Málefni ungs fólks eru forgansmál kirkjunnar. Til að kirkjan eigi sér framtíð þarf æskulýðsstarf að vera forgangsstarf þjóðkirkjunnar, flaggskip kirkjunnar. Öflugt barna- og unglingastarf, byggt á nærveru og boðskap Jesú Krists, byggir upp og styður ungt fólk, uppalendur og fjölskyldur. Auka þarf þátttöku fólks í kirkjustarfi og styrkja lýðræði. Traust til þjóðkirkjunnar hefur minnkað síðustu ár. Kirkjan á að heyra gagnrýni, gera upp og vera traustsins verð. Biskup þjóðkirkjunnar á að beita sér fyrir að kirkjan sé öruggt og gott samfélag. Biskupi ber að ganga erinda friðar og leiða kirkjuna með gestrisni og til sátta en þó án þess að kirkjan tapi stefnu sinni.
Hlutverk biskups?
Margar spurningar hljóma þessa dagaa um kirkjuna og biskupsþjónustuna. Ein þeirra er: “Hvert er að þínu mati hlutverk Biskups Íslands?” Þessari spurningu má auðvitað svara með ýmsu móti. En meginmálið er, að biskup er fyrst og fremst prestur. Hann er prestur prestanna – en líka prestur þjóðarinnar. Sem prestur prestanna lítur hann til með söfnuðunum, starfi þeirra, kenningu, starfsfólki og þjónustu. Biskupinn á að veita athygli, sjá og veita tilsjón bæði fólki og lífsháttum þess í kirkjusamhengi.
Andardráttur trúarinnar er bænin og öll kirkjuþjónusta þarf að lifa í bæn. Mikilvægur þáttur biskupsþjónustunnar er fyrirbæn – fyrir kirkjunni og lífi hennar. Sem prestur þjóðarinnar er biskupinn fyrirmynd og leiðtogi í bæn og boðun.
Trúarleg leiðsögn felst m.a. í að prédika á stórum stundum í lífi þjóðarinnar og túlka meiningu trúar í samtíð okkar og benda til vegar. Til að sinna hlutverki andlegs leiðtoga þarf að létta af biskupsembættinu hlutverki framkvæmdastjóra kirkjunnar. Biskup á að vera kirkjubiskup fremur en stjórnsýslubiskup. Kristinn maður lifir í vídd himins en einnig í vídd tímans. Kirkjunni er ætlað að miðla ást Guðs. Biskup á m.a. að vera fús til samtals og að vera virkur þátttakandi í menningarþróun.
Ríkar kröfur eru gerðar til að biskup hlúi með natni og alúð að prestum, djáknum, starfsfólki og ábyrgðarfólki kirkjunnar. Til að kirkjan geti sinnt vel uppbyggingarstarfi þarf að byggja upp starfsfólk kirkjunnar. Biskup á að vera þolgóður græðari. Biskupi ber ekki aðeins að beita sér fyrir eflingu kirkjustarfs, heldur einnig að reyna að lækna sár, sem myndast hafa á líkama kirkjunnar og í samskiptum fólks.
Lára G. Oddsdóttir, sóknarprestur í Valþjófsstaðarprestakalli
Ég styð sr. Sigurð Árna Þórðarson í embætti Biskups Íslands.
Af hverju?
Jú, það er vegna þess að ég tel að Þjóðkirkjunni verði vel borgið í framtíðinni með sr. Sigurð Árna sem biskup. Hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á málefnum kirkjunnar og glöggt auga fyrir því sem betur má fara auk þess að hafa dug og þor til að leiða kirkjuna okkar til farsældar og þar með okkur öll sem teljumst innan vébanda Þjóðkirkjunnar. Sigurður Árni býr yfir reynslu sem við sem þekkjum til hans finnum að glæðir öll störf hans og samskipti við fólk og hann vekur traust þeirra sem á vegi hans verða.
Ég treysti sr. Sigurði Árna Þórðarsyni.
Sunna Dóra Möller, æskulýðsfulltrúi Akureyrarkirkju
Ég styð framboð dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar prests í Neskirkju til embættis biskups Íslands. Dr. Sigurður Árni er reynsluríkur kennimaður, sem hefur skýra sýn á margt það sem er kirkjunni mikilvægara en annað sbr. barna-og ungmennastarf. Æskulýðsstarf þjóðkirkjunnar er mér hugleikið og eftir samtöl við frambjóðandann hef ég trú á því að hann muni vinna að því að efla þetta mikilvæga starf og beita sér fyrir því að byggja upp kirkju til framtíðar.
Bolli Pétur Bollason, sóknarprestur Laufásprestakalli
Dr. Sigurður Árni Þórðarson prestur í Neskirkju býður sig fram til embættis biskups Íslands. Ég styð það framboð heilshugar og hef þannig trú á þeim mæta manni til að leiða þjóðkirkjuna í ólgjusjó nútímans. Ég kann vel við áherslur frambjóðandans hvað snertir barna-og ungmennastarf innan kirkjunnar. Það er mikilvægt starf. Dr. Sigurður er málsnjall og hugsandi maður og býr yfir röggsemi og mýkt í senn. Hann hefur því að mínu mati alla burði til að leiða fólk saman kirkjunni til heilla og blessunar.