Djáknar og kærleiksþjónusta

Telur þú að auka þurfi veg djákna innan kirkjunnar? OG – getur þú tekið undir það að það sé umtalsverður kynjahalli á fjölda vígðra djákna körlum í óhag? OG ef þú getur tekið undir það myndir þú beita þér fyrir því að leiðrétta þann halla?

Þessar spurningar bárust og almennt svar mitt er þetta: Djáknar gegna mikilvægri þjónustu í starfi safnaða sem og hjá félagasamtökum og stofnunum. Kærleiksþjónustuna þarf að efla. Það hefur lengi verið vonarmál kirkjunnar að djáknum fjölgi. Að mínu viti þyrfti að ráða djákna í öllum stórum söfnuðum kirkjunnar og þar sem söfnuðir eru litlir gætu djáknar þjónað heilum prófastsdæmum. Oft andvarpa ég í prestsstarfi þéttbýlisins að ekki skuli starfa djákni í þeim söfnuði sem ég þjóna, því verkefnin kalla á díakóníu. Djáknar koma ekki í stað presta og prestar ekki í stað djákna, heldur fer best á að þessir vígðu þjónar vinni vel saman. Vegna nýs þjóðkirkjufrumvarps og endurskoðun starfsreglna er framundan fínstilling kirkjustarfsins. Hlutverk kærleiksþjónustunnar verður að skoða í því samhengi.

Fleiri konur hafa hlotið djáknamenntun og fleiri kvenkyns djáknar eru að störfum. Það er því kynjahalli meðal djáknanna. Mér er í mun að staða kynja verði sem jöfnust í kirkjulegu starfi og á öllum stjórnstigum kirkjunnar. Ég hef enga einfalda lausn á hvernig eigi að jafna kynjahlutföll í stétt djákna en ég held að betri og skýrari starfsskilgreiningar og öryggi í ráðningarmálum muni efla djáknastéttina og jafna kynjahlutföll.

Jafnréttisstefnan kirkjunnar gildir í málum djákna eins og annarra í fangi kirkjunnar. Um leið og rætt er um kynjahlutföll innan einnar stéttar, er einnig vert að horft sé á kynjahlutföll í kirkjunni í heild sinni. Því er nauðsynlegt að framkvæmdaáætlun þeirri sem sett er fram í jafnréttisstefnunni sé fylgt, en þar segir m.a.:

Í Árbók kirkjunnar og á heimasíðu jafnréttisnefndar kirkjunnar verði birtar árlega upplýsingar um kynjahlutföll í nefndum, ráðum og stjórnum, sem þar eru birtar.

Eins og fleiri heyrði ég í bernsku um djákna í sögum og Myrkárdjákninn var kannski hvað ískyggilegastur. Djáknahlutverkið var því í barnshuganum einhvers konar handantilvera. Það var ekki fyrr en á fullorðinsárum að ég uppgötvaði merkingu kærleiksþjónustunnar. Jón Þorsteinsson stundaði nám í þeim fræðum í Osló og sagði mér frá. Svo heyrði til fleiri og sá til þeirra að störfum og heillaðist. Þegar heim kom var ég hugsi yfir þörfum kirkjunnar og störfum hennar. Ég var valinn sem fulltrúi guðfræðinema til setu á deildarfundum guðfræðideildar. Á þeim vettvangi lagði ég til að deildin tæki upp nám í kristinfræði til B.A. prófs og efndi einnig til djáknanáms. Kristinfræðin komst á laggir skömmu síðar en meðgöngutími djáknanámsins var lengri. Tími kærleiksþjónustu kirkjunnar fellur aldrei úr gildi en tími djákna er að koma. Mikilvægt er að biskup og allt forystufólk kirkjunnar styðji við frekari þróun díakóníunnar og uppbyggingu djáknastarfsins. Það er í samræmi við kærleiksboðskap Jesú Krists og þar með í þágu kirkjunnar.

Breytingaskeið

Hvaða breytingar verða í kirkjunni? Ekki bylting heldur er sígandi lukka best. Allar breytingar þurfa að miða að því að kirkjan geti rækt betur hlutverk sitt sem er að boða fagnaðarerindið um Jesú Krist og að vera ljós og salt í heiminum. Þetta á bæði við kirkjuna á landsvísu og í söfnuðunum.

Til að biskup geti verið andlegur leiðtogi þarf að létta af embættinu þunga sem hlýst af umsýslu tengdri framkvæmdastjórn kirkjunnar. Stjórnsýsla kirkjunnar hefur ekki verið eins gegnsæ og skilvirk og æskilegt væri. Biskupsstofa á að verða þjónustumiðstöð kirkjunnar allrar. Við þurfum líka að vera vakandi fyrir því sem getur greitt götu fagnaðarerindisins heima í héraði og ráðast í breytingar á skipulagi þar.

 

Börn og líf í forgang

Málefni ungs fólks eru forgansmál kirkjunnar. Til að kirkjan eigi sér framtíð þarf æskulýðsstarf að vera forgangsstarf þjóðkirkjunnar, flaggskip kirkjunnar. Öflugt barna- og unglingastarf, byggt á nærveru og boðskap Jesú Krists, byggir upp og styður ungt fólk, uppalendur og fjölskyldur. Auka þarf þátttöku fólks í kirkjustarfi og styrkja lýðræði. Traust til þjóðkirkjunnar hefur minnkað síðustu ár. Kirkjan á að heyra gagnrýni, gera upp og vera traustsins verð. Biskup þjóðkirkjunnar á að beita sér fyrir að kirkjan sé öruggt og gott samfélag. Biskupi ber að ganga erinda friðar og leiða kirkjuna með gestrisni og til sátta en þó án þess að kirkjan tapi stefnu sinni.

Hlutverk biskups?

Margar spurningar hljóma þessa dagaa um kirkjuna og biskupsþjónustuna. Ein þeirra er: “Hvert er að þínu mati hlutverk Biskups Íslands?” Þessari spurningu má auðvitað svara með ýmsu móti. En meginmálið er, að biskup er fyrst og fremst prestur. Hann er prestur prestanna – en líka prestur þjóðarinnar. Sem prestur prestanna lítur hann til með söfnuðunum, starfi þeirra, kenningu, starfsfólki og þjónustu. Biskupinn á að veita athygli, sjá og veita tilsjón bæði fólki og lífsháttum þess í kirkjusamhengi.

Andardráttur trúarinnar er bænin og öll kirkjuþjónusta þarf að lifa í bæn. Mikilvægur þáttur biskupsþjónustunnar er fyrirbæn – fyrir kirkjunni og lífi hennar. Sem prestur þjóðarinnar er biskupinn fyrirmynd og leiðtogi í bæn og boðun.

Trúarleg leiðsögn felst m.a. í að prédika á stórum stundum í lífi þjóðarinnar og túlka meiningu trúar í samtíð okkar og benda til vegar. Til að sinna hlutverki andlegs leiðtoga þarf að létta af biskupsembættinu hlutverki framkvæmdastjóra kirkjunnar. Biskup á að vera kirkjubiskup fremur en stjórnsýslubiskup. Kristinn maður lifir í vídd himins en einnig í vídd tímans. Kirkjunni er ætlað að miðla ást Guðs. Biskup á m.a. að vera fús til samtals og að vera virkur þátttakandi í menningarþróun.

Ríkar kröfur eru gerðar til að biskup hlúi með natni og alúð að prestum, djáknum, starfsfólki og ábyrgðarfólki kirkjunnar. Til að kirkjan geti sinnt vel uppbyggingarstarfi þarf að byggja upp starfsfólk kirkjunnar. Biskup á að vera þolgóður græðari. Biskupi ber ekki aðeins að beita sér fyrir eflingu kirkjustarfs, heldur einnig að reyna að lækna sár, sem myndast hafa á líkama kirkjunnar og í samskiptum fólks.

 

Lára G. Oddsdóttir, sóknarprestur í Valþjófsstaðarprestakalli

Ég styð sr. Sigurð Árna Þórðarson í embætti Biskups Íslands.

Af hverju?

Jú, það er vegna þess að ég tel að Þjóðkirkjunni verði vel borgið í framtíðinni með sr. Sigurð Árna sem biskup.  Hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á málefnum kirkjunnar og glöggt auga fyrir því sem betur má fara auk þess að hafa dug og þor til að leiða kirkjuna okkar til farsældar og þar með okkur öll sem teljumst innan vébanda Þjóðkirkjunnar. Sigurður Árni býr yfir reynslu sem við sem þekkjum til hans finnum að glæðir öll störf hans og samskipti við fólk og hann vekur traust þeirra sem á vegi hans verða.

Ég treysti sr. Sigurði Árna Þórðarsyni.