Ingjaldur Narfi Pétursson – minningarorð

Farmenn allra alda og allra þjóða hafa einhvern tíma starað upp í dimman stjörnuprýddan næturhiminn og íhugað stærðir og dýptir. Börn veraldar hafa legið á bakinu og horft á stjörnuhröp, hvítar risslínur loftsteinanna og blikandi og deplandi stjörnurnar. Grunur læðist að og vissan síðan seitlar inn í vitundina að maðurinn er smár og geimurinn stór. Hvers virði erum við? Er Guð þarna einhvers staðar? 

Í áttunda Davíðssálmi lesum við lýsingu manns, sem er eins og hrifið barn, sem starir upp í glitrandi hvelfinguna. Í sálminum segir:

„Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?”

Þetta eru grunnspurningar. Hvað er maðurinn í þessu stóra ofurgímaldi sem veröldin er? Erum við eitthvað meira en sandkorn á geimströnd – eða kannski fremur eins og ofurlítill blossi í safni tímans? Við lifum ótrúlega stutt, líðum útaf og hverfum í mistur tímans fyrr en varir. Er þá allt búið? Er þetta mannlíf aðeins skyndiferð, eins og snögg fraktferð milli tveggja hafna, svo allt búið og ekki meir? Á farmennska mannlífs okkar dýpri rök og markmið? Er það “skipafélag” sem við köllum heiminn vel rekið “fyrirtæki” og til góðs? Er eigandinn í brúnni traustsins verður – þessi sem við köllum Guð? Skáld Davíðssálmsins var sannfært um, að maðurinn er meira en rykkorn í geimnum, sannfærður um að stjörnur, tungl, dýr, fuglar himins og fiskar hafsins, menn, já allt sem fer hafsins vegu nytu elsku og að lífið er gott. Þess vegna getur skáldið haldið fram hinni góðu niðurstöðu um lífið:

„… Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri. Drottinn, Guð vor,
hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.“

Þetta er niðurstaða um veröldina, lífið, ævi mannsins, um framtíðina. Að Guð er, að Guð gefur, að Guð umvefur veröldina, Ingjald og þig merkir að lífið er gott og gæðaríkt og að himinn er eftir að heimsferð lýkur.

Upphaf og samhengi

Ingjaldur Narfi Pétursson var farmaður í veröldinni. Hann fór ungur til Noregs, var þar með foreldrum sínum á fjórða ár, kom síðan til Íslands og þegar hann hafði aldur til fór hann sinna eigin ferða um heiminn. Nú hefur hann farið sína hinstu ferð.

Ingjaldur fæddist á Ingjaldshóli á Snæfellsnesi 17. júlí árið 1922. Foreldrar hans voru Kristján Narfi Pétursson, sem var aðalumboðsmaður hjá Líftryggingafélaginu Andvöku (f. 10. jan. 1891, d. 18. júní 1973) og Gurine Pétursson (f. Johansen, f. 20. febr. 1896, d. 11. sept. 1945). Börn þeirra fæddust á árunum 1921 til 1930. Systkini Ingjalds eru þrjú. Steinar (f. 5. janúar 1921, d. 4. mars 2005) var elstur og var Ingjaldur einu og hálfu ári yngri. Hann kallaði Steinar gjarnan Stóra, sem tjáir vel afstöðu hans til stóra bróður sem nú er látinn. Þriðji í barnahópnum er Jón (f. 21. jan. 1926) og yngst er Gully Evelyn (f. 10. ág. 1930) en þau Jón og Gully lifa eldri bræður sína.

Kristján, faðir Ingjalds, kynntist konu sinni Noregi og þar hófu þau búskap og ólu upp drengina sína fyrstu árin. Þegar Ingjaldur var fjögurra ára flutti fjölskyldan til Íslands og var fyrst á Ingjaldshóli á Sandi. Síðan fóru þau á Þingholtsstræti í Reykjavík en síðan fljótlega á Vesturgötu 67. Það var ævintýralegt fyrir börnin að alast up á þessu svæði í vesturbænum, stutt niður að höfn, út á Granda og í Örfirisey, upp á Landakotstún eða niður í bæ. Fjöldi barna var mikill og frelsið ríkulegt. Svo gat pabbinn haldið sína hesta, sem var honum mikilvægt. Skýli þeirra var svo nærri, að hægt var að heyra til hrossanna inn í rúm. Og hesthúsið var líka hentugt fyrir leiki og sem skýli fyrir mótorhjólafák Stóra eftir þeysireið með lögreglufylgd. Í barnríku umhverfi kynntist Ingjaldur mörgum og eignaðist vini, sem hann hélt tengslum við alla tíð. Hann ræktaði vini sína og hélst vel á þeim.

Í uppvextinum bjuggu börnin við og nutu útsýnar í margvíslegum skilningi. Móðirin ræktaði samband við norska landa sína í Reykjavík. Fjölskyldan naut því útlandstengsla langt út fyrir landsteinana. Pabbinn var líka félagslyndur og margir og fjölbreytilegir menn komu við sögu fjölskyldunnar fyrr og síðar. Þegar Ingjaldur var ungur fylltist bærinn af erlendum setuliðsmönnum og raddir og orð hins stóra heims hljómu á götum og tæki og gæði útlanda urðu innan seilingar. Allt þetta laðaði og sökk í vitundina.

Á bernskuheimilinu var ekki hægt að komast hjá því að fylgjast með skipakomum. Reykjavíkurhöfn var lífleg, þar voru allar gerðir af skipum og líka fossar Eimskipafélagsins. Þegar Ingjaldur hafði aldur til fór hann að vinna, fyrst í landi og síðar á sjó. Hann vann við sendilstörf um tíma, í nokkur ár var hann hjá Málmsteypunni og svo vann hann við höfnina. Síðan fór hann lengra til, var á síld og jafnvel skútu, en munstraði sig svo á skip hjá Eimskip, var á Dettifossunum lengstum.

Góður félagi og vinur

Gjaldi, eins og hann var gjarnan kallaður, var vinsæll meðal félaga sinna, hrókur fagnaðar, ræðinn, glaðsinna, tryggur og traustur. Allir ljúka þeir lofsorði á Ingjald, að hann var alltaf til reiðu fyrir spjall yfir kaffibolla, alltaf skemmtinn og kátur. Hann átti sína starfstöð í vélarrými og var svo vel treyst, að hann starfaði allan sinn aldur hjá sama félaginu og hætti ekki hjá Eimskip fyrr en hann fór á eftirlaun. Engir aðrir en toppmenn endast og halda vinnu svo lengi – segja kollegar hans.

Ingjaldur varð ævintýramaður í augum ættingjanna heima og barna bræðra sinna. Hann fór um heimsins höf og sigldi gjarnan á Evrópuhafnir og fannst líka gaman að sigla á New York. Úr ferðunum kom Ingjaldur svo gjarnan með útlenskar gjafir til barnanna í fjölskyldunni og jólagafir hans og Gullyjar voru stórkostlegar og eftirminnilegar. Ingjaldur var ræktarsamur við vini sína og ættmenni. Hann hafði alltaf tíma til að brosa við börnunum, glettast við þau, umbar hávaðann og svo komu auðvitað upp úr pússi hans nammi og annað eftirsóknarvert.

Margar víddir

Ingjaldur hafði alla tíð góða reglu á sínum málum í lífinu, vinnu og öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var snyrtimenni, smekkmaður og flottur í tauinu. Hann verslaði erlendis og varð því gjarnan á undan sinni samtíð heima. Ingjaldur var myndarmaður og sjentilmaður. Hann var reistur og beinn og Nóbelskáldið var ekki öllu flottari á götu. Ingjaldur var kvikmyndaáhugamaður og sótti kvikmyndahús mikið þegar hann var í landi.

Ingjaldur var einhleypur og lætur ekki eftir sig börn. Hann keypti sér íbúð hér í vesturbænum, á Kaplaskjólsvegi 27. Þar átti hann sitt hlé, þar tók hann á móti vinafólki sínu og þar var hann þegar hann kom í land 14. október 1988. Þar bjó hann þar til fyrir rúmum tveimur árum þegar hann flutti á dvalarheimilið Grund. Þar var hann vistmaður þar til hann lést, 10. febrúar síðastliðinn eftir fótbrot og uppskurð.

Ingjaldur var vel liðinn, hann var góðmenni, hann var góður maður. Þetta eru umsagnirnar sem ég hef fengið um hann. En jafnframt var mér sagt beint og óbeint að Ingjaldur hafi verið fámáll um sumt hið innra. Hann var ræðinn um flest en ekki frekar en aðrir var hann allur séður. Bara Guð veit og sá. Bara Guð var hinn eini sem fylgdi honum alltaf. Við erum pílagrímar í lífinu, við erum farmenn tímans, ávinnum, en glötum síðan, okkur áskotnast ýmsilegt en missum svo. Margt er okkur gefið en flest fer forgörðum – en þó er einn sem aldrei víkur frá okkur, Guð. Guð sem er nærri okkur og andar til okkar og talar í stjörnum, á nóttinni, í hvísli daganna, í góðu fólki, í hlátrum og gleði. Alls staðar er Guð – fylgir okkur líka á vondum og þungum dögum.

Hin mikla för

Ingjaldur fór og farmaðurinn kom alltaf aftur. Nú er hann farinn í ferð, sem er mesta ferð mannsins, ferðin inn á haf eilífðar. Hann vissi að hverju dró. Hann hafði starað upp í himininn, séð tungl og stjörnur, hrifist og verið snortinn, en vissi líka vel að engin ferð verður nákvæmlega með því móti sem menn hugsa sér, allar ferðir verða með öðru móti en áætlað hefur verið. Í því er viska förumannsins fólgin. Ferðir í þessum heimi eru líka æfingar fyrir ferðina inn á haf ljóssins. Munið að leiðbeiningarrit veraldar, Biblían, segir okkur að “vélbúnaður” himinsins er meira en það sem við sjáum með berum augum, miklu stórkostlegri. Nú má Ingjaldur njóta gangverks eilífðar. Það er gott verkefni og ekki þarf hann að óttast að vélinn fari í fárviðri!

Ingjaldur Narfi Pétursson kom alltaf til baka, en nú kemur hann ekki aftur. En hann er ekki horfinn. Hann er í ljósríki Guðs, siglir á hafi elskunnar. Þar er hann í föruneyti þeirra sem hann elskaði og naut að vera með, þar er öllu dýrmæti veraldar safnað saman, þar fær hann að vera allur og heill með sínu og sínum. Í því er undur kristninnar að boða elskandi Guð, sem hefur umhyggju fyrir fólki, varðveitir, leiðir og blessar.

Guð huggi ykkur sem syrgið. Guð geymi Ingjald Narfa um alla eilífð.

Minningarorð í Neskirkju 19. febrúar, 2009. Jarðsett í Garðakirkjugarði

Sólborg Hulda Þórðardóttir – minningarorð

„Hvenær má ég koma? Hvenær get ég komið með teppið handa barninu?” spurði Sólborg Hulda Þórðardóttir.  Hún var alltaf með eitthvað á prjónum og heklunálin var líka á lofti. Hún elskaði fólkið sitt, fylgdist grannt með viðburðum, afmælum, gleðiefnum og veislum. Hún fagnaði þegar konurnar í fjölskyldunni urðu barnshafandi! Þá hófst hún handa og tók þátt í undirbúningnum, bjó til teppi, sem beið svo nýburans. Hún varð spennt og vildi gjarnan afhenda teppið sem fyrst.

Það er heillandi að hugsa um þessar nýburagjafir. Hvað vildi hún með þeim? Um hvað voru þær tákn? Voðirnar eru auðvitað umhyggjumál. Bogga vildi varna að litlu lífi yrði kalt. Og hún lagði ekki bara til það, sem var hægt að leggja í vöggur og sveipa um hvítvoðunga, heldur komu sokkar, vettlingar, milliverk, listaverk sem hannyrðakonan hafði gaman af að gera og gefa. Svo bjó hún til glermuni og fleira til gjafa líka. Ástargjafir Boggu bárust því víða og til margra. Þær eru vitnisburður um gjafmildi og lífsgleði. Afstaðan hefur erfst í fólkinu hennar. Ég var snortin af stórkostlegum sængurgjöfum sem sonardóttir hennar gaf vinafólki sínu.

Hvaða mynd áttu innan í þér af Sólborgu Huldu Þórðardóttur? Hvaða geislar stafa frá henni? Líf hennar er bæði táknrænt um sögu Íslendinga á 20. öld en líka boðskapur úr huldum dýptum og um visku lífsins. Hún fæddist snemma á liðinni öld, lifði svo lengi að hún náði nær tug í næstu. Hún fluttist úr dreifbýli í þéttbýlið hér fyrir sunnan og veitir innsýn í byggðaþróun þjóðarinnar. Hún ólst upp í þorpi og sveit, hóf búskap í sjávarplássi og neyddist til að fara suður til að sjá sér og sínum farborða. Hún missti marga og margt og hafði fáa kosti aðra en að rísa upp og láta ekki mótlæti hefta sig. Hún missti mann sinn en missti þó ekki móðinn, heldur þroskaði með sér lífsvisku, sem er aðdáunarverð og til eftirbreytni. Hún er sem lýsandi fyrirmynd um hvernig fólk getur lifað svo vel sé lifað, hvernig bregðast má við mótlæti og sorgum og vinna með til góðs.

Vandið ykkur við lífið, vandið lífshætti ykkar, gætið að lífshlýjunni eru sem sólstafir Boggu. Til hvers að lifa? Til að lifa vel. Hvernig eigum við að lifa vel? Með því að opna fangið gagnvart lífinu, möguleikunum – með því að elska fólk, þjóna öðrum. Í Jóhannesarguðspjalli er svonefnd Litla Biblía: “Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf einkason sinn…” Til að skilja dýpt ástarorða Litlu Biblíunnar er mikilvægt að skilja hina biblíulegu merkingu ástar. Vitringar fortíðar voru engu síðri en samtímafólk okkar og í sumu raunsærri. Ást í Biblíunni, og þar með Guðsástin, var ekki aðeins tilfinning heldur einnig athöfn. Að elska var ekki bara að leyfa glóðinni að streyma heldur að gera eitthvað í málum, leita hins elskaða, umlykja og faðma. Því svo elskaði Guð… Það er aldeilis ástarsaga að Guð sendir son sinn. Tilfinning Guðs er svo sterk og svo altæk, að það er ekkert minna en það að Guð komi sjálfur. Líf Sólborgar Huldu var líf athafna og hagnýtrar elsku.

Uphaf og lífsstiklur

Norðanvert Snæfellsnesið var heimur Boggu fyrsta hluta ævinnar. Hún fæddist á Hellissandi í lok júní árið 1914 og hefði því orðið 95 ára gömul innan nokkurra daga – hefði hún lifað. Foreldrar hennar voru María Guðbjörg Sigurgeirsdóttir og Þórður Árnason. Bogga átti fimm systkini. Hún var næstelst og öll systkinin eru nú látin. Pabbinn féll frá aðeins liðlega fertugur og Sólborg ólst upp hjá móðurforeldrum sínum, Guðríði og Sigurgeir. Þar kynntist hún mannlífi sveitarinnar, atvinnuháttum, viðfangsefnum og verkum ársins og fékk æ næmari skynjun á hversu mannlífið er dýrmætt og kannski líka tæpt. Líf og dauði, en lífið er betra en dauðinn, lífið er sterkara en dauðinn.

Bogga naut hefðbundinnar menntunar þessa tíma. Adólf Ásbjörnsson varð hennar lífsást og þau áttu heimili sitt í Ásbjörnshúsi í Ólafsvík. Þau eignuðust fjögur börn. Fyrst komu tvær stúlkur, Guðríður árið 1936 og síðan Ragnheiður ári síðar. Báðar dóu þær í frumbernsku. Drengirnir áttu hins vegar líf í vændum, þeir Þórður Marteinn og Adólf. Þegar Þórður var þriggja ára og Adólf á leiðinni veiktist Adólf maður Sólborgar, fór suður til lækninga en lést skömmu eftir að Adólf yngri fæddist. Sá stutti fékk því nafn föður síns, sem féll frá aðeins 32 ára gamall, og var skírður við kistu föður síns.

Það er mikil saga sögð í þessum fáu setningum. Líf og dauði, líf þrátt fyrir dauða. Hvað hugsar móðir með látnar stúlkur í fangi og síðan lítið líf en látin mann á börum? Sólborg ekki þrítug í þessum dramatísku aðstæðum. Hvernig verður líf við slíka áraun? Þegar áföllin verða svo stór verða kostirnir aðeins tveir, að lúta eða lifa. Svo eignaðist hún stúlku sem hún lét frá sér síðar til góðs fólks og í góðar aðstæður.

Hvaða leið fór Sólborg Hulda? Hvernig lifði hún? Hún talaði ekki um áföllin, brotnaði ekki og hún rétti úr sér. Hún vék sér ekki undan ákvörðun. Hún kippti upp sínum tjaldhælum í lífinu, kom syni sínum, Adólf, fyrir hjá afa og ömmu sem ólu hann upp. Ragnheiður Guðjónsdóttir, Ranka amma, var líka mikilvæg og skal henni þökkuð elska hennar við Adólf, Sólborgu og fjölskylduna.

Suður

Sólborg fór til starfa í Reykjavík og vann lengstum við sauma, m.a. við gerð tískufatnaðar hvers tíma. Bogga saumaði draumaflíkur margra. Kannski væri ráð næst þegar þú ferð fataskápinn að skoða handbragðið og íhuga hvort hendur og natni Boggu eigi þar einhver merki og spor! Barnabörnin hennar nutu þess, að amma var í miðri hringiðu tískubransans og gat saumað handa þeim það, sem var flottast á hverjum tíma. Sólborg Hulda varð að gera upp lífið á erfiðum tíma og hún var kannski algerlega í réttum aðstæðum, að sauma spjarir, sem voru tengdar tímanum. Hún gerði sér grein fyrir að best væri að njóta augnabliksins og stundarinnar, grípa daginn, lifa vel en draga hvorki fortíð á eftir sér né láta áhyggjur – af því sem við fáum ekki ráðið í framtíð – hemja núið.

Sjálfstæðið var Sólborgu mikilvægt. Eftir að hafa búið í leiguhúsnæði, m.a.s. í kjallara Háskóla Íslands, keypti hún sér íbúð í Stigahlíð 18 og bjó þar í nær hálfa öld. Hún var frumbyggi í blokkinni sinni og kunni margbýlinu vel. Hún laðaði að sér börnin, gaf þeim ís og dekraði við þau. Hún lagði gott til nágrannana, sem minnast hennar fallega og studdu hana þegar hún eltist. Bogga gekk gjarnan til vinnu og naut þar með hreyfingar og útivistar. Svo varð stigagangurinn í blokkinni ljómandi trimmstigi fyrir hana þegar hún eltist.

Til lærdóms

Hvernig minnistu Sólborgar Huldu Þórðardóttur? Hvað viltu muna? Hvað eflir þig og verður þér lífshvati? Hún var glaðsinna og tók eftir því fagnaðarríka. Er það ekki til eftirbreytni?

Hún var alltaf til í ævintýri – bílferð, matarboð, afmæli. Hún lét aldrei neitt smálegt hindra kátínu og gleði. Er það ekki okkur til íhugunar?

Hún lét ekki áföll og skelfingar slá skugga yfir líf sitt. Hvað getum við numið af slíkri afstöðu?

Hún var tilbúin til að opna fang og huga gagnvart sambýliskonu Þórðar, sem þakkar innilegt viðmót. Hvað getum við lært af því?

Hún elskaði fólkið sitt, börnin, ykkur öll sem kveðjið. Hún viðurkenndi margbreytileika og umbar mismunandi skoðanir. Er það ekki veganesti okkur í heimi, sem er fjölbreytilegur í hugmyndum og trú?

Þurfum við ekki Sólborgarsýn og Sólborgarelsku í lífinu? Hún var engin vingull, vissi nákvæmlega hvað hún vildi, gat og megnaði, hún var heilsteypt – og er ekki mikilvægt að stæla stefnufasta sjálfsmynd með vitund um hvar mörk liggja og að annað fólk hefur líka þarfir sem ber að virða. Getur Bogga orðið okkur hvati til að fara vel með líf okkar, virða þarfir en láta þær ekki flæða yfir aðra? Hún var kunnáttusöm í samskiptum og leitaði mannfagnaðar og tjáði skýrt jákvæðni og elsku sína. Er ekki í því fólginn hvati og viska til eftirbreytni? Hún kunni að þakka fyrir sig. Hvernig umgöngumst við fólk, sjálf okkur og gæði lífsins? Þurfum við ekki að æfa okkur svolítið betur í þeirri sjálfsögðu og mikilvægu lífskúnst – að þakka?

Sólborg himins

Nú eru skil orðin. Sólborg Hulda Þórðardóttir lést 11. júní síðastliðinn á heimili sínu í Sóltúni. Hún smellir sér ekki lengur í ferð með þér, hún kemur ekki lengur niður, hún laumar ekki kjötbita til ferfætlinganna eða sokkum á kalda barnafætur. En hún verður áfram fordæmi, vefur þig umhyggju og elsku. Vettlingarnir og værðarvoðirnar eru hljóðlát tákn um afstöðu til lífsins, um að lífið er til að lifa því og lífið er sterkara en dauðinn.

Hún bar í sér, nafni sínu og verkum afstöðu himinsins, að lífið er borg sólar, er ætlað að vera sólfang til góðs. Nú er hún sjálf í himinljósinu. Gagnvart mörkunum miklu er það til styrktar að hugsa um hana með Adólf, með dætrum sínum, með ættboganum öllum á þeim miklu Hulduhólum eilífðar, í Sólborg himinsins.

Guð geymi Sólborgu Huldu Þórðardóttur. Guð geymi þig í sorg þinni og lífi.

Minningarorð í Háteigskirkju 24. júní, 2009. Duftker jarðsett í Ólafsvíkurkirkjugarði.

Æviyfirlit

Sólborg Hulda Þórðardóttir fæddist á Hellisandi 28. júní 1914, hún lést fimmtudaginn 11. júní síðastliðinn á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Foreldrar hennar voru María Guðbjörg Sigurgeirsdóttir, f. 2. júní 1885, d. 28. maí 1967 og Þórður Árnason, f. 23. mars 1880, d. 30. nóvember 1922. Hún var alin upp hjá móðurforeldrum sínum Guðríði og Sigurgeir.

Systkini Sólborgar voru: Guðlín Laufey Þórðardóttir, f. 1912, d. 2006. Olgeir Guðberg Þórðarson, f. 1915, d. 1997. Ólafur BjartdalÞórðarson, f. 1917, d. 1995. Árni Bergmann Þórðarson, f. 1919, d. 1985. Sigurgeir Þórðarson, f. 1922, d. 1922.

Maður Sólborgar var Adólf Ásbjörnsson, sjómaður í Ólafsvík, f. 27. október 1910, d. 13. febrúar 1942. Foreldrar hans voru Ragnheiður Eyjólfsdóttir, f. 1877, d. 1959 og Ásbjörn Eggertsson, f. 1874, d. 1957, Sólborg og Adólf áttu fjögur börn:

Guðríður, f. 1936, d. 1936

Ragnheiður, f. 1937, d. 1937

Þórður Marteinn, f. 14 nóvember 1938. Hann var kvæntur Hönnu Jónu Margréti Sigurjónsdóttur, f. 13. febrúar 1942, d. 6. maí 2005. Sambýliskona hans er Elsa Jóhanna Gísladóttir, f. 24. janúar 1941.

Börn Þórðar og Jónu eru: Margrét Þórunn, f. 26. febrúar 1960, d. 3. desember 1960. Sólborg Hulda, f. 10. júní 1961, gift Atla Karli Pálssyni,  f. 5 maí 1963, dóttir þeirra er Margrét Heba, f. 30. október 1997. Sigurjón, f. 8. mars 1963, kvæntur Hrafnhildi Garðarsdóttur, f. 9. mars 1962, börn þeirra eru Garðar Hrafn, f. 12. mars 1985, Kristinn Örn, f. 29. ágúst 1992 og Hanna Jóna, f. 20. ágúst 1999. Ragnheiður Margrét, f. 2. júlí 1964, d. 28. júlí 2008, gift Jóni Oddi Magnússyni, f. 31 október 1959, börn þeirrraeru: Margrét Þórunn, f. 26. janúar 1981, sambýlismaður hennar er Björgvin Fjeldsted, f. 26. september 1976, synir þeirra eru Óliver Dofri, f. 27. nóvember 1998 og Mímir Máni, f. 22. maí 2004 og Þrymur Orri, f. 2. nóvember 2005.

Þórður Ingi, f. 22. október 1988. Áslaug Þóra, f. 22. september 1992. Sigrún Ósk, f. 17. september 1995 og Hanna María, f. 5.desember 1996.

Gróa María, f. 16. júní 1967, gift Baldvini Kárasyni, f. 7. nóvember 1967, synir þeirra eru Páll Helgi, f. 22. mars 1999 og Gísli Marteinn, f. 12. febrúar 2002

Adólf, f. 4. janúar 1942, kvæntur Moniku Magnúsdóttur, f. 11. nóvember 1942,

Börn þeirra eru: Ragnheiður María, f. 11. júli 1967, gift Brynjari Guðbjartssyni, f.  19. janúar 1966, börn þeirra eru Iðunn, f. 18 nóvember 1993 og Ari, f. 7. mars 1996.

Magnús Már, f. 9. mars 1970, kvæntur Guðrúnu Jónsdóttur, f. 17. febrúar 1970, börn þeirra eru Óttar Már, f. 11. ágúst 1994 og Ólöf, f. 26. júní 1997.

Steinunn. f. 7. nóvember 1972, sambýlismaður hennar er Valdemar Sæberg Valdemarsson, f. 22 júlí 1971, dóttir þeirra er Ída María, f. 1. janúar 2008.

Soffía, f. 3. október 1983, sambýlismaður hennar er Ólafur Sverrir Kjartansson, f. 7, desember 1983, dætur þeirra eru Saga Guðrún, f. 29. október 2004 og  Arney Vaka f.  22. mars 2007.

Sólborg ólst upp hjá móðurforeldrum sínum á Hellisandi. Hún var búsett í Ólafsvík þar til maður hennar lést en eftir þann tíma bjó hún í Reykjavík. Frá 1959 var heimili hennar í Stigahlíð 18 þar til hún fluttist í Lönguhlíð 3 fyrir tveimur árum síðan. Síðustu sex mánuðina naut hún umönnunar að Hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Sólborg starfaði ung við ýmis þjónustu- og fiskvinnslustörf en lengst af við saumastörf  í saumaverksmiðjum eftir að hún fluttist til Reykjavíkur.

Útför Sólborgar Huldu frá Háteigskirkju miðvikudaginn 24. júní, 2009.

Hinrik Jónsson – minningarorð

Hinrik hafði gaman af kvikmyndinni Mamma mia með öllunum Abba-lögunum. Þegar hann átti erindi út setti hann gjarnan Abbadisk í spilarann í bílnum. Svo brosti hann breitt, leyfði tónlistinni að flæða um vel kynntan bílinn og í góðum takti ók hann það sem hann þurfti. Hinrik hafði lært á gítar ungur, fór með félögunum niður í bæ og keypti sér rafmagnsgítar. Svo færði Mary síðar músík í hans líf. Og sumt var árstíðabundið. Þegar fór að nálgast afmælið hans þann þrettánda og lýðveldisafmælið sautjánda júní fannst honum við hæfi að syngja eða spila: “Hæ, hó jibbí jei og jibbíjei…o.s.frv.”

Þegar við, sem upplifðum Abbaárin og abbabylgjuna á sínum tíma, horfum á myndina Mamma mia þá vakna ýmsar tilfinningar, upplifanir, minningar og líka stemming. Lífið er fjölskrúðugt, já vissulega flókið, margbreytilegt, alltaf eitthvað um að vera, stundum líka óhamingja og átök, en í bland með öllu þessu góða og stórkostlega, sem vert er að minnast og þakka fyrir.

Abba er eitt, og mamma mía er því tengt – nöfnin, heitin – hvað segja þau okkur? Mamma og pabbi. Jú, þau benda til upphafs okkar allra, en svo líka enn lengra og til þess sem er mun stærra.

Hvernig hugsar þú um Guð – er það ekki annað hvort í mynd eða gegnum mynd mömmu þinnar eða pabba eða einhvers sem hefur verið þér góður eða góð? Hvaðan kemur nafnið abba? Meðlimir söngflokksins eiga stafina sína þarna. En á bak við þau og nafnið er löng abbahefð, ekki bara í músík, heldur í bókmenntum, myndlist, kveðskap og trúarhefð. Af hverju? Vegna þess, að þegar Jesús Kristur kenndi vinum sínum og lærisveinum að biðja þá vildi hann kenna þeim að biðja persónulega og nákomið. Nafnið, sem hann vildi að menn notuðu til að ávarpa Guð var einfaldlega abba – þetta ávarp sem öll heimsins börn læra að nota á foreldri sitt. Abba- pabbi – þú sem ert mér svo nákominn. Það er risadýptin og hæðin í abbahefðinni.

Fjall – tjald Guðs

Hinrik kunni bæði að syngja abba og segja Guð, faðir í trúarlegum skilningi. Fólkið hans og fjölskylda hefur sagt mér, að Hinni hafi gjarnan lesið í Biblíunni. Og þegar henni er flett að honum látnum kemur í ljós, að hann átti sér ýmsa uppáhaldsstaði og uppáhaldsíhugunarefni.

Áðan las ég 15. Davíðssálminn sem var í sérstöku uppáhaldi hjá Hinna. Þetta er merkilegur sálmur og það er íhugunarefni af hverju hann hreifst af þessum sálmi framar mörgum öðrum í þessu merkilega safni sem Davíðssálmarnir eru. Þetta er ekki langur sálmur, en ristir djúpt – ristir allt í kviku veraldar og mannlífs. Þessi ljóðbæn byrjar með spurningu – og endar með svari. Á milli er síðan ígrundað hvað mannlífið er og hvernig það ætti að vera. Til hvers lifum við? Hvað erum við og hvað gerum við í lífinu svo við lifum vel? Þetta var það sem Hinrik Jónsson glímdi við alla tíð og þetta var það, sem hann varð svo sannarlega að svara og iðka þegar hann var borinn auri og varð að bregðast við ranglæti sem hann varð fyrir.

Upphafsspurning sálmsins er: „Drottinn, hver fær að leita hælis í tjaldi þínu, hver má dveljast á þínu heilaga fjalli.”  Í því felst spurningin: Þú, himneski pabbi alls lífs, hvernig á ég að lifa svo ég lifi vel? Og síðan kemur svarið skýrt og klárt: Þú skalt ástunda réttlæti, tala sannleika, forðast að vera rógberi. Gerðu ekki öðrum illt, gættu þess að vera sannur í iðju þinni, forðastu að þiggja mútur. Sérðu ekki Hinna í þessari speki sálmsins? Reyndi hann ekki alltaf að lifa vel og með góðum og ábyrgum hætti?

Hann var ekki alltaf heppinn í lífinu, stundum lenti hann í vandkvæðum, en hann reyndi alltaf að sjá hið góða í samferðafólki sínu, reyna að sjá betri hliðina fremur en illsku og pretti. Og svo segir í Davíðssálminum: „Sá, sem þetta gerir er óhultur að eilífu.”

Sókn Hinriks til ljúfmennsku, löngun til að hjálpa, vilji til að sjá hið góða einkenndi hann. Þannig stimplaði hann sjálfan sig inn í hið eilífa Abba, hið vonarríka mamma mía himinsins, hina eilífu tjaldbúð.

Verk mannsins skila mönnum ekki sjálfkrafa inn í himininn. “Do it yourself” var einu sinni áherslan. Við smíðum þó ekki sjálf lyklana að gullna hliðinu. En við menn ákveðum sjálf hvernig við lifum. Hinni hafði ákveðið gerð lífsins og vildi lifa til góðs.

Æfistiklur

Hinrik Jónsson fæddist 13. júní árið 1961. Foreldrar hans eru Jón Hinriksson og Unnur Sigríður Björnsdóttir. Faðir hans er látinn. Systkini hans eru Björn, Ragnheiður og Garðar. Hinrik ólst upp á Seltjarnarnesi, sótti þar skóla, naut útivistarmöguleika og samfélags á Nesinu til fullnustu. Fjaran, hæðin og holtin voru stórkostlegur vettvangur leika. Skólarnir voru góðir og mannlífið fjölskrúðugt. Hinrik var strax dugmikill, hugumstór, verkafús og kröftugur strákur. Þær persónueigindir fylgu honum til fullorðinsára. Foreldrarnir lögðu dug til síns fólks og barnahópurinn var nægilega fjölbreytilegur til að skerpa línur. Hinrik var bráðþroska og uppátækjasamur. Mamman hélt vel um barnahópinn og pabbinn varð þeim fyrmynd sjálfbjarga dugnaðar og þors. Þann arf tók Hinrik til sín og veitti áfram.

Vinir Hinriks voru líka sjálfbjarga hópur. Þegar þeir komust yfir do it yourself – bók um bátasmíði tóku þeir við sér. Svo voru þeir í langan tíma að smíða haffæran spíttbát, sem þeir kölluðu því stóra nafni “Gyðjan.” Þegar búið var að ganga frá öllu, tengja stýrið, koma fyrir mótor og fara í vestin var ekkert að vanbúnaði. Svo var bara stímað til hafs. Þeir félagar voru ekkert að tilkynna stefnuna hugsanlegum bannvöldum, eins og mömmu eða pabba, en lengst fóru þeir alla leið til Keflavíkur.

 Gyðjan hefur því verið gott skip og haffærnin og lægnin nægileg til að allir komu þeir aftur. Það hefur ekki farið hjá því, að þeir æskufélagar uppgötvuðu hæfileika sína, hvað góðir smíðisgripir gátu þjónað vel og veitt mikla skemmtun. Sporjárn, hefill og hamar heilluðu. Það var engin efi í huga Hinna – hann vildi gjarnan leggja smíðar fyrir sig.

Eftir skólagöngu á Nesinu fór hann, Theodór, vinur hans, og fleiri í Iðnskólann haustið 1977. Hinni eignaðist þar góða vini og varð hluti af hóp, sem síðan hélt vel saman. Hinrik naut þeirra allt til enda og hópurinn biður fyrir kveðjur til þessa safnaðar.

Vert er að nefna nöfn nánustu vina Hinna, þeirra Theodórs, Kjartans, Guðmundar og Víðis og þakka þeim vináttu og ræktarsemi alla tíð. Lof sé ykkur.

Hinrik lagði húsgagnasmíði fyrir sig, varð völdundur, hafði síðan atvinnu af smíðum, kom víða við, og varð ekki aðeins húsgagnasmiður heldur líka húsasmiður og meistari í sínum greinum.

Hinrik var hugmyndaríkur og fljótur til framkvæmda. Hann hafði jafnan trú á fólki, valdi að sjá möguleika og björtu hliðarnar. En það kom honum stundum í koll að treysta orðum fólks, að trúa því að aðrir væru eins vel innrættir og hann sjálfur. Við getum sett okkur í þau spor, við erum sem samfélag og þjóðfélag að súpa kreppuseiði þess konar trausts gagnvart fólki sem reyndist ekki traustsins vert.

Hinrik var kunnur fyrir dugnað sinn og í minnum er haft hve afkastamikill hann var. Hann setti t.a.m. upp innréttingar í blokk hér í Vesturbænum ásamt félaga sínum. Og það munu ekki margir leika eftir þeim að setja upp allar innréttingar í þrjár íbúðir á einum degi. Það gerðu þeir dag eftir dag svo verklægnin hefur stýrt og hraðinn hefur verið mikill!

Fjölskyldan og börnin

Hinrik var sá lánsmaður, að eiga góða fjölskyldu og góða að. Foreldrarnir veittu börnum sínum gott veganesti og hann varð sjálfur natinn faðir fjögurra barna. Elst er Mirjam og síðan kom Ramona, sem Hinrik eignaðist í fyrra hjónabandi sínu. Hann gladdist mjög við fæðingu stúlknanna, en móðir þeirra meinaði honum eftir nokkurn tíma að njóta samvistanna með þeim. Það varð honum mikið sorgarefni. Dætur hans hafa lengstum búið í Noregi. Hinrik eignaðist síðan Auðunn Þórarinn með Friðrikku Guðnýju Guðnadóttur. Auðunn er búsettur í Svíþjóð, en var gjarnan með föður sínum þegar hann var á Íslandi.

Hinrik kynntist á örlagatíma ævinnar Mary Campell, þá fiðluleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands og síðar skólastjóra Suzukiskólans. Hinrik bauð henni upp á Þórscafé og síðan vildi hann gjarnan fá að vera með henni og dansa lífsdansinn. Þau gengu svo í hjónaband í september árið 1989. Mary reyndist Hinna hið besta, færði honum útsýn, írska festu, umhyggju og nánd og fæddi honum líka soninn Jón, sem varð Hinna þeim mun mikilvægari þegar hann var bundinn heima vegna fötlunar sinnar.

Hinrik lenti í slysi í febrúar 1996, sem væntanlega allir viðstaddir vita um. Á hann var ekið þegar hann var að ganga yfir götu í miðbænum. Afleiðingarnar voru skelfilegar, hann höfuðkúpubrotnaði og varð fyrir margháttuðum skaða, sem varð til að honum voru allar atvinnnubjargir bannaðar, hann var sárþjáður og þjakaður. Mary reyndist honum stórkostlega og er henni þökkuð öll þjónusta hennar fyrr og síðar við Hinrik, ósérplægni og umhyggja.

Heilsuleysið reyndist Hinrik þungbært og erfiður krossburður. Ýmsir líkamskvillar ágerðust og hann gerði sér grein fyrir að heilsa hans var á hættumörkum. Svo ýtti hann á öryggishnapp sinn sjálfur hálfum mánuði fyrir 48 ára afmælið, en þegar hjúkrunarlið bar að var hann allur.

Hinrik elskaði börnin sín, elskaði lífið, unni sínu fólki, naut Mary, sá inn í eilífðina, hafði auga fyrir fegurð og samhengi hluta og forma. Hann var vænn vinur, góður félagi, verkmikill í vinnu og góðgjarn maður. Hann rækti fjölskyldutengslin eins og hann mátti og gat. Hinni þakkaði alltaf vel fyrir sig, tjáði skýrt þakkir sínar, faðmaði með ákefð og tók fast í hendur.

Ýmsir hafa haft samband og beðið fyrir kveðjur: Miriam, dóttir Hinriks er í Noregi og ber ykkur kveðju sína. Jóhann Guðmundsson og Valgerður Guðmundsdottir, frændsystkin Hinriks, komust ekki heldur til þessar kveðjuathafnar en biðja fyrir kveðjur. Margrét Garðarsdóttir er og fjarri og biður fyrir kveðju.

Elífðin

Nú eru hin algeru skil: „Drottinn, hver fær að leita hælis í tjaldi þínu, hver má dveljast á þínu heilaga fjalli?” Sá sem gengur í flekkleysi og ástundar réttlæti og talar sannleik af hjarta, sá sem ekki ber út róg með tungu sinni, gerir náunga sínum ekki illt…Sá sem þetta gerir er óhultur að eilífu.”

Hverju skilar vinnan? Jú, gleði, en kannski ekki alltaf mikilli eftirtekju. Hverju skila gæði lífsins, jú ánægju en ekki endanlegri. Öllu eru nokkrar takmörkunarskorður settar. Og hvað er þá eftir? Það er eilífðin. Hinrik hafði þegar vendilega mælt út skika lífs og hamingju. Og hann bæði trúði og vissi að meira var, hið heilaga fjall, flott bygging, glæsilega snikkuð, með handverki fullkomnunarinnar, vonarland. Þangað stefndi Hinrik. 

Ekki veit ég hvort abba hljómar í tjaldi hinnar eilífu sumarhátíðar en ég get fullvissað ykkur um að abba er á himnum. Hinni þekkti sinn föður, kunni sitt trúarabba og bænamál – vissi alveg hverju kristin kenning heldur fram um dýrðina hið efra. Við vitum ekki hvernig himinlífið er í smáatriðum en við vitum að þar er abba og mamma mía trúarinnar, þar er Jesús og þá er allt sagt sem máli skiptir – Guð.

Guð faðir, sonur og heilagur Andi geymi Hinrik í eilífu ríki sínu. Guð geymi þig, styrki og verndi. Amen  – í Jesú nafni.

Minningarorð í Neskirkju við útför Hinriks Jónssonar, 11. júní 2009.

Ólafía S. Ólafsdóttir – minningarorð

Hvernig minnist þú Ólafíu? Hvernig var hún þér? Gaf hún þér eitthvað? Tók hún til hendinni þegar þér lá á? Sá hún ef þú varst þreyttur eða lúin og vildi veita þér næðisstund og hvíld? Gaf hún ekki þeim sem þörfnuðust? Var gjafmildi Ólafíu nokkuð einskorðuð við mannheima? Nutu ekki fuglar og jafnvel mýs elsku hennar?

Hugsaðu til baka. Brosandi birtist hún í huga mínum. Þessi glæsilega kona, alltaf hrífandi, með svo elskulega návist að öllum leið vel, vissu að allt var gott og allt yrði gott þar sem hún var. Hún umvafði fólkið sitt með hlýju og glaðværð, var hjálpsöm og gjafmild.

Við kveðjum Ólafíu Sigurbjörgu Ólafsdóttur á síðasta degi jóla. Þrettándi dagur jóla er forn stórhátíð í kirkjunni, þrunginn merkingu sem við megum gjarnan vitja og setja í samhengi Ólafia. Þrettándinn passar vel við líf hennar, lífsafstöðu og verk.

Þrettándinn og gjafir fyrir lífið

Í guðspjalli dagsins, sem ég las áðan, segir frá helgisögunni um vitringa sem voru að leita að hinum nýfædda konungi Gyðinga. Leit þeirra spurðist út, kóngur vildi fá að vita um leitina og svo fóru þeir og fundu barnið í Betlehem. Þar gengu þeir fram og veittu barninu lotningu og færðu því gjafir. Ekki vitum við hvað þeir voru margir eða hvaðan vitringarnir komu. Ekkert er sagt um að þeir hafi aðeins verið þrír eins og helgileikir barnanna sýna gjarnan. Ekkert segir Biblían nöfn þeirra og ekki heldur kyn þeirra. Því hefur löngum verið haldið fram, að þetta geti ekki hafa verið konur því ef svo hefði verið hefðu þær verið komnar á undan Maríu og hefðu verið búnar að skúra húsið og undirbúa fæðinguna og gefið nytsamar gjafir eins og mat og bleyjur. En hvað gáfu þessir vitringar? Börnin í sunnudagaskólanum hafa skemmt sér við að þeir hafi gefið bull, ergelsi og pirru. Nei þeir gáfu ekki slíkar gjafir, og ekki heldur ráðleysi, skuldir og firru. Gjafir vitringanna voru gjafir konungs, prests og læknis – gull, reykelsi og myrra voru gjafir til að efla Jesúbarnið til hinnar altæku þjónustu við líf fólks og líf heims. Vitringarnir komu til að votta lífinu virðingu og blessa starf í þágu lífsins. Við menn erum í sömu stöðu og vitringarnir, kölluð til hins sama, kölluð til að efla aðra, votta því besta virðingu okkar og gera það sem í okkar valdi stendur til að tryggja að allir megi þroskast og eflast.

 

Mér sýnist við hæfi, að við fylgjum Ólafíu í hinstu ferð á þessum degi vitringanna, sem gefa gjafir. Hún var gjöful, hún var vitringur í lífinu. Hún er okkur skínandi fyrirmynd um afstöðu þjónustu, gáska, jákvæðni, raunveruleikatengingar og blessunar.

Uppruni og fjölskylda

Ólafía Sigurbjörg Ólafsdóttir fæddist undir stórum vetrarhimni austur í Landeyjum, þann 25. febrúar árið 1927. Ólafía fæddist á Álftarhóli og bjó þar fram á unglingsár er hún hleypti heimdraganum. Foreldar hennar voru Sigurbjörg Árnadóttir (f. 27. ágúst 1885 d. 28. október 1975), og Ólafur Halldórsson (f. 16. ágúst 1874  d. 5. júlí 1963). Ólafía var þriðja yngst í hópi 12 barna hjónanna  á Álftarhóli. Systkini Ólafíu eru:

Óskar (f. 1911 d. 1989),

Jónína Geirlaug (f. 1913),

Engilbert Maríus (f. 1914 d. 1989),

Laufey (f. 1915 d. 1999),

Björgvin Árni (f. 1917),

Unnur (f. 1919),

Katrín (f. 1921 d. 1994),

Rósa (f. 1922),

Júlía (f. 1924),

Kristín (f. 1928) og

Ágúst (f. 1930).

Blessun og langlífi einkennir þennan systkinahóp og sjö þeirra lifa. Tólf börn á 19 árum. Oftast var kátt í kotinu, en barátta var mikil og sístæð við að hafa í þennan hóp og á. Heimilisbragurinn var myndarlegur og góður. Samheldni var með áægtum. Menntun fengu börnin í farskóla, sem stundum var heima í Álftarhóli. Allir lærðu að vinna og leggja til heimilis. Í því voru foreldrar fyrirmynd. Sigurbjörg mamma Ólafíu fór gjarnan milli bæja prjónandi á göngu sinni. Í vel iðjandi stórfjölskyldusamhengi, sem var orðvart um utalsfrómt, námfúst og fróðleiksleitandi mótaðist Ólafía. Í ljósi uppvaxtar hennar er hægt að skilja af hverju hún var svo kunnáttusöm í samskiptum, umhyggjusöm og eflandi.

Sextán ára fór Ólafía að heiman til að vinna og sjá sér farborða. fyrst fór hún út í Eyjar og síðan til Reykjavíkur, sem varð hennar reitur allar götur síðan. Systurnar voru kunnar fyrir glæsileik, minntu helst á kvikmyndastjörnur, var sagt, smart og elegant. Það var ekkert einkennilegt að ungir menn festu augun á Ólafíu.

Árið 1947 giftist Ólafía Jósef Björnssyni skrifstofmanni (f. 15. desember 1927). Þau voru ung, nutu hjúskapar í blóma lífsins, en Jósef lést hins vegar fyrir aldur fram, aðeins 37 ára gamall (1965). Þau eignust fyrsta barn sitt í ársbyrjun 1948, stúlkubarn sem skírð var Ásta (f. 8. janúar 1948 d. 1. apríl 1948). Hún lést tæpra þriggja mánaða úr heilahimnubólgu. Alla tíða síðan var Ólafía varkár gagnvart veikindum í börnum og árvekni hennar skilaði góðu. Önnur börn þeirra Jósefs eru:

Svanhvít Ásta (f. 14. janúar 1949). Hennar maður er Ásgeir Ólafsson.

Björn Ingi (f. 8. mars 1950). Kona hans er Dóra Ásgeirsdóttir

Yngstur er Ólafur (f. 30. október 1963) og hans kona er Steinunn Svanborg. Afkomendur eru samtals 18

Eftir að fyrsta barnið fæddist var Ólafía heimavinnandi húsmóðir. Þau Ólafía og Jósef bjuggu ásamt Ingibjörgu móður Jósefs nokkur ár í Skerjafirði. Það voru hamingjuár. Árið 1960 fluttist fjölskyldan á Sólvallagötu 28. Þegar Jósef lést fimm árum seinna flutti Ólafía ásamt börnum og tengdamóður í Skipholt 45. Hún fór síðan að vinna utan heimilis. Fyrst hjá Flugfélagi Íslands, í hlaðdeild við þrif á flugvélum en síðan í mötuneyti á Reykjavíkurflugvelli. Í vinnu og afstöðu var Ólafía bæði góður starfsmaður og trygg sínum vinnuveitanda. Á Reykjavíkurvelli vann hún samfellt yfir þrjátíu ár þar til hún lét af störfum vegna aldurs, fyrst hjá Flugfélagi Íslands, síðar Flugleiðum.

Georg Sighvatur Sigurðsson varð vinur Ólafíu og sambýlismaður frá árinu 1977. Þau bjuggu saman í 24 ár þar til hann lést árið 2001. Börn Georgs eru: Sigurður Ingi – hans kona er Anna Sigríður Sigurðardóttir. Róshildur Agla, Anna Þuríður – hennar maður er Haraldur Stefánssonar, Jóna Margrét og hennar maður Kristinn Magnússon. Samtals eiga Georg og fyrri kona hans sem einnig heitir Ólafía og er Egilsdóttir 36 afkomendur. Börnin hans Georgs urðu fólkið hennar Ólafíu Sigurbjargar og þau reyndust henni hið besta. Þökk sé þeim fyrir elskusemi þeirra. Ríkidæmi þeirra Georgs var því mikið í fjölskyldunni. Og þar er mesti auður lífsins, í fólki, í elskunni og því sem mölur og ryð fá ekki grandað.

Ólafía bjó í Skipholti 45 í 40 ár en fluttist árið 2006 í Lækjasmára 21 þar sem hún bjó til dauðadags. Hún lést 21. desember s.l. á Líknardeild Landsspítalans í Kópavogi. 

Eigindir

Hvernig var hún? Hvaða minningar áttu um Ólafíu. Hvað gaf hún þér? Ef fuglar gætu talað yrði magt skemmtilegt sagt. Ólafía var mikill vinur málleysingjanna, gaf ekki aðeins krummum, spörfuglum og gæsum. Hún mátti ekkert aumt sjá og var eins og hetja úr Deisneymynd og sá aumur á mús um miðjan vetur og kom til lífs. Flestar líflitlar plöntur lifnuðu hjá ólafíu. Hún var eins og Frans frá Assisi, tengd lífinu og lífríkinu, sköpun Guðs með þeim hætti að allt dafnaði og gladdist.

Og hún umvafði samferðafólk sitt. Hún hafði tamið sér þá undursamlegu afstöðu að lifa í nútíðinni. Henni hugaðist ekki að horfa bara til forstíðar. Hún vildi ekki ganga afturábak inn í framtíðina, heldur með fullri vitund. Hún var sér vel meðvituð um að það skiptir máli að hafa jákvæða afstöðu í lífinu. Því forðaist hún allar langlokur um sjúkdóma og sneyddi hjá barlóm, neikvæði, svarts´ni og öllu því sem gat gert daprað lífið. Hún hafði hins vegar gaman af því sem gladdi, gerði lífið skemmtilegra, litskrúðugt, betra. Hún var okkur hinum lýsandi fyrimynd um að fjör lífsins er íokkar eigin hendi, á okkar ábyrgð. Okkar er að spila vel úr því sem er gefið. Já, hún hafði þessa frumafstöðu trúarinnar að manni leggist eitthvað gott til, ef maður er opinn og jákvæður. eins og allir reyna, sem temja sér slíka afstöðu þá lagðist henni gott til, líf hennar spannst vel þrátt fyrir mikil áföll. hún naut elsku og blessunar og var sér með vituðuð um það. H´n fylgdist vel með því sem var á döfinni. Já, þegar sonardóttir mundi ekki dægurlagatexta var hægt að hringja í ömmu. Hún var upplýst. Hún vissi hvað var að gerast í heimi barnabarna sinna. Hún fylgdist einfallega afar vel með og var því fær um að tala við fólk á öllum aldursskeiðum. Ólafía hóf sig því yfir aldur og varð aldrei gömul.

Vitringarnir gáfu gjafir til lífs. Ólafia gaf mönnum og málleysingjum. Hvað viltu með líf þitt. Viltu fylla það af eignum eða fjármunum, sem svo kannski sogast í brut í einhvern svelginn? Eða viltu þiggja fordæmi Ólafíu, gefa af ríkidæmi lífsins, gefa af ríkidæminu hið innra? viltu verða vitur og gefa gjafir viskunnar?

Á þessum degi við jólalok og lífslok Ólafíu skaltu staldra við og hugsa um til hvers við lifum – já til hvers þú lifir. hvað var best í henni og það skaltu temja þér, þá fá gjafir hennar að ávaxtast vel, nýtast vel og verða öðrum til góðs.

Fossvogur, 6. janúar, 2009.

Guðspjall:  Matt 2.1-12

Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“
Þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: „Hvar á Kristur að fæðast?“
Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:
Þú Betlehem, í landi Júda,
ekki ert þú síst meðal hefðarborga Júda.
Því að höfðingi mun frá þér koma
sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.“
Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim hvenær stjarnan hefði birst. Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið og er þið finnið það látið mig vita til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“
Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var. Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög, þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.
En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar fóru þeir aðra leið heim í land sitt.

Ingibjörg Einarsdóttir

Útför Ingibjargar Einarsdóttur var gerð frá Neskirkju 23. júní 2008. Minningarorðin eru hér á eftir. 

Hvernig var Ingibjörg? Það er hrífandi að hlusta á sögur barna hennar og ástvina. Og minningar fjölskyldunnar um Ingibjörgu eru allar á einn veg. Það, sem ég hef einkum staldrað við í þessum sögum, er hversu vel Ingibjörg lifði í núinu. Hún var ekki að sýta fortíðina, var ekki reyrð við muni eða hluti sögunnar. Hún hafði tamið sér stóískt æðruleysi gagnvart framíðinni, hafði engar áhyggjur af því sem verða myndi, forðaðist nöldur um tímann eða tíðir. Hún hafði tamið sér að lifa í núinu, hvíla í trausti til þess sem er, að vera til staðar fyrir fólk núna en ekki síðar, njóta þess nú sem hún upplifði en ekki með einhverri fortíðarbindingu. Hún var tengd sér, umhverfi sínu, fólkinu sínu og fegurðinni.  

Þegar svo margir tapa sjálfum sér og leita athvarfs í einhverri fortíðarminningu er svo merkilegt og hrífandi að heyra sögurnar af Ingibjörgu. Þegar svo margir tapa glórunni á hlaupum á eftir fé og forgengilegum eignum er eflandi að hlusta á núhæfni Ingibjargar. Listin að lifa í núinu er fágæt og slíkt dýrmæti, að þið sem ástvinir og fjölskylda ættuð að staldra við, íhuga og meta hvort Ingibjörg sé ekki í þessu mikilvæg fyrirmynd. Var hún engill, boðberi, núafstöðunnar. Og er það að lifa í núinu ekki mikilvæg forsenda hamingjunnar, lífsþroskans og gleðinnar? 

Þegar sögurnar hljómuðu um Ingibjörgu rifjaðist upp í huga mínum speki í Gamla testamentinu. Þegar sú kunna biblíuhetja Móses var að reyna að gera sér grein fyrir hlutverki sínu í lífinu spurði hann Guð hvað guð héti. Og svarið sem hann fékk var: „Ég er…” (2. Mósebók 3.14). Það merkir ekki, að Guð skorti nafn heldur hverjar eigindir Guðs birtast gagnvart veröldinni. Guð er ekki nafnið tómt – Guð er. Margir hafa fyrr og síðar staldrað við og hugsað merkingu þessa, listamenn, rithöfundar, heimspekingar, guðfræðingar, fólk aldanna í viskuleit. Guð er ekki hlutur, sem við göngum að, fullþekkt staðreynd, sem við höfum uppá vasann. Guð var ekki bara einhvern tíma eða verður einhvern tíma í þeirri tilveru sem við köllum eilíft líf, handan sorgar og grafar. Guð er, já núna, máttur alls sem er, inntakið í því sem heitir líf, orkugjafinn sem veitir forsendu þess að þú lifir, finnur til, hrífst, elskar, syrgir, berð umhyggju gagnvart fólkinu þínu, já líka Ingibjörgu. Guð var ekki og verður ekki – heldur er. Guð er hið eilífa nú í tíma. Og þegar við mannfólkið, veröldin hrynjum inn í sjálf okkur er Guð, kemur alltaf, umlykur og blessar og veitir okkur að nýju möguleika þess að vera í núinu og höndla líf og hamingju. Guð er og þar með hin eilífa návist í tíma.

Upphaf og fjölskylda

Ingibjörg Einarsdóttir fæddist á Unnarstíg í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Einar Hróbjartsson og Ágústa Sveinbjörnsdóttir. Barnahópurinn var stór, Ingibjörg var elst átta systkina. Sex þeirra komust á legg en tvo létust ung. Systkini Ingibjargar eru: Ásgeir, Ásta, Sveinbjörn, Haukur, Agnes, Sigrún og Hróbjartur. Haukur og Agnes létust ung en Sveinbjörn og Sigrún lifa systkini sín.

Það var drift í fjölskyldulífinu. Einar, pabbinn, var starfsmaður Pósts og síma. Hann hafði dug til að búa fjölskyldu sinni góða umgerð. Þau Ágústa byggðu fjölskylduhús á Brekkustíg 19. Meðan það var í byggingu bjuggu þau um tíma út á Seltjarnarnesi og voru svo eitt sumar í tjaldi í Elliðaárdal. Það er heillandi að hugsa um stóra fjölskylduna í þvílíkum landnemaaðstæðum. Fólk í tjaldi.

Einar var maður hinna mörgu vídda. Hann sinnti andlegum fræðum og hafði áhuga á ýmsum spekivíddum veraldar, hafði augun hjá sér og augu á gerð veraldar. Hann hefur vísast verið vísindahneigður að upplagi og svo hafði hann skilning á líkamsrækt og hreyfingu og skilaði heilsuræktaráhuga til barna sinna. Og Einar fór gjarnan með hópinn sinn upp í Öskjuhlíð, sem ekki var sjálfsagt á þeim tíma. Kannski hefur ferðafúsleiki Ingibjargar orðið til í þessari útrás og ævintýraferðum. Ágústa, mamma hennar, var glöð og gjafmild og frá henni lærði Ingibjörg: “Mér leggst eitthvað til”. Ágústa gat alveg gefið frá sér allt til að styðja aðra og Ingibjörg tók eftir, að mömmu hennar lagðist alltaf eitthvað til. Að lifa í núinu er styrkleiki, sem skilar ávöxtum og elsku. Og kært hefur verið með systkinunum á Brekkustígnum alla tíð. 

Júlíus

Elsta barnið á stórum barnaheimilum lærir jafnan að skipuleggja tíma, þjálfar stjórnunareiginleika sína og verður oft mjög hæft í lestri á líðan og skilningi á fólki. Ingibjörg fékk talsvert frelsi og lærði að axla ábyrgð. Hún mat það og vildi að börn hennar nytu hins sama síðar. Svo byrjaði skólinn með gleði og verkum námsins. Hún fór í Miðbæjarbarnaskólann og síðan Ingimarsskóla. Svo byrjaði hún að vinna. M.a. fór hún í hótelvinnu norður á Blönduós. Þar kom fallegur maður til að heimsækja systur sína. Það var Júlíus Jónsson, Norðfirðingur. Hann átti leið um og ástin átti leið um huga Ingibjargar þar með. Þau kynntust og svo ákváðu þau að rugla reitum og ganga í hjónaband. Júlíus vann um áratugaskeið hjá ÁTVR, var þar verkstjóri, auk þess að aka leigubíl þegar næði gafst til. Hann var dugmikill og útsjónarsamur. Hjúskapur þeirra Ingibjargar var afar farsæll og það sem var kannski mikilvægast í sambúð þeirra: Hann mat konu sína mikils. Og jafnan hefur virðingin verið slitsterkasta veganesti farsæls hjúskapar. Þegar Júlíus féll frá árið 1985 missti Ingibjörg ekki aðeins traustan eiginmann, dugmikinn heimilismann og öflugan ferðafélaga, heldur dyggan vin og félaga.

Þau Ingibjörg og Júlíus áttu barnaláni að fagna. Börn þeirra fæddust öll á Brekkustígnum, en ólust síðan upp á Kvisthaga 1, en þar bjó fjölskyldan frá árinu 1952. Þegar börnin voru flogin úr heimahreiðrinu og Júlíus fallinn frá seldi Ingibjörg og fór síðan á Hagamel 23 og var á Grund síðasta árið sem hún lifði. Aðstandendur vilja þakka starfsfólki Grundar fyrir þá góðu umönnun sem Ingibjörg naut þar.  

Börn Ingibjargar og Júlíusar eru.

Einar. Kona hans er Valfríður Gísladóttir.

Sigríður og hennar maður er Rögnvaldur Ólafsson.

Jón og er kvæntur Jónínu Zophóníasdóttur,

Síðan kom Áslaug og

yngstur er Björn og hans kona er Rannveig Einarsdóttir.

Mér telst til að börn og aðrir afkomendur séu 26 talsins. Þau voru gleðigjafar ömmu sinnar og ættmóður. Flest eru hér samankomin og vinir sem vilja kveðja. En ég hef verið beðinn að bera ykkur kveðju Ágústu og Gunnlaugs í Boston, sem ekki gátu komið til þessarar útfarar. Alnafnan Ingibjörg Einarsdóttir, sem er tengdamóðir Jóns, biður einnig fyrir kveðjur til þessa safnaðar.

Eigindir, afstaða og störf

Ingibjörg var vel af Guði gerð og hafði unnið vel úr gáfum sínum. Hún stýrði stórum systkinahóp með átakalausri reisn. Og svo þegar hún átti öll sín börn naut hún þeirrar þjálfunar. Hún hafði góða reiðu á öllum málum, var ljúf og skýr í samskiptum. Hafði góða stjórn á tíma og vildi enga óstundvísi. Hún var umtalsfróm og samtalsljúf. Hún lagði gott til fólks og einskis ills. Hún virti einkalíf fólks og mat mikils að menn þekktu mörk í samskiptum. Hún var hógvær og vildi öllum gott gera. Ingibjörg var óhnýsin gagnvart ókunnugum en hún var vandfýsin á þjónustu við sína nánustu. Hún var vakin og sofin yfir velferð sinna, lét sér annt um hið innra sem ytra. Hún átti jafnvel til að halda hreinsivatni að strákafkomendum sínum til að þeir hirtu um húð og útlit sitt. Hún kunni og innrætti sínu fólki formfestu og góð samskipti. Börnin hennar vita vel, að þegar maður hefur notið einhvers í annarra húsum, hringir maður og þakkar fyrir sig. Hún hafði skýrar reglur um borðhald og mataratferli og það hefur verið hagnýtt þegar sjö voru í heimili, allt kraftmikið fólk.

 Ingibjörg var bókhneigð og námsfús. Hún fylgdist vel með börnum sínum í námi og las með þeim til styrktar og stuðnings og naut þar með sjálf. Hún lagði upp úr menntun og smitaði opinni afstöðu til barna sinna. Þegar börnin uxu svo úr grasi fór Ingibjörg að vinna utan heimilis að nýju. Í nær tvo áratugi vann hún hjá ÁTVR upp í Borgartúni.

 Músík og ferðir

Ingibjörg var afar músíkölsk. Hún söng fagurlega og hástöfum í syngjandi samkvæmum og varð afkomendum og ættingjum fyrirmynd. Og börnin hennar lærðu að syngja. Júlíus var bílstjóri að atvinnu og Ingibjörg ferðafús. Þau voru samhent og lögðu í langferðir, bæði austur í Norðfjörð og um land allt. Og á þeim ferðum var hægt að syngja. Og kannski hefur það nú verið praktísk kunnátta þegar lengi var setið. Einu sinni fór fjölskyldan frá Reykjavík á laugardegi, vestur um, alla Vestfirðina og svo til Reykjavíkur þegar á sunnudegi! Þá hefur nú verið hagnýtt að geta sungið! Já, Ingibjörg hafði fallega rödd og naut tónlistar alla tíð. Fjölskylda hennar átti sumarbústað austur við Álftavatn og síðar byggðu þau Júlíus hús við hliðina. Sú veröld hefur gert stórfjölskyldunni gott og tengt saman ættliði og tengda í leik og gleði.

Heilsurækt

Ingibjörg var glæsileg kona, kunni vel að fara vel með heilsu sína og bar virðingu fyrir henni. Þegar læknir á Grund leitaði að gamalli konu fæddri 1914 fann hann hana ekki því aldur hennar var ekki í neinu samhengi við útlit hennar. Hún var sem kona á besta aldri, húðin falleg og persónuskerpan var líka óbrengluð. Hún naut andlegs atgerfis síns og reisnar til loka, sem er mikil blessun og þakkarverð.

Listfengi

Öll fjölskyldan tjáir sterklega hve fegurðarskyn og listfengi Ingibjargar hafi einkennt hana. Þegar utanbæjarmaður keypti sér jakkaföt vildi hann, að hún kvæði uppúr hvort þau væru góð eða ekki. Fyrr var hann ekki í rónni. Ingibjörg var ljómandi hannyrðakona, en hún hafði í sér löngun til einhvers meira en rútínuiðju sokkagerðarinnar. Hún hafði þörf til skapandi iðju. Hún hafði í sér eigindir húsameistarans og fékk útrás fyrir þær með íhugun og umræðum um híbýli og hús. Hún hafði mikinn áhuga á gerð húsnæðis, var ekki sátt nema hún fengi nákvæmt yfirlit yfir rými, jafnvel uppá sentimetra. Rýmisgreind hafði hún öfluga, næmi fyrir samspili forma og lita. Hún rissaði ekki aðeins ásjónur á blað, heldur líka húsaplön. Hin opna afstaða og núlifun hennar var þessu ágætlega samfara. Hún hafði gaman af að fylgjast með öllum byggingarmálum síns fólks, skoða teikningar, ræða þær og svo fannst henni bara gaman að fara í Ikea, jafnvel þegar sjónin var brostin, þá sá hún nægilega mikið til að skynja rými og samspil.

Lífsræktin

Ingibjörg er farin. Nú horfir þú á bak yndislegri, þroskaðri og fágaðri konu, sem er þér hjartfólgin. Hvað ætlar þú að gera með minningu hennar? Ingibjörg kunni að vera. Í því er hún vitnisburður um lífið, viskuna, gleðina og fegurðina. Hvernig lifir þú? Ertu með eitthvað í baksætinu eða skottinu sem þú þarft að losa þig við? Ertu kvíðinn eða hrædd við framtíðina? Getur verið, að þú þurfir að temja þér æðruleysi, stóíska afstöðu Ingibjargar, þora að vera, þora að sleppa, þora að treysta, þora að lifa í því núi, sem Guð hefur gefið þessari veröld. Ekkert okkar er án róta, ekkert okkar má lifa eins og við þurfum ekki að mæta framtíð og með ábyrgð. Ingibjörg gat alveg lifað fullkomlega í núinu af því hún átti sér gildi, ramma, reglur og vit. Hún gat alveg verið af því hún var úr þroskuðu samhengi og var óttalaus um áframhaldið.

Hvað verður? Guð er. Treystu Guði, treystu í lífinu, opnaðu fyrir fegurðinni, skipuleggðu núið af festu, fögnuði, gleði og til að leyfa hamingjunni að ríkja. Gríptu daginn hefur löngum verið sagt. Gríptu núið sem gleðilegt fagnaðarefni. Lærðu að þakka Ingibjörgu allt sem hún gaf þér, var þér, virtu minningarnar með því að gæla við þær og draga lærdóm af, til að efla þitt líf. Þér leggst eitthvað til!

Þegar Ingibjörg var lítil kenndi Einar, faðirinn, henni að heyra orð í kalli kirkjuklukkunnar í Landakoti: Æ síðan heyrði hún í þeim huggun: „Ekki gráta, ekki gráta” fannst henni klukkurnar kalla. Jú, þú mátt gráta Ingibjörgu. En kall lífsins, kall klukkna kirknanna, kall sumarsins, kall vindsins er alls staðar hið sama. Lífið er, lífið lifir, lífið er gott og það er núna – Ingibjörg er – því Guð er. Hún má lifa í því eilífa núi. Í þeirri trú er fullkomin fegurð, hrein músík og góð rýmisgreind sálarinnar.

Minningarorð í útför Ingibjargar Einarsdóttur, Neskirkju, 23. júní 2008.