Fyrsti fiskur Kötlu og veiðiugginn vondi

Henni þótti veiðiugginn vondur! Katla, dóttir mín, er þarna fyrir framan Hnausa í Meðallandi. Hún var fimm ára. Ég fór með henni út að hyl í Eldvatni og hjálpaði henni að kasta. Svo stríkkaði á línunni og sjóbirtingur þeyttist um allan hyl – og sjóbirtingar eru oft sprækir. Þeirri stuttu féllust ekki hendur og hún missti ekki stöngina heldur hélt fast og tókst svo að koma fiskinum á þurrt.  Heim við bæ reyndi Katla að framfylgja síðustu ábendingu pappans – að bíta uggann af! Það gerðu veiðimenn við fyrsta fiskinn. En það þótti henni öllu erfiðara en að ná birtingnum á land. En maður lifandi – einbeitt var hún í öllu. 

Katla greinilega með maðkaboxið hans Vihjálms á Hnausum og stendur þarna stolt með fiskinn sinn fyrir framan gömlu fjósbaðstofuna. Hún er með fyrstu silungastöngina mína sem var keypt hjá Ásbirni Ólafssyni – þar sem nú er Ráðhúsið – og Abu-hjólið keypti pabbi í Veiðimanninum og gaf mér.

Ég dáðist að styrk Kötlu í þessum veiðiskap. Nú er hún farin að kenna sínum börnum veiðar! Ég er hættur – en liðtækur meðhjálpari.

Orð gegn orði (prima facie)

Tessa er slyngur lögmaður, fer á kostum í dómssal og er orðinn stjörnulögfræðingur þó ung sé. Hún kann leikrit dómstólanna, þekkir hvað gengur og greinir veilurnar á færi. Hún ver líka brotamenn í kynferðisbrotamálum og hefur engar lamandi sálarskrúblur þó þeir sleppi við refsingu. En svo verður hún sjálf fyrir broti. Allt breytist í lífi Tessu og hún fær innsýn í líðan þeirra sem brotið er á. Hún neyðist til að endurskoða gildi sín, afstöðu og viðhorf sín sem fagmanns. Meðan hún dró ekki í efa praxis lögfræðinganna gekk vel. En hún áttaði sig á að nálgun hennar og kollega hennar hefði jafnvel ekki réttlæti að leiðarljósi og stefndu ekki að því að sekir yrðu dæmdir og saklausir næðu rétti. Ofbeldið breytti öllu. Tessa fór á botninn og þar er hægt að spyrja stærstu og mikilvægustu spurninganna. 

Þetta er dúndurleikverk í Þjóðleikhúsinu sem laumar ágengum spurningum til okkar um eðli réttar, hlutverk lögfræði, kynferðisbrotamál, sekt og sönnun. Hvernig á að túlka og meta tilfinningar og flókin brotamál? Hverjir stjórna lagakerfum vestrænna samfélaga? Stýrir tuddamenning enn lagapraxis dómskerfisins? Kannski stjörnulögfræðingar séu engar stjörnur heldur fremur gerendur og meðsekir?

Ebba Katrín Finnsdóttir leikur stórkostlega í þessum einleik eftir Suzie Miller. Þóra Karítas Árnadóttir leikstýrir af snilld. Ebba og Þóra toppa báðar. Lýsing og búningar Finns Arnar Arnarssonar hæfðu fullkomlega og fjölhæfur er hann Finnur, kemur mér stöðugt á óvart. Flott þýðing Ragnars Jónssonar. Lokasenan reif í djúpvitund mína. Til hamingju með stórkostlega sýningu og ég hvet alla til að fara, hrífast, reiðast, gleðjast, hryggjast og spyrja spurninga um kerfin og merkingu þess að vera ábyrg manneskja í samfélagi. Það er ekki aðeins í leikhúsinu sem orð er gegn orði – heldur í samfélagi okkar og eigin fjölskyldum. 

Myndin hér að ofan er af Ebbu Katrínu og brotaþolum í baksýn og er af vef Þjóðleikhússins. En myndina að neðan tók ég fyrir upphaf sýningarinnar 19. nóvember 2023 sem var önnur sýningin. 

Ég er hættur að veiða!

Ég verið hamfaraveiðimaður frá því ég veiddi fyrsta silunginn í Svarfaðardalsá 10 ára. Yfir hálfa öld veiddi ég mikið. Nú er veiðum mínum lokið. Ég hef ekki tapað vatnslestrargetu, tilfinningum eða líkamsfærni, útivistargleði og hinni frumlægu hvöt að draga björg í bú. Nei, það er annað og dýpra sem veldur.

Þegar við veiddum marga tugi silunga á dag í haustveiðinni fórum við með í soðið á nágrannabæi. Það var alltaf dásamlegt að færa gömlu hjónunum í Gröf fisk og Laugu og því dásemdarfólki í Uppsölum. Þegar ég var kominn á legg voru prestshjónin á Völlum flutt niður á Dalvík, annars hefðu þau fengið fisk líka. Að draga björg í bú er samfélagsmál – og ætti að vera enn í dag í praxis útgerðarfyrirtækja.

Ég veiddi mikið flest sumur frá 1963. Ég hef veitt þúsundir silunga og fjölda laxa sem ég hef ekki tölu á – m.a. hnúðlax 1971 – sem og helling af sjóbirtingi ekki síst í skaftellskum undraám. Ég hef veitt á Norðurlandi, Hornströndum (aðallega marhnúta), Vesturlandi og Suðurlandi. Sum árin veiddi ég svo mikið að ég seldi fyrir öllum veiðileyfum! Stundum hef ég veitt svo mikið að ég hætti löngu fyrir lokunartíma. Þegar maður er búinn að veiða nóg fyrir sig og sína – ja, þá er nóg komið. Annað er drápsfýsn og hömluleysi. Ég hef ekki veitt undanfarin ár og ekki haft löngun til. Veiðiþráin er farin, löngunin til lífsverndar hefur vikið veiðisókninni til hliðar. Ég vil ekki deyða. Blessunarafstaða og lífsgleði hefur þokað veiðigleðinni til hliðar. En ég skil veiðimenn og dæmi engan sem sækir í vatn og veiði. Ég er til í að fara í veiðitúra með félögum mínum og ástvinum, elda fyrir þau, aðstoða þau, kenna ungviðinu að lesa á og straum, legustaði og tökustaði. Ég vil gjarnan aðstoða þau í köstunum og fræða um náttúruna og dásemdir hennar og víddir. En ég hef veitt minn síðasta fisk – engin dramatík og enginn áföll – bara breyting sem ég álít vera þroska og þarf ekki viðurkenningu neins á slíkri niðurstöðu. Og mér þykir skemmtilegra að sjá fisk skjótast um í hyl en vita af öngli föstum í fiskskjálka. Þetta er endurröðun gilda og gleðiefna.

En ég hafði gaman af þessari svart-hvítu mynd – líklega frá 1975 – sem kom upp í fangið við tiltekt. Efri myndin úr haustveiði í ágúst er frá brúarhylnum í landi Hofs í Svarfaðardal, líklega frá 1970. 

Gunnar Kvaran

Gunnar Kvaran er áttræður. Hann er einn af tónlistarrisum Íslands. Og hann er einn af vitringum Íslands líka. Hlýr og þroskaður mannvinur. Mér þótti alltaf merkilegt að fylgjast með Gunnari þegar hann lék einleik í útförum sem ég þjónaði í. Hann spilaði af innlifun og næmni og settist svo niður og hlustaði grannt á minningarorðin og nam víddir og blæbrigði ræðunnar. Að því komst ég þegar hann vildi ræða einstaka þætti og túlkun í erfidrykkjunni eða í öðru samhengi. Hann hafði hlustað af skapandi athygli. Það eru forréttindi að hafa fengið að njóta tónlistar Gunnars, djúphygli hans og vinsemdar. Lof sé hinum síkvika og vel lifandi áttræða Gunnari Kvaran. Guð blessi hann.

Um Gunnar á Wikipedia. Hreinn S. Hákonarson fjallar vel um Lífstjáningu, bók Gunnars í grein á kirkjan.is. 

Myndina tók ég á tónleikum Gunnars og Hauks Guðlaugssonar í Hallgrímskirkju 18. nóvember 2018.

Kyndilmessa – veðrið í ár og heimsljós

Ef í heiði sólin sést
á sjálfa kyndilmessu.
Snjóa vænta máttu mest,
maður upp frá þessu.

Sól á kyndilmessu merkti skv. íslenskri þjóðtrú að vetrarlegt yrði áfram en sólarleysið væri fremur spá um þokkalegt veður næstu vikurnar. Mamma hafði oft yfir þessa vísu á kyndilmessu. Hún var frjáls í túlkun og varaði við að skilja vísuna of bókstaflega. Hún bætti raunar við að reynsla kynslóðanna hefði verið formgerð í vísunni og hægt væri að hafa gaman af að skoða hvort stæðist.

Á þýsku er kyndilmessa Lichtmeß og til er meðal þýskumælandi hliðstæð veðurvísun: „Sonnt sich der Dachs in der Lichtmeßwoche, so geht er auf vier Wochen wieder zu Loche.“ Í Englandi er til svipuð veðurvísun og á Íslandi og kemur fram í: If Candlemas is fair and clear / there’ll be twa winters in the year.“ Merkingin er sú að ef dagurinn er sólbjartur verði vetrarnapurt lengur en venjulega það árið. Á dönsku er hins vegar umsnúið: „Sne og uvejr på denne dag lover tidligt forår“ Illviðri á kyndilmessu sé ávísun á að vorið komi snemma.

Á kyndilmessu eru 40 dagar eru frá fæðingu Jesú Krists. Nafn messudagsins vísar til ljóss. Meðal kaþólskra hefur dagurinn líka verið hreinsunardagur Maríu, móður Jesú og í samræmi við 3Mós 12.2-4 að kona væri talin flekkuð í fjörutíu daga eftir að hún hafi fætt. Á kyndilmessu var og er gjarnan íhuguð fyrsta koma Jesúbarnsins í musterið í Jerúsalem. Óháð veðri eða verðurspám er dagurinn notaður í trúarlegum tilgangi til að íhuga heimsljósið, hvað er best í lífinu og hver lýsi okkur lífsleiðirnar.

Kyndilmessa