Minning þeirra blessi

Þetta eru Tamar og Jonatan og börn þeirra Shachar, Arbel og Omer. Þau bjuggu á Shir Oz samyrkjubúinu skammt frá Gaza. Þau voru myrt í loftvarnabyrginu sem þau höfðu farið í til að vera í skjóli fyrir eldflaugum. En þau voru í engu skjóli fyrir morðingjum sem höfðu farið yfir landamærin til að elta uppi borgara Ísraels, skjóta þá, stinga og niðurlægja. Hver drepa, börn – jafnvel kornabörn, ömmur, afa, foreldra sem verja börn sín, almenna borgara? Það er hin djúpa og hræðilega spurning sem knýr á og verður að svara. Ég hlustaði á Íslending fagna innrás Hamas-samtakanna í Ísrael. En engin afbrot eða ofbeldisverk í fortíðinni réttlæta þessa tegund morðæðis. Illvirki eru alltaf illvirki. Hrottaverk Hamasliða eru hliðstæða Úteyjarmorðanna og árásarinnar á tvíburaturnana í New York. Lík fólks voru tekin, hent á jeppa og síðan ekið með þau um Gaza eins og sigurtákn. Þvílík mannfyrirlitning, þvílík brenglun. Morðæði Hamas hefur líklega endalega gert út um tveggja ríkja tilraunina fyrir botni Miðjarðarhafs. Nú verður að búa til nýjan tíma fyrir Ísraela og Palestínumenn. Megi minningin um Tamar, Jonatan, Shachar, Arbel og Omer blessa framtíðina. Blóð þeirra og allra hinna myrtu hrópar upp í himininn og út í mannheima. 

Með Guð í vasanum – eða ekki?

María Reyndal er öflugur höfundur og leikstjóri. Er ég mamma mín? er meðal þeirra merkilegu verka sem hún hefur skrifað. Það hafði djúp áhrif á marga og varð ýmsum tilefni til að hugsa um eigið líf, mótun og áhrif. María hefur nú skrifað nýtt leikrit sem heldur áfram að skoða tengsl eða þó fremur tengslaleysi mæðgna og fjölskyldufólks. Titill leikritsins Með Guð í vasanum dró okkur Elínu Sigrúnu í leikhús. Þegar upp var staðið var enginn Guð í vasanum hvorki á söguhetjunni né í leikritinu. Heitið er því smellubeita án innstæðu.

Ása er söguhetja og burðarpersóna verksins. Við kynnumst smátt og smátt persónu hennar, öldrunarferli og heilabilun. Varnarhættir og viðbrögð Ásu eru túlkuð og oft með spaugilegu móti. Ást Ásu á tónlist verður henni til styrks en tónlistariðkunin líka flóttaleið. Átakanleg ferð Ásu inn í óminni heilabilunar er sálarslítandi. En ferðarlýsingin fer þó aldrei á dýptina en er túlkuð með smáhúmor og nokkrum klisjulegum kynningum.  

Hin ýmsu lífshlutverk dóttur Ásu eru opinberuð í framvindunni og að hún kiknar undan þeim. Dóttirin fær sálarþyngsli í arf frá móður og ömmu og líður og farnast illa. Hún er í stöðugri baráttu við móðurina en reynir þó að gera gagn og tryggja velferð hennar. Hefð kvenna í þrjá ættliði er heilabilun og hryllingur hennar í lífi einstaklinga og fjölskyldu. Sólveig Arnarsdóttir leikur dótturina með trúverðugum hætti. Hlutverkið er grunnt og Sóveig hafði því ekki úr nægilega miklu að moða.

Alter-egó Ásu fær sérstakt hlutverk sem birtist í að því er virðist yfiskilvitlegri helgiveru. Ég hélt að veran ætti að vera guðleg nánd en svo kom í ljós að hún var brengluð sjálfsmynd Ásu. Englisguðinn varð því grynnri en búast hefði mátt við af fyrri hluta verksins. Vegna heilabilunar er Ása upptekin af sjálfhverfum minningum og á í vandræðum með tengsl. Sjálfsmynd hennar er því grunn og sú helgi sem leikstykkið gefur þessu alter-egó gufar upp. Persónan sem túlkar sjálfsmyndina verður því að engu. Spennandi persóna í fyrri hluta verksins hrundi og skaddaði framvindu verksins. Katla Margrét Þorgeirsdóttir lék Ásu snilldarlega en er fyrir minn smekk of ung í þetta hlutverk fyrir gamla konu með heilabilun. Ég skil vel að söng- og leikhæfni Kötlu hafi freistað leikstjórans en valið gekk ekki upp.

Kristbjörg Kjeld lék gamla vinkonu Ásu og var pottþétt í sínu hlutverki. Svo voru Rakel Ýr Stefánsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson í ýmsum litríkum hlutverkum og skiluðu sínu með sóma. Leikmynd og búningar Brynju Björnsdóttur framúrskarandi og lýsing Pálma Jónssonar sömuleiðis.

Leikritið Með Guð í vasanum er ekki fullburða, heldur fremur eins og fínt uppkast að leikverki. Eftir er að dýpka persónur, djúptengja við ættarsögu, ættarfylgjur, gildi, trú og ótta fólks við heilabilun. Búið er að safna saman ýmsum skondnum setningum eins og uppistandari gerir gjarnan. En eftir er að vinna úr góðum efniviði og búa til dýpri heild. Sýningin er kliður af klisjum.

sáþ 30. september, 2023. Kynningarmynd Borgarleikhússins á Með Guð í vasanum. 

Takk fyrir Jón Kristján og Ísak

Yngri drengirnir mínir eru átján ára í dag. Þeir þora vera þeir sjálfir, virða styrkleika sína og líka það sem þeir mega vinna með. Þeir hafa mannast skemmtilega, hafa sinn eigin smekk og hugðarefni. Þeir hafa þroskað með sér mannvirðingu sem er aðall hvers manns.  

Við foreldrar vitum að það er ekkert sjálfsagt að börnin okkar nái fullorðinsárum heilbrigð, hraust og hamingjusöm. Margt getur komið fyrir svo sem slys og félagsleg áföll. Innri togstreita og erfiðar fjölskylduaðstæður geta skaddað og lemstrað. En drengirnir mínir hafa blómstrað. Kvennó hefur verið þeim öflug menningar- og menntastofnun. Þeir sinna heilsurækt af dug og festu og hlægja með vinum, fjölskyldu og foreldrum. Þeir hafa líka opnað huga mót dýrmætum menningar og heims. Nú eru þeir farnir að sækja í bókahvelfingu foreldranna og kom út með bækur heimsbókmenntanna til að lesa. Svo eru þeir farnir að sækja í bóksölur bæjarins og Bókina til að bæta í safn heimilisins. Þeir flytja okkur fyrirlestra um Dostojevskí og Matthías Jochumsson, rapp og þróun kínversks kommúnisma, ræða skólagöngu Oppenheimer í Þýskandi og líðan Jóns Sveinsonar – Nonna – í Kaupmannahöfn  – okkur foreldrum til mikillar ánægju, stundum furðu en oftast til fræðslu og menntunar. Þeir bræður tóku snemma þá ákvörðun um að hafa gaman af samveru með foreldrum þeirra. Enn taka þeir ekki annað í mál en ferðast með okkur hvort sem er innan lands eða utan. Við eigum trúnað þeirra sem er undursamlegt og þakkarvert. Þeir trúa okkur fyrir vangaveltum sínum, vanda og vegsemd svo samskiptin eru jafnan gefandi og skemmtileg.

Þegar Ísak og Jón Kristján voru nýfæddir hugsaði ég stundum um hvernig það yrði þegar þeir lykju stúdentsprófi og ég væri sjötugur. Ég fann þá fyrir nokkrum kvíða og fannst ekki sjálfgefið að þeir myndu hafa gagn eða gaman af föður sínum. En þeir tóku ákvörðun um og lánaðist að leita til mín og móður þeirra með smá mál sem stór, ræða þau og hlusta á rök elskunnar og skynsemi. Afleiðing og ávöxtur er að við erum vinir á vegi lífsins. Það er yngjandi og skemmtilegt að vera á ferðafélagi kraftmikilla ungkarla og maður slitnar ekki úr sambandi við tímann. Síðustu daga hef ég rifjað upp áhyggjur mínar fyrir átján árum. Í stað kvíða, ótta og uppgjafar hefur undrun, gleði og þakklæti fyllt huga minn. Ég þakka fyrir drengina mína, móður þeirra sem aldrei hvikar í elskustuðningnum og lífið sem Guð gefur. Drengirnir mínir byrja nýtt hamingjuár og við foreldrarnir erum lukkuhrólfar í lífinu. Mér finnst ég vera fimmtugur að nýju. 

Kennimyndin var tekin í morgun þegar afmælisdrengirnir voru að fara í skólann. Myndin hér að neðan var tekin þegar Ísak kom heim af vökudeildinni eftir 18 daga lífsháska. Þegar hann var lagður við hlið bróðurins steinsofnaði hann – og þeir báðir. Þá var allt orðið eins og það átti að vera.

101 Öxará

Hvað tekur þú með þér inn í haust, myrkur og vetur? Hvaða liti, hljóð, sögur, orð og upplifanir eru þitt vetrarnesti? Ég nýt þeirrar blessunar með konu minni að horfa líka á veröldina með ungum drengjum okkar. Við reynum að miðla þeim visku og vitum að á þessum árstíma eru Þingvellir aðalstaðurinn til upplifana. Við notuðum því laugardaginn til pílagrímsferðar inn í ríki blámans, langsýna og skýrleika. Gjárnar seiddu, hægur Silfrustraumur heillaði og haustlitir glöddu. Við skokkuðum upp hleðslugötuna upp Hallann og í Stekkjargjá og síðan að úðandi Öxarárfossi.

Eftir gleðihopp í gjánni héldum við svo niður að breiðunni við Neðrifoss. „Nú ætla ég að sýna ykkur undur lífsins” sagði ég við karlana mína. Við læddumst öll að ánni og viti menn. Þarna var stór urriði, sem rauk af stað og sprettbunga myndaðst á grunnsævinu. „Vá” hann er stór. „Þeir eru fleiri hér einhvers staðar,” sagði pabbinn, „það glittir í eitthvað þarna við flúðina.” Við fórum upp á brúna við Drekkingarhyl og undrið blasti við. Stór torfa fiska brosti þarna í glitrandi vatninu, kviðmiklir og bolþykkir. Sporðarnir voru sem skóflur. Ég taldi 101 stykki, kannski voru sumir þessara risafiska nærri tuttugu pund?

Ég hef fylgst vel með Öxará í tvo áratugi og ástalífið þar fer batnandi. Mikilvægar riðstöðvar við útfall Sogsins við Kaldárhöfða voru eyðilagðar við gerð Steingrímsstöðvar fyrir hálfri öld. Hinn stórvaxni urriðastofn vatnsins hrundi, en hefur braggast síðustu ár með hjálp manna. Fyrir tuttugu árum voru aðeins nokkrir fiskar sem komu í Öxará til að efla lífið, en nú má vænta tvö til fjögur hundruð ofurfiska í ána hvert haust. Það er því sjón að sjá boltana. Nú er ástalífið í gerðinni í Öxará og lífsgleðin magnast.

Fyrst er að kenna drengjum á undur lífsins, að við megum njóta og taka með okkur svona upplifun inn í okkur og veturinn. Svo þurfum við líka að vita að menn geta skemmt eða verndað. Ég sagði þeim ekkert um Drekkingarhyl í þessari ferð, en naut þess fremur að tala og hugsa um þessa lífiðju, gleði og vonir neðan við fossinn hjá hyl grimmdarinnar. Töfrar lífsins þrátt fyrir dauða. Í nánd við Drekkingarhyl spírar lífið í þessari Lífbreiðu. Neðan við Drekkingarhyl eru stangveiðar bannaðar en upplifanir leyfðar. Dauðinn dó en lífið lifir – góð viska fyrir veturinn og allt líf mannabarna.

 Þessi pistill birtist upprunalega í Vísi 5. október 2010. 

+ Bernharður Guðmundsson +

Bernharður Guðmundsson var gjafmildur maður – einn sá örlátasti sem ég hef kynnst. Einu sinni kom hann með koptískan kross frá Eþíópíu, í annað skipti helgimynd og svo seinna litríkan kross frá Suður-Ameríku. Ef ekkert var í höndum hans breytti hann samfundi í eftirminnilegan og oftast kátlegan viðburð. Hann var örlátur á tíma, hafði skarpa vitund og frjóan huga. Hann spurði, færði óhikað rök, greindi snarlega styrkleika og veikleika fólks og nálgaðist það með umhyggju og kærleika. Hann nöldraði ekki heldur rýndi til gagns, eflingar og góðs. Hann gerði sér engan mannamun og sá gull í öllu fólki. Það var einstök og dásamleg nálgun og Jesúleg.

Ég man eftir Benna fyrst á Tómasarhaganum. Hann bjó með Rannveigu sinni í skjóli Magneu og Sigurbjarnar í biskupshúsinu, Tómasarhaga 15. Ég bjó hinum megin götunnar og hitti hann því og sá til hans. Mér fannst hann alltaf kátur og skemmtandi. Ég fylgdist með prestsþjónustu Benna úr fjarlægð og heyrði að nágrannaprestum hefði þótt hann of vinsæll. En ég sannfærðist um snilld hans þegar hann stýrði risasamkomu í Laugardalshöllinni. Þar var mikill fjöldi gagnrýnna unglinga sem ætluðu sér ekki að láta prest fara neitt með sig. En Benni var aldrei öflugri en þegar á reyndi. Hann heillaði söfnuðinn. 

Á æskulýðsdeginum 1973 var ég Benna til aðstoðar. Rétt fyrir fjölsótta kvöldsamkomu í Dómkirkjunni kom í ljós að hljóðnemarnir voru í ólagi. Ég hringdi í poppara sem ég þekkti og hentist upp í Þingholt og náði í mækana. Við smelltum þeim í samband þegar Benni var að fara að setja samkomuna. Hann kunni að meta viðbragðsflýtinn. Nokkrum dögum síðar var flugvél á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar send til til gjósandi Heimaeyjar. Til að verðlauna unglinginn vildi Benni að ég fengi að fara með til Eyja. Benni sá alltaf möguleika þar sem glufur voru, lagði gott til, efldi fólk og lyfti. Hann var kallaður Benni en líka oft og með sanni Benni Gúddman.

Þau Rannveig fóru um heiminn og eignuðust heillandi börn sem urðu leifrandi heimsborgarar. Benni skrifaði hnyttna pistla í Moggann sem margir lásu. Svo komu þau heim til Íslands og Benni varð biskupsþjónn. Hann var alla tíð frumlegur, hugsaði í lausnum og möguleikum, hvatti og lyfti upp því sem var hagnýtt og merkilegt. Hann var fjölgáfaður og vel heima á mörgum sviðum og listrænn smekkmaður.  Hann horfði alltaf fram á veginn og beitti sér fyrir bótum og leiðréttingum og nýjungum. Benni var í áratugi frumkvöðull þjóðkirkjunnar. 

Benni færði alltaf fögnuð í hús gleðinnar þegar hann kom í messu. Hann kom oft í Neskirkju þegar ég var þar prestur. Hann var óspar á lof ef sá gállinn var á honum og einu sinni klappaði hann eftir messu. Svo sóttu Rannveig og Benni einnig kirkju í Hallgrímskirkju og hann kom alltaf eftir messu til að veita umsögn – og alltaf til gagns. Örlátur öðlingur. Okkur mörgum engill. Nú er Benni farinn inn í himininn og þar er samfélag örlætisins og gaman.

Guð geymi Bernharð Guðmundsson, styrki Rannveigu, Svövu, Magnús Þorkel, Sigurbjörn og alla ástvini.

Takk fyrir örlætið.

Myndirnar tók ég í Skálholti í febrúar 2010. Bernharður fór á kostum er hann stýrði miðaldakvöldverði fyrir evrópska fulltrúa Porvoo-kirknasambandsins. Svo hélt hann fyrirlestur við minnisvarða Jóns Arasonar daginn eftir. Frábær gestgjafi.