Anna Ósk Sigurðardóttir – minningarorð

Af hverju ríkir þessi jákvæðni? Af hverju talar fólkið hennar Önnu svona vel um hvert annað? Af kynnum af fjölskyldu hennar hefur mér lengi verið ljóst, að einhver lind hlýtur að næra þá mannvirðingu, sem kemur fram í þessu fólki og hvernig þau umgangast hvert annað.

Það er engin knýjandi þörf að búa til helgimynd af fjölskyldunni og lýsa þessu fólki sem flögrandi englum. Þau geta alveg hnippt í hvert annað, skemmt um hið kostulega og kátlega, en þau standa saman og með jákvæðni. Hvað er það sem veldur? Ég uppgötvaði í fyrradag, að ástæða gleðinnar er ekki viðburður, eigindir eða hæfileikar, heldur fremur persóna, ættmóðirin Anna Ósk Sigurðardóttir. Þegar ég hlustaði á fólkið hennar tala um mömmu, ömmu og tengdamóður opinberaðist mér skyndilega fjölskyldu-leyndarmálið. Það er Anna, sem er forsendan, samhengið og ástæða fyrir mörgu af því besta í þessari fjölskyldu. Líf hennar var margbrotið og oft reyndi á. En hún vann úr lífsreynslu sinni með þeim hætti, að hún kom sínu fólki ekki aðeins til manns, heldur lagði þeim lífsgleði í brjóst, félagsfærni, sagnagetu og vilja og færni til að lifa vel.

Ævistiklur

Anna Ósk Sigurðardóttir fæddist 8. ágúst árið 1921 og var því níræð er hún lést. Foreldrar hennar voru Sigurður Friðrik Jóhannesson og Bjarnína Kristrún Sigmundsdóttir. Alsystkin hennar eru Sigurður og Unnur og hálfsystkini Bjarnína Kristrún, Ásta Nína og Bragi Hrafn. Anna tók fyrstu sporin í Viðey og hélt alla tíð tengslum við Viðeyinga og var sátt við upphaf sitt í eyjunni. Þegar hún var á þriðja ári flutti fjölskyldan upp á land. Síðan bjó Anna Ósk alla tíð í vesturhluta Reykjavíkur og á Seltjarnarnesi.

Sigurður, faðir Önnu, hafði atvinnu af akstri og mamman var heima og sá um börn og bú. Anna byrjaði skólagöngu í Austurbæjarskóla. En svo dundi fyrsta stóráfallið yfir. Bjarnína, móðir Önnu, lést árið 1932. Þá var Anna aðeins 11 ára gömul. Móðurmissir á viðkvæmum aldri mótar og hefur orðið ungri stúlku umhugsunarefni og kennt henni margt, sem hún nýtti sér síðar, þegar hún varð ekkja með húsið fullt af börnum.

Þegar móðir Önnu lést varð Anna þó ekki munaðarlaus. Hún átti í vinkonu móður sinnar faðm, sem ekki brást. Soffía Guðný Gísladóttir í Ánanaustum tók Önnu að sér og hún varð henni óskabarn. Og lífið hélt áfram, Anna fór í Kvennaskólann og fór svo að vinna fyrir sér, m.a. við netahnýtingar og hanskasaum. Og hún var á síld í Djúpuvík á Ströndum þegar stríðið byrjaði.

Karl og börnin

Og svo var það Karl Sigurðsson, sem varð maðurinn í lífi Önnu Óskar. Þau dönsuðu sig líklega saman á stúkuballi. Hún heillaðist af þessum myndarlega, fagursyngjandi og leikandi ungherra. Fóstran var ekki alveg viss um, að ástarráðið væri skynsamlegt, en Anna vissi hver hennar óskakarl væri. Hún var enginn veifiskati í lífinu – ekki í ástamálum heldur. Svo gengu þau Karl í hjónaband í mars 1942, í miðju stríðinu. En hjúskapur þeirra var engin styrjöld, heldur þvert á móti gleðilegur og ávaxtaríkur. Barnalán Önnu og Karls var mikið. Og þau áttu börn í tveimur lotum.

  1. Birna Soffía var fyrst og fæddist árið 1942. Börn hennar eru Kolbrún Anna, Hjördís Unnur og Karl Pétur.
  2. Sigurður fæddist árið 1946. Kona hans er Guðrún Erla Gunnarsdóttir. Sigurður á börnin Elínu, Karl og Skúla.
  3. Ingibjörg Margrét fæddist eftir stríð, árið 1948. Hennar maður er Sigurður Örn Kristjánsson. Dóttir þeirra er Anna Ósk.
  4. Anna Mjöll er fjórða í röðinni, fædd 1956. Dóttir hennar er Birna Ósk.
  5. Kristinn Már er sá fimmti og fæddist 1957. Kona hans er Dagný Þórólfsdóttir, börn þeirra eru Hlynur, Valgerður og Unnur Ósk.
  6. Brynjar er svo sá sjötti og fæddist árið 1964. Kona hans er Cristina Gonzalez Serrano.

Já barnalánið var mikið – sex börn, ellefu barnabörn og fimmtán langaömmubörnin á fæti.

Skil

Og hjúskapur þeirra Önnu og Karls gekk vel og lífið blómstraði. Þau voru samhent, hún var heima og hann aflaði vel. Karl hafði atvinnu af pípulögnum eins og faðir hans og var að auki hæfileikaríkur leikari. Leikfélag Reykjavíkur efldist og vinnustundir Karls í Iðnó urðu æ fleiri. Og Anna stóð þétt við bak bónda síns og hafði sjálf gleði af leikhúslífinu og dramanu. „Þetta er minn lúxus“ sagði hún og fór á frumsýningar alla tíð og hvernig sem á stóð í hennar lífi. Svo fór Karl í leikferð austur á land með leikfélaginu í júlí 1965 og varð bráðkvaddur í þeirri ferð, hálffimmtugur.

Anna var þá ekkja, liðlega fertug, með sex börn og þar af það yngsta í vöggu. Ekkert auðvelt, engar ódýrar lausnir, en þá kom styrkur Önnu berlega í ljós. Hún hélt hópnum sínum saman, kenndi þeim að bjarga sér, lagði þeim það til, sem þau þurftu til nauðþurfta, hélt að þeim metnaði og lífskúnstum til að mannast. Anna starfaði hjá Krabbameinsfélaginu og vann líka sem matráðskona á pósthúsinu og á lögreglustöðinni í Reykjavík. Stundum var hún keyrð heim úr vinnu í lögreglubíl og aðvífandi veltu vöngum yfir af hverju löggan væri á ferð. Sigurður Sófus, afi, var á heimilinu og var til stuðnings með ýmsum hætti. Og hópurinn hennar Önnu er okkur öllum vottur um getu hennar og afrek. Kannski ofrausn að segja, að fjölskyldan sé kraftaverk en er hins vegar vel heppnuð.

Hvernig var Anna?

Hvaða minningar áttu um Önnu? Hvað skemmti henni? Mannstu tilsvörin hennar? Hún gat verið kúnstug í orðum og kunni ágætlega að ydda tilsvör, sem lifa. Hún var ekkert að yfirgera með tilfinningaklisjum og ástaryfirlýsingum, en sagði með gerðum sínum hver afstaða hennar var til fólks. Og hún var eins og margt hennar fólk – næg sjálfri sér.

Mannstu eftir matnum hennar Önnu? Hún var góður kokkur og var til í að prufa nýjar uppskriftir. Og meðan fáir gátu getið sér til um hvað lasagna væri var hún búin að elda svo barnabörnin hennar vissu hvernig svoleiðis góðgæti smakkaðist. Og hún galdraði fram veislu með stuttum fyrirvara og var óhrædd að taka að sér að elda fyrir eitt hundrað konur í húsmæðraorlofi vestur í Dölum. Hún var veitul og gjafmild og þótti mikilvægt að hafa fólkið sitt í kringum sig. Hún ákvað veisludaga og fólkið hennar kom til hennar á Þorlák, á gamlárskvöldi, á föstunni og svo voru þesssar fínu Önnufiskibollur í mat á föstudeginum langa. Alla tíð tókst Önnu að reka sitt heimili svo, að börnin fengu ekki tilfinningu fyrir að hart væri ári og þröngt í búi. Þó hefur nú svo verið með svo marga munna og margvíslegar þarfir. Anna var hetja og lauk sínum verkum til enda.

Anna hafði auga fyrir fallegum fötum og var fljót að sauma það, sem þurfti í leiki, skóla, veislur og á böll. Hún var óhrædd og miklaði ekki fyrir sér óvænt mál. Þegar húsið hennar fylltist af fólki og skortur var á borðum var hurð bara tekin niður, húnninn skrúfaður af og spjaldið sett á undirstöður og dúkað yfir. Og sjá, hið fínasta borð var komið. Úrræðageta Önnu kom líka ágætlega í ljós þegar hún var á ferð og drullusokkur losnaði á bílnum hennar. Hún tvínónaði ekki við, heldur saumaði sokkinn bara við púströrið! Slíkan frágang höfðu engir bifvélavirkjar séð hvorki fyrr eða síðar.

Einu sinni hljóp barn frá henni í erlendri borg og týndist. Þá seildist hún í töskuna sína og náði í Smartiespakkann og hristi með látum og kallaði barnsnafnið og skilaboðin voru: Viltu smarties? Og snáðinn skilaði sér auðvitað með hraði. Þetta er að hafa skapandi hugsun.

Anna stjórnaði ekki áföllum og dauðsföllum, en hún tók hins vegar ágætlega á sínum málum og þorði að taka ákvarðanir. Hún hafði sjálf frumkvæði þegar skil urðu í lífinu og ljóst að taka yrði ný skref. Hún seldi og minnkaði við sig þegar sá tími var komin. Og hún var raunsæ á eigin getu og þarfir. Hún ók sínum bíl fram á efri ár og ákvað sjálf að hætta keyra, kannski ekki alveg í samræmi við ökuskírteinið – en alla vega í samræmi við öryggismörkin.

Anna hafði styrka skapgerð og var stefnuföst í flestum málum. Hún þoldi vel að Karl, bóndi hennar, hefði aðrar skoðanir í samfélags- og trúmálum en hún. Hún gat alveg umborið, að allir í kringum hana væru ósammála henni. Lengstum bjó Anna á KR svæðinu, sumt af hennar fólki æfði í KR og flest voru einbeittir stuðningsmenn félagsins. Anna bjó meira segja í KR-blokkinni um tíma og einu sinni komu sigurreifir afkomendur til hennar eftir leik. Hún gat glaðst með þeim, en þegar hún var spurð um hennar afstöðu kom hið óvænta: Nei, hún væri ekki KR-ingur – hún héldi með Val! Og karlarnir hennar urðu dálítið langleitir í framan.

Félagsgeta hennar var mikil og ef slitnaði upp úr hjúskap í fjölskyldunni skildi tengdafólkið þó ekki við Önnu eða missti tengslin. Hún var áfram vinkona þó hjúskapur breyttist. Og Anna hafði auga fyrir fólkinu sínu, fann hvað kom þeim best og hvers þau þörfnuðust. Og afstaðan var svo jákvæð og elskuleg, að hún blés þeim í brjóst, að þau væru elskuð og í miklu uppáhaldi.

Ættmóðirin og móðernið

Það var merkilegt að hlusta á fólkið hennar Önnu tala um konur og karla, stjórnun og jafna stöðu. Boðskapur þeirra er skýr: Í þeirra fjölskyldu eru jafnréttismál ekki vandamál. Konur eru einfaldlega virtar. Og ég hlustaði á túlkun þeirra og álit. Karlarnir áttu ekki í neinum vandræðum með að vinna á stöðum, sem konur stýrðu og konurnar áttu ekki í neinum klípum með að axla ábyrgð og að beita sér. Af hverju? Og þá upplaukst fjölskylduleyndarmálið. Fjölskyldan hafði notið sterkrar konu. Anna Ósk Sigurðardóttir var ættmóðir og öflug kona. Hún hafði sterka návist, skýra stefnu, opinn huga og visku, miðlaði styrk, seiglu og öryggi, kenndi lífsgildi og var börnum sínum og afkomendum stoð og stytta. Þegar barnabörnin komu í heiminn aðstoðaði hún. Hún tók þessi börn til sín eða var þeim dagmamma á heimilum barna sinna. Og vegna þessa tengdust og ólust barnabörnin upp í stórum hóp. Hún kenndi þeim margt t.d. að lesa og mótaði þessa sterku og umtalsjákvæðu fjölskyldu. Því á þetta fólk ekki í vandræðum með jafnrétti kynja, sterkar konur og jákvæða karlmennsku. Þannig náði Anna að verða fólkinu sínu Óskastjarna, sem þau hafa getað miðað við á lífssiglingu sinni. Og þið megið alveg íhuga speki Önnu og leyfa öllu hennar góða að umvefja ykkur og verða ykkur til blessunar og nota í uppeldi barna framtíðar. Anna vann vel úr sínu og er fyrirmynd um svo margt.

Og svo er trúarvíddin skýr í þessum efnum. Af tengslum við fólkið okkar þiggjum við sjálfsmynd og tengslafærni. Félagsmótun Önnu-fjölskyldunnar er ekki aðeins kvenvinsamleg, heldur eru trúarvíddirnar kvenlegar þar með. Þau, sem reynast okkur best í lífinu, verða gjarnan fulltrúar Guðs. Þó Anna hafi kannski ekki verið með Guðsorðið á vörunum alla daga varð hún ásjóna himinsins í lífi ykkar margra. Og það hefur verið boðskapur kristninnar frá öndverðu, að við eigum að vera ljósberar, fulltrúar hins góða í samskiptum við annað fólk. Jesús Kristur gekk erinda Guðs í þessari veröld með róttækum hætti. Anna Ósk Sigurðardóttir gekk erinda himinsins með marvíslegu móti – og enn róttækari hætti, en annars hefði orðið því hún reis undir kröfum og væntingum.

Og nú er hún horfin og fædd í himneska Viðey. Hún er óskabarn. Nú er hún horfin inn í hið stóra móðurfang Guðs. Og þú mátt leyfa henni að lifa í þeim himni. Anna sá á eftir manni sínum, en leyfði honum að eiga sér virka nánd í sögu fjölskyldunnar. Leyfið henni að vera nærri í lífi ykkar með sögum, hlátrum, gleði, festu, jákvæðni og skemmtilegheitum. Guð geymi Önnu Ósk, Guð geymi þig og blessi.

Minningarorð við útför 10. maí 2011

Björg Björgvinsdóttir – Minningarorð

Björg var búin að taka á móti mörgum viðskiptavinum í fyrirtækjum, sem hún átti og rak og taka við fataplöggum fólks til hreinsunar. Margar spjarir var hún búin að þvo og brjóta fallega saman um dagana. Hún dró ekki af sér, gekk í verkin, talaði hlýlega við þau, sem hún afgreiddi. Svo þegar hún var búin með mjúku efnin og fötin þá færði hún sig í stærri og hörðu hlutina – og sá um að bílafloti borgarbúa liti þokkalega út. Og fólkið hennar Bjargar var búið að njóta umhyggju hennar. Þau sjá á bak falslausri og yndislegri konu, sem var hrein og bein, ósérhlífin og vildi vernda og hlýfa fólkinu sínu. Öllum vildi hún gera gott.

Umhyggja Guðs

Umhyggja og elskusemi Bjargar báru í sér vott um umhyggju Guðs. Björg lagði gott til allra, fegraði það sem henni var falið, lagði mikið á sig fyrr og síðar að hreinsa þann hluta heimsins sem var á hennar ábyrgð. Í Biblíunni er margt sagt um Guð og afstöðu til veraldar. Og guðsmyndin er dregin upp með orðfæri manna. Guði er lýst með því að tala um tilfinningalíf, sem menn þekkja úr mannheimum. Guð vill vernda, laga, hreinsa, taka flekki og bletti, þvo og gera tandurhreint að nýju. Afstaða Guðs er ávallt að vernda, hreinsa, lækna og efla menn. Guð elskar og þrífur heiminn til að gera hann fallegan og góðan. Heimur Guðs á að vera hreinn og alþrifinn.

Þessi hreinleikasókn er öllum mönnum í blóð borin og birtist með ýmsum hætti í lífi okkar. Björg var fulltrúi þessarar heimsbleikingar bæði í vinnu og einkalífi. Hún skilaði sínu hreinu og góðu gagnvart fólkinu sínu og þeim, sem hún þjónaði í vinnu sinni. Hún var björg fólki og í lífi.

Ævistiklur og fjölskylda

Björg  Björgvinssdóttir fæddist í Garðhúsum í Njarðvík  10. sept árið 1935. Foreldrar hennar voru, hjónin Jóhanna Sigríður Jónsdóttir og Magnús Björgvin Magnússon. Björg var önnur í röð fimm alsystra. Elst er Katrín, sem fæddist árið 1932 og hún er látin. Á eftir Björgu fæddist Theodora árið 1937. Kristín Ólöf var sú fjórða og fæddist ári síðar og Jónína Valgerður fæddist árið 1943. Sammæðra eru svo Magnús, sem lést ungur og Jóhann – báðir Snjólfssynir. Katrín er látin og nú eru tvær systur farnar yfir móðuna miklu.

Björg ólst upp í foreldrahúsum til 17 ára aldurs. Auk barnaskóla sótti hún einnig kvöldskóla KFUM. Hún fór til Danmerkur og kynntist þar mannsefni sínu. Árið 1954 gekk Björg að eiga Guðmund Einar Guðjónsson, kafara og kortagerðarmann. Þær Katrín systir Bjargar gengu í hjonaband í sömu athöfninni og dagurinn var því stór dagur í lífi fjölskyldunnar. Guðmundur lést í sjóslysi í mars árið 1980 ásamt syni þeirra Bjargar, Magnúsi Rafni. Björg og Guðmundur eignuðust þrjú börn og eiga orðið samtals 16 afkomendur.  

  1. Guðjón Rafn fæddist árið 1955. Hann býr í Bandaríkjunum og á þrjú börn, Björgu Rós, Kristine og Erik. Börn Bjargar Rósar og Abdul manns hennar eru Ísak og Aron.
  2. Magnús Rafn fæddist þeim Bjögu og Guðmundi árið 1959. Hann átti dótturina Hildi Þóru, sem er gift Halldóri Gunnlaugssyni. Börn Hildar eru Magnús Hólm Freysson, Brynjar Þór og Súsanna Guðlaug. Magnús Rafn lést í hinu voveiflega slysi 1980.
  3. Guðrún er þriðja barn Bjargar og Guðmundar og fæddist undir jól árið 1962. Hennar maður er Ólafur Þ. Jónsson og eiga þau tvö börn, Arndísi Helgu og Magnús Einar. Maður Arndísar Helgu er Gunnbjörn Sigfússon og þau eiga börnin Gabríel Arnar og Emilíönnu Guðrúnu.

Vinna og störf

Auk heimilis- og uppeldisstarfanna vann Björg alla tíð mikið utan heimilis. Fyrst við skúringar og þrif hjá Vitamálastofnun. En síðan stofnsetti hún, ásamt manni sínum, efnalaug í Starmýri og hét Hreinn. Þegar reksturinn styrktist bættu þau við annarri efnalaug í Hólagarði í Breiðholti. Svo var í fyllingu tímans eldri efnalauginni lokað. Björg sá um reksturinn, en eftir að Guðmundur fórst söðlaði hún um og seldi fyrirtæki sitt.

Þá hóf hún skrifstofustörf hjá Lögreglustjóraembættinu í Reykjavík í þrjú ár eða til ársins 1985. Þá lágu saman leiðir Bjargar og seinni manns hennar, Jóhanns Þorsteinssonar. Þau vissu af hvoru öðru frá æsku því þau bjuggu um tíma í sama húsi við Bogahlíð. Og þar kynntust þau að nýju og hófu sambúð og gengu síðar í hjónaband.

Þau stofnuðu saman og byggðu Bílaþvottastöðina “Laugina” við Vatnagarða (Holtagarða) árið 1985 og ráku hana til ársins 1995. Eftir að þau seldu þá stöð stofnuðu þau fyrirtæki með bað- og rafmagnsvörur. Fyrirtækið hét Laugin ehf. og voru þau Björg brautryðjendur á sínu sviði hér á landi. Í þrjú ár bjuggu þau Björg og Jóhann í Danmörk, Þýskalandi og Englandi vegna hins fjölþjóðlega fyrirtækjareksturs þeirra, en fluttu síðan heim fyrir aldamótin og héldu áfram rekstri til 2005. Björg var alla tíð verkfús og vinnusöm og gekk í öll störf og féll aldrei verk úr hendi.

Eigindir

Hvernig var hún Björg? Hvaða minningar vakna í huga þér? Hvað skemmti henni, hvað þótti henni gaman? Fólkinu hennar ber saman um, að hún var einstaklega góð. Hún var sáttfús og friðfytjandi. Hún vildi engar útistöður. Hún var tillitssöm, varfærin og skapgóð. Var heil í öllu sem hún gerði, studdi þau sem hún gat. Hún lagði mikið á sig, vann frekar verkin sjálf fremur en leggja byrðar á aðra.

Björg var jafnan kát og glöð. Henni þótti gaman að dansa, ekki síst gömlu dansana. Það var músík í fjölskyldu hennar og hún hafði gaman af söng. Systurnar sungu gjarnan saman. Þegar þær komu saman voru gítarar með í för og svo var byrjað að syngja. Og músíkin heillaði Björgu og hún fann sig alls staðar þar sem tónlist hljómaði, hvort sem það var í fjölskyldufagnaði eða í sveiflu á Bourbonstreet suður í New Orleans.

Hugðarefni Bjargar voru fjölskylda hennar og hún var félagslynd og naut mannfagnaðar. Systurnar voru samrýmdar, hittust og töluðu mikið saman. Björg var góð mamma og amma og fólkið hennar átti í henni trygga stoð, bæði hin eldri og yngri. Björg var vandvirk og vildi hafa allt í góðu lagi, snyrtilegt og hreinlegt. Vildi að fólkið hennar væri vel klætt. Hún var hannyrðakona eins og hennar fólk, saumaði stóla og myndir og prjónaði.

Trú

Enginn fer í gegnum lífið án áfalla og Björg varð fyrir hverju sjokkinu á fætur öðru á árunum 1979- 81. Þá urðu sex dauðsföll í fjölskyldunni sem rifu í hana, nánir ástvinir hennar dóu. Þegar ástvinir hverfa og eru rifnir úr fangi fólks slitnar margt og hyldýpin opnast. Eftir hina miklu dauðahrinu þessara ára breytti Björg um atvinnu og byrjaði nýtt líf. Hún var trúuð og hafði líka getu til að endurmeta trúarefni sín með tímanum. Alla tíð hafði hún sterka lífslöngun. Björg greindist með krabbamein í júní 2006 og fór í erfiða meðferð, sem stöðvaði gang sjúkdómsins þar til í oktober 2010, er meinið tók sig upp aftur og varð ekki við ráðið. Björg átti í sér bæði festu og lífsvilja til að vinna með sjúkdóm og þegar kom að leiðarlokum tjáði hún bæði börnum sínum og prestinum sínum að hún væri ekki hrædd. Hún var opin og þorði að hugsa um, að hún gæti hitt ástvini sína sem hún hafði misst.

Nú horfir þú á bak góðri konu sem var Björg sínu fólki og þeim sem hún þjónaði. Í trú megum við treysta björgun Guðs, að Björg er góðum höndum, í góðum faðmi eilífðar. Þar er ekki aðeins hrein tilvera heldur glaðværð, söngur, tónlist og fögnuður.

Guð geymi Björgu Björgvinsdóttur – Guð geymi þig.

Útför gerð frá Fossvogskirkju miðvikudaginn 15. febrúar, 2012.

Bálför – jarðsett í Fossvogskirkjugarði.

Magnús Vilhjálmsson – minningarorð

Góðir smíðisgripir heilla. Timburskipin voru mörg listasmíð. Fagurt handverk leitar á hugann og laðar fram tilfinningar. Fallegir smíðisgripir vekja aðdáun. Og það er eitthvað stórkostlegt við það sem vel er gert, höfðar til dýpta í okkur, opnar sál og dekrar við vitund.

Fegurðarskyn fólks er vissulega mismunandi en í öllum mönnum býr geta til skynjunar og túlkunar hennar. Og þessi geta er okkur gefin í vöggugjöf. Trúmenn sjá í henni gjöf Guðs. Þegar við lútum að hinu smáa getum við séð stórkostlega dvergasmíð í blómi, daggardropa, regnboga, fjöllum, ám og vötnum og litaspili náttúrunnar. Og í náttúrunni er verið að hanna, laga, móta og búa til dýrðarveröld. Börn allra alda leggjast á bakið á dimmum nóttum til að stara upp í næturhimininn og upplifa, horfa á stjörnur blika, stjörnuhrap teikna línu á hvelfinguna, sjá hvernig stjörnurnar raðast í kerfi. Þar er annar smíðisgripur – handaverk Guðs. Allar menn leita hins fagra og reyna að skilja í hverju lífið er fólgið og hver merking þess er. Smíð veraldar er ábending um hvað tilveran er og að heimssmiður er að baki. Og allar aldir hafa gímt við þessa miklu heimsskák. Sálmaskáld 8. Davíðssálms tjáði sína túlkun, undrun, hrifningu og trú er hann sagði.

Þegar ég horfi á himininn,

verk handa, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,

hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,

og mannsins barn að þú vitjir þess?

Þú gerðir hann litlu minni en Guð,

Drottinn, Guð vor,

hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.

Upphaf

Í dag kveðjum við Magnús Vilhjálmsson sem kunni að meta góða smíðisgripi, vissi hvað þurfti til að gera vel, hvernig vinna yrði til að úr yrði laglegur gripur, sem bæði væri fagur í hinu ytra og þjónaði líka sínu hlutverki vel.

Magnús Vilhjálmsson fæddist í Hafnarfirði 14. janúar árið 1926. Foreldrar hans voru Bergsteinunn Bergsteinsdóttir og Vilhjálmur Guðmundsson. Hann var nefndur, skráður og skírður Bergsteinn Magnús, en notaði aldrei Bergsteinsnafnið.  Systkinahópurinn var stór og Magnús var yngstur 11 systkina. Bræðurnir voru sjö og fjórar systur. Allur þessi stóri hópur kom i heiminn á aðeins 19 árum. Systkini hans eru Hallbera, Jóhann, Sigurbjartur, Sigurjón, Ingimar, Guðbjörg, Ólafur, Helgi, Guðrún og Dórothe. Þau eru nú öll látin nema Helgi, sem lifir bróður sinn. Fjölskyldan tók þátt í lífinu í Hafnarfirði og þau áttu sér kirkjulegt samhengi í Fríkirkjunni í Hafnarfirði.

Benskuheimilið við Álfaskeið var í nágrenni við Hellisgerði. Elstu börnin voru farin að heiman þegar Magnús fæddist, en það var samheldni í hópnum, söngur og gleði. Þau lærðu snemma að vinna og smábúskapur var stundaður á heimilinu. Allur barnahópurinn tók sig saman á sumrin og fór austur í Ölfus til að heyja í skepnurnar. Og Magnús fékk ungur að fara með þeim og meðan hann var að safna kröftum var hann settur í matseldina. Það hefur alltaf verið þarft að kunna að elda hafragraut.

Skóli og vinna

Magnús sótti skóla í Hafnarfirði, gekk vel og var efnispiltur. Um tíma tók hann þátt í starfi Fimleikafélags Hafnarfjarðar og var í sýningarhóp. Magnús var dugmikill til verka og kom sér snemma í vinnu þar sem vinnu var að fá. Þegar stríðið skall á varð nóg að gera og hann fékk vinnu hjá hernámsliðinu, m.a. í Engey. Svo fór hann í Iðnskólann og varð húsasmiður og skipasmiður, sem hann fékkst lengstum við. Hann fékk vinnu hjá Dröfn í Hafnarfirði, en síðar fór hann til Slippfélagsins í Reykjavík og var gjarnan í Daníelsslipp. Svo vann hann um tíma á trésmíðaverkstæði Flugleiða. Atvinnuleysi rak Magnús um tíma til vinnu í Svíþjóð og var í nokkra mánuði við skipasmiðar í Malmö á árinu 1968.

Heimilin

Magnús bjó heima og hjá foreldrum sínum í Hafnarfirði fram á fullorðinsár og varð þeim góð ellistoð. Hin systkinin flugu úr hreiðrinu eitt af öðru. Það var í Breiðfirðingabúð, sem þau Magnús og Guðrún Guðlaugsdóttir sáu hvort annað. Hún fann til hversu myndarlegur Magnús var. Þetta var milli jóla og nýárs árið 1951 og þau löðuðust hvort að öðru. Það skal vanda sem lengi skal standa. Þau flýttu sér ekki heldur kynntust vel áður en þau hófu hjúskap og giftu sig árið 1956. Magnúsi þótti vænt um Hafnarfjörð, en hann var þó til í að færa sig um set þegar þau Guðrún höfðu ruglað reitum. Þau bjuggu fjöslkyldu sinni gott heimili og smiðurinn smíðaði það sem þurfti, hvort sem voru innréttingar, skápar og húsmunir. Og þau Guðrún voru samstillt. Þau eyddu ekki um efni fram heldur voru fyrirhyggjusöm.

Þau bjúggu lengstum í vesturhluta Reykjavíkur, byrjuðu búskap á Nýlendugötu og fóru síðan í Háaleiti og voru þar í ellefu ár. Síðan fluttu þau á Túngötu og Vesturvallagötu og fóru þaðan á Grandaveg 47.

Þau Magnús eignuðust dóttur í september árið 1957. Hún heitir Guðbjörg og er kennari að mennt og starfar við Landakotsskóla. Hennar maður er Árni Larsson, sem er rithöfundur. Guðbjörg segir að foreldrar hennar hafi búið henni áhyggjulausa æsku. Pabbinn hafi smíðað fyrir hana það sem hún þurfti af húsgöngum, dúkkuhúsum og leikföngum, meira segja straujárn úr tré – sem daman var sátt við og þjónaði fullkomlega sínu hlutverki. Magnús hafði ánægju af að hjálpa dóttur sinni við stærðfræðina og tala við hana og blása í hana sagnaranda og frásagnargetu.

Samfélagsmál, hugðarefni og eigindir

Magnús var mjög vakandi fyrir samfélagsmálum. hann hafði áhuga á kjörum og aðbúnaði stéttar sinnar, var stéttvís alþýðusinni og tók þátt í félagsmálum. Hann var virkur og var um tíma í stjórn Málm- og skipasmíðafélagsins. Hann skoðaði samfélagsmál með augum réttlætis og vildi leggja sitt af mörkum til að staða fólks i samfélaginu yrði sem jöfnust og laun og kjör væru réttlát. Magnús var vakandi gagnvart stjórnmála- og menningarþróun, innanlands og utan og hafði ákveðnar skoðanir. Hann fagnaði þegar alþýðu manna tókst að ná fram réttindamálum sínum og dæmi um gleðilega atburði, sem Magnús gladdist yfir, var árangur Samstöðu-hreyfingarinnar í Póllandi. Hann tók aðstæður og þróun í alþjóðapólitíkinni til sín og varð t.d. um þegar Sóvétríkin réðust inn í Ungverjaland árið 1956 – og var ekki einn um.

Magnús var vel lesinn. Hann las skáldverk en ekki síst fræðirit – um sögu, sjórnmál, þróun heimsmála og strauma og stefnur. Það hreif hann sem opnaði refilstigu fjármagns og hvernig kapítalið stýrði og mótaði. Svo hafði hann víðsýni til að opna sálargáttir gagnvart andlegum fræðum einnig og las t.d. um speki Austurlanda.

Og svo átti skákin hug hans. Hann tefldi og stundaði skákrannsóknir, tefldi skákir meistaranna og varð öflugur skákmaður, sem tók þátt í mótum og því merkilega starfi sem skákhreyfingin hefur verið hér á landi. Hann var m.a. Hafnarfjarðarmeistari.

Magnús var jafnan stillingarmaður, flíkaði ekki tilfinningum, var lítið um inntantómt hjal, þagði frekar en taka þátt í orðavaðli. En hann sagði gjarnan sögur og kunni að segja frá. Honum þótti gaman að fléttum sagnamennskunnar og hafði einnig góðan smekk fyrir góðum brag, sem kveðnir voru af næmi og íþrótt. 

Magnús naut góðrar heilsu lengstum og allt til ársins 2006 er hann kenndi sér meins og leitaði lækninga. Þá kom í ljós, að hann var komin með parkinsonveiki sem tók æ meiri toll af honum. Að lokum fór svo að hann fór á Hjúkrunarheimilið á Grund í maí á síðasta ári. Hann naut þar aðhlynningar sem ástvinir vilja þakka fyrir. Magnús náði að halda upp á 86 ára afmælið sitt þann 14. janúar og lést tveimur dögum síðar. Hann verður lagður til hinstu hvílu i Fossvogskirkjugarði.

Manneskjan er opin, ómótuð við upphaf. Við leitum að formi, áferð og stíl í lífinu. Skaphöfn Magnúsar, líf hans og lífshættir urðu til að hann þorði að spyrja um rök og leiðir. Lífsskák hans var ekki samkvæmt bókinni heldur opin. En þannig er heimur lífs og þannig hugsa spekingar trúarinnar líka um Guð – sem hinn mikla lífssmið, sem þorir jafnvel að leyfa efnivið að ráða, veitir frelsi, blæs í brjóst mönnum ást til réttlætis, sanngirni, jöfnuðar og allra hinna mikilvægu gilda og dyggða sem hefð okkar vestrænna manna hefur rætt og byggt á.

Ástvinir þakka Magnúsi fyrir það sem hann var þeim, gaf og veitti. Nú er hann farinn af þessum heimi inn himin eilífðar. Hvernig verður sá heimur í gerðinni? Fær hann að njóta enn meiri fegurðar, enn stórkostlegri smíðaupplifunar en í þessum heimi? Trúin, vonin og kærleikurinn geta hvílt í Guðsfaðminum sem allt bætir og stækkar.

Guð geymi Magnús í eilífð sinni, blessi hann og varðveiti. Og Guð geymi þig og varðveiti á þinni vegferð í tíma og til eilífðar.

Útför Fossvogi 26. janúar, 2012.

Æviágrip

Magnús Vilhjálmsson fæddist í Hafnarfirði 14. janúar 1926.  Hann andaðist á Elli og hjúkrunarheimilinu Grund þann 16. janúar síðastliðinn.  Faðir hans var Vilhjálmur Guðmundsson f. í Hreiðri í Holtum í Rangárvallasýslu 24. 9.1876 d. í Hafnarfirði 24. 2. 1962 .  Móðir Magnúsar var Bergsteinunn Bergsteinsdóttir f. í Keflavík 4. 9.1888, d. 9. 4. 1985. Systkini Magnúsar voru þau Jóhann, f. 1907, d. 1980, Hallbera, 1907, d. 1992, Sigurbjartur, 1908, d. 1990, Sigurjón, 1910, d. 1994, Ingimar Vilbergur, f. 1912, d. 1959, Guðbjörg, f. 1914, d. 1949, Ólafur Tryggvi, f. 1915, d. 1996, Helgi Guðbrandur, f. 1918, Dóróthea, 1924, d. 1984.  Magnús giftist Guðrúnu Guðlaugsdóttur 14. janúar 1956.  Dóttir þeirra er Guðbjörg maður hennar er Árna Larsson. Magnús lærði húsa og skipasmíði í Dröfn í Hafnarfirði.  Hann vann lengst af í Daníelsslipp.

Náttúruhátíð og heimsljósið

Hljóðskrá prédikunar á Jónsmessu

Messa hvaða Jóns er þessi Jónsmessa? Er það Jón Vídalín? Nei og ekki Jón Arason eða Jón Vilhjálmsson. Og ekki heldur Jón Gnarr. Messa Jóns er messa skírarans Jóhannesar Sakaríasonar, þess sem skírði bæði Jesú og fjölda fólks iðrunarskírn. Nafnið Jóhannes er til í mörgum útgáfum t.d. Jón, Hans, John eða Jon. Já, Jónsmessa er messudagur Jóhannesar skírara. Til hans er sjónum beint um allan hinn kristna heim á þessum tíma kirkjuársins. Lesa áfram Náttúruhátíð og heimsljósið

Dóra Ketilsdóttir – minningarorð

Doja var gjafmild. Dóra Ketilsdóttir gaf af sér og gaf öðrum. Og svo er gjöf í nafninu hennar líka. Á grískunni þýðir dora einfaldlega gjöf, svo hún bar nafn með rentu. Gjafmildi og gjafageta einkenndi Doju – hún var Dóra – kona gjafanna í lífinu.

Og hvernig er nú boðskapur kristninnar, boðskapur Jesú, skilaboð Guðs? Litla Biblían í Jóhannesarguðspjalli hljóðar svo: „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“

Elskaði og gaf til að færa líf – elskaði og gaf. Jesús var Dóra heimsins, Doja var gjöf ykkar fjölskyldu, börnum, systkinum og vinum. Í hinu stóra samhengi megum við gjarnan læra að sjá allt sem gjöf, temja okkur þakklæti fyrir þau og það, sem við njótum – og við megum gjarnan miðla áfram þeirri afstöðu að við njótum lífs, okkur er gefið til að fara vel með, ekki aðeins í eigin þágu heldur í samfélagi. Þeirri lífsafstöðu var miðlað til Doju í uppeldi – og það var það sem hún iðkaði í lífi sínu. Í hinu stóra samhengi er það líka arfur og andi hins kristna boðskapar. Lífið er gjöf, þið eruð gjöf, okkar er að fara vel með, deila með öðrum og vera gjafmild.

Ættbogi og fjölskylda

Dóra Ketilsdóttir fæddist á Ísfirði 12. maí árið 1937 og lést 8. júní síðastliðinn. Hún var næstyngst hjónanna Maríu Jónsdóttur (1911-74) og Ketils Guðmundssonar (1894-1983), sem var eiginlegur kaupfélagsstjóri Ísafjarðar. Systkini Doju eru Unnur, Guðmundur, Dóra og yngst var Ása. Dóra eldri lést rúmlega árs gömul og fékk Dóra yngri því nafn hennar þegar hún fæddist – og nafnið kom frá Halldóru ömmu. Ása er sú eina úr systkinahópnum, sem lifir systkini sín.

Dóra ólst upp á Isafirði og drakk í sig fróðleiks- og menntasókn fjölskyldunnar. Hún var alin upp í samfélagssýn samvinnu- og félagshyggjufólks. Hennar fólk hefur löngum stutt Alþýðuflokk til dáða þótt dóttir hennar hafi orðið sjálfstæðari en sumt ættmenna hennar. Í fjölskyldunni var stunduð málverndun, talað gott og kjarnyrt mál, sem hefur síðan skilað málvitund í ungviði samtíðar.

Doja sótti skóla á Ísafirði og komst til manns í faðmi vestfirskra fjalla og menningar. Þegar í bernsku kom í ljós að Doja var heyrnarskert og var það ævimein hennar. Hún galt fyrir í skóla, skerðingin neyddi hana til að sitja á ákveðnum stöðum bæði í bekk og lífi. Svo var hún send suður til lækninga og það var barninu Doju álagsefni að vera slitin úr öruggu fjölskyldufangi þrátt fyrir gott atlæti ættmenna sinna syðra.

Og svo komu unglingsárin. Um tíma var Doja í Englandi. Hún lærði að meta hinn enskumælandi heim og var góð í ensku þaðan í frá. Hún var á þröskuldi fullorðinsáranna þegar átök kalda stríðsins tóku hana svo í fangið. Ástalíf hennar blandaðist inn í heimsmálin eða heimsmálin fleyttu ástinni til hennar. Lárus Gunnarsson fór vestur til að starfa við uppbyggingu radarstöðvarinnar á Straumnesfjalli, sem var gerð á árunum 1954 – 56. Það var ekkert kalt á milli þeirra Doju og Lárusar á þessum árum, heldur var hann geisli í lífi hennar og blossaði á milli, ekki aðeins í Alþýðuhúskjallaranum heldur í samskiptum þeirra. Og Þórir nýtur þess varma. Hann fæddist í nóvembermánuði árið 1956 og í hjónarúmi foreldra Doju í Aðalstræti 10.

En svo fór Lárus suður og síðan til náms vestur í Ameríku og varð flugvirki og síðar flugvélstjóri. Það var líka komið að flutningi fjölskyldunnar. Ketill og María fóru suður og Doja með þeim og drengurinn líka, bjuggu um tíma í Smáíbúðahverfi,  fengu einnig húsaskjól í húsi Haraldar Guðmundssonar á Hávallgötunni, en þá var hann og fjölskylda hans farin til opinberra starfa í Svíþjóð. Tómasarhagi 41 var síðan heimili Ketils og Maríu, en þá var Lárus kominn heim úr námi og litla fjölskyldan flutti í Sörlaskjól.

Þau Doja fóru fyrir altarið í nýrri Neskirkju við Hagatorg og hlutu þar kirkjulega blessun yfir hjúskap sinn. Birna kom svo í heiminn og fjölskyldan átti lengstum heima inn í Háaleitisbraut. Lárus starfaði við flug bæði á Íslandi og einnig erlendis. Doja var heima og sá um börn og bú. Flest gekk fjölskyldunni í haginn og allir undu við sitt og börnin uxu úr grasi og gekk vel. Þórir fór svo að heiman, fylgdi í fótspor föður síns og lærði flugvirkjun og síðan verkfræði, en Birna er fjölmiðlafræðingur.

Börnin og afkomendur

Kona Þóris Lárussonar er Magnea Ragnarsdóttir. Börn þeirra eru Hrefna og Davíð. Maður Hrefnu er Kristinn Fannar Einarsson og eiga þau Emblu Katrínu og Iðunni Signýju. Kona Davíðs er Ellen Bergsveinsdóttir.

Birna Lárusdóttir fæddist í mars 1966. Hennar maður er Hallgrímur Kjartansson. Börn þeirra eru Hekla, Hilmir, Hugi og Heiður.

Afkomendur Doju eru því 10 á fæti og einn að auki í kvið. Og Doja hafði mikla gleði af fólkinu sínu. Það var henni til mestrar gleði og hún var þeim hin gjafmilda móðir og amma. En hún átti í ættmennum sínum stuðning og elskusemi. Þegar hallaði undan fæti í heilsuefnum Doju stóðu margir þétt að baki hennar. Fjölskyldan þakkar Ragnheiði Sveinsdóttur nærfærni og alúð í garð Doju. Og Ása vakti yfir heilsu systur sinnar til hinstu stundar.

Auður Bjarnadóttir, systurdóttir Doju, getur ekki verið við þessa athöfn en hefur beðið fyrir kveðju sína til þessa safnaðar.

Eigindir og vinna

Hugsaðu um Doju. Hvernig var hún, hvað var hún þér? Hvað gaf hún þér og hvernig viltu minnast hennar? Hún reyndi ekki aðeins að hlusta á hvað þú sagðir heldur reyndi svo sannarlega að lesa af vörum þér orð, merkingu og meiningu. Hún vakti yfir velferð fólks. Hún var natin móðir og vildi tryggja að börnin hennar fengju gott veganesti til ævigöngunnar. Þau hafa enda sýnt í lífinu að þau fengu góða heimanfylgju. Lárus skaffaði vel, Doja spilaði úr eins og hún kunni best. Flugið skilaði líka munaðarvöru í heimilislífið. Doja var smekkvís og hannyrðakona, saumaði og kunni vel til verka og fólkið hennar var vel til fara. Hún var að eðlisfari félagslynd og þrátt fyrir heyrnarskerðingu sótti hún í að vera innan um glatt fólk, en á síðari árum veigraði hún sér við að vera í fjölmenni.

Þegar Birna var komin á legg tók Doja ákvörðun upp á sitt eindæmi – hún ætlaði út á vinnumarkaðinn að nýju. Hún hafði eftir komuna suður fengið vinnu í Landsbankanum en tók sér svo vinnuhlé til að sinna uppeldinu. En svo þegar tíminn var komin á vinnu að nýju fann hún góðan vinnustað í Dagvist barna. Þar eignaðist hún góða félaga í samstarfsfólki, sem vann í þágu framtíðar borgar og þjóðar. Doja gegndi trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélag sitt og samstarfsfólk eða þar til hún fór á eftirlaun 65 ára að aldri.

Skil

Svo urðu skil í einkalífi Doju. Hjúskapur þeirra Lárusar endaði. Þau bjuggu saman í rúmlega aldarfjórðung, en svo trosnaði sambandið og leiðir skildu. Lárus flutti ekki aðeins út heldur utan. Skyndilega voru Birna og Doja einar i kotinu og fluttu upp í Breiðholt. Svo fór Birna fór svo til náms í Seattle og Doja flutti á ný og nú í Furugerði. Birna kom svo heim og fór vestur þar sem hún kynntist manni sínum og eignaðist börn sín. Börn hennar og börn Þóris urðu ömmunni gleðigjafar og hún gaf þeim af sér og sínu. Og hún var til í að pakka búslóð sinni niður þegar tvíburar Birnu komu í heiminn og fór vestur í nokkur ár til að styðja dóttur sína í önnum hennar. Og sú gjöf hennar er þakkarverð. Doja náði að tengjast öllum barnabörnum sínum traustum böndum, bæði þeim sem hér eru og einnig hinum fyrir vestan. Afkomendum sínum var hún natin amma, las fyrir þau, sá til að allt væri snyrtilegt í kringum þau og þau nytu þess sem hún gat gefið þeim. Hún úthellti gjöfum yfir þau, laumaði að þeim pening og þótti gaman að gauka að þeim einhverju í munn einnig. Og ekki gleymdi hún fullorðna fólkinu heldur.

Svo fór hún suður aftur í Furgerðið. Þegar heilsa hennar brast fór hún í Árskóga í mars á síðasta ári og síðustu mánuðina var hún á hjúkrunarheimilinu Holtsbúð – sem hefur um tíma verið til húsa á Vífilsstöðum og þar lést Doja. Dóttir hennar og sonur, og elsta barnabarnið voru hjá henni, héldu í hönd hennar þegar hún skildi við.

Sólarkaffi himins

Og nú eru skil. Nú eru skil hjá Doju og nýtt skeið er hafið. Í lífi afkomenda hennar eru stöðugt að verða skil og ný skeið að hefjast. Dóttirdóttir Doju lauk leikskólaveru sinni í fyrradag og hún og hin börnin voru send til að leita að lyklum grunnskólans. Og Heiður fann sinn lykil og á honum var letruð rún sem visar á gæfu og táknar gjöf. Og við megum alveg sjá í því ofurlítið tákn um að lífið lifir, lífið heldur áfram. Kynslóðir koma og kynslóðir fara. Fólkið hennar Doju nýtur gæfu, en sjálf er hún farin inn í blámóðu himinsins.

Hver er merking nafnsins Dóra – það er gjöf. Hver er afstaða Guðs gagnvart  heimi, henni og þér? Það er elska og gjöf. Og þú mátt því sleppa Doju, leyfa henni að fara inn í stórfang himinsins. Þar eru engar þrengingar, þar er enginn yfirgefinn, þar skyggja engin sorgarfjöll á lífið. Þar er samfellt sólarkaffi um alla eilífð. Þar heyrir hún allt skýrt, þar er samfélag elskusemi og gjafmildi.

Lærðu af Doju að gefa. Trúðu að líf hennar er varðveitt í gjafmildi Guðs, sem elskar hana, elskar þig, elskar þitt fólk og elskar veröldina. Guð geymi Doju og Guð geymi þig um alla eilífð.

14. júní 2012.