Mannamál

Ég heyrði smellina í kjallarakarlinum þegar hann var á leið upp stigann. Hann skellti lausa tanngarðinum upp í efri góminn við hvert tröppuskref. Munnmúsíkin boðaði vindlareyk, ræðuhöld og kaffidrykkju í eldhúsinu okkar. Hann kom sér fyrir í pabbastólnum við borðsendann í eldhúsinu. Mamma umbar hann þó hann væri hávaðasamur en húsmóðirin á miðhæðinni lokaði á hann. Mamma opnaði alla glugga til að reykurinn af Bjarnafrávogi- og Hofnar-vindlunum hans bærist sem fyrst út, gaf honum sterkt kaffi og hlustaði svo á hann, talaði lítið og andmælti sjaldan. Hann talaði niður komma og aðra heimskingja heimsins, sagði frá verktakasnilld sinni og stórlöxum sem hann hafði veitt. Þegar hann var búinn að reykja, drekka tvo bolla og nota þúsundir orða til að tala niður heimsósómann stóð hann á fætur og lagði af stað ofan frá efri hæðinni í þríbýlishúsinu og niður í kjallaraíbúð sína. Hann gómsmellti líka alla leið niður og lokaði á eftir sér þegar hann fór úr forstofunni okkar kjallaramegin. Reykurinn, reiðin og orðin liðuðust um íbúðina. Mamma pírði augu lítillega þegar hún loftaði út og hreinsaði hugann. Ég þagði.

Svo hringdi elsti bróðir mömmu oft í hana rétt eftir að karlinn var farinn. Þá settist hún niður og hallaði sér aftur í símastólnum á ganginum. Það brakaði lítillega í stólnum þegar hún teygði úr fótum. Hún hélt svörtu símtólinu að betra eyranu. Glaðværðin streymdi úr tækinu og kaffiþjónninn umbreyttist í káta unglingssystur. Hún skellti á læri þegar stóri bróðir sagði henni sögur úr Svarfaðardal og hló hjartanlega. Þegar hún lagði á brosti hún, stóð svo á fætur og undirbjó hádegismatinn syngjandi.

Pabbi kom heim í hádeginu með steypulykt í hárinu. Mamma baðaði hann blíðuorðum sem linuðu orðlausa þreytu hans. Mamma fékk málið þegar skrúfað var fyrir útvarpið eftir hádegisfréttir. Hún talaði við pabba og okkur systkinin með hlýjum umhyggjuorðum, ólíkum þeim sem hún notaði í vindlakófinu.

Vinkonur mömmu, reyklausar og jákvæðar, komu oft í heimsókn og fengu síðdegiskaffi. Ég lék mér á gólfinu að leikföngum mínum en leit stundum upp og horfði á varir þeirra, hvernig þær geifluðu þær og bleyttu með tungunni. Orðasveimur þeirra var mismunandi. Sumar töluðu mikið en aðrar vönduðu sig við svör og spurningar. Nokkrar smjöttuðu á orðum sínum og þótti gaman að hlusta á sjálfar sig. Þær klöppuðu á koll minn, létu nokkur orð falla en töluðu ekki við mig enda svaraði ég ekki. Ég horfði í augu þeirra, íhugaði og þagði.

Einn morguninn kom kjallarakarlinn og var vanstilltur. Gómasólóið var hávært þann daginn og óvinir heimsins, kommarnir, fyrirferðarmiklir. Svo sagði hann: „Hann talar ekkert þessi drengur þinn! Er hann eitthvað skertur?“ Roði spratt fram í kinnum mömmu sem svaraði með snöggu nei-i. Þegar gómsmellirnir hljóðnuðu fór hún niður tröppurnar og læsti. Hún opnaði ekki kjallaradyrnar næsta dag og ekki heldur næstu vikur. En mamma var eins og Guð, gaf annan séns en var að lokum nóg boðið og lokaði endanlega. Reykurinn hvarf og taktföstu gómahljóðin líka.

Mörgum árum síðar sagði mamma mér að ég hefði verið seinn til máls og ekki talað fyrr en þriggja ára. Hún hefði verið orðin áhyggjufull um drenginn sinn. Spurning karlsins í kjallaranum hefði því meitt hana. En skömmu síðar hefði ég allt í einu byrjað að tala. Ég hefði raðað orðunum fallega og heilastarfsemin virtist eðlileg. Ekkert babl heldur skýrar og meitlaðar setningar. Ég hefði verið altalandi og orðaforðinn furðumikill. „Hefurðu einhverja skýringu af hverju þú talaðir svona seint?“ spurði hún. Já, ég mundi vel ástæðuna. Ég horfði á munnana, varirnar, vindlana, hlustaði og hugsaði. Ég ímyndaði mér að öllum væri skammtaður hámarks fjöldi orða rétt eins og allir lifðu ákveðinn tíma. Orðin væru takmörkuð gæði. Kvótinn gilti fyrir alla og orð væru dýr. Ég ætlaði ekki að misnota orðin mín heldur nota þau vel.

13. október 2024

Helgi Gíslason

Helgi Gíslason bauð mér í heimsókn á vinnustofu sína í Gufunesi. Helgi var í stuði og ég gleymdi bæði tíma og sjálfi og varð pínlega seinn á fund síðdegis! En þakkarvert, skemmtilegt og nærandi er flæðandi samtal um mikilvægustu málin; listina, sjálf, trú, orð, hrifvalda, lífgjafa, tengsl, ódeili og eilífð, efni, dýptir, ógn, ljós – já stóru stefin í lífinu. Svo skoðuðum við seríu Helga um píslarstöðvar. Ég var með myndavél í fanginu og ýtti stundum á tökutakkann og nokkrar myndir lifðu eftir samtalið sbr. þessar meðfylgjandi. Ekki aðeins magnaður myndlistarmaður Helgi heldur líka hrífandi persóna í samtali. .

Tallinn-undrið

Danski fáninn féll af himni og Danir unnu orrustuna. Leiðsögumaður okkar í Tallinn í Eistlandi fór á kostum, lýsti undri frá 13. öld og það fór mýtólógískur skjálfti um tilheyrendur. Sögurnar voru skemmtilegar og hlátrarnir hljómuðu. Ég sneri mér við og tilbúinn í fleiri ævintýri. Og þá sá ég Pál í Húsafelli, þann stórkostlega listamann, og við Elín mín eigum meira segja skúlptúr eftir hann. Svo sá ég Helga í Lúmex og kirkjusmið, sem ég dái mjög. Hann hefur ljóshannað tvö hús, sem ég hef átt. Svo var þarna Dagný, prestsfrú, í Reykholti, forkur og sérlega skemmtileg kona. Þar sem hún fer er ekki lengi að bíða Geirs Waage. Jú, hann kom í sínu fínasta pússi. Dannebrog féll á Tallinn og þessir vinir mínir birtust sprelllifandi og með nokkra Dannebrog-furðu í augum. Þessir riddarar himinsins féllu ekki af himni si svona og fluvélalaust niður á kastalahæðina í Tallinn, heldur voru þau til að fagna opnun húss til heiðurs Arvo Pärt sem ég met flestum tónskáldum meira. En dóttir Dagnýjar og Geirs er tengdadóttir meistarans Pärt. Heimurinn lítill? Nei, hann er stór og fullur af ævintýrum. Undrin verða á hverjum degi og okkar er að njóta. Takk fyrir líf dásemdanna.

Minning frá 13. október 2018. 

Jarðljós

Gerður Kristný kom í gættina hjá okkur, brosti og rétti fram nýjustu ljóðabókina, Jarðljós. Bókin brosir við manni og opnar faðminn ákveðið og innilega. Ég las bókina alla í gærkvöldi og svo aftur í dag. Og stefni að því að lesa hana alla á morgun því hún hún á margþætt erindi. Og þannig eru góðar bækur og allar sem við köllum klassískar.

Það er kyrra í þessari bók, ekki stilla eða lognmolla heldur fremur laðandi dýpt. Bókin er ekki ljóðabálkur heldur í stefjum og hlutum. Gerður Kristný fer víða. Hún vitjar hörmulegra atburða, náttúruundra, níðingsverka, ljóðar um kraftaverk og ljósbrunna lífs og veralda. Hún er snillingur merkingarsnúninga – alvöru skáld hefur smekk og getu til slíks. Gott dæmi er ljóðið Blíða:

Himinsvellið brestur

sólin laugar sveitir

leysir ísa

stuggar burt skuggum

 

Enn erum við minnt á

að við fæðumst úr myrkri

og hverfum um síðir

þangað aftur

 

Um stundarsakir

lögum við okkur

að ljósinu

Gerður Kristný vinnur oft með sögulegt efni og líka inntakið í goðsögum. Þegar hún vísar til einstaklinga er merking þeirra og lífs fléttuð svo sagan verður ávirk og kemur okkur við. Mér þótti vænt um hve mörg ljóðanna voru táknsterk. Ljóðlist Gerðar Kristnýjar er marglaga og djúpið að mínu viti í þeim er trúarlegt, ekki í þröngri merkingu heldur víðfeðmri. Veröld Gerðar Kristnýjar er ekki einföld heldur litrík og þrungin merkingu. Í henni eru undrin ekki gestir. Og minni trúarbragðanna eru nýtúlkuð og smellt í skapandi samhengi. Þessi ljóð smætta ekki heldur opna möguleika og leiðir. Biblíuleg dauða- og lífs-saga verður í meðförum hennar hnyttin nútímasaga. Í þessari bók er laðandi efni sem á örugglega eftir að rata í jólahugleiðingar. Frábær bók og ég segi takk fyrir mig og mun áfram ausa af þessum ljósabrunni.  

Starf Skálholtsskóla og framtíðin

Ég rakst á þessa grein mína um breytingar á Skálholtsskóla í því skemmtilega riti Litla Bergþóri. Greinin, sem ég var löngu búinn að gleyma að ég hefði skrifað, var ætluð Árnesingum og til að veita upplýsingar um starfshætti, uppbyggingu og byggingaáform í Skálholti árið 1989 og árin á eftir. Forsendur og stefnumál eru skýrð og greinin veitir því ljómandi upplýsingar um sögu skólans og Skálholts fyrir 35 árum. Greinin er hér að neðan. 
Starf Skálholtsskóla og framtíðin

Góður maður spurði mig, hvort nokkur starfsemi væri Skálholtsskóla í vetur. Hann sagði mér einnig, að sveitungar okkar spyrðu sig hins sama. Þessu er til að svara, að um 700 manns hafa sótt námskeið og verið á ráðstefnum í skólanum í vetur. Flestir þessara hafa verið þátttakendur á námskeiðum, sem skólinn hefur staðið fyrir. Að auki hefur skólinn gengið til samstarfs með ýmsum aðilum og haldið námskeið. Þriðji hópurinn hefur síðan fengið aðstöðu í skólanum fyrir námskeið. Fjórði hópurinn, sem ekki er talinn með hér, eru fundarmenn á alls konar fundum, s.s. nærsveitungar á aõalfundi sauðfjárræktenda og undirbúningsfundir um Farskóla Suðurlands og annað í þeim dúr. Er mjög gleðilegt, að heimamenn finni sig æ betur heima í Skálholtsskóla. Það hefur verið yfirlýst stefna mín, að opna skólann fyrir starfsemi heimamanna. Dæmi um þetta eru kvöldnámskeið, sem hófust fyrir rúmlega tveimur árum.

Viðgerðir og ný skólastefna

Síðasta skólaár var skólahlé þrátt fyrir fjölda námskeiða. Þegar ég kom til skólans fyrir tveimur og hálfu ári, markaði ég þá stefnu að reka þrenns konar skólastarfsemi: heimavistardeild, kvöldfræðslu og standa fyrir námskeiðum. Ég hugsaði hina síðari þætti sem tilraunastarf í ljósi þess, að heimavistardeildin átti undir högg að sækja. Reynslan sýndi einnig, að Skálholtsskóli átti við sama vanda að stríða og margir aðrir heimavistarskólar. Nemendur þeir, sem sóttu til skólans, þörfnuðust meiri þjónustu en skólinn hafði mannafla til. Skólanefnd ákvað því, að reka ekki heimavistarnám 1988-89. Samþykktu menntamálaráðherrar áætlanir skólanefndar. Var ákveðið að nota hluta kennslukvóta til viðgerða á húsnæði skólans og móta nýja skólastefnu. Að þessu tvennu hefur verið unnið og gengið vel. Margir hafa undrast, að skólanum skyldi hafa verið úthlutuð rífleg fjárveiting á árinu1989. Skýringin er einföld. Skólahúsinu var aldrei lokið og viðhald var mjög lítið. Eftirlitsmenn ráðuneytis gerðu sér grein fyrir hinum miklu skemmdum, sem voru að verða vegna viðhaldsleysis. Niðurstaða margra funda var sú, að ráð væri að gera átak í viðhaldsmálum og fékkst góð fjárveiting á árinu til að ljúka skólabyggingunni og koma í gott horf.

Lok byggingaframkvæmda

Þá hefur Kirkjuráð samþykkt, að ljúka byggingu skólans til að skapa betri rekstrarmöguleika og auka fjölbreytni í skólahaldi. Standa nú yfir samningar við ráðuneyti um fjárveitingar til þessa. Viðbygging verður teiknuð á árinu og framkvæmdir væntanlega hafnar á næsta ári. Áætlað er, að byggja heimavistarálmu með 20 herbergjum til viðbótar beim 10, sem fyrir eru. Þá er áætlað, að byggja fjölnota sal fyrir ráðstefnur, sýningar, kennslu og létta leikfimi. Samtengt þessum sal verði bókasafn. Þá verður byggð lítil starfsmannaíbúð. Allir, sem nálægt rekstri skólans hafa komið, þekkja hversu rekstareiningin er lítil og hve starfsemi er þröngur stakkur skorinn. Þessar viðbyggingar munu tryggja, að hinn ytri rammi verði hagkvæm eining, sem gefur kost á mjög aukinni starfsemi. Þessar viðbyggingar eru forsenda þess að hin nýja skólastefna nái fram að ganga.

Ekki felldur niður – heldur efldur 

Steinsteypa og rammi eru ekkert ef hjartsláttinn vantar. Skálholtsskóla verður breytt mjög. Lýðháskóli verður ekki lagður niður heldur efldur. Menn spyrja sig, hvað Skálholtsskóli sé og hafa horft mjög á rekstur heimavistardeildar. Lýðháskóli er ekki heimavistardeild heldur hugsjónastarf, mannrækt í anda þeirra tveggia þátta, sem fram koma í markmiðsgrein skólans: „Að starfa í anda kristinnar kirkju og þjóðlegrar menningar – arfleifðar okkar Íslendinga.“ Þó nú verði gerðar breytingar á starfi skólans, hefur enginn hug á að yfirgefa lýðháskólastarf heldur laga það að nútímaþörfum, bæði hvað varðar inntak og starfshætti. Fjallað verður um hagnýt efni annars vegar og hins vegar verða í stað vetrarlangs námskeiðs haldin stutt námskeið, frá tveimur dögum og allt að einum og hálfum mánuði. Ef aðstæður breytast og þegar húsnæði skólans er orðið meira er engan veginn útilokað að heimavistardeild verði stofnsett að nýju. Er rætt m.a. um lýðháskólanám í fimm Norðurlöndum og verði Skálholtsskóli einn skólanna, sem taki pátt í þeirri áætlun. 

Arfur Íslendinga – samtíð og trú 

Segja má, að starfsemi skólans frá hausti 1989-90 verði þrenns konar. 

Í fyrsta lagi verður fjallað um íslenskan menningararf og tungu. Fjallað verður um átrúnað, bókmenntir, þjóðhætti og siði, listir o.fl. Þá verður efnt til námskeiða fyrir útlendinga um arf okkar. Skólinn verður m.a. gluggi útlendra manna til íslensks þjóðararfs, sem er næsta eðlilegt vegna sögu Skálholtsstaðar.

Í öðru lagi verða á dagskrá ýmis samtíðarmál. Efnt verður til námskeiða um deiglumál, hvert íslensk menning stefnir og ætti að stefna. Þá verður reynt að þjónusta nærsveitunga og Sunnlendinga eftir megni. Haldið verður áfram kvöldfræðslu. Gengið verður til samstarfs við Farskóla Suðurlands. Þá hefur skólanefnd fagnað áformum um stofnun Lista – og menningarsamtaka Suðurlands, sem Hjörtur Þórarinson hefur barist fyrir að yrðu stofnuð og ættu samastað í Skálholti. Mun skólinn reyna að veita þessari hugmynd brautargengi. Ljóst er að fjöldi námskeiða um átakaskeið ævinnar verða á dagskrá. Hjónanámskeið skólans hafa gefið góða raun. Áform eru um, að halda námskeið, sem nýst gætu fólki, sem er að glíma við nýjar aðstæður og ný hlutverk. Reynt verður að spanna lífsskeiðin frá þrítugsaldri og til elli.

Í þriðja lagi verður efnt til kirkjulegra samfunda. Komið hefur í ljós að þörf er fyrir kyrðardaga. Í haust mun verða haldið námskeioð fyrir verðandi leiðtoga og síðan verða kyrrðardagar haldnir reglulega. Í annan stað mun skólinn efna til námskeiða fyrir starfsmenn safnaða, s.s. sóknarnefndarmenn. Þá verða haldin námskeið fyrir leikmenn um ýmis efni, fyrir presta og þau sem sinna trúfræoðslu, t.d. fóstrur, kennara o.fl. Ráðstefnur, s.s. akademíur, vera ennfremur á dagskrá.  

Framtíð og samvinna 

Gróðrartími í Skálholti er hafinn. Eins og fræið fellur í myrkan svörðinn, spírar í kyrrð og myrkri hefur uppbygging farið fram með kyrru. Nú er komið að sprettutíð Skálholtsskóla. Skólinn tekur stakkaskiptum á árinu bæði hið ytra sem og hið innra. Ég vonast til, að kalblettir verði engir og starf hans verði okkur öllum til blessunar. Skólinn er líka vettvangur fyrir þig, sem lest þessi orð. Þú mátt vita, að hann er opin stofnun. Reynt er að koma til móts við óskir heimamanna. Raunar þarfnast hann þess, að í héraði sé hópur fólks, sem tekur pátt í starfi hans og slær vörð um hann. Verður í þessu sambandi að minna á mikið og fórnfúst starf Arnórs Karlssonar frá upphafi Skálholtsskóla. Breyting á starfi skólans gerir það mögulegt, að þjónusta heimamenn betur en áður. En slík þjónusta verður þá fyrst marksækin, ef heimamenn sýna frumkvæði og leita eftir henni. Með þökk fyrir umhyggju, fyrirspurnir og störf margra heimamanna síðastliðið ár. 

Bestu kveðjur, Sigurður Árni Þórðarson

„Starf Skálholtsskóla og framtíðin“ (Litli Bergþór, 2. 10. árg. 2. 1989)