Til starfa á kirkjuþingi?

kirkjuthingsbjalla-100x100Brátt verður kosið til kirkjuþings. Ég býð mig fram til þjónustu á þinginu næstu fjögur ár, en ég mun ekki óska endurkjörs að fjórum árum liðnum. Ég hef verið kirkjuþingsfulltrúi djákna og presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra í fjögur ár. Átta ár á kirkjuþingi er að mínu viti hæfilegur tími!

Verði ég kjörinn nú mun ég einnig bjóða mig fram til starfa í kirkjuráði, enda varamaður í ráðinu. Enginn vígður kirkjuþingsfulltrúi af suðvesturhorninu er nú í kirkjuráði sem er óheppilegt. Við kjör í kirkjuráð n.k. nóvember verður að gæta hagsmuna þéttbýlissvæðis okkar og að vígðir úr okkar kjördæmi verði kosnir í kirkjuráð.

Á liðnu kjörtímabili hef ég lagt fram margar tillögur að starfsreglum, verið virkur í störfum þingsins og gætt hagsmuna kirkju og kristni. Framundan er spennandi val til þings sem hefur mest vald í stjórn þjóðkirkjunnar.

Hvað er ferming?

Ég fermdist í Neskirkju haustið 1966. Við systkinin erum tvö og stutt á milli okkar. Ákveðið var að hafa eina fermingu og eina veislu. Systir mín er eldri og hún seinkaði sinni fermingu og ég fermdist hálfu ári á undan jafnöldrum mínum, var bara 12 ára. Við systkinin mættumt á miðri leið og vorum fermd 23. október. Ég sótti því fermingarfræðslu með krökkum á undan mér í aldri og þótti skemmtilegt að kynnast þeim. Þau komu úr Hagaskóla en ég úr Melaskóla. Sr. Frank M. Halldórsson lauk upp víddum trúarinnar. Við lærðum fjölda sálma, Biblíuvers og fræði Lúthers og vorum ágætlega undirbúin.

fermingEn til hvers að fermast? Ég hafði heyrt að orðið ferming væri þýðing á latneska orðinu confirmatio sem kæmi svo fram í ýmsum tungumálum, confirmation á ensku, konfirmation á germönskum málum. Og merking orðanna væri að staðfesta. Já, auðvitað – ferming væri komið af firmatio og merkti að skírnin væri staðfest. Svo var ég spurður um hvort ég vildi leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Ekkert er sjálfgefið – hvorki í trúarlegum efnum né öðru. Já með vörum og í fylgsnum hugans þarf að fara saman. Það er æviverkefni að orð og afstaða séu eitt. Fermingarungmenni nútímans spyrja líka gagnrýninna spurninga og skoða trúarmálin með opnum huga. Þau eru raunverulega að glíma við Guð og mennsku sína.

Er ferming? Er það að fermingarungmenni segi já? Þegar ég var tólf ára í kirkjunni vissi ég að trú er ekki einhliða mál. Samband Guðs og manna er tvíhliða. Já á jörðu verður hjáróma ef ekki er mótsvar í himnesku já-i. Í fermingunni hljóma ekki aðeins já fermingarbarna heldur já, já, já Guðs. Guð staðfestir skírnina, líf barnsins, bænirnar og óskir. Við erum oft með hugann við mannheima en gleymum guðsvíddinni. Mesta undrið í fermingunni er sama undrið og í skírninni. Guð gefur lífið og lofar að vera alltaf nærri. Guð svarar fermingarspurningunni ekki aðeins með fermingaryfirlýsingu: „Vertu trú(r) allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ Guð svarar með því að gefa allt sem við þurfum til að lifa vel og með hamingju. Hvað er ferming? Já á jörðu og já á himni hljóma saman. Fermingarungmenni staðfesta lífið sem Guð gefur, staðfestir og viðheldur.

Og nú hlakka ég til allra ferminganna framundan. Ég hlakka til að heyra áttatíu já í kirkjunni og við megum hlakka til allra jáyrðanna í kirkjum þjóðarinnar á næstu vikum. Ferming er já fyrir lífið.

Höfuð, fætur, hendur, hjarta – líka magi

IMG_2024Vilborg Arna Gissurardóttir, afrekskona, fór frá Íslandi í morgun. Hún er búin að klífa sex af sjö hæstu fjallatindum heimsins. Aðeins Everestfjall er eftir. Hún ætlar á toppinn. Ég hef fylgst með Vilborgu Örnu frá því hún gekk á skíðum á Suðurpólinn. Ég dáðist að hve vel hún undirbjó þá ferð, að gildum hennar, einbeittni sem hún sýndi og hve öguð hún var. Hún stælir sinn innri mann, gætir lífsháttum og heilsu. Vilborg Arna er hetja og nú er sjöundi tindurinn eftir. Næstu vikur mun hún gæta að næringu og aðlaga líkama sinn að hæð og stilla höfuð, fætur, hendur, hjarta – og magan líka! Guð geymi hana og varðveiti hana.

Um næringu

Þetta er ofurlítill inngangur að óbyggðaferð hins kristna safnaðar. Aðalsaga dagsins er af fjallaferð og frásögnin er í sjötta kafla Jóhannesarguðspjalls. Sagt er frá útihátíð þar sem lítið var um mat. Í ljós kom að ungur drengur eða þræll var vel nestaður. Í poka hans voru fimm byggbrauð og tveir fiskar. Þetta blessaði Jesús og allir fengu það sem þeim var þörf á, líkamsfæðu, næringu fyrir anda og samhengi fyrir lífið. Fólk á ferð fékk næringu til lífs – ekki bara fyrir magann heldur líka höfuð, fætur, hendur, hjarta og samfélag.

Það eru ekki margar sögur sem öll guðspjöllin segja. En þetta er ein af þeim. Sagan er þó sögð með mismunandi móti í guðspjöllunum. Jóhannesarguðspjall segir Jesúsöguna öðru vísi en hin guðspjöllin, sem kölluð eru samstofna guðspjöllin. Einkenni Jóhannesarguðspjalls eru tvenndir sem gjarnan eru hugtakapör í spennu. Þegar minnst er á ljós er myrkur í baksviði þessa guðspjalls. Lífsáhersla þess er í andstöðu við dauða. Trú er rædd með vísan til alvöru vantrúar. Jóhannesarguðspjall er dramatískt og tilgangurinn sá að beina sjónum fólks til Jesú sem lausnara lífsgátunnar – að hann er ljós í myrkri, „vegurinn, sannleikurinn og lífið.“

Næring

Rauður þráður í textum dagsins er næring – og næring er það sem menn og mannlíf þarfnast til að lífið sé gott. Næring er það sem viðheldur lífi mannsins og eflir. Ekki einungis líkamlega, heldur einnig andlega. Gef oss í dag vort daglegt brauð … minnir á að næringin þarf að vera stöðug.

En hvers þörfnumst við til að við lifum í samræmi við gerð okkar og þarfir? Brauð og fiskur, líkamsfæðan, er aðeins eitt af því sem er okkur lífsnauðsyn. Í enskumælandi heimi er stundum talað um primary food og secondary food, grunnfæði og annað fæði.

Hver heldur þú að sé frumfæða hvers manns? Alveg í samræmi við boðskap Jesú: „Maðurinn lifir ekki á einu saman brauði einu…“ Frumfæða manneskjunnar er ekki fiskur eða brauð, heldur það sem nærir dýptir og eflir hamingjuna.

Frumfæða – fyrsti flokkur fæðunnar eru tengsl við fólkið okkar og ástvini. Enginn lifir aleinn og bara fyrir sjálfan sig. Enginn lifir nema í samhengi við aðra. Í öðru lagi er hreyfing. Við þörfnust þess að líkami okkar njóti hreyfingar. Við þurfum ekki að fara allt í bíl eða sitja í stól alla daga en við þörfnumst áreynslu til að líkama okkar líði vel. Svo er þriðji þátturinn – vinnulífið. Gleði í starfi er nauðsyn. Fjórði þátturinn er andlega lífið. Ef dýpstu lífsþættirnir eru í óreiðu berst vanlíðan til alls annars.

Frumfæða mennskunnar eru þessir fjórir flokkar – ástvinatengsl, hreyfing, vinnulíf og andans rækt. Til að minna okkur á þessa þætti getum við þulið: Höfuð, fætur, hendur hjarta. Höfuð fyrir tengsl við fólkið, fætur fyrir hreyfingu, hendur fyrir störfin, hjarta fyrir andlega miðju okkar, andann. Höfuð – fætur – hendur – hjarta. Og svo myndast við hreyfinguna kross!

Hvernig er með tengsl þín við fólkið þitt? Einhverjar hömlur eða festur? Hvernig gengur þér að hreyfa þig? En vinnulífið eða störfin þín: Er allt í lagi með það – eða má bæta? Og hvernig gengur þér með ástarsambandið við Guð? Ertu í klemmu eða vanda í einhverju? Ertu að reyna að leysa málin með trixum og yfirborðsaðferðum?

Höfuð – fætur – hendur – hjarta – og svo bætist við magi. Líkamsfæðið er okkur nauðsyn líka. En það skiptir máli hvað við setjum ofan í okkur. Það getur orðið til lítils að njóta góðs frumfæðis ef líkamsfæðið er rusl. Og margt í nútímafæði verður ekki til blessunar heldur bölvunar af því það er í óhófi.

Þú lifir til að vera hamingjusamur eða hamingjusöm. Guð hefur skapað þig þannig. Hvers þarfnastu? Súrefnis, vatns og líkamlegrar næringar. Já, en líka andlegrar næringar og félagslegrar líka. Þú hefur gott af viðurkenningu, að einhver sjái þig og meti. Og þú þarfnast þess að vinna þín og störf þín séu gæfuleg og gefandi. Þú þarfnast margs konar næringar til að lifa vel og með hamingju.

Fjallaferð

Vilborg Arna er á ferð á hæsta fjall jarðarkúlunnar. Og nokkrir Íslendingar hafa þegar farið á tindinn m.a. Leifur Örn Svavarsson sem býr hér í sókninni okkar.

Fjallamaðurinn Jon Krakauer skrifaði einu sinni metsölu- og háfjallabókina Into thin air. Það er merkileg bók sem segir frá hræðilegum slysaleiðangri á Everest-tind árið 1996. Súrefni og andnauð komu við sögu. Öll, sem hafa kynnt sér fjallamennsku, vita að á hæstu tindum er súrefni ekki sjálfgefið eða auðfengið.

Krakauer segir m.a. frá Andy Harris sem komst á toppinn. En hann var of lengi uppi og lenti í súrefnisnauð á niðurleið. Harris hafði samband við tengla sína í neðar í fjallinu og sagði þeim frá vandanum og að hann hefði séð súrefniskúta sem aðrir fjallamenn hefðu skilið eftir. En hann hélt að þeir væru allir tómir. Hin, sem þegar höfðu farið niður og séð kútana, vissu hins vegar að þeir voru allir fullir af súrefni. Þeir báðu því Harris að nota súrefnið sér til bjargar. En hann trúði þeim ekki og það var honum til tjóns og dauða. Vegna súrefnisskorts vann heili hans ekki sem skyldi. Hann kvartaði yfir skortinum en var ófær um að nota það sem var þó innan seilingar og hefði bjargað honum. Það sem maðurinn hafði nærri var fjarri vitund hans. Súrefnisnauðin brenglaði dómgreind Harris og hann lét lífið.

Þetta er sláandi saga um mistök sem kostuðu líf. Sagan varð mér táknsaga um mannlíf og mikilvægi þess að bregðast rétt við og með góðri dómgeind. Sagan minnir okkur á að menn geta tapað lífi þegar aðstæður eru rangtúlkaðar. Hvað verður okkur til næringar? Hvað verður okkur til góðs? Hvers þörfnumst við með til að lifa vel?

Jesús gefur lífið

Jesús segir: „Ég er brauð lífsins.” Það merkir hvorki meira né minna en að Jesús gefur lífið – að hann sé forsenda lífs og næring þess lífs.

Og við erum hinn stóri hópur mannkyns á fjalli lífsins. Hvað verður til góðs? Viltu þiggja næringuna sem Jesús Kristur blessar og öll gæðin sem hann gefur þér? Finnur þú til þarfar en trúir ekki að súrefni sé á tönkunum við hlið þér? Trúir þú ekki ráðgjöfum þínum sem segja þér, já biðja þig, að nota það sem er við hendi? Tjáir þú bara vöntun þína og er dómgreind þín að bresta vegna skorts þíns? Eða tekur þú við blessuninni þér til lífs. Trúin er í þágu fjallaferða lífsins – súrefni til bjargar. Höfuð, fætur, hendur, hjarta – og magi – og allt í kross.

Amen.

Prédikun 4. sunnudag í föstu, 30. mars, 2014. A-textaröð.

Lóa – Guðbjörg A. Þorsteinsdóttir – minning

Forsíða1Hvernig var Lóa? Hvað manstu? Þú getur horft á myndina á sálmaskránni og séð íhugandi augun sem sáu fólk svo vel. Hvaða hugsanir vakna við myndirnar á skránni? Hvaða myndir eru innan í þér? Leyfðu Lóuminningum að koma fram, líka tilfinningum sem þú berð í brjósti til hennar. Íhugaðu í hverju söknuðurinn er fólgin og hvernig þú vilt varðveita minningu um tengslin. Og segðu sögur um hana.

Hér eru tvær Lóusögur: Einu sinni kom dóttursonur hennar mjög seint heim – svo seint að foreldrarnir voru orðnir verulega áhyggjufullir. Þegar drengurinn kom loks – undir morgun – spurði foreldrarnir: „Hvar hefur þú eiginlega verið, drengur?“ Og ungi maðurinn var algerlega gáttaður á spurningunni, enda taldi hann að hann hefði ekki gert neitt af sér. „Nú, ég var hjá ömmu?“ „Hjá ömmu þinni, hvað varstu að gera þar?“ Og drengurinn svaraði: „Við amma vorum að horfa á boxið.“ Og boxið í beinni frá Ameríku er auðvitað eftir miðnætti! Þetta er að vera kúl amma, enda fór Lóa í annað sætið í keppninni í Hagaskóla um kúlustu ömmuna!

Lóa gat sem sé horft á box – hún hafði áhuga á íþróttum og hélt kefli Gunnars bónda síns hátt á lofti þó hann félli frá – fyrir aldur fram. Lóa keypti aðgang að íþróttarásunum og fylgdist vel með enska boltanum og mörgum öðrum greinum líka. Einu sinni kom sonur Lóu í heimsókn til hennar á laugardegi. Hann kunni á fótboltann og vissi mæta vel að enski boltinn væri í fríi og átti því von á að mamma hans væri ekki við skjáinn. Nei, ónei, hann fann hana ekki: „Hvar ertu mamma?“ kallaði hann. Og hún gerði vart við sig og auðvitað sat hún og fylgdist með sportinu. „Hvað ertu að gera? Er ekki frí í Englandi?“ spurði sonurinn undrandi. „Jú, en ég er að horfa á Formúluna“ sagði mamma hans eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Lóa fylgdist svo sannarlega með. En mestan áhuga hafði hún á fólkinu sínu, börnunum, ömmubörnunum eldri og yngri, afkomendum sínum, öllum tengdabörnunum – sem hún mat afar mikils – og vinum og vandamönnum. Hún bar þetta fólk á ástarörmum, gerði þeim allt það gott til sem hún gat og var þeim öllum vinur, gleðigjafi, félagsmálastjóri, sjónvarpsstjóri, hlýtt fang, matmóðir og aðdáandi. Hún hafði góða stjórn á fjölskuyldufyrirtækinu en gaf mikið frelsi og leyfði sínu fólki jafnvel að spila fótbolta inni. Henni brá ekki þó eitt stykki lampi eða ljósakróna færi veg allrar veraldar. Fólkið, fjörið, gleðin og ástin áttu forgang í Lóu. Lóa lifði í þágu lífs. Því var hún elskuð og metin. Því er svo mikill hlátur í fólkinu hennar.

Upphaf

Guðbjörg A. Þorsteinsdóttir fæddist í Hafnarfirði 16. janúar árið 1921. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Grund þann 16. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Elínborg Jónsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson. Hún sá um heimilið og hann sótti björg í bú á sjó.

Lóa ólst upp í Hafnarfirði og þar gekk hún í skóla. Hún meira að segja lærði að synda í hafnfirskum sjó. Lóa hreifst ung af starfi nunnanna í Hafnarfirði og mat kaþólskuna að verðleikum, átti sitt bænaband og fékk sína fyrstu launuðu vinnu á Sankti Jósepsspítala. Lóa starfaði síðar í brauðbúð, einnig hjá Bæjarútgerðinni í Reykjavík en lengstum á Landakotsspítala. Alls staðar fékk hún lof fyrir dugnað og mannkosti sína.

Lóa vann á Landakotsspítala haustið 1936 þegar franska rannsóknarskipið Pourquoi Pas fórst og fjörutíu manns druknuðu. Lík skipverjanna sem fundust voru flutt í Landakot og þar var Lóu og fleirum falið að þrífa þau. Sá starfi sat í henni og síðar minntist hún sterkrar reynslu, lýsti áhrifunum, tilfinningu og gat jafnvel lýst kónganefi og prófíl leiðangursstjórans Charcot. Já hún lærði að vinna, efldist að þroska, upplifði veruleika dauðans en svo var líka ástin sem lýsti upp líf hennar.

Gunnar og börnin

Lóa kynntist Gunnari Jónssyni (1920-1985) og hann varð maðurinn hennar. Gunnar var kraftmikill, glaðsinna og heillandi, hvers manns hugljúfi. Hann var sölumaður og sölustjóri hjá innflutningsfyrirtækinu Nathan & Olsen, sem Gunnar og allt hans fólk stóð með. Þegar keypt var tómatsósa var það Libby’s enda hluti af innflutningi Nathan & Olsen. Að kaupa einhverja aðra tómatsósu kom ekki til greina. Gunnar stóð með sínu fyrirtæki, var trúr og traustur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Honum var treyst og hann stóð sína plikt. Hið sama kom fram í afstöðu hans og þjónustu við KR. Gunnar var máttarstólpi KR, spilaði um tíma í meistaraflokk, þjálfaði svo yngri flokkana og lagði góðan grunn að sigursæld knattspyrnudeildarinnar.

En Gunnar var líka fjölhæfur tónlistarmaður. Ungur barði hann húðirnar ekki aðeins í Reykjavík heldur líka í Hafnarfirði – og þar sá Lóa þennan fallega mann spila jazz svo snilldarlega. Hann hreifst af glæsileik hennar og mannkostum og hún af honum. Þau Lóa voru flott par sem sálmaskrármyndin á baksíðunni sýnir glöggt. Þau voru í hjúskap sínum hamingjusöm, traust, samhent og samlynd hjón og góðir uppalendur.

Lóa og Gunnar

Þau bjuggu fyrst á Egilsgötu og síðan í kjallara við Sörlaskjól. Börnin komu í heiminn eitt af öðru og ljóst var að þau Lóa og Gunnar yrðu að stækka við sig. Svo tóku þau þátt í ævintýrinu á Framnesvegi 65 og urðu frumbyggjar þar, fluttu inn árið 1959 og þar bjó fjölskyldan í sömu íbúð í fjóra áratugi. Þar höfðu þau nóg pláss fyrir öll börnin sjö og amma og afi komu síðar í kjallarann. Og kjallaraíbúiðin hefur síðan verið í eigu afkomenda Lóu.

Á Framnesveginum var samkomulag íbúanna í húsinu svo gott að menn sögðu ekki góðan daginn á ganginum heldur hið enn betra: „Áfram KR!“

Börnin og fjölskyldan

Ragnar Ellert er elstur í barnaskaranum. Hann er júlídrengur og fæddist árið 1941. Kona hans er Helga Sveinbjörnsdóttir. Elín fæddist á kvennadeginum í júní árið 1950. Dóttir hennar, Guðbjörg Aðalheiður Jónsdóttir, varð Lóu sem yngsta barnið á heimilinu. Gunnar fæddist – eins og Elín – í júní árið 1951 og er þriðji í barnahópnum. Kona hans er Heiða Björk Vignisdóttir. Herdís er fjórða í röðinni og fæddist í desember 1953. Maður hennar er Haukur Ingi Hauksson. Sigríður kom í heiminn tæplega tveimur árum síðar, í október árið 1955. Helgi Gunnarsson er maður hennar. Sjötta er Hellen Magnea, fædd í febrúar 1957 og maki hennar er Örn Karlsson. Þorsteinn rak svo lestina í júlí 1963. Kona hans er Soffía Ólafsdóttir. Lóa og Gunnar eignuðust fjórar dætur og þrjá syni. Barnabörnin eru samtals sextán, flest strákar eða tólf – þ.e. heilt fótboltalið – og stelpurnar eru fjórar. Langömmubörnum Lóu fjölgar þessi árin en þar ríkja konurnar. Þau eru orðin sex barnabarnabörnin, 80% kvenkyns. En yngst er strákur fæddur 2012.

Samskiptin og eigindir

Lóa og Gunnar bjuggu við barnalán. Í fólki er mestur auður þessa heims og þau voru rík. Og uppeldið lánaðist vel og Lóa var sátt hvernig til tókst. Hún var ekki aðeins glöð með börnin sín, heldur mat tengdabörn sín mikils. Lóa tengdamamma var framúrskarandi og svo var hún ekki bara kúl amma heldur svo gefandi í samskiptum að barnabörnin sóttu til hennar, ekki bara til að horfa á box eða fá hana til að dripla bolta, heldur til að vera með henni.

Lóa er okkur – og fjölskylda hennar – lýsandi vottur um mikilvægi samveru í fjölskyldum – þetta einfalda en mikilvæga að vera. Lóa lagði ekki upp úr að fólk kæmi uppábúið eða í sínu fínasta skarti heldur væri það sjálft. Fólk var metið fyrir það sem það var en ekki vegna ásýndar eða klæða. Fólk fremur en föt – það var Lóustefnan. Hvað getum við lært af því?

Þar sem Lóa var þangað sótti stóra fjölskyldan, t.d. á gamlaárskvöld. Hún var ættmóðirin, möndullinn, og veitti fjölskyldunni samhengi. Af hverju? Vegna tengslanna sem hún átti við fólkið sitt. Hvað lærir þú af því? Hvernig viltu lifa og hvað veitir þér mesta hamngju? Gunnar þjálfaði vel – það veit ég af eigin reynslu. Þó Lóa væri ekki starfandi íþróttaþjálfari var hún eins og besti stjóri. Hún þjálfaði ástvini sína til lífsleikni og lífsgáska. Af því hvernig hún var í tengslum og samskiptum urðu þau það sem þau eru. Það er stórkostlegur minnisvarði sem hún reisti sér – og orðstír hennar deyr ekki.

Kveðjur

Ég hef verið beðinn að bera þessum söfnuði kveðju nokkurra sem ekki geta verið við þessa athöfn – frá Helgu Sveinbjörnsdóttur, Þorsteini Ragnarssyni, Gunnari Erni Arnarsyni, Elmari Orra Gunnarssyni og Brynjari Birni Gunnarssyni.

Minningarnar

Hvað minningar áttu um Lóu? Manstu eftir hvernig hún setti börn upp á eldhúsborð, sagði þeim sögur, dreifði huga þeirra og tókst að koma í þau ókjörum af skyri eða öðrum mat. Ef fyrirstaða var gat meiri sykur stundum hjálpað til!

Lóu var mikils virði að öllum væri vel þjónað, allir nytu veitinga og góðs atlætis. Hún var var ekki aðeins góð húsmóðir og sá um svanga maga, heldur vaktaði andlegar og félagslegar þarfir – og skildi vel þegar ungviðið þurfti að hreyfa sig. Hún var höfðingi á sínu heimili, stýrði því sem þurfti en gaf öllum pláss og frelsi til lífs. Það er sitthvað að stjórna öðrum með látum og annað að stjórna fólki til þroska og að axla ábyrgð. Í því er kúnst hins góða stjóra, hvort sem er í íþróttum, á heimili, í siðferði eða öðrum listum lífsins. Þá kúnst kunni Lóa og hún var meistari.

Manstu hve dugmikil spilakona Lóa var? Hún kunni rússa, Ólsen – Ólsen, veiðimann og rommí og hleypti upp fjörinu í spilafélögunum. Og svo skemmti hún sér í bingó, passaði upp á 16 spjöldin – 16 var happatalan hennar enda gerðist margt það besta í hennar lífi á 16 degi mánaðanna.

Manstu að hún byrjaði að halda ræður á síðari árum, hlýjar elskulegar ræður sem smituðu lífsvisku, umhyggju, stolti yfir fólkinu sínu – hlýjar hvatningarræður um að lifa vel.

Hvað ætlar þú að gera með viskuna hennar Lóu? Leyfðu lífssöng hennar að hljóma í þér og verða þér til hvatningar um að hlæja, fagna gjöfum Guðs, fagna viðburðum daganna, bregðast við til góðs þér og þínum.

Himininn

Og nú eru skil. Lóa er flogin inn í himininn. Hún matar ekki lengur litla munna, driplar bolta eða fagnar marki KR eða í enska boltanum. Lóa stjanar ekki lengur við þig, kemur með Cocoa Puffs eða Trix, hún heitir ekki á þig í bingó eða kaupir Libbýs tómatsósu framar.

Á seinni árum var hún á heimleið – og nú er hún komin heim. Því máttu trúa. Hún er komin í þá veröld sem við köllum himinn Guðs. Og hún stendur á einhverju himintorgi með Gunnari sínum, – kannski á leið á leik í himinboltanum – en örugglega fagnandi, hlægjandi, elskurík og hamingjusöm. Þú mátt fela hana góðum Guði sem elskar fólk eins og Lóu sem lifa sem englar lífsins, fulltrúar himinsins í heimi. Og við segjum ekki bara Áfram KR, heldur áfram lífið – áfram Guð. Og Guði séu lof og þökk fyrir Lóu. Guð geymi hana ávallt og ævinlega í eilífð sinni. Og Guð geymi þig og blessi.

Amen.

Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Himinn og jörð faðmast!

AGA 150Friður yfir skírnarþeganum, hlý gleði í augum mömmunnar, Auðar Karítas, kyrra yfir Guðnýju, stóru systur, sem heldur undir skírn og Sverrrir bróðir á vakt – andblær elskunnar yfir og allt um kring. Ari, pabbinn – ljósmyndarinn – var greinilega utan skotlínunnar þó hann tæki ekki myndina. Himnesk forréttindi að taka þátt í blessun Guðs á börnum jarðar. Guð geymi Önnu Guðnýju Aradóttur.

Anna Guðný AradóttirAnna Guðný heitir í höfuð móðurömmu, serm ekki vissi nafnið fyrirfram og gladdist ósegjanleg. Amman er Aradóttir líka svo nafn og kenninafn er það sama hjá ömmu og dótturdóttur. Móðir skírnarþegans er Auður og foreldrar hennar, Anna Guðný og Ásgeir, eru með A sem upphafsstafi. Fjölskyldan er því AAA og hið triple-A er líka hjá yngri fjölskyldunni. Þetta fólk er í A flokk og skemmtilegt að fá að þjóna þeim!