Vatnið, lækur og Lilja

„Því vatnið, sem streymir um æðar þess, er
jafn íslenskt og blóðið í hjartanu á mér.“
Lilja Sólveig Kristjánsdóttir (11. maí 1923 – 23. apríl 2015) var ekki aðeins trúarskáld heldur orkti hún vísur og ljóð af ýmsu tilefni eins og sjá má í bók hennar Liljuljóðum. Hún átti alla tíð auðvelt með að yrkja. Náttúruljóð Lilju eru mörg og djúpsækin.  Meðal þeirra er íhugun um vatnið, áhrif þess, eðli og eigindir. Mér hefur alltaf þótt vænt um þetta ljóð sem varð til í átakalausri hrifningu þegar Lilja var í landinu sínu, sátt við Guð og menn og naut náttúruhljóðanna. Hún íhugaði tengsl og líkindi manns og náttúru. Þá seitlaði þetta ljóð inn í huga hennar. Það er líka tjáning á hve skynjun og túlkun Lilju var víðfeðm. 
Eftir að Lilja dó árið 2015 var hún jörðuð við hlið Siguringa, manns síns, í Fossvogskirkjugarði og leiðin þeirra merkt. En mig langaði að minnisvarði um Lillju væri líka í landinu þeirra austan í Ingólfsfjalli. Vatnsljóð Lilju var sett upp og koparsteypt á skjöld og undir er eiginhandaráritun Lilju. Við Þór Sigmundsson, vinur minn og mestur steinsmiða landsins, fórum austur og festum koparskjöldinn á bjarg við lækinn sem syngur svo fallega alla daga.  Þrestirnir þeyttust um skóginn í ástarbríma og undirbjuggu sumarið og fjölgun. Hvönnin var byrjuð að senda lífsprota sína upp mót himni eins og sést á annarri myndinni. Meðan við Þór brösuðum við uppsetningu hækkaði lækurinn sönginn og við gátum tekið undir hvert orð Lilju. Blessuð veri minning Lilju og Siguringa. 
Lækurinn skrafar. Ég skemmti mér við
að skilja þann hugljúfa, seiðandi nið.
Í flosmjúku grasinu hlusta ég hljóð
á hljómfallið þýða, hans ættjarðarljóð.
Gróðurinn mikli, sem umhverfis er,
með angan og fegurð, er hugsvalar mér,
frá vatninu líf sitt og litauðgi fær.
Hjá læknum öll náttúran blómstrar og grær.
Hjartslátt míns lands bæði heyri’ ég og lít,
er hlusta’ ég á lækinn og friðarins nýt.
Því vatnið, sem streymir um æðar þess, er
jafn íslenskt og blóðið í hjartanu á mér.
Dýrlegt er land mitt með lækjarins nið,
öll litfögru blómin og söngfugla klið,
með víðáttu tæra og fönnum krýnd fjöll,
þá friðsæld, er bætt getur streitumörk öll.

Osso Buco – hamingjusprengja fyrir nautnaseggi

Osso Buco er einn af ofurrétt­um Norður-Ítal­íu sem einfalt og gaman er að elda. Ítal­ir not­ar gjarn­an kálfaskanka í réttinn og nautaskank­ar nýtast því líka. Ég steiki oftast kjötið á pönnu og færi svo yfir í stóran ofnþolinn pott. Síðan steiki ég grænmetið, bæti svo við tómataviðbótinni, krydda og sýð, set svo þar á eftir soð og vín og helli síðan öllu dýrðarhráefninu yfir kjötið í pottinum. Ef ég hef byrjað eldamennskuna snemma set ég pottinn í ofn á lágum hita, t.d. 100°C. Annars er ofninn settur á 180°C eða 200°C ef fyrirhyggjan eða tíminn leyfir ekki hægeldamennsku. Ef enginn er pottjárnspottur á heimilinu er auðvitað hægt að nota ofnþolið fat með loki – nú eða sjóða allt á eldavél og hafa auga á potti og framvindunni og tryggja að nægur vökvi sé í fati eða potti.

Meðlæti getur verið bygg, pasta, risotto, hrísgrjón, kartöflusmælki – nú eða bara kartöflumús! Rétturinn verður heldur eintóna hvað liti varðar og því skemmtilegt að skreyta svolítið með rósmarín eða steinselju. Basilíka og kóríander gefa líka skemmtilegt fráviksbragð sem mörgum þykir eftirsóknarvert.

Fyr­ir 6-8

  • 6-8 sneiðar af Osso Buco-kjöti
  • 2- 3 stk. skalot­lauk­ar, saxaðir (aðrar laukgerðir duga ágætlega)
  • 3 sell­e­rístönglar skornir í ten­inga
  • 3 gul­ræt­ur, skornar í ten­inga eða þverskornar
  • 2 hvít­laukar (heilir en ekki lauf) saxaðir
  • 1 msk tímí­ankrydd
  • 1 msk rós­marínkrydd 
  • 3 lár­viðarlauf
  • 1 lúka söxuð steinselja eða 1 msk steinseljukrydd
  • 1 dós heil­ir eða grófsaxaðir tóm­at­ar
  • 1 dós saxaðir tóm­at­ar
  • 6 dl kjúk­linga­soð
  • 2 dl hvít­vín
  • ólífu­olía eft­ir smekk fyr­ir steik­ingu
  • salt og pip­ar skv. smekk 

Aðferð:

  1. Hitið 1-2 mat­skeiðar af ólífu­olíu á pönnu og steikið kjötsneiðarn­ar 3 mín­út­ur á hvorri hlið. Saltið, kryddið og piprið eft­ir smekk.
  2. Takið kjötið upp úr og setjið í pottinn og geymið meðan græn­metið er steikt og sós­an gerð.
  3. Steikið skalottu­lauk, sell­e­rí, gul­ræt­ur og hvít­lauk í um það bil 5 mín­út­ur í pott­in­um.
  4. Bætið síðan við tómöt­un­um og sjóðið í 3 mín­út­ur. Hrærið reglu­lega.
  5. Bætið við hvít­víni, kjúk­linga­soðinu, kryddjurt­un­um, stein­selj­unni og loks kjötsneiðunum.
  6. Setjið í ofninn í amk tvær klst. (ef ekki er sett í ofn er soðið við vægan hita í tvær klukku­stund­ir. Með lægri hita má hægelda.
  7. Vert er að snúa kjöt­bit­un­um við í suðu/steikar-ílátinu einu sinni til tvisvar á þess­um tíma og bæta við kjúk­linga­soði eft­ir þörf­um.
  8. Soðið á að þekja kjötið að amk þrem­ur fjórðu all­an tím­ann og um­lykja græn­metið.

Spilið endilega ítalska músík í undirbúningi og þegar sest verður að borði. Þakkarbæn fyrir hamingjusprengjuna, mat og líf má gjarnan stíga upp með kryddilmi og tónlist: Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen – og Guði sé lof fyrir Osso Buco.

Á vefnum er fjöldi myndbanda um hvernig hamingjusprengjan Osso Buco er elduð og þar eru ýmsar skemmtilegar útgáfur af hráefnalistanum líka.

Pabbinn hágrét

Þau eru bæði kínversk en völdu að ganga í hjónaband í hliði himins á Skólavörðuholti. Þau sögðu sín já af lífs og sálar kröftum. Pabbi brúðarinnar hágrét og táraflóðið var svo mikið að ég íhugaði að gera hlé á athöfninni. En hann harkaði af sér og við töluðum svo saman eftir athöfnina. Þá kjarnaðist kínversk saga seinni hluta tuttugustu aldar og þessarar líka. Brúðurin glæsilega var eina barn þeirra hjóna, þau fengu ekki að eiga fleiri. Þar var ein af táralindum pabbans. Nú var hún að játast sínum elskulega manni. Þungi sögunnar og lífstilfinninganna féllu á hinn grátandi sem elskaði dóttur sína og óskaði henni svo sannarlega að verða hamingjusöm með manni sínum. En nú var hún farin, tíminn breyttur og ekkert annað barn heima. Skilin urðu, fortíðin var búin, æskutíminn, dótturtíminn, ástartíminn. Mér komu ekki á óvart tilfinningar hjónanna nýblessuðu en hinar miklu tilfinningar föðurins urðu sem gluggi að Kínavíddunum. Voru fleiri ástæður táranna og ástarinnar? Spurningarnar þyrluðust upp. Höfðu jafnvel fleiri börn fæðst en tapast foreldrunum? Í tárum pabbans speglaðist ekki aðeins harmur hans heldur tuga og jafnvel hundruða milljóna sem fengu ekki að ráða ráðum sínum eða fjölskyldumálum vegna yfirgangs skammsýnna stjórnvalda (og auðvitað velmeinandi). Við mannfólkið elskum og missum – með mismunandi móti – og mikið er mannlífið stórkostlegt á dögum tára en líka hláturs.

Bikar blessunarinnar …

Djúp kristninnar eru mörg. Jesús Kristur gerði ekki svimandi víddir að miðju samfélags kristninnar heldur borð og máltíð. Það er einstakt í heimi trúarbragðanna og því eru ölturu í kirkjum og oftast miðjur. Þau jarðtengja allt trúarlíf kristinna manna. Þegar bikar er blessaður og brauð líka eru tengsl mynduð – ekki aðeins við eilífð heldur líka pólitík, menningu, náttúru og deyjandi fólk á Gaza. Við sem einstaklingar megum þiggja veisluboðið til elskuheims Guðs sem hefur undraáhuga á að fuglar nærist vel, lífríkið dafni, mannfélag njóti leiks og hlátra og illskan sé hamin. Bikar blessunar, brauð fyrir veröld og að allt líf nærist. Fyrir 11 árum efndum við til skírdagsmáltíðar í safnaðarheimili Neskirkju og Arnrún og Friðrik V sáu veisluföngin og við Elín Sigrún stýrðum dagskrá. Anna Gyða Gunnlaugsdóttir tók myndir og m.a. þessa látlausu mynd af gömlum bikar kirkjunnar. Það er frábært að skírdagsmáltíðir eru orðnar að föstum lið í Neskirkju og mörgum kirkjum. Og súpueldhús, líknarstarf og þjónusta við hungraðan heim eru liðir guðsveislu í heiminum.

Sjö eða níu halar – sagan um Skötutjörn

Austan við Þingvallakirkju er falleg tjörn og gjá í henni miðri. Tjörnin heitir Skötutjörn og nafnið verður skiljanlegt ef lögun hennar er skoðuð. Um tjörnina er til saga, sem er úr flokki þjóðsagna. Slíkar sögur miðla ekki aðeins þurrum fræðum, heldur skemmta og miðla oft lífsspeki. Hið yfirborðslega verður tilefni til að tala um hið innra. Hversdagsleg mál eru færð í sögur til lærdóms og góðs lífs. Svo er einnig með söguna um Skötutjörn. 

Sagt var, að eitt sinn hafi Skötugjáin náð undir eldhúsið á Þingvallabænum og fiskur var í gjánni. Matarkistan var betri en nokkur kæliskápur samtíðar því ekki þurfti fiskbirgja og Bónus til að fylla á. Í eldhúsinu var hlemmur, sem rennt var til hliðar þegar fisk vantaði í soðið og færi var rennt þar niður. Ekki mátti þó veiða nema til einnar máltíðar. Allt skyldi gert í hófi og þar með er skiljanleg auðlindasiðfræði sögunnar.

Ágjarn maður settist að á Þingvöllum og sinnti ekki reglunni um að veiða skyldi samkvæmt þörf. Hann veiddi með græðgi og að lokum festi hann öngul sinn í stórskepnu. Dró karl nú ákaft og þegar hann sá skepnuna varð honum ljóst, að hann hafði sett í skötu með sjö eða níu hala. Var þetta jafnvel sá vondi sjálfur? Eftir mokveiðina hefur síðan ekkert veiðst í Skötutjörn. Hún varð fisklaus, blessunin var misnotuð. Gjáin liggur ekki lengur undir eldhús bæjarins og þessi endurnýjanlega matarkista varð ekki til nokkurs magagagns.

Í sögunni er líka tjáður mannskilningur meðalhófs, jafnvægis og ábyrgðar. Sama stefna er túlkuð í trúarhefð þjóðarinnar t.d. Vídalínspostillu og Passíusálmum. Kristnin hefur um aldir innrætt mönnum hófstillingu með litríkum viskusögum. Græðgi skilar aðeins stundarfró en engri varanlegri hamingju. Fiskimaðurinn á Þingvöllum var sjálfhverfur. Hann veiddi án fyrirhyggju, en varð svo fyrir ískyggilegri reynslu í ati græðginnar. Þá fór hann loksins að hugsa. Utan sjálfhverfs æðis mætum við sjálfum okkur og þar með Guði.

 Drögum við að okkur í ágirnd og eignasókn? Erum við fólk græðgi og þar með ófara? Hvenær er mikið nóg? Eða erum við tilbúin að íhuga undrið, lífslánið, sem við njótum á hverjum degi? Hvað eða hver veldur gæsku og elsku? Er græðgi góð? Nei, hún er með sjö eða níu hala ófara. Höldum til veiða og gætum að hófi og stillingu.

Birtist í Vísi. Kennimyndin er af myndskreytingu um Skötutjörn í gestastofu þjóðgarðsins á Þingvöllum við Hakið.