Hildur Þórðardóttir – minningarorð

Hildur hafði allt aðra og betri sýn á fólki en svo, að sjá í þeim ógn. Hún sá gleðigjöf í öðrum, möguleika á lífi og enn meiri skemmtun og fjölbreytileika. Hún var þar með kona framtíðarinnar, boðberi góðs fjölmenningarsamfélags. Hér að neðan eru minningarorð um Hildi í minningarathöfn í september 2007.

Staldraðu við, leyfðu minningum að lifna hið innra. Hver er skemmtilegasta minningin, sem þú átt um hana? Leyfðu henni líka að koma fram í hugann.

Þegar við syrgjum og kveðjum þurfum við að leyfa öllu að koma fram og leyfa því að lifa, sem nærir elskuna, eflir hið góða. Við getum lært lífsfærni af þeim, sem við kveðjum og getur orðið til að efla okkur til lífshamingju.

Hildur var órög. Hún þorði, að prufa það sem var nýtt, bæði í hinu nána sem hinu fjarlæga. Engu skipti hvort það var litun á eigin hári eða skoðun fjarlægs heimshluta. Hildur þorði að segja sína skoðun, þorði að hafa orð á ef hún sá eitthvað fallegt. Hún var órög að eiga orðastað við þá, sem hún hitti á förnum vegi og hafði ekki síst gaman af ef það var fólk, sem var langt að komið, kom frá annarri menningu, bar með sér nýjan andblæ og ferskan vind. Hvað var það sem Hildur gaf þér, kenndi þér, skildi eftir hjá þér, sem getur gert þig að betri manneskju og getur eflt þig til hins góða lífs?

Líf og fjölskylda

Hildur Þórðardóttir fæddist í Reykjavík 12. apríl árið 1962. Foreldrar hennar voru hjónin Karen Lövdahl, sem lifir dóttur sína, og Þórður Júlíusson, verkfræðingur, sem lést fyrir liðlega tíu árum. Hildur bjó fyrstu árin á Laugarnesvegi 102 eða þar til fjölskyldan flutti á Bakkaflöt 5 í Garðabæ. Eldri systkinin eru Jóhanna Halla (f. 30.10. 1952). Hennar maður er Rúnar Björgvinsson. Snorri er næstelstur (f. 2.4. 1955) og er kvæntur Sigrúnu Óladóttur. Tveimur árum fyrir fæðingu Hildar, sem við kveðjum í dag, fæddist stúlka, sem lést í frumbernsku. Hún hét Hildur líka og fékk yngri systirin nafnið í arf að hinni látinni. Yngsta barn Þórðar og Karenar var svo Þórður, sem fæddist 1964 og hann lést aðeins nokkurra daga gamall. Þung áföll riðu því yfir fjölskylduna með stuttu millibili. Hildur var því eins kraftaverk lífsins.

Hildur gekk í skóla í Laugarnesinu og svo í Garðabæ. Eftir skyldunám hóf hún nám í hárgreiðslu við Iðnskólann í Reykjavík og vann um tíma á stofu í Hafnarfirði. Síðar fór hún svo með manni sínum í Englaborgina, Los Angeles, og lærði leikhúsförðun.

Hildur var til í víking erlendis. Ung hleypti hún heimdraganum, fór til Noregs og síðan til Svíþjóðar. Það var jafnan líf og fjör í kringum hana, kátir Íslendingar, og auðvitað dróst að þeim glaðsinna fólk. Einn af þeim sem heillaðist var Ingemar Bäck. Þau gengu í hjónaband í nóvember árið 1982, bjuggu um tíma á Íslandi en settust síðan að á heimaslóð Ingó í paradísinni Trosa í sænska skerjagarðinum. Þar setti Hildur upp sína stofu og var sjálfstæður atvinnurekandi alla tíð.

Hildur og Ingó eignuðust tvö börn: Erik Örn (f. 19.01. 1985) og Malin Eir (f. 25.06. 1987). Þau lifa móður sína, búa í Svíþjóð eins og Ingó. En þau Hildur skildu árið 2001, en hann eins og börnin voru afar natin við Hildi þegar hún átti í veikindum sínum síðasta ár og mánuði. Er þeim þakkað, sem og Jóhönnu sem var systur sinni stoð og styrkur í þessari lífsins áraun, sem hún varð fyrir og féll fyrir að lokum. Sama má segja um Guðrúnu frænku hennar í Trosa.

Hildur Þórðardóttir lést á sjúkrahúsi í Nyköping 23. ágúst síðastliðinn og var jarðsett í Västerljung á föstudaginn var, 14. september síðastliðinn. Hildur var lögð til hinstu hvílu á undurfögrum stað, sem hún hafði valið sjálf. Hún nam fegurð þar sem fegurð var að nema, þráði fegurð í lífinu og lagði sitt til að auka fegurð veraldar. Nú hvílir hún þar sem fegurðin ríkir ein.

Minningar og stiklur

Hvernig manstu Hildi? Hver er myndin í huganum?

Í erfidrykkjunni á verður skyggnusýning sem systkinin hafa útbúið með svipmyndum úr ævi Hildar. Þið getið horft á myndirnar. En ykkur stendur líka til boða að taka til máls og segja frá ykkar minningum. Hildur var glöð og við megum gjarnan minnast hins skemmtilega, segja gleðisögur eða mikilvægar minningar um hana. Verið órög ef þið hafið löngun til að tala.Tækifærið gefst í safnaðarheimilinu.

Já, Hildur var glaðsinna. Hún gekk að flestu, bæði verkum og mönnum með opnum huga og hleypidómaleysi. Henni þótti gaman að leikhúsferðum og að fara í bíó. Hún hló með glaðsinna fólki, leitaði í fjölbreytni, fannst gaman að ferðast, naut þess að koma til Íslands og hitta ættingjana, vinina, ykkur sem eruð hér í dag. Hún elskaði góðan mat, þótti hnallþórur mikilvægur íslenskur kostur og aldeilis nauðsynlegt að halda í þá góðu samlagshefð að margir legðu saman í kaffihlaðborð. Því er í erfidrykkjunni slíkt hlaðborð og í samræmi við Hildarstefnuna.

Handverkið hennar var í hárinu á fólki og til að vinna það verk vel þarf vandvirkni en líka næma fingur, fimar hendur og listfengi. Hildur málaði svo í frístundum á síðari árum. Hún var líka ræktunarkona og vildi hafa mikið af blómum í kringum sig. Túlípanar voru uppáhaldsblóm hennar og þó ekki væri blómgunartími þeirra á þessum haustdögum – sagði fólkið á útfararstofunni í Svíþjóð, að fyrst túlípanar hefðu verið notaðir við útför Díönu prinsessu skyldi Hildur njóta þeirra líka! Í viðbót við fallegu lillabláu túlípanana á kistunni hennar ljómaði gröfin hennar af litskrúði mikillar blómabreiðu. Litríkið var þögull vitnisburður um elskuna, sem fólk vildi sýna henni genginni.

Af því að Hildur ræktaði með sér opinn huga var hún líkaóhrædd við að skoða allt það, sem gæti eflt fólk til hamingju og lífs. Hún stundaði chigong (qigong) sér til heilsubótar. Hún kynnti sér manneflingarhugmyndir ýmis konar og hafði gagn af heilsuhæli mannspekinga, anþrópósófista, í Svíþjóð.

Boðberi mannréttinda

Undanfarna daga hef ég verið að íhuga líf Hildar og dást að hinni glaðlegu og víðfeðmu nálgun hennar. Það, sem mér hefur þótt vænst um og snortið mig dýpst, er mannelska hennar. Hún gerði sér ekki mannamun. Hún gat auðvitað séð mismunandi hæfileika fólks og gerði sér grein fyrir, að við erum ekki eins. En þrátt fyrir ólíka húð, fjölbreytileika, ólíkt hár og ólík orð sá hún í hverjum manni mennsku, leyfði hverjum manni að fá tækifæri, hafnaði einföldum skilgreiningum á að þessi væri svona og hin hinsegin. Öllu fólki gaf hún tækifæri ekki síst “útlendingunum.” Hún vildi gjarnan versla hjá þeim og gaf gjarnan jólagjafir úr “innflytjendabúðum.”

Það var eins og Sameinuðu þjóðirnar hefðu gert Hildi að sérlegum mannréttindasendiherra sínum. Það var eins og mannréttindaskráin hefði skotið rótum í huga hennar og hjarta og borið elskuávexti gagnvart fólki. Þvílíkur þroski að opna huga sinn gagnvart útlendingum, viðurkenna mennsku þeirra, kunna að meta handverk þeirra og menningu. Hræðslan við þau, sem eru ólík – öðru vísi – er oft forsenda átaka og vaxtarreitur fyrir stríðsæsingar. En Hildur hafði allt aðra og betri sýn á fólki en svo, að sjá í þeim ógn. Hún sá gleðigjöf í öðrum, möguleika á lífi og enn meiri skemmtun og fjölbreytileika. Hún var þar með kona framtíðarinnar, boðberi góðs fjölmenningarsamfélags.

Hvaðan skyldi nú þessi afstaða koma? Hildur horfði á mennina og veröldina með himneskum augum. Sköpunarsaga fyrstu Mósebókar er ljóð, sem lýsir ekki hvernig veröldin varð til heldur af hverju og til hvers.

“…að það var gott”

Þar segir svo fallega eftir hvert sköpunarafrek Guðs,

að Guð horfði á veröldina “og Guð sá, að það var gott.” Þannig horfði Hildur á Indverja og Englendinga, Pakistana og Íslendinga. Að breyttu breytanda getum við sagt “Og Hildur sá, að það var gott.” Hún tók á móti kúnnum sínum, þjónaði þeim og greiddi og sá að það var gott. Þeir fundu líka gæðin og svöruðu henni með tryggð og með því að fylgja henni þótt hún færði sig milli staða. Og það var gott. Hún opnaði faðminn gagnvart vinum barna sinna og það var gott líka. Hildur hafði gaman af því að tala við fólk á öllum aldri og af öllum gerðum og það var líka gott. En dýpst er þetta guðlega sem hún iðkaði, að sjá í fólki hið góða, spennandi, jákvæða og stórkostlega. Hún hreifst og hrifning í lífinu er lífsmark og næring.

Hvaða vitnisburður er þetta fyrir þig? Hvað ætlar þú að gera með minningarnar um hana? Nú kemur þú í kirkju í dag til að minnast Hildar. Hverju viltu svara lífi hennar, sem varð alltof stutt. Jú, hún lifði vel og ef maður hefur lifað vel er jafnvel stutt líf gott líf. Hvað viltu í eigin lífi? Viltu fylla það neikvæðni, depurð, vansælu og því sem íþyngir þér eða viltu ganga á vit hins spennandi, jákvæða, lífgefandi og gildaríka?

Og Guð sá að það var gott. Það var gæðastefna Hildar. Það má vera lífsháttur þinn líka. Lífið er til að lifa vel og svaraðu minningum þínum um Hildi með góðu lífi.

Í hinum góða faðmi

Hildur er farin, hún hlær ekki lengur, hún hefur ekki hendur í hári nokkurs manns, hvorki þínu né annarra. Hún gælir ekki lengur við túlípana eða önnur blóm. Hún fer ekki Taílandsferðina sína, opnar ekki lengur hug gagnvart skemmtilegum kenningum, hlær ekki lengur í leikhúsi eða skemmtir sér við sögur og kaffihlaðborð. Nei, nú er hún horfin inn í heim eilífðar. Til að fara þá ferð þarf algerlega opinn huga, hreina lífsást, vilja til að opna enn meira, sjá grunngildi lífsins, þessa frumuppsprettu, sem ekki aðeins horfir á veröldina til góðs, heldur gerir hana góða, læknar hin sjúku og tekur burt allan sársauka. Þar má Hildur ríkja með Hildi systur, Þórði bróður, pabba og öllum hinum sem henni voru hjartfólgin. Góður Guð geymi hana alltaf og hjálpi þér til að lifa vel. Guð sér hana og þig og það er gott.

Minningarorð 20. september 2007

Örn Jákup Dam Washington +++

Örn dró djúpt að sér andan, leyfði sjávarloftinu að leika um andlitið. Hann lygndi dreymandi augum aftur. Gekk svo mjúkum, fjaðurmögnuðum skrefum fram fjöruna, fann stein til ásetu. Varð að einni hlust, skyggndi sjóndeildarhringinn, leyfði smáöldunni að umlykja veru sína, flæða inn í líf sitt. Allt varð eitt, sjór og vitund, sál og sól, Örn í tíma en líka í eilífð.

Hlustaðu á hafið, opnaðu vitund þína, opnaðu fyrir hinu guðlega, opna fyrir öllu hinu góða. Hvar er Guð? Hvað er sandkornið á ströndinni þegar Guð er hafið? Hvað er aldan, þegar hún hún verður andleg og seitlar inn í sálina? Hvað er vitundin, þegar hún er umföðmuð af ómælisvíddum?

Lífstiklurnar

Örn Jákup Dam Washington fæddist í Reykjavík 13. maí 1980. Hann lést á heimili sínu aðfaranótt 19. júlí sl. Hann varð því aðeins 25 ára gamall. Foreldrar Arnars eru þau Birgitta Dam Lísudóttir og Ernest Washington. Systkini hans eru: Lísa Jensen, Hans Cristian Martinussen og Davíð Tryggvason. Móðurbróðir Arnar er Vestarr. Þessi hópur, makar og börn voru hans nærheimur. Þau voru umhyggjusöm, báru hann á höndum sér og voru honum skjól. Þau voru náin, strákarnir og frændi sem feður og Birgitta og Örn voru einn andi. Hún og þau öll hafa misst mikið.

Örn átti sér alla tíð frumstöð á Meistarvöllum. Þar bjó móðir hans frá því hún kom til baka úr Ameríkuferð þegar hann var nokkurra mánaða gamall. Síðan tók við hefðbundin Vesturbæjarsaga. Örn fór í Melaskóla og síðan í Hagaskóla. Hann sótti fræðslu hér í kirkjunni eins og önnur fermingarbörn og var síðan fermdur og tók sitt já alvarlega, í trúmálum og öðrum efnum líka, smáum málum og stórum.

Þegar Örn hafði lokið skólagöngu í Hagaskóla ákvað hann að skoða sig um í Verslunarskólanum, en hætti þar eftir nokkurn tíma og fór sína eigin menntaleið. Hann söng og puðaði, las og gerði tilraunir með líf og lífshætti, kynntist mörgu fólki, lærði af því og kynntist sjálfum sér æ betur. Örn vann hjá Sjófangi, var í símageiranum um tíma, og vann við vörukynningu í stórverslunum. Í tvö ár var hann við vinnu á Essó hér niður á Ægissíðu. Þar nutum við þúsundir Vesturbæinga lipurrar þjónustu hans. Stundum var Prins pólóið eða tímaritið komið í hendurnar á okkur áður en við gátum stunið upp, að við ætluðum að kaupa. Örn vissi alltaf meira en búast mátti við og var ekki að bíða, hann las hugsanir. Hann kom víða við, líka á Grund og líknaði hinum öldruðu. Hann var afskaplega umhyggjusamur og natinn og vildi gefa og þjóna.

Músíkmaðurinn

Maður, sem skynjar hrynjandi hafsins, hefur í sér músík. Allt frá frumbernsku hríslaðist tónlistin í Erni. Hann söng, lifði sig í ryþma, hafði breidd í músíkáhuga, hafði í sér sláttinn og fína rödd. En kannski skiptir ekki síst máli að vera innlifaður tónlist, hafa hana í blóðinu, hafa bæði skynjun og túlkun tengda við persónulífið til að tónlistin geti lifað. Harðræði er ekki eftirsóknarvert, en verður oft samhengi mikillar tónlistarinnlifunar. Örn átti um margt erfiða bernsku og var stöðugt í baráttu, en hann fann hlé og skjól í stórum faðmi tónlistar, í músíkinni en líka textunum. Hann fór snemma að syngja og margir gerðu sér grein fyrir talentum hans.

Hann lærði innlifaðan og kraftmikinn sálmasöng á Ástjörn og Örn var ekki hár í loftinu þegar hann söng einsöng hér í kirkjunni, söng frá hjartanu með sinni fallegu rödd og söng inn í sálir þeirra sem heyrðu og sáu. Þá varð undur eins og alltaf þegar tónlistin er rétt og meira en bara gigg eða skyldu-performance. Það er þegar tárin spretta fram úr augum vegna þess að eitthvað töfrandi og himneskt verður. Þannig söng Örn, hann söng einhverja himnnesku.

Svo fór hann að syngja með öðrum. Hann naut þess að fá að syngja í Platters-showi, sem Harold Burr stýrði á Broadway, líka í Motown-sýningu þar sem hann var með vinum sínum og Páll Óskar kynnti. Hann fór víða, söng meira segja sem fulltrúi Íslands í Berlín einu sinni. Svo bættist við tjáningin og í tengslum við kynhneigð hans. Örn tók svo þátt í dragsýningum með vinum sínum úr Samtökunum 78. Eitt árið varð hann drag-drottning Íslands.

Hann söng þegar honum leið vel. Það er gömul saga og ný, að enginn syngur óhamingjusamur. Þegar Örn var dapur hljóðnaði söngurinn, jafnvel marga daga. En svo kviknaði hann á ný, hafið kallaði, orkan kom, öldur af lögum og textum brotnuðu í fjörunni hans. Hann leyfði lögunum svo að fljúga og skilur eftir sig perlur, sem einhver mun nýta síðar.

Hver var hann?

Hvaða tengsl hafðir þú við Örn? Hver svo sem þau voru munu öll vera sammála um, að Örn var góður, hlýr, umhyggjusamur, velviljaður, viðkvæmur og elskulegur. En hvað var að baki fallegu augunum hans? Hvað stýrði fíngerðu höndunum hans? Hvaða hræringar börðust í brjósti og huga hans? Hann starði út í sjóndeildarhringinn, þegar hann var við hafið. Hann horfði upp í himininn á stjörnubjartri nóttinni og spurði um hinstu rök, leitaði að Guði, talaði við Guð. Spurningin um Guð er alltaf líka spurning um manninn og hlutverk hans. Örn var ekki í smælkinu, heldur spurði hinna mestu spurninga, rétt eins og sálmaskáld svonefndra Davíðssálma. “Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar er þú hefur skapað, hvað er þá maðurinn að þú minnist hans, mannsins barn að þú vitjir þess?” Hvað er maðurinn, hvað er Guð? Skiptir Guð sér af þér – mér?

Þegar stórt er spurt er ekki altaf ljóst hvernig á að taka litlu skrefin. Örn gerði tilraunir hratt og af ákefð. Hann lennti í ýmsu, hann prufaði ýmis efni, reykti gras og tók töflur, en hrökk til baka. Þar var ekki Guð, heldur langur skuggi hins illa. Hann fór í meðferð. Hann leitaði dýptanna í bæn, íhugun, spekibókum mannkyns í ýmsum hefðum og þar aflaði hans sér innsæis og visku. Tónlistin var honum sem mál englanna. Örn kynnti sér flest þau fræði, sem gátu orðið honum til andlegrar dýpkunar, Tarrot- og engla-spil, symbolkerfi af ýmsum gerðum, englafræði, talnaspeki, sjálfsvarnarlistir og litafræði. Svo hélt hann því, sem honum þótti til bóta og hafði líka gaman af ýmsu sem tengdist honum sjálfum. Skjaldarmerkið með dreka- eða þó heldur arnarverunum var honum það kært að hann notaði það sem logo. Örn og Ísland deildu því merki saman!

Örn var tilfinninganæmur, listrænn og gefandi. Hann var flottur kokkur og ef hann efndi til sushi-veislu var hátíð. Hann var í góðum tengslum við barnið í sér og var því barnagæla. Börnin í fjölskyldunni hafa mikið misst.

Örn var iðinn Biblíulesari. Hann hreifst af litríkustu og hljómmestu bókum Ritningarinnar. Jóhannesaropinberunin talaði til hans með öllu sínu brassi og heimsslitadrama. Og Örn flaug líka yfir lendur og vanga spádómabóka Gamla testamenntisins. Hann leitaði, leitaði að dýpri merkingu. Hann leitaði alltaf að hinu helga, hásæti Guðs. Það síðasta sem hann las í þessu lífi var í sextugasta og sjötta kafla spádómsbókar Jesaja:

“Svo segir Drottinn: Himinninn er hásæti mitt og jörðin er fótskör mín. Hvaða hús munuð þér geta reist mér, og hvar er sá staður, sem verið geti bústaður minn? Hönd mín hefir gjört allt þetta og þannig er það allt til orðið segir Drottinn. Þeir sem ég lít til, eru hinir þjáðu og þeir er hafa sundurmarinn anda og skjálfa fyrir orði mínu.”

Fyrir liðlega tveimur árum varð Örn fyrir sterkri vitrun, sem opnaði fyrir honum annan heim og kannski dró hann með sér líka út úr þessum heimi. Hann hefur skriflega gert grein fyrir þessari reynslu og þeirri þróun sem fylgdi í kjölfarið. Það er merkileg lesning og allir, sem hafa kynnt sér dulræn fræði, þekkja íhugun, hafa lesið ljóðrænar lýsingar trúmanna um hina guðlegu nánd, guðlegu einingu og guðlegu leiðslu þekkja í orðum Arnar á hvaða ferð hann hefur verið og fyrir hverju hann hefur orðið. Fyrir tveimur árum hófst ferð hans út úr þessum heimi og inn í haf himins.

Þú ert hér í kirkjunni í dag til að kveðja Örn. Öll spyrjum við okkur þessarar sáru spurningar – af hverju? Af hverju fór hann svona ungur? Af hverju gat hann ekki lifað lengur? Af hverju tók hann af skarið og stytti sér aldur? Ákvörðunin var ekki tekin í skyndi, hann undirbjó brottför sína vendilega, gaf eigur sínar fátækum, kvaddi vini sína með elskusemi og bjó svo um að dauðinn kæmi sem kyrrlátast fyrir alla ástvini. Hann skildi eftir skilaboð og skýringar.

Það er högg þegar ungur og þroskaður maður fellur, sársaukinn er ógurlegur og sektarkenndin nagar. En virtu Örn þess að hann vildi ekki meira, hann hafði fengið nóg, hans leið í tíma var á enda, hann var á leið til Guðs.

Þegar hugurinn leitar og hvarflar fram og til baka sést næsta vel, að Örn var í lífi og veru tvenna. Hann var bæði hvítur og dökkur. Hann var bæði Ameríkani og Evrópubúi. Hann var af Afro-amerísku bergi brotinn en líka af Íslensk-færeysku-ensku. Hann var samkynhneigður í gagnkynstýrðu samfélagi. Hann var vel gefinn en átti í námsörðugleikum. Hann hafði átt marga mjög góða vini, en samt átti hann í sambúðarerfiðleikum. Hann var föðurlaus, en þó ávallt í leit að karlsjálfi og vildi verða faðir. Hann þráði festu, en bjó lengstum við talsverða óreiðu í hinu ytra. Hann þráði einfalda hamingju, en varð fyrir alls konar stórstjóum í lífinu. Hann var maður hinna andstæðu póla, náði að nýta sér þá vel í listrænni iðju en túlkaði æ skýrar, að köllunin væri trúarleg og handan átaka þessarar tímanlegu tilveru.

Þegar hann varð fyrir trúarvitruninni 1. maí 2003 slitnuðu sumar pólafestingar hans. Hann byrjaði að losna frá ýmsu því sem áður hafði hamið hann. Ekstatísk reynsla breytir persónum. Hann sá gullnar hendur af guðlegu tagi taka á móti sér. Maður í myrkri, sem sér fyrir sér munna að ljóssviði eilífðar gengur á ljósið. Við hörmum, syrgjum og grátum, en skýringarnar eru til og hliðstæðurnar eru þekktar.

Tíminnn var fullnaður, eilífin var að fæðast. Hendurnar fallegu tóku við, hugurinn hafði flogið á vængjum trúarinnar. Hann sá fram til hásætisins. Það, sem hann las, áður en hann dó. “Himinninn er hásæti mitt og jörðin er fótskör mín. … Hönd mín hefir gjört allt þetta og þannig er það allt til orðið … Þeir sem ég lít til, eru hinir þjáðu og þeir er hafa sundurmarinn anda og skjálfa fyrir orði mínu.”

Hann skalf fyrir orðinu, skalf fyrir hinu guðlega, sá hásætið. Hann sá þig, okkur öll, fannst sárt að fara en hann hafði köllun. Erfðu það ekki við hann, leyfðu honum að fara. Þú ert hér, refsaðu þér ekki, þú gast ekkert gert. Álasaðu ekki, dæmdu ekki, og gerðu alls ekki það sem hann taldi sér nauðugt.

Máttur Guðs er stórum meiri en við skiljum, faðmur Guðs er stórum meiri en allir pólar mannlífs, skoðana, hugmynda og fordóma. Elska Guðs er meiri en gjafmildi manna skilur. Maðurinn er sandkornið á ströndinni, kærleikur Guðs hafið. Örn Jákúp Dam Washington er í því stórfangi, sem er alger friður, alger stilla, alger orka, fullkomin elska. Hann er ekki lengur á ströndinni heldur umlukinn öldum eilífðar.

Neskirkja, 29. júlí 2005.

 

Jóna M. Sigurjónsdótir

„…að hlæja hefir sinn tíma, að kveina hefir sinn tíma og að dansa hefir sinn tíma… “Prédikarinn 3.4.

Jóna geislaði í framan, augun hlógu, hún dansaði djive með stæl. Var alveg tilbúinn að leyfa Þórði að stjórna ferðinni. Hann fann hvernig hún fylgdi og naut augnabliksins. Þetta var þeirra dans laugardagskvöld, haustið ’58. Þau sveifluðust um á gólfinu og svo út í lífið. Sporin voru ólík eftir kröfum daga og aðstæðna. Alltaf voru þau í faðmi hvors annars, allt til enda fyrir viku. Þar voru lokin, vangadansinn.

Fyrstu spor Jónu voru á holtum og mýrardrögum við þarafjöru Skerjafjarðar. Hún tók þátt í ævintýrinu, þegar Ísland nútímans varð til, lagði til þess líf sitt, þjónustu, sögur og gæsku. Jóna var flottur dansari, skynjaði ryþmann, vissi nákvæmlega hvenær gefa skyldi eftir og hvenær bæri að taka hlé. Hún gaf og umvafði, varð sínum mikil móðir, faðmur og maki. Hvað er lífið, hvernig er hægt að lifa? Hvað er að lifa vel?

Ætt og samhengi

Hanna Jóna Margrét fæddist í Reykjavík 13. febrúar 1942. Foreldrar hennar eru Guðrún Ingibjörg Jónsdóttir og Sigurjón H. Sigurjónsson og lifa hana bæði. Systkini Jónu eru Sigurjón, Guðjón, Viðar og Gunnhildur. Guðjón lést árið 1990. Nýfæddri var Jónu komið fyrir hjá Margréti Kjartansdóttur og Georg Jónssyni, á Reynivöllum. Vesturbæingar, sem komnir eru á miðjan aldur, muna Georg, sem fór um á Austin Gypsy og færði húsmæðrunum bökunaregg! Margrét og Georg tóku Jónu að sér og urðu fósturforeldrar hennar. Í börnum þeirra eignaðist Jóna einnig fóstursystkinin, Önnu og Kjartan. Jóna átti því stóra fjölskyldu, marga til að læra af og halla sér að.

Uppeldisreitur og atvinna

Jóna bjó lengstum í Skerjafirði. Hún sótti hverfisskólann, Melaskóla, sem var nýbyggður þegar hún kom þar við sögu. Þaðan fór Jóna síðan í Gaggó Vest. Þegar á unglingsárum axlaði hún ábyrgð á heimilisrekstri á Reynivölllum, sem nú heitir Skildinganes 4. Hún varð snemma móðir og kunni uppeldisstörfum vel og sameinaði því að hlúa að fósturföður, tengdamóður og fjölskyldu. Eftir stuttan stans í Stigahlíð flutti Jóna í Skerjafjörð að nýju. Með húsmóðurstörfum gætti hún barna og varð svo líka forystukona dagmæðra. Jóna vann ötullega að réttindamálunum og varð fyrsti formaður samtaka þeirra í Reykjavík.

Þegar Jóna lét af barnfóstrinu hóf hún að vinna á skrifstofu Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Síðan lá leiðin á Borgarspítalann og enn síðar í hið mikla brauðhús Mylluna. Nokkur sumur sá hún um kaffihlaðborðið í Nesbúð á Nesjavöllum og eitt sumar vann hún að veitingastörfum í torfbænum á Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Jóna var ekki bundin við landsteina, fór m.a. segja á sjó einu sinni á frystitogaranum Örvari. Einn túr var alveg nóg til að hún gerði sér grein fyrir að velgja fylgdi veltingi! Síðustu árin var Jóna síðan starfsmaður Hagaskóla, matmóðir unglingana í Vesturbænum og var þeim að auki stuðningur og stefnuviti. Þar fylgdi störfum engin ógleði.

Þórður og fjölskyldan

Þegar Jóna fór snemma á dansleikinn í Gúttó laugardagskvöldið 1958 kom hún auga á strákinn, sem var svo góður dansherra. “Þarna er hann” sagði hún við vinkonurnar sínar, var hrifinn og hafði sett kúrsinn. Auðvitað hafði hún séð Þórð M. Adólfsson og féll fús í faðm hans, leyfði honum að stjórna á dansgólfinu. Þau dönsuðu síðan saman í gegnum lífið, með öllum sporum og tilbrigðumn valsa og ræla. En það var ekki alveg einfalt að giftast Þórði. Jóna þurfti leyfi frá forsetanum til! Hún var það ung. Svo gengu þau í hjónaband heima í stofu 14. nóvember 1959, á afmælisdegi Dodda.  

Þeim Jónu og Þórði fæddust fimm börn. Fyrst var Margrét Þórunn, en hún lést aðeins 10 mánaða gömul. Allir foreldrar ættu að geta skyggnst inn í sorgina, sem þau voru þá slegin. En svo kom Sólborg Hulda og hennar maður er Atli Karl Pálsson. Sigurjón var næstur. Kona hans er Hrafnhildur Garðarsdóttir. Þá kom Ragnheiður Margrét. Maður hennar er Jón Oddur Magnússon. Yngst er svo Gróa María. Maki hennar er Baldvin Kárason.

Jóna var alla tíð mannræktarkona. Hún ól önn fyrir fósturforeldrum, foreldrum, skyldfólki og börnum. Og hún var lukkukona í lífinu, átti væn og góð börn, naut ástríkis þeirra og barnabarna og afkomenda. Hún gekk undir sínu fólki ef þess þurfti með, agaði ef á þurfti að halda, sótti ef þau voru strand einhvers staðar, átti alltaf bita í munna, fullan ísskáp af ribssultu til að seðja svanga smákroppa. Amma Jóna studdi barnabörn sín. Jóna hafði unun af að leika sér með sínu fólki, hún föndraði gjarnan með þeim.

Jóna sótti barnabörn út í bæ eða jafnvel norður í land, þegar eitthvað stóð til eða mikið lá við. Hennar fólk stóð aldrei munaðarlaust eða ráðlaust einhvers staðar. Þegar Jóna hafði greint stöðuna, fór hún af stað og tók til sinna ráða og Doddi fór með. Í öllum efnum, verkefnum og atferli smitaði hún þeirri lífskúnst að viðfangsefni væru síður vandamál en viðfangsefni. Hugsun og lífsafstaða Jónu var ekki kreppumiðuð heldur mun fremur lausnamiðuð. Því leystust öll mál í hennar höndum og hún hafði ávallt skoðun á hvað færi best og væri farsælast.

Félagsmál

Bjartsýni, dugnaður og jákvæðni smitar og því var eðlilegt að Jóna væri eftirsótt í félagsstarfi og meðal fólks. Hún starfaði um árabil í skátafélaginu Landnemum og var þar deildarforingi, fór í útilegur og hélt námskeið. Hún axlaði eðlilega ábyrgð og var forystukona. Hún var því frumkvöðull að mótun þegar hún hóf afskipti af réttindabaráttu hinnar nýju stéttar dagmæðra. Síðan tók Jóna að leggja kirkjunni sinni lið og varð formaður í Kvenfélagi Neskirkju, sem hefur um áratugi verið helsta driffjöðrin í að fegra kirkju og hlúa að hinu andlega heimili, sem kirkjan er. Þar var Jóna í forystusveit vaskra kvenna. En nú falla þær hver af annarri og kvenfélagið með þeim. Þökk sé þeim öllum og þökk sé Jónu hennar störf í þágu kirkjunnar.

Síðan var hún öflugur uppalandi  þúsunda ungmenna í Vesturbænum, þar sem hún stýrði mötuneyti í Hagaskóla. Hún kenndi kúnstugum að skilja, hafði stjórn á ungviðinu. Nemendur Hagaskóla voru fljótir að læra, að það þýddi ekki að reyna að snúa Jónu niður eða trufla friðinn. Ef þau ætluðu lengra en góðu hófi gegndi eða breyta leikreglunum sem hún setti lokaði hún bara sjoppunni. Jóna iðkaði stefnumál Hagaskóla, að koma öllum til nokkurs þroska. Hún ól með sér jákvæða mannsýn. Hún tamdi sér umburðarlyndi gagnvart hegðun, tilraunum, og lífsferli annarra. Hún skildi fjölbreytileikann og að fólk er ólíkt. Hún mætti fólki þar sem það var og á þess eigin forsendum. En sjálf fór hún eigin leið, lagði gott til, dæmdi ekki, en skemmti sér svolítið og hló að hinu kátlega.

Húsmóðirin

Tíu ára byrjaði Jóna að sjá um heimili í Skerjafirði, ung var hún þegar hún fór að elda krásirnar fyrir Dodda sinn sem alltaf tók vel við og hafði líka á henni matarást. Margir voru barnamunnarnir, sem hún eldaði fyrir, oft var hún að matargerð, og hafði löngum atvinnu af. Líklega fannst henni best að elda það sem munnarnir tóku við. Matur var fyrir lífið, en ekki endir í sjálfu sér. Jóna var listakokkur en hún var ekki síðri baksturssnillingur. Aldrei neitt mál að slá í köku og þeir sælkerar Nói og Síríus höfðu vit á að gefa út kökuhefti, sem Jóna sá um. Alltaf var hún veisluglöð, efndi til þorrablóta með vinum og hélt stórveislur heima. Hún hafði gaman af nýjungum í matarmálum, sótti námskeið, gerði það jafnvel að hobbíi að fara með dætrum sínum á matarnámskeið Hagkaupa. Þau Jóna og Þórður þjónuðu sínu fólki, urðu í því fyrirmynd fyrir börnin sín og vini. Er það ekki undursamlegt að nú þegar hún er öll kemur þetta fólk, stendur saman, og leggur til allar veitingar og þjónustu í erfidrykkjunni í safnaðarheimilinu hér á eftir. Í því greinum við tjáningu og þakklæti. Og Þórður og fjölskyldan eru böðuð í kærleika. Þegar maður er opin sorgarund sefar umhyggjan. Guð laun.

Af hverju?

“…að hlæja hefir sinn tíma, að kveina hefir sinn tíma og að dansa hefir sinn tíma…” segir í þeirri fornu spekibók Prédikaranum. Af hverju er hún Jóna hrifin á brott í miðju dagsverki? Hvað tilgangur er í því? Vildi Guð taka hana á brott? Nei, Guð slítur ekki ástvini okkar úr faðmi okkar, úr lífi okkar. En Guð hins vegar tekur við þeim, sem við elskum og varðveitir þau. Á því er allur munur, að Guð beitir sér ekki í dauða, heldur tekur við hinum látnu. Það er ekki einhver hulin ráðsályktun fólgin í að fólk deyr fyrir tímann og Jóna fór fyrir aldur fram. Hún dó í miðju dagsverki, hún dó frá fólki sem þarfnaðist hennar, Þórður og öll börnin hennar hafa misst hana. Það er stóra sorgarefnið, en svo er það verkefni okkar sem lifum að vinna með höggið, bregðast við því og rísa upp þó mátturinn sé veikur. Jóna stefndi á lausnir.

Hvað er lífið og til hvers? Jóna var mikil fyrirmynd, hvati til að lifa vel, þjóna öðrum, umfaðma þau sem þörfnuðust hjálpar, hlý hendi þeim sem var kalt eða voru óstyrk. Alltaf reiðubúin til að efla og styðja, næra, klæða, strjúka. Amma Jóna var fullkomin, sagði lítil kona í Skildinganesinu í fyrradag.

„…að hlæja hefir sinn tíma, að kveina hefir sinn tíma og að dansa hefir sinn tíma…” Sorgin kemur til okkar allra og við missum. Ekkert okkar sleppur. Það er mikilvægt að muna, að hláturinn hefur líka sinn tíma, brosin, spaugið, strokurnar líka. Hin helga bók hefur líka orð um dansinn, hann á sinn tíma.

Sporin fram á við, mjaðmahnykkur og hlátur þeirra Jónu og Dodda. Hamingjuspor alla ævi, lifandi hjörtu fólksins sem þau elskuðu allt umhverfis þau. Dansinn dunaði í öllum myndum, við ljósa daga og skuggsetta. En vangadansinn endaði á föstudeginum fyrir viku síðan, Jóna lést 6. maí, inn í vorið, inn í hvítasunnu, inn í söng fulglanna við Skerjafjörðinn. Ribsberjarunnarnir hennar blómstra, berjavísarnir eru margir í ár, en Jóna er fjarri, fingurnir hennar munu ekki fara um grannar greinar og lesa bleik og rauð berin næsta haust. Hún mun ekki sulta í ár.

En hún heldur áfram dansinum, á dansgólfinu stóra í “Guttó himinsins.” Þar hindra engin ökklamein, þar er ræll og tangó ein samfelld skemmtun. Því þar ríkir gleðin ein, þar eru þær mæðgur saman, áar og eddur, frændgarðurinn allur, því þar er Guð, himinn, elska og gáski.

Í því er vonarboðskapur kristninnar að dauðinn er ekki meir, því Guð er Guð lífsins, lætur sig velferð manna varða, alls sem er. Lífið er ekki lítið og smátt, heldur mikið og gott, því Guð elskar, bæði þig og Jónu. Það er hinn himneski djive.

Neskirkja, 13. maí 2005

 

Unnur Kristjánsdóttir

„…og mannsins barn að þú vitjir þess.”

Er það ekki stórkostlegt þegar ástin verður til við fangelsi? Það var á móts við Hegningarhúsið, sem Unnur sá Jón og hann hana! Á Skólavörðustígnum voru lífsleiðir þeirra tengdar saman. Hann var á leiðinni til mömmu í mat, hún var á sinni leið milli saumastofu Kápunnar og heimilis. Hegningarhúsið hefur sjaldan verið talið ástartákn, en Unnur var húmoristi, kannski vissi hún um ferðir Jóns og valdi jafnvel staðinn! En ævi þeirra Jóns var líf í frelsi, án helsis, líf fyrir hvort annað og í krafti hvors annars. Þeirra hús var hús elskunnar. En Skólavörðustígurinn til móts við Hegningarhúsið verður ávallt rómantískur staður í mínum huga eftir að ég heyrði Jón segja svo fallega og blíðlega frá ástarvitrun þeirra!

 Ætt og uppruniUnnur Kristjánsdóttir fæddist í Ytra-Skógarnesi 19. maí árið 1926. Reyndar fæddust tvær stúlkur þennan dag, því Unnur var tvíburi, hin systirin er Auður. Foreldrarnir voru hjónin Kristján Ágúst Kristjánsson bóndi í Ytra-Skógarnesi og skjalavörður Alþingis (f. 4. ágúst 1890, d. 4. júlí 1934) og kona hans Sigríður Karítas Gísladóttir húsfreyja (f. 7. febrúar 1891, d. 15. nóvember 1988).  Systkini Unnar eru Hanna,  Baldur, Jens, Auður, Arndís, Einar Haukur, Jóhanna og Kristjana Ágústa. Af þessum stóra hóp eru, auk Unnar, Hanna og Baldur látin. 

Löngufjörur og lífið

Löngufjörur – Unnur fæddist við strönd hins mikla hafs og fjörurnar hennar voru hinar stórkostlegu Löngufjörur, sem minna á eitthvert upphafið sæluríki á himnum. En lífið í Miklaholtshreppi á fyrstu áratugum 20. aldar var þó ekki óbrotin sæla og fjörugáski. Ströndin og Ytra-Skógarnes eiga líka sögur af áföllum. Fjölskyldusagan spannar bæði hamingju, en líka miklar raunir og átök. Við erum öll mótuð af upphafi okkar, ekki aðeins hvað erfðaefni varðar, heldur líka af aðstæðum og áföllum, sem verða. Unnur var ekki að dröslast með óþarfa fortíðarslóða, hún kunni að snúa við blaði, hafði vitsmuni, skopskyn og vilja til að að lifa við aðstæður hverrar tíðar. Kraftmikil fjölskylda sem farnaðist vel. Húsmóðirin heima, pabbinn með mörg járn í eldi og líka við Austurvöll, frumkvöðull og frömuður mennta. Á árunum 1922 – 1934 fæddust þeim Ytra-Skógarneshjónum níu börn. Og þá voru þau slegin, Kristján Ágúst lést skyndilega. Elsta barnið var 12 ára og hið yngsta nýfætt. Hvaða sár opnast við slíkar aðstæður? Auðvitað bitu allir á jaxlinn, héldu áfram að lifa. Það hjálpar þegar hópurinn er stór. En júlídaginn 1934 var upphafið að endinum. Sigríður hélt áfram búskap, með aðstoð aldraðs föður og í krafti samheldni barna. En svo fóru þau að fara eitt af öðru og líka Unnur. “Hvað er þá mannsins barn?”

 Skóli og vinna

Unnur sótti fyrst skóla á heimaslóð, en fór svo í Reykjaskóla með systur sinni. Síðar lá leiðin í húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Eins og dugmikið æskufólk þessa tíma hikaði hún ekki að fara í aðra landshluta, var m.a.s. ráðskona í vegagerð í Skagafirði og síðar við Garðabæ. Í Reykjavík vann hún ekki síst við sauma, á Toledo og líka Kápunni. Hún hafði góðar tekjur. Unnur tók þátt í hinu stóra ævintýri þegar íslensku samfélagi var umbylt, atvinnuvegir breyttust, straumurinn var úr sveit í borg, þar sem ný hverfi risu með ógnarhraða. Íslensk æska, með íslensk viðmið og óbilandi orku til uppbyggingar. Unnur var hluti þessa krafttíma hins unga lýðveldis, sjálfstæðrar þjóðar. 

Jón og hjúskapur

Í lífssveiflunni hittust þau Jón svo. Þau höfðu nú svo sem séð hvort annað áður en Skólavörðustígurinn lifnaði af ást. Jón hafði séð þennan vel klædda kvenmann á balli í Vetrargarðinum í Tívolí, þessa með stóru brúnu augun. Honum leist vel á hana. Einhver hafði líka hvíslað að Unni að hún skyldi hafa augun með honum líka, þetta væri góður strákur! En svo leið tíminn. Vorið 1951 var hentugur tími að finnast að nýju og þau leiddust síðan í gegnum lífið. Þann 12. júní 1953 gengu þau svo í hjónaband og voru því búin að eiga samleið meira en hálfa öld þegar yfir lauk 30. maí síðastliðinn. Fyrstu hjúskaparárin leigðu þau á Skeggjagötu 6. Jón var starfsmaður Pósts og síma og formaður í byggingafélagi símamanna spurði hvort þau hjónin vildu ekki taka eina íðbúðina í símablokkinni við Dunhaga. Tilboðið var einfalt, þau Unnur þyrftu ekki að eiga neina peninga, þetta kæmi allt af sjálfu sér! Hin íslenska aðferð og auðvitað gekk hún eins og í flestum tilvikum. Fyrsta innborgun tíu þúsund kr. var ekki auðveld viðureignar en þau hvikuðu ekki. Þeim tókst að öngla saman og gátu haldið áfram og með hjálp ættingja og vina.

Saga Jóns og Unnar er í hnotskurn saga fólksins á Melunum og Högunum og kannski flestra nýbyggingahverfa Íslands á tuttugustu öld. Þarna varð heimili fjölskyldunnar og umhverfi, með öllum tilbrigðum, kostum, möguleikum og spennu nýbyggingarhverfis. Stutt niður í fjöruna til grásleppukarlanna, stutt í mjólkurbúðina og KRON. Dóri í fiskbúðinni seldi fiskinn og barnafjöldinn var næsta ótrúlegur í hverfinu. Börnin uxu inn í þetta umhverfi á Högunum.

 Börnin og afkomendur

Börn Unnar og Jóns eru Guðfinna Alda Skagfjörð, sem starfar sem viðskiptafræðingur hjá dönsku póstþjónustunni. Maður hennar er Björgvin Gylfi Snorrason og eiga þau tvær dætur, Karen Lilju og Evu Björk. Sonur Unnar og Jóns er Gísli Skagfjörð, verkfræðingur hjá Símanum.

Dunhagablokkin

Unnur var sátt við blokkina sína og að búa í Vesturbænum. Þegar börnin voru komin í heiminn hætti hún launavinnu um tíma, sá um sitt fólk og hélt um heimilisreksturinn, eins og konur af hennar kynslóð. Jón var kallaður til starfa vestur á Snæfellsnes, þegar lóranstöðin var reist við Hellissand. Þá fóru þau vestur, en seldu þó ekki íbúðina sína, ekki heldur þegar þau fóru svo á Selfoss og Jón varð stöðvarstjóri Pósts og síma þar eystra. Þá voru Alda og Gísli áfram á Dunhaganum.

Öllum er mikilvægt að eiga sér festu og grunnstöð. Unnur fór víða í lífinu, hún átti sinn heimareit, en gat því farið nokkur ár vestur, síðan austur, margar ferðir til Danmerkur og svo víða um heim. Hún gat farið á fjörur suður á Spáni eða sprangað um löngu fjörur veraldar en alltaf kom hún heim í hreiðrið þeirra Jóns. Þar naut hún að vera og með sínum manni.

Vestur og víðar

Gufuskálaárin voru hamingjuár. Starfsmenn voru margir og fjölskyldur þeirra mynduðu stórt þorp. Krökkunum leið því vel, en svo fóru þau í bæinn aftur, krakkarnir ekki alsáttir, en mamman kát. Hún fór að vinna úti að nýju, saumaskapurinn lék í höndum hennar og Vinnufatagerðin naut krafta hennar. Á Selfossi starfaði Unnur í afgreiðslunni á pósthúsinu. Þegar þau Jón sneru svo enn til baka til Reykjavíkur starfaði hún á pósthúsinu í Umferðarmiðstöðinni og kunni vel að vera á þeirri þjóðbraut.

Hvað er mannsins barn?

“Hvað er maðurinn, að þú minnist hans og mannsins barn að þú vitjir þess?” spurði skáld fyrir þúsundum ára og þessi orð eru varðveitt í sálmasafni Biblínnar. Mannsins barn, hvers virði er það? Hvað er það að lifa og hvernig er hægt að lifa svo vel sé?

Lítil stúlka á langri fjöru, við stóran sjó, undir stórum himni og svo hvarf pabbinn. Af hverju? Hvers vegna er lífið svona en ekki hinsegin? Unnur var alla tíð raunsæ og lét ekki ónytjugrufl og óþarfa velta sér eða umturna. Hún var greind og glögg, setti sér sín markmið og náði þeim, hafði elju og alúð við það sem hún ætlaði sér, kunnáttusöm og hlý í mannlegum samskiptum og góð móðir og eiginkona. Hún var öflug í tengingum. Auðvitað er það ágætlega við hæfi að öll fjölskyldan skuli hafa verið í póst- og símastörfum með einum eða öðrum hætti. Þetta fólk kann að tengja, ná sambandi. En svo handan við skiptiborð lífsins er skiptiborðið stóra á himnum. Þar er spurt um manninn og svar manna er gjarnan af hverju þetta og af hverju hitt. Hvað er mannsins barn að þú vitjir þess?

Löngufjörur himins

Unnur var öflug kona. Þegar skygnst er yfir líf hennar sést vel hvernig hún hefur þjónað sínu fólki og alið önn fyrir ástvinum sínum. Hún hefur verið eins og póstur kærleikans, borið lífsbjörg til fólks, unnið plögg til að verja og fegra, hugað að velferð bónda síns, stutt hann, börn og systkin eftir því sem hún mátti.

Upphaf fyrir vestan, nú er hún á hinum löngu fjörum himinsins. Þar er engin þjáning, engin verkur eða veikindi. Þar eru engin slys eða missir, þar er hin mikla skiptistöð sem sér um algert samband, fullkomin tengsl og greiðar póstsamgöngur elsku og yndis.

Hvað er maðurinn að þú minnist hans? Unnur þjónaði alla tíð en Guð kristninnar er Guð algerrar elsku, umvefur alla með umhyggju sem er meiri og handan við það sem menn ímynda sér. “Með sæmd og heiðri krýnir þú” segir í Davíðssálminum. Guð himins elskar og opnar himinn sinn fyrir fólki.

Útför Neskirkju 21. júní 2005. Jarðsett í Duftreit Gufuneskirkjugarðs.

 

 

Herdís Jóna Guðnadóttir

Hversu merkilegt verður ekki spilarí himinsins þegar Guð stokkar með stóra stokknum, hægt verður að spila 75 grönd og 1000 spaða, eða hvernig sem þær stórsagnir himins verða! Þar verður Dísa í góðum hópi og í góðu formi. Útför Herdísar Jónu Guðnadóttur fór fram frá Neskirkju 23. febrúar 2005. Minningarorðin eru hér á eftir.

Spilað úr gjöfinni

Glatt fólk, við borð. Spil stokkuð um allan sal. Sumir tvískipta spilabunkanum og fella stokkana saman eins og tannhjól, aðrir bakblanda. Kliður fer um skarann, kátína smitar, nettur spenningur í lofti. Gefið og sagt, glímt við grandið, slagurinn hirtur, reiknað stíft hvað makkerinn á mörg lauf eftir eða hvort hjartaásinn var farinn. Augum gotið á mótspilarana, hvernig ætli spilin liggi? Svo er kanski svínað, stundum gengur það. Hlegið eða andvarpað. Það er gott að vera í hópi, sem getur skemmt sér saman, haldið heilanum við með flóknum útreikningum. Dísu var margt gefið og meðal þess var hæfni til spila og að deila tíma með glöðu og félagslyndu fólki.

Uppvöxtur Herdísar

Herdís Jóna Guðnadóttir fæddist í Reykjavík 15. apríl 1914. Foreldrar hennar voru Guðni Eyjólfsson, verkstjóri í Gasstöðinni í Reykjavík, og Sigrún Sigurðardóttir, húsmóðir. Hún var næstelst í stórum hópi systkina. Hin eru Njáll; Kjartan Ragnar; Gunnar Baldur; Hrefna Guðríður; Sigríður; Guðjón; Jóhann og Agnar, sem er yngstur. Kjartan, Guðjón og Jóhann eru látnir. Mér hefur verið falið að bera nærstöddum kveðjur frá Agnari og Fjólu konu hans og Sigríði og manni hennar Guy d’Bishop. Þau eru erlendis og geta ekki verið við þessa athöfn.

Herdís var Reykjavíkurmær, sótti skóla í bænum, ólst upp á Bergstaðastræti, lærði á lífið í reykvísku samhengi, kynntist lífsbaráttu stórra barnafjölskyldna, naut félagsmótunar í fjölmenni, náði að kynnast gömlum atvinnuháttum, lærði jafnvel að breiða fisk á klappir. Og hún fékk vinnu hjá Gasstöðinni.

Erlendur og fjölskyldan
Ung kynntist Herdís Erlendi Vilhjálmssyni frá Eyrarbakka (f. 11. sept. 1910), síðar deildarstjóra lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar ríkisins. Erlendur beitti sér í velferðarmálum og var áhugamaður um uppbyggingu verkamannabústaða norðan Hringbrautar og vestan elliheimilisins Grundar. Þau Dísa og Lindi, eins og þau Herdís og Erlendur voru nefnd, gengu í hjónaband og keyptu íbúð við Brávallagötu. Í nágrenni þeirra voru ættingjar í fimm íbúðum svo stórfjölskyldan var aldrei langt undan til gleði og stuðnings. Erlendur var formaður félagsins, sem sá um byggingu verkamannabústaða. Dísa var glögg í reikningi og kunni fjárumsýslu. Framkvæmdastjórinn var fljótur að gera sér grein fyrir að kona hans væri honum hæfari til bókhaldsins og Dísa lét til leiðast, varð gjaldkeri verkamannabústaða.

Verustaðir Herdísar eru eins og tákn um þróun Reykjavíkur. Hún bjó í Þingholtunum, fór í nýja úthverfið við Hringbraut, flutti síðan á Melana og fór síðan enn vestar og lengra frá miðjunni. Þegar uppbygging hófst á Melunum, sunnan Hringbrautar, fylgdist Dísa með hinum nýju landvinningum og uppbyggingu. Lindi lét til leiðast og þau keyptu sér íbúð á Reynimel 72. Þegar þau bjuggu á Brávallgötunni ættleiddu þau soninn Guðna tíu mánaða. Á Melunum undi svo fjölskyldan glöð við sitt. Guðni flutti svo að heiman í fyllingu tímans og eignaðist sína fjölskyldu. Þegar þau Steinunn Skúladóttir, kona hans, keyptu nýbyggingu í Granskjóli lögðu Dísa og Lindi sitt í  byggingafélag með syni og tengdadóttur og bjuggu saman í nokkur ár. Lávarðadeildin bjó uppi og unga fólkið niðri, með góðum samgangi milli hæða. Þegar enn urðu umskipti fluttu þau Dísa og Lindi á Flyðrugranda 16. Þar bjuggu þau til dauða beggja. Erlendur lést á árinu 1995 en Herdís lést 15. febrúar síðastliðinn.

Spilað úr lífsgáfunum

Öllum er okkur úthlutað til lífsins. Njáluhöfundur taldi að fjórðungi bregði til fósturs og erfðafræði og lífvísindi nútímans eiga sínar kenningar. Við vitum, að mismunandi lífsgæðunum er úthlutað. Ein fær spil fyrir grand og slemmu en öðrum hentar nóló fyrir lífið best. Svo eru sálar- og líkamsgáfur sú gjöf, sem spila verður úr.

Dísu var afar margt og vel gefið. Hún átti því æskuláni að fagna að alast upp í stórum systkinahópi. Hún var að auki næstelst, raunar elsta systirin. Það er álags- en líka stælingarstaða. Systkinahópur gefur félagshæfni og Dísa sótti í að vera með fólki, sem kunni að hlægja, gleðjast og vera saman. Hún var mikil fjölskyldukona og þótti best að vera með fjörmiklu fólki. Unga fólkið laðaðist því að henni. Henni var gefið léttlyndi og gáski. Hún kunni vel að glettast við fólk, skemmti börnum með sögum, sem reyndu jafnvel á trúgirni og voru því til þroska fyrir ungviðið. Henni þótti skemmtilegra að ræða við fólkið sitt á léttu nótunum og létta viðmælandunum með glettni og hlátri.

Umhyggjan

Dísa var fjölskyldustólpi. Hún lagði upp úr velferð ástvina sinna. Lindi var lengstum í önnum við uppbyggingarstörf samfélagsins og Dísa bjó honum traust og gott heimili þar, sem hann naut sín og átti líka tóm til að sinna bókum sínum. Svo þegar Guðni kom og varð þeim lífsverkefni voru þau sameinuð í uppeldinu og sköpuðu honum góðan vaxtarreit. Steinunn tengdadóttir varð henni vinkona. Barnabörnin 6 og 10 langömmubörn urðu henni síðan gleðigjafar. Dísa vakti yfir velferð þeirra, tók við þeim svöngum, var fljót að vekja með þeim matarást, sem síðan þroskaðist í ástríki. Aldrei taldi hún eftir sér að elda baunasúpu, sjóða saltkjöt, baka vöflur og pönnukökur, steikja kjöt og útbúa magnaða sósu, reiða fram einhverja veisluna til að gera sínu fólki gott.  Alltaf átti hún stund til að sinna ungviðinu, hvort sem það kom stutt eða langt að. Þegar fólkið hennar hóf verslunarrekstur var hún til í að nota reikningskúnstir og bókhaldsfærni til að fjármálin væru með sem bestu skikki. Þegar svo vantaði afgreiðslumann vöknuðu bisnissgenin og Dísa brilleraði niður í nr. 1 í Aðalstræti. Það munum við gamlir kúnnar, já allar þessar þúsundir sem þar komu.  Allt vildi hún vel fyrir fólkið sitt gera. Þegar einhverjir skemmtilegir þættir voru í sjónvarpinu skellti hún spólu í vídeótækið og tók upp til að senda Guðna og Kaupmannahafnargenginu. Það var margt skemmtilegt sem fór yfir hafið, þættir Jóns Ársæls og svo sótti hún líka á andlegu miðin og sendi dulrænt efni til skoðunar í sonarhús.

Hið góða líf

Lindi og Dísa kunnu að meta og sækja í hið góða líf. Þau beittu sér fyrir uppbyggingu samfélags velsældar. Við, sem höfum átt heima í verkamannabústöðunum norðan Hringbrautar, höfum tekið þátt á baráttu launafólks í landinu og orðið vitni að hvernig baslplássið Reykjavík umhverfðist í heimsborg vitum að kynslóð Dísu lagði hornstein velferðarinnar. Þau hjónin voru sameinuð í að vilja hag hinna öldruðu sem bestan. Þau beittu sér fyrir bættum húsakynnum verkalýðsins og lögðu á þær vogarskálar mikilvæg lóð.

Engin velsæld er sönn nema hún sé iðkuð á heimaslóð. Þau Lindi voru sælkerar. Þau nutu þess að borða góðan og kostaríkan mat. Fyrr og síðar þótti Dísu gott að njóta danskra gæða og þá ekki síst matarmenningar. Þau höfðu líka gaman af að ferðast og geta notið þess að fræðast og upplifa saman. Á tíma rótleysis er afstaða þeirra Dísu fyrirmynd um fegurð hins smáa og dýrmæti hins heimafengna. Hver kynslóð og hver einstaklingur þarf að upplifa með sjálfum sér og þarf oft margar atlögur til að uppgötva hina einföldu staðreynd, að hamingjan er heimafengin. Þetta vissi Dísa mætavel. Hún spilaði vel úr sínum spilum og vissi vel hvernig ekki mátti spila, annars væri spilið tapað. Heimili þeirra Linda og Dísu var bókaheimili. Þau höfðu bæði gaman af því að lesa. Þau höfðu bæði áhuga á fólki og lífi þess. Og Dísa las því alls konar bækur, innlendar og erlendar, skáldsögur og æviminningar.

Dísa hafði gaman af gæðum í hinu ytra líka. Henni þótti betra að fatnaður væri vandaður. Reykjavíkurdaman lærði að meta hvað gott var og fór vel. Svo þegar margt af hennar fólki var búsett í Danmörk fór hún gjarnan til þeirra og notaði tækifærið til að versla í magasínunum í Höfn, kíkti á skartgripa- og kjóladeildirnar. Svo kom það fyrir að hún væri með yfirvikt, en færibandsfólkið á Kastrup var svo upprifið yfir, að þessi lady með þungu töskurnar væri um nírætt, að fínu kjólarnir fóru í gegn. Auðvitað launaði hún bandafólkinu með umhyggjusamlegum kátínuaugum. Allir voru glaðir, en vinkonurnar heima hefðu alveg viljað að yfirviktin hefði verið stundum enn meiri!

Sívökul

Kynslóðir aldanna hafa lært handtök og viðbrögð af fyrirmyndum og eldri kynslóðum. Lífsspeki miðlum við frá einni kynslóð til annarrar, en í hraðri tækniþróun og sístæðri byltingu samfélags verður enginn “útlærður” í sínu fagi eða lífi. Allt er á fleygiferð, allir verða að aðlagast nýju lífsmynstri, nýrri tækni og þróun samfélags. Dísu var gefin áhugi á lífinu, þrek til að bregðast við breytingum og þor til að takast á við ný viðfangsefni. Vegna tengsla sinna við ungt fólk var hún ekki að sýta liðna tíð. Hún gat alveg horft á strákana á Popp Tíví, skemmt sér yfir bullinu, glaðst yfir Sveppa, lært á vídeotæki, fagnað nýrri græju, haft gaman af nýrri tísku, hvort sem það nú var í fötum eða búsáhöldum. Hún varðveitti ungæðingsháttinn í sér og lifði því vel í samfélagi sviptinga. Hún gat bæði skilið unga og gamla, var því síung, skörp og glaðvakandi. Því naut hún elsku svo margra og því var hún metin svo vel. Kannski má segja að í henni hafi búið æskuhneigð og eitthvert lífsins sídrif.

Athvarf kynslóða

„Þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns…Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Hvernig eru þessi lífsspil okkar? Hvað má segja og hvað er hægt að segja? Slagafjöldinn er takmarkaður og möguleikarnir ekki endalausir. Svo er í málum hjartans, lífsins, sálarinnar – eða hvað? Dísa spurði um stóru spilin líka. Hvert er vitið í þessari stóru spilamennsku veraldarinnar. Hún var einbeitt í sinni spilamennsku, stóð vörð um velferð fjölskyldu og þeirra, sem þurftu stuðning. En hvað meira? Hún vildi gjarnan sjá lengra og var til í að grennslast.

Hvernig skilur þú lífsmörk og dauða? Er allt búið þegar síðasta andvarpið líður frá brjósti? En þeim sem sættir sig við það smálíf, að lífið sé bara þetta og ekkert meira er það engin huggun. Það er mun stórkostlegri heimssýn og lífsýn að vænta þess að dauðinn sé fæðing til nýrrar veraldar. Því trúir hinn kristni, í því er m.a. fólgin von trúarinnar. Gastu ímyndað þér hvernig veröldin utan magans var þegar þú varst í móðurkviði? Varð ekki líf þitt fjölskruðugt? Getur þú fremur ímyndað þér hvernig lífið handan dauða er? Máttu ekki vænta þess að meira og enn stórkostlegra sé í vændum.

Guð hefur stokkað þessa veröld skemmtilega, með litum, hlátri, fjöri, góðum mat og góðu lífi. En hversu merkilegt verður ekki spilarí himinsins þegar Guð stokkar með stóra stokknum, hægt verður að spila 75 grönd og 1000 spaða, eða hvernig sem þær stórsagnir himins verða! Þar verður Dísa í góðum hópi og í góðu formi.

Hún kom sem dís inn í þetta litríka líf, hún var sínu fólki lífsdís. Nú er hún og Lindi í faðmi hans sem elskar veröldina. Guð geymi hana, huggi þau er gráta og sjá á bak elskuríkri konu. Guð varðveiti hana um alla eilífð og gefi okkur viturt hjarta í lífsspili okkar. Okkur hefur verið gefið og okkur ber að spila vel – eins og Herdís.

Neskirkja 23. febrúar 2005.