Stríð, börn, eldgos og ást

Ávarp dr. Sigurvins Lárusar Jónssonar á örþingi í Neskirkju 11. nóvember 2023. Mynd/sáþ var tekin á vígsludegi Sigurvins 11. maí 2011. 

Góðu vinir, það er mér heiður að fá að tala hér í dag um ástina. Sigurvin Lárus Jónsson heiti ég og er vinur Sigurðar Árna, áhugamaður um ástina, prestur og fræðimaður á sviði Nýja Testamentisins.

Ástin er það eina sem skiptir máli í lífinu, svo einfalt er það. Ást er það sem skapar okkur; án ástar kemst ekkert ungabarn til eðlilegs líkamlegs þroska, það hefur sár reynsla kennt okkur; án ástar kemst enginn unglingur til manns; og án ástar er engin fullorðin manneskja farsæl. Ástin er okkur allt.

Þetta orðar Sigurður Árni í þessari nýútkomu bók í umfjöllun sinni um trúarjátningu, kjarna þess sem kristnir menn deila og miðla, er hann segir „Trúarjátning … tjáning á djúpu og persónulegu sambandi. Trúarjátning er ástarjátning. Í bænum trúmanna og safnaðarsöng í helgihaldi er trú játuð með tjáningu sem er svipuð og tjáningar ástfangins fólks sem hvíslar ástarorð í eyra hins elskaða. Ef þú hefur einhvern tíma elskað og notið ástar veistu hve dásamlegt er þegar ástvinir baða hver annan með orðum elskunnar. Almætti snýst ekki um mátt heldur ást. Í trúarjátningunni mætti því allt eins orða: Ég trúi á alelskandi Guð.“ (bls. 73).

Sem prestur hef ég aldrei upplifað ástvini í sorgarhúsi leggja áherslu á það sem við höldum á lofti sem forgangsatriðum í fjölmiðlum, að græða fé, finna frægð eða öðlast frama. Nei, fólkið sem stendur næst, þeim sem kveður, ræðir einungis ást, og því miður á stundum skorti á ást. Ástin er okkur allt, annað er eftirsókn eftir vindi.

Ég er þakklátur fyrir þessa bók, kæri Sigurður Árni; sem vinur, en ég samgleðst þér að hafa kjarnað og miðlað þá prédikun um ástina sem þú hefur haldið á lofti í starfi þínu og lífi; sem prestur, því hér er komið út verkfæri sem prestar geta sótt í, nýtt skapalón fyrir prédikun inn í samtímann; og síðast en ekki síst sem fræðimaður.

Og nú langar mig að setja bókina í fræðilegt samhengi þess fags sem ég tilheyri, ritskýringu. Sigurður Árni er eins og þið vitið trúfræðingur, menntaður við einn fremsta háskóla Bandaríkjanna, Vanderbilt, en hann skrifaði doktorsritgerð um það sem okkur liggur á hjarta sem Íslendingar, Líf og mæri: Liminality in Icelandic religious tradition. Þar er á ferðinni greining á íslenskri guðfræði, sem mótast af því að búa í og á síkviku landi. Trúfræði sem er ekki einungis akademískar æfingar, heldur guðfræði sem getur gagnast með beinum hætti við þessa atburði sem nú eiga sér stað við Grindavík. Hagnýt guðfræði þjóðar sem býr á eldfjallaeyju, þar sem er allra veðra von.

Bókin þín núna er að sama skapi hagnýt guðfræði, guðfræði ástarinnar annarsvegar og aðferðafræði prédikunarinnar hinsvegar. Það sem ég vil sem biblíufræðingur minna á er að öll hagnýt guðfræði byrjar á lestri Biblíunnar.

Það orðar Sigurður Árni undir yfirskriftinni „Að lífga heiminn“; er hann segir: „Þá er komið að biblíutúlkun og þeim aðferðum sem við notum til að skilja helga texta. Biblían tjáir þróun hugmynda og því verður að vinsa úr það sem er þarft. Biblían er lagskipt. Í Biblíunni eru mishljómandi raddir og innbyrðis togstreita.“ (bls. 96).

Þessi deigla Biblíunnar birtist með beinum hætti í orðræðu Biblíunnar um ástina. Jesús sagði „elska skaltu“, og er þar að vinna með hefðina, Þriðju Mósebók: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ (3M 19.18). Páll hinsvegar setur ástina, agape, á oddinn og endurskilgreinir hugtakið sem útgangspunkt sinnar guðfræði. Sá kærleikur sem við hittum fyrir í óði Páls til kærleikans er nýr í hugmyndasögunni, þó hann byggi sannarlega á hefðum Biblíunnar og arfleifð Krists.

Öllum fræðilegum erindum ber að hafa rannsóknarsögu og þar legg ég til, Nygren, Wischmeyer og Sigurð Árna Þórðarson.

Anders Nygren eiga allir guðfræðingar að þekkja en hann var sænskur prestur, trúfræðingur, prófessor í Lundi og síðar biskup. Nygren sagði grískuna eiga tvö hugtök yfir ástina og dró skörp skil á milli þeirra, eros væri hin kynferðislega, eigingjarna ást, skilyrtum háð og jafnvel duttlungum, á meðan að agape væri hinn kristni kærleikur, sem er gefandi og fórnandi og byggir á skilyrðislausri ást Guðs til mannanna. Bók hans Eros och Agape kom út í tveimur hlutum 1930 og 1936 og var tímamótaverk, en er jafnframt barn síns tíma. Mynd hans af eros endurspeglar ekki með trúverðugum hætti grísk/rómverska menningu og skilin sem hann dró á milli eros og agape er hvergi að finna í Nýja testamentinu – eros er hvergi að finna í Nýja testamentinu. Það sem hann gerði vel er að gera kærleikanum skil sem kjarnaatriði kristinnar guðfræði.

Þá að Oda Wischmeyer. Prófesorinn minn er þýsk, heitir Eva-María, og í Þýskalandi eignast maður foreldra í fræðunum, hún er mín doktormutter. Oda þessi er með sömu skilgreiningu amma mín, fyrrum prófessor í Erlangen, heiðursdoktor frá Lundi, og fyrsti biblíufræðingurinn til að skrifa bók um agape síðan Nygren, á 90 árum – hugsið ykkur. Bók hennar Love As Agape: The Early Christian Concept and Modern Discourse frá 2021 rekur hugtakið frá grikkjum og gyðingum, til Páls, og þaðan í gegnum menningarsöguna og segir tvennt: annarsvegar að Páll sé einstakur í notkun sinni á agape og hinsvegar, sem engum kemur á óvart, að Ástin, trú og tilgangur lífsins eru samofin. Það er sem er óvenjulegt við agape hugtakið hjá Páli er að ástin, kærleikurinn, er svarið við öllum spurningum okkar – bókstaflega. Þau sjö bréf sem við eigum varðveitt frá Páli eru rituð á þeim forsendum að Páll er að bregðast við vanda eða átökum sem eiga sér stað í samfélaginu. Vandanum er oft lýst með nákvæmum hætti, flokkadrættir, tilvistarótti og átök manna á milli, en svör Páls eru ekki nákvæm, hann leysir aldrei vanda, bendir einungis á kærleikann – agape.

Hvaða kærleika? Í bókinni Ástin, trú og tilgangur lífsins, segir Sigurður Árni Þórðarson „Páll postuli var róttækur og skapandi hugsuður.“ (bls. 26) og hann lýsir ástaróði Páls í samaburði við kónginn: „„Það er gott að elska,“ söng þjóðarpopparinn Bubbi. … „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi,“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar“ (bls. 63).

Ef ég hefði byrjað þessa ræðu á orðunum, ‚við stöndum nú á tímamótum‘,væri það sígilt stef. Við stöndum alltaf á tímamótum og frammi fyrir erfiðum áskorunum, stríð, hamfarir mannleg eymd.

Hvernig leysum við stríð – með ást! Hvernig bregðumst við við eldgosi – með ást! Hvernig ölum við upp börn, höldum í maka, réttum af samfélagslegt óréttlæti, fyrirgefum misgjörðir, stöðvum hnatthlýnun og bindum enda á fátækt – með ást.

Ástin, kærleikurinn, eros og agape, eru eina leiðin áfram og eina leiðin til að lifa.

„Hver er áhersla prédikana í þessari postillu? Mér hefur þótt vestræn menning vera ástarskert. Heimspeki og mannvísindin almennt eru ekki ástarleitandi greinar. Djúpboðskapur kristninnar er um elsku Guðs og ástarsókn manna en oft kalla hörmungar, samfélagsmál, stríð og önnur stórmál á kirkjuræður um heldur ástarrýr stef. Í lífi og starfi hef ég sannfærst um að ástin er grunnstef trúar, lífs, siðferðis og Guðs. „Það er gott að elska“ söng þjóðpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar og margvísleg. Ást til maka, barna, foreldra, eigin sjálfs og náttúrunnar. Ég hef horft í augu á fjölda fólks sem tjáir djúpa ást. Aðrir hafa talað um ástarþrá. Ástarsögur fólks hafa heillað mig. Svo eru harmsögur fólks stundum skuggalegar ástarsögur. Á bak við ástarsögur heimsins og okkur öll er ástarsaga Guðs.“ (bls. 415)

Takk Sigurður Árni fyrir að orða það og boða til þjóðarinnar með Ástin, trú og tilgangur lífsins.

Sigurvin Lárus Jónsson, vinur, prestur, fræðimaður.

Ástin brýtur fjötra af fólki

Séra Sigurður Árni Þórðarson hefur sent frá sér bók sem geymir úrval af hugleiðingum og ræðum hans. Þar er ástin leiðarstefið, en hann segir ástina vera hið djúpa inntak kristninnar. Kolbrún Bergþórsdóttir á Mbl tók viðtal sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 11. nóvember. Ljósmynd Kristinn Ingvarsson/mbl

Ástin, trú og tilgangur lífsins er titill bókar sem geymir hugleiðingar og ræður séra Sigurðar Árna Þórðarsonar. Hann þjónaði sem prestur um langt skeið, síðast í Neskirkju og Hallgrímskirkju, auk þess að vera háskólakennari. Áður var hann rektor Skálholtsskóla, fræðslustjóri þjóðgarðsins á Þingvöllum og starfaði á Biskupsstofu. Bókin er gefin út í tilefni starfsloka hans og sjötugsafmælis.

„Í bókinni eru 78 predikanir, valdar úr um þúsund íhugunum og predikunum sem ég hef flutt í Neskirkju og Hallgrímskirkju á árunum 2003-2023,“ segir Sigurður Árni. „Guðsorðabækur, postillur og predikanasöfn hafa verið hluti af bókmenntahefð á Íslandi alveg frá 1200 og mikilvægur þáttur íslenskrar menningar. Sem presti finnst mér að mér beri skylda til að skila af mér og það er eftirspurn eftir predikunum í samfélaginu. Ég hef birt ýmsar predikanir mínar á vefnum og jafnvel tugir þúsunda hafa skoðað sumar þeirra þar.“

Spurður hvort það sé einhver sameiginleg áhersla eða stef í þessum predikunum segir Sigurður Árni: „Leiðarstefið í öllu safninu er áherslan á ástina. Eftir því sem ég eldist og vitkast verð ég sannfærðari um að ástin sé sá þáttur sem er hvað vanmetnaðastur, vanvirtastur og vaniðkaðastur í samfélagi okkar.

Freud lagði áherslu á hvatirnar, aðrir á valdssókn mannsins, margir á hamingjusókn en ég held að sóknin til ástar sé það djúptækasta í fari okkar. Ástin brýtur fjötra af fólki og leitar annarra. Ástin er hið djúpa inntak kristninnar. Um hvað snýst sagan um Jesú? Um það að Guð er útleitandi ást sem sækist eftir tengslum og vill halda í hönd okkar, samanber hina frægu mynd Sköpun Adams í Sixtínsku kapellunni. Hatrið á að falla fyrir kærleikanum, umhyggjunni og ástinni og hinni útleitandi, elskuríku afstöðu.“

Þjóðkirkjan þarf að breytast

Kirkjan logar of oft í innanhússátökum, sem eru særandi fyrir trúað fólk, og maður spyr sig hvort kirkjunnar þjónar gleymi stundum kærleiksboðskapnum?

„Það er líklega ástarskortur í bland við ótta við breytingar. Uppreisn gegn stofnunum er víða í samfélaginu og ég held að það sé í sjálfu sér eðlilegt. Það er eðlilegt að fólk gagnrýni það sem er orðið óþarft og úrelt og þjónar ekki lengur fólki. Í trúmálum er þarft að greina að inntak og formgerðir. Kristnin er eitt og kirkjustofnun annað. Þjóðkirkjan þarf að gerbreytast en kristnin lifir góðu lífi og heldur áfram að gagnast fólki. Allt fólk leitar merkingar og skilnings. Sálinni er órótt þar til hún tengist hinu djúptæka sem í minni túlkun er ástardjúp Guðs. Sagan sýnir að kirkjustofnanir sem tapa áttum og ástríki eru óþarfar og falla. En ástarsókn manna er lífsmerki og tákn um leitina að merkingu og trausti til lífsins sem heitir trú á máli kristninnar.“

Miklar umræður hafa verið um upplýsingar í ævisögu Guðmundar Magnússonar um séra Friðrik Friðriksson og ósæmilegt athæfi hans í garð drengja. Hvernig brást Sigurður við þeim fréttum?

„Það er sorglegt en þau sem eru verseruð í guðfræði vita að það eru engir dýrlingar til í þessum heimi og allra síst í hefð okkar lútherskrar kirkju sem hefur alltaf verið tortryggin á mannadýrkun. Ég sat einu sinni í fanginu á Friðriki þriggja ára gamall og hef heyrt og lesið um margt sem hann gerði vel. En svo heyrði ég sögu frá manni sem ég treysti. Hann sagði mér að Friðrik hefði stungið tungunni upp í hann, sjö eða átta ára gamlan drenginn. Það þarf að ræða svona mál en ekki fela þau.“

Raunsæi gagnvart lífinu

Það er vanlíðan í þjóðfélaginu. Þú hlýtur að hafa séð mikla vanlíðan í starfi þínu sem prestur.

„Já, víða. Það er mikilvægt hlutverk í prestsstarfinu að heyra og nema þegar fólk þarf á því að halda. Það kemur líka sterkt fram í mínum predikunum að Guð er hin róttæka nánd sem alltaf eflir og hverfur ekki á sorgarstund. Guð sendir fólki ekki erfiðleikana. Guð ýtir ekki á snjóhengjurnar til að þær falli yfir fólk. Guð er ekki valdur að óhamingjunni. Ég þekki bara Guð sem er umhyggjusöm elska, alltaf nálæg og ætíð til reiðu. Guð skapar möguleika en skipar þér ekki fyrir. Þú hefur leyfi til að gera hlutina öðruvísi. Við menn lifum í róttæku frelsi og ég túlka þessa pan-en-teísku guðsmynd og trúartúlkun í þessari ástarpostillu sem var að koma út.“

Það hlýtur að vera erfitt að þurfa oft að standa frammi fyrir sorg og vanlíðan annarra. Hvernig vannstu úr því sem prestur?

„Ég er gamall sveitastrákur og lærði mjög snemma að glíma við hrylling þess að það sem maður elskar getur dáið eða farið. Ég fóðraði kálfana á hverjum morgni og leið ægilegar kvalir þegar þeir voru teknir og þeim slátrað. Ég harðneitaði að borða þessa vini mína. Maður gerir ekki svoleiðis. Ég held að ég hafi snemma öðlast ákveðið raunsæi gagnvart lífinu. Svo varð ég fyrir margþættum áföllum í mínu eigin lífi. Ég fór í gegnum þau, mætti þeim en flúði þau ekki. Það varð til þess að ég varð betur í stakk búinn til að mæta áföllum annarra. Lífsreynsla hjálpar prestum og öðrum fagmönnum sem vinna með fólki í djúpri sorg og miklum áföllum. Ég hef uppgötvað hversu dýrmætt lífið er og þakka fyrir hvern einasta dag og þau undur sem við fáum að njóta.“

Þú hefur greinilega mikla ástríðu fyrir prestsstarfinu, finnst þér ekki erfitt að hætta því starfi?

„Nei, ég gegni mörgum hlutverkum og lifi af ástríðu. Ég er fræðimaður í grunninn og hefði vel getað hugsað mér að gera það að ævistarfi, fékk meira að segja boð um starf í Ameríku í gamla daga. Grúskið hentar mér vel. Vefurinn er líka skemmtilegur vettvangur til að birta efni. www.sigurdurarni.is er vefsíða sem ég held úti. Ég tek mikið af ljósmyndum og ætla að læra meira í ljósmyndun. Svo er ég í magnavita-námi Háskólans í Reykjavík og læri að verða skemmtilegt gamalmenni. Þar er tekið á öllum málum sem snerta þriðja æviskeiðið, hvort sem það er hugsun, fjármál, heilsa, mataræði, siðfræði, sjálfsvitund eða menning.“

Svo í lokin, þú hefur staðfasta trú á ástinni?

„Ég er viss um að Guð er ást, ástin hríslast í náttúrunni, lífinu og okkur mannfólkinu. Þess vegna er þetta allt svo skemmtilegt.“

 

… og Orðið var Ást

Sigurþór Heimisson flutti þetta ávarp á örþingi um Ástin, trú og tilgangur lífsins, laugardaginn 11. nóvember, 2023. Myndina hér að ofan tók ég af Sigurþóri við Garðana við Ægisíðu. Þar hefur Sóri búið ásamt konu sinni og fjölskyldu í aldarfjórðung. Myndin hér að neðan er af Kór Neskirkju og Sigurþór er sá lengst til vinstri á myndinni.  Báðar myndirnar líklega frá 2010. Hér á eftir er ávarpið: 

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.

Ég skil þetta þannig að orðið eða tungumálið sé guðdómlegt, ekki það að upphaflega hafi verið eitt orð -Guð-

Séra Sigurður er búinn að raða saman orðum í heila bók – sem ég er reyndar ekki búinn að lesa alla – en þar segir hann meðal annars frá því þegar sonunum tveimur eru gefin nöfn og hvað þau nöfn þýða. Því orð hafa merkingu, ekki í sjálfum sér heldur er það samningur milli fólks í samfélaginu hvaða þýðingu orð hafa. Við þurfum að læra tungumál til að gera okkur skiljanleg. Ef við komum í nýtt samfélag þurfum við að breyta tungumálinu sem við tölum jafnvel þó að við förum bara á milli landshluta. Á Akureyri þarf maður til dæmis að kynna sér áttirnar til að skilja hvað er átt við þegar spurt er hvort maður búi í syðri eða nyrðri endanum í blokkinni.

Við búum til ný orð yfir nýja hluti og hugtök, og hlutirnir eru í raun ekki til fyrr en þeir eru komnir með nafn. Alveg eins og börn verða fyrst hluti af samfélaginu þegar þau hafa fengið sitt eigið nafn. Þess vegna er tungumálið í sjálfu sér guðdómlegt því það er hluti af líminu sem heldur samfélaginu saman. Við búum okkur síðan til orðabækur til að útskýra hvað orðin í tungumálinu þýða.

Ég hef heyrt því haldið fram að Íslendingasögurnar og tilkoma Biblíunnar á íslensku sé ein aðal ástæða þess að íslenskan hefur breyst jafn lítið og raun ber vitni. Íslendingar lásu (og lesa enn) Íslendingaasögurnar og jafnvel biblíuna líka.

Hlutverk presta er síðan að hjálpa okkur að skilja og skilgreina orðin sem standa í Biblíunni.

Ég man að þegar ég fór að syngja í kórnum og mæta reglulega í messu voru þeir hér tveir prestarnir: Séra Sigurður Árni og Séra Örn Bárður. Mér þótti gaman að hlusta á predíkanirnar þeirra (já, já, allavega sumir í kórnum heyra predíkanirnar) mér þótti svo gaman að heyra hvað þeir höfðu ólíka nálgun á efnið sem þeir voru að fjalla um. Örn Bárður var að mínum dómi klassískari í nálgun á meðan fræðimaðurinn Sigurður Árni þótti mér persónulegri og velta upp nýjum flötum á umfjöllunarefninu.

Þess vegna ber að fagna þessari nýju orðabók Séra Sigurðar því með henni gefst tækifæri að rifja upp eða kynna sér frá grunni hugsanir og túlkanir hans á orðunum og hugsununum í Biblíunni.

Eins og nafn bókarinnar gefur til kynna (og kemur fram í fínu viðtali í Mogganum í morgun) fjallar bókin að stórum hluta um ást og boðskapinn um það að elska náungann.

Nú á tímum sjálfselsku (það er dagur einhleypra í dag, eða dagur sjálfselskra) er full þörf á að minna á að við þurfum fyrst og fremst að elska hvert annað.

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Ást.

Trúarspurningar og trúarstyrking

Dr. Rúnar Vilhjálmsson flutti erindið hér að neðan á útgáfuþingi bókarinnar Ástin, trú og tilgangur lífsins. Þingið var haldið í Neskirkju, 11. nóvember, 2023. Rúnar er sóknarnefndarmaður í Hallgrímskirkju, kirkjuþingsmaður og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

   ————————

Ég vissi snemma af Sr. Sigurði Árna en kynntist honum þó ekki að ráði fyrr við hjónin urðum sóknarbörn hans er við fluttum í Hallgrímssókn. Það hafa verið ánægjuleg og gefandi kynni.

Postilla Sigurðar Árna er áhugaverð að utan sem innan. Í lifandi predikunartexta andmælir Sigurður Árni jöfnum höndum bókafstrú og óupplýstum trúarfordómum. Rauði þráðurinn í predikuninni er elska Guðs til mannsins, misjafn sem hann er, og hið gjöfula samband sem hann getur átt við Guð í Jesú Kristi. Guð vill komast í samband við manninn, sem Sigurður kallar ástarsamband.

Sigurður Árni viðurkennir að svo virðist sem menn geti hafnað Guði og komist áfram í lífinu þrátt fyrir það. En þá verða þeir skilningssljóir, því trúin umbyltir allri merkingu hlutanna, sem hefur margs konar þýðingu og afleiðingar fyrir einstaklinga og samfélag.

Sigurði Árna er það einkar lagið að tengja texta Biblíunnar við daglegt líf mannsins í samtímanum. Sem dæmi er mér minnistæður pedikunartextinn milli nýars og þrettánda sem Sigurður Árni leggur út af. Efnið er leit foreldranna að Jesú, sem eftir svefnlausar nætur finna hann loks í musterinu. Um þetta segir Sigurður meðal annars: „Forsenda þess að við getum gengið inn í guðsreynslu og lifað í guðsveru Jesú er að við viðurkennum okkar eigin leit og förum í musterið með honum … Jesús var í húsi föður síns. Finnur þú Jesú þar?“ Foreldrarnir voru að leita að hinum veraldlega Jesú en fundu annan. Um þetta segir Sigurður: „Að trúa er það persónulega mál að hitta Jesú og verða vinur hans og treysta. María og Jósef hlupu til Jerúsalem og leituðu að Jesú og höfðu sinn skilning. Við erum lík þeim. Við leitum að ákveðnum Jesú en svo mætir okkur allt annar.“

Sr. Sigurður leggur ekki áherslu á sérstæða yfirnátturulega reynslu, sem margir raunar leita að, eða sérstaka opinberun, eða langa bið eftir sérstökum skilaboðum eða fyrirmælum frá Guði. Ástæðan er einföld: Guð er hér og nú – andi hans umvefur allt hið hverdagslega líf mannsins og með augum trúarinnar sést greinilega að hann er nálægur og vill vera í stöðugu sambandi við manninn í daglega lífinu, bæði þegar vel og illa gengur. Afstöðu sinni lýsir Sigurður Árni sem pan-en-teisma sem gengur út á að Guð sé yfir og undir og allt um kring, sem þýði þó alls ekki að allt sé guðlegt. „Andi Guðs hvíslar að þér þegar þú leitar Guðs og kennir þér að sjá guðssoninn. Andinn kennir þér að sjá lífið með nýjum hætti og heyra músík veraldar sem himneska tónlist. Hann kennir þér að tala við Guð og opnar vitund um nærveru hins heilaga í öllu” segir Sigurður Árni. Og hann sér Guð að verki út um allt: Í kossi elskenda og hrósi vinar, í meini sem grær eftir uppskurð, í prédikun sem leiðir til andlegs vaxtar, og í jafnvægi krafta náttúrunnar. 

Einhverjum gæti fundist að það mætti vera meiri alvara á ferð í sumum af predikunartextum Sigurðar – því mikið er í húfi fyrir manninn að játast Kristi sem frelsara sínum og fylgja Guði. Ekki fari heldur mikið fyrir umvöndunum prestsins vegna afstöðu- og sinnuleysis manna í trúarefnum. Og þá gæti einhverjum fundist að fleira mætti segja um siðferðilega ábyrgð játanda Krists í heiminum. En þá er því meðal annars til að svara að Sigurður er ekki að tala sérstaklega inn í  lokað samfélag trúaðra, heldur beinir hann erindi sínu til margslungins samfélags samtímans þar sem gætir alls konar viðhorfa og athafna. En umfram allt þá má hér aftur vísa aftur til elskunnar og þess afls sem hún er í heiminum. Sigurður hefur mikla trú á elsku Guðs og þeim krafti hennar sem styrkir samband okkar við Guð og hvert annað hér í heimi, þó margt kunni að vera ólíkt með okkur við fyrstu sýn. Það má skilja Sigurð Árna svo að lækning heimsins meina sé háð þessu elskuríka Guðssambandi.

Bókin er læsileg og aðgengileg. Hun mun vafalítið verða lesin víða, kveikja trúarspurningar og umræðu og verða mörgum til trúarstyrkingar. Til hamingju með þessa fallegu bók.

Framsaga dr. Rúnars á örþinginu í Neskirkju 11.11. Meðfylgjandi mynd/sáþ er af fyrirlesaranum með barnbarn sitt í aðventuguðsþjónustu í Hallgrímskirkkju 2022. 

 

Tilbrigði við gult og glatt

Fæturnir taka á sprett síðasta spölinn yfir Hallgrímstorgið. Það er gott að skjótast úr strengnum inn í myndheim forkirkjunnar.  Augun leita inn altarisleiðina.  Og sjá, við dyrnar er lygilega gulur lyftari á fleygiferð.  Lyftustjórinn er organistinn, Hörður, sem óhikað rekur gaffalinn undir útstöð orgelsins á kirkjugólfinu.  Hann brosir lítillega við undrandi kirkjugesti og lyftir tækinu, rennir því og orgelhlunknum nær miðjugagni og lætur það svo síga á setstað. Þarna vill hann spila í dag.  Hörður setur stút á munninn og reyndar allt andlitið.  Það dettur á hann einhver suður-evrópskur maestrosvipur, sem hann hefur örugglega einhvers staðar þegið að láni frá tónsnillingi í ham.  Svo hneigir hann höfuð snöggt og með rykk. Þá umhverfist þykistualvaran í glens og bros breiðist yfir andlitið.  Ekkert er sagt, en atferlið er tilbrigði við gulan orgellyftara eða er þetta gjörningur?  Fyrsta verk í undirbúningi sunnudagsmessu.

Svo er tilbrigði við næsta stef.  Klukkan er ekki tíu og kórmeðlimir koma.  Sumir líða inn úr rokinu eins og svefngenglar. Lyktin og lætin laða þau beint að eldhúsi í kaffi.  Hörður stendur á miðju gólfi og veitir öllum athygli.  Einn feiminn tenór hlýtur góðlátlega athugasemd og ein úr altinum fær stroku fyrir spilerí á tónleikum í liðinni viku.  Svo er þétt handtak og umhyggjuaugu honum, sem missti ömmu sína í vikunni.  Presturinn kemur með góðan daginn og þeir samverkamennirnir eru fallegir í framan saman.  Svo fer klerkur til að stýra fræðslumorgni, en kantórinn kallar sitt fólk.  Hann tekur létt vingsspor frá Suðursal og alla leið í Norðursal.  Nokkur kórpils valhoppa með.  Dagur og messa eiga sér elskulegan undirbúning. Kantórinn sér fólkið sitt, hefur ræktað með sér hæfni til að tengja við tilfinningar samverkamanna.  Fólk skiptir máli.  Þetta fólk er ekki aðeins raddir heldur lifandi verur.  Iðkun kærleika er flottur spuni.

A-a-a-a-a, e-e-e-e-e. Ah-ah-ah-ah-ah.  Upp tónstigann, svo niður. Vindurinn hrífst með og gnauðar um gluggarifu.  Kviðvöðvarnir í kipp, leitað að þindinni og slakað á brjóststykkinu.  Varir eru teygðar í sérhljóðavinnslu, raddböndin mýkt upp, axlir í spennulausri hvíld. Líf færist í tónmyndun og hljómur hópsins skýrist.  Vantar bara einn því félagar í Mótettukór standa við sitt, svíkja ekki messusönginn. Söngstjórinn æfir fólk í að muna hvar samhengið og miðjan er.  Svo kemur lítil og kímileg saga.  Upphitun er með fjölbreytilegu móti og aldrei alveg eins.  Hörður er lítið fyrir læsta endurtekningu og kann fjölbreytni, sem rímar betur við fólk og líðan þess.

Crügerlaglína berst frá píanóinu á meðan hjartað og lífið er signt í huganum.  Flett er upp í sálmabókinni. “Nú gjaldi Guði þökk, hans gjörvöll barnahjörðin….” Aðeins sungið einu sinni.  Svo kemur miskunnarbænin: “Drottinn miskunna þú oss…”  Hvað þýðir það og af hverju þrítekið með Kristmiðju?  Þrenningin!  Og glorían svo, síðan heilsan með þínum anda!  Guðspjallssálmur með hússælu og minnt á kredóið.  Auðvitað játningin á sínum stað og svo enn einn sálmurinn. Engin ástæða til að syngja fjórraddað í safnaðarsöngnum. Hallgrímssöfnuður syngur, en svo leggja einstaklingar í kór og kirkju á hljómadjúpin.  Bach er sérstaklega æfður í tilefni dagsins.  Þá er kórinn opnaður.  Hörður stekkur upp og byrjar að stjórna.  Það þarf ekki að stoppa nema tvisvar og syngja aftur yfir.  Svona er kórverkfærið gott og agað.  Allir lesa óhikað – og treysta.  Svo eru sálmarnir sungnir sem eftir eru.  Allt búið – „gott, þið eruð yndisleg“ segir hann. Þá er farið í kaffi. Allur messuhringurinn er örugglega fetaður, fallegur gjörningur og gefur öryggi.  Kórinn er þéttur og samheldinn.  Bachhrynjandin og línan fylgir manni fram.

Messuupphaf og allar nótur á sínum stað.  Allar stillingar eru tilbúnar.  Höfuð organistans hnígur lítillega og messuferðin hefst. Fingur á loft og stóri Kláus tekur við rafboðum, þenur pípur og prelúdíutónar fylla hvelfingu.  Kórfélagar ganga til stæða sinna. Presturinn gengur fram mót altari.  Hörður skágýtur augum til kórsins meðan fætur dansa á bassanum og fingur líða yfir borð.  Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.  Ekki tilbrigði heldur frumstefið, sem allt er tilbrigði við, hvort sem það er nú Bach eða Þorkell, Matthías eða Lilja, kredó, predikun, borðsamfélag eða blessun.  Orðið er lesið, síðan útlagt og söfnuður gengur til guðsborðsins.  Uppréttar hendur og blessun.  Hallgrímur leggur orð á varir safnaðar með “Son Guðs ertu með sanni.”  Prestur og kór ganga fram og allir eru á leið út í veröldina með huggun í vegarnesti.

Eftirspilið er tilbrigði við lokasálm.  Organistinn spinnur úr stefinu, hljómarnir þyrlast upp og mynda stafla og stæður.  Smátt og smátt verður til tónverk í spunagleðinni.  Á miðganginum er hugsað, að það sé dásamlegt að söfnuður og kirkja njóti slíks snillings til að þjóna hinu góða erindi við veröldina.  Sólin leikur sér á norðurvegg kirkjunnar og baðar sinn góða vin á orgelstólnum.  Fætur hans dansa, kirkjugestir stoppa og guli orgellyftarinn ymur í gleði.  Gott ef ekki sést glytta í englavængi þarna uppi.  Allir glaðir, enda erindið kennt við fögnuð.

Grein mín til heiðurs Herði Áskelssyni birtist í minningarriti Mótettukórsins árið 2003. Myndirnar frá 2005 þegar Hörður kynnti Klaisorgel Hallgrímskirkju fyrir fulltrúum Porvoo-kirknasambandsins.