Ingveldur Guðrún Valdimarsdóttir

Inga fæddist 28. september árið 1933. Foreldrar hennar voru Filippía Sigurlaug Kristjánsdóttir og Valdimar Jónsson. Hún úr Svarfaðardal og hann upprunalega úr Hólminum. Eftir barnaskóla fór Inga austur í Lauga í Reykjadal til náms og naut þar Sigurðar, móðurbróður síns, sem þá var komin í Lauga. Hún lauk gagnfræðaprófi árið 1949 og stundaði síðan nám við húsmæðraskóla í Svíþjóð árið 1951 og vann svo um tíma í Skandinavíu. Inga lauk hjúkrunarnámi á Íslandi í mars árið 1958. Síðan starfaði hún næstu ár við hjúkrun víða, á mörgum sjúkrahúsum og stofnunum á landsbyggðinni og í Reykjavík. Hún vann sem hjúkrunarfræðingur – hjúkrunarkona eins og kollegar hennar nefndust þá – á sjúkrahúsinu á Patreksfirði 1958 – 59. Þar á eftir fór hún á Akranes, til Vestmannaeyja og vann síðan á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund og svo á Hvítabandinu frá 1962-64. Svo birtist Ágúst Eiríksson og þau gengu í hjónaband 20. júlí árið 1966. Ágúst var lagður inn á spítala vegna kviðslits. Inga var á næturvakt og Ágúst var þjáður og hún sá aumur á honum, gaf hönum pillu svo hann gæti hvílst og sofið. Ágúst var starsýnt á hjálparengilinn. Þegar hann var upprisinn fór hann í Klúbbinn og þar var engillinn mættur. Hann bauð henni í dans og þau dönsuðu síðan saman. Svefntafla varð upphafið að löngum og ástríkum hjúskap.

Inga var góður fagmaður í hjúkrun ávann sér virðingu samstarfsfólks í starfi. Henni var treyst og gjarnan kölluð til ábyrgðar. Henni var m.a. boðið yfirmannsstarf á  Heilsuverndarstöðinni en Ágúst hafði löngun til að fara austur fyrir fjall. Inga studdi alltaf sinn mann og fór með honum austur. Þau settust að í Biskupstungum. Það var ekki einfalt að kaupa heila garðyrkjustöð. Þau Inga voru stöndug og ábyrg í fjármálum og svo kom móðurbróðir Ingu þeim til hjálpar. Þau Ágúst ráku garðyrkjustöðina Teig í Laugarási í tuttugu og sjö ár, frá 1970-1997.

Inga vann í fyrstu við Heilsugæslustöðina í Laugarási sem þjónaði uppsveitum Árnessýslu. Hún ávann sér traust allra sem til hennar leituðu. Það veit ég af veru minni í Skálholti og ég hitti marga sem höfðu notið alúðar Ingu og umhyggju. Síðari árin vann Inga á sjúkrahúsinu á Selfossi. Þegar Inga bað einhvern um að vinna á næturvakt eða aukavakt var erfitt að neita bón hennar því hún byggtt upp traust í samskiptum. Þegar hún lauk störfum á Selfossi var haldið hóf á sjúkrahúsinu og allt samstarfsfólk hennar mætti.

Þau Inga og Ágúst tóku að sér fóstursoninn Þórhall Jón Jónsson (21. apríl 1967 – 13. apríl 2023) sem lést á síðasta ári. Allir sem kynntust Ingu og Ágústi dáðust að nærgætni og elsku sem þau veittu Þórhalli. Þökk sé þeim. Sonur Ágústs er Elvar Ingi. Guð geymi Ingu í eilífð sinni og styrki Ágúst og alla ástvini.

Útför Ingu var gerð frá Kapellunni í Fossvogi. Minningarorð fluttu m.a. Valdimar Helgason og Ásgeir Helgason. Duftker Ingu verður jarðsett í Gufuneskirkjugarði.  

Wilhelm Kempff og svo varð þögn

Fyrstu píanótónleikarnir sem ég sótti sem barn voru einleikstónleikar Wilhelm Kempff í Austurbæjarbíói.  Í lok tónleikanna voru allir í salnum sem lamaðir af mætti tónlistarinnar og snilli píanistans. Eftir að kempan hafði reist alla hina stórkostlegu hljómakastala varð djúp þögn eftir lokahljóminn, eins og gjá sem við sukkum í. Þögnin sprakk síðan í lófataki og háreysti. Tónlistin var stórkostleg, hárið á píanistanum eftirminnilegt, lýrísk túlkun hans líka en þögnin varð þó eftirminnilegasta vídd og fang þessara tónleika. Hún gagntók mig og varð mér íhugunarefni. Tónlist lifnar ekki án þagnar og í því fangi  verður hún  til og snertir sálina. Í þögn fellur allt í skorður í upplifun þess sem nýtur. Einleikstónleikar hafa sérstöðu því tónleikar eru skipulagðir með ákveðnu móti og sólistinn getur stýrt hvenær risið verður mest og hvernig flæði þeirra verður. Við skynjum oft að eftirköst eru hluti ferlis. Eftir mikla atburði og dramatískar aðstæður verður kyrra áleitin og hægt að upplifa hana sterkt.  „Höfg er þögn akursins eftir storminn.” Eftir óveður dagsins verður stjörnubjört hvelfing næturinnar stórkostlegt. Sálin getur farið á flug og orðið að stjörnu á festingunni. Eftir flóðið verður fjara þagnar og íhugunar. Hvað er mikilvægasta augnablikið á lífskonsert þínum? Jú, að þú þagnir, vinnir úr reynslunni áður en þú byrjar að klappa. 

Vatnið, lækur og Lilja

„Því vatnið, sem streymir um æðar þess, er
jafn íslenskt og blóðið í hjartanu á mér.“
Lilja Sólveig Kristjánsdóttir (11. maí 1923 – 23. apríl 2015) var ekki aðeins trúarskáld heldur orkti hún vísur og ljóð af ýmsu tilefni eins og sjá má í bók hennar Liljuljóðum. Hún átti alla tíð auðvelt með að yrkja. Náttúruljóð Lilju eru mörg og djúpsækin.  Meðal þeirra er íhugun um vatnið, áhrif þess, eðli og eigindir. Mér hefur alltaf þótt vænt um þetta ljóð sem varð til í átakalausri hrifningu þegar Lilja var í landinu sínu, sátt við Guð og menn og naut náttúruhljóðanna. Hún íhugaði tengsl og líkindi manns og náttúru. Þá seitlaði þetta ljóð inn í huga hennar. Það er líka tjáning á hve skynjun og túlkun Lilju var víðfeðm. 
Eftir að Lilja dó árið 2015 var hún jörðuð við hlið Siguringa, manns síns, í Fossvogskirkjugarði og leiðin þeirra merkt. En mig langaði að minnisvarði um Lillju væri líka í landinu þeirra austan í Ingólfsfjalli. Vatnsljóð Lilju var sett upp og koparsteypt á skjöld og undir er eiginhandaráritun Lilju. Við Þór Sigmundsson, vinur minn og mestur steinsmiða landsins, fórum austur og festum koparskjöldinn á bjarg við lækinn sem syngur svo fallega alla daga.  Þrestirnir þeyttust um skóginn í ástarbríma og undirbjuggu sumarið og fjölgun. Hvönnin var byrjuð að senda lífsprota sína upp mót himni eins og sést á annarri myndinni. Meðan við Þór brösuðum við uppsetningu hækkaði lækurinn sönginn og við gátum tekið undir hvert orð Lilju. Blessuð veri minning Lilju og Siguringa. 
Lækurinn skrafar. Ég skemmti mér við
að skilja þann hugljúfa, seiðandi nið.
Í flosmjúku grasinu hlusta ég hljóð
á hljómfallið þýða, hans ættjarðarljóð.
Gróðurinn mikli, sem umhverfis er,
með angan og fegurð, er hugsvalar mér,
frá vatninu líf sitt og litauðgi fær.
Hjá læknum öll náttúran blómstrar og grær.
Hjartslátt míns lands bæði heyri’ ég og lít,
er hlusta’ ég á lækinn og friðarins nýt.
Því vatnið, sem streymir um æðar þess, er
jafn íslenskt og blóðið í hjartanu á mér.
Dýrlegt er land mitt með lækjarins nið,
öll litfögru blómin og söngfugla klið,
með víðáttu tæra og fönnum krýnd fjöll,
þá friðsæld, er bætt getur streitumörk öll.

Osso Buco – hamingjusprengja fyrir nautnaseggi

Osso Buco er einn af ofurrétt­um Norður-Ítal­íu sem einfalt og gaman er að elda. Ítal­ir not­ar gjarn­an kálfaskanka í réttinn og nautaskank­ar nýtast því líka. Ég steiki oftast kjötið á pönnu og færi svo yfir í stóran ofnþolinn pott. Síðan steiki ég grænmetið, bæti svo við tómataviðbótinni, krydda og sýð, set svo þar á eftir soð og vín og helli síðan öllu dýrðarhráefninu yfir kjötið í pottinum. Ef ég hef byrjað eldamennskuna snemma set ég pottinn í ofn á lágum hita, t.d. 100°C. Annars er ofninn settur á 180°C eða 200°C ef fyrirhyggjan eða tíminn leyfir ekki hægeldamennsku. Ef enginn er pottjárnspottur á heimilinu er auðvitað hægt að nota ofnþolið fat með loki – nú eða sjóða allt á eldavél og hafa auga á potti og framvindunni og tryggja að nægur vökvi sé í fati eða potti.

Meðlæti getur verið bygg, pasta, risotto, hrísgrjón, kartöflusmælki – nú eða bara kartöflumús! Rétturinn verður heldur eintóna hvað liti varðar og því skemmtilegt að skreyta svolítið með rósmarín eða steinselju. Basilíka og kóríander gefa líka skemmtilegt fráviksbragð sem mörgum þykir eftirsóknarvert.

Fyr­ir 6-8

  • 6-8 sneiðar af Osso Buco-kjöti
  • 2- 3 stk. skalot­lauk­ar, saxaðir (aðrar laukgerðir duga ágætlega)
  • 3 sell­e­rístönglar skornir í ten­inga
  • 3 gul­ræt­ur, skornar í ten­inga eða þverskornar
  • 2 hvít­laukar (heilir en ekki lauf) saxaðir
  • 1 msk tímí­ankrydd
  • 1 msk rós­marínkrydd 
  • 3 lár­viðarlauf
  • 1 lúka söxuð steinselja eða 1 msk steinseljukrydd
  • 1 dós heil­ir eða grófsaxaðir tóm­at­ar
  • 1 dós saxaðir tóm­at­ar
  • 6 dl kjúk­linga­soð
  • 2 dl hvít­vín
  • ólífu­olía eft­ir smekk fyr­ir steik­ingu
  • salt og pip­ar skv. smekk 

Aðferð:

  1. Hitið 1-2 mat­skeiðar af ólífu­olíu á pönnu og steikið kjötsneiðarn­ar 3 mín­út­ur á hvorri hlið. Saltið, kryddið og piprið eft­ir smekk.
  2. Takið kjötið upp úr og setjið í pottinn og geymið meðan græn­metið er steikt og sós­an gerð.
  3. Steikið skalottu­lauk, sell­e­rí, gul­ræt­ur og hvít­lauk í um það bil 5 mín­út­ur í pott­in­um.
  4. Bætið síðan við tómöt­un­um og sjóðið í 3 mín­út­ur. Hrærið reglu­lega.
  5. Bætið við hvít­víni, kjúk­linga­soðinu, kryddjurt­un­um, stein­selj­unni og loks kjötsneiðunum.
  6. Setjið í ofninn í amk tvær klst. (ef ekki er sett í ofn er soðið við vægan hita í tvær klukku­stund­ir. Með lægri hita má hægelda.
  7. Vert er að snúa kjöt­bit­un­um við í suðu/steikar-ílátinu einu sinni til tvisvar á þess­um tíma og bæta við kjúk­linga­soði eft­ir þörf­um.
  8. Soðið á að þekja kjötið að amk þrem­ur fjórðu all­an tím­ann og um­lykja græn­metið.

Spilið endilega ítalska músík í undirbúningi og þegar sest verður að borði. Þakkarbæn fyrir hamingjusprengjuna, mat og líf má gjarnan stíga upp með kryddilmi og tónlist: Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen – og Guði sé lof fyrir Osso Buco.

Á vefnum er fjöldi myndbanda um hvernig hamingjusprengjan Osso Buco er elduð og þar eru ýmsar skemmtilegar útgáfur af hráefnalistanum líka.

Pabbinn hágrét

Þau eru bæði kínversk en völdu að ganga í hjónaband í hliði himins á Skólavörðuholti. Þau sögðu sín já af lífs og sálar kröftum. Pabbi brúðarinnar hágrét og táraflóðið var svo mikið að ég íhugaði að gera hlé á athöfninni. En hann harkaði af sér og við töluðum svo saman eftir athöfnina. Þá kjarnaðist kínversk saga seinni hluta tuttugustu aldar og þessarar líka. Brúðurin glæsilega var eina barn þeirra hjóna, þau fengu ekki að eiga fleiri. Þar var ein af táralindum pabbans. Nú var hún að játast sínum elskulega manni. Þungi sögunnar og lífstilfinninganna féllu á hinn grátandi sem elskaði dóttur sína og óskaði henni svo sannarlega að verða hamingjusöm með manni sínum. En nú var hún farin, tíminn breyttur og ekkert annað barn heima. Skilin urðu, fortíðin var búin, æskutíminn, dótturtíminn, ástartíminn. Mér komu ekki á óvart tilfinningar hjónanna nýblessuðu en hinar miklu tilfinningar föðurins urðu sem gluggi að Kínavíddunum. Voru fleiri ástæður táranna og ástarinnar? Spurningarnar þyrluðust upp. Höfðu jafnvel fleiri börn fæðst en tapast foreldrunum? Í tárum pabbans speglaðist ekki aðeins harmur hans heldur tuga og jafnvel hundruða milljóna sem fengu ekki að ráða ráðum sínum eða fjölskyldumálum vegna yfirgangs skammsýnna stjórnvalda (og auðvitað velmeinandi). Við mannfólkið elskum og missum – með mismunandi móti – og mikið er mannlífið stórkostlegt á dögum tára en líka hláturs.