Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

+  Lúðvík Gizurarson +

Hvernig var Lúðvík og hvaða minningar áttu um hann? Ég man eftir, sem ungur maður, að ég dáðist að greinum hans, tók eftir andríkinu sem birtust í blaðagreinum sem hann skrifaði. Þar birtist ekki aðeins áhugi á lögfræði, heldur alls konar vísdómur til eflingar og framfara. Lúðvík sá möguleika þar sem aðrir sáu lokanir. Hugur hans var opinn en ekki læstur. Í honum bjó frumgaldur vísinda, að þora að hugsa, greina möguleika og vekja athygli á þeim til framkvæmda. Einföld leit á vefnum færir í fang okkar margvíslegar greinar, sem Lúðvík skrifaði um ólík efni. Stíll hans var knappur, orðum var ekki sóað í óþarfa. Með skýru orðfæri og hnitmiðuðum og meitluðum setningum tjáði Lúðvík meiningu sína og hugmyndir.

Lúðvíksmyndirnar og minningar

Og hverjar eru þínar minningar? Ég er næsta viss um, að ef öll væru spurð sem hér eru í kirkjunni, yrðu minningarnar um Lúðvík næsta ólíkar. Í honum bjó svo margt og svo víða kom hann við sögu, svo mörgum kom hann til aðstoðar og svo margt afrekaði hann. En af frásögnum barna hans staldraði ég við ungan dreng austur í Rangárvallasýslu á stríðsárunum. Hann fór bráðungur niður að á með stöng. Það  er ekki sjálfgefið að leyfa barni, einu á ferð, að stikla á ystu nöf holbakka og við seiðandi strengi. En hann lærði að varast hætturnar, veiddi í Fiská og opnaði vitundina – naut ilms frá blóðbergi og ramm-sætu lyktarinnar úr á og frá bökkum. Lúðvík lærði að kasta og hvernig átti að beita sökku í strengjum yfir stórgrýttum botni. Og hann naut straumsins sem fór um taugar þegar kraftmiklir sjóbirtingar tóku eða risaurriðar sluppu. Lúðvík var nóg, þegar í bernsku og allt til ævikvölds, að eiga kex í vasa og ílát til að drekka úr ánni. Á bernskuárum festi Lúðvík ást á völlum, vötnum, fjöllum, litum, ljósríki og himni Rangárvallasýslu og hann virti tengslin við fólkið sem þar bjó. Þar var hann með sjálfum sér – í essinu sínu. Þar naut hann friðarins eins og hann er túlkaður í spekihefði hebrea. Friður sem jafnvægi kraftanna. Og þar, sem allt er heilt og í skapandi jafnvægi verða til hugmyndir, vöxtur og framtíð. Lúðvík óx upp í þeim anda og þorði að vera, þorði að lifa, lærði að treysta getu sinni og hugboðum. Hann varð brautryðjandi.

Upphaf, bernska og menntun

Lúðvík Gizurarson fæddist í Reykjavík þann 6. mars árið 1932. Foreldrar hans voru Dagmar Lúðvíksdóttir, húsmóðir, og Gizur Bergsteinsson, hæstaréttardómari. Dagmar var frá Norðfirði og var alin upp í stórum systkinahópi. Hún var sú sjöunda af ellefu systkinum, tengdi vel stórfjölskylduna og var öflug í samskiptum og þar með tengslum. Gizur var frá Árgilsstöðum í Hvolhreppi í Rangárvallasýslu. Gizur steig fyrstu skrefin á bökkum Eystri Rangár og var umvafinn erkisögu Njálu. Lagaviska menningarinnar seitlaði inn í hann upp úr mold og sögu og skapaði góðan lögfræðing og að lokum hæstaréttardómara.

Lúðvík var elstur í systkinahópnum og var nefndur eftir móðurafanum fyrir austan. Nafnið er norður-germanskt og kom til landsins með forföður frá Slésvík-Holstein. Reyndar hafði verið ákveðið, að ungsveinninn skyldi bera tvö nöfn afans og heita bæði Lúðvík og Sigurður. En Sigurðarnafnið féll niður milli prestshandar og skírnarfonts. Sr. Jakob Jónsson, þá prestur í Norðfirði og síðar lengi prestur í Hallgrímskirkju, sleppti Sigurðarnafninu í skírninni og fjölskyldan treysti klerki og lét sér Lúðvíksnafnið nægja, enda gott. En nafnið var þó ekki gleymt og kom að góðum notum þegar þriðji drengur þeirra Dagmarar og Gizurar fæddist árið 1939. Hann er Sigurður og er lögfræðingur og gegndi embætti sýslumanns. Bergsveinn var á milli þeirra Lúðvíks og Sigurðar, næstelstur og hann fæddist árið 1936. Bergsveinn varð verkfræðingur og brunamálastjóri. Sigríður fæddist svo á stríðsárunum 1942. Hún var lífeindafræðingur. Sigurður lifir systkini sín og er einn eftir af þessum hæfileikaríka systkinahópi.

Fjölskylda Lúðvíks bjó við fyrstu árin hans við Öldugötu í Reykjavík. Móðirin sá um heimilið og Gizur ávann sér virðingu kollega og samferðamanna fyrir þekkingu og fræðafærni. Lúðvík naut stórfjölskyldunnar og frændfólks í uppeldi. Hann var sendur austur á Neskaupsstað, til afa og ömmu, til Lúðvíks Sigurðar Sigurðssonar og Ingibjargar Þorláksdóttur. Af þeim lærði drengurinn afar margt og þau urðu honum skýrar fyrirmyndir. Lúðvíkshús var gleðiríkt. Ekki aðeins var fjörlegt vegna barnafjöldans, heldur voru þau afi og amma í Neskaupstað kraftmikil og drífandi. Þau urðu Lúðvíki skapandi fyrirmyndir. Amman var forkur til vinnu og hún var laginn og viljasterkur stjórnandi. Afinn var framtakssamur útgerðarmaður, hygginn fjárhöldur og kátur harmonikuleikandi.

Lúðvík sótti skóla í Reykjavík. Það var ekki löng gönguleið af Öldugötunni og niður í Miðbæjarskóla. Og leið lá í gegnum miðju íslenskrar samtímamenningar. Svo varð stríðið til að auka á marbreytileikann. Lúðvík var frá upphafi glöggur nemandi og stefndi á nám í Menntaskólanum í Reykjavík. Menntaskólaárin voru skemmtileg og viðburðarík. Lúðvík varð svo stúdent frá MR árið 1952.

„Go west young man“ var sagt í Ameríku. Lúðvík voru allar leiðir færar eftir stúdentspróf. Hann var fjölhæfur, hugurinn leitaði víða og áhuginn var víðfeðmur. Hann var menntasækinn og fróðleiksfús og efni í góðan vísindamann. Lúðvík var alla tíð áhugasamur um verklegar framkvæmdir og hugur hans leitaði á brautir verkfræði. Svo var hann vestursækinn og sótti um nám í verkfræði við Ohio State University í Athens. Hann fékk skólavist og þótti gaman vestra. En svo sótti hann heim að nýju – vegna ástamála. Konuefnið hans dró hann til baka. Og niðurstaða Lúðvíks var, að halda á ný fræðsvið og hann ákvað að fara í lögfræðina í Háskóla Íslands. En áður en hann hæfi námið af krafti var hann reiknimeistari í flokki línumanna sem unnu við Sogslínu árið 1953. Þar kom reiknigeta hans að góðum notum til að reisa og strekkja rétt.

Lögfræðin varð Lúðvík góð grein og næsta hagnýt sem og lykill að mörgum skrám íslensks samfélags. Lúðvík var ekki aðeins fastur í skruddum og að læra utanbókar ákvæði almennra hegningarlaga eða vatnalöggjafar, heldur hann tók virkan þátt í stjórnmálum á námsárunum. Lúðvík var ritstjóri Úlfljóts á árunum 1954-55. Og hann lauk lögfræðiprófi og varð cand jurisfrá Háskóla Íslands vorið 1958. Hann fékk réttindi sem héraðsdómslögmaður síðar sama ár og varð svo hæstaréttarlögmaður þremur og hálfu ári síðar eða árið 1962. Lúðvík rak um tíma eigin lögfræðistofu í Reykjavík og starfaði svo sem lögfræðingur í Utanríkisráðuneytinu. Hann varð formaður Varnarmálanefndar og lögfræðingur í Viðskiptaráðuneytinu um árabil. Lúðvík rak ásamt konu sinni fasteignasöluna Hús og eignir, þar til hann lét af störfum vegna aldurs.

Valgerður og börnin

Já, konan hans Lúðvíks var stóra ástin hans. Hann sá Valgerði Guðrúnu Einarsdóttur þegar hún byrjaði nám í MR  – gat ekki annað því hún var augnayndi. Og hún komst ekki hjá því að sjá glæsisveininn. Svo var ball á hótel Borg og þau dönsuðu og ástin blómstraði. Þau voru stóra ástin í lífi beggja. Eftir heils vetrar söknuð vestur í Athens í Ohio kom Lúðvík heim. Þegar leið að hjónavígslu systur Valgerðar spurði Lúðvík kærustuna hvort þau ættu ekki bara að gifta sig líka. Og þau gengu í hjónaband og voru gefin saman í Háskólakapellunni 11. júní árið 1954. Það var bjart yfir öllu, hiti í öllu – meira segja methiti í Reykjavík þessa daga. Fimm dögum fyrir hjónavígsluna fór hitinn yfir tuttugu stig í bænum.

Börn þeirra Lúðvígs og Valgerðar eru þrjú.

Elst er Dagmar Sigríður, sem fæddist í maí árið 1957. Hún er lífeindafræðingur. Maður hennar er Trausti Pétursson, lyfjafræðingur. Dóttir þeirra er Valgerður Dóra.

Dóra fæddist í maí árið 1962. Hún er lungna- og ofnæmislæknir. Maður hennar er Einar Gunnarsson, skógfræðingur. Þau eiga dótturina Dagmar Helgu, sem nemur lögfræði.

Einar er yngstur og kom í heiminn í ágúst árið 1963. Hann er framkvæmdastjóri. Dætur hans og Ginu Christie eru Valgerður Saskia og Lilja Sigríður, báðar nemendur. Þetta var fólkið hans Lúðvíks, sem hann hafði brennandi áhuga á, fylgdist með og vildi gefa allt það besta, sem hann átti.

Lúðvík og Valgerður bjuggu fyrstu hjúskaparárin á Neshaga 6, sem foreldrar Lúðvíks höfðu byggt. Síðan bjuggu þau á Hávallagötu 5, en síðan á Grenimel 20. Valgerður kona Lúðvígs lést árið 2008. Og síðustu árin bjó Lúðvík í Sóltúni og naut umhyggju barna sinna, ástvina og góðs starfsfólks. Þökk sé þeim.

Minningarnar

Hvernig manstu Lúðvík? Manstu sögurnar hans eða áhugamálin? Manstu kraftinn og hve auðvelt honum var að laða fram stemmingu með sögu? Manstu náttúrunnandann og merkilegar hugmyndir hans? Blaðagreinarnar spanna afar vítt svið og flest sem varðaði möguleika manna, ábyrga náttúrunotkun, skynsamlegar framkvæmdir og góða nýtingu fjár voru hugðarefni Lúðvíks. Hann var hugsjónamaður og frumkvöðull. Hugmyndir hans um stöðvun sandburðar við Landeyjarhöfn eru afar frumlegar og ástæða til að koma í framkvæmd. Hann hafði skoðanir á hvernig ætti að stunda skilvirkar veiðar á vargi og vildi stofna minkaveiðiherdeild, hvorki meira né minna. Og auðvitað hafði Lúðvík líka skoðun á hvernig mætti hreinsa Tjörnina og setti fram hagnýtar tillögur. Lúðvík vildi dýrðlega Tjörn á ný – eins og hann orðaði það. Hann hafði skýrar hugmyndir um viðbrögð við hruni fjármálalífs Íslands, aflandskrónum og vaxtamálum bankakerfisins. Hann hafði skoðanir á göngum á Austurlandi, lífeyrissjóðum þjóðarinnar, kaupum útlendinga á íslenskum stórjörðum og nýtingu þeirra. Lúðvík hafði alla tíð mikinn áhuga á fuglum og það er merkilegt að eitt vorið tilkynnti hann fuglavakt þjóðarinnar, að hann hafi komið auga á silkitopp. Og hann hafði líka skoðanir á verndaraðgerðum í þágu lunda, kríu og sjóbirtings. Áhugi Lúðvíks var fangvíður og tillögur hans margar snjallar.

Manstu skapgerð hans og eigindir? Hann var ljúfur og heiðarlegur. En hann var líka margra vídda, stundum erfiður, líka sjálfum sér. Alltaf stefnufastur og jafnvel þrjóskur. Stundum endaði hann út í á og bíllinn fastur. Og þá varð hann að leita hjálpar. Það gat hann.

Lúðvík var óhræddur að takast á við stóru málin. Hann hafði ekki aðeins skoðanir eða hugmyndir. Hann þorði líka. Frá bernsku vissi hann, að Hermann Jónasson var blóðfaðir hans. Hann taldi sér skylt, að leiða það mál til lykta. Lúðvík þurfti nokkrar atrennur til að ná markinu. En staðfest var, að hann var blóðsonur Hermanns Jónassonar. Í þessu tilfinningaþrungna máli kom í ljós þor Lúðvíks. Hann varð brautryðjandi allra, sem á eftir komu, því nú eru það orðin skilgreind mannréttindi, að fólk á rétt á að þekkja foreldra sína og þar með sögu sína og erfðavísa. Lof sé Lúðvík fyrir að hafa opnað nýjar leiðir föðurleitandi fólks.

Ævintýrið Eystri Rangá

Af því að Lúðvík var óhræddur frumkvöðull og veiðimaður hafði hann alla tíð áhuga á veiðum í íslenskum vötnum. Honum var alla tíð umhugað um að efla lífríki ánna, sem voru í hans umsjá, og vonir hans gengu eftir. Um árabil leigðu þau Valgerur Miðá í Dölum og gerðu hana að alvöruá með markvissum aðgerðum. En ekkert ævintýri í veiðimálum okkar Íslendinga jafnast á við þá uppbyggingu, sem Lúðvík stóð fyrir í Eystri Rangá. Að því verki komu margir undir forystu Lúðvíks og Einar hefur síðan haldið áfram með óbilandi elju. Uppbyggingin við og í Eystri Rangá er kraftaverki líkast og fundvísi og snilli þeirra feðga Lúðvígs og Einars hefur breytt fljótinu úr rýrri veiðiá í veiðiundur á heimsmælikvarða. Bernskuáhugi, frummótun, tækniáhugi, framsýni, skapandi hugsun, vinnusemi og þolgæði urðu til að kraftaverkið tókst. Þökk sé honum. Í þessu stórvirki varð Lúðvík skínandi fyrirmynd.

Að kveðja

Nú eru skil. Lúðvík stoppar ekki við ár framar til að skygnast eftir fiski. Hann fær ekki framar eitt hundrað hugmyndir á dag eins og barnabarn hans hafði tekið eftir. Afi Lúlli opnar ekki fang til hægt sé að kúra á afabumbu. Hann kennir ekki Lúðvísku veiðiaðferðina framar, semur um seiðasleppingar eða höndlar með húseignir. Hann skrifar enga 99 orða grein um stórmál eða hvernig bjarga megi Breiðamerkursandi og Jökulsárlóni eða efla atvinnulíf í góðri sátt við Rússa og Kínverja. Hans Lady luckkallaði af himnum. Fljót eilífðar er máttugt og kyssir tímann og umvefur vin sinn og okkur öll.

En hér fann ég ungur í hjarta mér

þann himin, sem ég gat lotið.

Og geiglausum huga ég held til móts

við haustið, sem allra bíður.

Og sefandi harmljóð hins helga fljóts

úr húminu til mín líður.

Eins veit ég og finn að það fylgir mér

um firð hinna bláu vega,

er hníg eitt síðkvöld að hjarta þér,

ó, haustfagra ættjörð míns trega.

(úr ljóðinu Fljótið helga eftir Tómas Guðmundsson).

Guð geymi Lúðvík og Guð styrki ykkur ástvini.

Amen.

Dómkirkjan í Reykjavík, 20. september 2019, klukkan 13. Erfidrykkja hótel Natura. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

 

Ármann Snævarr +

Í dag hefði Ármann Snævarr orðið eitt hundrað ára. Ármann var vinur minn, sótti kirkju í Neskirkju, stoppaði mig á gangstéttum til að ræða stóru málin. Og svo þegar hann lést árið 2010 var ég fenginn til að þjóna við útför hans. Í dag verður hátíðarathöfn í HÍ til minningar um þennan öfluga fræðaþul og mannvin. Minningaroðin eru hér að neðan. 

Minningarorð + Ármann Snævarr 

Hver var hann Ármann? Af hverju var hann svona hlýr og glaður? Af hverju stoppaði hann okkur á vegi til að grennslast fyrir um fjölskylduhagi og velferð. Hann hafði óflekkaðan og óbilandi áhuga á okkur samferðafólki sínu. Af hverju stóð hann alltaf með börnum í lífi og fræðum? Hann var maður verndar. Af hverju varð hann þessi bonus pater familiae? Hann var sendiboði þess kærleika sem skapað hefur heiminn. Hann var ekki aðeins einhver mesti vinnuþjarkur sem við kynntumst, ekki aðeins einn af fremstu fræðimönnum þjóðarinnar heldur var hann valmenni. 

Hvort er reynd eða sýnd mikilvægari? Hvers virði er hið ytra í samanburði við hvaða menn hafa að geyma hið innra? Á fyrri öldum var mótun innri manns talin æviverkefni og lífsmál. Það sem menn gerðu úr hæfileikum sínum og gáfum – það varð innrætið – eða það sem kallað var habituseinstaklings. Við þekkjum habitusí enska orðinu habit, sem merkir venja eða jafnvel kækur. Mennskan er ekki fullmótuð og verkefni okkar allra er að bregðast við aðstæðum og gangast við sjálfum okkur. En líf er hreyfing og að vera maður er kall til átaka, að stæla hið innra og ytra til góðs. Habitus, innræti þroskaðs manns, er m.a. fólgið í viskusókn, iðkun elskunnar, að taka þátt í undri lífsins. Ármann var þroskaður maður. Hann hafði unnið með sinn innri mann og stælt til átaka en líka mannástar, mannúðar. Hans habitusvar mótaður af hinu trúarlega inntaki, að taka lífinu með gleði, standa vörð um fræði, visku, mannvirðingu og bregðast við því góða og gleðilega. En sá þroski verður ekki til fyrirhafnarlaust. Og nú vil ég gjarnan segja eina litla sögu sagði kennarinn Ármann gjarnan til skýringar. Þetta er lykilsaga um átök til stælingar og mótunar.

Ármann stæltur til lífs

Árið 1933 hóf Ármann nám í Menntaskólanum á Akureyri. Þegar hann átti tvö ár eftir nyrðra höfðu armar kreppunnar rústað samfélagið svo að enga vinnu var að fá. Dag eftir dag og viku eftir viku fór Ármann á fætur og stóð klukkutímum saman í biðröð eftir uppskipunarvinnu, en án árangurs. Þar sem hann beið kaldur og útskúfaður dagaði á hann að hann yrði aldrei stúdent eins og bræður hans. Hann yrði að sætta sig við stöðu sína og vonbrigðin. Hann ákvað að menntast hið innra þótt hann fengi ekki húfu og háskólamenntun. Hann settist niður með skruddurnar í verkleysinu og lærði eins og hann ætti líf að leysa. Ármann fékk óvænt að taka utanskólapróf. Hann glansaði ekki aðeins heldur fékk líka – gegn vonum – að vera á heimavist upp á krít síðasta veturinn í MA. Á þessum æskudögum lærði Ármann að láta aldrei einangraðan vanda stöðva sig. Vandi er verkefni til lausnar. Þetta er eina rétta kreppuviðbragðið. Í lífi Ármanns var ljóst að markmið voru mikilvægari en hindranir. Ármann varð afar stefnufastur. Og mikilvægur þáttur íhabitushans varð áræðni og andlegt þrek.

Minningarorðunum sem á eftir fara er skipt í tvo hluta. Í fyrri hlutanum geri ég grein fyrir námi og störfum Ármanns. Í hinum seinni, eftir að Sólveigarsöngur Griegs hefur verið sunginn, færum við okkur heim til þeirra Valborgar og ræðum um heimilismanninn.

Líf og störf

Ármann Snævarr fæddist á Nesi í Norðfirði 18. september árið 1919. Hannn lést 15. febrúar síðastliðinn. Stefanía og Valdimar, foreldrar hans, voru ráðin í að nefna hann Gunnstein og eftir bróður hans sem hafði látist skömmu áður. Nóttina fyrir skírn, dreymdi Stefaníu að til hennar kæmi ungur maður, sem hafði látist skömmu áður og bað um að hann fengi að vera hjá þeim. Hún tók þessari nafnvitjun vel og drengurinn fékk tvö nöfn en ekki eitt. Ármannsnafnið er því draumnafn og það notaði fjölskyldan og nafnberinn æ síðan. Ármann var yngstur fimm systkina. Hann átti sér eiginlega tvær mömmur, því Ína móðursystir hans bjó á heimilinu, stækkaði tilveru systkinanna með guðsorði, taflmennsku og ekki má gleyma öllum draumunum. Heimilið var menntunarsækið og plássið var gjöfult.

Nám reyndist Ármanni sem leikur. Móðurbróðir minn deildi heimavistarherbergi með honum síðasta ár í skóla fyrir norðan. Hann var sjálfur mikill námsmaður en sagði mér, að Ármann hefði verið öllum fremri hvað varðar vinnuskipulag og öguð vinnubrögð. Á undan öllum var hann kominn á fætur og hafði unnið gott dagsverk þegar aðrir vöknuðu. Ármann var árisull og borinn til stórvirkja. Hann varð dúx á stúdentsprófi og hæstur í landinu.

Laganámið

Svo fór hann suður í lagadeildina, sem var til húsa í Alþingishúsinu. Í frímínútum kynntust stúdentar þingmönnum, lærðu á þinglífið og hvernig átök urðu til og voru leidd til lykta. Ármann og félagar lærðu mælskufræðina í frímínútum. Hann lagði grunn að fræðum sínum, hann tengdist kennurum sínum djúpum vináttu- og virðingarböndum, tók nærri sér sóun stríðsins sem var í algleymi og hreifst af lýðveldishugmyndum. Ármann varð síðasti konunglegi lögfræðingurinn, sem útskrifaður var frá HÍ áður en til lýðveldisstofnunar kom. En fagnandi veitti hann slitum atkvæði sitt og leyfði Íslandssögunni að hvelfast yfir sig á Þingvöllum 17. júní 1944. Og hann hafði í sér tilfinningavíddir til að lifa mikilvægi þess atburðar í sögu þjóðarinnar.

Hann var aðeins fjórtán ára þegar hann fór að heiman, fór í skóla sem naut kennslu manna, sem höfðu dvalið langdvölum erlendis. Lunderni og mótun skópu útsýn Ármanns. Hann kunni illa heimóttarstíl. Eftir að hann var búinn að þjóna sem bæjarfógeti á Akranesi fór hann utan. Honum var fullkomlega eiginlegt og eðlilegt að fara í framhaldsnám, ekki bara til Danmerkur, heldur var að auki sitt hvort árið í Noregi og Svíþjóð við fræðaiðkun. Hann þorði líka að skoða lögfærðina í stóru samhengi. Undrandi Reykvíkingur spurði þegar það fréttist, að Ármann væri að læra réttarheimspeki: “Hvernig getur lögfræðingur lært heimspeki? Ég hélt þeir fengjust aðallega við að innheimta víxla!” Nei, Ármann var í sönnum jús. Og hann varð síðar margfaldur heiðursdoktor í lögum.

Prófessorinn

Ármann var á leið til Cambridge þegar kallið kom að heiman. Hann fór ekki yfir Ermasundið heldur til Íslands. Hann var settur prófessor við lagadeild Háskóla Íslands 28 ára, frá hausti 1948 og skipaður prófessor einu og hálfu ári síðar. Ármann kenndi flestar greinar lögfræðinnar og varð víðfeðmur í fræðunum. Sifjarétturinn varð fyrsta kjörlendi hans og þar endaði hann líka með stórvirki sínu, Hjúskapar- og sambúðarréttur, sem hann gaf út á árinu 2008, yfir þúsund blaðsíðna grundvallarrit á sínu sviði. Ármann naut þess að kenna og hélt áfram kennslu fram á síðustu ár. Hann kenndi líka guðfræðinemum kirkjurétt. Við dáumst að fræðaþulnum en einnig mannkostamanninum sem umvafði okkur með hlýju sinni.

Á kennsluárunum styrkti Ármann erlendu tengslin og var gistikennari við háskóla bæði vestan og austan Atlansála. Hann var alla tíð afar virkur í erlendu samstarfi. Flestir dómarar, lagakennarar og fjöldi lagastúdenta á Norðurlöndum þekktu Ármann, nutu hans, sóttust eftir honum til starfa og fyrirlestra. Hann var góður sendiherra íslenskra gæða, fræða og menningar.

Ármann var eljusamur í útgáfumálum sínum, skrifaði alla tíð mikið og greinar fyrir erlend fræðirit einnig. Ritaskrá Ármanns er löng og bókleitarkerfið Gegnir listar dugnaðinn á átján síðum. “Hver kennslustund var tilhlökkunarefni” sagði hann gjarnan og það er mjög merkilegt að horfa á sjónvarpsviðtöl af Ármanni þegar hann talaði um kennslustarfið. Þar er gleði í augum og fögnuður. Hann var elskur að nemum sínum, vildi gera þeim allt til þroska og eflingar og bar hag þeirra fyrir brjósti, ekki bara á námsárum heldur alla tíð síðan eins og þið þekkið sem hér eruð í dag. Hann vildi vita um afkomu, lífslán, breytingar og tók til hjarta áföll og dauða. Hann var í senn hinn besti meistari af gamla skólanum, prestur í nánd sinni og engill í falslausri velvild.

Rektorinn

Það hafði ekki verið til siðs að velja unga menn til forystustarfa í Háskóla Íslands fyrstu fimmtíu árin og fæstum datt í hug að fertugur Ármann væri rektorsefni. En Ármann var margþátta og fjölhæfur og hentaði því vel þörfum háskólans á uppgangstíma. Hann þekkti þróun erlendra háskóla og vildi að raunvísindin fengju styrkari stöðu í skólanum. Svo var Ármann svo skemmtilega opinn, félagslyndur, hæfur í samskiptum, áræðinn og framsækinn að hann varð rektorskandídat og var kjörinn rektor í síðla árs 1960. Þá hófst eitt mesta þróunar- og framfara-tímabil Háskóla Íslands fyrr og síðar. Ármann höndlaði svo um að flest gekk upp. Ekki hafði hann verið í rekstri eða stjórnað fyrirtækjum en virkjaði snilligáfu sína í þágu skólans. Dæmi um þetta er að honum tókst á undraskömmum tíma að ljúka byggingu Háskólabíós, sem hafði verið í stoppi vegna fjáreklu. Þegar hann var að raka sig einn morgunin fékk hann þá hugmynd að Landsbankinn hefði útibú í bíóinu og borgaði leiguna áratugi fram í tímann með einni greiðslu. Þessa hugmynd um framvirkan samning trítlaði hann með niður í bæ, sannfærði bankastjórann, fékk svo græna ljósið frá ríkisstjórn og nokkrum dögum síðar var allt á fullu í Háskólabíó. Salurinn var tilbúinn nokkrum mánuðum síðar og fyrir fimmtíu ára afmælishátíð háskólans. Í skjóli Ármanns eða vegna áhrifa frá honum urðu til Raunvísindastofnun, Reiknistofnun háskólans, Árnastofnun, Lögberg og hjónagarðarðar. Rektorinn heyrði ágætlega raddir stúdenta og beitti sér fyrir byggingu Félagsstofnunar stúdenta og var til reiðu nætur og daga á álagstíma stúdentauppþota.

Hæstaréttardómarinn

Mannkostir og menntun Ármanns nýttust vel á þessum rektorstíma hans, sem lauk árið 1969. Árið 1972 varð hann svo hæstaréttardómari. Fyrr og síðar talaði Ármann um ábyrgð þess að dæma og tók nærri sér að fella hina endanlegu dóma. Hann gekkst við ábyrgðinni, var verkefninu og vandanum vaxinn. Lögfræðiþekking og elja hans nýttist fullkomlega. Í árslok 1984 fékk hann lausn frá störfum í Hæstarétti og gat helgað sig fræðimennskunni að nýju.

Ármann hélt sína síðustu háskólaræðu þegar Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarr var stofnuð síðastliðið haust. Þá hafði hann – vegna sjóndepru – ekki lengur hald í blöðum og af stöfum en töfraði úr sjóði hjarta og visku fallega ræðu og endaði með blessunarorðum: Heill sé Háskóla Íslands. Hann uppskar klapp og virðingu. Heill sé Háskóla Íslands, já heill sé menntun þjóðarinnar, heill sé háskólum þjóðarinnar. Og megi eiginda og afstöðu Ármanns Snævarr verða minnst þegar um sanna menntun er talað og sanns menntamanns er minnst.

Lífið og heimlið

Árman Snævarr var ekki aðeins virkur og virtur prófessor, rektor og dómari. Hann var maður tengsla, eiginmaður, faðir, afi, vinur og félagi. Ármann hafði ekki aðeins nautn af umgengni við fólkið í háskólanum. Hann var svo félagslyndur að hann var jafnan fyrstur til dyra og líka þegar sendill kom með vörur úr KRON-búðinni, dreif sendilinn inn og settist niður og spjallaði. Hann staldraði við hjá okkur börnunum í hverfinu, spurði að nafni og sagði sitthvað eftirminnilega hnyttið við okkur og hlýlegt um okkar fólk. Engan mannamun gerði hann sér, hann frúaði og frökenaði konurnar og umgekkst karlana með hlýlegri virðingu. Allir þekktu Ármann og alla þekkti hann. Hann var því eftirsóttur til félagsstarfa. Miðað við mikið og stöðugt vinnuálag er furðulegt hve víða hann kom við sögu og hve stórvirkur hann var í félagasögu þjóðarinnar. Hann beitti sér ekki aðeins að stofnun og starfi félaga lagamenntaðra, heldur starfaði í mörgum vinnuhópum um ýmis opinber mál, og í ræktunarfélögum lands og lýðs. Ármann var félagsjarl. Ég vísa í æviskrárnar og get ekki annað en þakkað fyrir hönd tuga félaga, sem hann þjónaði með stjórnarsetum fyrr og síðar.

Ekkert af þessu hefði verið möguleg ef Valborg hefði ekki staðið við hlið manns síns og stutt með ráðum og dáð. Hún var skóladúx eins og Ármann. Í september 1948 hittust Valborg og Ármann í Oslo. Hún var á námsför og hann á fræðaspretti. Og Ármann bauð Valborgu út að borða – og það var nú kannski ekki beinlínis upp úr franskri eða ítalskri kúsínu sem þau völdu sér – heldur borðuðu hvalkjöt. Ég gerði mér ekki grein fyrir að það væri rómantískt. Þetta var þeirra útgáfa af Food and Fun. En svo fóru þau heim og ástin kviknaði – enda hvalkjöt staðgott. Þau gengu í hjónaband í kapellu Háskólans 11. 11. 1950. Sr. Stefán á Völlum, bróðir Ármanns, gaf þau saman og var svo snjall að leggja út af orðinu mannval. Og hjónaefnin voru ekki aðeins mannval, heldur kyssast nöfnin þeirra svo fallega að helmingur Ármanns og helmingur Valborgar verður mannval.

Það var auðvitað snjallt hjá þeim að ganga í hjúskap á vopnahlésdaginn og hefja vígsluathöfn kl. 11. Bæði stórveldi í sjálfum sér, en þó vel slípuð, bæði yngst í barnahópum, mótuð af lífsreynslu langferða um lendur mennta og landa. Vopnahléð hélt og lífið var fjölbreytilegt. Það var ekki aðeins einhliða stuðningur, sem Valborg veitti manni sínum. Hann var henni alltaf stoð í brautryðjendastarfi hennar við uppeldismenntun þjóðarinnar og mótun kynslóða leikskólafólks, sem jafnframt var einnig efling kvennamenningar, kvennavirðingar og stuðlaði að jafnari stöðu kynjanna í samfélaginu. Þau unnu bæði með framtíðarfólki og að mótun framtíðarmenningar þjóðarinnar. Ekki er að efa að Valborg hefur haft mikil áhrif á skilning Ármanns og eflt visku hans. Hæfni hans verður ekki numin og skilin til fulls nema með vísan til hennar líka. Hann var lánsmaður.

Barnalán og heimili

Þeim Valborgu og Ármanni varð fimm barna auðið. Þau eru Sigríður Ásdís, sendiherra. Hennar eiginmaður er Kjartan Gunnarsson. Næstelstur er Stefán Valdemar prófessor í Noregi. Í miðjunni er Sigurður Ármann, borgarhagfræðingur. Kona hans er Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir. Valborg Þóra, hæstaréttarlögmaður, er næstyngst systkinanna. Hennar eiginmaður er Eiríkur Thorseinsson.Yngstur er Árni Þorvaldur, upplýsingafulltrúi í Brussel. Afkomendur Ármanns og Valborgar eru samtals ellefu og stjúpbarnabörnin þrjú.

Valborg var “útivinnandi” og Ármann var “heimavinnandi.” Hann tók ákvörðun að vera heima við skriftir og kennsluundirbúning. Ritvélarpikkið varð eins og hjartsláttur á heimilinu. Gögn, bækur og blaðabunkar flóðu yfir borðstofuborð, en var sópað til hliðar fyrir máltíðir. Borðið varð miðja veruleikans og börnin kölluðu sína veru inn í fræðin og hinn akdademíski andi seitlaði til baka í æðar og vitund þeirra. Það er ekkert einkennilegt að þau séu líka fræðaþulir. Þeim var lagið að flytja sitt mál. Engum lá lágt rómur, oft var tekist á og heimilisfaðirinn kímdi yfir málflutningnum. Einhverju sinni gall við í Ármanni: “Mikið er ég hamingjusamur að hafa ykkur öll hérna – og allir að rífast.” Hann hafði alið af sér mannval, leiftrandi fólk. Lof sé þeim fyrir að halda merki Ármanns og Valborgar á lofti, heill sé íslenskri þjóð. Strákarnir hefðu auðvitað á viðkvæmum aldri frekar kosið að pabbi þeirra kynni á gröfu fremur en að vera prófessor og grafa upp lagagreinar. Ármann kom í gættina á partíkvöldum unglingsára barnanna, heilsaði öllum viðstöddum gestum alúðlega og bauð rúsínur eða kandís. Þetta þótti krökkunum ekki smart. Hann hringdi í fólkið sitt skv. reglu og vildi fá fregnir af öllu því sem gladdi eða bjátaði á. Og hann gat á tíræðisaldri hrópað upp yfir sig þegar sonardóttir hans náði almennu lögfræðinni með glæsibrag. Heimilislífið var fjölbreytilegt, rökfimi stunduð, aginn skerptur og gleðin lofuð.

Gunnsteinn Ármann Snævarr var kyndilberi íslenskrar menningar og lýðveldissögu. Hann var sem tákn um gæði og menningu. Hann miðlaði áfram og var svo stór í sjálfum sér að hann efldi fólk en lamdi ekki niður til að sjást sjálfur. Umtalsfrómur var hann alla tíð. Hann var svo umgengnisgóður að hann bar virðingu fyrir stólum. Ármannn sótti í djúpin, fór að baki lagagreinum og bókstaf og greindi dýpri rök og þarfir fólks og lífs. Hann stóð alltaf með lífinu og þeim sem varnar þörfnuðust. Eins og hann var mikill alþjóðamaður var hann vel tengdur þjóðmenningu og íslenskum gildum. Nú gildir að vitja visku Ármanns og læra af. Hann er farinn, lyftir ekki lengur hattinum sínum, frúar og frökenar enga.

Ármann  sótti kirkju sína af sömu reglu og hann rækti allt annað í lífinu. Einu sinni kvaddi Ármann mig við kirkjudyr og sagði: “Nú er ég glaður. Þetta er í fyrsta sinn sem ég heyri lagagrein nefnda í prédikun.” Þá var rætt um 125 grein. almennra hegningarlaga. Og hann veðraðist upp. Ármann var í trúmálum sínum jafnheill og í öðru og honum var last trúar og trúarefna óhugsandi en um það fjallar greinin eins og lögfræðingarnir vita. Ármann hafði tekið sér traust til hjarta, líf hans var heilt og í góðum faðmi. Hann var okkur öllum samverkamaður af því að hann átti í Guði slíkan. Trúariðkun hans var heillandi skýr og einföld, hann umgekkst Guð sem félaga og bandamann, sem hann ræddi við óhikað við og opnaði sig fyrir. Ármann átti sér ákveðinn bænatíma á kvöldin og ef hann var ekki nærri konu sinni gátu þau í sitt hvoru lagi beðið sitt Faðir vor á ákveðnum tíma og deitað þannig hvort annað á himneska vísu. Guð var Ármanni sálgætir, besti vinur, sem var honum nærri í gleði en líka andblæstri og sorg. Því umlauk hann sitt fólk í bænum sínum, umspennti allt sem skipti hann máli, sem reyndar var stór og litrík veröld. Tilvera hans var óbrotin. Það var himneskur jús, í öllu sem hann gerði í vinnu, fræðum og einkalífi. 

Hver var Ármann? Sendiboði ögunar og fegurðar, ármaður gleðinnar og elskunnar. Ávallt Guði falinn og fullur þroskaðs trausts. Blessaðu minningu hans með því að stæla þinn innri mann, til þjónustu við Guð og menn. Vertu slíkur Ármann í lífinu.

Guð geymi Ármann Snævarr og blessi Valborgu, börn, tengdabörn, afkomendur og ástvini. Guð veri með okkur.

Amen

Eftir þessa útfararathöfn verður kista Ármanns borin út og þar geta allir gengið að og kvatt. Erfidrykkja verður í safnaðarheimilinu strax að lokinni athöfn og jarðsett verður síðar í dag í kirkjugarðinum á Görðum á Álftanesi. Þar fæddist meistari Jón Vídalín. Um hann var sagt að hann væri ingenio ad magna nato– borinn til stórvirkja, og það er góður eftirþanki um Ármann Snævarr.

Æviágrip

Gunnsteinn Ármann Snævarr fæddist á Nesi í Norðfirði þann 18. september 1919 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Valdemar V. Snævarr, sálmaskáld og skólastjóri f. 22. ágúst 1883, d. 18. júlí 1961, og Stefanía Erlendsdóttir, húsmóðir f. 6. nóvember 1883, d. 11. desember 1970. Systkini Ármanns voru Gunnsteinn f. 16. mars 1907, d. 12. júní 1919. Árni Þorvaldur, verkfræðingur og ráðuneytissjóri f. 27. apríl 1909, d. 15. ágúst 1979.  Laufey Guðrún, húsmóðir f. 31. október 1911, d. 9. nóvember 2002. Stefán Erlendur, prófastur f. 22. mars 1914, d. 26. desember 1992. Gísli Sigurður f. 21. júlí 1917, d. 21. janúar 1931. Eftirlifandi fóstursystir Ármanns er Guðrún, húsmóðir f. 5. júlí 1922.

Ármann kvæntist þann 11. nóvember 1950 Valborgu Sigurðardóttur uppeldisfræðingi og fyrrv. skólastjóra Fósturskóla Íslands, f. 1. febrúar 1922. Foreldrar hennar voru Sigurður Þorólfsson skólastjóri Lýðháskólans á Hvítárbakka og seinni kona hans Ásdís Margrét Þorgrímsdóttir húsmóðir.

Börn Ármanns og Valborgar: 1. Sigríður Ásdís, f. 23. júní 1952 sendiherra gift Kjartani Gunnarssyni, f. 4. október 1951 lögfræðingi, sonur þeirra er Kjartan Gunnsteinn, f. 5. júlí 2007. 2. Stefán Valdemar, f. 25. október 1953 prófessor í Lillehammer í Noregi. 3. Sigurður Ármann, f. 6. apríl 1955 borgarhagfræðingur, kvæntur Eydísi Kristínu Sveinbjarnardóttur, f. 24. júní 1961 aðstoðarframkvæmdastjóra hjúkrunar á Landsspítala. Börn Sigurðar eru Jóhannes, f. 2. nóvember 1982 og Ásdís Nordal, f. 21. ágúst 1984. Börn Eydísar eru Sveinbjörn Thorarensen, f. 26. nóvember 1984 og Sigurlaug Thorarensen, f. 18. desember 1990. 4. Valborg Þóra, f. 10. ágúst 1960, hæstaréttarlögmaður, gift Eiríki Thorsteinsson, f. 17. september 1959, kvikmyndagerðarmanni. Sonur Valborgar er Gunnsteinn Ármann Snævarr, f. 18. janúar 1981. Dóttir Eiríks er Oddný Eva Thorsteinsson, f. 16. maí 1988. 5. Árni Þorvaldur, upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum í Brussel, f. 4. mars 1962. Börn hans eru Ásgerður, f. 1. ágúst 1988 og Þorgrímur Kári, f.12. október 1993.

Ármannvarð stúdent frá MA 1938 og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1944. Hann stundaði framhaldsnám lögum við háskólana í Uppsölum,  Kaupmannahöfn og Ósló árin 1945-1948 og sérnám og rannsóknir við Harvard Law School 1954-1955. Hann var skipaður prófessor í lögum við Háskóla Íslands árið 1948 og gegndi því starfi til ársins 1972. Árið 1960 var Ármann kjörinn  rektor Háskóla Íslands og gegndi því starfi til 1969. Ármann var skipaður hæstaréttardómari árið 1972, en lét af því embætti árið 1984. Eftir Ármann liggur mikill fjöldi bóka og annarra fræðirita um lögfræði. Vorið 2008 þegar hann var á 89. aldursári sendi hann frá sér mikið fræðirit um hjúskapar- og sambúðarrétt. Kennsluferill hans við lagadeild Háskóla Íslands spannaði hálfa öld. Ármann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands árið 1993 og við fjölda erlenda háskóla. Honum hlotnuðust ýmsar fleiri viðurkenningar fyrir störf sín, bæði erlendis og hér heima. Í tengslum við níræðisafmæli Ármanns setti Háskóli Íslands á fót við lagadeild sína Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni.

myndin af Ármanni er mynd Þorkels í Morgunblaðinu. Myndin af þeim Valborgu og Ármanni er frá Vísi. 

Guðbjörg Þórisdóttir + minningarorð 

Ljóðið læðist

að leyndum dyrum vitundarinnar

bíður.

Þú heyrir hvíslað –

hlustar í spurn

opnar

finnur yl ljóssins.

Fyrr en varir

eruð þið orðnir vinir –

þú, ljóðið og ljósið.

 

Þetta skrifaði Guðbjörg 22. júní 2004 kl. 00:30. Hún orti með orðum, augum og athöfnum. „Gott hjá þér“ sagði hún við okkur mörg. „Gott hjá þér,“ segjum við þegar við kveðjum Guðbjörgu.

Guðbjörg var svo kraftmikil og hugumstór, að hún varð öllum eftirminnileg. Hún þorði að teikna og lita út fyrir rammann – bæði á blaði og í lífi – og því urðu myndirnar af henni litríkar. Myndir af konu, skapandi og fullri af lífsorku, ást á lífinu, áhuga á fólki og inntaksríkum bókmenntum, sem spegluðu lífið. Og í þessum minningarbrotum eru dregnar upp nokkrar af myndunum af Guðbjörgu, skólastjóranum, mömmunni, fræðaranum og lífskúnsternum. Myndir eru fyrir lífið, til að gleðjast yfir og læra af.

lindargullið og eldflugan

Það var fyrsti dagurinn í skólanum og unglingarnir þekktu ekki Guðbjörgu, spunagetu hennar, kennslutækni, uppeldisfærni eða kátínu hennar. Þeir voru komnir í kennslustofuna og biðu eftir kennaranum. Allt í einu vatt Guðbjörg sér inn með rautt sjal á öxlum. Hún fór úr skónum og stökk svo upp á stól og þaðan fór hún upp á kennaraborðið. Svo hóf hún, öllum á óvart og án þess að kynna sig, að þylja texta sem þau höfðu aldrei heyrt áður:

„Mig dreymdi ég geingi útí skóg einsog í fyrra þegar ég gekk útí skóg með stöllu minni; og stóð ein í rjóðrinu við lækinn. … Títa, litla grýta, liljan hvíta, mýrispýta, lindargullið og eldflugan mín…“

Og svo flutti Guðbjörg áfram, með tilþrifum og til enda Unglinginn í skóginum. Nemendurnir göptu, störðu á kennarann – upp á borði – og reyndu að fylgjast með framvindu orðagjörningsins. Svo þegar galdurinn hafði náð inn í unglingakvikurnar stökk Guðbjörg niður á gólf og skellihló. Hún hafði náð þeim. Hópurinn gerði sér þá grein fyrir að kennsla væri ekki óhjákvæmilega ítroðsla, heldur leikhús lífsins, sálarstækkandi gaman. Guðbjörg varð þeim – og flestum sem kynntust henni – heimsljós. Halldór Laxnes var góður, en hún líka. Bókmenntir voru fyrir lífið og hún líka.

Úrræðagóð

Önnur mynd. Guðbjörg var alltaf sjálfbjarga, aldrei farþegi í lífinu. Ef hana vanhagaði um eitthvað kláraði hún dæmið sjálf. Þegar allir krakkar voru blankir í uppvexti hennar var hún allra snjöllust og dugmest í sölu merkja og happdrættismiða. Hún greindi markaðinn fullkomlega, vissi hvar, í hvaða húsum, væri hægt að selja og hvar söluhorfur voru þungar. Og þó Guðbjörg setti allt á fullt í námi í Hagaskóla og yrði dúx í ýmsum fögum vann hún meðfram skóla (hún fékk Heimsljós að launum fyrir námsafrek, áritað af þeim merka skólamanni Birni Jónssyni, skólastjóra Hagaskóla). Hún vann í Bæjarútgerðinni og ormhreinsaði karfaflök á flughraða. Svo puðaði hún í Víði. Fyrri hluta daganna afgreiddi hún í verslun, í sjoppunni á kvöldin og svo skúraði hún áður en hún lognaðist út af í rúminu heima. Yfirferðin, krafturinn og getan urðu henni uppspretta fjár og möguleika. Hún átti alltaf pening því hún var svo úrræðagóð, vinnusöm, kraftmikil og marksækin. Þær eigindir nýttust henni í vinnu og í einkalífi.

Laxveiðin

Guðbjörg var ekki stangveiðikona – og var raunar ekki vel við að deyða fisk og slíta úr honum öngul. En hún átti hins vegar dásamlega og gamanleitandi vini, sem höfðu húmor fyrir lífinu. Hún ræddi einu sinni laxveiði við vinkonu sína. „Strákarnir fara í veiði og af hverju ekki við?“ Og þær ákváðu að skella sér í veiði. Þær gíruðu sig upp, náðu sér í hinn fullkomnasta búnað, fóru að ánni í grænum vöðlum með flugunet til varnar mývarginum og leið svona líka ljómandi vel á árbakkanum og hlógu sig máttlausar yfir vankunnáttu að kasta flugu. En aflatölur voru ekki aðalmálið og engum sögum fer af Maríulöxum eða uggabiti. Þetta voru gleðiveiðar. Slíkar veiðar eru göfugastar. Og myndin af þeim með stangir og í vöðlum veltandi á bakkanum í hláturrokum er heillandi, eins og sena í gamanmynd. Vinkvennahópur Guðbjargar var landslið vináttunnar. Gleði, alúð og umhyggja áttu sér ekki takmörk í samskiptum.

Máltakan

Guðbjörg hafði áhuga á börnum, mat börn mikils. Hún var heilluð af þroskaskeiðum þeirra og vissi að börn geta og þora. Hún ræddi við börn eins og jafningja. Þegar Guðbjörg gekk með litlum börnum úti leiddi hún ekki ungviðið í þögn. Allt varð að umræðuefnum. Laufin á götunni, droparnir sem féllu á nebbann, vindstrokan sem lék um kinn, litir dagsins, fólkið á ferð og kisarnir sem stukku yfir stéttarnar. Og tilgangurinn? Máltaka. Það var ekki bara gaman að ræða við börn, skemmta sér yfir hugarflugi og tengingum, heldur voru djúp og ákveðin rök að baki hjá henni. Allt getur orðið viðfangsefni samtals. Öll veröldin er full af viðburðum, sem má færa í orð. Því meira sem talað er við börn, því meiri líkur á góðum málþroska, sem Guðbjörg vissi að skilaði sér í námi, líðan, úrvinnslu og útspili lífsins. Allt gat orðið að spennandi kennslutækjum. Jafnvel kenndi Guðbjörg barni að lesa með því að nota texta mjólkurfernu.

Svo átti Guðbjörg til að efna óvænt til upplestra. Í fjölskyldu hennar ganga ýmsar sögur um slíka viðburði. Einu sinni á góðviðrisdegi norður í Skriðu í Aðaldal voru allir útivið og við leika. Þá kallaði Guðbjörg allan hópinn inn í stofu, setti ungviðið í hring og svo byrjaði hún að lesa Heimsljós. Það var þessum börnum á sólskinsdegi allra fjærst huga að setjast niður inni til að hlusta á Laxnes, en þessi lestur varð þeim ógleymanlegur og frásögnin um drenginn sat í sjö ára barnssál og hefur ekki vikið þaðan síðan. Tungumálið er glitvefnaður mennskunnar. Guðbjörg vissi, að við deyjum þegar við verðum orðlaus en getum lifað vel í ríkidæmi máls, sagna og ljóða. Í upphafi var orðið og heimsljós er fyrir fólk og heim.

Partí á Leifsgötunni

Guðbjörg var æðrulaus í lífinu. Hún hafði ótrúlegt þolgæði og var umburðarlynd gagnvart uppátækjum fólks. Þau systkin, Einar og Þóra Karítas, útskrifuðust frá MR sama vorið. Allur árgangurinn fagnaði á Kaffi Reykjavík en þar var lokað klukkan þrjú um nóttina. Þá þótti þeim systkinum ekki nóg komið og buðu öllum heim á Leifsgötu til halda partýinu áfram. Þau höfðu trú á, að mamma þeirra væri sama sinnis – ef hún væri vakandi. Húsið fylltist af stúdentshúfum og hlátri. Í miðju skrallinu kom einn stúdentinn til Þóru og sagði við hana. „Þóra, þú hefðir nú mátt segja mér, að mamma þín væri sofandi inni í herbergi. Ég settist ofan á hana.“ En Guðbjörg rumskaði bara og sneri sér á hina hliðina. Partýið hélt áfram og hún svaf gleðskapinn af sér. Henni fannst svo sjálfsagt, að allur stúdentafansinn hefði komið heim á Leifsgötu og hafði húmor fyrir að nýstúdentinn hefði sest á hana.

Uppeldið

Og svo var það móðirin og uppalandinn. Guðbjörgu varð aldrei orða vant og átti ekki í neinum vanda með að ala upp dreng. Einar var ellefu ára og fjölskylduvinur vildi endilega gefa honum riffil. Hinn góðviljaði gefandi hafði sjálfur fengið rifilinn þegar hann var ellefu ára og taldi Einar vera færan um og hafa þroska til að taka við svo merkilegri og karlmannlegri gjöf. En Guðbjörg var enginn aðdáandi stefnu amerísku riffilsamtakanna og gerði sér jafnframt grein fyrir að hún glímdi við alvöru uppeldismál. Ekki væri hægt að setjast á drenginn og kremja úr honum byssulöngunina. En hún var snarráð og sagði við son sinn, að hún skildi að hann langaði í vopnið, en upplýsti hann um, að ef hann tæki ákvörðun um að þiggja ekki rifilinn að gjöf myndi hún gefa honum myndavél, sem væri hægt að skipta um linsur á – sem sé reflexmyndavél. Þetta var ekki eins og í grískum harmleik, tveir kostir og báðir vondir. Nei, þetta voru alvöru kostir – þroskakostir – sem drengurinn varð sjálfur að velja á milli. Báðir góðir fyrir hann sjálfan. Og við getum ráðið í framvinduna og valið því Einar hefur síðan mundað myndavélar og hefur lifibrauð sitt af því að mynda. Uppeldi er ekki skipunarmál, heldur að virkja frelsið, að hjálpa fólki að velja hið góða, að sækja í dýptir og vinna með drauma, óskir, þrá, tilfinningar. Guðbjörg var uppeldismeistari.

Vögguljóð og vitjun

Svo voru þær mægður á ferð í Norðurleiðarútunni á leið í Aðaldal. Mamman notaði tímann til að kenna dóttur sinni vögguljóð. Og einhvers staðar á leiðinni var stúlkubarnið uppnumið af tilfinningunni og söng hástöfum í rútunni „Íslenskt vögguljóð á Hörpu“ eftir Laxness. Það varð til að einn farþeginn fór að hágráta, en færði svo dótturinn hundrað krónu seðil í sönglaun. Kostuleg og áleitin sena – kennslan, uppeldið hennar Guðbjargar virkaði. Hún hafði tök á að kveikja í fólki, ná inn fyrir. Einu sinni kenndi hún Sölku Völku með öðrum kennara. Og niðurstaða nemendanna var: Hjá hinum kennaranum er Salka Valka baráttusaga og frásögn um verkalýðsbaráttu. En það er allt öðru vísi hjá Guðbjörgu. Hún sýnir að Salka Valka væri eiginlega ástarsaga. Nemendurnir lærðu þar með, að túlkun skipti máli og lesandinn væri ekki líflaus viðtakandi, heldur virkur þátttakandi í margþættu og opnu túlkunarferli. Guðbjörg var nemendum sínum snjall túlkunarfræðingur og hafði hug á að helga sig þeim fræðum í doktorsnámi en veikindi hindruðu.

Þrír piltar og kennari

Guðbjörg var natinn kennari, hafði vakandi áhuga á nemendum sínum. Ekki aðeins, að þeir læsu og lærðu fögin sín, heldur að þeir nytu sín sem manneskjur og tækju út þroska. Og það voru ekki aðeins börnin hennar og barnabörn, vinir hennar og fjölskylda, sem áttu skjól hjá henni, heldur líka nemendurnir. Það er falleg sagan af því þegar Guðbjörgu var boðið út að borða þegar hún var 41 árs. Nemendur hennar þrír, átján ára piltar, sendu henni boðskort og keyrðu svo með hana í óvissuferð frá Laugum í Reykjadal og til Akureyrar til að dekra við hana á afmælinu. Það voru ungir nemendur, sem langaði að þakka fyrir frábæra kennslu og persónulegan stuðning og bjóða henni út að borða. Guðbjörg hafði líka húmor fyrir svona öflugum unglingum, sem kunnu sig svo vel. Þakklætisbréfin frá nemendum, sem höfðu notið og heillast, bárust henni allt til lífsloka. Í þeim eru færðar þakkir fyrir, að hún hafi stutt og skilið, reist við og haft á þeim trú þegar mest lá við.

Ahrif og efling

Guðbjörg hafði áhrif, en ekki aðeins meðal nemenda. Hún var kunn fyrir mikil áhrif á samkennara og samverkafólk sitt og kom þeim til þroska með glaðværri og einbeittri stefnufestu. Einu sinni vildi hún fá samverkakonu sína til að stýra þorrablóti, sem hin taldi öll tormerki á, að henni væri fært vegna feimni. Guðbjörg gaf sig ekki og sagði með blik í augum: „Þú skelfur bara óttann úr þér.“ Og það gekk auðvitað eftir. Enginn sá skjálfandi hné veislustjórans og hún sigraðist á feimninni. Guðbjörg kunni að hvetja og gaf sig ekki í vaxtarmálum. Og hún þorði að brjóta niður veggi í skólahúsum til að bæta kennsluaðstöðu, þorði að breyta kennsluháttum í þágu nemenda, breytti þrepskiptu stjórnfyrirkomulagi skóla í teymisvinnu. Og hún var óhrædd að gera tilraunir og smellti sögudýnu inn í skólann svo þreyttir gætu lagt sig og líka sagt þar sögur. Guðbjörg var alltaf með nemendur í huga, bætt vinnulag og námsmöguleika og vildi tryggja þroskakosti allra. Hin jarðarsettu og stuðningsþurfandi áttu alltaf vísan stuðning í Guðbjörgu.

Í þjónustu

Það var guðbjörgunarlegt, eitthvað himneskt í vökulum kærleika Guðbjargar. Hún hafði alla tíð áhuga á kossi tíma og eilífðar, fangbrögðum himins og jarðar. Hún velti vöngum yfir hvort hún ætti að læra til prests, en nám eða vígslur skiptu engu máli því hún var alla tíð prestur sínu fólki, engill í öllum víddum og á krossgötum lífins. Hún horfði á Maríu og Jesú á myrkum tíma bernskunnar. Þegar lítil frænka austur á Skógum var miður sín eftir að hafa séð á bak hundi sínum stakk Guðbjörg upp á, að haldin yrði útför. Frænkunni fannst tilvalið, að fá Guðbjörgu fremur en sóknarprestinn til að jarðsyngja besta vininn. Og svo söng Guðbjörg Ó Jesú bróðir bestiyfir hundinum í skógarrjóðri. Ekkert var eðlilegra en sr. Guðbjörg sinnti þeirri prestsþjónustu og frænkunni leið betur á eftir.

Gjafir Guðbjargar

Guðbjörg hafði stefnumál sín á hreinu og er okkur fyrirmynd. Hvað var það sem hún skildi eftir hjá okkur? Hún skrifaði lífssögur í fólkið sem hún bjó til eða þjónaði, varð þeim ljós heimsins, hló með þeim og magnaði til átaka við lífið, Laxnes og myrkrið. Hún kenndi okkur öllum að líta upp og þora og leyfa ástinni að trompa allt hitt. Líka að þakka fyrir að geta það sem við gætum gert. Hún gaf veröldinni systkinin Einar og Þóru Karítas. Hún skildi eftir hjá okkur bókina Mörk, sem þær mæðgur unnu saman um kynferðislegt ofbeldi bernskunnar. Hún var æðrulaus þegar ritið var samið og eftir að hafa hlustað á upplestur á bókinni sagði hún við dóttur sína: „Jú þetta er ein útgáfa af mínu lífi.“ Í bókinni gerir Guðbjörg upp myrkan átakatíma. Mörk sannfærði mig ekki aðeins um, að það er vilja- og ákvörðunar-mál hvort við verðum fórnarlömb eða ekki, heldur líka, að Guðbjörg hafði tamið sér sama hugarfar og Nelson Mandela, að fara ekki út í lífið kvartandi eða með biturleika vegna fortíðar. Áföll geta fangelsað fólk, en þolendur geta ákveðið að skila hlekkjunum og verða frjáls. Guðbjörg var frjáls í sínu lífi og stóð með hinu stóra, gjöfula, menntandi, gleðinni og gildum. Hún vissi, að allir verða fyrir ágjöf, við getum staðið saman, við megum vera með augun á hverju öðru – eins og hún – til að skynja hvort hægt sé að styrkja. En lífið er ekki næturvakt áhyggna, heldur tími til að hlægja, syngja, stökkva upp á borð til að þylja um unglinga í skóginum, dreyma og „durga sig upp“ – eins og hún orðaði það – og drífa sig í gleðina. Guðbjörg var áræðin, kjörkuð, bóngóð, jákvæð – kvartaði ekki, æðrulaus, hispurslaus, næm, umhyggjusöm, vitur, kærleiksrík, ljósleitandi og glaðsinna. Hún skrifaði svo fagurlega:

„Þú sem lánaðir mér lífið

og lagðir mig

við hið mjúka brjóstið

hennar mömmu.

Hvernig skila ég þér lífinu aftur?

Og hvar verður mamma þá?“

Nú er hún farin inn í himininn – í ljósið. Guðbjörg lést í dagrenningu og fæddist inn í ljós eilífðar. Þar er allt rétt, bjart, gott og sjáanlegt. Og við megum leyfa himingluggum að vera okkur opnir – ljós heimsins skín okkur. Og það er fagnaðarerindi öllum.

Guð geymi Guðbjörgu og Guð geymi þig.

Megnið af þessu sem hér er skráð var flutt í Hallgrímskirkju 12. ágúst, 2019. Svo bættist sitthvað við í flutningi. Kistulagning í Kepellunni í Fossvogi 9. ágúst. Erfi á Kjarvalsstöðum eftir athöfn. Bálför og jarðsett síðar í Hólavallagarði, kirkjugarðinum við Suðurgötu. 

+ Kristín Einarsdóttir + minningarorð

Í skírnargjöf gaf Kristín barnabörnum sínum skuldabréf og sálmabækur. En í fermingargjöf gaf hún þeim Biblíu og gjaldeyrisreikninga. Hvað segir það um afstöðu Kristínar til lífsins? Voru krónur og Biblía á pari? Jafngild? Var þetta einhvers konar gildahagfræði? Var þessi tvenna í skapandi sátt í lífi hennar?

Það var heillandi að funda með fólkinu hennar Kristínar og hlusta á þau segja frá persónueinkennum hennar og lífi. Þau sögðu litríkar sögur af djúpum kærleika og með elskublik í augum. Kátlegar sögur þeirra voru mettaðar virðingu, aðdáun og þakklæti. Já, Kristín var svo heilsteypt, skynsöm, vitur og hagsýn. Hún hafði orðið fyrir röð af áföllum, sem hefðu brotið flesta, en ekki hana. Kristín hafði vilja, gáfur og getu til að vinna úr, læra af og vaxa af. Hún var ekki aðeins góð í viðskiptum. Hún var þroskuð kona, sem vissi að í lífinu voru góðir dagar en líka vondir, að ekkert væri öruggt í þessum heimi. En hún átti alltaf haldreipi, festu og líftaug í trú. Guð var henni nærri alla daga æfinnar.

Krónur og Biblía, gjaldeyrisreikningar og guðsorðið. Og Kristín höndlaði vel, raðaði af visku, umvafði fólk – alla – með umhyggju og elskuorðum. Hún lifði í glaðværri fyrirhyggju, skapaði atvinnu fyrir fjölda fólks, var ráðholl samferðafólki, vinum og ástvinum um allt sem máli skipti, líka varðandi makaval! Og hún hafði áhuga á pólitík, getu eða getuleysi amerískra forseta, bókum, styttum bæjarins og bankamálum. Öll veröldin kom saman í Kristínu Einarsdóttur, sem hafði áhuga á tímanlegri og eilífri velferð ástvina og veraldarinnar. Allt varð stórt, íhugunarefni og merkilegt í lífi Kristínar, sem dó á afmælisdegi sínum og fermingardegi – 95 ára gömul. Hún ákvað sinn helgidag, lokaði hringnum og hvarf inn í ljósið.

Upphaf, fjölskylda og barnlán

Kristín Einarsdóttir fæddist í Reykjavík 1. maí árið 1924. Baráttudagur verkalýðsins var hátíðisdagur í lífi hennar og fjölskyldu. Það var engin kröfugerð heldur fagnaðargerð í fjölskyldunni, engir samningar heldur lífsgæði fólks, sem var bundið saman af gildum og gæðum. Foreldrar Kristínar voru hjónin Einar Guðmundsson, steinsmiður, og Sigfríður Gestsdóttir, húsmóðir. Þau bjuggu í húsi við Grettisgötu, sem Einar hafði reist. Yfir þrjátíu ára aldursmunur var á þeim hjónum. Einar var á sjötugsaldri þegar Kristín fæddist og hún var aðeins 6 ára þegar hann kvaddi þennan heim. Tilvera þeirra mæðgna breytist snarlega við fráfall heimilisföðurins. Aðstæður í kjölfar dauðsfalls Einars urðu til að þær misstu hús, heimili og öryggi. Það var fjármálakreppa í veröldinni og heilsa Sigfríðar var skert og dóttirin varð fyrir tilvistarkreppu. Kristín tók lífsreynsluna til hjarta en vann úr. Hún lærði þegar í frumbernsku, að líf yrði að tryggja sem best. Alla æfi síðan vann hún að lífsláni og lífsleikni, í hinu innra sem hinu ytra. Og það er tákn um styrk og fyrirhyggju, að Kristín var aðeins 19 ára þegar hún keypti lóð á Selfossi. Lóð var henni tákn um rétt og öryggi til framtíðar.

Fyrstu árin bjó Kristín í Reykjavík, hér í nágrenni Hallgrímskirkju, en síðan var hún langdvölum á Selfossi. Þar bjó móðurfólk hennar og Kristín hafði af því skjól, gleði og blessun. Og barnabörn Kristínar sögðu, að á Selfossi hefði amma þeirra fundið hamingjuna. Já, meira segja í Kaupfélagi Árnesinga! Þar vann Kristín og hitti norður-þingeyska sjarmörinn og glæsimennið Bjarna Ragnar Jónsson, sem ók um sveitir með mjólk og fólk. Þau Bjarni og Kristín felldu hugi saman og gengu í hjónaband í ágúst árið 1945. Kristín hvatti bónda sinn til dáða og hann lærði húsgagnasmíði og var dugmikill framkvæmdamaður. Þau Kristín byggðu þó ekki á lóðinni á Selfossi heldur fluttu suður.

Kristín og Bjarni nutu barnaláns. Börn þeirra eru þrjú.

Fríða er elst. Hún lærði hjúkrunarfræði og starfaði við sína grein. Maður hennar er Tómas Zoëga. Þau eiga fjögur börn og níu barnabörn.

Anton Bjarnason var næstur. Hann er íþróttakennari að mennt. Kona hans er Fanney Hauksdóttur. Þau eiga þrjá syni, sjö barnabörn og eitt langömmubarn.

Yngstur er Bjarni. Hann er húsgagnasmiður og kvæntur Kristínu Jónsdóttur. Þau eiga þrjár dætur og sjö barnabörn.

Kristín lagði vel til síns fólks og uppskar ríkulega í samskiptum við þau.

Lífið

Kristín smitaðst af berklum árið 1949. Þá voru engin lyf til við þeim sjúkdómi og Kristín var einangruð frá fólkinu sínu og var vistuð á Vífilsstöðum. Hvernig líður móður fjarri fjölskyldu sinni og börnum í slíkum aðstæðum? Mánuðirnir liðu og samtals var Kristín fjarsett sínu fólki á þriðja ár. Og Bjarni var tekinn beint úr fangi hennar og settur á vöggustofu. Kristín, þessi ábyrga, skipulagða og ástríka kona sá á bak nýfæddum drengnum, sem hún mátti ekki hafa í fanginu. Hann var slitinn af henni, en það var svo hann sem sat hjá móður sinni þegar hún fór inn í himininn. Í því er djúpt innrím lífsláns Kristínar.

Allt var gert til að reyna að lækna Kristínu og hún fékk ný berklalyf strax og þau komu til landsins. Hún tók meðferð vel og gekk heil út af Vífilsstöðum í mars árið 1952. Næstu tvö ár var Kristín að ná fullum styrk. Líf Bjarna og Kristínar var ástríkt og annasamt. Það var gaman hjá þeim, þau voru samstillt og dönsuðu lífmikinn dans hvunndags og á hátíðum. Þegar Kristín fann máttinn vaxa keypti hún verslun á horni Klapparstígs og Grettisgötu og rak um tíma. Kristín kunni að reikna, gerði sér grein fyrir góðum tækifærum og átti ekki í neinum vandræðum með að sjá samhengi viðskipta, tækifæra og ógnana. Kristín sá um fjármálin og Bjarni um framkvæmdir. Og áður en yfir lauk hafði Kristín keypt og selt margar fasteignir, skapað eign og lagt fyrir, ekki vegna sjálfrar sín heldur vegna barna sinna. Í henni sat bernskurreynslan og Kristín ætlaði að gera það, sem hún mátti til að börnin hennar yrðu aldrei snauð á götunni. Flest gekk þeim Bjarna í haginn, heilsa Kristínar var góð, umsvif þeirra voru mikil og börnin blómstruðu. Í lok sjötta áratugarins fengu þau lóð í Goðheimum 10 og hófu byggingu fjórbýlishúss. Þegar Bjarni var að ljúka framkvæmdum í apríl árið 1961 og var að bora fyrir svalafestingu á efstu hæð hússins varð slys. Hann féll til jarðar og lést. Þriðja stóráfallið í lífi Kristínar. Alger kúvending.

Ung kona með mikla lífsreynslu og ung börn, en með stálvilja hið innra og lífsvisku. Þá var þarft að hafa hlýtt hjarta og kaldan heila. Kristín tók ákvörðun um að vinna sjálfstætt til að lágmarka vinnutíma en hámarka tekjur. Hún vann í uppmælingu og skúraði. Hún vann í mötuneyti og svo líka niður á hótel Borg. Og henni lánaðist að halda fjölskyldunni saman, tryggja velferð barna sinna og koma þeim til manns.

Helgi

Í mannlífsdeiglu Kaupfélags Árnesinga höfðu Kristín og Helgi Ólafsson kynnst. Nokkrum árum eftir dauða Bjarna lágu leiðir þeirra Kristínar saman að nýju. Bæði höfðu þá misst maka sína. Þau Kristín gengu í hjónaband í miðju Vestmannaeyjagosinu, í apríl árið 1973. Þau voru samstillt og samstiga, bæði félagslynd og kunnáttusöm í samskiptum. Þegar þau Kristín urðu hjón rak Helgi fasteignasölu. Helgi lést í árslok 1992.

Frumkvöðull

Kristín, sem var alla tíð athugul og íhugul, gerði sér grein fyrir að ferðamennska myndi aukast á Íslandi. Þau Helgi keyptu húsið á Flókagötu 1 og Kristín opnaði þar gistihús. Kristín var varkár en líka áræðinn frumkvöðull. Hún var eins konar frú airbnb þess tíma. Og til að hún þyrfti ekki að tala við gesti sína aðeins með augum og höndum lagði Kristín í enskunám. Þegar hún var erlendis í heimsókn hjá fólkinu sínu tók hún námskeið og bætti málgetu sína. Gistikennarar í Háskólanum leigðu hjá Kristínu. Erlendir nemendur fengu rúm og herbergi hjá henni líka. Fólk á vegum fyrirtækja leigði og svo var tekið á móti ferðamönnum með slíkri elskusemi og gæðaþjónustu, að orðspor gistihúss Kristínar fór víða. Helgi studdi konu sína í ferðaþjónustunni og þau hjón hikuðu ekki við að gera Íslandsupplifun útlendinganna einstaka og fóru m.a. með þá í skoðunarferðir. Kristín umvafði gesti sína elsku og hlýju og þjónustustigið var hátt. Gæðaþjónustan skilaði margfalt til baka. Kristínu gekk allt að sólu í ferðaþjónustunni. Hún færði út kvíar sínar í næstu hús, nágrannarnir leigðu henni herbergi og hófu svo eigin rekstur. Um tíma var rekin ferðaþjónusta í fjölda húsa í þyrpingunni í kringum Kristínu og Helga. Þetta var afraksturinn af blómstrandi starfi þeirra. Kristín var einn af frumkvöðlum nútíma ferðaþjónustu á Íslandi. Þökk sé henni.

Hallgrímskirkja

Á Flókagötuárunum var Kristín einnig ötull meðlimur Kvenfélags Hallgrímskirkju. Kristín mat starf kirkjunnar mikils og vildi efla safnaðarlífið og bæta aðstöðuna. Kristín var m.a. gjaldkeri kvenfélagsins sem bakaði upp kirkjuturninn og kom kirkjunni undir þak. Og hún naut mikillar virðingar fyrir störf sín og var kjörinn heiðursfélagi Kvenfélags Hallgrímskirkju. Á sjötíu og fimm ára afmæli félagsins – fyrir tveimur árum – heimsóttum við fulltrúar Hallgrímskirkju Kristínu til að votta henni virðingu og þökk fyrir störf hennar. Það gladdi hana. Kristín var ekki aðeins í kvenfélagsstarfinu heldur voru þau Helgi í framvarðasveit orgelsöfnunar. Hann var sóknarnefndarmaður og hún kvenfélagskonan og þau keyptu pípur og buðu til sölu og lögðu nafn, tíma og elju til að kosta byggingu þessa stórkostlega hljóðfæris, sem nú kveður Kristínu hinsta sinni. Fyrir hönd Hallgrímskirkju þakka ég þjónustu Kristínar og Helga í þágu safnaðarins.

Minningarnar

Þegar ég sat og hlustaði á afkomendur Kristínar segja frá henni streymdi frá þessu hæfileikaríka og vel ræktaða fólki elskusemi, þakklæti, gáski, gjafmildi, umhyggja, húmor og mannúð. Kristín vissi alla tíð, að veldur hver á heldur, að það er okkar að nýta hæfni, möguleika, tækifæri og vinna úr sorgarefnunum. Hún vissi að lífið krefðist þess að við nytum bæði hörku demantsins og mýktar silkisins. „Þett er gangur lífsins – svona er lífið“ sagði hún stundum. Lífið snýst alla vega, dagarnir eru ekki allir góðir. Kristín var mikil af sjálfri sér. Hún ræktaði sinn innri mann, nærði sál sína, aflaði sér stöðugt fræðslu og menntunar, agaði sig og tamdi sér elskuríka afstöðu gagnvart fólki. Hún veitti afkomendum sínum atvinnu, var svo lánsöm að geta miðlað þroska, visku, siðferði, trú og von til síns fólks við rúmfataskipti, þrif, matseld, morgunverðarborð og kaffibolla. Hún kenndi sínu fólki að grennslast fyrir um fréttir, pólitík, persónumál, huga vel að makavali og horfa upp í himininn. Kristín var alltaf uppspretta ástar og umhyggju, örlát og gjafmild. Hún var úrræðagóð, lausnamiðuð, fróðleiksfús og vinnusöm. Alla tíð hafði Kristín augu á þeim sem áttu bágt eða voru jaðarsett í lífinu. Og Kristín studdi þau sem þörfnuðust aðstoðar.

Opinn himinn

Og nú eru skil orðin. Nú prjónar Kristín ekki lengur á barnabörn og langömmubörnin. Hún fer ekki lengur fínt í ræða makaval eða brýna fyrir konunum í fjölskyldunni að gefa körlunum gott að borða þegar þeir koma þreyttir úr vinnunni! Hún ekur ekki framar vinkonum sínum á fundi og viðburði út í bæ. Hún fræðir ekki framar um styttur bæjarins eða þylur bæja- og ábúenda-nöfn í sveitum landsins. Hún rekur ekki lengur framættir fólks og tengir saman. Fer ekki í skíðaskálann með fólkinu sínu. Er ekki framar þessi helga návist himinsins, tenging við Guð – og ásjóna Guðs. Hún er farin til karlanna sinna, ástvinanna og í fang móður. Að miðla visku himsins er ekki öllum gefið, en Kristín var engill í heimi – ásjóna gæsku Guðs. Já, skuldabréf og gjaldeyrisreikningar eru til nota í tíma, en skuldabréf eilífðar fékk hún í trúnni. Kristín lifði af ástríkri ákefð í þessum heimi, en nú er hún horfin til uppsprettu ástarinnar, farin inn í faðm móður allrar miskunnar, Guðs.

Guð geymi hana og varðveiti þig.

Amen. 

Minningarorð við útför í Hallgrímskirkju 13. maí, 2019. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja á Kjarvalsstöðum.

+ Sigurður Pálsson + minningarorð

Lítill drengur hljóp um forkirkju Hallgrímskirkju eftir messu. Sigurður Pálsson sá til hans og tók eftir að reimarnar á skónum hans voru langar og lausar. Og presturinn fór til drengsins, heilsaði honum, bað hann að bíða og kraup síðan á hnén og batt reimarnar. Strákur hélt svo áfram hlaupunum, en atferlið varð gjörningur undursins í minningu þeirra sem sáu. Stór maður sá barnið og greindi hættuna, beygði sig til að þjóna því svo leikurinn yrði frjáls. Þannig bregst góður maður við, góður prestur líka og þannig þjónar lifandi kirkja lífinu, mætir stóru fólki og litlu og tryggir lífsþvengina. Sigurður Pálsson mat leik barna mikils og vildi að börn væru í kirkjunni. Oft sagði hann, að barnahljóðin væru hinn fegursti söngur. Hann samþykkti líka kenninguna um, að himnaríki væri í gleðileik ungra barna. „Leyfið börnunun að koma til mín og varnið þeim eigi.“ Frá upphafi og til loka virti Sigurður Pálsson þessi elskuorð Jesú Krists. Við ævilok íhugaði hann lífsstarf sitt og sagði: „Stóran hluta starfsæfi minnar hef ég með einum eða öðrum hætti unnið að kristinni fræðslu barna og ungmenna. … og legg til að íslenska þjóðkirkjan og söfnuðir hennar geri barna, unglinga- og foreldrastarf að algjöru forgangsverkefni næstu tvo áratugi, og þá meina ég algjöru forgangsverkefni.“ „Leyfið börnunun að koma til mín og varnið þeim eigi.“

Akur, upphaf og nám

Sig­urður Páls­son var alinn upp til mannræktarstarfa og orðaiðju. Hann fædd­ist 19. sept­em­ber árið 1936. Sigurður var son­ur Páls Sigurðsson­ar, prent­ara, og Mar­grét­ar Þor­kels­dótt­ur, húsfreyju. Þau og fjölskyldan bjuggu í húsinu Akri við Bræðraborgarstíg og heimilið var gróðurreitur gæskunnar. Foreldrar Sigurðar innrættu börnum sínum guðsvirðingu og þar með mannvirðingu og kenndu þeim að styðja þau sem voru höll í lífinu. Þorkell (Tolli) var elstur en Sigurður (Diddi) lang-yngstur. Þrjár systur voru á milli bræðranna. Svandís (Dísa) var næst yngst, en ólst ekki upp með systkinum sínum en var í góðum tengslum við þau. Eldri systurnar Steinunn (Denna) og Kristín (Dista) höfðu svo gaman af og skiptu sér af yngsta bróðurnum, að hann átti eiginlega þrjár mæður. Það varð honum til lærdóms og styrks. Alla tíð síðan kunni Sigurður að meta, virða og umgangast sterkar konur.

Sigurður Pálsson ólst upp í gamla vesturbænum, í litríku mannlífi og umhverfi. Hann var uppátækjasamur og kannski voru það hin nánu tengsl við undur hvítasunnunnar að hann varð – að eigin sögn – dúfnakóngur vesturbæjar. Foreldrarnir leyfðu honum, sem ekki var sjálfsagt, að nota háaloftið fyrir fugla og Akur varð umferðarstöð þessara fiðruðu engla og guðstákna.

Þegar Sigurður hafði aldur til fór hann í Miðbæjarskólann. Sigurður lauk kenn­ara­prófi og söng­kenn­ara­prófi frá Kenn­ara­skóla Íslands árið 1957. Þegar hann var orðinn aldraður sagðist hann aldrei hafa lært að leika sér. En uppeldis- og skólamál, andlegt og menningarlegt uppeldi urðu verkefni og áhugaefni hans alla æfi. Sigurður var eiginlega að ala sjálfan sig upp meðan hann lifði. Og honum var leikur að læra. Hann hætti aldrei að menntast, stæla andann og afla sér þekkingar. Hann var viskusækinn lestrarforkur og aðaláhugaefnin voru uppeldisfræði og guðfræði.

Ég var svo lánssamur að sitja með honum í tímum í guðfræðideild HÍ. Nám hans var okkur félögum hans m.a. eftirminnilegt því ef hann var bundinn í vinnu sendi hann kasettutæki í tíma. Einhver okkar félaganna ýtti á rec-takkann og Sigurður hlustaði á spólurnar eftir vinnu. Þórir Kr. Þórðarson setti honum stundum sérstaklega fyrir og talaði þá niður í kasettutækið, sem var eftirminnilega kúnstugt. Ég grunaði kennarann um, að kanna hvort Sigurður hlustaði raunverulega – en hann var þá í mörgum störfum og önnum kafinn. Ég dáðist að skilvísi Sigurðar, sem vann samviskusamlega aukaverkefnin sem kennari og kasetturnar báru honum.

Sigurður lauk BA-prófi í kristn­um fræðum árið 1977, en svo kom hann síðar kasettutækislaus og lauk embættisprófi í guðfræði árið 1986. Uppeldisfrömuðurinn og trúmaðurinn samþættu enn betur uppeldisfræðina og guðfræðina og Sigurður lauk doktors­prófi í mennt­un­ar­fræði frá Kenn­ara­há­skóla Íslands (KHÍ) árið 2008. Hann skrifaði merka ritgerð um trúaruppeldi og kristinfræði í skólasögu Íslands á tuttugustu öld. 

Skóli, námsgögn og kirkja

Sigurður kom víða við sögu í vinnu. Þegar hann kenndi við Breiðagerðis­skóla á sjötta og sjöunda áratugnum varð hann frægur fyrir að efla nemendur sína umfram allar skyldur og koma þeim til meiri þroska en vænta mátti. Sigurður fór úr kennarafötunum á vorin og í lögreglubúninginn og þótti bæði góður lögregluþjónn og sérlega glæsilegur. Sigurður var vegna verka sinna kallaður til starfa sem skrif­stofu­stjóri hjá Rík­is­út­gáfu náms­bóka um það leyti sem stúdentabyltingarnar riðu yfir og breyttu menningu Vesturlanda. Svo sinnti hann stundakennslu víða, í MR í nokkur ár, í Kennaraháskólanum í 31 ár, og við guðfræðideildina í Hí í sextán ár. Frá áttunda áratug síðustu aldar og fram á þessa öld var Sigurður helsti sérfræðingur þjóðarinnar í trúaruppeldisfræði, aðalmaðurinn við mótun og kennsluhætti kristinna fræða og trúarbragðafræðslu skólanna. Hann skrifaði kennsluefnið eða stýrði vinnu og vinnslu þess. Hann vann við útgáfu námsbóka, vann hjá Námsgagnastofnun og var af stjórnvöldum kallaður til starfa þegar málaflokkar trúarbragða- og kristindómsfræðslu voru til umræðu.  

Sig­urður var vígður prest­ur árið 1988. Hann fékk þá leyfi frá námsgagnavinnu í tæpt ár og var settur sókn­ar­prest­ur í Hall­gríms­sókn. Prestsþjónustan markaði ný spor og eftir veruna í Hallgrímskirkju var Sigurður ráðinn til að verða fram­kvæmda­stjóri Hins ís­lenska biblíu­fé­lags, sem átti sér starfsstöð hér í kirkjunni. Félagið blómstraði í þau sjö ár, sem hann stýrði því. En þegar þegar prestaskipti urðu árið 1997 var Sigurður skipaður sóknarprestur þessarar kirkju. Söfnuði Hallgrímskirkju – og öllum heiminum – þjónaði Sigurður í nær áratug og lét af störfum árið 2006. 

Biblíufélagið og leikmannahreyfingin

Sigurður kom víða við sögu kristnilífs þjóðarinnar. Hann var forkur til vinnu, hæfur félagsmálamaður, tillitssamur og hlýr í samskiptum og skilaði alltaf sínu án tafa. Hann var  eftirsóttur til stjórnarstarfa og sjálfboðastarfa. Hann var m.a. í stjórn Biblíufélagsins í tólf ár og var í þýðing­ar­nefnd Gamla testa­ment­is­ins í sautján ár. Sigurður var kjörinn heiðursfélagi Hins íslenska biblíufélags árið 2015.

Hann gegndi ábyrgðarstörfum og stjórnunarstöðum í KFUM og var um skeið formaður félagsins (og heiðursfélagi). Þá var hann í áratugi einn helsti foringi kristilegu skólahreyfingarinnar. Hann var formaður KSS og síðan trúnaðarmaður í starfi samtakanna. Þau Jóhanna G. Möller þjónuðu ungu fólki með samtölum, ráðgjöf og sóttu árum saman kristileg skólamót í Vatnaskógi, Sigurður sem snjall leiðbeinandi og Jóhanna heillandi vinkona unga fólksins.

Sigurður var músíkalskur. Hann var mentaður söngkennari og stjórnaði einnig Æskulýðskór KFUM- og K í sex ár. Ég var svo lánssamur að njóta hans sem stjórnanda. Hann var taktfastur, næmur og vel heyrandi stjórnandi. Og svo samdi hann sönglög. Í Sigurði var líka skáldaæð og hann samdi talsvert af sálmum, sem notaðir eru í kirkjunni.

Sigurður var sískrifandi alla tíð. Hann var leiftrandi penni, og auk kennslu­rita í kristn­um ritaði hann mikinn fjölda tímaritagreina og bækur. Hann skrifaði t.d. merkilega og áhrifaríka bók um börn og sorg, rit um Vatnaskóg og sögu Gídeonfélagsins. Sigurðarbókin um sögu Hall­gríms­kirkju er stórkostleg og ber rannsóknarmanninum og höfundarhæfileikum hans fagurt vitni.

Jóhanna, Ágú og Magga Stína

Svo voru það Hanna og Diddi. Jóhanna G. Möller var barn þegar hún vissi hver Sigurður Pálsson var. Hún hafði séð hann og tók eftir að hann sá hana líka. Hún var bráðger og ákveðin, var bara þrettán ára, með eld í hjarta og huga þegar hún mætti Sigurði á gangi í KFUM-húsinu við Amtmannsstíg. Hann var fjórtán ára. Hann sá hana, en sagði ekkert við hana og hún kallaði á eftir honum: „Ætlar þú að ganga fram hjá mér án þess að tala við mig?“ Það er kraftmikil pick-up lína og virkaði svo vel, að hún dugði til heillar ævi. Sigurður snarsnerist og heyrði æ síðan hvað Jóhanna G. Möller sagði. Hann tók mark á henni, innsæi hennar og tillögum. Frá unglingsárunum vissu þau, að hún byggi í hjarta hans og hann í hennar. Þau gengu í hjúskap bráðung, voru alltaf ástfangin því þau unnu stöðugt að sáningarstarfi á akri ástarinnar.

Ég er búinn að fylgjast með ofurást Sigurðar og Jóhönnu í hálfa öld og hef dást að. Kærleiksrík virðing þeirra fyrir hvoru öðru var til fyrirmyndar öllu unga fólkinu, sem þau hjónin þjónuðu. Jójó og Pálsson voru svo ótrúlega ólík, en það blossaði á milli þeirra gagnkvæm vinátta, kærleikur og mannvirðing af Jesútaginu. Elska eilífðar speglaðist í ástarbandi þeirra. Á síðustu metrunum þegar máttur Sigurðar var skertur og sjón hans farin sat Hanna við rúmið hans og þau játuðu hvoru öðru ást sína. Og Jóhanna spurði: „Sérðu mig?“ Þá svaraði hann: „Ég kann þig utanað!“

Já, þau þekktu hvort annað algerlega. Sig­urður og Jóhanna gengu í hjónaband árið 1957 og bjuggu fyrst í kjallaranum á Akri við krossgötur Bræðraborgarstígs og Túngötu og nutu návistar við dýrðarfólkið hans Didda, eins og Sigurður var gjarnan kallaður. Svo fóru þau að byggja í Frostaskjólinu. Ég undraðist að Sigurður, sem bjó svo nálægt KR-vellinum væri algerlega ósnortinn af röndótta stórveldinu. En hann gat alveg skilið að það þyrti að syngja á leikjum: „Heyr mína bæn…!“ Sigurður var sérlega handlaginn og afbragðs smiður. Við bygginguna naut hann ættmenna og vina. Húsið reis og varð rúmgott og fagurt heimili þeirra Hönnu, dætranna og afkomenda. Og svo smíðaði hann síðar mörg smáhús fyrir leiki afkomenda sinna. Pálsson var afar góður við Hönnu sína, rómantískur og uppátækjasamur. Hann bjó til ævintýraveröld í kringum rúmið hennar á afmælisdögum, raðaði hjartasúkkulaði á stóla og orkti ljóð til hennar. Ástarljóðin eru litrík og dásamleg.

Þau Hanna og Diddi eignuðust tvær dætur Ágústu Helgu og Margréti Kristínu. Ágústa Helga fæddist inn í haustið árið 1960 og lést síðla vetrar árið 1990 (f. 21. ágúst og lést 9. apríl). Hún var lögfræðingur. Margrét Kristín fæddist 11. desember 1963.

Maður Ágústu var Búi Kristjánsson. Synir þeirra Ágústu eru Haukur Þór, Birgir Hrafn og Arnar Már. Barnabarnabörnin eru þrjú, Viktor Örn, Daníel Leó og Atli Hrafn.

Margrét Kristín er tónlistarkona, leikkona og kennari. Maður hennar er Börge J. Wigum. Börn þeirra eru Embla Gabriela og Ágúst Örn.

Sigurður Pálsson þjónaði þessu fólki, var faðmur þeirra og klettur, alltaf nærfærinn vinur og líka áttaviti. Hann lagði allt frá sér þegar þau komu og þegar þau þörfnuðust hans. Og alltaf gladdist hann hjartanlega þegar þau vitjuðu hans. Og það var undursamlegt að sjá hve augu hans ljómuðu þegar hann talaði um þau og sagði frá þeim.

Eigindir

Hvernig manstu Sigurð Pálsson? Manstu skartmennið? Manstu söngvarann, sem lifnaði allur þegar hann söng? Eða glettinn vísumann, sem skellti fram kaldhamraðri Káinn-vísu sem sprengdi drungann? Manstu brosið og kankvísan svip hans? Manstu hina virku hlustun Sigurðar, algeru nánd og virðingu fyrir þér? Fermingarungmenni, sem hann fræddi á sínum tíma sagði þegar fréttin um lát Sigurðar barst: „Hann var svo óvenjulegur því hann virti okkur krakkana. Við fundum hvað hann var hógvær maður.“

Sigurður þjónaði mörgum og margir sóttu til hans í kirkjuna. Einu sinni kom einn af fastagestum hans í gættina á skrifstofunni, illa á sig kominn og spurði þvoglumæltur: „Má ég koma inn?“ Sigurður leit upp frá vinnu sinni við skrifborðið og svaraði ljúflega: „Gerðu svo vel.“ Og hann kom inn, settist í fína sófasettið Guðjóns Samúelssonar, fór svo úr skónum, lagðist upp í sófa og sofnaði svo vært undir brosmildu umhyggjutilliti sóknarprestsins, sem hélt áfram að undirbúa fræðslu kvöldsins og velja sálma fyrir helgarmessuna. Svo hálftíma síðar vaknaði sófamaðurinn, reis upp, fór í skóna sína og sagði endurnærður við Sigurð. „Þetta var gott. Vertu blessaður.“ Og Sigurður svaraði: „Gangi þér vel, vinur.“ Margir telja að þessi sálgæslustund sé með þeim best heppnuðu í Hallgrímskirkju!

Já, Sigurður kunni að hlusta en hann kunni líka að tala. Manstu hve orðheppinn hann var? Eða skýra, hljómmikla og rökfasta málafylgju hans í ræðu? Manstu getu hans til að greina aðalatriði frá aukaatriðum, skýr viðbrögð hans og hæfni til að orða það sem skipti máli? Málgetan og snerpan kom víða fram, líka í málleikjum heimilislífsins. Sigurður gaf ástvinum sínum gjarnan viðurnefni. Ágústu Helgu kallaði hann Gullbrá og Möggu Stínu Skrjóð og Kríli. Svo voru þau öll hin: Stórólfur, Krummi, Glókollur, Stubbur og Djásnið. Og að festa öryggisbelti í bílnum var að festa sig í sessi! Allt lifnaði við tillit hans og hann nefndi veröldina. Og þó hann teldi, að hann kynni ekki að leika sér var hann kátastur í suðurhlíðum tungumálsins. Og eins og brandrar og ljóð eru samsetningur hins óvænta varð fólk litríkt og viðburðir sögulegir í meðförum Sigurðar. Reyndar var dóttirdóttir hans ósammála því, að afi hafi ekki kunnað að leika sér. Hún spurði hann beinlínis hvort hann hefði lært að leika í prestaskólanum!

Manstu kyrru Sigurðar, sterka hlustun, hve áhugasamur hann var þegar lífið hríslaðist í fólki, sem hann hitti eða leitaði hans? Manstu trúnaðinn, fínleikann, íhyglina og traustið? Og svo lifði hann með ákefð og áköfust var elskan gagnvart Hönnu hans, dætrum og öllum afkomendunum. Hann virti tilfinningar og dæmdi þær ekki. Ástin og sorgin eru stór stef í kenningu hans. En hann lagði líka mjög upp úr vilja og ígrundaðri stefnufestu. Það er merkilegt að lesa hjónavígsluræður Sigurðar og hve skýrt hann talaði um að elskan væri ákvörðun.

Heilindin og glíman

Sigurður var maður heilindanna. Hann var heils hugar í öllu, hvort sem var í dúfnarækt, söngiðkun, lærdómi eða ástinni. Burðargrind lífs hans og verundar var trúin á Guð. En dauði Ágústu splundraði einfeldni og sleit klisjur trúarinnar, reif glansmyndirnar. Áfallið markaði skil í lífi hans. Það var ekki bara áfall grátandi föður, heldur varð líka brestur í grundvelli lífsins. Af hverju Guð? „Úr djúpinu ákalla ég þið Drottinn.“ „Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt.“ Þetta eru biblíustefin, sem Sigurður notaði til að ramma eigin glímu og urðu þrástef í ræðum hans um sorg og í minningarorðum útfaranna. Sigurður háði djúpmennska Jobsglímu allt til enda. Efinn, öflug systir trúarinnar, varð fyrirferðarmikil í vitund hans. Sjálfur lýsti hann því, að við stóráfall yrði maður eins og þriggja hæða hús og ljósin kviknuðu aldrei í kjallaranum. Og hann sagði, að krepptur hnefi væri öflugasta bænin! En svo sagði hann líka að reynslan hefði kennt honum, að kristin trú væri trú vonarinnar. Sigurður skrifaði: „Glansmyndir mást með tímanum. Ég er hættur að hafa gaman af þeim. Raunveruleikinn, með ljósi og skuggum stendur mér nær. … Guð, ég þakka þér fyrir gjöf vonarinnar.“

Við Sigurður vorum bæði trúarvinir og trúnaðarvinir og hann sagði mér oft frá sorgarleiðum lífsins og hve svarti hundurinn glefsaði sárt. En Sigurður lamaðist ekki heldur brást við dótturmissinum með því að auka þjónustuna við fólkið sitt og lifendur. Viðbrögð hans voru fjölþætt og siðferðileg í því að axla enn meiri ábyrgð og víkja sér aldrei undan elskunni og ábyrgðinni gagnvart konu sinni, dóttur og barnabörnum. Aldrei að víkja, aldrei að bregðast, aldrei að brotna. Lífsdrama Sigurðar var djúp-guðlegt. Hann brást við áföllum í samræmi við merkingu guðsástarinnar gagnvart harmi heimsins – með því að elska. Myndin af Sigurði í hugum ástvina hans, fjölskyldu og vina er mynd hinnar skilyrðislausu ástar.

Presturinn

Sigurður Pálsson batt lífsreimar fólks í kirkjunni og hann var afburða kennimaður. Prédikanir hans voru skírðar í eldi mikillar lífsreynslu. Engir prestar á Íslandi síðustu tvö hundruð árin hafa prédikað betur og dýpra um sorg og böl en hann. Hann var söngvari hinnar sáru visku.

Stíll prédikana Sigurðar var hraður, myndrænn, oft óvæntur og launfyndinn. Hann upplýsti par í hjónavígsluræðu að hjónabandið væri ekki vatnshelt og það þyrfti tvo til að ausa svo hjónabáturinn sykki ekki. Sigurður byrjaði gjarnan prédikanir bratt og með sláandi setningum, sem römmuðu eða mörkuðu það sem síðan var rætt. „Lífið er rán“ er eitt upphafið. „Lífið er óvissuferð“ er önnur upphafssetning, sem kemur oft fyrir.

Það var aldrei neitt ódýrt eða klisjukennt í bókum, greinum, ræðum, kennslu, hugleiðingum eða kenningu Sigurðar Pálssonar. Hann var alltaf frjór, skarpur, leitandi og á andlegri hreyfingu. Sigurður Pálsson hafði alla tíð hlýtt hjarta en kaldan heila. Hann skrifaði hugleiðingar og prédikanir með hjartablóði sínu. Engin ódýr svör. Hann var með báða fætur á jörðinni, en andi hans fór hátt og djúpt. Hann opnaði alltaf, þorði að fara að baki hinu skiljanlega. Hann þekkti mörkin, en fann fyrir hvenær hann var í óskiljanleikanum, þreifaði þar til leita að því sem bera mætti inn í ljósið og til visku. Sigurður var ofurkvika, sem titraði yfir minnsta áreiti, opnaði hjartagrunn og faðminn gagnvart hinu stóra og stærsta og vann úr. Viðmælendur hans voru fólk með opna hjartastöð, hugsandi gruflendur sem fann til, fólk á ferð sem þorir og þolir að breyta um kúrs. Erindið var alltaf stórt. Af því hann var sílesandi og fjallaði vel um bækur var fræðandi og menntandi að hlusta á Sigurð, sem tengdi og túlkaði veraldir mennta fyrir tilheyrendur sína. Hann leitaði friðar í ófriði, að ljósinu í myrkrinu. Hann talaði um fyrirgefningu og lausn. Í honum bjó engin kyrrstaða heldur hræring. Hann var aldrei alveg niðri, heldur alltaf á uppleið og í föruneyti Jesú Krists.

Akur eilífðar

„Þá er búið að hafa gaman af því.“ Þannig byrjaði Sigurður einu sinni prédikun á jólanótt. Eftirminnileg setning, sem batt saman alla skóþvengi atsins á aðfangadagskvöldi. En nú er söngvari viskunnar þagnaður. Hann miðlar þér ekki framar, veitir þér ekki athygli, hlustar ekki framar á þig eða kallar þig til visku. Rödd hans, sem hljómaði í hvelfingum þessa mikla hliðs himins, er nú þögnuð. Síðustu orðin, sem ég heyrði hann fara með í þessum heimi – þá orðinn raddlítill, voru:

„Guð sefaðu svíðandi hjarta

og sendu mér ljósið þitt bjarta.

Og gef mér þinn græðandi frið.“

(5 v. í sálmi 924 í sálmabókarviðbæti)

Þetta var hinsta bæn hans. Já, hann er farinn inn í friðinn, hinn græðandi frið. Hjartað er sefað og svíður ekki lengur. Ljósið er algert. „Trú er heimþrá,“ sagði hann. Orð hans um trú og efa enduróma ekki framar í þessum hvelfingum, en eru geymd í ofurkviku, ofurhlust Guðs. Hann er ekki í djúpi angistar, heldur djúpi elskunnar, ekki lengur með krepptan hnefa og sviða í sinni, heldur blessaður, græddur og bjartur. Og hann hann fær að sjá Ágústu – og alla burtkallaða ástvini – koma hlaupandi á móti sér yfir engi vonanna. Hann er kominn heim á Akur eilífðar.

Guð geymi Sigurð Pálsson – og Guð hjálpi okkur öllum.

Amen.

Minningarorð í Hallgrímskirkju, 12. mars, 2019. 

Jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Erfi í Hallgrímskirkju. 

Biblíulestrar

Sálmur 27.7-9

Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt,
ver mér náðugur og bænheyr mig.
Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.
Hyl eigi auglit þitt fyrir mér,

Hrind mér eigi burt
og yfirgef mig eigi, 
þú Guð hjálpræðis míns.

Sálm 130

Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,

Kærleiksóðurinn

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Þegar ég var barn talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða lagði ég niður barnaskapinn. Nú er þekking mín í molum en þá mun ég gjörþekkja eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn. En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, 
en þeirra er kærleikurinn mestur.

Fyrra Korintubréf 13

Jesús og börnin

Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.

Markúsarguðspjall, 10.13-16