Vigfús Ingvar Ingvarsson, fyrrv. sóknarprestur á Egilsstöðum

Sr. Sigurði Árna kynntist ég fyrst er hann kom til náms í guðfræði í HÍ þar sem ég var fyrir. Minnist þess hve vinsamlega hann heilsaði mér sem kunningja og aðspurður hvaðan hann þekkti mig var svarið að hann hefði séð mig á gangi fyrir utan skólann.

Við áttum svo góðar stundir saman í Kristilegu stúdentafélagi t.d. við útgáfu Kristilegs stúdentablaðs og við ýmis tækifæri þar sem guðfræðinemar áttu samleið. Hef svo fylgst með honum í gegnum árin. Las t.d. doktorsritgerð hans af mikilli athygli þar sem hann af glöggskyggni rýnir í íslenskar trúarhefðir.

Síðar urðum við samstarfsmenn í vinnunni við safnaðaruppbyggingu á tíunda áratugnum þegar Sigurður Árni var framkvæmdastjóri verkefnisins, sem starfsmaður Biskupsstofu, en undirritaður í safnaðaruppbyggingarnefndinni og sem formaður hennar í nokkur ár.

Margt kemur til að ég sé Sigurð Árna Þórðarson fyrir mér sem góðan biskup á erfiðum tímum. Ég þekki hann sem mikinn heilindamann og ljúfmenni í öllum mannlegum samskiptum. Mann með hæfileika til að laða það besta fram í fólki og leyfa hugmyndum þess og kröftum að njóta sín. Jafnframt sem hugsjónamann og mikinn dugnaðarfork sem á gott með að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í ræðu og riti.

Enn eykur það traust mitt á Sigurði Árna sem biskupsefni hve fjölbreytta og dýrmæta starfsreynslu hann hefur og hve kunnugur hann er aðstæðum bæði á landsbyggðinni og í Reykjavík og þjónustu kirkjunnar á ólíkum vettvangi. Og ekki spillir staðgóð menntun.

Sigurður Árni hefur verið mjög virkur í umræðunni um málefni kirkjunnar á undanförnum árum og opinn fyrir nýjungum án þess að vanmeta góðan arf. Frá því er ég kynntist honum hefur hann verið vakandi fyrir þörfum þeirra sem höllum fæti standa og metið meira að standa vörð um þjóðfélagslegt réttlæti en að láta berast með straumnum.

Vigfús Ingvar Ingvarsson
fyrrv. sóknarprestur á Egilsstöðum

Sigurður Árni í Fréttablaðinu og Skessuhorni

Í gær, miðvikudaginn 29. febrúar, birtist viðtal við Sigurð Árna í Skessuhorni. Smelltu hér til þess að lesa greinina. 

Þá birtist viðtal við Sigurð Árna í aukablaði Fréttablaðsins um fermingar í dag, 1. mars. Þar segir Sigurður Árni frá fermingardegi sínum þann 23. október 1966. Þá fermdist hann, ásamt Kristínu systur sinni, sem er einu og hálfu ári eldri. Smelltu hér til þess að lesa viðtalið. 

Íslensku söfnuðirnir erlendis

Ég var spurður um stefnu mína varðandi þjónustu við Íslendinga sem búa erlendis. Við, sem höfum dvalið langdvölum í útlöndum, vitum hve dásamlegt það getur verið að hitta stóran hóp landa, geta talað, sungið íslenska sálma og beðið á móðurmálinu og hlustað á kjarnmikið og vel orðað lífsorð úr prédikunarstóli.

Samkomur og messur eru Íslendingum í útlöndum mikilvægar. Auðvitað hafa þjóðernisþættir áhrif, en kirkjulífið verður sem rammi um aðra þætti og þarfir fólks. Svona hefur það verið frá því Íslendingar fluttu til Vesturheims og þannig hefur það verið í Evrópu síðustu áratugi. Hið sama gildir um annarra þjóða fólk og því heldur þjóðkirkjan messur í Hallgrímskirkju fyrir enskumælandi fólk. Sr. Bjarni Þór Bjarnason þjónar því prestsstarfi með glæsibrag. Og við ættum auðvitað að messa oftar á þýsku, dönsku, norsku, sænsku og kannski líka á frönsku og spænsku!

Íslenska kirkjan hefur, vegna fjáreklu, lagt niður prestsstöður í London og Kaupmannahöfn. En söfnuðurnir hafa notið styrkja til safnaðarstarfs þó upphæðirnar hafi ekki verið í sex núllum.

Þjóðkirkjan á að stefna að því að endurstofna prestsstöðurnar. En okkur ber líka að leita áfram lausna á viðkomandi starfssvæðum og óska aðstoðar systurkirkna. Þetta á sérstaklega við í Danmörk og Svíþjóð. Vegna hinna góðu tengsla okkar við anglikanskar kirkju, í anda Porvoo-samkomulagsins, njóta Íslendingar velvilja varðandi kirknafnot og aðstöðu. Svo mun eflaust áfram verða.

Stutt yfirlit um stöðu safnaðanna erlendis er hér að neðan – eins og ég veit best. Góðar hugmyndir og ábendingar eru vel þegnar og óháð biskupskjöri. Ég sit á kirkjuþingi og er í samkirkjunefnd þjóðkirkjunnar og læt mig varða þjónustu hennar erlendis.

Noregur

Staða íslenska safnaðarins í Noregi er góð, raunar fjárhagslega best þeirra safnaða landa okkar sem eru erlendis. Söfnuðurinn hefur verið samþykkt sem n.k. fríkirkja en presturinn, sr. Arna Grétarsdóttir, er boðinn til funda og samstarfs í norsku þjóðkirkjunn. Söfnuðurinn fær nú starfsstyrk og getur borgað prestinum laun. En vegna fjölda Íslendinga þyrfti jafnvel að bæta við presti eða djákna. Ég mun styðja það mál ef sú stefna verður tekin af presti og sóknarnefnd. Verið er að undirbúa kaup að sal og starfsaðstöðu og er okkar fólki í Noregi óskað til hamingju.

Danmörk

Danska kirkjan er að miklu leyti ríkisstýrð og ráðuneytið hefur ekki viljað samþykkja prestsstöðu í þágu íslenska safnaðarins. Enn sem komið er hefur ekki verið farin leið stofnunar fríkirkjusafnaðar. En Íslendingar þurfa þjónustu og kirkjustarf og vert að skoða alla kosti. Ég vil því stuðla að því að fá utanríkisráðuneyti í málið til styrktar með kirkjunni og sækja fastar að danska ríkið komi til hjálpar – enda greiða Íslendingar sína skatta og sinna sínum skyldum í Danmörk. Og þó ekki hafi fengist nein varanleg úrlausn prestsþjónustumála í Kaupmannahöfn er engin ástæða til að hætta. Þjónusta íslensku kirkjunnar þarf að vera öflug í Kaupmannahöfn og Danmörk.

Svíþjóð

Enn starfar prestur í hlutastarfi í Gautaborg, sr. Ágúst Einarsson og vinnur gott starf. En fjárveitingar til þjónustunnar koma ekki frá kirkjunni heldur íslenska ríkinu. Ástæðan er presturinn aðstoðar fólk sem kemur til Svíþjóðar í lækniserindum.

Það sama gildir um Svíþjóð eins og hin Norðurlöndin, að ástæða er til að reyna áfram að afla liðveislu systurkirkjunnar til að stofna og reka prestsembætti.

England og meginland Evrópu

Prestssatarfið í Englandi var lagt niður og er leyst til bráðabirgða með ferðaprestum. Sú skipan er ekki ásættanleg til lengdar. Í Lúx hefur sr. Sjöfn Þór tekið við þjónustu við Íslendinga. Vel getur farið svo að hún muni þjóna Íslendingum í Brussel einnig. En þetta starf hennar er ekki fast og alls ekki embætti í neinum formlegum skilningi.

Ísraelar áttu erfitt með að tilbiðja Guð við Babýlonsfljót og Boney M. gerði frægt. Og tilbeiðsla á framandi tungu er mörgum erfið. Þjóðkirkjan á styðja starf íslenskra safnaða og veita prestsþjónstu þar sem fjöldi Íslendinga er mikill eins og á Norðurlöndum, Englandi og Vestur Evrópu. Sá stuðningur getur verið margvíslegur. Fjármunir eru góðir en mikilvæg eru líka öll gefandi samskipti og óbeinn stuðningur.

Kirkja boðberi réttlætis

Þjóðin glímir við óvissu og öryggisleysi á sviði siðferðis og trúarlífs – ekki síst eftir hrunið. Það er mikilvægt að ganga í gegum það sorgar- og reiðiferli sem fyrir uppgjöri við áfall hrunsins. Þá er ekki síður mikilvægt að draga lærdóm af því sem miður fór og líta í eigin barm. Lærdómurinn skiptir miklu máli. Skeytingarleysi um hag náungans er mein sem ekki má grafa um sig í samfélaginu. Kirkjan gegnir mikilvægu hlutverki boðbera réttlætis og mannúðar í samfélagi okkar.

Kirkjan er kölluð til að vera salt og ljós í heiminum. Í því felst m.a. að lýsa upp skúmaskot sálar og sársauka sem kreppa okkur innvortis og gera okkur hörð og ónæm fyrir þjáningu annarra. Í boðun sinni á kirkjan að skerpa á þeim viðmiðum og gildum sem gera okkur að Íslendingum og tala kjark og von í þjóðina á tímum þegar bölmóður og neikvæðni fær svo mikið rými. Kristin trú setur frelsi og ást í brennipunkt og mótar manneskjuna til þess konar lífs. Þess vegna lætur kirkjan sig varða hvernig samfélag við byggjum og hvernig manneskjunni reiðir af.