Tilbrigði við gult og glatt

Fæturnir taka á sprett síðasta spölinn yfir Hallgrímstorgið. Það er gott að skjótast úr strengnum inn í myndheim forkirkjunnar.  Augun leita inn altarisleiðina.  Og sjá, við dyrnar er lygilega gulur lyftari á fleygiferð.  Lyftustjórinn er organistinn, Hörður, sem óhikað rekur gaffalinn undir útstöð orgelsins á kirkjugólfinu.  Hann brosir lítillega við undrandi kirkjugesti og lyftir tækinu, rennir því og orgelhlunknum nær miðjugagni og lætur það svo síga á setstað. Þarna vill hann spila í dag.  Hörður setur stút á munninn og reyndar allt andlitið.  Það dettur á hann einhver suður-evrópskur maestrosvipur, sem hann hefur örugglega einhvers staðar þegið að láni frá tónsnillingi í ham.  Svo hneigir hann höfuð snöggt og með rykk. Þá umhverfist þykistualvaran í glens og bros breiðist yfir andlitið.  Ekkert er sagt, en atferlið er tilbrigði við gulan orgellyftara eða er þetta gjörningur?  Fyrsta verk í undirbúningi sunnudagsmessu.

Svo er tilbrigði við næsta stef.  Klukkan er ekki tíu og kórmeðlimir koma.  Sumir líða inn úr rokinu eins og svefngenglar. Lyktin og lætin laða þau beint að eldhúsi í kaffi.  Hörður stendur á miðju gólfi og veitir öllum athygli.  Einn feiminn tenór hlýtur góðlátlega athugasemd og ein úr altinum fær stroku fyrir spilerí á tónleikum í liðinni viku.  Svo er þétt handtak og umhyggjuaugu honum, sem missti ömmu sína í vikunni.  Presturinn kemur með góðan daginn og þeir samverkamennirnir eru fallegir í framan saman.  Svo fer klerkur til að stýra fræðslumorgni, en kantórinn kallar sitt fólk.  Hann tekur létt vingsspor frá Suðursal og alla leið í Norðursal.  Nokkur kórpils valhoppa með.  Dagur og messa eiga sér elskulegan undirbúning. Kantórinn sér fólkið sitt, hefur ræktað með sér hæfni til að tengja við tilfinningar samverkamanna.  Fólk skiptir máli.  Þetta fólk er ekki aðeins raddir heldur lifandi verur.  Iðkun kærleika er flottur spuni.

A-a-a-a-a, e-e-e-e-e. Ah-ah-ah-ah-ah.  Upp tónstigann, svo niður. Vindurinn hrífst með og gnauðar um gluggarifu.  Kviðvöðvarnir í kipp, leitað að þindinni og slakað á brjóststykkinu.  Varir eru teygðar í sérhljóðavinnslu, raddböndin mýkt upp, axlir í spennulausri hvíld. Líf færist í tónmyndun og hljómur hópsins skýrist.  Vantar bara einn því félagar í Mótettukór standa við sitt, svíkja ekki messusönginn. Söngstjórinn æfir fólk í að muna hvar samhengið og miðjan er.  Svo kemur lítil og kímileg saga.  Upphitun er með fjölbreytilegu móti og aldrei alveg eins.  Hörður er lítið fyrir læsta endurtekningu og kann fjölbreytni, sem rímar betur við fólk og líðan þess.

Crügerlaglína berst frá píanóinu á meðan hjartað og lífið er signt í huganum.  Flett er upp í sálmabókinni. “Nú gjaldi Guði þökk, hans gjörvöll barnahjörðin….” Aðeins sungið einu sinni.  Svo kemur miskunnarbænin: “Drottinn miskunna þú oss…”  Hvað þýðir það og af hverju þrítekið með Kristmiðju?  Þrenningin!  Og glorían svo, síðan heilsan með þínum anda!  Guðspjallssálmur með hússælu og minnt á kredóið.  Auðvitað játningin á sínum stað og svo enn einn sálmurinn. Engin ástæða til að syngja fjórraddað í safnaðarsöngnum. Hallgrímssöfnuður syngur, en svo leggja einstaklingar í kór og kirkju á hljómadjúpin.  Bach er sérstaklega æfður í tilefni dagsins.  Þá er kórinn opnaður.  Hörður stekkur upp og byrjar að stjórna.  Það þarf ekki að stoppa nema tvisvar og syngja aftur yfir.  Svona er kórverkfærið gott og agað.  Allir lesa óhikað – og treysta.  Svo eru sálmarnir sungnir sem eftir eru.  Allt búið – „gott, þið eruð yndisleg“ segir hann. Þá er farið í kaffi. Allur messuhringurinn er örugglega fetaður, fallegur gjörningur og gefur öryggi.  Kórinn er þéttur og samheldinn.  Bachhrynjandin og línan fylgir manni fram.

Messuupphaf og allar nótur á sínum stað.  Allar stillingar eru tilbúnar.  Höfuð organistans hnígur lítillega og messuferðin hefst. Fingur á loft og stóri Kláus tekur við rafboðum, þenur pípur og prelúdíutónar fylla hvelfingu.  Kórfélagar ganga til stæða sinna. Presturinn gengur fram mót altari.  Hörður skágýtur augum til kórsins meðan fætur dansa á bassanum og fingur líða yfir borð.  Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.  Ekki tilbrigði heldur frumstefið, sem allt er tilbrigði við, hvort sem það er nú Bach eða Þorkell, Matthías eða Lilja, kredó, predikun, borðsamfélag eða blessun.  Orðið er lesið, síðan útlagt og söfnuður gengur til guðsborðsins.  Uppréttar hendur og blessun.  Hallgrímur leggur orð á varir safnaðar með “Son Guðs ertu með sanni.”  Prestur og kór ganga fram og allir eru á leið út í veröldina með huggun í vegarnesti.

Eftirspilið er tilbrigði við lokasálm.  Organistinn spinnur úr stefinu, hljómarnir þyrlast upp og mynda stafla og stæður.  Smátt og smátt verður til tónverk í spunagleðinni.  Á miðganginum er hugsað, að það sé dásamlegt að söfnuður og kirkja njóti slíks snillings til að þjóna hinu góða erindi við veröldina.  Sólin leikur sér á norðurvegg kirkjunnar og baðar sinn góða vin á orgelstólnum.  Fætur hans dansa, kirkjugestir stoppa og guli orgellyftarinn ymur í gleði.  Gott ef ekki sést glytta í englavængi þarna uppi.  Allir glaðir, enda erindið kennt við fögnuð.

Grein mín til heiðurs Herði Áskelssyni birtist í minningarriti Mótettukórsins árið 2003. Myndirnar frá 2005 þegar Hörður kynnti Klaisorgel Hallgrímskirkju fyrir fulltrúum Porvoo-kirknasambandsins. 

Ástin, trú og tilgangur lífsins

Ekki aðeins mönnum þykir gott að elska heldur Guði líka! Í kirkjuræðum mínum hef ég hef gjarnan talað um guðsástina og ástina í veröldinni. Guðsástin er inntakið í gleðiboðskap Jesú Krists og þar með kristninnar. Lífið lifir vegna þess að Guð elskar. Sá boðskapur á alltaf erindi og svo sannarlega líka á þessum spennu- og stríðstímum.

Síðustu áratugi hef ég flutt um eitt þúsund hugleiðingar í helgistundum og sunnudagsprédikanir í kirkju. Úr þessu safni valdi ég 78 ræður í bók fyrir helgidaga ársins. Ritið nefnist Ástin, trú og tilgangur lífsins. Í því er fjallað um þrá fólks og tilfinningar, náttúruna, menningu, tilgang, sjálfsskilning, trú og efa, Guð og ástina í lífinu.

Forlagsþrenningin Bjartur-Veröld-Fagurskinna, sem Pétur Már Ólafsson stýrir, gefur postilluna út af þakkarverðum metnaði. Útgáfuhátíð verður í Neskirkju laugardaginn 11. nóvember og hefst kl. 16 með örþingi í kirkjunni um ritið og prédikun presta í kirkju. Kl. 17-19 verður síðan útgáfuhóf í safnaðarheimilinu og allir eru velkomnir.

Á örþinginu tala þessi: Elín Sigrún Jónsdóttir, Sigurþór Heimisson, Elínborg Sturludóttir, Sigurvin Jónsson, Rúnar Vilhjálmsson, Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Ragnar Helgi Ólafsson. Þingstjóri: Vilhelm Anton Jónsson.

Ræðusöfn presta hafa gjarnan verið kallaðar postillur og af því ástin er leiðarstef ræðusafns míns hafa vinir mínir gjarnan talað um ástarpostillu. Það er lýsandi og hnyttin nefning og var lengi vinnuheiti ræðusafnsins. Ragnar Helgi Ólafsson, rithöfundur og grafískur hönnuður, bjó ritið til prentunar. Hönnun hans er í anda bókagerðar stórbóka bókaútgáfunnar Helgafells fyrir hálfri öld. Hallgrímskirkja styður útgáfuna og ég er afar þakklátur sóknarnefnd fyrir. Stuðningurinn tryggði að hægt væri að fá listamann til bókarhönnunar og vanda allan frágang. Elín Sigrún Jónsdóttir hlustaði á allar ræðurnar. Hún er ástkona mín og ást má líka tjá og iðka í samtali um trú og Guð. Halldór Reynisson las yfir handritið og gerði þarfar athugasemdir. Áslaug Jóna Marinósdóttir var öflugur málfarsráðunautur og prófarkalesari. Ég þakka þeim alúð og metnað fyrir mína hönd. Þá þakka ég samstarfsfólki og öllum þeim sem tekið hafa þátt í helgihaldi þeirra kirkna og safnaða sem ég hef þjónað. Tilheyrendur mínir hafa svo sannarlega brugðist við boðskap prédikananna og erindi, rætt um álitaefni, mótmælt sumu, samsinnt öðru og stundum krafist birtingar á vefnum. Prédikun er jú ekki einræða heldur þáttur í löngu samtali margra, ekki verk eins prests heldur samverk anda og samfélags.

Hvernig á svo að nota þessa ástarpostillu? Á kynningarborða sem fylgir útgáfunni segir: „Ég hef gaman af því að elda mat en ég nota aldrei allt kryddið í kryddhillunni í einn rétt. Þessi bók er eins og kryddsafn. Best er að nota hana oft, í smærri skömmtum eða eftir þörfum. Tilgangur hennar er að krydda lífið og næra ástina.“

 

Bækur sem allir ættu að lesa

Við, karlarnir á heimilinu, vorum að ræða um bækur. Einn sona minna hvatti mig til að gera lista bóka sem ég mælti með að þeir læsu. Þetta var ögrandi áskorun sem ég tók. Jón Kristján og Ísak fengu hann svo í afmælisgjöf á átján ára afmælinu. Listinn er hér að neðan. Hann er umdeilanlegur, ófullkominn og úr ákveðnu samhengi menningar og forsendna. 101 eru þær bækur sem allir ættu að lesa og 102 er framhaldslistinn. Bóklestur er smitandi og nú fæ ég reglulega áskoranir frá sonum mínum hvað ég ætti að lesa.  Blindur er bóklaus maður.  

101 Bækur fyrir lífið

Biblían: 1Mós, 2Mós 19-20, Slm 8, 23, 90, Mark, 1Kor 13

Barnabiblían

Kóraninn: Al-Fatihah – fyrsta súra

Laxdælasaga

Gunnar Gunnarsson: Aðventa

Antoine de Saint-Exupéry: Litli prinsinn

Viktor E. Frankl: Leitin að tilgangi lífsins

Orson Wells: 1984

Paulo Coelho: Alkemistinn

Eric-Emmanuel Schmitt: Óskar og bleikklædda konan 

102 Bækur til þroska og íhugunar

Biblían: Jes, Jóh, Post  og Ef.

Platon: Síðustu dagar Sókratesar

Platon: Menon

Platon: Gorgías

Markús Árelíus: Bókin um ellina

Hávamál

Lilja

Lao Tse: Bókin um veginn

Cervantes: Don Kíkóti

Hallgrímur Pétursson: Passíusálmar

Immanuel Kant: Hvað er upplýsing – An Answer to the Question: What is Enlightenment?

Voltaire: Birtingur

John Stuart Mill – Frelsið

Henry David Thoreau: Walden       

H. C. Andersen: Ævintýri

Þjóðsögur Jóns Árnasonar

Dostojevskí: Glæpur og refsing

Dostojevskí: Karamazovbræðurnir

Leo Tolstoy: Anna Karenína

Mika Waltari: Egyptinn

Karen Blixen: Babettes Gæstebud

Oscar Wilde: Myndin af Dorian Grey

John Steinbeck: Þrúgur reiðinnar

John Steinbeck: Austan Eden

Eric Maria Remarque: Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum

Albert Camus: Útlendingurinn

Albert Camus: Plágan           

Mikhail Bulgakov: Meistarinn og Margarita

Halldór Laxnes: Íslandsklukkan

Tómas Guðmundsson: Fljótið helga

Dalai Lama: Leiðin til lífshamingju

William Golding: Flugnadrottinn

William Heinesen: Glataðir snillingar

W. Somerset Maugham: Tunglið og tíeyringurinn

Ernest Hemingway: Gamli maðurinn og hafið

Hasek: Góði dátinn Sveijk

Aldous Huxley: Brave New World

Astrid Lindgren: Bróðir minn ljónshjarta

Jostein Gaarder: Appelsínustelpan

Mary Daly: Beyond God the Father

Matthías Johannesen – Sálmar á atómöld

Elie Wiesel: Night

Simone Weil: Waiting for God

Yan Martell: Sagan af Pi

Sallie McFague: Models of God

Sallie McFague: The Body of God

Kahled Hosseini: Flugdrekahlauparinn

Karen Armstrong: History of God

Auður Ava Ólafsdóttir: Afleggjarinn

Maja Lunde: Saga býflugnanna

Xiaolu Guo: Einu sinni var í austri

Sigríður Hagalín Björnsdóttir: Eyland

Yotam Ottolenghi: Simple

 

Gátan ráðin, uppgötvun dagsins á aldarafmæli!

Í dag gerðum við Elín dásamlega uppgötvun sem gladdi okkur mjög. Og það var mun skemmtilegra að það var í dag en ekki á morgun eða í gær. Já, saga dagsins er aha-saga sem ekki aðeins kætti okkur heldur fjölmarga aðra líka. Við fórum í Hönnunarsafn Íslands til að hlusta á fyrirlestur um heimilishönnun á Íslandi. Söfn eru eins og heimili staðir fyrir fagra hluti en líka furður lífsins og uppgötvanir.

Þá er það inngangurinn. Tveir hestar voru fyrir augum mér og fjölskyldunnar alla bernsku mína. Foreldrar mínir byggðu hús við Tómasarhaga á árunum 1955-56 og vönduðu til alls frágangs, s.s. dyra og kverkaskreytinga. Straumar tímans í innanhúshönnun höfðu áhrif því foreldrar mínir þorðu að nota nýstárlega liti og líka efni á veggi, s.s. flísar á gangvegg. Það sem kannski vakti furðu flestra sem komu á heimili okkar var stór og stílíseruð hestamynd sem máluð var á háan vegg í stigaganginum. Einn svartur og annar hvítur hestur prjónuðu á bleikum veggnum. Allir sáu myndina og margir töluðu um hana því slík ámáluð mynd var ekki í öðrum húsum hverfisins. Þegar ég var búinn að horfa á myndina í mörg ár spurði ég mömmu hver hefði gert hana. Hún sagði að það hefði verið þýskur málari og nefndi þýskt nafn sem ég þekkti ekki. Og ég gleymdi nafninu.

Svo kom að því að veggirnir á stigaganginum voru orðnir óhreinir og málningin talsvert máð. En hvað átti að gera? Mála yfir hestamyndina? Nei, það vildi mamma ekki og það var tímafrekt nákvæmnispuð að mála með fínum pensli að útlínum hestanna. En það hófst. Þegar mamma dó var íbúðin svo seld og raunar þrisvar síðan en hestamyndin sérstaka hefur lifað af hræringar tímans og endursölur íbúðarinnar. Nýir eigendur hafa vilja halda í myndina og því ekki málað yfir. En oft hefur verið rætt um hver hafi teiknað hana, af hverju og í hvaða samhengi.

Og þá erum við komin að ferð okkar í hönnunarsafnið í Garðabæ. Auglýst hafði verið að Sigríður Sigurjónsdóttir, forstöðumaður safnsins, myndi segja frá sýningarmunum. Við ákváðum að fara, vorum eiginlega dregin áfram. Þegar við vorum búin að skoða safngripi benti Sigríður á skemmtilega muni Einars Þorsteins arkitekts og hönnuðar. Svo sagði hún að þó það hefði ekki komið fram í auglýsingu væri dagurinn merkilegur því verið væri að rannsaka verk hönnuðar Hótel Sögu. Þar sem hann ætti aldarafmæli í dag, 22. október, væri við hæfi að við fengjum að kynnast vinnu safnins við skráningu og myndatöku á verkum þessa manns. Við færðum okkur í annað rými og sáum blöð á vegg með skissum og myndum. Ég hugsaði strax með mér – hmmm þýskur teiknari og hönnuður á Íslandi! Gæti verið að þarna væri hestamálarinn kominn? Strax sá ég að hann hafi verið snjall teiknari og ljóst að hann málaði áhugaverðar myndir á veggi íbúða í skissum sínum. Ég benti Elínu á og við vorum spennt að sjá framhaldið. Ég færði mig innar og þar var hún! Fyrirmyndin að hestamyndinni á Tómasarhaga 16. Ljómandi vel teiknuð mynd af prjónandi svörtum og hvítum hestum með brúnbleikan bakgrunni. Blaðið var grófrúðustrikað og augljóslega til að hægt væri að stækka myndina án þess að raska hlutföllunum. Þessi fundur frummyndar og teiknara var eins og stórkostleg uppgötvun – kraftmikil tenging nútíðar og bernsku. Tímamismunurinn upphafinn í gleði uppgötvunarinnar.

Teiknarinn hét Lothar Grund. Hann var þýskur og fæddist árið 1923 og kom til Íslands um 1950 og hafði atvinnu af leiktjaldamálningu og teikningu. Hann hafði mikil áhrif á innanhúshönnun Hótel Sögu á árunum 1961-63. Lothar teiknaði logó hótelsins, útiskilti, matseðla og prentefni og gerði skissur að húsgögnum, fyrirkomulagi og flestu því prýddi Bændahöllina og hótelið innan dyra. Hann teiknaði t.d. barinn sem var seldur nýlega til Vestmannaeyja, líka stjörnumerkjahringinn í lofti Grillsins og flest annað sem hannað var fyrir þetta stórhýsi sem nú er í umsjón HÍ.

Frummyndin sem við sáum á hönnunarsafninu var gerð 1956. Lothar Grund málaði hana strax á steinvegginn því hún var komin þegar við fluttum inn síðla sumars það ár. Hann hefur líka verið ráðgefandi um litina sem foreldrar mínir ákváðu að nota því litapaléttan var öðru vísi en í öðrum húsum á svæðinu. Ég horfði á skissur Lothars Grund á hönnunarsafninu og þekkti litina í íbúð okkar frá vinnuskissunum og myndunum sem okkur voru sýndar í Garðabænum.

Af hverju hestar? Kannski var Lothar Grund áhugamaður um hesta? En ég sá þó enga hesta í skissum fyrir höll bændanna! Það var enginn sérstakur hestaáhugi á bernskuheimili mínu en hestar voru til og notaðir á uppeldisheimilum beggja foreldra minna. Foreldar pabba bjuggu í steinbæ sem nú er Tómasarhagi 16b. Afi var vatnspóstur í Reykjavík og því var hesthús aftan við húsið sem pabbi byggði í landi foreldra sinna. Kannski var myndin í stigaganginum virðingarvottur um búskaparhefð ömmu og afa? Eða kannski bara passaði hestamyndin vel lögun gangveggjarins? Hver veit?

Lothar átti aldarafmæli í dag og fékk þessa tengingargjöf. Gleðin hríslaðist um okkur Elínu að finna frummyndina. Bóel Hörn Ingadóttir er að skrá og ljósmynda verk Lothar Grund og henni og Sigríði þótti þetta skemmtileg afmælisgjöf til Lothars á aldarafmæli hans.

Kannast einhver ykkar sem lesið þessa frásögn við fleiri verk Lothars Grund í heimahúsum? Ef svo er, vinsamlegast hafið samband við starfsfólk Hönnunarsafns Íslands. Það er að safna upplýsingum. Takk Sigríður og Bóel fyrir okkur og til hamingju með Lothar Grund 100.

Upplýsingar um Lothar Grund, fjölskylduhagi og verk má lesa í minningargreinum í Morgunblaðinu um hann sem eru að baki þessari smellu.  Þar kemur fram að Lothar var kvæntur Önnu Þorbjörgu Halldórsdóttur. Þau eignuðust synina Pétur Adólf Garðar, Atla Halldór og Alfreð. Þegar ég var búinn að birta frásögn hér að ofan fékk ég að vita að Anna Þorbjörg tengdist Sigurði Skarphéðinssyni, vini föður míns, sem tengdi Lothar og hann saman. Og svo fóru prjónandi hestar á veginn.

Grein um Lothar Grund er í Tímanna safn, hátíðariti Landsbókasafnins, sem kom út 2024. 

Deyja Kain og Abel báðir?

Íhugun dagsins er um átök Kain og Abel. Harmsaga þeirra er sem þrástef í sögu þjóðanna fyrir botni Miðjarðarhafs og læðist inn í huga minn þegar Ísraelar og Palestínumenn fremja hryllingsverk liðna daga og fimm hundruð manns deyja í sprengingu í sjúkrahúsi á Gaza. Er óumflýjanlegt að blóð bræðra, kvenna og barna renni úr svöðusárum og í jörð allt til söguloka mannkyns? Í fjórða kafla 1Mós er þetta vers: „Þá sagði Kain við Abel, bróður sinn: „Göngum út á akurinn.“ Og er þeir voru á akrinum réðst Kain á Abel, bróður sinn, og drap hann.“ Kennimenn Gyðinga hafa löngum vitað að þessi hörmulega bræðrasaga er erkisaga og þar með táknsaga um deilu hópa og þjóða. Stríð Kain og Abel geisar enn í deilu Palestínumanna og Ísraela. Í gyðinglegu riti sem var skrifað fyrir upphaf Íslandsbyggðar var deila þeirra íhuguð og spurt um hvað þeir hafi rifist. Upphafið var að þeir ákváðu að skipta heiminum á milli sín. Sem sé hroki og sókn í vald og ríkidæmi. Það að fara yfir rétt og siðleg mörk. Annar tók landið og hinn tók lausafé. Annar sagði: „Ég á landið sem þú stendur á.“ En hinn sagði: „Ég á fötin sem þú ert í. Farðu úr þeim.“ Af varð rifrildi og Kain drap bróður sinn. Báðir fóru offari og þá kemur dauðinn snarlega. Svo eru til aðrar sögur um að bræðurnir hafi báðir dáið í átökunum. Það er hin hörmulega staða Ísraela og Palestínumanna. En er einhver önnur leið en að annar falli eða báðir? Er þjóðarmorð eina lausn stríðsins. Eða geta báðir lifað og lært að virða gildi hins og þeirra fólks? Er það ekki eina raunhæfa leiðin, að breyta stríðstólum í ræktunartæki og læra að elska ekki bara börnin sín heldur líka börnin í landinu.

Myndina tók ég við grafirnar í Jerúsalem vestan í olíufjallinu nærri Getsemanegarði.