Kalkúnn fyrir jól

Við höfum notað þessa kalkúnauppskrift á okkar heimili í nær aldarfjórðung því matargerðin er prestsvæn. Elín fann uppskriftina árið 1986. Það er yndislegt að finn hvernig lyktin í húsinu á aðfangadegi undirbýr jól. Uppskrift fyrir 8.

4-5 kg kalkúnn

3 hnefafylli af ferskum sveppum

6-8 hvítlauksrif pressuð eða fínskorin

2 stilkar sellerí

250 g beikon til sneiðingar + 3-4 bréf til klæðningar

5 sneiðar brauð

2 msk dragon (terragon eða estragon)

200 g rjómaostur

½ tsk salt

Aðferð

Beikonið, u.þ.b. 250 g, er sneitt og látið krauma í potti. Skornu sellerí er bætt út í, þá sveppum og síðast hvítlauk sem estragon og salti. Hrærið allt saman og líka rjómaostinn. Hiti minnkaður. Þegar blandan er orðin bragðgóð er brauðið rifið saman við en skorpan ekki notuð og lögð til hliðar.

Fuglinn er kryddaður að innan með salti og pipar. Fyllingin er sett í kalkúninn og hann síðan lagður í smurða ofnskúffu sem búið er að krydda með salti og piparblöndu. Kalkúnninn er klæddur eða hulinn með beikonsneiðum og opið er einnig hulið með beikoni. Vængir og leggir eru einnig vafðir með beikoni. Þar sem kalkúnakjöt er fremur magurt kemur beikonið í veg fyrir að kjötið þorni. Fuglinn er settur í 200°C heitan ofn og hitinn lækkaður eftir 10 mínútur í 180°C. Ekki spara beikonið, mörgum finnst stökkt beikon gott. Óhætt er að treysta upplýsingum um að steikingartími sé 50 mínútur á hvert kíló. Til að athuga hvort fuglinn er tilbúinn er hægt að stinga hann þar sem hann er þykkastur. Ef safinn er tær er kalkúnninn nægilega steiktur. Ef beikonið verður ískyggilega dökkt er ráð að bregða álpappír yfir fuglinn.

Waldorfsalat

Waldorfsalat er nauðsyn! Epli, sellerí, græn vínber, sýrður og þreyttur rjómi. Ef valhnetur falla ekki í kramið er hægt að nota rifnar möndlur í staðinn. Síðan er gott að hafa bakaða kartöflubáta með. Þeim er raðað með hýðið niður í eldfast ósmurt mót. Saltað yfir og haft í ofninum síðustu 40-50 mínúturnar sem fuglinn er að steikjast. Rifsberjahlaup tilheyrir réttinum og árstíðinni. 

Sósa

Kalkúnninn er tekinn úr ofninum og settur á heitt fat. Vökvanum úr steikingunni er hellt í pott gegnum sikti. Fitu fleytt ofan af. Skafa má bragðgjafana úr steikarfatinu/plötunni og nota í sósuna. Bragðbætt með pipar og estragoni og síðan soðið með rjóma. Lögg af rauðvíni bætir líka. Á jólunum er um að gera að nota þeyttan rjóma og setja hann neðst í sósuskálina og hella sósunni yfir.

Friður á jörðu ríki og blessun meðal manna.

 Ef tími er til er hagnýtast að flétta beikonið á fuglinn. Þá sígur það ekki niður og hylur betur fuglinn. Svo er það fallegast og góð skilaboð. Í friði aðfangadagsins 2023 leit fléttan svona út. 

Litrík ástarsaga

Morgunblaðið birti þessa afmælisfrétt á Þorláksmessu 2023. Pétur Atli Lárusson blaðamaður skrifaði greinina.

Sigurður Árni Þórðarson fæddist 23. desember 1953 í Reykjavík. „Ég ólst upp við ástareld gjafmilds og samheldins fólks sem mat meira andleg, siðleg og félagsleg gæði en efnisleg. Ég fæddist fyrir tímann því móðir mín var vinnuforkur og gekk fram af sér í hreiðurgerðinni og skúringum. Gísli, móðurbróðir minn, vildi að ég yrði nefndur Þorlákur helgi vegna fæðingardagsins á Þorláksmessu. Ég hefði kiknað undan því nafni. En svo voru tveir Lákar fyrir í húsinu og mamma sagði síðar að hún hefði ekki getað hugsað sér að kalla á Þorlák og þrír hefðu komið hlaupandi.

Það var gaman að alast upp í Vesturbænum. Barnafjöldinn var mikill í öllum húsum, mikið fjör á Tómasarhaga og fótbolti iðkaður af kappi. Bjarnastaðavörin var nærri með busli, heillandi fjörulífi og fiskiríi. Ég fékk að vitja um grásleppunet með Birni Guðjónssyni og var sendisveinn fyrir Árna í Árnabúð.

Skólaganga Sigurðar Árna var hefðbundin, Melaskóli, Hagaskóli og Menntaskólinn í Reykjavík. „Á sumrin var ég kaupamaður á Brautarhóli í Svarfaðardal hjá Stefáníu Jónasdóttur og nafna mínum og frænda, Sigurði M. Kristjánssyni sem margir muna sem „stjóra“ héraðsskólans á Laugum í S-Þingeyjarsýslu. Þau treystu mér til allra verka og ég lærði að vinna og axla ábyrgð snemma. Ég hafði alla tíð mikinn áhuga á vatni og stefndi á líffræðinám og helst vatnalíffræði í háskóla. En á krabbameinsspítala í Noregi sneri ég við blaðinu og ákvað að læra guðfræði. Kennarar mínir í guðfræðideild HÍ voru stórkostlegir fræðarar, fyrirmyndir og mentorar.

Sigurður Árni fór vestur um haf til framhaldsnáms í hugmyndasögu og guðfræði og lauk doktorsnámi frá Vanderbilt University í Bandaríkjunum. „Ég skrifaði um myndmál og merkingu íslenskrar trúarhefðar. Lífsafstaða sem blasti við mér í íslensku trúarhefðinni var kraftmikil mannsýn og lífsást manna á mærum. Virðing og auðmýkt gagnvart náttúru og vá í hefð okkar bjó til lífsmátt sem nýtist og birtist í kreppum. Það er þessi menningarplús sem hríslast um allt þjóðlíf og dugar dásamlega þegar rýma þurfti Vestmannaeyjar á einni nóttu eða Grindavík í haust.“

Þegar fyrsta æviskeiði Sigurðar Árna lauk tóku við starfsár og koma börnum til manns. Honum var boðið háskólakennarastarf vestra en vildi frekar fara heim og verða að gagni á Íslandi. „Ástin á landinu, fólkinu, íslenskri kristni og menningu kallaði og ég gegndi því kalli.“ Hann varð prestur Skaftfellinga og síðar S-Þingeyinga og segist hafa verið svo lánsamur að búa og starfa í Skálholti og á Þingvöllum. „Það eru helgistaðir Íslands. Svo flutti ég á mölina, þjónaði biskupum, Nessöfnuði og Hallgrímskirkju í Reykjavík og kenndi við HÍ. Það eru forréttindi að fá að starfa sem prestur og vera með og styrkja fólk á mikilvægustu stundum þess. Ég komst til vitundar á tíma kalda stríðsins og ákvað að eiga engin börn en eignaðist fimm. Guð er meiri húmoristi en við menn.“

Sigurður Árni lauk störfum sem sóknarprestur Hallgrímskirkju í apríl síðastliðnum og hefur hafið þriðja æviskeiðið. Í nóvember var gefin út stórbók með hugleiðingum hans Ástin, trú og tilgangur lífsins. „Barnabörn mín kalla hana ástarbókina. Í ritinu eru 7,8% af hugleiðingum mínum síðustu tuttugu árin. Þegar ég lít til baka finnst mér líf mitt hafa verið litrík ástarsaga. Hvað gerir líf manna þess virði að lifa því? Það er ástin, að elska og vera elskaður. Lífið er ástarferli en það er vissulega val okkar hvernig við lifum og vinnum úr lífsmálum okkar. Sá guð sem ég þekki er elskhugi.

Heimilislíf okkar fjölskyldunnar er litríkt og skemmtilegt. Mér þykir afar nærandi að 18 ára synir mínir búa heima og eru nánir okkur foreldrunum. Það er mikið lán. Mér líður vel í kokkhúsinu og við að metta svanga. Ég elda æ meira gyðinglegan og palestínskan mat. Ottolenghi er minn maður. Ég hef áhuga á ljósmyndun og um 1,4 milljónir hafa skoðað myndir mínar á ljósmyndavef. En ég vil verða betri ljósmyndari og læra meira. Heimasíðan mín www.sigurdurarni.is er fjölsótt og margir hafa gaman af mataruppskriftum og sálaruppskriftum í hugleiðingum. Þegar ég hef vitjað fólks sem prestur segir það mér oft að það noti uppskriftirnar mínar.

Ég er náttúruverndarsinni og er með augun á vatni. Ekkert líf er án vatns og vatnið sullar bæði í Biblíunni, náttúrunni og þar með okkur sjálfum. Elín mín heldur mér að gleðiefnum lífsins og saman stundum við skemmtilegt og hagnýtt lífsleikninám í HR. Svo er ég að taka fram hina hagnýtu doktorsritgerð mína sem fjallaði um mæramenningu Íslendinga, siðferði og aðferðir við að bregðast við vá. Afstaða Íslendinga er hagnýt ástarhefð fyrir veröld á heljarþröm. Þá hefð þarf að endurnýta. Ég sinni svo heilsuræktinni því ég vil stuðla að því að heilsuárin verði jafn mörg og æviárin.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigurðar Árna er Elín Sigrún Jónsdóttir, f. 22.4. 1960, lögmaður. Hún á og rekur lögfræðistofuna Búum vel og þjónar fólki á þriðja æviskeiðinu með ráðgjöf og skjalagerð við sölu og kaup fasteigna, kaupmála, erfðaskrár og uppgjör dánarbúa. Synir þeirra Sigurðar Árna eru tvíburarnir Jón Kristján og Ísak, f. 26.9. 2005, nemar í Kvennaskólanum í Reykjavík. Foreldrar Elínar Sigrúnar: Hjónin Magnea Dóra Magnúsdóttir, húsmóðir, f. 25.11. 1920, d. 31.12. 2003, og Jón Kr. Jónsson, útgerðarstjóri Miðness í Sandgerði, f. 6.5. 1920, d. 26.9. 1990.

Börn Sigurðar Árna og Hönnu Maríu Pétursdóttur, f. 22.4. 1954, prests og kennara, eru: 1) Katla, f. 15.9. 1984, arkitekt. Maki: Tryggvi Stefánsson og börn þeirra eru Bergur, f. 16.2. 2017 og Jökla, f. 9.8. 2019; 2) Saga, f. 10.10. 1986, ljósmyndari. Maki: Vilhelm Anton Jónsson. Sonur þeirra er Hringur Kári, f. 10.3. 2023. Synir Vilhelms eru einnig Illugi, f. 12.11. 2007 og Ríkarður Björgvin, f. 18.11. 2014; 3) Þórður, f. 16.1. 1990, organisti á Dalvík. Maki: Dominique Gyða Sigrúnardóttir. Börn þeirra eru Högni Manuel, f. 9.6. 2019 og Hugrún Mariella, f. 7.11. 2022.

Systir Sigurðar Árna er Kristín Þórðardóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, f. 6.7. 1952, búsett í Hønefoss í Noregi. Maki Öyvind Kjelsvik, læknir, f. 20.09. 1960. Sonur þeirra er Baldur, sálfræðingur, f. 25.4. 1994.

Foreldrar Sigurðar Árna voru hjónin Þórður Halldórsson, f. 31.10. 1905, d. 22.5. 1977, múrarameistari, og Svanfríður Guðný Kristjánsdóttir, f. 22.3. 1910, d. 7.2. 2004, húsmóðir. Þórður var fæddur í Litlabæ á Grímsstaðaholti og Svanfríður var frá Brautarhóli í Svarfaðardal.

​Kennimyndin: Sigurður Árni á leið til skírnar við Ægisíðu í haust. Hin myndin er frá áramótum 2014. Katla, Saga, Sigurður Árni, Elín, Jón Kristján, Þórður og Ísak. Myndin af SÁÞ og Elínu tekin í höfninni við Palma 2023. Svo er hér að neðan skjáskot úr Íslendingabók. 

 

 

Er líf Guðs þess virði að lifa því?

Hvað er það merkilegasta í lífi okkar? Jostein Gaarder þorði að spyrja þeirrar spurningar og skrifaði svo bókina Appelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg sem fékk bréf sem látinn faðir hans hafði skrifað. Drengurinn var fimmtán ára en pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Sagan er ástarsaga og fjallar um mann sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Þau urðu ástfanginn og urðu par en hann dó ungur. Áður en hann lést skrifaði ástarsögu sína fyrir drenginn þeirra. Enginn vissi um að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar og þá var Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins líka. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki heldur undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.

Tengdar spurningar eru: Hvað þarf maður að hafa reynt og lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því? Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda og allra heimsvídda að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess að við fáum að elska og vera elskuð.

Við getum víkkað sjónsviðið og skynjað í elskutjáningum manna tákn eða speglun þess að Guð teygir sig til manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með. Ástarsögur manna eru eins og smáútgáfur af ástarsögu Guðs.

Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.

Guð og ungbarn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir fólki, heyrir jafnvel í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin í öngstræti? Það er vegna þess að Guð er guð ástarinnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama?

Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást eins og við sjáum t.d. í kvikmyndinni Love actually. „Það er gott að elska“ söng þjóðarpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Því svo elskaði Guð heiminn segir í Jóhannesarguðspjalli. Það er inntaksboðskapur jólanna og að ástin er alls staðar.

Hluti íhugunar jóladags, sjá Ástin, trú og tilgangur lífsins, 353-356.

Bréfið frá Bessastöðum

Guðni Th. Jóhannesson er skrifandi forseti og að auki vel skrifandi. Hann kann ágætlega á lyklaborð á tölvu og notar það þegar hann skrifar bækur. En hann notar penna til að skrifa persónuleg bréf. Eitt slíkt barst mér í dag inn um bréfalúguna á heimili mínu.

Þegar útgáfan auglýsti bók mína Ástin, trú og tilgangur lífsins var Guðni Th. sá fyrsti – af miklum fjölda – til að panta bókina. Mér fannst það skemmtilegt. En svo kom forsetabréf í dag og það var elskulegt bréf til að þakka fyrir bókina góðu sem hann sagði glæsilega að innihaldi og útliti. Og taldi að gott væri að grípa í hana – fyrir sálarheill og líka þegar semja þyrfti ræður og ávörp! Fallegt rit og notadrjúgt. 

Þvílíkur þjóðhöfðingi sem sest niður með penna, hugsar með hlýju til viðtakanda og skrifar svona vermandi texta! Fallega sagt og vænt þætti mér um ef bókin eflir þjóðhöfðingja í ræðugerðinni. Ég bað um hljóð við kvöldverðarborðið, tilkynnti að ég ætlaði að lesa upp bréf sem hefði komið fyrr um daginn og það væri ljómandi gott. Fagnaðarlæti brutust út við lestrarlok og meira að segja hundurinn gelti líka. Guðni Th. er einstakur. Bréfið verður geymt. Ljósmynd af texta forsetans er hér að neðan en forsíðan hér að ofan. 

forsetabréfið

 

Lambaskankar

Lambakjöt er stundum á borðum í mínum bæ. En skankar eru almennt vannýtt hráefni og hér er góð og auðveld uppskrift. Þetta er matarmikill réttur fyrir kalda vetrardaga og á að vera stórskorinn! Skanka má alltaf fá í Melabúðinni.

Hráefni

1-2 kíló skankar eða magurt súpukjöt

4-5 eða fleiri hvítlauksrif stungin í kjötið

salt og pipar eftir smekk

2 eggaldin

3 paprikur, í mismunandi litum

vorlaukur

rauðlaukur

púrrulaukur

3-4 stilkar sellerí

1 fennikel

allt saxað mjög gróft / 3-5 cm bitar – alls ekki í smábita 

Tómatsósa:

1-2 fínhakkaður laukur – steiktur í ólífuolíu

2 dósir niðursoðnir tómatar

hunangssletta

2 lárviðarlauf

Tímían

1/2 dós ansjósur

2 hvítlauksrif

1 bolli rauðvín

salt og pipar

látið malla

 Saxaða grænmetið fer á botn á  stóru olíusmurðu ofnfati (lokanlegu). Tómatsósan fer síðan yfir og kjötið þar yfir. Lokið á og fatið síðan sett í ofninn. Bakað fyrst í 15 mínútur við 250 gráður en hitinn síðan lækkaður í 200 gráður og bakað áfram í 1-1 1/2  tíma.

 Borið fram með kúskús eða byggi.

Borðbæn: Þökkum Drottni því að hann er góður / og miskunn hans varir að eilífu. Amen