Tími kirkjunnar

Um allt land hugsar fólk sinn gang og íhugar hver henti í biskupsþjónustu. Það er undursamlegt, að fólk tekur hlutverk sitt bæði alvarlega og leitar umsagna til að geta metið sem best. Mannval er í boði. Tíminn fram að biskupskjöri er tími kirkjunnar. Umræður verða miklar í héraði og í fjölmiðlum þjóðarinnar. Og það er í þágu kirkjunnar, að hún verði sem best.

Svo hringir síminn. “Blessaður. Ég hef ákveðið að kjósa þig í biskupskjörinu.” Ég þakkaði og spurði hvað hefði ráðið. Minnt var á leiðtoga- og stjórnunarhæfni, mikilvægi þess að leiða fólk til sátta, að menntun hentaði kirkjunni, prédikun og beinlínusambandið til Guðs. Þessi óvænti stuðningur gladdi mig.

Mál eru rædd, fólk tekur ákvarðanir, tjáir þær. Hvað eflir Krist, hvað er í þágu trúar, vonar og kærleika? Við verðum öll að glíma við þær spurningar og reyna að meta hvernig við getum þjónað sem best.

Pílagrímagangan á Selfossi

Það var heillandi að koma að Selfosskirkju í morgun. Hálftíma fyrir athöfn var hópur fólks þegar komin í kirkjuna. Prestarnir, Ninna Sif Svavarsdóttir og Óskar Hafsteinn Óskarsson, stóðu í forkirkjunni. Þau tóku á móti öllum með brosi og útdeildu messuskrá og steinum. Það var óvænt, en allir báru með sér grjót í kirkju! Af hverju? Það var upplýst að þetta væri fjallræðuathöfn. Spennandi og vakti eftirvæntingu.

Svo fórum við Elín Sigrún, kona mín inn, inn í kirkjuna. Enn voru tíu mínútur í að athöfnin byrjaði, en barnakórinn stóð þegar í kórtröppum og söng. Litlu börnin vögguðu fram og til baka kirkjuganginum. Svo spiluðu tvær unglingsstúlkur á klarinett. Fólk dreif að og það var stemming í kirkjunni.

Svo hófst athöfnin og allur söfnuðurinn söng um Jesú, okkar besta bróður. Bænir stigu upp í himininn. Prestarnir stýrðu athöfninni með öryggi, hreyfisöngvum með sveiflu og fræddu söfnuðinn af kunnáttu. Svo söng barnakórinn að nýju. Gesturinn var kynntur og sagði sögu um lífið, öryggið, okkur manneskjur og Guð.

Steinarnir voru teknir fram og hlutverk þeirra skýrt. Grjótið úr forkirkjunni væru bænasteinar – okkar hlutverk væri að ganga fyrir altarið, leggja þá í vörðu, sem væri eins og bænafjall. Frammi fyrir Guði ættu tilfinningar okkar heima, sorgir og gleði, allt okkar líf. Ganga okkar safnaðarins, stefnan að altarinu, var eins og pílagrímsför mannsins fram fyrir Guð. Þetta var heillandi athöfn sem hafði sterk áhrif á mig. Þegar vel er unnið með börnum og unglingum er kirkjan á réttri leið.

Bjartsýni á pílagrímsför kirkjunnar

Eftir súpu í hádeginu byrjaði svo fundur kjörmanna. Sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson bættist í hópinn og nokkrir kjörmenn úr héraði sem og sóknarnefndarfólk af Selfossi. Margt var rætt um biskupskjör, álitamál kirkjunnar, starf og þróun þjóðkirkjunnar og að hverju yrði að huga. Samtalið er mikilvægt í undirbúningi biskupskjörs, allir leggja í þann sjóð líka, biskupsefnum til ábendingar, kjörmönnum til styrktar en kirkjunni til framtíðar.

Þennan sunnudag á Selfossi voru bænir bornar fram í guðsþjónustu og hugmyndir lagðar fram til uppbyggingar. Ég fór frá Selfossi bjartsýnn á pílagrímsför þjóðkirkjunnar. Takk fyrir Selfyssingar, takk fyrir Sunnlendingar – og takk Guð.

Athygli

Ég hlustaði á vitra konu, sem líka er prestur, tala um kirkjuna. Hún talaði með næmleik um vanda dreifbýlis og þéttbýlis og stöðu og hlutverk kirkjunnar. Svo sagði hún, að sárasti vandi kirkjunnar í dreifbýlinu væri kannski að fólk nyti ekki athygli.

Ég staldraði við þessa hugsun. Getur verið að þetta sé mein, sem mörg kannast við. Er kannski brestur eða skortur á athygli einn meginvandi okkar kirkju? Það er dyggð að sjá fólk, í gleði þess og sorg, í vanda þess og vegsemd. Engin manneskja verður til nema vera séð. Þau, sem njóta ekki að vera séð og metin, tærast upp – verða ill eða deyja. Móður- og föðuraugu sjá mennsku í barni sínu. Þau tillit verða til að laða fram andlega auðlegð þess og þroska. Guð sér okkur menn og þess vegna verður lífið gott og gjöfult.

Við megum gjarnan læra að sjá betur, heyra betur og finna meira til með öðrum. Og við þurfum að stunda stífar hrósæfingar, segja fólki þegar það gerir gott. Auðvitað eigum við ekki að leggja af gagnrýni, heldur fylgja henni eftir með H-vítamíninu – hrósi. Við prestar megum gjarnan vera góð fyrirmynd í að veita fólki næma athygli. Kirkjulegir starfsmenn mega veita fólkinu í samfélaginu og kirkjunni athygli. Allir þarfnast þess að vera séðir.

Kristinn maður sem veitir athygli er bróðir og systir og eflir aðra. Kirkjan er athyglissamfélag Guðs og manna, með öðrum orðum samfélag kærleika. Að vera biskup er að vera episkopos, sá eða sú sem sér, horfir til, iðkar tilsjón. Að vera biskup er að veita athygli – næma athygli.

Börn og traust

“Kirkjan þarf að byggja upp traust og á að byrja á barnastarfinu. Að baki ánægðu barni eða ánægðum unglingi eru foreldrar og fjölskylda.” Þessi orð féllu í þriggja landa skypesamtali um framtíð barnastarfs kirkjunnar í dag. Og er það ekki nákvæmlega þannig sem traust er byggt upp, fyrst með uppeldi og síðan í samskiptum, sem eru í samræmi við gott uppeldi. Traustið í fullorðnum manneskjum er ofið úr jákvæðri reynslu fólks í bernsku. Kirkja og trú á að koma inn í þá reynslu og vera traustisins verð.

Víða er unnið frábært barna- og unglingastarf í þjóðkirkjunni. Reynslu og þekkingu þarf að miðla. Snúa þarf við þeirri þróun sem verið hefur frá hruni bankakerfisins og leiddi til uppsagna faglærðra æskulýðsstarfsmanna á Reykjavíkursvæðinu. Gott barnastarf verður ekki nema áhöfnin sé öflug og vanda vaxin.

Viðmið um lágmarksnotkun fjár til barnastarfs safnaða ætti að setja. Auðvitað er munur á söfnuðum – sumir eru aldraðir en aðrir bráðungir, en hægt að miða við fjárhæð pr. barn.

Skoða ætti að útvistun fræðslusviðs kirkjunnar í söfnuðum. Biskupsstofa er ekki ráðuneyti, heldur þjónustumiðstöð og einstaka starfsþættir hennar gætu sem hægast  fléttast inn í starfstöðvar í sóknum og prófastsdæmum.

Setja ætti upp starfseflingarsjóð kirkjunnar og söfnuðir gætu sótt í hann til átaks- og þróunarverkefna. „Trosoplærings“-sjóðir norska ríkisins eru áhugaverðir og ætti að ræða við stjórnvöld. Fé sem varið er til barnafræðslu verður höfuðstóll framtíðar.

Umræðan er gjöful – aðdragandi vals á biskupi kveikir í fólki – og í mörgum löndum. Takk þið vökulu og sókndjörfu framverðir kirkjunnar.

Kæri Guð þakka þér þennan yndislega dag!

Drengir mínir voru saddir, glaðir og vel nærðir andlega þegar þeir teygðu úr sér í rúmum sínum. Svo var rætt um daginn og veginn, skólamál, allt þetta sem verður á viðburðaríkum tíma frá morgni til kvölds. Svo hófst bænagerðin með Faðir vori, sálmasöng og litlir menn töluðu við Guð. “Kæri Guð. Þakka þér fyrir þennan yndislega dag. Og takk fyrir lífið.”

Þetta er að lifa í góðu samhengi, sem gefur traust, tengsl, vitund og stefnu. Og lífsástin er dásamleg. Drengirnir tjáðu með bæn sinni einnig mína eigin upplifun. Dagurinn var yndislegur og það er svo þakkarvert að fá að lifa, fagna, elska og hefja höfuð mót hækkandi sól.

Þennan dag talaði ég við marga, sem sögðu mér margt og merkilegt. Kjörskrá var lögð fram og hún er spennandi. Ég gladdist yfir mörgu, m.a. að kynjahlutföllin voru mun jafnari í hóp kjörmanna en ég átti von á. Margt gott að gerast í kirkjunni.

Merkilegur dagur að kvöldi kominn: “Kæri Guð. Þakka þér fyrir þennan yndislega dag. Og takk fyrir lífið.”