Hörður Áskelsson, organisti og kantor Hallgrímskirkju

Sem organisti hef ég margsinnis tekið þátt í helgihaldi með séra Sigurði Árna Þórðarsyni, bæði við messur og aðrar athafnir. Það er mér ljúft að segja frá því hve ánægjulegt það samstarf hefur verið í hvívetna. Sigurður Árni er jákvæður, opinn og hvetjandi í öllu samstarfi, hann er næmur á hið listræna, hefur góðan skilning á gildi og hlutverki  tónlistarinnar. Hann er einlægur stemningsmaður og gefur mikið af sér til að helgihaldið nái að grípa þátttakendur, eitthvað sem leggur grunn að skapandi og góðu samstarfi prests og organista. Í  prédikuninni tekst honum að blanda saman fræðandi útleggingu á Ritningunni og grípandi skírskotun til samtímans, sem höfðar sterkt til áheyrandans. Í prestsþjónustu sinni við skírnir, hjónavígslur og jarðarfarir er Sigurður til fyrirmyndar. Hann leggur sig fram um að setja sig vel inn í aðstæður fólksins sem í hlut á, er ósérhlífinn og gefur öllum þann tíma, sem þeir framast þurfa.

Það sem ég met mest í fari Sigurðar er sá hvetjandi áhugi sem hann sýnir samstarfsfólki sínu og skjólstæðingum, hve hann er góður hlustandi, hreinskilinn og hreinskiptinn í öllum samskiptum.

Sigurður starfaði sem prestur við Hallgrímskirkju haustið 2003. Áður hafði hann starfað sem söngvari í Mótettukór Hallgrímskirkju undir minni stjórn. Í preststíð sinni við Hallgrímskirkju tók hann virkan þátt í listastarfi Listvinafélags Hallgrímskirkju með hugmyndaríkum tillögum á sviði bókmennta, myndlistar og tónlistar.

Ég tel séra Sigurð Árna Þórðarson hafa þá hæfileika, menntun, reynslu og mannkosti sem nauðsynleg eru til að gegna embætti Biskups Íslands. Hann mun í því starfi njóta ýmissa eðliskosta sinna sem eru m.a.: Trúarsannfæring, hæfni í mannlegum samskiptum, skipulagsgáfur, leiðtogahæfileikar, traust til samstarfsaðila (kann að treysta öðrum fyrir verkefnum), hreinskilni, hreinskiptni, myndugleiki, kímnigáfa, verkgleði, hrósgleði og mikil útgeislun í helgiþjónustu. Með séra Sigurði myndi þjóðkirkjan fá góðan biskup.

 

Þórdís Ívarsdóttir, sóknarnefnd Neskirkju og kennari

Það eru næstum 10 ár síðan ég fór að venja komur mínar í Neskirkju með börnin mín.  Fljótt fundum við hvað það er gott að koma þangað, þar ríkir góður andi og gott starf er unnið þar.  Sigurður Árni hefur með sinni góðu nærveru, áhuga  og næmni átt stóran þátt í að efla og auðga starfið í Neskirkju.  Ég treysti Sigurði Árna til að efla og opna þjóðkirkjuna verði hann biskup. Hann yrði góður leiðtogi kirkju í sókn.

Þórdís Ívarsdóttir í sóknarnefnd Neskirkju og kennari í Melaskóla.

Flosi Kristjánsson, Menntasviði Reykjavíkur

Kynni mín af Sr. Sigurði Árna ná aftur til þess tíma er ég var skólastjórnandi í Vesturbæ og börn hans voru í Hagaskóla.

Ég hef fylgst með honum í starfi við Neskirkju, sem er mín sóknarkirkja, og veit af reynslunni að þar fer maður sem á gott með að ná til breiðs hóps sóknarbarna, bæði þeirra sem sleppa aldrei úr messu og þeirra sem koma sjaldnar. Hann talar beint til safnaðarins og varpar fram spurningum sem fólk þarf að svara og getur auðveldlega fundið svör við.

Hef þegið frá honum góð ráð, ábendingu sem var ekki patentlausn heldur leiðsögn um skref sem þyrfti að taka. Sr. Sigurður Árni hefur í sér hirðis-gen og leysir vel af hendi sitt starf sem hlustandi og ráðgjafi. Svona mann þurfum við í forystu kirkjunnar á nýrri öld.

Þá verður lífið bænalíf

Ég var spurður um bænalíf og það varðar trúar-afstöðu og túlkun. Trúarlíf og bænalíf varða það sama. Guð varð mér altækur veruleiki á unga aldri. Þar er trúarafstaðan, en þar sem Guð er mér umfaðmandi Guð lifi ég og hrærist í þeim veruleika á öllum stundum og í öllu sem ég er og geri. Lífið er mér bænalíf og bænalífið greinist í ýmsa þætti. Bænalíf er ekki aðeins það að bera fram beiðni til Guðs eða tjá tilbeiðslu í orðum heldur líka það að upplifa, nema, lifa – allt sem er verður trúmanninum þáttur í bænalífi. Þegar Guð er umlykjandi veruleiki verður lífið þar með bænalíf.

Hannes Örn Blandon, sóknarprestur Laugalandsprestakalli, Eyjafirði

Það mér ánægjuefni að ganga fram á ritvöllinn til að veita sr. Sigurði Árna til Biskups Íslands. Sr Sigurð hef ég þekkt lengi af góðu einu. Við kynntumst í deildinni forðum og greindu menn glöggt að þar fór snemma efnilegur guðfræðingur. Sigurður gerðist síðan farsæll prestur ef ekki vinsæll án þess að verða populisti. Þá er hann aukinheldur einn doktor sem ekki mun skaða. Sr Sigurður er góður ræðumaður, flytur lýsandi og skírar predikanir, er ágætur brúarsmiður í forbífarten ekki sakar að hann kann að vera skemmtilegur í leiðinni.

Hann er alþýðlegur og heimsborgari í senn ekki ósvipaður dr Þóri Kr. heitnum og er ekki leiðum að líkjast. Mildur en fastur fyrir, kann að vera orthodox án þess að vera um of en jafnframt óvenju liberal sem gamall kfummari.

Ég trúi því að hann búi yfir þessum mjúku stjórnunarhæfileikum er nú reynir á á erfiðum tímum. Ég treysti þessari fallegu sál fyir hinu stóra embætti biskups Íslands og tel að ekki verði ónýtt að hvíla í faðmi hans og þá meina ég auðvitað hinum kirkjulega faðmi.

Með frómum óskum.

Hannes Blandon