Leir-andi

Ólöf Erla Bjarnadóttir sýnir verk sín á hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum. Verk frá ýmsum tímaskeiðum í listferli Ólafar eru á sýningunni Leir-andi, sem er afar fjölbreytileg og gefur innsýn í margar vídir í listferli hennar. Við Elín höfum notað og notið bolla sem Ólöf hefur skapað og dáðst að brúkshlutunum fyrir viðburði hvunndagsins og veislur hátíðanna. En mér þótti skemmtilegt að sjá og skynja breiddina í ferli Ólafar. Jólakúluserían er stórkostleg og var sem nútímaleg helgitafla yfir kökudiskaaltarinu. Jökul- og Laugavegsskúlptúrarnir eru hrífandi og hafa ýmsar trúarlegar skírskotanir. Afgangaskúlptúrarnir eru enn ein víddin og sumir fingurskraut. Staup og stjakar eru á einu borðinu. Allt eru þetta helgimyndir, grúpperaðar uppstillingar eins og ég ólst upp við á bernskuheimili mínu  – svo mér þótti hrífandi heimakennd gagntaka mig að ganga um hlöðuloftið á Korpúlfsstöðum.  

„Þarftu ekki að gera bók?“ spurði ég Ólöfu. Hún horfði á mig með þessu sposka og afvopnandi augnaráði og svaraði: „Ég er búin að því og Saga dóttir þín tók nokkrar af myndunum!“ Svo við Elín fórum með bókina Leir-andi frá Korpúlfsstöðum sem gefur innsýn, skýrir samhengi Ólafar Erlu, sýnir fjölda mynda af verkum hennar og dýpkar því lifunina á hlöðuloftinu. Leir-andi veitir merkingu og skilning á ferli, lífi og verkum Ólafar, handverksþróun hennar, rannsóknir á leir, litun og glerjun, hvernig hugmyndir og handverk hafa þróast og unnið saman og einstakir flokkar eða gerðir hafa orðið til í tímans rás. Svo er bókin afar persónuleg og speglar dásamlega skopskyn, tengslagetu, innsæji, hugsun og iðju Ólafar. Við lesturinn fannst mér hún vera við hlið mér mér og jafnvel hlægja með mér þegar ég skellti upp úr. Lífsgáskinn stígur upp úr texta og myndum bókarinnar.

Glæsileg, vönduð og frábærlega hönnuð sýning. Leir-andi er hrífandi og leiftrandi vel gerð bók um feril frábærs listamanns sem hefur gert okkur mikið gagn en líka miðlað okkur fegurð og inntaki til að njóta. Verkin eru listmunir og helgimunir sem auka unað lífs. 

Um verk Ólafar Erlu: 

https://www.instagram.com/olofeb/

https://www.arkiv.is/artist/242

https://oloferlakeramik.is/Information

Myndirnar hér að neðan tók ég á syningunni á Korpúlfsstöðum 10. maí, 2024. 

 

 

 

Nonni frændi dáinn

Raddfegurð, hlátur og broshlýja einkenndu Jón Þorsteinsson. Ég vissi lítið um Nonna frænda fyrr en  ég hitti hann í Noregi veturinn 1973 – 74. Þar var hann við nám í hjúkrun og djáknafræðum og hóf síðan söngnám sem hann stundaði í Noregi, Danmörk og á Ítalíu. Einu sinni kom Nonni frændi í Íslendingahóp eins og brosandi stormsveipur, talaði hátt, hló hjartanlega, felldi dóma um flest og talaði fjálglega um nám sitt og hugðarefni. Mér þótti hann bæði heillandi og yfirþyrmandi.

Nonni vildi alltaf vera Nonni frændi.  Ólafsfirðingurinn hafði mikinn áhuga á hálfum Svarfdælingnum og rakti okkur snarlega saman. Ef hann fann ekki raunveruleg ættartengsl sem hefðu dugað til skráningar í Íslendingabók var frændríki hans samt opið og hann bauð nýtt fólk velkomið. Allir urðu frændsystkin Nonna. Að gera fólk að frændum og frænkum var skilvirk aðferð Nonna við að komast inn fyrir skinnið og tengja. Að hafa tilfinningu fyrir að vera öðru vísi og berjast við að koma úr skápnum kallaði á og agaði aðferð hans við að frændgera samferðafólk sem honum hugnaðist. 

Í Oslo fylgdist ég með innri orustum Nonna við tónlistina, röddina, hneigðir, einstaklinga og líka Guð. Í Nonna bjuggu mörg heimsveldi tilfinninga, oft í friði en áttu stundum í miklum ófriði. Þá leið honum ekki vel og þurfti að blása. Vinir hans urðu vinir í raun. Eftir 1980 fléttuðust Guð og tónlistin æ meira í lífi Nonna. Árið 1981 vann hann fyrstu verðlaun í keppni kon­ung­lega kirkju­tón­list­ar­sam­bands­ins í Hollandi og eftir það sneri hann sér síðan æ meir að kirkjulegum söng og túlkun trúarlegrar tónlistar. 

Tónlist og trú og leiddu saman Nonna og Lilju, móðursystur mína. Þau áttu skap saman og voru bæði frændrækin. Hún skildi tilfinningaglóð hans og hafði gaman af listfengi hans og skopskyni. Hann virti talandi skáldið og fann í Lilju umhyggjusama móður sem þoldi að heyra allt. Þær Brautarhólssystur umvöfðu lífsháska Jóns Þorsteinssonar með kærleika og fyrirbænum. Nonni vissi að honum væri óhætt í návist þeirra. Hann var þakklátur fyrir viðurkenningu þeirra og tjáði mér hve mikils virði elska Lilju hefði verið honum.

Nonni frændi var dramatískur í samskiptum. Stundum flókinn og rosalegur en oftast heillandi. Ég er þakklátur fyrir röddina hans Nonna frænda og söng, sögurnar, hlýju og vinsemd. Guð geymi hann í ómhúsi eilífðar og líkni Ricardo og ástvinum hans.

Myndin er af Jóni og Lilju Sólveigu í afmæli hennar. 

Æviágrip

Jón Þor­steins­son fædd­ist í Ólafs­firði 11. októ­ber 1951. Foreldrar hans voru Þor­steinn Jóns­son­ og Hólm­fríður Jak­obs­dótt­ir. Hann stundaði hjúkr­un­ar­nám í Nor­egi og söngnám í Oslo, Árósum og Mod­ena. Um tveggja ára skeið söng Jón í óperu­kór Wagner-hátíðal­eik­anna í Bayr­euth. Árið 1980 varð Jón söngvari hjá Rík­is­óper­unn­i í Amster­dam þar sem hann starfaði í rúm­an ára­tug. Síðustu þrjá ára­tugi æv­inn­ar kenndi Jón söng við ýmsa tón­list­ar­skóla á Íslandi og Tón­list­ar­há­skól­ann í Utrecht þar sem þjálf­un ungra söngv­ara af ólíku þjóðerni átti hug hans. Jón Þorsteinsson lést 4. maí, 2024. 72 ára að aldri. Eft­ir­lif­andi eig­inmaður hans er Ricar­do Bat­i­sta da Silva. Myndin hér að neðan er frá tónleikum Jóns Þorsteinssonar í Neskirkju í Reykjavík 23. nóvember 2007. Við orgelið er Hörður Áskelsson. Myndir sáþ.

 

Ásgeir Ásgeirsson – maðurinn og meistarinn

Gagnrýni er nauðsynleg og mikilvægt að mál séu skoðuð og rædd. En átök harðna þessa dagana í aðdraganda forsetakjörs. Sumar facebooksíðurnar eru rætnar og hjólað er í „manninn“ fremur en málefnin. Sanngirni og mannvirðing eru mikilvægar systur gagnrýninnar.

Á þessum framboðstíma er ég er að lesa persónulega bók um annan forseta lýðveldisins. Tryggvi Pálsson, fyrrum bankastjóri og núverandi formaður bankasýslunnar, skrifaði hana: Ásgeir Ásgeirsson, maðurinn og meistarinn. Tryggvi og Rannveig kona hans komu í vikunni á heimili mitt á útskriftarhátíð Magnavita-námsins og komu færandi hendi. Tryggvi áritaði bókina og gaf syni mínum. Ég sé af bókamerkinu að drengurinn er að lesa bókina en laumaðist í hana meðan hann er í skólanum. Skemmtileg bók. Tryggvi gerir vel grein fyrir ferli Ásgeirs, pólitískum áherslum, stefnumálum, þjónustu við umbjóðendur. Þá lýsir hann pólitískum gildum og viðmiðum Ásgeirs  og áhugaefnum og hvernig hann mótaði  forsetaembættið. Ásgeir gerði Bessastaðakirkju mikið gagn og mótaði viðgerð, skreytingu og búnað og hafði mótandi áhrif á breytingum staðarhúsa. Svo er frímúravíddin líka merkileg og merkilegur þáttur bókarinnar. 

Ég man vel eftir Ásgeiri forseta þegar hann í elli og ekkilsstandi bjó á Aragötunni. Ég fór stundum með vörur til hans úr Árnabúð á Fálkagötunni og hann tók mér alltaf vel. Síðar las ég ýmis rit Ásgeirs til undirbúnings skrifa doktorsritgerðar minnar og m.a. hið hressilega og áhugverða rit Kver og kirkja. Ég sannfærðist þá um hæfni og getu Ásgeirs og þótti snerpan merkileg. Í bók Tryggva um afa hans eru ýmsar sögur og m.a. þessi lykilsaga um nálgun og afstöðu Ásgeirs.

Bóndi að vestan í Reykjavíkurför hitti fyrst Jónas frá Hriflu og síðan Ásgeir Ásgeirsson en þá greindi oft á um mál og leiðir og áttu raunar í langvinnu átakasambandi. Bóndinn hitti fyrst Jónas sem lagði illt til Ásgeirs. Síðan hitti hann Ásgeir sem vildi láta Jónas njóta sanngirni. „Bóndinn mælti í undrunartón: „Það er fallegt af þér að tala svona vingjarnlega um Jónas frá Hriflu, þar sem hann talar svona illa um þig.“ Ásgeir svaraði alúðlega: „Ef til vill skjátlast okkur báðum.“ 

Illkvittið orðalag er ekki að finna í skrifum Ásgeirs en hann var hnyttinn og þurfti ekki hávaða til að skella öðrum. Orðkynngi er betri en hnútukast. Sagan er innlegg til íhugunar fyrir kosningabaráttu maímánaðar. Takk Tryggvi og lof sé þér fyrir þessa skemmilegu bók.

Ingveldur Guðrún Valdimarsdóttir

Inga fæddist 28. september árið 1933. Foreldrar hennar voru Filippía Sigurlaug Kristjánsdóttir og Valdimar Jónsson. Hún úr Svarfaðardal og hann upprunalega úr Hólminum. Eftir barnaskóla fór Inga austur í Lauga í Reykjadal til náms og naut þar Sigurðar, móðurbróður síns, sem þá var komin í Lauga. Hún lauk gagnfræðaprófi árið 1949 og stundaði síðan nám við húsmæðraskóla í Svíþjóð árið 1951 og vann svo um tíma í Skandinavíu. Inga lauk hjúkrunarnámi á Íslandi í mars árið 1958. Síðan starfaði hún næstu ár við hjúkrun víða, á mörgum sjúkrahúsum og stofnunum á landsbyggðinni og í Reykjavík. Hún vann sem hjúkrunarfræðingur – hjúkrunarkona eins og kollegar hennar nefndust þá – á sjúkrahúsinu á Patreksfirði 1958 – 59. Þar á eftir fór hún á Akranes, til Vestmannaeyja og vann síðan á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund og svo á Hvítabandinu frá 1962-64. Svo birtist Ágúst Eiríksson og þau gengu í hjónaband 20. júlí árið 1966. Ágúst var lagður inn á spítala vegna kviðslits. Inga var á næturvakt og Ágúst var þjáður og hún sá aumur á honum, gaf hönum pillu svo hann gæti hvílst og sofið. Ágúst var starsýnt á hjálparengilinn. Þegar hann var upprisinn fór hann í Klúbbinn og þar var engillinn mættur. Hann bauð henni í dans og þau dönsuðu síðan saman. Svefntafla varð upphafið að löngum og ástríkum hjúskap.

Inga var góður fagmaður í hjúkrun ávann sér virðingu samstarfsfólks í starfi. Henni var treyst og gjarnan kölluð til ábyrgðar. Henni var m.a. boðið yfirmannsstarf á  Heilsuverndarstöðinni en Ágúst hafði löngun til að fara austur fyrir fjall. Inga studdi alltaf sinn mann og fór með honum austur. Þau settust að í Biskupstungum. Það var ekki einfalt að kaupa heila garðyrkjustöð. Þau Inga voru stöndug og ábyrg í fjármálum og svo kom móðurbróðir Ingu þeim til hjálpar. Þau Ágúst ráku garðyrkjustöðina Teig í Laugarási í tuttugu og sjö ár, frá 1970-1997.

Inga vann í fyrstu við Heilsugæslustöðina í Laugarási sem þjónaði uppsveitum Árnessýslu. Hún ávann sér traust allra sem til hennar leituðu. Það veit ég af veru minni í Skálholti og ég hitti marga sem höfðu notið alúðar Ingu og umhyggju. Síðari árin vann Inga á sjúkrahúsinu á Selfossi. Þegar Inga bað einhvern um að vinna á næturvakt eða aukavakt var erfitt að neita bón hennar því hún byggtt upp traust í samskiptum. Þegar hún lauk störfum á Selfossi var haldið hóf á sjúkrahúsinu og allt samstarfsfólk hennar mætti.

Þau Inga og Ágúst tóku að sér fóstursoninn Þórhall Jón Jónsson (21. apríl 1967 – 13. apríl 2023) sem lést á síðasta ári. Allir sem kynntust Ingu og Ágústi dáðust að nærgætni og elsku sem þau veittu Þórhalli. Þökk sé þeim. Sonur Ágústs er Elvar Ingi. Guð geymi Ingu í eilífð sinni og styrki Ágúst og alla ástvini.

Útför Ingu var gerð frá Kapellunni í Fossvogi. Minningarorð fluttu m.a. Valdimar Helgason og Ásgeir Helgason. Duftker Ingu verður jarðsett í Gufuneskirkjugarði.  

Wilhelm Kempff og svo varð þögn

Fyrstu píanótónleikarnir sem ég sótti sem barn voru einleikstónleikar Wilhelm Kempff í Austurbæjarbíói.  Í lok tónleikanna voru allir í salnum sem lamaðir af mætti tónlistarinnar og snilli píanistans. Eftir að kempan hafði reist alla hina stórkostlegu hljómakastala varð djúp þögn eftir lokahljóminn, eins og gjá sem við sukkum í. Þögnin sprakk síðan í lófataki og háreysti. Tónlistin var stórkostleg, hárið á píanistanum eftirminnilegt, lýrísk túlkun hans líka en þögnin varð þó eftirminnilegasta vídd og fang þessara tónleika. Hún gagntók mig og varð mér íhugunarefni. Tónlist lifnar ekki án þagnar og í því fangi  verður hún  til og snertir sálina. Í þögn fellur allt í skorður í upplifun þess sem nýtur. Einleikstónleikar hafa sérstöðu því tónleikar eru skipulagðir með ákveðnu móti og sólistinn getur stýrt hvenær risið verður mest og hvernig flæði þeirra verður. Við skynjum oft að eftirköst eru hluti ferlis. Eftir mikla atburði og dramatískar aðstæður verður kyrra áleitin og hægt að upplifa hana sterkt.  „Höfg er þögn akursins eftir storminn.” Eftir óveður dagsins verður stjörnubjört hvelfing næturinnar stórkostlegt. Sálin getur farið á flug og orðið að stjörnu á festingunni. Eftir flóðið verður fjara þagnar og íhugunar. Hvað er mikilvægasta augnablikið á lífskonsert þínum? Jú, að þú þagnir, vinnir úr reynslunni áður en þú byrjar að klappa.