Fallið – Anatomy of a Fall

Ástalíf fólks er alls konar og sjaldnast einfalt. Flestir leita gefandi og nærandi tengsla en svo verða áföll á leiðinni sem teikna lífsmynd fólks. Kvikmyndin Anatomy of a Fall er um ást sem endar með dauða. Hjón í svissneskum fjallaskála eru bæði rithöfundar. Henni gengur vel og gefur út bók eftir bók. Honum gengur verr, á við ritstíflu að stríða, kennir um tímaleysi og alls konar áraun lífsins að hann klárar ekki bókina sína og segir upp kennslustöðu sinni. Og svo var keyrt á drenginn þeirra sem nánast blindaðist. Hann og blindrahundur hans komu að föðurnum látnum í snjónum. Augljóst var að maðurinn hafði fallið af þriðju hæð hússins. En var fallið sjálfsvíg? Drap eiginkonan manninn? Hinn blindi sonur varð meginvitni lögreglu og réttarhalda. Í krufningu hjónalífsins var ansi langt seilst.  

Hvað er sannleikur? Hvað er rétt og er minni alltaf traust? Hjónalíf og ástalíf er marglaga og tengsl fólks líka. Svo bætast við hefðir og venjur í menningu, lögreglu og réttarfari. Er kenningasmíð lögreglu sannleikur og er stundum heldur snemma hrapað að niðurstöðu?

Það hefur löngum verið erfitt að vera manneskja. Flókið ferli yfirheyrslu og réttarhalda er eitt en svo eru tengsl fólks margþætt. Stórkostlegt handrit myndarinnar tekur á öllum þessum þáttum. Það er margþættur, litríkur en vel heppnaður vefur sem kitlar áhorfendur alla leið og til loka. Smásögurnar sem sagðar eru til stuðnings heildinni eru sjarmerandi. Klippingin er meistaraleg. Leikur allra er sérkapítuli – stórkostlegur. Sandra Hüller er orðin ein af skærustu leikstjörnum samtímans.

Þið sem elskið gæðakvikmyndir – látið ekki þetta undraverk fram hjá ykkur fara. Þetta er ekki afþreyingarmynd heldur listaverk fyrir huga, augu, íhugun, tilfinningar og samtöl. Þetta er ekki mynd fyrir fyrsta deit en kannski ættu öll pör að sjá þessa mynd, bæði þau sem eru að byrja að kyssast og hin sem kunna að strjúka ástúðlega og rýna af getu í dýptir elskunnar. Áföll verða en það er okkar að vinna úr og lifa. Og boðskapur myndarinnar er skýr að við veljum í lífi okkar hvort við sköpum og lifum eða ákveðum að vera þolendur og þar með fólk fallsins. Greining falls hjálpar við greiningu ástar og lífs.

Um myndina á IMDb að baki þessari smellu 

Sýnd þessa dagana í bíó Paradís. 

Norsku konungshjónin og skemmtilegasta heimsóknin

Ég sá í fréttum að Haraldur 5. konungur var fluttur á spítala í Malasíu. Hjartsláttur kóngs var veikur og nú er hann kominn með gangráð. Norsk herflugvél flutti Harald síðan heim til Noregs. Fréttin rifjaði upp liðlega þrjátíu ára minningu.

Ég hitti Harald og konu hans einu sinni og þá voru þau hjartanlega kát. Konungshjónin heimsóttu Þingvelli 8. september 1992 í opinberri heimsókn. Þá bjó ég og fjölskylda mín í Þingvallabæ og hlutverk okkar var að gera Þingvöllum gott til og þjóna komufólki hvort sem það voru hópar skólabarna, Þingvellingar eða aðrir Íslendingar að vitja helgistaðar þjóðarinnar, erlendir túristar eða gestir Íslands í opinberum heimsóknum.

Veður var bjart þegar Vigdís forseti, Davíð forsætisráðherra, Jón Baldvin utanríkisráðherra og fylgdarlið komu með konungi og drottningu Norðmanna. Kröftugt norðanrok stytti ávarp Hönnu Maríu þjóðgarðsvarðar og stansinn á Hakinu. Veðrið var slíkt að galsi hljóp í mannskapinn á göngunni niður Almannagjá og mjög slaknaði á formlegheitum hinnar opinberu heimsóknar. Davíð var í smitandi stuði. Jóni Baldvini var strítt fyrir brúnar og slitnar flauelsbuxur en hann tók gamninu vel og kenndi um grasekkilsstandi.

Konungshjónin spurðu um náttúru Þingvalla, þinghald, tengslin við norska löggjöf og framvindu sögunnar. Í Þingvallakirkju var hlé fyrir rokinu og hópurinn gekk í kirkju. „Ertu norskur eða af norskum ættum?“ spurði kóngur mig í ræðulok því hann undraðist norskan framburðinn. Ég upplýsti hann ég hefði verið við nám í Noregi í tæplega eitt ár og hefði átt heima steinsnar frá Slottet í miðborg Osló. „Það er skýringin“ sagði hann brosandi. 

Svo var haldið í Þingvallabæ. Í frétt Moggans daginn eftir var ranglega hermt að farið hafi verið í ráðherrabústaðinn sem þá voru tvær syðstu burstir bæjarins. Stofa forsætisráðherrans var of lítil svo hádegisverðurinn var í stofunni okkar megin í þessu parhúsi þess tíma. Og það var gaman. Maturinn var góður og allir lögðu til samtals. Konungshjónin skildu að íslensk gleðisókn hefði vikið formlegheitum til hliðar og þau tóku þátt í gamninu. Ég dáðist að því hve Vigdís hélt snilldarvel saman öllum þráðum. Hún tilkynnti að vegna roks yrði að fella niður heimsókn í Reykholt. Haraldur hafði hlakkað til en skildi máltækið að þó kóngur vildi sigla myndi byr ráða. Veðurhamurinn lengdi því hádegisverðinn í stofunni heima. 

Haraldur gekk úr Þingvallabæ hlægjandi og Sonja drottning laut að mér og sagði: „„Þið eruð svo fullkomlega afslöppuð í kátínu ykkar. Þetta er skemmtilegasta opinbera heimsóknin sem við höfum nokkurn tíma notið. Takk fyrir.“ Já, slíkt var gamanið. Ég lærði þennan dag að veður skiptir minnstu máli fyrir hve vel heppnaðar ferðir eru. Aðalmálið er hvernig unnið er úr og hvernig áhöfnin bregst við. Það var skemmtilegt að taka á móti norsku konungshjónunum. Ég vona að hjartsláttur Haraldar 5. verði sem jafnastur og bestur og hann megi hlægja sem mest. Konungshjónin lærðu þennan septemberdag að á Íslandi er oftast gaman í vondu veðri. Þá falla álög mannamunarins af fólki. 

Meðfylgjandi hér fyrir neðan er skjáskot af fréttum Mbl af opinberri heimsókn norsku konungshjónanna.  Myndin hér að ofan er af Sögu, Þórði og Kötlu, börnum mínum í þjóðlegum búningnum, þegar forseti Þýskalands kom í heimsókn. 

Karl Sigurbjörnsson og heimskristnin

Útför Karls Sigurbjörnssonar, biskups, var gerð frá Hallgrímskirkju 28. febrúar 2024. Tónlistin var stórkostleg og mikil og almenn þátttaka í söng og bænum. Við sungum sálminn „Nú hverfur sól í haf og húmið kemur skjótt.“ Minningarnar þyrluðust upp við sönginn. Við Karl vorum nokkrum sinnum saman á fundum Porvoo-kirknasambandsins, samtökum lútherskra og anglikanskra kirkna í norður- og vestur-Evrópu. Karl tranaði sér aldrei fram en ávann sér virðingu fyrir leiftrandi getu. Hann var framúrskarandi fulltrúi íslenskrar kristni. Í nokkur ár var hann annar af leiðtogum sambandsins. Í helgihaldi eins fundarins ákvað Karl að nota sálm föður síns: Nú hverfur sól í haf. Lagið hafði Þorkell gert, sá mikli tónsnillingur og bróðir Karls. Organistinn fékk nótnablað og við Karl sungum fyrir og kenndum sálminn – í enskri þýðingu. Það er gott að orna sér við slíkar minningar í kælunni. Meðfylgjandi mynd tók ég af Karli og biskupum frá Uppsala og Newcastle, Ragnar Persenius og Michael Wharton, við upphaf fundar Porvoo-kirknasambandsins sem var haldinn í Hallgrímskirkju og í Skálholti í september 2004. Af hverju verkfærakista? Jú, þemað var tool-box of theology. Karl átti mörg tól í sinni trúarlegu og guðfræðilegu verkfærakistu og kunni að beita þeim. Blessuð sé minning hans.
Þú vakir, faðir vor,
ó, vernda börnin þín
svo víð sem veröld er
og vonarstjarna skín,
ein stjarna hljóð á himni skín.

Kjúklingaréttur fyrir elskuna

Jæja, drengir góðir, yngri og eldri. Nú er konudagurinn framundan og gerið konunum í lífi ykkar dagamun. Hér er tillaga að frábærum rétti til að elda sem reyndar er ljómandi fyrir alla góða daga. 

Fyrir 4.

Hráefni
1 msk olía
3 – 4 kjúklingabringur 800 gr
3 hvítlauksrif
100 gr sólþurrkaðir tómatar 10 -12 stk
360 gr risotto hrísgrjón (helst lúxúshrísgrjón t.d. cooks&co Mediterranean Risotto 2 pokar – fæst í Melabúðinni)
900 ml kjúklingasoð
200 ml matreiðslurjómi
salt, pipar, hvítlaukskrydd, paprika og tímían um 1 tsk af hverju kryddi.
fersk basilíka skorin niður og sett yfir hvern disk
parmesan ostur yfir réttinn

Aðferð
Skerið kjúklinginn í bita, steikið í olíunni og gegnsteikið. Kjúklingurinn er kryddaður með salti, pipar og timían. Skerið sólþurrkuðu tómatana í bita ásamt hvítlauknum. Smellið þeirri tvennu á pönnuna og steikið áfram í um 2-3 mínútur.

Hrísgrjónunum er síðan bætt út pönnuna og líka 900 ml kjúklingasoðinu. Blandið saman og setjið síða lok á og látið malla á miðlungs hita í um 20 mínútur. Mikilvægt að hræra einu sinni eftir um 10 mínútur, annars er hætt við að hrísgrjónin á botninum brenni við. Þegar 20 mínútur eru liðnar ættu hrísgrjónin að vera soðin. Blandið þá matreiðslurjómanum út í réttinn og berið fram. 

Berið fram með fersku salati. Og rífið parmesan yfir og toppið með ferskri basilíku. Hvítlauksbrauð eða niðurskorið snittubrauð.

Uppskriftin er frá Helgu Möggu í mbl og aðlöguð eigin smekk.  Svo biðst ég velvirðingar á heldur dapurlegri mynd sem er ekki í neinu samræmi við bragðgæði réttarins. 

Rifið, fjölkryddað lambakjöt

Lambakjöt er dásamlegur matur. Mikilvægt er að standa með íslenskum landbúnaði og bændum og stuðla að sjálfbærni Íslendinga í matarmálum. Því þarf að halda lambakjöti að uppvaxandi kynslóð og þessi réttur hefur reynst mér vel til þess. Það þarf ofurlitla fyrirhyggju ef hægelda á lambakjöt en það er auðvitað mun betra – bragðlega og tilfinningalega. Best er að bera fram í tortillum en líka hægt að nota með hrísgrjónum og litríku salati. Svo er píta einn valkosturinn. 

Fyrir 4-6

2 rauðar paprikur, skornar í fjórðunga og fræ hreinsuð frá (360-400 gr)
2 rauður chilli. Fræ og stilkar hreinsuð frá
1 heill hvítlaukur – þverskorinn
800 gr lambakjöt – bógur er ljómandi eða læri. Kjötið skorið í nokkur stykki. Sinar og fita hreinsuð frá
3 msk ólífuolía
salt and svartur pipar
3 msk tómatþykkni
2 msk malað kúmmín (cumin)
1¼ tsk malaður kanill
½ msk kóríanderfræ kramið (coriander seeds)
4 lárviðarlauf

1 appelsína – þ.e. safinn
500 ml kjúklingakraftur
1½ msk límónusafi
1½ msk (ca 5gr) grófsaxaður kóríander
1½ msk hlynsíróp
8-10 mjúkar tortillur – hitaðar fyrir notkun. Nota oft grill til snögghitunar. Svo er líka hægt að hita á plötu eða við vægan gashita.
2 vorlaukar, skornir. Mæli með að fín- og lang-skera í ca. 2 cm búta

Ofninn settur á grill-stillingu. Paprikur, chilli og hvítlaukshelmingarnir settir á plötu – mæli með að setja bökunarpappír undir. Baka í ca 12 mínútur og fylgjast með og snúa jafnvel þar til bökunareinkenni koma í ljós.

Setja stóra pönnu á eldavélina og steikingar-ólífuolíu á pönnuna og síðan kjötið. Salta vel og einnig pipra vel með svörtum pipar. Brúna kjötið í 8-10 mínútur.

Hægt er að langsteikja á lágum hita á eldavél en ég set yfirleitt kjötið frekar í ílát sem má vera í ofni. Stundum nota ég fallegan pottjárnspottinn (mér finnst gaman að sjá hann í ofninum J) eða í stórt steikingarfaat. Þá er tómatþykkninu, kúmmín, kanil, kóríanderfræi og lárviðarlaufi smellt yfir kjötið. Þá er bætt við kjúklingasoðinu, bökuðu paprikunum, chilli og hvítlauk (þ.e. mjúka kjarnann úr hvítlauknum en pappírs-hlutanum er hent). Svo má krydda í viðbót með salti og pipar.

Langsoðið á lágum hita í nokkrar klst. Tilbúið þegar auðvelt er að skilja kjötþræði úr stykkjum – sem sé rífa. Ég hef svona rétt oft í ofninum í 5-6 tíma á eitt hundrað gráðum. Þegar komið er að máltíð er lokið tekið af. Appelsínu, límónusafa, kóríanderlaufi og hlynsírópi bætt út í.

Notið tortillur en það er smekksatriði hvernig maturinn er framreiddur, hvort kjötið er tekið upp úr sósunni og rifið og soðið og maukið borið fram með. Notið salat, vorlauk eða annan fínskorinn lauk, fínskornar paprikur og salat. Sýrður rjómi eða majó er ljómandi – líka chilli-majó. Stundum set ég upphitaða hrísgrjónaafganga með. Þetta er glæsilegt næðifæði borið fram sem skyndibiti.

Verði ykkur að góðu og takk íslensk bændastétt.

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.