Póesía lífsins – Baldur Óskarsson +

Baldur ÓskarssonBókmenntaunnendur þekkja orðið “póesía” – orð sem er í mörgum útgáfum í vestrænum tungumálum. Að baki öllum póetískum ljóðnefnum og ljóðafleggjurum er hið fallega gríska orð poiesis, ποίησις. Það er ekki aðeins snoturt á blaði, heldur þrungið merkingu. Það táknar ekki aðeins það, að stafla orðum í ljóð, heldur líka hið hagnýta, að vinna, búa til með höndum, kalla fram líf og hlúa að því. Að ljóða er að gera – að skapa. Að ljóða er líka það að tengja himin og heim.

Meðal Grikkja og Hebrea var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, starfa, sköpunar, já raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Samkvæmt þessum skilningi var handverk aldrei sálarlaus iðja heldur átti sér líka andlegar víddir. Þessi speki er hagnýt. Handverk við ritvél eða tölvu, í eldhúsi, garði, námi, við bleyjuskipti, já öllu ati lífsins á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki, sem við kunnum að hugsa getur á hinn bóginn heldur aldrei lifað nema hún eigi sér hagnýta skírskotun í pólitík, í listum og í deiglu samfélagsins. Lífið er eitt og fólk fornaldar vissi, að lífið á sér framvindu, bæði andlega og efnislega. Allt er tengt og allt er á hreyfingu. Lífið var og er gjörningur, samfelld póesía.

Og Baldur var maður póesíunnar, altengdur hræringu lífs, músík náttúrunnar, hann sniðlaði texta og vann þar með lífinu. Skáldskapur hans var djúpfundinn, myndmálið kraftmikið en þó einnig torrætt, litríkið mikið í málverki orðanna. Innri rými mannsandans urðu Baldri rannsóknarefni, menningarsagan kitlaði og málverk hrifu og gerningurinn varð í skáldinu, poiesis.

Tíu ára drengur austur í Rangarvallasýslu gat skynjað djúpt, lifað stórt og tengt upplifun við orð. Og í skáldinu -sem túlkaði bernskureynsluna – bjó líka kímni sem gat horft til baka til fólksins sem hann þekkti í uppeldi sem hafði líka gleði af uppátækjum barnsins. Í ljóðinu

Hvert ertú að fara gamli maður? segir skáldið Baldur um sjálfan sig og hina gjafmildu og kímnu Guddu í austurbænum:

Ég var tíu ára

Gamla konan í austurbænum

færði mér gullpening spegilfagran

 

Ég furðaði mig á því

að gömul fátæk kona

skyldi gefa mér slíkan fjársjóð

 

Það var um það leyti

sem ég tók uppá því

að ganga álútur

 

Hvert ertú að fara?

sagði hún stundum

og hermdi eftir mér

Hvert ertú að fara gamli maður?

 

Gudda, ég veit það ekki

 

Kannski upp á veg

Vonandi held ég höfði

þökk sé þér

 

Ég er að fara

 

Ætt og uppruni

Baldur Óskarsson fæddist í Hafnarfirði 28. mars 1932. Hann var gefinn nýfæddur. Hann ólst ekki upp hjá blóðforeldrum sínum Óskari Eyjólfssyni og Ingigerði Þorsteinsdóttur heldur var settur í fang móðurbróður sínum og konu hans. Þau urðu fósturforeldrar hans, hjónin Sigríður Ólafsdóttir frá Austvaðsholti í Landssveit og Þorsteinn Þorsteinsson frá Berustöðum. Þau bjuggu á Ásmundarstöðum í Holtum.

Þegar í frumbernsku var Baldri hliðrað til. Kannski var hann í hliðrun alla tíð síðan? Hann þekkti foreldra sína og var aldrei leyndur uppruna sínum og bjó við ríkulega elskusemi fósturforeldranna sem hann mat og þakkaði. Hann naut tveggja heima sýnar í foreldramálum og varð síðan maður margra heima í lífinu. Hann megnaði að vera eitt en sjá til annars, rækja köllun sína en sinna skyldustörfum einnig.

“Leit inn í heiminn lifandi barn.” Og Baldur var vissulega þegar í bernsku alnæm kvika og teygaði í sig orð aldanna sem hljómuðu í sveitinni, þjálfaði fásinnisminni sem aldrei brást honum síðan, lærði að skynja tónlist í veðri, mosa og fólki, lærði að nema speki íslenskra sagna, gleðjast yfir litríki ljóða og sjúga í sig lífmagn bókmennta.

Á Ásmundarstaðaheimilinu naut Baldur klassísk-íslenskrar menntunar og mótunar. Og einn þáttur þess var að lesa Biblíuna. Fólkið hans Baldurs tók líka á móti öllum gagnrýnum straumum samtímans (Þorsteinn Erlingsson et.al). Baldur lærði því við fóstru – og fóstrakné list hinnar gagnrýnu samstöðu sem dugði honum vel í lífinu. Svo hafði fólkið á Ásmundarstöðum líka tíma til að tala, ræða málin og einnig kenna flókin fræði með einföldum og skýrum hætti.

Í einu ljóðinu segir Baldur frá að hann horfði á fóstru sína stinga prjóni í gegnum bandhnykil sem hún hallaði síðan. Með hjálp þessra einföldu kennslutækja skýrði hún fyrir drengnum möndulhalla og hringekju jarðar og gang pláneta. Og drengurinn lærði ekki aðeins stjörnufræði heldur naut að auki lífsspeki fóstru sinnar – og tók eftir dagsbirtunni í augum hennar þegar hún fræddi hann. Stóru himinvíddirnar og geimmál fylltu hann geig en síðar kom gleði. Hnykill og prjónn urðu tilefni póetísks gernings. Í þess konar hliðrun stækkar vitund, orð raðast saman, hinu efnislega er stefnt til hins óefnislega og ný merking verður til. Við lærum frá hinu þekkta og fikrum okkur til hins óþekkta. Það er póesía náms og menntunar.

Baldur lærði að vinna en uppgötvaði einnig snemma að hann þurfti tíma með sjálfum sér til að sinna eigin innri manni. Hann samdi meira að segja við sitt fólk um að hann fengi einkatíma hluta dags til eigin iðju. Slitsterk menning og viska Íslands seitlaði inn í drenginn, náttúran varð honum ofurfang móður sem hann átti trygga alla tíð.

Og hann var tilbúinn að fara að heiman og fara raunar langt í tíma, rúmi og menningu.

Baldur fór í Skógaskóla, síðar í lýðháskóla í Svíþjóð. Svo heillaðist hann af Barcelona og spænskri menningu, lærði listasögu í Katalóníu, naut lífsins þar syðra, heillaðist af fegurðinni, hljómum málsins og þýddi spænsk skáld.

Baldur var allur í orðum en lifibrauðið hafði hann af einkum af blaðamennsku. Hann var blaðamaður á Tímanum 1957-64, skólastjóri Myndlistarskóla Reykjavíkur 1965-73 og starfaði í áratugi sem fréttamaður og við dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu.

Hjúskapur og börn

Kona Baldurs var Gunnhildur Kristjánsdóttir og þau nutu barnaláns. Börn þeirra eru þrjú:

 

Sigrún er elst og hennar maður er Gunnbjörn Marinósson. Þau eiga Baldur og Björk og tvö barnabörn.

Árni Þormar er í miðið. Hans kona er Valgerður Fjóla Baldursdóttir. Þau eiga dæturnar Valgerði Erlu og Gunnhildu Erlu og eitt barnabarn.

Magnús er yngstur og hans kona er Áslaug Arna Stefánsdóttir. Þau eiga dæturnar Kolku og Tíbrá.

Af Baldri eru því á lífi tólf afkomendur.

Fjölskyldulífið var fjölbreytilegt. Foreldrarnir reru frekar á djúpmið í menningarefnum en á grunnsævið. Listræn kvikmynd var eftirsóknarverðari en teiknuð afþreyingarmynd. Baldur vildi að börnin hans nytu geimupplifunar of fór með þau ung á Stanley Kubrick-myndina 2001 Space Odyssey með þrumandi Also sprach Zarathustra.

Og þor og frelsi náði líka til kosts og matar. Fjölskyldan fór gjarnan í gúrmetískar reisur í Hvalfjörð til tína kræklinga og efna til veislu.

Og heima sagði Baldur sögur, fór með börnin sín og barnabörn í langferðir ævintýra, ljóðheima og furðuheima lífsins. Ljúflyndi og hæglátt ástríki hans smitaði og skilaði. Það hefur hrifið mig mjög þessa síðustu daga að fylgjast með hve góð börnin hans og fólkið hans Baldurs eru hvert við annað – eins ólík og þau eru – þau hafa í sér dýpt virðingar, kímni og elskusemi sem Baldur miðlaði, heimilislífið einkenndist af og þau endurspegla síðan áfram í lífi og starfi.

Bókamaðurinn

Ritferill Baldurs spannar hálfa öld. Ritstörfin voru honum ástríðumál alla tíð og þó hann yrði að fara snemma á fætur til daglaunavinnu sat hann oft við ritstörf fram á nótt. Fyrsta verk hans var smásagnasafnið Hitabylgja sem kom út árið 1960. Þremur árum síðar kom út eftir hann skáldsagan Dagblað. Fyrsta ljóðabókin Svefneyjar kom út árið 1966. Baldur gaf út samtals fjórtán ljóðabækur og sú síðasta kom út árið 2010, Langt frá öðrum grjótum. Enn eru til óútgefin ljóð. Baldur var alltaf að – til hinsta dags.

Baldur var alla tíð á tali við fyrirrennara sína í heimi menningar og opnaði veru sína fyrir snilldinni, leyfði lífsmættinum inn í sig. Ljóðlist hans er myndrík því hann skoðaði myndlist alla tíð og hafði mikinn áhuga á henni. Mörg torræð ljóð opnast þegar myndlistartengslin verða ljós. Baldur var maður lita í ljóðum, hann hafði agað formskyn og vandaði frágang og vann verk sín til enda á blaði. Málfar Baldurs var agað og við sem áttum orðastað við Baldur vitum hve orðaforði hans var ríkulegur sem skilaði sér í ljóðlistinni. Viðfangsefni hans eru fjölbreytileg, náttúra, rök tilverunnar, tíminn, eðli reynslunnar, bernskan og myndmál.

Og kímni Baldurs kemur víða fram og oft sem mjúk stroka elskuseminnar. Og sem guðfræðingur hef ég haft gaman af kíminni hlýju í meðferð Baldurs á hinum trúarlegu stefjum.

Auk eigin ljóðagerðar fékkst Baldur við ljóðaþýðingar og þmt á verkum Federico Garcia Lorca. Baldur hafði löngum mikil samskipti við myndlistarmenn og hafði áhuga á myndlist. Hann skrifaði líka um myndlist í bækur og tímarit.

Baldur Óskarsson hefur í marga áratugi notið virðingar íslenskra orðavina. Þrátt fyrir torræðni póesíu hans hefur hann hefur verið metin og óumdeildur jöfur í íslenskri ljóðlist. Og það var vel og var honum sjálfum gleðiefni er hann hlaut verðlaun úr rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins árið 2011.

Frammi í safnaðarheimilinu eru nokkrar af bókum Baldurs sem þið getið skoðað. Ég veit að talsvert er óútgefið af ljóðum Baldurs og ástæða til að koma út. En ég held einnig að komið sé að því að gefa út safn ljóða hans og koma þeim á einn stað – og líka á vefinn. Baldur Óskarsson er án nokkurs efa einn af hinum stóru í íslenskri ljóðlist tuttugustu aldar.

Baldur ákvað snemma að búa ekki við fé eða skepnur í lífinu heldur við orð. Alla ævi bar hann saman orð og þjónaði orðlistinni. Og hann stóð sig frábærlega í þeim búskap. Æviverk hans er ríkulegt og fjölbreytilegt og við ævilok vil ég þakka hið framlag hans til íslenskrar listar og menningar.

Við skil hef ég verið beðin að bera þessum söfnuði kveðjur frá Baldri og Vallý og einnig afastúlkunni Björk Gunnbjörnsdóttur.

Hinn póetíski Guð

Verðandi veraldar er hrífandi. Í öllum bókum Biblíunnar er minnt á, að Guð er ekki fjarlæg, upphafin vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur, að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur aldrei þrátt fyrir mannabresti. Já, að skilningi trúarinnar er Guð stórskáldið, sem yrkir heiminn, yrkir mennina, nýtur lífsins, er sjálfur hin mikla póesía lífsins, líka þegar allt er þrotið, búið, týnt og brotið.

Fagnaðarerindið er að lífið er góður gerningur, póesía elskunnar. Þegar lífi lýkur og hvíti vegurinn – eins og Baldur kallaði hann – er framundan mætir ljóðmögurinn besti, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himininn. Þar má Baldur búa og hrífast, njóta linda hins lifandi vatns. Veröld Guðs er mögnuð og Guð er hrífandi. Baldur var á heimleið alla ævi – og nú er hann kominn heim.

Guð geymi Baldur um alla eilífð. Guð varðveiti þig.

Amen.

Vegna bálfarar verður ekki jarðsett í dag. Við lok þessarar útfararathafnar verður fallega kistan hans Baldurs borin út og að henni geta allir gengið að til að kveðja. Síðan verður erfidrykkja í safnaðarheimilinu strax. Baldur skrifaði á einum stað um að honum hefði líkað erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju þar sem áfengur drykkur var í boði – og þannig verður það og í samræmi við vilja hans!

Til laugar gengur þú einn skrifaði Baldur í ljóðinu Hóllinn

Hóllinn minn veðraði –

gamalt sker

 

Þar sem brimaldan söng

heyrist mófuglatíst

 

Tönn er

úr manni

í sandinum svarta

Hægt

líður tíminn

og hægt

eyðist hollinn

 

Holurt í renningi –

rökkvar í hjarta

 

…Holurt í renningi…

rennur upp sólin

Þú yfirgefur hið liðna hægt

og hægt tognar á strengnum sem bindur þig –

blóður ertu

 

Til laugar gengur þú einn

Minningarorð um Baldur Óskarsson í Neskirkju 24. apríl, 2013.

Bálför og jarðsett verður í Fossvogsskirkjugarði.

Limts and Life

Limts and LifeÁ liðnu ári kom út hjá Peter Lang-forlaginu bók mín Limits and Life: Meaning and Metaphors in the Religious Language of Iceland. Ef þú vilt eintak gerðu svo vel að senda mér tilkynningu í tölvupósti með nafni, kennitölu og heimilisfangi. Efnislýsing bókarinnar er þessi:

Limits and Life: Meaning and Metaphors in the Religious Language of Iceland not only contributes to the field of Nordic cultural history, it is a valuable resource for those who may find themselves confronting threats and preparing for catastrophes in the twenty-first century. How can we best cope with traumatic events in nature, society, and the home? Facing and interpreting limits has been the pivotal religious task of Icelanders throughout the centuries. Strategies for survival became a necessity and included interpretations that assisted in coping with these crises along with strategies of escape. The theology of Icelanders offers potential ways for coping with difficulties and suggests strategies for addressing the limit-issues threatening us and later generations.

Kynning og umsagnir Peter C Hodgson, Vanderbilt, og Péturs Péturssonar, HÍ, eru á kynningarslóð forleggjarans að baki þessari smellu:

http://www.peterlang.com/download/datasheet/62994/datasheet_311703.pdf

Amazon er með þetta:

Þá skrifaði Pétur Björgvin Þorsteinsson ritrýni og birti á vefriti Háskólans á Akureyri. Slóð:

http://nome.unak.is/nm-marzo-2012/vol-8-n-1-2013/51-book-review/387-sigurdhur-arni-thordharson-limits-and-life-meaning-and-metaphors-in-the-religious-language-of-iceland-peter-lang-american-university-studies-2012

EXIT

Við útgang þessar kirkju er grænt flóttaleiðarmerki. Á því er mannvera á hlaupum – þar er líka ör fyrir stefnu og ljós reitur sem dyratákn. Svona merki eru í í flugvélum, skipum og öllum opinberum stofnunum. Þau eru græn á Íslandi og í fjölmörgum löndum erlendis en víða eru líka til rauð merki. EXIT stendur á mörgum þeirra. Þessum stefnuvitum er ætlað að leiðbeina þó dimmt sé, rafmagn farið og í óefni komið. Exitmerkin eru vegvísar. Það er við hæfi að íhuga exit, útleið á gleðidögum eftir páska.

Skottlok

Ég var sjö ára gamall og var að leik með nokkrum börnum á Tómasarhaganum. Eldri strákar sem ég þekkti komu og vildu sýna okkur krökkunum inn í bílskúr við götuna og við létum tilleiðast. Spennandi ævintýraleiðangur hafinn. Strákarnir opnuðu skott á bíl sem þar var og sögðu mér að ég ætti að klifra upp í skottið – sem ég gerði. Þá skelltu þeir aftur skottlokinu. Ég var strand í myrkrinu og æpti: „Sleppið mér út.“ En strákarnir hlógu og svo heyrði ég að þeir fóru, skelltu bískúrshúrðinni og allt hljóðnaði. Á nokkrum mínútum hrundi tilveran, áður hafði ég verið úti, undir berum himni frelsis og gleði. Þarna var ég strand í myrkrinu og bjargarlaus. Ópin skiluðu engu. Ekkert skínandi exitmerki var í myrkrinu, engin leið og ógerlegt að opna læsinguna á skottlokinu og ekki tókst að spyrna því upp. Þunga þanka setti að mér, dauðahræðslu. Ég vonaðist til að ég myndi finnast en hversu langan tíma myndi það taka? Myndi ég vera týndur í bílnum heila nótt. Hvað átti ég að gera? Ná í felgulykil og berja mig til frelsis, æpa þar til einhver heyrði? Eða bíða, hlusta og biðja um Guðshjálpina, sem ég gerði reyndar.

Eftir klukkutíma í líflausri og illa lyktandi farangursgeymslunni kom strákur sem opnaði skottið skömmustulegur og hljóp svo í burtu. Ég brölti úr fangelsinu og út í frelsið. Og mikið var frelsið stórkostlegt, birtan undursamlegt og súrefnið svalandi sem streymdi niður í lungun.

Innlokun

Mörg ykkar hafið upplifað eitthvað hliðstætt og þekkið hve skelfing innlokunar getur orðið mikil. Sonur minn, sjö ára, læstist inni í ljósritunarherbergi kirkjunnar í fyrra, skreið út um glugga og bjargaði sér. Hann varð hræddur en svo var hann svo óheppinn að læsast inni á klósetti í skólanum nokkrum dögum síðar. Síðan hefur hann verið smeykur við lása, lokur og flóttaleiðalaus rými.

Innilokun er óþægileg, getur verið hræðileg og valdið fólki djúptækum sálarskaða. Amerískur prédikari spurði einu sinni: „Hvað er það hræðilegasta við helvíti?“ Og svo þagði hann stundarkorn en svaraði sjálfum sér: „Þar er engin flóttaleið, engin útleið, ekkert exit.“ Já, það er hnyttin lýsing á hinu djöfullega – að það sé lokaður veruleiki (ég minni á leikrit Sartre um það stef). Innlokun er andstæða lífsins.

Jesús var lagður í holu. Lífið var farið. Steini var velt fyrir hellismunnan. Engin útleið, engin flóttaleið, ekkert exit. Líkami Jesú var lokaður inni – en hann var ekki einn. Hann var fulltrúi allra manna. Hann var hinn annar Adam. Í hinum fyrsta Adam voru allir menn og í Jesú voru sömuleiðis allir. Það er víddarhugsun trúartúlkunarinnar.

Hvað um þínar lokur?

Og nú máttu gjarnan huga að þínu lífi. Hvað hefur dregið þig niður og orðið þér til tjóns? Hver eru óttaefni þín, efasemdir? Hvað hræðistu mest og hvað fyllir þig vanmætti eða vonleysi? Það getur verið vinnuharka líka eða ástarsorg, ofbeldi eða dauð hringlandi daganna. Þetta eru þínar grafir.

Stundum líður fólki eins og í þeim séu engar flóttaleiðir, engin útleið, – öll sund lokuð og stór skriða fyrir hellismunnanum. Myrkrið sest að í sál og lífi og lífið byrjar að veiklast og fjara út.

Opnist þú

En páskar eru nýtt upphaf. Undrið varð, hellisloku var velt frá, loftið streymdi inn, ljósið líka. Það sem var lífleysa varð fæðingarstaður lífsins. Það sem var án útleiðar var allt í einu komið í tengsl og samband. Jesús Kristur braut leið úr lífleysu og opnaði öllum leið úr hafti hellisins. Það er víddarhugsun trúarinnar – allt er opnað.

Grænu flóttamerkin eru til að hjálpa í neyð – þegar áföll verða og ógnir dynja yfir. Það á að vera hægt að fylgja þeim og finna leið út úr ógninni. En hvað um þegar við rötum í andlegar ógöngur? Eru til einhver græn leiðarmerki sem vísa veg?

Kirkjan og trúin benda á Jesú Krist sem veginn út úr vanda. Hann er leið möguleikanna. Ekkert myrkur er honum of myrkt, enginn sálarkreppa er honum ofraun. Engin ástarsorg er honum ókunn, ekkert vinnupuð er honum framandi og ekkert ofbeldi er honum fjarlægt. Hann er þér við hlið í skottum lífsins, í hellum sorgarinnar, í lífleysu vonskunnar. Hann heldur í hendi þér þegar þú dettur, tekur á móti þér þegar þú hrasar og lyftir þér upp í birtuna þegar þig vantar mátt.

Vegvísir til lífs

Og það er eiginlega krossinn sem er græna merki lífsins. Leið krossins er ekki aðeins leið dauðans og þjáningar heldur leið til lífs. Jesús Kristur var í lokaðri gröf og myrkri dauðans en sprengdi sér leið út og til birtunnar. Hann hefur opnað leið og dyr. Krossinn er leið lífsins. Í þessari kirkju er græna flóttamerkið öðrum megin og krossinn á móti. Bæði merkin mikilvæg og við hæfi.

Jesús Kristur opnar og vísar veg og er fyrirmynd um hvernig við getum lifað í hans anda og með hann sem fyrirmynd. Við megum vera öðrum förunautar frá vonleysi til vonar, frá myrkri til ljóss, frá sorg til lífsgleði. Hlutverk okkar er að standa með fólki og lífi, staðið með þeim sem standa tæpt, varið þau sem órétti eru beitt og gengið erindi verndar náttúru og góðra samfélagshátta.

útGrænu merkin í opinberu rými eru stefnuvitar fyrir fólk í hættu og út úr vanda þó dimmt sé, rafmagn farið og í óefni komið. Krossinn bendir á leið þótt allt sé í rúst. Þegar þér líður illa og að þér sé þrengt er þó von því Jesús sprengdi klungur dauðans, leysti fjötra og opnaði leið. Leið lífsins er betri en dauðans. Þá er hægt að syngja með fullri einurð og djúpri merkingu: Ég á líf.

Nú eru gleðidagar, í guðsríkinu er grillað á strönd vatnsins. Og meistarinn er hér, við erum laus úr skottinu, allar heftandi lífslokur mega falla. Nú eru nýir möguleikar, gleðidagar.

Amen.

Hugvekja í Neskirkju, 1. sunnudag eftir páska, 7. apríl, 2013.

Andabringur í upphæðum

Þegar ég var kominn í kirkjunni á annan páskadag og skíra kom ég heim tilbúinn til heimagleðinnar. Þegar ég var búinn að tala við mitt fólk fór ég að undirbúa kvöldmatinn, vinna sósuna og krydda andakjöt sem var búið að bíða tvo daga í kælinum. Þessi uppskrift var veidd af blogginu og er orðin jólamatur á nokkrum heimilum. Svo þegar ég smeygi þessu á vefinn er lyktin í húsinu svo dásamleg að nágrannarnir eru komnir með löng nef úti og spyrja hvað sé verið að elda!

Andabringa snöggsteikt

Miðað er við að uppskriftin sé fyrir fjóra. 800 gr andabringur. Ristið krossa (!) skinn/fitumegin og nuddið salti, pipar og möluðum einiberjum í skurðina. Steikið bringurnar á þurri pönnu með fituhliðina niður og steikið þar til skorpan harðnar. Snúið síðan við steikið stutt, en þó þannig að hinni hliðinni sé lokað. Steikið síðan í ofni 12-15 mínútur þar til kjarninn er liðlega 60°C.

Sósan

Hér er skemmtileg sósa, sem passar afar vel. Ekki vera hrædd við hráefnið!

3 dl anda- eða kalkúnasoð

2 dl rauðvín (hægt að nota púrt)

1 msk balsamikedik

safi úr 2 appelsínum

safi úr 2 límónuávöxtum

safi úr 1 sítrónu

2 dl kókosmjólk eða eftir smekk

½ msk engifer

sulta – skv smekk – ég nota gjarnan ribs eða sólberjasultu til að sæta sósuna og jafna.

Sjóðið allt niður um þriðjung og þykkið svo eftir smekk. Í sósuna má síðan setja í lokin 1 msk af köldu smjöri til að fá gljáa.

Þessa anda- og sósu-uppskrift fékk ég úr Matreiðslumeistara MasterCard, sem út kom fyrir jólin 2004, en breytti uppskrifinni að eigin smekk!

Meðlæti – rótargrænmeti

1,5 kg rótarávextir, t.d. steinseljurætur 5 stk skornar langsum

rauðbeður 2 stk

sæt kartafla

litlar kartöflur, skornar í tvennt

gulrætur langskornar

hvítlaukur, heill og grófrifinn

 

Lögur á rótargrænmeti

4 msk ólífuolía

½ msk balsamikedik

½ tsk þurrkað rósmarín

maldonsalt

svartur pipar grófmalaður

Bakað í ofni í 40-60 mínútur.

Bæn: Þökkum Drottni, því að hann er góður, – því miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Konungur ljónanna

kon ljónannaFyrir páskana fór ég á leiksýningu Hagaskóla á Konungi ljónanna. Á annað hundrað nemenda gegndu einhverju hlutverki við uppsetninguna, m.a. 22 manna hljómsveit. Þetta var frábær uppfærsla og uppselt á allar tíu sýningarnar. Ég var djúpt snortinn af leik, söng, hljóðfæraleik, dönsum og líka búningum sem nemendur gerðu sjálfir. Ég heyrði ekki aðeins í foreldrum og skólafólkinu heldur líka í fagfólki úr leikhús- og tónlistar-geiranum að sýningin hefði heppnast framar vonum. Það var gaman að fylgjast með ungmennunum sem ég þekki úr fermingarfræðslunni kirkjunni leika, dansa, stjórna, spila, sjá um tæki og tól og þau megnuðu að veita okkur upplifun á dýptina. (Sigríður Birna Valsdóttir, leiklistarkennari, skólastjórn, starfsfólk og nemendur Hagaskóla eiga hrós skilið)

Að heiman og heim
Konungur ljónanna – hvers konar saga er það? Sagan er byggð á minnum úr Gamla testamnti Biblíunnar – um Móse og Jósep – og rithöfundar hafa um aldir notað frumsögurnar, líka Shakespeare í Hamlet og Macbeth. Konungur ljónanna kom fyrst út sem Disneymynd árið 1994. Þetta er þroskasaga og segir af ungum Simba sem var hugaður, djarfur en líka einfaldur, lét plata sig og gerði hrapaleg mistök. Hann flúði svo að heiman því hann hélt að hann hefði banað föður sínum. Svo eignaðist hann nýtt líf í fjarlægu landi. En hann heyrði svo hve illa gengi heima, allt hafði farið á verri veg. Hann hafði hlaupið frá skyldu sinni og hlutverkum og þar með sjálfum sér. Simbi neyddist til að íhuga hlutverk sitt og stöðu. Þegar hann horfðist í augu við sjálfan sig skildi hann að flótti í lífinu dugar ekki. Allir verða að mæta verkefnum lífsins, þó þau séu hættuleg og erfið. Hið illa má ekki sigra. Hið góða verður ekki nema fyrir því sé haft og barist fyrir því. Flótti leiðir ekki til farsældar heldur aðeins það að axla ábyrgð og hafa fyrir því sem máli skiptir og eflir lífsgæðin. Simbi, Pumba, Nala, Tímon og að lokum allir með ráði og réttri rænu tóku þátt í baráttunni fyrir lífinu. Hið góða sigraði.

Þín saga og þín viska?
Hvað er að lifa með ábyrgð? Það er m.a. að komast aftur heim með þroska að veganesti, verða að fullveðja og ábyrgri mannveru. Konungur ljónanna er kennslusaga, góð í snittinu, aukin með tónlist Elton John og Tim Rice og vel unnin. Það var ánægjulegt að sjá vel farið með stóra sögu og gaman að sjá unglinga túlka svo vel. Í sögunni eru íhuganir um föðurinn, um heiminn, himininn, skyldu, siðferði, ábyrgð, flótta, synd, sundrungu, náttúrusýn, samfélag og hin stóru samskiptastef hvernig lífi þarf að lifa til að farsæld ríki. Og hið illa læðist um og reynir alltaf að ná völdum – en vei því samfélagi sem lýtur vondu valdi.

Móse og einnig Jósep fóru að heiman og gerðu tilraunir. Þeirra þroski skilaði góðu til samfélags þeirra. Biblían segir sögur um venjulegt fólk sem gerð mistök en gekk í sig. Sögurnar eru okkur til styrktar og eftirbreytni. Enginn lifir fyrir okkur, við gerum okkar tilraunir til góðs en stundum líka til ills. Jesús sagði hina frægu sögu af syninum sem vélaði út arf sinn, sóaði honum og kom síðan heim að nýju gjaldþrota hið ytra sem innra. Við honum var þó tekið í Jesúdæmisögunni. Hvernig er þín saga? Fórstu að heiman og gerðir tilraunir með þanþol þitt, fjölskyldu þinnar eða lífsins? Fórstu einhvern tíma að mörkum, dastu jafnvel og hruflaðir þig illa? Elskaðir þú en misstir? Áttir þú einhvern tíma í fangi þér ástvin sem er farinn? Mesta undur lífsins er að elska og vera elskaður. Dýpstu sorgir sem menn lifa er þegar elskurnar deyja eða hverfa.

Möguleikar
Biblían stendur alltaf með lífinu. Sögurnar sem hún segir eru gjarnan um að þrátt fyrir missi, ólán og hörmungar er lífs að vænta. Við megum endurnýjast. Móse sneri aftur til að beita sér fyrir hinu góða. Jósep varð til stórkostlegrar gæfu þrátt fyrir hann yrði ofbeldi að bráð og margs konar órétti. Og boðskapur Jesú var boðskapur guðsríkisins að hin fangelsuðu, sjúku, fyrirlitnu, kúguðu – þau sem væru á röngunni í lífinu – hefðu líka séns. Lífið væri fyrir alla – ekki aðeins forréttindafólk. Biblían kennir að alltaf er möguleiki, aldrei eru öll sund lokuð, aldrei erum við svo djúpt sokkin og aldrei svo fyrirlitleg að við megum ekki snúa við, fara til baka, horfast í augu við ástand okkar eða aðstæður. Aldrei of seint að snúa við – alltaf nýtt upphaf mögulegt. Okkar er vænst, Guð þráir að við verum við sjálf og í sambandi við okkur sjálf, við samfélag og Guð.

Exit?
En svo er það stóri plús páskanna. Saga Jesú er ekki aðeins það að snúa til baka frá Egyptalandi, úr óbyggðinni eða pólitískri klemmu. Saga hans er ekki þroskasaga unglings sem kemur til sjálfs sín og verður að fullveðja og ábyrgum manni. Jesús Kristur dó, öllu var lokið og öll sund voru lokuð. Honum var komið fyrir holu með engri útleið. Bjargi var velt fyrir innganginn og þar með: Ekkert exit – lífi lokið. Sagan var harmsaga. Ramminn var skýr um mörk mennsku, lögmál heims, lífs og dauða. En Guð er stærri en heimur. Lokaður veruleiki sprakk. Í upprisuboðskapnum er komið að mörkum. Í veruleika Guðs eru möguleikar. Höfundur lífsins er stærri en lífslok. Ást Guðs á mönnum og veröld er meiri enn þröngsýni, sjálfsást eða samsöfnuð eyðilegging manna. Lokurnar voru frá og stórheimur Guðs var opinberaður. Jesús var ekki lengur í landi dauðans heldur lífsins.

Guðssaga
Hvað þýðir það? Okkur er flestum blásið í brjóst það hyggjuvit að við getum bætt fyrir afbrot okkar. Áföllin geta verið stór en mörg má bæta fyrir. Við megum rísa á fætur þrátt fyrir að við hrösum eða dettum. En páskarnir eru opnun alls sem er. Dauðinn er ekki lengur helsi lífsins. Hinn lifandi Jesús Kristur hefur leyst alla fjötra og opnað nýtt land og þar með skilning. Í því er plúsinn fólginn. Guð vill leyfa okkur að lifa í mun stærra samhengi en við fáum séð með eigin hygjguviti. Hin góðu tíðindi páskanna er að líf þessa heims er í góðum tengslum við líf himinsins. Þessi heimur er ekki lokaður heldur galopinn. Jesús Kristur er ekki aðeins konungur ljónanna heldur lífsins. Páskasagan er engin þroskasaga heldur Guðssaga.

Í ljósi páskasólarinnar megum við opna allar gáttir sálar og lífs. Leyfa okkur að snúa við í öllum skilningi, leyfa ástvinum okkar að hvíla í öryggi himinsins, sjá okkur í góðum tengslum við tíma og eilífð. Þegar við opnum getum við sagt með ákefð og nýrri von og trú. Kristur er upprisinn – og svarið við því er: Kristur er sannarlega upprisinn.
Amen.

Páskar 2013, 31. mars.

Textaröð: B
Lexía: Jes 25.6-9
Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli
búa öllum þjóðum veislu,
veislu með réttum fljótandi í olíu
og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg
og skírðu dreggjavíni.
 Á þessu fjalli, fyrir framan fortjaldið,
sem er hula öllum þjóðum
og forhengi öllum lýðum,
mun hann afmá dauðann að eilífu.
 Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu
og afmá smán lýðs síns af allri jörðinni
því að Drottinn hefur talað.
 Á þeim degi verður sagt:
 Þessi er Guð vor sem vér höfum vonað á
og hann mun frelsa oss.
 Þessi er Drottinn sem vér höfum vonað á,
 fögnum og gleðjumst yfir hjálp hans.

Pistill: 1Kor 15.1-8a

Ég minni ykkur, systkin, á fagnaðarerindið sem ég boðaði ykkur, sem þið og veittuð viðtöku og þið standið einnig stöðug í. Það mun og frelsa ykkur ef þið haldið fast við það sem ég boðaði ykkur, ella hafið þið til einskis tekið trú. Því það kenndi ég ykkur fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna synda okkar samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu sem flestir eru á lífi allt til þessa en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum.
 En síðast allra birtist hann einnig mér.

Guðspjall: Matt 28.1-8
Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.
En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“
Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.