Má bjóða þér kyrrð?

DSC01012Í janúar var kyrrðardagur í Neskirkju og þátttakendur hvöttu til að annar kyrrðardagur yrði haldinn. Og næsti kyrrðardagur verður haldinn 29. mars. Kyrrðardagur er dekurdagur fyrir sálina og öllum opinn. Dagskrá hefst kl. 10 árdegis og lýkur um kl. 15,30. Sigurður Árni Þórðarson, Neskirkjuprestur, stýrir þessum kyrrðardegi.

Kyrrðardagur í borg er knappari en margir dagar á kyrrðardagasetri. Á dagskrá eru íhuganir um skeið æfinnar og farnar verða tvær gönguferðir, önnur með Ægisíðu og hin í Hólavallagarð. Öllum er frjáls og ókeypis þátttaka. En veitingar þennan dag kosta kr. 1500.

Hvernig væri að bregða sér á kyrrðardag í Neskirkju? Skráning er með netpósti á s@neskirkja.is eða í s. 511 1560. Öll sem hafa áhuga á rækt hins innri manns og andlegri heilbrigði eru velkomin.

 

Edda S. Erlendsdóttir – minningarorð

4551sh(10x15)Edda var hetja. Hún tók viðburðum lífsins með styrk, ljúflyndi, þakklæti og elskusemi. Hún var hetja í baráttu við sjúkdóm sem sótti að henni innan frá, dró úr henni mátt, lamaði hana smám saman og af miskunnarlausri hægð. Hetja – andlegur styrkur Eddu var ótrúlegur og aðdáunarverður. Hvaðan kemur okkur hjálp í aðkrepptum aðstæðum? Að innan og ofan. Og öflugt fólk verður okkur fyrirmynd til góðs.

Uppruni og ætt

Edda S. Erlendsdóttir fæddist á Eiðstöðum við Bræðraborgarstíg í Reykjavík, þann 25. september 1947. Faðir hennar var Erlendur Ó. Jónsson. Hann var farmaður og þjónaði Eimskip, fyrst sem stýrimaður og síðar sem skipstjóri. Móðir Eddu var Ásta M. Jensdóttir, húsmóðir. Þau hjón voru alla tíð afar náin, leikandi ástrík við hvort annað og eins og splunkunýtt kærustupar til hinstu stundar. Edda ólst því upp við hlýju og elskusemi. Hún var einbirni í nokkur ár, en svo fæddist yngri systirin Ólína í febrúar árið 1955. Þær systur voru nánar og Edda varð Ólínu sem fyrirmynd og saman áttu þær samheldna fjölskyldu sem ræktaði tengslin vel til hinstu stundar.

Foreldrar Eddu, Ásta og Erlendur, hófu hjúskap í Norðurmýri en fluttu síðan vestur í bæ og bjuggu á Neshaga 13. Edda fór því fyrst í Austurbæjarskóla og síðan í Hagaskóla. Heimilislífið var líflegt, bæði þegar pabbinn var á sjó – en einnig þegar hann kom heim. Þá var bara enn gleðilegra að vera til. Edda, Ólína og mamman guldu ekki fyrir farmennsku pabbans – heldur nutu með margvíslegum hætti. Þær fóru t.d. með Erlendi í túra, hvort sem siglt var á Ameríku eða Evrópu. Og þegar Gullfoss brann í Kaupmannahöfn 1963 var Erlendi falið að vera í Höfn og líta eftir viðgerðinni. Þá voru þær dömurnar með  – voru fyrst á hóteli og síðan um borð meðan viðgerð lauk. Þær urðu Kaupmannahafnardömur og kunnu sig.

Þau Einar Páll Einarsson kynntust í Vesturbænum ung að árum. Hann ólst upp á Lynghaganum. Hagaskóli hefur ekki aðeins verið skóli bóknáms heldur vermireitur kynna og tengsla, sem hafa skilað mörgu og miklu til lífsins. Samband þeirra Palla styrktist og sambúð var skipulögð. Edda fór í Hússtjórnarskóla Reykjavíkur og hann lærði rafvirkjun og varð meistari í sinni grein. Þau gengu í hjónaband þann 3. október 1970 við altarið hér í Neskirkju. Ungu hjónin fengu inni á Neshaganum og bjuggu í risinu hjá foreldrum Eddu en fluttu síðar á Lynghaga 15.

Þau Edda eignuðust tvo syni. Þeir eru Erlendur Jón og Steingrímur Óli. Kona Erlends er Anna Kristín Scheving. Þau eiga dótturina Eddu Steinunni og annað barn er í kvið og er væntanlegt innan tíðar! Önnur börn Önnu Kristínar eru Hildur Björk og Marinó Róbert.

Kona Steingríms er Birna Dís Björnsdóttur. Dætur þeirra eru Maríanna Mist og Rebekka Rut. Fyrir á Steingrímur soninn Dag Snæ.

Fólkið hennar Eddu stóð henni ávalt nærri hjarta. Hún hafði mikla gleði af drengjum sínum, tengdadætrum og ömmubörnum. En hjónabandið trosnaði og Edda og Páll skildu árið 1988.

Vinna – kveðjur – þakkir

Auk heimilisiðju og sonauppeldis starfaði Edda við skrifstofu- og afgreiðslustörf í Reykjavík. Hún vann við bókhaldsstörf á Vegamálaskrifstofunni og síðan hjá Vita- og Hafnarmálastofnun í Reykjavík – þar til hún gat ekki lengur starfað utan heimilis vegna veikinda sinna. Edda bjó lengstum í vesturbæ Reykjavíkur en fluttist í Sjálfsbjargarheimilið fyrir tæpum sjö árum. Hún lést á heimili sínu í Hátúni 12 þann 2. mars 2014.

Við skilin sem eru orðin biðja nokkur fyrir kveðjur til þessa safnaðar –  Nína í Danmörk, Margréta Ásta í Berlín og Styrmir Örn í Amsterdam. Þórdís Richter biður einnig fyrir kveðju sína. Fjölskylda Eddu þakkar starfsfólki í Hátúni fyrir góða umönnun og ljúft viðmót.

Lúta eða lifa

Hvernig var Edda? Hvað kemur upp í hugann? Hvaða minningar dekrar þú við í huganum? Meira en hálfa æfina glímdi Edda við MS – en alla æfi var hún lífsins megin. Hún stóð með lífinu og er því okkur fyrirmynd um hvernig hægt er að bregðast við með styrk og hetjuskap í kreppu eða erfiðleikum. Hvað gerum við þegar áföll skella á okkur? Þá verða kostirnir kannski heldur fáir og jafnan aðeins tveir. Að lúta eða lifa – að bíða ósigur eða glíma við áfallið, sorgina eða meinið. Edda ákvað að lifa og alla æfi lifði hún fallega – já hún var hetja.

Lífsins megin

Í sögu Eddu er brot af eilífðinni. Í viðbrögðum sínum kennir Edda okkur mikið um lífið og Guð. Saga hennar byrjaði undursamlega. Hún átti hamingjuríkt upphaf, naut ástríkis foreldra og fjölskyldu, elskaði og naut tengsla við bónda og drengi. Hún naut hæfileika sinna í störfum og einkalífi. Það var fyrri hálfleikur lífs hennar. Svo hófst seinni hlutinn og allt í einu byrjaði dofinn að læðast um líkama hennar og líf. Ekkert var lengur gefið og margt brást í lífi Eddu – en ekki hún. Hún var sem engill, fulltrúi alls þess besta sem til er.

Saga hennar er endurvarp sögu Guðs og lífsins. Heimurinn byrjaði vel, allt var gott. Það var fyrri hálfleikurinn. Svo kom áfallið og allt var breytt. Guð brást ekki, laut ekki heldur elskaði og vann með meinið allt til enda. Sigur lífsins yfir dauðanum er mál páskanna, boðskapur um að allir sem eru fjötraðir verði leystir, ef ekki í þessum hálfleik lífsins – þá í næstu lotu sem heitir eilíft líf.

Minningarnar

Edda – hetja lífsins. Hvernig manstu hana? Manstu brosið hennar, gáskann? Manstu hvernig hún gat gert grín að sjálfri sér og meinum sínum? Með vinum sínum gat hún hlegið í hinu hláturmilda Kvikindismannafélagi sem var stofnað fyrir kátínuna. Manstu hið góða geðslag Eddu?

Manstu hve sjálfstæð og sjálfri sér nóg hún var? Hún miklaði ekki fyrir sér að skjótast á hjólastólnum hvert sem var. Hún fór að heiman og um langan veg – inn með Skerjafirði, út á Nes og upp í Háskólabíó. Hún var ekki í neinum vandræðum með sjálfa sig. Fyrirstöður urðu henni tækifæri en ekki hindranir. Líf hennar var ekki hálftómt glas heldur hálffullt. Hún sýndi hetjumátt sinn í dugnaði daganna. Hún er okkur fyrirmynd um afstöðu til lífsins. Að lúta ekki heldur lifa!

Já, Edda magnaði ekki vandamál heldur leysti þau. Hún var útsjónarsöm og skynsöm. Hún greiddi úr flækjum en bjó þær ekki til. Því átti hún ánægjuleg samskipti við fólk – hafði gott lag á að bæta mál og sjá leiðir, sem öðrum hafði ekki auðnast að greina eða uppgötva. Þetta er að velja ljósið fremur en myrkrið. Getum við eitthvað lært af Eddu í því?

Og svo var Edda þessi líka fíni kokkur. Og hún naut þess að barnabörnin hennar náðu að upplifa hve hún var flínk. Þegar Dagur, sonarsonur hennar var lítill og Edda amma passaði hann bauð hún honum að panta pitsu. Nei, hann vildi heldur fá plokkfiskinn hennar ömmu og helst bjóða vini sínum í mat líka! Og þá vitum við það: Plokkarinn hennar Eddu sló öllum pitsum heimsins við! Hvernig var þá allt hitt sem Edda eldaði?

Manstu hve glöð hún var, þakklát fyrir það sem henni var gefið og allt það sem aðrir voru henni? Er hún ekki fyrirmynd í því einnig? Lífið er gjöf, “lán” okkar er lán. Og fyrir allt jákvætt og gott megum við þakka. Það kunni Edda.

Manstu eftir listfengi Eddu og handbragði? Áttu eitthvað sem hún prjónaði – eða kannski sængurföt frá henni, laglega hönnuð, þrykkt með fallegum skýjum á svæfilveri og sængurveri? Handavinnan hennar var falleg og bar sköpunarvilja og hæfni hennar gott vitni.

Inn í himininn

Nú er hún farin. Nýr kafli hefur opnast henni. Edda – formóðir – um innræti og afstöðu til lífsins. Edda – móðir minninga um lífið. Nú er hún ekki lengur bundin. Fjötrarnir eru fallnir, tilfinningin komin, skerpan er alger og krafturinn óbilaður. Hún er frjáls að nýju. Edda er komin inn í þann heim þar hún fær að vera í samræmi við upplag, mótun og vonir.

Þetta má segja og því má trúa að hin kristna saga endar aldrei illa heldur vel. Kristin trú varðar ekki að lúta heldur lifa. Allt líf er endurvarp hinnar miklu sögu að Guð elskar allt og alla. Og því er líf okkar ekki dimmt heldur baðað ljósi – líf frelsis, krafts, ódofinna tilfinninga, gleði og vonar. Veröld Guðs er góð.

Guð geymi Eddu.

Guð geymi þig.

Amen

Minningarorð í Neskirkju 12. mars, 2014.

Bálför, jarðsett í Fossvogskirkjugarði.

Hilmar Sævald Guðjónsson – minningarorð

Hilmar S H 445aAutt og óskrifað blað er ögrandi og jafnvel krefjandi. Hvað á að skrifa og hvað er hægt að teikna? Óskrifað blað er hreinn veruleiki – allra möguleika. Hvernig verður svo teiknað eða ritað? Verða pensilstrokurnar léttar og túlkandi – eða vondar og særa augu? Verður það sem fært verður á blað hrífandi eða meiðandi? Að skrifa og teikna er ekki sálarlaust handverk heldur krefst ögunar, alúðar, meðvitundar, samstillingar huga og handar og jafnvel líka ástríðu. Það er hrífandi að skoða myndir Hilmars – hvernig hann reyndi að láta pensil eða krít líða átakalaust yfir örkina til að draga fram svífandi línur, eðlileg form, skugga og birtu svo úr yrðu þokkafullar myndir af fólki. Og þessar frjálsu en öguðu línur og strokur vekja tilfinningaviðbrögð. Teikningar Hilmars tjá vel listfengi hans og hæfni.

Hvernig teiknaði Hilmar sína eigin mynd inn í líf ykkar? Hvaða mynd dró hann af sér inn á glugga minninga þinna? Hilmar lifði í þágu fólks, fjölskyldu og vina. Hann lifði í þjónustu við aðra og notaði hæfni sína og list til eflingar öðrum. Vegna hógværðar og umhyggju varð Hilmar farvegur gæsku. Hann þjónaði og kunni listina að lifa fallega.

Þegar við hugsum um fólk – gott fólk – sjáum við oft lífið í stærra samhengi og skynjum jafnvel spor eilífðar. Gæska í tíma vekur vitund um hið stóra og mikilvæga. Hendi Hilmars með pensil og örk er mynd af skapara og verðandi. Til hvers að skapa? Til að efla lífið. Til hvers að draga upp myndir? Til að gleðja og efla. Til hvers er list? Til hvers lifum við sem menn? Hlutasvörin eru að list og einstaklingur eru aldrei aðeins í eigin þágu – sjálfhverf og eigingjörn – heldur tengd hinu stóra. Og trúmaðurinn sér í allri framvindu heimsins að lífið hefur ekki bara smátilgang heldur fjölþætta merkingu, margbreytilega gleði, stórt samhengi – af því til er Guð sem elskar og þjónar.

Ætt og uppruni

Hilmar Sævald Guðjónsson fæddist í Reykjavík 27. janúar 1941. Móðir hans var Halla Sæmundsdóttir (f. 24. janúar 1918  d. 18. október 2013) og Guðjón Steingrímsson (f. 2. desember 1917, d. 12. apríl 1996). Guðjón lést fyrir nær 18 árum en milli Hilmars og Höllu voru aðeins fjórir mánuðir. Hún lést í október síðastliðnum. Foreldrar Hilmars, þau Halla og Guðjón, bjuggu ekki saman og Halla fór með Hilmar ungan og óskírðan norður til ættfólks hennar í Strandasýslu. Hún sendi svo tilkynningu suður síðar að hann drengurinn héti Hilmar – og reyndar var hann Sævald að auki.

Fyrir norðan kynntist Halla Jóhanni Snæfeld og giftist honum. Þau bjuggu á Hamarsbæli við Steingrímsfjörð. Af bæjarnafninu fékk Hilmar svo viðurnefndið Hilmar í Bælinu! Fóstri Himars, Jóhann, reyndist honum hinn besti vinur og fóstri.

Hilmar eignaðist marga bræður og systur og var elstur í stórum hópi systkina. Sammæðra á hann systurnar Bettý, Kolbrúnu og Báru – allar Snæfeld. Samfeðra á hann systkinin Magnús,  Steingrím, Sigríði, Ingólf og Kjartan. Þau lifa öll bróður sinn.

Mótun

Í Hamarsbæli komst Hilmar til manns, lærði að axla ábyrgð, þjóna fólki og lífi. Hann lærði að fara á sjó og sækja björg í bú, lesa tekningar í Popular Mechanics, vanda til allra verka og smíða stórt úr litlu. Strandamenn hafa um aldir smíðað báta og Hilmar vissi vel að hugur og hönd urðu að vinna saman og allt yrði að falla vel til að fleytan yrði góð. Hann gat því öruggur sjósett kajak sinn sem hann smíðaði ungur. Hann lærði einnig að aga innri mann og í fjölskyldu hans var höfð fyrir honum reglusemi, natni og heillyndi. Hann lærði einnig af ástvinum sínum að betra er að vera umtalsfrómur en leggja öðrum illt til. Svo lærði hann að gefa – og jafnvel of vel að betra er að gefa en þiggja.

Jóhann, fóstri Hilmars, sótti sjó og Hilmar fór í róðra um leið og hann hafi getu til. Á sjó var ekki bara fiskur og fegurð. Hilmar varð snemma góður skotmaður og þeir fóstrar skutu fugl til matar. Jóhann mundaði haglabyssu og skaut oft marga í skoti en Hilmar stóð í bátnum, dansaði limamjúkt í takt við ölduna og skaut svo markvisst og hratt að hann veiddi oft meira en sá sem skaut marga í skoti. Hilmar kenndi svo strákum sínum og jafnvel sonarsonum að skjóta. Engum sögum fer af skotum kvenna sem af Hilmari eru komnar!

Íbúum í Kaldrananeshreppi fjölgaði mjög um miðja tuttugustu öldina og skóli var byggður í Drangsnesi og var tekinn í notkun árið 1944. Í skólanum var bæði kennt og messað – og svo er enn. Í þennan fjölnota barnaskóla sótti Hilmar menntun sína.

Bændur í Hamarsbæli bjuggu ekki við fé heldur fisk og sjór var sóttur af kappi. Hilmar var því óbundinn af stað og búskap móður og fósturföður og frjáls til atvinnu. Steingrímsstöð við Sog var byggð á árunum 1957-60. Þar starfaði Guðjón, blóðfaðir Hilmars, og ungi maðurinn fékk þar vinnu einnig. Það varð til að þeir feðgar kynntust betur og áttu eftir að vera í talsverðum og oft miklum samskiptum síðan.

Eftir vinnu í Steingrímsstöð var Hilmari ljóst að gæfulegt væri að afla sér atvinnuréttinda. Og Hilmar hóf nám við Iðnskólann á Skólavörðuholti og lauk þaðan tækniteiknaranámi árið 1972. Um árabil starfaði hann síðan á verkfræðistofu Benedikts Bogasonar. Árið 1979 færði hann sig um set og gekk til liðs við stórfyrirtækið Phil & Sön í Kaupmannahöfn. Þar var hann tækniteiknari í þrjú ár. Hjá Benson innréttingum starfaði hann frá árinu 1982 og síðar við auglýsingagerð, innréttingahönnun og smíði.

Þegar í bernsku teiknaði Hilmar af miklu listfengi myndir af Hamarsbælisbátunum. Alla tíð var hann drátthagur, hafði áhuga á línum og teikningu. Og ástríðan til hins auða blaðs leiddi til að árið 1969 fór Hilmar á námskeið við Myndlistarskóla Reykjavíkur og naut leiðsagnar ýmissa meistara, m.a. Hrings Jóhannessonar – og fór svo að kenna sjálfur. Yfir fjörutíu ár var Hilmar síðan tengdur skólanum og naut þess að vera fullgildur þáttakandi þessarar merku listasmiðju og uppeldisreit. Auk þess að Hilmar kenndi teikningu um árabil sá hann einnig um viðhald, smíðar og breytingar. Eftir að hann varð fyrir heilsufarsáfalli fyrir liðlega áratug dró hann úr kennslu en þjónaði skólanum áfram með ýmsum hætti. Og í Myndlistarskóla Reykjavíkur lauk hann ævi og starfi. Þar varð Hilmar kvaddur burt úr heimi með skyndingu og fyrirvaralaust þann 11. febrúar síðastliðinn.

Hjúskapur
Hilmar kvæntist Ásthildi Sveinsdóttur, þýðanda, árið 1962. Þau skildu áratug síðar í vinsemd og stóðu saman vörð um hag sona sinna þriggja. Elstur er Pétur Sævald. Hann er viðskiptafræðingur. Kona hans er Margrét K. Sverrisdóttir, íslenskufræðingur. Þau eiga börnin Kristján Sævald og Eddu.

Síðan komu tvíburarnir Axel Viðar og Snorri Freyr.

Axel er verkfræðingur og kona hans er Ásdís Ingþórsdóttur, arkitekt. Dætur Axels og fyrri konu hans, Þórnýjar Hlynsdóttur, bókasafnsfræðings, eru Sunna og Álfrún. Börn Ásdísar eru Guðmundur og Linda.

Snorri Freyr er leikmyndateiknari. Kona hans er Ann Söderström, sem stundar nám í þjóðfræði. Dóttir þeirra er Hilda Sóley. Börn Snorra og fyrri konu hans, Láru Hálfdánardóttur, kennara, eru Skarphéðinn og Unnur.

Sambýliskona Hilmars var Jóhanna Thorsteinson,  kennari. Þau slitu samvistir en ekki vináttu.

Hilmar var drengjum sínum góður og natinn faðir. Hann hafði gleði af barnabörnum sínum, naut samvista við þau og að fræða þau. Hann föndraði með þeim, smíðaði og vakti yfir framvindu í lífi þeirra. Og svo var hann mikilvægur börnum Jóhönnu líka.

Ég hef verið beðinn að bera þessum söfnuði kveðju frá Ásthildi, fyrrverandi eiginkonu Hilmars, sem er á sjúkrahúsi og komst ekki til þessarar athafnar. Ennfremur hafa Kristinn Sæmundsson og Þorbjörg, kona hans, beðið fyrir kveðjur. Þá hafa Sjöfn og Auður, frænkur Hilmars sem eru erlendis, beðið fyrir kveðjur til þessa safnaðar. Einnig eru kveðjur frá frá Önnu Fanney Helgadóttur og Valdimar Jónassyni.

Myndirnar af Hilmari

Hilmar dró upp myndir. En hvaða mynd er dregin upp í huga þinn af Hilmari? Hvernig minnistu hans? Og hvað viltu muna og af hverju?

Manstu hve elskulegur hann var? Manstu hve bóngóður hann var? Sástu Hilmar einhvern tíma setja upp eldhúsinnréttingu? Kom hann jafnvel til þín til að hjálpa við að leggja partkett, smella upp gerektum og baðinnréttingu eða lagfæra skáp- eða dyrahurð, sem var orðin skekkt eða féll ekki lengur vel í fals? Hilmar hefur væntanlega ekki innheimt stórar upphæðir? Það var ekki hans stíll. Hvernig ætlar þú að þakka fyrir greiða og gæsku?

Manstu hve hógvær Hilmar var? Aldrei tranaði hann sér fram og undi glaður við sitt. En gott þótti honum að vera háseti á fleyi listarinnar í landinu. Hann undi vel í Myndlistaskólanum og var metinn að verðleikum til hinsta dags. Lof sé samstarfsfólki og yfirmönnum skólans fyrir þá elskusemi sem Hilmar naut þar og þá hlýju sem þau sýndu fjölskyldunni við fráfall hans.

Var hann þér fyrirmynd í tengslum við fólk? Brostu ekki augu hans við veröldinni? Manstu hve hlýlegur hann var í samskiptum og tók börnum. Manstu hve iðjusamur hann var? Manstu þegar hann settist niður með bilaðan hlut, stóran eða smáan til að skoða gangverkið, athuga hvort hægt væri að laga, smíða varahluti eða flikka til svo hægt væri að koma í gagnið á ný? Hilmar var fremur maður endurvinnslunnar en neyslunnar og því varð í höndum hans margt til úr “engu.” Það sem aðrir hefðu kastað á hauga naut náðar í augum hans og var komið til brúks á ný. Jafnvel ryðgaður lás reis upp til nýs lífs vegna þess að Hilmar hafði í sér þolinmæði til að sitja við og pússa, liðka og laga. Gangverk eilífðar birtist í fingrum og tíma Hilmars.

Á síðari árum fór hann æ oftar heim í Hamarsbæli og síðustu misserin undi hann glaður við að gera bæinn upp. Þið fjölskylda og ástvinir Hilmars munuð njóta verka hans um ókomin ár.

Hamarsbæli himinsins

Og nú er Hilmar farinn. Ekki fleiri pensilstrokur og engar fleiri skissur. Einu sinni talaði Hilmar við sonardóttur sína um himininn og ferð sína inn í eilífðina. Í hógværð sinni eða jafnvel sjálfsgagnrýni sagði hann henni að hann væri ekki viss um að komast inn í himininn. En hún hafði góða þekkingu á afa sínum og fullkomnunarsókn hans. Hún taldi líka víst að gangverk og opnunarbúnaður gullna hliðsins væri ekki beintengt við sjálfsgagnrýni og verk mannanna. Og það er rétt og góð guðfræði. Opnunarbúnaður himinsins er mekaník sem teiknarinn mesti hefur hannað, smíðað og prufkeyrt sjálfur. „Jú afi minn þú flýgur inn í himininn“ var hennar niðurstaða.

Íhugun Hilmars er eðlileg og sammannleg. Að okkur sækja þankar um framvindu lífsins og hvernig eilífðin verður uppteiknuð og með hvaða línum, birtu og skuggum. En lífið er ríkulegt og ekki eitt strik og svo allt búið. Öldurnar í hafinu, vindurinn, sólstafirnir, undur hjalandi barna, merkingin í öllu því besta sem mennirnir upplifa læðir að þeim grun um að lífið er ekki smátt heldur stórt, að við megum eiga von á að það sé meira en snögg blýantslína. Trúin lokar ekki heldur opnar – kristnin boðar elsku, frelsi, hinar frjálsu línur – að heimurinn sé vel teiknaður og fallega. Himinn er opinn fyrir menn og líf. Menn sem fæðast með eilífð í augu og fingrum eru gerðir fyrir framhald. Það er þokkinn í skissu teiknarans mesta. Heimurinn er dreginn upp af ástríki og lífsarkirnar eru fullar af gleðiefnum.

Himinn er opinn fyrir Hilmar. Nú er hann farinn inn í hina frjálsu, fallegu, undursamlegu mynd sem Guð teiknar.

Guð geymi Hilmar Sævald Guðjónsson og Guð teikni þig vel.

Amen.

Minningarorð í Neskirkju 26. febrúar, 2014. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Orð lífsins

litBiblían er ekki úrelt heldur lifir í veröldinni því hún fæst við stóru mál mannanna, hvernig lífið getur snúist frá myrkri til ljóss, sorg til gleði, dauða til lífs. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af að hún hverfi í mistur tímans, því hún er klassík. Hún er – auk þess að vera trúarrit kristinna – líka sígildar bókmenntir. Hugmyndaheimur Biblíunnar hefur haft svo víðtæk mótunaráhrif, að ekki hægt að skilja menningarsögu heimsins, nema með því að vita talsvert um efni þessa mikla bókasafns. Það er illa menntaður maður sem ekki kann einhver skil á Biblíunni.

Menn kunna jafnan meira en þeir skilja. Skilningur er mikilvægari en staðreyndaskil. Aðalatriði í Biblíulestri er ekki að geta þulið staðreyndir frá Palestínu, vita hvaða ár hebrar voru herleiddir, hvar Hinnomsdalur var, hvenær síðasti hluti Jesajabókarinnar, trító-jesaja var skrifaður. Skólinn sér um eða á að sjá um staðreyndir og fræðslu þeirra, en hlutverk kirkjunnar er að miðla skilningi, visku og trú.

Inntak hennar Biblíunnar er mikilvægast en ekki fræði hennar. Þegar menn rata í háska og voða er hægt að eiga samleið með Job í kröminni, eiga í orðum hans túlkunarhjálp og samlíðun. Þegar mönnum blöskrar vitleysa og óréttlæti þjóðfélagsins er vert að leita til spámanna Gamla testamentisins og leyfa þeim að túlka réttlæti í samfélaginu, rétt þolenda, ekkjunnar, útlendingsins og annrra líðenda gerða samfélagsdólga.

Þegar við lendum í stórmálum lífs okkar getum við fundið samfellur í upplifunum og átakasögum hinnar helgu bókar. Þegar andi okkar er sundurknosaður eru engin rit veraldar næmari og nákvæmari túlkar tilfinninga og lífsreynslu en Davíðssálmar. Þeir fanga allar tilfinningar manna á öllum öldum. Þegar orða er vant eru Orðskviðirnir heillandi fjársjóðir til að ganga í. Og logandi ást manna? Tilfinningar og unaður er tjáður í Ljóðaljóðum.

Biblían er um líf, mennsku og vonarmál. Þegar unnið er með krísur er að finna gullnámu í bréfum Nýja testamentisins. Og heimsslitabókmenntir, heimsslitakvikmyndir líka, eru litaðar af Opinberunarbok Jóhannesar. Guðspjöllin eru klassík, sígildi sem varða tíma og eilífð, sið og ósið, trú og trúleysi, merkingu og merkingarleysi. Þegar glíma þarf við stærstu mál tíma og eilífðar verður ekki fram hjá guðspjöllunum gengið. Þar er Jesús Kristur, þessi sem er á öllum krossgötum allra manna á öllum tímum. Biblían er lind túlkunar fyrir lífsmöguleika og endurnýjun.

Sjá nánar Klassík: http://tru.is/postilla/2011/02/klassik

 

Jakob Bjarni

IMG_3360Ekkert þykir mér undursamlega í prestsþjónustunni en að skíra – skíra börn og á öllum aldri. Í dag veittist mér sá heiður að skíra Jakob Bjarna. Hann er duglegur drengur, gaf frá sér fegurstu hljóð í skírninni. Guðrún Birna Brynjarsdóttir, mamman, hélt á syni sínum. Sverrir Gunnarsson, pabbinn, sagði til nafns. Afarnir, Gunnar Bjarnason og Brynjar Stefánsson, lásu texta og þeir eru jafnframt guðfeður. Stórfjöskyldan tók þátt í undrinu og presturinn gladdist með þessu góða fólki.

Jakob Bjarni er mennilegur. Jakobsnafnið hefur a.m.k. tvær merkingar, sá sem „heldur í hæl“ (bróður síns Esaú sbr Biblíusagan) og svo „Guð blessar.“ Svo er Bjarnanafnið skýrt og vísar til hins öfluga bjarnar. Það er því blessandi kraftur í JBS, Jakobi Bjarna. Guð geymi hann alla daga, foreldra og allt hans góða fólk.

Jakob Bjarni Sverrisson fæddist á þrettándanum, degi vitringana og birtingarhátíð Drottins, 6. janúar 2014.