Ég gæti skrifað hér langan texta um allt það ótalmarga sem prýðir Sigurð Árna en læt nægja að segja að hann sé góður og skynsamur trúmaður sem kann að tala og þegja á réttum stöðum. Svo er þessi öndvegismaður ættaður að norðan, úr öndvegi íslenskra dala.
Tinna Guðjónsdóttir, uppeldis- og menntunarfræðingur og nemi í HÍ
Meðal fólks um þrítugt er mikil umræða um hvort rétt sé að segja sig úr þjóðkirkjunni og hvort rétt sé að láta skíra barnið sitt til kristinnar trúar. Jafnvel verður ungt fólk sem ekki vill skrá sig úr þjóðkirkjunni fyrir þrýstingi frá hópi sem er mjög hlynntur úrsögnum úr þjóðkirkjunni. Því tel ég að í nútímasamfélagi sé sérstaklega mikilvægt að hæfur maður veljist í biskupsembættið.
Eitt af því sem einkennir Sigurð Árna er hve mikils hann virðir skoðanir annarra. Ég hef orðið vitni að því hvernig hann hlustar með athygli og ég trúi að hann geti átt samræður um trúmál á jafningjagrundvelli við hvern þann sem við hann talar. Hann er víðsýnn og fordómalaus og einn þeirra sem stóð að opnun heimasíðunnar www.einhjuskaparlog.is. Sigurður Árni er mikill mannvinur. Ég hef séð að börn finna það líka og treysta honum og bera virðingu fyrir honum. Og hann ber virðingu fyrir þeim. Hann er svo heppinn að eiga börn á öllum aldri og hefur einstakt lag á að ræða af virðingu við börn og fólk á öllum aldri. Ég sá það skýrt þegar ég fylgdist með honum stjórna fjölmennri barnamessu nú í desember.
Ég hef fylgst með honum annast útfarir náinna ættingja minna og það gerði hann einstaklega vel. Það veitir syrgjendum ró að virðing og hlýja einkenni starf prestsins sem annast útförina.
Fyrst og fremst hef ég trú á að Sigurður Árni sé traustsins verður og geti eflt starf þjóðkirkjunnar og snúið starfi þjóðkirkjunnar úr vörn í sókn.