Ásthildur Sveinsdóttir – minningarorð

„Mamma var með íslenskuna upp á tíu“ sögðu synir Ásthildar. Í henni bjó rík málvitund, sem hún fékk í arf frá fjölskyldufólki sínu og úr öguðum málheimi hins unga lýðveldis Íslands. Þegar hún fór að vinna fyrir sér varð málageta mikilvæg í starfi hennar. Svo urðu þýðingar að atvinnu hjá henni. Þýðingar: Hvað er það? Er það ekki bara að finna út orð í einu máli og hliðstæðu í öðru? Jú, vissulega í sumum tilvikum er hægt að þýða beint, en við sem höfum prufað google-translate og smellt á þýðingartilboð á vefnum vitum að hráþýðing er grunn, tilfinningaskert og skilar litlu nema vísbendingum. Raunveruleg þýðing krefst fegurðar, næmni, skilnings, innsæis, menningarlæsis og málvitundar upp á tíu – eða alla vega upp á níu. Merking er aldrei einnar víddar og yfirborðsleg. Tilfinningar mannanna verða ekki afgreiddar með einfeldni. Miðlun merkingar er list. Ásthildur lifði áhugaverða tíma þegar íslenskt samfélag breyttist hratt. Hún lifði áhugaverðu lífi og okkar er að ráða í merkingu lífs hennar, þýða viðburði, orð og lífsferli með alúð. Og kveðja hana með fegurð og virðingu.

Sólvallagata og upphafið

Ásthildur Sveinsdóttir fæddist á aðventunni árið 1942, laugardaginn 5. desember. Kjörforeldrar hennar voruhjónin Sveinn Þorkelsson og Jóna Egilsdóttir á Sólvallagötu 9. Þar ólst hún upp ásamt eldri bróður sínum Agli Sveinssyni. Egill var tólf árum eldri en hún, fæddist árið 1930. Í fjölskylduhúsinu á Sólvallagötu var litríkt mannlíf. Sveinn og Jóna höfðu byggt húsið og ráku verslun á jarðhæðinni. Líf fjölskyldunnar var með ýmsu móti bæði hvað varðaði rekstur og mannlíf. Þetta stóra hús, með margar vistarverur, var umgjörð um líf stórfjölskyldunnar. Þau systkin, Ásthildur og Egill, áttu þar lengi athvarf. Egill starfaði sem bankamaður en í honum bjó líka listamaður og hann lærði útskurð hjá Einari Jónssyni og einnig málaralist í Florence.

Bernska Ásthildar var hamingjurík. Foreldrar hennar báru hana á höndum sér. Hún var skemmtilega, fallega barnið í stóra húsinu og naut athygli og aðdáunar. Á hana var hlustað og við hana var talað. Æskuárin voru góð en stóra sorgarefnið var að faðir hennar lést þegar hún var enn ung. Eftir að námi lauk með hefðubundu grunnskólanámi stóðu Ásthildi ýmsar leiðir opnar. Hún fór m.a. til Englands til enskunáms. Málakonan lagði sig eftir málum. Seinna fór hún í kennaraskólann um tíma og enn síðar í sálfræði í HÍ. Áhugasvið hennar var víðfeðmt og Ásthildi var gefinn opinn hugur.

Ásthildur var dugmikil í vinnu og þjónaði vinnuveitendum sínum vel. Hún nýtti hæfni sína og skerpu. Um tíma vann hún hjá Póstinum, þá starfaði hún um tíma í banka og einnig við afgreiðslustörf í búð. Um nokkurra ára skeið vann Ásthildur í Domus Medica, sem þá var á Klapparstíg, og svo hjá Vita-og hafnamálastofnun og var síðan ritari borgarlæknis. Læknaritarinn varð slyngur höfundur og létti læknum og samverkamönnum mjög lífið við frágang á skýrslunum. Svo tóku við þýðingarnar, sem gáfu Ásthildi möguleika á að nýta alla færni sína og gáfur til að opna víddir merkingar og möguleika. Hún miðlaði milli heima mála og menningar.

Hjúskapur og drengirnir

Svo var það ástin. Þau Hilmar Guðjónsson, teiknari, felldu hugi saman. Þau voru ung og atorkusöm og gengu í hjónaband árið 1962. Drengirnir komu svo í heiminn. Fyrstur var Pétur Sævald. Hann er viðskiptafræðingur og kona hans er Margrét K. Sverrisdóttir. Börn þeirra eru Kristján Sævald og Edda. Næstir komu tvíburarnir Axel Viðar og Snorri Freyr. Axel er byggingaverkfræðingur. Dætur Axels og Þórnýjar Hlynsdóttur eru Sunna og Álfrún. Snorri Freyr er leikmyndateiknari og hönnuður. Kona hans er Anna Söderström. Dætur þeirra eru Hilda Sóley og Eyvör. Börn Snorra og fyrri eiginkonu hans, Láru Hálfdanardóttur, eru Skarphéðinn og Unnur.

Þau Ásthildur og Hilmar skildu, en voru áfram vinir þó þau væru ekki lengur hjón. Þau stóðu saman vörð um hag þriggja sona sinna. Það er mikil gæfa þegar skilnaður veldur ekki vinslitum. Hilmar fór en drengirnir voru fyrstu árin hjá móður sinni. Þeir lærðu snemma að bjarga sér, urðu skemmtilegir og nýttu vel möguleika og hæfni. Ásthildur hélt áfram vinnu utan heimilis til að sjá sér og sínum farborða. Svo potuðust drengirnir upp, hún óx í starfi og þeir öxluðu ábyrgð. Svo kom að því að Sævar Þór Sigurgeirsson kom inn í líf hennar. Þau Ásthildur gengu í hjónaband árið 1978. Sævar Þór starfaði við endurskoðun. Sonur þeirra Ásthildar er Ívar Sturla. Hann er húsasmiður og býr með Anastasiu Podara. Þegar Ásthildur og Sævar Þór giftust flutti hún með drengina sína upp í Engjasel í Breiðholti. Þar bjó hún í nokkur ár en flutti, þegar þau Sævar skildu, yfir í Flúðasel. Þar bjó Ásthildur á annan áratug og flutti svo í einbýli við Hamarsbraut í Hafnarfirði. Síðustu árin bjó Ásthildur á Álftanesi.

Minningarnar

Við skil er gjöfult en líka þarft að hugsa um ástvin, sem er horfinn sjónum. Hvað einkenndi Ásthildi? Hvernig manstu hana og hvað sagði hún, sem var þér mikilvægt? Manstu dýravininn Ásthildi? Heyrðir þú hana spila á píanóið ? Drengirnir muna eftir Bach og Chopin-leik er þeir voru að festa svefninn! Manstu smekkvísi hennar í fatavali og hve nákvæm hún var varðandi klæðnað? Manstu eftir einhverju sem hún saumaði? Strákarnir töluðu um röndóttar smekkbuxur og mér þykir skemmtilegt að hugsa um þá bræður dressaða í smekkbuxur og með hatta! Manstu Ásthildi með Burda-snið á milli handa? Manstu Ásthildi á þönum úr vinnu til að tryggja að drengirnir hennar fengju næringu í hádeginu? Manstu fjör og stemmingu þegar hún var með vinkonum sínum heima? Svo var Ásthildur ráðdeildarsöm og komst vel af. Manstu hvað hún var klár, viðræðugóð og að enginn kom að tómum kofum hjá henni?

Litið til baka

Miklar breytingar urðu á lífi íslensks samfélags á líftíma Ásthildar. Einhæfnisþróun úr sveit í borg varð fjölbreytilegri. Vesturbæjarþorpið splundraðist á árum seinni heimsstyrjaldar. Á Melum, Högum og Holtum voru hermenn í stríði. Þó peningarnir flæddu um æðar samfélagsins rötuðu þeir þó ekki alltaf til Ásthildar og drengjanna hennar. Hún lærði að lífið er barátta en líka undursamlegt, fjölbreytilegt og fullt af vonarefnum. Í lífi Ásthildar speglaðist umbreytingarsaga þjóðar hennar. Jafnvel upphaf hennar var flóknara en margra okkar. Ásthildur var lánssöm að eiga natna og elskuríka kjörforeldra. En blóðforeldrar hennar voru Kristín Jóhannesdóttir og Kristján Davíðsson, sem á síðari árum varð kunnur sem einn helsti myndlistarjöfur þjóðarinnar. Hvað merkir það, að vita að þú ert þessara en líka hinna? Ásthildur var þegar í bernsku margra vídda. Svo missti hún föður sinn átta ára gömul. Hvað merkir það í lífi barns og móður hennar þegar pabbinn og eiginmaðurinn deyr? Heimurinn hrundi en lífið hélt þó áfram. Þegar Ásthildur eltist kannaði hún svo tengsl við ættmenni sín sem hún hafði ekki verið í samskiptum við í bernsku og náði að kynnast sumum. Hún tengdist m.a. blóðföður sínum sem hún mat mikils. Við fráfall Kristjáns fyrir tæpum áratug skrifaði Ásthildur í minningargrein. „Við endurnýjum kynnin í samvistum á sæluströnd. Hvíl í friði faðir minn.“ Það er mikilvægt að geta tjáð tilfinningar svo vel og orðað frið með slíkum hætti.

Í lífinu hafði Ásthildur fangið fullt af verkefnum. 22 ára var hún orðin móðir þriggja drengja. Við, sem höfum verið með þrjú börn á heimili, vitum að verkefnin eru mörg og oft krefjandi. Ásthildur varð að læra allt sem þurfti til búrekstrar, líka að sjóða kartöflur, afla fjár til að reka heimili og standa straum af öllu því sem stækkandi strákahópur þurfti. Ásthildur var svo gæfusöm að hún átti athvarf í fjölskylduhúsinu á Sólvallagötunni. Þaðan lá leiðin austur fyrir læk og í Breiðholtið. Ásthildur tók þátt í útþenslu borgarinnar og var ekki bundin bara við velli og götur norðan Hringbrautar. Hún hélt áfram og líka í vinnu- og heimilis-málum. Mögnuð saga merkilegrar konu.

Ásthildur þýddi á milli heimanna. Tengdi og túlkaði og lifði í sjálfri sér umbreytingu alls. Í lífi hennar var aldrei bara fortíð heldur líka opnun. Hún vonaði, hafði löngun, þráði, vildi svo gjarnan – sem sé þorði að lyfta sér upp yfir nútímann og skygnast víðar um. Við getum skilið það með margvíslegum hætti. En þegar dýpst er skoðað má líka túlka það sem trúarlega dýpt. Að tilveran er ekki bara lokuð og læst heldur má vænta einhvers meira. Trúmennirnir tala um handanvídd sem er kennd við Guð og himinn. Þegar synir Ásthildar kveðja móður sína þá mega þeir tengja þrá og von hennar í lífinu við að nú hafi allir draumar hennar ræst og allt gengið upp. Ekkert tapast í yfirfærslunni. Það er þýðingarsnilld himinsins.

Nú þýðir Ásthildur ekki lengur. Dýrin njóta ekki lengur athygli hennar og natni. Hún kemur ekki framar í heimsókn á heimili sona sinna. Nú er hin fallega og glæsilega kona farin inn í málheim himinsins. Þar eru engar ambögur, málvillur eða þýðingarvillur, ekkert „lost in translation.“ Þar er málið og himneskan upp á tíu. Þar eru samvistir á sæluströnd eins og Ásthildur orðaði það sjálf. Og Sólvellir himinsins. Guð geymi Ásthildi og Guð styrki ykkur ástvini.

Kveðjur

Ég hef verið beðinn um að bera ykkur kveðju frá vinkonu Ásthildar, Sofiu Thors, og fjölskyldu hennar sem búsett er í Þýskalandi. Auk Sofiu eru Dieter Wendler-Johannsson, Haukur Thor, Óli og Carola.

Minningarorð í Neskirkju 10. mars. 2022. Kistulagning í kapellunni í Fossvogi 8. mars. Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju. SÞ. GPG og Voces masculorum.

HINSTA KVEÐJA 
Manstu, er saman við sátum 
við sorgþungan úthafsins nið? 
Úr djúpanna dulræðu gátum 
við drógum hinn skammvinna frið,

því eftir var aðeins að skilja, 
og yfir þig skugganum brá 
og eitt er, að unna og dylja, 
og annað, að sakna og þrá. 

 

Jakob J. Smári

Fiski-tacho / besta uppskriftin?

Hráefni – fyrir 4

1 piklaður laukur

1 rauðlaukur og 2 límónur. Laukurinn helmingaður. Ysta lagið skrælt af og síðan er hvor helmingur þverskorinn fínt. Límónur kreistar og vökvinn settur yfir laukinn. Piklað í amk 20 mínútur og ekki verra að leyfa lauknum að vera í vökvanum yfir nótt.

Chili-mayo-sósa

125 gr mayones. 2 tsk chilisósa út í. Hrært vel saman og bragðað til.

Maísblanda með kóríander og chili

200 gr maís.

Hálfur rauður chili fínskorinn.

3 msk fínskorinn kóríander. Blandað saman og smá maldonsalt yfir.  

Fiskur og kryddun

Þrjú til fjögur roðflett þorskflök

1 tsk malað kúmmín (cumin en ekki kúmen)

½ tsk paprikuduft

1 tsk maldonsalt

3 hvítlauksrif, smátt skorin eða pressukramin

3 msk góð ólífuolía

Avocado – í bitum

2 þroskaðir avocado smábitaskorinn

1 límóna, safi.

2 límónuur skornar í rif.

Salat

Salatblöð

2 msk kóríander

Matreiðslan

Stillið bökunarofn á 220 °C. Meðan ofninn er að hitna er meðlætið tekið til. Byrjað á að pikla laukinn. Síðan er chili-mayosósan tekin til sem og maísblandan. Þá er komið að því að gera kryddblöndun á fiskinn. Fiskurinn þverskorinn í þumla og kryddblandan sett yfir og fiskbitunum velt til þar til allur fiskurinn hefur verið kryddaður. Síðan er fisknum komið fyrir í ofninum í hitaþolnu fati og steiktur í 10-12 mínútur eða þar til hann er gegnsteiktur(passa að ofsteikja ekki). Álpappír settur um tortillurnar og pakkinn settur í ofn.

Vökvanum hellt af lauknum og hann settur í skál. Maísblandan í aðra skál og sett á borð. Sem og avocado í einni og chilli-mayo í annarri. Þegar tortillurnar eru orðnar heitar eru þær teknar úr ofni og úr álumbúðum. Ein tortilla sett á hvern disk og síðan er bara að byrja að smyrja með chili-mayo og svo allt hitt sett ofan á. Síðan rúllað upp og auðvitað hægt að setja servéttu utanum svo maturinn leki ekki yfir hendur. Svo eru hnífapör hentug líka. 

Frumuppskriftin er frá Nigellu Lawson.

 

Neyðaróp sem frumóp

Hvað gerir fólkið í Mariupol í stríðshrjáðri Úkraínu þessa dagana þegar skothríðin er nánast samfelld? Hvað gerði Mariana Vishemirsky, slösuð, barnshafandi konan á fæðingardeild, þegar barnasjúkrahúsið var rústað og hún var komin að fæðingu? Hvað gera tugir milljóna Úkraínumanna sem búa við sprengjuregn? Hvað gera milljónir fólks á flótta? Fólkið hrópar á hjálp. Óp þeirra eru ekki bara til hjálparaðila, hjálparstofnana eða vinveittra ríkja. Vissulega hljóma þannig neyðaróp. En skerandi hjálparveinin eru meira en pöntun á plástrum og byssum. Köll fólks í algerum vanda eru frumóp. Jafnvel trúlausir æpa upp í himininn. Úkraínsk kona sagði fyrir nokkrum dögum að þetta væru trúarleg sálaróp. „Ég er trúlaus,“ sagði hún. „Ég trúi ekki á Guð. En núna er ég farin að biðja, eiginlega æpa til Guðs um að hjálpa okkur.“ Hið úkraínska frumóp er: Hjálp Guð. Hjálpaðu okkur með börnin, aldraða foreldra, með mat, eldivið og vatn. Okkur er kalt, við erum hrædd og svöng. Við erum reið og máttvana. Hjálp. Hvar ertu Guð? Vestrænu makræði hefur verið ógnað þessa daga Úkraínustríðs. Við erum vissulega ekki í ísköldum kjallara í Mariupol án vatns, hita, salernis og matar. Við getum ekki kafað í djúp tilfinninga fólks í þessum hræðilegu aðstæðum stríðs, en getum þó skilið að afkróað fólk kallar upp í himininn: „Guð minn góður bjargaðu fólkinu mínu.“ Þegar allt hrynur og lífi er ógnað æpir fólk. Það er viðbragð lífsins. Hjálpaðu er sama bænin og „Drottinn, miskunna þú mér.“ Frumóp lífsins.

Miskunna þú oss

Í guðspjalli dagsins segir frá Jesú á ferð utan Gyðingalands og eiginlega við endimörk heimsins. Hann heyrði að hrópað var til hans: „Hjálp Jesús.“ Kallarinn var kanversk kona, sem sé útlendingur. Hún var stefnuföst og vildi úrlausn mála. Erindið var brýnt. Dóttir konunnar var hættulega veik. Þessi móðir hefur vafalaust verið búin að reyna alla lækna og kraftaverkameðul. Þegar börn heimsins eru í lífshættu reyna foreldrar allt til að bjarga þeim. Ekkert hafði dugað og nú var Jesús einn eftir. Hún setti allt sitt traust á hann. Þar sem konan var útlensk vildu Gyðingar sem minst hafa með hana að gera og var illa séð, að Jesús væri að skipta sér af henni. Jesús minnti konuna á að hlutverk hans væri að þjóna Gyðingum. Konan var hins vegar ákveðin og sprengdi öll viðmið  og hlutverk. Hún bað um hjálp, að Jesús miskunnaði henni. Jesús herti vörn sína og sagði að það sem hann hefði fram að færa ætti að gefa börnum en ekki kasta fyrir hunda. En konan var glögg og hnyttið skopskynið var í góðu lagi. Hún þekkti atferli hunda og minnti á, að þeir næðu í molana sem féllu af borðum húsbændanna og ætu þá. Í konunni spratt fram frumóp lífsins. Hún var einbeitt og lausnamiðuð. Þá gaf Jesús eftir. Þegar eftir er leitað og æpt er upp í himininn er alltaf opnað. Guð heyrir. En heyrum við frumópin? Skiljum við þau?

Í upphafi þessarar athafnar og í upphafi allra messugerða segjum við eða syngjum: „Drottinn, miskunna þú oss. Kristur, miskunna þú oss. Drottinn, miskunna þú oss.“ Er þessi söngur bara eitthvað sem við raulum, setningar sem við meinum ekkert með, aðeins orðaleppar? Er þetta merkingarlaus og blóðlaus þula án svita og tára? Ef svo er þurfum við að endurskoða fordóma okkar. Messan er alvöru en ekki glans. Kirkjuorðin tengjast lífi fólks, vonum og þrá, áföllum og stríðum. Allt, sem er sagt og tjáð í messunni, varðar lífsviðburði, tengist atburðum í lífi fólks og því sem við erum og reynum. Orðin eru ekki himneska, utan við heiminn í dauðhreinsuðu helgirými, heldur varða okkar allt líf fólks, líka barnshafandi konur austur í Mariupol – já allt í margbreytileika sögu og samtíðar. „Drottinn, miskunna þú okkur.“ Orðin á grísku eru Kyrie eleison. Þau birtast eða hljóma okkur í tónverkatextunum, kirkjuversunum, bókmenntum og menningarefni kristninnar. Í þessari setningu er orðuð þrá lífs í landi dauðans. Miskunn er orð um hjálp, sem fólki veitist til að það geti lifað af og náð friði og heilsu. Miskunn er ekki eitthvað á himni, heldur á jörðu og varðar mat, hjálp í hamförum, þegar börnin deyja, maki ferst eða brjálaðir einvaldar æða. Að njóta miskunnar er að vera bjargað. Beiðnin um að verða miskunnað merkir að fólk nái heilsu, fái svalað svengd maga og sálar. Kanverska konan var ekki ein um þessa bæn. Hún er beðin í messum þessa dags, bæði í íslenskum kirkjum og í messum í Úkraínu, líka í Rússlandi og öðrum kirkjum heimsins. Allir kórar, sem syngja kirkjuleg stórverk læra að syngja Kyrie eleison. Þau orð tjá kjarnabæn kristninnar ásamt með Faðirvorinu. Þetta er ópið: Guð hjálpaðu! Það er frumtjáning sálarinnar. Kyrie eleison. Orðið Kyrie – það er orðið á bak við orðið “kirkja.” Orðið eleison vísar í heim olíunnar sem er notuð til að hreinsa sár, elda mat og njóta til heilsu. Orðið á við ólífuolíu. Það er ljómandi tenging fyrir okkur – heimili og kirkja tengjast. Lífsháski og lífslausn líka, líf mitt og þitt saman í einni samtengingu. Þegar þú eldar með ólífuolíunni má frumbænin stíga upp yfir pönnunni: „Guð hjálpaðu.“

Hvernig tengir þú?

Fjöldi Úkraínumanna var í Hallgrímskirkju fyrr í þessari viku til að taka þátt í friðargjörningi. Höfuðbúnaður þeirra var fallegur og þjóðbúningarnir líka. Frá þeim barst neyðaróp. Á eftir syngjum við syngjum í bænagerðinni Kyrie eleison með lagi frá Kiev. Um allan heim er sungið:Drottinn, miskunna þú okkur.“ Við höldum áfram að biðja með kanversku konunni, mæðrum, feðrum, fólki í Úkraínu og Rússlandi og fæðandi konum á fæðingardeildum sem skotið er á og fólki á flótta. Endir sögunnar í guðspjallinu, hver var hann? „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu. Jesús hlustaði, heyrði og svaraði. Hin blóðuga, særða og þungaða kona, Mariana í Mariupol, lifði af árás á fæðingardeildina. Myndirnar af henni þegar hún staulaðist milli hæða í húsarústunum fóru um allan hinn rafræna heim. En Mariana fæddi lifandi barn, þrátt fyrir að fæðingardeildin hefði verið eyðilögð. Það var dóttir sem lifði. Í gær var tilkynnt að hún hafi verið nefnd Veronika. Hvað þýðir það nafn: Boðberi sigurs. Stórkostlegt. Lífið heldur áfram. Framtíðin er opin af því Guð heyrir lífsóp, frumóp fólks. „ … mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“

Lexía: 1Mós 32.24-30, pistill: Jak 5.13-16, guðspjall: Matt 15.21-28

Prédikun í Hallgrímskirkju 13. mars, 2. sunnudag í föstu, 2022. Myndin er af bænatré Hallgrímskirkju. Mismunandi litir tákna mismunandi bænir og fánlitir Úkraínu eru áberandi en líka rauður litur umhyggju og kærleika. Tíminn er tími opnunar og frumópa! Myndina tók ég 11. mars. 

Rússnesk óróðursyfirvöld héldu fram að Maríana í Mariupol hefði tekið þátt í leikriti sem hefði verið fals og uppspuni. Um spunann allan fjallar BBC í grein að baki þessari smellu. 

Megi þau …

Hugsum til Úkraínumanna sem ráðist var á – megi styrkur þeirra verða óskertur.

Hugsum til kvennanna og barnanna sem eru á flótta – megi gæfan umlykja þau.

Hugsum til allra þeirra sem geta ekki flúið eða farið – megi æðruleysið efla þau.

Hugsum til þeirra sem syrgja og gráta – megi þau finna frið.

Hugsum til allra þeirra sem eru kvíðin og stríðandi – í Úkraínu og um allan heim –  megi samheldni okkar umvefja þau.

Hugsum til þeirra Rússa sem eru ósátt við árásarstríð – megi þau finna farveg fyrir afstöðu og friðarsókn.

Hugsum um okkur sjálf, okkur sem hóp, samfélag og þjóðfélag –  megi okkur lánast að efla hvert annað til dáða, aðgerða, fegurðar, söngs, ástar og lífs.

Meðfylgjandi mynd: Sigurður Páll Sigurðsson. 

Pútínlandið – ferðir á föstu

Friður sé með þér og ég segi aftur: Friður sé með þér. Nú höldum við brátt inn í föstuna. Þessi dagur er kallaður sunnudagur í föstuinngangi. Fastan í kirkjunni er tími sem hefur texta, skilaboð og umræðuefni. Um hvað er talað í kirkjum á föstutímanum fyrir páska? Það sama og talað er um í Passíuálmunum. Hvað var það nú aftur? Ferð Jesú til Jerúsalem, sem alltaf er líka um líf og ferðir allra einstaklinga og kynslóða. Ferðlag Jesú er okkar ferð. Okkar ferðir ganga upp í ferð Jesú til Jerúsalem. Við erum samferða Jesú. Jesús á undan og ég á eftir. Það er ferðastíll passíusálma, Nýjatestamentisins og kristninnar.

En þessi ferð var óvissuferð með mög ef, spurningar og til hvers. Lærisveinar og vinir Jesú voru ekki alveg vissir um til hvers hann færi og til hvers þessi ferð leiddi. Væntingarnar voru mismunandi. Margir vonuðust til, að hún yrði ferð til sigurs, að þeirra lið ynni og Jesús yrði þjóðarleiðtogi. En eitt voru væntingar fólks og annað afstaða Jesú sjálfs. Hann vissi, að hlutverk hans væri annað en það, sem margir aðdáendur hans vonuðu og klapplið vildi. Hann óttaðist um líf sitt og skelfdist. Jesús þekkti sögu þjóðar sinnar, misgerðir hennar, félagslegt, pólitískt og andlegt gjaldþrot. Hann skildi líka köllun sína og að honum var ætlað að þjóna. Það var hans vandi að vinna úr. Ferð Jesú var ekki túristaferð, heldur upp á líf eða dauða, líf veraldar eða enda. Hann hefði getað látið undan freistingunni, forðast Rómverja, forðast yfirvöld, hefði getað hætt að vera Kristur og bara farið í handverk smiðsins í Nasaret. Hann hefði getað eignast fjölskyldu, lifað hamingjuríku lífi til elliára og týnst svo í gleymskudoða sögunnar – eða hvað?

Helförin

Ferðir eru mismunandi og tilgangurinn alls konar. Það vitum við og þekkjum úr okkar eigin lífi. Við verðum líka vitni að alls konar ferðum og sumar ferðir eru alls ekki góðar og enda með skelfingu. Þessa dagana hefur heimsbyggðin fylgst með skelfilegri innrás Rússa inn í Úkraínu. Það er viðburður, sem fæstir áttu von á í Evrópu 21. aldar. Úkraínumenn hafa það eitt til saka unnið að hafa aðra skoðun en einræðisherrann í nágrannalandi þeirra ætlast til að þeir hefðu. Úkraínumenn vildu auka tengsl vestur á bóginn og ganga í samtök Vestur-Evrópu og NATO. Það vildu Rússar ekki. Skoðanafrelsi er ekki virt eða viðurkennt í Rússlandi, nema menn hafi sömu skoðun og valdaklíkan sem öllu ræður. Tugir milljónir líða vegna árásar Rússa. Fjölskyldum er splundrað, konur og börn eru á vergangi. Á næstu vikum geta milljónir orðið landflótta. Hver vill stríð? Einræðisherrann í Moskvu hefur einangrast frá þjóð sinni og dælt falsfréttum í æðar stór-Rússlands. Nú hefur hann við föstuupphaf tekið ákvörðun að fara til sinnar Jerúsalem, til Kiev, og kremja réttkjörna stjórn nágrannaríkis. Hvers konar föstuferð er það? Rússar kunna að sigra einhverjar orustur, en þeir munu tapa þessu stríði því það er röng afstaða sem liggur að baki.

Réttlætanleg?

Í byrjun vikunnar kom sonur minn til mín og sagði mér frá því, að hann hefði fengið það verkefni í Menntaskólanum í Reykjavík að skrifa röksemdarritgerð. Hann mátti velja efnið og hann ákvað að meta kröfur Rússa til Úkraínumanna. Sonur minn sagðist þurfa að skilja Pútínlandið og líka afstöðu Úkraínumanna. Mér þótti merkilegt, að hann veldi svo hápólitískt mál sem væri viðfang allra fjölmiðla heimsins. Svo byrjaði hann að skoða sögu Rússa og Úkraínumanna og smátt og smátt komu rökin fram með og móti. Yfirskriftin og viðfangsefnið var: Er innrás Rússa í Úkraínu réttlætanleg? Hann skilaði ritgerð sinni á miðvikudagskvöldi og nokkrum klukkutímum síðar réðust tugir þúsunda Rússa yfir landamærin og mikill fjöldi vígvéla skaut á skotmörk, sem ekki voru bara hernaðarleg heldur líka borgaraleg. Það var ljóst að lama átti innviði Úkraínumanna. Mér þótti merkilegt að íhuga ritgerð sonar míns og horfa svo á stríðsmyndir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Í ritgerðinni sá ég að saga Rússa og Úkraínumanna fléttaðist saman í meira en þúsund ár. Kiev var um tíma helsta borg á svæði RUS-ættbálkanna á sama tíma og Moskva var eiginlega þorp. Enda hefur Pútín og margir Rússar talað um Kiev, höfuðborg Úkraínu, sem krúnudjásn Rússa. En þessa dagana er krúnudjásnið löðrað blóði úkraínsku þjóðarinnar. Rússar hegða sér sem illmenni er ráðast á heimili ættmenna sinna, skjóta þau og níðast á þeim. Sonur minn skoðaði rök Rússanna og hafnaði þeim og benti í ritgerð sinni á, að Úkraínumenn hafi verið fullvalda ríki, með réttkjörna stjórn, vel virkt og réttlátt stjórnkerfi og hafi gert marga alþjóðlega samninga um samskipti við Rússa. Rússar hafi brotið þessa samninga með því að ráðast inn á Krímskagann og síðar inn í austurhluta Úkraínu. Innrás væri ólögleg og brot á samningum. Ég er sammála honum og bæti við að hún er ósiðleg. Rússar hafa framið afbrot og Pútín er sekur um glæpi gegn mannkyninu.

Jesús og Pútín hafast ólíkt að. Jesús fór í friði og vildi hjálpa fólki. Ferð hans var til að leysa vanda og aðeins hann gat gert það. Engir herir, engin fórnarlömb. Hann var sjálfur farvegur friðarins. Föstuferð Pútíns er alger andstæða. Jesús fór ekki til að spilla valdi eða efna til átaka. Pútín fer með eldi og neyðir fólk til ofbeldis og hlýðni. Hann sendir fólk í dauðann og beitir ofríki gagnvart nágrönnum sínum, fullvalda frændsystkinum og drepur þau ef þau hlýða ekki túlkun hans. Jesús gerði sér grein fyrir að ferð hans til Jerúsalem gæti endað með skelfingu. Hann hafnaði að sölsa undir sig með valdi heldur fór leið friðarins. Hann var tilbúinn að fórna lífinu fyrir sannleika og réttlæti sem pólitískt vald getur aldrei nokkurn tíma tryggt eða skapað. En Pútin telur sig hafa vald til að skilgreina frelsi fólks, jafnvel fullveðja nágranna sinna. Pútínferðin er leiðangur dauðans og opinberar allt það versta í spillingu og sjálfsdýrkun manna sem hafa tapað tengslum við gildi, fegurð og frelsi fólks. Við getum skýrt Pútínatferlið með því að skoða sögu Rússlands, Sovétríkjanna og fall þeirra. Í þessari pútínsku heljarslóð er sorg og reiði en það réttlætir ekki helförina. Fall Sovét er fortíð sem Úkraína lifði líka. En Úkraína vann að sjálfstæðri framtíð sinni þrátt fyrir fortíðina. Að reyna að endurheimta fortíð leiðir oft til glæpa. Það er hin djúpa harmsaga helfarar Pútíns um lendur Úkraínu og að krúnudjásninu. Pútínæðið þarf að stoppa. Pútínlandið þarf að horfast í augu við að Sóvét er fallið. Einræði hentar ekki nútíma, allra síst óupplýst einræði. Fortíð er fortíð en framtíðin kallar á algerlega nýja lífshætti og stjórnunarhætti. Fólk Pútínlandsins og nágrannar þeirra eiga að fá að ráða lífi sínu, lifa í frelsi og taka nýja stefnu. Föstuferð Jesú er andstæða Pútínplágunnar. Jesús vildi líf en Pútín velur dauða.  

Guð í fortíð – Guð í framtíð

Þessa föstu verða margar sögur sagðar. Föstuferð Jesú til Jerúsalem sem var svo sannarlega dapurleg. En niðurstaða Jerúsalemferðarinnar var að dauðinn dó en lífið lifir. Svo er harmsaga Úkraínu. Hvaða ferð ferð þú þessar næstu viukur? Fasta er dramtísk. Jesús var opinn og þorði. Hann opnaði líf sitt og var tilbúinn að taka afleiðingum. Hann vissi að kjarni lífsins er ekki að hafa vald til að stjórna fólki, menningu og hugsun. Lífsskilningur Jesú var að gefa fólki frelsi frá mistökum, syndum og öllu sem gæti hindrað fólk til þroska, friðar og hamingju. Af þessu getum við lært. Jesúreisan til Jerúsalem er ferð, sem var fyrir okkur. Okkur er boðið að ganga með Jesú. Jesús á undan og ég á eftir, stíll guðspjallanna, andi Passíusálma, fyrirmynd fyrir okkur. Jesúreisan er til lífs. Jesúafstaðan er eflir lífið.

Á svona dramatískum tíma er gott að geta á ný gengið að borði Drottins. Þar er veisla himins og jarðar. Guð býður til þeirrar veislu og þar er allt rétt og gott. 

Lexían; Jes. 50. 4–10. Pistillinn: 1. Kor. 1. 18-25. Guðspjallið: Lúk. 18. 31-34

Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“ En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.

Sunnudagur á föstuinngangi, 27. febrúar, 2022. Myndin er af litríku bænatré Hallgrímskirkju og að baki er verndarengill á íkón Kristínar Gunnlaugsdóttur. Ljósmynd SÁÞ