Dr. Sigurður Árni Þórðarson gefur kost á sér.

Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Neskirkju, hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti biskups Íslands.

Eftirfarandi er yfirlýsing sem send var fjölmiðlum.

Til framtíðar

Ég býð mig fram til biskpsþjónustu. Framtíðarkirkjan er mér efst í huga og ég mun beita mér fyrir breytingum og eflingu þjóðkirkjunnar. Ég hef víðtæka reynslu á öllum sviðum kirkjustarfs og hef verið virkur í umræðu um samfélags- og kirkjumál. Ég hef verið prestur bæði á landsbyggðinni og í Reykjavík.

Helstu stefnumál mín eru:

Sóknarkirkja

Þjóðkirkjan er á breytingaskeiði og hennar hlutverk er að vera kirkja fólksins. Kirkjan á að vera framsækin, frjálslynd, lífleg og öllum opin. Hún á að vera sóknarkirkja en ekki varnarkirkja.

Kirkja trausts

Traust til þjóðkirkjunnar hefur minnkað síðustu ár. Kirkjan á að heyra gagnrýni, gera upp og vera traustsins verð. Biskup þjóðkirkjunnar á að beita sér fyrir að kirkjan sé öruggt og gott samfélag.

Prestur þjóðarinnar

Biskup á að vera fús til samtals, vera virkur þátttakandi í menningarþróun, veita andlega leiðsögn, vera prestur prestanna og þjóðarprédikari. Til að sinna þessu hlutverki þarf að létta af biskupsembættinu hlutverki framkvæmdastjóra kirkjunnar. Stjórnsýsla kirkjunnar þarf að vera gegnsæ og skilvirk. Biskupsstofa á að verða þjónustumiðstöð kirkjunnar.

Kirkja jafnréttis

Þjóðkirkjan á að efla jafnrétti og virkni allra aldurshópa í kirkjunni. Biskup Íslands á að beita sér fyrir jafnri stöðu kvenna og karla.

Kirkja framtíðar

Til að kirkjan eigi sér framtíð þarf æskulýðsstarf að vera forgangsstarf þjóðkirkjunnar. Öflugt barna- og unglingastarf, byggt á nærveru og boðskap Jesú Krists, byggir upp og styður ungt fólk, uppalendur og fjölskyldur. Auka þarf þátttöku fólks í kirkjustarfi og styrkja lýðræði. Þjóðkirkjan þjónar fólki óháð trúfélagsaðild. Biskupi ber að ganga erinda friðar og leiða kirkjuna með gestrisni og til sátta en þó án þess að kirkjan tapi stefnu sinni.

Þjóðkirkjan er á krossgötum. Til safnaða hennar, starfsfólks og stofnana er kallað hátt og snjallt af Guði og mönnum. Ég býð mig fram til þjónustu.

Ég býð mig fram til biskupsþjónustu

Framtíðarkirkjan er mér efst í huga og ég mun beita mér fyrir breytingum og eflingu þjóðkirkjunnar. Ég þekki aðstæður og þarfir dreifbýlis og þéttbýlis, möguleika og kreppur.

Ég hef víðtæka reynslu á öllum sviðum kirkjustarfs og hef verið virkur í umræðu um samfélags- og kirkjumál. Ég hef verið prestur bæði á landsbyggðinni og í Reykjavík. Ég var rektor Skálholtsskóla, fræðslustjóri þjóðgarðsins á Þingvöllum, verkefnisstjóri á Biskupsstofu og tók þátt í samstarfi kirkna á Íslandi og erlendis.

Ég lærði guðfræði á Íslandi, í Noregi og í Bandaríkjunum, er cand. theol. frá HÍ, M.A. og Ph. D. frá Vanderbiltháskóla. Í doktorsritgerðinni skrifaði ég um myndmál í trúarhefð Íslendinga. Ég er fjárhagslega, pólitískt og félagslega óháður.

Ég býð mig fram til að þjóna, efla, sætta og hvetja þjóðkirkjufólk til sóknar.