Vatn, guðfræði og stækkun trúar

IMG_2949Ævar Kjartansson guðfræðingur og útvarpsmaður er skemmtilegur viðmælandi. Ég fagnaði því þegar hann kallaði mig til sunnudagsfundar á Rúv-rás 1 til að ræða um vatn í guðfræði, kirkju og trúariðkun. Þátturinn er að baki þessari smellu. Og svo hafði Ævar náð sér í bók mína Limits and Life og greinilega lesið. Í sunnudagsspjalli 3. febrúar 2013 ræddum við líka hvernig samtíð og aðstæður breyta trú og túlkun hennar. Ég aðhyllist stækkun trúar!

Björk Bergmann – minningarorð

Forsíða2„Á grænum grundum lætur hann mig hvílast – leiðir mig að vötnum – segir í 23. Davíðssálmi.“ „Þar sem ég má næðis njóta“ er bætt við. Og það er eins og tilfinningin fyrir Elliðavatni lifni í huganum við þessa vatnsvísun. „Hressir sál mína“ – „þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt.“

Já, það var gott að vera við vatnið bláa. Í djúpum hrauna streymdi vatnið fram og kom svo upp í lindum og myndaði þetta líflega umhverfi og blessað af Guðmundi góða. Skógurinn í heiðinni spratt, allt líf nærðist vel – lífið blómstraði – líka líf Bjarkar.

Upphafið

Hanna Björk Reynisdóttir fæddist 5. júní árið 1953. Hún var dóttir hjónanna Reynis Alfreðs Sveinssonar og Guðrúnar Eyvindsdóttur Bergmann. Pabbinn var úr sveit og mamman af strönd og þau fléttuðu saman í fjörmiklu heimilislífi báðar víddir menningar dreifbýlis og þéttbýlis. Systkinin urðu 9 svo það var jafnan fjör í bænum. Björk var miðjubarn, fjórða í röðinni.

Fyrstu ár Bjarkar bjó fjölskyldan á Sogabletti 7 í Reykjavík – þar sem nú er Sogamýri. Börnin voru sjö saman í herbergi svo Björk náði að upplifa mannlíf eins og lifað hefur verið í þröngbýlum húsakynnum Íslands um aldir. Enginn var svangur á heimilinu því þess var gætt að allir fengju nægilega líkamlega sem og andlega næringu.

Umskipti urðu í lífi Bjarkar og hennar fólks þegar Reynir varð umsjónarmaður Heiðmerkur árið 1964. Elliðavatnsbærinn var sem kastali og rúmt varð um alla og nóg pláss. Þau voru ekki lengur þröngbýlingar í þéttbýli, heldur rúmbýlir dreifbýlingar – þó ekki væri langt í höfuðborgina. Vatnið gladdi, útivistarmöguleikarnir voru ærnir, skógurinn dafnaði, dýr merkur og fuglar himins löðuðu. Himinninn var stór, fjallarhringurinn stórkostlegur og mannlífið á Elliðavatni var fjörmikið, glaðlegt og gefandi.

Börnin á heimilinu sóttu Árbæjarskóla og þangað fór Björk líka. Eftir að hún lauk grunnskólanámi tók vinna síðan við. Hún stundaði verslunarstörf á fyrstu árum og var góður sölumaður. Hún afgreiddi í nokkur ár í Tómstundahúsinu, varð sérfræðingur í leikföngum barna og lærði hvað þeim kom best og hvað þau langaði í. Hún var líka barnelsk  og var  laginn við ungviði og kunni að hlúa að þeim.

Hjúskapur

Svo fór hún á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Það var fyrir gos og þar sá hún mannsefnið sitt, Vigni Sigurðsson. Þau fóru að búa – fyrst á Klapparstíg – en fóru síðan út í Eyjar eftir gosið og á vit bernskuslóða Vignis. Styrmir kom í heiminn árið 1974 í fang bráðungra foreldra. Björk lærði svo á mannlífið í Eyjum og kynntist eyjaskeggjum. Hún hafði gaman af fjörinu í vinnunni í fiskvinnslunni og vann einnig um tíma í bakaríi.

Þegar þau Björk höfðu búið í Eyjum í nokkur ár var komið að skilum heima á Elliðavatni. Foreldrar Bjarkar ætluðu að láta af störfum og um samdist að unga fólkið tæki við. Björk flutti inn á gamla heimilið sitt á Elliðavatni, hún var komin heim. Svo kom dóttirin, Sandra Björk, í heiminn fjórum árum á eftir bróðurnum. Síðan bjó Björk við vatnið, ól upp börnin sín, afgreiddi gesti og gangandi, veiðmenn og vinnuflokka og þjónaði því margbreytilega lífi sem Elliðavatni og Heiðmörk tilheyrði. Elliðavatn var heimili hennar allt þar til þau Björk skildu (árið 2001). Hún bjó því á Elliðavatni meiri hluta æfinnar. Eftir umbreytingatíma keypti Björk sér íbúð á Furgrund í Kópavogi og bjó þar til hún lést.

Eigindir

Björk var listræn og hög. Hún hafði áhuga á hinu fallega og listum. Hún var hannyrðakona, heklaði gjarnan og sumaði út. Hafði auga fyrir fallegum hlutum og hafði gaman af því sem var gamalt. Meira segja eldgamall kókkassi var nokkuð til að varðveita. Hún sá líka möguleika á nýtingu gamalla hluta þar sem aðrir hefðu aðeins séð úrelt dót og jafnvel drasl. Hún var nátúrubarn og notaði efni úr umhverfi sínu til að skreyta með og fegra t.d. gjafir. Hún hafði auga fyrir hinu fagra og lagði upp úr fegurð heimilis síns.

Björk var trygglynd, frændrækin og heiðarleg. Hún lagði mikið á sig til að gleðja fólkið sitt, var gjafmild, sá það góða í öðrum og gerði sitt til að efla fólk.

Björk var dugmikil, ósérhlífin og vinnusöm og sótti gjarnan vinnu utan heimilis. Á síðari árum starfaði Björk við baðvörslu í Kársnesskóla og börnin nutu umhyggju og barnelsku hennar. Björk átti í sér útsýn og hafði gaman af ferðalögum og fór víða um heiminn.

Heimili og fjölskylda

Björk stýrði sínu heimili með reglusemi og myndarbrag. Hún var umhyggjusöm og svo gestrisin að stórfjölskyldan sótti til þeirra. Og Björk bakaði vöflur og veisla varð til. Og málleysingjarnir nutu líka elskuseminnar, ekki bara krummi og fuglarnir heldur rebbi líka. Börn Bjarkar fengu að halda dýr og hún kenndi þeim að elska lífið í hinum margvíslegu myndum. Meira segja skordýrin áttu sér fegurð og gildi sem hún kenndi sínu fólki að meta. Og börn ættmenna hennar og svo barnabörn nutu Bjarkar og umhyggju hennar.

Nærfjöskyldan var Björku uppspretta gleði. Og hún tók svo barnabörnum sínum með fögnuði þegar þau komu í heiminn og lagði mikið á sig til að gleðja þau og gefa. Afkomendur Bjarkar voru henni uppspretta gleði og stolts. Hún var næm á þarfir barna og langanir og var því jafnan fundvís á góðar gjafir sem glöddu.

Sambýliskona Styrmis er Tara Sif Haraldsdóttir. Börn Styrmis eru Tara Líf, Tanja og Erika. Og nú eiga þau Tara Sif og Styrmir von á dreng í mars. Og það er huggun harmi gegn að lífið kviknar og lifir þó dauðinn kveðji dyra.

Börn Söndru og Ölnis Inga Snorrasonar eru Alexander Bergmann og Amelía Björk Bergmann. Afkomendur Bjarkar eru því 7 á fæti og einn í kvið.

Og nú er komið að skilum. Ég hef verið beðinn að bera þessum söfnuði kveðjur frá ástvinum erlendis, Ástríði Hannesdóttur og fjölskyldu hennar í Danmörk, Hannesi og Karin, Andra og Katrine, Guðrúnu og Matthíasi, Andra og Svandísi.

Og Tinna Bergmann sem er í London biður einnig fyrir kveðjur.

Leiðir mig að vötnum…

Já, það eru skil. Hvað minningar áttu þér í huga um Björku? Rifjaðu þær upp, leyfðu þeim að koma upp í hugann. Farðu vel með þær.

Síðustu ár urðu Björku þungbær, hún varð fyrir áföllum og leið fyrir bágt heilsufar. En aldrei var að efast um ást hennar og elsku í garð fólksins hennar og ástvina. Og hún hverfur frá þeim og ykkur öllum – fyrir aldur fram.

En á skilum er mikilvægt að viðurkenna að hún er farin, dáin og kemur ekki aftur. Og með þau skil þarf að fara vel, vinna úr tilfinningum, sorginni, sektarkennd og eftirsjá.

Og á skilum er líka komið að því að spyrja stóru spurninganna um líf og eðli lífs – og hvort trúin lifir – trú sem gefur tveggja heima sýn, vitund um að tíminn er ekki allt sem er heldur er eilífð líka, líkaminn er látinn en að lífið lifir, að við erum ekki bara ofurlítill neisti í tómi tímans heldur hluti af því lífsbáli sem Guð er, hluti af lífsláni sköpunarverkins og okkar heimaslóð er á strönd guðsríkisins.

Mér þótti gott að hugsa um nafnið Björk þegar ég hugsaði um hana og íhugaði líf hennar. Oft hef ég horft á hve íslenska björkin hefur bognað undan þunga vetrarins og síðan hefur vorað og snjóa hefur létt. Þá hafa bjarkirnar rétt úr sér þegar snjóa hefur létt – og stofnarnir hafa orðið beinir að nýju og farvegir fyrir líf. Í því ljósi getum við hugsað um Björk. Hún átti sér gjöfula æfi, gaf af sér og var sínu fólki ástargjöf. Síðasta skeiðið var henni erfitt – þá haustaði og hún bognaði undir vetrarþunga. En svo er vorið Guðs, hún getur og má rétta úr sér og lifa. Og þannig getum við séð hana lifa í birtu Guðs, leyft minningum að lifa – næra og bera ávöxt í þínu lífi.

Í sálminum segir: „Drottinn er minn hirðir… Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína… Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér… og í húsi Drottins bý ég langa ævi.“

Björk nýtur ekki lengur bláma heimsins, litarins sem hún mat mest – nú lifir hún í bláma himinsins. Hún hlær ekki lengur í fjöri tímans heldur nýtur himinfjörsins. Hún laumar ekki lengur leikfangi að börnum, matarbita að dýrum merkurinnar eða réttir hlut lítilla vina. Hún getur ekki lengur vikið góðu að þér eða tekið á móti barnabörnum og fjölskyldu. Hún er ekki týnd, heldur farin og hefur fæðst inn í lífheim Guðs. Þar er ekkert myrkur, engin veikindi, engin aðskilnaður – heldur allt gott. Hún er farinn inn í hið himneska Elliðavatn – og þar er gott að vera. Leyfðu henni að fara, slepptu og haltu í ástina og yndislegar minningar.

Guð geymi þig og Guð geymi ykkur sem kveðjið og syrgið.

Guð geymi Björku í eilífu ríki sínu.

Amen.

Minningarorð í útför sem gerð var frá Neskirkju 24. janúar, 2013. Bálför – jarðsett verður í Fossvogskirkjugarði.