Altari himsins

Tiburvölvan og ÁgústusSænski nóbelshöfundurinn Selma Lagerlöf skrifaði merk trúarleg rit, t.d. bókina Jerúsalem, sem Billie August kvikmyndaði ágætlega árið 1996. Lagerlöf skrifaði ýmsar sögur um Jesú Krist eða sögur sem tengdust lífi hans og veru. Í einni þeirra segir hún frá lífsreynslu keisarans í Róm þegar hann fór til helgihalds á myrku vetrarkvöldi. Ágústus keisari, þessi sem nú er einkum frægur af því hann er nefndur í jólaguðspjallinu, sá til völvu þegar hann kom á helgistaðinn. Lesa áfram Altari himsins

Ástarsagan

DSC07926_4494926787_l

Boðskapur þessara jóla. Hver er hann? Ástin og ástalífið!

Hefur þú elskað? Strák eða stúlku, konu eða karl, mömmu eða pabba, barnið þitt, fólkið þitt? Hefur þú orðið fyrir ástarsorg – og þótt lífið hryssingslegt? Á þriðja aldursskeiði æfinnar er ég frjáls, get ég horft til baka og að fenginni reynslu viðurkennt að það besta og dýrmætasta í lífinu er að elska og vera elskaður.  Lesa áfram Ástarsagan

Fyrirgefðu

IMG_3763_8970363903_lHverjum á að fyrirgefa og hverjum á ekki að fyrirgefa? Það getur reynst mikil þraut að sætta okkur við það sem okkur hefur verið gert illt. Spurningin verður oft ekki: Á ég að fyrirgefa heldur: Get ég fyrirgefið? Get ég fyrirgefið þeim sem hefur farið illa með mig?

Strákur í Eyjum

Það var einu sinni strákur í Vestmannaeyjum, sem svindlaði á prófi. Mamman komst að glæpnum. Strákur varð skömmustulegur og sagði við hana. „Ég ætla að biðja Guð fyrirgefningar.” „Já, það er ljómandi,” sagði mamma. „En það er ekki nóg. Þú verður líka að fara í skólann og biðja kennarann fyrirgefningar!” Það fannst strák verra en lærði þá lexíu, að það er ekki nóg að tala. Iðrunin verður að hríslast út í lífið og lífshættina.

Við kennum börnum okkar að biðjast afsökunar á brotum af einhverju tagi, t.d. þegar þau meiða, taka það sem þeim er bannað eða brjóta eitthvað sem þeim er óheimilt. Ákveðin viðmið eru grundvallandi og brotin eru frávik frá viðmiðinu. Við kennum síðan fólki að horfast í augu við brot og biðjast afsökunar á þeim.

Mínir strákar

Ég á stráka á níunda ári og hef fylgst grannt með mótun siðvits. Þegar þeir voru á fjórða ári var ljóst að jafnvel svo snemma á æfinni var prettavit þeirra orðið mikið og líka færnin til að greina hvað mátt og hvað ekki. Þeir lærðu þá að ljúka málum með fyrirgefðu. En stundum kreistu þeir jafnvel upp “fyrirgefðu” til að losna við frekari vandræði.

Fyrirgefningarbeiðni er oftast beiðni einstaklings gagvart öðrum eintaklingi. Á milli þeirra er vefur merkingar sem stýrir og leiðbeinir þeim um hvað má og hvað má ekki, hvað er gilt og hvað ógilt, hvað er rétt og hvað rangt. Til að fyrirgefningarferlið gangi upp verður þetta kerfi að virka sem á milli er. Hvað á svo að gera með þá fyrirgefningu þegar menn vilja ekki biðjast fyrirgefningar, sjá ekki að þeir hafi gert rangt?

Iðrun – hvað er það?

Í gamla daga var talað um iðrun, það að úthverfa iðrunum – þessu sem er innan í okkur. Við getum talað um viðsnúning og sá getur verið samfélagslegur þegar samfélagið allt fer að skoða gildi og meginmál. Viðsnúningur verður líka í lífi okkar flestra með einu eða öðru móti. Þegar við erum vanheil þurfum við að ná heilsu og iðka heilindi til að viðsnúningur sé góður og gjöfull. Fyrirgefning er mikilvægt atriði í viðsnúningi – varðar ákveðna þætti lífsins og ekiki síst hið himneska – guðlega samhengi.

Við gerum öll eitthvað rangt, eitthvað sem meiðir og hefur slæmar afleiðingar. Við segjum eitthvað ógætilegt sem særir og jafnvel grætir. Við flissum stundum á óheppilegum tíma, hittum viðkvæmt hjarta eða segjum eitthvað óvart, sem veldur misskilningi og jafnvel vinslitum.

Á að biðjast fyrirgefningar á slíku? Já, en hvað um þau, sem gera rangt en iðrast ekki. Er hægt að fyrirgefa þeim án þess að þau viðurkenni brotið. Eða er það forsenda fyrirgefningar að viðkomandi fari á hnén og iðrist?

Bergmann og heiftin
Fyrir nokkrum árum sá ég margar kvikmyndir sænska leikstjórans Ingmar Bergman. Á einum DVD-disknum var ítarefni, og þar á meðal viðtal við Bergman. Hann sagði frá samskiptum sínum við kvikmyndagagnrýnanda, sem hafði farið ómjúklega með verk hans mörgum áratugum áður. Bergman hafði greinilega þörf fyrir að ræða samskiptin og sagði frá með mikilli ástríðu, sagði hversu illa gagnrýnandinn hefði farið með hann, hvernig honum hefði liðið og hversu illa fjölskyldan varð fyrir barðinu á illgjörnum dómum.

Bergmann lýsti manninum sem vondum manni. En maðurinn sem gagnrýndur var hafði enga möguleika til varnar því hann var dáinn. Mér brá og varð illt af að heyra Bergman tala svona um látinn mann. Til að ekkert færi milli mála sagði kvikmyndajöfurinn ískalt, að það skipti hann engu máli þótt hann væri dáinn: “Ég vona að hann rotni í helvíti!” sagði Bergman.

Svipaðar tilfinningar hrærast gagnvart svikurum. Eg hef hitt fólk í mínu starfi sem er ekki bara reitt heldur fullt af hatri, illsku vegna einhvers missis sem það persónugerir.

Illgerðarmenn

Sum illvirki fremur fólk með ráðnum huga og einbeittum brotavilja. Aðrir valda miklum skaða vegna einhverra aðstæðna og mistaka. Fólk gerir veigamikil mistök og brýtur af sér í umferðinni. Fólk fer illa með aðra í skóla, tekur þátt í stríði og einelti. Skólastofnanir sem ekki eru þroskaðar vinna ekki með vanda og standa ekki með líðendum. Á vinnustöðum er víða ofbeldi sem fólk verður samdauna og tekur þátt í, ef ekki með rænuleysi þá í meðvirkni og ótta við þau sem valdið hafa.

Valdamiklir aðilar hafa tækifæri til að auðgast eða auka völd sín og áhrif sem notuð eru og geta valdið spjöllum. Þau sem ullu bankahruninu hafa valdið tugþúsundum íslendinga miklu tjóni og vanlíðan. Þau voru kannski ekki vondar manneskjur en ollu mikilli þjáningu. Mistök verða í stjórnum og ráðum þjóðarinnar, í fyrirækjum og félögum. Hver er ábyrgð stofnana og þar með sök ef stofnanir sem eiga að sinna ráðgjafar- eða eftirlits-hlutverki en bregðast? Eru þau kreppudólgar, sem tóku þátt í þöggun þeirra sem gagnrýndu og bentu á hættur? Eru þeir stjórnmálamenn sekir, sem tóku þátt í reisa valta fjármálarkerfi og vörðu síðan þegar gagnrýnar spurningar voru settar fram? Og svo eru öll mistökin sem gerð hafa verið og gerð eru í heilbrigðiskerfinu, þegar ekki er greint rétt, þegar mistök eru gerð í aðgerðum og fólk verður fyrir heilsufarstjóni og missir ástvini eða ástvinir missa svo mikið og stórlega að margir líða. Á að fyrirgefa þessu fólki?

Hvað er fyrirgefning?

O þá er komið að fyrirgefningunni: Fyrir hvern er fyrigefningin? Er hún fyrir þann sem hefur unnið eitthvað illt verk – hefur gert manni mein. Léttir hún sök af viðkomandi? Eða er fyrirgefning kannski jafnvel fremur fyrir mann sjálfan. Er mikilvægt að forsenda fyrirgefningar sé iðrun – eða er kanski iðrunin eitthvað sem er ekki alltaf nauðsynlegt forsenda?

Við kennum börnunum okkar að iðrast og læra af mistökum og reynslu og biðjast fyrirgefningar þegar þau hafa brotið gegn öðrum. Það er fullgilt og mikilvægt. En iðrun og andleg heilsurækt er eitt en fyrigefning annað – og við ættum kannski ekki að blanda þeim þáttum saman þegar við reynum að vinna með fyrirgefninu og þau andlegu átök sem fyrirgefningu fylgja oft. Ég tel að iðrunar sé ekki þörf til að fyrirgefa. Fyrirgefing er ekki bara vegna þeirra sem hafa brotið af sér – fyrirgefningin er ekki síst vegna manns sjálfs. Að fyrirgefa er að losna undan fjötrum þess sem gert hefur manni illt, losna úr álögum hins illa og þess sem meitt hefur mann. Fyrirgefning er fyrir mann sjálfan.

Að fyrirgefa er að losna úr fangelsi sem aðrir hafa skapað manni. En það erum við sjálf sem erum fangaverðir okkar. Aðrir byggja fangelsið, steypa okkur í dyflissu, hefta okkur og kefla. En það erum við sem ákveðum hvort við viljum dvelja þar lengi, hvort við ætlum að losna. Lykill þess er fyrirgefningin. Og illgerðarmennirnir kunna kannski ekki að iðrast, en við getum losað þá og við getum losað okkur. Illgerðirnar eiga ekki að vera síðasta orðið.

Klassískur skilningur

Hvað er fyrirgefning? Við túlkum hana gjarnan í samhengi einstaklingsins. En ég vek athygli á að í klassísku trúarsamhengi var fyrirgefning ekki skilin sem sjálfhverft tilfinningamál – eins og oft hefur verið í seinni tíð – heldur samfélagsmál.

Að vera fyrirgefið í “biblíulegu” samhengi var ekki eðeins spurning um hug heldur aðgerð – að lagfæra og endurbæta stöðu – að viðkomandi endurheimti stöðu sína, æru og helgi. Í hinu kristna trúarsamhengi er fyrirgefning Guðs þá ekki fólgin í að Guð hætti að vera særður eða fúll yfir brotum manna – heldur að Guð veiti manninum uppreisn æru, veiti manninum stöðu sem guðsbarn að nýju, taki við honum eða henni í guðsríkið þrátt fyrir að viðkomandi hafi brotið af sér og sé því sekur.

Og slík fyrirgefning er alltaf að valdameiri aðili fyrigefur hinum valdaminni. En ekki öfugt. Sá sem brotið var á er ekki beðinn um að fyrirgefa því sá sem er valdaminni getur ekki sett hlutina í rétt samhengi. Fyrirgefning í slíku samhengi er ekki eitthvað huglægt mál heldur verklegt – framkvæmdarmál – og varðar endurheimt stöðu og gildis.

Í hinu trúarlega samhengi er fyrirgefning ekki þröngt fyrirbæri heldur varðar samfélagsgerð og þroska þjóðfélagsins. Fyrirgefningarmál er ferli sem varðar ekki aðeins hið innra og einstaklingstilfinningar heldur einnig – hið ytra, hvernig breyta á öllu – líka félagskerfinu og forsendum menningar – svo menn séu teknir í sátt og mál gerð upp með viðunandi hætti, orðspor sé lagað og menning styrkt. Margir munu ekki vilja gera upp sín mál – en samfélaginu ber skylda til að gera málin upp hvort sem menn vilja eða ekki.

Fyrirgefning eða sátt?

Einstaklingar í samfélaginu geta tekið ákvörðun um að fyrirgefa öðrum einstaklingum, sem hafa gert rangt eða talið er að hafi drýgt eitthvað vont. Hópar geta t.d. eftir umræður tekið ákvörðun að fyrirgefa einstaklingum eða jafnvel stofnunum. En dugar þetta til að vinna með kerfisbrot, hvort sem er í heilbrigðiskerfinu eða bankakerfinu?

Það er vissulega mikilvægt að einstaklingar vinni með sinn innri mann, þ.m.t. reiði sína. Það er okkur persónulega mikilvægt að fyrirgefa. Ef við fyrirgefum ekki sem einstaklingar verður til skrímslagarður innan í okkur. Það er áhersla margra hinna miklu leiðtoga t.d. Martin Luther King og Nelson Mandela að vinna að fyrirgefningu hið innra til að geta beitt sér í hinu ytra. Þetta er vel en er það nóg?

Mér sýnist að sökudólgar í samfélagi okkar séu ekki aðeins einstaklingar heldur líka stofnanir, menningarþættir og jafnvel veigamiklir þættir menningar okkar. Því eigi fyrirgefningarferlið ekki við nema hluta uppgjörsins. Þegar mistök verða þarf leiðréttingarferlið sem hefst í kjölfarið fremur að vera sáttaferli en fyrirgefningarferli.

Fyrirgefningarhugtakið er of þröngt til að passa við samfélagslegar og heildrænar kreppuaðstæður. Fyrirgefning er ekki andstæða sáttar. Þvert á móti getur fyrirgefning verið markmið sáttaferlis en þarf ekki að vera það.

Sáttahugtakið væri hagkvæmara að því leyti að það tjáir betur ferlið sem við værum í. Sem einstaklingar þyrftum við að vinna með aðstæður okkar, viðhorf, tilfinningar, fjármál, vinnuhlutverk, pólitískar skoðanir okkar og leita sáttar hið innra og vinna úr málum okkar í samræmi við það.

En það er hugsanlega ófyrirgefanlegt ef við hlaupum undan ábyrgð og leggjum ekki okkar til sáttaferlis samfélagsins. Við gætum orðið verstu dólgarnir ef við göngumst ekki við köllun okkar.

Ófyrirgefanlegt?

Ég vil bæta við að krafan um iðrun sem forsendu fyrirgefningar er óraunhæf nema í einstökum málum. Margt verður og fellur utan við alla mannlega fyrirgefningu, engin beiðni berst og enginn getur fyrirgefið. Dæmi um þetta eru svonefndir “glæpir gegn mannkyni” sem enginn getur fyrirgefið algerlega. Þjóðir og hópar geta fyrirgefið, en glæpinn er ekki hægt að gera upp. Þegar milljónir voru að berjast við að gera upp hrylling seinni heimsstyrjaldar gerðu hinir marxísku spekingar Frankfurtarskólans sér grein fyrir hinni eilífu sekt. Horkheimir og Adorno, minntu á að Guð væri “nauðsynlegur”eins og þeir orðuðu það, til að vinna úr og upphefja glæpi nasismans.

Guð – sem fyrirgefur

Það er nokkuð til í, að þegar samskipti manna eru gerð upp stendur ávallt út af hið illa, hið ógurlega sem aðeins Guð getur tekið á. Og þar erum við komin að kviku trúar og kristni.

Jesús umbreytti allri lagahyggju hins gyðinglega átrúnaðar, bar elsku til fólks, var elskan holdi klædd í samskiptum og benti í öllu og ávallt á þann sem elskar. Og okkar mál er að innlifast þeim veruleika í lífi, samskiptum og siðferði. Kristnin er framar öðru átrúnaður fyrirgefningar af því að guðsmynd Jesú er hin lífgefandi þvert á kalt réttlæti og endurgjaldshyggju.

Sigurður Árni Þórðarson, s@neskirkja.is – GSM: 8622312.

(Þessi pistill varð til sem ávarp í félagsskap sem bað um innlegg um fyrirgefningu – ég hlustaði svo á merkilega umræðu sem spratt af innlögninni)

Guð hvað?

IMG_6643Ég er búinn að bjóða fólkinu mínu, konu minni, börnum og tengdasyni til Ísraels á næsta ári. Við förum til Betlehem, Nasaret, að Genesaretvatni, til Masada og einnig til Jeríkó. Við munum skoða liljur vallarins sem verða væntanlega í öllum regnbogans litum í Galíleu og upp á Golanhæðum. Við munum busla í Dauðahafinu og ganga píslarveg – via Dolorosa – Jesú í Jerúsalem.  Lesa áfram Guð hvað?

Magnea Dóra Magnúsdóttir – 100

Tengdamóðir mín, Magnea Dóra, hefði orðið eitt hundrað ára í dag. Hún fæddist 25. nóvember árið 1920. Hún lést í árslok árið 2003, 31. desember. Minningarorðin sem ég flutti við útför hennar í  Hallgrímskirkju 9. janúar 2004 eru hér á eftir. 

Þegar líf hennar kviknaði slokknaði lífsljós pabbans

Báturinn hans Magnúsar hentist til í öldurótinu við Bjarnarey og hvolfdi. Allir bátsverjar fóru í hafið. Sigrún stórasystir stóð við gluggann heima og beið eftir pabba, sem aldrei kom. Sjórinn rændi hamingju, ástinni, fyrirvinnu og föður. Missir eiginmanns og föður var skuggi fjölskyldunnar á Jaðri, svo langur að hann teygði hramm sinn yfir allt líf Magneu Dóru Magnúsdóttur. Þegar myrkrið læðist að verða lífsljósin björt og sjást – jafnvel úr fjarska – og duga þegar bródera skal lífslistaverk.

“Drottinn gekk fram hjá … og kallaði: Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.” (2. Mósebók 34:6)

Líf Magneu var nánast aðeins draumur Guðs þegar líf föður hennar hvarf í faðm Guðs. Líf hennar var nýkviknað þegar líf pabba hennar slokknaði. Hvaða gæska er það að skilja eftir ekkju með ómegð og nývakið fóstur? Hvaða tilfinningar til Guðs og manna hafa brotist um í þeim sem eftir lifðu? Hvers konar Guð ertu? Ertu miskunnsamur og harla trúfastur? Úr angistardjúpi er hrópað upp í myrkan himininn. Af hverju var ekki einu sinni hægt að fá að jarða hinn horfna? Hver kallar og til hvers?

Lífsstiklur

Magnea Dóra Magnúsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 25. nóvember 1920. Foreldrar hennar voru Kristjana Þórey Jóhannsdóttir og Magnús Hjörleifsson. Kristjana var fædd í Holtum í Rangárvallasýslu, en Magnús var ættaður að austan, fæddist í Norðfirði. Hann lést í mannskaðaveðri 2. mars 1920. Hann var sjómaður og formaður á mótorbátnum Ceres. Þau Kristjana áttu tvö börn er Magnús féll frá. Kristinn er látinn en Sigrún lifir systir sína. Magnea Dóra fæddist tæpum níu mánuðum eftir að faðir hennar lést. Magnús hvarf en Magnea kom. Og hún hlaut líka Dórunafnið. Það er íhugunarvirði, að nafnið hennar merkir: Hin mikla gjöf! Enda sagði ljósan við móður hennar að hún yrði henni lífgjöf síðar. Það gekk eftir.

Kristjönu var vandi á höndum þegar hún var orðin ekkja. Henni var ráðlagt að selja Jaðarinn, sem hún gerði og sá eftir. Hún fékk að vera með börnin sín um tíma í einu herbergi í húsinu, en fluttist svo til skyldfólks í Vestmannaeyjum. Venslafólk og vinir studdu, en þó fóru í hönd áratugir basls og búferlaflutninga. Kristjana hélt fast í börnin sín, en samt slitnuðu þau frá henni henni á ýmsum tímum. Fjölskyldumyndirnar segja sláandi sögu. Það er glöð mamma á myndum áður en Magnús hvarf, en döpur augu sem stara í kalda linsu myndavélarinnar þegar Magnea var fædd. Kristinn fór að lokum til afa og ömmu í Sandgerði. Sigrún var í vist víða og stundum með mömmu. Kristjana var forkur, sleit sér út við vinnu, þrælaði til að koma börnunum til manns. Stritið og hinn horfni faðir var samhengi og ógnardjúpið sem Magnea Dóra ólst upp við. Hlutverk lífsins var að vinna úr. 

Þegar Magnea Dóra var um tíu ára gömul fór hún til Sandgerðis, var nokkur ár hjá frændfóki sínu í Hjarðarholti og síðan í Sandvík. Hún sótti grunnskóla í Sandgerði bjó þar fram undir tvítugt. Öll stríðsárin bjó hún í Reykjavík, hér nærri Skólavörðuholtinu, þá kirkjulausu. Eins og mörg ungmenni á þeirri tíð fór Magnea Dóra á síld og var með systur sinni í fjörinu, slorinu og stritinu á Siglufirði. Veturinn 1942 –43 sótti Magnea Dóra Húsmæðraskóla Reykjavíkur og eignaðist þá lífsvini í vistarsystrum sínum. Vegna hannyrðahæfni var hún síðan ráðin að Hattabúð Soffíu Pálmadóttur og vann þar við sauma á árunum 1943 – 50, lærði að meta efni, snið og handbragð. Það reyndist henni síðan vel þegar hún rak eigið stórheimili.

Magnea Dóra vissi af Jóni Kr. Jónssyni. Hún hafði séð hann í Sandgerði þegar hún var unglingur, heyrði af krafti hans og dugnaði. Jón kom ofan af Skaga 1934 til að vinna hjá bróður sínum í þjónustu útgerðar þeirrar, sem síðar varð Miðnes og var forsenda allrar uppbyggingar í Sandgerði. Jón varð síðar útgerðarstjóri þess fyrirtækis. Þau Jón Kr. og Magnea Dóra gengu í hjónaband árið 1950. Hjúskapur þeirra var ást- og gæsku-ríkur. Þau báru djúpa virðingu fyrir hvoru öðru og voru vinir. Þó Jón væri öflugur stjórnandi á sínum reit virti hann skipstjórann í brúnni heima. Hann var natinn faðir, taldi aldrei eftir sér að sendast eftir efni, húsmunum, skoða og kaupa kjóla á allar konurnar sínar. Fyrsta barn þeirra var stúlkubarn, andvana fætt. Síðan komu þrjár systur, þær Ingunn Guðlaug, Kristjana og Elín Sigrún.

Húsmóðirin

Það kom sér vel á heimili, sem var opin félagsmiðstöð, að Magnea Dóra var húsmæðraskólagengin. Hún hafði gaman af verkum. Hún sneið og saumaði, stagaði vinnuföt af fólkinu sínu. Magnea Dóra var góður kokkur og vön mikilli matarumsýslu. Á meðan börnin voru heima og Jón Kr. vann erfiðisvinnu bakaði hún fyrir tíukaffi og síðdegiskaffi og svo fimmkaffi líka. Hún eldaði svo bæði fyrir hádegi og kvöldmat, saltaði, sultaði og saftaði eins og íslenskar konur gerðu á þeim tíma. En hún staðnaði aldrei, var alltaf tilbúin að skoða eitthvað nýtt. Það var ævintýri líkast að fylgjast með hversu snögg hún var þegar hún sá skemmtilega uppskrift í dagblaði að morgni. Þessi kona á níræðisaldri var oft búinn að kaupa hráefni og annað hvort baka eða elda réttinn um hádegið. Svo skannaði hún Gestgjafann og var alltaf til viðræðu um krydd og kokkarí. Hún fagnaði öllum sem þjóðhöfðingjum og þegar hún var búin að drekkhlaða borð með ótrúlega mörgum tegundum af mat lauk hún verkinu með setningunni: “Þið ruglist víst ekki á sortunum” og hló svo við.

Þau Magnea Dóra og Jón Kr. bjuggu allan sinn búskap, nær fjóra áratugi, í húsinu sem  þau byggðu og stendur við Tjarnargötu í Sandgerði. Jón Kr. ætlaði að láta af störfum í árslok 1990 og þau hugðust flytja í bæinn. Áður en af því varð féll Jón með landfestakaðalinn í höndum á kæjann, aðeins sjötugur að aldri. Hann féll og dó í miðju verki á sínum stað. Magnea Dóra fór því ein frá Sandgerði. Hún bjó á Seltjarnarnesi í þrjú ár og flutti síðan á Grandaveg 47. Magnea Dóra Magnúsdóttir veiktist 29. desember og lést á gamlaársdag. Árið var liðið og lífi lokið.

Drottinn kallar og sólarsýn

„Drottinn … kallaði: Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.”

Mannvænlegt stúlkubarn dó í fæðingu, fæðingarskugginn settist að sálinni. Skuggi bernskunnar og föðursorgar og margflókins móðurmissis lengdist. Í Magneu Dóru var rifið og henni var skellt á jaðarinn, jaðar lífsins og gleðinnar. Hvorum megin myndi hún verða? Missir reynir stálið í fólki og þegar eldur sálarinnar geisar hrópar hún? Er tilveran gæskurík? Hver ertu Guð? Af hverju þessi áraun? Hafið þrumaði við ströndina, trommaði dauðans alvöru og nálægð voðans. Þegar óveðrin voru sem mest fór Jón Kr. niður að höfn og var oft einn að slaka og strekkja landfestar. Stundum skolaði honum jafnvel út í höfnina en náði að krafla sig upp og kom holdvotur – en lífs – heim. Magnea Dóra var stundum döpur og hrædd en móðir líknaði, systir studdi, eiginmaður hvikaði aldrei, vinkonurnar glöddu og hleyptu upp kátínunni. Lífskallið var að ofan frá þeim, sem ekki lætur sér nægja að hrópa til mannsins, heldur kemur sjálfur, fer alla leið í öldudjúp mennskunnar og sópar með sér öllu lífi inn í birtuna á ný. Í þeirri miklu sveiflu er allur geimurinn og líka einstaklingarnir. Magnea Dóra var hrifin með, fór frá jaðrinum á ný og inn í lífið með góðum manni og tápmiklum stelpum. Á Grandaveginum var hún sæl en sagði: „Mér er sama þótt ég sjái aldrei sjó, er búinn að fá nóg af honum!” Hún var þar sunnanmegin og hafði engan áhuga á öldunum, hafði algerlega snúið við þeim baki. Líf hennar var mót sólu og íbúar á Grandaveginum voru henni dásamlegir nágrannar.

Lífssamhengið og ríkidæmið innra

Þetta er hið stóra lífssamhengi Magneu Dóru. Hvað þýddu þessi köll um missi en þó gæsku? Þegar að fólki er þrengt verða kostirnir jafnvel aðeins tveir, líf eða dauði. Magnea Dóra valdi lífið og hún hafði líka bæði þroska, greind, visku og stuðning til að velja andleg lífsgæði og því varð hún bæði rismeiri, dýpri og skemmtilegri en flestir – og einnig áhugasamari um líf í nútíma en einhverri fortíð. Hún lærði að það er ekki gott að draga trossurnar á eftir sér þegar maður er búin að draga um borð. Þegar svo er komið siglir maður. Lífssigling Magneu var ekki síst fólgin í jákvæðri lífsafstöðu. Henni leiddist því barlómur og neikvæðni. Hún tamdi sér lífsgleði og forðaðist þumbara. Hún tamdi sér hlýju og sneiddi hjá kuldabolum í mannheimi. Hún gerði sér snemma grein fyrir að lífshamingjan er ekki fólgin í að fá og ná, heldur að gefa. Aldrei fór hún í heimsókn til vina eða ættingja án þess að koma færandi hendi. Servíettur, vettlingar, blóm, heimagerð sulta, brauð, kökur og súkkulaði í litla munna fóru í löngum og óslitnum röðum á heimili og í hús vina, ættingja og þeirra sem henni var annt um. Fyrsta hugsun hennar var að gefa og önnur hugsun að gefa meira. Hún átt ekki í sér snefil af neysluafstöðu sem reynir að bæta sér upp elskuskort og sálarsársauka með því að taka til sín, sölsa undir sig, kaupa eða hrifsa. Magnea Dóra hafði ríkidæmið innan sér og því gaf hún. Hann hafði þroskað með sér lífslán og lífsfyllingu. Og hún var spilandi orðhnittinn húmoristi. Hún lagði vel til allra og bætti úr hræðilegum uppákomum með því að kveða upp úr: „Það er best sem vitlausast.” Ungviðið fékk svo sitt uppeldi og lærði fljótt hvað gleypugangur væri og gerði sig ekki sekt um slíkt nema einu sinni. Orðin hennar Magneu og atferli var allt í þágu þess að gera gott, gefa fólki. Hún var með afbrigðum gjafmild og það var einn meginstofn persónu hennar.

Félagsþjónusta

Vegna þess að Magneu var umhugað um fólk og velferð þess axlaði hún meira en henni bar skylda til. Kona útgerðarstjórans hafði engar skyldur aðrar en þær borgaralegu við samfélag og atvinnulíf. En viðgerðarmenn í bátum, við vélar og hús komu heim í kaffi og mat fyrirvaralaust með Jóni því enginnn var veitingastaðurinn í Sandgerði. Magnea Dóra svaraði í símann allan sólarhringinn, hlustaði á talstöðina og miðlaði til síns manns. Hún miðlaði málum í hjúskapardeilum sjómanna og kvenna þeirra, gekk í sálgæslu gagnvart eiginkonum sem áttu í vandkvæðum, skaut skjólshúsi yfir þau sem áttu í útistöðum, var athvarf fyrir máttlitla og leyfði þeim sem voru í vanda að vera meðan þurfti. Hún var í fullri en launalausri vinnu við að stjórna félagsþjónustu Miðnes. Hennar hvati var að sinna kalli að innan. 

Lífsvernd

Magnea hélt ákveðinn vörð um menntun og uppeldi dætra sinna, gætti að námi þeirra og hvatti þær til námsdáða. Og hún elskaði smáfólkið sem henni bættist smátt og smátt. Hún naut þess að bera það inn í lífsljósið og styðja við þroska þeirra. Þegar dóttirdóttir hennar, Tinna, fæddist fékk Magnea nýtt hlutverk í lífinu sem hún tók fagnandi. Hún varð amma. Tinna var langdvölum á heimilinu í bernsku. Síðan kom Magnús og þau urðu bæði ömmunni augasteinar. Þegar hún fluttist í bæinn varð samgangurinn enn meiri. Magnea Dóra var barnagæla og elsk að ungviði stórfjölskyldunnar.

Menningargleðin – að lifa í núinu

Magnea Dóra var óbangin við Reykjavíkurbraginn þegar hún flutti í bæinn. Hún var fullkomlega opin eins og ungmenni gagnvart hvers konar hræringum í menningarlífinu. Hún ræddi um nýjustu myndböndin á Popptíví við unglinga, sló þeim við í yfirsýn varðandi nýjustu myndirnar í bíó. Henni fannst gaman í óperunni, var næm á tónlist og sá efni í tenóra á löngu færi meðan þeir voru enn blautir á bak við eyrun. Það var hrein upplifun að fara með henni í leikhús, hún þekkti alla leikara, gat áreynslulaust rakið leiksögu þjóðarinnar. Henni var sama um þó hún missti af sumu af því, sem við bulluðum í kringum hana, en þegar hún heyrði ekki lengur hvað leikararnir sögðu fékk hún sér heyrnartæki. Hún vildi ekki fara á mis við þau gæði. Þegar hún dó átti hún að sjálfsögðu miða á sýningu í Borgarleikhúsinu. Hún stoppaði í Kringlunni fyrir framan tískuverslanirnar, skannaði efni og sniðin. Og gerði sér nákvæma grein hvernig skvísufatnaður hvers tíma var. Það var svo hressandi að upplifa endurvinnslu hennar í lífinu og hve síung hún var. Hún var vitur nútímakona og óhrædd við framtíðina. Hún átti traustið í grunni sálarinnar og það er systir trúarinnar. Af því hún var svo félagslynd sótti hún út til fólks, sótti að vera með fólki þar sem verið var að skapa, iðja eitthvað merkingarfullt.

Hvað ætlum við með sögu Magneu Dóru?

Drottinn kallaði! Hvað kallar Guð á langri ævi, í missi og gjöf, þjáningu og gleði? Kall Guðs er:

“Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.”

Magnea hafði heyrt þetta kall. Hún valdi að lifa, hún hafði orðið endurómur þess hróps í lífinu. Hún var miskunsöm og líknsöm, þolinmóð og gjafmild. Trúföst í öllum tengslum við fólk. Guð kallaði – hún heyrði og svaraði með þvi að lifa vel. Undarlegt er að hugsa um bernskuhúsið hennar í Vestmannaeyjum. Í Heimaeyjargosinu geisaði hraunið fram og stefndi beint á það. Eyðingarflóðið náði þó aldrei að hremma húsið hennar. Það stendur enn – og við hraunfótinn. Svo var lífið hennar Magneu Dóru. Hraunelfur sorgarinnar sótti að henni. Hún var um tíma á jaðrinum, en lifði og lifði síðan stórkostlega. Svo lifir hún með fullum lífskrafti til enda árs og deyr svo fullkomlega óvænt á gamlaársdag. Alveg í samræmi við lífshátt, skopskyn og lífsafstöðu.

Hvað getum við lært og gert? Við eigum í Magneu Dóru fyrirmynd um að heyra kall miskunnsemi og gæskunnar, snúa okkur að ljósinu og lífinu, draga ekki fortíð með okkur í tíma, heldur lifa í krafti upprisu og að lífið er gott – því Guð er gæskuríkur.

Magnea Dóra lifði ríkulega meðan hún var á lífi og svo dó hún algerlega, en við jaðar ársins. Hún elskaði hið nýja og óflekkaða ár, fór alltaf í kirkju til að fá að syngja sálmana á nýja árinu. Nú fer hún af jaðrinum sínum, alla leið, inn í miðju lífsgleðinnar, inn í miðju jákvæninnar, huggunarinnar, inn í miðjuna þar sem ástirnar hennar eru, dóttir, maðurinn hennar, pabbi, mamma og öll hin sem hún elskaði svo heitt. Þar er Guð, sem safnar öllu lífi saman í einn mikinn lofsöng. Þar er ekki aðeins kallað heldur sungið hástöfum:

“Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.”

Minningarorð við útför frá Hallgrímskirkju 9. janúar 2004. Myndina af  Magneu Dóru og Elínu Sigrúnu tók ég í Hamraborg í Árnessýslu sumarið 2001. Það var svo gaman hjá þeim mæðgum í lautarferðinni að læknum.