A.m.k. eitt

Þetta var yfirskriftin á tölvupósti sem ég fékk í gær. Svo var meðfylgjandi mynd af kjörseðli í biskupskjöri sem búið var að útfylla og kross var við nafnið Sigurður Árni Þórðarson.

Já, “a.m.k. eitt” en síðan kom runa af skeytum og smáskilaboðum frá kjörmönnum: “Búinn að kjósa” – “búin að póstleggja” “kjörseðill kominn í kassann” “framtíðin að koma.” Það var ánægja í þessum skipalboðum og stemming sem fólk fann til og leyfði sér að njóta og tjá. Hún smitaði og gladdi.

Biskupskjör skiptir máli. Kostirnir eru góðir og valið er úr stórum hópi hæfra biskupsefna. En eitt verður kjörið og atkvæðin sem greidd eru þessa dagana skera úr um framvinduna. Síðustu vikur hafa verið afar ríkulegar og ánægjulegar. Hópurinn, sem hefur farið um landið til að undirbúa kjör, hefur lagt mikið til umræðu um kosti og möguleika kirkjunnar. Megi biskupskjörið verða jafn farsælt og undirbúningur þess hefur verið.

Skeytið með yfirskriftinni „A.m.k. eitt“ var fyrst af mörgum. Og yfirskrift eins tölvupóstsins var sem töluð úr mínu hjarta: “Guð gefi okkur gleðilega framtíðarkirkju.” Ég segi því Amen.

Inga Rós Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Kirkjulistahátíðar

Sigurði Árna kynntist ég fyrst þegar hann tók sæti í stjórn Kirkjulistahátíðar sem fulltrúi biskups árið 2001. Hann kom strax fram með ferskar hugmyndir og var tilbúinn að gefa bæði tíma sinn og mikla vinnu í að þær gætu orðið að veruleika.

Á þeirri hátíð skipulagði hann Málþing um kirkjuarkitektúr ásamt Kristjáni Vali Ingólfssyni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Málþingið var tvískipt- Rýmið í kirkjunni og Íslenskar kirkjur í samtíð og sögu og var boðað til þingsins til að ræða gerð, tilgang og skipan kirkna og hönnun nýrra íslenskra kirkna. Þetta glæsilega málþing bauð upp á 13 fyrirlestra og var Arne Sæther, einn helsti ráðgjafi norsku þjóðkirkjunnar í kirkjuarkitektúr gestur hátíðarinnar. Sigurður Árni flutti sjálfur fyrirlestur undir yfirskriftinni Heilagur, heilagur en hvar?

Kirkjulistahátíð átti því láni að fagna að hafa Sigurð Árna aftur í framkvæmdastjórn hátíðarinnar 2003 og settu hugmyndir Sigurðar Árna sterkan svip á þá hátíð.

Hæst stendur hin metnaðarfulla dagskrá Passíusálma+, sem Sigurður Árni skipulagði og hafðí umsjón með. Þar fékk hann 15 íslensk ljóðskáld til að yrkja í framhaldi eða til hliðar við Passíusálma Hallgríms Péturssonar, en hugleiðingar um gildi sálmanna og lífsmátt þeirra í samtíð okkar var aðalviðfangsefni skáldanna. Eftirfarandi skáld tóku þátt í Passíusálma+ og fluttu eigin ljóð: Matthías Johannessen, Sigurbjörg Þrastardóttir, Hjörtur Pálsson, Baldur Óskarsson, Kristján Valur Ingólfsson, Andri Snær Magnason, Þórarinn Eldjárn, Vilborg Dagbjartsdóttir, Sigurður Pálsson, Þóra Jónsdóttir, Jón Bjarman, Ísak Harðarson, Margrét Lóa Jónsdóttir, Kristján Þórður Hrafnsson og Ingibjörg Haraldsdóttir.

Passíusálma+ féll í svo góðan jarðveg, að dagskráin var endurtekin á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju ári síðar og hefur verið rætt um að gefa ljóðin út síðar.

Annar stór dagskrárliður á Kirkjulistahátíð 2003 naut góðs af hugmyndaauðgi  Sigurðar Árna, þegar hann tók þátt í að skipuleggja málþingið Trúlega Bergman, sem haldið var í samvinnu við Deus ex cinema og Kvikmyndasafn Íslands. Trúlega Bergman dagskráín var þrískipt, þar sem rætt var um trúarstef í kvikmyndum Ingmars Bergmans og kvikmyndir hans sýndar, en fyrirlesarinn Maarit Koskinen, einn frægasti Bergmanfræðingur heims var heiðursgestur málþingsins. Sigurður Árni var þar meðal umræðustjóra málþingsins, sem tókst afar vel.

Þá kom Sigurður Árni einnig með ferskan blæ inn í tónlistarandaktir hátíðarinnar.

Frábærir skipulagshæfileikar og smitandi áhugi Sigurðar Árna réðu miklu um hve vel tókst að koma metnaðarfullum hugmyndum í framkvæmd.  Hjónin Elín Sigrún og Sigurður veittu hátíðinni ómetanlegan  stuðning með óeigingjörnu vinnuframlagi, metnaði fyrir hönd hátíðarinnar, víðsýni, gleði og uppörvun til allra sem tóku þátt. Ánægjulegt samstarf við Sigurð Árna fyrir Kirkjulistahátíð lagði grunn að vináttu sem styrkst hefur með ári hverju.

Það er trú mín að íslenska þjóðkirkjan eigi eftir að ganga inn í vor endurnýjunar undir styrkri handleiðslu Sigurðar Árna í starfi Biskups Íslands.

Inga Harðardóttir

Ég átti því láni að fagna fyrir nokkrum árum að kynnast þeim heiðurshjónum Sigurði Árna og Elínu. Leiðir okkar lágu saman er ég starfaði á leikskóla og tvíburasynir þeirra voru í minni umsjá. Afskaplega lífsglaðir og kátir ungir drengir sem auðsjánalega nutu mjög góðs atlætis frá foreldrum sínum. Það vakti athygli mína hversu mikla virðingu og væntumþykkju þau sýndu drengjunum sínum og því starfsólki sem annaðist um þá og aldrei bar skugga á samstarf okkar. Alltaf mætti okkur starfsfólkinu; jákvæðni, áhugi og virðing.

Þau áttu síðar eftir að sýna mér mikið traust, stuðning og virðingu er ég gekk í gegnum erfiðleikatímabil sem olli mér miklum sársauka og sálarangist. Ætíð voru þau boðin og búin að styðja og hjálpa mér á meðan á þeirri þrautagöngu stóð. Þau áunnu sér virðingu mína og þakklæti fyrir það hversu heiðarleg og réttsýn þau eru og tílbúin að stíga fram og styðja við þá sem beittir eru órétti og/eða mæta andstræmi og hugrekki til að standa við skoðanir sínar.

Ég hef sótt námskeið og messur í Neskirkju og aldrei fundið mig annað en mjög velkomna þó svo ég sé ekki sóknarbarn í þeirri sókn og greinilegt að góður andi er í Neskirkju og starfsfólk annt um kirkjuna og það starf sem þar fer fram og sinnir því af mikilli kostgæfni.

Ég tel að það verði kirkjunni til góðs á fá Sigurð Árna sem biskup. Þar fer maður sem er afar réttsýnn og lætur sér annt um fólk, er mannasættari og leitast við að draga það besta fram í fólki. Hann býr yfir mikilli næmni á fólk og allt hans starf og framkoma einkennist af virðingu og fordómaleysi og hann á afar gott með að nálgast fólk og hlusta á það á jafnréttisgrundvelli, sama hvaða aldurshópur, stétt eða staða á í hlut.

Á þessari stundu eru fjórir álitlegir frambjóðendur til biskups og eflaust eiga einhverjir erfitt með að gera upp á milli hvern skuli velja. En með Sigðurð sem biskup eru góðir og gleiðiríkir dagar framunda. Ég hef þá trú að með honum lægi þær öldur sem hafa verið í kirkjunni. Að virðing, manngæska og samstarf ásamt sátt og gleði verði að leiðarljósi.

Með þessum orðum vill ég þakka Sigðurði Árna fyrir framboðið.