Vistspor

Umhverfisspor í GautaborgVið vorum á ferð erlendis – fjölskylda mín – og heimsóttum stórt náttúrufræðisafn. Í einum sýningarbásnum voru vistspor þjóða sýnd. Og hvað er vistspor? Það er hver neysla hóps eða þjóðar og hvernig auðlindir eru nýttar. Vistspor er eiginlega sú náttúruafstaða sem birtist í nýtingu auðlinda náttúrunnar.

Í safninu voru vistspor nokkurra þjóða borin saman og sýnd með misstórum skóförum, sem voru máluð á gólf safnsins. Þjóðanöfn voru skrifuð við sporin til að sýna hve ólík neysla og auðlindanotkun þjóða væri. Drengjum mínum varð starsýnt á þessi spor, mátuðu fætur við þau og fannst sum þeirra vera stór. Sum sporin voru smá en önnur risastór. Hvað ætla þeir drengir að gera í neyslunni og málum lífsins? Bera þeir einhverja ábyrgð og berum við ábyrgð gagnvart lífi framtíðar?

Iðnaður, vélanotkun, eldsneytisnotkun, ferðalög, tækjakaup og fleira hafa áhrif á umhverfið. Vistsporin á safninu voru ólík. Spor íbúa í Bangladesh var mjög lítið en spor Svía var hins vegar mjög stórt – nærri tíu sinnum stærra. Vistspor Bandaríkjamanna var enn stærra.

Neysla skiptir máli og við berum ábyrgð á hvað við kaupum, hvers konar landbúnað við styðjum og hvernig pólitík okkar er. Hver sem afstaða okkar er í stjórnmálum – eða hvort við hugsum um efnahagsmál og auðlindamál eða ekki – hafa lífshættir okkar áhrif á heiminn. Við höfum áhrif.

Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað – líka varðandi umhverfismál og notkun gæðanna sem Guð gefur okkur í þessum heimi.

Neysla margra er umfram getu jarðar til að næra og blessa. Reiknað hefur verið að ef allir jarðarbúar myndu lifa með svipuðum hætti og Norðmenn, Svíar og Finnar þyrfti mannkynið meira en 3 jarðir til að framfleyta sér. Danir eru enn þurftarfrekari því ef jarðarbúar neyttu jafn mikils og þeir þyrfti 4 jarðarkúlur til að standa undir neyslunni. Við Íslendingar erum neyslutröll og einhver þurftarfrekasta þjóð í heimi. Neysla okkar er slík að ef allir væru eins og við þyrfti líklega 5 eða 6 jarðir til að framfleyta mannkyninu (til eru útreikningar sem sýna mun verri útkomu okkar Íslendinga). Þetta neyslusukk setur okkur á bekk með Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem er ein neyslufrekasta þjóð heims.

Loftið er dýrmætt

Í liðinni viku voru mikilvægar samkomur haldnar í New York um loftslagsmál.

Trúarleiðtogar ýmissa trúarbragða hittust í borginni til að ræða ábyrgð trúmanna á atferli, lífshætti og siðferði fólks – og hvernig trú gæti stuðlað að ábyrgara lífi og minna álagi á vef lífsins. Kristnir, gyðingar, múslimar, hindúar, búddistar og ýmsir fulltrúar trúarhreyfinga og þjóðarbrota hittust til að hvetja pólitíska leiðtoga heimsins til að horfast í augu við ástand lífríkisins og taka ákveðið á málum.

Auka – en minnka

Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York þann 23. september skuldbundu nokkrir þjóðarleiðtogar og fyrirtæki heims sig til að breyta landbúnaði á heimasvæðum sínum – draga úr kolefnislosun og auka þó framleiðslu matvæla. Á hverju ári fjölgar mannkyni um 70 milljónir og áætlað er að íbúar jarðarinnar verði nærri níu milljarðar eftir 25 ár. Því er ljóst að vegna fjölgunar fólks verður að auka matvælaframleiðslu heimsins.

Á ráðstefnu SÞ hétu tveir tugir ríkisstjórna og fjöldi fyrirtækja stuðningi við umhverfisvæna landbúnaðarstefnu, sem hefur m.a. að markmiði að gera 500 milljón bændum mögulegt að stunda umhverfisvænni landbúnað en nú er mögulegt. Ýmis samtök skuldbundu sig til að vernda fátækustu bændurna sem eru berskjaldaðir gagnvart loftslagsbreytingum.

Útþensluaðferðin

Umræðuefnin á þessum tveimur þingum eru mikilvæg og varða trú, guðfræði og erindi kirkjunnar. Því er ærin ástæða til að íhuga erindi þeirra. Hvernig getum við að brugðist við loftslagskreppu og auðlindakreppu? Hvað ættum við að gera þegar okkur berast þær fréttir að lífríkinu er ógnað og mannfjöldaþróun knýr á um miklar breytingar varðandi afstöðu og aðgerðir?

Fyrr á öldum virtust loft, vatn, lífríki og orka vera sjálfsögð og óþrjótandi gæði. Auðlindir virtust sem næst ótæmandi. Á liðnum öldum hafa menn yfirleitt brugðist við kreppum með því að yfirvinna takmörk, fara yfir mæri, fara út fyrir mörkin, nýta meira og fara lengra. Kreppan var sigruð með útþenslu. Þegar landnæði Evrópu var fullnýtt var farið til Ameríku eða annarra álfa. Þegar auðlindir hinna ríku voru fullnýttar var farið að nýta auðlindir fátækari þjóða. Þegar heimafengin orka var ekki nægileg lengur hófst kapphlaup um orku annars staðar og aðgang að henni tryggður með valdi og “eign” slegið á orkuna. Lífsstíllinn í ríka hluta heimsins – okkar hluta – var og hefur verið að belgja okkur út úr kreppunum – sprengja kreppuna með því að útvíkka og þenja út. En nú höfum við uppgötvað mörk og mæri á öllum sviðum. Við getum ekki haldið áfram með sama lífsmynstri belgingsins.

Kreppan í fólki

Viðbrögð einstaklinga í kreppuaðstæðum geta hjálpað okkur að skýra viðbrögð hópa, þjóða og heimsbyggðar gagnvart loftlagsbreytingum og umhverfisvá sem eru stundum furðuleg. Kreppuviðbrögðin má yfirfæra og nokkur þeirra eru þessi: 1. Afneitun, 2. flótti, 3. reiði, 4. depurð, 5. einföldun og 6. grafa vandann með því að láta gott heita.

Viðbrögð til góðs

Hvað getum við gert? Í stað afneitunar og neikvæðni getum við brugðist með skapandi móti.

  1. Í fyrsta lagi horfst í augu við og viðurkennt vandann. Gagnvart loftslagsbreytingum er mikilvægt að játa að við erum samábyrg og viðurkenna neysla okkar þarf að breytast.
  2. Ábyrgð: Það eru ekki aðeins einhverjir “aðrir” sem bera sök og eiga því að bæta úr. Bandaríkjamenn og Kínverkjar blása vissulega mestri eiturgufu út í andrúmsloftið – en við getum margt gert þó við séum ekki aðalspellvirkjarnir. Við getum gengist við ábyrgð með því að huga vel að eigin innkaupum, eigin heimilislífi og beita okkur með jákvæðum hætti við stefnu og stjórn hins íslenska samfélags. Við getum brugðist við náttúrvá í anda frelsis og réttlætis.
  3. Til að nýta reiði jákvætt þarf að tengja hana kærleika. Reiði vegna mengunar er skiljanleg en getur orðið til góðs ef hún er samferða og samtaka kærleiksríkri systur sem heitir ást. Kærleikur þarf að stjórna reiði til að vel fari bæði í einkalífi og opinberu einnig.
  4. Það er engin ástæða til að leyfa depurð, fjórða kreppuviðbragðinu, að mála skrattann á veginn og draga þar með úr fólki allan matt til átaka. Við ættum fremur að temja okkur hið guðlega viðbragð, að mæta vanda með því að bæta heiminn – greina stórt og smátt til farsældar sem hægt væri að gera í eigin lífi og samfélagi okkar.
  5. Í nútíð og kreppum er alltaf tækifæri til vaxtar og möguleikar til lífs og engin ástæða til annars en horfa fram á veginn. Guð kallar úr framtíðinni.
  6. Gagnvart mengun, misnotkun auðlinda og manngerðum loftslagsbreytingum megum við gjarnan opna augu, eyru, hjarta og huga.

Verkefni okkar er ekki að bjarga heiminum heldur gera það sem við getum gert. Það er bæði mannleg og trúarleg köllun okkar sem einstaklinga. Og það er líka á ábyrgð okkar sem kirkju að bregðast við með einurð, óttaleysi og hugrekki. Okkur ber að gæta systra okkar og bræðra. En það er líka dásamlegt verkefni okkar að gæta móður okkar einnig. Náttúran er móðir sem er á okkar ábyrgð.

Við getum endurskoðað neysluhætti okkar – bæði á heimilum og í samfélagi. Við getum hvatt stjórnvöld til að láta náttúruna njóta vafans og lágmarka skaða í opinberum framkvæmdum. Við ættum að auka pólitísk afskipti varðandi meðferð náttúru. Raunar ættum við Íslendingar ekki að sætta okkur við neitt annað en að vera til fyrirmyndar í notkun orku og auðlinda.

Guð er ástæðan

Skiptir trú lífríkið máli? Já, trú hvetur ekki til lífsflótta heldur lífsræktar. Trú er ekki það að flýja inn í óraunsæi eða annan heim – heldur að samþætta elsku til Guðs elskunni til alls þess sem Guð hefur búið til, náttúru og þar með fólks líka. Lífið er dýrmæt gjöf sem okkur er gefið og líf heimsins er gjöf Guðs. Okkur ber að virða afstöðu Guðs sem elskar sköpunarverkið og þar með varðveita náttúruna og vernda.

Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað – og líka varðandi umhverfismál og notkun gæðanna sem Guð gefur okkur í þessum heimi.

Hugleiðing í Neskirkju 28. september 2014

Inga í Brekku – minningarorð

IngaIngigerður Ingvarsdóttir vildi jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna og sagði gjarnan sögu um sjálfa sig unga sem er einnig lykilsaga og skýrir afstöðu og líf hennar. Ingu hafði verið bannað að fara á dansleik á Vatnsleysu í Biskupstungum. En bræður hennar, bæði eldri og yngri fengu hins vegar að fara. Ingu sárnaði þessi mismunun kynjanna. Þegar allir voru farnir í háttinn heima brá hún á það ráð að taka hrossaleggina sína sem hún notaði sem skauta og batt þá á sig. Síðan skautaði hún upp Tungufljótið og fór þangað sem dansleikurinn var haldinn. Og þar sem Inga var ekki með peninga með sér í þessari hljóðlátu mótmælaskautferð fékk hún lánaðar krónurnar sem þurfti til að komast inn. Inga fór það sem hún ætlaði – hún hafði sér einbeittnina og nægilega þrjósku!

Ætt og uppruni

Ingigerður Ingvarsdóttir var fædd á Litla-Fljóti í Biskupstungum 23. ágúst árið 1920. Hún var dóttir hjónanna Jónínu Ragnheiðar Kristjánsdóttur og Ingvars Jóhannssonar. Hún var næstelst fjórtán systkina. Það var mikið barnalán á þeim bæ. Elstur var Ingvar. Á eftir Ingu kom Einar, þá Kristinn, Jóhanna Vilborg, Kormákur, Hörður, Hárlaugur og tvíburabróðir hans andvana fæddur, Ragnhildur, Guðrún, Elín, Sumarliði og Haukur. Tvö þeirra systkina eru á lífi, Sumarliði og Guðrún en hin eru farin af þessum heimi.

Inga flutti ung með foreldrum sínum og bræðrum að Halakoti, sem nú heitir Hvítárbakki, í Biskupstungum. Inga hafði bæði getu og gaman af vinnu og sótti í puðstörfin og kallaði sjálfa sig síðar “útikonu” vegna áhugans á útiverkunum. Einhverju sinni hafði sveitungi Hvítárbakkafólksins orð á dugnaði Ingu og þá varð föður hennar að orði: „Já hún Inga hefði átt að vera strákur.“ Inga heyrði umsögnina, var hnittin og orðheppin og svaraði ákveðið: „Það er þér að kenna en ekki mér pabbi.“ Þeir hafa væntanlega ekki mótmælt, karlarnir.

Inga sótti skóla í Reykholt í Biskupstungum og var í heimavist. Henni gekk vel í skóla, var námfús og fljót að læra. Alla tíð bjó þekkingin í henni og hún mundi það sem hún hafði læri – líka ljóð og sálma. Reykholt var ekki aðeins staður vísulærdóms, lesturs og stærðfræði. Þar var líka hægt að synda. Vegna jarðhitans var sundaðstöðu komi fyrir og sund kennt. Inga lærði að synda og njóta sunds og það gerði hún alla tíð meðan hún hafði heilsu til.

Gunnar og börnin 

Svo fór Inga suður til að afla sér tekna. Hún starfaði sem vinnukona – fór í vist hjá þýskri konu og íslenskum bónda hennar. Lífið í höfuðstaðnum heillaði og í Reykjavík kynntist Inga Gunnari Sveinbjörnssyni, leigubístjóra. Hann var að norðan og hún að sunnan og þau féllust í faðma og hófu búskap. Og þau voru í “görðunum” þessi árin. Þau bjuggu fyrst í Garðastræti í Reykjavík en fluttu svo 1943 í Garðahrepp, kenndan við Garða á Álftanesi. Í þeim hreppi voru þau næstu áratugina – fyrst í Litlu Brekku en byggðu síðan stórt hús upp úr 1950 og nefndu það Brekku. Mannlífið var fjölbreytilegt í umhverfinu og fjölskyldan mátt jafnvel eiga von á að skrúfað yrði fyrir vatnið vegna duttlunga nágranna. Gunnar aflaði tekna fyrir sístækkandi fjölskyldu. Hann rak verkstæði um tíma í stórri skemmu frá Bretunum. Hann vann í Fjöðrinni um tíma og gerði einnig út trillu. Og svo var Gunnar vaktmaður í síldarvinnslu í Njarðvík.

Lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá þeim Ingu og Gunnari, fjölskyldan stór og þó Bakkus kæmi oft við í Brekku bauð Inga hann ekki velkominn. Að því kom að þau Inga og Gunnar skildu og Inga flutti á Álfaskeið 100 í Hafnarfirði. Það var um 1970. Síðar fór Inga svo á Unnarstíg, þá á Miðvang og síðan á Ölduslóð. En þó þau Inga skildu slitnaði aldrei vináttustrengurinn milli þeirra. Þau áttu börnin, góðar stundir og fortíðina saman og virðinguna líka.

Gunnar lést í mars 1992 en Inga lifði 22 árum lengur. Árið 2011 fór Inga inn á Hrafnistu í Hafnarfirði og þar naut hún góðrar aðhlynningar síðustu árin og allt til enda.

Inga og Gunnar eignuðust 9 börn á 18 árum. Það er mikið afrek og aðallega Ingu. Sveinn fæddist árið 1940. Sveinbjörn Pálmi fæddist árið 1942. Vegna þroskahömlunar héldu þau Inga heimili saman þar til hann lést árið 2002. Það veitti henni mikilvægt hlutverk fram á gamals aldur. Ingvar fæddist árið 1943 en drukknaði aðeins tvítugur árið 1963. Ragnar fæddist árið 1944 og Kolbrún Kristín árið 1947 og Hjörtur Laxdal 1948. Hrafnkell kom í heiminn árið 1950, Torfhildur Rúna árið 1951 og Gunnþórunn Inga var síðust í röðinni. Hún fæddist 1958.

Hópurinn er stór og afkomendur Ingu orðnir margir – um níu tugir börn, barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn. Mesta auðlegð fólks er í ástvinum og fjölskyldu – svo Inga var forrík. Og Inga hafði gaman af fólkinu sínu, eldra og yngra og vildi gjarnan þjóna því. Og það eru ilmandi og elskulegar sögur sem ég hef heyrt að hve umhyggjusöm hún var í þeirra garð. Ástvinir Ingu og afkomendur hugsa gjarnan um hana þegar minnst er á pönnukökur. Ingu þótti gaman að standa í kokkhúsinu og baka fallegar pönsur í svanga munna. Og þeim þótti gaman að taka við og njóta hjá henni.

Störfin og minningar

Inga var dugmikil. Hún lærði snemma að vinna og kom stóra hópnum sínum til manns. Þegar næði gafst til frá heimilisstöfum fór hún að vinna sem verkakona. Hún réði sig til fiskvinnslu hjá Frosti í Hafnarfirði og síðar hjá Hval h.f. – sem yfirtók Frostið. Og þar vann hún – framyfir venjulegan lokaaldur – allt þar til hún lét af störfum hálfáttræð. Og hún hefði mátt vera lengur hefði hún viljað – eftir því sem forstjórinn sagði.

Hvernig var svo Inga? Hvernig manstu hana?

Leyfðu myndunum að koma upp í hugann.

Manstu útlit hennar? Horfðu á myndirnar á sálmaskránni og sjáðu hve glæsileg hún var.

Manstu persónustyrk hennar, glaðlyndi og traust?

Manstu styrk hennar? Hún átti ekki alltaf auðvelda daga en gafst aldrei upp og bar í sér Hvítárbakkastyrkinn. Svo var hún traustur vinur og félagi.

Manstu hve góð mamma hún var ósérhlífin og sívinnandi? Hún sat aldrei aðgerðarlaus. Margar fallegar flíkurnar komu úr höndum hennar og klæddu kroppa barna hennar. Hún vildi skýla sínu fólki og tryggja velferð þeirra.

Hún var sterk og kjarkmikil og vílaði ekki fyrir sér að fara í langar og flóknar utanlandsferðir – og alltaf bjargaði hún sér.

Svo gladdist hún með glöðum. Inga naut þess að fara í sveitina og hitta fólkið sitt. Hún hafði gaman að fara í Hvítárbakka hvort sem var til að baka flatkökur eða undirbúa Þorrablótið í Tungunum.

Svo naut hún fjallaferðanna og sóttist eftir að fara með Ídu til að elda ofan leitarmenn. Það þótti henni gaman og svo var maturinn kryddaður með söng og hlátrum. Lífið á fjöllum heillaði Ingu.

Inga hafði fágaðan smekk og var alltaf svo snyrtileg og falleg. Og þótti mikilvægt að hárið færi vel. Inga hafði næman smekk og gekk vel um allt, braut fallega saman og fágun hennar hélst allt til enda. Inga hafði gaman af fallegu handverki og meira að segja fallegum hleðslugörðum.

Svo hafði unun af söng og tónlist og þótti gaman að sækja tónleika. Hún þekkti ekki aðeins ókjör af ljóðum og sálmum heldur söng með tærri og fagurri rödd. Söngáhugi Ingu fær sína útgáfu í sálmum og ljóðum þessarar útfararathafnar.

Himininn

Hvernig er með himnaríkið? Þegar Bjössi dó ræddi Inga stundum um framhald lífsins hinum megin grafar. Inga vildi ekki láta brenna sig. Hún hafði aldrei mörg orð um sín innri mál og ekki heldur um trúmálin. En hún átti í sér von og trú um að mega hitta fyrir fólkið sitt sem hún hafði séð fara yfir móðuna miklu. Foreldra hennar, systkini, synina hennar og Gunnar. Og allir vinirnir hennar voru farnir á undan. Og þá er gott að tala um himininn.

Hvernig hugsar þú um himinn og himnaríkið?

Við menn erum misstór börn, sem liggjum á bakinu, störum upp í himininn, horfum á skýin og stjörnurnar, skiljum og tjáum með okkar viti hvað verður. En hugsun og orð um aðra veröld eru ekki og verða aldrei sannanleg lýsing, heldur hliðstæðuskýring. Við tölum aðeins um himininn og eilífð með hjálp myndmáls.

Kannski getur líkingin af fóstri í móðurkviði orðið til skilningsauka. Hvað hugsaðir þú þegar þú varst í þeim belg? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega heyrðir þú hljóð, fannst til með móður þinni, fékkst innskot af adrenalíni í æðar þínar, þegar hún var hrædd eða spennt, fannst fyrir vellíðan hennar, slakaðir á í kyrrð mömmunnar. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vorsólina, Biskupstungur eða Garðabæ, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í.

Þó að þú hafir haft heldur litlar og fátæklegar hugmyndir um lífið var við þér tekið þegar þú fæddist. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það orðið mun stórkostlegra en þú getur hugsað þér.

Við eigum aðeins vísbendingar meðan við erum í móðurkviði náttúrunnar, en við megum alveg hugsa um Ingu og allt fólkið hennar baðað birtu þegar við hugsum um himininn, sem hún gistir. Þetta hús, sem er umgjörð kveðjustundar hennar, er byggt vegna þess að trú hefur lifað í þessu landi, að lífið sé sterkara en dauðinn, að föstudagurinn langi sé ekki helsta táknmyndin um veröldina, heldur séu páskar betri ímynd fyrir líf og von fólks.

Inga tók á móti deginum fyrir austan – átti leið í bæinn og var svo rík að eignast öll þessi börn, afkomendur og ástvini. Hún fór sína ferð. Nú er hún farin lengra. Við megum trúa, að Inga hafi fæðst inn til ljóssins, inn í veruleika elskunnar, inn í stóran faðm, sem við köllum Guð. Þar má hún búa um alla eilífð, leika sér á hvers konar skautum sem henni þykja bestir og hlægja og syngja.

Nú er Inga farin. Hún bakar ekki lengur pönsur handa þér, syngur ekki fyrir þig, fer ekki á tónleika, hlær ekki við góðri sögu eða segir eitthvað hnyttið og kúnstugt. Hún er farin inn í himin Guðs.

Guð geymi Ingu og Guð geymi þig.

Amen.

Þau er biðja fyrir kveðjur eru:

Kristín Ellen Hauksdóttir,

Ingigerður og fjölskylda og Katrín í Ástralíu.

Bergþóra og Alex í Ameríku

Steinþóra á Spáni,

Ragnheiður Diljá og fjölskylda í Noregi

og Daði Hrafnkelsson.

Erfidrykkja í safnaðarheimili kirkjunnar og jarðsett í Hafnarfjarðarkirkjugarði.

Minningarorð í Hafnarfjarðarkirkju 24. september, 2014

 

Endurnýjun og hleðsla

endurnýjunKæru hlustendur. Góðan dag og verið velkomin til nýs dags og nýrra möguleika. Hvernig getur þú notað þennan dag, sem þér er gefinn? Hvernig viltu nota hann? Ef þú lætur aðeins stjórnast af áreiti hættir þú að heyra rödd hjartans. Þá blæs viskan hjá og spekin líka. Siglandi skip þarfnast stefnu og menn þarfnast líka stjórnar á sínum lífssjó.

Ég hlustaði einu sinni fyrirlestur um hvernig við getum breytt lífsmynstrinu til að njóta lífsins sem best. Fyrirlesarinn minnti á, að mörg okkar eigum þrískipta æfi. Fyrst koma bernsku- og náms-árin, oft nærri tuttugu og fimm ár. Síðan tekur við starfsæfin, sem er gjarnan fjörutíu til fimmtíu ár. Síðan fylgja eftirlaunaárin og ellin. En hentar öllum þessi þrískipting æfinnar?

Fyrirlesarinn ákvað að dreifa eftirlaunaárunum á alla starfsæfi sína. Fyrsta sinn fór hann á “eftirlaun” þegar hann var liðlega þrítugur og þá í eitt ár. Svo vann hann í sjö ár og þá tók við nýtt náðarár til að gera það, sem hann langði mest til. Hann tók ákvörðun um, að taka sér alltaf ársleyfi á sjö ára fresti til íhugunar, lífsendurskoðunar, hamingjuræktar og til eflingar innri manns óháð hasar daganna.

Að dreifa hleðslutíma á ævina með þessu móti krefst, að málum sé raðað í forgang. Í stað neyslu verður að spara, nýta fjármuni til andlegrar iðju fremur en kaupa hluta og eigna. Tíminn er ekki bara peningar. Tíminn er ekki heldur aðeins hinn sekúndur og mínútur. Tíminn er lifaður, er persónulegur. Hann getur verið angistarfullur sorgartími, stórkostlegur barneignatími, áhyggjutími eða tími algleymis og hamingju. Við gefum sjálf tímanum merkingu. Við megum líka hugsa nýjar hugsanir. Hin trúarlega nálgun er að leyfa himni og heimi að faðmast og kyssast í okkar eigin lífi.

Kristni er boðskapur um að Guð þorir. Kristin trú er ekki niðurnjörvaður átrúnaður hins læsta kerfis. Guð breytir um stefnu og tekur upp á hinu óvænta. Guð leggur sig í hættu vegna lífsins. Þú ert vissulega vera í heimi tímans, en í þér á frelsið heima. Má bjóða þér hamingjutíma? Þorir þú að lifa vel? Nýr dagur og nýir möguleikar.

Bænir

Guð gangi þér við hlið á þessum degi.

Morgunorð og bænir RÚV 27. september 2014

Meistarinn Gunnar

GunnarGunnar Bjarnason byggði gjarnan fyrir vini sína og lagði alúð í verk og kærleika í samskeyti. Stór hluti hússins sem ég bý í er handaverk hans. Mér þykir ekki aðeins vænt um húsið heldur met það sem verk vinar og dáist að smíðagæðum.

Fyrir tólf árum bætti Gunnar við húsið okkar og ég var liðléttingur. Ég hef hvorki fyrr eða síðar fylgst með nokkrum manni vinna eins hratt og Gunnar. Hann var á sprettinum. Ef hann vantaði fjöl eða verkfæri rölti hann ekki eða gekk – heldur spretti úr spori. Það gekk því mjög undan honum og þeim sem voru í vinnu hjá honum. En hann vandaði sig alltaf, flýtti sér aldrei þegar kom að fínu vinnunni.

Þjóðardýrmæti

Mörg ykkar sem kveðjið Gunnar í dag nutuð verka hans. Þau eru okkur mikilvæg og við megum gjarnan þakka fyrir Gunnar og vitja minninga um hann þegar við njótum húsaskjóls á köldum vetrardegi eða förum í einhvert dásemdarhúsið sem Gunnar smíðaði, hvort sem það er í Austurstræti, í Þjórsárdal, í Landsveit, í Brattahlíð á Grænlandi eða á Hólum. Handaverk hans eru ekki aðeins mikilvæg einstaklingum heldur líka menningarverðmæti og þjóðardýrmæti.

Ég er sáttur við líf mitt

Við Gunnar hittumst nokkrum sinnum síðastliðið haust til að fara yfir lífið og undirbúa næsta líf. Gunnar talaði um æfi sína, fór yfir eigin afstöðu, talaði fallega um konu sína, son, tengdadóttur, afadreng, systkini og ættboga. Hann talaði um hugðarefni, skýrði verkefni sín og ástríðuna að baki. Svo horfði hann á mig íhugulum augum og sagði: „Ég er sáttur við líf mitt.“ Og hann bætti við: „Ég er sáttur við handaverk mín. Ég er sáttur við að nú lýkur mínu lífi.“

Að vera sáttur við líf sitt er mikil blessun. Í Gunnari bjó eldur og lífsþorsti en líka ræktuð Guðstrú. Hann virti teikningu meistarans mikla sem hefur hannað heiminn og ákvarðaði honum verkefni, stefnu og áferð. Svo þegar Gunnar gerði sér grein fyrir að hamarinn var fallinn, sögin líka og dagsverki var lokið gerði hann upp og kvaddi hann ástvini og samferðamenn. Hann gerði miklar kröfur til sjálfs sín og starfa sinna. En hann sagði: „Ég er sáttur“ – í þeirri sátt var fólgin vissa þess að hafa unnið vel, gegnt kalli og hlutverki. Öllu var vel fyrir komið og hann gætti horft til baka og verið þess viss að vel hefði verið lifað og hann ætti góða heimvon – því þannig er tilveran gerð.

Í húsi föðurins eru margar vistarverur, allar flottar, vel strikaðar, hús fyrir líf. Þar hrynur ekkert, engin fúi eða álag tímans skemmir. Lífið er uppbygingartími en eilífa lífið er til fullkomnumar. Það kunni Gunnar að meta.

Lofsöngurinn

„Og gerðu svo vel að lesa úr 103. Davíðssálmi við útförina mína“ sagði Gunnar og bætti svo við „skrítið að skipuleggja eigin útför.“ Við ræddum um líf og dauða og svo las ég fyrir hann upphátt þennan sálm. Hann gerþekkti merkingu textans, um lífsafstöðuna – um Guð og menn, líf og verk og samhengi mannlífsins. „Lofa Drottinn … allt sem í mér er.“ Guð er upphaf, máttur heims, bindingsverk alls.

Allt sem í mér er. Í Gunnari bjó afar margt – en allt vildi hann setja í þjónustu meistarans mikla og leyfa verkum, orðum, hlutum að syngja lofsöng. Hann hafði notað vel lífstímann til að marka sér stefnu og vinna í sjálfum sér og fyrir aðra.

Fyrir hvað lifum við? Fyrir hvað lifir þú?

Fólk og upphaf

Foreldrar Gunnars voru Hanna Arnlaugsdóttir, röntentæknir (f. 29.7. 1928, d. 13.1. 1984) og Bjarni Ólafsson (3. ágúst 1923. – 10. maí 2011) húsasmíðameistari og lektor. Gunnar fæddist 15. ágúst árið 1949 og var elstur þriggja systkina. Hann hafði í sér getu og mótun elsta barnsins og axlaði vel ábyrgð og skildi mikilvægi hennar. Ólafur var næstur, fæddist 1953 og Hallfríður er yngst, en hún kom í heiminn árið 1957.

Þau eru öll uppbyggileg. Það er ættarfylgja þeirra að bæta – byggja upp – og gildir einu hvort rætt er um hluti, hús eða fólk. Ólafur er bifreiðasmiður að mennt og býr í Svíþjóð ásamt sínu fólki en Halla er iðjuþjálfi og kennari og byggir upp fólk. Hún býr í Noregi sem og hennar fjölskylda.

Bjarni, Hanna og börnin áttu heima á Gullteig og í Sigtúni í bernsku Gunnars. Hann hóf því skólagönguna í Laugarnesskóla. Gunnar var kominn af smiðum. Ólafur, afi hans, var kunnur smiður og Bjarni, faðir hans, sömuleiðis. Gunnar fékk því smíðar í arf og meistaravíddina einnig. Gunnar fór í Gagnfræðaskóla verknáms og síðan í Iðnskólann í Reykjavík. Hann lauk sveinsprófi í húsasmíði árið 1970.

Handverk og fræði

Gunnar starfaði síðan við smíðar og fyrst með föður sínum í nokkur ár eftir að námi lauk. Hann lærði byggingu stokkahúsa í Ål í Hallingdal í Noregi veturinn 1976 og í framhaldinu fékk hann vinnu á byggðasafninu á Bygdöy í Osló. Á þessum árum var Gunnar líka yfirsmiður þjóðveldisbæjarins í Þjórsárdal. Með smíðinni kynntist hann húsagerðarsögu, handverki, miðaldafræðum og fólkinu í þessum greinum. Arkitektar, safnamenn og handverksmenn urðu síðan vinir hans og félagar og Gunnar lagði til þessa samfélags bæði tæki, hugmyndir og verk.

Gunnar fékk meistararétindi í grein sinni árið 1987. Sem húsasmíðameistari kom Gunnar og menn hans að smíði margra húsa. Hann stýrði ekki aðeins verkum eða negldi, heldur blés mörgum í brjóst áhuga á handverki fyrri kynslóða. Gunnar sérhæfði sig í viðgerð gamalla húsa og vann við mörg hús í umsjá Þjóðminjasafnsins og Húsafriðunarnefndar. Svo tók hann þátt í byggingu margra tilgátuhúsa. Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal er þegar nefndur. Við hlið hans er helgidómur sem Gunnar smíðaði. Þá vann hann við smíði bæjarins á Eiríksstöðum í Haukadal og í Brattahlíð þegar Þjóðhildarkirkja var reist. Og vert er að minna á Austurstræti 22 í Reykjavík. Og dýrmæti önnur mætti nefna og nokkur þeirra í einkaeign. Gunnar smíðaði hér í Neskirkju og lagði á ráðin um margt varðandi viðgerðir. Hann smíðaði í tugum kirkna á Íslandi, lagfærði og bætti. Ég vil fyrir okkar hönd, Neskirkjufólks, og fyrir hönd þjóðkirkju Íslands færa þakkir fyrir verk völdundarins í þágu kirkjunnar.

Svo háttaði til að við Gunnar hittumst reglulega þegar unnið var að undirbúningi byggingar Auðunnarstofu á Hólum. Það var hrífandi að hlusta á Gunnar þegar hann lýsti verkefninu, gerð hússins, að hverju þyrfti að hyggja og hvernig yrði að vinna verkið svo það yrði eins og að væri stefnt.

Sami hugurinn brann í Gunnari þegar komið var að búðinni í Skálholti, sem nú er risin við hlið dómkirkjunnar. Sum áhöldin sem hann notaði við smíði þess húss og annarra tilgátubygginga smíðaði hann sjálfur. Gunnar hafði verið í sveit í Heysholti í Landsveit. Þar var smiðja og smíðað úr járni. Síðar fékk Gunnar tækifæri til að læra eldsmíði og lagði sig eftir tengslum við erlenda smiði.

Gunnar leitaði út fyrir mörk í smíðavinnu og gerði tilraunir með alls konar smíðar og eldsmíðin var ein handverksvíddin sem hann kom að. Raunar hafði hann áhuga á að prufa fornar iðnir. Sverðið sem hann smíðaði ungur kallaði á fjölbreytilega vinnu. Gunnar steypti t.d. döggskó sverðslíðursins og svo lærði hann spjaldvefnað til að geta gert upphengiól slíðursins.

Fyrir hönd handverksmanna í Noregi biður Atle Ove Martinussen, menningarsafnastjóri á Hörðalandi, fyrir kveðjur og þakkir fyrir góðan félaga, afburða smíðar og segir að skerpa og gæði verkfæranna sem Gunnar skildi eftir sig í Noregi muni gleðja marga og mörg ár.

Norskur fræðimaður sagði einu sinni að manneskjan bæri í sér „grænseoverskridende tendens.“ Gunnar hafði alltaf áhuga á að gera sem best og skila sem fegurstu verki og grúskaði því mikið. Hann vildi skoða gerð hluta, fræða, hefða og skilja og skila síðan til nýrrar kynslóðar.

Það var vandalaust að koma Gunnari inn á menningarsöfn, en það gat verið þrautin þyngri að ná honum þaðan út – svo heilaður var hann af lömum og lásum aldanna, snilldarhandbragði og verkfærum. Gunnari var gefið að draga heim lærdóm fortíðar til nota fyrir framtíð. Því var Gunnar ekki aðeins mikilvægur smiður heldur ráðhollur við hönnum og frágang.

Jesús Kristur og trúin

Þið sem hér eruð í dag nutuð ekki aðeins verka hans heldur einnig fyrirbænar. Gunnar var maður andans einnig. Í Jesúskólanum var hann jafnlengi og lífið lifði. Hann þáði trú og menningu kristni í arf frá foreldrum sínum. Frá barnsaldri tók Gunnar tók þátt í starfi KFUM og -K. Á fullorðins árum vann hann mikið fyrir sumarbúðir í Vatnaskógi og Vindáshlíð. Hann sat í stjórn KFUM í Reykjavík um tíma. Svo gekk hann í Karlakór KFUM á síðari árum og söng annan tenór og hafði mikla gleði af. Hann studdi kristniboð og var í stjórn kristniboðssambandsins um tíma.

Hann var félagi í Gideonfélaginu og kapellán sambandsins 1996-99 og gaf æsku þessa lands Nýja testamenti. Gídeonfélagar á Íslandi biðja fyrir kveðju til þessa safnaðar með þakklæti fyrir frábærlega vel unnin störf í hinum ýmsu embættum og verkefnum sem Gunnari voru falin.

Gunnar var bænamaður. Hann var sem sveinn í samskiptum við meistarann mesta, lagði lærdómsefni lífsins fyrir hann, gleðiefni sín og vandkvæði. Hann var algerlega opin fyrir bænheyrslu og þakkaði heilshugar þegar kraftaverkin urðu. En svo var hann líka auðmjúkur þegar beiðnum hans var ekki svarað með þeim hætti sem hann vonaðist eftir. Í dauðastríði sáum við vinir Gunnars æðrulausa trú hans og traust sem ekki brast. Jesúskólinn hafði skilað honum miklu.

Kristín og fjölskylda

Í hjúskap var Gunnar hamingjumaður. Þau Gunnar og Kristín Sverrisdóttir (f. 31.3.1952, náms- og starfsráðgjafi) voru engir unglingar þegar þau fóru að leiðast. Mæður þeirra þekktust og þegar Gunnar var sjö eða átta ára talaði hann um óþekku stelpurnar og átti við þær Sverrisdætur!

En svo tók Gunnar síðsumars árið 1978 við pakka úr hendi Kristínar til að fara með til Danmerkur. Eitthvað í þeim gjörningi snart Gunnar því skömmu síðar fór að styttast á milli þeirra. Þegar andinn var kominn var Gunnar stefnufastur um framhaldið. Þau Kristín gengu í hjónaband 7. júlí árið 1979, voru samhent og leiddust síðan í gegnum lífið. Þau nærðu samband sitt, höfðu að fjölskyldustefnu að eiga sunnudaginn saman – til kirkjuferða, gönguferða og fjölskylduræktar. Þau lögðu upp úr að vera saman, líka þegar Gunnar var að verki utan höfuborgarsvæðisins. Og vinnutími og fjölskyldutími þeirra samfléttaðist vel. Og Gunnnar kunni að meta konu sína og henni var lagið að efla hann og styrkja.

Kristín og Gunnar eignuðust einn son, Sverri, sem fæddist þeim í febrúar árið 1982. Þau lögðu til hans umhyggju, kærleika og fyrirbænir. Þau voru lengur með hann heima í bernsku en flestir aðrir foreldrar gerðu á þessum tíma og hafa enda uppskorið nánd og ræktuð tengsl. Sverrir smíðaði um tíma með föður sínum og það var heillandi að verða vitni að samvinnu þeirra og gagnkvæmri virðingu. Svo flaug Sverrir að heiman og upp í skýin, varð flugmaður og hefur atvinnu af flugi. Og Gunnar hafði líka áhuga á flugi! Kona Sverris er Guðrún Birna Brynjarsdóttir, ferðamálafræðingur (f. 12.5. 1984). Sonur þeirra er Jakob Bjarni f. 6.1.2014 og annars barns er að vænta. Það er harmsefni að þau njóta ekki barngæsku Gunnars í framtíð.

Gunnarsminningar

Hvernig manstu Gunnar? Kannski sástu hann þeytast um mótorhjóli! Montesa-hjólið hans dansaði jafnvel með hann. Manstu eftir honum út í sveit vera svipast um eftir Willysjeppa – eða einhverju Willysbraki? Hann sagði stundum við Kristínu konu sína að hún mætti ekki láta sér bregða – hann ætti von á sendingu – og stundum voru Willysræflar sendir til hans og hann gerði þeim gott til á næstu árum. Og svo stendur Willys 44 hér utan kirkjunnar og fylgir meistara sínum hinstu ferðina.

Manstu eftir myndum Gunnars? Sástu einhvern tíma til hans bograndi yfir gömlum lás, rannsaka og ljósmynda til að greina sem best gerðina. Hlustaðir þú á Gunnar segja frá því sem hreif hann? Manstu hve vel hann sagði frá þegar hann talaði um hjartansmál?

Stríddi hann þér einhvern tíma – og gerðir þú þér grein fyrir hvað hann yddaði vel og húmor hans gat verið beittur? Manstu eftir honum á fjöllum og í víðerni Íslands, með dýrð himins og jarðar í blikandi augum?

Manstu eftir honum með spenntar greipar í djúpu samtali við yfirhönnuð alheimsins? Sástu hann einhvern tíma lesa hina helgu bók með íhugulli vitund? Sástu hann móta listaverk í eldsmiðjunni? Manstu þegar hann rak fram hökuna þegar eitthvað kúnstugt kom fram á varirnar? Manstu hve vel hann hlustaði á fólk, hve hann lagði sig fram um að nema og skilja – og hve mannvirðing hans var djúp? Manstu hve lausnamiðaður hann var?

Í húsi föður míns

Og nú er hann horfinn. Hann mun ekki fella saman fleiri stokka nema ef vera skyldi í himneskum föðurhúsum. Hann mun ekki hlaupa á safni til að skoða flugvél eða lás. Tenórrödd Gunnars er þögnuð en lofsöngurinn er ekki þagnaðar.

Handaverkin hans lifa, bænir hans hafa verið heyrðar.

Í sumar skoðaði ég Auðunnarstofu og dáðist að handarverkunum. Fyrir einni og hálfri viku gekk ég að búðinni í Skálholti sem Gunnar smíðaði, heillaðist ekki aðeins að trésmíðinni heldur hreifst líka af lásnum – og hugsaði til Gunnars sem lifði óhræddur sína hinstu daga í þessum heimi. Lásinn er fagur. Gunnar trúði því dauðinn læsti ekki líf hans í gleymsu eilífðar, heldur hefði Guð opnað lás heimsbrenglunarinnar og dauðans algerlega. Í dauða Gunnars er byrjað nýtt líf í búð eða stofu eilífðar. Og því megum við syngja Guði lof sem teiknar, gerir, leysir og blessar heiminn.

Guð geymi Gunnar Bjarnason – Guð geymi þig.

Amen – Í Jesú nafni Amen.

Minningarorð við útför Gunnars í Neskirkju 23. september, 2014.

 

Sálmur 103, 1-22

2 Lofa þú Drottin, sála mín,

og allt sem í mér er, hans heilaga nafn;

lofa þú Drottin, sála mín,

og gleym eigi neinum velgjörðum hans.

3Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar,

læknar öll þín mein,

4leysir líf þitt frá gröfinni,

krýnir þig náð og miskunn.

5Hann mettar þig gæðum,

þú yngist upp sem örninn.

6Drottinn fremur réttlæti

og veitir rétt öllum kúguðum.

7Hann gerði Móse vegu sína kunna

og Ísraelsbörnum stórvirki sín.

8Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,

þolinmóður og mjög gæskuríkur.

9Hann þreytir eigi deilur um aldur

og er eigi eilíflega reiður.

10Hann hefur eigi breytt við oss eftir syndum vorum

og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum

11heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðinni,

svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.

12Svo langt sem austrið er frá vestrinu,

svo langt hefur hann fjarlægt afbrot vor frá oss.

13Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum,

eins hefur Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.

14Því að hann þekkir eðli vort,

minnist þess að vér erum mold.

15Dagar mannsins eru sem grasið,

hann blómgast sem blómið á mörkinni,

16þegar vindur blæs á hann er hann horfinn

og staður hans þekkir hann ekki framar.

17En miskunn Drottins við þá er óttast hann

varir frá eilífð til eilífðar

og réttlæti hans nær til barnabarnanna,

18þeirra er varðveita sáttmála hans

og muna að breyta eftir boðum hans.

19Drottinn hefur reist hásæti sitt á himnum

og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.

20Lofið Drottin, þér englar hans,

þér voldugu hetjur er framkvæmið boð hans,

er þér heyrið hljóminn af orði hans.

21Lofið Drottin, allar hersveitir hans,

þjónar hans er framkvæmið vilja hans.

22Lofið Drottin, öll verk hans,

á hverjum stað í ríki hans.

Lofa þú Drottin, sála mín.

Geislar lífsins

köllun SÞGóðan dag kæru hlustendur.

Við Landakotskirkju í Reykjavík er skúlptur Steinunnar Þórarinsdóttur. Einn veturinn gekk ég daglega fram hjá honum og vitjaði móður minnar, sem lá banaleguna á Landakotsspítala. Ég horfði jafnan á styttuna, sem er konumynd, hreifst af þokka hennar, mjúkum línum og þeirri auðmýkt og lotningu, sem hún miðlar. Oft var ég áhyggjufullur þegar ég fór hjá, en þessi einfaldi en agaði minnisvarði um nunnuþjónustu Sankti Jósepssystra miðlaði mér trúartrausti og óttaleysi.

Glerkross sker ryðgaðan málminn. Fyrst sá ég að krossinn náði frá hjartastað og upp á andlit. Síðar tók ég eftir, að kross var líka á bakinu. Krossarnir minntu mig á signinguna, sem elskandi mömmur og pabbar hafa merkt börn sín með – að framan og aftan. Minnti mig á, að við mannfólkið erum krossuð á bak og brjóst, sama hvað við erum frosin og lemstruð.

Einn morguninn þegar áhyggjumyrkið var hvað dimmast gekk ég mót sól og að konumyndinni. Þá varð ég fyrir undri. Sólargeisli skein í gegnum krossinn á styttubakinu og út um krossinn á brjóststykkinu. Allur krossinn lýstist upp og glerið magnaði ljómann. Rústrauð mannsmyndin varð sem yfirjarðnesk vera, sem tók í sig himinljósið. Brjóstið opnaðist og miðlaði birtunni áfram í mynd krossins. Þetta varð mér sýn, sem ég túlkaði í krafti trúar.

Verkið heitir Köllun og við erum öll kölluð til lífs, hins guðlega veruleika. Enginn gengur að undrinu að vild, þegar fólk er í stuði og ætlast til að ná sambandi. Konumyndin við Landakot geislar aðeins á ákveðnum tíma og við ákveðnar aðstæður. Best er að koma með opnum huga og íhygli. Þá verður undur lífsins verður ljóst, í málmi, gifsi og gleri.

Hvernig verður þessi dagur í lífi þínu. Kannski sækja að þér þungir og myrkir þankar. En ljósið skín, dagur er runninn, aftureldin verður. Leyfðu ljósinu að skína til þín og gegnum þig. Það er köllun þín í dag – köllun til ljóss og lífs. Guð lýsi þig og upplýsi þig á þessum degi og sé þér náðugur. Guð upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið. Bænir Morgunorð og morgunbæn Rúv. 25 sept. 2014

Hljóðupptaka Rúv er að baki þessari smellu:

http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunbaen-og-ord-dagsins/25092014