Þórður Jón Pálsson – Minningarorð

Hvernig getum við lifað vel? Arfi okkar breytum við ekki, en við erum þó öll frjáls að hvernig við lifum. “Réttu úr þér” sagði Þórður við þau sem voru bogin. Okkar ábyrgð er að vinna með það, sem gefið er og ávaxta við hæfi. “Af ávöxtum skuluð þér þekkja þá” var slagorð Silla og Valda sínum tíma. Og af ávöxtum Þórðar Jóns Pálssonar getum við þekkt hann. Börnin hans tala fallega um föður sinn, með ljóma í augun. Hann var glæsilegur, já, en gervileiki tryggir ekki gæfu. Gæfan, hamingjan er heimavinna hvers manns. Hann vann vel með sitt.

Skógurinn og lífsmerkin

Þrastarskógur er unaðsreitur, sem flestir þekkja af afspurn, margir hafa horft yfir en of fáir hafa gengið um, því hann er undursamlegur. Vottið Þórði virðingu með því að vitja skógarins, þessa ávaxtar vinnu hans í áratugi. Þar var ræktunarmaðurinn Þórður í essinu sínu, hlúði ekki aðeins að skógarplöntum og sinnti vörslu, heldur kenndi líka fólkinu sínu á lífið, samhengið og veitti þeim gæðatíma.

Elín brosti út að eyrum þegar hún rifjaði upp skógargöngurnar og sagði: “Það var yndislegt að labba á eftir pabba og spyrja hann um blómanöfn. Honum fannst það gaman líka. Einu sinni stóð hann á gati og sagði brosandi: Þetta er Guðnýjarstrá.” Dótturinni þótti merkilegt, að mömmunafnið tilheyrði svona jurt! Þórður hafði í sér þessa hlýju nálgun gagnvart fólki, nemendum sínum, náttúrunni og sjálfum sér að hann gat spunnið fallega, umbreytt skógargöngu í grasafræðslu og svo þegar hann stóð sjálfur á gati hafði hann í sér spunagetu til að vefa elsku til konu sinnar að upplifun stundarinnar. Við getum lifað lífinu með svo margvíslegu móti – þar sem einn sér ekki annað en ómerkilegan graslubba sér annar færi til að hrífast yfir lífinu. Vinnuferð í skógi getur orðið sem undraferð, sem varpar gleði yfir allt lífið ef ferðalangurinn hefur opin huga og vill lifa með gleði.

Ávöxtur og Jesúboðskapur

Fjallræða Jesú er ein frægasta ræða hans og í henni vakti hann meðal annars athygli á trjám, ræktun og árangri. “Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá… …Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu.” Hverju skilum við í lífinu? Er það sem við gerum gott eða slæmt, til góðs eða ills? Við erum ábyrg og þurfum að standa skil. Þórður lifði til góðs. Hann var ekki aðeins góður heimilismaður heldur var ávaxtasamur ræktunarmaður í skólasögu og líka í skógrækt þjóðarinnar.

Upphafið og áfall

Þórður Jón Pálsson fæddist 1. apríl 1921 á Eyrarbakka og lést í Reykjavík 12. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðbjörg Elín Þórðardóttir (4. des. 1896 – 25. nóv. 1983) og Páll Guðmundsson (26. september 1895 – d. 5. apríl 1927). Systkinin urðu sjö. Þau er lifa eru Halldór Guðjón (f. 1924) og Pálína (f. 1927). Látin eru Guðmundur Gunnar (f.1919 d. 1997), sem lést fyrir 10 árum, Ingileif en hún dó í bernsku (f. 1923 d.1924), Sigurður (f. 1925) lést árið 1981 og Páll Erlingur (f. 1926) lést árið 1973.

Dauðinn er vissulega nágranni okkar allra. Öll berum við í okkur endanleikann og þurfum að horfast í augu við hann. En misharkalega slær hann okkur. Þegar Þórður var nýorðinn sex ára stóð hann við innsiglinguna á Eyrarbakka og beið Páls föður síns, sem var á vélbátnum Sæfara. Við hlið hans stóð afi. Saman – og með hönd í hönd – sáu þér hvernig báturinn valt og saman gerðu þeir sér grein fyrir að pabbinn dó. Og smám saman gerðu þeir sér líka grein fyrir að lífið yrði ekki samt. Móðir Þórðar gekk þá með sjöunda barn þeirra Páls en eitt þeirra hafði dáið um þremur árum áður. Þeir Þórður og bræður hans urðu strax eftir föðurmissinn að axla aukna ábyrgð til að barnahópurinn sylti ekki. Þeir föluðust eftir vinnu og mikilvæg laun voru fiskur í soðið.

Aðalsteinn fóstri og velgerðarmaður

Alþingishátíðarárið 1930 var tímamótaár í lífi Þórðar. Námsgeta og skapfesta hans hafði vakið athygli Aðalsteins Sigmundssonar, sem var kennari og skólastjóri á Eyrarbakka. Aðalsteinn flutti til Reykjavíkur og bauð Elínu móður Þórðar, að koma honum til manns, sem hún þáði. Það varð honum til happs. Aðalsteinn var mikill menntafrömuður og vildi tryggja að þessi níu ára gamli drengur fengi tækifæri. Hann fóstraði hann og tók hann með sér suður er hann hóf störf í hinum nýja og metnaðarfulla Austurbæjarskóla.

Margir áttu Aðalsteini mikið að þakka og m.a. segir annar nemandi hans, Sigurjón Ólafsson, myndhöggvari, svo frá þegar hann leit til baka á fimmtugsafmæli sínu: “Aðalsteinn … kenndi mér að glúpna ekki fyrir erfiðleikum,“ Aðalsteinn stappaði sem sé stáli í þá, sem hann treysti. Frá Sigurjóni fáum innsýn í þá uppeldisaðferð, sem Þórður naut og skilaði sér fullkomlega, því aldrei varð honum hug- eða handaskortur gagnvart verkefnum lífsins. Það er sama lífshvötin, starfahvatningin sem börnin hans Þórðar fengu síðar. Leti var ekki í boði, verkefnum skyldi skilað og án nokkurra eftirgagnsmuna. Og engin skyldi óttast þótt vandinn væri talsverður, já viðfangsefni lífsins voru ekki til að lama eða veikja neinn heldur efla og styrkja til starfa og lífs.

Nám og flug

Þeir fóstrar Aðalsteinn og Þórður komu sér fyrir í umsjónarmannsíbúðinni í Austurbæjarskólanum. Eftir fullnaðarpróf frá Austurbæjarskólanum fór Þórður vestur í héraðsskólann á Núpi og þaðan í héraðsskólann á Laugarvatni. Hann lauk síðan gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Reykjavíkur.

Á æskuárum varð Þórður heillaður af flugi og var félagi í hópi, sem fékk aðstöðu í Þjóðleikhúsinu hálfbyggðu og þar smíðuðu félagarnir svifflugu, sem var svo flutt upp á Sandskeið. Í þessum hópi voru nokkrir af frumkvöðlum flugs á Íslandi. Sumir þeirra fóru vestur um haf til flugnáms og stofnuðu svo Loftleiði. Þórður íhugaði um tíma að fara sömu leið, en var ráðið frá því og hvattur til að láta fremur til sín taka á fræðslusviðinu en í skýjaglópsku, eins og margir álitu að flugið væri.

En auk flugsins gat hann sjálfur nánast flogið af eigin kröftum. Þórður stundaði fimleika í KR og var í sýningarflokki. Eftir stríð fór flokkur hans í frækna sýningaför til Norðurlandanna og Englands. Fimleikarnir stæltu, hann hafði síðan atvinnu af íþróttakennslu og naut hreyfingarinnar með góðri heilsu hið innra sem ytra.

Starfsárin

Árið 1942 varð síðan eitt af mikilvægustu árunum í ævi Þórðar því þá kvæntist hann, eignaðist fyrsta barnið og lauk prófi frá Kennaraskóla Íslands. Þaðan í frá og til starfsloka starfaði Þórður við kennslu í Austurbæjarskóla eða frá 1942 og til 1983. Veturinn 1949-1950 fór hann til Danmerkur og nam við hinn kunna íþróttaskóla í Ollerup. Þar höfðu margir Íslendingar verið og voru líka síðar. Heimkominn hélt Þórður áfram kennslu bæði í leikfimi og bóknámsgreinum og var yfirkennari Austurbæjarskóla síðustu árin.

Til að sjá sístækkandi fjölskyldu farborða sinnti Þórður ýmsum aukastörfum. Hann kenndi leikfimi í Stýrimannaskólanum í nær tvo áratugi, var þjálfari t.d. í fimleikum og handbolta hjá ýmsum íþróttafélögum. Þórður var alla ævi afar heilsugóður og vafalaust gat hann að einhverju leyti þakkað sér þau gæði sjálfur, því hann lifði heilbrigðu og heilsusamlegu lífi. Eftir að hann lauk starfsskyldum í kennslunni vann hann í Kjötmiðstöðinni í nokkur ár hjá Hrafni tengdasyni sínum sem og við fyrirtæki Kjartans, sonar síns, um tíma.

Guðný og börnin

Lífsförunautur og lífsgæfa Þórðar var Guðný Eiríksdóttir (15. september 1916 – 8. september 1997). Þau gengu í hjónaband 24. maí 1942, nutu barnaláns og eignuðust sex börn. Þau eru: Elín (f. 1942) gift Reinhold Kristjánssyni, Steinunn (f. 1943) gift Hrafni Bachmann, Aðalsteinn (f. 1945) kvæntur Guðrúnu Jóhannesdóttur, Kjartan (f. 1949) kvæntur Helgu Kristínu Einarsdóttur, Gunnar (f. 1953) kvæntur Hafdísi Kjartansdóttur og Páll (f. 1958) en hann lést á árinu 2006.

Þórður og Guðný hófu búskap á Sólvallagötu 58 í litlu plássi þar sem ástin ríkti. Hópurinn fyllti vistarverur en leigusalinn vildi ekki að þau færu fyrr en þau færu í sitt eigið. Það gekk eftir, Þórður sló ekki slöku við byggingarstörfin og haustið 1950 fluttu þau að lokum í rúmgóða íbúð á Melhaga 5. Þar sköpuðu þau sér góðan reit um hamingju og börn.

Barnaskólinn á Melhaga

Mörgum kom Þórður til manns í kennslunni í Austurbæjarskólanum og margir minnast öflugs kennara. Börnin á Högum og Melum fóru í Melaskóla og þar var þeim raðað í bekki eftir lestrarkunnáttu. Guðný og Þórður gerðu sér grein fyrir að forskóla væri þörf og mörg barnanna þörfnuðust undirbúnings til að verða vel búin til prófs og skóla. Þau stofnuðu smábarnaskóla og starfræktu hann í stofunum heima frá 1951-1970. Allt að tuttugu börn voru að námi samtímis og jafnvel var þrísetið. Að þetta var mikilvægt starf verður ekki efað og þrír forsætisráðherrar Íslendinga fengu sína fyrstu skólakennslu hjá Guðnýju og Þórði.

Skógræktin

Þrastarskógur varð drengnum af Eyrarbakkaströndinni ævintýraveröld. Aðalsteinn, fóstri hans, gegndi þar skógarvörslu. Ungur fékk Þórður að fara með honum. Skógurinn og Þórður áttu síðan langa og farsæla samleið. Hann tók við skógarvörslunni af Aðalsteini og sinnti henni frá 1943-1974. Skógurinn varð sælureitur fjölskyldunnar og Guðný og börnin voru eystra þegar Þórður var að byggja í Reykjavík eða sinna öðrum launastörfum. Ræktarsemi og starf þeirra eystra verður ekki nógsamlega lofað og seint fullþakkað. Þau lögðu jafnvel út fyrir plöntum þegar ekki var fé til kaupa eða greiða strax.

Fyrir hönd þeirra hjóna voru Þórði veitt heiðursverðlaun Skógræktarfélags Íslands árið 1963 fyrir skógræktarstörf. Gullmerki UMFÍ hafa ekki verið veitt nema tveimur utanfélagsmönnum i nær aldarsögu þess. En árið 1985 var Þórður sæmdur merkinu fyrir störf sín í Þrastarskógi. En að baki og með honum var öll fjölskyldan, öll komu þau að plöntun og umönnun skógarins og nutu unaðar og dýrmæta svæðisins, lærðu á Sogið og nutu náttúrfræðikennslu föðurins á vettvangi og fengu ögrandi verkefni að glíma við og fengu innsýn í líf náttúru, lífsbaráttu kynslóða og glímu manna við náttúruöfl. Þau lærðu ekki aðeins að veiða, trjárækt og áralagið, heldur ekki síður hitt sem Þórður kunni svo vel að miðla, að læra áralag lífsins og axla ábyrgð með skyldurækni á sínu ábyrgðarsviði.  

Lund og verk

Þórður var natinn faðir, öflugur uppalandi, traustur í samskiptum og glaðsinna. Hann skapaði ásamt Guðnýju gott heimili og vaxtarreit fyrir börnin. Uppeldið var skýrt og hvetjandi og skammalaust. Honum var mjög í mun að koma börnum sínum til manns. Samheldni og samvinna er afrakstur Melhagauppeldisins. Þórður var traustur í öllum verkum sínum og þótt honum byðust vegtyllur í lífinu tók hann ákvörðun um að fara hvergi frá Austurbæjarskólanum. Hann mat líka frelsið til að vera fyrir austan í skógarvinnunni. Þar hafði fjölskyldan líka gott umhverfi og vettvang við hæfi ungviðisins. Þórður var öðrum fyrirmynd um bindindissemi og hollustuhætti. Hann lagði sig eftir að hafa góð áhrif á uppvaxandi fólk, setti sig á skör með börnum og þau hændust að honum. Hann vildi líka, að menn bæru virðingu fyrir sjálfum sér og líkaminn bæri merki innri ögunar. Hann var orðvar en góður sögumaður, kurteis, hugaður og víllaus, ljúfur en þó ákveðinn. Í hinu ytra bar hann merki innri ögunar, ávallt snyrtilegur. Ameríkanar segja að skórnir segi hver þú ert og skórnir hans Þórðar voru alltaf skínandi vel burstaðir.

Ferðir og missir

Þegar Þórður lauk störfum í Þrastarskógi urðu skil í lífi fjölskyldunnar. Þá fóru þau hjónin að ferðast meira, bæði innan lands og utan. Guðný var ekki heilsuhraust og Þórður gætti hennar vel. Aldrei kom betur í ljós hve natinn hann var við hana en þegar leið að lífslokum. Skil urðu svo þegar hún lést árið 1997 og ári síðar var Melhaginn seldur. Þórður flutti á Aflagranda 40 og bjó þar til æviloka. Þar eignaðist hann góðan vin í Sigríði Kjartansdóttur, sem reyndist honum vel. Börn Þórðar þakka Sigríði vináttu hennar og stuðning, sem hún sýndi honum síðustu árin.

Þrekmennið

Lítil saga var rifjuð upp í síðustu viku sem dregur vel saman mátt Þórðar og er sem táknmynd um styrk hans. Á heitum degi austur við Sog ákvað íþróttamaðurinn að kæla sig ofurlítið. Hann þekkti ána, hafði oft tekið sundtökin og meira segja einu sinni kafað til að bjarga gaddavírsrúllu sem hafði dottið útbyrðis og var á marga metra dýpi. Hann lagði fötin frá sér á bakkann, óð út í á og synti. Þegar hann var komin langleiðina yfir á fékk hann kuldakrampa, náði þó að velta sér á bakið og kraflaði sig upp á bakkann. En þá var honum vandi á höndum. Átti hann að ganga skólaus og berstrípaður niður á brú og síðan langa leið heim í hús, mæta öllum vegfarendum á Adamsklæðunum og reyna bera sig vel? Það þótti Þórði ekki fýsilegt og hann vissi að hann fengi annað krampakast ef hann synti að nýju yfir. Af tveimur kostum var sá síðari skárri og þann tók hann. Fékk krampann á leiðinni en náði landi. Hann var vaskur en þó ekki fífldjarfur, þekkti mörk sín og vissi hvað hann mátti leyfa sér.

Í Þórði Jóni Pálssyni er genginn góður og öflugur maður, sem bar ríkulega ávexti í einkalíf, kom sínu fólki og gríðarstórum hópi nemenda til manns. Hann þjónaði ræktun lands einnig. Hann var því einn af hinum mikilvægu vormönnum Íslands sem lögðu grunn að velferð og ríkidæmi þjóðarinnar. Í honum bjó andleg festa sem hann stælti alla tíð. Þórður mætti hverri raun sem viðfangsefni til að glíma við. Sálarstyrkur hans, lífskrafturinn, blasti við í víllausri afstöðu hans til manna og málefna. Kyrra hans, óttaleysi og umhyggja eru til fyrirmyndar þeim sem eftir lifa. Trén hans lifa, blöð og barr syngja lífssálma sína austur í Þrastarskógi, og afkomendur hans mega draga heim lærdóm frá Þórði, axla ábyrgð, leyfa hlátri, nánd, skemmtun og styrk hans verða til lífsauka. Okkar er að lifa vel og iðka mennsku okkar, vera ávaxtasöm. Guð geymi Þórð og varðveiti ávallt í eilífð sinni.

Neskirkja 22. janúar 2008

Æviágrip Þórðar Jóns Pálssonar.

Þórður fæddist 1. apríl 1921 að Leifseyri á Eyrarbakka og lést í Reykjavík 12. janúar 2008. Foreldrar hans voru: Guðbjörg Elín Þórðardóttir húsmóðir f. 4. desember 1896 í Reykjavík d. 25. nóvember 1983 dóttir hjónanna Ingileifar Tómasdóttur og Þórðar Sigurðssonar trésmiðs í Bræðraborg í Reykjavík og Páll Guðmundsson vélstjóri f. 26. september 1895 í Eyrarbakkasókn d. 5. apríl 1927 sonur hjónanna Guðmundar Jónssonar rokkasmiðs á Eyrarbakka og konu hans Guðrúnar Þorgrímsdóttur. Eftirlifandi systkini Þórðar Halldór Guðjón f. 1924 og Pálína f. 1927, en látin eru Guðmundur Gunnar f.1919 d. 1997, Ingileif f. 1923 d.1924, Sigurður f. 1925 d. 1981, Páll Erlingur f. 1926 d. 1973. Eiginkona Þórðar var Guðný Eiríksdóttir. Þau gengu í hjónaband 24. maí 1942. Guðný fæddist að Smærnavöllum í Garði 15. september 1921 d. 8. september 1997. Foreldrar hennar voru Guðrún Sveinsdóttir f. 1875 d. 1969 og Eiríkur Guðmundsson f. 1869 d. 1933 útvegsbóndi. Guðný átti 5 systkini sem öll eru látin. Börn þeirra eru: Elín f. 1942 gift Reinhold Kristjánssyni, Steinunn f. 1943 gift Hrafni Bachmann, Aðalsteinn f. 1945 kvæntur Guðrúnu Jóhannesdóttur, Kjartan f. 1949 kvæntur Helgu Kristínu Einarsdóttur, Gunnar f. 1953 kvæntur Hafdísi Kjartansdóttur og Páll f. 1958 d. 2006 ókvæntur. Þórður og Guðný hófu búskap að Sólvallagötu 58 en haustið 1950 fluttu þau að Melhaga 5 þar sem þau bjuggu eftir það. Ári eftir að Guðný dó flutti Þórður að Aflagranda 40 og bjó þar til dauðadags. Þórður var hjá móður sinni til ársins 1930, en þá fluttist hann með Aðalsteini Sigmundssyni, til Reykjavíkur og bjuggu þeir í Austurbæjarskólanum. Eftir fullnaðarpróf frá Austurbæjarskólanum fór Þórður fyrst í héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði og svo í héraðsskólann á Laugarvatni. Gagnfræðaprófi lauk hann árið 1939 frá Gagnfræðaskóla Reykjavíkur og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1942. Veturinn 1949-1950 nam hann við Íþróttaskólann í Ollerup í Danmörk. Þórður var kennari við Austurbæjarskólann frá 1942 til 1983, kenndi bæði bóknámsgreinar og leikfimi. Síðustu árin var hann yfirkennari við skólann. Þórður kenndi einnig leikfimi í Stýrimannaskólanum og á árunum u.þ.b. 1942-1960 var hann þjálfari hjá ýmsum íþróttafélögum m.a. í fimleikum, handbolta o.fl. Í nokkur sumur á yngri árum. var Þórður í byggingarvinnu, vinnu við höfnina o.fl. svo og einnig á ýmsum síldarbátum m.a. Ólafi Magnússyni frá Keflavík. Þórður starfrækti smábarnaskóla að Melhaga 5 veturna 1951-1970 og var skógarvörður í Þrastaskógi, skóglendi UMFÍ, sumrin 1943-1974. Við bæði þessi störf naut hann dyggrar aðstoðar Guðnýjar eiginkonu sinnar. Þórður dvaldi mörg sumur sem drengur í Þrastaskógi með Aðalsteini Sigmundssyni, og hann tók við skógarvarðarstarfinu eftir Aðalstein. Þórður hlaut heiðursverðlaun Skógræktarfélags Íslands árið 1963 fyrir skógræktarstörf í Þrastaskógi og gullmerki UMFÍ árið 1985 fyrir störf sín í Þrastaskógi og er hann annar tveggja utanfélagsmanna sem hlotið hafa gullmerki UMFÍ í nær 100 ára sögu þess. Á fyrstu árum svifflugs hér á landi um 1935 var Þórður í hópi ungra manna sem mættu flest kvöld í Þjóðleikhúsinu sem þá var hálfbyggt og smíðuðu svifflugu sem þeir fluttu síðan upp á Sandskeið, þar sem þeir æfðu svifflug.  Þórður var með svifflugsskírteini nr. 26. Þórður æfði fimleika með KR í mörg ár og fór með fimleikaflokknum í margar sýningarferðir um Ísland og einnig til Norðurlanda og Englands árið 1946. Þórður var meðal fánabera íslenska fánans þegar hann var dreginn að húni í fyrsta sinn á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 1944.

Geir Helgi Geirsson

Útför frá Neskirkju 14. desember 2007. Minningarorðin eru hér að neðan. 

Geir las alltaf notkunarleiðbeiningarnar! Á sálmaskránni er dásamleg mynd af honum að skoða kort og gögn. Hann vildi vita hvernig hlutir voru gerðir og hvernig ætti að fara með þá til að vel gengi og skemmdum væri varnað. Gilti einu hvort það voru notkunarleiðbeiningar Lister-ljósavéla, bíls, þvottavélar eða DVD-spilara. Geir var sjálfur öflugur framkvæmdamaður og mat gott verk, en grunnur þess var að hann flanaði ekki að neinu. Fagmennska er að þekkja gerð og ferla og gera hlutina vel.

Biblían er leiðarvísir um gott líf. Hana þarf að lesa og nema boðskap hennar til að allt gangi vel upp. Þar er rætt um tilgang lífsins og tengslin við þann sem stýrir þessari stóra veraldarskipi. Í áttunda Davíðssálmi lesum við lýsingu manns, sem er eins og barn, sem starir hrifið upp í glitrandi næturhvelfinguna.

„Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?”

Þetta eru grunnspurningar. Hvað er maðurinn í þessu stóra ofurgímaldi sem veröldin er? Erum við eitthvað meira en sandkorn á geimströnd – eða kannski fremur eins og ofurlítill blossi í safni tímans? Við lifum ótrúlega stutt, líðum útaf og hverfum í mistur tímans fyrr en varir. Er þá allt búið? Er þetta mannlíf aðeins skyndiferð, eins og snögg strandflutningaferð milli tveggja fjarða, svo allt búið og ekki meir? Á farmennska mannlífs okkar dýpri rök og markmið? Er það “skipafélag” sem við köllum heiminn vel rekið “fyrirtæki” og til góðs? Er eigandinn í brúnni traustsins verður, þessi sem við köllum Guð? Sálmaskáldið forna var sannfært um, að maðurinn er meira en rykkorn í geimnum, sannfærður um að stjörnur, tungl, dýr, fuglar himins og fiskar hafsins, menn, já allt sem fer hafsins vegu nytu elsku og að lífið er gott. Þess vegna getur skáldið haldið fram hinni góðu niðurstöðu um lífið:

 „… Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri…
Drottinn, Guð vor,            
hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.“

Foreldrar og fjölskylda

Já Geir fæddist inn heim elskunnar. Og sá heimur var líka veröld farmennskunnar. Pabbinn var vélstjóri á Fossunum og þjónaði Eimskipum. Eybí sá um, að börnin þeirra Geirs Jóhanns fengju gott veganesti, hún hélt vel um hópinn sinn. Allur skarinn fór svo niður að höfn þegar pabbi kom. Þá voru dýrðardagar, þá var hægt að gleðjast þó engin væri hátíð í öðrum húsum.

Þau Geir Jóhann Geirsson (31.10. 1917 – d. 2.8.2005) og Eybjörg Sigurðardóttir, eða Eybí, (10.04. 1926) eignuðust fyrst Þorvald (13. október 1952). Síðan kom Geir Helgi (18. desember 1953), Lovísa er næst-yngst (21. janúar 1956) og Valgerður yngst (16. maí 1962). Hálfsystir Geirs Helga og elsta barn Geirs Jóhanns er Nína (1. maí 1946).

Fjörug bernska

Þeir Þorvaldur og Geir Helgi sýndu snemma, að þeir voru efni í farmenn, létu sig stundum hverfa skyndilega og lögðu upp í miklar ferðir, frá Hagamel og síðan upp alla Hofsvallagötu í átt til afa og ömmu á Brunnstíg. Þetta voru engar skyndiferðir heldur drógu þeir vörubílinn sinn í gengum alla polla og verklegar fyrirstöður á leiðinni. Það má vera gaman á ferðalögum. En mamma þeirra var þó stundum hrædd. Og myndin af þessum litlu ferðamönnum er heillandi. Stundum undrast maður að börnin lifi af allar hættur bernskunnar!

Hagarnir og Melarnir voru undraland fyrir uppvaxandi ungviði. Barnafjöldin var mikill, ströndin var nærri – upplagt að skella gúmmítuðru á flot. Svo var flugvallarsvæðið líka spennandi vettvangur og höfnin líka. Margt var brallað og engin takmörk hvað gáskafullir krakkar geta upphugsað. Þeir bræður náðu jafnvel að blása upp gúmmíbát inn í flugskýli. Svo var auðvitað dásamlegt að eiga systurnar til að gantast við.

Skólar og atvinna

Geir fór í Melaskólann og svo í Hagaskóla. Eftir að skyldunámi lauk tók Geir að lokum frumlega ákvörðun. Hann ætlaði til starfa í sömu vélsmiðju og faðir hans áratugum fyrr, vestur á Þingeyri. Þar með hafði hann kastað sínum lífsteningum. Hann lærði handverkið, fór svo í Vélskóla Íslands og útskrifaðist sem vélstjóri árið 1975. Eins og faðir hans þjónaði hann Eimskipum, byrjaði í sumarafleysingum árið 1972 og var fastráðinn vélstjóri frá 1976. Hann þjónaði svo þessu óskabarni þjóðarinnar allt til lífsloka, fór um heiminn, flutti lífsnauðsynjar til landsins og út það sem skapaði þjóð og fólki tekjur. Hann var í þjónustu okkar. Á síðari árum urðu ferðirnar styttri, en kannski ekki auðveldari. Þegar bilanir urðu og fárviðri geisuðu reyndi á vélstjóra. Þá var reynt í öllu stálið, mönnum og tækjum. Og vélstjórinn mátti alls ekki bregðast, annars væri voðinn næsta vís.

Mér hefur verið falið að bera ykkur kveðju starfsmanna Eimskipa. Mörg skip eru á sjó og margir félagar Geirs hefðu viljað vera hér í dag en eru fjarri og þó í huga nærri. Eimskip þakka samstarf frábært starf Geirs í 32 ár. Sömuleiðis biðja Auður Rafnsdóttir og Júlíus Bjarnason fyrir kveðjur, en þau eru erlendis.

Helga – hamingjudísin hans Geirs

Það var einn kaldan desemberdag, að Helga var með systur sinni að keyra fram hjá Þórskaffi. Þá sá hún mann standa í nepjunni fyrir utan. Ekki veit ég hvaða pick-up línu hún notaði, en hún kippti manninum upp í bílinn og keyrði hann heim. Geir hefur sjálfsagt þótt talsvert um framtak hennar, alla vega vildi hann hitta hana þegar hann var búinn að hugsa um hana í heilan túr. Hann hringdi og svo byrjuðu þau að draga sig saman. Systkinum hans þóttu þetta mikil tíðindi, enda hafði Geir ekki verið í útstáelsi. Og hinar góðu fréttir bárust hratt í fjölskyldunni. Þótt Helga væri ekki alveg viss um stöðu sína fann hún fljótt, að hún var velkomin, enda var og hefur heimili Eybíar og Geirs Jóhanns eldri alltaf verið örugg friðarhöfn. Mosfellssveitarfjölskylda Helgu tók Geir jafn vel og Vesturbæjarfjölskyldan henni. Samheldnin einkenndi báða vængina og það er auðvitað ómetanlegt lífslán að eiga góða að, sem kunna að rækta samhug og gott samkomulag. Það er höfuðstóll, sem nýtist þegar áföllin verða.

Fyrst bjuggu Geir og Helga í Markholtinu og svo fengu þau lóð á Leirutanganum í Mosfellsbæ og fóru að byggja. Geir var sjálfbjarga á öllum sviðum og svo nutu þau allra hjálpandi ættingja í báðum fjölskyldum. Guðjón og bræður Helgu grófu. Geir lét verkin tala og húsið reis ótrúlega hratt. Svo fluttu þau inn og margt var ógert. Ekki voru allar dyr komnar og Geir hafði engar áhyggjur af þó vaskar og klósett væru ekki tengd þegar þau fluttu inn. Hann bara kippti snarlega slíkum smámálum í lag. Helga þurfti ekki að kvaka í lífinu. Geir gekk í verkin og kunni til allra framkvæmda. Svo færði hann út kvíarnar, studdi Helgu í garðavinnunni og féll að lokum alveg fyrir útivinnunni, við umhirðu runna, trjáa og beða. Veikur var hann í sumar þegar hann var á fullu í að arfahreinsa beðin. Hann var á undan sinni samtíð og smíðaði m.a. fallega beðakanta. Það þarf ekki glöggt auga til að sjá hversu allt er vel og haganlega unnið í Leirutanganum, til að sjá hversu góður verkmaður Geir var. Og svo eru allar hans framkvæmdir líka vitnisburður um heimilismanninn. Hann hafði á heimsferðum sínum lært að meta gæði hins heimafengna, fólksins síns, heimarammans. Hann naut þess að vera heima, naut þess að sýsla við hið einfalda heimilislíf, sjá fólkið sitt, tala við það, vera með því. Atið var nægilegt í vinnunni, og svo þegar hann kom heim skildi hann vinnuna eftir á hafinu og í skipunum. Hann hafði enga þörf fyrir að færa í sögur hættur, rosa og áföll. Hann þurfti að hvíla sig ef ferðirnar höfðu reynt á, en svo var hann algerlega kominn heim, var til reiðu fyrir fólk og verk. Í því er Geir okkur hinum mikil fyrirmynd.

Helga og Geir voru ástfangið hamingjufólk og nutu barnaláns. Helga var hamingjudísin hans Geirs. Hún kom með Guðjón Reyr Þorsteinsson (18.9. 1978) í sambúðina og Geir gekk honum í föður stað. Síðan eignuðust þau Eybjörgu (5.3. 1982). Hennar sambýlismaður er Tómas Haukur Richarðsson og þau eiga Alexander Aron, sem var augasteinn afa síns. Nína Björk kom svo (4.10. 1983). Hennar sambýlismaður er Pétur Óskar Sigurðsson. Geir Jóhann (20.08. 1993) er yngstur. Leirutangaheimilið einkenndist af samstöðu. Helga og börnin hafa misst mikið. Guð geymi ykkur í ykkar sorgarför.

Samstaða

Það hefur verið hrífandi að heyra börnin tala um pabba sinn og tengslin við hann. Guðjóni reyndist Geir ráðhollur faðir og var alltaf til reiðu þegar Guðjón þarfnaðist hans með. Svo var hann föður sínum traustur vinur þegar Geir veiktist og sigldi sína kröppu veikindasiglingu. Þá gat Guðjón miðlað af því hvað hafði orðið honum til hjálpar og þeir ræddu líka um trú, um Guð, um hvað maður getur gripið í þegar allt er komið í strand. Það er ekki sjálfgefið að ástvinir kunni til svona samtals og gagnkvæmrar styrkingar, en gott þegar svo er.

Geir var stoltur af börnum sínum og hafði efni á því, gladdist þegar vel gekk, studdi þegar þörf var á, fagnaði þegar sigrar unnust, og var þeim stuðningur og gagnrýnir þegar þess var þörf. Hann var samstiga Helgu í að skapa festu í heimilislífinu, beitti sér til að fólkið hans lærði góð samskipti og að læra að leysa mál með friði en ekki látum. Það var góð skikkan á öllum málum. Geir var kannski ekki besti kokkur í heimi, hélt sig við það sem hann vissi að hann gæti gert skammlaust. En hann skilaði sínu af heimilisstörfunum með meiri ágætum en flestir jafnaldrar hans!

Hæfni og eigindir

Það er góð samfella og heilindi í lífi Geirs. Hann valdi sér lífsstarf sem heillaði hann, gat notað hæfni sína til að verða öflugur í sínu fagi. Hann hafði áhuga á farmennsku, notaði tímann til að fræðast um lönd og menningu. En á bak við hinn kunnáttusama farmann, vélstjóra og heimilismann var hinn íhuguli Geir. Á tímum asasóttar kunni Geir manna best að núllstilla. Hann gat sest niður í fullkominni yfirvegun, leyst krossgátu, jafnvel tölvuleik, en hæfni hans kom kannski best fram í vinnu við eitthvert ofurpúslið. Geir, fagmaðurinn, kom sér meira að segja upp púslaðstöðu, kenndi sínu fólki þessa góðu slökunaraðferð og Alexander Aron skilur orðið hvað maður gerir og hvernig maður þarf að beita hugsun, yfirsýn og útsjónarsemi.

Geir kom sér líka upp annarri gæðalind sem var arininn sem þau Helga höfðu í stofunni. Arininn var notaður og Geir kveikti upp, jafnvel á hverjum degi. Allir eldmenn heimsins vita hve dásamlegt er að fylgjast með leik glóðar, stara í litaspilið, hrífast af dansi loganna og nema hlýjuna sem sækir út og inn í húð og huga. Við elda hefur menning heimsins orðið til, sögur verið sagaðar og lífsspeki verið miðlað. Við elda farmanna heimsins hefur kunnátta breiðst út meðal fólks. Við eldinn geta glöggir menn séð í djúp eigin tilveru, numið hvað er gott og hvað má kyrrt liggja.

Geir hafði í sér eigindir til að rækta innri mann og ná kyrru. Þar með gat hann verið góður og öflugur maki, góður faðir, fagmaður, ferðamaður – já góður maður. Öll erum við kölluð til að skila góðu dagsverki á heimili og í vinnu, en mest og best er að vera góð manneskja, vera það sem maður er í grunninn, iðka það sem maður er kallaður til og hefur hæfni til. Þannig var Geir Helgi Geirsson.

Hin mikla för

Geir Helgi fór og farmaðurinn kom alltaf aftur. Nú er hann farinn í ferð, sem er mesta ferð mannsins, ferðin inn á haf eilífðar. Hann vissi að hverju dró. Hann hafði starað upp í himininn, séð tungl og stjörnur, hrifist og verið snortinn, en vissi líka vel að engin ferð verður nákvæmlega með því móti sem menn hugsa sér, allar ferðir verða með öðru móti en áætlað hefur verið. Í því er viska förumannsins fólgin. Ferðir í þessum heimi eru líka æfingar fyrir ferðina inn á haf ljóssins. Munið að leiðbeiningarrit veraldar, Biblían, segir okkur að “vélbúnaður” himinsins er meira en sem við sjáum með berum augum, miklu stórkostlegri. Nú má Geir njóta gangverks eilífðar. Það er gott verkefni og “manualarnir” væntanlega skemmtilegir aflestrar!

Geir var mikill lýsingarmeistari. Á aðventunni dró hann mikið safn af vírum og ljósaseríum fram, kom fyrir í garðinum sem ljómaði á þessum myrka tíma. Á þessari aðventu gat hann ekki sinnt því skemmtiefni og nú tóku börnin hans við. Kynslóðir koma og fara svo. Nú var það þeirra hlutverk að splæsa saman víra og læra lýsingarlistina. Það var Geir örugglega sárt að finna til vanmáttar síns, en hann vissi vel, að börnin hans höfðu hlotið gott veganesti, gott uppeldi, þau megna öll að axla ábyrgð – í þessu sem öðru. Nú er það þeirra að lýsa, leyfa ljósinu að mæta nóttinni, leyfa ljósinu að minna sig á að pabbi þeirra er í ljósinu himneska.

Geir kom alltaf til baka, en nú kemur hann ekki aftur. En hann er ekki horfinn. Hann er í ljósríki Guðs, siglir á hafi elskunnar. Í því er undur kristninnar að boða elskandi Guð, sem hefur umhyggju fyrir fólki, leiðir og blessar. Guð huggi ykkur sem syrgið. Guð geymi Geir Helga Geirsson um alla eilífð.

Jarðsett í Lágafellskirkjugarði. Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju. Fjóla Haraldsdóttir, djákni, las lexíu og bað bæn. Jónas Þórir sá um undirleik. Einsöngur Sigrún Hjálmtýsdóttir og Hanna Guðný Hallgrímsdóttir. Gítarleikur Emil Hreiðar Björnsson. Kórsöngur Karlakórinn Stefnir.

 

Haraldur Karlsson – minningarorð

Líf Haraldar Karlssonar var dramatískt. Afköst hans í lífinu voru óvenjumikil, lífshlaupið fjölbreytilegt, hæfileikar hans ríkulegir og víðfeðmir, sjarminn óumdeilanlegur og tilfinningarnar djúpar. Margt er óvenjulegt og íhugunarvert, en ekkert er þó eins sláandi og barnríki hans. Tveir barnahópar, tvær mæður, tvennar sjöur – fjórtán börn. Raunveruleikinn er oft ótrúlegri en skáldskapur. Saga og líf Haraldar Karlssonar ristir dýpra en skáldsaga, er áleitnari en flækja í bók. Haraldarsaga er lífsgjörningur.

Að ljóða er að gera

Hann var framkvæmdamaður, eins og Magnús, tengdasonur hans, skýrði vel. Og stöldrum við og hugsum um eðli framkvæmda, merkingu þeirra. Margir í þessum hópi þekkja orðið “póesía,” sem áhugafólk um bókmenntir notar oft og slangrað er með í tímum í skólum okkar og annarra vestrænna þjóða. Þetta orð er notað í flestum vestrænum tungumálum um ljóðlist. Og orðið, sem notað er um ljóð í mörgum tungumálum, er af sömu rót. En að baki öllum þessum póetísku ljóðnefnum og ljóðafleggjurum er hið fallega gríska orð poiesis, ποίησις. Það er ekki aðeins snoturt á blaði, heldur þrungið fallegri merkingu. Það táknar ekki aðeins það að raða orðum í ljóð, heldur líka hitt að búa til með höndum, gera hluti, framkvæma og hlúa að lífi. Að ljóða er að gera.

Í hinum forna menningarheimi, grískum og hebreskum, var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, starfa, vinnu, sköpunar, já raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Handverk fólks var aldrei sálarlaus, andlaus framkvæmd heldur átti sér líka andlegar víddir. Auðvitað er þetta speki, sem við ættum að íhuga og taka til okkar. Handverk okkar í vinnunni, eldhúsi, garði, byggingapuði, barnauppeldi, bleyjuskiptum, já öllu ati lífsins á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki, sem við kunnum að hugsa getur á hinn bóginn heldur aldrei lifað nema hún eigi sér hagnýta skírskotun í pólitík, í listum og í deiglu samfélagsins. Lífið er eitt og Grikkir og Hebrear fornaldar vissu, að lífið á sér framvindu, bæði andlega og efnislega. Allt var tengt og allt var á hreyfingu. Lífið var gjörningur, samfelld póesía.

 Hin skapandi Guðsmynd

Guðsmynd Biblíunnar er af þessu tagi. Í öllum bókum þess mikla rits er minnt á, að Guð er ekki fjarlæg, upphafin, andleg vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur, að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tárin, lækna meinin og skapa grundvöll lífsins. Guð gerir menn frelsis, vill okkur vel og yfirgefur okkur aldrei þrátt fyrir að við séum brestótt. Já Guð er stórskáldið, sem yrkir heiminn, yrkir mennina, nýtur lífsins, er sjálfur hin mikla póesía, líka þegar allt er þrotið, búið, týnt og brotið. Þegar köflum er lokið opnar Guð nýjan veruleika, byrjar nýjan kafla með nýjum möguleikum og lífi.

Ætt og ævi

Haraldur Karlsson fæddist á Njálsgötu 62 í Reykjavík 27. október árið 1922 og lést á Landspítalanum þann 30. október síðastliðinn, 85 ára að aldri. Móðir hans var Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir (12.9.1898-10.7.1970). Faðir hann bar fleiri nöfn en aðrir, hét Karl Haraldur Óskar og var Þórhallason (25.2.1896-11.3.1974. 

Haraldur var elstur í hópi níu systkina, sem komu í heiminn á aðeins sextán árum – á árunum 1922-38. Hin eru Guðrún Helga (f. 1924); Þórhalla (f. 1926); Sigríður (f. 1928 – d. 2001); Kristín (f. 1932); Ásgeir (f. 1934); Hjördís (f.1935); Fjóla (f.1936) og Þórdís (f. 1938). Þetta er kjarnmikið fólk og hefur notið langlífis. Af þessum níu systkinum lifa sjö, aðeins Sigríður er látin auk Haraldar, en hún lést árið 2001.

Fjölskyldan var á nokkurri fart. Haraldur sleit fyrstu barnsskónum á Njálsgötu, en þegar hann var á fjórða ári fluttu foreldrar hans inn í Sogamýri, þar sem nýbýlið Brekka var. Síðan voru þau eitt ár á Stokkseyri, en fóru svo á Grettisgötuna og þar á eftir í Vitann, sem stígurinn er kenndur við. Karl, faðir hans, keypti leifar vitans og breytti í hús. Haraldur kom tíu ára í Austurbæjarskóla, þá vel læs, enda hafði Guðrún amma kennt honum vel. Síðan fór hann í Ingimarsskóla og lauk þaðan grunnnámi.  

Að sið þeirrar tíðar byrjaði Haraldur að vinna ungur. Hann fór nokkur sumur í sveit austur í Villingaholt. En fór svo að vinna með föður sínum. Síðan tók við vinna hjá Hitaveitu Reykjavíkur og svo kom blessað stríðið. Haraldur fékk árið 1940 vinnu hjá breska hernum við byggingu Reykjavíkurflugvallar. Þegar hann fékk bílpróf árið 1941 fór hann að aka vörubíl föður síns og vann með viðgerðarflokk hjá Reykjavíkurbæ.  Síðan byrjaði hann húsasmíðanám hjá Guðbjarti Jónssyni, húsasmíðameistara, lauk því og hafði mikla atvinnu af framkvæmdum æ síðan. Haraldur tók alls staðar þátt í félagslífi þar sem hann fór, var t.d. einn af stólpum félagslífs á Grímsstaðaholtinu, sat í stjórn ungmennafélagsins, byggði m.a. með félögum sínum skemmu í Grímsstaðafjörunni. Í þessu sem öðru þjálfaðist hann til síðari félagsstarfa.  

Hjúskapur og börn

Hjúskaparmál Haraldar voru einföld, en ásta- og barnamálin þó flókin. Haraldur kvæntist einni konu en átti börn með tveimur konum. Hann kynntist Elínu Ólafsdóttur á dansleik í Gúttó (Elín var fædd22.9.1929-12.4.2000, fædd í Litla-Dal, Svínavatnshreppi í A-Húnavatnssýslu. Foreldrar hennar voru Hallfríður Ingveldur Björnsdóttir og Ólafur Jónasson í Litla-Dal). Þeim leist vel á hvort annað, segir hann í minningum sínum, og gengu í hjónaband í júlí 1947. Þau hófu hjúskap í bakhúsi við Fálkagötu, skammt frá brauðbúðinni. Þar var steinhlaða, sem smiðurinn breytti snarlega í íbúðarhús. Árið 1950 flutti stækkandi fjölskyldan norður í Litla-Dal í Svínavatnshreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Þar voru þau til ársins 1963.

Börn þeirra eru: 

  1. Karl Þórhalli (f. 10.11.1947);
  2. Hallfríður Ólöf ( 24.2.1949). Maki hennar er Pétur Ottósson.
  3. Sigrún Ásta (f. 5.6.1953). Maki hennar er Þórður Adolfsson.
  4. Hjálmar (f. 29.janúar 1956). Maki hans er Svanhvít Ástvaldsdóttir.
  5. Jónas (f. 12.7.1959). Maki hans er Sigrún Sigurðardóttir.
  6. Kristbjörn (26.7.1960) og
  7. Sigríður (f. 9.12.1961). Maki hennar er Magnús Bjarni Baldursson.  

Auk þessara sjö barna eignaðist Haraldur önnur sjö börn með Guðrúnu Sigurvaldadóttir, sem var fædd á Gafli, í Svínadal í Austur Húnavatnssýslu (06.11.1925 – 29.07.2007. Foreldrar hennar voru Guðlaug Hallgrímsdóttir og Sigurvaldi Jósefsson).

Börn þeirra Guðrúnar eru:

  1. Óskar Vikar (f. 16.1.1958). Maki hans er Somsri Yurasit.
  2. Birgitta, f. 20.06.1958. Maki hennar er Sigurður Ingi Guðmundsson. Birgitta var alin upp hjá kjörforeldrunum Halldóri Eyþórssyni og Guðbjörgu Ágústsdóttur.
  3. Ásgeir, f. 15.6.1963. Maki hans er Guðrún Jóhannsdóttir.
  4. Sigurjón, f. 18.3.1965. Maki hans er Anna Rúnarsdóttir.
  5. Þorbjörn, f. 22.5.1967. Maki hans er Helga Hafsteinsdóttir.
  6. Hallgrímur, f. 2.10.1969. Maki hans er Ásdís Gunnarsdóttir.
  7. Þórhalli, f. 11.9.1971. Maki hans er Turid Rós Gunnarsdóttir.

 Af þessum fjórtán börnum eru síðan þrjátíu barnabörn, átta barnabarnabörn eða alls 52 afkomendur. Þetta er mikið barnríki. Haraldur Pétursson og Íris Viggósdóttur í Noregi geta ekki verið við þessa athöfn en biðja fyrir kveðjur til þessa safnaðar.

Framkvæmdir

Þegar norður kom var faglærðum iðnaðarmanni fagnað. Haraldur var hamhleypa til verka, snarráður, og stýrði vel átaksvinnu. Í sveitum var sjálfvirkt herútboð þegar byggt var einhvers staðar, allir nágrannar komu til að taka þátt í að steypa. Haraldur kunni atinu vel, var manna glaðastur, spaugaði og kunni vel að verkin gengju hratt og ákveðið. Það var ekki undarlegt, að um Harald var setið og hann fengin til byggingavinnu. Það er eins og hann hafi komið við sögu á flestum bæjum í austursýslunni þar sem byggt var á þessum árum. Varla var kofi reistur, hlaða eða íbúðarhús, að hann legði ekki hönd að. Hann kynntist því mörgum heimilum, hugsunarhætti og aðstæðum. Alls staðar gengu verkin þótt kaupið væri ekki hátt. Verksvitið skilaði sér og húsin risu honum og Húnvetningum til gagns og sóma.

Haraldur kunni vel glaðværðinni nyrðra og þandi tenórrödd sína óhikað í karlakór Bólstaðahlíðarhrepps. Hann lærði að meta unað og ljóðrænu sveitarinnar. Söng “hrísluna og lækinn” með innlifun, andaði að sér næmi til landsins, sem hann túlkaði síðan í ljóðmælum sínu. Hann naut gleði samfélagsins, tók þátt í félagslífinu, fór á fjall, náði að tengja hinar fjölmörgu víddir hálendis og láglendis, hvernig menn lifðu á þessum mörkum milli lífs og dauða og hvernig gleðjast mátti þrátt fyrir ágjafir og erfiðleika. Ljóðin hans tjá þetta líka með skýrum hætti. Hann hreifst af unaði og gjörningum lífsins.

Flutningar og lífsbarátta

Haraldur skrifaði í æviminningum sínum grípandi sögu frá unglinsárum um reynslu af hve stórkostlegt blíðviðri breyttist í fárviðri með skruggum og úrkomu. Hann sá eldingu lenda í bjargi, sem splundraðist við höggið. Undraðist Haraldur kraftana, sem leystust úr læðingi, undraðist hversu grjótið dreifðist í sprengingunni. Átökin eru mikil í náttúrunni en líka í heimi mannanna. Haraldur lifði andstæður og þverstæður í lífinu. Hann skrifaði sjálfur, að honum hefði þótt Litla-dals tíminn besti tími ævinnar. Það er ekki einkennilegt, hann naut sín, var metinn, allt lék í höndum hans, lánið lék við honum og lífssól hans skein í heiði. Svo komu erfiðleikarnir með kólgubökkum og ljósgangi. Veikindi og aðkrepptar aðstæður sístækkandi barnahóps hreyfði við fólkinu hans. Guðrún fór suður með sinn hóp og Elín líka með sinn.

 Það var ekki einfalt, að framfleyta svona stórhópum. Og djúpa samúð hefur maður með þessum konum, þessum mæðrum, sem gerðu það, sem þær gátu til að hafa í börn sín og á. Þrátt fyrir dugnað og framkvæmdagleði föðurins var oft þröngt í búunum. Og ótrúlegt er að hlusta á sögurnar um vatnsleysið í húsinu á Árbæjarbletti 10, þær minna helst á aðstæður fyrri alda. Jafnvel sulturinn teygði krumlur sínar inn á matarlítil heimilin. Það er ekki eins og þetta séu gamlar sögur, heldur reynsla sumra ykkar, sem sitja í kirkjunni í dag. En gleðistundirnar voru ýmsar, börnin lærðu að standa saman, fundu að sundrung dreifir en samstaðan styrkir. Svo komu líka depurðarstundir, sem þau urðu öll fyrir, börnin, konurnar og líka Haraldur vegna hinna sérstæðu aðstæðna. En lífið er sterkt, lífsþorstinn mikill og upp potaðist hópurinn með áraun sína og lífsreynslu. Og auðvitað eru þessi fjórtán börn stórkostlegt kraftaverk lífsins, með mikla meðgjöf hæfileika og atgervis, sem þau hafa unnið úr.

Vinna okkar með okkur sjálf, foreldratengsl er flestum æviverkefni, sem lýkur ekki og heldur áfram í börnum okkar. Því er svo mikilvægt að staldra við, ræða saman og taka hið góða og jákvæða með inn i framtíðina, en leyfa hinu að fara. Við þurfum að læra að sleppa og þora að loka málum.  

Reykjavíkurlífið

Eftir að Haraldur flutti aftur til Reykjavíkur fékkst hann við margvísleg störf auk húsasmíða, s.s. símvirkjun og trillusjómennsku og átti jafnvel tvo báta. Um tíma bugaðist hann og missti þrek og var í nokkur ár á Reykjalundi til heilsubótar og aðhlynningar. En vandi elur jafnan möguleika. Hann gat betur sinnt hugðarefnum sínum. Hann hafði alla tíð sungið og sinnt ljóðagerð. Hann hafði líka spilað á hljóðfæri s.s. mandólín, gítar, munnhörpu og ef ekki var annað tiltækt – þá bara á sög! En svo kom í ljós, að Haraldur var auk alls hins líka drátthagur. Haraldur fór að mála myndir. Þá skrifaði hann afar áhugaverðar æviminningar, sem vert er að birta með einhverjum hætti, á prenti eða á netinu til nota fyrir afkomendur en líka skoðunarmenn byggða- og menningarsögusögu Reykjavíkur og Húnvetninga. Svo lagði hann ættfræði fyrir sig. Ræktunarmaðurinn og bóndinn kom upp í honum við skógrækt, sem hann hafði gaman af og hellti sér í með miklu krafti. Fyrr og síðar reyndi Haraldur að þjóna sínu fólki, var alltaf boðinn og búinn að hjálpa til við framkvæmdir, lagði bæði reynslu og sína frjóu hugsun við svo hús urðu betri, framkvæmdir gengu hratt fyrir sig og allir nutu góðs af. Þjónustulipurð og hjálpsemi einkenndi Harald og greiðasemina hafa börnin hans erft. Það er einn besti arfur, sem menn getið hlotið.

Skapandi verk

Það eru margar undursamlegar sögur til af Haraldi. Þær er gott að segja þegar glímt er við sorg og stóru málin eru gerð upp. Svona sögur tjá lyndiseinkunn, geta skýrt ýmislegt í lífi hans og líka af hverju sum barna og barnabarna gera þetta en ekki hitt. Þegar húsið í Árbænum var að ganga af göflunum vegna þrengsla og mannfjölda reyndi Haraldur ítrekað að fé leyfi til stækkunar. En kerfið var ólipurt og ekki í neinum takti við þarfir fjölskyldunnar. Þegar sýnt var, að bæjaryfirvöld myndu ekki aðhafast tók Haraldur til sinna ráða, planaði vel, rótaði í garðinum og tók svo til við smíðar út á grasflöt. Svo þegar hann var búinn að puða talsvert og án þess að nokkur tæki eftir að eitthvað stæði til beið Haraldur rökkurs einn daginn. Þegar nægilega dimmt var orðið reisti hann allt í einu fleka, sem hann hafði verið að bauka við, svo kom annar hornrétt á, og svo enn einn. Allt í einu voru komnir veggir og svo small þakið á. Þegar morgnaði og vegfarendur fóru hjá var eins og eitthvað væri breytt, en enginn var með á hreinu hvað hafði gerst, en húsið hafði tognað eins og fyrir himneskan gjörning. Já, húsið hafði stækkað um tvö herbergi um nóttina, var fallegra en áður, sómdi sér vel, svona fullkomlega leyfislaust og ávöxtur snilli og áræðni. Næturvinnan getur stundum verið gjöful!  

Snarræðið og kraftur einkenndi vinnulag Haraldar alla tíð. Allt frá því hann eignaðist Willysinn fyrir norðan og gerði upp díselvél Ferguson-traktorsins var hann fær í flestan sjó við að laga og gera við bílana sína, sem urðu margir áður en yfir lauk. Einn laugardagsmorguninn vaknaði hann snemma og svo bárust skerandi málmhljóð um hverfið. Haraldur var byrjaður í útgerð og vantaði hentugan bíl fyrir flutning á veiðarfærum og kannski afla líka. Hann sá í Morrisnum sínum gott efni í flutningabíl svo hann mundaði bara slípirokkinn og lét hann ganga í skrokk á “bodí” bílsins. Hluta af húsinu skar hann af og fyrir hádegi var Haraldur búinn að breyta fólksbílnum í þennan líka gerðarlega “pick-up.” Þegar hann var spurður um ástæðu þessa sagði hann einfaldlega að toppurinn hefði skrölt að aftan, hægra megin! Gott ef hann málaði svo ekki pick-upinn eftir hádegi.  

Svona sá hann í aðstæðum möguleika, sá í hlutum nýja notkun og aðlagaði þá þar með. Og slík möguleikasýn er nauðsyn öllum þeim, sem skapa, vilja finna færa leið og gildir einu á hvaða sviði það er. Haraldur var framkvæmdamaðurinn, skáldið sem gat endurraðað, endurgert, endurverið og það er eftirbreytnivert. Nú er komið að skilum og mikilvægt fyrir stóran ættbogann að varðveita hinar góðu minningar, leyfa þeim að lifa en hinu að fara.

Kafla lokið

Hvað ætlar þú að gera við sorg þína? Hvernig ætlar þú að gera upp fortíðina? Vísast er eitthvað, sem kvelur þig, einhverjar minningar sem angra, eitthvað verið gert eða sagt, eða ekki verið gert eða sagt, sem þú vildir að væri öðru vísi. Fortíðin, lífið, hefði getað verið öðru vísi, en nú verður engu breytt. Elín, Guðrún og Haraldur eru öll látin. Nú eru orðin mikil skil og mikilvægt að þú viðurkennir þau. Með dauða Haraldar er stórum kafla í fjölskyldunni lokið. Vertu með í að ljúka þeim kafla, viðurkenndu skilin.

Talaðu um það sem svíður hið innra, en leyfðu því svo að fara. Talaðu um það, sem gleður hið innra og leyfðu því að lifa. Horfðu svo á systkini þín, ættmenni þín – þetta er þitt fólk, fólk sem hefur svo margt til brunns að bera, fallegt, gott, gjafmilt, kátt og skemmtilegt fólk. Saman byrjið þið algerlega nýjan lífskafla, yrkið nýjar sögur. Þær eru ekki bara framhald hins liðna, heldur nýr tími. Þið þurfið ekki að skera bodíið eða reisa veggi um nótt heldur bara viðurkenna að lífið er gott og á hverjum degi eru nýir möguleikar. Komið saman sem fjölskylda, haldið hátíðir og segið öðrum hvað ykkur þykir vant um í hinum.  

Yfir öllu vakir svo gjörningameistarinn á himnum, þessi sem ljóðar lífsmöguleika, gleðimál, býr til músík, málar myndir fegurðar fyrir þig, já skapar möguleika fyrir lítil og stór börn, elskar þau öll óháð því hvernig þau verða til. Ljóðið um Guð er um að lífið er einn samfelldur gjörningur, póesía elskunnar. Svo þegar lífi lýkur er þessi ljóðmögur mættur, opnar fangið og leyfir öllu lífinu, öllu fólki, já allri sköpun sinni að hverfa inn í það ríkidæmi sem við köllum í orðfæð okkar himininn. Þar má Haraldur búa, þar eru Elín og Guðrún, allur ættboginn. Þar er engin kvöl né tár. Þar ríkir elskan hrein.

Haukur Þorvaldsson – minningarorð

Við sjáum á bak dugmanni, viljasterkum, hrífandi frumkvöðli, jákvæðum og fjörugum vini, snyrtimenni í hinu ytra sem og í samskiptum við fólk, manni með einbeitta réttlætiskennd, elskuríkum og elskulegum manni. Minningarorðin um, Hauk vin og félaga okkar Neskirkjufólks birtast hér að neðan. 16. október, 2007.

Fyrir tæpu ári síðan sátum við Haukur hér frammi á kaffitorgi Neskirkju. Hann sat við horngluggann og talaði um stóru spurningarnar í lífinu, um fólkið sitt, áhrif veikinda á líf hans og afstöðu. Það var heillandi að hlusta á hann. Í bland við alvöruna var stutt í kátlegar athugasemdir. Svo breiddist bros yfir andlit hans. Augun urðu enn hlýrri og þessi stóri maður fyllti þetta stóra rými með sjarma sínum.

En hvernig breyttist líf hans þegar veikin varð förunautur? Ég man eftir, að Haukur tók sér stutta málhvíld þegar hann var spurður um hvernig væri að “lifa við” ólæknandi krabbamein? En svo sagði hann, að hann hefði lært nýja tímastjórnun, lært að nota tímann vel, gera það helst sem gerði honum gott og efldi líf hans. Hann reyndi að sneyða hjá því eða láta vera, sem skemmdi fyrir eða drægi úr lífsgæðunum. Á þessu augnabliki uppgötvaði ég, að Haukur talaði ekki bara um hvað skipti máli heldur hafði öðlast lífsvisku. Hann var orðinn vitur maður sem miðlaði til okkar hinna mikilvægri speki. Hann var orðin sem fyrirmynd um hvernig við getum og eigum að lifa.

Í málshátta- og spekisafni Gamla testamentisins, Orðskviðunum, segir: „Því að viska er betri en perlur, og engir dýrgripir jafnast á við hana“ (Orðskviðirnir 8:11).

Haukur hafði orðið fyrir áfalli og átti tvo kosti, sem allar kreppur neyða fólk til að velja á milli. Annað hvort bíður maður ósigur, lætur áfallið veikja sig og lífsgæðin þverra þar með – eða fólk rís upp til vaxtar og ríkulegra lífs. Veikur maður getur verið hamingjusamur þrátt fyrir mein sín. Stutt líf getur verið betra en langt líf ef maður vinnur úr vanda sínum með skapandi móti. Haukur tók ákvörðun um lifa vel. Engir dýrgripir jafnast á við viskuna.

Fjölskylda

Haukur Þorvaldsson fæddist í Reykjavík 15. september árið 1958 og lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 2. október síðastliðinn, aðeins 49 ára gamall. Foreldrar hans voru Elín Dagmar Guðjónsdóttir (f. 23.9.1916 d. 12.4.2006) og Þorvaldur Margeir Snorrason (f. 22.6.1911 d. 03.1.1993). Þau eru bæði látin, Þorvaldur fyrir nær 15 árum en Elín í fyrra.

Þau hjón eignuðust samtals átta börn. Þau eru: Guðjón Þórir (f. 24.06.1940); Jónas (f. 23.9.1941), og tvíburabróðir hans; Sigurður f. 23.9.1941, en lést á fyrsta ári. Sigurður Frímann (f. 22.7.1943 d. 29.5.2004), sem lést fyrir 3 árum; Steingrímur f. 12.2.1946; Snorri f. 10.8. 1949; Elín f .31.8. 1954. Svo kom Haukur og var yngstur.

Þessi hópur bjó í stórfjölskylduhúsi á Urðarstíg 13. Þar voru þrír ættliðir samankomnir og sjö barnanna fæddust þar. Svo urðu þrengslin of mikil og þau fluttu á Rauðárárstíg 32 og þá fæddist Haukur og flaug inn í heiminn. Þar var rýmra en þó bara þriggja herbergja íbúð fyrir allan skarann. Menn verða sleipir í samskiptum í slíku þröngbýli og Haukur lærði að umgangast fólk, með hlýju, húmor en ekki síst virðingu. Hann naut þessarar mannafstöðu í einkalífi, vinnu og félagsstörfum. Fjölskyldulífið var fjörlegt og foreldrarnir dugmiklir og systkinin urðu honum knippi af fyrirmyndum og félögum. Takk fyrir allt það sem þið voruð Hauki fyrr og síðar.

Saga Íslands samandregin

Þegar hugsað er til baka til sögu Hauks og fjölskyldu hans blasir við saga Reykjavíkur og sumpart tuttugustu aldar Íslands í hnotskurn. Þetta fólk hafði enga forgjöf, varð að bjarga sér sjálft, varð að skapa hamingju sína af eigin mætti og hæfni. Eins og þúsundir annarra fjölskyldna tókst baráttan svo vel að við búum við eitt ríkasta samfélag veraldar. Haukur hafði í sér margt af því sem hefur þjónað okkur sem samfélagi og þjóð vel: Dugnað, einurð, viljastyrk, snyrtimennsku, heilindi, húmor, jákvæðni, fróðleikssókn og réttlætiskennd. Allt var þetta veganesti að heiman og hann nýtti með sínu móti, í vinnu, meðal fólks og í félagsstarfi.

Nám og störf

Haukur útskrifaðist sem matreiðslumaður árið 1980. Hann fór á sjó á unglingsárum. Hann heillaðist af pólitíkinni og vann sem þingsveinn í fjögur ár á Alþingi. Haukur varð snemma liðtækur í félagsmálum samnemenda og varð síðar eftirsóttur til félagsstarfa. Hann starfaði um tíma í sambandsstjórn Iðnnemasambands Íslands og var formaður Félags matreiðslu- og framleiðslunema. Árið 1983 var Haukur formaður Félags ungra framsóknarmanna í Kópavogi. Hann var í stjórn SUF í eitt ár. Þá varð hann félagi í Lions-hreyfingunni.

Eftir að hafa starfað við iðn sína um tíma sneri Haukur sé æ meir að sölumennsku. Í því starfi tamdi hann sér að vita hvað hann var að selja og vera maður orða sinna. Í allt blandaði hann svo hlýrri nánd, kímni og skemmtilegheitum. Honum var því vel ágengt í starfi. Haukur vann lengi hjá Fönix og seldi rafmagnsvörur. Margir keyptu vegna þess að Hauks naut við. Þeir Sveinn Sigurðsson stofnuðu svo árið 2001 fyrirtækið Rekstrartækni, sem þeir seldu Fönix síðar. Um tíma var Haukur framkvæmdastjóri hjá Netagerð Ingólfs og kynntist flestum útgerðaraðilum og skipstjórnarmönnum Íslands í því netverki. Á þessum árum fór Haukur víða, ferðaðist líka um heiminn og naut flugsins í lífinu.

Ástvinir og hjúskapur

Lífslán Hauks var fólkið hans. Hann naut barnaláns og gekk ungviði í föðurstað, var natinn, góð fyrirmynd og gerði allt það, sem hann gat, til að efla þau til lífs. Elsta barn Hauks er Agnes Björk (f. 17.3.1981). Móðir hennar er Ósk Gunnarsdóttir og þau Haukur bjuggu saman um tíma. Agnes á tvö börn svo Haukur var orðinn afi þegar árið 2004. Börn Agnesar eru Eiður Atli (f. 23.8. 2004) og Bríet Sjöfn (f. 31.5. 2006.

Árið 1984 giftist Haukur Helgu Hermannsdóttir. Börn þeirra eru Hermann Haukur (f. 19.3. 1984) og Þorvaldur (f. 22.4. 1990). Þau Haukur og Helga skildu og Haukur var einn um tíma. En svo sá hann Björgu Jóhannsdóttur álengdar á Kaffi Reykjavík, leitaði hana upp og snaraðist að henni og tilkynnti henni skýrt og skorinort: “Ég sleppi þér ekki!” Hvernig er hægt að bregðast við slíkri yfirlýsingu manns, sem vissi alltaf hvað hann vildi og hafði alla burði og hæfni til að fylgja orðum sínum eftir? Björg bara tók því vel og ljúflega og lét hann ekkert sleppa sér. Þau giftust árið 2005 og eiga saman Björgvin Margeir (f. 06.10.1999). Það er þungt högg fyrir átta ára dreng að sjá á bak föður sínum.

Með Björgu stækkaði barnaheimur Hauks enn, því hann opnaði faðminn gagnvart börnum hennar, þeim Jóhönnu Clöru (f. 25.7.1982) og Jóni Knút. Jóhanna á svo tvo stráka, Stefán Axel og Emil Daða. Haukur var þakklátur fyrir heimili sitt, þakklátur Björgu fyrir stuðninginn, þakklátur fyrir elskuna, sem hún tjáði honum, styrkinn og gleðina, sem hún veitti honum. Hann naut líka stuðnings og frelsis og gat ókvíðinn farið í vinnuferðir sínar og svo síðar án fyrirstöðu þjónað réttindamálum krabbameinsgreindra. Haukur naut ástríkis.  

Eins og sést hér í kirkjunni í dag vilja margir koma og votta Hauki virðingu sína og ástvinum samstöðu. Ýmsir eru erlendis og biðja fyrir kveðju til ykkar. Þau eru Snorri Valsson, Jónas Ragnarsson í Ljósinu, Jón Knútsson, Auður Kristmundsdóttir og Þóra Gissurardóttir. Við Neskirkjufólk og öll þau sem störfum í kirkjunni höfum misst vin. Við þökkum samfylgd og samvinnu.

Frumkvöðullinn

Haukur var fjölhæfur og bóngóður. Ef eitthvert systkina þarfnaðist aðstoðar í húsbyggingum var alltaf hægt að hringja í Hauk. Hann var líka reiðubúinn að leggja mikið á sig í félagsmálum. Hann reyndi sitt til að tryggja að hans fólk fengi vinnu, var alltaf til í ræða landsmálin og þó ekki væri til annars en benda mönnum til góðs framsóknarvegar! Haukur var fljótur að læra, það sem hann hafði hug á, snöggur að sjá aðalatriði og aukaatriðin í lífinu. Hann var á dýptina frekar en að sleppa sér í yfirborðsmálum, vildi að allt væri vandað og gott, hvort sem það var nú í mannlífinu, samfélagsmálum eða á hinu andlega sviði. Svo var líf og fjör þar sem Haukur kom. Og það gekk undan honum Hauki það sem hann ætlaði sér, hvort sem það var nú að selja hlera, nagla, safna kjöti og hráefni í grillveislu Ljóssins hér á kirkjutúninu eða leysa flókin félagsleg úrlausnarefni.

Það var merkilegt að fylgjast með Hauki síðustu árin. Hann var ekkert að tvínóna við að horfast í augu við stöðu sína og skrifaði óhikað að staða hans væri öryrki. En hann gekk jafn ákveðið til þeirrar félagsstöðu eins og annars, var ekkert að rella heldur vann í þeirri stöðu eins skipulega og í öllum fyrri störfum, las alla vefi Tryggingastofnunar, kannaði gervalla félagslöggjöfina, heilbrigðislöggjöf, reglugerðir, kannaði starfshætti Krabbameinsfélagsins og spítalanna, fékk heildarmynd af réttindum sjúklinga og öryrkja og hvað væri hægt að gera til úrbóta. Þarna flaug Haukurinn hærra og betur en allir aðrir, fáir höfðu aðra eins yfirsýn og hann.

Svo fóru að birtast hinar beinskeyttu, skýru og áhrifaríku greinar hans í blöðum. Það var ekki annað hægt en að hrífast af málafylgjunni, af einurðinni sem hann sýndi og óttalausri réttlætisást hans. Haukur var hrífandi frumkvöðull, hafði reynsluna og sálareldinn. Hann var ekki í þessu sjálfs sín vegna, það var mannvirðingin sem hvatti hann, þessi mikilvæga vitund um, að fólki ætti að sýna virðingu hver sem staða þess væri, hvernig sem það væri haldið af veikindum. Hauki var í mun að þjóna öðrum vel og í frumkvöðlastarfinu naut hann og gat hann notað sína fjölbreytilegu hæfni. Þessi ljúfi og umhyggjusami maður var ódeigur baráttumaður, hann varð stundum að gagnrýna ákveðið. Við vissum, að stundum stakk hann djúpt en vissum jafnvel, að það var ekki til að særa fólk heldur var markmiðið ávallt að beita sér til að bæta stöðu öryrkja, krabbameinsgreindra, fjölskyldna þeirra og annarra í svipuðum sporum. Haukur beitti sér fyrir stofnun hagsmunasamtaka sem heitir Vonin og spratt upp í skini Ljóssins, sem hann hafði þjónað svo vel og verið með í að byggja upp. Haukur var formaður samtakanna og er búið að samþykkja inngöngu þess í Öryrkjabandalagið – svo þeim áfanga var náð. Megi dugur og marksækni Hauks verða félagsskapnum fyrirmynd.

Við eigum val

“Því að viska er betri en perlur, og engir dýrgripir jafnast á við hana.” Auðvitað gera flestir sér grein fyrir að það verður enginn hamingjusamur af krónunum einum saman. Meira segja Jóakim frændi í Andrésbálknum veit það. Það verður enginn hamingjusamur af því einu að eignast hlutabréf í Reykjavik Energy Invest. Peningarnir eru gott tæki til geta fullnægt grunnþörfum, en persónuþroskinn verður ekki keyptur, viskan verður aldrei pökkuð inn og við getum ekki hlaðið henni niður af netinu. Hún er sjálfsprottin. Hamingjan er heimafengin. Alltof margir æða um heiminn, leita hamslaust að lífgleðinni og átta sig sjaldnast að mestu gæðin eru næst okkur, í því að geta dregið að sér andann, notið hreins lofts, að hjartað slái, að geta hreyft sig, að fólk sé tengt okkur sem hægt er að faðma, kyssa, snerta, hlægja með og eiga orðastað við.

Þurfum við að veikjast, ganga á vegg í lífinu eða missa mikið til að læra að meta lífsgæðin og undur augnablikanna? Í hvað notum við daga okkar, fjármuni og líkama okkar? Hlustum á mann eins og Hauk, sem kafaði djúpt, en kom til baka með speki. Lærum af honum lífslistina og sinnum því sem eflir lífið, en sleppum hinu. Lærum af honum að njóta djúps tilverunnar, hinnar guðlegu návistar.

Haukur er ekki lengur með okkur. Hann var óhræddur við mestu manndómsraun ævinnar, að mæta lokum sínum, að deyja. En hann var búin að rækta vel trú sína og afstöðu til eilífðarinnar, var fullviss að líf er að loknu þessu og heimkoman er góð. Við sjáum á bak dugmanni, viljasterkum, hrífandi frumkvöðli, jákvæðum og fjörugum vini, snyrtimenni í hinu ytra sem og í samskiptum við fólk, manni með einbeitta réttlætiskennd, elskuríkum og elskulegum manni. Við sjáum á bak Hauki. Hann fór oft með stuttum fyrirvara, en kom alltaf aftur. Nú kemur hann ekki aftur. En hvað svo og til hvers er lífið? Lífið er til unaðar en ekki til dauða. Leyfðu minningunni um Hauk að lifa til að styrkja þig til góðs. Vertu mennskunnar megin í lífi þínu og ræktaðu með þér viskuna sem Haukur miðlaði til okkur hinna. Guð geymi hann ævinlega og huggi fólkið hans, gefi ástvinum, börnum og afkomendum visku til lífs.

Minningarorð í útför Hauks Þorvaldssonar, Neskirkju, 16. október, 2007. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Sigríður Jónsdóttir – Síta

Síta var yndisleg, vel gerð, róleg, spaugsöm en í henni var snöggur sálarblettur, góður húmoristi, trölltrygg, vel máli farin og hnyttin. Útför Sigríðar Jónsdóttur var gerð frá Neskirkju 22. október, 2007. Minningarorðin fara hér á eftir.

Vestur í Stykkishólmi urðu ævintýrin við hvert fótmál. Mannlífið var fjölskrúðugt og margir krakkar til að leika við. Hægt var að flengjast í reiðtúra eða leika sér við sjóinn. Varfærni var þörf, hættur voru hvarvetna. Æskuleikir eru æfing í að lifa og í þeim lærist ungviðinu hvar mörk öryggis og hættu liggja. Í menningu og list Íslendinga fyrr og síðar er unnið úr og bent á hvar lífið endar og dauðinn byrjar. Raunar má halda fram, að klassísk menning okkar sé ítarlegt uppgjör á þeim mörkum. Kveðskapur, þjóðsögur og bókmenntir eru útlistun á átökum og viðbrögðum við þau mæri. Leikir barna á Íslandi hafa verið næsta frjálsir. Auðvitað hafa foreldrar reynt að byrgja brunna og benda á hættur, en börnin hafa þó gert sínar tilraunir til að sannreyna sjálf hvort viðvarandir hafi við rök að styðjast.

Lífshætta

Hún Síta gerði líka tilraunir. Einu sinni sem oftar – í froststillu – lagði víkurnar við Stykkishólm. Barnaskarinn flykktist niður að sjó. Börnin stöppuðu á svellið og það hélt. Svo var haldið utar og hópurinn fór út á slétta glæruna. Öllu virtist óhætt. Síta var frökk, vildi utar og allt í einu sprakk glæran undir henni og hún féll í kaldan sjóinn og barðist þar um. Ráðagóðir krakkarnir tóku skyndiákvörðun, lögðust á ísinn og mynduðu röð. Í fætur fremsta manns var haldið og svo var það mennsk björgunarkeðja, sem lá á klakanum og upp á tryggan ís. Þessu liði tókst ætlunin og Sítu var bjargað. Hún var dregin upp úr dauðapollinum, upp á skörina, komst til lands og lífs eins og allir hinir. Svo var henni fylgt heim, Svafa bar fréttina á undan henni. Síta fékk að lifa.

Samfélag

Þessi bernskusaga um Sítu er heillandi. Hún er auðvitað táknsaga um, að maðurinn er samfélagsvera og samfélag hentar best til að bjarga þeim sem er í neyð. Enginn er eyland, heldur er hver karl eða kona hluti félags manna, af ættboga og menningu. Án mannfélags erum við án varnar og deyjum, án menningar erum við andlega nakin og náum ekki þroska. En í samfélagi verðum við manneskjur, í samfélagi þiggjum við veganesti til lífsins, í samfélagi lifum við gjarnan stærstu gleðistundir ævinnar en líka mesta harm, í samfélagi getum við notið okkar eða verið heft. Síta óx upp í samhengi og fjölskyldu og hún nýtti líf sitt til að úthella sér fyrir aðra, samfélag sitt og fólkið sitt.

Þú Guð líka

Í Davíðssálmum segir: „… Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefur þú lagt á mig. Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn. Hvert get ég farið…? Þó ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.“ Þetta eru orð úr 139 sálmi Davíðs.

Ættbogi, mannfélag og náttúra er hið stóra samhengi mannsins, en Guð er hið algera samhengi. Í neti lífsins verðum við til og í faðmi Guðs verðum við eilífar sálir. Það sem ekki fæst í þessum heimi fáum við notið handan tíma. Þar fæst er hin algera sátt, jafnvægi kraftanna og skapandi hamingja.

Ævi og fjölskylda Sítu

Sigríður Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 14. maí árið 1931. Hún var dóttir Ólafar Bjarnadóttur (1895-1988)   og Jóns Hallvarðssonar (1899-1968). Báðum megin eru öflugir frændgarðar, mikið hæfileikafólk og mannval.

Systkini Sítu eru: Baldur (f. 6. september 1926); Bjarni Bragi (f. 8. júlí 1928) og Svafa (f. 25. mars 1930), en hún lést árið 1952 (1. júní).

Fyrsta árið var Sigríður í stórfjölskylduhúsinu á Kárastíg 11 í Reykjavík. Þar fæddist hún og þar datt föður hennar í hug, að vel mætti kalla hana eitthvað annað en Siggu! Þá varð fyrir honum heiti hinnar skapríku keisaraynju, hinnar síðustu, í austurrísk-ungverska keisaradæminu. Sú hét Zita. Þar var gæluheitið komið og fjölskyldufólk og vinir þekktu Sigríði Jónsdóttur sem Sítu og verður hún því svo nefnd hér á eftir.

Síta fór ársgömul til Vestmannaeyja með fjölskyldu sinni. Þaðan fóru þau svo í Stykkishólm þar sem faðir hennar var sýslumaður til ársins 1941. Þá flutti fjölskyldan enn á ný og til Reykjavíkur. Erfitt var um húsnæði og um tíma bjó hún hjá fjölskyldu Einvarðs Hallvarðssonar, sem var föðurbróður hennar. Reyndist hann og fjölskyldan Sítu afar vel og mynduðust tengsl sem héldu.

Síta byrjaði skólagöngu í Hólminum, en hélt svo áfram grunnnámi í þeim merka Laugarnesskóla. Þaðan lá leið hennar í Gagnfræðaskóla Reykvíkinga og lauk hún landsprófi þaðan árið 1948. Menntaskólaganga hennar hófst, fyrst fór hún í MR en tók svo þá ákvörðun að söðla um og fara á heimavist og í aðrar aðstæður. Hún fór norður í Menntaskólann á Akureyri. Þar leið henni vel, en þá reið yfir hana þungt áfall. Svafa, systir hennar, lést í júníbyrjun 1952. Það var eins og varnarbrynjan á hafi myrkursins hefði brostið og Síta berðist um og reyndi að komast upp að nýju. Þær systur höfðu verið samrýmdar og staðið þétt saman og ekki síst þegar að þrengdi og þörf var á öryggi og hlýju.

Sítu fataðist flugið. Hún treysti sér ekki norður strax og hélt ekki áfram fyrr en ári síðar. En vinkonur hennar sem og fjölskylda, skólamenn fyrir norðan og vinir hennar sammæltust um, að hvetja hana til norðurfarar að nýju. Það tókst og Síta var næstu tvo vetur í MA í góðu yfirlæti, í fjörinu á heimavistinni, eignaðist vinkonur og styrkti tengslin fyrir lífið. Síta var góður námsmaður lauk stúdentsprófi árið 1955 með góðri einkunn. Síðan byrjaði hún málanám í Háskóla Íslands og fór líka til Parísar til að ná frönskunni almennilega og París var og er stórfengleg.

Atvinna og verustaðir

Alla tíð hafði Síta atvinnu af skrifstofustörfum. Fyrst hjá SÍS, frá vori árið 1955, en hún hóf svo störf á hagfræðideild Landsbanka Íslands árið 1960 og fylgdi þeirri deild þegar hún var gerð að Seðlabanka Íslands árið 1961. Vann hún þar ýmis skrifstofustörf þar til hún lét af störfum árið 1995. Hún var vel metin í starfi, glögg, ljúf í samskiptum og lagði bankamenningu Íslands gott til.

Síta naut þess á bernskuárum að vera nokkur sumur í skaftfellskri dýrð og tengjast menningu og umhverfi móðurslóðanna. Skaftfellsk menning var vefur hins agaða einfaldleika, orðheldnu fámælgi og langsækna kærleika. Þar var margs að gæta og margt að læra. Alla fullorðinstíð sína hélt Síta svo heimili með hinni “skaftfellsku” móður sinni í Sörlaskjóli 42.

Síta var ógift og barnlaus, en annaðist móður sína og sitt fólk með natni. Sveinn og Rósa, sambýlingar í Sörlaskjóli 42 voru henni svo góðir grannar, að þeim er hér þakkað. Þegar fór að halla undan fæti hjá Sítu og hún átti við vaxandi vanheilsu að stríða fór hún á Elli- og hjúkrunarheimilið Grund. Þar bjó hún við góða aðbúð, naut elskusemi starfsfólks, endurheimti eða eignaðist “nýja” systur í Sigrúnu, herbergisfélaga sínum. Þær nutu félagsskaparins og voru á Grund kallaðar “systurnar.”

Síta lést að morgni 10. október sl. og verður jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Ýmsir hafa beðið fyrir kveðjur til ykkar, sem komið í kirkju í dag til að blessa minningu Sítu. Kveðjur hafa borist frá: Baldri bróður á Kumbaravogi; Jóni Braga Bjarnasyni, bróðursyni, og Ágústu Guðmundsdóttir, konu hans, sem eru í Bandaríkjunum;
Kristínu Erlu Sigurðardóttur í Vín;  Steinari Braga Guðmundssyni og Rósu Guðmundsdóttur. Sigríður Ingólfsdóttir og Sigurður Ingi, sonur hennar, þakka fyrir vináttu. Þá biðja fyrir kveðju þau Sigrún, Viktoría Bryndís og Haukur, en þau eru börn Friðfinnu og Viktors á Bjarmastíg 7, Akureyri, sem forðum opnuðu heimili sitt fyrir Sítu og reyndust henni sem besta fjölskylda á Akureyrartímanum.

Þjónusta og elska

Minningarorð í útfararathöfn skilgreina ekki líf fólks og gera ekki upp með neinum tæmandi hætti, marka ekki stöðu fólks í lífinu, en geta hins vegar stutt í sorgar- og sálarvinnu. Það hefur verið undursamlegt að hlusta á vini og aðstandendur lýsa Sítu. Öllum ber saman um dyggðir hennar en lastaskorturinn er sláandi.

Skólasystur fyrir norðan lögðu saman í lýsingu á henni ungri: Síta var yndisleg, vel gerð manneskja, róleg, spaugsöm en í henni var snöggur sálarblettur, góður húmoristi, trölltrygg, vel máli farin og hnyttin. Mér virðist, að skaphöfn hennar hafi snemma verið skýr og hafi haldist. Hún tók þátt í ýmsu í menningarlífi borgarinnar, fylgdist með bókmenntum og dægurmálum, hafi góða yfirsýn varðandi deiglu samfélagsins eins og er oft um skarpa einhleypinga. Hún var eins og margir nútímamenn, ferðalangur í tíma og rúmi og naut ferðanna sem hún fór, hvort sem það var nú til Ítalíu eða í orlofssetur fjölskyldunnar að Seljum á Mýrum.

Gildi manna verður ekki úrskurðað heldur í minningarorðum. En mig langar til að draga athygli þessa safnaðar að ríkulegri þjónustu Sítu. Þær voru ekki beinlínis mjög líkar Zíta keisaraynja og Síta í Sörlaskjólinu. En það voru til fleiri Zítur í sögunni. Á 13. öld fæddist kona suður í Toscana á Ítalíu og hún hét Zita og varð kunn fyrir elskusemi, sem var svo yfirfljótanleg og með jarðteiknum að Zita var síðar tekin í tölu dýrlinga, var dýrlingur hinnar auðmjúku þjónustu. Kannski er það hin þjónandi Zita, sem Sigríður Jónsdóttir líkist meira, en sú, sem þjónað var í keisarahöllinni.

Síta hin íslenska reyndist vel öllum þeim, sem henni voru vandabundnir. Hún þjónaði ekki aðeins móður sinni til hinsta dags. Hún umvafði líka systur sína kærleika sínum þau ár, sem hún lifði, gerði sitt til að gleðja hana og vera með henni í smáu sem stóru. En eftir að hún féll frá og veröldin stækkaði og fjölgaði í fjölskyldunni stækkaði faðmur Sítu. Hún átti ekki börn sjálf, en úthellti sér fyrir bróðurbörn sín, börn Rósu og Bjarna Braga, sem besta aðstoðarmóðir og síðan börn þeirra með sömu ástareinurð.

Síta átti í sér barnvirðingu og kyrru svo börn gátu án streitu rætt við hana. Börnin studdi hún og hvatti. Fátt var svo stórt, að það yrði Sítu fyrirstaða eða dýrt að  hún hefði ekki einhver tök. Hún átti til gjafmildi að telja og kippti í það kynið. Allt hennar fólk og þeir, sem nærri henni voru, vinnufélagar þ.m.t, nutu þessa af hennar hálfu. 

Síta þjónaði samfélagi sínu með róttæku og kærleiksríku móti, efldi líf margra barna, gerði líf þeirra ævintýralegt. Í minningu margra þeirra eru viðburðir, sem eru svo skemmtilegir og kúnstugir, að Astrid Lindgren hefði allt eins getað uppdiktað þá og gefið út á bók. Síta var stókostleg í sumu og ávallt veitul í samskiptum.

Af því enginn er eyland er besta þjónustan í þessum heimi fólgin í að efla fólk, veita því litríki í grárri tilveru, opna nýjar víddir þegar sund virðast lokuð, vera til staðar þegar börn, já fólk á öllum aldri, þarfnast hlýju og öryggis, vera öðrum opin sál og laða fram lífið. Það var Síta.

Elskan

Alla tíð var dregið í hana, vök sjávar var opin og nærri, en alltaf var hún í samfélagi. Hún var ein en þó nálæg. Hún var barnlaus en þó barnmörg. Og nú hefur vökin opnast enn betur, handtak hinna fremstu og næstu slitnað og nú er skilum náð. En hvað tekur við? Er það köld gröf og myrk hvíla? Nei, það er betra líf. Í stað einverunnar hverfur hún inn í margmenni. Í stað skuggaleiks ríkir þar birtan ein. Í stað þess að sjá á eftir og óttast um sitt fólk má hún hlægja í stórum hópi sinna, þeirra sem hún elskaði, mömmu og pabba, Svöfu, afa, ömmu, já hins stóra frændgarðs þar sem ekkert er tapað og engu er sóað, þar sem allir hafa náð fullum þroska, þar sem enginn þarf að líða fyrir hvorki sorg eða mistök, þar sem allir eru glaðir og þar sem bernskan ríkir hrein. Þar brotnar enginn ís á víkum, þar eru engar myrkar vakir, þar ríkir elskan hrein, sem aldrei springur og engan svíkur. Guð geymi Sítu um alla eilífð. Guð geymi þig, sem kveður, og alla ástvini.