Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

+ Jón Örvar Skagfjörð +

Það var gott að leita til Jóns Skagfjörð. Fyrir meira en þrjátíu árum var ég í vandræðum með póstsendingu þegar hann var stöðvarstjóri á Selfossi. Ég var ósáttur við málsmeðferð póstsins og yfirmaðurinn var því kallaður til. Jón hlustaði vel, spurði lykilspurninga, bar fulla virðingu fyrir viðmælanda sínum og úrskurðaði svo í málinu og allir máttu vel við una. Ég hugsaði með mér þegar ég kom út úr pósthúsinu á Selfossi. Þetta er merkilegur maður. Hann er vanda og stöðu vaxinn, góður yfirmaður, sem hlustar og fer ekki í varnarstöðu og greiðir farsællega úr vanda.

Fyrstu kynni okkar rifjuðust upp þegar við vorum báðir komnir til Reykjavíkur að nýju eftir langdvalir í Árnessýslu. Hann á Dunhagann og ég á Grímsstaðaholtið. Og svo tengdust við betur þegar Unnur lést og var jarðsungin frá Neskirkju. Við töluðum saman og fórum yfir stærstu mál lífsins Þá leyfði hann mér að skyggnast inn í huga sinn og kynnast sér persónulega. Þá skildi ég betur gæðin, skerpuna, greindina og mannúð Jóns og vinsemd. Við kveðjum þennan Jón Örvar Skagfjörð, mannkostamann, sem alla vildi virða og efla, gekk til verka sinna með heilindum og alúð og færði allt til betri vegar. Í honum bjó viska, gæði, festa og kyrra, sem hreif mig og samferðamenn hans. Hann speglaði í lífi sínu og tengslum bylgjur af himninum, þessu sem Jesús Kristur vildi að einkenndi samskipti fólks. Kærleika.

Upphaf og æfi

Jón Örvar Skagfjörð var Reykjavíkurmaður, en bjó lengi á landsbyggðinni. Hann var sumarmaður, fæddist 14. júlí 1928, en lést svo inn í haustið. Foreldrar Jóns voru Sigurður Skagfjörð, trésmiður (1878 -1964) og Guðfinna Skagfjörð, húsmóðir (1899-1988). Talsverður aldursmunur var á foreldrum hans, 21 ár. Sigurður var ekkjumaður þegar þau Guðfinna tóku saman. Jón átti eldri hálfsystkin af fyrra hjónabandi föður hans. Þau voru Vilhelm Stefán (1905-1973) og Björghildur Klara, (1907-1985), bæði látin fyrir áratugum, Vilhelm lést 1973 og Björghildur 1985. Alsystkini Jóns, sammæðra voru Sigríður (f. 1933) og Jórunn (1937-1948). Sigríður lést árið 2007 en Jórunn varð ekki nema tíu ára er hún dó.

Jón ólst upp í Þingholtunum. Fjölskyldan bjó á Baldursgötu 16, sem er næsta hús við þar sem nú er veitingastaðurinn Þrír frakkar. Í hverfinu var ríkulegt mannlíf, fjöldi barna var í flestum húsum og margir að leika við. Jón rölti yfir Skólavörðuholtið til náms í Austubæjarskola. Svo þegar hann hafði lokið honum fór hann í Gagnfræðaskóla Austurbæjar.

Jón var sá lukkhrólfur, að geta farið í sveit á sumrum. Hann fór austur í Ölfus og var snúningadrengur á Krossi hjá afa sínum og ömmu, Jóni Jónssyni og Jórunni Markúsdóttur, fram á unglingsár. Bærinn Kross var í þjóðleið og Jón fylgdist því með því sem var að gerast í Hveragerði, sveitunum í kring og líka Selfossi. Hann sagði síðar, að hann hefði verið hændur að skepnunum og verið mikill vinur heimilishundsins á Krossi. Og þeir hefðu haft líka skoðun á tómötum, sem Jón smakkaði í fyrsta sinn þar eystra. Honum þótti tómaturinn forvondur og hundinum líka. Vegna þessarar sveitaveru í Ölfusinu varð Jón líka sveitamaður og Árnesingur. Og kannski skýrir það að hann vildi síðar búa austan fyrir fjall.   

Þegar Jón stálpaðist fór hann að leita sér að vinnu í Reykjavík. Á unglingsaldri tók hann að sér það ábyrgðarverk að sendast með lyf og vörur fyrir Reykjavíkurapótek. Unglingum hefði ekki verið treyst fyrir slíku verki nú, en Jóni Örvari Skagfjörð var treyst. Honum var alltaf treystandi.

Eftir gagnfræðapróf fór Jón í Loftskeytaskólann og lærði síðan símvirkjun hjá Landssímanum. Hann fékk strax vinnu að loknu námi og starfaði á radíóverkstæði Landsímans. Og af því Jóni var treystandi var hann sendur víða um land til að gera við fjarskiptabúnað. Honum þótti gaman að fá tækifæri til að skoða landið og m.a. þótti honum áhrifaríkt að koma í Breiðafjarðareyjar.

Á þessum árum þróðust fjarskipti ört og símamennirnir fylgdust með að lórantæknin lofaði góðu. Svo varð að ráði í samskiptum við Bandaríkjamenn að byggð var Lóranstöð á Gufuskálum á Snæfellsnesi. Hópur af símamönnum var sendur vestur um haf til að læra tæknina og á tækin. Jón var í þeim hópi og fór árið 1960 til New Jersey og Connecticut til náms. Í framhaldinu varð Jón næstráðandi á Gufuskálum og var þar til ársins 1966 og naut stuðnings konu sinnar til þessarar veru á Snæfellsnesi. Það var ekki sjálfsagt að fara með tvö ung börn vestur, en þau hjón voru samstiga. Eftir flutning í bæinn – þ.e. frá 1966 – starfaði Jón á skrifstofu ritsímastjóra í Reykjavík til 1975. Þá var hann skipaður stöðvarstjóri Pósts og síma á Selfossi og var í einn og hálfan áratug. Árið 1989 varð Jón svo umsjónarmaður Póst- og símaminjasafnins í Hafnarfirði og var þar næstu tíu árin.

Hjúskapur Jóns og Unnar

Það var hrífandi að heyra Jón tala um Unni, tilhugalíf þeirra og hjúskap. Jón átti í konu sinni öflugan maka, félaga, ráðgjafa og vin.

Það var á móts við Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, sem Jón sá Unni og hún hann. Hann var á leiðinni til mömmu sinnar í mat, en hún var á leið milli saumastofu Kápunnar og heimilis. Hegningarhúsið hefur sjaldan verið talið ástartákn, en Unnur var húmoristi, kannski vissi hún um ferðir Jóns og valdi jafnvel staðinn! En ævi þeirra Jóns var líf í frelsi, líf fyrir hvort annað og í krafti beggja. Þeirra hús var hús elskunnar. En Skólavörðustígurinn til móts við Hegningarhúsið verður ávallt rómantískur staður í mínum huga eftir að ég heyrði Jón segja svo fagurlega og blíðlega frá ástarvitrun þeirra!

Þau höfðu séð hvort annað áður en Skólavörðustígurinn varð þeirra ástarstígur. Jón hafði séð þennan „vel klædda kvenmann“ – eins og hann orðaði það sjálfur – á balli í Vetrargarðinum í Tívolí, „konuna með stóru, brúnu augun.“ Honum leist vel á hana. Einhver hvíslaði líka að Unni, að hún skyldi hafa augun með þessum Jóni því hann væri góður strákur! Frá vorinu árið 1951 leiddust þau síðan í gegnum lífið og gengu í hjónaband 12. júní 1953. Þau áttu samleið í meira en hálfa öld þar til Unnur lést árið 2005.

Fyrstu hjúskaparárin leigðu þau Jón á Skeggjagötu 6. Þeim var svo boðið að vera með í byggingu símablokkarinnar við Dunhaga. Tilboðið var einfalt: Þau Unnur þyrftu ekki að eiga neina peninga, þetta kæmi allt af sjálfu sér! Íslenska aðferði, þetta reddast, og hún gekk í þetta skiptið, enda Jón og Unnur samstillt og stefnuföst. Fyrsta innborgun – tíu þúsund krónur – var ekki auðveld viðureignar, en þau hvikuðu ekki. Þeim tókst að öngla saman og héldu áfram með ráðdeild og með hjálp ættingja og vina

Á Dunhaganum varð heimili fjölskyldunnar og umhverfi, með öllum tilbrigðum, kostum, möguleikum og spennu nýbyggingarhverfis. Stutt var niður í fjöru, stutt í mjólkurbúðina, skóbúðina og KRON. Dóri í fiskbúðinni seldi fiskinn og barnafjöldinn var mikill í hverfinu sem iðaði af lífi og leikjum. Og stutt var í skólana í hverfinu. 

Börnin og afkomendur

Börn Unnar og Jóns eru tvö: Guðfinna Alda Skagfjörð og Gísli Skagfjörð. Guðfinna fæddist 2. nóvember árið 1953 en Gísli 14. ágúst árið 1957.

Guðfinna hefur starfað sem viðskiptafræðingur hjá dönsku póstþjónustunni. Maður hennar er Björgvin Gylfi Snorrason. Þau eiga þau tvær dætur. Þær eru Karen Lilja og Eva Björk. Karen Lilja (f. 14. apríl 1985) er meistari í viðskiftafræði og vinnur hjá Pepsico Nordic. Sambýlismaður hennar er Christian Parisot Guterres. Þau eiga synina Tao Lilja (f. 27. júní 2012) og Soul Lilja (f. 16. júlí 2014).

Eva Björk (f. 28. nóvember 1988) er með meistarapróf í stærðfræði og hagfræði og vinnur hjá orkufyrirtækinu Örsted. Sambýlismaður hennar er Anders S. R. Ødum.

Sonur Unnar og Jóns er Gísli Skagfjörð, verkfræðingur. Hann starfar hjá Borgarskjalasafni.

Jón var natinn fjölskyldumaður, sinnti börnum sínum vel í uppvexti, studdi í námi, hafði skoðun á ballferðum unglingsáranna og Guðfinna hafði lag á að fá mömmu sína að tala við pabban ef óvisst var um útivistarleyfið. Engum sögum fer af því, að Gísli hafi beitt sömu ráðum! Þau Unnur fóru gjarnan til Danmerkur til að vitja Guðfinnu og fjölskyldu hennar, þótti gott að vera með þeim og hjá þeim. Og svo þegar dótturdæturnar voru nægilega stórar komu þær og nutu góðs atlætis á Dunhaganum. Jón sá til þess að ungviðinu liði vel.

Dinah Dunn og Magnús Hansson geta ekki verið við útför en biðja fyrir kveðju til ykkar ástvina og fjölskyldu.

Minningarnar

Nú er valmennið Jón Örvar Skagfjörð allur. Hvernig minnistu hans og hvernig viltu vitja hans í huga þér? Hann var skapgóður geðprýðismaður, sanngjarn og traustur. Alltaf var hægt að reiða sig á Jón – á hverju sem gekk. Hann hafði líka hvetjandi áhrif og vænti þess að fólk stæði við það sem það hafði lofað eða talað um. Hann efldi fólk til ábyrgðar og að vera stöndugt. Jón var því öflugur uppaldandi og eflandi stjórnandi. Enda var honum falin ábyrgð fyrr og síðar í störfum. Jóni var treystandi. Og hann vildi að fólkið hans væri þannig, afkomendur einnig. Það hefur enda gengið eftir.

Það var tónlist í Jóni og þau Unnur sóttu gjarnan tónleika. Jón var félagslyndur, sótti gjarnan mannfundi og kom sér hvarvetna vel vegna gæflyndis og jákvæðni í samskiptum. Og ég tók eftir, að þegar hann fór að sækja kirkjustarf í Neskirkju, laðaðist fólk að honum. Hann hafði lag á að skapa traust og allir áttu í honum góðan og hlýjan viðræðufélaga. Þökk sé Jóni fyrir allt það sem hann lagði gott til.

Jón fylgdist vel með samfélagsmálum. Hann var fær um að breyta til í pólitík þegar hann taldi það nauðsynlegt. Hann kaus ekki endilega sama flokkinn aftur og aftur. Unnur var líka góður greinandi þjóðfélags og þau hjón stóðu með uppbyggingu og réttlæti.

Jón var ljóðamaður og las ekki bara Einar Ben., Stephan G. og Tómas heldur líka nútímaskáldin. Hann var alla tíð opinn og þorði að skoða nýungar og íhuga dýpri rök og þróun. Jón var enginn dellumaður en hafði hins vegar áhuga á mörgu og skoðaði með vökulum huga.

Og hann vann svo með líf og störf að hann horfði sáttur til baka. Sátt við eigin líf er öllum mikilvægt.

Leiðarlok

Þegar aldur færðist yfir og heilsan fór að bresta flutti Gísli til föður síns til að tryggja velferð hans. Þökk sé Gísla fyrir umhyggjuna. En Jón var meðvitaður um eigin stöðu og heilsufarsmál sín og ákvað sjálfur, að tímbært væri að hann færi á dvalarheimili. Hann fékk inni á Grund og dvaldi þar í góðu yfirlæti í tvö ár. Flestir, sem þangað hafa farið og verið, vita að fólkið er mikilvægara en húsnæði. Starfsfólkið gerir allt hvað það getur til að þjóna heimilisfólki vel. Þökk sé þeim. Jón lést á Grund þann 30. október síðastliðinn og var því níræður þegar hann fór inn í himininn.

Við leiðarlok horfum við til baka. Jón kunni að tengja, kunni á löngu línurnar – í atvinnu- og einka-lífi einnig. Við megum gjarnan hugsa um, hvað við getum lært af honum í tengslum. Við þurfum að gæta þess að rækta stöðugt tengsl við fólk, atvinnulíf og gildin í djúpum sálar og menningar. Í því var Jón okkur skínandi fyrirmynd. Svo hafði hann ágætar tengingar inn í ofurvíddir himinsins. Þar virkar ekki lóran, bylgjur eða búnaður – heldur sálaropnun – trú. Þegar lífi lýkur og við stöndum við brú eilífðar þá megum við opna. Guð kristninnar er Guð algerrar elsku. Guð er traustur, alltaf til staðar, staðsetur okkur af nákvæmni og týnir okkur aldrei. Inn í þá bylgjuvídd er Jón farinn og Unnur líka. Guð geymi þau. Og Guð geymi þig.

Minningarorð í Neskirkju þriðjudaginn 20. nóvember 2018, kl. 13. Bálför og erfidrykkja í Neskirkju. Vinakórinn. Steingrímur Þórhallsson. Útfararstofa kirkjugarðanna.

+ Magnús Jónasson + minningarorð

Æfi Magnúsar Jónassonar var ævintýraleg. Ég hlustaði á dætur hans segja litríkar sögur um hann og svo hlustaði ég á Magnús sjálfan í tveimur Laufskálaviðtölum. Og ég var snortinn af mannkostum hans og getu.

Og við byrjum á minningum um stríð. Nú eru eitt hundrað ár frá lokum fyrri heimstyrjaldar. Og við hugsum um friðinn. Á minningarsamverum um allan heim hefur liðna daga verið rætt um mikilvægi þess að rækta frið í ótryggri veröld. Magnús ólst upp við ysta haf – og þar var friður æsku hans rofinn af heimsstyrjöld. Líkum skolaði upp í fjörur. Tundurduflin, sem ekki sprungu við kletta, rak upp í fjörur í Barðsvík, í Bolungarvík og flestar víkur og firði sýslunnar. Og svo gengu Magnús og unglingarnir fjörur. Líkum var bjargað og þau voru jarðsett. Dunkar og ílát með matvöru eða nýtanlegum efnum var bjargað og timbur og ýmis gæði voru flutt heim. Svo voru duflin skoðuð og stundum var jafnvel stutt milli lífs og dauða. Magnús sagði sögu af sprengingu tundurdufls og þótti kraftaverk að maður sem var nærri hefði lifað. Magnús var þá á bak við stóran stein ásamt félaga sínum. Þeir sluppu og varð ekki meint af, en þeir urðu að bregðast fljótt við til að koma hinum slasaða til hjálpar og í Djúpbátinn til flutnings á sjúkrahús. Og friðurinn var oft rofinn af reiðarslögum stríðstólanna. Magnús var einu sinni á Straumnesi, heyrði vel skothríð fallsbyssanna í sjóorustu. Hann sagðist hafa fundið vel hvernig loftið gekk í bylgjum. Til hvers stríð? Eyðilegging, mannslífum fórnað. Magnús var alla tíð maður friðarins, gekk erinda hins góða, vildi öllum vel og lagði sitt til að allir fengju notið sín. Hann var ábyrgur fjöskyldufaðir, eiginmaður, skipstjórnarmaður, samborgari og vinur. „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður“ sagði Jesús. Magnús átti þann frið. Hann er farinn inn í frið frið himinsins.

Uppruni og fjölskylda

Magnús Jónasson fæddist 28. september árið 1929 í Bolungarvík á Ströndum. Foreldrar hans voru hjónin Hansína Anna Bæringsdóttir og Guðbjartur Jónas Finnbogason. Þau voru ábúendur í Bolungarvík. Systkinin voru samtals sex. Hin eru Bergmundur, Ingunn, Kristján, Finnbogi og Svanhildur. Af þeim lifa Svanhildur og Finnbogi en hann hafði samband við mig og bað fyrir kveðjur sínar og fjölskyldu sinnar til þessa safnaðar því hann getur ekki verið með okkur í dag. Þráinn Arthursson biður einnig fyrir sínar kveðjur og sinna. Það sama gildir um Sigríði Valdimarsdóttir sem biður fyrir kveðjur sínar og fjölskyldu hennar.

Magnús ólst upp hjá sínu fólki í Bolungarvík og naut skólagöngu í farskóla sýslunnar. Hann sótti skóla m.a. í Reykjarfirði, Furufirði og heima í Bolungarvík. Magnús talaði alla tíð vel um uppeldisstöðvar sínar, naut frelsis, glímunnar við krafta náttúrunnar, stæltist og lærði eigin mörk og annarra. Hann sagði, að hann hefði fengið gott uppeldi. Heimili Magnúsar var gjöfult og í víkinni voru yfirleitt yfir tíu manns og höfðu lifibrauð af landi og sjó. Auk búsmalans hafði fjölskyldan gagn af hlunnindum. Þau voru m.a. selveiði, æðarvarp, svartfugl og egg. Magnús lærði að fara í björgin og varð sigmaður, sprangaði í klettunum og lærði að tína svartfuglseggin og koma þeim fyrir í neti sínu án þess að þau brotnuðu. Og Bolungarvíkurbörnin lærðu að nýta sér sjávarfangið. Magnús lærði að sjósetja bát og lenda. Farið var á handfæri og jafnvel lögð lína. Þorskur var saltaður og ýsan hert.

Svo þegar Magnús komst á legg fór hann að vinna í Ingólfsfirði og síðan á síldarbát, jafnvel þótt stríð geisaði í veröldinni. Hann stundaði síðan sjómennsku víða, fyrir norðan, vestan og sunnan. Og varð kunnáttusamur í flestum greinum útgerðar. Fjölskylda Magnúsar hætti svo búskap í Bolungarvík á Ströndum í lok fimmta áratugarins og fluttist yfir í Djúp – í hina Bolungarvíkina.

Magnús var 10 vetur togarasjóðmaður, á Karlsefninu og Narfa. Hann lenti í ýmsum stórmálum, m.a. í strandi nærri St. Johns í Nýfundalandi. Svo þekkti Magnús allar fisklöndunarhafnir sem Íslendingar sigldu á í Englandi og Þýskalandi. Magnús aflaði sér ekki aðeins þekkingar á öllum greinum útgerðar á Íslandi heldur líka stýrimanns- og skipstjórnarréttinda.

Svo var Magnús sjálfur útgerðarmaður, liðlega tvítugur. Hann keypti með tveimur bræðum sínum og frænda trébátinn Ölver gamla, sem var frægt skip, m.a. fyrir að hafa ekki farið niður í  Halaveðrinu alræmda. Það var heillandi að hlusta á Magnús segja frá hvernig þeir lentu bát og hvernig hægt var að draga stórt skip upp á kamb með spili og góðu verksviti. Svo þegar Sædísin var keypt hófu þeir rækjuveiðar yfir vetrartímann. Magnúsi þótti það góðurveiðiskapur og kunni að meta að hann gat verið verið heima hjá fjölskyldunni um nætursakir og um helgar. „Albesti veiðiskapur sem ég stundaði“ – sagði hann síðar.Síðar var Bryndís keypt, listasjóskip sem ekki átt sinn líka, áleit Magnús. Og útgerðin gekk vel.

Helga, börn og búseta

Svo var það ástin og hjúskapurinn. Magnús var þroskaður maður þegar þau Helga Sigurðardóttir urðu hjón 6. október 1969. Hún var hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. Þau eignuðust fjögur börn. Sigurður Bjarni er elstur, fæddist í febrúar árið 1969. Hann býr í Noregi og sambýliskna hans er Geetha Sollie. Sigurður Bjarni eignaðist son árið 1995, Bjarna Magnús með Guðrúnu Hafdísi Hlöðversdóttur. Guðbjartur Jónas, annar sonur Magnúsar og Helgu, fæddist í júlí árið 1970. Gróa Guðrún fæddist svo í apríl árið 1972. Og Magnína er desemberkona og fæddist árið 1978.

Helga og Magnús byrjuðu hjúaskap sinn í Hafnarfirði og áttu svo heima í Reykjavík en fluttu í Bolungarvík við Djúp árið 1974. Magnús stundaði sjóinn og gekk vel. Og börnin þeirra uxu úr grasi og þegar Magnús seldi frá sér skip og hætti á sjó var sjálfgefið að verunni í Bolungarvík væri lokið. Hann var síðar spurður hvort hann langaði vestur. Mér þótti merkilegt að hlusta á svör hans. Honum líkaði veran við Djúp, en sagði að þegar afli og kvóti væru farnir og atvinnulífið væri höktandi væri ekki eftirsóknarvert að búa þar lengur. Það væri hægt að kaupa ódýrt húsnæði, en fólk yrði að hafa vinnu. Í þessu sem öðru var Magnús yfirvegaður og óhræddur.

Magnúsi leið vel í Grafarvoginum. Um tíma voru þau Helga í Laufrima en síðan í Dofraborgum 34. Magnús dittaði að húsinu sínu, gekk um í borginni, naut útsýnis og svo þegar hann var búinn að klára allt, sem gera þurfti, leitaði hugur út í sveit að nýju. Maðurinn, sem hafði alist upp við hið ysta haf, leitaði í dreifbýlið. Þau Helga keyptu stóran landskika í Melasveit og áttu m.a.s. land að sjó. Magnúsi þótti gott að gleðjast yfir öldubroti í fjöru og geta náð í fisk í soðið.

Minningarnar

Og nú eru skil. Hvernig manstu Magnús Jónasson? Manstu vinnusemi hans og dugnað? Manstu hve skemmtilegur sögumaður hann var? Sagnagleðin var óhvikul, getan til að segja góða sögu öguð. Og málgetan skýr og málfarið blæbrigðaríkt og fagurt. Það er merkilegt að hlusta á útvarpsviðtölin við hann og heyra hve umtalsfrómur hann var. Hann hafði auga og eyra fyrir hinu kúnstuga og kostulega en alltaf lagði hann vel til fólks. Engan vildi hann særa eða meiða.

Manstu snyrtimennið Magnús og að hann vandaði allt í umhverfi sínu? Manstu hve vel hann var heima? Já, hann las dagblöðin, heyrði vel það sem sagt var í fréttum, lagði sjálfstætt mat á og kunni að greina. Hann hafði góða eðlisgreind og nýtti hana í vinnu, í samskiptum, á heimili og lagði alls staðar hjartahlýju og umhyggju með. Hann gekk í öll verk, var dugmikill og stefnufastur. Hann var góður kokkur enda hafði hann stundað nám í húsmæðraskóla! Sunnudagslærið hans og helgarmaturinn var hreinasta afbragð – og brúnuðu kartöflurnar hans og sósan meðfylgjandi. Hann hafði notið góðra móturnar heima og rabbarbarahnaus í Bolungarvík á Ströndum var fluttur í Bolungarvík við Djúp og jafnvel suður. Magnús kunni ekki bara á ræktun heldur líka að sjóða sultu sem var notuð með helgarlærinu.

Manstu hve vel læs hann var á bækur, menn og málefni? Og vissir þú að hann var afar biblíufróður og las vegna áhuga á efninu? Hann var eins og margir sjómenn vel tengdur við sinn innri mann og Guð.

Og manstu ferðamanninn Magnús? Hann fór ekki aðeins á sjó við Íslandsstrendur eða sigldi á Cuxhaven. Hann og Helga fóru víða, sigldu um karabíska hafið, fóru td fjórum sinnum til Mexikó, líka til Kúbu, Bandaríkjanna og til Kanada. Svo óku þau um Ísland og voru sátt við sitt nýja líf fyrir sunnan og á ferðum um heiminn.

Manstu, að sjómaðurinn Magnús var aldrei laus við sjóveiki? Hann var ekkert að fegra sjálfan sig og talaði einlæglega og hispurslaust um kosti sína og stöðu. Manstu hve natinn Magnús var við sitt fólk þegar hann var í landi? Manstu vinsemd og gæsku í garð manna og dýra? Manstu hve veðurglöggur hann var og hve vel hann las í spár og blikur? Manstu að honum þóttu góðir selshreyfar?!

Inn í himininn

Og nú er hann farinn í sjóferð eilífðar. Hann hangir ekki lengur í línu, lítill eldhugi utan í stóru bjargi. Hann dregur aldrei fisk úr sjó framar, spáir ekki í blikur og öldu. Hann stingur aldrei góðmeti í ofn framar eða skýst til útlanda. Og enga matreiðsluþætti horfir hann framar á. Hann fer ekki norður í Bolungarvík á Ströndum til að ná í reka eða nýta hlunnindi landsins. Og hann horfir ekki framar með ástaraugum á fólkið sitt.

„Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður“ sagði Jesús Kristur (Jh 14.27). Magnús býr í friði himinsins og Guð umvefji ykkur, fjölskyldu og ástvini, með þeim friði sem ekkert rýfur og engin stríð megna að spilla. Guð geymi Magnús í eilífð sinni og blessi þig.

Amen.

Minningarorð. Grafarvogskirkja 16. nóvember 2018 kl. 13. Kistulagt sama dag. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Erfidrykkja í safnaðarheimili Grafarvogskirkju eftir útför. Schola cantorum og Björn Steinar Sólbergsson. Útfararstofa kirkjugarðanna.

+ Lovísa Bergþórsdóttir +

Lovísa var traust og hlý. Þegar ég kynntist Lovísu, börnum hennar og fjölskyldu fylltist ég gleði og þakklæti yfir hlýjunni í samskiptum, virðingu í tengslum og samstöðu hennar með fólki og góðu mannlífi. Þegar maðurinn hennar Lovísu, Jón Pálmi Þorsteinsson, lést fyrir liðlega þremur árum íhuguðum við í útför hans trú og tengsl. Og traust eða skortur trausts er aðalmál í lífi allra, í samfélagi og í vef heimsbyggðarinnar. Einn merkasti sálfræðingur Bandaríkjamanna á tuttugustu öld, Erik Eriksson, setti fram merka kenningu um traust, og sú viska hafði mikil áhrif í fræðaheiminum og hafði áhrif á uppeldismál, skólaskipan, sálfræðimeðferð, kirkjustarf og aðrar greinar og víddir mannheima. Erikson dró saman efni úr umfangsmiklum rannsóknum og hélt fram að til að barn njóti eðlilegs þroska þurfi það að hafa tilfinningu fyrir að andlegum og líkamlegum þörfum þess sé fullnægt og að veröldin sé góður og viðfelldin staður. Þegar að þessara þátta er gætt getur orið til frumtraust – sem er afstaða til lífsins, fólks, veraldar og lífsins.

Manstu eftir hve Lovísu var annt um að öllu fólkinu hennar liði vel? Mannstu að henni var velferð fólks aðalmál? Hún vildi að líf ástvina hennar væri traust og hamingjuríkt. Traust er veigamikill þáttur í trú – og trú verður aldrei skilin, ræktuð eða þroskuð nema í anda trausts. Trú deyr í vantrausti. Og þegar dýpst er skoðað er mál Guðs að tryggja traust fólks til að lífið lifi og þroskist – að allir fái lifað við óbrenglaða hamingju. Það var erindi Jesú Krists í veröldinni að treysta grunn tilveru manna og alls lífs – að menn megi lifa sem börn í traustu samhengi.

Upphafið í Þingholtunum

Lovísa Bergþórsdóttir fæddist í Reykjavík inn í haustið þann 7. september, árið 1921. Og hún lést þann 14. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Bergþór Vigfússon húsasmíðameistari og Ólafía Guðrún Einarsdóttir, húsfreyja. Hún var nefnd Sigríður Lovísa við skírnina, en það voru svo margar Sigríðar fyrir í fjölskyldunni, að hún notaði helst Lovísunafnið. Sigríðarnafnið hvarf vegna notkunarleysis. Fjölskylda Lovísu bjó í húsinu nr. 12 við Þingholtsstræti, rétt hjá Menntaskólanum í Reykjavík og KFUM-og K. Bræður Lovísu voru: Sigursteinn, sem lést ungur, og Einar Sigursteinn, en hann lést fyrir þrjátíu árum. Einar var árinu eldri en Lovísa.

Miðbærinn og Þingholtin voru skemmtilegur uppvaxtarreitur á milli-stríðsárunum. Lovísa naut góðra uppvaxtarskilyrða, hlýju og kærleika. Hún fylgdist vel með umhyggju foreldranna fyrir samferðafólki og hve vökul móðir hennar var gagnvart kjörum og aðstöðu fólks. Og Lovísa lærði gjafmildi, umhyggju og ábyrgð í foreldrahúsum. Hún fór stundum með lokuð umslög út í bæ til aðkreppts fólks og vissi að í þessum umslögum voru peningar, sem móðir hennar sendi. Og alla tíð síðan vissi Lovísa að fjármunir væru til eflingar heildarinnar og vandi annarra væri ekki einkamál þeirra heldur samstöðumál og tilkall. Þökk sé Lovísu og hennar fólki fyrir lífsvörslu þeirra – trausta framgöngu í þágu lífsins.

Lovísa þurfti ekki langt til að sækja skóla. Miðbæjarskólinn var skammt frá og Lovísa skokkaði niður og suður götu. Hún var námfús og vildi læra meira en grunnskólinn gat veitt henni. Og þegar Lovísa hafði aldur til fékk hún inni í öðrum skóla í nágrenninu, Verslunarskóla Íslands. En þá urðu skil, sem höfðu afgerandi áhrif á skólagöngu Lovísu. Móðir hennar missti hægri handlegg vegna krabbameins og heimilis- og fjölskyldu-aðstæður urðu til þess að Lovísa sagði sig frá námi, tók við heimilinu og ýmsum verkefnum sem á hana voru lögð. Hún annaðist móður sína vel og til enda. Lífsverkefnin tóku við og veigamikill þáttur þeirra tengdust Jóni Pálma Þorsteinssyni. Og þá erum við komin að ástalífinu.

Jón Pálmi Þorsteinsson

Þau Lovísa og Jón sáumst ekki á rúntinum í Lækjargötu í Reykjavík eða á síldarplani norður á Siglufirði heldur á Oxfordstreet í London! Margir hafa farið á Oxfordstreet í verslunarerindum, en fáir hafa verið eins lánsöm og þau Lovísa og Jón að finna hvort annað á þeirri merku verslunargötu í heimsborginni.

Það var mjö gaman að sjá ljómann í augum Lovísu þegar hún sagði okkur söguna um fyrsta fund þeirra. Þau Jón voru á sama hóteli eins og ástmögurinn á himnum hefði laðað þau saman með snilldaráætlun. Og Lovísa mundi líka nákvæmlega hvernig Jón hafði verið klæddur og þekkti hann jafnvel á fötunum. Svo kynntust þau, fundu traustið, festuna, í hvoru öðru, ástin kviknaði og þau luku árinu 1950 með því að ganga í hjónaband, þann 30. desember. Síðan áttu þau stuðning og voru hvors annars í 65 ár. Það er ekki sjálfsögð gæfa eða blessun. En þau ræktuðu traustið og virðinguna og það er gæfulegt veganesti til langrar samfylgdar.

Þau Jón og Lovísa nutu láns í fjölskyldulífi sínu og eignuðust tvö börn og afkomendafjöldinn vex þessi misserin. Pálmi er eldri og fæddist í október árið 1952. Pálmi er læknir og prófessor í fræðum sínum. Kona Pálma er Þórunn Bára Björnsdóttir, myndlistarmaður. Þeirra börn eru Lilja Björnsdóttir, Jón Viðar, Vala Kolbrún og Björn Pálmi.

Lilja er læknir og hennar maður er Einar Kristjánsson hagfræðingur. Þau eiga börnin Kristján, son Einars af fyrra sambandi, Lilju Þórunni, Sóleyju Kristínu og Birtu Lovísu.

Jón Viðar er hagfræðingur og kona hans er Lára Kristín Pálsdóttir, sérfræðingur í stjórnarráðinu. Börn þeirra eru Björk, Freyja, Lilja Sól – af fyrra sambandi Láru – og Hallgerður Bára.

Eins og mörg önnur í fjölskyldunni er Vala Kolbrún læknir. Hennar maður er Jón Karl Sigurðsson, stærðfræðingur. Þau eiga Pálma Sigurð.

Björn Pálmi Pálmason er tónlistarmaður og tónsmíðameistari eins og kona hans einnig. Hún heitir Veronique Vaka Jacques.

Jóna Karen er yngra barn þeirra Jóns og Lovísu. Hún er vorkona, fæddist í maí 1955. Hún er hjúkrunarfræðingur. Hennar maður er Ólafur Kjartansson, læknir og prófessor. Þau eiga þrjú börn: Lovísu Björku, Kjartan og Davíð.

Lovísa Björk er læknir.

Kjartan er rafeinda- og verkfræðingur.

Davíð er læknir og kona hans er Ramona Lieder, líftæknifræðingur. Og það er ánægjulegt að segja frá því að þau eru nýgift og sögðu sín já í Þingvallakirkju á laugardaginn síðasta. Hjónavígsludag þeirra er alltaf hægt að muna – því hann er menningarnæturdagurinn, Reykjavíkurmaraþondagurinn. Börn þeirra Davíðs og Ramonu eru Anna Lovísa og Ólafur Baldvin.

Lovísa helgaði sig heimilinu og börnum sínum og velferð fjölskyldunnar var henni aðalmál. Þegar börnin voru fullorðin fór Lovísa að starfa utan heimilis, og þá við lyfjagerð og umbúðaframleiðslu. Eftir að eiginmaður hennar féll frá hugsaði Lovísa um sig sjálf þar til fyrir tæpu einu og hálfu ári að hún flutti frá Tjarnarstíg 3 og á hjúkrunarheimilið Sóltún og naut þar góðrar umönnunar, sem hér með er þökkuð.

Minningar

Við skil er mikilvægt að staldra við og íhuga. Við fráfall ástvinar er ráð að kveðja, að fara yfir þakkarefnin, rifja upp eigindir og segja eftirminnilegar sögur. Og varðveita svo í huga og lífi það sem við getum lært til góðs og miðla áfram í keðju kynslóðanna. Og það er svo margt sem Lovísa skildi eftir til góðs og í lífi fólksins hennar, ykkar sem hér eruð.

Manstu gæsku hennar? Hve kærleikur og umhyggja hennar var innileg? Lovísa var ástrík móðir, sem umvafði fólkið sitt og heimili kyrrlátum friði. Hún lagði börnum sínum í huga metnað, dug, vilja til náms, vinsemd til fólks og virðingu fyrir lífinu. Lovísa kenndi þeim visku – t.d. að ekki væri hægt að gera meiri kröfur til fólks en það stæði undir. Hver og einn yrði að gera eins hægt væri, en meira væri ekki hægt að krefjast.

Manstu hve fallega og vel Lovísa talaði til fólks og blessaði? Manstu hve Lovísa ávann sér virðingu? Og manstu að hún þorði og gat talað um tilfinningaefni og trúmál? Það er ekki öllum gefið og þakkarefni þegar fólk hefur í sér þroska til slíkra umræðna. Lovísa var óspör á að segja börnum sínum og ástvinum sögur frá fyrri tíð og var góð og gjöful sagnakona. Manstu skerpu Lovísu og greiningargetu hennar? Og svo var hún fjölhæf. Og Lovísa staðnaði ekki, hún hélt áfram að hugsa um þjóðmál og velferðarmál samfélagsins og varð róttækari með árunum. Mannvirðing bernskuheimilisins og umhyggja fyrir velferð fólks varð Lovísu leiðarvísir um hvað og hver gætu orðið fólki, menningu og þjóð til gagns.

Manstu hve skemmtileg Lovísa var? Hve bjartsýn og ljóssækin hún var? Svo hafði hún þokka, útgeislun, gætti vel að fötum sínum og klæðnaði. Og var afburða húsmóðir og rækti hlutverk sín og verkefni af alúð. Henni lánaðist að gera mikið úr takmörkuðum efnum. Og hún tók viðburðum lífsins með æðruleysi. Hún var góður kokkur. Lovísa talaði einhvern tíma um að hún sæi eftir að hafa ekki eignast börnin fyrr, til að hafa notið samvisanna enn lengur! En vísast hefði sagan þá orðið öðru vísi, og Jóna Karen og Pálmi ekki orðið til heldur eitthvað annað fólk! En hún naut samvistanna við fólkið sitt lengi og hlúði að því alla tíð.

Manstu dýravininn Lovísu? Þegar börnin hennar og fjölskyldur þeirra voru að flytja til útlanda fengu þau Jón hundinn Ponna að gjöf. Hann var nánast himingjöf. Og samstillt voru þau Lovísa um að gleðja Ponna og veita honum hið besta samhengi. Hann varð þeim líka góður heilsuvaki því þau stunduðu hundagöngur og fóru skemmtiferðir saman með Ponna.

Manstu lestrarkonuna sem fylgdist vel með? Hún las t.d. bók um Hillary Clinton og aðrar slíkar á ensku! Lovísa hafði áhyggjur af fátækt heimsins og stríðsrekstri og vildi leggja sitt af mörkum til að sem flestir nytu lífsgæða og friðar. Hún var friðarsinni og verndarsinni í afstöðu.

Inn í eilífðina

Nú eru skil. Leyfið myndunum að þyrlast upp í huga. Lovísa brosir ekki framar við þér, grennslast eftir líðan þinni eða fer út í garð til að lykta af angandi rósum. Hún fer ekki framar upp að Esjurótum til að hleypa hundi og tjáir þér ekki framar þakklæti. Lovísa átti gott og gjöfult líf, sem er þakkarvert. Nú er hún horfin inn í traustið sem ekki bregst, rósagarð himinsins. Hún fer blessuð og þakkir ykkar er ilmur eilífðar.

Guð geymi Lovísu og varðveiti um eilífð. Guð geymi þig og gefi þér traust og trú.

Amen.

Útför Lovísu var gerð í kyrrþey frá Fossvogskapellu fimmtudaginn, 23. ágúst, 2018. Bálför og því jarðsett síðar í duftgarðinum Sóllandi, K – 10 – 10. Erfidrykkja í Hótel Radisson Blu við Hagatorg.

 

+ Helgi Valdimarsson +

Helgi var fjallamaður. Hann naut áreynslunnar við að klífa fjöll, finna leiðir, gleðjast yfir undrum náttúrunnar og komast á toppinn. Og syngja svo að kvöldi í hópi glaðsinna göngufólks. Í þannig aðstæðum kynntist ég Helga. Hann hafði reyndar alltaf verið til í vitund minni, því við vorum systrasynir og hann var sautján árum eldri. Móðir mín og móðursystir elskuðu hann og hossuðu honum ungum og alla tíð síðan. Ég vissi því af honum, en við kynntumst þó ekki fyrr en fyrir tuttugu árum. Þá réð Ferðafélag Íslands Helga til að stýra gönguferðum um svarfdælsk fjöll. Ég var sá lukkuhrólfur að vera í hópi Helga og naut þess í mörg ár síðan. Hann var afburða leiðsögumaður. Ég hef ekki notið annars betri. Þar sem við frændur deildum herbergi í fyrstu ferðinni varð ég vitni að hve margra vídda Helgi var. Hann m.a. gerði námstilraunir með sjálfan sig. Hann sofnaði með lestur Íslendingasagna í eyrum og nýtti því svefntímann til að læra. En hann var slakur gagnvart því að draumar hans hafi yfirtekið námið og ekki alltaf ljóst hvað væri úr Laxdælu eða Eglu og hvað frá honum sjálfum. Þessi eftirminnilega gönguvika tengdi þátttakendur og ég naut þeirrar blessunar að kynnast konu minni undir vökulum augum fararstjórans.

Helgi var afar eftirminnilegur maður. Honum var mikið gefið og var fjölgáfaður. Atorku- maður við vinnu, hvort sem það var í sveitavinnu bernskunnar eða í fræðum fullorðinsáranna. Hann hafði þörf fyrir einveru og sökkti sér í það, sem hann sinnti hverju sinni, hvort sem það var á rannsóknarstofunni eða við skáktölvuna sína.

Hann sótti í söng og gleði og var allra manna skemmtilegastur í samkvæmum. Hann var alvörumaður en líka syngjandi gleðikólfur, íþróttagarpur en líka fíngerður tilfinningamaður, háskólamaður en einnig bóndi, stórborgamaður en sótti í fásinnið, þekkingarsækinn og framfarasinnaður, en mat einnig mikils klassík og festu menningarinnar.

Ég þekkti foreldra Helga og fannst hann flétta gæði beggja í eigin lífi. En ólíkur var hann þeim þó og fór sínar eigin leiðir.

Nú er Helgi farinn upp á Rima eilífðar og við hinir pílagrímar lífsins þökkum samfylgdina. Þökk sé Guðrúnu Agnarsdóttur, konu Helga, fyrir alúð hennar við ættfólk hans. Hún gekk hiklaus með manni sínum í heimum manna og fjalla, þjónaði fólkinu hans og annaðist hann síðan stórkostlega síðustu veikindaárin. Við leiðarlok vil ég tjá þakklæti mitt fyrir ræktarsemi þeirra Helga í garð móður minnar, móðursystur og fjölskyldu. Guð gangi kindagötur eilífðar með Helga Þresti Valdimarssyni og geymi ástvini hans.

Minningargrein mín um Helga í Morgunblaðinu 17. ágúst 2018. Meðfylgjandi mynd tók ég af Helga á Hvarfshnjúk í Svarfaðardal. 

+ Bjarni Bragi Jónsson +

Bjarni Bragi fór inn í Greyhound-rútu í Kaliforníu, bauð góðan daginn og kom sér vel fyrir. Svo hófst ferðin og Íslendingurinn hreifst svo af öllu sem skynfærin færðu til heilans að hann stóð á fætur og byrjaði að syngja. Og allir í rútunni heyrðu og einn kallaði: „Hey, listen to the tenor.“ Þetta er heillandi mynd. Gestakennarinn í Pomona-College svo snortinn af undri veraldar að hann söng. Og þannig þekkjum við mörg Bjarna Braga Jónsson, hæfileikamann, tilfinningaríkan snilling sem hló, orðaði viðburði lífsins, túlkaði en stundum þurfti hann bara að syngja. Og börnunum hans þótti þetta ekki smart þegar þau voru yngri. Einu sinni barst söngur Bjarna Braga í sumarblíðunni um austurhlíðar Kópavogs. Og krakkarnir hættu leik og sperrtu eyru: „Er þetta pabbi þinn?“ Svörin komu seint og ógreinilega. Og svo þegar hagfræðingur Seðlabankans kom inn í strætó á leið í vinnuna bauð hann auðvitað góðan daginn. En börnum hans þótti tryggara að fara á afasta bekkinn og hafa hægt um sig því fyrr en varði hafði Bjarna Braga lánast að hleypa farþegunum í umræðu um stórviðburði í pólitíkinni. Og ef tilfinningin var rétt breyttist strætó á leið úr Kópavogi niður í bæ í ómhöll á hjólum. Tilfinningar kalla á söng. Og Bjarni Bragi var þeirrar gerðar að hann leyfði tilfinningum heimsins að hríslast um sig. Og við sem kynntumst honum þökkum litríki hans, gáfur, afrek, húmorinn, snilld, djúpsækni, þor og elskusemi. Í öllu var hann stór – var hástigssækinn – eins og hann orðaði það sjálfur.

Upphafið

Bjarni Bragi Jónsson var sumardrengur, fæddist á Kárastíg 8. júlí 1928 og hefði því orðið níræður sl. sunnudag. Foreldrar hans voru Jón Hallvarðsson, síðar sýslumaður í Stykkishólmi og hæstaréttarlögmaður, og Ólöf Bjarnadóttir, húsmóðir og síðar iðnverkakona í Reykjavík. Bjarni Bragi var næst-elstur systkina sinna. Baldur var tæplega tveimur árum eldri. Sigríður fæddist árið 1931 en Svava 1932. Nú eru þau öll látin.

Í óbirtri ævisögu Bjarna Braga segir fjörlega frá litríkum uppvexti við Skólavörðuholtið, flutningi til Vestmannaeyja og síðan í Stykkishólm. Lögfræðingurinn, faðir hans, var yfirvaldið í Eyjum og síðan sýslumaður í Hólminum. Hvernig skólast manneskjan? Hvað mótar okkur? Í þessum minningum dregur hann saman hvernig hann mótaðist af umhverfi, mikilli ættarsögu, glímunni við aðstæður og einstaklinga og breytingar. Það þarf ekki að lesa lengi eða langt til að sjá að áhugasvið Bjarna Braga var víðfeðmt. Han skrifaði merkilegan texta um eðli minninga, sem sýnir sálfræðifærni hans. Svo eru þessi skrif um mannlíf á Skólavörðuholti, í Eyjum og Stykkishólmi svo ríkuleg að aðeins þeirra vegna er ástæða til að gefa út. En það sem hreif mig mest er hve ærlegur og afslappaður – í hispursleysi sínu – Bjarni Bragi var í söguritun sinni. Hann skrifaði óhikað um lesti sína sem kosti og um vonbrigði eins og sigrana. Og gæfu fjölskyldunnar lýsti hann jafn vel og að peningar tolldu ekki við föður hans. Þannig sögur eru betri en fegrunarsögur og söguritarinn nýtur virðingar fyrir þroskaða túlkun og heilindi.

Bjarni Bragi lauk stúdentsprófi frá MR árið 1947. Hann var alla tíð mikill og öflugur námsmaður en mér kom á óvart að hann hafði skipt um deild í MR, fór úr máladeild í stærfræðideild. Það sýnir þor hans, mörg áhugasvið sem kölluðu og löngun til fjölfræða. Svo var hann alla tíð félagslega opinn og virkur. Og hann var inspector scholaeí MR, sem er æðsta virðingarstaða nemenda í skólanum. Síðan hófst viðburðaríkur náms- og vinnuferill heima og erlendis. Bjarni Bragi lauk viðskiptafræðiprófi frá HÍ árið 1950, stundaði framhaldsnám við Háskólann í Cambridge í Englandi árin 1957-59. Og hann fór í lengri og skemmri náms- og kynnisferðir til ýmissa alþjóðlegra hagstofnana. Bjarni Bragi var skrifstofumaður hjá Olíuverslun Íslands, fulltrúi í útflutningsdeild SÍS og síðan í hagdeild Framkvæmdabanka Íslands. Hann var í fimm ár ritstjóri tímaritsins Úr þjóðarbúskapnum, síðan ráðgjafi hjá Efnahags- og framfarastofnuninni í París, deildarstjóri og síðan forstjóri Efnahagsstofnunarinnar, framkvæmdastjóri áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, hagfræðingur Seðlabanka Íslands, aðstoðarbankastjóri og síðast hagfræðilegur ráðunautur bankastjórnarinnar þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1998. Þá var Bjarni Bragi stundakennari í mörg ár við viðskipta- og hagfræðideild HÍ. Og svo söng Bjarni Bragi ameríska söngva í Greyhound-rútunni þegar hann var gistiprófessor við Pomona College í Bandaríkjunum árið 1964.

Bjarni Bragi skrifaði fyrr og síðar mikið um efnahagsmál og farsæla stjórn þeirra. Þegar árið 1962 fór hann að ræða um að besta leiðin til að stýra íslenskum fiskveiðum væri að koma á auðlindagjaldi. Það myndi hafa gæfulegar efnahagslegar afleiðingar og stuðla að heilbrigði atvinnulífs. Árið 1975 hélt hann frægt erindi um auðlindaskatt, iðnþróun og efnahagslega framtíð Íslands og Seðlabankinn gaf út bæði á íslensku og dönsku.[i] Í baksýnisspeglinum virðist ljóst, að betur hefði tekist í fjársstjórn og fjármálum þjóðarinnar ef ráðum Bjarna Braga hefði verið fylgt.

Virkur í félagsmálum

Bjarni Bragi var alla tíð leiðtogi. Hann sló gjarnan í glas á mannfundum, hélt mergjaðar og túlkandi ræður. Svo var hann mjög klár uppistandari og rífandi skemmtilegur á mannfundum. Hann hreif fólk með sér og var því gjarnan kallaður til ábyrgðar og stjórnar. Á æskuárum var hann vinstrimaður og það er fyndið að lesa hans eigin frásögn um ákafa hans í málum heimsbyltingarinnar. Hann segist hafa safnað klisjum og verið vinsæll vestur á Snæfellsnesi og þmt við eldhúsborðin í sveitum landsins. Þar hafi hann slegið um sig. Einu sinni voru þeir Árni Pálsson, síðar prestur í Kópavogi, á frívaktinni í vegavinnunni. Bjarni Bragi var alla tíð vinnuþjarkur og þegar hann sleppti skóflunni settist hann inn í tjald með hvorki ómerkari bók en stjórnarskrá Sovétríkjanna og með formála Stalíns. Og þar sem hann sat og lærði þennan kommúníska jús greip galgopinn Árni bókina af borðinu og hljóp vel bússaður út í miðja á. Þar stóð hann, hélt bókinni yfir vatninu og hótaði að láta hana detta. Bjarni Bragi þaut á eftir honum og vélaði hann í land með köstum og orðum. En þó hann bjargaði bókinni og yrði formaður Æskulýðsfylkingarinnar tókst honum aldrei að verða eðlislægur marxisti heldur þorði að breyast og endurskoða gildi, fræði og líf. „Ég reyndi að sjóða … einhvern almennan hugsjónavelling …“ sagði hann. En Sovétbókin og fræðin flutu þó frá Bjarna Braga í flaumi tímans. Þegar hann fór að rýna í hagtölur og kynnist atvinnulífinu færðist hann frá vinstri bernskunnar til hægri fullorðinsáranna. Bjarni Bragi skipti algerlega yfir í pólík og var varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi á sjöunda áratug síðustu aldar. Hann var mjög virkur félagslega alla ævi og jafnan í fremstu röð. Rotary-klúbburinn í Kópavogi naut löngum krafta hans. Hann var formaður Stofnunar Sigurðar Nordal á árunum 1993-99. Og Bjarni Bragi var syngjandi leiðtogi og mörgum eftirminnilegur þegar hann tróð upp og jafnvel tvistaði og söng „Þegar hnígur húm að Þorra.“ Svo söng hann í ýmsum kórum, m.a. Pólýfónkórnum í nær tuttugu ár og sinnti ýmsum félagsstörfum fyrir kórinn. Bjarni Bragi söng svo sinn svanasöng í Hljómi – kór eldri borgara hér í Neskirkju. Þau hjón voru þar í góðum hópi. Það var gaman að vera á skrifstofunni í safnaðarheimilinu og hlusta á félaga Bjarna Braga – og þau hjónin líka – þenja raddirnar og kalla fram sálma lífsins.

Fjölskylda

Og þá er komið að Rósu og fjölskyldu. Þau voru hátt uppi þegar þau kynntust í Hvítárnesi á Kili. Bjarni Bragi efndi til hálendisferðar Æskulýðsfylkingarinnar og þar var Rósa Guðmundsdóttir með í för og systur hennar einnig. Rósa hefur alla tíð séð gullið í fólki og heillaðist af þessum káta og fjölfróða syngjandi formanni. Tilhugalífið var stutt og þau Bjarni Bragi og Rósa gengu í hjónaband árið 1948 þegar hann var 19 ára og hún 18. Þau voru því búin að vera hjón í 70 ár þegar Bjarni Bragi fór inn í ómhús eilífðar. Heimili þeirra Rósu og Bjarna Braga var hamingjuríkt. Þau stóðu alla tíð þétt saman, studdu hvort annað og virtu. Og það var hrífandi að sjá hve hrifinn Bjarni Bragi var af Rósu sinni, sem endurgalt tilfinningar hans og gætti hans og styrkti allt til enda.

Barnalán þeirra Bjarna Braga og Rósu

Þau Rósa nutu nutu barnláns. Jón Bragi var elstur, fæddist árið 1948. Hann var frumkvöðull eins og hans fólk, var ekki aðeins afburða kennari í efnafræði, prófessor við Háskola Íslands heldur höfum við mörg notið hugvits hans í notkun þorskafurða í smyrslum frá Pensími, sem hann stofnaði. Bjarni Bragi minnti son sinn gjarnan á að móðir hans hafi verið hans fremsti stuðnings- og sölu-aðili í upphafi. Fyrri kona Jóns Braga var Guðrún Stefánsdóttir og seinni kona hans var Ágústa Guðmundsdóttir. Jón Bragi varð bráðkvaddur árið 2011. Þeir feðgar og nafnar voru nánir, báðir fjölfræðingar og skoðuðu flest mál sjálfstætt. „Ef ég þarf eitthvað get ég alltaf leitað til pabba“ sagði Jón Bragi.

Olöf Erla, fæddist árið 1954. Hún er keramikhönnuður og kennari við Myndlistaskóla Reykjavíkur. Hennar maður er Sigurður Axel Benediktsson. Bjarni Bragi var stoltur af listfengi dóttur sinnar og fagnaði vegtyllum hennar heima og erlendis. Hann kynnti hreykinn dóttur sína með þeim orðum, að hún væri heimsfrægur keramiker og meistari í listfræði. Hann hafði ekki aðeins gleði af samskiptum við hana, heldur virti verk hennar og studdi hana.

Gumundur Jens er yngstur þeirra systkina, fæddist árið 1955. Hann er lyfjafræðingur. Kona hans er Ásta Hrönn Stefánsdóttir. Hann var giftur Guðrúnu Steinarsdóttir en þau skildu. Síðar bjó hann með Vigdísi Sigurbjörnsdóttir sem féll frá árið 2012. Þegar Guðmundur vitjaði Bjarna Braga á sjúkrastofnun kynnti hann nærstöddum son sinn svo, að Guðmundur spilaði á öll hljóðfæri og syngi allar raddir! Það þótti söngvaranum, pabbanum, stórkostlegt og aðdáunarvert.

Börn þeirra Rósu og Bjarna Braga fóru í æsku með þeim um heiminn, voru með þeim í Cambridge, París og Oslo og eitt þeirra í Kaliforíu. Þau nutu útsýnar og glímdu við fjölbreytilegar aðstæður í skólum, menningu, pólitík, félagsefnum og fjölskyldu. Og svo var Bjarni Bragi alltaf opinn og til í að miðla. Hann var góður, ögrandi kennari og vænti þess að ungviðið reyndi á sig. Hann gaf þeim mikla forgjöf í skák þeegar þau voru að byrja, jafnvel helming leikmanna sinna. En hann vænti þess að þau gerðu sitt besta og kættist þegar hann fann í þeim sóknarhug. Og í Bjarna Braga áttu þau og barnabörnin alltaf keppnismann sem hægt var að virkja. Hann vildi blása þeim hástigssókn í brjóst.

Heimilislífið var glaðvært. Bjarni Bragi studdi Rósu í námi og störfum og mat mikils kennslustörf hennar. En hann gætti þess vel að greina að trúnaðarmál í bankanum og heimalífið. Þegar gengisfellingar dundu reglulega yfir íslenskt samfélag spurði Rósa hann einhvern tíma af hverju í ósköpunum hann hefði ekki sagt frá að fella ætti gengið. Það hefði nú verið hentugt að geta keypt eldavél eða búshluti. Þá hló Bjarni Bragi hjartanlega og sagði að það mætti hann ekki. Og þannig var hann gagnvart fólkinu sínu, vinnunni og veröldinni – heiðarlegur, ábyrgur og siðlegur. Á heimili Bjarna Braga var ekki hægt að merkja yfirvofandi gengisfellingu.

Við tímamót hef ég verið beðinn að bera ykkur kveðju Bjarna Braga Jónssonar yngri og Hólmfríðar unnustu hans. Þau eru í Sviss og geta ekki verið við þessa athöfn í dag. Ennfremur biðja Sverrir Guðmundsson og Þórdís Ingvarsdóttir fyrir kveðjur.

Minningar

Hvernig manstu Bjarna Braga Jónsson. Manstu hve skemmtilegur hann var? Oft fyndinn en alltaf hnyttinn! Djarfur ræðumaður. Manstu vinsemd hans og glettnina, áhugann og duginn? Manstu hve góður hagfæðingur hann var? Manstu einbeitni hans, að hann gat lesið námsbók um leið og hann var á kafi í barnableyjum. Manstu íslenskuhæfni hans? Svo var hann konungur minningagreinanna. Vissir þú að að Bjarni Bragi magnaði alla ungu hagfræðingana þar sem hann var, umgekkst þá sem jafningja og hvatti til dáða. Hann var ekki aðeins veitull í fræðasamhenginu heldur líka sem kollegi. Manstu ættfræðiáhuga Bjarna Braga og víðfeðma og langsækna þekkingu á tengslum og ættum. Og hann var ekki lengi að rekja saman ættir og ekki höfðu við fyrr kynnst á sínum tíma en hann var búinn að tengja. Manstu hve vel Bjarni Bragi var að sér í tónlist og hvernig músíkin liðaðist í öll fræði og kryddaði allt líf? Hann söng Schubert í Vín og ameríska og jafnvel skoska slagara í Kaliforníurútu. Manstu fræðafang hans, hve vítt það var? Mér þótti skemmtilegt að tala við Bjarna Braga um guðfræði. Hann var gagnrýninn trúmaður og við vorum hjartanlega sammála um bókstafshyggju og trúarlega grunnfærni. Hann var vel lesinn og lagði sig eftir helstu straumum og stefnum í guðfræði rétt eins og öðrum greinum. Og á fyrri parti ævinnar velti hann vöngum yfir hvort hann hefði átt að verða við hvatningu sr. Jakobs Jónssonar í Hallgrímskirkju um að læra til prests því þjóðin þyrfti besta fólkið í prestastétt. Svo var Bjarni Bragi sinn eiginn lögfræðingur, hann kunni að leita að og lesa lagatexta. Manstu hve reglusamur hann var? Sástu einhvern tíma fjölskyldumyndabækurnar og hve vel þær voru gerðar og í þær raðað? Manstu hagyrðinginn Bjarna Braga og orkti hann jafnvel um þig? Hann ljóðaði jafnvel til dóttur sinnar einu sinni í útför og bað um að hún gerði duftkerið hans. Og þessa vel sniðluðu bón má sjá aftan á sálmaskránni. Og við henni verður orðið. Austfirska smáblómið við hlið vísunnar er verk Rósu. Manstu hve opinn og spurull Bjarni Bragi var? Spurði hann þig einhvern tíma hvernig gengi í ástalífinu? Stundum setti hann fílterarna til hliðar til að tala sem beinast og greiðast! Og manstu hestamanninn á Seljum á Mýrum? Manstu vininn Bjarna Braga og hve vel Rósa og hann ræktuðu vini sína?

Og nú er hann farinn – til fundar við Jón Braga, systkini, foreldra og ástvini. Bjarni Bragi var stórkostlegur. Var hann gáfaðasti maður Íslands eins og einn samferðamanna sagði um hann? Það er mikil samkeppni um sigur í þeirri keppni. En Bjarni Bragi var í landsliðinu. Nú er söngurinn hans er hljóðnaður í tíma en ómar í eilífð. Þökk sé honum – fyrir kærleika hans, verk, hugsjónir, fólkið hans. Þökk sé fyrir hagfræðina, kátínuna, dans, ræður, kímni, – Já þökk fyrir Bjarna Braga Jónsson. Guð geymi hann í sönghúsinu, þar sem allt gengur upp, ekki þarf að greiða leigu fyrir kvóta og allt er í hástigi. Þar er bara söngur.

Í Jesú nafni – amen.

Útför frá Neskirkju föstudaginn 13. júlí 2018. Bálför. Erfidrykkja í Súlnasal Hótel Sögu.

[i]http://www.visir.is/g/2018180719712/minning-u