Klassík sem virkar

klassíkBiblían er ekki google-græja fyrir þau, sem leita að fræðslu um uppruna heimsins eða genamengi manna, heldur leiðarvísir fyrir þau sem leita að nýju og betra lífi. Biblían er ekki lögbók, ekki sniðmát um leyfilegar hugsanir, ekki handbók um lágmarks siðferði. Biblían er bók um Guð, líf, leið og hamingju. Biblían hentar illa til að hanga í bókaskáp eða á bak við gler á safni. Biblían er alltaf á leið út úr skápnum og inn í lífið. Biblían er eiginlega innan í prentgripum, sem fólk hefur milli handa og les. Innan í Biblíunni er Guð og fólk, skapari og heimur, Guð að tala og gera lífið betra og skemmtilegra. Í Biblíunni er þráður sem er rauður og birtist greinilegast í Jesú Kristi. Þegar fólk tekur Biblíuna og les með áfergju verður undur.

Flestir þrá og leita andlegrar fullnægju. Á hverjum degi bylja á fólki öldur upplýsinga og alls konar staðreynda. Á sama tíma líður það fyrir skerandi fátækt hvað varðar djúpa og merkingarbæra reynslu. Við búum við ofgnótt fræðslu en fátækt merkingar. Fólk kallar á guðsreynslu. Reynslan af Guði er persónuleg reynsla. Biblían þjónar fólki í þeim efnum af því Biblían er klassík sem virkar.

http://tru.is/postilla/2011/02/klassik

Fegurðaraukinn í Neskirkju – fasta

FastaFólk sefur betur, fær fallegri húð, einbeiting batnar, lyfjanotkun margra minnkar. Sum sem hafa liðið fyrir of háan blóðþrýsting gleðjast yfir lækkun þrýstings og önnur sem hafa liðið fyrir giktarsjúkdóma eða exem skána mikið Hvað er það sem gerir fólki svo gott? Það eru fösturnar í Neskirkju. Fastan er ekki kúr – heldur námskeið til að kenna fólki nýjar heilsuleiðir. Þegar fólk tekur þátt í föstuhóp fær það stuðning til að halda sér á heilsuveginum. Þátttakendur komast að því hvað það tekur líkamann ótrúlega stuttan tíma að snúa vanlíðan í vellíðan.

Næsta námskeið hefst 25. Febrúar og stendur til 12. Mars. Höfundur fræðsluefnis er Jóhanna Vilhjálmsdóttir sem m.a. er kunn af metsölubókinni Heilsubók Jóhönnu. Stjórnendur námskeiðsins eru hjónin Elín Sigrún Jónsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson. Á föstutímanum verður matreiðslunámskeið, veitt næringarráðgjöf, deilt mataruppskriftum, frætt um eðli og tilgang föstunnar, kyrrðardagur og vinnustofa um persónulega stefnumótun. Skráning á es@elinsigrun.is

Það er ljómandi að sækja sér fegurðarauka í Neskirkju! Og það er líka aukabónus að léttast þótt það sé ekki aðaltilgangur föstunnar. Aðalatriðið er að þú njótir gæða og lífs – kirkjan stendur með þér og erindi kirkjunnar varðar gott líf – líka þitt.

Bókstafshyggja eða…?

Ein leið til að lesa Biblíuna er bókstafshyggja. Hún hefur lítinn áhuga á túlkun og táknrænum boðskap og leitar fremur að óskeikulli leiðsögn. Bókstafstrú hefur lítið umburðarlyndi gagnvart því, að samfélag og gildi hafi breyst og sér í siðfræði fornaldar boð um líferni og skyldur kristins manns í nútíma. Lúthersk kirkja fer aðra leið og hefur lagt áherslu á, að Biblían skuli lesin út frá persónu og lausnarverki Jesú Krists og boðskapur hennar túlkaður í ljósi reynslu manneskjunnar. Þannig þjónar Guðs orð velferð og frelsi manneskjunnar og líka hvernig við umgöngumst hvert annað og förum með gæði heims, líka náttúruna. Við eigum að taka Biblíuna alvarlega en ekki bókstaflega. Túlkun Biblíunnar í samtíma varðar, að orð hennar veki líf og verndi. Biblían er ekki handbók um siðferði, heldur farvegur lifandi orðs Guðs.

Pétur Pétursson – minningarorð

Vonarskarð, ævintýraveröld, hjarta hálendisins. Pétur var frjáls á fjöllum, opnaði þar vitund og sálargáttir. Naut þess að gera ekkert annað en að upplifa – dást að samspili forms og lita, lesa landið, vita af meigineldstöðvunum, horfa til Tungnafellssjökuls eða Bárðarbungu, reyna að sjá fyrir sér landnámsmanninn á ferð með búsmala úr Bárðardal fyrir norðan – um Vonarskarð – og að Núpum sunnan jökla. Í Vonarskarði eru vatnaskil – og hægt að fara til norðurs eða suðurs – opin veröld.

Pétur upplifði fegurð í eyðimörk hálendisins, veðurstillu háfjallanna, naut litasterkjunnar í mosagrænku eða útfellingum hverasvæðisins. Honum þótti gott að liggja á bakinu í heitri lind og leyfa sólinni að kyssa sig. Svo kyssti fegurð himins og sköpunarverksins líka vin sinn Pétur Pétursson, ferðagarp og fagurkera. Og hann fór með varkárni og virðingu í helgidóma Íslands og heims.

Vonarskarð – öll förum við um einhver Vonarskörð. Hvaða lífsleið velur þú? Þú átt val í ferðamálum þessa heims en annars einnig. Hver eru þín vonarmál?

Ætt og uppruni

Pétur Pétursson fæddist að vetri, 11. janúar árið 1963. Foreldrar hans voru Hjördís Ágústsdóttir og Pétur Guðmundsson. Hjördís lifir en Pétur, faðir hans, er látin. Pétur var yngstur systkina sinna. Hin systkinin eru Anna Sigríður, Guðmundur Ágúst, Sturla og Bryndís og lifa öll bróður sinn.

Fjölskyldan bjó fyrstu árin í Vesturbænum en þegar Pétur var um það bil að hefja skólagöngu flutti hópurinn inn í Fossvog. Pétur fór því skólana sem þjónuðu Bústaðahverfinu og tók þátt í því fjölbreytilega lífi sem það hverfi bauð til á áttunda og níuna áragug síðustu aldar. Pétur átti í sér kyrru og sótti snemma í bækur. Bókástin fylgdi honum alla tíð. Á unglingsárum þegar hann átti einhverja aura kom Pétur fremur heim með bók en buxur ef hann mátti ráða.

Eftir grunnnámið fór Pétur síðan í Menntaskólann í Reykjavík, átti farsæl og gleðirík menntaskólaár og lauk stúdentsprófi frá MR. Áhugaefnin voru ýmis og hæfileikarnir margir. Með stúdentsskírteinið í höndum var Pétur í einu af vonarskörðum lífsins. Hann gat farið í hverja þá átt sem hann vildi. En svo tók hann stefnu – og fór í viðskiptafræðina í Háskóla Íslands og lauk þaðan BA námi. Pétur var alla tíð marksækinn og íhugaði framhaldið – og tók stefnu á Kaupmannahöfn og lauk meistaraprófi þar. Honum leið vel í Danmörk, var hrifinn af Kaupmannahöfn, skólanum og menningunni. Engir voru jöklarnir og engin fjöll en Pétri leið þó vel og stóð sig framúrskarandi vel í námi. Svo framúrskarandi – að í ljós kom að Pétur vann til verðlauna. Hinum hógværa manni þótti gott að hafa staðið sig svo vel að ástæða væri til að verðlauna hann.

Svo fór Pétur heim og réði sig til starfa hjá Innkaupastofnun ríkisins. Þar leið honum ágætlega í starfi, var metinn og virtur. Svo vildi hann leita á ný mið og stórfyrirtæki var honum nægilega mikil ögrun til að breyta til. Hann varð innkaupastjóri hjá Landsvirkjun frá árinu 2006 og blómstraði í starfi. Og ég hef séð falleg ummæli um framlag Péturs til Landsvirkjunar og samskipta við fólk á þeim vinnustað.

Ég hef verið beðinn að færa þessum söfnuði kveðju frá Þórarni Inga sem er í Noregi og kemst ekki til þessarar útfarar.

Jóna Björk

Svo var það ástin í lífi hans. Hvergi leið Pétri betur en í óbyggðum. Það er við hæfi að þau Jóna Björk Jónsdóttir sáust og kynntust á fjöllum. Pétur bar virðingu fyrir fræðum konu sinnar, líffræðinni og jarðfræðinni. Þau voru sálufélagar, afar náin og umhyggjusöm við hvort annað. Þau fóru víða, hlupu gjarnan á fjöll, garpar, næm og kát. Jóna Björk veitti Pétri innsýn í sveitalífið og Skaftfellingarnir tóku hann í sinn hóp. Sambúð þeirra var ekki löng en góð. Svo þegar Pétur veiktist vakti Jóna Björk yfir hverju skrefi og velferð Péturs – allt til enda. Lof sé henni.

Minningarnar

Hvernig var Pétur? Hvernig minningar þyrlast upp þegar hann er farinn? Hvað kemur upp í huga þinn?

Manstu hve skipulagður hann var? Hvernig hann tók áskorunum, vildi ögra sjálfum sér en vildi þó hafa stefnuna á hreinu og hvernig ætti að ná markinu?

Manstu óbyggðaelsku Péturs? Raunar voru jöklar í uppáhaldi hjá Pétri enda fáir sem ganga yfir Grænlandsjökul sem ekki hrífast af stórveröld hinnar köldu fegurðar.

Manstu hvernig hann vildi hafa gott yfirlit sinna verka? Félagar Péturs á Grænlandsjökli vissu að hann var forsjáll og aðgætinn og ganga mátti að því vísu að ef einhver hefði gleymt einhverju smáræði hafði Pétur ekki flaskað á slíku.

Og þegar Pétur var að hugsa um að kaupa einhvern hlut var það ekki gert í óðagoti eða vanhugsað. Hann skoðaði, las sér til, kannaði og rannsakaði og þegar hluturinn var keyptur vissi hann allt sem vert og þarft var að vita. Og handbækurnar kunni hann líka á. Þegar hann keypti rauða Wranglerinn frá Ameríku vissi hann nákvæmlega hvers konar gripur kæmi og í hverju hann væri frábrugðin hinum útgáfunum.

Manstu hversu auðvelt honum var að fara í fjallgöngu? Og að hann fór gjarnan í göngu þegar eitthvað var mótdrægt. Eða þegar hann var þreyttur – þá hljóp hann á Esjuna!

Manstu hve Pétur var víðlesinn og fróður? Hann var ekki bara góður í innkaupum, þróun peningamála eða viðskiptum. Hann gat sest með vinum sínum eða mömmu og túlkað vel persónur eða viðburði í Njálu eð einhverri skáldsögu Charles Dickens. Hann var upplýstur og glöggur, hélt sínu fram með rökum og hlustaði á mótrök.

Og manstu fagurkerann? Hann hafði auga fyrir og hreifst af því sem var fagurt. Og næm tilfinning fyrir gæðum litaði afstöðu og uppifun. Gæði frekar en magn er góð lífsstefna og var sem iðkunarstefna Péturs. Hann keypti gjarnan vönduð föt og gallabuxurnar hans voru ekki keyptar af því að þær væru með Armanimerki – heldur af því hann mat gæðin mikils. Búshlutirnar hans voru vandaðir – og eldhúsgræjur Péturs voru góðar. Hann hafði áhuga á hönnun og sjónlistum. Hann hafði skoðanir og áhuga á hvernig hús voru skipulögð og gerð og hefði líklega orðið góður arkitekt. Og Pétur var líka fagurkeri í matarmálum.

Pétur var yngstur systkina sinna og lærði að taka tillit til annarra og var umhugað um velferð samferðafólks síns og beitti sér í þeirra þágu. Hann sá þegar skór móður hans voru orðnir lúnir og þá tók hann sig til og stífburstaði þá. Manstu eftir hvað hann tók vel eftir líðan fólks, var umhugað um velferð og var tillitssamur? Jafnvel í dauðanum var hann með huga við að liðsinna fólki og efla velferð annarra. Hann átti því trausta vini.

Mannstu gæði Péturs, áhugamál hans og gáfur? Manstu hve hann var sjálfum sér nógur? Hann gat vel verið einn og kunni því raunar vel því hann þurfti tíma til að sinna lestri, íhugun og innri vinnu – eða einfaldlega að hlusta á útvarpið í ró og friði. Góður maður með sterka sýn, átti góða vini.

Manstu æðruleysi, dugnað og stillingu Péturs sem einkenndu hann alla tíð. Í mestu átökum kemur í ljós hvaða mann menn hafa að geyma. Hjúkrunarfólkið á sænskum spítala undraðist þann ofurstyrk sem bjó í Pétri og blasti við öllum þegar hann glímdi við veikindin og lífslok. Þau dáðust að honum og afstaðan til lífsins og ástin til lífsins má verða okkur til blessunar og hvatningar.

Vonarskarð eilífðar

Og nú eru skil. Hvaða minningar ætlar þú að varðveita um Pétur? Veldu vel og farðu vel með minningarnar. Nú ræðir hann ekki lengur um bók sem hann var að lesa. Þú getur ekki treyst því að upp úr bakpokanum hans komi aukareim ef þín slitnar á fjöllum. Hann hoppar ekki kátur af stað upp á næsta fjall eða fleytir kajak á Langasjó. Hann borðar engar góðar ólífur lengur og hann mun ekki framar liggja á bakinu og brosa alsæll í laug í Vonarskarði.

Pétur var skipulagður og marksækinn. Og þannig er Guð líka. Veröldin er ekki jökulsprunga sem við dettum í heldur lifandi ævintýri – veröld ástar og umhyggju. Þegar við deyjum megum við falla inn í veröld og fang Guðs. Það er skipulag í ferðalagi veraldarinnar, ferðum mannanna. Þar eru engar ógöngur!

Nú eru vatnaskil. Pétur er komin í Vonarskarð himinsins. Þar ber jökul við loft og jörðin, lífið og mennirnir fá hlutdeild í himninum. Þar ríkir fegurðin ein.

Guð geymi minningu Péturs Péturssonar og Guð geymi þig.

Amen

Minningarorð í útför Péturs sem fór fram í Fossvogskirkju, 17. febrúar, 2014.

Hönnuð saga

ummyndunTrúir þú virkilega svona sögu um “ljósashow” upp á fjalli í fornöld? Er þessi ummyndunarsaga ekki bara skröksaga, bull sem þjónaði því hlutverki að blekkja auðtrúa fólk? Er ekki eðlilegast að efast um ótrúlega Jesúsögu?

Efi og túlkun

Hvað með efann? Viltu hugsa rökrétt – líka í málum Jesú, Biblíu og trúar? Efinn og trúin eru ágætar systur og líka vinir þegar viskan ræður. Í vökulum heila pælir efinn þann akur sem ber góða ávexti heilastarfseminnar. Efinn greinir, gagnrýnir og leitar þekkingar. Heilbrigð trú hræðist ekki efann, heldur gleðst yfir getu hans og tekur þátt í að kanna túlkanir, möguleika, nýjar hugmyndir um það sem máli skiptir. En hvað um Biblíuna? Eigum við að trúa sögum hennar eins og fréttum af mbl, guardian eða bbc?

Það er skynsamlegt að skoða Biblíuna með velviljaðri gagnrýni og spyrja: Hver eru skilaboðin? Getur þessi ræða eða saga kryddað líf mitt í allt öðrum aðstæðum en til forna? Biblíuna þarf að lesa með köldum en opnum huga og trúarlærdóma þarf að skoða í sögulegu samhengi. Kirkjustofnun er ekki og má ekki vera óbreytanleg. Forn heimsmynd og úreltir samfélagshættir eru ekki aðalmál trúarinnar.

Ég álít að allt sem tengist trú og trúariðkun eigi skoða með opnum huga. Ekkert undanskilið. En ég trúi og þótt ég meti skynsemina, heilann, efann og gagnrýnina mikils trúi ég á Guð. Ég upplifi að Guð er upphaf mitt, tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, í frumum líkamans, hrifningu daganna – faðmlögum ástvina minna og furðum heimsins. Og ég álít, alveg í samræmi við hefð okkar Vesturlandamanna allt frá tíma Immanuel Kant og upplýsingarinnar, að við skoðum veröldina út frá ákveðnum forsendum og með „rósrauðum“ gleraugum.

Við erum takmörkuð og túlkun okkar á raunveruleikanum er alltaf takmörkuð og hið sama gildir um hið trúarlega. Túlkun á hinu guðlega verður ekki annað en ágiskun og tilraun til að tjá hið ósegjanlega, t.d. með hjálp líkinga, frásagna og vísana. Við trúmenn berum Guði vitni en tölum um samskiptin við Guð með hjálp dæma, sagna og hliðstæðna úr heimi manna. En skyldi Guð verða reiður yfir þeim óbeinu og ónákvæmu lýsingum? Nei, ekki frekar en við foreldrar pirrum okkur ekki á börnum okkar þegar þau eru að læra að tala. Guð gleðst vonandi yfir tilraunum okkar. Og Guð stressar sig – held ég – ekki yfir óvitaskap okkar manna þegar við gerum okkur fávíslegar hugmyndir um Guð.

Reynsla kallar á form frásagnar

En þessi ótrúlega saga af fjallinu? Hvað heldur þú að þessi ljósagangur þýði? Og til hvers þessir zombíar sem allt í einu birtast? Já, sagan af fjallinu er furðuleg. Hún er kölluð ummyndunarsagan enda ummyndaðist eða umbreyttist Jesús Kristur.

Eitthvað gerðist? En hvað? Hvernig á að segja frá því sem enginn annar hefur upplifað? Þegar fólk upplifir eitthvað mjög sérstakt er því vandi á höndum. Stundum segir fólk mér sögur sem það segir engum öðrum en mér, prestinum, og alls ekki kunningjum eða fjölskyldu. Fólk segir ekki sögur ef það á von á því að sá kvittur fari á kreik að það sé orðið kúkú, andlega bilað. Fólk er viðkvæmt fyrir orðspori sínu. Svo var í fornöld einnig. En í öllum menningarkimum verða til mynstur eða leyfilegar fyrirmyndir um hvernig sagt er frá hinu sérstæða eða ótrúlega. Hefðir marka ramma hins leyfilega og einnig mystur orðræðu.

Tákn og saga

Þeir voru fjórir á ferð, Jesús, Pétur, Jakob, Jóhannes og puðuðu upp á fjall. Þar gerðist eitthvað dularfullt. Áhorfendum þótti eins og aðrir kæmu til fundar og komumenn væru ekki af þessum heimi. Félagarnir brugðust við, þeir túlkuðu söguna í anda hefðarinnar og héldu að komnir væru frægir karlar úr fortíðinni, Móse og Elía. Það væri svona álíka og ef við værum að klífa Esjuna og allt í einu væru komnir þar til fundar við okkur Jón Sigurðsson og Snorri Sturluson. Í einhverju kasti – væntanlega stresskasti – býðst lærisveinn til að tjalda fyrir meistara þeirra og komumennina einnig.

Öll sagan er samsett táknum og táknmáli. Þeir voru á fjalli. Móse fékk lögfræði Ísraels á fjalli eins og Íslendingar fengu sín lög í fjallasal. Fjall er tákn um hið guðlega. Þessir nafngreindu foringjar og fyrirmyndir Ísraelssögu, Móse og Elía, eru tákn um lög, hefð og sögu. Að þeir komu til fundar þjónar hlutverki gjörningsins til að opna nýja skynjun, tilfinningu og túlkun. Jesús er hinn nýji sem tekur við og umbreytir hebreskri hefð og sögu. Svo voru postularnir samverkamenn sem tóku við og túlkuðu. Þeir brugðust við en skildu ekki, voru mannlegir, en þrátt fyrir flónskuna var þeim samt treyst til að hlusta á, meðtaka og endurflytja.

Þrennan – rosi, sýn og skilaboð

Til að skilja sérstæða sögu er mikilvægt að þekkja bókmenntalegt mynstur hennar og gerð og hlutverk í menningarheimi fornaldar. Það er þarft að greina milli þriggja tegunda af sögum sem tjá birtingu hins yfirskilvitlega. Ein hefur einkenni rosa, önnur varðar sýn og sú þriðja hefur skilaboð – rosi-sýn-boð.

Þeófaía – rosinn

Í fyrsta lagi eru guðsbirtingarsögur rosans, sem tjá komu eða návist Guðs með hjálp náttúruhamfara – t.d. jarðskjálfta, þrumuveðurs og öðru í þeim dúr þó guðinn sjáist ekki í eigin persónu. Þetta eru þeófaníurnar – dramatísku guðsbirtingarnar – sem tjá einfaldlega að Guðinn er nálægur. Þær sögur lýsa hughrifum fólks og oft miklum ótta við nánd hins ógurlega guðs. Ummyndunarsagan sem segir frá í Matteusarguðspjalli er ekki slíkrar gerðar. Þar eru engar náttúruhamfarir. Stíllinn er annar.

Sýn – hið sjónræna

Í öðru lagi eru sögur um sýnir. Sögur um sýnir greina jafnan frá útvöldum hópi fólks sem fær að sjá eitthvað sem er ekki vanalegt í mannaheimi. Fólk sér eitthvað óvenjulegt sem ber fyrir augu – en ekki er miðlað neinni sérstakri þekkingu eða skilaboðum. Vissulega er sýn í ummyndunarsögunni en í þessari sögu er talað og skilboðum er komið áleiðis til þeirra sem upplifðu. Saga dagsins er því ekki sýn af tagi birtingarsögu.

Skilaboðasögur

Þriðja gerð guðsbirtinga eru skilaboðasögur og sem segja frá skyndilegri og óvæntri guðsbirtingu sem einhver eða einhverjir útvaldir verða fyrir. Mikilvægum boðskap er komið á framfæri og skilaðboðin eru heyranleg. Þannig saga er ummyndunarsagan. Skilaboðin eru um persónu og hlutverk Jesú Krists sé og hvaða afleiðingar það hafi. Því er sagt sem svo: Hlustið á hann, takið eftir því sem hann segir. Það eru skilaboðin. Ummyndunarsagan er um skilaboð Guðs til manna. Móse og Elía þjóna aðeins hlutverki dýpkunar. Þeir eru aukapersónur og gefa samhengi en táknum en aðalpersónan er hinn nýji fulltrúi Guðs, Jesús Kristur. Merkingin er að við eigum ekki að staldra við lögmál fortíðar heldur elskuboðskap guðssonarins. Rödd úr guðsvíddinni tjáir: Jesús Kristur er Guðsfulltrúinn – hlustið á hann og hlýðið honum.

Boðskapurinn mótar og knýr á

Og hverju getum við þá trúað? Er þetta skröksaga? Þegar við erum búin að greina söguna kemur í ljós að hún er færð í stílinn vegna þess að sagan er umgjörð um ákveðin skilaboð. Hún hönnuð saga, lituð með ákveðnu móti, með ákveðnum atriðum og í ákveðnni fléttu. Þú mátt hafa allar heimsins skoðanir á hvort sagan hafi tekist eða ekki, hvort hún er trúleg eða ekki, hvort hún er leiðinleg eða skemmtileg en skilaboðin eru skýr. Boðskapurin er að Jesús Kristur sé trúverðugur, áheyranlegur og ákjósanlegur. Spurningin er ekki hvort sagan sé bull og skröksaga heldur hvort Jesús Kristur sé fulltrúi Guðs eða ekki. Trúir þú því – með efasemdum og mannlegum breiskleika þínum? Þar er efinn og þar er trúin.

Neskirkja 9. febrúar, 2014.

Textar síðasta sunnudags eftir þrettánda A-röð

Lexían er úr 5. Mósebók

Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna. Á hann skuluð þið hlýða. Fyrir þá mun ég láta fram koma spámann slíkan sem þú ert úr hópi bræðra þeirra. Ég mun leggja honum orð mín í munn og hann mun boða þeim allt sem ég býð honum. Og hvern þann sem ekki hlýðir á þau orð, sem spámaðurinn flytur í mínu nafni, mun ég sjálfur draga til ábyrgðar.

Pistillinn er úr 2. Pétursbréfi

Þess vegna ætla ég mér ávallt að minna ykkur á þetta enda þótt þið vitið það og hvikið ekki frá sannleikanum sem þið nú hafið öðlast. Ég álít mér líka skylt, á meðan ég er í þessari tjaldbúð, að halda ykkur vakandi með því að rifja þetta upp fyrir ykkur. Ég veit að þess mun skammt að bíða að tjaldbúð minni verði svipt. Það hefur Drottinn vor Jesús Kristur birt mér. Ég vil einnig leggja kapp á að þið ætíð eftir burtför mína getið minnst þessa. Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans. Því hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ Þessa raust heyrði ég sjálfur koma frá himni þá er ég var með honum á fjallinu helga. Nú getum við enn betur treyst orði spámannanna. Það er rétt af ykkur að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín á myrkum stað þangað til dagur ljómar og morgunstjarnan rennur upp í hjörtum ykkar. Vitið það umfram allt að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.

Guðspjall úr Matt. 17.1-9

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“