Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir – minningarorð

Getur verið að elska Guðrúnar eigi sér himneskt upphaf, vilji hennar til að sjá ljósið, færni hennar til að faðma komi úr lífsmiðjunni sjálfri? Útför Guðrúnar var gerð frá Neskirkju 27. maí 2008.

 Elskaði Guð

Í Jóhannesarguðspjalli standa orð, sem margir þekkja og Lúther kallaði Litlu Biblíuna. „Því svo elskaði Guð…” Hvað elskaði Guð? „Því svo elskaði Guð heiminn…” Af hverju? „…til að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.”

Þetta er jákvæðni Guðs að meta alla, elska fólk, gæta veraldarinnar og vekja hug fólks til góðs lífs. Svo opnar Guð fangið gagnvart öllum og þannig var Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir líka.  

Samband Guðs við veröld og menn er ástarsaga, saga um lífsgleði, sem umvefur allt og líka þessa góðu konu, sem við kveðjum í dag. Hún var boðberi þeirra góðu afstöðu, að þessi heimur er gerður fyrir líf og gleði þrátt fyrir, að margir gleymi því í erli og átökum daganna.

Ætt og uppruni

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir fæddist á Ferjubakka í Öxarfirði 27. maí 1920 og er jarðsett á afmælisdegi sínum.

Foreldrar hennar voru hjónin Ólafur Mikael Gamalíelsson og Aðalheiður Björnsdóttir. Hún var miðbarn þeirra. Elst er Birna og yngstur var, Arnbjörn, sem er látinn. Birna lifir ein systkini sín.  

Guðrún ólst upp í Öxarfirði. Ferjubakki var menningarheimili. Þegar foreldrarnir, Ólafur og Aðalheiður, hófu búskap þar var ekki lengur þörf á að ferja fólk og fé yfir Jöklu því  hún var þegar brúuð og hafði verið frá upphafi 20 aldar. Ferjubakki var í þjóðbraut. Stutt var einnig í prestssetrið á Skinnastað. Systurnar áttu oft leið þangað og pössuðu börn prestshjónanna. Sr. Páll Þorleifsson, sá merki klerkur, hafði ekki ætlað að vera lengi í Öxarfirði, en sagði síðar að þegar hann hafði kynnst menningarbrag fólksins  hafi hann uppgötvað að hann hefði ekkert betra að sækja burt. Þetta segir það, sem segja þarf til skilnings á uppeldisumhverfi. Sveitarbragur í Skinnastaðaprestakalli var rismikill. Bækur veraldar áttu leið í Öxarfjörð og rötuðu líka í Ferjubakka. Foreldrarnir tóku vel við, voru bókhneigð og börnunum var innrættur manndómur, fróðleikssókn og ljóðelska. Pabbinn var hagmæltur. Heimilisbragurinn var hlýlegur, hjónaband foreldranna var gott. Tengsl voru því gjöful. Guðrún gerði sér æ betur grein fyrir hvað gott heimilislíf merkir þegar hún bar rótslitin heimili við lífið heima. Á Ferjubakka var lögð áhersla á að fólk ekki aðeins borðaði saman heldur deildi geði, hugmyndum, tilfinningum og sögum. Þegar úti- eða heimilis-verkin kölluðu ekki var setið lengi og mörgu miðlað.

Auk hefðbundins búsmala átti Ferjubakkafólkið geitur, sem ungviðið á bænum kunni vel að meta og þótti gaman að fara uppá hól og kalla „kiða kið” sem skepnurnar gegndu.

Skóli og vinna

Skóla sótti Guðrún í Lund. Þar réð ríkjum Aðaldælingurinn, Dagur Sigurjónsson frá Sandi. Í skóla var Guðrún í þrjá vetur og lauk sínu grunnnámi fyrir fermingu. Hún var síðan heima og þjónaði sínu fólki.

En svo fóru þær systur að sækja suður. Þær unnu um tíma í Farsóttarhúsinu, hjá Maríu Maack, en smituðust af mislingum og fóru heim. En svo gerðu þær aðra tilraun, og fengu vinnu í West End í Reykjavík, sem var auðvitað vestast á Vesturgötunni. Brynja var í sjoppunni á jarðhæð en Guðrún vann við matsölu í sama húsi. Um þetta leyti hófst þrautaskeið í lífi Guðrúnar. Hún fór að finna til í baki, en enginn læknir fann ástæðu verkjanna. Að lokum og eftir ítrekaðar skoðanir kom í ljós, að hún var með berkla. Guðrún fór á Landakot. Þegar hún komst til nokkurrar heilsu fór hún heim í Ferjubakka til að ná sér. En síðan veiktist hún aftur og var ár á Landakoti. Víst er, að verkirnir hafa verið reynt í henni stálið. Og þá lærði Guðrún að stjórna geði sínu og tilfinningum og varð stillt og æðrulaus.

Steinþórunn – sólargeislinn

En meðfram líkamsáraun styrktist Guðrún hið innra og þroskaðist. Hún var tilbúin til að takast á við stórvirki ævi sinnar. Steinþórunn Karólína Steinþórsdóttir, frænka hennar kom barnung í Ferjubakka og Guðrún, ásamt gömlu hjónunum, tóku hana að sér. Guðrún varð svo ábyrg fyrir þeirri stuttu, sem kallaði hana Guldu. Og Steinþórunn var sólargeislinn hennar og Gulda varð samhengi hennar, fang og móðir.  

Framnesvegurinn

Fyrstu árin voru þær fyrir norðan heima á Ferjubakka til 1964 er þær fóru suður, bjuggu fyrst á Smáragötunni og svo keypti Guðrún íbúð vestur í bæ, á Framnesvegi 10. Foreldrar Guðrúnar brugðu búi, komu suður og saman fluttu þau öll inn í íbúðina á Framnesvegi.

Þjóðleikhúskjallarinn og Grund

Áður hafði Guðrún unnið á prjónastofu en fór svo að vinna í Þjóðleikhúskjallaranum. Frá 1967 vann hún svo á elliheimilinu Grund, líkaði vel vistin og kærleiksþel hennar fékk notið sín við þjónustu við gamla fólkið. Á Grund vann Guðrún þar til hún var orðin 71 árs, eða 24 ár.  

Elskusemin

Það er gott að hlusta á fólkið hennar Guðrúnar tala um hana og eigindir hennar. Eldri sem yngri ber saman um elskusemi hennar. Hún var dýravinur og lagði áherslu á helgi lífsins og vel væri farið með allar skepnur. Og hún var mannvinur. Allir voru velkomnir í hennar hús, krakkarnir í hverfinu sóttu í að fá að koma til Guldu og hún átti oftast kakó og bakkelsi handa þeim.

Faðmur kynslóða

Hún endurgalt uppeldi og elsku foreldrahúsa og studdi foreldra sína aldraða. Guðrún kom Steinþórunni til manns, studdi hana með öllum sínum ráðum og dáð. Svo þegar hún stóð á krossgötum í lífinu tók hún við henni með tvö börn. Guðrún Heiða og Ólafur Fáfnir nutu Guldu. Hún hafði þol og langlyndi til alls, sem bernska þeirra bar með sér. Svo þegar þau uxu úr grasi opnaði hún fangið gagnvart enn nýrri kynslóð. Ólafur og Sigrún eiga Snorra Má. Og Guðrún Heiða og Bjarni maður hennar eiga Alexöndru og Sindra Frey. Þau urðu Guðrúnu augasteinar. Og þau missa líka mikið. Þau hafa mikið að þakka og einnig átti Guðmundur Valberg, maður Steinþórunnar, góð samskipti við Guðrúnu. Öllu þessu fólki er við leiðarlok þakkað allt það góða sem það tjáði Guðrúnu og endurgalt í samskiptum.

Styrkur og tengsl

Guðrún var seig, elskuleg, stóð með öðrum, ekki síst sínu fólki. Hún var glaðlynd og spaugsöm. Hún var skapstyrk en skapgóð, rólynd, vann vel úr málum, jafnlynd, trygg og samviskusöm. Hlý og góð við alla, bæði menn og málleysingja. Hún hugsaði ógjarnan um sjálfa sig, kvartaði ekki, vildi ekki að aðrir hefðu áhyggjur af sér.

Guðrún var bóksækin, fróð og vel að sér um flest. Hún sinnti símenntun, var t.d. í námsflokkunum, lærði ensku og fleira. Kunnáttan skilaði sér í uppfræðslu ungmenna, sem henni stóðu nærri. Hún kenndi börnunum á bók og miðlaði þeim fróðleik, kenndi þeim lífskúnstir, hvort sem það var nú að reima skó eða lesa. Hún var góður kennari og verðlaunaði þegar nemendum hennar tókst vel. Hún hafði hæfni til að umgangast alla aldurshópa. En hún naut líka samskiptanna við fólkið sitt og þær systur, Birna og hún, töluðu saman á hverjum degi, jafnvel oft á dag.  

Hún tók eftir því sem var gott, var sjálf vitnisburður um, að lífið er skemmtilegt. Guðrún var fólki vottur um þann meginboðskap, að lífið er gott.  

Á Hjallaveginn

Guðrún bjó á Framnesvegi til ársins 2000. Þá flutti hún til dótturdóttur, Guðrúnar yngri, á Hjallaveg 4. Þar bjuggu kynslóðir saman. Guðrún eldri fékk notið sín, tók til hendi, naut samvista við sitt fólk og hafði hlutverk. Börnin nutu hennar, hún gaf þeim tengsl við ættarsöguna, fortíðina, menninguna, og gaf þeim innsýn í hvernig fyrri kynslóðir hugsuðu og jafnvel elduðu heimilismat 20. aldarinnar. Unga fólkið gaf henni hlutverk og hún gat stutt þau í námi, tekið á móti þeim þegar þau komu úr skóla og veitti þeim nánd og öryggi.

 Guðrún naut góðrar heilsu lengstum og var ern til lífsloka, fór sinna ferða og oft með strætó niður í miðbæ Reykjavíkur. Hún var á leið heim úr innkaupaleiðangri 2. maí síðastliðinn þegar hún fékk áfall, fór á sjúkrahús og lést svo 13. maí síðastliðinn.

Táknsaga og lífháttur

Við sjáum á bak konu, sem ber líka í sér táknsögu Íslands, – flutti úr sveit í borg og birtir með búsetusögu og atvinnusögu sinni líf- og breytinga-sögu þjóðarinnar á tuttugustu öld. Hún var fjölskyldu sinni samhengi og tengdi saman eldri og yngri kynslóð og var fastur punktur tilverunnar.  

En svo var hún í lífsháttum sínum líka fulltrúi fyrir þroskaða afstöðu. Hvað er það í lífi Guðrúnar, sem þú getur lært af? Þú getur rifjað upp minnisstæð atvik úr samskiptum ykkar. En getur verið, að þú lærir svolítið um Guð í leiðinni? Getur verið að elska hennar eigi sér himneskt upphaf, vilji hennar til að sjá ljósið, færni hennar til að faðma, fegurðarskyn komi úr næmu hjarta lífsmiðjunnar sjálfrar?

Því svo elskaði Guð

Er ekki lífið fyrir elskuna? Munum, að Guð er einskær ást, umhyggja. “Því svo elskaði…” elskaði hvað? Því svo elskaði Guð Guðrúnu… að hún speglaði elsku til allra. Því svo elskaði Guð þig…. til, að þú verðir farvegur lífsins, ástríkis, birtu og vona.

Hendurnar hennar faðma ekki lengur. Fallegu augun hennar horfa ekki lengur í augu þín. Þú getur ekki lengur hringt í hana eða farið til hennar. Hún er horfin – inn í hina eilífu elsku, inn í hinn stóra ástarfaðm, sem Guð er. Hún er hinum megin við brúna miklu, í Ferjubakka himinsins, þar sem er bara hlátur, góðar fréttir, birta og gaman. Leyfðu minningunni um Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur að lifa í huga þér og næra lífsmátt þinn.

Því svo elskaði Guð, elskaði svo mikið að Guð kom sjálfur til að brúa jöklur heimsins, bjarga okkur öllum. Guðrún minnir okkur á, að Guð er elskhugi, horfir á okkur ástaraugum. Þegar við hugsum um hana má hugur alltaf nema þá hvatningu, að við ættum líka að lifa vel, muna að lífið er ástarsaga. Með því minnumst við vel og leggjum okkar í ástarsögu Guðrúnar.

 Líkræða: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir.  

Útför frá Neskirkju 27. maí 2008.

Baldur Jónsson – minningarorð

Matthías Jochumsson hreifst af nítugasta Davíðssálmi og umorti. Lofsöngur Matthíasar varð síðar íslenski þjóðsöngurinn. Í Davíðssálminum segir: “Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Lífið, tíminn, verðandi veraldar og íslensk saga kalla: “Kynslóðir koma, kynslóðir fara” – og minna svo á annað líka – hvað er – og hefur verið – athvarf frá kyni til kyns. Börn fæðast, þrá og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná ekki þroska. Og ívaf sögu okkar allra er hið sama: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þrungin og þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað.

Lofstír manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, lífsblöðin sem nú lifna – “hverfið aftur…” Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina: “Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?” Allt sem er í þessum heimi er fagurt, undursamlegt en þó markað forgengileika, takmarkað.

Uppruni og ætt

Baldur Jónsson fæddist 6. september árið 1926. Hann var elsti sonur Ólafar Bjarnadóttur (1895-1988) og Jóns Hallvarðssonar (1899-1968). Báðum megin eru öflugir frændgarðar, mikið hæfileikafólk og mannval. Systkini Baldurs eru Bjarni Bragi, Sigríður og Svava og Bjarni Bragi lifir einn systkini sín.

Fyrstu árin bjó Baldur í stórfjölskylduhúsinu á Kárastíg 11 í Reykjavík. Síðan fór fólkið hans til Vestmannaeyja árið 1932 og Baldur var orðinn nægilega áttaður til að sjá nýja veröld og horfa á hana opnum augum og með vitund. Pabbanum var síðan veitt sýslumannsembætti í Stykkishólmi og þar bjó fjölskyldan til ársins 1941 er hún flutti til Reykjavíkur.

Uppvöxtur og mótun

Þroskasaga Baldurs varð snemma sérstök. Hann vakti aðdáun og eftirtekt sem barn. Hann var talinn fríður, skýr og skemmtilegur í tali. Hann naut þess að baða sig í ljóma aðdáunar og þótti súrt að missa athygli þegar systkinin bættust við. Baldur tók til að við að stýra þessu yngra liði, gerði tilraunir með stjórnunarhætti sem aðeins brýndi þau stuttu og hvatti til dáða. Síðan atti Baldur bróður sínum fram fyrir sig og það varð til að tengja Bjarna Braga við umheiminn – en kannski líka samtímis að fjarlægja hann sjálfan og inn í eigin heim?

Íhuganir mínar hef ég frá Bjarna Braga Jónssyni og hann getur þess í ritaðri hugleiðingu um Baldur, bróður sinn, að á barnsaldri hafi hann leitað athvarfs í undarlegum, innhverfum látbragðsleik með blýant. Hendur hans skiptust á að halda á blýantinum og væri Baldur truflaður í leiknum varð hann feiminn, en vildi ekki skýra í hverju þessar handaskiptingar væru fólgnar og hvað þær merktu. Var hann að hverfa æ meir inn í eigin heim í stað þess að tengjast sameiginlegri veröld manna og sköpunarverks? Voru þetta vitnisburðir um einhverfu á einhverju stigi? Það vitum við ekki og getum ekki annað en íhugað og getið í eyður.

Mál

Baldur náði ágætum málþroska en hafði enga þörf fyrir að nýta sér málhæfni í hópum og á mannfundum. Hann ræktaði sitt með sjálfum sér, lifði tilfinningabylgjur hið innra, en bjó við nokkuð einbeitingarleysi og varð fælinn á sumt í mannfélagi, t.d. hitt kynið. Blíðuhót karls og konu átti hann t.d. erfitt með að horfa á.

Eftir að Baldur lauk fullnaðarprófi í Hólminum hélt hann suður – og á undan sínu fólki. Hann byrjað í gagnfræðaskóla. Sr. Jakob Jónsson í Hallgrímssöfnuði hreifst af atgervi Baldurs og bað hann um að flytja ræðu um friðarboðskap kristindómsins á ungmennasamkomu. Það voru orð í tíma töluð á upphafsárum seinni heimsstyrjaldar. Á þeirri samkomu byrjaði og lauk Baldur eiginlega tveimur þáttum lífsins, opinberri ræðumennsku og trúartjáningu. Eftir þetta talaði hann ekki opinberlega og fór síðan nokkuð á svig við arfbundinn kristindóm einnig.

Fé og nám

Guðrún, frænka Baldurs, studdi drenginn til festu og reglu. Vegna vinnu Baldurs á unglingsárum safnaðist honum fé á bók. En þegar Baldur fékk nokkru ráðið – og Guðrún minna – gekk hratt á sjóðinn. Samgangur og eftirlátssemi við slarkfengna vini urðu síðan til að girða fyrir fjárhagslegt sjálfstæði hans æ síðan.

Þegar Baldur hafði lokið Ingimarsskóla fór hann í þriðja bekk MR. Var Baldur nokkuð á eigin vegum bæði í námi og lífi á þeim árum. Hann las ekki kerfisbundið eða skipulega og gaf sig ekki að marki heldur að félagsstörfum. Guðrún frænka hafði nokkrar áhyggjur af og deildi þeim með rektor og foreldrum. Hún tók Baldur í gjörgæslu og hann lauk stúdentsprófinu árið 1946, á eitt hundrað ára afmæli skólans.

Innri glóð og rithneigð bjó í Baldri. Alla tíð var hann bókhneigður og las gjarnan fagurbókmenntir. Ungur ól hann með sér draum um ritstörf. Eina ritgerð birti hann í skólablaðinu og hét hún “Ástin sigraði.” Þá skrifaði hann ítarlega ferðasögu stúdentsárgangsins um för nýstúdentanna um Skandinavíu og Færeyjar. Frásögn hans var svo prentuð í hátíðarútgáfu Skólablaðsins í október, sama ár og hann útskrifaðist. En þó Baldur birti ekki ritverk sín opinberlega síðan hélt hann skrifum áfram og ritaði íhuganir sínar í kompur og stílabækur, skrifaði niður drauma sína, afstöðu til samfélagsmála, langanir og það sem honum datt í hug. Ritunarháttur hans minnir helst á það sem bloggarar samtíðar aðhafast. En tíð Baldurs leyfði lítt meira en kompur, en nú er hægt að birta allt á æðaveggjum veraldarvefsins. En Baldur var ritandi ljósvíkingur og kannski andlega skyldur frænda hans Magnúsi Hjaltasyni, fyrirmynd Laxness að Ólafi Karasyni. Sumt af kompum hans glötuðust en þyrfti að varðveita hitt og leyfa einhverjum að greina. Samanburður við nútímablogg væri áhugavert masters- og kannski doktorsverkefni framtíðar!

Námslok, vinna og líf

Eftir stúdentspróf hóf Baldur læknisnám, lauk forspjallsvísindum, en hætti svo læknisnámi. Gekk á ýmsu hjá honum í atvinnumálum og var honum ekki sýnt um að marka sér bás eða skýra stefnu. Um tíma lagði hann fyrir sig kennslu, norður á Geitaskarði í Húnaþingi, og í Grundarfirði. Þar lagði hann m.a. til að framhaldsskóli yrði stofnaður. En í því var hann fullkomlega á skjön við smærra þenkjandi samferðamenn og “hagsýni” þeirrar tíðar. Það var ekki fyrr en á síðustu árum, sem hugmynd Baldurs hafði spírað nægilega vel til að eitthvað yrði úr og nú er rekinn metnaðarfullur og nútímalegur framhaldsskóli í því plássi.

Í nokkur ár vann Baldur í fiskvinnslu, einkum eða eingöngu í Grindavík. Líf í fiski varð Baldri hugleikið og í mörg ár vann hann við fiskirækt í sumarparadís fjölskyldunnar á Seljum. Um árabil bar iðja hans góðan ávöxt og laxastofninn sem hann kom upp gaf árangur, en hnignaði þegar seiðsleppingu lauk. Af laxinum og veiðiskapnum hafði Baldur tekjur og unað af sambúð með náttúrunni. Og hann naut líka heimsókna vina og kunningja, sem sóttu í dýrðina á Mýrunum.

Eftir að Jón, faðir hans, féll frá árið 1968 varð móðirin hans helsta stoð. Baldur gat alveg tjáð henni þakklæti fyrir elskusemi og umhyggju. Hann færði henni blóm á tyllidögum og naut hennar í mörgu til 1988, þegar hún lést. Þá var Baldur metinn til örorku og fékk aðstöðu í húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar. Þegar Baldur var orðinn sjötugur kom veruleg heilabilun í ljós við vistunarmat. Hann þekktist vistun á Kumbaravogi á Stokkseyri í október 1999. Þar var hann allt til loka, með nokkrum hléum og nokkrum Reykjavíkurferðum. Síðustu árin dró af honum og hann varð linur til gangs fyrir um tveimur árum, líkamsheilsa hans tók að versna og undir lokin var hann hættur að stíga í fætur. Baldur lést 8. maí síðastliðinn. Vert er við þessi skil, að minna á þjónustu starfsfólks á Kumbaravogi við Baldur, þakka hana og hlýju þeirra og elskusemi. Þá er vert að þakka fjölskyldunni fyrir umhyggju þeirra og allt það sem þau hafa gert Baldri gott til.

Viturt hjarta – veröld Guðs

Nú eruð þið komin saman í dag til að kveðja. Líf Baldurs var ekki samfelld sólarganga. Hann upplifði oft vætusama tíð. Og lægðahryssingurinn gekk bæði yfir hann, vini og fjölskyldu. En svo gátu allir rétt úr sér, notið góðu daganna og brosað. Enginn fæðist á röngum tíma, en ljóst er að fræði nútímans hefðu líklega greint vanda og hæfni Baldurs betur en hægt var fyrir áratugum. En þó er ekki víst, að hann hefði orðið hamingjusamari. En líklega hefðuð þið vinir hans, fjölskylda og ástvinir fengið betri skýringar, sem hefðu hjálpað í viðbrögðum og aukið skilning á hvað var hvað – og hvers vegna gerði Baldur þetta en ekki hitt.

Og hvað svo? Hvað gerir þú við eftirsjá, sorg, þínar innri kenndir og íhuganir? Þú getur ekkert lengur gert fyrir Baldur, þú horfir á bak honum – en þú átt þitt eigið líf og ástvini. Mikil lífskúnst er að reyna að læra af öðrum til að bæta eigið líf, gera ekki sömu mistökin og aðrir, reyna að draga heim lærdóm til góðs, greina í sjálfum sér arf eða hneigðir, sem má vinna með og reyna að láta ekki yfirskyggja eigin hamingju eða annarra.

Glöggum hefur löngum verið ljóst, að við menn erum ekki leiksoppar lífsins og viðburða veraldar nema að hluta. Við erum kölluð til ábyrgðar, til að móta eigin líf, til að velja. Og við erum ekki síst kölluð til að lifa vel, með fullu viti, nýta hæfni okkar og einnig til góðs fyrir fólk, fyrir okkar samfélag, þjóðfélag, sinna vel okkar fræðum og lifa svo að við skilum vel af okkur. Við erum öll kölluð til að gera eins vel og okkur er unnt. Meira er ekki krafist.

Í sálmi þjóðarinnar segir: “Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” – öðlast viturt hjarta.”

Hvað er viska? Jú, það er viska að bera virðingu fyrir lífi, verkum og hugsun genginna kynslóða og miðla áfram. Það er viska að halda til haga menningararfi. Það er viska að bera virðingu fyrir öllum mönnum, hvernig sem þeir eru.

Hvað er viturt hjarta? Jú, það dælir ekki aðeins blóði í vöðva heldur iðkar hið góða og ræktar hið gjöfula. Við getum lært hvert af öðru í þeirri kúnst að iðka lífsgæðin, að leyfa ástinni að sigra í lífinu. Í dag er áð á bakka tímans. Í dag hvíslar náttúran gleðisálma lífsins, en svo heyrist líka þetta hvísl alls sem er: “Hverfið aftur þér mannanna börn – aftur til duftsins.”

Hver er máttur mannsins? Baldri var margt gefið en svo voru í honum snöggir blettir. Allt er sem blómstur segir í sálminum um blómið og við syngjum í þessari athöfn. Allt, allt hverfur aftur til duftsins, þú líka, allur þessi söfnuður. Hvað er þá eftir?

Ein spurning af sama meið er hvað verði um hann Baldur? Hvar er hann? Hver er trú þín? Þú mátt trúa því, að Baldur fær að gista þá sali sem hæfa, jafnvel manni með guðsnafn. Hann má dvelja í hinum himneska Hólmi, himneskum Vogi, þar sem hann getur opinberað alla skynjun sína, þar sem blýantaleikurinn verður skiljanlegur, þar sem hann nær að tengja, fær orð og getu til að vera það sem hann vildi. Í því er fólgin djúp hugfró að skilja það gleðisamhengi og sjá ástvini sína í því. Gildi trúar verður hvað ljósast, þegar við vinnum með sorg, áföll og missi – þessi afstaða traustsins – að lífið er gott, gleðilegt og vonarríkt – þrátt fyrir skugga og dauða. Þar verður ferðasaga hans, ferðasaga okkar allra, að tíma ástarinnar sem sigrar allt, dauða og sorgir.

Leyfðu Baldri að hverfa inn ljósið. Trúðu á Guð sem er ástin sem sigrar allt. Í því fangi má Baldur ávallt búa.

Minningarorð flutt við útför Baldurs Jónssonar, Fossvogi 16. maí 2008.

Lifa vel og deyja vel – Gunnar Örn minning

Hann var dásamlega opinn, hafði unnið með myrkrið í eigin lífi og gat því ljós í skuggasundum. Mynd hans af heiminum var máluð með ögun, bernskri hrifningu, ákveðni, krafti og vaxtargetu. Minningarorð um Gunnar Örn eru orðmyndir, flutt við útför hans 11. apríl, 2008.

Gunnar Örn tók öllum heiðarlegum spurningum vel, hló hjartanlega þegar spurt var á ská og með gleði. Tæknilegum spurningum svaraði hann með hraði en upplifunar- og dýptar-spurningum með meiri hægð og íhygli en oft með óvæntum hætti.

Á síðustu páskum sátu nafnar, afi og afadrengur saman og sá yngri spurði: “Afi, hvernig heldurðu það sé að deyja?” Og Gunnar Örn svaraði án hiks: “Æðislegt.” Unglingurinn á þetta svar og fylgir afa sínum með allt öðrum hætti en ef hann hefði sagt að það væri átakanlegt, ömurlegt eða fúlt. Sama gildir um þau hin í fjölskyldunni. Afinn var húmoristi, en alltaf heiðarlegur – við sjálfan sig, fólkið sitt, við vini sína, skjólstæðinga, já alla og þar með listina og Guð.

Æðislegt – og svo sagði hann vini sínum, að hann ætti von á “ljósashowi!” Gunnar Örn átti ekki til tepruskap. Hann gat því skellt slanguryrðum að stóru spurningunum um líf og dauða og þar með kallað fram nýja íhugun. Gunnar var dásamlega opinn. Hann hafði unnið með myrkrið í eigin lífi og gat því betur séð tækifæri og ljós í skuggasundum. Mynd hans af heiminum var máluð með ögun, bernskri hrifningu, ákveðni, krafti og vaxtargetu.

Upphaf

Gunnar Örn Gunnarsson fæddist í Reykjavík 2. desember árið 1946. Hann var aðeins 61 árs er hann lést 28. mars sl. Æska hans var flókin og stálið var hert í honum strax í bernsku. Móðir hans var Guðríður Pétursdóttir og faðirinn Gunnar Óskarsson, bæði látin. Gunnar Örn átti einn albróður og sér yngri, Þórð Steinar. Þeir Þórður ólust ekki upp saman, en urðu nánir sem fullorðnir menn. Auk þeirra átti Guðríður Davíð Eyrbekk og Pétur Meekosha. Þá á Gunnar Örn þrjú systkin samfeðra, þau Finnboga, Sigríði Jóhönnu og Sigurð Má.

Foreldrar Gunnars skildu þegar hann var fimm ára. Hann var þá sendur suður í Garð til afa og ömmu. Afinn var ekki alltaf tilfinningalega nálægur en amman, Munda í Höfn, var honum og öðru fólki sínu lífsakkeri. Davíð, sem var eldri en Gunnar, var með honum og mikilvægur bróðurnum. Lítil tengsl voru við pabbann og þegar Guðríður, Gunnarsmóðir, giftist til Englands var Gunnar 14 ára og varð eiginlega sjálfs síns ráðandi og á eigin vegum þaðan í frá.

Gunnar Örn var forkur og snarráður, en fáir fara að vinna og eiga börn rétt fermdir eins og hann. Hann fór á sjó á Gísla Árna og var á loðnu og síld. Gunnar var aðeins 16 ára þegar hann varð pabbi og Sigríður kom í heiminn. Móðir hennar er Þuríður Sölvadóttir og var jafngömul barnsföðurnum. Þau bjuggu saman um tíma en svo slitnuðu tengslin. Gunnar hafði lítið af dótturinni að segja fyrstu árin, en svo urðu þau náin síðar.

Skotið inn í líf hins fullorðna

Gunnari Erni var eiginlega skotið úr hlaupi aðkrepptrar bernsku yfir unglingsárin og inn í fullorðinslíf. Hann tapaði fínstillingartíma persónumótunar. Hann var því eiginlega alla æfi að stilla og tjúna og varð því mun meira spennandi karakter en flest okkar hinna. Hann spurði sjálfan sig: “Hvað vil ég, hvað ætti ég að verða?” Myndlist og músík kölluðu. Hann langaði til að láta reyna á tónlistarnám. Meðan dóttir hans dafnaði í móðurkviði mundaði Gunnar Örn sellóbogann í  Kaupmannahöfn. En fljótt uppgötvaði hann að honum leiddist að spila bara það, sem aðrir sömdu og gerði sér grein fyrir að sellisti gæti ekki bara spilað eigin lög! Það er ekki sjálfgefið að menn viðurkenni á hvaða hillu þeir geta ekki verið á. Allt of margir eru í þeirri stöðu, en þora ekki að hoppa niður og lifa því á skjön við sjálfa sig. Gunnar var ekki þeirrar gerðar. Hann var lesblindur og skólamenning þeirrar tíðar skákaði slíkum mönnum í horn tossanna. En Gunnar Örn lét ekki stúka sig af hvorki þá né nokkurn tíma síðar. Að kreppa er tækifæri var inngreypt í afstöðu hans.

Þar sem allar nánar fyrirmyndir skorti varð Gunnar Örn að gera sínar eigin myndlistartilraunir og að mestu leiðsagnarlaus. En barn, sem ekki brotnar í miklu bernskuálagi, er borið til seiglu. Gunnar vissi að uppgjöf var ekki valkostur og hafði í sér næmi til að hlusta á sinn innri mann, tók mark á tilfinningum og vitjaði drauma sinna með ákefð.

Myndir urðu til

Hann fór að skoða myndir, teiknaði og varð sér út um pensla og liti og æskuverkin urðu til. Allir listamenn eiga einhverja litríka upphafs- og gerninga-sögu og auðvitað á Gunnar sína útgáfu. Hann málaði allt, sem hann náði í, masonít og krossvið, þegar annað var ekki við hendi. Svo fór hann að banka upp á hjá útgerðarmönnum í Garðinum og bauð þeim myndir á kjarakjörum. Þeir brugðust yfirleitt vel við og keyptu af Gunnari skiliríin.

Á þessum árum voru Gunnar og Þorbjörg Birgisdóttir hjón. Vilhjálmur Jón fæddist þeim árið 1965, Gunnar Guðsteinn þremur árum síðar og síðan Rósalind María árið 1972. Á þessum barnsfæðingarárum var Gunnar á fullu í myndlistinni. Hann hélt fyrstu sýningu sína í Unuhúsi 1970. Svo fóru þau Þorbjörg til Danmerkur 1973 og Gunnar vann fyrir sér og sínum. Í frístundum málaði hann svo heima í stofu. En svo fór hann heim 1975 og hélt áfram að sýna.

Líkamsslitur

Skólagangan fór fyrir bí, en íslenskir listmálarar voru nægilega stórir í sér til að þola að sjálfmenntaður maður fengi pláss og inngöngu í gildi listamanna. Þeir dáðust að verkum hans, færni og dug. Margir uppgötvuðu Gunnar Örn sem málara á sýningum í Norræna húsinu í byrjun áttunda áratugarins. Hinar stórkostlegu kviðristumyndir og líkamsslitur voru eins og sprengjur. Unglingar þess tíma, aldir upp við sófamálverk Freymóðs og Matthíasar, urðu fyrir fagurfræðilegu sjokki og tilfinningalegri upplifun. Þótt stöðugt yrðu breytingar í list Gunnar eru margir, sem þekkja myndir hans úr fjarska og í sjónhendingu, svo sérstakt er handbragðið og höfundareinkennin sterk.

Þanið líf

Fyrri hluti lífs Gunnars Arnar var eiginlega tilraun um manninn og þanþol mennskunnar. Gunnar reyndi að sjá fjölskyldunni farborða, halda áfram í málverkinu, finna næði til vinnu, stilla tilfinningavíddirnar og lifa. En drykkjuboltastíll fer illa með alla og verst með hinn innri mann. Aldrei skyldi skýra myndir Gunnars Arnar aðeins með vísan í hvort hann var hátt uppi eða langt niðri. Myndir hans eru ekki vísitölur eða línurit sálar hans. En myndir þessara ára sýna þó að hann var sálarsligaður. Þrátt fyrir velgengnina hallaði undan hjá honum. Leiðir hans, barnanna og Þorbjargar skildu og hann var á krossgötum. Fyrri hálfleik var lokið í lífinu, komið var að skilum og uppgjöri. Ætlaði hann að lifa, vera, mála og gleðjast? Í aðkrepptum aðstæðum voru kostirnir aðeins tveir, annar til lífs og hinn til dauða. Gunnar Örn þorði alltaf að velja, og stefndi í átt að litum og ljósi.

Meðferð og Dísa

Gunnar hitti Dísu og svo fór hann í meðferð. Meðferðin tókst og Dísa var æðisleg. Seinni hálfleikurinn í lífi hans er tími æðruleysis, gleði, sáttar, vaxtar, leitar, hamingju, afkasta og líknar. Vinir Gunnars skildu ekki hvað Þórdís Ingólfsdóttir vildi með þennan erfiða manna hafa. En Dísa elskaði Gunnar og hann hana. Hún sá í honum gullið og hann í henni dýrðina. Gunnar Örn hætti ekki að vera sérsinna og fara sínar leiðir og Dísa hafði enga þörf fyrir að hafa múl á honum. Þegar hann fór í sínar fagurfræðilegu skógarferðir, myndlistarkollhnísa, andlegu langferðir eða langdvalir erlendis var hún kyrr og hún var alltaf viðmið hans og fasti punktur tilverunnar. Af því að hann hafði afhent henni lífsþræði sína gat hann alltaf ratað til baka með því að fara til hennar.

Þau Dísa eignuðust tvær dætur, Maríu Björku 1980 og Snæbjörgu Guðmundu 1991. Þeim reyndist Gunnar góður faðir og við sem nutum þess að fá jólakort frá Kambi vitum vel hversu barnhrifinn Gunnar var. Og hann þjálfaði sig í föðurelskunni og færði út kvíar, teygði sig í átt til barnanna, sem hann hafði farið á mis við eða misst af. Hann eignaðist góð tengdabörn sem hann tók vel og níu mannvænleg barnabörn, sem hann dáði og mat  mikils.

Kambur

Gunnar Örn og Dísa keyptu Kamb í Holtum fyrir 22 árum, fluttu austur og þar varð himnaríki hamingju þeirra. Dísa átti líka nógu stóran faðm til að taka á móti hinum börnum Gunnars. Þau lærðu smám saman og æ betur leiðina austur, lærðu að tengja og meta, virða og elska. Gunnar Örn hellti sér í viðgerðir húsanna á Kambi, í skógrækt og nýbyggingar. Alltaf var stórfjölskyldan velkomin í verkin og furðu margir sóttust í að komast í það, sem þau kalla með brosi “þrælabúðirnar.” En nú er Kambur gróðursæl paradís og að auki listamiðstöð.

Síðasta framkvæmdin var ný vinnustofa. Gunnar sagði mér sjálfur fyrir stuttu að þetta væri hamingjuhús. Það hefði verið gaman að byggja, þau voru svo mörg sem komu að verki, það hefði verið svo glatt á hjalla og hús sem væri byggt með því móti yrði hús hamingjunnar. Þetta var í hnotskurn vinnusálfræði hans: Leggja lífið í gleðina, átökin, ástríðurnar og samfélagið.

Gunnar Örn naut margs góðs í einkalífinu, leitaði alltaf hamingjunnar. Hann gaf mikið af sér og uppskar ríkulega. Hann var alltaf reiðubúinn til að opna fangið fyrir þeim sem leituðu hans. Ólafur Elíasson, myndlistarmaður, sagði mér hvernig Gunnar Örn hefði gengið honum í föður stað þegar faðir hans féll frá. Ólafur harmar að geta ekki fylgt vini sínum en biður fyrir þakkir sínar vegna alls, sem Gunnar var honum og kveðjur til þessa safnaðar.

Dönsku vinirnir, galleristarnir og myndlistarfólkið sem standa að og tengjast Stalkegelleríinu hafa beðið fyrir kveðjur og þakkir fyrir kynni og ljósið sem Gunnar lýsti þeim með. Sömuleiðis biðja Atli Þór Samúelsson og fjölskylda í Danmörk fyrir kveðjur.

Líknarþjónusta

Mörg ykkar þekkið samfélagsþjónustu Gunnars. Hann fór í gegnum sporin sín og vann með sitt innra. Hann opnaði algerlega og var alltaf til reiðu. Hann starfaði í AA hreyfingunni og þjónaði þeim, sem höfðu ratað í ógöngur. Það er stór hópur, sem á Gunnari Erni mikið að þakka fyrir stuðning, viskuyrði, löng símtöl, ferðir til að styðja vímuruglaða og örvæntingarfullar fjölskyldur þeirra. Aldrei taldi hann eftir sér, aldrei hikaði hann, var alltaf tilbúinn. Jafnvel í Bónus borgaði hann reikning fyrir konuna sem var á undan honum í röðinni og átti ekki fyrir innkaupunum. En honum brá þegar hann gerði sér grein fyrir að konan hafði keypt fyrir 23 þúsund kr. og sagði sínu fólki frá með kátlegum hætti.   

Þegar Gunnar Örn kafaði á djúpmið sálarinnar og efldist sem vitringur var hann reiðubúinn að bera fólk á bænarörmum til blessunar og heilsu. Fólk gat ekki annað en treyst þessum manni, sem átti í sér djúp stillingar og kyrru sem Gunnar Örn. Líknarþjónusta hans varðar þúsundir og hér get ég fyrir hönd allra þeirra þakkað elsku hans. Margir eiga honum líf og lán að þakka.

Já það voru skeið í lífi Gunnars, stundum hlé. Og nú gerum við hlé á minningarorðum, hlýðum á hinn rismikla Matthíasarsálm við lag Þorkels Sigurbjörnssonar: Til þín, Drottinn hnatta og heima… 

    Skeiðin og túlkun

    Já það voru skeið í lífi Gunnars og hann gerði myndir af heiminum á öllum skeiðum. Myndirnar hans eru um fleira en plöntu í skógi, kú í engi, fjall í fjarska og hús við ás. Allt lífsins undur er í myndum hans. Heimur, lífið, tilfinningarnar, himinn og skelfing líka. Gunnar var alla tíð maður litríkis. Hann naut sterkra lita og líka spennu í samspili þeirra. Hann gerði tilraunir með form og var alla tíð að prófa nýtt.

    Þegar æskuskeiðinu lauk og líka því, sem hann kallaði stundum í gamni Kviðristukobbaskeiðinu komu ormar inn í list hans. Flatatungufjalirnar eignuðust í honum öflugan nýtúlkanda. Ormurinn leynir á sér, leitar í okkur öll. Gunnar Örn veik sér aldrei undan stóru málunum. Á fyrstu Kambsárunum urðu til margar myndir undir stefinu maður og land. Gunnar fór reglulega í gegnum Kjarval, sem varð hans helsti myndmentor. Gunnar sá landið með augum margsýninnar, sá verur og lífhvata, þetta sem er svo mikilvægt ef við eigum ekki að deyja tæknidauða gagnvart lífsundrinu.

    Frá hinum kraftmiklu og margræðu myndum um mann og land hélt hann inn í tímabil örveranna. Þá kom svarta tímabilið, gamlar hleðslur, mold og tilraunir. Svo komu sálirnar. Þeirra var tímabil einföldunar og könnunar lífsins innan frá. Litirnir dofnuðu, hvítan jókst og einfaldleikinn var strangagaður. Þegar Gunnar Örn var kominn á brún sálarklungra var hann líka á brún málverksins og lengst gekk hann í hvítum myndum, sem voru eins og spádómur um dauða og annað líf. Gunnar Örn skoðaði reglulega nöf.

    Sjö árin

    Gunnar gekk alltaf í gegnum endurnýjun, eiginlega á sjö ára tímabilum. Hraði nýunganna var slíkur að aðdáendur Gunnars voru rétt búnir að sætta sig við nýnæmið þegar hann var komin í allt annað. Breytingarnar voru Gunnari ekki léttúðarmál og reyndu oft mjög á hann. En því stærri er hann sem listamaður að hann gat og þorði. Aldrei á ævinni málaði hann til að selja, hann lét aldrei undan markaðsfreistingum. Ég fylgdist náið með, og las öll bréfin, þegar Gunnar gerði upp við mikilvægan erlendan listhöndlara, sem hefði getað fært honum ríkidæmi og öryggi. Þar ríkti stefnufastur trúnaður við listina. Gunnar var alltaf heill og hefði ekki getað selt frelsi sitt, sálu sína. Þrællyndi var ekki til í honum og því ekki heldur sókn eftir ytri gæðum.

    Nokkur helstu listasöfn heimsins eignuðust myndir Gunnars, hann varð einhver þekktasti málari Íslendinga. Hann málaði mikið í þrjá áratugi, en svo varð þurrð. Gunnar Örn málaði ekkert í tvö ár. Hann losaði sig við megnið af myndunum sínum, sópaði borðið, hreinsaði sálina, gerði upp lífið, sættist við allt og alla. Úr þeirri för kom hann svo nýr og enn betri, hamingjusamur, nýtti vel tímann í faðmi fjölskyldunnar. Hann átti löng samtöl við fólkið sitt um lífið, tilganginn, trúna, sáttina, litina og tengslin. Hann ræktaði kyrruna í sálinni, hugleiddi og bað, hætti að láta tíma angra sig en naut hans og leyfði öðrum að lifa stórar stundir af því hann var svo nálægur viðmælanda sínum tilfinningalega. Eilífiðin hafði sest að í sál hans. Og svo byrjaði hann að mála aftur. Hann var kominn heim og síðustu myndirnar málaði hann eins og upp úr sverðinum heima. Þetta eru myndir af  hjartablóði moldarinnar.

    Kominn heim og í svörðinn

    Myndin á norðurveggnum hér frammi í safnaðarheimilinu, er ein af síðustu myndunum, sem hann málaði, mynd úr mýrinni á Kambi. Farið að henni og sjáið elskuna. Svo eru nokkrar nýlegar myndir þarna líka, merkilegar glímur við stórmálin. Sálirnar hans Gunnars eru ekki myndir af heiminum heldur túlkun á afstöðu. Gunnar Örn var þroskaður maður, hafði unnið sína heimavinnu og var galopinn gagnvart æðri mætti. Það er fallegt, að fólkið hans Gunnars hengdi upp myndir hér frammi, sem þið getið skoðað. Útför hans er líka opnun sýningar.

    Jafnvel kistan er listaverk. Fólkið hans Gunnars elskaði hann. Saman komu afkomendur hans að kistunni, völdu sér lit, máluðu hendur sínar og handþrykktu svo á kistuna hans. Þetta er bernsk og yndisleg tjáning ástarinnar. Svo eru handaför Dísu á gaflinum, sem blasir við söfnuðinum. Þessi litríka tjáning er sefandi þegar Gunnar Örn er slitin úr fangi þeirra, já okkar allra.  

    Myndin af heiminum. Gunnar Örn málar ekki meira en sál hans lifir. Það er vel, að ein sál er á sálmaskránni og sálirnar eru frammi líka. “Afi, hvernig heldur þú að það sé að deyja?” Já, beygurinn var að baki, hann albúinn að verða. Gunnar þorði að opna fyrir litríki lífsins og vissi vel, að maðurinn er ekki algildur mælikvarði alls sem er. “Hvernig getum við þekkt veginn?” spurði Tómas postuli forðum. Jesús sagði honum skýrt og klárlega, að hann væri vegur, sannleikur og lífið.

    Fósturmyndir

    Hvaða hugmynd hafðir þú um veröldina þegar þú varst í móðurkviði? Jú, þú heyrðir einhver hljóð, hátíðnisuð í blóðæðum móður þinnar. En þú hafðir enga hugmynd um liti, hnött, sól, flugur, Kamb eða undur lífsins utan strengds móðurkviðar. Þú fæddist til þessa fjölbreytilega lífs og óháð væntingum. Gunnar hafði skilið þetta fæðingarferli sálna. Hann hafði skilið, að tilveran er stærri en skynjun og vænting eins manns. Jafnvel villtustu draumar fóstursins spanna ekki lífheim okkar hvað þá geiminn allan. Hliðstæðuna megum við hugsa, megum líkja okkur við fóstur gagnvart eilífðinni? Er ekki afstaða Gunnars Arnars sú líflegasta, að búast við fagurfræðilegri reynslu, ríkulegri upplifun, góðu ferðalagi, kátlegum félagsskap og hamingju? Myndríkidæmi trúarbókmenntanna varðar einmitt þessa afstöðu. Þorum við að opna?

    Þegar þessi yndislegi, væni og þroskaði maður Gunnar Örn Gunnarsson var kominn á spítala með verk fyrir brjóstinu, sagði hann gáskafullur: “Ég á eftir að mála eina mynd!” Já, hún var eftir, myndin af sálarferðinni og himninum. Hann var tilbúinn og Kambur eilífðar er stór og góður. Lífið er æðislegt. Lærðu líka að fara þá viskugöngu og hræðstu ekki fæðingu til Guðs góðu veraldar, sem heitir himinn og er eilífð.

    Guð laun fyrir Gunnar Örn. Guð geymi hann eilíflega í ríki sínu. Guð varðveiti þig. Amen.

    Gunnar Örn var jarðsunginn frá Neskirku 11. apríl 2008 og jarðsettur í Hagakirkjugarði í Holtum í Rangárvallaprófastsdæmi.

    Auður Kristjánsdóttir – minningarorð

    Auður hitar ekki lengur handa þér kaffi eða slær í pönsur og ber fyrir þig. Hún bendir þér ekki lengur til vegar með mannviti, skynsamlegum rökum. Hún hlær ekki lengur að skemmtilegheitum lífsins. Nú er hún farin, en hvert? Já, því svara páskarnir. 

    Sunnudagsfólk og páskar

    Við kveðjum Auði Kristjánsdóttur. Við höfum lifað kyrruviku og páska. Fyrst eru dapurlegir dagar dymbilviku og síðan eru dagar gleði. Dagar lægingar og dagar lífs. Já, föstudagurinn langi er víst dagur í lífi flestra. Allir upplifa eitthvað þungt, sorglegt og átakanlegt. Enginn sleppur. En öllu skiptir hvernig með mótdrægnismál er farið og úr þeim unnið. Eftir langan föstudag kemur laugardagur og sunnudagur – og á páskum kemur líf eftir dauða – til að minna okkur á hið raunverulega samhengi, til að kenna okkur að lifa vel.  

    Ótrúlega margir verða föstudagsfólk í lífinu, eins og þjáning, sorgir og sjúkdómar séu það sem einkennir lífið. En við erum kölluð til að vera sunnudagsfólk, sjá undur lífsins, læra að hlægja, fólk sem kann að glíma við bæði gleði og sorg, fólk sem temur sér að sjá hið góða, gjöfula og jákvæða þrátt fyrir dimma daga. Við megum gjarnan minnast þessa þegar við íhugum líf og kveðjum Auði. 

    Hin jákvæða Auður

    Auður var þakklát, hún var sjálfstæð, nægjusöm, kvartaði ekki. Þegar rætt var um aldur, öldrun og aðbúnað minnti hún á, að gamalt fólk samtímans byggi við mun betri aðstæður en áður hefði verið. Auður hafði í sér – já hafði tamið sér og þjálfað jákvæða og raunsæja lífssýn. Hún var gjafmild og rausnarsöm. Hún hafði enga þörf fyrir að lækka aðra til að hefja sig með því, hafði enga þörf fyrir að sjást með því að hreykja sér á annarra kostnað. Hún hafði gildi sitt í sjálfri sér og þarfnaðist þess ekki að fá það frá öðru eða öðrum. Hún hafði náð þroska, sem aðeins verður með því að glíma við bæði umhverfi og innri mann. Hún var ekki lengur föstudagskona í lífinu heldur sunnudagskona, kona lífsins, páskakona.

    Ætt og uppruni

    Auður Kristjánsdóttir fæddist í Ytra-Skógarnesi 19. maí árið 1926. Reyndar fæddust tvær stúlkur þennan dag, því Auður var tvíburi, hin systirin var Unnur, sem lést fyrir tæpum þremur árum. 

    Foreldrar Auðar voru hjónin Kristján Ágúst Kristjánsson, bóndi í Ytra-Skógarnesi og skjalavörður Alþingis, (f. 4. ágúst 1890, d. 4. júlí 1934) og kona hans Sigríður Karítas Gísladóttir, húsfreyja (f. 7. febrúar 1891, d. 15. nóvember 1988).

    Systkini Auðar eru Hanna, Baldur, Jens, Unnur, Arndís, Einar Haukur, Jóhanna og Kristjana Ágústa. Af þessum stóra hóp eru sex látin, en þau er lifa eru Jens, Einar Haukur og Kristjana Ágústa.

    Ströndin stóra og upphaf

    Þær systur Auður og Unnur sem og hin systkinin fæddust við strönd hins mikla hafs. Björtu Löngufjörurnar þeirra minna helst á sæluríki á himnum. En mannlíf í Miklaholtshreppi á fyrstu áratugum 20. aldar var þó engin samfelld sæla og sigurganga. Ströndin og Ytra-Skógarnes eiga líka sögur af áföllum. Fjölskyldusagan spannar hamingju en líka raunir.

    Við erum öll mótuð af upphafi okkar, erfðaefni en líka af aðstæðum og áföllum, sem verða. Auður kunni alveg að orna sér við minningar fortíðar og sagði síðar, að það hefði alltaf verið logn í Skógarnesi bernskunnar! Hún tók það jákvæða og góða með sér, hún hafði getu til að skilja hitt eftir.  

    Fjölskyldan var kraftmikil og farnaðist vel. Húsmóðirin var oft eins og farmannskona því pabbinn hafði mörg járn í eldi. Honum voru falin ýmis ábyrgðarstörf heima í héraði og svo hafði hann störfum að gegna fyrir sunnan, því hann þjónaði Alþingi sem skjalavörður á vetrum. 

    Gott líf en svo missir

    Frjósemin var mikil í Ytra Skógarnesi. Á tólf árum, frá 1922 – 1934, fæddust þeim Sigríði og Kristjáni níu börn. Og þá dundi voðinn yfir. Heimilisfaðirinn, Kristján Ágúst, hafði farið suður til aðgerðar og þvert á allar læknisfræðispár lést hann óvænt, maður í blóma lífsins. Hanna, elsta barnið, var þá aðeins 12 ára og hið yngsta nýfætt. Ekkert annað var í boði en að bíta á jaxlinn og lifa. Að brauðfæða stóran hóp barna var ekki vandalaust, en hópurinn veitti líka skjól og stuðning.  

    Skuggar föðurmissis verða bæði djúpir og langir. Júlídaginn 1934, þegar Kristján féll frá, var upphafið að endinum í Skógarnesi. Sigríður hélt vissulega áfram búskap, með aðstoð aldraðs föður og í krafti samheldni barna. En svo fóru þau að fara að heiman eitt af öðru og líka Auður og Unnur. Smátt og smátt fjaraði undan Skógarnesheimilinu og svo var sjálfhætt í lok fimmta áratugarins.  

    Skóli og vinna

    Auður sótti fyrst skóla á heimaslóð, en fór svo í Reykjaskóla (1944-45). Þær systur Unnur fylgdust að og fóru síðar í húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði (1945-46). Auður var góðum gáfum gædd eins og hennar fólk, en aðstæður og efni leyfðu ekki frekari skólagöngu.

    Eins og dugmikið æskufólk þessa tíma hikaði Auður ekki að fara í aðra landshluta, var m.a. ráðskona vegavinnumanna í fjarlægum landshlutum. Þau, sem eldri eru í þessum söfnuði, muna hvernig búið var að vegavinnufólki í tjaldbúðum á þessum árum. Þetta var ævintýralíf, mikil vinna og gat orðið afar kalsasamt í bleytutíð og illviðrum. Auður lifði þetta allt og lenti jafnvel í, að tjald ráðskvennanna fauk og þær með. Þær sluppu að mestu ólaskaðar úr flugferðinni en skrekk fengu þær!

    Svo var stefnan tekin á höfustaðinn. Í Reykjavík vann Auður lengstum við fatagerð, einkum við saumaskap. Hún vann um tíma hjá hinum kunna skraddara Andrési, vann líka um skeið á prjónastofu en lengst var hún á saumastofu fataverksmiðjunnar Gefjunnar. Vorið 1989 stóð Auður upp frá saumavélinni og fór að starfa við umönnunarstörf á Hrafnistu í Reykjavík eða þar til hún hætti störfum árið 1993. 

    Hugðarefni og B

    Alla tíð var Auður áhugakona um hannyrðir eins og föt hennar og gjafir til barna ættingja hennar vitnuðu um. Hún hafði áhuga á matseld og hafði enda hlotið menntun til þeirrar iðju. Matarboðin hennar Auðar voru góð og enginn fór frá henni svangur eða vansæll. 

    Auður fylgdist ekki aðeins vel með fjölskyldu sinni og venslafólki heldur einnig þróun samfélagsins. Hún studdi gjarnan Framsókn í landsmálum. Einu sinni, þegar Birgir var ungur, fékk hann að laumast með Auði í kjörklefann og þegar hann sá að hún krossaði við B gall við í þeim stutta: “Auður, kýstu B-listann?!” Engir eftirmálar urðu af þessari uppákomu aðrir en, að Birgir fékk aldrei að fara með henni í kjörklefann aftur! 

    Sambúðin með Sigríði

    Auður giftist aldrei. Þegar Sigríður Karitas, móðir hennar, brá búi og kom suður bjuggu þær saman, um tíma í gula fjölskylduhúsinu með svarta þakinu á Laugavegi 171. Þegar Einar, bróðir Auðar, hafði keypt íbúð á Hrísateigi fóru þær mægður þangað. Frá Hrísateig fluttu þær mæðgur suður í Fossvog í skjól Baldurs, bróður Auðar, og voru þar um tíma.  

    Síðan var Sigríður á Selfossi hjá Unni og Jóni, dóttur og tengdasyni. Sigríður lést í hárri elli árið 1988. Auður bjó jafnvel á Dunhaganum um tíma og naut sambýlis með Unnarbörnum. Síðan leigði hún í Kópavogi, inn á Austurbrún og eignaðist svo íbúð í Hörðalandi í Fossvogi og árið 1991 keypti hún íbúð á Bræðaborgarstíg 55 og bjó þar allt þar til hún flutti á Elli- og hjúkrunar-heimilið Grund á síðasta ári. Þá hafði hún kennt sér meins, sem dró hana til dauða 13. mars síðastliðinn. Auði leið vel á Grund og var þakklát öllum þeim sem sneru góðu að henni. Fyrir umhyggju gagnvart henni skal þakkað, bæði fjölskyldu, vinum og þeim sem hlúðu að henni á Grund.  

    Elskusemin

    Þegar skyggnst er yfir líf Auðar sést vel hvernig hún hefur þjónað sínu fólki og alið önn fyrir ástvinum sínum. Auður átti ekki börn en varð hins vegar sem önnur móðir nokkurra systkinabarna sinna. Þau Sigríður Dinah og Birgir Sigmundsson nutu hennar í uppvexti og hún naut þeirra alla tíð. Þá var Auður sömuleiðis sem önnur móðir þeim Öldu og Gísla Unnar- og Jóns-barna. Þau og tengdabörnin nutu umhyggju og elsku Auðar, sem þau endurguldu svo hún naut ríkulegrar hamingju í nærfjölskyldu sinni. Og Auður breiddi sig yfir sitt fólk sem við elskunni vildu taka. Öll þessi, sem hafa verið, sem og Kristjana Ágústa studdu Auði dyggilega allt til enda.

    Auður var félagslynd og félagshæf. Hún hafði unun af hinum mannmörgu vinnustöðum þar sem hún starfaði. Hún tengdist vinnufélögum og fólkinu á þeim stöðum og eignaðist stóran hóp vina og kunningja. Þegar hún hafði orðið næði og tóm á eftirlaunaárum var oft erfitt að ná í hana heima. Hún var á ferð og flugi, sinnti félagslífi af kappi, hitti kunningja sína og spilaði. Það var henni amasamt þegar veikindin herjuðu á hana og hún gat ekki farið allra þeirra ferða, sem hugurinn hvatti til.  

    Páskar í lífinu

    “Skelfist eigi…” segir í páskatextum Biblíunnar. Það voru sorgbitnar konur, sem voru á leið út að gröf, sem þær gátu alls ekki opnað. Þessar konur höfðu upplifað langan föstudag og eru sem fulltrúar allra sem skelfast í lífinu. Köllun okkar er að stranda ekki í vanda og áföllum og daga uppi í föstudagslífi. Nei, mál páskanna er að þegar harmþrungnar konur komu út í garðinn var steinninn frá, gröfin tóm og lík hins látna Jesú Krists var horfið. Konurnar urðu fyrir reynslu, sem síðan var höfð í minnum í frumsöfnuðinum. Já, tilveran breyttist vissulega þegar leiðtoginn féll frá. En svo breyttist allt snarlega og algerlega með boðskap páskadags.

    Hvað gerum við með slíkan boðskap, að dauðanum var snúið í andhverfu sína og sagan endaði vel? Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu. Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Og páskaboðskapurinn verður sem kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar, sem umbreytir okkur með afgerandi móti. Því lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í sólarsamhengi Guðs.

    Nú kveður þú Auði Kristjánsdóttur. Nú verður hún lögð til hinstu hvílu við hlið Sigríðar Karítasar, móður sinnar í Fossvogskirkjugarði.

    Auður hitar ekki lengur handa þér kaffi eða slær í pönsur og ber fyrir þig. Hún getur ekki lengur bent þér til vegar með mannviti, jákvæðni og skynsamlegum rökum. Hún hlær ekki lengur að skemmtilegheitum lífsins og gáskafullum málum. Nú er hún farin, en hvert? Já, því svara páskarnir. Hvað ætlar þú að gera með ágenga spurningu um líf eftir dauða? Er líf að loknu þessu? Lifir Jesús Kristur? Ef þú trúir því máttu líka trúa að Auður lifi, Unnur systir hennar, systkinin sem látin eru, Kristján og Sigríður og Ytra Skógarnes lifni í gleði í umbreytingu himinsins. Það er sunnudagsafstaða, það er páskatrú. Og það er gott að lifa í því samhengi því það er samhengi Guðs. „Skelfist eigi” sagði ljósveran í gröfinni. “Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér.” Guð faðir, sonur og heilagur andi geymi Auði Kristjánsdóttur um alla eilífð og blessi minningu hennar. 

    Útför 28. mars 2008.  

    Guðspjall Mk 16.1-7

    Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér.

    Sól og Sigrid Österby

    Sigrid Österby kom oft hingað í Neskirkju. Henni líkaði fjölbreytni kirkjustarfsins, tók þátt í mörgu og kynntist starfsfólki kirkjunnar. Í unglingastarfinu er margt brallað og víða farið. Fyrir tæpu ári efndi unga fólkið til helgistundar í Vesturbæjarlauginni undir heitinu bjartsýnisbusl. Þetta þótti Sigrid skemmtilegt og fannst upplagt að útbúa trúarlegt tákn til að reisa við laugina. Það gæti verið eins og altaristafla, og skapað óvænt helgirými í almannarýminu. Eftir nokkrar umræður varð niðurstaðan, að sólin væri ljómandi tákn um bjartsýni. Sigrid lá ekki á góðum ráðum um handverkið en svo kom í ljós að enginn treysti sér í sólargerð og sólarskorturinn fréttist. Þegar æskulýðurinn kom í sundlaugina kallaði starfsmaður Vesturbæjarlaugarinnar: „Eruð þið ekki frá Neskirkju? Það er poki hérna handa ykkur fyrir buslið.” Þau urðu hissa, tóku við pokanum og sáu að í honum var eitthvað gult. Já, auðvitað var það sól frá Sigrid. Henni hafði runnið til rifja að góð hugmynd kæmist ekki í framkvæmd, fann gult rúmteppi sem hafði þjónað hlutverki sínu, klippti það til og saumaði úr því sól, sem brosti framan í alla sem busluðu til eflingar bjartsýninni. Þegar lífið kallaði heyrði Sigrid og gerði sitt til að tákn birtunnar brostu í veröldinni.

    Í sköpunarsögu Biblíunnar, frumljóði allrar verðandi, bjartsýni og alls lífs segir Guð: „Verði ljós. Og það varð ljós.” Það sem Guð segir verður, það sem Guð kallar fram er gott. Þegar myrkur grúfir yfir djúpi er Guð nærri til að lýsa. Sköpunarsagan er ekki orð um fortíð heldur nú hverrar tíðar. Sköpunarsagan er orð um líf og það sem er. Sköpunarsagan er um þig og Sigrid. Hún lifði djúpin og myrkur, en líka líf, ljós, börn, gleði, birtu og von.

    Tvenndirnar

    Sigrid Österby fæddist á Jótlandi en var Íslendingur. Hún átti íslenska mömmu en danskan pabba, ólst upp í Danmörk en komst til manns á Íslandi. Hún var tvítyngd og eins og margir aðrir á slíkum mærum átti hún rætur í tveimur heimum. Þeir nærðu hana og toguðu líka. Líklega kallaði Danmörk og dönsk menning æ sterkar til hennar því eldri sem hún varð. Sigrid var borgarkona í Reykjavík en líka sveitakona í margvíslegum skilningi. Hún var alin upp í stórum systkinahóp, átti mörg börn sjálf, en átti sér líka leynivíddir og gat alveg hvílt í kyrru og nánd eigin sálar. Sigrid var því kona margra vídda og það varð henni til hjálpar síðar. Hún strandaði aldrei hvað sem á gekk í lífinu.

    Sigrid fæddist í Hee þann 6. febrúar 1937 og fékk nafn hinnar íslensku ömmu Sigríðar, sem varð henni sterk fyrirmynd, kannski ekki síst fyrir festu og seiglu. Í minningum, sem Sigrid lét eftir sig, sagði hún frá ljósríkum uppvexti og tjáði djúpa virðingu fyrir foreldrunum. Hún sagði, að Ólöf Hallfríður Sæmundsdóttir, móðir hennar, hafi verið verkamikil listakona, sem hafi mikið fyrir sig gert. Hermann Österby Christensen, pabbinn, hafi verið traustur, sagt fátt en hugsað margt. Hann var kunnastur fyrir störf sín hér á Íslandi sem mjólkurfræðingur og starfaði lengstum hjá Mjólkurbúi Flóamanna á Selfossi.

    Sigrid minntist timburhúsanna, sem fjölskyldan bjó í ytra. Bernskan var henni greinilega hamingjutími og síðasta húsið, sem þau bjuggu í áður en þau fluttu til Íslands, var í jaðri furuskógar. Heimsstyrjöld geisaði í nálægð, en þrátt fyrir fátækt og hörmungar er þó birta í bernskuminningunum. Og það er eins og sena í Astrid Lindgren bók, að krakkarnir voru böðuð í balla út í skógi.

    Systkinin Sigrid eru: Ásbjörn (f. 15.9. 1939), Leif (f. 18. 8. 1942), og Eva (f. 5. 1. 1948), sem lifa öll systur sína.

    Menntun

    Sigrid hóf skólagöngu á Jótlandi sex ára gömul og hélt henni síðan áfram þegar hún fluttist til Íslands. Fyrst fór reyndar fjölskyldan til Akureyrar og þá í hús Sigríðar ömmu í Glerárþorpinu þar nyrðra. Þaðan lá leiðin á Selfoss.

    Foreldrarnir voru klókir í þessum breytingaaðstæðum og Sigrid sagði frá, að faðir hennar hefði lofað henni nýju reiðhjóli ef hún yrði hæst í bekknum sínum. Breytingar geta orðið mönnum raun eða tækifæri. Sigrid bjó til sólir úr vandkvæðum í lífinu. Eftir skólagöngu á Selfossi fór hún norður á Akureyri í menntaskólanám, var þar í þrjú ár og eignaðist vini fyrir lífið, en lauk svo stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni.

    Alla ævi var Sigrid að læra. Hún var nútímakona hvað símenntun varðar. Hún stundaði nám og lauk prófum við ýmsa skóla og stofnanir og hélt alltaf áfram. Barneignir og hjúskapur hindruðu hana ekki í að halda áfram námi, en hún teygði bara á tímanum og strekkti nám í staðinn. Sigrid var fjölmenntuð hvað varðar mótun og þekkingu, en líka hvað formlega menntun varðar. Auk framhaldsskólanáms og náms í lýðháskóla, stundaði hún nám í HÍ, Myndlista- og handíðaskólanum, Kennaraskólanum og norrænum stofnunum eða skólum í listmeðferðarfræði. Viðfangsefni hennar voru gjarnan á sviði lista, artterapíu, danskrar menningar auk kennslufræði.

    Björt og skugginn

    Tæplega tvítug og áður en Sigrid lauk stúdentsprófi eignaðist hún dóttur. Trú ljóssókn sinni var hún kennd við birtuna og nefnd Björt. Foreldrar Sigrid voru henni öflug aðstoð, en litla stúlkan dauðveiktist og var að lokum send til Kaupmannahafnar til lækninga en þar slokknaði hennar líf. Allir sem hafa misst gera sér grein fyrir, að það er ekki á nokkurn mann leggjandi að grafa barnið sitt. Og sorgin vistar sig sjálf í djúpi sálar og hverfur ekki fyrr en með hana er unnið. Nú er hringnum náð og Sigrid verður lögð til hinstu hvílu í gröfina við hlið elstu dóttur sinnar. Í fyrstu kastaði Birtumissirinn löngum skugga í veröld Sigrid, en svo gat hún löngu síðar unnið með missinn.

    Konráð, börn, hjúskapur

    Svo kom Konráð Sigurðsson (f. 13. júní – d. 15. 7. 2003) inn í líf hennar. Skólastýra Myndlistaskólans kynnti hann og Sigrid. Þau voru bæði næm, ör og hvatvís – og það blossaði á milli þeirra. Hennar tilvera fléttaðist inn í hans og þar sem hann hafði atvinnu þar var hún líka, á Raufarhöfn og Kópaskeri, í Reykjavík og í Laugarási í Biskupstungum. Þau eignuðust stóra barnahópinn sinn: Atla, Ólöfu Sif, Huld, Ara og Andra. (Um fæðingardaga, störf, maka, afkomendur og tengslafólk sjá yfirlit í lok minningarorðanna)

    Í ástríki, barnríki og litskrúðugt heimilislíf blönduðust vaxandi erfiðleikar í hjúskap. Hópurinn flutti í Kastalagerði við Kópavogskirkjuna. Enn stríkkaði á hjónabandinu og bandið brast að lokum. Sigrid var ein með stóra og kraftmikla hópinn sinn, vann mikið – gjarnan við kennslu, efldi börnin til sjálfstæðis og kom þeim öllum til manns og mennta. Svo sleppti Sigrid, eignaðist sinn eigin tíma, andrúm til að sinna sér og sínum hugðarefnum, skapaði eigin listaverk, hélt æ lengra í listavinnu sinni og kafaði í dýptir sálar og vann með lífsþræði sína og annarra. Hún hélt jafnvel námskeið þegar hún var orðin veik og allt fram að því að hún var lögð inn á sjúkrahús var hún að kenna og þjóna fólki.

    Sátt

    Hún kom til baka úr sinni andlegu pílagrímsferð, tjáði að hún hefði náð sátt við flest það, sem hafði orðið henni þungbært og skuggsett í lífinu. Hún bæði sagði við mig og skrifaði niður hjá sér, að hún væri sátt við sig, sátt við Guð og menn, sátt við hjúskap sinn og allar tilraunir lífsins, sátt við áföllin. Hún gerði upp sorgina, og opnaði svo fangið að nýju gagnvart fólkinu sínu.

    Sigrid þurfti sinn tíma til að endurvinna lífsefnin, sinn tíma til að sníða nýja sól úr gömlu efni, fara inn í sorgarefnin, sem höfðu vistast hið innra á sínum tíma. Þess nutu barnabörnin ekki síst á síðari árum og fjölskyldan öll í mildi hinna síðustu mánaða. Að lifa vel er æviverk og að vinna úr áföllum er áraun pílagrímsins.

    Menning til unaðar

    Sigrid hafði víðfeðman, menningarlegan áhuga. Hún ferðaðist víða og lagði sig eftir innsýn í merkingar- og menningarheima. Hún hlustaði gjarnan og hreifst af tónlist, já allt til loka var hún opin fyrir sterkum upplifunum. Hún sótti gjarnan listasamkomur og sýningar og stælti næmi.

    En hún hafði jafnframt sterkar skoðanir á málefnum, mönnum og flestu, sem fyrir bar í veröldinni. Hún ræddi fúslega um flest, tjáði hugmyndir sínar um pólitík, gjarnan í ljósi félagshyggju og hvatti til að réttindi kvenna yrðu virt. Hún beitti sér líka í þágu fólks sem hún taldi sig geta liðsinnt. Margir í samtökunum Vin og Ljósinu hafa notið sjálfboðaliðsstarfs Sigrid með svo margvíslegu móti. Hún átti orð um nærpólitík og líka heimspólitík. Og svo var jafnan stutt í húmorinn, sem gat orðið beittur. Hvernig getur jósk-íslensk blanda orðið öðru vísi?  

    Lífsgagn

    Ákveðin var hún og fylgin sér. Sigrid hafði líka sterkar skoðanir á eigin útför. Hún vildi að minningarræðan um hana yrði stutt. Það fór jafnan illa ef ekki var tekið mark á fyrirmælum hennar! Því verður henni hlýtt, enda minnumst við Sigrid best með því að lifa vel, leyfa því, sem gladdi okkur í lífi hennar að verða okkur til eflingar.

    Sólin reis við sundlaugina í fyrra, Sigrid leitaði alla tíð ljóssins og eftir getu brá hún ljósi yfir líf okkar, veitti okkur af því, sem henni þótti skemmtilegt, kryddaði líf okkar.

    Fyrir tæpu ári komu Sigrid og dótturdóttir hennar í páskamessu í Neskirkju. Fegurð í samskiptum þeirra var smitandi. Amman var geislandi hamingjusöm í kirkju á þeim táknræna lífsmorgni. Sólin dansar á páskamorgni öllum þeim sem vilja sjá. „Verði ljós“ er orð Guðs um líf allra og líf þitt nú. Hvað ætlar þú að gera í eldsókn þinni? Sigrid mætti vandkvæðum með því að sjá tækifæri en ekki bara ósigra. Hún nýtti gamalt efni til að lýsa lífið. Og nú er líf hennar allt og hún hefur umbreyst í hinni miklu ljósstöð eilífðar. Þar er skapandi elska, þar er ekkert sem letur, slævir, myrkvar eða deyfir. Sigrid og kristinn maður vita, að á bak við tákn er veruleiki, sem er stærri en táknið. Á öllum dögum máttu muna að Guð er lífssól hennar og þín. 

    Í nýjárssálmi Matthíasar Jochumssonar segir:

    Ó, sjá þú Drottins björtu braut,
    þú barn, sem kvíðir vetrarþraut,
    í sannleik hvar sem sólin skín
    er sjálfur Guð að leita þín.

    Því hræðst þú ei, þótt hér sé kalt
    og heimsins yndi stutt og valt,
    og allt þitt ráð sem hverfult hjól,
    í hendi Guðs er jörð og sól.

    Guð varðveiti þig í ljósi sínu. Guði séu þakkir fyrir Sigrid. Guð varðveiti hana í eilífð sinni.

    Útför frá Neskirkju 19. janúar 2008.

    Sigrid Østerby, Dunhaga 15, Reykjavík, fæddist í bænum Hee á Jótlandi 6. febrúar 1937. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 12. janúar síðastliðinn. Sigrid var dóttir hjónanna Ólafar Hallfríðar Sæmundsdóttur húsfreyju á Selfossi, f. 1. 4. 1906, d. 19. 2. 1995 og Hermanns Østerby Christensen mjólkurfræðings á Selfossi, f. 10. 3. 1907, d. 1. 8. 1987. Systkini Sigrid eru a) Ásbjörn, prentari í Svíþjóð, f. 15.9. 1939, b) Leif, rakari á Selfossi, f. 18. 8. 1942, maki Svandís Jónsdóttir ljósmóðir og c) Eva hjúkrunarfræðingur, f. 5. 1. 1948,  maki Einar Oddsson læknir. Eiginmaður Sigrid var Konráð Sigurðsson læknir, f. 13. 6. 1931, d. 15. 7. 2003 en þau skildu 1972. Börn þeirra eru a) Atli, líffræðingur, f. 11. 10. 1959, maki Anne Berit Valnes, kennari. Börn þeirra eru Björk f. 9. 6. 1995, Lilja, f. 14. 12. 1996, Hákon, f. 26. 4. 1998, Tryggvi, f. 18. 7. 2000 og Gauti, f. 8. 1. 2002. Fyrir átti Anne Berit börnin Cecilie, f. 4. 6. 1982 og Fredrik, f. 13. 2. 1988. b) Sif, lögfræðingur, f. 4. 12. 1960, maki Ólafur Valsson dýralæknir. Dóttir Sifjar og Þórðar Hjartarsonar er Helga, f. 18. 7. 1997. Fyrir átti Ólafur börnin Baldvin, f. 12. 3. 1985, Sigríður, f. 5. 11. 1992 og Róshildur, f. 23. 3. 1994.  c) Huld flugfreyja og BA í frönsku, f. 5. 8. 1963, maki Sigurður Tómas Magnússon, lögfræðingur. Börn þeirra eru Sigrún Hlín, f. 20. 3. 1988, Margrét Sif, f. 3. 2. 1994 og Magnús Konráð, f. 22. 6. 1998. d) Ari, læknir f. 14. 9. 1968, maki Þóra Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra Sif, f. 13. 4. 2003 og Arnar, f. 27. 1. 2005. Fyrir átti Þóra dæturnar Helenu, f. 20.6. 1995 og Agnesi, f. 23. júlí 1997. e) Andri læknir, f. 16. 9. 1971. Sigrid átti fyrir hjónaband dótturina Björt Nordquist, f. 6. 1. 1957, d. 2. 8. sama ár. Sigrid bjó með foreldrum sínum á Jótlandi fram til 9 ára aldurs en flutti þá með þeim að Selfossi þar sem Herman faðir hennar starfaði sem mjólkurfræðingur. Sigrid stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1957 og lagði síðan stund á nám í Myndlista- og handíðaskólanum. Hún lauk kennaraprófi 1966 og BA prófi í dönsku frá Háskóla Íslands 1987. Síðar nam hún uppeldis- og kennslufræði og listasögu við Háskóla Íslands. Hún lauk námi sem listmeðferðarfræðingur frá Institut for Kunstterapi í Noregi og Danmörku 2003 og stundaði listmeðferð til æviloka. Sigrid starfaði síðustu áratugina sem framhaldsskólakennari, síðast við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Jafnframt lagði hún stund á myndlist og hélt fjölda einkasýninga og samsýninga hér á landi og erlendis. Sigrid var ötul baráttukona fyrir kvenréttindum og tók virkan þátt í menningarsamskiptum við fjölmargar þjóðir, svo sem, Sovétríkin, Kína, Albaníu og Kúbu. Hún starfaði sem sjálfboðaliði fyrir Vin, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, lagði hvers kyns menningar- og mannúðarmálum lið og ferðaðist víða um heim. Sigrid lagði alla tíð sérstaka rækt við hinar dönsku rætur sínar. Útför Sigrid var gerð frá Neskirkju 19. janúar 2008 kl. 14.00.