Erlingur E Halldórsson – minningarorð

Franska akademían heiðraði Erling og nýlega var honum boðið í ítölsku akademíuna í Róm til að heiðra hann. Aldrei sóttist Erlingur eftir skrumlofi og vegtyllum, aðeins því að vel væri gert og verk hans væru metin að verðleikum. Hann þýddi og var meistari. Erlingur samdi leikrit og leikstýrði einnig. Hann setti upp eigin verk og leikhúsfólkið vissi vel af getu Erlings.

Í síðustu bók Biblíunnar segir:

„Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum. Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: ,,Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?” (Op. Jóh. 5.1-2)

Opinberunarbók Jóhannesar er merkilegt og margrætt rit. Þýðing hennar og túlkun er ekki einhlít? Bækur eru margar í heimi Biblíunnar. Orðið biblia er grískt og í ft og þýðir einfaldlega bækur. Í því bókasafni er síðan rætt um alls konar bækur og mikilvægi þess að rita niður það sem máli skiptir. Þar er talað um lífsins bók og bók sannleika. Esekíel spámaður borðaði meira að segja bók. Jesús Kristur las upp úr bók til að tjá fólki hver hann væri og til hvers hann lifði. Orð voru talin ávirk og Hebrear álitu Guð vera skáld lífsins, höfund allrar hugsunar og þar með veraldar. Og við enda Ritningarinnar er þessi bóknálgun enn til íhugunar. Í forsæti himins er innsigluð bók, en þá bók á að opna. Kallið hljómar hárri röddu: “Hver er maklegur að ljúka upp bókinni?”Hverju þjónar slík upplúkning? Eru orð, blaðsíða og bók til einhvers?

Hvað er innsiglað og hvað er opinbert? Maður orða og bóka, Erlingur Ebeneser Halldórsson, var í miðju menningarlífs Íslendinga en þó var hann líka utan við. Hann var í hópi fólks, en þó var hann líka þannig innréttaður að fáum hleypti hann nærri sér og enginn fékk að fara að baki innsiglum hans. Hann var opinn og félagslyndur sem barn, en svo lokaði hann gluggum smátt og smátt og við æfilok var sem hann hefði valið einveru. Hann átti sér vonir og þær urðu kannski í öðru en hann hafði ætlað sér. Hann stefndi að frama í leiritum en fékk viðurkenningu fyrir þýðngar.

Ævistiklur

Erlingur E. Halldórsson fæddist 26. mars árið 1930. Hann var sonur hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Halldórs Jónssonar á Arngerðareyri, í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp. Erlingur var næstyngstur í stórum systkinahópi. Foreldrar hans voru bændur og fjölskyldan hafði viðurværi af landbúnaði. Erlingi var haldið að vinnu samkvæmt því vinnulagi, sem tíðkast í sveitum landsins á þessum tíma. En að honum var líka haldið orðasókn og ritagleði íslenskar menningar. Erlingur var hneigður til lærdóms og eldri systkin gaukuðu að honum bókum. Þegar hann hafði aldur til fór hann í Reykjaskóla við Djúp. Svo lá leiðin suður í fjörið og fjölbreytileika borgar, sem hafði allt í einu bólgnað út í nýliðnu stríði. Hann hóf nám í Menntaskólanum í Reykjavík og naut þeirra þroska- og umbrotaára, sem hann átti þar og lauk stúdentsbrófi árið 1950.

Þá tóku forspjallsvísindin við, norræn fræði og síðan opnðust honum franskir og þýsk-austurrískir menningarheimar. Erlingur hóf nám í París árið 1952. Hann var í Sorbonne og einnig um tíma í háskólanum í Vínarborg og naut til náms stuðnings eldri bræðra sinna. Síðar var Erlingur við nám hjá Berliner Ensemble árið 1962 og svo við leikhús Roger Blanchon árið 1968. Erlingur naut því fangmikillar menntunar, varð Evrópumaður í viðmiðum og lærði að sjá og skilja með margsýni hins fjölmenntaða. Hann gat brugðið upp augum barns af hjara veldar við hið ysta haf, en líka séð frá sjónarhól tinda evrópskrar menntunar.

Leiklistin

Vísnakompan hans Erlings sýnir, að hann byrjaði snemma að skrifa, skrifa upp eftir öðrum og æfa sig í hrynjandi mál og flæði texta. Á menntaskólaárum skrifaði hann líka, ekki aðeins fyrir sjálfan sig, heldur hafði ofurlitla atvinnu af. Leikhúsheimurinn heillaði hann snemma og hann ól með sér leikskáldadrauma. Nýstúdentinn skrifaði þegar árið 1951 leikritið Hinir ósigrandi. Og síðan skrifaði hann fjölda leikrita, mér er kunnugt um fjórtán en þau gætu verið fleiri.

Sum verka sinna setti hann upp í leikhúsi og önnur voru flutt í ríkisútvarpinu. Ragnar í Smára gaf út frægasta leikrit hans, Minkana, og Kristinn E. Andrésson lauk á það lofsorði. Og vert er að koma leikritum Erlings út í almannarýmið með einhverjum hætti, ef ekki á þrykk þá alla vega á veraldarvefinn. Grandskoða þyrfti handrit Erlings, tölvuna hans og halda þessum ritum til haga, koma afriti þeirra í hendur fagfólks til skoðunar á útgáfu og einnig afhenda þjóðskjalasafni til varðveislu og þar með síðari rannsókna. Hópur íslenskra leikskálda er ekki stór og vert að gæta vel að framlagi Erlings. Hann var án efa einn af framsæknustu leikhúsmönnum á sinni tíð, fulltrúi nýrra strauma frá og með sjöunda áratugnum.

Erlingur samdi ekki aðeins leikrit heldur leikstýrði einnig.  Hann fór víða um land og stýrði áhugaleikhúsum. Hann setti upp eigin verk og vöktu þau athygli og leikhúsfólkið vissi vel af getu Erlings. Þá setti hann upp ýmis kunnustu leikverk samtímans, t.d. sló Biderman og brennuvargarnir í gegn vestur á Flateyri, var sýnt fyrir fullu húsi vikum saman og svo var það sýnt víðar á Vestfjörðum. Erlingi hafði lánast að kveikja svo í fólki í leikfélaginu, að athygli vakti og blöðin fyrir sunnan sögðu vel frá. Og ég hjó eftir að Erlingur vildi leyfa Helvítissenum í leikriti Frisch um Biderman og brennuvargana að fljóta með í Flateyraruppsetningunni og það varð m.a.s. til þess að einu sinni kviknaði í. Erlingur var dramatískari en aðrir leikstjórar, sem bara slepptu þessum þætti í mörgum uppsetningum. Hann hafði auga fyrir hinu ýtrasta.

Leikstjórn gat ekki orðið Erlingi lifibrauð, hvort sem hann sótti í yfirheima eða niðurheima og hann lagði því stund á kennslu – og kom víða við sögu, fyrir vestan, norðan og austan. Meðfram kennslu hafði hann svo tómstundir til skrifta, sem voru honum ekki innkomulind heldur lífsnauðsyn.

Fjölskylda

Fyrri kona Erlings var Hrafnhildur Gunnarsdóttir, lögfræðingur. Þau skildu.

Vestur á Flateyri hitti Erlingur svo seinni konu sína, Jóhönnu G. Kristjánsdóttur. Hún var ellefu árum yngri en Erlingur og þau voru hjón í ellefu ár. Börn þeirra Jóhönnu eru tvö, Kristján og Vigdís.

Kristján er desembermaður, fæddist á fullveldisdeginum árið 1962. Hann er framkvæmdastjóri eigin fyrirtækis í Úganda. Kona hans er Lesley Wales. Þau eiga tvíburadætur, sem heita Jóhanna Guðrún og Katherine Barbara.

Vigdís fæddist í febrúar 1970. Hún er skrifstofumaður. Börn hennar eru: María Rut sem á Þorgeir Atla. Annað barn Vigdísar er Alexía Rós, síðan kom Júlia Ósk og yngstur er Hörður Sævar.

Erlingur og Jóhanna skildu árið 1973. Þá hófst nýtt skeið í lífi hans. Hann stundaði kennslu, en auk leikritunar var þýðingarferill Erlings hafinn. Og fyrir þann orðabúskap hefur hann hlotið lof og verðlaun. Hann var ekki bara bundinn við einn bókakikma, heldur þýddi m.a. hinn portúgalska Quiros, hinn þýska Dürrenmatt, ameríska Steinbeck, norður-írann Bernhard Mac Laverty, þjóðverjann Berthold Brecht, frakkann Rabelais, Rómverjann Petronius að ógleymdum ítölunum Dante og Boccacio. Þýðingar Erlings eru agaðar og vandvirkar og viðfangsefnin voru jafnan stórvirki heimsbókmenntanna.

Honum leið væntanlega vel við það mikla djúp mannsandans, kunni vel sýsli með orð og þótti eflaust sá heyskapur enn skemmtilegri en á þufnapuð og hrífupot fyrir vestan í bernsku. Hann var alinn upp við mikla vinnu og eljan skilaði honum og íslenskri menningu stórvirkjum, sem fagmenn á engi bókmenntana lofa einum rómi. Afrek Erlings á sviði orðlistarinnar barst út fyrir landsteina og fallegur er verðlaunapeningur frönsku akademíunnar, sem hann hlaut fyrir þýðingu á Gargantúa og Pantagrúl.

Mér er ekki kunnugt um að franska akademían hafi heiðrað aðra landa okkar með svipuðum hætti. Og nýlega var Erlingi tilkynnt, að honum væri boðið í ítölsku akademíuna í Róm til að heiðra hann. Aldrei sóttist Erlingur eftir skrumlofi og vegtyllum, aðeins því að vel væri gert og verk hans væru metin að verðleikum. Hann var bóndi orðanna sem gekk til verka sinna. Oft hafði frænka hans Auður á Gljúfrasteini sagt við hann að koma en ekki fór hann þangað fyrr en hann fékk íslensku þýðingarverðlaunin fyrr á þessu ári fyrir þýðingu á Gleðileiknum guðdómlega. Þá var tími til kominn til ferðar í Mosfellsdalinn.

Hver dýptin?

Hver var þessi maður? Engin ævi er opinber, við getum aðeins leitt líkum að ýmsu í lífi Erlings. Hann var sem fjölmenntaður endurreisnarmaður. Hann drakk í sig það, sem hann náði í af bókum á unga aldri. Hann gerði íslenskt menningarefni að sínu og meira segja skrifaði vísur og ljóð í kompu sína, eflaust til að eiga aðgengilegt og kannski læra í fásinninu. Svo las hann bókmenntir og alltaf stækkaði heimur orðanna. Og drama bókanna fór inn í hann og kannski breytti honum. Leikverkin runnu í hann og stórbækur heimsins urðu heimur hans.

Hverju skiluðu allar bækurnar Erlingi? Vökulum huga, útsýn og innsýn í menningarsögu Vesturlanda. Hvernig er lífið og hvað skiptir mestu? Hann átti í spekingum og höfundum vini og lærimeistara og gat vel samsamað sig orðum Grikkjans og Krítverjans Nikos Kazantzakis í verkinu um hina grísku ástríðu: Faðir minn hvernig ættum við að elska Guð? Með því að elska mennina. Og hvernig ættum við að elska mennina? Með því að reyna að vísa þeim áleiðis á réttri braut. Og hver er rétta brautin? Sú bratta.”

Þetta er vel orðað. Erlingur gat alveg skilið þessa speki um að himinn er meðal manna, að hlutverk okkar er í þágu lífsins og að ekkert verður úr neinu nema að fara erfiðu leiðina. Og Erlingur fór bratt og gerði hvorki sjálfum sér né sínu samferðafólki auðvelt fyrir. Hann sleit sjálfum sér út við hugaðefni sín. Sú fórn var vart svo stór, að ekki væri réttlætanleg fyrir andans verk og vegir Erlings voru stundum um klungur og hálendi andans og hann varð stundum viðskila við ferðafélagana á leiðinni. Hann átti jafnan sálufélag í listamönnum og fylgdist með menningarlífi. Hann hafði áhuga á myndlist, kvikmyndum og augljóslega helst á þeim listum sem tengdsut orðum, bókmenntum og leiklist.

Nú hefur hann lokið að fletta blöðum í sínum bókum. Nú hefur lífsbók hans verið flett í hinsta sinn og lokað. Nú hefur allt verið leikið og þýtt. Erlingur gerði sér alla tíð grein fyrir að ekki verður allt séð eða skilið. Lífsbókin er ekki einnar víddar og svo er hinn guðdómlegi gleðileikur margflókið ferli. Hver er maklegur að opna? Er lífi Erlings lokið við dauða eða er það kannski eins og hvert annað undursamlegt upphaf? Getur verið að þessi divina comedía haldi nú áfram, nú megi hann fá að njóta dýpri skilnings, nú njóti hann betri útsýnar, megi opna hið stórkostlega bókasafn himinsins, þar sem allar víddir eru tengdar, allar bækur samþættast, þar sem enginn hefur af neinum neitt og allir gefa öðrum til gleði?

Margir hafa þjónað Erlingi um dagana. Auk fjölskyldu hans er vert að minnast á Sigrúnu Jónsdóttur, systurdóttur Erlings, sem var honum lipur og sparaði ekki sporin þegar börn hans voru fjarri. Þau Kristján og Vigdís þakka henni umhyggju hennar gagnvart Erlingi.

Lífsbók Erlings er nú blað í lífsbók veraldar. Svarið við hinni miklu engilsspurningu um hver megni að opna er svarað með þeim boðskap að Guð kemur sjálfur, rýfur innsigli kúgunar, er sjálfur orðið sem hrífur. Kristnir menn trúa, að höfundur hins mikla klassíksers heimsins heiti Guð og hafi birst í honum, sem skrifaði í sand og leysti lífsgátuna með því að ganga út úr grjótinu. Við sjáum sem í skuggsjá, en í hinu nýja lífi er allt ljóst, höfundurinn gengst við verkinu og opnar faðminn.

Erlingur fæddist við Djúp og nú er hann farin inn í hið mikla djúp sem heitir eilífið og er himinn. Guð opni þá veröld, þýði líf hans inn í sinn gleðileik og verndi ávallt og ævinlega.

Þökk sé Erlingi það sem hann var og gaf.

Þökk sé þeim sem urðu Erlingi athvarf og styrkur á lifsgöngunni.

Guð geymi hann um alla eilífð og Guð geymi þig.

Neskirkja, október 2011. 

Oddný Ólafsdóttir – minningarorð

Tvær myndir af Oddnýju Ólafsdóttur eru á sálmaskránni, önnur nýleg, en hin af henni ungri. Myndaalbúm fjölskyldu Oddnýjar sýna marga þætti í sögu hennar og veita innsýn. Svo átt þú líka í huga þér minningar og myndir – og ástvinir, ættmenni og vinir geyma í sínu hugskoti enn aðrar.

Hver er mynd þín af Oddnýju? Er það mynd af hannyrðakonu við að prjóna perlusettar handstúkur? Er hún gáskafull til augna? Er það af Oddnýju í eldhúsinu við að drífa fram mat til að næra fjölda manns, sem Kristján bóndi hennar kom óvænt með úr ævintýri dagsins? Eða sastu kannski einhvern tíma fyrir framan Oddnýju á örlagatíma og sagðir henni frá sálarangist eða raunum í ástalífinu? Staldraðu við og leyfðu huga að vitja myndanna hið innra og það verður þér til eflingar.

Myndirnar

Myndir eru merkilegar, myndir daganna. Oddný og hennar fólk hefur notið mynda, sótt í myndverk, skapað myndir og látið frá sér myndir. Kristján, bóndi Oddnýjar, gaf út merka myndlistarbók fyrir nær sjö áratugum síðan, fyrstu bók sinnar tegundar á Íslandi. Ólafur, faðir Oddnýjar var ekki aðeins kaupfélagsstjóri heldur líka myndasmiður. Móðir hennar var hannyrðakona og bjó til eigin myndverk með höndum sínum.

Mannheimar eru myndheimar. Sá lýsti menningararfur túlkar, mótar og skilgreinir líf og fólk. Biblían er myndarík. Í fyrsta kafla hennar segir: “Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd.” Við erum því í mynd Guðs – og það er engin afsteypa, heldur varðar það sem er mikilvægara en útlit – varðar sálargáfur, dýpt og anda en ekki ásjónu. Að menn séu ímyndir Guðs kemur síðan fram í biblíuefninu og þar er líka sagt frá skemmd mennskunnar. Myndin flekkaðist. Þegar áföll hafa orðið í veröldinni er listagallerí heimsins skaddað. Sú veröld þarfnaðist bóta. Þess vegna tjáðu höfundar Nýja testamentisins, að Jesús Kristur hafi fullkomnað mynd manna. Og það er síðan verkefni allra, hvort sem þeir trúa eða ekki, hvort sem þeir sækja kirkju eða ekki, hvort sem þeir eru konur eða karlar, eldri eða yngri, að meta og virða sjálf sig sem dýrmæti Guðs – lifa þannig að lífinu sé vel lifað og til samræmis við fegurð og mynstur Guðsmyndarinnar, lífsins og veraldarinnar. Oddný gengdi því kalli að vera mynd Guðs í veröldinni.

Ætt og uppruni

Oddný Ólafsdóttir fæddist á sögustaðnum Bustarfelli í Vopnafirði 6. janúar árið 1920. Faðir hennar, Ólafur Methúsalemsson, var af því fólki kominn, sem búið hefur í Bustarfelli frá kaþólskri tíð eða frá árinu 1532, dugnaðar- og lærdómsfólki. Bæjarhúsin á þessu höfuðbóli eru líka gömul, elsti hlutinn er frá því um 1770 svo Oddný átti upphaf sitt í fangi kynslóða og sögu. Móðir Oddnýjar var Ásrún Jörgensdóttir frá Krossavík í Vopnafirði og þar mætum við annarri mikilli fjölskyldumynd og sögu líka. Fjórtán ára aldursmunur var á þeim foreldrum Oddnýjar. Þau eignuðust fimm dætur og var Oddný sú þriðja í röðinni og því í miðið. Systur hennar voru Elín, sem fæddist 1916, Margrét fæddist 1917, Guðrún árið 1923 og Ingibjörg fæddist árið 1926. Oddný er sú síðasta, sem féll frá. Hvernig var að alast upp í hópi  fimm systra og hvaða áhrif hafði það á sögu dætra Oddnýjar? Hvernig miðlast mynstrin?

Þegar Oddný var tveggja ára fluttu foreldrar hennar út á Tanga og settust að í Kaupvangshúsinu. Þar var kaupfélagið og Ólafur, faðir hennar, stýrði því. Kauptúnið á Tanga var við ysta haf, en hinum megin við hafið voru hafnir og borgir, útlönd. Því var Tangi enginn endir, ekki Últíma heimsins. Kaupskipin báru með sér varning, lykt, efni til hannyrða, nýja tækni, skilirí og líka fólk.

Oddný lærði að ganga í torfbæ, en lærði svo að dansa með erlendum takti strax á barnsárum og skilja veröldina með útsýn. Þessa naut hún allar götur síðan og tamdi sér víðsýni. Ýmsar myndir eru til af Oddnýju frá þessum árum, bæði ljósmyndir og sögur. Mér finnst skemmtileg sagan af stúlkubarninu Oddnýju, sem hafði svo rautt og fallegt hár, að erlendum laxveiðimönnum varð starsýnt á hana. Engum sögum fer af því hvort þeir komu frá ánni fisklausir eða hvort þeir voru á leið til veiða. En þeir föluðust eftir hárlokk af höfði hennar. Oddný var því sett upp á borð og svo var hár hennar klippt – veiðmenn gátu því bætt flugur sínar, notað hár hennar til að lokka laxa. Flugurnar urðu auðvitað til góðs, en ég hef ekki getað lokkað Google til að sýna rauðu veiðfluguna Oddnýju. En ég get alveg ímyndað mér fegurð hennar, litríki og virkni.

Uppvöxtur

Oddný naut uppvaxtarins á Tanga og hin vopnfirska uppvaxtartíð var sveipuð ljóma ævintýra. Systrahópurinn stækkaði, mamman sinnti hannyrðum af kúnst, pabbinn var ötull, kannski svolítið strangur, en dugandi menningarmaður.

Oddný var sextán ára þegar fjölskyldan fluttist til Akureyrar. Hún var þá og æ síðan bóksækin, fór í Menntaskólann og lauk gagnfræðaprófi. Fór svo að vinna í versluninni Godman á Akureyri og naut þess í störfum, að hannyrðir voru stundaðar heima og verkmenning var mikils metin í fjölskyldu hennar. Um tíma vann hún hjá KEA og fór síðan til Svíþjóðar, lærði sænsku og skrifstofustörf. Oddný hafði þegar aflað sér bæði starfsreynslu og menntunar þegar hún fór á húsmæðraskólann á Laugalandi. Þar var Svanhvít Friðriksdóttir skólastýra. Hún kunni að meta skerpu Oddnýjar og handverk. Og Svana dró upp svo glæsilega mynd fyrir bróður sínum Kristjáni að hann vildi kynnast þessari konu. Hann dreif í því og þau Kristján Friðriksson gengu í hjónaband í júní árið 1948.

Fjölskyldumyndin

Og þá er það fjölskyldumyndin. Oddný og Kristján eignuðust fjórar dætur. Ásrún er elst og börn hennar eru Darri og Una. Guðrún er næst í röðinni og hennar maður er Ævar Kjartansson. Börn þeirra eru Oddný Eir og Uggi. Þriðja dóttir Oddnýjar og Kristjáns er Heiðrún og börn hennar eru Börkur, Arnþrúður og Sunna. Yngst í sytrahópnum er svo Sigrún. Maður hennar er Völundur Óskarsson og börn þeirra eru Sunnefa og Óskar. Börn Kristjáns af fyrra hjónabandi eru Sigurveig og Karl Friðrik, sem er látinn. Oddný hafði mikið af þeim að segja og tengdist þeim og fjölskyldum þeirra. Kristján átti líka soninn Friðrik Stein, sem fluttist inn í kvennaríki þeirra Oddnýjar og dætra hennar þegar hann var sautján ára. Fyrst höfðu þær systur og móðir þeirra kynnst honum um helgar, en svo varð hann lukkuauki á heimilinu og þær tala um hve heppnar þær voru, að hann varð hluti fjölskyldu þeirra.

Oddný átti fjórar dætur, níu ömmubörn og fjögur langömmubörn. En að auki eignaðist hún stórfjölskyldu í systkinum Kristjáns, bónda hennar, börnum hans og afkomendum. Kristján var ekki einhamur, hafði mörg járn í eldi, í iðnaði, verslun og menningarlífi. Sambúð þeirra Oddnýjar skilaði litríku heimilislífi. Um tíma varð fjölskyldumyndin undirlýst og dökk. Kristján hvarf burtu úr heimilishúsinu í fimm ár, en svo vildi hann koma heim að nýju og dyr og faðmar voru opnaðar. Leiðir okkar mann liggja stundum í spíralhring. Við komum til baka á upphafsstöð en þó breytt og með lífsreynslu í farteskinu. Alla tíð mat Kristján Oddnýju mikils, leitaði til hennar um ráð, vissi alltaf að það var gott, að hún gat kippt honum niður, ef henni fannst hann fara með himinskautum. “Oddný hefur góða dómgreind” sagði hann um hana.

Staðirnir og fjölbreytilegt líf

Fyrstu árin bjó fjöskyldan á Bergstaðastræti 28a. Últíma var á jarðhæðinni. Fjölskylda Oddnýjar bjó á næstu hæð. Þar ofan við voru í fyrstu Jóhann bróðir Kristjáns og fjölskylda hans og efst var svo arkitektinn góði, Ágúst Pálsson.

Listfengi, sniðsnilld og saumafærni Oddnýjar var í minnum höfð. Þar er enn ein fjölskyldumyndin. Á sunnudögum þótti eftirsóknarvert og sjón að sjá glæsilegar dæturnar koma úr húsi, í heimasauðumuðu, sem mamman hafði hannað með öguðum smekk fagurkerans.

Af Bergstaðastrætinu lá leiðin vestur fyrir læk og í Garðastræti. Heimilið var fjörmikið og fjölsótt og eins gott að húsfreyjan var dugmikil og réð við hraða og fjörbreytileika. Og hún hafði húmor fyrir fólki. Þau hjón gerðu sér engan mannamun og höfðu gaman af fólki, sem fór eigin leiðir í lífinu. Mannlífsflóran var fjölbreytileg. Við alla kom Oddný fram af sömu virðingu og með sömu natni. Hún hafði áhuga á fólki og sögu þess, samhengi og eigindum. Hún las það líka vel, sá styrkleika en lét það ekki gjalda veikleika. Hún vildi styðja þau sem höll stóðu og í því voru þau hjón einnig samhent.

Afskipti bónda hennar af fjölbreytilegu atvinnulífi, pólitík og menningarmálum lituðu heimilishald, hleyptu pólitískri orðræðu að borði, myndum upp á veggi, söng og sögum í eyru og líf. Svo var Oddný sílesandi, hlustandi og íhugandi. Menningarstíll heimilisins var fangvíður.

Dæturnar eignuðust félaga og vini. Og allir máttu koma því Oddný var óhrædd við fólk og vinir dætra hennar dróust að henni líka. Mörg ykkar, sem eruð í kirkju í dag, getið kallað fram í huga mynd af Oddnýju. Sum ykkar trúðuð henni fyrir vonum en líka ósigrum. Hún varð mörgum eyra, sálgætir og prestur. Og hún og heimili hennar var miðstöð og tengivirki fjölskyldunnar. Barnabörnin áttu í henni athvarf og samfélag og amma varðveitti upplýsingar og miðlaði eftir þörfum og óskum. Í fjölskyldualbúminu eru ævintýramyndir – heimilisfólkið litríkt og þegar horft er til baka er eins og fjölskyldusagan sé kjörin til að vinna úr kraftmikið kvikmyndahandrit.

Kristján, íslenskur iðnaður, Últíma og fyrirtæki fjölskyldunnar hefðu ekki verið mögleg án Oddnýjar. Hún tengdist rekstri með ýmsum hætti en hún var konan á bak við manninn og við hlið Kristjáns í mörgu. Austfirðingurinn í henni hafði lag á að glíma við Þingeyinginn í honum, hún hafði í sér menningarlega breidd, alþjóðlega vídd og sálargáfur til að hann átti í henni bandamann og gagnrýna samstöðu. Oddný er því á mynd af iðnsögu Íslands. Hluti af þeirri sögu er að fjölskyldan bjó í Queens í New York í eitt ár á sjöunda áratugnum og seldi íslenska hönnun og hannyrðir. Svo bregður Oddnýju fyrir á myndum við hlið listamanna þjóðarinnar og polítíkusum líka.

Svo féll Kristján frá fyrir aldur fram. Oddný var aðeins sextug. Hún fór að vinna utan heimilis. Um tíma var hún við stjórnvöl í Últímu og fór síðan að vinna á Rannsóknarstofnun uppeldismála í Kennaraskóla Íslands og vann þar til starfsloka.

Árið 1997 flutti Oddný austur fyrir læk að nýju og á Mímisveg. Þar var hún um tíma í sama húsi og Ásrún, dóttir hennar. Hún flutti á Hjúkrunarheimilið Droplaugarstaði í desember s.l. og lést þar 23. september.

Við leiðarlok biður fjölskylda Dúnu á Akureyri fyrir kveðjur. Kristín Axelsdóttur í Grímstungu á Fjöllum biður fyrir kveðju sömuleiðis og frá Kanada berst kveðja frá dótturdótturinni Unu Lorenzen.

Eigindir og ímyndir

Hvaða myndir áttu af Oddnýju? Já hún var dugmikil bókakona, fagurkeri, tungumálakona og hannyrðakúnstner. Oddný lærði matreiðslu af húsmæðraskólataginu og kunni því mörgum fyrr að búa til appelsínumarmelaði og aðrar matarfurður. Hún sá alltaf hverju fólk klæddist, hvernig það bjó heimili sitt, hafði gott auga, sá vel ef þurfti að hnika til myndum um einhverja millimetra. Hún skrifaði alla tíð mikið fyrir sjálfa sig og agaði dómgreind sína allt til enda. Og hún sagði kankvís undir lokin að hún hefði getað skrifað.

Fólkið hennar Oddnýjar hefur jafnan skilað sínu, stendur sína vakt á hverju sem gengur. Þannig var Oddný, í henni bjó staðfesta og seigla. Eftir að hún var orðin ein tók við nýtt skeið og svo virðist sem Oddný hafi átt í sér vaxtargetu og vilja til að breytast, að opna fyrir barnabörn, vinnufélaga og fjölskyldu. Hún hafði alla tíð verið í miklum tengslum við fólk Kristjáns og naut þess síðan á síðari árum, að systur hennar fluttu í nágrenni hennar og komu inn í myndir fjölskyldunnar.

Myndin í lífinu

Rúnir lífs Oddnýjar eru margar og myndirnar af lífinu líka. Þegar ég var búin að hlusta á ástvini Oddnýjar skýrðist mynd í huga. Þetta er ekki mynd af hæðum heldur af fólki. Svo hafði Oddný áhuga á fjölskyldu sinni, samfélagi, unaði og dýrmætum lífsins. Hún geymdi í sínum huga myndina af þér. Þegar við kveðjum merka konu höfum við tækifæri til að staldra við og þakka, en líka spyrja spurninga um eigið líf, okkar eigin djúpmynd og hamingjuleið. Guðsmynd Oddnýjar eða guðsmynd þín er ekki ásjóna, hvernig þú vilt að lúkkið sé í lífinu. Guðsmynd verður aldrei sett í myndaalbúm – Guðsmynd er lifuð. Oddný var meira en það sem aðrir sáu. Og þú ert það, sem þú gerir úr guðsmynd þinni. Henni voru gefnar gjafir til að fara vel með. Svo er einnig um þig. Hún var fagurkeri og fór vel með það sem henni var gefið og agaði sig. Og þínar gáfur eru til fyrir fólk, veröld – og fyrir Guð. Myndagallerí heimsins á sér mestar dýptir í djúpum mennskunnar og undri náttúru og lífs.

Oddný heyrði sögu skömmu áður en hún lést. Við enda mannlífs siglir bátur frá landi, frá Tanga mannlífs og í átt að hafbrún – hverfur sjónum þeirra er sjá á bak ástivni – en siglir síðan að strönd. Þar eru ástvinir og fagna. Ekki vitum við hvort það er stúlkan með rauðu lokkana, konan með prjónana, mamman með sokkaplögg, kankvís sögukona eða kona með bók í hendi sem siglir að strönd. En það er kona í mynd Guðs, kona sem fellur í faðm þeirra sem elska – Oddný í Últímu himinsins. Þar er gott, þar er unaður, þar er eilífð.

Guð geymi Oddnýju Ólafsdóttur og Guð geymi þig.

Minningarorð við útför í Dómkirkjunni föstudaginn, 30. september, 2011.

Margrét Sigurðardóttir – minningarorð

Margrét kom oft í Neskirkju. Hún kom inn í guðshúsið með virðulegum glæsileik, reisuleg og svipfalleg. Af henni stafaði elskusemi og hlýja í samskiptum. Hún brást við kveðju með geislandi brosi og fór svo til sætis síns reiðubúin og kunnáttusöm í að njóta helgi og næðisstundar í þessu hliði himinsins. Alltaf var kyrra yfir Margréti, alltaf reisn og birta.

Svo byrjuðu messurnar, blái glugginn hleypti bláma sínum inn í kirkjuna. Margrét var kona blámans og litur Maríu guðsmóðir í kirkjulistinni er blár. Og Margrét kunni ágætlega að meta Maríutónlistarhefðina. Við njótum þessa í dag. Svo klæddist hún gjarnan bláu sjálf og átti að auki í sjálfri sér margt, sem einkenndi Guðsmóðurina. Altarisglugginn veitir ljósríki inn í kirkjuna og leyfir táknmáli lita og listar að skapa ramma um minningu og útför Margrétar.

Upphaf og samhengi

Margrét Sigurðardóttir fæddist í janúarlok árið 1920 og lifði síðan í meira en níutíu og eitt ár. Hún lést 20. ágúst 2011. Sigurður Magnússon, faðir hennar, var læknir á Vífilsstöðum, einhleypur, fullþroska og kominn á fimmtuagsaldur þegar Sigríður Jónsdóttir kom til náms og starfa í Vífilsstaði. Hún heillaði hjartahlýjan en hlédrægan lækninn Sigurð. Og svo urðu þau hjón og varð fjögurra barna auðið. Drengirnir voru elstir, Magnús fæddist 1916 og Páll ári síðar. Margrét var sú þriðja í röð barnanna og Jóhanna fæddist tveimur árum síðar.

Heimilislífið var gjöfult. Pabbinn vann auðvitað langan vinnudag og hafði þörf fyrir næði þegar hann kom heim að kvöldi. Hann mat kyrru mikils og hafði lítinn áhuga á að útvarpsvæða heimlið þegar Ríkisútvarpið tók til starfa, en svo kom snúra og heyrnartól svo hægt var að skiptast á um að hlusta! Mamman var kraftmikil og smitaði fjöri og gleði allt um kring. Hún var félagslynd og dugmikill húsmóðir, hannyrðakona og garðyrkjukona. Stórfjölskyldan átti fastan samastað á Vífilstöðum og  fór þangað gjarnan í sunnudagsbíltúra. Umhverfið skemmtilegt fyrir börn til útivistar. Bátur var á vatninu, sem hægt var að róa á, ásarnir römmuðu svæðið til norðurs, hraunið með kjarri var fallegt, gott útivistarland og berjaland síðsumars.

Mannlífið var fjölbreytilegt á Vífilsstöðum, læknirinn og hjúkrunarfólk reyndi að sinna hinum líkamlegu kvillum en líka hinum félagslegu og andlegu. Margrét og systkini hennar voru börn yfirlæknisins, sem hefur verið bæði kostur en vafalaust gert kröfur til barnanna um framferði á hælinu og í samskiptum við fólk. Foreldrar og uppeldisaðstæður skiluðu Margréti hæfni til að greina aðstæður, fólk og atferli.

Vífilsstaðir voru ekki á neinum útkjálka en þó var langt í skóla. Í stað þess að halda heimili í bæ eða koma börnunum fyrir hjá öðrum kom kennari til að kenna systkinunum og ungviðinu úr nágrenninu. Kennslan dugði Margréti vel og hún fór fram úr jafnöldrum sínum og var metin fær til framhaldsskólanáms ári á undan jafnöldrum. Eftir að hún byrjaði nám í Menntaskólanum í Reykjavík fór hún með mjólkurbílnum að morgni í bæinn. Hún vann sína skólavinnu og naut skólatímans og lauk ung stúdentsprófi.

Þegar Sigurður faðir Margrétar fór á eftirlaun fluttu hjónin, já fjölskyldan, í bæinn og um tíma bjó Margrét hjá þeim á Laugaveginum. Sigurður sinnti fræðum og Sigríður varð forystukona í kvenréttindamálum, beitti sér í ýmsum félags- og framfara-málum og var meðal stofnenda hins merka félags Verndar.

Hjúskapur og fjölskylda

Eftir stúdentsprófið, sem var þá var ígildi háskólaprófs í nútíð, fór Margrét að afla sér tekna. Rafmagnsveita Reykjavíkur varð aðalvinnustaður hennar. Og í húsakynnum Rafmagnsveitunnar hófst nýr kafli lífs Margrétar. Það hefur ekki farið fram hjá ungkörlunum, að glæsileg, ung kona kom til starfa. Sjarmörinn og glæsimennið Einar Guðjónsson komst ekki hjá að sjá Margréti, enda vann hann á skrifstofu Rafmagnsveitunnar. Engum sögum fer af hvernig samdrátturinn varð, en væntanlega hefur verið stuð í félagslífinu hjá Rafmagnsveitunni – og þau Margrét og Einar urðu par og gengu svo í hjónaband í miðri heimsstyrjöld, árið 1943. Þið getið séð stemminguna í lífi þeirra á myndinni á baksíðu sálmaskrárinnar.

Margrét og Einar hófu búskap á Lokastíg 26, í kjallaríbúð í eigu tengdaforeldra Margrétar. Þegar börnin fæddust lét Margrét tímabundið af störfum hjá Rafmangsveitunni og sinnti börnum og búi. Sigríður fæddist árið 1944 og Guðjón tveimur árum síðar.

Maður Sigríðar er Sigvaldi Þór Eggertsson. Börn þeirra eru Einar, Eva og Margrét. Kona Guðjóns er Bryndís Jónsdóttir og börn þeirra er María Rán, Margrét Sara og Vilborg Ásta. Langömmubörn Margrétar eru fimm talsins.

Íbúðin á Lokastígnum var upphafsreitur fjölskyldu þeirra Margrétar og Einars. Svo voru þau svo heppin, að þeim hlotnaðist annar samastaður og raunar vettvangur ævintýra. Til að tryggja sem best heilsufar Sigríðar og að hún nyti heilsusamlegs lofts og sveitagæða festu þau sér reit í Kárastaðanesinu í Þingvallasveit. Einar átti í Guðjóni, föður sínum, öflugan smið, sem hjálpaði þeim að byggja sumarbústað fyrir austan. Þar undu þau hjón hag sínum vel og börnin nutu nándar við rismikla náttúru, lærðu á blóm, bláma, hættur, fjöll og ekki ónýtt að fjallakrans Þingvalla er dæmasafn allra eldjallagerða Íslands. Stórtilveran og smátilveran nærði lífið og fleytti gleði og þroska til þeirra allra. Sigríður og Sigvaldi tóku síðar til hendinni fyrir austan og hafa bætt aðstöðuna. Og Margrét naut þeirra í sveitinni, hafði sitt prívat áfram en gat verið og hvílt örugg í faðmi fjöskyldu sinnar.

Árið 1952 byggðu Margrét og Einar hús á Grenimel 39 og bjuggu þar síðan. Margrét fór svo að vinna að nýju hjá Rafmagnsveitunni. Einar lést árið 1998 en Margrét bjó áfram á sínum reit. Margrét sinnti útvist og hreyfingu alla tíð, naut góðrar heilsu og stælti sjálfa sig með göngum og á síðari árum fór hún gjarnan niður að sjó. Þegar hún var komin talsvert á níræðisaldurinn fór heilsa hennar að bila og leiddi að lokum til að hún fór á Grund og átti þar góða daga. Hún naut ástríkis og umhyggju starfsfólks og vistfólks, sem er þakkarvert.

Elskuleg Margrét

Margrét var elskuleg kona, alltaf hlý og hógvær, æðrulaus og gjöful. Alls staðar kom hún sér vel. Þau Einar ferðuðust víða erlendis meðan hann lifði og á síðari árum hafði hún gaman af innanlandsferðum og fór meðal í alls konar safnaðarferðir þessar kirkju. Margrét sótti alla tíð í fróðleik og fræðslu, fór með dóttur sinni á námskeið um tónlist og sögu. Hún hafði lært ofurlítið á píanó sem barn og tónlistin vitjaði hennar síðan fullorðinnar. Hún sótti sinfóníutónleika í marga áratugi. Þau Einar voru messusækin og meðan Margrét hafði getu og möguleika til kom hún í messur í Neskirkju, átti sér sinn stað og settist gjarnan hjá sama fólkinu. Oft sat hún nærri Ármanni Snævar enda höfðu þau gaman að ræða saman, voru bæði skemmtileg og fróðleiksfús.

Það var gaman að sjá til Margrétar koma á mannamót. Hún var smekkvís í fatavali og allt frá bernsku vildi hún bláu klæðin. Á sálmaskránni er mynd, sem ber fatalínu hennar vitni. Það var kannski ekki einkennilegt, að hún var hrifinn af blágresi og bláma náttúrunnar. Litur Þingvallasvæðisins er gjarnan blár og bláir tónar teikna og lita allt svæðið vegna vatns, himins og fjalla. Litakort Þingvalla passaði því litakorti Margrétar ágætlega. Hún var náttúruunnandi, naut sín í lautinni sinni og íhugaði undur lífsins.

Margrét var ljúf í samskiptum en var jafn staðföst í lund og hún var viðræðugóð. Þegar Einar, bóndi hennar, vildi haga málum með ákveðnu lagi tók Margrét því, en ef hún var ósammála gat hún haldið sínu með seiglu, en ljúfmennsku og lagni. Margrét var opin og til í að skoða mál frá sem flestum sjónarhornum, hlustaði vel og íhugaði sitt. Hún horfði jafnan á það jákvæða og vildi og valdi hið eflandi. Hún var jafnan kjarkmikil og bjartsýn. Og sú jákvæða lífssýn styrktist með aldrinum, sem er athyglisvert. Jafnvel þegar Margrét var búin tapa minni, missa manninn og styrkur í hnjám var orðinn lítill gat hún sagt með sannfæringu að hún væri heppinn. Svo horfði hún á fólkið sitt, sem hún var svo heppin með og bætti við: “Við erum nú lukkunnar pamfílar.” Er það ekki stórkostlegt að geta minnst heppni hennar og verið líka heppin að hafa kynnst svo lífssækinni konu, sem vildi og valdi sjá hið bjarta, góða og fagra? Lífsafstaða skiptir máli og við getum valið hvort glas okkar er hálffullt eða hálftómt. En Margrét var hin heppna kona, sem leyfði sér að hrífast. Því var hún svo gjöful okkur öllum.

Margrét kom í kirkjuna sína þegar hún gat. Nú er hún komin hinsta sinni og héðan hefur hún lagt í sína hinstu för. Í skini frá bláum glugga Neskirkju hverfur hún inn í himininn. Aldrei aftur verður hún nærverandi í bláma Þingvallasveitar. Hún gengur aldrei niður á Ægissíðu, brosir ekki við okkur eða snýr góðu að okkur. En við erum þó þeir lukkunar pamfílar, að hafa fengið að njóta elskusemi og jákvæðni hennar. Hún gaf og elskaði og hverfur svo inn í himininn. Í dag er gleðidagur, því hún er heppin og við henni er tekið og allt er gott. Þannig umvefur jákvæðni og trú hið góða og má gjarnan veita þér blessun þegar þú kveður Margréti. Guð geymi Margréti Sigurðardóttur, Guð geymi börn hennar og ástvini og Guð geymi þig.

Minningarorð flutt við útför Margrétar í Neskirkju, 26. ágúst, 2011.

Benedikta Þorsteinsdóttir 1920-2011

Í Jóhannesarguðspjalli standa orð, sem Marteinn Lúther kallaði Litlu Biblíuna. “Því svo elskaði Guð…” Hvað elskaði Guð? “Því svo elskaði Guð heiminn…” Af hverju? Til að opna blessunarveg eilífs lífs. Þetta er málið um elskuna, sem gerir heiminn góðan og öruggan, bægir burtu kvíða og blessar allt. Þetta er jákvæðni Guðs að meta alla, elska fólk, gæta veraldar og vekja hug fólks til góðs lífs. Svo opnar Guð fangið með elskusemi gagnvart öllum og þannig var Benedikta Þorsteinsdóttir líka. Samband Guðs við veröld og menn er ástarsaga, saga um lífsgleði, sem umvefur allt og líka þá góðu konu, sem við kveðjum í dag. Þessi heimur er gerður fyrir líf og gleði. Þetta er blessaður heimur. 

Í upphafi

Benedikta Þorsteinsdóttir fæddist 20. maí, árið 1920 og lést á Grund þann 6. maí síðastliðinn. Hún var því á 91. aldursári er hún féll frá. Foreldar hennar voru hjónin Ragnhildur Benediktsdóttir og Þorsteinn Fr. Einarsson, hún ættuð úr Rangárvallasýslu og hann úr Árnessýslu. Benedikta var næstyngst syskinanna, sem nú eru öll farin yfir móðuna miklu. Elstur var Guðmundur, og hin systkinin voru Sigríður, Unnur, Ingólfur, sem dó ungur, og Einar.  

Benedikta fæddist í Efri-Brekku við Brekkustíg í Reykjavík. Þar bjó fjölskyldan árið 1920, en flutti þegar faðir þeirra, húsasmíðameistarinn, hafði byggt á Holtsgötu 16. Þar var æskuheimilið. Bendikta átti aukaskjól í Sigríði, ömmu sinni, sem bjó á heimilinu. Benedikta varð henni náin, og amman leyfði barninu að sofa “uppí” hjá sér og reyndist henni, sem besta móðir. 

Benedikta, eða Benna eins og hún var kölluð, fór í Miðbæjarskólann, þegar hún hafði aldur til og í framhaldinu lærði hún sauma. Sú kunnátta kom henni og börnum hennar og fjölskyldu að gagni þegar fram í sótti. Hún vann einnig ýmis störf og m.a. í verslun Guðlaugs Magnússonar, silfursmiðs, við Laugaveginn. Hafði hún af þeim starfa ánægju og talaði síðar oft um.

Hjúskapur, heimilislíf og börn

Benedikta kynntist Sæmundi Erlendi Kristjánssyni árið 1941, á Laxfossi líklegast á leið yfir Faxaflóa. Sæmundur var vélstjóri. Engum sögum fer af hvaða orð fóru á milli þeirra á fyrstu fundum. Sæmundur kunni ekki aðeins skil á vélum, heldur var margfróður og fjölhæfur. Hann var vel heima í ljóðum og hefur fyrr en seinna uppgötvað, að Benedikta var ættuð frá Tumastöðum í Fljótshlíð. Þar sem Sæmundur kunni Gunnarshólma er hægt að ímynda sér, að hann hafi notað þetta mikla ljóð Jónasar, sem pickuplínu fyrir vel tengda Fljótshlíðardömu!

Sambúð þeirra hjóna var gæfuleg og betri ástarsaga en þær gömlu úr Fljótshlíðinni. Þau Benna og Sæmundur voru samhent, styrkur hvor öðru í öllu sem þurfti. Þau höfðu skýra skipan í flestu, skiptu með sér verkum og hlutverkin voru ljós.

Sæmundur var ljúfur og elskulegur, segir fólkið hans, var konu sinni vænn eiginmaður og börnum hinn besti faðir. Það var Benediktu mikið áfall að missa hann fyrir aldur fram. Hún var ekki nema 63 ára þegar hún var orðin ekkja. Þá hófst nýtt skeið í lífi hennar. Hún vann á prjónastofunni Iðunni í nokkur ár. Svo gætti hún barna um tíma og sinnti heimsóknarþjónustu. Félagshæfni og umhyggjusemi hennar nýttust vel í því kærleiksstarfi, sem ættingjar þeirra sem nutu, mátu mikils og tjáðu þakkir sínar.

Þau Bendikta og Sæmundur nutu barnaláns. Þau gengu í hjónaband í mars árið 1942 og eignuðust fjögur börn. Kristján er elstur, fæddist 1942. Hans kona er Vigdís B. Aðalsteinsdóttir. Svo kom Sverrir. Mamma hans var svo flott á því, að hún fæddi strákinn á þjóðhátíðardeginum 1945. Kona Sverris er Erna Vilbergsdóttir. Þriðja í röðinni og eina dóttirin er Sigríður Dagbjört, fædd 1947. Hennar maður er Jón Örn Marinósson. Viktor Smári er yngstur, fæddist 1955 og kona hans er Ingibjörg Hafstað.

Barnalánið ríkir áfram í fjölskyldunni. Barnabörn Benediktu eru samtals 13 og barnabarnabörn 24. Tvær af afkomendum Benediktu eru erlendis, geta ekki kvatt ömmu sína og biðja um kveðjur til þessa safnaðar. Þær eru Hekla Rán Kristjánsdóttir og Solveig Viktorsdóttir.

Verustaðir

Fyrst átti fjölskylda Benediktu og Sæmundar heimili á Brávallagötu, en síðan í Skerjafirði þar sem Sæmundur var stöðvarstjóri Shell. Við sjóinn var margt við að vera og gott fyrir fjölskyldu að búa. Húsið þeirra var stórt og góð umgjörð mannlífs. Benedikta var Vesturbæingur og vildi helst búa vestan “lækjar.” Þegar breytingar urðu í rekstri Shell fluttust þau á Holtsgötu en síðan inn í Karfavog. En vestur skyldi haldið að nýju. Í Kristmannshúsinu á Tómasarhaga 9 bjuggu þau um tíma og þaðan man ég fyrst eftir Benediktu. Síðan fór hún í ofurlítinn hring í þessum bæjarhluta, vestur á Tjarnarstíg og síðan á Reynimel og Flyðrugranda. Á Grund var Benedikta svo síðustu árin. Þegar sál hennar og vitund byrjaði að hverfa til Guðs var Benediktu og öllu hennar fólki mikilvægt að vel væri hugsað um hana. Fjölskyldan þakkar starfsfólkinu á Grund fyrir elskusemi þeirra og alúð í ummönun. En Grundarfólkið hefur líka tjáð, að Benedikta hafi verið í miklu uppháhaldi – því hún var svo broshýr og þakklát.

Heimili og samfélag

Benedikta var umhyggjusöm húsmóðir og lagði kapp á, að heimili hennar væri staður öryggis, festu og fegurðar. Börnin bjuggu við skýran ramma og hrynjandi dagsins var í góðum skorðum. Þar sem Benna kunni vel til sauma gat hún gert börnum sínum klæði og saumað glæsikjóla á sjálfa sig. Hún var hannyrðakona og hafði gjarnan á prjónum eitthvað handa afkomendum sínum. Þau plögg eru nú vitnisburður um það, sem hún var sínu fólki. Hún vildi, að ástvinum hennar liði vel og farnaðist vel.

Benedikta var veisluglöð og sóttist eftir að fagna með fólkinu sínu. Kökurnar hennar eru í minnum hafðar. Hún var félagslynd og naut þess að vera samvistum með fjölskyldunni. Hún fylgdist vel með umhverfi sínu og kunni jafnan vel að meta öfluga stjórnmálaleiðtoga – og kannski helst sjálfstæðismanna.

Benna ræktaði vel vinskap og tengsl við vinkonur sínar. Í mörg ár átti fjölskyldan athvarf austur á Stokkseyri. Þar átti hún tengsla- og ættfólk, sem hún hafði gleði af að vera samvistum við. Þar leið henni vel, fjöllin voru falleg og nægilega fjarri, útsýn mikil og himininn stór. Ekki var verra að sást austur í fjöllin við Fljótshlíð. 

Benna ræktaði anda sinn. Hún stundaði leikhús, las mikið og gjarnan á koddanum. Hún var einnig ræktunarkona og stundaði garðrækt af nokkrum krafti um skeið.  

Því svo elskaði…

Er ekki lífið fyrir elskuna? Munum, að Guð er einskær ást, umhyggja. Því svo elskaði Guð heiminn og mennina….blessar. Benedikta bar í nafni sínu veru sína. Nafnið merkir sú blessaða og þau, sem njóta slíkra stórgæða miðla áfram. Benedikta var blessuð og hún hefur blessað. En nú er hún farin. Hendurnar hennar prjóna ekki lengur. Hún talar ekki fallega til þín og brosir við þér. Hún er horfin – inn í hina eilífu elsku, inn í hinn stóra ástarfaðm, sem Guð er. Þar er maðurinn hennar, ættmennin, ættboginn allur, hið gleðilega samkvæmi himinsins, birta og gaman.

Benedikta minnir okkur á, að Guð er elskhugi, horfir á okkur ástaraugum. Þegar við hugsum um hana má hugur alltaf nema þá hvatningu, að við ættum líka að lifa vel, muna að lífið er ástarsaga. Með því minnumst við vel og verðum þátttakendur í ástarsögu Guðs.

Benedikta er blessuð – Guð blessi þig.

Útför frá Neskirkju 13. maí 2011. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

 Sestu hjá mér. Nú sefur önd mín rótt.

Sól varpar kveðju. Heilsar mjúklát nótt.

Dvel, tak þér hvíld frá dagsins önn og klið.

Dvel, njót þess skamma stund að finna frið.

 

Býr margt í hug þá bærir vindur tjöld,

ber með sér nálægð góðra gesta um kvöld,

minningu’úr fjarska, minning barns um vor,

mannsævi, bros og tár við gróin spor.

 

Land mitt, ég kem, hjá lautardragi’í hlíð

lágvaxin smáblóm anga á sumartíð.

Þar vil ég vera, þar sem fegurst er,

þar á ég vin sem býðst til fylgdar mér.

 

Öll líður nótt. Í austri’er geisluð rönd

upprisu morguns; sól þér réttir hönd.

Dvel, tak samt hvíld frá dagsins önn og klið.

Dvel, njót þess stund með mér að finna frið.

Jón Örn Marínósson, tengdasonur Benediktu, samdi þetta ljóð og vísar í því til ýmissa þátta í lífi Benediktu og eiginda hennar. Því er það svo þakkarvert. Ljóðið var síðan sungið í útför hennar við lagboða sálms nr. 426 sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar.

 Æviágrip

Benedikta Þorsteinsdóttir fæddist 20. maí 1920 í Efri-Brekku við Brekkustíg í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Fr. Einarsson, húsasmiður, f. 26. mars 1887 á Skipum í Stokkseyrarhreppi, d. 30. des. 1976, og k.h. Ragnhildur Benediktsdóttir, f. 1. júní 1887 á Tumastöðum í Fljótshlíð, d. 20. nóv. 1954 í Reykjavík. Benedikta var næstyngst 5 systkina sem nú eru öll látin. Benedikta giftist 14. mars 1942 Sæmundi E. Kristjánssyni, vélstjóra, f. 2. sept. 1909 í Otradal við Arnarfjörð, d. 5. nóv. 1982 í Reykjavík. Þau bjuggu allan sinn búskap í Reykjavík og eignuðust þar fjögur börn, Kristján, f. 26. okt. 1942, maki Vigdís B. Aðalsteinsdóttir, Sverri, f. 17. júní 1945, maki Erna Vilbergsdóttir, Sigríði Dagbjörtu, f. 15. nóv. 1947, maki Jón Örn Marinósson, og Viktor Smára, f. 8. febr. 1955, maki Ingibjörg Hafstað. Barnabörn Benediktu eru 13 og barnabarnabörnin 24. Síðustu æviár sín dvaldist Benedikta á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund og þar lést hún snemma að morgni 6. maí.

Sóley Tómasdóttir – minningarorð

Brekkusóley, jurtadjásn í íslenskri náttúru. Söngur þessa ljóðs Jónasar Hallgrímssonar kveikir liti í huganum, færir jafnvel lykt úr móa sumarsins í vit okkar. Og það er gott að hugsa um blóm þegar hvítt ríki vetrarins heldur fast, að leyfa unaðinum að koma til okkar og vinna gegn kulda, svörtum og hvítum litum þessa tíma.

Smávinir fagrir, smávinir sem eru foldarskart. Og svo sprettur fram hin þokkafulla og elskulega bæn Jónasar fyrir þessum reit. Við getum skilið með okkar skilningi, verið náttúruverndarsinnar, menningarsinnar, lífsinnar – og samþykkt þessa umhyggjusömu tjáningu. Faðir og vinur alls sem er, annastu þennan græna reit.

Vesalings sóley, sérðu mig?

Sofðu nú vært og byrgðu þig.

Hægur er dúr á daggarnótt.

Dreymi þig ljósið, sofðu rótt!

Íslensk sumur eru björt, dásamleg og mjúkfingruð, fullkomin andhverfa vetrarins. Trúmenn allra alda hafa séð í vetrinum myndhverfingu eða líkingu fyrir dauða. Allar lífverur eru markaðar endi, mæta lokum sínum, sem er táknaður með svefni. En vonarmenn vænta vors og sumars – eilífðar. Þessi nátturunæma afstaða kemur fram í versunum í 90. Davíðssálmi. Þar segir:

„Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” (Úr 90. Davíðssálmi).

Þetta las fólk í baðstofum þjóðarinnar á sinni tíð, afar og ömmur Sóleyjar. Þennan texta þekkti Matthías Jochumsson líka þegar hann tók til við að semja lofsöng sinn fyrir þúsund ára afmælishátíð Íslandsbyggðar árið 1874, söngur sem varð síðan þjóðsöngur Íslendinga.

Kannski hefur þú aldrei hugsað um að Sóley er í þjóðsöngnum þar sem segir: „…eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár, sem tilbiður Guð sinn og deyr….” Vissulega eru það blóm merkurinnar, sem þarna er talað um, en það er líka allt líf, stórt og smátt, lífríkið, sem skáldið felldi inn í textann. Sóley líka… öll erum við seld undir sömu lög, sama himinn, sól, líf, gleði og sorgir. Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Bæir og byggð falla. Börn fæðast, þrá og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er hið sama: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað. Lofstýr manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem nú lifnar – „hverfið aftur.” Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og lærum að biðja bænina: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?”

Ævistiklur

Sóley fæddist í Viðey 25. nóvember á Alþingishátíðarárinu, 1930. Foreldrar hennar voru Elísabet Elíasdóttir – ættuð að vestan – og Tómas Tómasson – en hann var frá Vík í Mýrdal. Systkinin sem lifðu voru sjö. Sóley var tvíburi, tvær smáar stúlkur komu saman í heiminn. Systirin var 8 merkur en Sóley aðeins fimm. Það má teljast furðulegt að Sóley skyldi lifa en stærri systirin, sem var skírð Fjóla, dó. En svo fæddist önnur stúlka síðar og hún fékk að bera þetta fallega nafn – Fjóla – og gekk nánast inn í hlutverk tvíburasystur Sóleyjar. Saman voru þær jurtir á akri umhyggju og hjálpsemi og urðu nánar. Fjögur systkinanna eru á lífi, Jens, Margrét, Haukur og Fjóla.

Fjölskyldulífið var fjörlegt og foreldrarnir voru samhentir. Tómas var skemmtilegur, róttækur og yndislegur – var sagt í mín eyru – og Elísabet öflug, grínisti og lífskát. Það var oft mikið fjör og hlegið í bænum. Barnahópurinn stækkaði og Tómas vildi í land og hætti sjómennsku á togurum. Þau fluttu líka úr Viðey og fóru á Ránargötu og síðan í Skerjafjörð. Tómas gegndi ýmsum störfum og meðal annars verslunarstörfum. Börnin fóru í Skildinganesskóla. Þegar skólinn var fluttur í Grimsby-húsið á Grímsstaðaholti fóru þau af börnunum þangað, sem enn voru í skóla. Svo flutti öll fjölskyldan frá sjónum og norður fyrir Hringbraut, síðan áfram austur í bæ, í Blönduhlíð, í Hraunbæ og síðan á Langholtsveg.

Sóley fór í Skildinganesskólann. Eitt árið var hún líka í heimavist í Laugarnesskóla því einhver í heilsufarseftirlitinu taldi að það væri staðurinn til að þyngja hana, en sóleyjar eru nú jafnan nettar. Seinna fór hún og átti samleið með Fjólu – í Ingimarsskóla sem var við Lindargötu. Hún fór svo að vinna, afla sér tekna, bar út blöð, vann í KRON-útibúinu í Skerjafirði og jós væntanlega mjólk í brúsa.

Svo dansaði Sóley sig eiginlega inn í hjónaband. Danshópur ungs fólks, sem hugsaði róttækt í stjórnmálum, var myndaður til að dansa á heimsmóti æskufólks í Búkarest, árið 1954. Sóley var lipur og Magnús Sigurjónsson líka. Hann var úr Reykjavík. Stemming æsku á heimsmóti var ljómandi rammi um hjúskap þeirra. Þau gengu í hjónaband og eignuðust drengi sína. Hallgrímur Gunnar fæddist fyrst og síðan kom Hrafn fjórum árum síðar. Magnús var bifvélavirki, vann hjá Reykjavíkurhöfn, Sambandinu, Togaraafgreiðslunni og Albert Guðmundssyni. Hann lést fyrir aldur fram árið 1970.

Sóley var heimavinnandi meðan Magnús lifði. Þau bjuggu á Rauðarárstíg, en síðan flutti hún með syni sína upp í Hraunbæ og bjó í sömu blokk og foreldrar hennar og Fjóla. Þaðan lá leið alls hópsins á Langholtsveg 165. Sóley byrjaði að vinna á Borgarspítalanum, lærði til sjúkraliða, hafði unun af að þjóna sjúklingum og var þeim hin besta Florence, svo um var talað. Hún lagði á sig að læra nudd og notaði síðan til að bæta lífsgæði sjúklinga. Í spítalavinnu var hún þar til heilsan gaf sig og líkamskraftur leyfði ekki lengur álag umhyggjunnar.

Á þessum árum Borgarspítalavinnu birtist Ólafur Ólafsson allt í einu við eldhúsborðið á Langholtsvegi. Það var eins og hann hefði þekkt fjölskyldu Sóleyjar alla tíð. Reyndar hafði hann búið á Grímsstaðaholtinu og séð til systkinanna og heyrt hvað var sagt og hverjir voru hvers. Hann var ekkjumaður, átti unga menn á heimili og sá um þá og velferð þeirra. Synir hans eru: Jakob, Jón, Jóhannes og Borgar.

Ólafur var rennismiður og vann löngum hjá Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar. Þegar Sóley og Ólafur ákváðu að rugla reitum seldi hann íbúð sína og þau fluttu saman í Álfheima. Ólafur lést árið 2000.

Sóley bjó um tíma í íbúð þeirra áfram, en síðustu árin var hún á Foldabæ og síðast á Droplaugarstöðum.

Hallgrímur Gunnar, sonur Sóleyjar, er húsgagnasmiður. Hans kona er Anna Ástþórsdóttir. Þau eiga tvö börn, Halldóru Ósk og Ástþór Óla. Halldóra og Davíð, maður hennar, eiga Gunnar Þór og Guðmund Óla.

Hrafn er vélstjóri og verktaki. Hann á fjögur börn, tvær dætur og tvo syni. Þau eru Magnús Már, Ólöf Anna, Kolbeinn Máni og Steingerður Sunna. Ólöf Anna á síðan börnin Emelíu Svölu og Erlu Dís.

Eigindir

Hvernig manstu Sóleyju – hver er mynd hennar í huga þínum? Manstu eftir saumaskapnum hennar?

Manstu eftir tónlistaráhuganum? Sálmskrá þessarar athafnar vísar í afstöðu hennar. Hún sótti ekki aðeins kirkjutónleika og hafði nautn af. Með systrum sínum fór hún á sinfóníutónleika og þær fóru jafnvel á þrjár raðir tónleika eða 23 tónleika yfir veturinn. Það var ekki aðeins klassík tónlist, sem Sóley heillaðist af, heldur líka þjóðleg tónlist og músík fyrir dansandi fætur. Hún gat alveg haft gaman af nútímatónlist, bara lokaði augum, leyfði tónlistinni að flæða inn í sig og kveikja neista í sér. Tónlistin gat lyft henni upp úr skuggum og lýst upp í huga hennar. Og svo brosti hún með systrum sínum að þeim undrum sem tónlistin gaf þeim.

Manstu eftir brosinu hennar? Manstu að það var ekki skynsamlegt að reyna að skipa Sóleyju fyrir verkum, hún var ekkert hrifin af slíku! 

Manstu eftir pólítískum áhuga hennar? Sóley vildi stjórnmál með róttækni eða var það rótsækni, sem jurtin þurfti?

Svo var það stjörnuspekin sem hún sökkti sér í og gerði stjörnukort fyrir þau af hennar fólki, sem hafði nef og húmor fyrir slíku. Í þeim málum varð Sóley kunnáttusöm og aflaði sér þekkingar á þessum fornu fræðum.

Sóley var langförul ferðakona. Hún ferðaðist um Ísland og síðan um víða veröld. Það urðu ekki aðeins dansferðir, sem hún fór. Hún kannaði landið, elskaði það og naut þess. Var tilbúin að vera sem brekkusóley í dýrðarríki Íslands. En svo var hún til í að skoða fjarlægar slóðir og fjölbreytilegt líf, menningu fólks þessarar jarðarkúlu. Fjóla fór stundum með þeim Ólafi en síðan fóru þær saman eða með hóp á síðustu árum. Og það voru fá mörk sem hindruðu. Þær voru saman í Concert Gebouw í Amsterdam og hlustu á Beethoven og síðan voru þær á Kúbu og Kínamúrnum.

Hver er minning þín? Veldu þér minningu. Veldu það sem gerir þér gott og leyfðu svo hinu að fara, slepptu til að þú haldir ekki í það sem verður þér til trafala í þínu lífi. Við megum sleppa sorgarefnum, eftirsjá – öllu því sem letur líf þitt nú eða í framtíð. Fortíðarefni og dauðamál verða okkur ekki hvatar eða tilefni fyrir lífsgæði. Skilvís sorgarvinna stefnir að gleði  – og ánægju með fólki og fyrir fólk, sem lifir og er í okkar ranni.

Viturt hjarta

„Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Hvað er viska? Jú, það er viska að bera virðingu fyrir lífi, náttúrunni og tónlist. Það er viturlegt að endurmeta lífið, endurskoða og taka nýja stefnu, láta ekki hugfallast og ákveða að lifa og lifa vel. Það er mikilvægt að nýta sér gleðiefnin til skemmtunar. Svo þegar lífið er gert upp þá kemur í ljós að við vorum sem jurtir í mörkinni, titrandi blóm sem lifum um stund, gleðjumst, verðum fyrir hretum og þolum alls konar álögur. Svo roðnar brekkan, lífið fjarar út, en lífið lifir áfram í kynslóðum sem koma. Kynslóðir halda áfram og eru sem lífkeðja, sem góð speki úr stjörnubúi Guðs knýr með elskusemi sinni.

Sóley fer ekki aftur á tónleika, en fær að njóta tónaflóðs úr himneskri hljómsveit. Hún brosir ekki aftur á risamúr í Kína en fær að skoða hin himnesku mannvirki. Hún nuddar ekki fleiri iljar eða strýkur hár, heldur fær að njóta ástríkis sem er æðri öllum skilningi. Sóley hefur nú sprungið út í himnaríkisbrekkunni.

Hægur er dúr á daggarnótt.

Dreymi þig ljósið, sofðu rótt.

Guð blessi minningu Sóleyjar. Guð geymi hana um alla eilífð.

Minningarorð í Fossvogskirkju 4. febrúar 2011.