Tími tækifæranna

“Hvað, hefur þú tíma til að vera hér í kvöld? Á ekki að telja á morgun?” Já, við Elín, kona mín, vorum á dásamlegu námskeiði um Lúther og undirbúning ferðar á Lúthersslóðir síðar á árinu. Og rétt áður en talið verður í biskupskjöri er heilsusamlegt að núllstilla og hugsa um eðli siðbótar og þjónustu kirkjunnar í sögu og samtíð. 2017 nálgast og ég er tilbúin til að vinna að því að kirkjan verði kirkja bóta og góðs siðar, hvernig sem á mál verður litið.

“Og hvernig líður þér?” var ég spurður í kvöld. Og mér líður ágætlega. Biskupskjör er ekki grískur harmleikur með eingöngu vondum kostum. Biskupskjör er fremur gleðimál með góðum kostum. Alla vega lít ég svo á, að hvað sem kemur út úr kjörinu hafi ég lært mikið, upplifað margt jákvætt og orðið svo margs vísari að ég komi út í stórkostlegum plús – óháð atkvæðamagni og útkomu kosningar. Ég hef notið fræðslu og blessunar í þessu kosningaferli. Þessar liðnu vikur hafa orðið mér ríkulegur tími, bæði persónulega og líka sem þjóni kirkjunnar og kirkjuþingsmanni. Ég hef fengið dýpri og betri skilning á þörfum kirkjunnar í landinu, afstöðu fólks, þörfum safnaða og hverju þurfi að breyta og hvað þurfi að bæta. Kirkjuþingsmaðurinn í mér hefur skarpari sýn á hvað þurfi að gera og leggja til á kirkjuþingi. Og kirkjan, fólkið, prestarnir og söfnuðurnir eru búin undir breytingar. Nú er tími tækifæranna.

Ég hef hitt stórkostlegt fólk undanfarnar vikur, hlustað á stórmerkilegar sögur, notið gestrisni, hlustað á sterkar óskir um, að kirkjan lifi fallega og vel, orðið vitni að þjónustulund framar skyldu, hlotið fararblessun margra. Ég hef notið stuðnings og velvilja samverkafólks míns á kirkjuþingi og í kirkjuráði, í öllum prófastsdæmum, í nærsamfélagi og meðal vina og samverkafólks í Neskirkju. Ég hef fengið ótrúlega margar hringingar, gagnrýni sem ég er þakklátur fyrir, blóðríkar umsagnir fólks sem eru ekki minningargreinar heldur lífsyrðingar. Allt þetta hefur orðið til að skerpa og efla.

Ég þakka biskupsefnum, sem hafa verið mér samferða um landið, en þó mest fyrir elsku þeirra gagnvart kirkjunni. Svo hefur mér þótt elja stuðningsfólks míns ótrúleg og langvarandi kraftaverk. Fyrir hug þeirra og verk er ég þakklátur. Svo er ég þakklátur Elínu, konu minni fyrir staðfestu, kátínu og jafnlyndi hennar, sem aldrei bregst. Við höfum svo sannarlega notið ferða og fundanna. Það er ómetanlegt að geta notið sterkrar lífsreynslu saman. Svo hafa börnin mín verið mér traust stoð. Þau hafa verið óspör á hvatningu í “biskupakeppninni” eins og sex ára synir mínir hafa kallað undirbúning biskupskosningar.

Kæru kjörmenn: Takk, þið sem studduð mig. Við alla kjörmenn vil ég segja: Takk fyrir að þið kjósið í þágu kirkjunnar og vegna framtíðar hennar. Kirkjan er farvegur möguleikanna og nú er tími tækifæranna. Guð geymi ykkur.

Kristinn Örn Sigurðsson, hugbúnaðarsérfræðingur

Yndislegur maður í alla staði

Sem efasemdarmaður get ég átt góðar samræður við Sigurð Árna. Hann leggur sig fram við að skilja önnur sjónarmið, auðvelt er að rökræða við hann því hann er alls ekki þröngsýnn á önnur trúarbrögð eða þá sem trúa ekki. Ég hef sjaldan hitt jafn yndislegan og góðan mann sem treður ekki skoðunum sínum upp á aðra.

Sigurður Árni berst fyrir vellíðan og réttindum fólks, burt séð frá því hvað það trúir. Ég get ekki hugsað mér betri einstakling til þess að þjóna sem biskup þjóðarinnar.

Ragna Ólafsdóttir – Minningarorð

Ragna skokkaði yfir kartöflugarðinn á milli húsa síðastliðina Þorláksmessu. Hún var á leið í gleðskap í húsi mínu eins og hún gerði síðustu fimm ár, en við vorum nágrannar og garðar okkar liggja saman. Margir komu þennan dag, en enginn var glaðari eða hláturmildari en Ragna þennan dag. Hún skildi eftir í húsi okkar undur, sögur, hlátra og fögnuð. Skömmu síðar bárust henni tíðindi, sem breyttu lífi hennar. Mein hafði búið um sig og dró hana til dauða 10. ágúst.

Ragna var góður viðmælandi. Augnatillitið, hlýjan og brosið – sem sést á myndinni á sálmaskránni – lifði áfram þegar samtali lauk, alltaf var maður ofurlítið glaðari eftir samræður. Hún hafði lag á að leggja fólki og lífi lið og létta byrðum af viðmælendum sínum. Jafnvel einbeittustu brotamenn í Melaskóla báru virðingu fyrir Rögnu því þeir vissu, að málsmeðferð hennar var sanngjörn og alltaf með velferð þeirra að leiðarljósi.

Dýptirnar

Ragna Ólafsdóttir er farin. Henni hefur verið svift burt úr samfélagi okkar – langt fyrir tímann. Minningabrotin þyrlast upp. Hvaða myndir áttu í hug þér um Rögnu? Mannstu hvað hún var kraftmikil? Getur þú séð hana fyrir þér í skólanum eða segja skemmtisögu í veislu? Gekkstu einhvern tíma Keflavíkurgöngu eða sástu til hennar við að stjórna helgileik í Neskirkju á aðventu? Svo eru það fjölskylduminningarnar – Ragna var öflug og stýrði sínum heimareit.

Hvað risti dýpst í Rögnu? Var það krafturinn, réttlætiskenndin, hetjulundin? Þú átt þínar myndir og dragðu þær fram. Hver er minningin, sem þér þykir vænst um? Og nú færðu ofurlítið verkefni: Segðu frá einhverri minningu um Rögnu í erfidrykkjunni á eftir. Að segja sögur er að virða lífið og efla. Að segja sögu af Rögnu er við hæfi og virðingarvottur. Sumar sögur segjum við einum eða nokkrum og sumar sögur má segja mörgum – og hljóðnemi verður í safnaðarsalnum ef einhverjir vilja deila sögu um Rögnu og segja hana í heyranda hljóði.

Ævistiklur og skólaganga

Ragna Ólafsdóttir fæddist 7. maí og hafði gaman af að vera maístjarna og syngja um maísólina, einingarband og fána framtíðar. Ragna eignaðist síðar mann, sem var fæddur eftir lýðveldisstofnun, en sjálf var hún fædd undir kóngi árið 1944. Ögmundur hefði gjarnan viljað víxla fæðingardögum!

Foreldrar Rögnu voru Guðný Pétursdóttir og Ólafur Guðmundsson. Elst barna þeirra var Sigurbjörg, sem lifir systur sína. Sigurbjörg var sett í að gæta Rögnu litlu og vann sitt verk með slíkri kostgæfni, að hún grét fyrir báðar þegar eitthvað kom fyrir Rögnu. Alla tíð voru þær samstiga og fóru m.a. í leikhús saman í áratugi. Stefán fæddist svo árið 1947 og hann lifir systur sína sömuleiðis. Margrét var yngst og fjórða í röðinni tæplega sex árum yngri en Ragna. Þær Gréta og Ragna, ásamt mönnum þeirra, keyptu hús saman á Tómasarhaga og ólu þar upp börn sín. Þar varð skemmtilegt og fjörlegt mannlíf. Nú hafa algerar breytingar orðið. Á stuttum tíma hafa þrjú þeirra fallið frá og um aldur fram. Ögmundur og Margrét létust bæði árið 2006 og nú er Ragna horfin inn í elskufangið góða.

Heima, nám og fólkið hennar Rögnu

Rögnu leið vel við sjó. “Mér hefur alltaf liðið vel nálægt strönd” sagði hún við mig fyrir skömmu. Þegar Ragna var búin að leika sér í Norðfjarðarfjörunni, þjálfa sig í að nema og læra á undur nátturunnar, hlaupa í nágrenni Garðshorns, þar fjölskyldan bjó og syngja reglulega fyrir gamla fólkið á elliheimilinu hóf Ragna nám í barnaskólanum. Hún hafði einfaldan smekk eða stíl í skólamálunum. Henni þótti gaman að læra og var alltaf hæst í sínum bekk. Forkurinn og valkyrjan Sigurbjörg, amma hennar, tók einkunnablaðið á vorin, fór með það á milli húsa og sýndi hverjum sem sjá vildi. Það voru engir, sem skyggðu á dúxinn Rögnu. Þegar í bernsku varð henni augljóst, að stúlkur þyrftu ekki að vera drengjum síðri í afrekum lífsins. Það var gott veganesti fyrir konuna og uppeldisfrömuðinn Rögnu. Og á skólalóðinni kom einnig í ljós, að hún var ekki aðeins skólaljós heldur foringi. Ragna stóð alltaf með þeim, sem voru lamdir og hæddir, tók sér stöðu með þolendum og var þeirra málsvari. Á þessum árum innrætti hún sér hugrekki og þjálfaði sig í hetjudáðum.

Hvað átti skólaljós að leggja fyrir sig? Stærðfræði og skyldar greinar hentuðu Rögnu vel, en á sjötta áratugnum var ennþá spurt fyrst um kyn en síður um hæfni. Ragna hefði getað hugsað sér lyfjafræði eða efnafræði en var ekki hvött til raungreina – slíkt þótti vart henta kvenfólki á hennar uppvaxtarárum. Eftir landspróf á Eiðum fór hún í M.A. Skemmtileg og viðburðarík ár voru framundan. Hún eignaðist vini til lífstíðar og féll í faðm Skagfirðingsins, skáldsins og fræðaþularins Ögmundar Helgasonar. Ragna lauk stúdentsprófi árið 1964, eignaðist dótturina Helgu 1965, gifti sig fyrsta dag ársins 1966, lauk Kennaraskólaprófi 1968 og fór að kenna í Melaskóla sama ár.

Ragna var réttlætissinni og var í framvarðasveit þeirra, sem vildu auka réttindi kvenna. Hún stofnaði ásamt hópi kynsystra félagsskapinn Úurnar í þágu kvenréttinda. Þá beitti hún sér í pólitík, gekk Keflavíkurgöngur og Helga sagði einhverju sinni, að hún væri eiginlega alin upp á sellufundum! Það er dálítið kostulegt samhengi, sem mér sýnist að hafi skilað góðu. Ólafur fæddist þeim Ögmundi svo árið 1976.

Maður Helgu er Reynir Sigurbjörnsson og þau eiga tvær dætur, Rögnu og Þórhildi. Kona Ólafs er Vaka Ýr Sævarsdóttir. Þeirra sonur er Ögmundur Steinar, sem fæddist í febrúar í fyrra og það var yndislegt að sjá bros og tár ömmunnar við skírn Ögmundar litla. Eldri sonur Ólafs er Ingimar. Hann og öll barnabörnin voru Rögnu afar mikilvæg. Ragna var barnsækin og þau Ögmundur afi voru samstillt og vildu hafa barnabörnin sem flest á heimilinu og sem lengst. Ragna hlakkaði til föstudaganna þegar nafna hennar og Þórhildur komu til að vera yfir nótt eða heila helgi eða Ingimars var að vænta.

Eftir nokkur kennsluár og stærðfræðiviðbót Rögnu hér heima fór fjölskyldan til Danmerkur til náms og starfa. Danmerkurtíminn var þeim öllum gjöfull og þau og aðrir danskelskir eiga með sér hinn merka félagsskap, sem kallaður er af nokkrum “galskap” Danasleikjufélagið.

Skólastjórn

Þegar heim var komið að nýju hélt Ragna áfram kennslu við Melaskóla, en breytingar voru yfirvofandi. Hún sótti um yfirkennarastarf þegar það losnaði. Ragna var vitaskuld ekki í “réttum” flokki en hún var ekki látin gjalda fyrir. Melaskóli var frábær skóli undir stjórn Inga Kristinssonar og kennarhópurinn vösk sveit. Þegar Ingi lét af störfum sótti Ragna um skólastjórastöðuna og ekki var auðveldara þá en í fyrra sinnið að sannfæra pólitíska andstæðinga um, að Ragna ætti ekki að líða fyrir pólitík, heldur vera metin að faglegum verðleikum. En Ragna naut stuðnings viturra manna, sem spurðu fremur um getu en síður um kyn og pólitískan lit. Og hún var laginn stjórnandi og stjórnunarstíll hennar lausnamiðaður. Vert er að minna á, að stúlkur og drengir höfðu fyrir sér og sáu að kona var í forystu þessarar stóru menntastofnunar. Ragna varð þúsundum barna lifandi fyrirmynd.

Melaskóla þjónaði Ragna í 39 ár og þar af 13 sem skólastjóri. Ný viðbygging við Melaskóla var byggð í tíð Rögnu og ekki sjálfgefið hvernig það gæti orðið því svo sérstæð er bygging skólans. Ýmsar breytingar urðu á skólahaldi á Rögnutímanum, sem tóku drjúgan tíma og hún taldi ekki yfirvinnustundirnar. Ragna gerði miklar kröfur til sjálfrar sín sem stjórnanda, bar í brjósti mikinn metnað fyrir hönd skólans og vildi hag nemenda og starfsmanna sem bestan.

Við Vesturbæingar höfum átt frábæru skólafólki að fagna. Ég vil fyrir hönd okkar allra þakka skólaþjónustu og farsæld Rögnu í starfi. Það skiptir máli að hafa notið afburðafólks í starfsliði og forystu grunnskólanna síðustu áratugina. Festa hefur ríkt í stjórnun þeirra. Hefðir voru virtar. Dæmi um það eru helgileikir Melaskóla í Neskirkju, sem Ragna vildi alls ekki fella niður heldur þróa. Nú, þegar vegið er að afslöppuðu en gjöfulu samstarfi trúfélaga og skóla skal á það minnt að skólastjórarnir í hverfinu voru ábyrgir fyrir eflingu samstarfs við kirkjuna. Á skólastjóratíð Einars Magnússonar í Hagaskóla og Rögnu í Melaskóla urðu hörmuleg dauðsföll og skólafólkið og Neskirkjufólk þróaði fíngert þjónustunet til að stuðningsvinna yrði sem best á neyðar- og sorgarstundum. Það hefur dugað vel því starfað hefur verið í anda mannvirðingar. Fólk, sem vinnur vel saman á álagstímum, leggur grunn að góðu samstarfi og líka vináttu. Við höfum mörg notið og Einar og Ragna líka.

Og áfram veginn

Þegar Ögmundur lést árið 2006 urðu skil í lífi Rögnu og hún afréð að láta af störfum aðeins 63 ára. Hún sagði skilið við skólastjórn árið 2007. Hún var frjáls tíma síns en skólaljósið lýsti áfram. Hún lauk leiðsögmannanámi við Endurmenntun HÍ og hafði meiri áhuga á náminu en að stjórna hópferðum. Þegar Ragna var búinn að ljúka frágangi á ritunum, sem Ögmundur hafði unnið að, var hún opinn fyrir frekara námi. En það nám verður í hinni bestu akademíu, skóla hins hæsta á himnum.

Ragna hafði alla tíð mikinn áhuga á útivist og var fjallageit. Alla daga sinnti hún sinni heilsurækt, fór í gönguferðir og þau Ögmundur hlupu á fjöll þegar færi gáfust og áttu í vinum sinum fólk sem sótti í unað kindagatna og gönguskarða. Í júlímánuði puðuðu Afturgöngurnar og Ragna hafði gleði af ferðum þeirra og félagsskap. Í desember síðastliðnum gekk Ragna á sitt síðasta fjall og kannski við hæfi að það var Helgafell.

Ragna var réttsýn og réttlát. Hún átti fyrirmynd í stórveldisömmu Sigurbjörgu, sem hampaði Rögnu enda líkar um margt, glæsilegar konur báðar og miklar af sjálfum sér. Mér sýnist raunar, að allar konur í ætt Rögnu vera stórveldi og skörungar! Guðný, móðir hennar, var dugnaðarkona. Ólafur, hinn væni faðir Rögnu, átti stundum daprar stundir og þá varð mamman að gegna mörgum hlutverkum þegar pabbinn var magnlítill. Í kreppum verða kostirnir oft skýrir, annað hvort er að standa eða falla. Ragna var hæfileikarík og lét ekki sitt eftir liggja fengi hún nokkru ráðið.

Ólafur, faðir Rögnu, lagði börnum sínum lífsreglurnar fyrr og síðar og mæðraveldi fjölskyldunnar hafði hjartað á réttum stað, stælti réttsýni og vakti yfir velferð þeirra, sem minna máttu sín. Þetta skilaði sér í félagsstörfum Rögnu æ síðan. Barnabörn hennar vita, að hún vildi leggja sitt til að frelsa heiminn og þau og allir, sem eru í þessari kirkju í dag, mega líka vita að venjulegir menn “frelsa” heiminn – ekki með stórvirkjum einvörðungu – heldur í hinu smáa – með því að standa með fórnarlömbum, með því að efla menntun og menningu, með því að halda að ungu fólki hugsjónum, dyggðum, fyrirmyndum, veita börnum nánd, virða þau og alla menn. Ég sá oft til Rögnu að störfum og ég dáðist að þeirri lagni, sem hún beitti, þeirri réttlætissókn sem hún tamdi sér og hvernig hún tók sér stöðu með þeim sem þörfnuðust stuðnings. Því var hún góður skólamaður, því naut hún virðingar samstarfsfólks, nemenda og í samfélagi. Ragna var því verðug valin til forystustarfa í sínu fagsamhengi. Hún sat í svo mörgum stjórnum, ráðum og nefndum kennara og opinberra starfsmanna að ekki verður tíundað hér.

Og Ragna var símenntunarkona, sótti sér fræðslu til lífsloka og hún hvatti fólk til náms. Og hún hvatti börn sín, barnabörn já alla til sóknar í fróðleik og fræði og gladdist hjartanlega við alla námsáfanga síns fólk. Svo sagði hún okkur, vinum sínum frá, með sömu gleði vegna sigra þeirra rétt eins og amma hennar þegar hún gekk um með einkunnablaðið forðum. Orkubúið Ragna hvatti alla til lífs, gæða og átaka andans.

Heimilislífið

Eftir langan vinnudag þótti Rögnu gott að koma heim og kasta hamnum. Hún var góður kokkur, fagurkeri og bjó sér og sínum afar smekkvíst heimili á Tómasarhaga 12. Ég naut þess að eiga hana sem nágranna og góðir grannar eru happauki í lífinu. Ragna hefur lagt drjúgt til samfélagsins á Grímsstaðaholti. Í fyrra var haldin hátið á róluvelli hverfisins. Þar mætti Ragna og hennar fólk. Í gær var svo hátíð að nýju en engin Ragna og skarð hennar var sárgrætilegt.

Heimili Rögnu var glaðsinna og gestrisið. Ragna var veislukona og kallaði fjölskyldu til reglubundinna samfunda og hátíða. Hún var söngvin og sótti syngjandi samfélag. Og hún vildi hafa líf og fjör á heimilinu og hafði gaman af skemmtilegum sögum. Ættingjar að norðan og austan voru velkomnir og komu gjarnan. Svo komu suðurfluttir og stjórfjölskyldurnar tvær, svo ólíkar sem þær eru, ræktu vel tengslin.

Þó margir séu hér í dag eru þó líka margir sem ekki gátu komið til þessarar athafnar. Ég hef verið beðinn fyrir kveðjur til þessa safnaðar frá Maríu Pétursdóttur og fjölskyldu, Þórði Víglundssyni og Stellu á Hlíðargötunni í Neskaupsstað og ennfremur frá Ingimar ömmudreng, Nínu Ýr, Gísla Rúnari og Margréti.

Að undirbúa dauðann

Hvað verður þegar maður deyr? Hvernig undibýr maður dauða sinn? Ragna átti í vinum sínum stoð og stuðning. Vinir hennar heimsóttu hana, hringdu í hana, fóru með henni í leiðangra og ferðir og allt til enda. Ragna átti í Einari vinskap trúmanns, sem talaði með yfirvegun og viti um lífið og lífsmöguleikana. Og fjölskylda Rögnu færir Einari þakkir fyrir vináttu hans við Rögnu alla tíð og stuðning til hinsta dags. Svo vildi Ragna tala við prestinn sinn um stóru málin. Við áttum djúp og gruflandi samtöl, ræddum um trú, rök, vissu og leit, efni og anda, vonir en líka vonbrigði. “Ég verð að hugsa þetta,” sagð hún stundum þegar hún uppgötvaði nýja þanka í fræðum eilífðar. Hún sagði mér frá hvers hún hefði notið og hvað hún hefði þegið í arf – að hefðir og mannsýn kristninnar hefðu orðið henni til styrks en sumt í trúfræðinni ekki að sama skapi.

Svo leitaði hugur hennar til bernskunnar. Þegar ég spurði hana um himininn þá lýsti Ragna honum sem Hellisfirði. Þaðan fékk hún viðmið og við lærum og skiljum jú alltaf hið óþekkta í ljósi hins þekkta. Úr Hellisfirði var Ólafur pabbi hennar og þangað vildi hann fara á sunnudögum þegar fært var. Og Guðný lét oftast undan. Allir fóru í trilluna og svo var stímað fyrir Hellisfjarðarnesið. Í firðinum var ekki lengur hvalastasjón þegar Ragna var barn, en þar voru heimsins bestu aðalbláber, þar var hægt að draga fyrir og fá fisk í soðið. Svo var reynihríslunnar vitjað til að sjá hvernig henni hefði reitt af yfir veturinn. Náttúrunnandinn Ragna vitjaði síðan þessa helgireits reglulega, með sínu fólki og ástvinum. “Þetta er kannski mín helgimynd” sagði hún.

Höggin hafa verið þung síðustu árin í fjölskyldunni. Eiginmaður, systir, mamma og svo Ragna. Alla ævi erum við mannfólkið að æfa okkur í hinu sjálfsagða, þjálfa okkur í að lifa og þegar vel er lifað er dauðinn vel undirbúinn. Ragna vissi að hverju dró þegar hún fékk sjúkdómsfréttir í janúar. Þegar hún hafði náð áttum var Ragna stefnuföst. Hún ætlaði að lifa lífinu en ekki dauðanum. Allt til enda einbeitti hún sér að því að njóta lífs, hitta fólk, njóta daga og augnablika, hlægja að góðum sögum og líka hugsa nýja þanka. Þegar litið er til baka er ljóst að í glímunni við dauðann kom fram hjá Rögnu sama lífseinbeittnin og einkenndi hana í skóla, í fjölskyldulífi, í störfum og í samskiptum við fólk.

Ragna eldar ekki lengur, segir enga sögu eða spottar ranga samlagningu, verður engum skjól eða vörn. “Ég hef lifað vel. Ég hef verið lánssöm” sagði hún við leiðarlok. Og við höfum notið hennar og átt hana að. Nú hefur hún siglt fyrir nesið inn í Hellisfjörð himins. Við megum vera opin gagnvart þeirri siglingu og fæðingu inn í nýja veröld. Þar er hið helga fell sem laðar. Ljóðin og söngvarnir túlka lífið en mega vera okkur ofurlítil tjáning um stemmingu eilífðar um dans, gaman og söng í sumarsins paradís. Megi Ragna lifa eilíflega í þeirri stemmingu, söng og lífi. Og megi réttlæti Guðs og friður umlykja hana. Guð geymi hana, Guð geymi ástvini hennar, Guð geymi þig.

Útför Rögnu Ólafsdóttur var gerð frá Neskirkju 19. ágúst 2011. Bálför. Jarðsett í Sóllandi, dufreit í Fossvogskirkjugarði.

Meðfylgjandi mynd tók ég af Rögnu og Ögmundi í ferðafélagsferð á leggjabrjótsleiðinni frá Svartagili og yfir í Botnsdal. Við nágrannarnir vissum ekki af hverju öðru og hittumst í rútunni á leið austur. 

Ögmundur Helgason – minningarorð

Hann dreymdi, “að hann væri staddur í grænni hlíð, með fjalldrapa upp á leggi. Sólskinið var sterkt, hlýjan umlauk hann. Lækur rann syngjandi í fossaföllum niður græna hlíð. Honum leið vel í kyrrðinni.” Ræða mín við útför Ögmundar Helgasonar í mars 2006 fer hér á eftir.

Ögmundur í essinu sínu

Ragna og Ögmundur fóru um Lónsöræfi fyrir tæpum sjö árum. Landslagið er stórbrotið, ökuleiðin inneftir svakaleg, árnar miklar og landið meitlað af átökum náttúrukrafta. Þetta höfðaði til Ögmundar, en áleitnast var þó hvernig mönnum hefði farnast og búnast við erfiðar aðstæður. Ekkert var honum meira tilhlökkunarefni en að koma í Víðidal á Lónsöræfum. Gangan að dalnum var löng og lýjandi, en þegar að honum var komið var eins og Ögmundur vissi ekki lengur af þreytu. Hann óð yfir ána, gleymdi samferðamönnum, stund og stað. Asinn var svo mikill að hann hljóp skólaus í dalinn, fann strax bæjarrústirnar og hafði lokið fyrstu yfirlitsrannsókn þegar göngufélagarnir komu þreyttir. Ögmundur stóð eins og sjáandi á rústunum, berfættur, í rauðu buxunum sínum og með skóna í hendinni, lýsti nákvæmlega hvernig bærinn var skipulagður, að göngin voru bogin svipað og í Sænautaseli – til að standa gegn veðri og vindum. Svo sagði hann sögu fólksins, sem hafði búið þarna og skýrði örlög byggðarinnar.

Þarna var Ögmundur í essinu sínu, í Víðidal, með sögu þjóðar og einstaklinga í blóði og huga. Ekkert gat hindrað hann að opna fangið mót því ríkidæmi, ekkert megnaði að flekka gleði hans við að lesa staðhætti, stöðu bæjarhúsa gagnvart læk og engi, ráða rúnir mannvistarleyfa. Svo túlkaði hann og var allur sögukvika, vinsaði úr og lagði elskuna við, meitlaði frásögnina og úr varð gjörningur um lífið, undur veraldar.

Vídidalur eystra, víðidalur nyrðra, víðidalur sögunnar, víðidalur eilífðar.

Þúsund ár og viturt hjarta

“Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” (Úr 90. Davíðssálmi)

Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Bæir og byggð falla. Börn fæðast þrá og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er hið sama, hvort sem er í Staðarfjöllum nyrðra eða í handritum á söfnum okkar. “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað. Lofstýr manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem nú lifnar – “hverfið aftur…”

Hvað gerum við gaganvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina: “Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?”

Ævi

Ögmundur Helgason var lýðveldisbarn og vormaður Íslands. Hann fæddist á Sauðárkróki 28. júlí árið 1944, rétt eftir að lýðveldið var stofnað. Foreldrar hans voru Sigríður Ögmundsdóttir og Helgi Einarsson. Faðirinn var frá Akranesi og móðrin af Króknum. Til að uppeldi heppnist vel þarf stór hópur, helst heilt þorp, að koma að verki. Ögmundur naut stórfjölskyldu. Fjölskyldan deildi húsi með Ögmundi afa og líka móðurbróður. Þeir sinntu söðla- og skósmíðinni þar einnig. Svo voru kindur í kofa, verk kynslóðanna lærðust og lykt festist í nefi. Mannlífið var ríkulegt og vinnan inn á gafli.

Systkini Ögmundar eru: Halldóra, Kristín, Einar og Magnús Halldór og lifa öll bróður sinn. Ættingjar og vinir komu í heimsókn, gistu þegar aðstæður og sæluvikur gáfu tilefni til. Faðir Ögmundar féll frá þegar systkinin voru enn ung. Ögmundur var elstur og gekk inn í mörg af hlutverkum heimilisföður, stóð með móður sinni og varð sínu fólki stoð og ráðgjafi, umhygjusamur alla tíð. Fyrir það er þakkað.

Nám

Það var ekki sjálfgefið, að strákur á Sauðárkróki færi í menntaskóla. En sögurnar, þorpið, ljóðin og byggðasagan kallaði á úrvinnslu. Hinn leitandi, gruflandi og nákvæmi Ögmundur vildi vinna úr, hafa næði til að skoða og greina mál daganna. Ögmundur tók ákvörðun, fór í MA og varð stúdent 1965. Menntaferðin var hafin, hann velti vöngum yfir háskólagrein og var svo lánssamur að geta numið það, sem hugurinn stóð til bæði íslensku – og þar með einnig bókmenntir – og sagnfræði. Varð BA í þeim greinum árið 1972, tók síðan próf í uppeldis- og kennslu-fræði 1981 og cand. mag. próf í sagnfræði 1983. Þjóðfræðiáhuginn óx líka og hann stundaði nám í þeirri grein.

Störf

Ögmundur varð kennari í íslensku við Menntaskólann við Tjörnina og síðan við Sund (1973-82). Nemendur hans minnast afburðakennara, sem ekki hikaði við að leggja þeim þá reglu í hjarta að lesa Njálu einu sinni á hverju ári. Svo las hann líka fyrir þau svo rómantísk ljóð, að draumur leið yfir stúlknaandlit og vandræðaroða sló fram í strákakinnar. En fræðimennskan dró hann og þau Ragna fóru til Hafnar. Um tíma var hann starfsmaður við hina dönsku Árnastofnun (1984-86) og varð heimagangur hjá Jóni Helgasyni.

Eftir að Ögmundur kom heim gekk hann til liðs við Handritadeild Landsbókasafns (frá 1986) og var síðan forstöðumaður deildarinnar frá 1990 þar til um áramótin síðustu er hann var ráðinn til Árnastofnunar. Ögmundur var einna best læs Íslendinga á hendur manna. Hann lagði sig sérstaklega eftir ritun handrita eftir siðabreytingu, var hraðlæs og snöggur að komast fram úr jafnvel hinum ólæsilegustu höndum. Með Ögmundi fór bæði þekking en líka ómetanleg þjálfun og hæfni.

Ögmundur var stundakennari við Háskóla Íslands frá 1987. Samhliða námi og kennslu var hann við margvísleg störf, m.a. handrita- og prófarkalestur fyrir ýmsa útgefendur. Á yngri árum var hann einnig í sumarvinnu m.a. við frumskráningu skjala og handrita í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga á Sauðárkróki (1969-73).

Fjölskyldumaðurinn

Ögmundur var mikill fjölskyldumaður og hamingjumaður í einkalífi. Það var honum mikil gæfa að eignast Rögnu Ólafsdóttur að ævifélaga. Hún varð honum fjallkona í lífinu. Við nágrannar fylgdumst með hversu náin og samstiga þau hjónin voru. Tempó þeirra og upplag var ekki það sama, en þeim hafði lánast að samræma takt og voru snögg að nema breytingarnar í hvoru öðru. Þau kynntust í sellu nyrðra, Ögmundur var strax skotin í Neskaupstaðardömunni og taldi sig hafa fremur sjarmerað hana með andlegu atgervi en líkamsásýnd. Þau settu upp hringana á jólum 1964 og gengu svo í hjónaband á nýársdegi 1966.

Börn Ögmundar og Rögnu eru Helga og Ólafur. Eiginmaður Helgu er Reynir Sigurbjörnsson og dætur þeirra eru Ragna og Þórhildur. Unnusta Ólafs er Hallrún Ásgrímsdóttir. Ólafur eignaðist soninn Ingimar með Nínu Ýr Guðmundsdóttur. Það var skemmtilegt að gefa honum barnabarn, sagði sonur hans. “Hann var himinsæll afi.”

Heimili Rögnu og Ögmundar var öruggt vígi, en líka ævintýraveröld með skemmtun, sögum, söng, ljóðum og umhyggju. Þetta varnarþing varð enn betri veröld þegar barnabörnin komu. Helga naut stuðnings foreldra sinna þegar hún fór í framhaldsnám til Uppsala og þá voru stelpurnar gjarnan á Tómasarhaganum. Ragna og Ögmundur urðu ekki bara afi og amma í viðlögum heldur blómstruðu sem pabbi og mamma að nýju. Afinn var stórkostlegur, las og sagði sögur. Hann hafði gaman að blanda öllu saman í eina samfellda undraveröld, þar sem allt var mögulegt, Bláskjár var sem í nágrenninu, Þórir Þrastarson með karlrembu og rasisma var líka í næsta húsi, Tristan og Isold áttu leið um, fornkappar riðu um hlaðið, barnagælurnar slökuðu síðan og svo komu drynjandi þjóðsögur, sumar þeirra hafa aldrei gengið á þrykk. Afinn var að miðla, því sem hann lærði nyrðra, ytra og í iðrum Þjóðarbókhlöðunnar, umvafði fíngerðar smákonur með lífsundrinu og afaelsku. Missir þeirra er því mikill, þegar sögurokkarnir eru þagnaðir á Tómsarahga 12.

“Ekkert var fallegra en þegar pabbi var góður við mömmu, strauk hana. Þá leið mér vel, þá var allt svo gott,” sagði dóttir hans. Ögmundur stóð ávallt með konu sinni í öllum störfum og verkum og að baki henni í kennslu- og skólastjórastörfum. Ragna hefur misst sinn besta vin, sálufélaga, skemmtikraft, kraftuppsprettu og lit daganna. Guð blessi hana í sorg hennar. Guð geymi börn, tengdabörn barnabörn og ástvinir.

Ritstörf

Hvaða mann Ögmundur hafði að geyma, hvert hugur hans hvarflaði og fræðiáhuginn leitaði kemur glögglega fram í ritum hans og viðfangsefnum. Ögmundur spannaði óvenju vítt svið í skrifum sínum. Hann byrjaði snemma að skrifa fræðigreinar en ljóðagerð stóð honum nærri líka. Ragnar í Smára gaf út ljóðakver hans árið 1970, sem ber hið seiðandi nafn Fardagar. Ögmundur skrifaði fjölda greina og ritgerða um byggðasögu, örnefni og þjóðfræðiefni. Hann skrifaði um barnaaga og skriftarkunnáttu, þjóðsögur, kveðskap alls konar, sögu og varðveislu handrita. Ögmundur þýddi meira að segja skáldsögu. Hann gaf út fjölbreytilegt efni úr sögu Skagfirðinga og var í ritsjórn og ritstjóri Skagfirðingabókar frá 1973-83. Fyrir það vill stjórn Sögufélags Skagfirðinga bera fram kveðju og þökk fyrir framlag Ögmundar til skagfirska fræða.

Eigindir

Það fór ekki á milli mála, að Ögmundur var Skagfirðingur! Hann gat talað svo um sveitina sína, að ef aðeins var hlustað á orðin var ljóst, að hann væri að lýsa mesta og besta stað veraldar. En svo horfði maður í kímin augun og þá vissi maður, að það var ást hans á svæði og sögu, sem hann var að tjá en ekki fella empírískan dóm. Hann var skarpur og snöggur í greiningum, fljótur að fella sundur og saman, iðkaði sem sé greind. En eiginlega var það rómantikerinn sem stýrði, hrifinn maður sem nýtti skynsemina. Hann notaði fræðin í þágu elsku og hugðarefna. Í honum var deigla Skagafjarðarástar, Rögnuástar, fjölskylduástar, söguástar, fræðasóknar og í bland við skrítna karla, dularfullar frásagnir, barnagælur, söng og skemmtilegheit.

Víðidalur

Ungur uppgötvaði Ögmundur að veröldin átti fjallageim og hann sótti upp í fjöllin, Molduxa, Staðaröxl, Sandfell og svo að baki í Hryggjadal. Hann gerði Víðidal að dalnum sínum, fjallasal í hálendinu milli Skagafjarðar og A-Húnavatnssýslu. Þar leitaði hann að rústum, kannaði landið grannt og þekkti öll örnefni, íbúasögu og hvernig landnemarnir leituðu á þegar hlýnaði og hvernig fólk og fé fór eða féll í harðæri. Allt þetta þekkti hann. Víðidalur nyrðra varð að samnefnara í lífi hans og tákni um hugaðarefni og afstöðu.

Mannasaga

Hann fór í dalinn, um fjöllin, upplifði umhverfið en líklega var nátturunautn hans oftast tengd mannasögu. Hann var vissulega vel að sér í fánu og flóru, límdi í minni örnefni, skynjaði veðurlag, vindstefnu og las vel snjóalög. Hann var eins og besti spæjari við lausn á erfiðum gátum mannaferða og byggðar. Hann þjálfaði sig í að horfa eins og landnemi, greina bæjarstæði og hvernig best yrði búið og lifað. Í honum blundaði fornleifafræðingur og hann var löngu á undan sinni samtíð með að iðka mannvistarlestur náttúrunnar. Hann skoðaði gjarnan bæjarstæði þar sem hann fór, hvernig þau stóðu í hlíð, íhugaði mótekju, veiðimöguleika, túngæði, engjaslátt og stararflóa. Pældi í hlunnindum og ítökum, sölvafjöru, grasafjalli – las landið og tengsl fólks við landshætti.

Ögmundur hafði samúð með Bjarti í Sumarhúsum allra alda, þekkti hvað kotungarnir höfðu kveðið dýr viskuljóð, meitlað orðdjásn og ritað mikilvægar bækur. Hann innlifaðist hjartslætti landsins með því að ganga það, andaði að sér aðstæðum og skildi þar með kjörin, ræktaði með sér virðingu og elsku til afreka kynslóðanna. Svo var Ögmundur líka næmur á hið sérstæða í mannheimum, var starsýnt á sérkennilegt fólk og lagði sig eftir að kunna sögur um hið afbrigðilega. En hann var svo umhyggjusamur að hann vildi ekki færa kostulegheitin á blað.

Að búa við orð

Ögmundur ólst upp við skjátur upp í klaufum fyrir ofan byggð og andaði að sér gildum og merkingarvef bændasamfélagsins. Hann var lítið efni í kúabónda og alls ekki í hrossaprangara. En hugðarefnin og lífshættir hans minntu mig samt alltaf á búskap og bónda. Ögmundur bjó fremur við orð en kindur. Hans húsdýr voru handritin og afurðir þeirra voru lífsviska, lærdómur sem líka göfgaði andann. Sögulaus þjóð hefur tapað minni og andlegri heilsu. Ögmundur var fús til að skerpa minni síns fólks og miðla því, sem getur haldið tengslum við visku kynslóðanna. Hann var nákvæmur heimildamaður, lagði sig í framkróka að tryggja að rétt væri með farið og eftir haft. Hann var málvís. Honum var í mun að tungan nyti fjölbreytileika og að sagnorðin lituðu málið, að kommusetning væri vönduð. Hann fjargviðraðist þegar ambögum var útvarpað. Hann var tilbúinn að gera sitt til að vernda íslenska sögu. Þó held ég að hann hafi gengið heldur langt þegar hann var jafnvel tilbúinn að gerast framsóknarmaður nú á síðustu tímum, líklega til að fyrirbyggja að framsóknarmennskan lognaðist útaf!

Fræðaáhuginn styrktist enn með aldrinum, æ fleiri matarholur sá hann. Í miðju dagsverki og með gríðarlegar fyrningar féll hann. Svo margt átti hann eftir, svo margt beið næðis hans. Ögmundur var hafsjór fróðleiks. Kofarnir voru ekki tómir hjá honum. Ef spurt var, lauk hann upp og hann stytti aldrei sögur sínar að óþörfu eða gaf minna á garðann en viðtakandi vildi. Hann var umhyggjusamur fræðari, natinn við alla þá, sem leituðu til hans, hvort sem var á vinnustað eða heima. Hann reyndi að snúa góðu hliðinni að öllum viðmælendum sínum. Ögmundur eignaðist því ekki aðeins kunningja heldur marga vini – og þeim þótti vænt um hann.

Ég hef verið beðinn að bera ykkur kveðju frá Guðmundi Bjarnasyni,  sem er á sjúkrahúsi og getur ekki verið hér í dag, frá Birnu Hjaltadóttur og Gísla Sigurðssyni sem eru erlendis og frá Fríðu Júlíusdóttur.

Viturt hjarta

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Hvað er viska? Jú, það er viska að bera virðingu fyrir lífi, verkum og hugsun genginna kynslóða og miðla áfram. Það er viska að halda til haga menningararfi heimahaga. Það er viska að nýta sér gleðiefnin og skemmta með. Það er viturlegt, að lesa þjóðsögur fyrir ung börn. Menn eru naktir við fæðingu. Ekki aðeins líkaminn er strípaður, heldur líka sálin. Vefur menningar er kufl til að varna kulda og dauða. Það er hægt að ala skrokkinn, en ef sálin fær ekki vörn fer illa og það er dapurlegt líf til dauða að halda skrokknum lífs en með lífvana sál.

Ögmundur hafði kafað í kristnar bókmenntir og unnið með Hallgrím. Margt af því best orðaða í heimi trúar og alþýðumenningar hafði seitlað inn í hann og var honum höfustóll til nota á degi neyðarinnar. Hann var sér meðvitaður um dauðann og tómið. En hann ætlaði sér samt að verða gamall, hann lifði jú afar heilsusamlega. “Ég ætla helst að verða erfitt gamalmenni,” sagði hann með glampa í augum.

Ögmundur var alla ævi að aga sig, ná sátt við kjör og störf, sálardjúp, fræði, ástvini og líka Guð. “Ögmundur var alltaf að batna,” sagði vinur hans. Svo vel gekk, að hann var á góðri leið með að verða helgur maður! Svo var hann sleginn í fyrra, þungu höggi, ótímabæru og skelfilegu. Hann talaði óhikað um stöðuna og skildi háskann. Svo vann hann af miklum dugnaði við verkin sem yrði að ljúka, kyssti konuna sína, börn og barnabörn og grét svolítið niður í bringuna.

Hann var undursamlegur bróðir, sem er okkur harmdauði. Við erum vönkuð ganvart sóun góðs drengs. Á okkur hrín áfram ræða sálmaskáldsins, sem varð Matthíasi innblástur þjóðsöngs Íslendinga. “Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Hver er viskan í þínu lífi? Hver er þinn búskapur, hvaða gildi temur þú þér? Hvað varðveitir þú? Er það allt í samræmi við viskuna? Ögmundur er okkur fyrirmynd og heiðrum minningu hans með því að rækta hið góða, gilda, mikilvæga og viturlega. Og gerum það með kímni í augum, elsku í hjarta og mjúkum höndum.

Víðidalur eilífðar

Síðustu vikurnar dreymdi Ögmund oft sama drauminn. Honum fannst hann vera staddur í grænni hlíð, með fjalldrapa upp á leggi. Sólskinið var sterkt, hlýjan umlauk hann. Lækur rann syngjandi í fossaföllum niður græna hlíð. Honum leið vel í kyrrðinni. “Hvað þýðir þessi draumur?” spurði hann. “Jú, þetta er himnaríkisdraumur” var svarað og hann var sáttur við þá ráðningu. Hann var tilbúinn að fara í sinn himeska dal. Fardagar hans voru runnir upp.

Og Ögmundur fór, ekki á rauðu buxunum með skó í hendi, ekki til að skyggna rústir eða greina göng. Hann er ekki í Víðidal nyrðra eða á ferð um blágeim skagfirskra fjalla. Hann er farinn í Víðidal eilífðar, inn í líf hins vitra hjarta, sem heitir Guð. Góður Guð geymi hann að eilífu, varðveiti sál hans og blessi öll þau sem syrgja.

Útför í Neskirkju 17. mars, 2006.

Katrín H. Árnadóttir, viðskipta- og umhverfisfræðingur

Lengi býr að fyrstu gerð. Þessi málsháttur kom upp í huga mér þegar ég settist niður til að skrifa hugleiðingu um vin minn Sigurð Árna Þórðarson í tilefni þess að hann býður sig fram til biskups.

Sigurði Árna kynntist ég þegar hann og góð vinkona mín Elín Sigrún Jónsdóttir hófu samband og hafa fjölskyldur okkar átt margar og dýrmætar stundir saman í fjölda ára. Það sem einkennir Sigurð Árna er einstök næmni og umhyggja fyrir öðru fólki, næmt fegurðarskyn gagnvart náttúrunni í hvaða mynd sem er og einstakt listfengi sem nýtur sín í ræðu, riti og ekki síst í ljósmyndum hans. Í jólapakkanum frá þeim hjónum í ár var bók sem Sigurður Árni hafði skrifað og gefið út um móður sína, Svanfríði Guðnýju Kristjánsdóttur, sem lést árið 2004, þá 94 ára að aldri. Bókin er minningarrit en er jafnframt menningarsaga ásamt hugleiðingum um móður- og föðurarf og tengsl mannsins við Guð og trúarlíf. Bókin er rituð af miklum kærleik, skilningi, umhyggju og listfengi og ber höfundi sínum gott vitni. Hin fallega lýsing Sigurðar Árna á persónu og eiginleikum móður sinnar í bókinni hef ég fundið búa
í honum sjálfum sem felst m.a. í elsku hans á náttúrunni, umhyggju fyrir öðrum, gegnheilu trúarlífi, staðfestu, sjálfstæði og trausti. Glögglega má sjá við lestur bókarinnar hve gott , heilt og trúrækið uppeldi skilar sér í heilsteyptum einstaklingi og má því segja að eiginleikar Sigurðar Árna eigi sér bæði djúpar og sterkar rætur.

Vináttan við Sigurð Árna og Elínu Sigrúnu hefur ætið verið umvafin elsku, trausti og virðingu. Sigurður Árni leggur sig fram við að hlusta og skilja hvað býr að baki töluðu orði og spyr viðmælendur sína spurninga sem oftar en ekki er skautað yfir í hinu daglega lífi. Heilindi eru hans einkunnarorð og gerir hann kröfur til samferðamanna sinna um það sama.

Í ljósi þeirra tímamóta sem kirkjan stendur á í dag, þar sem efla þarf m.a. traust, gegnsæi og andlega leiðsögn er ég ekki í nokkrum vafa um að séra Sigurður Árni Þórðarson sé rétti maðurinn til að leiða það vandasama starf sem næsti biskup Íslands.