Gleðilega kirkju

Ég virði en hræðist hvorki andóf gegn kirkju né trúargagnrýni. Áskoranir ögra og kalla á frjóa guðfræði. Kirkjan má ekki einangrast, heldur vera lífleg og tala frjáls á götum og torgum mannlífs, miðla gildum og beita sér til góðs í réttlætismálum samfélagsins.

Kirkjulífið á að vera til upplífgunar, til trúar á Guð og elskuríkrar þjónustu við menn. Möguleikar kirkjunnar eru miklir og heillandi. Ég býð mig fram til að þjóna, sætta og hvetja þjóðkirkjufólk til sóknar. Gleðilega kirkju.

Þrjú forgangsverkefni

Hver yrðu nú fyrstu verkefni þín í starfi ef þú yrðir kjörinn biskup? Þetta er góð spurning, sem ég varð að svara sjálfum mér og spyrjanda. Ég komst að því að forgansverkefnin væru eiginlega þrjú og varða ungt fólk og fé og fullorðið fólk. Hvað þýðir það? Fyrstu verkefni mín í biskupsstarfi yrðu:

  • Í fyrsta lagi að kalla barnafræðara kirkjunnar til átaks í þágu barna og barnafjölskyldna. Börnin eru dýrmæti og einnig framtíð kirkjunnar.
  • Í annan stað að beita mér fyrir að ríkið skili réttilega félagsgjöldum kirkjunnar, sóknargjöldum, til að söfnuðirnir geti sinnt verkefnum sínum.
  • Í þriðja lagi að hefja græðarastarf innan kirkjunnar með því að hafa sem nánast samstarf við presta, djákna og sóknarnefndarfólk um land allt. Þetta forystufólk kirkjunnar þarf að næra og hlúa að. Glatt fólk þjónar vel.

Djáknar og kærleiksþjónusta

Telur þú að auka þurfi veg djákna innan kirkjunnar? OG – getur þú tekið undir það að það sé umtalsverður kynjahalli á fjölda vígðra djákna körlum í óhag? OG ef þú getur tekið undir það myndir þú beita þér fyrir því að leiðrétta þann halla?

Þessar spurningar bárust og almennt svar mitt er þetta: Djáknar gegna mikilvægri þjónustu í starfi safnaða sem og hjá félagasamtökum og stofnunum. Kærleiksþjónustuna þarf að efla. Það hefur lengi verið vonarmál kirkjunnar að djáknum fjölgi. Að mínu viti þyrfti að ráða djákna í öllum stórum söfnuðum kirkjunnar og þar sem söfnuðir eru litlir gætu djáknar þjónað heilum prófastsdæmum. Oft andvarpa ég í prestsstarfi þéttbýlisins að ekki skuli starfa djákni í þeim söfnuði sem ég þjóna, því verkefnin kalla á díakóníu. Djáknar koma ekki í stað presta og prestar ekki í stað djákna, heldur fer best á að þessir vígðu þjónar vinni vel saman. Vegna nýs þjóðkirkjufrumvarps og endurskoðun starfsreglna er framundan fínstilling kirkjustarfsins. Hlutverk kærleiksþjónustunnar verður að skoða í því samhengi.

Fleiri konur hafa hlotið djáknamenntun og fleiri kvenkyns djáknar eru að störfum. Það er því kynjahalli meðal djáknanna. Mér er í mun að staða kynja verði sem jöfnust í kirkjulegu starfi og á öllum stjórnstigum kirkjunnar. Ég hef enga einfalda lausn á hvernig eigi að jafna kynjahlutföll í stétt djákna en ég held að betri og skýrari starfsskilgreiningar og öryggi í ráðningarmálum muni efla djáknastéttina og jafna kynjahlutföll.

Jafnréttisstefnan kirkjunnar gildir í málum djákna eins og annarra í fangi kirkjunnar. Um leið og rætt er um kynjahlutföll innan einnar stéttar, er einnig vert að horft sé á kynjahlutföll í kirkjunni í heild sinni. Því er nauðsynlegt að framkvæmdaáætlun þeirri sem sett er fram í jafnréttisstefnunni sé fylgt, en þar segir m.a.:

Í Árbók kirkjunnar og á heimasíðu jafnréttisnefndar kirkjunnar verði birtar árlega upplýsingar um kynjahlutföll í nefndum, ráðum og stjórnum, sem þar eru birtar.

Eins og fleiri heyrði ég í bernsku um djákna í sögum og Myrkárdjákninn var kannski hvað ískyggilegastur. Djáknahlutverkið var því í barnshuganum einhvers konar handantilvera. Það var ekki fyrr en á fullorðinsárum að ég uppgötvaði merkingu kærleiksþjónustunnar. Jón Þorsteinsson stundaði nám í þeim fræðum í Osló og sagði mér frá. Svo heyrði til fleiri og sá til þeirra að störfum og heillaðist. Þegar heim kom var ég hugsi yfir þörfum kirkjunnar og störfum hennar. Ég var valinn sem fulltrúi guðfræðinema til setu á deildarfundum guðfræðideildar. Á þeim vettvangi lagði ég til að deildin tæki upp nám í kristinfræði til B.A. prófs og efndi einnig til djáknanáms. Kristinfræðin komst á laggir skömmu síðar en meðgöngutími djáknanámsins var lengri. Tími kærleiksþjónustu kirkjunnar fellur aldrei úr gildi en tími djákna er að koma. Mikilvægt er að biskup og allt forystufólk kirkjunnar styðji við frekari þróun díakóníunnar og uppbyggingu djáknastarfsins. Það er í samræmi við kærleiksboðskap Jesú Krists og þar með í þágu kirkjunnar.

Breytingaskeið

Hvaða breytingar verða í kirkjunni? Ekki bylting heldur er sígandi lukka best. Allar breytingar þurfa að miða að því að kirkjan geti rækt betur hlutverk sitt sem er að boða fagnaðarerindið um Jesú Krist og að vera ljós og salt í heiminum. Þetta á bæði við kirkjuna á landsvísu og í söfnuðunum.

Til að biskup geti verið andlegur leiðtogi þarf að létta af embættinu þunga sem hlýst af umsýslu tengdri framkvæmdastjórn kirkjunnar. Stjórnsýsla kirkjunnar hefur ekki verið eins gegnsæ og skilvirk og æskilegt væri. Biskupsstofa á að verða þjónustumiðstöð kirkjunnar allrar. Við þurfum líka að vera vakandi fyrir því sem getur greitt götu fagnaðarerindisins heima í héraði og ráðast í breytingar á skipulagi þar.