Gína á stalli?

EvrópufániAf hverju er fáni Evrópu blár? Og af hverju er stjörnuhringur á þeim fána? Á hvað minnir þessi geislabaugur stjarnanna? Hvað minnir fáninn á og af hverju lítur hann svo kunnuglega út? Er einhver saga og minni að baki? Já svo sannarlega, fáninn á sér forsögu og merkilegt myndlistar- og menningarsamhengi.

Evrópufáninn er eiginlega skilgetið afkvæmi Maríumynda aldanna, myndverka af Maríu móður Jesú Krists. Evrópufáninnn er líkist fjölda Maríumynda – en mínus María. Blár litur fánans kemur eiginlega frá lit Maríumöttulsins og þeim blálitaða himni sem hún ríkir yfir, en Maríu hefur verið sleppt, henni hefur verið kippt út úr myndinni.

Fáninn varð til á sama tíma og kaþólska kirkjan ræddi um óflekkaðan getnað Maríu á sjötta áratug tuttugustu aldar. Fáninn og ný kenning um þá merku konu voru afgreidd og ákveðin á sama tíma. Síðan hafa tólf stjörnurnar úr geislabaug Maríu verið sem tákn fyrir heild Evrópu á fánanum. Og Maríutáknin hafa birtst á öllum peningaseðlum Evrópusambandsþjóða. Meira að segja skráningarnúmer á bílum þessara þjóða bera þessi tákn Maríu.

Guðskoman boðuð

Í dag er boðunardagur Maríu, ofurkonu í menningarsögu Vesturlanda. María hefur verið kölluð guðsmóðir, heilög María, himnadrottning, móðir María, stjarna hafsins og móðir kirkjunnar og fleira. Hún hefur verið lofuð og líka tilbeðin. María gegnir einnig merku hlutverki meðal múslima. Margar Maríur hafa borið nafn hennar og María er eitt algengasta aðalnafn íslenskra kvenna. Áhrifasaga Maríu er margþætt og margslungin.

Guðspjallstexti dagsins segir sögu af unglingsstúlku og reynslu hennar, sem er túlkuð svo að engill birtist og upplýsti, að hún hefði verið valin til að verða farvegur fyrir hjálp Guðs í heimi. Hvernig lítur engill út? Var hann með lilju í höndum eins og miðaldamálverkin sýna eða er blómið tákn til að tengja huga við trúartúlkunina? Var María í bláum klæðum – litur Maríu er jú blár? Var himininn blár eins og sumar myndirnar sýna?

Skiptir María máli? Siðbótarmenn tóku hana út af dagskrá vegna þess, að Rómarkirkjan hafði glennt guðfræði Maríu of rausnarlega. Maríu hafði eiginlega verið stolið úr mannlífinu og gerð að gínu uppi á tilbeiðslustalli. Hið kvenlega, mannlega, hafði þar með verið læst í fjötra, sem jafnframt urðu fjötrar kvenna og brengluðu líf fólks. Maríu hefur aldrei liðið vel á stalli. Við höfum heldur engan hag af henni þar, ofurhetju handan mannlífs. María ætti að vera í miðri hringiðu lífsins.

Maríuhlutverkin

Hver er og jafnvel hvað er María? Eitt er hver hún var og annað hvaða hlutverki hún gegndi eða gegnir. Hún var móðir og átti fleiri börn en Jesú Krist. Fjórir bræður Jesú eru t.d nefndir í Mattheusarguðspjalli. Og kannski átti hann systur líka? María var eiginkona trésmiðs, húsmóðir og Gyðingur í Rómaveldi. Hún hefur væntanlega gegnt hlutverkum sínum í samræmi við venjur, siði og væntingar.

Gyðingar áttu ekki í neinum erfiðleikum með barnsgetnað og hvernig undur lífsins verður og hverjir koma við sögu. Það voru og eru ekki tvö heldur alltaf þrír aðilar: Kona og karl – en líka hinn þriðji – Guð. Alltaf þrjú. Samkvæmt hebreskri hugsun er Guð tengdur öllu lífi, líka nánasta fjölskyldulífi. En í tvíhyggjusamhengi í hinum grísk-helleníska heimi voru áherslur aðrar en hinum hebresk-gyðinglega. Hið líkamlega var sett skör lægra en hið andlega. Ástalífið, hneigðir og hið líkamlega var talið lægra sett en hið háleita-andlega. Gat Guð verið á því sviði? Gyðingar sögðu já – já, en Grikkir sögðu nei – varla.

Var María einhvers konar staðgöngumóðir fornaldar? Væntanlega lagði hún sitt egg til, en svo sagði sagan – eða jafnvel krafðist – að barnið yrði til án aðkomu Jósefs, festarmanns hennar. Lúkasarguðspjall tjáir t.d. föðurlausn getnað og meyfæðingu.

Út fyrir endimörk alheimsins

Við hrífumst og getum innlifast helgisögunni um Maríu, en ættum þó að skilja hana í samhengi hennar, sem er tilbeiðsla og lofsöngur safnaðar, trú á vængjum ljóðsins. Við megum líka muna, að menn hafa tilhneigingu til að endurhanna sögu mikilmenna. Það er eins og endurskrifa þurfi eftirá og eðlisbreyta verði aðdragandasögu stórmennis. Þar er ein skýringin á upphafssögu Jesú. Fleiri atriði koma til skoðunar einnig. Í goðsögum fornþjóða eru til sögur um meyfæðingar goða. Tilhneigingin var alltaf í tvíhyggjusamhengi að reyna að hreinsa móður guðsins sem mest og gera úr henni flekklausa veru.

Saga er alltaf áhrifasaga, viðmið og stýringar laumast yfir alla þröskulda tímans, lifa og hafa afleiðingar. Þegar Maríudýrkun óx á fyrstu öldum kristninnar varð hún fyrir áhrifum frá kvenskilgreiningum umhverfisins, t.d. frá Artemisdýrkun, frá Vestalíum Rómar, frá Isisdýrkun. Menningarlegar og þar með trúarbragðastýringar höfðu áhrif á og stjórnuðu eiginlega hvernig María var skilgreind og tilbeðin. María varð ekki lengur Gyðingakonan María heldur var henni lyft upp úr heimi hins venjulega lífs manna og upp í heim tilbeiðslunnar. Móðirin varð að meyju ofar tíma og lífi. Maríudýrkun óx stöðugt þegar leið á fyrsta árþúsundið og kenningaflækjan þróaðist og gildnaði. Löng saga trúarhugsunar endaði síðan með, að kaþólska kirkjan fékk yfir sig ákvörðun um að María hefði líka verið flekklaust getin eins og Jesús. Hin duldu stýrikerfi upphafningar og hreinsunar upphafssögu Jesú náði hámarki – María var ekki lengur mensk heldur utan við söguna. Hún var eiginlega komin út fyrir endimörk alheimsins!

Andleg tiltekt – María meðal manna

Hver er þörf nútímatrúmanna fyrir hugmyndafræði upphafningar og sögubreytingar? Við ættum að ganga hljóðlega um og með kyrru í návist Maríu og ættum alls ekki þrengja lífi hennar og veruleika inn líkamshrædda fordóma. Við höfum enga þörf fyrir tvíhyggjuaðgreiningu milli raunveruleika okkar annars vegar og trúar hins vegar.

Eins og við þurfum að gera hreint á heimilum okkar ættum við reglulega að gera hreint í hugarheimi og hreinsa kenningakerfin. Það varðar m.a. að leyfa Maríu að koma til sjáfrar sín og án allra kvaða margra alda efnishræðslu. María á ekki að vera á stalli ofar mannlífi. Kristnir menn eiga ekki að rugla saman ólíkum þáttum þótt tengdir séu, frelsun og mannhugmyndum, kristsfræði (Jesús frelsar) og uppeldisfræði (María sem fyrirmynd). María er ekki frelsari mannkyns heldur mikilvæg ímynd mannlífs og kirkju.

María er merkileg fyrirmynd og vinkona. Og nú er komið að því að María megi stíga af stalli og taka þátt í hreingerningunni. María er í menningunni, minningunni, söngvum og tónlistinni, myndlist og sögu. María er á fánanum, peningaseðlunum og blámanum. Ofurhetjur utan við endimörk alheimsins eru góðar fyrir ákveðið skeið bernskunnar. María þarf ekki að vera þar og í því hlutverki – heldur fremur sem ein af fyrirmyndum og þannig eru dýrlingar, vinir sem þjóna fyrirmyndarhlutverki. Gínan María er ekki góð en konan María, móðir Jesú Krists, er stórkostleg. María er eins og við og við erum eins og María. Það er vitnisburður versanna sem lesin voru úr Passíuálmunum áðan. “María, drottins móðir kær, 
merkir guðs kristni sanna.” Til hennar lítur Jesús Kristur með augum elskunnar.

Amen

Boðunardagur Maríu, 5. sd. í föstu, 17. mars, 2013

Lexía:  1. Sam 2.1-10

Hanna bað og sagði:
Hjarta mitt fagnar í Drottni.
Horn mitt er upphafið af Drottni.
Ég hlæ að fjandmönnum mínum
því að ég gleðst yfir hjálp þinni.
Enginn er heilagur sem Drottinn,
enginn er til nema þú,
enginn er klettur sem Guð vor.
Hreykið yður ekki í orðum,
sleppið engum stóryrðum af vörum
því að Drottinn er vitur Guð,
hann metur verkin.
Bogi kappanna er brotinn
en örmagna menn gyrðast styrkleika.
Saddir selja sig fyrir brauð
en hungraðir þurfa þess ekki.
Óbyrja elur sjö börn
en barnmörg móðir visnar.
Drottinn deyðir og lífgar,
sendir menn til heljar
og leiðir þá upp þaðan.
Drottinn sviptir menn eigum og auðgar þá,
hann niðurlægir og upphefur.
Hann lyftir hinum auma úr duftinu
og hefur hinn snauða úr skarninu,
leiðir hann til sætis hjá höfðingjum
og skipar honum í öndvegi.
Stoðir jarðar eru eign Drottins,
á þeim reisti hann heiminn.
Hann ver fætur sinna réttlátu
en ranglátir þagna í myrkrinu
því að enginn er máttugur af eigin afli.
Drottinn kremur þá sem rísa gegn honum,
Hinn hæsti sendir þrumur af himni gegn þeim.
Drottinn dæmir alla jörðina.
Hann eflir konung sinn að mætti
og hefur upp horn síns smurða.

Pistill:  Róm 8.38-39

Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Guðspjall:  Lúk 1.46-56

Og María sagði:
Önd mín miklar Drottin
og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar,
héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
Því að mikla hluti hefur Hinn voldugi við mig gert
og heilagt er nafn hans.
Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns.
Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
og upp hafið smælingja,
hungraða hefur hann fyllt gæðum
en látið ríka tómhenta frá sér fara.
Hann hefur minnst miskunnar sinnar
og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
eins og hann hét feðrum vorum,
Abraham og niðjum hans, eilíflega.

 

María, drottins móðir kær,

merkir guðs kristni sanna:

Undir krossinum oftast nær

angur og sorg má kanna.

Til hennar lítur þar herrann hýrt,

huggunarorðið sendir dýrt

og forsjón frómra manna.

HP-PSS 37,6

Ég er – – – – – – –

Í vikunni kom í Neskirkju hópur grunnskólakennara til að fræðast um biblíumat og það var skemmtilegt að tala við þennan káta hóp um vellyktandi krydd og hráefni Biblíutímans. Í guðspjalli þessa sunnudags er fjallað um brauð lífsins. Og undir áhrifum grunnskólakennara var ég ráðinn í að tala um í prédikun í dag um mat í trú og kirkju og jafnvel gefa ykkur góða uppskrift ósýrðs brauðs. Svo fór ég að skoða betur þennan texta um Jesúbrauðið: „Ég er brauð lífsins“ og ræðan fékk alveg nýjan kúrs því inntakið mótar. Og ræðuefnið í dag verður því ekki brauð heldur fremur líf. En fyrst um sjálfskilning og þar með um þig.

Lesa áfram Ég er – – – – – – –

Gríma, sál og systir

IMG_0688Að baki vestrænum heitum fræðigreinarinnar sálfræði er nafn grísku gyðjunnar Psyche. C. S. Lewis skrifaði ekki aðeins ævintýrabækur um Narníu heldur um bókmenntir og trúarefni og m.a. um systurnar Psyche og Órúal. Psyche var sögð traust í lífsraunum og fögur. Hún fangaði hjarta elskuguðsins Erosar. Saga Psyche er fyrirmyndar- eða kennslu-saga um þroskaleit sálar. Órúal var ólík systurinni ástríku. Hún hafði veika sjálfsmynd og fyrirvarð sig fyrir útlit sitt. Hún faldi andlitið á bak við grímu, sótti í völd og sölsaði undir sig konungsríki föður síns. Landsmenn Órúal sáu grímuna og ímynduðu sér að hún væri fögur. En engum kom til hugar að gríman væri vörn hryggðarmyndar.

Veldi Órúal féll, hún var svipt stöðu, klæðum og grímu og að lokum leidd berstrípuð fyrir guðlegan dómstól. Þegar varnir voru fjarlægðar kom keipakrakki í ljós. Hún vældi yfir að veröldin væri ekki eins og hún vildi. Sagan er um grímulausa sjálfshverfingu og þar með frekju. Sagan segir síðan hvernig Órúal gekk í sig, náði þroska og gerði sér grein fyrir að til að ávinna allt varð hún að missa. Til að þroskast varð hún að fleygja hækjum lífsins. Til að vitkast varð hún að viðurkenna sjálfa sig og útlitið líka.

Sagan um fólk bæði í fornöld og nútíma. Líf margra er æðisgengin leit að grímum og ímyndum. Er það kannski versta fíkn mannsins að dýrka eigin ásýnd, eigin ímynd og eigin draum? Þegar svo er komið er ímyndin orðin að sannleika og raunveran orðin að lygi.

Ásjónur eru okkur mönnum mikilvægar. Eðlilegur barnsþroski er jafnvel tengdur andlitum. Fólk í öllum sögum, líka í Biblíunni, er fólk sem leitar myndar sinnar. Kristnir menn hafa af eigin reynslu sagt að besti sálarspegillinn sé Jesús Kristur. Þar sé mynd Guðs í mannsmynd. Því stórkostlegri ímyndum sem við komum okkur upp því lengra erum við frá raunmynd okkar. Því betur sem við leyfum grímum að falla af okkur því betur og nær komum við sjálfum okkur, mynd Guðs.

Verkefni föstutímans er að spegla sálina. Tilgangurinn er að undirbúa innri mann fyrir atburði kyrruviku og páska. „Spegill, spegill herm þú mér.“ Allt sem segir okkur satt um okkur sjálf verður okkur sannleiksspegill, Passíusálmar, píslarsagan, goðsögur, barnaspeki, kvikmyndir eða bókmenntir. Verkefni föstu er: Fella grímu og spegla sál.

Pistill í Fréttablaðinu 4. mars, 2013

Þorbjörg Þórarinsdóttir – minningarorð

Þorbjörg Þórarinsdóttir2Þorbjörg var síðustu árin á leið heim, heim í Svarfaðardal, heim í fang þess fólks sem hafði elskað hana og hún hafði elskað. Þannig för á sér önnur rök en asaerindi daganna – og er eiginlega tákn um að lifa – gerninginn að lifa.

Ævi manns er ekki aðeins það að fara að heiman, menntast og sinna og ljúka hjúskparerindum og vinnuverkefnum lífins – heldur að lifa vel. Að fara heim er ekki aðeins að snúa til baka til bernskustöðva og vera þar við lok lífs – heldur er æviferðin leiðin heim – en svo er það lífslistarmál hvers og eins með hvaða hætti og í krafti hvers heimferðin er farin og hvernig.

Í 90. Davíssálmi segir:

“Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Bæir og byggð falla – eins og tjáð er í næturljóði úr Fjörðum. Börn fæðast og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað. Lofstýr manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem nú lifnar – “hverfið aftur…”

Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina í þessu ljóði guðsmannsins Móse:

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?”

Ævistiklur

Þorbjörg fæddist á Tjörn í Svarfaðardal 6. mars árið 1914 og var elst systkina sinna. Kristján var næstur í röðinni, Hörtur sá þriðji og Petrína yngst.

Tíma má marka með ýmsu móti. Þorbjörg var nærri tíræðu þegar hún féll frá og nú þegar Tjarnarsystkinin eldri eru öll lýkur eiginlega aldarskeiði í lífi afkomenda Þórarins Eldjárn og Sigrúnar Sigurhjartardóttur á Tjörn.

Þorbjörg naut kennslu heima fyrstu árin enda pabbinn barnakennari. Svo fór hún inn á Akureyri og lauk þar gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum. Síðan fór Þorbjörg einnig á hússtjórnarnámskið austur á Hallormstað.

Heima gekk Þorbjörg í öll verk – og móðursystir mín sagði mér – að Þórarinn hafi treyst Þorbjörgu dóttur sinni sem afleysingakennara þegar hann gat ekki sinnt kennnslu. Svo fór Þorbjörg suður og fór að vinna fyrir sér.

Heimurinn var að breytast, ekki bara að lokast heldur líka að opnast, á fjórða áratugnum. Eins og jafnaldrar hennar horfði Þorbjörg löngunaraugum út fyrir landsteina. Kristján, bróðir hennar fór utan til náms og þegar Þorbjörgu bauðst að fara til Danmerkur tók hún skrefið og var um tíma vinnukona á heimili íslensks sendiráðsstarfsmanns í Kaupmannahöfn. Hún varð vitni að innrás í Dannmörk. Og þá voru góð ráð dýr og amasöm. En þá sem oftar var hún á heimleið og komst með Esjunni í síðustu ferð, sem síðar var kennd við Petsamó. Þessi ferð heim var löng og krókótt, en hún sá Þrándheim og kom við í Skotlandi einnig og naut fjörmikils þröngbýlisins á leiðinni. Og alla leið komst hún.

Áratugurinn 1940-50 var fjölbreytilegur tími í lífi Þorbjargar. Hún hafði löngum huga við nál og handverk. Hún vann um tíma á saumastofu sem bar það rismikla nafn Gullfoss. Og þegar Myndlista- og handíðaskólinn var stofnaður stundaði Þorbjörg nám þar. Og svo kenndi hún einnig um tíma í húsmæðraskólanum á Laugarvatni.

Engum sögum fer af samdrætti þeirra Þorbjargar og Sigurgeirs Stefánssonar. En það hefur varla spillt að hann var Eyfirðingur, frá Kambfelli í Djúpadal. Þegar þau kynntust lauk fyrri hálfleik í lífi Þorbjargar og hinn seinni hófst. Árið 1950 markaði þennan seinni hluta. Það ár gengu þau Þorbjörg og Sigurgeir í hjónaband og Þórarinn fæddist þeim einnig. Arnfríður Anna kom svo í heiminn tveimur árum síðar.

Kona Þórarins er Anna Rögnvaldsdóttir. Þeirra sonur er Ragnar.

Maður Önnu er Ellert Magnús Ólafsson. Þeirra synir eru Þorgeir, Ómar og Arnar Magnús. Kona Ómars er Lára Orsinifranca.

Þorbjög og Sigurgeir hófu búskap á Seljavegi en fluttu síðar á Sólvallagötu 50. Þau keyptu húsið og gerðu upp. Meðan börnin voru ung stundaði Þorbjörg saumavinnu heima, tók á móti fólki sem vildi nýjar flíkur eða hafði séð falleg föt í erlendum tískublöðum. Þorbjörg var listamaður á sínu sviði og kunni líka að breyta gömlu í nýtt. Hún var fengin til að kenna í Námsflokkum Reykjavíkur að sauma upp úr gömlum fötum. Það var hagnýt endurvinnsla sem hún kunni vel. Um tíma vann Þorbjörg á samastofunni Model magazin og síðustu árin nýttist hæfni hennar á saumastofunni á þvottahúsi ríkissítalanna.

Saumsporin hennar nýttust því mörgum í tæpri stöðu.

Þegar aldur færðist yfir seldu þau Þorbjörg húsið á Sólvallagötu og fluttu í Hafnarfjörð. Þau keyptu íbúð í sama húsi og Anna og Ellert og höfðu gleði og gagn af sambýlinu og nut samskipta við afkomendur sína. Þar bjuggu þau þar til Sigurgeir féll frá og Þorbjörg þar til hún flutti vegna heilsubrests í Víðines. Ævigöngunni lauk hún svo í Mörkinni þar sem hún lést.

Við þessi tímamót hafa Páll og Árni synir Stefáns og Petrinu beðið fyrir kveðju frá þeim og fjölskyndum þeirra.

Viturt hjarta

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Hvað er viska? Það er viska að bera virðingu fyrir lífi og lifendum. Það er viturlegt að lifa og lifa vel. Það er mikilvægt að nýta sér gleðiefnin til skemmtunar og vera sterkur hlekkur í keðju kynslóða.

Hvernig var Þorbjörg? Hvernig mannstu hana? Já, hún ar hógvær, ljúf, lítillát, traust, skörp, minnug í níutíu ár, trygg, hjálpsöm, bóngóð, skemmtileg.

Gleymdi ég einhverju? Hún var natin við fólkið sitt, ömmstrákana, umburðarlynd, tillitssöm en líka ákveðin, fróðleiksfús, söngvin, listræn.

Eitthvað fleira? Já, raunar margt. Þú mátt gjarnan bæta í sjóðinn og til þess eru erfidrykkjur góðar. Þar má halda ræður og ykkur Tjarnarfólki verður ekki orða vant ef þið viljið kveða ykkur hljóðs! En mér eru skorður settar og ég virði þann vilja Þorbjargar að umsagnir um hana verði ekki sem vorflóð.

Hún var á heimferð – á leið heim – norður. Fjöllin á Tröllaskaga eru dásamleg og laða. Austurlandsfjöllin handan fjarðar blasa við frá Tjörn og allur fjallahringurinn gælir við augu, Vallafjall, Rimar, Skíðadalsfjöllin með jökuglennu og svo Stóllinn, sem er sannkölluð augnhvíla, hvaðan sem hann er litinn.

Og við sem höfum gengið fjöllin ofar Tjörn vitum hve vel staðurinn er í sveit settur. En Tjörn var og er reitur fyrir líf, ræktun, menningarstarf og virðingu fyrir lífinu. Því get ég tjáð fyrir mína hönd og margra þökk Tjarnarfólki fyrr og síðar fyrir lífsrækt þess. Þau Tjarnarsystkin voru til fyrirmyndar. Þökk sé þeim og Þorbjörgu. Nú er öld lokið. Og Þorbjörg á leið heim.

Ágústínus kirkjufaðir minnti á að lífsgangan er sveigur, Guðssveigur. Hvaða leið sem við förum, hvaða fjöll sem við klífum og hvaða blóm sem við lútum að eru lok – og við hverfum í faðm eilífðar.

Þorbjörg saumar engin spor framar eða brosir við gæðum og góðu fólki. Hun sönglar enga sálma lengur nema þá í einhverjum öflugum Tjarnarkór himinsins. Hún rifjar ekki upp fótraka bernskunnar en kannski öslar hún í einhverju himnesku fergini sem skrjáfar í með eilífðarlagi. Og hvar er heima? Við notum minningar, líðan, fjöll og orð til að túlka heimþrá, djúpsetta löngun – og því getur vísuorð fangað vel. „Hann er öndvegi íslenskra dala“ er ekki aðeins hnyttin tilraun til að fanga líðan eða afstöðu heldur líka staðsetningu á korti förumanns um veröld á leið inn í eilífðina. Tjörn, dalur, fjallafaðmur, – það er heima – en líka áfangi, tákn um hið stærra, stóra, mesta. Nú er Þorbjörg farin heim – heim í Tjörn himinsins.

Guð geymi Þorbjörgu um alla eilífð.

Guð blessi þig.

Amen

Minningarorð við útför sem gerð var frá Fossvogskapellu 28. febrúar 2013.

Hvernig hlustar þú?

heyrnGrein mín um hlustun birtist í Fréttablaðinu í morgun. Rétt fyrir hádegið hringdi kona til að þakka mér fyrir. Hún sagði mér að greinin hefði orðið til að hún hefði tekið ákvörðun um að breyta hlustun sinni – gagnvart fólki sem hún væri í samskiptum við. Ég er þakklátur fyrir ef skrifin verða til að styðja fólk í lífsleikni. Greinin fer hér á eftir:

Hvernig hlustar þú?

Á námskeiði sem ég sótti í liðinni viku var hópnum skipt í pör og fengin samtalsverkefni. Við fórum í hlutverkaleik og æfðum viðbrögð, mismikila nánd og misgóða hlustun. Viðmælandi minn átti að halda fram persónulegu markmiði, en mitt hlutverk var að tjá efasemdir og andúð. Svo hófst samtalið og var dapurlegt. Svo skiptum við um hlutverk. Ég reyndi að halda fram málstað sem var mér mikilvægur en uppskar aðeins úrtölur og grettur. Þrátt fyrir leikinn fór ég að efast um gildi þess sem ég hélt fram.

Svo fengum við nýtt verkefni, áttum ekki lengur að vera fúl og neikvæð heldur tjá hrifningu og stuðning. Við áttum hvetja og hrósa. Þvílík breyting. Gleðin spratt fram og augun leiftruðu. Málin urðu ekki aðeins mikilvæg, heldur urðu samtölin skemmtileg. Í þessum hlutverkaleikjum fundum við vel hve afstaða viðmælenda hefur mikil og afgerandi áhrif.

Hugsanir þutu um koll minn. Minningar um hópa sem kunnu jákvæð samskipti spruttu fram, en líka um hópa sem liðu fyrir neikvæð samskipti. Það er hægt að draga úr fólki trú og sjálfstraust með líkamsbeitingu. Þegar fólk fitjar upp á nefið, snýr sér frá þeim sem það talar við eða fettir sig til að tjá yfirburði verður óöruggur viðmælandi hræddur. Svo er hægt að spúa eitraðri neikvæðni, streitu og óþolinmæði yfir fólk og fylgja svo eftir með niðrandi ummælum. En jákvæðni gerir hins vegar kraftaverk. Þau sem virða fólk stíga úr yfirburðastöðu niður á plan jöfnuðar og uppskera gjarnan opið og heiðarlegt samtal. Þau sem tala frá hjartanu tala til hjartans.

Okkur leið fremur illa þegar við vorum að draga kjark úr fólki, rífa niður skoðanir þess og málstað. En það var gefandi og skemmtilegt að hrósa, hvetja og lofa. Þá varð gaman og samtalið varð lipurt. Hvernig væri nú að efna til einfaldra lífsleikniæfinga á heimilum, skólum og vinnustöðum? Allir, yngri og eldri, þurfa að vita í hverju jákvæð samskipti eru fólgin.

Hvernig hlustar þú? Hvernig nánd temur þú þér? Afstaða fólks skiptir máli. Viðmælendur dauðans eru þau sem bara kvarta, draga niður og efla ekki. Það er engin ástæða til skjalls og yfirborðslegs hróss. En þegar tilefni er til má gjarnan segja: „Þetta er glæsilegt hjá þér. Þetta líst mér vel á.“ Þannig tala viðmælendur lífsins. Ertu einn af þeim?