Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Björg Björgvinsdóttir – Minningarorð

Björg var búin að taka á móti mörgum viðskiptavinum í fyrirtækjum, sem hún átti og rak og taka við fataplöggum fólks til hreinsunar. Margar spjarir var hún búin að þvo og brjóta fallega saman um dagana. Hún dró ekki af sér, gekk í verkin, talaði hlýlega við þau, sem hún afgreiddi. Svo þegar hún var búin með mjúku efnin og fötin þá færði hún sig í stærri og hörðu hlutina – og sá um að bílafloti borgarbúa liti þokkalega út. Og fólkið hennar Bjargar var búið að njóta umhyggju hennar. Þau sjá á bak falslausri og yndislegri konu, sem var hrein og bein, ósérhlífin og vildi vernda og hlýfa fólkinu sínu. Öllum vildi hún gera gott.

Umhyggja Guðs

Umhyggja og elskusemi Bjargar báru í sér vott um umhyggju Guðs. Björg lagði gott til allra, fegraði það sem henni var falið, lagði mikið á sig fyrr og síðar að hreinsa þann hluta heimsins sem var á hennar ábyrgð. Í Biblíunni er margt sagt um Guð og afstöðu til veraldar. Og guðsmyndin er dregin upp með orðfæri manna. Guði er lýst með því að tala um tilfinningalíf, sem menn þekkja úr mannheimum. Guð vill vernda, laga, hreinsa, taka flekki og bletti, þvo og gera tandurhreint að nýju. Afstaða Guðs er ávallt að vernda, hreinsa, lækna og efla menn. Guð elskar og þrífur heiminn til að gera hann fallegan og góðan. Heimur Guðs á að vera hreinn og alþrifinn.

Þessi hreinleikasókn er öllum mönnum í blóð borin og birtist með ýmsum hætti í lífi okkar. Björg var fulltrúi þessarar heimsbleikingar bæði í vinnu og einkalífi. Hún skilaði sínu hreinu og góðu gagnvart fólkinu sínu og þeim, sem hún þjónaði í vinnu sinni. Hún var björg fólki og í lífi.

Ævistiklur og fjölskylda

Björg  Björgvinssdóttir fæddist í Garðhúsum í Njarðvík  10. sept árið 1935. Foreldrar hennar voru, hjónin Jóhanna Sigríður Jónsdóttir og Magnús Björgvin Magnússon. Björg var önnur í röð fimm alsystra. Elst er Katrín, sem fæddist árið 1932 og hún er látin. Á eftir Björgu fæddist Theodora árið 1937. Kristín Ólöf var sú fjórða og fæddist ári síðar og Jónína Valgerður fæddist árið 1943. Sammæðra eru svo Magnús, sem lést ungur og Jóhann – báðir Snjólfssynir. Katrín er látin og nú eru tvær systur farnar yfir móðuna miklu.

Björg ólst upp í foreldrahúsum til 17 ára aldurs. Auk barnaskóla sótti hún einnig kvöldskóla KFUM. Hún fór til Danmerkur og kynntist þar mannsefni sínu. Árið 1954 gekk Björg að eiga Guðmund Einar Guðjónsson, kafara og kortagerðarmann. Þær Katrín systir Bjargar gengu í hjonaband í sömu athöfninni og dagurinn var því stór dagur í lífi fjölskyldunnar. Guðmundur lést í sjóslysi í mars árið 1980 ásamt syni þeirra Bjargar, Magnúsi Rafni. Björg og Guðmundur eignuðust þrjú börn og eiga orðið samtals 16 afkomendur.  

  1. Guðjón Rafn fæddist árið 1955. Hann býr í Bandaríkjunum og á þrjú börn, Björgu Rós, Kristine og Erik. Börn Bjargar Rósar og Abdul manns hennar eru Ísak og Aron.
  2. Magnús Rafn fæddist þeim Bjögu og Guðmundi árið 1959. Hann átti dótturina Hildi Þóru, sem er gift Halldóri Gunnlaugssyni. Börn Hildar eru Magnús Hólm Freysson, Brynjar Þór og Súsanna Guðlaug. Magnús Rafn lést í hinu voveiflega slysi 1980.
  3. Guðrún er þriðja barn Bjargar og Guðmundar og fæddist undir jól árið 1962. Hennar maður er Ólafur Þ. Jónsson og eiga þau tvö börn, Arndísi Helgu og Magnús Einar. Maður Arndísar Helgu er Gunnbjörn Sigfússon og þau eiga börnin Gabríel Arnar og Emilíönnu Guðrúnu.

Vinna og störf

Auk heimilis- og uppeldisstarfanna vann Björg alla tíð mikið utan heimilis. Fyrst við skúringar og þrif hjá Vitamálastofnun. En síðan stofnsetti hún, ásamt manni sínum, efnalaug í Starmýri og hét Hreinn. Þegar reksturinn styrktist bættu þau við annarri efnalaug í Hólagarði í Breiðholti. Svo var í fyllingu tímans eldri efnalauginni lokað. Björg sá um reksturinn, en eftir að Guðmundur fórst söðlaði hún um og seldi fyrirtæki sitt.

Þá hóf hún skrifstofustörf hjá Lögreglustjóraembættinu í Reykjavík í þrjú ár eða til ársins 1985. Þá lágu saman leiðir Bjargar og seinni manns hennar, Jóhanns Þorsteinssonar. Þau vissu af hvoru öðru frá æsku því þau bjuggu um tíma í sama húsi við Bogahlíð. Og þar kynntust þau að nýju og hófu sambúð og gengu síðar í hjónaband.

Þau stofnuðu saman og byggðu Bílaþvottastöðina “Laugina” við Vatnagarða (Holtagarða) árið 1985 og ráku hana til ársins 1995. Eftir að þau seldu þá stöð stofnuðu þau fyrirtæki með bað- og rafmagnsvörur. Fyrirtækið hét Laugin ehf. og voru þau Björg brautryðjendur á sínu sviði hér á landi. Í þrjú ár bjuggu þau Björg og Jóhann í Danmörk, Þýskalandi og Englandi vegna hins fjölþjóðlega fyrirtækjareksturs þeirra, en fluttu síðan heim fyrir aldamótin og héldu áfram rekstri til 2005. Björg var alla tíð verkfús og vinnusöm og gekk í öll störf og féll aldrei verk úr hendi.

Eigindir

Hvernig var hún Björg? Hvaða minningar vakna í huga þér? Hvað skemmti henni, hvað þótti henni gaman? Fólkinu hennar ber saman um, að hún var einstaklega góð. Hún var sáttfús og friðfytjandi. Hún vildi engar útistöður. Hún var tillitssöm, varfærin og skapgóð. Var heil í öllu sem hún gerði, studdi þau sem hún gat. Hún lagði mikið á sig, vann frekar verkin sjálf fremur en leggja byrðar á aðra.

Björg var jafnan kát og glöð. Henni þótti gaman að dansa, ekki síst gömlu dansana. Það var músík í fjölskyldu hennar og hún hafði gaman af söng. Systurnar sungu gjarnan saman. Þegar þær komu saman voru gítarar með í för og svo var byrjað að syngja. Og músíkin heillaði Björgu og hún fann sig alls staðar þar sem tónlist hljómaði, hvort sem það var í fjölskyldufagnaði eða í sveiflu á Bourbonstreet suður í New Orleans.

Hugðarefni Bjargar voru fjölskylda hennar og hún var félagslynd og naut mannfagnaðar. Systurnar voru samrýmdar, hittust og töluðu mikið saman. Björg var góð mamma og amma og fólkið hennar átti í henni trygga stoð, bæði hin eldri og yngri. Björg var vandvirk og vildi hafa allt í góðu lagi, snyrtilegt og hreinlegt. Vildi að fólkið hennar væri vel klætt. Hún var hannyrðakona eins og hennar fólk, saumaði stóla og myndir og prjónaði.

Trú

Enginn fer í gegnum lífið án áfalla og Björg varð fyrir hverju sjokkinu á fætur öðru á árunum 1979- 81. Þá urðu sex dauðsföll í fjölskyldunni sem rifu í hana, nánir ástvinir hennar dóu. Þegar ástvinir hverfa og eru rifnir úr fangi fólks slitnar margt og hyldýpin opnast. Eftir hina miklu dauðahrinu þessara ára breytti Björg um atvinnu og byrjaði nýtt líf. Hún var trúuð og hafði líka getu til að endurmeta trúarefni sín með tímanum. Alla tíð hafði hún sterka lífslöngun. Björg greindist með krabbamein í júní 2006 og fór í erfiða meðferð, sem stöðvaði gang sjúkdómsins þar til í oktober 2010, er meinið tók sig upp aftur og varð ekki við ráðið. Björg átti í sér bæði festu og lífsvilja til að vinna með sjúkdóm og þegar kom að leiðarlokum tjáði hún bæði börnum sínum og prestinum sínum að hún væri ekki hrædd. Hún var opin og þorði að hugsa um, að hún gæti hitt ástvini sína sem hún hafði misst.

Nú horfir þú á bak góðri konu sem var Björg sínu fólki og þeim sem hún þjónaði. Í trú megum við treysta björgun Guðs, að Björg er góðum höndum, í góðum faðmi eilífðar. Þar er ekki aðeins hrein tilvera heldur glaðværð, söngur, tónlist og fögnuður.

Guð geymi Björgu Björgvinsdóttur – Guð geymi þig.

Útför gerð frá Fossvogskirkju miðvikudaginn 15. febrúar, 2012.

Bálför – jarðsett í Fossvogskirkjugarði.

Magnús Vilhjálmsson – minningarorð

Góðir smíðisgripir heilla. Timburskipin voru mörg listasmíð. Fagurt handverk leitar á hugann og laðar fram tilfinningar. Fallegir smíðisgripir vekja aðdáun. Og það er eitthvað stórkostlegt við það sem vel er gert, höfðar til dýpta í okkur, opnar sál og dekrar við vitund.

Fegurðarskyn fólks er vissulega mismunandi en í öllum mönnum býr geta til skynjunar og túlkunar hennar. Og þessi geta er okkur gefin í vöggugjöf. Trúmenn sjá í henni gjöf Guðs. Þegar við lútum að hinu smáa getum við séð stórkostlega dvergasmíð í blómi, daggardropa, regnboga, fjöllum, ám og vötnum og litaspili náttúrunnar. Og í náttúrunni er verið að hanna, laga, móta og búa til dýrðarveröld. Börn allra alda leggjast á bakið á dimmum nóttum til að stara upp í næturhimininn og upplifa, horfa á stjörnur blika, stjörnuhrap teikna línu á hvelfinguna, sjá hvernig stjörnurnar raðast í kerfi. Þar er annar smíðisgripur – handaverk Guðs. Allar menn leita hins fagra og reyna að skilja í hverju lífið er fólgið og hver merking þess er. Smíð veraldar er ábending um hvað tilveran er og að heimssmiður er að baki. Og allar aldir hafa gímt við þessa miklu heimsskák. Sálmaskáld 8. Davíðssálms tjáði sína túlkun, undrun, hrifningu og trú er hann sagði.

Þegar ég horfi á himininn,

verk handa, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,

hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,

og mannsins barn að þú vitjir þess?

Þú gerðir hann litlu minni en Guð,

Drottinn, Guð vor,

hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.

Upphaf

Í dag kveðjum við Magnús Vilhjálmsson sem kunni að meta góða smíðisgripi, vissi hvað þurfti til að gera vel, hvernig vinna yrði til að úr yrði laglegur gripur, sem bæði væri fagur í hinu ytra og þjónaði líka sínu hlutverki vel.

Magnús Vilhjálmsson fæddist í Hafnarfirði 14. janúar árið 1926. Foreldrar hans voru Bergsteinunn Bergsteinsdóttir og Vilhjálmur Guðmundsson. Hann var nefndur, skráður og skírður Bergsteinn Magnús, en notaði aldrei Bergsteinsnafnið.  Systkinahópurinn var stór og Magnús var yngstur 11 systkina. Bræðurnir voru sjö og fjórar systur. Allur þessi stóri hópur kom i heiminn á aðeins 19 árum. Systkini hans eru Hallbera, Jóhann, Sigurbjartur, Sigurjón, Ingimar, Guðbjörg, Ólafur, Helgi, Guðrún og Dórothe. Þau eru nú öll látin nema Helgi, sem lifir bróður sinn. Fjölskyldan tók þátt í lífinu í Hafnarfirði og þau áttu sér kirkjulegt samhengi í Fríkirkjunni í Hafnarfirði.

Benskuheimilið við Álfaskeið var í nágrenni við Hellisgerði. Elstu börnin voru farin að heiman þegar Magnús fæddist, en það var samheldni í hópnum, söngur og gleði. Þau lærðu snemma að vinna og smábúskapur var stundaður á heimilinu. Allur barnahópurinn tók sig saman á sumrin og fór austur í Ölfus til að heyja í skepnurnar. Og Magnús fékk ungur að fara með þeim og meðan hann var að safna kröftum var hann settur í matseldina. Það hefur alltaf verið þarft að kunna að elda hafragraut.

Skóli og vinna

Magnús sótti skóla í Hafnarfirði, gekk vel og var efnispiltur. Um tíma tók hann þátt í starfi Fimleikafélags Hafnarfjarðar og var í sýningarhóp. Magnús var dugmikill til verka og kom sér snemma í vinnu þar sem vinnu var að fá. Þegar stríðið skall á varð nóg að gera og hann fékk vinnu hjá hernámsliðinu, m.a. í Engey. Svo fór hann í Iðnskólann og varð húsasmiður og skipasmiður, sem hann fékkst lengstum við. Hann fékk vinnu hjá Dröfn í Hafnarfirði, en síðar fór hann til Slippfélagsins í Reykjavík og var gjarnan í Daníelsslipp. Svo vann hann um tíma á trésmíðaverkstæði Flugleiða. Atvinnuleysi rak Magnús um tíma til vinnu í Svíþjóð og var í nokkra mánuði við skipasmiðar í Malmö á árinu 1968.

Heimilin

Magnús bjó heima og hjá foreldrum sínum í Hafnarfirði fram á fullorðinsár og varð þeim góð ellistoð. Hin systkinin flugu úr hreiðrinu eitt af öðru. Það var í Breiðfirðingabúð, sem þau Magnús og Guðrún Guðlaugsdóttir sáu hvort annað. Hún fann til hversu myndarlegur Magnús var. Þetta var milli jóla og nýárs árið 1951 og þau löðuðust hvort að öðru. Það skal vanda sem lengi skal standa. Þau flýttu sér ekki heldur kynntust vel áður en þau hófu hjúskap og giftu sig árið 1956. Magnúsi þótti vænt um Hafnarfjörð, en hann var þó til í að færa sig um set þegar þau Guðrún höfðu ruglað reitum. Þau bjuggu fjöslkyldu sinni gott heimili og smiðurinn smíðaði það sem þurfti, hvort sem voru innréttingar, skápar og húsmunir. Og þau Guðrún voru samstillt. Þau eyddu ekki um efni fram heldur voru fyrirhyggjusöm.

Þau bjúggu lengstum í vesturhluta Reykjavíkur, byrjuðu búskap á Nýlendugötu og fóru síðan í Háaleiti og voru þar í ellefu ár. Síðan fluttu þau á Túngötu og Vesturvallagötu og fóru þaðan á Grandaveg 47.

Þau Magnús eignuðust dóttur í september árið 1957. Hún heitir Guðbjörg og er kennari að mennt og starfar við Landakotsskóla. Hennar maður er Árni Larsson, sem er rithöfundur. Guðbjörg segir að foreldrar hennar hafi búið henni áhyggjulausa æsku. Pabbinn hafi smíðað fyrir hana það sem hún þurfti af húsgöngum, dúkkuhúsum og leikföngum, meira segja straujárn úr tré – sem daman var sátt við og þjónaði fullkomlega sínu hlutverki. Magnús hafði ánægju af að hjálpa dóttur sinni við stærðfræðina og tala við hana og blása í hana sagnaranda og frásagnargetu.

Samfélagsmál, hugðarefni og eigindir

Magnús var mjög vakandi fyrir samfélagsmálum. hann hafði áhuga á kjörum og aðbúnaði stéttar sinnar, var stéttvís alþýðusinni og tók þátt í félagsmálum. Hann var virkur og var um tíma í stjórn Málm- og skipasmíðafélagsins. Hann skoðaði samfélagsmál með augum réttlætis og vildi leggja sitt af mörkum til að staða fólks i samfélaginu yrði sem jöfnust og laun og kjör væru réttlát. Magnús var vakandi gagnvart stjórnmála- og menningarþróun, innanlands og utan og hafði ákveðnar skoðanir. Hann fagnaði þegar alþýðu manna tókst að ná fram réttindamálum sínum og dæmi um gleðilega atburði, sem Magnús gladdist yfir, var árangur Samstöðu-hreyfingarinnar í Póllandi. Hann tók aðstæður og þróun í alþjóðapólitíkinni til sín og varð t.d. um þegar Sóvétríkin réðust inn í Ungverjaland árið 1956 – og var ekki einn um.

Magnús var vel lesinn. Hann las skáldverk en ekki síst fræðirit – um sögu, sjórnmál, þróun heimsmála og strauma og stefnur. Það hreif hann sem opnaði refilstigu fjármagns og hvernig kapítalið stýrði og mótaði. Svo hafði hann víðsýni til að opna sálargáttir gagnvart andlegum fræðum einnig og las t.d. um speki Austurlanda.

Og svo átti skákin hug hans. Hann tefldi og stundaði skákrannsóknir, tefldi skákir meistaranna og varð öflugur skákmaður, sem tók þátt í mótum og því merkilega starfi sem skákhreyfingin hefur verið hér á landi. Hann var m.a. Hafnarfjarðarmeistari.

Magnús var jafnan stillingarmaður, flíkaði ekki tilfinningum, var lítið um inntantómt hjal, þagði frekar en taka þátt í orðavaðli. En hann sagði gjarnan sögur og kunni að segja frá. Honum þótti gaman að fléttum sagnamennskunnar og hafði einnig góðan smekk fyrir góðum brag, sem kveðnir voru af næmi og íþrótt. 

Magnús naut góðrar heilsu lengstum og allt til ársins 2006 er hann kenndi sér meins og leitaði lækninga. Þá kom í ljós, að hann var komin með parkinsonveiki sem tók æ meiri toll af honum. Að lokum fór svo að hann fór á Hjúkrunarheimilið á Grund í maí á síðasta ári. Hann naut þar aðhlynningar sem ástvinir vilja þakka fyrir. Magnús náði að halda upp á 86 ára afmælið sitt þann 14. janúar og lést tveimur dögum síðar. Hann verður lagður til hinstu hvílu i Fossvogskirkjugarði.

Manneskjan er opin, ómótuð við upphaf. Við leitum að formi, áferð og stíl í lífinu. Skaphöfn Magnúsar, líf hans og lífshættir urðu til að hann þorði að spyrja um rök og leiðir. Lífsskák hans var ekki samkvæmt bókinni heldur opin. En þannig er heimur lífs og þannig hugsa spekingar trúarinnar líka um Guð – sem hinn mikla lífssmið, sem þorir jafnvel að leyfa efnivið að ráða, veitir frelsi, blæs í brjóst mönnum ást til réttlætis, sanngirni, jöfnuðar og allra hinna mikilvægu gilda og dyggða sem hefð okkar vestrænna manna hefur rætt og byggt á.

Ástvinir þakka Magnúsi fyrir það sem hann var þeim, gaf og veitti. Nú er hann farinn af þessum heimi inn himin eilífðar. Hvernig verður sá heimur í gerðinni? Fær hann að njóta enn meiri fegurðar, enn stórkostlegri smíðaupplifunar en í þessum heimi? Trúin, vonin og kærleikurinn geta hvílt í Guðsfaðminum sem allt bætir og stækkar.

Guð geymi Magnús í eilífð sinni, blessi hann og varðveiti. Og Guð geymi þig og varðveiti á þinni vegferð í tíma og til eilífðar.

Útför Fossvogi 26. janúar, 2012.

Æviágrip

Magnús Vilhjálmsson fæddist í Hafnarfirði 14. janúar 1926.  Hann andaðist á Elli og hjúkrunarheimilinu Grund þann 16. janúar síðastliðinn.  Faðir hans var Vilhjálmur Guðmundsson f. í Hreiðri í Holtum í Rangárvallasýslu 24. 9.1876 d. í Hafnarfirði 24. 2. 1962 .  Móðir Magnúsar var Bergsteinunn Bergsteinsdóttir f. í Keflavík 4. 9.1888, d. 9. 4. 1985. Systkini Magnúsar voru þau Jóhann, f. 1907, d. 1980, Hallbera, 1907, d. 1992, Sigurbjartur, 1908, d. 1990, Sigurjón, 1910, d. 1994, Ingimar Vilbergur, f. 1912, d. 1959, Guðbjörg, f. 1914, d. 1949, Ólafur Tryggvi, f. 1915, d. 1996, Helgi Guðbrandur, f. 1918, Dóróthea, 1924, d. 1984.  Magnús giftist Guðrúnu Guðlaugsdóttur 14. janúar 1956.  Dóttir þeirra er Guðbjörg maður hennar er Árna Larsson. Magnús lærði húsa og skipasmíði í Dröfn í Hafnarfirði.  Hann vann lengst af í Daníelsslipp.

Dóra Ketilsdóttir – minningarorð

Doja var gjafmild. Dóra Ketilsdóttir gaf af sér og gaf öðrum. Og svo er gjöf í nafninu hennar líka. Á grískunni þýðir dora einfaldlega gjöf, svo hún bar nafn með rentu. Gjafmildi og gjafageta einkenndi Doju – hún var Dóra – kona gjafanna í lífinu.

Og hvernig er nú boðskapur kristninnar, boðskapur Jesú, skilaboð Guðs? Litla Biblían í Jóhannesarguðspjalli hljóðar svo: „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“

Elskaði og gaf til að færa líf – elskaði og gaf. Jesús var Dóra heimsins, Doja var gjöf ykkar fjölskyldu, börnum, systkinum og vinum. Í hinu stóra samhengi megum við gjarnan læra að sjá allt sem gjöf, temja okkur þakklæti fyrir þau og það, sem við njótum – og við megum gjarnan miðla áfram þeirri afstöðu að við njótum lífs, okkur er gefið til að fara vel með, ekki aðeins í eigin þágu heldur í samfélagi. Þeirri lífsafstöðu var miðlað til Doju í uppeldi – og það var það sem hún iðkaði í lífi sínu. Í hinu stóra samhengi er það líka arfur og andi hins kristna boðskapar. Lífið er gjöf, þið eruð gjöf, okkar er að fara vel með, deila með öðrum og vera gjafmild.

Ættbogi og fjölskylda

Dóra Ketilsdóttir fæddist á Ísfirði 12. maí árið 1937 og lést 8. júní síðastliðinn. Hún var næstyngst hjónanna Maríu Jónsdóttur (1911-74) og Ketils Guðmundssonar (1894-1983), sem var eiginlegur kaupfélagsstjóri Ísafjarðar. Systkini Doju eru Unnur, Guðmundur, Dóra og yngst var Ása. Dóra eldri lést rúmlega árs gömul og fékk Dóra yngri því nafn hennar þegar hún fæddist – og nafnið kom frá Halldóru ömmu. Ása er sú eina úr systkinahópnum, sem lifir systkini sín.

Dóra ólst upp á Isafirði og drakk í sig fróðleiks- og menntasókn fjölskyldunnar. Hún var alin upp í samfélagssýn samvinnu- og félagshyggjufólks. Hennar fólk hefur löngum stutt Alþýðuflokk til dáða þótt dóttir hennar hafi orðið sjálfstæðari en sumt ættmenna hennar. Í fjölskyldunni var stunduð málverndun, talað gott og kjarnyrt mál, sem hefur síðan skilað málvitund í ungviði samtíðar.

Doja sótti skóla á Ísafirði og komst til manns í faðmi vestfirskra fjalla og menningar. Þegar í bernsku kom í ljós að Doja var heyrnarskert og var það ævimein hennar. Hún galt fyrir í skóla, skerðingin neyddi hana til að sitja á ákveðnum stöðum bæði í bekk og lífi. Svo var hún send suður til lækninga og það var barninu Doju álagsefni að vera slitin úr öruggu fjölskyldufangi þrátt fyrir gott atlæti ættmenna sinna syðra.

Og svo komu unglingsárin. Um tíma var Doja í Englandi. Hún lærði að meta hinn enskumælandi heim og var góð í ensku þaðan í frá. Hún var á þröskuldi fullorðinsáranna þegar átök kalda stríðsins tóku hana svo í fangið. Ástalíf hennar blandaðist inn í heimsmálin eða heimsmálin fleyttu ástinni til hennar. Lárus Gunnarsson fór vestur til að starfa við uppbyggingu radarstöðvarinnar á Straumnesfjalli, sem var gerð á árunum 1954 – 56. Það var ekkert kalt á milli þeirra Doju og Lárusar á þessum árum, heldur var hann geisli í lífi hennar og blossaði á milli, ekki aðeins í Alþýðuhúskjallaranum heldur í samskiptum þeirra. Og Þórir nýtur þess varma. Hann fæddist í nóvembermánuði árið 1956 og í hjónarúmi foreldra Doju í Aðalstræti 10.

En svo fór Lárus suður og síðan til náms vestur í Ameríku og varð flugvirki og síðar flugvélstjóri. Það var líka komið að flutningi fjölskyldunnar. Ketill og María fóru suður og Doja með þeim og drengurinn líka, bjuggu um tíma í Smáíbúðahverfi,  fengu einnig húsaskjól í húsi Haraldar Guðmundssonar á Hávallgötunni, en þá var hann og fjölskylda hans farin til opinberra starfa í Svíþjóð. Tómasarhagi 41 var síðan heimili Ketils og Maríu, en þá var Lárus kominn heim úr námi og litla fjölskyldan flutti í Sörlaskjól.

Þau Doja fóru fyrir altarið í nýrri Neskirkju við Hagatorg og hlutu þar kirkjulega blessun yfir hjúskap sinn. Birna kom svo í heiminn og fjölskyldan átti lengstum heima inn í Háaleitisbraut. Lárus starfaði við flug bæði á Íslandi og einnig erlendis. Doja var heima og sá um börn og bú. Flest gekk fjölskyldunni í haginn og allir undu við sitt og börnin uxu úr grasi og gekk vel. Þórir fór svo að heiman, fylgdi í fótspor föður síns og lærði flugvirkjun og síðan verkfræði, en Birna er fjölmiðlafræðingur.

Börnin og afkomendur

Kona Þóris Lárussonar er Magnea Ragnarsdóttir. Börn þeirra eru Hrefna og Davíð. Maður Hrefnu er Kristinn Fannar Einarsson og eiga þau Emblu Katrínu og Iðunni Signýju. Kona Davíðs er Ellen Bergsveinsdóttir.

Birna Lárusdóttir fæddist í mars 1966. Hennar maður er Hallgrímur Kjartansson. Börn þeirra eru Hekla, Hilmir, Hugi og Heiður.

Afkomendur Doju eru því 10 á fæti og einn að auki í kvið. Og Doja hafði mikla gleði af fólkinu sínu. Það var henni til mestrar gleði og hún var þeim hin gjafmilda móðir og amma. En hún átti í ættmennum sínum stuðning og elskusemi. Þegar hallaði undan fæti í heilsuefnum Doju stóðu margir þétt að baki hennar. Fjölskyldan þakkar Ragnheiði Sveinsdóttur nærfærni og alúð í garð Doju. Og Ása vakti yfir heilsu systur sinnar til hinstu stundar.

Auður Bjarnadóttir, systurdóttir Doju, getur ekki verið við þessa athöfn en hefur beðið fyrir kveðju sína til þessa safnaðar.

Eigindir og vinna

Hugsaðu um Doju. Hvernig var hún, hvað var hún þér? Hvað gaf hún þér og hvernig viltu minnast hennar? Hún reyndi ekki aðeins að hlusta á hvað þú sagðir heldur reyndi svo sannarlega að lesa af vörum þér orð, merkingu og meiningu. Hún vakti yfir velferð fólks. Hún var natin móðir og vildi tryggja að börnin hennar fengju gott veganesti til ævigöngunnar. Þau hafa enda sýnt í lífinu að þau fengu góða heimanfylgju. Lárus skaffaði vel, Doja spilaði úr eins og hún kunni best. Flugið skilaði líka munaðarvöru í heimilislífið. Doja var smekkvís og hannyrðakona, saumaði og kunni vel til verka og fólkið hennar var vel til fara. Hún var að eðlisfari félagslynd og þrátt fyrir heyrnarskerðingu sótti hún í að vera innan um glatt fólk, en á síðari árum veigraði hún sér við að vera í fjölmenni.

Þegar Birna var komin á legg tók Doja ákvörðun upp á sitt eindæmi – hún ætlaði út á vinnumarkaðinn að nýju. Hún hafði eftir komuna suður fengið vinnu í Landsbankanum en tók sér svo vinnuhlé til að sinna uppeldinu. En svo þegar tíminn var komin á vinnu að nýju fann hún góðan vinnustað í Dagvist barna. Þar eignaðist hún góða félaga í samstarfsfólki, sem vann í þágu framtíðar borgar og þjóðar. Doja gegndi trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélag sitt og samstarfsfólk eða þar til hún fór á eftirlaun 65 ára að aldri.

Skil

Svo urðu skil í einkalífi Doju. Hjúskapur þeirra Lárusar endaði. Þau bjuggu saman í rúmlega aldarfjórðung, en svo trosnaði sambandið og leiðir skildu. Lárus flutti ekki aðeins út heldur utan. Skyndilega voru Birna og Doja einar i kotinu og fluttu upp í Breiðholt. Svo fór Birna fór svo til náms í Seattle og Doja flutti á ný og nú í Furugerði. Birna kom svo heim og fór vestur þar sem hún kynntist manni sínum og eignaðist börn sín. Börn hennar og börn Þóris urðu ömmunni gleðigjafar og hún gaf þeim af sér og sínu. Og hún var til í að pakka búslóð sinni niður þegar tvíburar Birnu komu í heiminn og fór vestur í nokkur ár til að styðja dóttur sína í önnum hennar. Og sú gjöf hennar er þakkarverð. Doja náði að tengjast öllum barnabörnum sínum traustum böndum, bæði þeim sem hér eru og einnig hinum fyrir vestan. Afkomendum sínum var hún natin amma, las fyrir þau, sá til að allt væri snyrtilegt í kringum þau og þau nytu þess sem hún gat gefið þeim. Hún úthellti gjöfum yfir þau, laumaði að þeim pening og þótti gaman að gauka að þeim einhverju í munn einnig. Og ekki gleymdi hún fullorðna fólkinu heldur.

Svo fór hún suður aftur í Furgerðið. Þegar heilsa hennar brast fór hún í Árskóga í mars á síðasta ári og síðustu mánuðina var hún á hjúkrunarheimilinu Holtsbúð – sem hefur um tíma verið til húsa á Vífilsstöðum og þar lést Doja. Dóttir hennar og sonur, og elsta barnabarnið voru hjá henni, héldu í hönd hennar þegar hún skildi við.

Sólarkaffi himins

Og nú eru skil. Nú eru skil hjá Doju og nýtt skeið er hafið. Í lífi afkomenda hennar eru stöðugt að verða skil og ný skeið að hefjast. Dóttirdóttir Doju lauk leikskólaveru sinni í fyrradag og hún og hin börnin voru send til að leita að lyklum grunnskólans. Og Heiður fann sinn lykil og á honum var letruð rún sem visar á gæfu og táknar gjöf. Og við megum alveg sjá í því ofurlítið tákn um að lífið lifir, lífið heldur áfram. Kynslóðir koma og kynslóðir fara. Fólkið hennar Doju nýtur gæfu, en sjálf er hún farin inn í blámóðu himinsins.

Hver er merking nafnsins Dóra – það er gjöf. Hver er afstaða Guðs gagnvart  heimi, henni og þér? Það er elska og gjöf. Og þú mátt því sleppa Doju, leyfa henni að fara inn í stórfang himinsins. Þar eru engar þrengingar, þar er enginn yfirgefinn, þar skyggja engin sorgarfjöll á lífið. Þar er samfellt sólarkaffi um alla eilífð. Þar heyrir hún allt skýrt, þar er samfélag elskusemi og gjafmildi.

Lærðu af Doju að gefa. Trúðu að líf hennar er varðveitt í gjafmildi Guðs, sem elskar hana, elskar þig, elskar þitt fólk og elskar veröldina. Guð geymi Doju og Guð geymi þig um alla eilífð.

14. júní 2012. 

Björn Guðjónsson – minningarorð

Hann var sem einn af postulunum, einn af lífsins höfðingjum, sem hafa litað líf okkar hinna og gert það skemmtilegra og betra.  Minningarorð um Björn Guðjónsson eru hér að neðan.

Jólagjöfin 1940

Björn og Inga hittust á rúntinum í Austurstræti árið 1940. Vinkonur voru þar á ferð á jóladag og Björn og vinur hans voru úti að aka, en höfðu þó augun hjá sér. Þeir sáu dömurnar, buðu þeim í bíltúr og ferðin endaði í húsi við Tjarnargötu. Þar kom í ljós, að þau Björn og Inga höfðu líkan smekk. Þegar ávaxtaskálin fór hringinn sá Inga appelsínu, sem hana langaði í, en Björn var á undan. Hann var alla tíð snöggur, glöggur og rífandi gamansamaur, sá auðvitað löngunartillit hennar og valdi appelsínuna, sem hún vildi.

En dýpri rökin eru, að Björn vildi það sama og Inga. Hans viðmið voru hin sömu og hennar. Hann mat það, sem henni hugnaðist og Inga varð hans appelsínustelpa. Hann varð ekki aðeins jólabjörninn hennar, heldur heldur jólagjöf fyrir lífið.

Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá – var slagorð Silla og Valda í Austurstrætinu. Þessi biblíuorð áttu líka við unga parið. Appelsínan varð til að Inga kom á þann reit, sem Björn vissi bestan í veröldinni, Grímsstaðaholtið og Ægisíðu. Þau gengu í hjónaband í desember 1942 og hafa því notið hjúskapar í 66 ár. Þeirra saga hefur verið gæfusaga. Oft hefur Björn róið, en nú fer hann sína hinstu ferð frá Ægisíðu á eftir. Fáni verður dreginn að hún við húsið nr 66 og drottningin hans Björns sér á eftir bónda sínum og út á himinsjóinn.

Fiskveiðar

Ég las áðan úr sjómannaguðspjallinu. Björn þekkti þreytuna, sem fylgdi gæftaleysi og aflaþurrð. Hún er söm við Genesaretvatn, sem er álíka stórt og veiðsvæði Björns og helmingi stærra en Þingvallavatn, sem hann unni líka. Björn hefði alveg skilið hik manns, sem hafði farið snemma en komið fisklaus til baka. Svo kom þar að maður ofan af landi og vildi annan róður strax. En Símon Pétur lét sig hafa það og líf hans breyttist og allur heimurinn með.

Björn var líkur Símoni Pétri um margt, fastur fyrir, traustsins verður, skynugur og fullkomlega yfirvegaður í sókn sinni. Hann kunni sitt fag. Báðir vissu hvernig leggja ætti net og hvenær maður opnaði fyrir innri skynjun, tók mark á innri rödd og hinu sérstæða.

Björn var vel gerður og hann samþætti vel gáfur sínar. Hann naut þekkingar síns fólks á nátttúru umhverfisins í marga ættliði, fékk í arf veðurvit kynslóðanna, þekkingu á botni, straumum og fiskgöngum við Skerjafjörð. Hann varð kunnáttumaður í sínu fagi og sækóngur Ægisíðunnar. Útgerðin dugði ekki til framfærslu allt árið og Björn leitaði því annarra vinnumiða meðfram. Á yngri árum veiddi hann síld í Hvalfirðinum og fyrir norðan, vann hjá Eimskip um tíma og síðan í Sindra Stáli.

Grímsstaðavörin og mannlífið

Vegna útgerðar hans könnuðust íbúar í Vesturbænum við Björn Guðjónsson. Og allir krakkar á Grímsstaðaholtinu þekktu Bjössa. Smáfólkið sótti í fjölbreytilegt lífið við ströndina, skoðaði kuðunga og veiddi síli og marhnúta. Um tíma herti Björn grásleppu á trönum við klöppuðu ástasteinana hjá brautarteinum hans. Þar kom stundum torfa af stórufsa, sem rikkti vel í og gaman var að veiða á stöng. Bátakarlarnir skildu veiðihug barnanna og gáfu beitu. Þeir voru flestir vinsamlegir en Björn var þeirra fremstur. Hann var sæhöfðinginn í heimi okkar barnanna, glæsilegur, eins og Hollywoodstjarna, og hélt sig vel, sómi sinnar stéttar. Báturinn hans var alltaf hreinn. Kofinn hans var snyrtilegur eins og fjöldi mynda í blöðum og tímaritum sýna vel.

Sjógangurinn krafði eigendur um stöðugt teinaviðhald og alltaf var brautin hans Björns best. Hann gætti tóla og tækja sinna. Björn var mildur höfðingi í sinni verstöð. Hann var glettinn og elskulegur við yngri sem eldri, var sannur mannvirðingarmaður. Og geðlaus var hann ekki og skapfestan kom vel í ljós þegar á einhvern var hallað, þá var Björn strax kominn við hlið hins minni máttar. Einu gilti hvort til hans komu börn, útigangsmenn eða þjóðhöfðingi. Allir nutu sömu ljúflyndisglettninnnar, en hinir fátæku nutu hins vegar uppbóta og verðið til þeirra var stundum talsvert neðan við þekkt kílóverð.

Ríkidæmi gjafmildinnar

Samheldni hefur löngum ríkt á Íslandi, siðfræði samstöðunnar er inngreypt í fólk og kemur í ljós í heilbrigðu fólki og ekki síst þegar að kreppir. Björn þekkti ekki aðeins umhyggjusiðfræði kristninnar, heldur iðkaði hana í lífinu og í samskiptum við fólk. Í honum var gæfuleg blanda heiðarleika, umhyggjusemi, örlætis, hugrekkis og vilja til hins besta í öllum efnum. Hann var “grand” í lífinu en stærstur í samskiptum. Börnin hans vita, að þurfandi fólk á að njóta uppbóta og aukafiska, að ríkidæmi í lífinu verður ekki til vegna þess að maður nær öllum krónunum, heldur þegar fólk fær notið lífs og umhyggju. Sá er ríkur, sem sem gefur af sjálfum sér, sá einn verður auðugur sem veit að fjármunir eru þjónar en ekki húsbóndi.

Ungviðið og þroskakostir

Fólk á Grímsstaðaholti naut ekki aðeins nýmetis úr bátnum hjá Bjössa, heldur líka þeirrar gleði sem lífið á ströndinni gaf tilefni til. Það var gaman á góðum dögum, þegar húsmæðurnar komu til að fá nýmeti. Björn lék á alls oddi. Krakkarnir nutu gleðinnar. Hann var ábyrgur sjómaður og það var ekkert sjálfgefið að fá að fara á sjó með honum. En hann tók því ljúflega þegar ég stundi upp, að ég vildi gjarnan munstra mig á Guðjón Bjarnason RE 324 og vera háseti í einni ferð. Hann lofaði engu fyrr en foreldraleyfið var veitt. Róðurinn með Bjössa var eftirminnilegur dýrðardagur. Góðmiðin við Staðarboða út af Álftanesi gáfu vel. Sjómaðurinn Björn var fumlaus og handtök hans styrk. Meðan hann dró netin og skellti inn hrognkelsum, fylgdist hann með skýjafari, blikum á lofti og lífi í sjó. Hann skýrði verkin, talaði um sker og boða, benti mér á hnísu í sjónum og sagði frá þyrsklingum, sem hann sá í djúpinu og hélt örfyrirlestur um þaralit fiskjarins.

„Legg þú út á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar“ sagði Jesús eitt sinn og mér finnst eins og Bjössi hafi verið einn af postulunum, einn af þessum lífsins höfðingjum, sem hafa litað líf okkar hinna og gert það skemmtilegra og betra.

Bjarnastaðafólkið og lífið á Ægisíðu 66

Björn Guðjónsson fæddist í Bjarnastaðabænum, sem var í húsaröð upp af Ægisíðunni, nærri Grímsstöðum. Hann óx upp á heimareit síns fólks og skilaði áfram mannviti, verk- og staðþekkingu svæðisins. Móðir hans var Guðrún Valgerður Guðjónsdóttir og faðir hans Guðjón Bjarnason. Systkinin voru fjögur. Björn var elstur. Hin eru Þorbjörg, Bjarni og Gunnar Ingibergur og lifa bróður sinn. Björn fæddist 11. nóvember árið 1921 og lést 30. nóvember síðastliðinn. Þökk sé öllum þeim sem þjónuðu honum fyrr og síðar og hér skal nefnt starfsfólk á Landakoti og í Sóltúni og þeim þakkað.

Inga og Björn bjuggu fyrst á Bjarnastöðum, en byggðu síðan með Geir Zoega og Sigríði Einarsdóttur, konu hans, húsið á Ægisíðu 66 og þar bjuggu þau hjón síðan og með sama fólki alla tíð. Það er mikil gæfa. Í nágrenninu var móðir Björns og í einum kofanum við vörina fiðurfé hennar, sem er okkur nærbýlingum eftirminnilegt, ekki síst Pekingendurnar.

Þau Björn og Inga nutu barnsældar og barnaláns. Þau eignuðust fimm börn. Þorvarður Ellert er elstur og hans kona er Steingerður Steindórsdóttir. Næst kom Sigrún Björk og hennar maður er Örlygur Sigurðsson. Guðrún Gerður var þriðja og hennar vinur er Jóhann Hafþór Þórarinsson. Langsíðastir og eiginlega í seinni hálfleik barneigna komu svo Guðjón Jóel og Ásgeir. Kona Guðjóns er Helena Þuríður Karlsdóttir og kona Ásgeirs er Kristín Jónsdóttir.

Þegar saman fer kynsæld, elskusemi og hæfni til uppeldis er vel. Kóngsríki Bjössa var stórt, heima, ströndin og hafið. Hann var hlýr fjölskyldufaðir, laginn uppalandi og glaður barnakarl. Á fjölskylduhátíðum var keppst um að komast í fangið hans afa, þar var skjól veraldar, kátlegar sögur voru sagðar, hlátrar hljómuðu og gamanið ríkti.

Barnabörnin eru 12 og þeirra börn síðan 18. Afkomendur Björns og Ingu eru þegar orðnir þrjátíu og fimm og fleiri í gerðinni.

Elskan og lífið

Í slíku ríkidæmi er lífsins auður fólginn. Inga heillaðist af Birni á jóladegi og varð síðan hans. Sagan af örlaga-appelsínunni minnir mig á bók eftir norska rithöfundinn og spekinginn Jostein Gaarder heitir Appelsínustelpan. Þetta er undursamleg ástarsaga um mann, sem heillaðist af stúlku með appelsínur. Þau áttust en maðurinn veiktist ungur og lést eftir skamma legu. Hann skrifaði ástarsögu sína áður en hann dó – fyrir litla drenginn þeirra. Þetta er grípandi saga og gerir upp við hina gömlu spurningu allt frá tímum Aristótelesar, spurningar sem ekkert okkar kemst undan að svara með einu eða öðru móti: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda, fólk suður í Grikklandi, austur við Genesaretvatn, á Högum og Melum lífsins og – niður við Ægisíðu, að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir, öll lifum við mótlæti, en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess að við fáum að elska og vera elskuð. Bjössi naut elsku Ingu, elskaði hana, naut þessa kraftmikla, vel gerða, skemmtilega og hlægjandi fólks, barna, tengdabarna og afkomenda. Og svo umlykur okkur öll elska himinsins. Við erum elskuð.

Björn og lífsgæðin

Lífið var og er til að lifa því. Og Björn kunni að njóta. Hann dansaði við Ingu sína. Hann átti góða vini allt frá bernsku, ræktaði vináttuna, spilaði við glaða briddsfélaga sína reglulega og í áratugi, naut þess að sækja mannfundi og njóta þess sem bæjarlífið bauð uppá, hvort sem það var í leikhúsi eða á tónleikum. Hann var ekki aðeins bundinn við Skerjafjörð heldur naut þess að fara með stöng og Ambassadorhjólið sitt austur í Þingvallasveit og þenja sig við fluguköst við fiskaskvompu í Vatnsvikinu og egna fyrir stórfisk. Hann fór líka á slóðir nafna síns Blöndals í Straumana og til veiða í stórám Húnavatnssýslna. Og eins glöggur og næmur sem hann var gat hann ekki orðið annað en mikill aflamaður í stramvatni líka. Hann var náttúruunnandi, hreifst af fallegu sólarlagi, birtu og litum. Hann var fagurkeri og naut fallegra hluta, var smekkmaður líka. Hann fróðleiksfús, sem kom vel fram á ferðum. Hann vissi um nöfn, staði, staðhætti og einu gilti hvort það var á leiðinni norður í land eða í ökuferð í Þýskalandi.

Björn tók þátt í ríkulegu félagslífi á Grímsstaðaholtinu. Ungmennafélag varð til á fjörukambinum. Svo var Dóri, síðar í fiskbúðinni á Dunhaganum, hvatamaður til stofnunar knattspyrnufélagsins Þróttar. Björn lærði strax í bernsku, að ef þröngt var í búi skildi maður eftir fisk á tröppum þurfandi. Samfélagsvitund var rík og ekki skrítið að fyrsta sella sósíalista varð til á Holtinu. Björn kom ekki við þá sögu, en honum rann eðlilega blóð til skyldunnar gagnvart trillukörlum og smábátasjómönnum þjóðarinnar. Hann var ötull stofnfélagi í Samtökum grásleppuframleiðenda, sem síðar varð Landssamband smábátaeigenda. Björn var í stjórn félagsins um árabil. Í þessu sem öðru var eftir honum sóst, hann var glöggur, skemmtin og réttsýnn.

Legg þú á djúpið

Og Jesús sagði. “Legg þú á djúpið og leggið net ykkar…” En sjómaðurinn sinnti kallinu til lífs þrátt fyrir ytri aðstæður og allt væri þvert á viljann. Og hlutverk sjómannsins við Galíleuvatnið var síðan það, að veiða menn eins og skýrt kemur fram í guðspjallinu. Veiða menn, já Björn Guðjónsson var hamingjumaður. Hann þjónaði lífinu og hann var maður mannbjargar í mörgu. Hann var eiginlega heil björgunarsveit í sjálfum sér, alltaf á vakt og til reiðu. Þegar hann sá, að ungmenni voru að leika sér á Hrakhólmum, skerjum við Álftanes, fór hann stóran krók til að tryggja að þau flæddi ekki á skerjum. Hann bjargaði þeim. Margoft bjargaði hann börnum á kössum og flekum á floti, sem stefndu til hafs.

Sjómenn róa helst ekki á sjómannadegi heldur gleðjast í landi. Á slíkum dögum vitjaði Björn ekki heldur neta sinna utan einu sinni. Hann var ekki í rónni, fann kallið hið innra, ræsti út son sinn sem ekkert skildi í karlinum. En í þetta sinn skyldi róið. Ekki höfðu þeir lengi farið þegar þeir komu að skútu á holfi og kaldir menn voru á kili og í bráðri lífshættu. Þeim var bjargað um borð í Guðjón Bjarnason og síðan komið til manna, í hlýju og til lífs. Engra neta var vitjað þenann dag, en sá sem heyrir kallið þvert á kerfi og reglur veit hvenær á að fara út þrátt fyrir hefðbundin mótrök. Meistarinn frá Nasaret sagði: “… Héðan í frá skaltu menn veiða.” Björn Guðjónsson kunni að veiða hamingjuna, útdeildi henni meðal sinna og samferðamanna. Hann var mannbjörgunarmaður og lukkumaður í lífinu. Hann brást við kallinu ávallt og til að efla velferð.

Nú hefur hinsta kallið hljómað, kóngur siglir og byr himins ræður. Því kalli sinnir Björn Guðjónsson, fer frá sinni Grímsstaðavör við Ægisíðu og inn á himinhafið, sem er án allra skerja. Þar er gaman, þar er góð veiðistöð, þar ríkir fegurðin ein, engar blikur og engir boðar, þar skilst glettnin, þar ríkir samheldnin því þar er Guð.

Þökk sé Birni Guðjónssyni, elsku hans, þjónustu og mannvirðingu.

Góður Guð geymi hann og verndi um alla eilífð.

Góður Guð styrki ykkur: Ingu, börn, tengdabörn, afkomendur, systkini og vini.

Amen.

Minningarorð í útfararathöfn í Neskirkju 5. desember 2008. Athöfnin var kl. 13. og jarðsett var í Gufuneskirkjugarði.

Eftir útförina var hrífandi að aka Ægisíðuna í stillu, brosandi desembersólskini og góðviðri. Fáni var dreginn að hún við húsið nr. 66. Mér fannst sem ég sæi Bjössa við kofan hans og var hugsi á hinni löngu leið í kirkjugarðinn í föstudagsumferðinni. Grímsstaðavörin án Björns Guðjónssonar er hálfmunaðarlaus. Við Holtarar ættum að heiðra minningu hans og allra hinna, sem gert hafa út frá þessari vör, og öðrum í nágrenninu og gera bryggju til að auka bátaumferð á firðinum. Ég legg til að hluti Grímsstaðavararinnar þar sem Björnsbrautin var njóti nafns hans og verði Björnsvör. Kofinn hans er vel varðveittur og borgaryfirvöld ætti að gæta hans sem hluta mikilvægs menningarlandslags Reykjavíkur.

Fiskidrátturinn mikli

1Nú bar svo til að Jesús stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð. 2Þá sá hann tvo báta við vatnið en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. 3Hann fór út í þann bátinn er Símon átti og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum. 4Þegar hann hafði lokið ræðu sinni sagði hann við Símon: „Legg þú út á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar.“ 5Símon svaraði: „Meistari, við höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið en fyrst þú segir það skal ég leggja netin.“ 6Nú gerðu þeir svo og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska en net þeirra tóku að rifna. 7Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana svo að nær voru sokknir. 8Þegar Símon Pétur sá þetta féll hann á kné frammi fyrir Jesú og sagði: „Far þú frá mér, Drottinn, því að ég er syndugur maður.“ 9En felmtur kom á hann og alla þá sem með honum voru vegna fiskaflans er þeir höfðu fengið. 10Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.“ 11Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.

Lúkasarguðspjall, 5. kafli.

Ögmundur Helgason – minningarorð

Hann dreymdi, “að hann væri staddur í grænni hlíð, með fjalldrapa upp á leggi. Sólskinið var sterkt, hlýjan umlauk hann. Lækur rann syngjandi í fossaföllum niður græna hlíð. Honum leið vel í kyrrðinni.” Ræða mín við útför Ögmundar Helgasonar í mars 2006 fer hér á eftir.

Ögmundur í essinu sínu

Ragna og Ögmundur fóru um Lónsöræfi fyrir tæpum sjö árum. Landslagið er stórbrotið, ökuleiðin inneftir svakaleg, árnar miklar og landið meitlað af átökum náttúrukrafta. Þetta höfðaði til Ögmundar, en áleitnast var þó hvernig mönnum hefði farnast og búnast við erfiðar aðstæður. Ekkert var honum meira tilhlökkunarefni en að koma í Víðidal á Lónsöræfum. Gangan að dalnum var löng og lýjandi, en þegar að honum var komið var eins og Ögmundur vissi ekki lengur af þreytu. Hann óð yfir ána, gleymdi samferðamönnum, stund og stað. Asinn var svo mikill að hann hljóp skólaus í dalinn, fann strax bæjarrústirnar og hafði lokið fyrstu yfirlitsrannsókn þegar göngufélagarnir komu þreyttir. Ögmundur stóð eins og sjáandi á rústunum, berfættur, í rauðu buxunum sínum og með skóna í hendinni, lýsti nákvæmlega hvernig bærinn var skipulagður, að göngin voru bogin svipað og í Sænautaseli – til að standa gegn veðri og vindum. Svo sagði hann sögu fólksins, sem hafði búið þarna og skýrði örlög byggðarinnar.

Þarna var Ögmundur í essinu sínu, í Víðidal, með sögu þjóðar og einstaklinga í blóði og huga. Ekkert gat hindrað hann að opna fangið mót því ríkidæmi, ekkert megnaði að flekka gleði hans við að lesa staðhætti, stöðu bæjarhúsa gagnvart læk og engi, ráða rúnir mannvistarleyfa. Svo túlkaði hann og var allur sögukvika, vinsaði úr og lagði elskuna við, meitlaði frásögnina og úr varð gjörningur um lífið, undur veraldar.

Vídidalur eystra, víðidalur nyrðra, víðidalur sögunnar, víðidalur eilífðar.

Þúsund ár og viturt hjarta

“Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” (Úr 90. Davíðssálmi)

Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Bæir og byggð falla. Börn fæðast þrá og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er hið sama, hvort sem er í Staðarfjöllum nyrðra eða í handritum á söfnum okkar. “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað. Lofstýr manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem nú lifnar – “hverfið aftur…”

Hvað gerum við gaganvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina: “Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?”

Ævi

Ögmundur Helgason var lýðveldisbarn og vormaður Íslands. Hann fæddist á Sauðárkróki 28. júlí árið 1944, rétt eftir að lýðveldið var stofnað. Foreldrar hans voru Sigríður Ögmundsdóttir og Helgi Einarsson. Faðirinn var frá Akranesi og móðrin af Króknum. Til að uppeldi heppnist vel þarf stór hópur, helst heilt þorp, að koma að verki. Ögmundur naut stórfjölskyldu. Fjölskyldan deildi húsi með Ögmundi afa og líka móðurbróður. Þeir sinntu söðla- og skósmíðinni þar einnig. Svo voru kindur í kofa, verk kynslóðanna lærðust og lykt festist í nefi. Mannlífið var ríkulegt og vinnan inn á gafli.

Systkini Ögmundar eru: Halldóra, Kristín, Einar og Magnús Halldór og lifa öll bróður sinn. Ættingjar og vinir komu í heimsókn, gistu þegar aðstæður og sæluvikur gáfu tilefni til. Faðir Ögmundar féll frá þegar systkinin voru enn ung. Ögmundur var elstur og gekk inn í mörg af hlutverkum heimilisföður, stóð með móður sinni og varð sínu fólki stoð og ráðgjafi, umhygjusamur alla tíð. Fyrir það er þakkað.

Nám

Það var ekki sjálfgefið, að strákur á Sauðárkróki færi í menntaskóla. En sögurnar, þorpið, ljóðin og byggðasagan kallaði á úrvinnslu. Hinn leitandi, gruflandi og nákvæmi Ögmundur vildi vinna úr, hafa næði til að skoða og greina mál daganna. Ögmundur tók ákvörðun, fór í MA og varð stúdent 1965. Menntaferðin var hafin, hann velti vöngum yfir háskólagrein og var svo lánssamur að geta numið það, sem hugurinn stóð til bæði íslensku – og þar með einnig bókmenntir – og sagnfræði. Varð BA í þeim greinum árið 1972, tók síðan próf í uppeldis- og kennslu-fræði 1981 og cand. mag. próf í sagnfræði 1983. Þjóðfræðiáhuginn óx líka og hann stundaði nám í þeirri grein.

Störf

Ögmundur varð kennari í íslensku við Menntaskólann við Tjörnina og síðan við Sund (1973-82). Nemendur hans minnast afburðakennara, sem ekki hikaði við að leggja þeim þá reglu í hjarta að lesa Njálu einu sinni á hverju ári. Svo las hann líka fyrir þau svo rómantísk ljóð, að draumur leið yfir stúlknaandlit og vandræðaroða sló fram í strákakinnar. En fræðimennskan dró hann og þau Ragna fóru til Hafnar. Um tíma var hann starfsmaður við hina dönsku Árnastofnun (1984-86) og varð heimagangur hjá Jóni Helgasyni.

Eftir að Ögmundur kom heim gekk hann til liðs við Handritadeild Landsbókasafns (frá 1986) og var síðan forstöðumaður deildarinnar frá 1990 þar til um áramótin síðustu er hann var ráðinn til Árnastofnunar. Ögmundur var einna best læs Íslendinga á hendur manna. Hann lagði sig sérstaklega eftir ritun handrita eftir siðabreytingu, var hraðlæs og snöggur að komast fram úr jafnvel hinum ólæsilegustu höndum. Með Ögmundi fór bæði þekking en líka ómetanleg þjálfun og hæfni.

Ögmundur var stundakennari við Háskóla Íslands frá 1987. Samhliða námi og kennslu var hann við margvísleg störf, m.a. handrita- og prófarkalestur fyrir ýmsa útgefendur. Á yngri árum var hann einnig í sumarvinnu m.a. við frumskráningu skjala og handrita í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga á Sauðárkróki (1969-73).

Fjölskyldumaðurinn

Ögmundur var mikill fjölskyldumaður og hamingjumaður í einkalífi. Það var honum mikil gæfa að eignast Rögnu Ólafsdóttur að ævifélaga. Hún varð honum fjallkona í lífinu. Við nágrannar fylgdumst með hversu náin og samstiga þau hjónin voru. Tempó þeirra og upplag var ekki það sama, en þeim hafði lánast að samræma takt og voru snögg að nema breytingarnar í hvoru öðru. Þau kynntust í sellu nyrðra, Ögmundur var strax skotin í Neskaupstaðardömunni og taldi sig hafa fremur sjarmerað hana með andlegu atgervi en líkamsásýnd. Þau settu upp hringana á jólum 1964 og gengu svo í hjónaband á nýársdegi 1966.

Börn Ögmundar og Rögnu eru Helga og Ólafur. Eiginmaður Helgu er Reynir Sigurbjörnsson og dætur þeirra eru Ragna og Þórhildur. Unnusta Ólafs er Hallrún Ásgrímsdóttir. Ólafur eignaðist soninn Ingimar með Nínu Ýr Guðmundsdóttur. Það var skemmtilegt að gefa honum barnabarn, sagði sonur hans. “Hann var himinsæll afi.”

Heimili Rögnu og Ögmundar var öruggt vígi, en líka ævintýraveröld með skemmtun, sögum, söng, ljóðum og umhyggju. Þetta varnarþing varð enn betri veröld þegar barnabörnin komu. Helga naut stuðnings foreldra sinna þegar hún fór í framhaldsnám til Uppsala og þá voru stelpurnar gjarnan á Tómasarhaganum. Ragna og Ögmundur urðu ekki bara afi og amma í viðlögum heldur blómstruðu sem pabbi og mamma að nýju. Afinn var stórkostlegur, las og sagði sögur. Hann hafði gaman að blanda öllu saman í eina samfellda undraveröld, þar sem allt var mögulegt, Bláskjár var sem í nágrenninu, Þórir Þrastarson með karlrembu og rasisma var líka í næsta húsi, Tristan og Isold áttu leið um, fornkappar riðu um hlaðið, barnagælurnar slökuðu síðan og svo komu drynjandi þjóðsögur, sumar þeirra hafa aldrei gengið á þrykk. Afinn var að miðla, því sem hann lærði nyrðra, ytra og í iðrum Þjóðarbókhlöðunnar, umvafði fíngerðar smákonur með lífsundrinu og afaelsku. Missir þeirra er því mikill, þegar sögurokkarnir eru þagnaðir á Tómsarahga 12.

“Ekkert var fallegra en þegar pabbi var góður við mömmu, strauk hana. Þá leið mér vel, þá var allt svo gott,” sagði dóttir hans. Ögmundur stóð ávallt með konu sinni í öllum störfum og verkum og að baki henni í kennslu- og skólastjórastörfum. Ragna hefur misst sinn besta vin, sálufélaga, skemmtikraft, kraftuppsprettu og lit daganna. Guð blessi hana í sorg hennar. Guð geymi börn, tengdabörn barnabörn og ástvinir.

Ritstörf

Hvaða mann Ögmundur hafði að geyma, hvert hugur hans hvarflaði og fræðiáhuginn leitaði kemur glögglega fram í ritum hans og viðfangsefnum. Ögmundur spannaði óvenju vítt svið í skrifum sínum. Hann byrjaði snemma að skrifa fræðigreinar en ljóðagerð stóð honum nærri líka. Ragnar í Smára gaf út ljóðakver hans árið 1970, sem ber hið seiðandi nafn Fardagar. Ögmundur skrifaði fjölda greina og ritgerða um byggðasögu, örnefni og þjóðfræðiefni. Hann skrifaði um barnaaga og skriftarkunnáttu, þjóðsögur, kveðskap alls konar, sögu og varðveislu handrita. Ögmundur þýddi meira að segja skáldsögu. Hann gaf út fjölbreytilegt efni úr sögu Skagfirðinga og var í ritsjórn og ritstjóri Skagfirðingabókar frá 1973-83. Fyrir það vill stjórn Sögufélags Skagfirðinga bera fram kveðju og þökk fyrir framlag Ögmundar til skagfirska fræða.

Eigindir

Það fór ekki á milli mála, að Ögmundur var Skagfirðingur! Hann gat talað svo um sveitina sína, að ef aðeins var hlustað á orðin var ljóst, að hann væri að lýsa mesta og besta stað veraldar. En svo horfði maður í kímin augun og þá vissi maður, að það var ást hans á svæði og sögu, sem hann var að tjá en ekki fella empírískan dóm. Hann var skarpur og snöggur í greiningum, fljótur að fella sundur og saman, iðkaði sem sé greind. En eiginlega var það rómantikerinn sem stýrði, hrifinn maður sem nýtti skynsemina. Hann notaði fræðin í þágu elsku og hugðarefna. Í honum var deigla Skagafjarðarástar, Rögnuástar, fjölskylduástar, söguástar, fræðasóknar og í bland við skrítna karla, dularfullar frásagnir, barnagælur, söng og skemmtilegheit.

Víðidalur

Ungur uppgötvaði Ögmundur að veröldin átti fjallageim og hann sótti upp í fjöllin, Molduxa, Staðaröxl, Sandfell og svo að baki í Hryggjadal. Hann gerði Víðidal að dalnum sínum, fjallasal í hálendinu milli Skagafjarðar og A-Húnavatnssýslu. Þar leitaði hann að rústum, kannaði landið grannt og þekkti öll örnefni, íbúasögu og hvernig landnemarnir leituðu á þegar hlýnaði og hvernig fólk og fé fór eða féll í harðæri. Allt þetta þekkti hann. Víðidalur nyrðra varð að samnefnara í lífi hans og tákni um hugaðarefni og afstöðu.

Mannasaga

Hann fór í dalinn, um fjöllin, upplifði umhverfið en líklega var nátturunautn hans oftast tengd mannasögu. Hann var vissulega vel að sér í fánu og flóru, límdi í minni örnefni, skynjaði veðurlag, vindstefnu og las vel snjóalög. Hann var eins og besti spæjari við lausn á erfiðum gátum mannaferða og byggðar. Hann þjálfaði sig í að horfa eins og landnemi, greina bæjarstæði og hvernig best yrði búið og lifað. Í honum blundaði fornleifafræðingur og hann var löngu á undan sinni samtíð með að iðka mannvistarlestur náttúrunnar. Hann skoðaði gjarnan bæjarstæði þar sem hann fór, hvernig þau stóðu í hlíð, íhugaði mótekju, veiðimöguleika, túngæði, engjaslátt og stararflóa. Pældi í hlunnindum og ítökum, sölvafjöru, grasafjalli – las landið og tengsl fólks við landshætti.

Ögmundur hafði samúð með Bjarti í Sumarhúsum allra alda, þekkti hvað kotungarnir höfðu kveðið dýr viskuljóð, meitlað orðdjásn og ritað mikilvægar bækur. Hann innlifaðist hjartslætti landsins með því að ganga það, andaði að sér aðstæðum og skildi þar með kjörin, ræktaði með sér virðingu og elsku til afreka kynslóðanna. Svo var Ögmundur líka næmur á hið sérstæða í mannheimum, var starsýnt á sérkennilegt fólk og lagði sig eftir að kunna sögur um hið afbrigðilega. En hann var svo umhyggjusamur að hann vildi ekki færa kostulegheitin á blað.

Að búa við orð

Ögmundur ólst upp við skjátur upp í klaufum fyrir ofan byggð og andaði að sér gildum og merkingarvef bændasamfélagsins. Hann var lítið efni í kúabónda og alls ekki í hrossaprangara. En hugðarefnin og lífshættir hans minntu mig samt alltaf á búskap og bónda. Ögmundur bjó fremur við orð en kindur. Hans húsdýr voru handritin og afurðir þeirra voru lífsviska, lærdómur sem líka göfgaði andann. Sögulaus þjóð hefur tapað minni og andlegri heilsu. Ögmundur var fús til að skerpa minni síns fólks og miðla því, sem getur haldið tengslum við visku kynslóðanna. Hann var nákvæmur heimildamaður, lagði sig í framkróka að tryggja að rétt væri með farið og eftir haft. Hann var málvís. Honum var í mun að tungan nyti fjölbreytileika og að sagnorðin lituðu málið, að kommusetning væri vönduð. Hann fjargviðraðist þegar ambögum var útvarpað. Hann var tilbúinn að gera sitt til að vernda íslenska sögu. Þó held ég að hann hafi gengið heldur langt þegar hann var jafnvel tilbúinn að gerast framsóknarmaður nú á síðustu tímum, líklega til að fyrirbyggja að framsóknarmennskan lognaðist útaf!

Fræðaáhuginn styrktist enn með aldrinum, æ fleiri matarholur sá hann. Í miðju dagsverki og með gríðarlegar fyrningar féll hann. Svo margt átti hann eftir, svo margt beið næðis hans. Ögmundur var hafsjór fróðleiks. Kofarnir voru ekki tómir hjá honum. Ef spurt var, lauk hann upp og hann stytti aldrei sögur sínar að óþörfu eða gaf minna á garðann en viðtakandi vildi. Hann var umhyggjusamur fræðari, natinn við alla þá, sem leituðu til hans, hvort sem var á vinnustað eða heima. Hann reyndi að snúa góðu hliðinni að öllum viðmælendum sínum. Ögmundur eignaðist því ekki aðeins kunningja heldur marga vini – og þeim þótti vænt um hann.

Ég hef verið beðinn að bera ykkur kveðju frá Guðmundi Bjarnasyni,  sem er á sjúkrahúsi og getur ekki verið hér í dag, frá Birnu Hjaltadóttur og Gísla Sigurðssyni sem eru erlendis og frá Fríðu Júlíusdóttur.

Viturt hjarta

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Hvað er viska? Jú, það er viska að bera virðingu fyrir lífi, verkum og hugsun genginna kynslóða og miðla áfram. Það er viska að halda til haga menningararfi heimahaga. Það er viska að nýta sér gleðiefnin og skemmta með. Það er viturlegt, að lesa þjóðsögur fyrir ung börn. Menn eru naktir við fæðingu. Ekki aðeins líkaminn er strípaður, heldur líka sálin. Vefur menningar er kufl til að varna kulda og dauða. Það er hægt að ala skrokkinn, en ef sálin fær ekki vörn fer illa og það er dapurlegt líf til dauða að halda skrokknum lífs en með lífvana sál.

Ögmundur hafði kafað í kristnar bókmenntir og unnið með Hallgrím. Margt af því best orðaða í heimi trúar og alþýðumenningar hafði seitlað inn í hann og var honum höfustóll til nota á degi neyðarinnar. Hann var sér meðvitaður um dauðann og tómið. En hann ætlaði sér samt að verða gamall, hann lifði jú afar heilsusamlega. “Ég ætla helst að verða erfitt gamalmenni,” sagði hann með glampa í augum.

Ögmundur var alla ævi að aga sig, ná sátt við kjör og störf, sálardjúp, fræði, ástvini og líka Guð. “Ögmundur var alltaf að batna,” sagði vinur hans. Svo vel gekk, að hann var á góðri leið með að verða helgur maður! Svo var hann sleginn í fyrra, þungu höggi, ótímabæru og skelfilegu. Hann talaði óhikað um stöðuna og skildi háskann. Svo vann hann af miklum dugnaði við verkin sem yrði að ljúka, kyssti konuna sína, börn og barnabörn og grét svolítið niður í bringuna.

Hann var undursamlegur bróðir, sem er okkur harmdauði. Við erum vönkuð ganvart sóun góðs drengs. Á okkur hrín áfram ræða sálmaskáldsins, sem varð Matthíasi innblástur þjóðsöngs Íslendinga. “Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Hver er viskan í þínu lífi? Hver er þinn búskapur, hvaða gildi temur þú þér? Hvað varðveitir þú? Er það allt í samræmi við viskuna? Ögmundur er okkur fyrirmynd og heiðrum minningu hans með því að rækta hið góða, gilda, mikilvæga og viturlega. Og gerum það með kímni í augum, elsku í hjarta og mjúkum höndum.

Víðidalur eilífðar

Síðustu vikurnar dreymdi Ögmund oft sama drauminn. Honum fannst hann vera staddur í grænni hlíð, með fjalldrapa upp á leggi. Sólskinið var sterkt, hlýjan umlauk hann. Lækur rann syngjandi í fossaföllum niður græna hlíð. Honum leið vel í kyrrðinni. “Hvað þýðir þessi draumur?” spurði hann. “Jú, þetta er himnaríkisdraumur” var svarað og hann var sáttur við þá ráðningu. Hann var tilbúinn að fara í sinn himeska dal. Fardagar hans voru runnir upp.

Og Ögmundur fór, ekki á rauðu buxunum með skó í hendi, ekki til að skyggna rústir eða greina göng. Hann er ekki í Víðidal nyrðra eða á ferð um blágeim skagfirskra fjalla. Hann er farinn í Víðidal eilífðar, inn í líf hins vitra hjarta, sem heitir Guð. Góður Guð geymi hann að eilífu, varðveiti sál hans og blessi öll þau sem syrgja.

Útför í Neskirkju 17. mars, 2006.