+  Lúðvík Gizurarson +

Hvernig var Lúðvík og hvaða minningar áttu um hann? Ég man eftir, sem ungur maður, að ég dáðist að greinum hans, tók eftir andríkinu sem birtust í blaðagreinum sem hann skrifaði. Þar birtist ekki aðeins áhugi á lögfræði, heldur alls konar vísdómur til eflingar og framfara. Lúðvík sá möguleika þar sem aðrir sáu lokanir. Hugur hans var opinn en ekki læstur. Í honum bjó frumgaldur vísinda, að þora að hugsa, greina möguleika og vekja athygli á þeim til framkvæmda. Einföld leit á vefnum færir í fang okkar margvíslegar greinar, sem Lúðvík skrifaði um ólík efni. Stíll hans var knappur, orðum var ekki sóað í óþarfa. Með skýru orðfæri og hnitmiðuðum og meitluðum setningum tjáði Lúðvík meiningu sína og hugmyndir.

Lúðvíksmyndirnar og minningar

Og hverjar eru þínar minningar? Ég er næsta viss um, að ef öll væru spurð sem hér eru í kirkjunni, yrðu minningarnar um Lúðvík næsta ólíkar. Í honum bjó svo margt og svo víða kom hann við sögu, svo mörgum kom hann til aðstoðar og svo margt afrekaði hann. En af frásögnum barna hans staldraði ég við ungan dreng austur í Rangárvallasýslu á stríðsárunum. Hann fór bráðungur niður að á með stöng. Það  er ekki sjálfgefið að leyfa barni, einu á ferð, að stikla á ystu nöf holbakka og við seiðandi strengi. En hann lærði að varast hætturnar, veiddi í Fiská og opnaði vitundina – naut ilms frá blóðbergi og ramm-sætu lyktarinnar úr á og frá bökkum. Lúðvík lærði að kasta og hvernig átti að beita sökku í strengjum yfir stórgrýttum botni. Og hann naut straumsins sem fór um taugar þegar kraftmiklir sjóbirtingar tóku eða risaurriðar sluppu. Lúðvík var nóg, þegar í bernsku og allt til ævikvölds, að eiga kex í vasa og ílát til að drekka úr ánni. Á bernskuárum festi Lúðvík ást á völlum, vötnum, fjöllum, litum, ljósríki og himni Rangárvallasýslu og hann virti tengslin við fólkið sem þar bjó. Þar var hann með sjálfum sér – í essinu sínu. Þar naut hann friðarins eins og hann er túlkaður í spekihefði hebrea. Friður sem jafnvægi kraftanna. Og þar, sem allt er heilt og í skapandi jafnvægi verða til hugmyndir, vöxtur og framtíð. Lúðvík óx upp í þeim anda og þorði að vera, þorði að lifa, lærði að treysta getu sinni og hugboðum. Hann varð brautryðjandi.

Upphaf, bernska og menntun

Lúðvík Gizurarson fæddist í Reykjavík þann 6. mars árið 1932. Foreldrar hans voru Dagmar Lúðvíksdóttir, húsmóðir, og Gizur Bergsteinsson, hæstaréttardómari. Dagmar var frá Norðfirði og var alin upp í stórum systkinahópi. Hún var sú sjöunda af ellefu systkinum, tengdi vel stórfjölskylduna og var öflug í samskiptum og þar með tengslum. Gizur var frá Árgilsstöðum í Hvolhreppi í Rangárvallasýslu. Gizur steig fyrstu skrefin á bökkum Eystri Rangár og var umvafinn erkisögu Njálu. Lagaviska menningarinnar seitlaði inn í hann upp úr mold og sögu og skapaði góðan lögfræðing og að lokum hæstaréttardómara.

Lúðvík var elstur í systkinahópnum og var nefndur eftir móðurafanum fyrir austan. Nafnið er norður-germanskt og kom til landsins með forföður frá Slésvík-Holstein. Reyndar hafði verið ákveðið, að ungsveinninn skyldi bera tvö nöfn afans og heita bæði Lúðvík og Sigurður. En Sigurðarnafnið féll niður milli prestshandar og skírnarfonts. Sr. Jakob Jónsson, þá prestur í Norðfirði og síðar lengi prestur í Hallgrímskirkju, sleppti Sigurðarnafninu í skírninni og fjölskyldan treysti klerki og lét sér Lúðvíksnafnið nægja, enda gott. En nafnið var þó ekki gleymt og kom að góðum notum þegar þriðji drengur þeirra Dagmarar og Gizurar fæddist árið 1939. Hann er Sigurður og er lögfræðingur og gegndi embætti sýslumanns. Bergsveinn var á milli þeirra Lúðvíks og Sigurðar, næstelstur og hann fæddist árið 1936. Bergsveinn varð verkfræðingur og brunamálastjóri. Sigríður fæddist svo á stríðsárunum 1942. Hún var lífeindafræðingur. Sigurður lifir systkini sín og er einn eftir af þessum hæfileikaríka systkinahópi.

Fjölskylda Lúðvíks bjó við fyrstu árin hans við Öldugötu í Reykjavík. Móðirin sá um heimilið og Gizur ávann sér virðingu kollega og samferðamanna fyrir þekkingu og fræðafærni. Lúðvík naut stórfjölskyldunnar og frændfólks í uppeldi. Hann var sendur austur á Neskaupsstað, til afa og ömmu, til Lúðvíks Sigurðar Sigurðssonar og Ingibjargar Þorláksdóttur. Af þeim lærði drengurinn afar margt og þau urðu honum skýrar fyrirmyndir. Lúðvíkshús var gleðiríkt. Ekki aðeins var fjörlegt vegna barnafjöldans, heldur voru þau afi og amma í Neskaupstað kraftmikil og drífandi. Þau urðu Lúðvíki skapandi fyrirmyndir. Amman var forkur til vinnu og hún var laginn og viljasterkur stjórnandi. Afinn var framtakssamur útgerðarmaður, hygginn fjárhöldur og kátur harmonikuleikandi.

Lúðvík sótti skóla í Reykjavík. Það var ekki löng gönguleið af Öldugötunni og niður í Miðbæjarskóla. Og leið lá í gegnum miðju íslenskrar samtímamenningar. Svo varð stríðið til að auka á marbreytileikann. Lúðvík var frá upphafi glöggur nemandi og stefndi á nám í Menntaskólanum í Reykjavík. Menntaskólaárin voru skemmtileg og viðburðarík. Lúðvík varð svo stúdent frá MR árið 1952.

„Go west young man“ var sagt í Ameríku. Lúðvík voru allar leiðir færar eftir stúdentspróf. Hann var fjölhæfur, hugurinn leitaði víða og áhuginn var víðfeðmur. Hann var menntasækinn og fróðleiksfús og efni í góðan vísindamann. Lúðvík var alla tíð áhugasamur um verklegar framkvæmdir og hugur hans leitaði á brautir verkfræði. Svo var hann vestursækinn og sótti um nám í verkfræði við Ohio State University í Athens. Hann fékk skólavist og þótti gaman vestra. En svo sótti hann heim að nýju – vegna ástamála. Konuefnið hans dró hann til baka. Og niðurstaða Lúðvíks var, að halda á ný fræðsvið og hann ákvað að fara í lögfræðina í Háskóla Íslands. En áður en hann hæfi námið af krafti var hann reiknimeistari í flokki línumanna sem unnu við Sogslínu árið 1953. Þar kom reiknigeta hans að góðum notum til að reisa og strekkja rétt.

Lögfræðin varð Lúðvík góð grein og næsta hagnýt sem og lykill að mörgum skrám íslensks samfélags. Lúðvík var ekki aðeins fastur í skruddum og að læra utanbókar ákvæði almennra hegningarlaga eða vatnalöggjafar, heldur hann tók virkan þátt í stjórnmálum á námsárunum. Lúðvík var ritstjóri Úlfljóts á árunum 1954-55. Og hann lauk lögfræðiprófi og varð cand jurisfrá Háskóla Íslands vorið 1958. Hann fékk réttindi sem héraðsdómslögmaður síðar sama ár og varð svo hæstaréttarlögmaður þremur og hálfu ári síðar eða árið 1962. Lúðvík rak um tíma eigin lögfræðistofu í Reykjavík og starfaði svo sem lögfræðingur í Utanríkisráðuneytinu. Hann varð formaður Varnarmálanefndar og lögfræðingur í Viðskiptaráðuneytinu um árabil. Lúðvík rak ásamt konu sinni fasteignasöluna Hús og eignir, þar til hann lét af störfum vegna aldurs.

Valgerður og börnin

Já, konan hans Lúðvíks var stóra ástin hans. Hann sá Valgerði Guðrúnu Einarsdóttur þegar hún byrjaði nám í MR  – gat ekki annað því hún var augnayndi. Og hún komst ekki hjá því að sjá glæsisveininn. Svo var ball á hótel Borg og þau dönsuðu og ástin blómstraði. Þau voru stóra ástin í lífi beggja. Eftir heils vetrar söknuð vestur í Athens í Ohio kom Lúðvík heim. Þegar leið að hjónavígslu systur Valgerðar spurði Lúðvík kærustuna hvort þau ættu ekki bara að gifta sig líka. Og þau gengu í hjónaband og voru gefin saman í Háskólakapellunni 11. júní árið 1954. Það var bjart yfir öllu, hiti í öllu – meira segja methiti í Reykjavík þessa daga. Fimm dögum fyrir hjónavígsluna fór hitinn yfir tuttugu stig í bænum.

Börn þeirra Lúðvígs og Valgerðar eru þrjú.

Elst er Dagmar Sigríður, sem fæddist í maí árið 1957. Hún er lífeindafræðingur. Maður hennar er Trausti Pétursson, lyfjafræðingur. Dóttir þeirra er Valgerður Dóra.

Dóra fæddist í maí árið 1962. Hún er lungna- og ofnæmislæknir. Maður hennar er Einar Gunnarsson, skógfræðingur. Þau eiga dótturina Dagmar Helgu, sem nemur lögfræði.

Einar er yngstur og kom í heiminn í ágúst árið 1963. Hann er framkvæmdastjóri. Dætur hans og Ginu Christie eru Valgerður Saskia og Lilja Sigríður, báðar nemendur. Þetta var fólkið hans Lúðvíks, sem hann hafði brennandi áhuga á, fylgdist með og vildi gefa allt það besta, sem hann átti.

Lúðvík og Valgerður bjuggu fyrstu hjúskaparárin á Neshaga 6, sem foreldrar Lúðvíks höfðu byggt. Síðan bjuggu þau á Hávallagötu 5, en síðan á Grenimel 20. Valgerður kona Lúðvígs lést árið 2008. Og síðustu árin bjó Lúðvík í Sóltúni og naut umhyggju barna sinna, ástvina og góðs starfsfólks. Þökk sé þeim.

Minningarnar

Hvernig manstu Lúðvík? Manstu sögurnar hans eða áhugamálin? Manstu kraftinn og hve auðvelt honum var að laða fram stemmingu með sögu? Manstu náttúrunnandann og merkilegar hugmyndir hans? Blaðagreinarnar spanna afar vítt svið og flest sem varðaði möguleika manna, ábyrga náttúrunotkun, skynsamlegar framkvæmdir og góða nýtingu fjár voru hugðarefni Lúðvíks. Hann var hugsjónamaður og frumkvöðull. Hugmyndir hans um stöðvun sandburðar við Landeyjarhöfn eru afar frumlegar og ástæða til að koma í framkvæmd. Hann hafði skoðanir á hvernig ætti að stunda skilvirkar veiðar á vargi og vildi stofna minkaveiðiherdeild, hvorki meira né minna. Og auðvitað hafði Lúðvík líka skoðun á hvernig mætti hreinsa Tjörnina og setti fram hagnýtar tillögur. Lúðvík vildi dýrðlega Tjörn á ný – eins og hann orðaði það. Hann hafði skýrar hugmyndir um viðbrögð við hruni fjármálalífs Íslands, aflandskrónum og vaxtamálum bankakerfisins. Hann hafði skoðanir á göngum á Austurlandi, lífeyrissjóðum þjóðarinnar, kaupum útlendinga á íslenskum stórjörðum og nýtingu þeirra. Lúðvík hafði alla tíð mikinn áhuga á fuglum og það er merkilegt að eitt vorið tilkynnti hann fuglavakt þjóðarinnar, að hann hafi komið auga á silkitopp. Og hann hafði líka skoðanir á verndaraðgerðum í þágu lunda, kríu og sjóbirtings. Áhugi Lúðvíks var fangvíður og tillögur hans margar snjallar.

Manstu skapgerð hans og eigindir? Hann var ljúfur og heiðarlegur. En hann var líka margra vídda, stundum erfiður, líka sjálfum sér. Alltaf stefnufastur og jafnvel þrjóskur. Stundum endaði hann út í á og bíllinn fastur. Og þá varð hann að leita hjálpar. Það gat hann.

Lúðvík var óhræddur að takast á við stóru málin. Hann hafði ekki aðeins skoðanir eða hugmyndir. Hann þorði líka. Frá bernsku vissi hann, að Hermann Jónasson var blóðfaðir hans. Hann taldi sér skylt, að leiða það mál til lykta. Lúðvík þurfti nokkrar atrennur til að ná markinu. En staðfest var, að hann var blóðsonur Hermanns Jónassonar. Í þessu tilfinningaþrungna máli kom í ljós þor Lúðvíks. Hann varð brautryðjandi allra, sem á eftir komu, því nú eru það orðin skilgreind mannréttindi, að fólk á rétt á að þekkja foreldra sína og þar með sögu sína og erfðavísa. Lof sé Lúðvík fyrir að hafa opnað nýjar leiðir föðurleitandi fólks.

Ævintýrið Eystri Rangá

Af því að Lúðvík var óhræddur frumkvöðull og veiðimaður hafði hann alla tíð áhuga á veiðum í íslenskum vötnum. Honum var alla tíð umhugað um að efla lífríki ánna, sem voru í hans umsjá, og vonir hans gengu eftir. Um árabil leigðu þau Valgerur Miðá í Dölum og gerðu hana að alvöruá með markvissum aðgerðum. En ekkert ævintýri í veiðimálum okkar Íslendinga jafnast á við þá uppbyggingu, sem Lúðvík stóð fyrir í Eystri Rangá. Að því verki komu margir undir forystu Lúðvíks og Einar hefur síðan haldið áfram með óbilandi elju. Uppbyggingin við og í Eystri Rangá er kraftaverki líkast og fundvísi og snilli þeirra feðga Lúðvígs og Einars hefur breytt fljótinu úr rýrri veiðiá í veiðiundur á heimsmælikvarða. Bernskuáhugi, frummótun, tækniáhugi, framsýni, skapandi hugsun, vinnusemi og þolgæði urðu til að kraftaverkið tókst. Þökk sé honum. Í þessu stórvirki varð Lúðvík skínandi fyrirmynd.

Að kveðja

Nú eru skil. Lúðvík stoppar ekki við ár framar til að skygnast eftir fiski. Hann fær ekki framar eitt hundrað hugmyndir á dag eins og barnabarn hans hafði tekið eftir. Afi Lúlli opnar ekki fang til hægt sé að kúra á afabumbu. Hann kennir ekki Lúðvísku veiðiaðferðina framar, semur um seiðasleppingar eða höndlar með húseignir. Hann skrifar enga 99 orða grein um stórmál eða hvernig bjarga megi Breiðamerkursandi og Jökulsárlóni eða efla atvinnulíf í góðri sátt við Rússa og Kínverja. Hans Lady luckkallaði af himnum. Fljót eilífðar er máttugt og kyssir tímann og umvefur vin sinn og okkur öll.

En hér fann ég ungur í hjarta mér

þann himin, sem ég gat lotið.

Og geiglausum huga ég held til móts

við haustið, sem allra bíður.

Og sefandi harmljóð hins helga fljóts

úr húminu til mín líður.

Eins veit ég og finn að það fylgir mér

um firð hinna bláu vega,

er hníg eitt síðkvöld að hjarta þér,

ó, haustfagra ættjörð míns trega.

(úr ljóðinu Fljótið helga eftir Tómas Guðmundsson).

Guð geymi Lúðvík og Guð styrki ykkur ástvini.

Amen.

Dómkirkjan í Reykjavík, 20. september 2019, klukkan 13. Erfidrykkja hótel Natura. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

 

Guð er í endurvinnslunni

Blámessa – vatnið – lífandi vatn

Fyrir skömmu var kínversk fjölskylda í verslunni Nettó að stafla plastflöskukippum, fullum af vatni, í innkaupakerrur. Þetta var undarlegur gjörningur og öllum var ljóst, að fjölskyldan væri að byrgja sig upp fyrir langferð um Ísland. Kona, sem ég þekki, horfði á fólkið og sá, að þau voru búin að setja sextíu plast-vatnsflöskur í kerrurnar. Hún hugsaði sig um: „Á ég að fara og skipta mér af þessu?“ En svo tók hún ákvörðun og sagði fólkinu, að það væri óþarfi að kaupa vatn því alls staðar væri jafnhreint vatn á Íslandi – og líklega betra vatn en í þessum plastflöskum. Hér væri vel væri gætt að hreinlætinu í vatnsveitum. Flöskuvatnið væri bara sóun. Þau kínversku spurðu hvort vatnið á hótelunum væri í lagi. „Já“ svarði hin íslenska. Og ferðamennirnir skiluðu öllu vatninu og þökkuðu fyrir sig. Það er engin ástæða til að blekkja erlenda ferðamenn. Það á ekki að fleygja fjármunum í vatnskaup og auka þar með plastmengunina líka. Og það er líka orðin umhverfissiðfræðileg köllun, að minna fólk á mikilvægi hreins vatns í búðum, kirkjum, þingsölum, veislum og samtölum. Hreint vatn úr er ekki sjálfgefið í veröldinni.

Vatnið og Jesús Kristur

Það gutlar í textum dagsins og það er niður vatns í þeim. Í Hallgrímskirkju eru fimm sunnudagar helgaðir íhugun um gildi, mikilvægi og verndun lífríkis jarðarinnar. Þetta eru ekki bara grænir sunnudagar heldur afar litríkir því allir litir náttúrunnar tjá fjölbreytni sköpunarverksins. Og í dag er messan ekki græn heldur blá. Í blámessu fjöllum við um vatn. Frá skrælþurrum Ísrael hljómar þetta fagra: „Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.“

Jesús var heillaður af vatni. Hann fór gjarnan að lækjum og vötnum og hjálpaði vatnsleitandi fólki. Hann var vatnamaður og óð út í Jórdan til að laugast og helgast köllun sinni. Kristnir menn fortíðar ályktuðu, að vegna Jórdanviðburðarins hefði Jesús Kristur helgað öll vötn veraldar. Vatnið er heilagt af því Jesús blessaði það með því að metta það veru sinni. Og svo mælti Jesús Kristur næsta hraustlega og sagðist sjálfur vera vatn lífsins. Hvað þýðir það?

Vatnið í stefnu Guðs

Lifandi vatn er annað en þetta venjulega vatn og verður að skiljast í ljósi lífs hans alls og allt til enda. Í baráttu Jesú Krists síðustu klukkustundirnar á krossinum þyrsti Jesú áfaflega. Hann bað um að fá að drekka. Öllu er snúið við í krossfrásögunni. Hið mikilvæga og mesta, lifandi vatn (Andi) þarfnaðist hins lága og ónóga (brunnvatns) sem er andhverfa við það sem guðspjallið annars kennir.[i] Krossþorsti Jesú vísar til allra vatnssagna sagna Biblíunnar. Allir vatnstextar helgiritasafnsins eru flaumar merkingar, sem renna saman og sameinast á krossinum. Og hið eftirtektarverða er, að hið andlega þarfnast hins efnislega. Hið efnislega þarfnast líka hins andlega í lífi fólks í heiminum. Í beiðni Jesú nærri dauðastund á krossinum er gríðarlegt merkingarþykkni. Drykkjarbæn hans varðaði meira en að þorsta eins manns. Þessi krossbæn Jesú tengdi ekki aðeins við aðstæður eða fólk á Golgatahæð, heldur við alla sögu Gyðinga og Hebrea, við allar aldir, við alla sköpun heimsins. Þessi bæn Jesú endurómar gjörning, verðandi, Guðs við sköpun veraldar. Í orðum Jesú á krossinum endurómaði rödd Guðs við sköpun heimsins. Í þorstagjörningi Jesú var allur lífsvilji Guðs fram settur því vatn í lífi Jesú var ekki bara efni fyrir líkama lífvera heldur guðlegt efni, sem tjáði alla elsku Guðs, vilja Guðs og erindi. Maðurinn lifir ekki af vatninu einu, heldur þarfnast svo margs að auki. Allt það, sem er að auki, lifir alls ekki án vatns, því vatn heldur lífi í fólki og lífverum. Öll speki heimsins hverfur ef vatnið hverfur. Skilningsljósin slokkna þegar skrúfað er fyrir vatnið. Svo dramatískt er það, að vernda vatnið í veröldinni. Á mannamáli segjum við að vatn sé einstakt. Guð gaf því hlutverk í sköpun og Guð minnti á vatnið á hinum veraldarástnum, föstudeginum langa. Á máli trúarinnar merkir það, að vatnið er heilagt því Guð hefur fengið því einstakt hlutverk fyrir líf. Og það eitt er nægilegt trúmönnum til að verða vatnsverndarfólk.

Vatnið alls staðar

Vatn er gamalt, eldra en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Guð endurvinnur vatn í það óendanlega. Guð er í endurvinnslunni. Í okkur öllum er vatn, sem hefur lengi verið til, jafnvel tugi milljóna ára. Vatnið í þér varð ekki til rétt áður en þú fæddist. Vatnið sem er núna hér í kirkjunni, í ykkur öllum, líka þér, hefur farið um líkama fiska, sóleyja, hvala, trjáa, tígrisdýra, apa, snigla, kaktusa og jafnvel risaeðla. Það hefur borist um allan heim, verið í Jórdan og mörgum jökulám, verið í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, Rauðahafinu og Gvendarbrunnavatni. Það er vatn í kirtlum þínum, munni, augum og líffærum. Vatnið er lífinu nauðsynlegt. Líf okkar slokknar, ef vatnið hverfur eða fúlnar.

Vatnið er samhengi og forsenda og okkar er að helga það og vernda. Vatn er dýrmæti heimsins og við erum öll vatnsfólk. En vatn hefur verið misnotað og mengað um allan heim. Víða er vatnsskortur og vatnsvernd er æ brýnna mál alls mannkyns. Mengun er víða gífurleg, sjór og vötn eru svo illa spillt, að fólk getur ekki farið út í vatnið til að baða sig, hvað þá lotið niður og drukkið. Meira en einn milljarður manna hefur ekki aðgang að nægu og hreinu vatni. Ýmsum tegundum plantna, skordýra og dýra er ógnað vegna vatnsmengunar, uppistöðulóna og námavinnslu.

Stefna Sameinu þjóðanna, Evrópusambandsins og reynslan af vatnsbaráttu tuttugustu aldar hefur opinberað að vatn sé frumgæði, sem allir eigi að eiga fá að nýta án þess að borga fyrir annað en aðveitukostnaðinn. Og að aðgangur að hreinu vatni séu mannréttindi. Við berum ábyrgð á lífsgæðum barna okkar, ófæddum kynslóðum. Og kirkjan gegnir ábyrgðarhlutverki í náttúruvernd og við berum öll ábyrgð í þeirri þjónustu.

Hnötturinn okkar er blár, vatnið er alls staðar á og í  þessari lífkúlu okkar, lofti, láði og legi. Vatn er í möttli, í jörðu, í vötnum, öllum sprænum veraldar, í sjó og ofar höfðum okkar og flugvélunum líka. Ekkert líf lifir á þessari kúlu okkar nema vegna vatns. Án þess myndi allt deyja.

Hvað var í kringum þig og var þitt nærsamhengi þegar þú varst fóstur í móðurkviði? Það var vatn. Þú varst og ert vatnssósa. Það er ekki einkennilegt, að vatn er í báðum sakramentum kirkjunnar – því allra heilagasta, í skírn og í altarisgöngu.

Heilsa og ábyrgð

Engill Guðs hrærir í vatni veraldar. En nú er það lífríkið allt sem er veikt. Og við menn sjáum, að við berum ábyrgð á sjúklingnum. Markmið Sameinuðu þjóðanna varðandi vatn eru alvöru ábyrgðarmál okkar kristinna manna. 6. markmiðið um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu fólks í heiminum og 14. markmiðið um líf í vatni, auðlindir og allan hinn stórkostlega lífvefnað í höfum og vötnum. Viltu verða heill? Það er spurning Guðs til okkar og varðar hvort við lifum með ábyrgð eða bara af grimmilegri sjálfsást. Tak til starfa, verði ljós, hreinsaðu vatn, stattu vörð um vatnið. Það er trúarleg köllun okkar og ljúf skylda.

Engill vatns

Kínversku ferðamennirnir, sem skiluðu vatnsflöskunum í Nettó hlupu til konunnar út á plan til að þakka enn og aftur. Þau sögðu við hana: „Þú ert engill.“ Okkar hlutverk í veröldinni er að verða vatnsverndarfólk, englar vatnsins og þjónar lífsins.

Amen

Hallgrímskirkja 22. sept 2019. Blámessa – tímabil sköpunarverksins.

Afhent skjal um framlag Hallgrímskirkju til Hljóðbókaverkefnisins Biblíufélagsins. Til minningar um dr. Sigurð Pálsson, fyrrum sóknarprest Hallgrimskirkju og framkvæmdastjóra HÍB.

[i]Sjá t.d. Stephen D. Moore, “Are There Impurities in the Living Water that the Johannine Jesus dispenses? Deconstruction, Feminism, and the Samaritan Woman.“ 13 kafli í The Interpretation of John, 2nd ed., ritstj. John Ashton (Edinburgh: T. & T. Clark, 1997).

Ármann Snævarr +

Í dag hefði Ármann Snævarr orðið eitt hundrað ára. Ármann var vinur minn, sótti kirkju í Neskirkju, stoppaði mig á gangstéttum til að ræða stóru málin. Og svo þegar hann lést árið 2010 var ég fenginn til að þjóna við útför hans. Í dag verður hátíðarathöfn í HÍ til minningar um þennan öfluga fræðaþul og mannvin. Minningaroðin eru hér að neðan. 

Minningarorð + Ármann Snævarr 

Hver var hann Ármann? Af hverju var hann svona hlýr og glaður? Af hverju stoppaði hann okkur á vegi til að grennslast fyrir um fjölskylduhagi og velferð. Hann hafði óflekkaðan og óbilandi áhuga á okkur samferðafólki sínu. Af hverju stóð hann alltaf með börnum í lífi og fræðum? Hann var maður verndar. Af hverju varð hann þessi bonus pater familiae? Hann var sendiboði þess kærleika sem skapað hefur heiminn. Hann var ekki aðeins einhver mesti vinnuþjarkur sem við kynntumst, ekki aðeins einn af fremstu fræðimönnum þjóðarinnar heldur var hann valmenni. 

Hvort er reynd eða sýnd mikilvægari? Hvers virði er hið ytra í samanburði við hvaða menn hafa að geyma hið innra? Á fyrri öldum var mótun innri manns talin æviverkefni og lífsmál. Það sem menn gerðu úr hæfileikum sínum og gáfum – það varð innrætið – eða það sem kallað var habituseinstaklings. Við þekkjum habitusí enska orðinu habit, sem merkir venja eða jafnvel kækur. Mennskan er ekki fullmótuð og verkefni okkar allra er að bregðast við aðstæðum og gangast við sjálfum okkur. En líf er hreyfing og að vera maður er kall til átaka, að stæla hið innra og ytra til góðs. Habitus, innræti þroskaðs manns, er m.a. fólgið í viskusókn, iðkun elskunnar, að taka þátt í undri lífsins. Ármann var þroskaður maður. Hann hafði unnið með sinn innri mann og stælt til átaka en líka mannástar, mannúðar. Hans habitusvar mótaður af hinu trúarlega inntaki, að taka lífinu með gleði, standa vörð um fræði, visku, mannvirðingu og bregðast við því góða og gleðilega. En sá þroski verður ekki til fyrirhafnarlaust. Og nú vil ég gjarnan segja eina litla sögu sagði kennarinn Ármann gjarnan til skýringar. Þetta er lykilsaga um átök til stælingar og mótunar.

Ármann stæltur til lífs

Árið 1933 hóf Ármann nám í Menntaskólanum á Akureyri. Þegar hann átti tvö ár eftir nyrðra höfðu armar kreppunnar rústað samfélagið svo að enga vinnu var að fá. Dag eftir dag og viku eftir viku fór Ármann á fætur og stóð klukkutímum saman í biðröð eftir uppskipunarvinnu, en án árangurs. Þar sem hann beið kaldur og útskúfaður dagaði á hann að hann yrði aldrei stúdent eins og bræður hans. Hann yrði að sætta sig við stöðu sína og vonbrigðin. Hann ákvað að menntast hið innra þótt hann fengi ekki húfu og háskólamenntun. Hann settist niður með skruddurnar í verkleysinu og lærði eins og hann ætti líf að leysa. Ármann fékk óvænt að taka utanskólapróf. Hann glansaði ekki aðeins heldur fékk líka – gegn vonum – að vera á heimavist upp á krít síðasta veturinn í MA. Á þessum æskudögum lærði Ármann að láta aldrei einangraðan vanda stöðva sig. Vandi er verkefni til lausnar. Þetta er eina rétta kreppuviðbragðið. Í lífi Ármanns var ljóst að markmið voru mikilvægari en hindranir. Ármann varð afar stefnufastur. Og mikilvægur þáttur íhabitushans varð áræðni og andlegt þrek.

Minningarorðunum sem á eftir fara er skipt í tvo hluta. Í fyrri hlutanum geri ég grein fyrir námi og störfum Ármanns. Í hinum seinni, eftir að Sólveigarsöngur Griegs hefur verið sunginn, færum við okkur heim til þeirra Valborgar og ræðum um heimilismanninn.

Líf og störf

Ármann Snævarr fæddist á Nesi í Norðfirði 18. september árið 1919. Hannn lést 15. febrúar síðastliðinn. Stefanía og Valdimar, foreldrar hans, voru ráðin í að nefna hann Gunnstein og eftir bróður hans sem hafði látist skömmu áður. Nóttina fyrir skírn, dreymdi Stefaníu að til hennar kæmi ungur maður, sem hafði látist skömmu áður og bað um að hann fengi að vera hjá þeim. Hún tók þessari nafnvitjun vel og drengurinn fékk tvö nöfn en ekki eitt. Ármannsnafnið er því draumnafn og það notaði fjölskyldan og nafnberinn æ síðan. Ármann var yngstur fimm systkina. Hann átti sér eiginlega tvær mömmur, því Ína móðursystir hans bjó á heimilinu, stækkaði tilveru systkinanna með guðsorði, taflmennsku og ekki má gleyma öllum draumunum. Heimilið var menntunarsækið og plássið var gjöfult.

Nám reyndist Ármanni sem leikur. Móðurbróðir minn deildi heimavistarherbergi með honum síðasta ár í skóla fyrir norðan. Hann var sjálfur mikill námsmaður en sagði mér, að Ármann hefði verið öllum fremri hvað varðar vinnuskipulag og öguð vinnubrögð. Á undan öllum var hann kominn á fætur og hafði unnið gott dagsverk þegar aðrir vöknuðu. Ármann var árisull og borinn til stórvirkja. Hann varð dúx á stúdentsprófi og hæstur í landinu.

Laganámið

Svo fór hann suður í lagadeildina, sem var til húsa í Alþingishúsinu. Í frímínútum kynntust stúdentar þingmönnum, lærðu á þinglífið og hvernig átök urðu til og voru leidd til lykta. Ármann og félagar lærðu mælskufræðina í frímínútum. Hann lagði grunn að fræðum sínum, hann tengdist kennurum sínum djúpum vináttu- og virðingarböndum, tók nærri sér sóun stríðsins sem var í algleymi og hreifst af lýðveldishugmyndum. Ármann varð síðasti konunglegi lögfræðingurinn, sem útskrifaður var frá HÍ áður en til lýðveldisstofnunar kom. En fagnandi veitti hann slitum atkvæði sitt og leyfði Íslandssögunni að hvelfast yfir sig á Þingvöllum 17. júní 1944. Og hann hafði í sér tilfinningavíddir til að lifa mikilvægi þess atburðar í sögu þjóðarinnar.

Hann var aðeins fjórtán ára þegar hann fór að heiman, fór í skóla sem naut kennslu manna, sem höfðu dvalið langdvölum erlendis. Lunderni og mótun skópu útsýn Ármanns. Hann kunni illa heimóttarstíl. Eftir að hann var búinn að þjóna sem bæjarfógeti á Akranesi fór hann utan. Honum var fullkomlega eiginlegt og eðlilegt að fara í framhaldsnám, ekki bara til Danmerkur, heldur var að auki sitt hvort árið í Noregi og Svíþjóð við fræðaiðkun. Hann þorði líka að skoða lögfærðina í stóru samhengi. Undrandi Reykvíkingur spurði þegar það fréttist, að Ármann væri að læra réttarheimspeki: “Hvernig getur lögfræðingur lært heimspeki? Ég hélt þeir fengjust aðallega við að innheimta víxla!” Nei, Ármann var í sönnum jús. Og hann varð síðar margfaldur heiðursdoktor í lögum.

Prófessorinn

Ármann var á leið til Cambridge þegar kallið kom að heiman. Hann fór ekki yfir Ermasundið heldur til Íslands. Hann var settur prófessor við lagadeild Háskóla Íslands 28 ára, frá hausti 1948 og skipaður prófessor einu og hálfu ári síðar. Ármann kenndi flestar greinar lögfræðinnar og varð víðfeðmur í fræðunum. Sifjarétturinn varð fyrsta kjörlendi hans og þar endaði hann líka með stórvirki sínu, Hjúskapar- og sambúðarréttur, sem hann gaf út á árinu 2008, yfir þúsund blaðsíðna grundvallarrit á sínu sviði. Ármann naut þess að kenna og hélt áfram kennslu fram á síðustu ár. Hann kenndi líka guðfræðinemum kirkjurétt. Við dáumst að fræðaþulnum en einnig mannkostamanninum sem umvafði okkur með hlýju sinni.

Á kennsluárunum styrkti Ármann erlendu tengslin og var gistikennari við háskóla bæði vestan og austan Atlansála. Hann var alla tíð afar virkur í erlendu samstarfi. Flestir dómarar, lagakennarar og fjöldi lagastúdenta á Norðurlöndum þekktu Ármann, nutu hans, sóttust eftir honum til starfa og fyrirlestra. Hann var góður sendiherra íslenskra gæða, fræða og menningar.

Ármann var eljusamur í útgáfumálum sínum, skrifaði alla tíð mikið og greinar fyrir erlend fræðirit einnig. Ritaskrá Ármanns er löng og bókleitarkerfið Gegnir listar dugnaðinn á átján síðum. “Hver kennslustund var tilhlökkunarefni” sagði hann gjarnan og það er mjög merkilegt að horfa á sjónvarpsviðtöl af Ármanni þegar hann talaði um kennslustarfið. Þar er gleði í augum og fögnuður. Hann var elskur að nemum sínum, vildi gera þeim allt til þroska og eflingar og bar hag þeirra fyrir brjósti, ekki bara á námsárum heldur alla tíð síðan eins og þið þekkið sem hér eruð í dag. Hann vildi vita um afkomu, lífslán, breytingar og tók til hjarta áföll og dauða. Hann var í senn hinn besti meistari af gamla skólanum, prestur í nánd sinni og engill í falslausri velvild.

Rektorinn

Það hafði ekki verið til siðs að velja unga menn til forystustarfa í Háskóla Íslands fyrstu fimmtíu árin og fæstum datt í hug að fertugur Ármann væri rektorsefni. En Ármann var margþátta og fjölhæfur og hentaði því vel þörfum háskólans á uppgangstíma. Hann þekkti þróun erlendra háskóla og vildi að raunvísindin fengju styrkari stöðu í skólanum. Svo var Ármann svo skemmtilega opinn, félagslyndur, hæfur í samskiptum, áræðinn og framsækinn að hann varð rektorskandídat og var kjörinn rektor í síðla árs 1960. Þá hófst eitt mesta þróunar- og framfara-tímabil Háskóla Íslands fyrr og síðar. Ármann höndlaði svo um að flest gekk upp. Ekki hafði hann verið í rekstri eða stjórnað fyrirtækjum en virkjaði snilligáfu sína í þágu skólans. Dæmi um þetta er að honum tókst á undraskömmum tíma að ljúka byggingu Háskólabíós, sem hafði verið í stoppi vegna fjáreklu. Þegar hann var að raka sig einn morgunin fékk hann þá hugmynd að Landsbankinn hefði útibú í bíóinu og borgaði leiguna áratugi fram í tímann með einni greiðslu. Þessa hugmynd um framvirkan samning trítlaði hann með niður í bæ, sannfærði bankastjórann, fékk svo græna ljósið frá ríkisstjórn og nokkrum dögum síðar var allt á fullu í Háskólabíó. Salurinn var tilbúinn nokkrum mánuðum síðar og fyrir fimmtíu ára afmælishátíð háskólans. Í skjóli Ármanns eða vegna áhrifa frá honum urðu til Raunvísindastofnun, Reiknistofnun háskólans, Árnastofnun, Lögberg og hjónagarðarðar. Rektorinn heyrði ágætlega raddir stúdenta og beitti sér fyrir byggingu Félagsstofnunar stúdenta og var til reiðu nætur og daga á álagstíma stúdentauppþota.

Hæstaréttardómarinn

Mannkostir og menntun Ármanns nýttust vel á þessum rektorstíma hans, sem lauk árið 1969. Árið 1972 varð hann svo hæstaréttardómari. Fyrr og síðar talaði Ármann um ábyrgð þess að dæma og tók nærri sér að fella hina endanlegu dóma. Hann gekkst við ábyrgðinni, var verkefninu og vandanum vaxinn. Lögfræðiþekking og elja hans nýttist fullkomlega. Í árslok 1984 fékk hann lausn frá störfum í Hæstarétti og gat helgað sig fræðimennskunni að nýju.

Ármann hélt sína síðustu háskólaræðu þegar Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarr var stofnuð síðastliðið haust. Þá hafði hann – vegna sjóndepru – ekki lengur hald í blöðum og af stöfum en töfraði úr sjóði hjarta og visku fallega ræðu og endaði með blessunarorðum: Heill sé Háskóla Íslands. Hann uppskar klapp og virðingu. Heill sé Háskóla Íslands, já heill sé menntun þjóðarinnar, heill sé háskólum þjóðarinnar. Og megi eiginda og afstöðu Ármanns Snævarr verða minnst þegar um sanna menntun er talað og sanns menntamanns er minnst.

Lífið og heimlið

Árman Snævarr var ekki aðeins virkur og virtur prófessor, rektor og dómari. Hann var maður tengsla, eiginmaður, faðir, afi, vinur og félagi. Ármann hafði ekki aðeins nautn af umgengni við fólkið í háskólanum. Hann var svo félagslyndur að hann var jafnan fyrstur til dyra og líka þegar sendill kom með vörur úr KRON-búðinni, dreif sendilinn inn og settist niður og spjallaði. Hann staldraði við hjá okkur börnunum í hverfinu, spurði að nafni og sagði sitthvað eftirminnilega hnyttið við okkur og hlýlegt um okkar fólk. Engan mannamun gerði hann sér, hann frúaði og frökenaði konurnar og umgekkst karlana með hlýlegri virðingu. Allir þekktu Ármann og alla þekkti hann. Hann var því eftirsóttur til félagsstarfa. Miðað við mikið og stöðugt vinnuálag er furðulegt hve víða hann kom við sögu og hve stórvirkur hann var í félagasögu þjóðarinnar. Hann beitti sér ekki aðeins að stofnun og starfi félaga lagamenntaðra, heldur starfaði í mörgum vinnuhópum um ýmis opinber mál, og í ræktunarfélögum lands og lýðs. Ármann var félagsjarl. Ég vísa í æviskrárnar og get ekki annað en þakkað fyrir hönd tuga félaga, sem hann þjónaði með stjórnarsetum fyrr og síðar.

Ekkert af þessu hefði verið möguleg ef Valborg hefði ekki staðið við hlið manns síns og stutt með ráðum og dáð. Hún var skóladúx eins og Ármann. Í september 1948 hittust Valborg og Ármann í Oslo. Hún var á námsför og hann á fræðaspretti. Og Ármann bauð Valborgu út að borða – og það var nú kannski ekki beinlínis upp úr franskri eða ítalskri kúsínu sem þau völdu sér – heldur borðuðu hvalkjöt. Ég gerði mér ekki grein fyrir að það væri rómantískt. Þetta var þeirra útgáfa af Food and Fun. En svo fóru þau heim og ástin kviknaði – enda hvalkjöt staðgott. Þau gengu í hjónaband í kapellu Háskólans 11. 11. 1950. Sr. Stefán á Völlum, bróðir Ármanns, gaf þau saman og var svo snjall að leggja út af orðinu mannval. Og hjónaefnin voru ekki aðeins mannval, heldur kyssast nöfnin þeirra svo fallega að helmingur Ármanns og helmingur Valborgar verður mannval.

Það var auðvitað snjallt hjá þeim að ganga í hjúskap á vopnahlésdaginn og hefja vígsluathöfn kl. 11. Bæði stórveldi í sjálfum sér, en þó vel slípuð, bæði yngst í barnahópum, mótuð af lífsreynslu langferða um lendur mennta og landa. Vopnahléð hélt og lífið var fjölbreytilegt. Það var ekki aðeins einhliða stuðningur, sem Valborg veitti manni sínum. Hann var henni alltaf stoð í brautryðjendastarfi hennar við uppeldismenntun þjóðarinnar og mótun kynslóða leikskólafólks, sem jafnframt var einnig efling kvennamenningar, kvennavirðingar og stuðlaði að jafnari stöðu kynjanna í samfélaginu. Þau unnu bæði með framtíðarfólki og að mótun framtíðarmenningar þjóðarinnar. Ekki er að efa að Valborg hefur haft mikil áhrif á skilning Ármanns og eflt visku hans. Hæfni hans verður ekki numin og skilin til fulls nema með vísan til hennar líka. Hann var lánsmaður.

Barnalán og heimili

Þeim Valborgu og Ármanni varð fimm barna auðið. Þau eru Sigríður Ásdís, sendiherra. Hennar eiginmaður er Kjartan Gunnarsson. Næstelstur er Stefán Valdemar prófessor í Noregi. Í miðjunni er Sigurður Ármann, borgarhagfræðingur. Kona hans er Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir. Valborg Þóra, hæstaréttarlögmaður, er næstyngst systkinanna. Hennar eiginmaður er Eiríkur Thorseinsson.Yngstur er Árni Þorvaldur, upplýsingafulltrúi í Brussel. Afkomendur Ármanns og Valborgar eru samtals ellefu og stjúpbarnabörnin þrjú.

Valborg var “útivinnandi” og Ármann var “heimavinnandi.” Hann tók ákvörðun að vera heima við skriftir og kennsluundirbúning. Ritvélarpikkið varð eins og hjartsláttur á heimilinu. Gögn, bækur og blaðabunkar flóðu yfir borðstofuborð, en var sópað til hliðar fyrir máltíðir. Borðið varð miðja veruleikans og börnin kölluðu sína veru inn í fræðin og hinn akdademíski andi seitlaði til baka í æðar og vitund þeirra. Það er ekkert einkennilegt að þau séu líka fræðaþulir. Þeim var lagið að flytja sitt mál. Engum lá lágt rómur, oft var tekist á og heimilisfaðirinn kímdi yfir málflutningnum. Einhverju sinni gall við í Ármanni: “Mikið er ég hamingjusamur að hafa ykkur öll hérna – og allir að rífast.” Hann hafði alið af sér mannval, leiftrandi fólk. Lof sé þeim fyrir að halda merki Ármanns og Valborgar á lofti, heill sé íslenskri þjóð. Strákarnir hefðu auðvitað á viðkvæmum aldri frekar kosið að pabbi þeirra kynni á gröfu fremur en að vera prófessor og grafa upp lagagreinar. Ármann kom í gættina á partíkvöldum unglingsára barnanna, heilsaði öllum viðstöddum gestum alúðlega og bauð rúsínur eða kandís. Þetta þótti krökkunum ekki smart. Hann hringdi í fólkið sitt skv. reglu og vildi fá fregnir af öllu því sem gladdi eða bjátaði á. Og hann gat á tíræðisaldri hrópað upp yfir sig þegar sonardóttir hans náði almennu lögfræðinni með glæsibrag. Heimilislífið var fjölbreytilegt, rökfimi stunduð, aginn skerptur og gleðin lofuð.

Gunnsteinn Ármann Snævarr var kyndilberi íslenskrar menningar og lýðveldissögu. Hann var sem tákn um gæði og menningu. Hann miðlaði áfram og var svo stór í sjálfum sér að hann efldi fólk en lamdi ekki niður til að sjást sjálfur. Umtalsfrómur var hann alla tíð. Hann var svo umgengnisgóður að hann bar virðingu fyrir stólum. Ármannn sótti í djúpin, fór að baki lagagreinum og bókstaf og greindi dýpri rök og þarfir fólks og lífs. Hann stóð alltaf með lífinu og þeim sem varnar þörfnuðust. Eins og hann var mikill alþjóðamaður var hann vel tengdur þjóðmenningu og íslenskum gildum. Nú gildir að vitja visku Ármanns og læra af. Hann er farinn, lyftir ekki lengur hattinum sínum, frúar og frökenar enga.

Ármann  sótti kirkju sína af sömu reglu og hann rækti allt annað í lífinu. Einu sinni kvaddi Ármann mig við kirkjudyr og sagði: “Nú er ég glaður. Þetta er í fyrsta sinn sem ég heyri lagagrein nefnda í prédikun.” Þá var rætt um 125 grein. almennra hegningarlaga. Og hann veðraðist upp. Ármann var í trúmálum sínum jafnheill og í öðru og honum var last trúar og trúarefna óhugsandi en um það fjallar greinin eins og lögfræðingarnir vita. Ármann hafði tekið sér traust til hjarta, líf hans var heilt og í góðum faðmi. Hann var okkur öllum samverkamaður af því að hann átti í Guði slíkan. Trúariðkun hans var heillandi skýr og einföld, hann umgekkst Guð sem félaga og bandamann, sem hann ræddi við óhikað við og opnaði sig fyrir. Ármann átti sér ákveðinn bænatíma á kvöldin og ef hann var ekki nærri konu sinni gátu þau í sitt hvoru lagi beðið sitt Faðir vor á ákveðnum tíma og deitað þannig hvort annað á himneska vísu. Guð var Ármanni sálgætir, besti vinur, sem var honum nærri í gleði en líka andblæstri og sorg. Því umlauk hann sitt fólk í bænum sínum, umspennti allt sem skipti hann máli, sem reyndar var stór og litrík veröld. Tilvera hans var óbrotin. Það var himneskur jús, í öllu sem hann gerði í vinnu, fræðum og einkalífi. 

Hver var Ármann? Sendiboði ögunar og fegurðar, ármaður gleðinnar og elskunnar. Ávallt Guði falinn og fullur þroskaðs trausts. Blessaðu minningu hans með því að stæla þinn innri mann, til þjónustu við Guð og menn. Vertu slíkur Ármann í lífinu.

Guð geymi Ármann Snævarr og blessi Valborgu, börn, tengdabörn, afkomendur og ástvini. Guð veri með okkur.

Amen

Eftir þessa útfararathöfn verður kista Ármanns borin út og þar geta allir gengið að og kvatt. Erfidrykkja verður í safnaðarheimilinu strax að lokinni athöfn og jarðsett verður síðar í dag í kirkjugarðinum á Görðum á Álftanesi. Þar fæddist meistari Jón Vídalín. Um hann var sagt að hann væri ingenio ad magna nato– borinn til stórvirkja, og það er góður eftirþanki um Ármann Snævarr.

Æviágrip

Gunnsteinn Ármann Snævarr fæddist á Nesi í Norðfirði þann 18. september 1919 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Valdemar V. Snævarr, sálmaskáld og skólastjóri f. 22. ágúst 1883, d. 18. júlí 1961, og Stefanía Erlendsdóttir, húsmóðir f. 6. nóvember 1883, d. 11. desember 1970. Systkini Ármanns voru Gunnsteinn f. 16. mars 1907, d. 12. júní 1919. Árni Þorvaldur, verkfræðingur og ráðuneytissjóri f. 27. apríl 1909, d. 15. ágúst 1979.  Laufey Guðrún, húsmóðir f. 31. október 1911, d. 9. nóvember 2002. Stefán Erlendur, prófastur f. 22. mars 1914, d. 26. desember 1992. Gísli Sigurður f. 21. júlí 1917, d. 21. janúar 1931. Eftirlifandi fóstursystir Ármanns er Guðrún, húsmóðir f. 5. júlí 1922.

Ármann kvæntist þann 11. nóvember 1950 Valborgu Sigurðardóttur uppeldisfræðingi og fyrrv. skólastjóra Fósturskóla Íslands, f. 1. febrúar 1922. Foreldrar hennar voru Sigurður Þorólfsson skólastjóri Lýðháskólans á Hvítárbakka og seinni kona hans Ásdís Margrét Þorgrímsdóttir húsmóðir.

Börn Ármanns og Valborgar: 1. Sigríður Ásdís, f. 23. júní 1952 sendiherra gift Kjartani Gunnarssyni, f. 4. október 1951 lögfræðingi, sonur þeirra er Kjartan Gunnsteinn, f. 5. júlí 2007. 2. Stefán Valdemar, f. 25. október 1953 prófessor í Lillehammer í Noregi. 3. Sigurður Ármann, f. 6. apríl 1955 borgarhagfræðingur, kvæntur Eydísi Kristínu Sveinbjarnardóttur, f. 24. júní 1961 aðstoðarframkvæmdastjóra hjúkrunar á Landsspítala. Börn Sigurðar eru Jóhannes, f. 2. nóvember 1982 og Ásdís Nordal, f. 21. ágúst 1984. Börn Eydísar eru Sveinbjörn Thorarensen, f. 26. nóvember 1984 og Sigurlaug Thorarensen, f. 18. desember 1990. 4. Valborg Þóra, f. 10. ágúst 1960, hæstaréttarlögmaður, gift Eiríki Thorsteinsson, f. 17. september 1959, kvikmyndagerðarmanni. Sonur Valborgar er Gunnsteinn Ármann Snævarr, f. 18. janúar 1981. Dóttir Eiríks er Oddný Eva Thorsteinsson, f. 16. maí 1988. 5. Árni Þorvaldur, upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum í Brussel, f. 4. mars 1962. Börn hans eru Ásgerður, f. 1. ágúst 1988 og Þorgrímur Kári, f.12. október 1993.

Ármannvarð stúdent frá MA 1938 og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1944. Hann stundaði framhaldsnám lögum við háskólana í Uppsölum,  Kaupmannahöfn og Ósló árin 1945-1948 og sérnám og rannsóknir við Harvard Law School 1954-1955. Hann var skipaður prófessor í lögum við Háskóla Íslands árið 1948 og gegndi því starfi til ársins 1972. Árið 1960 var Ármann kjörinn  rektor Háskóla Íslands og gegndi því starfi til 1969. Ármann var skipaður hæstaréttardómari árið 1972, en lét af því embætti árið 1984. Eftir Ármann liggur mikill fjöldi bóka og annarra fræðirita um lögfræði. Vorið 2008 þegar hann var á 89. aldursári sendi hann frá sér mikið fræðirit um hjúskapar- og sambúðarrétt. Kennsluferill hans við lagadeild Háskóla Íslands spannaði hálfa öld. Ármann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands árið 1993 og við fjölda erlenda háskóla. Honum hlotnuðust ýmsar fleiri viðurkenningar fyrir störf sín, bæði erlendis og hér heima. Í tengslum við níræðisafmæli Ármanns setti Háskóli Íslands á fót við lagadeild sína Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni.

myndin af Ármanni er mynd Þorkels í Morgunblaðinu. Myndin af þeim Valborgu og Ármanni er frá Vísi. 

Ég um mig frá mér til mín

„Nei, ég trúi bara á sjálfa mig. Ég trúi ekki á neitt, sem er meira en ég sjálf.“ Hópur fólks var að ræða um trú og trúariðkun og ein spurningin var: „Trúir þú á Guð?“ Svarið var nei. Trúarafstaða fólks er með ýmsu móti en róttækust þegar fólk trúir bara á sjálft sig og ekkert stærra eða meira. Mörk trúar skipta máli. Líka á hvað við festum traust okkar og hvort eðlileg sjálfsást útiloki það sem er stærra en eigið egó. Ég um mig frá mér til mín.

Að trúa bara á sjálfan sig er afmarkandi afstaða og útilokar veruleika Guðs og lífs eftir dauða. Þetta er merkilega skýrt og afgerandi svar þeirrar lífsafstöðu, sem hríslast um allan hinn vestræna heim og er að eðlisbreyta hinni litríku og lífselsku veraldarnálgun hins kristna heims í allt annað en mannvinsamlega menningu. Því ég-menningin raðar gildum skýrt og klárt. Ekkert er einstaklingnum æðra, engin gildi sem þarf að taka mið af sem ekki varða “mig” eða “mitt”. Ég-menning er vefur einstaklingshyggju. Ég-menningin er skeytingarlaus um stórgildi sögu eða þarfa annarra. Guð er þessu fólki dauður, trúin óþörf, sem og listin og allt hitt sem einstaklingurinn kann ekki við eða speglast vel í prívatspegli sjálfsdýrkunarinnar. Viðmiðið er skýrt: Ég um mig frá mér til mín. Annað er plat, fake newseða óþarft.

Sjálfurnar

Fyrir nokkrun áratugun voru þau talin kjánar, sem voru bara upptekin af sjálfum sér. Að taka myndir af sér var talið skrítið. En nú eru selfie-stangirnar staðalbúnaður ferðafólks. Það sjáum við vel í og við Hallgrímskirkju. Sjálfufólkið tekur myndir af sér með kirkju, orgel eða altari í baksýn. Ferðalög margra eru eðins ferðir sjálfsins og umhverfið er fremur bakgrunnur en meginmyndefnið. Myndasmiðurinn er ekki lengur á bak við vélina heldur framan við og fremstur á myndinni. Ljósmyndarinn er í fókus og veröldin er í bakgrunni.

 Í textagerð er hliðstæð þróun. Þegar fólk skrifaði greinar í blöð eða tjáði sig opinberlega fyrir hálfri öld var sjaldgæft að fólk bæri einkamál á torg. Orðið ég mátti helst ekki koma fyrir í textum. En nú er það ég einstaklinganna, sem lætur gamminn geysa á samfélagssíðunum, í fjölmiðlum og í opinberri orðræðu. Til að segja sögu er ekki nóg að skrifa litríkan texta um eitthvað utan eigin ramma heldur er áherslan á eigin lífsreynslu og stýrir hvernig efni eru kynnt, hvernig efni er raðað og ritsmíð lokið. Ég um mig frá mér til mín.  

Lúkkið

Strákarnir – ekki síður en stelpurnar – standa við spegla heimsins og dást að sér og skoða lúkkið. Á heimilinum eru háð neyslustríð. Unga kynslóðin verður að kaupa nýju skóna, nýjastu búningana og vera á öldufaldi tískunnar. Annars er hætt við að þau falli gagnvart grimmu alvaldi einhverrar sjálskipaðrar tískulöggu, sem ekki leyfir neitt eldra en tveggja mánaða. Eldri kynslóðin tekur líka þátt í neyslu ég-menningarinnar. Spegill, spegill herm þú mér – er ég ekki flottur – er ég ekki smart? Útlit er sjálfufólkinu mikilvægara en innræti. Og því eru allar þessar umbreytingar á fólki, fegrunaraðgerðir og svo eru sýndartjöld sett upp á heimilum og í lífsferðum fólks. Sjálfhverfingin stýrir.

Narcissus

Fólk hefur um allar aldir verið upp tekið af sjálfu sér og misst sjónar á samhengi sínum, gildum og samfélagi. Grikkir sögðu t.d. sögu um Narcissus sem tákngerving sjálfsástarfólks heimsins. Örlög hans voru að elska aðeins sjálfan sig og engan annan eða aðra. Ég um mig frá mér til mín. Narcissus var svo hrifinn af spegilmynd sinni, að hann gat ekki slitið sig frá henni, verslaðist upp og dó. Vegna sjálfumgleði fólks í samtíma okkar og þar með skertrar samkenndar hefur uppvaxandi kynslóð verið kölluð narkissa-kynslóðin, sjálfukynslóðin. Vissulega hafa egóistarnir alltaf verið til, fólk sem þjónar helst eigin duttlungum og hagsmunum. Hin siðblindu eru verstu fulltrúar sjálfhverfunnar. Þegar menning Vesturlanda tekur sjálfhverfa u-beygju veiklast samfélagsgildin. Ég-menningin setur viðmið. Sannleikur er ekki lengur hlutlægur veruleiki þeim sem hugsa þröngt frá eigin sjónarhóli, heldur eitthvað sem þarfir einstaklinganna kalla á. Pólitískir loddarar halda fram að satt sé lygi og fake-news. Aukinn stuðningur við pólitíska öfgaflokka er einn liður þessarar þróunar. Guðstrú og trúarafstaða fólks breytist einnig. Það, sem ekki þjónar sjálfinu og uppfyllir einkaþarfir, er látið gossa. Sjálfusóttin getur verið jafn skefljalaus og fíkn og hefur líka skelfilegar afleiðingar í fjölskyldum þeirra, sem eru kengbogin inn í sjálf sig. Trúarstofnanir og menningarstofnanir lenda í svelg og týnast í glatkistu sögunnar.

Tengslin?

Ef fólk afneitar því sem er stærra en það sjálft tapast Guðstengingunni og heimsmyndin breytist. Að vera trúlaus er ekki það að efast, vera veikur í trúnni eða reiður Guði, þegar sorgin nístir og allt virðist mótdrægt. Nei, trúleysi er sú afstaða að maður sjálfur sé nafli heimsins, miðja alls sem er. Það er trúleysi að hafna að Guð sé Guð. Broddurinn í allri ræðu Jesú er: Hverju trúir þú? Heldur þú framhjá Guði með því að dýrka þig?”

Ég eða Guð

Hvar stendur þú og hvert stefnir þú? Trú er ekki aðeins mál framtíðar eða elliára heldur varðar núið. Guð er innan í þér, í náttúrunni, í fegurðinni, ástinni, lofsöngvum kristninnar, kærleiksverkum veraldar. Fyrir framan öllsem horfa í spegla heimsins og dýrka eigið sjálfer Guð sem horfir og elskar þetta fólk sem speglar sig. En Guð neyðir engan til gæfuríks lífs, opnar ekki framtíð og eilífð nema fólk virðiað lífið er meira en eigin nafli – og opni eigið sjálf. Maðursem er kengboginn inn í sjálfan sig og fókuserar bara á sjálfan sigsér ekki samhengi lífsins. Ég-menningin er menning andlegrar fátæktar og samfélagslegrar upplausnar. Ég um mig frá mér til mín er hraðvirkasta leið dauðans í þessum heimi.

Við erum mikilvæg í hinu stóra

Hver er grunngerð okkar? Allt fólk er hamingjusækið. Okkur dreymir um að fá að njóta lífsins. En til að draumurinn rætist verðum við að sjá okkur sjálf, kosti okkar og galla. Óraunsæ aðdáun á eigin snilli og lúkki er ekki nóg. Við þurfum þroskaða visku og agað raunsæi til að við öðlumst heilbrigða sjálfsmynd. Þroskuð manneskja hugsar um fleira en eigin þarfir. Tilveran er stærri en spegilsalur sjálfsins.

Kirkjan í heiminum er speglasalur himinsins. Guð horfir á okkur og vill okkur vel, gefur gildi og samhengi, lærdóm, list og fegurð til að njóta og samfélag til að lifa í og þjóna. Stærstu og glæsilegustu draumarnir eru í vitund Guðs, sem dreymir þessa veröld, dreymir þig án afláts, dreymir ský og regn, hjartslátt þinn, líf þitt, að þú og allur þessi söfnuður fólks njóti lífsins. Ég-menningin hrynur því hún er sjálfhverf fíknarmenning. En veröld trúarinnar varðar sannleika lífsins. Í veröld trúarinnar tekur fólk þátt í hinum raunverulega draumi Guðs um elskuna, um hamingjuna, vonina og lífið. Þar ertu elskaður og elskuð. Þar ertu raunverulega til og í raunverulegum tengslum. Ég um okkur frá veröld til Guðs.

Lifandi vatn

Af hverju hefur þú svona mikinn áhuga á vatni? Vinir mínir hafa stundum spurt mig þeirrar spurningar. Mér hefur alltaf þótt vatn heillandi, hreyfingin, speglun vatns, gegnsæi, hringrás vatnsins. Þegar ég var strákur í Vesturbænum tók ég mig til og fékk gefins dekkjaslöngur hjá körlunum á Landleiðum þar sem nú eru Stúdentagarðarnir. Blés upp og batt saman og bjó til bát sem ég síðan sigldi við Þormóðsstaðafjöruna. Og móðir mín var ekkert að skipta sér af þessu fyrr en systir mín datt í sjóinn og kom holdvot og köld heim. Í sveitinni gekk ég með bæjarlæknum til að skoða vatnsmagnið, hvernig hann nagaði bakkana, laumaði sér milli steina og kom hlægjandi mót sólu. Ég var heillaður af vorflóðum, hvernig snjórinn blotnaði og lyppaðist niður og bunurnar skoppaði niður brekkurnar og faðmaði aðrar og af varð mikill vatnadans. Mér fannst heillandi að fylgjast með hvernig Svarfaðardalsá fór yfir bakka og allur hinn mikli dalur var undir vatni. Mér þótti merkilegt að sjá stíflumannvirkin sem bændurnir í dalnu höfðu byggt til að geta veitt vatni yfir engi. Og svo þegar ég var tíu ára vakti frændi minn mig snemma og sagði mér að nú ætti ég að drífa mig í fötin því værum að fara að veiða. Hann kunni tökin, kenndi mér að kasta og sjaldan hefur straumurinn orðið jafnsterkur í taugum mínum þegar stór bleikja kippti í og ég var nærri búinn að missa stöngina í hylinn. Svo varð ég hamslaus veiðimaður. Hvergi leið mér betur en við straumvatn. Það laðaði, heillaði, og snart einhver djúp hið innra. Milli mín og vatnsins voru tengsl. Á menntaskolaárunum ákvað ég að ég ætlaði í líffræði og sérhæfa mig í vatnalíffræði. En eftir veikindi og lífsháska þegar ég var 19 ára sneri ég við blaðinu og í stað þess að læra allt um vatnið fór ég í guðfræðinám og lærði allt um vatn lífsins. En meðan blóðið hefur runnið um hjarta mér hefur vatnið farið þar um. Alla tíð hef ég heillast af vatni, hugsað um vatn, snert það, dáðst að því og leyft því að vera inntak, umhverfi, áhugaefni og dýrð. Vatni hefur aldrei farið en ég hef notið þess í öðrum skilningi en kannsi hefði orðið í líffræði. Ég hef skírt ótrúlegan grúa barna. Ég hef útdeild víni sem er vatn i altarisgöngum. Ég hef reynt að túlka hið lifandi vatn himins á jörðu í ræðu minni og starfi. Ég er af vatni, þjóna vatni, nýt vatns og leyfi vatninu að heilla og næra mig.