Fyrstu píanótónleikarnir sem ég sótti sem barn voru einleikstónleikar Wilhelm Kempff í Austurbæjarbíói. Í lok tónleikanna voru allir í salnum sem lamaðir af mætti tónlistarinnar og snilli píanistans. Eftir að kempan hafði reist alla hina stórkostlegu hljómakastala varð djúp þögn eftir lokahljóminn, eins og gjá sem við sukkum í. Þögnin sprakk síðan í lófataki og háreysti. Tónlistin var stórkostleg, hárið á píanistanum eftirminnilegt, lýrísk túlkun hans líka en þögnin varð þó eftirminnilegasta vídd og fang þessara tónleika. Hún gagntók mig og varð mér íhugunarefni. Tónlist lifnar ekki án þagnar og í því fangi verður hún til og snertir sálina. Í þögn fellur allt í skorður í upplifun þess sem nýtur. Einleikstónleikar hafa sérstöðu því tónleikar eru skipulagðir með ákveðnu móti og sólistinn getur stýrt hvenær risið verður mest og hvernig flæði þeirra verður. Við skynjum oft að eftirköst eru hluti ferlis. Eftir mikla atburði og dramatískar aðstæður verður kyrra áleitin og hægt að upplifa hana sterkt. „Höfg er þögn akursins eftir storminn.” Eftir óveður dagsins verður stjörnubjört hvelfing næturinnar stórkostlegt. Sálin getur farið á flug og orðið að stjörnu á festingunni. Eftir flóðið verður fjara þagnar og íhugunar. Hvað er mikilvægasta augnablikið á lífskonsert þínum? Jú, að þú þagnir, vinnir úr reynslunni áður en þú byrjar að klappa.
Vatnið, lækur og Lilja
„Því vatnið, sem streymir um æðar þess, erjafn íslenskt og blóðið í hjartanu á mér.“

Osso Buco – hamingjusprengja fyrir nautnaseggi
Osso Buco er einn af ofurréttum Norður-Ítalíu sem einfalt og gaman er að elda. Ítalir notar gjarnan kálfaskanka í réttinn og nautaskankar nýtast því líka. Ég steiki oftast kjötið á pönnu og færi svo yfir í stóran ofnþolinn pott. Síðan steiki ég grænmetið, bæti svo við tómataviðbótinni, krydda og sýð, set svo þar á eftir soð og vín og helli síðan öllu dýrðarhráefninu yfir kjötið í pottinum. Ef ég hef byrjað eldamennskuna snemma set ég pottinn í ofn á lágum hita, t.d. 100°C. Annars er ofninn settur á 180°C eða 200°C ef fyrirhyggjan eða tíminn leyfir ekki hægeldamennsku. Ef enginn er pottjárnspottur á heimilinu er auðvitað hægt að nota ofnþolið fat með loki – nú eða sjóða allt á eldavél og hafa auga á potti og framvindunni og tryggja að nægur vökvi sé í fati eða potti.
Meðlæti getur verið bygg, pasta, risotto, hrísgrjón, kartöflusmælki – nú eða bara kartöflumús! Rétturinn verður heldur eintóna hvað liti varðar og því skemmtilegt að skreyta svolítið með rósmarín eða steinselju. Basilíka og kóríander gefa líka skemmtilegt fráviksbragð sem mörgum þykir eftirsóknarvert.
Fyrir 6-8
- 6-8 sneiðar af Osso Buco-kjöti
- 2- 3 stk. skalotlaukar, saxaðir (aðrar laukgerðir duga ágætlega)
- 3 sellerístönglar skornir í teninga
- 3 gulrætur, skornar í teninga eða þverskornar
- 2 hvítlaukar (heilir en ekki lauf) saxaðir
- 1 msk tímíankrydd
- 1 msk rósmarínkrydd
- 3 lárviðarlauf
- 1 lúka söxuð steinselja eða 1 msk steinseljukrydd
- 1 dós heilir eða grófsaxaðir tómatar
- 1 dós saxaðir tómatar
- 6 dl kjúklingasoð
- 2 dl hvítvín
- ólífuolía eftir smekk fyrir steikingu
- salt og pipar skv. smekk
Aðferð:
- Hitið 1-2 matskeiðar af ólífuolíu á pönnu og steikið kjötsneiðarnar 3 mínútur á hvorri hlið. Saltið, kryddið og piprið eftir smekk.
- Takið kjötið upp úr og setjið í pottinn og geymið meðan grænmetið er steikt og sósan gerð.
- Steikið skalottulauk, sellerí, gulrætur og hvítlauk í um það bil 5 mínútur í pottinum.
- Bætið síðan við tómötunum og sjóðið í 3 mínútur. Hrærið reglulega.
- Bætið við hvítvíni, kjúklingasoðinu, kryddjurtunum, steinseljunni og loks kjötsneiðunum.
- Setjið í ofninn í amk tvær klst. (ef ekki er sett í ofn er soðið við vægan hita í tvær klukkustundir. Með lægri hita má hægelda.
- Vert er að snúa kjötbitunum við í suðu/steikar-ílátinu einu sinni til tvisvar á þessum tíma og bæta við kjúklingasoði eftir þörfum.
- Soðið á að þekja kjötið að amk þremur fjórðu allan tímann og umlykja grænmetið.
Spilið endilega ítalska músík í undirbúningi og þegar sest verður að borði. Þakkarbæn fyrir hamingjusprengjuna, mat og líf má gjarnan stíga upp með kryddilmi og tónlist: Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen – og Guði sé lof fyrir Osso Buco.
Á vefnum er fjöldi myndbanda um hvernig hamingjusprengjan Osso Buco er elduð og þar eru ýmsar skemmtilegar útgáfur af hráefnalistanum líka.
Pabbinn hágrét
Þau eru bæði kínversk en völdu að ganga í hjónaband í hliði himins á Skólavörðuholti. Þau sögðu sín já af lífs og sálar kröftum. Pabbi brúðarinnar hágrét og táraflóðið var svo mikið að ég íhugaði að gera hlé á athöfninni. En hann harkaði af sér og við töluðum svo saman eftir athöfnina. Þá kjarnaðist kínversk saga seinni hluta tuttugustu aldar og þessarar líka. Brúðurin glæsilega var eina barn þeirra hjóna, þau fengu ekki að eiga fleiri. Þar var ein af táralindum pabbans. Nú var hún að játast sínum elskulega manni. Þungi sögunnar og lífstilfinninganna féllu á hinn grátandi sem elskaði dóttur sína og óskaði henni svo sannarlega að verða hamingjusöm með manni sínum. En nú var hún farin, tíminn breyttur og ekkert annað barn heima. Skilin urðu, fortíðin var búin, æskutíminn, dótturtíminn, ástartíminn. Mér komu ekki á óvart tilfinningar hjónanna nýblessuðu en hinar miklu tilfinningar föðurins urðu sem gluggi að Kínavíddunum. Voru fleiri ástæður táranna og ástarinnar? Spurningarnar þyrluðust upp. Höfðu jafnvel fleiri börn fæðst en tapast foreldrunum? Í tárum pabbans speglaðist ekki aðeins harmur hans heldur tuga og jafnvel hundruða milljóna sem fengu ekki að ráða ráðum sínum eða fjölskyldumálum vegna yfirgangs skammsýnna stjórnvalda (og auðvitað velmeinandi). Við mannfólkið elskum og missum – með mismunandi móti – og mikið er mannlífið stórkostlegt á dögum tára en líka hláturs.
Bikar blessunarinnar …
Djúp kristninnar eru mörg. Jesús Kristur gerði ekki svimandi víddir að miðju samfélags kristninnar heldur borð og máltíð. Það er einstakt í heimi trúarbragðanna og því eru ölturu í kirkjum og oftast miðjur. Þau jarðtengja allt trúarlíf kristinna manna. Þegar bikar er blessaður og brauð líka eru tengsl mynduð – ekki aðeins við eilífð heldur líka pólitík, menningu, náttúru og deyjandi fólk á Gaza. Við sem einstaklingar megum þiggja veisluboðið til elskuheims Guðs sem hefur undraáhuga á að fuglar nærist vel, lífríkið dafni, mannfélag njóti leiks og hlátra og illskan sé hamin. Bikar blessunar, brauð fyrir veröld og að allt líf nærist. Fyrir 11 árum efndum við til skírdagsmáltíðar í safnaðarheimili Neskirkju og Arnrún og Friðrik V sáu veisluföngin og við Elín Sigrún stýrðum dagskrá. Anna Gyða Gunnlaugsdóttir tók myndir og m.a. þessa látlausu mynd af gömlum bikar kirkjunnar. Það er frábært að skírdagsmáltíðir eru orðnar að föstum lið í Neskirkju og mörgum kirkjum. Og súpueldhús, líknarstarf og þjónusta við hungraðan heim eru liðir guðsveislu í heiminum.