Arngrímur málari og bruni Möðruvallakirkju

Kirkjur brenna. Í sumum er kveikt af ásetningi. Að meðaltali er kveikt í 274 kirkjum í hverjum mánuði, ár eftir ár um allan heim. Aðrar brenna vegna bilana, mistaka eða af öðrum ástæðum. Kirkjubruni er alltaf stórmál.

Miðgarðakirkja í Grímsey brann í september 2021. Mikilvægur sögustaður fuðraði upp, vettvangur stóratburða samfélagsins hvarf og mikilvægir gripir hurfu í gin eyðingar. Altaristafla Miðgarðakirkju brann líka. Þá mynd gerði Arngrímur sem hafði viðurnefnið málari. Hún var ein af ellefu altaristöflum sem hann málaði og sýndi síðustu kvöldmáltíðina. Fyrirmyndin var frægasta kvöldmáltíðarmynd allra alda, verk Leonardo da Vinci í Mílanó. Söfnuðurinn í Grímsey keypti mynd Arngríms fyrir 120 krónur árið 1879 og síðan var hún í Miðgarðakirkju. Nú er þessi þokkafulla mynd málarans horfin í eldi tímans. Bruninn í Grímsey rifjaði upp fyrir mér annan eld sem Arngrímur tengdist og málaði líka. Það var kirkjubruninn á Möðruvöllum árið 1865

Angrímur málari var umtalaður í uppeldi mínu. Svanfríður Kristjánsdóttir, móðir mín, var Svarfdælingur. Hún sagði mér í bernsku frá Arngrími sem meistara lita og forma. Hún benti á málarastofu hans, sem blasti við frá Brautarhóli hinum megin dalsins. Þar var ég í sveit í sautján sumur. Ég fann fyrir svipaðri virðingu þegar nafni minn, frændi og fóstri, Sigurður Kristjánsson, talaði um Arngrím. Málarinn varð í tali þeirra systkina að dýrmætum nágranna, frænda og fyrirmynd. Margir Svarfdælingar hafa heiðrað Arngrím og haldið minningu hans á lofti. Við ævilok skrifaði Kristján Eldjárn, forseti, bók um málarann og Þórarinn, sonur hans, bjó ritið til prentunar þegar Kristján féll frá og skrifaði einnig formála bókarinnar.

Svarfdælingar hafa virt fleiri en eigin dætur og syni. Arngrímur Gíslason var ekki Svarfdælingur heldur Þingeyingur og fæddist í Skörðum í Reykjahverfi árið 1829. Síðustu æviárin bjó Arngrímur og seinni kona hans, Þórunn Hjörleifsdóttir, í Svarfaðardal, fyrst á Tjörn, síðan á Völlum og að lokum í Gullbringu ofan við Tjörn. Þar reisti Arngrímur sér smáhýsi til listiðju sinnar. Húsið var elsta vinnustofa listmálara á Íslandi. Hún er enn til og loflega vel varðveitt af eigendum, fjölskyldu Kristjáns Eldjárns. Þrátt fyrir drátthæfni naut Arngrímur ekki myndlistarmenntunar fyrr en hann var kominn á fullorðinsár. Arngrímur var hæfileikamaður og kunnáttusamur á mörgum sviðum. Hann var forystumaður sundmennta á Norðurlandi. Hann lærði bókband og þótti listamaður á því sviði. Hann hafði atvinnu af bókbandi um tíma og skrifaði líka um listina að binda bækur. Rit hans um bókbandsreglur er til í afriti á Landbókasafninu. Þá hreifst Arngrímur af tónlist, lærði á fiðlu og flautu og lagði sig eftir tónfræði. Svo spilaði hann á samkomum og hafði nokkrar tekjur af giggunum. Hann var poppari tímans. Arngrímur stundaði einnig nótnaskrift og var áhrifamaður í tónlistarþróun á Norðurlandi á nítjándu öld.

Á́ fertugsaldri, þegar Arngrímur var við nám í rennismíði í Reykjavík, fékk hann tilsögn í myndlist hjá Sigurði Guðmundssyni, málara. Fjárskortur meinaði Arngrími þó frekara náms en hann hélt áfram að teikna og munda penslana. Hann var sjálfmenntaður alþýðumálari. Björn Th. Björnsson, listfræðingur, rómaði atorku Arngríms, dug við gerð mannamynda sem og sjálfstæði hans. Þó altaristafla Miðgarðakirkju væri eftirmynd var Arngrímur þó lausbeislaður við málverkið og altaristöflurnar málaði hann gjarnan í samræmi við eigin hugmyndir. Hann var frjálshuga og hentaði að fara eigin leiðir í lífi og list.

Viðurnefnið málari fékk Arngrímur seint á ævinni þegar hann sneri sér af krafti að myndsköpun. Hann fór um Suður-Þingeyjarsýslu, teiknaði og málaði fólk á bæjunum þar sem hann kom. Möðruvallakirkja brann árið 1865 og þá var Arngrímur á staðnum. Möðruvellir eru brunavellir. Klaustrið brann 1316 og Davíð Stefánsson skrifaði leikrit um þann atburð. Árið 1712 brunnu öll staðarhús nema kirkjan. Amtmannsstofan varð eldi að bráð árið 1826 og amtmannssetrið, Friðriksgáfa, árið 1874. Þegar kirkjan brann árið 1865 var litlu bjargað. Arngrímur horfði ekki aðeins á brunann heldur óð hann inn í eldhafið til að bjarga altaristöflu kirkjunnar. Honum var verðlaunað afrekið og fékk þá mynd að launum. Líklega varð þessi tafla til að beina sjónum, huga og höndum málarans að gerð trúarmynda. Töflurnar sem Arngrímur gerði voru allar unnar eftir 1870, þ.e. eftir að hann eignaðist Möðruvallamyndina.

Ein af merkustu myndum Argríms er vatnslitamynd hans af kirkjubrunanum á Möðruvöllum. Hún er raunar fyrsta myndin af samtímaatburði eftir íslenskan listamann, fyrsta fréttamyndin eins og Kristján Eldjárn kallaði hana. Gerð brunamyndarinnar vitnar um andlega auðgi listamannsins sem og kraft og þor í dráttum, ljósi og skuggum. Þegar brunamyndin er skoðuð sést hve slyngur teiknari og málari Arngrímur var. Myndin sýnir vel útlit kirkjunnar, glugga, turn og hlutföll. Hún opinberar að veðrið hefur verið á norðan eða norðaustan því kirkjan stóð austur-vestur eins og flestar íslenskar kirkjur. Svo sést að hún hefur haft norðlenska kirkjulagið, með glugga á austurgafli sem gerir slíkar kirkjur að elskulegum guðshúsum. Í þeim ljóshúsum er gott að messa því birtan flæðir inn í kirkjuna báðum megin við altari og í mörgum kirkjum að ofan líka. Í seinni tíð eru tré gjarnan í kirkjugarði utan glugga og hafa orðið fólki augnhvílur í athöfnum.

Þegar fólkið á brunamyndinni er skoðað sést að flestir eru hættir að bera vatn að. Fólk er búið að gefast upp gagnvart eldinum. Amtmaðurinn stendur þarna og styður sig við amboð eða staf og hin líka. Ég hreifst af hugarflugi málarans, hvernig myndin var útfærð. Hún er dökk, eins og sótið sæki að honum. Væntanlega hefur kirkjan verið bikuð líka. En til að búa til sterkar andstæður reynir Anrgrímur að magna eldinn. Hann málar bálið kunnáttusamlega og býr til ógnvænlegar myndir til að tjá hve eldhafið hefur verið algert. Mikil hreyfing er í myndinni og einkum í eldinum. En mennirnir eru sem lamaðir, stirnaðir. Eldurinn gýs upp og tungurnar teygjast til hægri, þ.e. til suðvesturs. Í reyknum er sem óvættur eða drekar birtist, einhverjar yfirjarðneskar ásóknarverur. Það gæti rímað við trúarhugmyndir fólks á þessum tíma, þá trúarvitund sem Hallgrímur, Jón Vídalín og aðrir túlkuðu í ritum sínum. Að fólki væri sótt og menn yrðu að gæta sín og sinna, annars færi illa.

Miðað við eldhafið og hvernig Arngrímur málaði sýnist að eldur hafi komið upp í forkirkju eða framkirkju því eldurinn er mestur vestast í byggingunni. Það passar við frásagnir staðarmanna síðar. Í kirkjunni var ofn og hefur verið í miðri kirkju sbr. staðsetning reykháfs. Eldurinn gaus upp eftir að kveikt var upp í ofni að morgni til undirbúnings guðsþjónustu dagsins. Talið var að neisti eða glóð hafi fallið einhvers staðar á milli útidyra og ofnsins.

Arngrímur málari var áhugaverður maður. Mynd hans er líka áhugaverð. Hún er vel skipulögð. Myndbyggingin er skýr. Mennirnir eru teiknaðir og málaðir sem varnarlaust fólk, þó í mismunandi stöðu sé. Eyðileggingin er alger og tjáð í teikningunni. Allir sem þekktu til og sáu þessa mynd hafa fundið til missisins. Þarna fer kirkja forgörðum, mikil verðmæti, menningarhögg. Kirkjur eru ekki bara hús út á túni. Kirkjur eru meira, þær eru táknhús byggða og menningar. Kirkjur lifa ákveðnu lífi og hafa hlutverki að gegna sem tákn hvers samfélags. Þegar kirkja brennur eða eyðileggst af einhverjum ástæðum fara ekki bara verðmæti forgörðum heldur lemstrast samfélag. Má kirkjan brenna? Geta menn bara staðið hjá og látið sér fátt um finnast, annað en að þar fari fortíð og eyðist? Nei. Kirkja er hjarta samfélags, en líka ásýnd og tákn.

Brenna Möðruvallakirkju 1865. Arngrímur Gíslason (1829–1887), Blýantur og vatnslitir, 27 x 36. Gjöf Friðriks Sveinssonar (Fred Swanson), Winnipeg, 1930. LÍ 376.

Hvönn sem englahvönn

Þetta er jurt englanna, já og líka erkiengla. Hún heitir á latínunni  Angelica archangelica, engla – erkiengla, eins og þurfi að ítreka engileðli, engiláhrif, engilráð. Að baki nafninu er reynsla fólks í þúsundir ára. Jurtin var ætihvönn, notuð til næringar, líka notuð til kryddunar í víngerð og til að bragðstilla rótsterka drykki. En það var lækningamáttur plöntunnar sem tengdi hana helst við engla. Klaustrin og kirkjumiðstöðvar voru lækningastöðvar fortíðar. Þar voru laukagarðar. Lækningajurtir voru ræktaðar, lyf þróuð og reynd. Kristnistöðvarnar voru eins og englar – til að bæta líf fólks.

Fyrirtækið Saga Medica varð til eins og arftaki laukagarðanna. Á þeim bæ hefur hvönn verið notuð til að bæta líðan og heilsu. Þráinn Þorvaldsson og fleiri stofnuðu fyrirtækið til hagsbóta fyrir fólk. Ég legg til að Þráni verði veitt fálkaorðan og hvönn verði í framtíðinni kölluð englahvönn.  

Vinir mínir í Noregi kalla hvönnina Tromsö-pálma. Hvaðan kemur nafn rússnesku borgarinnar Arkangelsk? Frá nafni englahvannar eða frá hinum himnesku sendiboðum Guðs? 

Myndina tók ég við Ægisíðu. Í forgrunni er hvönn og engilbjört ljóssúla hnígandi sólar speglast í Skerjafirðinum.

 

Hrafn in memoriam +

Hrafn kom reglulega í Hallgrímskirkju síðustu vikurnar – til að kveðja og opna inn í eilífðina. Þegar hann fór í næst-síðasta sinn sagði hann. „Þú kannt að hlusta.“ „Og þú að tala“ svaraði ég. Hrafn hló og þakkaði fyrir að hafa fengið viðmælanda í hliði himinsins til að kanna djúpin. Skáldpresturinn er þarna að baki honum og svo líka færeyski kútterinn. Hrafn kvaddi fallega og hefur nú siglt inn í hvíta skuggan. 

Gauja – minningarorð

Guðbjörg Þorvarðardóttir – 30. mars 1951 – 28. ág. 2022

Gauja var orðin dýralæknir á Hólmavík. Enginn vissi hvernig konan, sem hafði orðið fyrsti héraðsdýralæknirinn, myndi reynast. Væri hún gunga eða myndi hún duga við erfiðar aðstæður? Gæti hún læknað skepnurnar? Það voru jú aðallega stórgripir sem hún yrði að sinna í sýslunni. Gæti kona tekið á kúm og hestum og komið þeim á lappir? Væri henni treystandi til vetrarferða á svelluðum, fáförnum vegum í blindhríð og myrkri? Áleitnar spurningar voru bornar fram við eldhúsborð Strandamanna. Kraftatröllin sáu svo að hún tók til hendinni. „Það er töggur í henni“ – var hvíslað. Gauja keyrði ekki útaf og hún kom þegar kallað var. Hún hafði líka fræðin á hreinu og svaraði skýrt þegar spurt var um hvað ætti að gera. Virðingin óx.

Svo var hluti af starfi hennar að vera heilbrigðisfulltrúi og framfylgja lögum og reglum um hollustuhætti. Gauja kom í kaupfélagið og sá sér til furðu að kjöt og grænmeti voru ekki aðgreind í búðinni. Blóðvessar fara illa með salatinu. Hún talaði við kaupfélagsstjórann. Hann lofaði að klára málið og tryggja að farið yrði að reglum. Svo leið tíminn. Gauja kom í búðina að nýju. Þegar hún var að smella vörum í körfu sá hún að ekki hafði verið lagfært. Allt var við það sama, ekki hafði verið hlustað á heilbrigðisfulltrúann. Hún bölvaði, sem ég ætla ekki að hafa eftir, rauk upp og til kaupfélagsstjórans og talaði svo kröftuga íslensku að maðurinn lak niður í stólnum, andmælalaust. Sýsli kom, kaupfélagsbúðinni var lokað og hún innsigluð. Fréttirnar bárust með eldingarhraða um sýsluna. Nýi héraðsdýralæknirinn – já stúlkan – hafði lokað stórveldinu. Ekki var opnað aftur fyrr en úrbætur höfðu verið gerðar. Strandamenn eru sagðir hafa grátið þegar Gauja færði sig um set og fór í annað umdæmi. Þeir og dýrin höfðu misst bandamann.

Gauja var leiðtogi. Á hana var oftast hlustað og henni var fylgt. Gauja átti í sér styrk til að veita forystu og í þágu annarra. Hún ræktaði með sér sjálfstæði. Systkini hennar treystu henni. Hún var útsækinn þegar á barnsaldri, sótti út í náttúruna og til dýranna. Hún var glögg á möguleika en líka hættur. Gauju var treystandi til að marka stefnu og hópur af börnum fór gjarnan á eftir henni um mýrar og engi, móa og börð og vitjaði dýra og ævintýra. Gauja fór á undan og hin á eftir. Hún setti kúrsinn. Það var vissara og líka betra að treysta henni.

Enn ein minning: Þegar Tumi var á Hólmavík hjá fóstru sinni einhverju sinni var hann ekki kominn með bílpróf. Í dreifbýlinu hefur unglingunum frá upphafi vélaaldar á Íslandi verið trúað fyrir dráttarvélum, heyvinnutækjum og að keyra bíla. Gauja treysti sínum manni fyrir bílnum en áminnti hann að fara ákveðna leið, virða óskráðu reglurnar og alls ekki keyra aðalgötuna. Í gleði stundarinnar sinnti hann ekki fyrirmælum fóstru sinnar og keyrði út af vegi. Og kom heldur lúpulegur heim. Hún skammaði hann ekki og kunni þó vestfirsku líka. Drengurinn hafði átt von á yfirhalningu en kenndi til djúphljóðrar sjáfsásökunar fyrir að hafa brugðist Gauju. Hann lærði lexíu fyrir lífið. Það var betra að treysta dómgreind Gauju, hlýða henni. Hún var ekki aðeins leiðtogi heldur eiginlega máttarvald.

Arfur, umhverfi og nám

Guðbjörg Anna Þorvarðardóttir fæddist í Reykjavík 30. mars 1951. Foreldrar hennar voru hjónin Anna Einarsdóttir og Þorvarður Kjerúlf Þorsteinsson. Það var meira en bara ættartré sem blasti við Gauju þegar hún ólst upp. Vegna fjölda barna og í mörgum húsum mætti jafnvel fremur tala um ættaskóg. Alsystkini Gauju eru: Einar; Sigríður; Margrét og Þorsteinn. Hálfsystkini Guðbjargar, sammæðra, eru Þorkell Gunnar; Sigurbjörn; Kristín og Björn. Hálfsystkini samfeðra eru: Dýrfinna Sigríður; Þórunn; Dagbjört Þyri; Ólína Kjerúlf og Halldóra Jóhanna.

Gauja bjó í foreldrahúsum fyrstu árin. Foreldrar hennar skildu og hún fór fimm ára gömul með móður sinni að Kiðafelli í Kjós. Þar var hún í essinu sínu, leið vel með skepnunum og við sjóinn. Hún naut einnig góðrar skólagöngu. Vegna búfjáráhugans fór hún í búfræðinám í Borgarfirði. Hún var eina stúlkan í stórum strákahóp á Hvanneyri. Þeir gripu ekki í flettur hennar og hún gaf þeim ekkert eftir í námi og störfum. Alla virti hún og fann sig jafnoka allra. Gauja var aldrei í neinum vandræðum með að umgangast bændur á löngum dýralæknisferli. Í henni bjó yfirvegaður styrkur. Hún útskrifaðist sem búfræðingur frá bændaskólanum árið 1968. Hún hafði verið við nám í MR um tíma en ákvað að fara í MT, Menntaskólann við Tjörnina, og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1971. Í stúdentsbókinni Tirnu kemur fram að hún hafði hug á dýralæknanámi og er teiknað hross á myndinnni við hlið hennar. Í textanum er spáð að hún muni nota hrossasóttarlyf við bráðapest í lömbum! Spá samstúdentanna um námsstefnu rættist en hún hún varð meira en hrossadoktor í fjárhúsum. Gauja útskrifaðist árið 1981 sem dýralæknir frá KVL, Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum á Friðriksbergi í Kaupmannahöfn. Gauja var heimsborgari og fór til Nýja Sjálands til dýralæknastarfa og þar á eftir lærði hún röntgenlækningar í Sidney í Ástralíu. Þá setti hún stefnuna heim.

Störfin

Eftir störf í Strandasýslu gegndi hún dýralæknastöðum á Húsavík, í Búðardal og á Hvolsvelli. Svo togaði Reykjavík. Hún ól með sér þann draum að setja á stofn eigin dýraspítala. Hún hafði með öðrum keypt hús Guðjóns Samúelssonar, húsameistara, sem er nr. 35 við Skólavörðustíg. Við hlið hússins var skúr sem Gauja reif og byggði þar hátæknispítala fyrir dýr. Húsið vakti mikla athygli og aðdáun borgarbúa fyrir búnað og hönnun. Hluti þess var blýklæddur til að varna geislun. Gauja hafði jú lokið röntgennámi og vildi nota nýjustu tækni við greiningu á dýrunum sem hún bar ábyrgð á. Gauja var dr. Dolittle og Dagfinnur dýralæknir okkar gæludýraeigenda í Reykjavík. Það var alltaf gott að koma til hennar. Hún bar ekki aðeins virðingu fyrir dýrunum heldur líka fyrir sálarbólgum eigendanna sem komu stundum hræddir og oft í mjög dapurlegum erindagerðum.

Fjölskyldulíf Gauju var litríkt. Systkinin voru mörg og ættboginn stór. Gauja hafði lært að vera öllum söm og jöfn, talaði við alla með sömu virðingunni. Hún var glaðsinna, ræðin og lagði gott til. Hún var vinsæl, virt og eftirsótt til ábyrgðarstarfa. Hún var formaður Dýralæknafélag Íslands í mörg ár og starfaði m.a. í samninganefnd BHM fyrir Dýralæknafélagið. Gauja hafði alla tíð mikinn áhuga á stjórnmálum og réttlætismálum nær og fjær. Hún tók m.a. þátt í starfi Kvennalistans og var mörgum eftirminnileg í þeim störfum. Gauja talaði við börn sem fullorðna.

Tumi

Þegar hefur verið nefndur til sögu fóstursonurinn Kjartan Tumi Biering. Hann laðaðist að Gauju í Kaupmannahöfn þegar móðir hans og Gauja voru þar í námi. Milli þeirra Tuma og Gauju varð strengur sem aldrei slitnaði og hann var langdvölum hjá fóstru sinni – í Strandasýslu, á Húsavík og víðar. Hún studdi hann, kenndi honum að keyra og að gera kartöflumús, sem er kostur að kunna í lífinu.

Juliette

Kona Gauju var Juliette Marion. Gauja bjó þegar á Skólavörðustígnum þegar þær kynntust og Juliette flutti inn til Gauju. Þær urðu par og gengu síðar í hjónaband. Þær vou góðar saman, gáfu hvor annarri styrk og samhengi og sköpuðu fagurt heimili. Þökk sé Juliette að veita Gauju ástríkan hjúskap.

Hver var Gauja?

Hvað verður um okkur þegar Gauja er farin? Hvernig eigum við að lifa? Þetta eru setningar sem hafa verið sagðar á fundum mínum með ástvinum Gauju. Hver var hún og hvaða mynd skapaði hún með orðum sínum, gerðum og tengslum? Hver er mynd hennar í þínum huga? Jú, hún var kát, gjöful, barngóð, bóhem, frábær dýralæknir, umhyggjusöm, vísindamaður, lífskúnstner, nákvæm, skynsöm, sjálfstæð, hugrökk, nærfærin, umhyggjusöm, stórlynd, gæflynd, höfðingi, dýravinur, mannvinur, ættrækin, félagsvera, mannasættir, gleðisækin, fróð, vitur – þetta eru allt lýsingar sem hafa verið tjáðar síðustu daga og þið getið enn bætt í sjóðinn.

En Gauja var þó ekki flekklaus dýrlingur – en við skil verða plúsarnir mikilvægastir, gullið, en ekki hvort einhver blettur var hér eða þar. Í bernsku og gegningum lífsins hafði Gauja unnið með gildi, stefnumál sín og sig sjálfa. Hún hafði sín mál að mestu á hreinu, hvort sem um var að ræða kynhneigð, fjölskylduáföll, gildi eða tengsl. Þó hún væri húmoristi hafði hún ekki mikla þolinmæði gagnvart óréttlæti. Hún beitti sér gegn málum og kerfum, ef hún taldi þau gölluð og ekki síst ef þau gætu valdið skaða mönnum, málleysingjum eða náttúru. Þegar ég kom til Gauju með hundinn minn fékk ég tilfinningu fyrir kyrrlátum styrk hennar og félagslegri getu. Því fleiri sögur sem ég heyri og les dýpkar myndin af Gauju.

Hvað verður um okkur þegar Gauja er farin? Það er tilfiningin fyrir djúpum missi sem Juliette, systkini og ástvinirnir tjá. Mér virðist að Gauja hafi verið meira en hæfur einstaklingur. Hún átti í sér getu og mátt sem var meira en bara orð, gerðir og tengsl. Af því hún var heil og óspungin var hún meira en væn manneskja. Hún var máttur sem hægt var að teysta – eiginlega fjallkona. Gena-arfurinn og dýptarmildi áa og edda skipta máli en einstaklingar ákveða sjálfir og velja hvernig unnið er úr og hvernig brugðist er við í lífinu. Gauja var mikil af sjálfri sér. Hún hafði í sér áunninn styrk og nýtti þau gæði í þágu annarra, með því að lifa vel, gleðjast, njóta, opna og vera. Hvað er það sem þú saknar mest í Gauju? Þið sjáið öll á bak miklum persónuleika og mætti til mennsku. Missirinn er sár. En hún er fyrirmynd okkur öllum um svo margt. Fjallkona.

Himinmyndir

Nú er hún farin að Kiðafelli eilífðar. Hún hlær ekki framar með þér, spilar við þig Kings Quest eða bridds, býr til forrit eða app, býður þér heim eða kemur skepnunni þinni á fætur að nýju. Hún leikur ekki jólasvein framar eða fer í annað bæjarfélag til að kaupa bensín af lægstbjóðendum. Hún heldur engan fyrirlestur oftar um galla vindmylla eða launamál dýralækna. Áramótin hennar eru komin og rífa í. Ofurgestgjafarnir Gauja og Juliette opnuðu heimili sitt oft og galopnuðu við áramót. Skrallað var á gamlárskvöldum, svo voru skaup lífsins, flugeldar og gleði. Þar á eftir fóru margir inn til þeirra Gauju. Þær úthýstu engum. Allir voru velkomnir. Laðandi og hlý mennskan stýrði. Gauja var jú söm við alla. Er það ekki þannig sem djúp-réttlætisþrá okkar uppteiknar guðsríkið – að gefa séns, opna, leyfa, henda helst engum út. Nú er partí á himnum eftir ármót – á þessum skilum tíma og eilífðar. Við þökkum fyrir líf Gauju og fyrir hana sjálfa. Því verður skrallað í Gamla bíó eftir þessa útfararathöfn. En munum að hún er ekki í því gamla, heldur farin yfir í nýja bíó – nýja lífið á himinum. Sem góður vísindamaður, sem virti mörk þekkingar og mat lífsplúsana, var hún var opin gagnvart hinu óræða. Þær víddir hafa ýmsir bóhemar lífsins kallað Guð. Við felum Gauju þeim Guði. Ég bið Guð að vera með ykkur ástvinum og vinum. Nú er það Kiðafell eilífðar eða vonandi fær Gauja að beisla himneskan fák og spretta yfir eilífðargrundirnar.

Kveðjur: Snorri Sveinsson og Þorsteinn Paul Newton.

Minningarorð SÁÞ við útför-bálför Guðbjargar Önnu Þorvarðardóttur, Háteigskirkju, 13. september, 2022, kl. 15.

Æviágrip – yfirlit

Guðbjörg Anna Þorvarðardóttir fæddist í Reykjavík 30. mars 1951. Hún lést 28. ágúst síðastliðinn. Eftirlifandi eiginkona Guðbjargar er Juliette Marion f. 2.5.1960. Guðbjörg Anna var dóttir hjónanna Önnu Einarsdóttur, húsmóður (4.11.1921–11.11.1998) og Þorvarðar Kjerúlf Þorsteinssonar (24.11.1917–30.8.1983), síðar sýslumanns á Ísafirði. Þau skildu. Anna giftist síðar Hjalta Sigurbjörnssyni (8. 7.1916–12.11.2006) bónda á Kiðafelli í Kjós og þar var Guðbjörg upp alin frá fimm ára aldri. Alsystkini Guðbjargar Önnu eru: Einar f. 16.3.1944; Sigríður, f. 3.8.1948; Margrét, f. 22.11.1949; og Þorsteinn, f. 10.8.1955. Hálfsystkini Guðbjargar sammæðra eru: Þorkell Gunnar f. 30.3.1957; Sigurbjörn f. 10.6.1958; Kristín Ovell f. 5.4.1961; og Björn f. 4.8.1963. Hálfsystkini samfeðra eru: Dýrfinna Sigríður f. 9. 2.1947; Þórunn, f. 18.8.1955; Dagbjört Þyri, f. 19.3.1958; Ólína Kjerúlf, f. 8.9.1958 og Halldóra Jóhanna Kjerúlf, f. 23.11.1959. Fóstursonur Guðbjargar Önnu er Kjartan Tumi Biering f. 31.10.1973. Guðbjörg Anna útskrifaðist sem búfræðingur frá Hvanneyri 1968. Hún varð stúdent frá MT (Menntaskólanum við Tjörnina) 1971 og dýralæknir frá KVL (Den Kongelige Veterinær og Landbohøjskole) í Frederiksberg í Kaupmannahöfn 1981. Eftir námið í Danmörku vann hún í eitt ár við slátureftirlit sauðfjár í Invercargill á Nýja Sjálandi. Lauk síðan masternámi í röntgenlækningum dýra í Sidney í Ástralíu 1983. Guðbjörg Anna var héraðsdýralæknir í Strandasýslu með búsetu á Hólmavík til margra ára. Síðar gegndi hún sama starfi á Húsavík, í Búðardal og á Hvolsvelli. Um aldamótin söðlaði hún um og setti á stofn eigin stofu, Dýralæknastofu Dagfinns, að Skólavörðustíg 35 í Reykjavík, þar sem hún starfaði alla tíð síðan. Guðbjörg Anna var virk í félagsmálum og lét víða til sín taka á því sviði. Hún var formaður Dýralæknafélag Íslands 2009–2015 og sat um skeið í samninganefnd BHM  fyrir Dýralæknafélagið.  

Aular?

Fyrir utan Hallgrímskirkju eru skúlptúrar Steinunnar Þórarinsdóttur á sumarsýningu Listahátíðar. Það eru ekki eftirmyndir eða afsteypur einstaklinga og stórmenna heldur fremur táknmyndir. Annars vegar eru menni án klæða, eins og táknverur mennskunnar sem býr í öllum áður en menning eða ómenning mótar, íklæðir eða afskræmir. Hins vegar brynjuð menni sem táknmyndir vígvæddrar mennsku. Mennin annars vegar og vopnafólkið hins vegar standa saman úti á holtinu. Bil er á milli. Fólkið sem á leið um Skólavörðuholt þessa dagana hleypur ekki fram hjá þessum skúlptúrum eins og Leifi heppna heldur fer að þeim, skoðar þá, snertir þá, stillir sér upp við þá, ræðir um mennin og hermennina og sum segja að brynjuliðið sé eins og her af Pútínum allra landa. Á móti séu saklausir borgarar allra alda. Tvennur Steinunnar vekja viðbrögð og eru þátttökuskúlptúrar og ýmsar túlkanir vakna. Suma dagana eru þeir með fangið fullt af blómum. Fyrir nokkrum dögum kom ung kona og kyssti eina brynjuna rembingskossi – eins og hún væri að reyna að leysa ófreskju úr álögum, kyssa prinsinn til lífs og gleði. Tvær ólíkar manngerðir á torgi lífsins. Önnur í álögum og hin til framtíðar – en til lífs – eins og við förufólk heimsins erum kölluð til.

Hroki og auðmýkt
Guðspjallstexti þessa sunnudags er líka um tvo menn, tvennu. Sagan segir frá tveimur í tengslum og með mismunandi skilning. Þeir voru eins ólíkir og spennuverurnar á torginu utan kirkjunnar. Annar var upptekinn af stöðu sinni. Hann var drambsamur. En hinn baðst miskunnar og fékk lífsdóm. Annar var með bólgið egó en hinn útflatt. Annar var hrokagikkur en hinn í rusli. Þeir fóru á sama staðinn til að vinna með tilvist sína. Annar kom til að fá staðfestingu þess að hann væri frábær. Hinn kom til að vinna með bresti sína og fá, það sem heitir á máli Biblíunnar, fyrirgefningu syndanna. Annar var brynjaður en hinn vitjaði mennsku sinnar. Sagan er ein útgáfa tvennuspennu sem frjóvgar hugsun, nærir íhugun, hvetur til þátttöku, breytir fólki og stælir visku. Mennið í okkur er guðsmyndin og er kallað til mennsku, að frumgerð okkar sé virkjuð til ástar og lífs.

Jesús hefði fengið Nóbelinn ef hann hefði verið sögumaður í samtíð okkar. Smásögurnar hans eru hrífandi og hnittnar. Þær hafa jafnan óvæntan endi, sem vekur til umhugsunar. Sögurnar eru lyklar að visku. Drambsamir líta niður á aðra, gera grín að fólki, benda á veikleika, missmíði, áföll og hefja sjálfa sig upp á kostnað annarra. Þeir temja sér botnhegðun. Hinn hrokafulli lítur niður á aðra því hann horfir ekki upp, sér ekki hærra en eigin topp, eigin stöðu og dýrð. Hinn drambsami talar niður til fólks, rýrir málstað annarra, gildi og stefnur sem ekki henta honum. Farísei texta dagsins var slíkur maður. Við þekkjum öll slíkt fólk, við lifum jú blómatíma hinna hrokafullu sjálfhverfunga. Þeir eru brynjulið samtíma okkar og vakna ekki af álögunum þó þau séu kysst.

En það er ímynd auðmýktarinnar, sem mig langar til að við íhugum. Tollheimtumaðurinn í Jesúsögunni kemur algerlega blankur fram fyrir Guð, þorir varla að biðja um hjálp, en stynur upp miskunnarbæninni, svipaðri þeirri og við höfum yfir í messunni alla sunnudaga. Kristnin hafnar hroka en er tollheimtumaðurinn hin hreina mynd hins kristna manns? Bæði já og nei. Vissulega er tollheimtumaðurinn ímynd þeirra, sem hafa skrapað botninn, skilja að lengra verður ekki haldið á lastabrautinni. Tollheimtumaðurinn getur verið fyrirmynd fyrir fíkla og þau, sem hafa misst allar festur og fóta. En mörgum mun reynst örðugt að samsama sig atferli hans og afstöðu. Þá erum við komin að auðmýktinni. Er tollheimtumaðurinn ímynd auðmýktarinnar?

Auðmýktarsagan
Í mörg þúsund ár hefur auðmýkt verið lofsungin. Í Orðskviðum segir: „Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall. Betra er að vera lítillátur með auðmjúkum en að skipta herfangi með dramblátum.“ Svipaðar setningar og áherslur má finna víða í ritum forn-Grikkja, sem skildu vel speki hófsemi. Jesús lagði áherslu á auðmýkt og hógværð. Síðan spunnu kristnir spekingar í þessar gyðing-grísku uppistöður. Mér sýnist þó að margir kirkjujöfrarnir hafi farið offari í túlkun sinni á auðmýkt og eðli hennar og raunar spillt auðmýktarhugtakinu. Klaustraforkólfurinn Benedikt frá Núrsíu talaði t.d. um tólf skref auðmýktar og að toppnum væri náð þegar menn gerðu sér grein fyrir að maður sé lægst settur og aumastur allra. Síðar skrifaði Bernharður frá Clairvaux, annar merkur klaustramaður, líka um tólf skref auðmýktar. Hann áleit að auðmýktin gerði menn óttalausa og kærleiksríka. Hann taldi auðmýktina vera þá dyggð, sem kenndi mönnum að sjá sjálfan sig með réttum hætti og þá með því móti að menn fyrirlitu sjálfa sig. Er þetta góð kenning? Er auðmýkt að eðli til sjálfsfyrirlitning? Nei, ég held ekki.

Auðmýkt aðeins fyrir karla?
Ég heyrði öflugan guðfræðing halda fram, að auðmýktarsiðfræðin væri fyrir karla en alls ekki fyrir konur! Ég fór að íhuga þessa ydduðu yrðingu. Jú, boðskapur um auðmýkt hefur verið predikaður fyrir fólki lengi. Hin trúarlegu skilaboð runnu inn í karlstýrt þjóðfélags- og menningarkerfi þar sem auðmýktaráhersla var notuð til að skilgreina stöðu kvenna skör lægra en karlana. Við getum samþykkt að konur hafi haft veikari stöðu en er fyrirbærið auðmýkt úrelt þar með? Mér þykir algerlega ótækt að auðmýkt sé aðeins mál okkar karla en ekki kvenna líka. Vissulega þurfa konur að leggja sig eftir styrkleika og sjálfstæði, berjast fyrir jafnrétti og jafnstöðu á við karla. En þær eiga ekki að berja af sér auðmýkt til að vera sterkar. Sem sé, það er ástæða til að endurnýta auðmýktina, endurskilgreina hana og endurlífga.

Kíkjum aðeins á sögu hugtaksins. Vestrænir hugsuðir hafa því miður lemstrað, “ræfilvætt” og undirlægjuskilyrt auðmýktarhugtakið. Þess vegna er ekki skrítið að heimspekingar síðustu alda hafi farið háðuglegum orðum um auðmýkt. Spinoza hafði t.d. litla trú á gildi auðmýktar og taldi hana yfirvarp annars. Hann taldi líka, að auðmýkt væri löstur ásamt með hrokanum. David Hume taldi auðmýktina, ásamt klaustradyggðum, ganga gegn góðum lífsmarkmiðum og beinlínis skadda fólk.

Margir hafa síðan fylgt í kjölfar þessara rýnenda. En gagnrýni þeirra hittir ekki auðmýktina heldur fremur undirlægjuhátt, aumingjaskilning og kúgunarþáttinn. Ég held við ættum að segja skilið við sjálfsfyrirlitningarskilning klaustramanna. Það er brynja sem má losa sig við að ósekju. Við þurfum hins vegar að endurvekja þá vitund, að við þiggjum allt að láni, njótum alls vegna elsku, erum ráðsmenn í þjónustu kærleikans og til gagns fyrir fólk og sköpun veraldar. Við erum menni á lífsleið ástar og gæsku.

Styrkur persónu – forsenda auðmýktar?
Frumþáttur auðmýktar kristins manns er fólgin í vitund um, að manneskjan lifir í ljósi Guðs, er af Guði og þiggur þaðan allt, líf og gæði, egó og aðstöðu. Kristinn maður er þakklátur og lítillátur af því að allt er frá Guði komið, stundir og dagar, fjölskylda og fé. Allt er að láni, líf og eignir og allir menn, já öll sköpun er hluti guðslífsins. Því er maðurinn, einstaklingurinn, hlekkur í milli lífs- og þjónustukeðju. Svo er hitt að enginn verður auðmjúkur við að sjálf og persónan hið innra brotni. Auðmýkt er persónueigind sterks sjálfs en ekki veiks. Til að auðmýkt spíri, vaxi og beri ávöxt þarf góðan skjólgarð hið innra. Auðmýkt verður ekki til nema í heilli, sterkri persónu sem ber virðingu fyrir reynslu sinni, gildum, stefnu og eigindum. Jesús Kristur er besta dæmið. Hann var ekki sundurknosaður karakter, heldur hafði fullkomlega heila og sterka vitund og mótað sjálf. En hann var auðmjúkur framar öðrum. Hann lifði í þessari samsettu vídd, að lúta föður sínum, sjá líf sitt og hlutverk í elskusamhengi, bera virðingu fyrir sér og köllun sinni og vera óttalaus í þjónustu gagnvart gildum, mönnum, verkefnum og þar með líka dauðaógn og skelfingarmálum.

Eitt sinn var sagt um íslenskan biskup: „Hann þóttist vera góður.” Það var meinlega sagt. En auðmýktin er ekki viljamál. Auðmýktin er dyggða erfiðust því um leið og menn verða sér meðvitaðir um eigin auðmýkt byrjar hún að deyja. Ákvörðuð auðmýkt er því miður ein gerð hroka. En tileinkun auðmýktar er æfiverkefni. Marteinn Lúther minnti gjarnan á, að auðmýkt er algerlega hulin hinum auðmjúka, sem  veit ekki og sér ekki eigin auðmýkt. Dýrlingur veit ekki af dýrðardómi sínum. Um leið og menn vilja vera dýrlingar verður þeim það ómögulegt. Góðverk eru auðvitað góð en verða stórkostleg, þegar fólk gerir þau án vitundar um hversu góð þau eru. Auðmýkt er ómeðvituð en sjálfræktuð lífslist.

Þrennan
Ekkert okkar er algerlega brynjuð vera né heldur fullkomlega nakið menni. En það er brot af báðum í okkur öllum. Jesús sagði yddaðar sögur til að minna okkur á að við lifum frammi fyrir Guði. Þar er ljósið skarpara en í mannheimi, þar sjást lífshrukkurnar, brestir og brot. Þar gildir ekkert annað en auðmýkt, því þar er upphaf og samhengi alls. Þann vísdóm megum við síðan fara með út í mannlífið, því þar er Guð líka, hvert sem við förum erum við í musterinu frammi fyrir Guði. Í lífi okkar þarf að vera auðmýkt til að brynjur falli, fólk verði glatt, öllum verði þjónað. Þegar við lærum að tjá: „Guð vertu mér syndugum líknsamur” þá verður undrið. Brynjan lifnar við kossinn og álögin falla.

Lexían: Jes 2. 11-17. Pistillinn: Rm 3. 21-26. Guðspjallið: Lk. 18.9-14.

11. sunnudagur eftir þrenningarhátíð – A-röð.