Sjónskerpa og Biblían

Nú er orðið hægt að kaupa nýja og bætta sjón. Mörg hafa kastað gleraugunum og sum endanlega, losnað við að hreinsa kámug glerin og sleppa við að fálma eftir gleraugunum í morgunmyrkrinu eða missa þau á mikilvægum stundum. Leysiaðgerðir hafa stórbætt sjón margra síðustu árin. Sögurnar um augnbætur sem ég hef heyrt eru kraftaverkasögur. Auðvitað eru mörg sem hafa ekki fengið þá sjón sem þau þráðu. En þó er árangur aðgerðanna augljós. En framfarir í augnlækningum eru miklar og margir njóta. Leysiaðgerðir byggja á tækni sem á sér langan aðdraganda í fræðaheiminum, ekki aðeins hinum læknisfræðilega heldur líka í eðlisfræði og verkfræði. Tæknilegar uppgötvanir hafa verið nýttar á sviði læknisfræði til að hægt verði að samtengja þekkingu og þar verður hinn nýji skilningur og þegar best lætur hin nýja sjón.

Í dag er Biblíudagur. Af hverju skyldi klerkur vera að tala um augnlækningar? Hvað hafa undur í læknisfræði að gera með slíkan dag? Jú, sjónbótatæknin er dæmi um hvernig þekking á einu sviði er færð yfir á annað og getur skapað nýja tilveru ef einstaklingurinn notar hana rétt. Rétt og góð fræði geta gert kraftaverk. Það er einmitt það sem gildir í biblíumálunum líka.

Árnalestur

Ég var svo lánsamur að kynnast manni í frumbernsku sem las Biblíuna sína reglulega og af alúð. Hann hét Árni Þorleifsson og bjó á Sjafnargötu hér sunnan kirkjunnar. Hann var vinur foreldra minna og vann við smíðar hjá föður mínum. Hann bað móður mína meira að segja að láta kútinn bera nafn hans þegar ég fæddist. Foreldrum mínum var annt um Árna og urðu við beiðni hans. Báðir afar mínir voru látnir þegar ég fæddist og hann kom í þeirra stað. Við urðum nánir og ég heimsótti hann reglulega. Þegar ég var komin á unglingsaldur missti hann sjónina og þar með gat hann ekki lengur smíðað, lesið blöð eða bækur og ekki heldur Biblíuna. En við sömdum um að ég skyldi verða honum augu. Ég fór til hans vikulega og las fyrir hann. Stundum vildi hann að ég læsi úr dagblöðum eða tímaritum en oftast að ég læsi upp úr Biblíunni. Þetta var ekki einhliða þjónustustarf gagn vart honum. Ég fékk innsýn í líf merkilegs manns og líka trúarlíf, afstöðu og biblíusýn hans. Þetta varð okkur báðum til góðs. Svo féll Árni frá og ég tapaði honum en áfram lifði vitundin um trúarlíf manns sem hafði mótast af glímunni við stórritningu veraldar. Hann hafði leyft Biblíunni að móta sig og ég fékk innsýn í að öflug glíma við Ritninguna getur áorkað miklu og mótað persónudýptir fólks. Árni var heilagur maður. Ég uppgötvaði að öflugur biblíulestur getur skapað engla.

Fjölbreytileiki Biblíu og lestrarlykill

Árni hafði lesið allar sextíu og sex bækur Biblíunnar margoft og skildi hversu ólíkar bókmenntir þær voru. Hann vissi að Biblían væri bókasafn, að ritin þjónuðu mörgum og mismunandi hlutverkum og að Biblían hefði sprottið úr og slípast í ólíku samhengi á nærri tvö þúsund árum. Hann leit ekki smáum augum á spádómsbók Habakúk eða Dómarabókina. Hann bað mig stundum að lesa úr Mósebókum eða Jesaja. En honum þótti vænna um Davíðssálmana en Orðskviðina. Helst vildi hann að ég læsi guðspjöllin því hann vildi vera sem næst Jesú. Ég lærði hjá Árna Jesúfestuna og skildi betur síðar að allir biblíulesarar eiga sér hlið og líka leið inn í ritasafn Biblíunnar. Allir eiga sér jafnframt ramma um túlkun og biblíunálgun sem er með mjög ólíku móti. Sumir leita að siðferðisboðskap í Biblíunni. Aðrir leita að huggunarorðum. Enn aðrir hrífast helst af spekinni og flestir hafa þörf fyrir bróður, vin og frelsara. Biblían er um allt fólk og hentar öllum en talar misjafnt til fólks.

Biblíusýn – túlkandi afstaða

Afstaða einstaklings eða hóps til hvernig lesa eigi Biblíuna hefur gjarnan verið kölluð bíblíusýn. Nálgun fólks er alltaf tengd forsendum. Skilningur er aldrei forsendulaus. Við skiljum aldrei án túlkunar. Forsendur eiga sér rætur t.d. í hugðarefnum, lífsafstöðu, aldri, reynslu, varnarháttum líka og í hvaða hefð eða menningu við lifum. Eitt er biblíutúlkun presta í einhverri kirkjunni og annað hvernig trúboðsstöð notar Ritninguna. Aðventistar túlka með einu móti, hvítasunnumenn öðru vísi og svo fræðimaður í Biblíufræðum með sínu móti. Því er þarft að staldra við og skoða hvað ræður afstöðu okkar til Biblíunnar og hvaða augu eða gleraugu við notum sem lestrarhjálp. Eru þau til hjálpar eða henta þau illa til að skilja Biblíuna?

Bókstafshyggjan

En fyrst um bókstafshyggju sem hefur breiðst út í nútímanum. Það er skaðlegur lesháttur gagnvart Biblíunni og vert er að vara við. Bókstafshyggjan leggur áherslu á einfaldan skilning á málum trúar og Biblíu. Bókstafshyggjan leitar ávallt að óskeikulli leiðsögn og hefur afar takmarkaðan áhuga á táknrænum boðskap. Bókstafshyggjan hefur skert umburðarlyndi gagnvart því að samfélag og gildi breytast og vill sjá í siðfræði fornaldar boð um líferni og skyldur kristins manns í nútíma. Bókstafshyggjumenn halda fram ákveðnum hugmyndum, siðalögmálum, náttúrufræði og reglum sem þeir segja vera boðskap Biblíunnar. Þeir telja að Biblían sé óskeikul eða ákveðinn túlkunarháttur hennar sé hinn eini rétti. Þegar einhver dregur það í efa taka bókstafstrúarmennirnir það sem árás á trú og jafnvel Guð og bregðast ókvæða við og jafnvel með ofbeldi og stríðsaðgerðum. Bókstafstrúin er aldrei einföld eða augljós. Oftast er að baki henni ótti við þekkingu og rannsóknir og að einhver ógni leiðtoga eða stefnu samfélags. Þá óttast bókstafshyggjumenn fjölbreytni, ólíkar skoðanir og hugmyndir. Þeir óttast oft útlendinga og gera þá tortryggilega, hræðast rökræður, ósættanlegar kenningar og breytingar. Það sem bókstafstrúarmenn leggja til grundvallar túlkun Biblíunnar eru einhver grunnatriði sem á ensku eru gjarnan nefnd fundamentals hvort sem það er nú meyjarfæðing, ákveðin skýring á upprisunni, afstaða til hjúskaparstofnana eða kynlífs eða að Biblían sé vísindarit um sköpun heimsins.

Hvað sjón gefur bókstafshyggjan? Það er svart-hvít sjón. Hún er einföld, gjarnan einstaklingsbundin, þröngt menningarskilyrt og á kostnað fjölbreytni í mannlífi. Bókstafshyggjan er litblind í biblíutúlkuninni og sér bara svart, hvítt en stundum líka grátt. Bókstafshyggjan hefur haft gríðarleg og víða skelfileg áhrif í pólitík. En það er líka þarft að muna eftir að svipaðar áherslur og svipuð einhæfni er til í öllum kimum heimsins, meðal allra menningardeilda og átrúnaðar og líka trúleysi. Bókstafshyggjan tengist gjarnan hræðslu, valdabaráttu og jafnvel hernaði. Menn læsast í hinni litblindu heimssýn, lífs- eð trúar-afstöðu, öllum til ills, heimsbyggðinni til skelfingar, trú til skaða og Guði til djúprar hryggðar. Guðsríkið er litríkt en bókstafshyggja er litblind.

Þekkingarbreytingar – sjóntækjabreytingar

Bókstafshyggjan er úrelt sjóntruflandi lestrargleraugu sem við eigum að kasta. Háskólafræðin eru okkur í trúarlífinu sem leysiaðgerðir í sjónmálum. Við ættum að taka fagnandi því sem vísindin hafa opinberað og veita okkur varðandi biblíuskilning og lestrarhátt. Biblíufræði og öll þau fræði sem menn hafa stundað við rannsókn Biblíu og trúarlífs hafa fært okkur dásamleg tæki til skýringar á flestu í heimi Biblíunnar. Við vitum mun meira um gerð textanna og merkingarsvið þeirra en formæður og forfeður okkar og mun meira um félagslegar forsendur frumkristninnar og úr hvaða samhengi Davíðssálmar spruttu. Meira er vitað um félagslegt, menningarlegt og trúarlegt samhengi Jesú Krists nú en nokkru sinni áður. Rannsóknirnar hafa flísað niður einfeldningslegar hugmyndir um að bókasafnið Biblía sé rit sem eigi að trúa á bókstaflegan hátt og trúa á einn máta og túlka á einn veg. Mörgum biblíulesurum ógna þessi fræði. En trúðu mér hvorki kirkja né kristindómur þurfa að að óttast góð vísindi og gangrýna hugsun. Trúmaður þarf ekki að hneykslast þótt sögulegar rannsóknir sýni að það eru menn sem komu að gerð og skrifum Biblíunnar. Góð fræði ógna ekki Guði heldur aðeins ímyndum okkar um Guð, fordómum okkar og hugsanlega eigin sjálfsmynd. Fólk sem horfir með augum trúarinnar þarf æfa sig stöðugt í að spyrja um rök eigin skoðana, kirkju og trúfræði. Það er margt í arfinum sem veldur sjóntruflun í málum trúarinnar. Við megum muna að trú kristins manns beinist að Guði en ekki bók eða bókasafni Biblíunnar.Kristinn maður trúir á Guð en ekki á Biblíuna.

Hvernig getum við lesið Biblíuna?

Ef rannsóknir á Biblíunni hafa breytt sýn manna á uppruna, eðli og merkingu Biblíutextanna verðum við að spyrja hvort sýn okkar standist og það sem við sjáum sé sködduð mynd og molnuð Biblíumynd í þúsund brotum. Þegar sjónin breytist þarf auðvitað að fara horfa með nýjum hætti. Það tekur líka tíma að aðlagast betri sjón. Mér hefur lærst að það er hægt að lesa með nýjum hætti sem dýpkar og skerpir mynd hins guðlega. Góð saga grípur og verður oft til að hjálpa fólki við að endurskilja líf sitt og sjá það í nýju ljósi. Þær bókmenntir sem við köllum klassískar þjóna slíku hlutverki. Saga Guðs í samskiptum við fólk og glíma fólks við Guð hefur verið meginsaga í okkar menningarheimi í þúsundir ára. Einstaklingar og þjóðir hafa lesið sögu sína í þeim skjá, túlkað drauma, vonir og vonbrigði í þeim ramma. Sem slík er Biblían enn fullgild í dag. Saga Jesú verður það sem fólk getur séð sem erkisögu heims og manns og er hægt að nota til að túlka líf okkar manna á þessum tíma sem öðrum. Smásögur okkar verða hluti af stórsögu Jesú og sögu Guðs í heimi.

Hvernig er biblíusjón þín?

Það var einhvern tíma prestssonur sem var að horfa á pabba sinn skrifa prédikun og spurði hann hvernig hann vissi hvað hann ætti tala um í kirkjunni. Pabbinn svaraði að Heilagur Andi segði honum það. Strákurinn spurði þá að nýju: „En af hverju ertu alltaf að strika út það sem þú ert búinn að skrifa?” Guðs góði andi starfar í og með dómgreind okkar. Við þurfum stöðugt að skoða og endurskoða trúarefni og sjónarhól okkar. Við þurfum að spyrja okkur hvernig við sjáum og hvort eitthvað sé missýn. Árni nafni minn og afi varð blindur en sá með innri augum. Hann hafði fullkomna sálarsýn til þess sem er miðjan í Biblíunni sem er Jesú Kristur. Hann gerði sér grein fyrir að hann gat sleppt gömlum gleraugum og jafnvel sjóninni og samt séð hið dýrmætasta í Ritningunni. Ertu háður eða háð gömlu gleraugunum? Geturðu ekkert lesið nema hafa þau á nefinu? Stýra fordómarnir þér? Biblían er heillandi heimur sem á í safni sínu mynd af þér og hinu góða lífi sem þú mátt njóta. Ný sýn er í boði, ný túlkun og ný biblíusjón. Má bjóða þér ný augu?

Biblíudagurinn. Jes. 55.6-13. 2Kor. 12.2-9. Lúk. 8.4-15.

 

Rauðspretta með kapers, vínberjum, steinselju og graslauk

Fyrir 4

Innihald:
1 kg rauðsprettuflök
salt og nýmalaður pipar
3 msk smjör
20 stk græn vínber langskorin í fjórðunga
2 msk kapers
2 msk graslaukur, saxaður
2 msk steinselja

Ofnsteiktir kartöflubátar sem meðlæti. Svo er auðvitað líka meðmælanlegt að nota hrísgrjón eða bygg í stað kartaflanna og litríkt salat með.

Aðferðin:
Skera vínberin, graslauk og steinselju. Blanda saman við kapers. Rauðsprettuflökin snyrt og beinhreinsuð, krydduð með salti og pipar. Ekki roðfletta heldur steikja á pönnu með roðið niður. Vakta vel og snúa þegar nánast er fullsteikt. Brúna smjörið á pönnu. Setja fiskinn fullseiktan á hvern disk, koma vínberja-graslauks-steinselju og kapers-blöndunni yfir fiskinn og og setja ca 1 msk af smjöri yfir hvern skammt. 

Fagurkerarnir vilja Sancerre með og til heiðurs Vigdísi. Verði ykkur að góðu. 

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.  Amen. 

Landskjálftar, sprenging og hjálp

Hver og hvað hjálpar þegar jörð skelfur, hús hrynja eða springa, tugir þúsunda deyja í hamförum, samfélög riðlast, stórveldi klikkast og ástvinir falla? Í Davíðssálmum segir: „Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp?“ Hinar hrikalegu myndir sem okkur berast frá Tyrklandi og Sýrlandi síðustu daga skelfa og meiða en minna mig líka á fjölskylduferð upp á Skaga. Þar hitti ég Harald Sturlaugsson. Hann bauð mér að koma heim með sér svo hann gæti sýnt mér atvinnu- og íþrótta-sögusafn Akraness sem hann hefur unnið að og komið upp. Safnið er glælsiulegt einkasafn og varðveitt í íbúðarhúsi við Vesturgötu nr. 32. Við fjölskyldan fórum inn og heilluðumst. En hvað var þetta sem var þarna á mynd? Var þetta ekki húsið sem hýsti safnið? Hafði það sprungið eða hafði jarðskjálfti splundrað húsinu? Haraldur sagði okkur hrikalega sögu.

Laust fyrir klukkan fimm aðfaranótt laugardagsins 27. nóvember árið 1976 sprakk tólf tonna hitatankur í kjallara hússins. Sprengingin var svo öflug að loftið yfir hitaklefanum splundraðist og líka hæðirnar þar ofan við. Stór hluti þaksins hvarf út í nóttina. Rúður í nálægum húsum brotnuðu og bíll sem stóð í vari undir steinvegg fjörutíu metrum frá spreningarstað stórskemmdist. Steypuhlutar úr gólfum og veggjum flugu hátt í loft upp og grófust svo í jörðu þar sem þeir komu niður. Fáir næturgestir voru heima þessa nótt. En sólarhring áður hafði húsið verið fullt af fólki. Þá nótt gistu yfir tuttugu mans. Ef sprengingin hefði orðið þá hefðu margir dáið. En þessa nótt voru heima mægðurnar Rannveig Böðvarsson og Helga Sturlaugsdóttir og báðar héldu lífi. Sprengigígurinn í miðju húsinu var stór. Rannveig rauk upp við hamfararnir og ætlaði að vitja dóttur sinnar en í myrkrinu féll hún í gíginn og slasaðist illa. Dóttirin Helga var í herbergi sínu og var síðar bjargað.

Hvaðan kemur mér hjálp? Haraldur sagði hvernig stóru spurningarnar hefðu vaknað um líf og dauða, um eyðileggingu og hvort endurbyggja ætti. Svo sýndi hann mér blátt Gídeon-Nýja testamenti sem hafði verið í herbergi Helgu. Þegar björgunarmaður kom í herbergi hennar um morgunin var testamentið opið á náttborðinu. Við blöstu skilaboð í opnunni á blaðsíðum 128 og 129. Þar segir í sálmi 121:

„Ég hef augu mín til fjallanna,

hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni,

skapara himins og jarðar.

Hann mun ekki láta fót þinn skriðna,

vörður þinn blundar ekki …

Eftir þessum skilaboðum var tekið og minningin um þau lifa. Guð vörður þinn. Guð sem skýlir þér. Það var einkennilegt að ganga um í kjallaranum þar sem sprengingin á Skaganun varð, hugsa um orkuna sem leystist úr læðingi og splundraði húsi og öryggi fólks. En svo var byggt upp. Húsið var lagfært. Sálarsárin gréru og lífið lifði. Svo var búið til safn til vitnis um lífið á Skaganum. Sprengjuhólfið, kjallarinn á Vesturgötu 32 hefur orðið vaxtarreitur menningar, lífs og elskusemi. Fingur húsbóndans benda á ofursamhengið: „Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp?“ Þessi saga af Skaganum vísar hún út fyrir sjálfa sig eins og öll menning og allt líf, vísar til dýpta, breiddar og hæða. Líka austur til Sýrlands, Tyrklands og annarra heljarslóða heimsins.

Allar kynslóðir og allar fjölskyldur heimsins eiga sér hamfarasögur. Hvað hjálpar? Sálmurinn er boðskapur um nánd Guðs. Ég horfði á húsið á Akranesi, hugsaði um fólkið og sögu samfélagsins. Við horfum á fallin hús á landskjálftasvæðum, syrgjum hryllinginn og íhugum eyðingu. Allt fólk leitar öryggis og spyr um hjálp og vernd á einhverju skeiði. Sprengingar verða með ýmsu móti í lífi okkar. Skjálftar verða en við ákveðum hvert við leitum og hvað verður lífsakkeri okkar. Hvar er samhengið, lífsbjörgin, trúin?

„Ég hef augu mín til fjallanna,

hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni,

skapara himins og jarðar.

Hugleiðing í kyrrðarstund 9. febrúar 2023. Myndin úr safni Haraldar Sturlaugssonar. Frásögn hans er að baki þessari smellu

Guðsmynd og guðstúlkun Hallgríms Péturssonar í Passíusálmunum

Fyrir skömmu þjónaði ég við útför. Mér var tilkynnt að fjölskyldan vildi gefa mér listaverk sem þakkarvott – ekki eitt verk heldur tvö! Ég var einnig upplýstur um að þau væru eiginlega portrett af mér, Annað er hvítleitt með fjörlegum en fínlegum litum. Hitt er gulleitt, hrífandi vegna geislandi birtu og hreyfinar. Portrett – það voru skilaboðin. Nú er ég búinn að hengja verkin upp og félagar mínir og vinir óskuðu skýringa á þessum nýupphengdu verkum. Þeim þótti merkilegt að myndirnar væru portrett en sögðust skilja hvaða áherslur kæmu fram í verkunum og raunveruleg tenging væri milli mynda og mín.

Við lýsum fólki, viðburðum og reynslu með ýmsum orðum og sögum en við getum líka málað mynd til að tjá áhrif og líðan í tengslum. Sumar myndir í orðum eða litum heppnast en aðrar síður. Þær geta miðlað  skynjun og lyft upp ákveðnum atriðum sem við viljum túlka. Abstraktmyndirnar drógu fram þætti en kortleggja ekki heild persónu. Þær gefa sjónarhorn en eru ekki nákævmur persónuprófíll.

Guðsmyndir og mál manna

Hvernig er Guð? Hvernig ímyndum við okkur hið guðlega? Við vitum að við getum ekki teiknað Guð nákvæmlega en við getum auðvitað tjáð afstöðu, hugmyndir og tilfinningar okkar um Guð og notað til þess táknmyndir. Í sögu sjónlista er fjöldi guðstákna tiltækur. Guðfræði tjáir líka margt um Guð og líka trúarheimspekin. Í þeim fræðum er margt sagt um trúarlegt táknmál. Hvernig er hægt að tala um Guð? Hvaða tungutak notum við til að tjá tengsl við Guð? Við vitum að við notum ekki tungumál til að lýsa Guði með hlutlægum hætti eins og efnafræðingur lýsir efnahvörfum, stjörnufræðingur lýsir því sem gerist þegar lofsteinn kemur inn í gufuhvolf jarðar eða jarðskjálftafræðingur skýrir út skjálfta upp á 7,8 á Richter í Tyrklandi. Ástfangið fólk lýsir ástinni sinni og notar oft mörg orð til að tjá tilfinningar, afstöðu og hinum elskaða eða hinni elskuðu. Með hliðstæðum hætti lýsir trúmaðurinn tengslunum við Guð og merkingu sambandsins. Til að tjá reynslu fólks er mál vísinda ekki notað heldur fremur mál ástarinnar eða mál ljóðsins. Það er litrík tjáning, mál tengsla og oft líka ástartjáning. Það er myndríkt mál og þar með talið líkingamál.

Myndmálið

Eðlilegasta málfar trúarinnar er myndmál. Jesús notaði það óhikað og frábærlega vel. Svonefndar dæmisögur eru yfirleitt sögur með skýrum myndum. Sagan af týnda syninum er ein af fjölmörgum sögum með ríkulegu myndmáli. Þegar Jesús sagði sögu byrjaði túlkunarferli innan í fólki. Þegar fólk hlustaði á sögur Jesú eða les þær vakna strax spurningar. Hvað meinti hann? Hvað er hann að tjá? Hvernig á að skilja þessa sögu og hver eru skilaboð hennar og merking? Myndmál og líkingamál kallar á og vekur hugsun og túlkun. Saga er aldrei einföld. Gildir einu hvort hún er eftir Jesú Krist, H. C. Andersen eða Halldór Laxnes. Inntaksríkar sögur vekja hugsun, viðbrögð og úrvinnslu. Þannig eru sögur og myndir trúarinnar. Þær kalla á túlkun og að lokum móta hugtök. Myndmálið leitar skilnings og skynsemi. Þess vegna eru ljóð svo merkileg og góðar smásögur og skáldsögur svo áhrifaríkar.

Líkingar útfærðar í stuðningslíkingum – túlkar

Líkingin af persónulegum Guði er grundvallandi í kristnum átrúnaði. En persónur geta verið mismunandi og gegnt ólíkum hlutverkum. Við notum mennskar líkingar um Guð og þurfum því að vera meðvituð um að hægt er að skilja Guð með ólíkum hætti. Það skiptir máli hvort við segjum að Guð sé kóngur og herstjóri og er allt öðru vísi en að segja að Guð sé mamma, kærasti eða elskan. Myndmálið sem notað er um Guð vekur og kallar á túlkun og skilning. Í sögu kristninnar hafa verið notaðar alls konar muyndrænar millistýringar til að skilgreina og móta meginatriðin. En þær stýra og móta túlkunina og ég hef nefnt milliliðina túlka því stuðningslíkingarnar móta hvernig myndmálið er skilið. Við tölum gjarnan um Guð sem föður sem er síðan útfærð í myndinni af syni og börnum. Þau eru túlkarnir sem móta skilning á því hvernig föðurímyndin skilst. Talað hefur verið um Guð sem Drottin sem er konungslíking og var útfærð í kristninni með myndinni af þegnum, þjónum, embættismönnum og hermönnum. Móðurlíkingin á sér stuðningsútfærslu í barnslíkingunni; ástmögur á sér tengda líkingu í hinu elskaða; húsbóndi í eiginkonulíkingu og húsbóndi í stuðningstúlknum þræl o.s.frv.

Málfar hluti menningar – breytingar

Líkingar í trúarefnum tengjast þróun í menningu og merkingarvef hvers samfélags. Breyttar aðstæður og gildaþróun hafa áhrif á hvort fólk skilur og samþykkir grunnatriði átrúnaðar. Jafnréttisáherslur hafa t.d. haft mikil áhrif á hvaða myndir af Guði hafa veiklast eða styrkst. Á síðustu áratugum hefur verið bent á að kristnin hafi verið of karlmiðlæg. Þar með hefur verið gagnrýnd notkunin á líkingunni um Guð sem konung, Guð sem herstjóra, Guð sem heimsstjóra, Guð sem dómara og föður. Þessar líkingar um Guð hafa verið gagnrýndar. Það er eðlilegt að hugmyndir um Guð breytist og við þurfum að virða með opnum huga breytingar. Til að endurskýra og endurlífga guðfræðitúlkun verða burðarmiklir túlkar að koma í stað þeirra sem hafa lifað sinn blómatíma. Í því er fólginn vandi allra þeirra trúmanna sem vilja tefla fram “betri” eða “réttari” guðfræði, að túlkarnir verða að vera nægilega öflugir og vísa til almennrar reynslu fólks. Ef aðeins er vísað til sértækrar reynslu verður túlkunin vart annað en skoðun eða stefna afmarkaðs hóps.

Guð í Passíusálmunum – merking og gildi

Passíusálmarnir eru safn fimmtíu sálma sem lýsa píslarferli Krists. Ferðalangnum Jesú Kristi er lýst með tvennu og ólíku móti í sálmunum. Annars vegar er dregin upp mynd af honum sem miklum himinkonungi sem vill koma í heim þegna sinna. Hins vegar er Jesús Kristur í hlutverki mennsks fulltrúa mannkyns sem lætur yfir sig ganga illsku þessa heims.  Þessar andhverfur hátignarkonungsins og líðandi þjóns eru spyrtar saman. Jesús Kristur Passíusálmanna er líðandi konungur. Þar með er sprengd annars vegar konungsímyndin og hins vegar sú mannhugmynd að menn séu hjálparvana í hít vonleysis, þjáningar og dauða. Mál himins og heims eru tengd í einingu Jesú Krists. Lausn alls vanda heimsins á rætur í þeirri ást Guðs sem lætur sig varða kjör og velferð manna og heims. Konungur himins kemur og fer síðan krossferil allt til enda. Þar sem hann er fulltrúi manna leiðir hann mannkyn til Guðs. Jesús gengur inn í allan vanda manna og sérhverja kreppu – en stenst. Í því er hann fyrirmynd og sá spegill sem menn geta speglað sig í og séð sjálfa sig. Öllum sem eru kúgaðir og brotnir verður Jesús sem ímynd vonar og hvatningar til að gefast ekki upp í baráttu lífsins. Hann verður daglegur styrkur á vegi trúarinnar. Nálægur bróðir í raun og gleði og öllum lífsglímum.

Íhugunarkveðskapur

Sálmarnir voru hugsaðir sem föstusálmar og til lesturs og íhugunar á sjö vikna föstu. Í hinni norður-evrópsku trúarhefð allt frá dögum Marteins Lúthers var lögð áhersla á daglegt afturhvarf. Það merkir að menn þurfi að gera reikningsskil við Guð, náungann og sjálfa sig á hverju degi. Lífið er ferli og sífellt þarf að skoða hvað er til bóta, hvað hafi farið aflaga og hvernig megi lifa betur í sátt við Guð og menn. Sálmunum var ætlað að efla íhugun og verða fólki hjálp við endurnýjun trúarinnar.

Hinn skipulagði Hallgrímur

Höfundur Passíusálmanna vildi að þau sem læsu eða færu með sálmanna næðu að fylgja söguþræði og draga lærdóm af píslarsögu Jesú. Sálmarnir reyna að hvetja lesendur til að fylgja Jesú eftir. Í upphafi hvers sálms er staða mála kynnt og síðan er sagt frá baráttu Jesú. Passíusálmarnir hefjast við lok síðustu máltíðar Jesú og lýkur við grafarsetningu hans. Allt sem guðspjöllin segja um píslarsöguna er tekið til skoðunar og íhugunar. Ekkert á þeim ferli fer fram hjá vökulum augum íhugunar, hvorki stærstu atburðir né smáatriði. Allt skyldi skoðað og íhugað.[1] Í eftirfylgdinni er sálinni bent á hvað fyrir ber og rætt er við hana um ýmsar víddir og merkingar. Biblíutextar stýra flæði hvers sálms en eintsök stef eru endurtekin og margskoðuð frá ýmsum sjónarhornum.

Tilgangur sálmanna er að efla og styrkja íhugun og innlifun og leiða síðan til skilnings og tileinkunar. Aðferðinni er ætlað að þjóna íhuguninni. Hver sálmur er sem eining. Dregin er heim alls konar lærdómur og speki sem píslargangan vekur. Skoðunin á ferli Jesú á að leiða til styrkingar einstaklinganna og næringu sálar hins kristna. Skoðun og íhugun leiðir lesandan vítt og djúpt og beygir anda og hné til bænar. Jesús fer á undan og „ég“ á eftir. Þetta sameiginlega ferðalag verður til að staða mín sem mannveru verður skýrari, eigindir, staða og brestir opinberast. Ég er sem á flæðiskeri, að mér er sótt, synd mín er stór og leiðin aðeins ein að fylgja líðandi konungi mínum allt til enda. Þrautaleið hans er ekki átakalaus sigurganga hátignarkóngsins heldur þjáningarfull ganga til lausnar og vona. Niðurstöðu er náð í hverjum sálmi – lofgjörð – sem er er hið rétta viðbragð trúarinnar gagnvart baráttu hins líðandi en þó sigrandi konungs sem veitir hlutdeild í sigri sínum.

Hinn líðandi konungur

Barátta hins líðandi konungs er meginefni Passíusálmanna og litar guðsmynd þeirra. Hvernig fjallað er um heim, manneðli, samfélag manna, kirkjuna o.s.frv. tekur mið af meginefninu. Sú mynd sem dregin er af Jesú mótar allt annað og hafði áhrif á hvernig Íslendingar liðinna alda skildu líf sitt og lífsbaráttu. Sú Jesúmynd sem Passíusálmar draga upp er af stofni hinnar ágústínsku-lúthersku hefðar, baráttusögu milli góðs og ills. Jesúmyndin er ekki friðsamleg. Í sálmunum er Jesús í stöðugri baráttu. Hann fær hvergi hlé eða skjól. Að Jesú er sótt og á hann er ráðist. Honum er ekki lýst sem hinum örugga konungi að baki víglínu heldur nánast sem andhetju sem fórnar sér til að sigur vinnist. Hann hlýðir, fer fram í staðfastri auðmýkt og víkur sér ekki undan baráttu og þjáningu.

Guð í Passíusálmunum

Menn ímynda sér Guð og túlka guðsmynd sína með ýmsu móti. Guðfræði mismunandi kirkjudeilda getur verið talsvert fjölbreytileg en innan íslenskrar kristni má greina ýmsa stefnur. Passíusálmarnir eru trúarrit sem sver sig til síns tíma og til lúthersks rétttrúnaðar. Þeir eru orktir í anda klassískrar guðfræði og víkja í engu frá meginstefnu játninga kirkjunnar og þrenningarkenningunni. Guði föður er lýst sem skapara, föður, dómara og hjálpara. En Hallgrímur var líka trúr hinni lúthersku hefð í því að virða mörk skynseminnar. Eðli Guðs og leyndardóma getur takmörkuð skynsemi ekki skoðað (21:1) og útlistað. Því kenna Passíusálmar enga frumspeki af heimspekitaginu. Hvernig Guð tengist heiminum er tjáð í sálmunum með tvennu. Annars vegar er Guð ástmögurinn mikli sem ber velferð heims og manna fyrir brjósti (44:4, 44:6, 3, 20). Sú ástarafstaða birtist einnig í mynd reiði sem bregst við heimi sem leitar en fer þó villuvegi (26:2, 12:22 o.áfr.). Guði er ekki lýst sem fjarlægum hátignarkóngi heldur í stöðugum og gagnvirkum tengslum við alvöru heim. Um himinn og guðseðlið vill Hallgrímur ekki segja meira því hann telur sig ekki hafa heimild til að lýsa hinu ólýsanlega. Í því er hann hógvær og þekkir mörk sín, mörk hugsunar og mæri máls.

Jesús í Passíusálmum

En guðsmyndirnar sem við greinum í Passíusálmunum eru þá myndir af Jesú Kristi. Í sálmum er honum hvorki lýst sem hernaðarhöfðingja né dulrænum frelsara af hæðum. Honum er fremur lýst sem guðssyni sem afsalar sér hátign og valdi og gengur inn í stöðu líðandi fulltrúa mannkyns. Í sálmunum er því ekki mikið rætt um hátignareigindir Jesú, hvort hann sé alvitur eða almáttugur. Slíkri túlkun er haldið í lágmarki. Hallgrímur var ekki með hugann við guðfræðilegar útfærslur. Hann virðist hafa aðhyllst hefðbundnar kenningar um Guð og þar með um Jesú Krist. Hann vissi vel af yfirskilvitlegri visku Jesú (1:24, 42:3) en túlkaði merkingu þess ekki frekar.

Þjáningarferill hins líðandi konungs er meginefni eða brennigler sálmanna. Jesús verður fyrir alls konar andróðri og þar með þjáningu. En Jesús líður auðmjúkur og velur að mögla ekki. Lýsingar á písl Jesú er með  fjölbreytilegu móti í Passíusálmunum. Hann er sleginn og hundeltur. Í sálmunum er að honum er vegið að utan. Jesús er niðurlægður. Að hann er lagður á jörðu er tákn um algera lægingu hans. Hann er bundinn, fangelsaður og húðstrýktur (9:10, 2, 3, 6, 23, 38). Árásir Jesú eru úr heimi manna. Að honum er hæðst. Til hans er talað með fyrirlitningu og líkami hans verður fyrir aðkasti. Jafnvel náttúran snýst gegn honum. Líkami hans brestur, svitnar blæðir og skelfur (3). Hið illa er allt um kring og sækir að honum og pínir.[2] Öll skelfing heimsins og fylling illsku hans snýst gegn þessum eina (33).

Fyrir mig – þig

Þjáning Jesú er staðgengilþjáning. Adam er í Passíusálmunum samheiti fyrir alla menn. Þá refsingu sem mannkyn á skilið kemur niður í einn stað – hinn líðandi kóng Jesú Krist. Hann er látinn gjalda fyrir hönd Adams, allra manna. Af píslargöngu hans sprettur sigur og þar er þjáningu og sekt eytt. Bæði menn og veröld öll njóta ávaxtarins (3:10). Passíusálmarnir eru saman settir út frá leiðarstefinu „fyrir mig.“ Sá eða sú er fylgir Jesú eftir til hinstu stundar mun ekki aðeins verða vitni að ópersónulegu kraftaverki heldur eignast hlut í því. Þær líkingar sem notaðar eru í sálmunum um frelsunarávöxt Jesú Krists eru úr sjóði klassískrar kristni. Jesús er upplúkning skuldar okkar (3:13), hann kaupir akur miskunnar fyrir blóðdropa sína (17:15), hann leysir fólk úr útlegð (17:23), hann er sá vindur sem feykir burt skýjum (5:5), hann er sá ólívumeiður sem gefur af sér frelsi þegar hann kraminn (2:1).[3]

Menn og sköpun

Þar sem meginfókus sálmanna er í líkingunni af líðandi konungi litar hún hvernig fjallað er um menn og náttúru í Passíusálmunum. Sá spegill sem Jesú bregður upp er með tvennu móti. Annars vegar lýkur hann upp stöðu okkar mannfólksins gagnvart Guði og hins vegar sýnir hann okkur eðli okkar og köllun (9:3). Sumpart er maðurinn fólginn í Jesú en jafnframt eru allir menn Adam, fallinn og þjáður. Jesús bergir bikar þjáningar til fulls en „ég“ aðeins til hálfs. Hann er Guð en „ég“ sem þýðir Adam – allir menn – aðeins flekkaður og fallinn. Sem mannverur leitumst við að brjóta helsi okkar. En slík iðja gerir illt verra. Við hrösum, leggjumst lágt, erum sem föst í pytti, neti eða öðru sem sleppir ekki. Passíusálmarnir lýsa stöðu manna í heimi ranglætis og synda með hjálp líkinga sem tjá fangelsun eða fresissviptingu. Hin stærstu glöp manna er að greina ekki rétt stöðu sína og möguleika. Öllum skjöplast og hrekjast út af þrönga veginn. Mönnum er lýst sem takmörkuðum og þurfandi verum sem hvorki megna að leysa sig sjálfar né geta.

Hið brotna jafnvægi og rásleysi

Þegar í fysta sálmi er talað til sálar: „Þurfamaður ert þú mín sál.“ Líkami manna er brothættur og visnar (17:10). Hallgrímur bregður á loft fjölda líkinga til að tjá þessa meginstöðu manna, líkingum af forgengilegum náttúrufyrirbærum og brothættum hlutum í mannheimi: Menn eru glerker, sem auðveldlega getur brotnað (1:27), leirílát (17:5), hveitikorn, sem sáð er, ber ávöxt og visnar síðan (17:27) og nakin erum við borin í heim (36). Sálargáfur eru takmarkaðar. Skynsemin getur ekki höndlað nema afmarkaða tilveru, þekking er brigðul og leiðir afvega (7:3, 11:3, 21). Heiðarleiki hripar í burt og menn eru sem brotinn reyr og óstöðugt hold (11:2, 11:8). Þótt ráð og leiðsögn vina sé mikilvæg eru þó þar brestir líka, því samfélag manna er skert hversu þroskað sem það er. Af mönnum er einskis fullkomins trausts að vænta og þegar dýpst er skoðað er hver maður einn og óstuddur (9:2, 7:12). Menn reyna að hagræða veröld sér í hag en rugla eða brengla þar með skipan skaparans. Annað hvort fara menn of stutt og axla ekki ábyrgð þá sem mannlífi fylgir eða fara of langt og falla því út af sköpunarreit sínum öðrum hvorum megin. Menn misnota vald og fara of langt (9), gerast forvitnir (21), reyna að halda út fyrir mörk skynsemi (14:11). Mörk  tungunnar og skipan tungumáls eru brotin. Hægt er að segja of mikið t.d. með baktali og lygi eða með því að segja ekki satt um það sem verður að segja. Möglun er ennfremur röng notkun málsins. Hroki er ofvaxin og því röng sjálfsímynd og leiðir til ills athæfis (11, 13:3, 18:10). Þegar of stutt er farið og ekki gætt réttar er sannleika ekki gætt og samfélagið allt líður fyrir. Höfðingjum og valdamönnum er hætt (28:7). Annað dæmi um að fara of skammt og brjóta sett mörk er að huga ekki að hinum smáu, fátæku og hrjáðu (14:14). Þegar menn fara of skammt eða fara of langt er marka ekki gætt og illska magnast og þjáning leiðist af. Báðum megin við reit manna og athafna þeirra er hengiflug sem menn falla í og leiða aðra í ef þeirra er ekki gætt í hugsun, orðum og æði. Það er því sterk siðvitund í sálmum Hallgríms og hvati til réttlætis í þjóðfélagi manna.

Hverfulleiki

Allt er takmarkað og hverfult í heimi. Jafnvel tíminn er markaður (15) og manneskjan er sett undir hverfulleika hans (8:17). Hvert augnablik í núinu er gefið til góðs. Framtíð er ekki tryggð og sérstaklega er siðferðisáhersla sálmanna skýr þegar rætt er um vald manna yfir öðrum. Höfðingjarnir skyldu ugga að sér. Vald þeirra er ótryggt og verður af þeim tekið (8:18). Tákn ljóss og myrkurs eru gjarnan notuð til að tjá óöryggi og hverfulleika alls sem er (4:18-19, 5:2). Manneskjan er ferðalangur í tíma, undir stöðugri aðsókn og ógn, sett mörkum á líkama og sál.[4] En menn bregðast og falla því. Sérstaklega er fallið fyrir því sem mannheimur veldur. Spillt vald og stjórnmál er uppáhaldsatriði Hallgríms (18). Valdahallir verða táknmyndir djöfulegs öryggis- og samtryggingarnets illvelda. Í sölum þessum er æpt að Guði og þjónum hans (10-29). Réttlæti valdaherra er jafnan aðeins á yfirborði (26, 30).

Máli skiptir hvað valdi er lotið

Heimur, menn og mannfélag er afmarkað og með skýrum mörkum. Í Passíusálmum er hvatt til að menn geri sér ljósa grein fyrir þessari sköpunarskikkan og gæti stöðu sinnar í hvívetna. Í fyrsta lagi skyldi hver maður gera sér grein fyrir að engu valdi skal lúta nema Guði. Að öðrum kosti hrasa menn og falla í eitthvert díki, fangelsi, myrkur og örvæntingu (3:11, 4:8 6, 9:3, 9:5, 12, 17, 23, 29, 12, 41:17). En ef rétt vald er tilbeðið, Guð, getur maðurinn lifað vel og verið ábyrgur. En list trúarinnar er ekki list hvíldar og kyrru heldur vegur eftirfylgdar. Hinn kristni maður sem fylgir Jesú er á stöðugri för, fylgir eftir meistara sínum á leið um mannheim með öllum verkefnum sem þeim heimi fylgja. Förin er líka för upp til Jerúsalem og þáttaka í öllum verkefnum og áraun sem meistarinn varð fyrir. Jesús sem líðandi konungur leiðir pílagrím um klungur trúar til lokahæða. Hinn trúaði hlýtur stöðuglega að endurnýja sambandið við meistara sinn, vera í stöðugu sambandi og feta götu í skugga hans. Þar með viðurkennir hinn trúaði öll takmörk sem veröld eru sett og getur betur fótað sig. Trúarlíf er aldrei án siðferðis í skilningi Passíusálma. Siðleg breytni tekur mið af þeirri veröld sem uppteiknuð er. Gott siðferði á upphaf í trú til hins eina raunverulega máttarvalds sem er Guð. Í afstöðu til tímanlegra valdsherra veraldarinnar gengur hinn trúaði fram eins og Jesús, lætur yfir sig ganga hið illa en berst jafnframt gegn röngu valdi sem er illt. Hinn trúaði á að reyna í öllu að gæta meðalhófs í samskiptum við samferðamenn, í orðum og æði og stjaka ekki heldur við meðreiðarsveinum sínum á einstigi lífsins (1:19, 2:9, 2:18, 9:13, 14:11, 18:5, 22:2, 34:4). Ábyrgð manna er mikil og sérhvern skyldi umgangast eins og sjálfan sig. Í öllu verður atferli og iðja Jesú fyrirmynd. Starf hinar kristnu kirkju og safnaðar Guðs á að styrkja menn til þess bænir, orð og sakramenti.

Niðurlag

Guðsmyndir og guðsnálgun með ólíku móti á ólíkum tímum. Hallgrímur var vel að sér og þekkti trúfræðina. Hann valdi mað fjalla ekki um Guð með aðferðum heimnspeki. Guðsmynd hans var ekki hin frumspekilega. Hann notaði ekki hátignarorðræðu um Guð heldur tjáði hið trúarlega með því að segja sögu Jesú Krists. Sú saga sýnir mannvitund og að Guð væri elskur að mönnum, kæmi ekki sem herstjóri, dómari og með eldi og heimsendi heldur sem mennskur þjónn sem lifði eins og aðrir menn. Þar með sprakk konungslíkingin og umbreyttist í annað en veldislýsingu konungsríkis. Hin dramatíska nálgun Hallgríms og innlifun opinberaði guðsmynd sem var mannnálæg og tengdist reynslu fólks. Guð var ekki hátt á tróni sínum í fjarlægum himni heldur hafði áhuga á venjulegu fólki og lífsbaráttu. Því varð trúartúlkun aldanna á eftir þeirri sautjándu sem Hallgrímur lifði á svo lífstengd og nálæg lífsbaráttu venjulegs fólks.

Framsöguerindi í Hallgrímskirkju 7. febrúar 2023. Mynd af listaverki Leifs Breifjörð yfir aðaldyrum kirkjunnar. 

    [1]Nálgun Hallgríms er í anda íhugunarhefðar miðalda. Sjá umfjöllun um fjórar aðferðir túlkunar. Sigurður Árni Þórðarson, Limits and Life: Meaning and Metaphors in the Religious Language of Iceland (American University Studies) 1989, 105-106. Um skiptingu sálmanna samkvæmt inntaki sjá sama rit, 108-109.

    [2]Kvæðið Endurminning Krists pínu sýnir einnig vel hina aðsteðjandi ógn: „°Blessaður sveitist í lóði sín/ barðist við dauðann stranga,/ harmkvæli öll og alls kyns pín/ yfir hans sálu ganga:/ falskoss, fjötur og bönd,/ færður í Júða bönd,/högg, slög, og hráka leið,/ hæðni, álygð og neyð/ og dómsályktan ranga.“ Hallgrímskver, 1952, 127.

    [3]Halldór Laxnes bendir réttilega á dýpt þjáningar Jesú sem umvefur alla þjáningu. Í þjáningu hans er fólgin öll þjáning Íslendinga. Halldór Laxnes, 1942, 41-42.

    [4]Sjá einnig sálminn um dauðans óvissan tíma.

Hanna Ingólfsdóttir Johannessen – minningarorð

Hanna Johannessen var mér og starfsfólki Neskirkju sem besta móðir.  Hún var dugmikil sóknarnefndarkona og kom flesta daga í kirkjuna til að leggja lið og efla fólk til starfa. Hún lést vorið 2009. Ég var að leita að minningarorðum mínum um Hönnu og sá þá að þau höfðu horfið með gamalli vefsíðu. Set þau hér inn til minningar um stórkostlega konu og mannvin. Blessuð sé minning Hönnu. 

Minningarorð um Hönnu Ingólfsdóttur Johannessen

Hanna og Matthías voru á Hólsfjöllum. Þau voru komin heim í fang fjallanna hennar Hönnu, heim í Víðirhól. Ilmur gróðurs kitlaði, blómin brostu og augu heiðarinnar horfðu á þau úr öllum áttum. Kvika Matthíasar var snortin. Hann skynjaði helgi augnabliksins, þykkni sögunnar, dansandi stúlkubarnið í konunni sem laut niður á hlaðinu á Víðirhóli og gældi við gróðurinn. Svo rétti hún úr sér, brúnu augun ljómuðu og hún lagði í lófa hans fíngert blóm. Hann sá hvað það var – og að það var alsett hjörtum, sláandi ástartjáning Hönnu, sem gaf honum ekki einfalda ást sína, heldur hjörtu lífs, gleði, styrks, trúar, vonar, hláturs og ljóða. Hún varð honum póesía, verðandi – og líka okkur hinum. Og Matthías hreifst af þessu smáblómi ástarinnar, tákni um líf lands og fólks. Lífið lifir.

Ungur maður sem hefur sótt Neskirkju í mörg ár og kynntist því Hönnu sagði í vikunni: „Það er óhugsandi að Hanna sé dáin. Hún hefur alltaf verið óháð tíma, eiginlega ofar tímanum og eins og hún gæti ekki dáið.”

En höggið kom snöggt og skjótt. Hvernig verður hjá Matthíasi? Hvernig er hægt að hugsa sér aðfangadagskvöld á Hernum án Hönnu? Hvernig getur kirkjulíf í Vesturbænum lifað af, svo við tölum nú ekki um pólitík, góðvild, fermingarbörnin hér í kirkjunni og mömmumorgnana? Stórfjölskyldan í Neskirkju kveður “kirkjumömmu” sína – eða “kirkjuömmu” eins og sum börnin í sunnudagaskólanum sögðu. Þú og þessi stóri kærleikshópur Hönnu sem kveður í dag hefur tapað vökukonu elskunnar.

Elskið – elskið hvert annað – sagði Jesús við brottför sína af heimi. Fólkið á Hólsfjöllum, fjallræðufólkið, iðkaði boðskap Jesú. Elskið, gætið að líðan fólks og dýra, eflið hvert annað, dansið á góðum dögunum, syngið þegar söngs er þörf og ljóð kvikna. Meitlið mál, elskið hvert annað – gefið hjartablóm til lífs.

Æviágripið

Jóhanna Kristveig fæddist á Grímsstöðum á Fjöllum 28. nóvember árið 1929. Foreldrar hennar voru Ingólfur Kristjánsson og Katrín María Magnúsdóttir. Barnalán þeirra var mikið og eignuðust þau hjón fimmtán börn. Hanna lærði því á fólk strax í bernsku.

Heimilislífið var fjörugt og bókelskt. Foreldrarnir voru samstiga í uppeldi, glaðværð, ögun og menntunaráherslu. Á vökum var lesið, ljóð hljómuðu, mál var vandað og pabbinn brást hart við þegar texti var brotinn eða mál brenglað. Um pabbann var sagt að hann væri Gullna reglan holdi klædd. Ingólfur var tilfinningamaður og spyrja má hvort Hanna fann ekki í Matthíasi síðar ýmsa djúpstrengi, sem hún þekkti úr fíngerðum lífsþorsta pabbans. Svo erfði hún spilandi glaðværð hinnar hálffæreysku mömmu, sem var berdreymin, fjölskynug, fagurkeri og söngvin. Börn Ingólfs og Katrínar fengu stóra meðgjöf sjálfsvirðingar til ferðarinnar út í lífið. Í þeim býr mannvirðing og fjölþættar gáfur. Því voru þeim margir vegir færir og “þau áttu að gera eitthvað úr sér” sagði Katrín.

Fyrstu árin bjó stækkandi fjölskyldan á Grímsstöðum. Svo fluttu þau út í kirkjustaðinn Víðirhól. Hvers konar fólk verður til í mæra-aðstæðum? Fjalla Bensi í Aðventu Gunnars Gunnarssonar var einn. Uppeldiskrafan var um lífsleikni en líka elskuiðkun, traust og víðsýni. Svo líka að elska Herðubreið, sem “leit best út um eldhúsgluggan,” eins og Hanna sagði, læra að meta kyrrðina, sem var svo djúp að hægt var að heyra fótatak göngumanns í margra kílómetra fjarlægð, heillast af ofsaþokka dansandi norðurljósa. Í slíkri náttúru verður til ljóðræna og skynjun, að hið smáa getur verið ofurstórt og hið gríðarlega hverfist í smáblóm. Sandkornin á Hólssandi eru mörg, sporin inn í Öskju óteljandi, droparnir margir í fljótinu og foksandur nagaði gróður.

Gegn eyðingunni brosti fjallið Eilífur himnesku brosi – maður mundu köllun þína. Já hvað er mennskan – er hún bara til dauða? Var lífið aðeins tíbrá heits dags? Mökkur daga, æðandi stórhríð, brosandi hjartablóm stæla æðruleysi, kenna samsend alls sem er, opna æðar lands, sögu, Guðs. Og hið mikla fæðist í hinu smáa, Hanna tók í sig land, stóru spurningarnar, fortíð og ást til fólks. Arfur úr foreldrahúsum varð heimamundur, sem hún naut og gat veitt af alla tíð. Elskið.

Suðurferð og fjölskyldusaga

Svo fór Hanna Ingólfsdóttir suður og í Iðnskólann. Hún varð hágreiðslumeistari og rak eigin stofu í Skólastræti. Hún hafði fljótt mikið að gera og rífandi tekjur. Enginn, sem henni kynntist, efaðist um færni hennar.

Þegar Matthías lenti í brasi með félaga sína í samkvæmi á þeim örlagadegi 1. október 1949 var nærri honum nett stúlka sem gerði sér grein fyrir vanda hans, færði sig til á stól sínum og sagði við hann. “Þú getur setið hér á stólnum hjá mér.” Og þaðan í frá sat hann hjá henni. Svo fóru þau að búa. Hanna var hrifin af Matthíasi sínum og sagði sínu fólki stolt að hann væri verulega vel hagmæltur! Svo fæddist þeim Haraldur. Matthías stökk út í lönd skömmu eftir fæðingu. Fjarri konu og nýfæddum syni uppgötvaði hann hversu Hönnulaus tilveran var honum óbærileg. Hann tók ákvörðun sem ekki varð hnikað að fara aldrei bæjarleið í veröldinni án hennar. Svo varð.

Hanna vann fyrir þeim hjónum fyrstu árin. Danmerkurárin urðu þeim dýrðartími. Þegar þau sneru heim hélt Hanna áfram hárgreiðslunni. Bóndi hennar þjónaði Morgunblaðinu og annirnar urðu svo miklar, að Ingólfur varð ekki til fyrr en áratug á eftir bróður hans kom í heiminn. Þá hætti Hanna sínum atvinnurekstri en hélt vel um sína menn og hafði að auki tíma til allra þeirra ómetanlegu félagsstarfa, sem hún varð kunn fyrir og hlaut síðar viðurkenningu fyrir með veitingu Fálkaorðunnar.

Það var skemmtilegt að sjá blikið í augum sona hennar þegar spurt var um mömmuhlutverkið. Þeir voru sammála um, að móðir þeirra hafi sett skýr mörk, klára stefnu, skiljanlegar leikreglur og hún hafi ekki þurft að skella hurðum til að þeim yrði hlýtt. Hún vildi að karlarnir hennar héldu sínu striki í verkum, stæðu fast og hvikuðu ekki meðan stætt væri. Hanna stýrði vel og eflaust hefur Haraldur líka notið Hönnureglu og lagaspeki til sinna starfa. Hann er lögfræðingur og ríkislögreglustjóri. Ingólfur lagði stund á læknisfræði og er tvöfaldur doktor í veirufræði. Hann kennir við læknadeild Edinborgarháskóla.

Börnin í fjölskyldunni urðu Hönnu gleðigjafar. Kona Haraldar er Brynhildur Ingimundardóttir og eiga þau fjögur börn: Matthías, Kristján, Önnu og Svövu. Líf sona, fjölskyldunnar, barnabarna og langömmubörnin, börn Matthíasar yngri urðu tilefni margra sagna, sem Hanna gladdi okkur vini sína með. Hún vakti yfir velferð og gæfu þessa fólks, allra sem henni tengdust, fagnaði happi og sigrum og svo bað hún fyrir þeim sem þörfnuðust, og virkjaði bænahópinn í kirkjunni, þegar erfiðleikar steðjuðu að.

Eigindir

Hanna var ekki einnar víddar? Var það fæðing á fjalli sem olli, fósturfjórðungurinn, arfur eða mótun? Líkast til allt þetta samtvinnað. Uppistaðan í henni var sterk, hún var einbeitt og stefnuföst, hafði þegið góðar og fjölþættar gáfur í vöggugjöf. Hún var eins og björkin og brotnaði ekki við álag. Hún var æðrulaus og hafði tamið sér að bera ekki sorgir á torg. Hún var dul, en trúði þó prestunum sínum fyrir flestu og svo átti hún líflínu í greiðu himinsambandi.

Hanna hafði ekki aðeins skoðanir á heimsmálum og stjórnmálum Íslands, heldur líka helgileikjum í Oberammergau, ítölskum kúltúr og ótrúlegt nokk – Formúlunni. Michael Schumacher var hennar kappi. Þó hún væri ekki sjálf í spyrnunni, sá hún til að bílarnir þeirra Matthíasar væru hreinir. Hanna var flott í stígvélum á þvottaplaninu og með slæðu á höfði. Hanna vildi hafa allt fallegt og vandað í kringum sig. Og gæði vildi hún einnig í starfsháttum og samskiptum. Hanna heyrði aldrei slúður og miðlaði því ekki. En hún var hins vegar glögg á fólk, sagði frá til góðs og eflingar. Hún lagði alltaf vel til annarra og stóð svo ákveðin með þeim sem á var hallað. Hanna var trygglynd, glaðlynd, kímin og vönduð til orðs og æðis. Hún átti enga óvildarmenn. Allt frá bernsku var hún ákveðin að lifa sólarmegin í lífinu og snúa örðugleikum til góðs og var alltaf lipur við að leyfa öðrum að njóta birtunnar.

Félagsþjónusta Hönnu

Elskið – elskið – það var boðskapur Jesú. Og í Hönnu bjó virðisauki elskunnar. Hún brást vel við kalli frá stuðningssamtökum fanga. Á aðfangadagskvöldum – yfir fjörutíu ár – var Hanna sem engill af himni í veröld Verndarfólks. Fyrst fór hún niður á Hjálpræðisher, efndi þar til veislu og svo kom hún þreytt en sæl í miðnæturmessuna í Neskirkju. Hanna starfaði einnig að barnaverndarmálum og var í Barnarverndarnefnd Reykjavíkur í mörg ár.

Hanna var rásföst í pólitík eins og í öðrum málum. Í tengslum við fólk spurði hún ekki um flokksskírteini en hún beitti sér í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði heillandi sögur af litríkum vinum sínum í pólitíkinni. Hanna var í trúnaðarráði Hvatar, félagi Sjálfstæðiskvenna, og var formaður um skeið.

Það var Neskirkju og starfi þjóðkirkjnnnar blessun og happ þegar sr. Guðmundur Óskar kom á fund Hönnu árið 1988 og bað hana að koma til starfa í sóknarnefnd Nessafnaðar. Hún sagði já og þjónaði svo kirkjunni óhvikul, lengstum sem varaformaður sóknarnefndar. Hún var safnaðarfulltrúi og sótti því héraðsfundi prófastsdæmisins, var í héraðsnefnd og í stjórn Hjálparstarfs kirkjunnar.

Aldrei þáði Hanna laun fyrir en starfsdagur hennar í kirkjunni var oft langur eins og hún væri í meira en fullu starfi. Hún vakti yfir flestum starfsþáttum ekki síst mömmumorgnum og barna- og unglinga-starfi. Hún gætti að velferð starfsfólks kirkjunnar, tók á móti öllum, sem komu í kirkjuna, með þeim hætti að allir urðu heimamenn. Hún var eiginlega framkvæmdastjóri kirkjunnar í mörg ár. Allir fóru upplitsdjarfari frá hennar fundi. Við, prestarnir, áttum alltaf stuðning vísan og ráðhollt mat hennar.

Það var gaman að spyrja hana hvað maður ætti nú að tala um næsta sunnudag. Hún skautaði með klerkinum yfir viðfangsefnið. Sjaldan vildi hún efna til herferða eða stórudóma. En eitt sinn var henni alveg lokið og þótti mál og menning þjóðarinnar vera að blása upp og trosna. “Nú þarf presturinn að tala um tungumálið,” sagði hún. Og svo gerði presturinn það auðvitað. Þá fékk ég innsýn í hvernig hún hefur verið Matthíasi stuðningur í gustmiklu starfi hans.

Hanna hlustaði og fyldist með öllu frá Hönnusætinu í kirkjunni, í þriðju röð við ganginn, og stýrði messustandi safnaðarins – nú er sætið hennar autt – hvít rós í því tjáir missinn.

Matthías hefur haft mikil áhrif með störfum sínum. En ég þori að fullyrða að fleiri hafa staðið og setið í samræmi við forskrift Hönnu en forskrift Matthíasar. Í áratugi stóð söfnuðurinn og sat í samræmi við hennar stjórn.

Í mörg ár útdeildi hún í altarisgöngum með prestum. Þeirri þjónustu lauk ekki fyrr en við dauða hennar. Fyrir liðlega mánuði síðan útdeildi Hanna við bænamessu. Hún gekk með bikarinn, bar lífstáknið – sagði hin helgu orð: Blóð Krists – bikar lífsins. Sú útdeiling í hinstu altarisgöngu hennar var á nákvæmlega sama stað og kista hennar er nú. Ekki óraði mig fyrir þegar ég útdeildi henni, að það væri nestun til eilífðar.

Hanna er farin en táknmálið lifir, lífið lifir, trúin sem hún þjónaði er lífsstrengur og orðin sem hún sagði eru áhrínsorð.

Kærleikur þinn hafið

Síðustu daga höfum við, vinir Hönnu, verið að reyna að að æfa okkur í staðreynd dauða hennar. Hanna er ekki lengur nærri. En svo koma ljóðin hans Matthíasar upp í fangið og huga og við uppgötvum að hún er víða í ljóðum hans.

Í hinum magnaða ljóðabálki Sálmar á atómöld segir:

Óendanlega smátt er sandkornið
á ströndinni.

Óendanlega stór er kærleikur þinn.

Ég er sandkorn á ströndinni,
kærleikur þinn hafið.

Myndin tjáir guðsnánd. Vatn er alls staðar þar sem líf er, og myndhverfingin miðlar að elskan hríslast um æðar þínar og er í sál þinni. Elskan til maka og barna, ástalíf þitt allt er hræring hinnar miklu Guðsnándar. En getur verið að Hanna sé þarna líka í þessu ljóði, sem ásjóna Guðs, birting hins guðlega?

Nú hefur Eílífur vitjað Hönnu. Í vikunni kom ég heim til Matthíasar. Hann opnaði bókina Mörg eru dags augu og benti á ljóðið um Víðirhól og Hönnu. Þar segir:

Hún beygir sig niður

eftir blómi

og réttir mér hjarta

úr grænu blaði,

réttir mér hjarta

vaxið úr dökkri mold,

og lynggróin heiðin

horfir á okkur

úr öllum áttum.

Á þessari bókaropnu var líka þurrkuð jurt límd í bókina. Matthías hafði varðveitt hjartablómið og skrifað svo í bókina hvar Hanna hafði gefið honum þessa ástargjöf. Blómið í bókinni við hlið ljóðsins er tákn um allar hjartans gjafir hennar til hans, en líka ástvina, vina, samferðafólks, gjafir til lífs, bikar lífsins. Elskið – Saga Hönnu Ingólfsdóttur Johannessen er saga um hafstærð kærleikans sem nú hefur opnast henni.

Guð geymi hana, Guð geymi þig.

Amen

Hanna Ingólfsdóttir Johannessen 28. nóvember 1929 – 25. apríl 2009. Minningarorð í útför í Neskirkju 8. maí 2009.