Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid

Daginn eftir forsetakjörið árið 2016 fórum við hjónin að heimili Elizu Reid og Guðna Th. Jóhannessonar til að fagna kjöri hans. Þann dag komu sænskir vinir okkar í heimsókn frá Svíþjóð. Þau spurðu okkur hvað við ætluðum að gera síðar um daginn. Við sögðum þeim að við færum að hylla hinn nýkjörna og spurðum hvort þau vildu koma með. Þau spurðu að hætti sænskra regluvarða: „Eruð þið bókuð og á boðslista? Þarf ekki að tilkynna okkur til öryggislögreglunnar?“ Við hlógum og upplýstum þau um slaka og almannafrið á Íslandi. Svo voru þau með okkur í garðinum á Nesinu og birtust síðan á forsíðum sænskra fréttamiðla. Ástvinir og vinir þeirra sænsku hringdu til þeirra andstuttir og upplýstu þau um frægð þeirra í krafti Guðna og Elizu. Og vinum okkar þótti ekki verra að segja að þau væru búin að taka í hendina á nýkjörna forsetanum sem löndum þeirra þóttu ótrúleg tíðindi. En í þessu kjarnast munur á tengslum sænsks kóngs við þjóð sína og forseta á Íslandi við almenning. Sænsku vinir okkar voru hugsi yfir nánd almennings og þjóðhöfðingja. Þau höfðu þörf fyrir að tala um forsetakjörið á Íslandi. Svo sagði vinur okkar: „Gerið ykkur grein fyrir hvað það er merkilegt að fá að kjósa þjóðhöfðingja? Við sitjum bara uppi með kóng og getum ekkert gert og engu breytt. Ég vildi að ég gæti valið mér þjóðhöfðingja. Þið eigið gott – þið Íslendingar.“ Og við urðum hugsi og viðurkenndum að okkur þætti sjálfsagt að kjósa þjóðhöfðingja. Það er þakkarvert en ekki sjálfsagt að við getum valið fulltrúa okkar og ráðið málum okkar sjálf. Það er eitt af þessu stórkostlega og mikilvæga í okkar samfélagi að kjósa, að velja sér stefnu og velferð. Við veljum fólk til forystu og við völdum Guðna Th. Jóhannesson til forseta og fengum Elizu Reid að auki. Guðni hefur verið góður forseti, dugmikill túlkandi, rödd viskunnar og sendifulltrúi menningardýpta. Nálægur og öflugur, húmoristi og spakur, hlýr og eflandi. Og Eliza hefur uppfært hlutverk forsetamaka með áhugaverðum hætti. Lof sé þeim báðum og takk fyrir þjónustu þeirra. Svo hef ég samúð með fræðimanninum Guðna sem þarf næði og hlé frá asa og erli til að halda inn í leyndarskjalasöfn menningarinnar og skrifa síðan. Forseti farinn en fræðimaðurinn kominn.

Meðfylgjandi mynd er úr Hallgrímskirkju 30. október 2016. 

Jerúsalem – kvikmynd Billie August

Kvikmyndin Jerúsalem byggir á samnefndri sögu sænsku skáldkonunnar Selmu Lagerlöf sem kom út í tveim bindum á árunum 1901-1902. Sagan fjallar um raunverulega atburði og segir frá því þegar hópur bændafólks frá Nås í sænsku Dölunum fluttist til Jerúsalem árið 1896 til að mæta Kristi þegar hann kæmi aftur. Lítil frétt í blaði um þennan atburð vakti áhuga Selmu Lagerlöf og hún fór bæði til Nås og Jerúsalem til að kynna sér aðstæður og leita svara við því hvað fékk bændur úr Dölunum til að rífa sig upp með rótum og halda á vit óvissunnar suður í Palestínu..

Söguþráður

Í upphafi myndar Billie August er dregin upp mynd af fábrotnu bændasamfélagi, sem tekst á við erfiða lífsbaráttuna. Undir niðri ríkir upplausn því þetta litla samfélag vantar bæði andlegan og veraldlegan leiðtoga eftir að foringi þess fórst við að bjarga börnum á fleka á beljandi fljóti. Dag einn kemur Hellgum, sænsk-amerískur predikari til sögunnar, leikinn af þeim magnaða Sven Bertil Taube. Með mælsku sinni hefur hann mikil áhrif á einstaklinga sem og bændasamfélagið í heild og fær að lokum hóp fólks til að selja eigur sínar og fylgja sér til Jeúsalem í von um frelsun þegar Jesús kemur aftur.

Inn í myndina fléttast ástarsaga tveggja aðalpersónanna, Ingmars, sem leikinn er af Ulf Friberg, og Gertrud, sem Maria Bonnevie leikur. Þau alast upp saman eftir að Ingmar hefur misst foreldra sína. Þegar ástin kviknar milli þeirra ákeður Ingmar að fara í skógarhöggsvinnu til að vinna sér inn peninga svo hann geti tekið við ættaróðali fjölskyldunnar og orðið leiðtogi í sveitarsamfélaginu líkt og faðir hans hafði verið og sveitungar hans reiknuðu með. Á meðan bíður Gertrud þolinmóð. Framtíðin virðist björt. Allt fer þó á annan veg. Karina eldri systir Ingmars, sem leikin er af eiginkonu leikstjórans Pernillu August, hefur búið á ættaróðalinu allt frá dauða föður þeirra. Hún verður fyrir sterkum áhrifum af predikun Hellgum og ákveður að selja óðalið og halda til Jerúsalem með fjölskyldu sína. Kaupandinn er bóndinn Persson. Í örvæntingu sinni svíkur Ingmar Gertrud og ákveður að giftast Barbro, dóttur Perssons (Lena Endre), til að bjarga óðalinu. Niðurbrotin er Gertrud auðveld bráð fyrir Hellgum og slæst í för með honum til Jerúsalem eftir að hafa séð Jesú í sýn.

Sveitarsamfélagið í Nås er nú enn sundraðra en fyrr og pílagrímanna í Jerúsalem beið allt annað en þeir höfðu vænst. Umhverfið var framandi og við tók erfið barátta með vonbrigðum og efasemdum. Barbro gerir sér hins vegar smám saman grein fyrir því að hún hafði farið illa með annað fólk og brotið á þeim. Hún vill reyna að bæta fyrir það og hvetur Ingmar til að fara til Jerúsalem og sækja Gertrud.

Trúarstef

Bille August sagði að kvikmyndin Jerúsalem væri í hans huga ekki trúarleg mynd heldur ljóðræn ástarsaga. Þó að rétt sé að myndin sýni ástarsögu þá fjallar hún ekki síður um mátt trúar og vonar í lífi fólks. Hún vekur einnig upp ýmsar spurningar um heimsslitavæntingar, endurkomu Krists, eðli guðsríkisins ásamt því að fjalla um mikilvæg guðfræðileg stef, s.s. synd og frelsun, ósætti og sátt, glötun og eilíft líf. Myndin segir frá venjulegu fólki, aðstæðum þess, samskiptum og örlögum. Hún dregur fram meginstef manlegrar tilveru og fjallar um trú og efa, kærleika og svik, von og örvæntingu, sekt og fyrirgefningu. Styrkur myndarinnar er m.a. sá að hún lýsir því hvernig þessir þættir koma fyrir í lífi og samskiptum fólks án þess að fella dóma um verk þess. Áhorfendur geta því dregið lærdóm af reynslu og viðbrögðum ólíkra einstaklinga.

Sálfræðileg efnistök myndarinnar eru ekki síður sannfærandi. Góður leikur dregur þá hlið vel fram. Sálarástand og tilfinningaglíma aðalpersónanna skilar sér vel. Þunglyndi Gertrud eftir að henni var hafnað er þrúgandi. Ólæknuð sár Karin skína í gegn þrátt fyrir að hún reyni að halda yfirborðinu sléttu og felldu. Barbro þarf að horfast í augu við sjálfa sig, gjörðir sínar og þjáningu og togstreitu Ingmars og það kostar innri átök. Hellgum nær sálrænum tökum á ráðvilltum einstaklingum með sefjunarmætti sínum. Þótt úrvinnslan sé sálfræðileg er hún einnig trúarleg og kemur m.a. fram í því þegar Jesús birtist Gertrud við vatnið og Karin virðist loks finna frið í Jerúsalem þótt hún hafi misst allt sem henni var kærast. Viðbrögð Ingmars þegar þjáningu hans er létt og Barbro hafði fætt honum son sýna hið sama.

Myndin fjallar þó ekki bara um sálarástand og samskipti fólks og afleiðingar þeirra heldur sýnir hún jafnframt hvernig ytri aðstæður þess hafa áhrif á líf þess og örlög og hve auðvelt það getur verið fyrir sterka persónuleika að misnota trú og traust fólks. Undir niðri býr þó spurningin sem Ingmar spyr systur sína þegar hann er kominn til Jerúsalem: Hver er það sem stjórnar lífi hvers? Það er áhugaverð tilvistarspurning sem á bæði við efni kvikmyndarinnar Jerúsalem og líf okkar flestra.

Í mynd Augusts er mikill fjöldi fólks sem áhorfandinn sér en kynnist ekki nógu vel til að geta skilið orð þess og athafnir. Nokkrar persónur eru þó eftirminnilegar og setja sterkan svip á myndina enda leikur flestra leikaranna afbragðsgóður. Hellgum, predikarinn gustmikli, er sterk persóna enda nær hann tökum á mörgum í sveitinni og fær fólkið með sér í Jerúsalemreisuna. Einhverjum kann að finnast að verið sé að gera lítið úr eða hæðast að vakningapredikurum og guðlegri köllun. Sú er þó ekki raunin.

Hellgum er fyrst og fremst dæmi um mælskan einstakling sem kann að notfæra sér aðstæður. Um leið er hann verkfæri í annars höndum. Honum tekst að gefa ráðvilltu sveitarsamfélagi ramma til að túlka veruleika sinn út frá. Sá rammi er hins vegar allur málaður með svörtum og hvítum litum. Ábyrgð sterks leiðtoga er mikil. Hann getur fallið í þá gryfju að hlutgera syndina í aukaatriðum og jafnvel leitast við að þurrka út persónueinkenni áhangenda sinna í stað þess að leiða fólk fram til þroskðarar trúar sem tekur Guð alvarlega mitt á sviði hins daglega lífs.

Ingmar er aumkunarverð persóna. Á honum hvílir sú mikla ábyrgð að feta í fótspor föður síns og verða leiðtogi bændanna í héraðinu. Aðstæður haga því þannig til að hann þarf að gera upp á milli ábyrgðarinnar gagnvart sveitarsamfélaginu og eigin tilfinninga til Gertrud. Það uppgjör hefur mikil áhrif bæði á líf hans sjálfs og fjölda annarra. Greinilegt er að Ingmar vill bæði gera það sem hann telur rétt en líka forðast að særa nokkurn. Að ná hvoru tveggja í senn er ekki einfalt mál fyrir hann fremur en aðra sem lenda í svipuðum aðstæðum. Að axla ábyrgð á eigin mennsku og manndómi er aldrei einfalt og sjaldnast augljóst í hverju skylduræni og manndómur felst.

Þrjár konur setja sterkan svip á myndina. Þar fer Gertrud fremst í flokki. Leikur Mariu Bonnevie er áhrifamikill. Með svipbrigðum og látæði sýnir hún vel sálarástand Gertrud og þær tilfinningar sem búa undir yfirborðinu, bæði vonir hennar og trúarvissu og ekki síður sársaukann, vonbrigðin og þunglyndið sem fylgja höfnuninni. Trúarleg einlægni blandast síðan sjúklegu ástandi og hún virðist ekki alltaf greina á milli raunveruleika og draums. Athyglisvert er að bera saman mynd hennar við upphaf myndarinnar og lok. Hún er einlæg, saklaus og lífsglöð í upphafi en við endi hefur erfið reynslan sett mark sitt á hana og sakleysið og lífsgleiðin virðast horfin.

Barbro er einnig áhugaverð persóna. Henni hafði hlotnast það sem hún hélt að væri ómögulegt, þ.e. óðalið og Ingmar, en sér jafnframt hverju hún hefur komið til leiðar með því að fótumtroða tilfinningar hans og Gertrud. Líf hennar er því óbærilegt, ást hennar til Ingimars fjötrar og henni finnst hún vera ofurseld ættarbölvun. Hún skilur þó að lokum mikilvægi þess að gera upp og vill jafnframt gera gott á ný það sem hún hafði eyðilagt, jafnvel þótt það kosti hana allt sem henni hafði hlotnast. Barbro er þannig margbrotin og sérstæð persóna sem dregur lærdóm af gjörðum sínum. Innst inni þráir hún sátt við sig og umhverfi sitt. Þegar þeirri sátt er náð er hún laus úr fjötrum ótta og bölvunar.

Þriðja konan er Karin, eldri systir Ingmars. Hún hefur þurft að þola marga raun og virðist líða vegna óuppgerðs sársauka og sorgar og óheilinda við bróður sinn. Hún þráir frið og tekur því fegins hendi á móti boðskap Hellgum og lítur á hann sem bjargvætt í lífi sínu. Hún væntir lausnar í Jerúsalem en verður fyrir enn meiri raunum og vonbrigðum þegar hún missir það sem henni er kærast, dóttur og eiginmann. Var vonin um frelsun og frið í Jerúsalem þá bara blekking? Í Karin endurspeglast þrá fólks eftir að finna vilja Guðs sem oft reynist svo torskilinn, þrá eftir ást Guðs sem virðist svo fjarri í hörðum heimi, þrá eftir að finna þá „Jerúsalem“ sem býr yfir lausn sem gefur frið við Guð og menn.

Myndin Jerúsalem lyftir upp og spyr fjölda spurninga um líf og samskipti fólks á öllum tímum, trú þess, von og kærleika, örlög þess og hinstu rök tilverunnar. Undir lok myndarinnar er lítið barn skírt. Í þeim gjörningi er svar við mörgum spurningum myndarinnar. Ósjálfbjarga menn í hörðum heimi finna sátt og frið við Guð, sjálfa sig og sín á milli vegna elsku Guðs, hverjar svo sem ytri aðstæður þeirra og örlög eru.

Leikstjóri: Bille August

Handritshöfundur: Bille August eftir samnefndri skáldsögu Selmu Lagerlöf.

Helstu leikarar: Maria Bonnevie, Ulf Friberg, Pernilla August,  Lena Endre,  Sven-Bertil Taube, Reine Brynolfsson, Jan Mybrand, Max von Sydow, Olympia Dukakis, Björn Granath, Viveka Seldahl, Sven Wollter, Johan Rabaeus, Mona Malm, André Beinö

Framleiðsluland: Svíþjóð

Framleiðsluár: 1996

Lengd: Kvikmynd: 168 mín. Sjónvarpssería: 220 mín.

Trúartextar:1M 2, Sl 52:2, Sl 139:9, Mt 7:14, Mt 10:37, Mt 18:3, Mt 28:18-20, Mk 13:13, Jh 10:12, Jh 20:29, Rm 6:23, Opb 19:7-8, Opb 21:10, Opb 22:17

Hliðstæður: 1M 2, Mk 6:48, Opb 21-22

Persónur í trúarritum: Jesús Kristur, Jóhannes skírari, Jóhannes postuli, Pontíus Pílatus

Guðfræðistef:

brúður Krists, bölvun, Eden, efi, eftirfylgd, eilíft líf, eldur, endurkoma Krists, engill, falsspámaður, freistingar, frelsun, fyrirgefning, glötun, heilagur andi, heimsslit, helvíti, hin nýja Jerúsalem, hreinleiki, iðrun, kraftaverk, kross Krists, kærleikur, köllun Guðs, lífsins vatn, náð, náðargjöf, opinberun, paradís, refsing Guðs, réttlæti, rödd Guðs, satan, sekt, sköpun, synd, trú, útvalning, vantrú, vegir Guðs, yfirbót, þrenningin

Siðfræðistef: Andleg kúgun, félagslegur þrýstingur, fórn fyrir aðra, flokkadrættir, fyrirgefning, heimshöfnun, náungakærleikur, ofbeldi, óvinátta, réttlæti, ritskoðun, skilnaður, útskúfun

Trúarbrögð: gyðingdómur, helgunarfjölskyldan, islam, kristni, lútherska kirkjan

Helgistaðir: kirkja, moska, trúboðshús, vígð mold

Trúarleg tákn: harpa, kross, skeifa

Trúarembætti: prestur, predikari, spákona

Trúarlegt atferli: bæn, fyrirbæn, pílagrímsför, píslarganga, sálmasöngur, skírn, trúarsamkoma

Trúarleg reynsla: afturhvarf, köllun, opinberun, sýn

Upprunalega skrifað fyrir kvikmyndavefinn www.dec.is

Kennimyndin að ofan er af Grátmúrnum í Jerúsalem. 

Eru eignir einkamál

Hversu miklar eignir áttu? Má spyrja þig svona spurningar? Tilgangurinn er ekki að fá tölur eða upplýsingar um fasteignir heldur biðja þig að íhuga afstöðu þína til eigna þinna og stöðu þinnar. Hver er lífsleikni þín og hvaða afstöðu opinberar peningahyggja þín?

Við megum gjarnan spyrja okkur líka hvort það sé einkamál fólks hversu ríkt það er? Skatturinn telur að svo sé ekki og þú eigir að gefa allt upp, það sem þú átt innanlands en líka í skattaskjólunum – allt þitt. Og hvað gerir þú við þetta fé? Ef þú átt hundrað milljónir er það ekki bara einkamál þitt hvernig þú notar þær? Eða getur verið að einhver siðleg krafa sé á þeim sem eiga?

Til hvers eru eignir? Getur verið að við höfum skyldu að gegna gagnvart einhverjum öðrum en sjálfum okkur varðandi peninga okkar og fjármuni? Það er hagnýtt að draga í þessu sambandi fram andstæðuna og slagorð frá liðinni öld: Löglegt en siðlaust. Það er löglegt að hugsa bara um sjálfan sig í notkun fjár en það er hins vegar siðlaust að hugsa bara um sjálfan sig og gleyma öllum hinum. Börnin, framtíðarkynslóðir, eiga kröfu á hendur okkur um góða meðferð eigna, já hvernig við lifum. Löglegt og siðlegt er andi kristninnar.

Fjármálasnillingurinn Jesús

Guðspjall dagsins er um eignir og og notkun þeirra. Og það hét á gömlu tungumáli Biblíunnar, ráðsmennska. Jesús segir sögu, eina af 38 dæmi- eða líkingasögum sem miðlað er í Nýja testamentinu. Og merkilegt er að Jesús talaði enga lífsfjarlæga himnesku heldur notaði hann ræðutíma sinn og fræðslustundir til að vekja fólk til vitundar um hagnýt mál og að það skipti máli hvernig við lifum, hugsum, tölum og störfum. Mörgum, sem lesa í Biblíunni, kemur á óvart hversu oft Jesús talar um peninga. Helmingur smásagna hans varðar notkun á fjármunum! Jesús hugsaði um peninga, talaði um þá og var merkilegur fjármálaspekulant. Hann vakti athygli á hagfræði og hefði verið flottur í tímum viðskipta- og hagfræðideilda heimsins.  

Í guðspjalli þessa sunnudags segir Jesús frá peningamanni, sem var nappaður að því að fara illa með og fyrirtækið sem hann stýrði var í vondum málum. Honum var sagt upp en mátti vinna uppsagnartímann. Ráðsmaðurinn gat því ákveðið með hvaða móti hann skildi við fyrirtækið. Hann gafst ekki upp heldur sýndi snilldartakta, sem ekki voru þó í þágu húsbóndans heldur hans sjálfs. Hann kallaði í alla, sem skulduðu eitthvað og afskrifaði skuldirnar að nokkru. Og hver var tilgangurinn. Jú, karlinn gerði sér grein fyrir að staða hans yrði skelfileg þegar vinnutími yrði búinn. Hann yrði atvinnulaus og allir vanvirtu hann og sneru við honum baki. Hann var því fljótur að hugsa og ákvað að nota þennan uppsagnartíma í eigin þágu, láta eigandann blæða en hann sjálfur myndi græða. Tilgangurinn með skuldaafskriftunum var að ávinna sjálfum sér vináttu skuldaranna. Þegar hann væri orðinn atvinnulaus ætti hann greiða inni hjá þeim, hönk upp í bakið á skuldaraliðinu. Ameríkanar hafa löngum notað málsháttinn: „Scratch my back and I´ll scratch yours.“ Merkingin er einföld: „Gerðu mér greiða og ég endurgeld greiðann.“ Og það var og er inngreypt í fólk að þetta sé eðlilegt lögmál í samskiptum. Ég varð einu sinni vitni að því að maður vildi innheimta greiða sem hann hafði gert öðrum en beiðni hans var hafnað. Hann var furðu lostinn yfir að geta ekki sjálkrafa kallað á endurgjaldið eins og það væri í einhverju bandi sem hægt væri að kippa í.

Trúmennska og heiðarleiki

Jesús minir fólk á með sögu dagsins að gæta raunveruleikans og horfa á fólk með raunsæi. Orð Jesú, boðskapur hans er: Fyrir alla muni verið ekki kjánar, bláeyg börn, heilagir sakleysingjar. Verið vakandi gagnvart fólki! Og eigum við að hlusta á þessa Jesúspeki. Já, margir, jafnvel flestir eru aðeins með hugann við eigin hag, eigin dýrð, eigin fjármuni og velferð og láta sig litlu skipta um aðra. Flestir eru sjálfhverfir. Jesús talar því enga himnesku um eitthvað sem er ótengt lífinu. Trú á að vera raunhæf, með báða fætur á jörð og í veruleika mannlífsins. Ljóssins börn eiga að vera raunsæ á sjálf sig, annað fólk og hve lífið er margslungið. 

Jesús segir merkilega örsögu, sem fólk veit ekki hvort er ýkjusaga, brandari eða spekisaga. Fólk veit ekki hvort á að bregðast við henni með því  að hlægja eða taka hana alvarlega. En af því hún er tvíræð er hún áleitin og umhugsunarverð. Skilaboð Jesú virðast vera: Fylgist vel með hinum undirförulu. Verið það sem þau eru ekki, gerið ekki það sem þau gera. Í stað þess að láta peninga fylla huga og líf notið þá í annarra þágu. Þá verður til fjársjóður á himnum. Fylgist með Donald Trump, með Erdogan, með viðskiptamógúlunum, með stjórnmálamönnunum, hinum ríku, yfirvöldum, stjórnendum, embættismönnum – öllum sem hafa möguleika til að hagnýta sér aðstæður. Er allt gott og farsælt, sem þau gera. Misnota einhver vald sitt? Kunna þau að klóra breiðu bökin?

Markmið eða tæki

Kristnin hefur kennt allt frá tíma Jesú að fólk á að ekki að vera þrælar eigna sinna og aðstöðu heldur nota í þágu lífsins, í þágu allra, ekki síst þeirra sem eru þurfandi. Sannur yfirmaður lætur stjórnast af lífsafstöðu og góðu siðferði. Um allar aldir hefur það verið skýr og einfaldur Jesúleg lífsviska að tengja völd og gott siðferði. Hvort sem höfðingarnir vildu eða ekki. Það var og á að vera yfirmönnum og undirmönnum kristileg skylda að vera kunnáttusöm í lífsleikni og siðferði.

Er siðfræðin vanvirt sem uppistaða þroskaðrar lífsleikni? Við getum efast um að einhver siðferðisvídd sé fólgin í orðunum fjármagnseigandi, fjárfestir og forstjóri. Flestir skilja þó að farsæl stjórn fólks og fjár verður aldrei án gilda. Siðlaus stjórn drepur og veldur aðeins óbærilegri þjáningu. Stórfyrirtæki og stjórnvöld í Evrópu, Ameríku og um víða veröld setja sér því orðið siðareglur vegna þess að siðsemi – í viðskipum, stjórnun hvers konar -borgar sig þegar til lengri tíma er litið. Siðlaus fyrirtæki tapa alltaf á viðskipum. Stjórnvöld, hreyfingar og fyrirtæki sem ætla að lifa lengur en nokkur ár verða og ættu að setja skýrar reglur um viðmið, ferla og mörk.

Jesús dregur fram hve viðskipti eru lituð af sjálfselsku og að embættismenn geta verið uppteknir af eigin völdum, stöðu og fé og brugðist þar með störfum sínum og hlutverkum. Freisting valdamanna er að gerast egódólgar. Prettavitið getur orðið gríðarlegt, en þjónustan léleg og réttlæti fótum troðið. Guðfræði er til að hjálpa fólki við að gegnumlýsa kerfi og atferli og greina stefnu til góðs. Og trú er iðkandi lífsafstaða sem leyfir skarpskygni og siðvit varðandi hlutverk fólks í heimi og framtíð. Að trúa merkir ekki að tapa sér í einhverri himneskri glópsku, heldur að trúmaðurinn læri að horfa á heiminn með augum Guðs og vera samverkamaður og Guðs í veröldinni.

Hlutverk okkar er að vera sólarmegin og rækta með okkur líf og gæði. Við erum öll ráðsmenn í lífi okkar, stjórn, peningamálum, kirkju, samfélagi og náttúru.

9. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Textaröð A

Hvar er djásn íslenskrar náttúru?

Krúnudjásn Íslands er svæðið að fjallabaki – frá Skaftá að Tungnaá, frá Jökulheimum og að Mýrdalsjökli. Hvergi í veröldinni er hægt að sjá svo dramatískar hliðstæður og stórkostlegar eru náttúrusmíðarnar. Við Elín Sigrún Jónsdóttir fórum með fjórum öðrum í ævintýra- og lúxusferð á vegum Hauks Snorrasonar og Höddu Bjarkar Gísladóttur. Við gistum og nutum veislumatar í Hrífunesi, gengum talsvert og fórum um á fjallabíl þeirra hjóna. Þvílík forréttindi að njóta fagmennsku þeirra, alúðar, þekkingar og snilldar. Þessi þriggja sólarhringa ferð var einhver sú eftirminnilegasta sem við höfum farið. Samfélagið var frábært og sálin er full af auðmýkt gagnvart fegurð Íslands, undri lífsins og þakklæti. Myndskeiðið, sem er að baki þessari smellu, tók Jón Hilmarsson og Haukur Snorrason birti á síðu sinni. Við vorum þarna í bílnum sem Haukur ók yfir flæðarnar á Mælifellssandi sem eru afkvæmi Brennivínskvíslar og kannski aukins hita norðan Kötlu?

Biðukollur – öldrunartákn eða lífstákn?

Það er heillandi að lúta niður og horfa á biðukollur í vindi. Strekkingurinn rikkir í bifhárin og fræin fjúka upp og oft langa leið. Stundum er flugsveitin stór. Það er jú guðlegt örlæti í fjölbreytileika sköpunarverksins. Fljúgandi fræ eru ekki dæmd dauðasveit heldur fremur líflegt hópflug. Mér hefur alltaf þótt túnfífill fallegt blóm og mismunandi vaxtar- og þroska-skeið hans vera hrífandi. Fólk sem bara sér hrörnun og dauða í biðukollum á eftir að uppgötva undur lífsins. Flugskeiðið síðasta er ummyndarferli til lífs en ekki endanlegs dauða. Biðukollur eru ekki öldrunartákn heldur lífstákn. Þær eru ekki komnar að dauða heldur fæðingu. 

Myndirnar tók ég á hlýjum strekkingsdegi 7. júlí 2024 við Skerjafjörð. Biðukollurnar stundu ekki heldur hlógu. Taxacum officinale.