gistingin var léleg, bílaleigubíllinn bilaði, kortinu var stolið, ferðaskrifstofan sveik margt, seinkun var á fluginu, það ringdi allan tímann, frumstætt þjóðfélag og þjónustustigið lágt, ferðafélagarnir leiðinlegir, drykkfelldir og hávaðasamir, sumir fengu matareitrun. Og það er gott að vera kominn heim!“ 

Svona sögur eru erfiðar og afar dapurlegar. Segja þær eitthvað um ferðalanginn?

En hrífandi sögur hafa allt önnur áhrif. Hver megnar að segja svo frá ferðum sínum að þær lifni og maður lifni við? Það er fólkið, sem hrífst og vill miðla, fólkið sem leyfir sér að upplifa til að verða snortið og gefur síðan af örlæti sínu. 

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að ferðasögur fólks segi meira um einstaklingana en ferðirnar sjálfar. Segðu mér ferðasöguna – því hún segir hver þú ert. 

Ferðasögur fólks eru ekki aðeins um Finnland, Korfú eða gönguför yfir Fimmvörðuháls, heldur fremur frásögur þess um eigið líf. Fólk, sem segir frá skemmtilegum ferðum og getur jafnvel séð í óveðri tilefni til tjáningar á dýpri veruleika, það er fólkið sem er tilbúið til að upplifa lífið á dýptina, tilbúið til að sjá margbreytileika eigin lífs. Þetta fólk er auðvitað ekki fullkomið frekar en við hin. Það lendir í djúpum sorgum í lífinu eins og aðrir. Það verður fyrir sjúkdómum og missir líka. En það hefur í sér þessa aukavídd, þennan bónus að geta upplifað perlur á sorgarhafsbotni, ljósbrot í myrkri, augnablikshamingju í hremmingum, séð hið hlálega í grafalvarlegum aðstæðum – numið hið dýrlega í veröldinni. Þetta fólk fer kannski í svipaðar ferðir og hin sem sjá ekkert nema neikvætt. En þau nema þó hið merkilega af því þau hafa í sér vilja og getu til að hrífast og eru tengd hinu stórkostlega. Þau hafa gluggann opinn inn í undur heims og jafnvel undur himins. Þau, sem segja bara sorglega ferðasögu, tjá stundum fremur depurð eigin lífs fremur en ferðar sem það fór.

Hvaða sögu segir þú af ferðum þínum? Staldraðu við og spyrðu þig um ástæður og samhengi. Sorglegar sögur þarf að segja og depurð þarf að tjá. En það er ekki heppileg leið til að leysa sálarháska að segja sorglega ferðasögu! Ferðasaga þín er sannleiksspegill. Ferðasaga fólks er eins og minningargrein um eigið líf!

Ferðasaga Guðs

Já, ferðasögur eru harla merkilegar. Mannasögur eru margs konar. En Guð hefur líka sagt sögu um sig. Sú saga byrjar með því að Guð elskar – elskar þig – vill ganga með þér á þinni för. Guð gisti í mennskum móðurlíkama konu, óx í mannheimi, hefur reynslu af þér og mér, þekkir mannkyn í gæsku og grimmd, gleði og sorg. Allar ferðasögur mannanna komu svo saman í krossi á hæð og tómri gröf. Ferðasaga Guðs er ekki saga um lélegt hótel Jörð, töpuð kort og leiðinlega ferðafélaga, heldur um að lífið er gott, vonbjart og mikilfenglegt. Það er ferðasaga Guðs, sem allar smásögur okkar manna ganga upp í. Ferðasaga Guðs er saga um gleði lífsins, að lífið er sterkara en dauðinn. 

Ferðasaga Guðs er jákvæð, kraftmikil og um ríkidæmi lífsins. „Ég er brauð lífsins…“ segir í texta dagsins. Á ferð með Guði njótum við fæðu, gæða, brautargengis – brauð lífsins er fyrir líf og nægir okkur. Allt sem er í þessar veröld eru gjafir sem Guð gefur, brauð lífsins er koma Guðssonarins og öll gæði sem Guð hefur mönnum, lífi, náttúru til gæfu. Brauð lífsins merkir að allt sem við reynum og lifum eru gjafir Guðs og til blessunar. Guð lætur sig þig varða, gefur þér og er með þér í öllum málum lífs. Er sjálfur kominn til að umvefja þig, efla, næra og blessa. Og fer aldrei fráþér. Guð er alltaf á veginum með þér.

Hver ert þú? Hver er ferðasagan þín? Varpaðu henni upp á spegil hugans, segðu fólkinu þínu hver þú ert og hvað þú upplifir, og berðu svo söguna þína fram fyrir hinn mikla ferðafrömuð sem hefur tjáð þér sína sögu í fyllingu lífs – dauða og síðan lífs.

Segðu mér ferðasögu þína og þá er ljóst hver þú ert.

Guð segir þér ferðasögu sína til að þú vitir hver Guð er. Og þú mátt ganga fram í messunni og njóta brauðs og víns. Það er ferð, sem Guð býður til og þar er tilefni reisu lífsins. Mynd af þeirri ferð verður ekki smellt á facebook, heldur er sagan undrasaga um faðmlag tíma og eilífðar, lífgun sálar. Sú saga verður endursögð í gleðisölum eilífðar. Saga þín verður saga Guðs.

Amen

A few words on the the theme of today. This happens to be the most active weekend for travelling in Iceland. The entire nation is on the move. And those of you coming from abroad are travelling too. I did talk about accounts or stories people tell about the travelling. What stories do people tell. Some tell awful stories and others tell stories of wonder and adventure, colorful and enticing stories. I have noticed that some people tell rather negative stories and others more or less tell stories of positive experiences. So my conclusion is that when people tell about their travelling they more or less tell stories about themselves. People who have negative stories about food, hotels and trips are telling more about themselves than the actual turn of events. And the people who tell about wonders and miracles are talking about their positive approach. So tell me about your trip – and I know something about who you are.

God has told us who God is. God has told about God´s trip in the world. That is an account about human bodies, human joy, hopes, wonders, miracles, and also about cruelty but finally that life is more powerful than death, hope is more powerful than despair, the good endures that which is evil.

All our accounts, all human experience and events are part of the primary story of God. All our short stories are parts og pieces of the divine story.

So, turn inside and think obout your story and turn to the world, and become engulfed by the wonder of the world, time, eternity and heaven. You are a pilgrim on the divine road.  

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 4.8. 2019.

Sjöundi sunnudagur eftir þrenningarhátíð og verslunarmannahelgi. B-textaröð.