Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Inga Sigurjónsdóttir 1929 – 2012

Inga var sumarbarn, eiginlega sumargjöf og svo dó hún inn í haustið. Lífið er að láni og svo skilum við af okkur og hverfum inn í eilífðina. Hvernig er það?

Sunnudagurinn síðasti er gjarnan kallaður páskadagur á hausti. Við þekkjum jú páskana, dag lífsins, dag upprisunnar, dag vonar og gleði. En páskar eru á vorin þegar vetri lýkur og lífið vaknar að nýju. En páskadagur á hausti? Af hverju? Þann dag er lesið hið merkilega guðspjall um konu, son hennar og lausnarann. Lesa áfram Inga Sigurjónsdóttir 1929 – 2012

Sigurður M. Kristjánsson – frændi

„Nú ert þú kominn?” sagði frændi í haust. Hann hafði ekki mörg orð um gleði sína en sagði flest með bliki augna. Flöktandi vitund hans small inn í nútímann og hann óskaði frétta um helstu mál, fjölskylduhagi, viðfangsefni og verkefni. Vitund mín víkkaði og hálfrar aldar saga okkar frænda rann hjá hið innra. Hann var mér sem besti faðir. Minningar hrönnuðust upp á sálarskjáinn, allt frá því að hann faðmaði mig sem ungsvein í sveit bernskunnar eða setti mig á hné til að kenna vísu. Hann kenndi mér að marka lamb, þuldi mér örnefni, renndi í gegnum ættboga í Þistilfirði eða Dölum, skýrði Hávamál, veitti innsýn í guðfræðiátök fyrri aldar, gladdist á gjöfulum dögum búskapar, berja og veiði, lagði mér lífsreglur, kenndi að lesa bæði í veður og kringumstæður mannlífs. Hann miðlaði líka að á öllum skuggahliðum er birta hinum megin. Alltaf treysti hann mér til verka, aldrei tjáði hann efa sinn um að ég gæti ekki eða gerði ekki það sem hann fól mér. Þau Stefanía fóru í marga daga fundaferðir og skildu mig einan eftir, unglinginn, með allan búrekstur á Brautarhóli. Ég mat tiltrúna og hef síðan skilið eðli ráðsmennsku. Hann tjáði þakklæti fyrir vel unnin verk, stuðning eða samúð með meitluðum orðum. Frændi var góður stjóri, vildi ræktun lands, lýðs og fólks. Ungmennafélagsandinn rímaði vel við stefnu guðfræðingsins, sem fléttaði vel forsendur sínar í þjónustu menntunar og búskapar.

Við eigum okkur mæður og feður, frændgarð og umhverfi. Minn lífsbónus var að eiga frænda líka. Móðir mín kenndi mér að “frændi” væri eitt göfugasta heiti veraldar. Sigurður M. Kristjánsson fyllti svo það hlutverk inntaki og afstöðu. Að vera frændi er iðka mannvirðingu og elskusemi. Ég ber ekki aðeins nafn hans heldur naut hans með svo margvíslegu móti. Hann lagði til hugmyndir og skoðanir með snörpum tilsvörum, hnussi eða hlýju. Hann kenndi mér að njóta náttúrunnar, stoppaði mig stundum til að hlusta eftir hljóðum, kenna hvaða fugl syngi eða til að benda á bæjaröð og segja mér sögu fólksins á svæðinu. Ég var sumarvinnumaður skólastjórabóndans allt til fullorðinsára. „Þú ert elsta barnið okkar Stefaníu” sagði hann stundum við mig og tjáði þar með ást sína og afstöðu þeirra beggja. Svo fylgdist hann grannt með námi, sögu, ráðlagði mér hiklaust, hafði skoðanir á hvað yrði til eflingar og hvað til tjóns. Ráð hans voru glögg, stundum óvænt en alltaf til gagns. Alltaf átti ég í frænda styrka stoð. Frændi í lífinu er ómetanlegt þakkarefni.

Svo var komið að skilum. Ég sagði honum, að nú væri ég búinn að selja og láta frá mér eigur mínar í Svarfaðardal. Þá komu tár í augu hans. Við vissum báðir, að þar með yrðu skil. Farfuglinn að sunnan hætti að koma og hann væri á förum. Haustið væri komið. Við strukum hvorn annan og ég merkti hann krossi bæði á enni og brjóst. Við föðmuðumst meira og kvöddumst í hinsta sinn, með harm í vitund en líka gleði í sál fyrir að hafa átt hvorn annan að. Guð geymi hann og hans fólk.

Á kennimyndinni efst er Sigurður lengst til hægri í hópi bræðra. Sigurjón í miðið og Gísli til vinstri. Á myndinni í miðri grein eru Kristján Tryggvi, Gunnar Þór, frændi og Stefanía auk mín með hund í fangi. Hér að neðan horfir frændi heim að Brautarhóli.

Anna Ósk Sigurðardóttir – minningarorð

Af hverju ríkir þessi jákvæðni? Af hverju talar fólkið hennar Önnu svona vel um hvert annað? Af kynnum af fjölskyldu hennar hefur mér lengi verið ljóst, að einhver lind hlýtur að næra þá mannvirðingu, sem kemur fram í þessu fólki og hvernig þau umgangast hvert annað.

Það er engin knýjandi þörf að búa til helgimynd af fjölskyldunni og lýsa þessu fólki sem flögrandi englum. Þau geta alveg hnippt í hvert annað, skemmt um hið kostulega og kátlega, en þau standa saman og með jákvæðni. Hvað er það sem veldur? Ég uppgötvaði í fyrradag, að ástæða gleðinnar er ekki viðburður, eigindir eða hæfileikar, heldur fremur persóna, ættmóðirin Anna Ósk Sigurðardóttir. Þegar ég hlustaði á fólkið hennar tala um mömmu, ömmu og tengdamóður opinberaðist mér skyndilega fjölskyldu-leyndarmálið. Það er Anna, sem er forsendan, samhengið og ástæða fyrir mörgu af því besta í þessari fjölskyldu. Líf hennar var margbrotið og oft reyndi á. En hún vann úr lífsreynslu sinni með þeim hætti, að hún kom sínu fólki ekki aðeins til manns, heldur lagði þeim lífsgleði í brjóst, félagsfærni, sagnagetu og vilja og færni til að lifa vel.

Ævistiklur

Anna Ósk Sigurðardóttir fæddist 8. ágúst árið 1921 og var því níræð er hún lést. Foreldrar hennar voru Sigurður Friðrik Jóhannesson og Bjarnína Kristrún Sigmundsdóttir. Alsystkin hennar eru Sigurður og Unnur og hálfsystkini Bjarnína Kristrún, Ásta Nína og Bragi Hrafn. Anna tók fyrstu sporin í Viðey og hélt alla tíð tengslum við Viðeyinga og var sátt við upphaf sitt í eyjunni. Þegar hún var á þriðja ári flutti fjölskyldan upp á land. Síðan bjó Anna Ósk alla tíð í vesturhluta Reykjavíkur og á Seltjarnarnesi.

Sigurður, faðir Önnu, hafði atvinnu af akstri og mamman var heima og sá um börn og bú. Anna byrjaði skólagöngu í Austurbæjarskóla. En svo dundi fyrsta stóráfallið yfir. Bjarnína, móðir Önnu, lést árið 1932. Þá var Anna aðeins 11 ára gömul. Móðurmissir á viðkvæmum aldri mótar og hefur orðið ungri stúlku umhugsunarefni og kennt henni margt, sem hún nýtti sér síðar, þegar hún varð ekkja með húsið fullt af börnum.

Þegar móðir Önnu lést varð Anna þó ekki munaðarlaus. Hún átti í vinkonu móður sinnar faðm, sem ekki brást. Soffía Guðný Gísladóttir í Ánanaustum tók Önnu að sér og hún varð henni óskabarn. Og lífið hélt áfram, Anna fór í Kvennaskólann og fór svo að vinna fyrir sér, m.a. við netahnýtingar og hanskasaum. Og hún var á síld í Djúpuvík á Ströndum þegar stríðið byrjaði.

Karl og börnin

Og svo var það Karl Sigurðsson, sem varð maðurinn í lífi Önnu Óskar. Þau dönsuðu sig líklega saman á stúkuballi. Hún heillaðist af þessum myndarlega, fagursyngjandi og leikandi ungherra. Fóstran var ekki alveg viss um, að ástarráðið væri skynsamlegt, en Anna vissi hver hennar óskakarl væri. Hún var enginn veifiskati í lífinu – ekki í ástamálum heldur. Svo gengu þau Karl í hjónaband í mars 1942, í miðju stríðinu. En hjúskapur þeirra var engin styrjöld, heldur þvert á móti gleðilegur og ávaxtaríkur. Barnalán Önnu og Karls var mikið. Og þau áttu börn í tveimur lotum.

  1. Birna Soffía var fyrst og fæddist árið 1942. Börn hennar eru Kolbrún Anna, Hjördís Unnur og Karl Pétur.
  2. Sigurður fæddist árið 1946. Kona hans er Guðrún Erla Gunnarsdóttir. Sigurður á börnin Elínu, Karl og Skúla.
  3. Ingibjörg Margrét fæddist eftir stríð, árið 1948. Hennar maður er Sigurður Örn Kristjánsson. Dóttir þeirra er Anna Ósk.
  4. Anna Mjöll er fjórða í röðinni, fædd 1956. Dóttir hennar er Birna Ósk.
  5. Kristinn Már er sá fimmti og fæddist 1957. Kona hans er Dagný Þórólfsdóttir, börn þeirra eru Hlynur, Valgerður og Unnur Ósk.
  6. Brynjar er svo sá sjötti og fæddist árið 1964. Kona hans er Cristina Gonzalez Serrano.

Já barnalánið var mikið – sex börn, ellefu barnabörn og fimmtán langaömmubörnin á fæti.

Skil

Og hjúskapur þeirra Önnu og Karls gekk vel og lífið blómstraði. Þau voru samhent, hún var heima og hann aflaði vel. Karl hafði atvinnu af pípulögnum eins og faðir hans og var að auki hæfileikaríkur leikari. Leikfélag Reykjavíkur efldist og vinnustundir Karls í Iðnó urðu æ fleiri. Og Anna stóð þétt við bak bónda síns og hafði sjálf gleði af leikhúslífinu og dramanu. „Þetta er minn lúxus“ sagði hún og fór á frumsýningar alla tíð og hvernig sem á stóð í hennar lífi. Svo fór Karl í leikferð austur á land með leikfélaginu í júlí 1965 og varð bráðkvaddur í þeirri ferð, hálffimmtugur.

Anna var þá ekkja, liðlega fertug, með sex börn og þar af það yngsta í vöggu. Ekkert auðvelt, engar ódýrar lausnir, en þá kom styrkur Önnu berlega í ljós. Hún hélt hópnum sínum saman, kenndi þeim að bjarga sér, lagði þeim það til, sem þau þurftu til nauðþurfta, hélt að þeim metnaði og lífskúnstum til að mannast. Anna starfaði hjá Krabbameinsfélaginu og vann líka sem matráðskona á pósthúsinu og á lögreglustöðinni í Reykjavík. Stundum var hún keyrð heim úr vinnu í lögreglubíl og aðvífandi veltu vöngum yfir af hverju löggan væri á ferð. Sigurður Sófus, afi, var á heimilinu og var til stuðnings með ýmsum hætti. Og hópurinn hennar Önnu er okkur öllum vottur um getu hennar og afrek. Kannski ofrausn að segja, að fjölskyldan sé kraftaverk en er hins vegar vel heppnuð.

Hvernig var Anna?

Hvaða minningar áttu um Önnu? Hvað skemmti henni? Mannstu tilsvörin hennar? Hún gat verið kúnstug í orðum og kunni ágætlega að ydda tilsvör, sem lifa. Hún var ekkert að yfirgera með tilfinningaklisjum og ástaryfirlýsingum, en sagði með gerðum sínum hver afstaða hennar var til fólks. Og hún var eins og margt hennar fólk – næg sjálfri sér.

Mannstu eftir matnum hennar Önnu? Hún var góður kokkur og var til í að prufa nýjar uppskriftir. Og meðan fáir gátu getið sér til um hvað lasagna væri var hún búin að elda svo barnabörnin hennar vissu hvernig svoleiðis góðgæti smakkaðist. Og hún galdraði fram veislu með stuttum fyrirvara og var óhrædd að taka að sér að elda fyrir eitt hundrað konur í húsmæðraorlofi vestur í Dölum. Hún var veitul og gjafmild og þótti mikilvægt að hafa fólkið sitt í kringum sig. Hún ákvað veisludaga og fólkið hennar kom til hennar á Þorlák, á gamlárskvöldi, á föstunni og svo voru þesssar fínu Önnufiskibollur í mat á föstudeginum langa. Alla tíð tókst Önnu að reka sitt heimili svo, að börnin fengu ekki tilfinningu fyrir að hart væri ári og þröngt í búi. Þó hefur nú svo verið með svo marga munna og margvíslegar þarfir. Anna var hetja og lauk sínum verkum til enda.

Anna hafði auga fyrir fallegum fötum og var fljót að sauma það, sem þurfti í leiki, skóla, veislur og á böll. Hún var óhrædd og miklaði ekki fyrir sér óvænt mál. Þegar húsið hennar fylltist af fólki og skortur var á borðum var hurð bara tekin niður, húnninn skrúfaður af og spjaldið sett á undirstöður og dúkað yfir. Og sjá, hið fínasta borð var komið. Úrræðageta Önnu kom líka ágætlega í ljós þegar hún var á ferð og drullusokkur losnaði á bílnum hennar. Hún tvínónaði ekki við, heldur saumaði sokkinn bara við púströrið! Slíkan frágang höfðu engir bifvélavirkjar séð hvorki fyrr eða síðar.

Einu sinni hljóp barn frá henni í erlendri borg og týndist. Þá seildist hún í töskuna sína og náði í Smartiespakkann og hristi með látum og kallaði barnsnafnið og skilaboðin voru: Viltu smarties? Og snáðinn skilaði sér auðvitað með hraði. Þetta er að hafa skapandi hugsun.

Anna stjórnaði ekki áföllum og dauðsföllum, en hún tók hins vegar ágætlega á sínum málum og þorði að taka ákvarðanir. Hún hafði sjálf frumkvæði þegar skil urðu í lífinu og ljóst að taka yrði ný skref. Hún seldi og minnkaði við sig þegar sá tími var komin. Og hún var raunsæ á eigin getu og þarfir. Hún ók sínum bíl fram á efri ár og ákvað sjálf að hætta keyra, kannski ekki alveg í samræmi við ökuskírteinið – en alla vega í samræmi við öryggismörkin.

Anna hafði styrka skapgerð og var stefnuföst í flestum málum. Hún þoldi vel að Karl, bóndi hennar, hefði aðrar skoðanir í samfélags- og trúmálum en hún. Hún gat alveg umborið, að allir í kringum hana væru ósammála henni. Lengstum bjó Anna á KR svæðinu, sumt af hennar fólki æfði í KR og flest voru einbeittir stuðningsmenn félagsins. Anna bjó meira segja í KR-blokkinni um tíma og einu sinni komu sigurreifir afkomendur til hennar eftir leik. Hún gat glaðst með þeim, en þegar hún var spurð um hennar afstöðu kom hið óvænta: Nei, hún væri ekki KR-ingur – hún héldi með Val! Og karlarnir hennar urðu dálítið langleitir í framan.

Félagsgeta hennar var mikil og ef slitnaði upp úr hjúskap í fjölskyldunni skildi tengdafólkið þó ekki við Önnu eða missti tengslin. Hún var áfram vinkona þó hjúskapur breyttist. Og Anna hafði auga fyrir fólkinu sínu, fann hvað kom þeim best og hvers þau þörfnuðust. Og afstaðan var svo jákvæð og elskuleg, að hún blés þeim í brjóst, að þau væru elskuð og í miklu uppáhaldi.

Ættmóðirin og móðernið

Það var merkilegt að hlusta á fólkið hennar Önnu tala um konur og karla, stjórnun og jafna stöðu. Boðskapur þeirra er skýr: Í þeirra fjölskyldu eru jafnréttismál ekki vandamál. Konur eru einfaldlega virtar. Og ég hlustaði á túlkun þeirra og álit. Karlarnir áttu ekki í neinum vandræðum með að vinna á stöðum, sem konur stýrðu og konurnar áttu ekki í neinum klípum með að axla ábyrgð og að beita sér. Af hverju? Og þá upplaukst fjölskylduleyndarmálið. Fjölskyldan hafði notið sterkrar konu. Anna Ósk Sigurðardóttir var ættmóðir og öflug kona. Hún hafði sterka návist, skýra stefnu, opinn huga og visku, miðlaði styrk, seiglu og öryggi, kenndi lífsgildi og var börnum sínum og afkomendum stoð og stytta. Þegar barnabörnin komu í heiminn aðstoðaði hún. Hún tók þessi börn til sín eða var þeim dagmamma á heimilum barna sinna. Og vegna þessa tengdust og ólust barnabörnin upp í stórum hóp. Hún kenndi þeim margt t.d. að lesa og mótaði þessa sterku og umtalsjákvæðu fjölskyldu. Því á þetta fólk ekki í vandræðum með jafnrétti kynja, sterkar konur og jákvæða karlmennsku. Þannig náði Anna að verða fólkinu sínu Óskastjarna, sem þau hafa getað miðað við á lífssiglingu sinni. Og þið megið alveg íhuga speki Önnu og leyfa öllu hennar góða að umvefja ykkur og verða ykkur til blessunar og nota í uppeldi barna framtíðar. Anna vann vel úr sínu og er fyrirmynd um svo margt.

Og svo er trúarvíddin skýr í þessum efnum. Af tengslum við fólkið okkar þiggjum við sjálfsmynd og tengslafærni. Félagsmótun Önnu-fjölskyldunnar er ekki aðeins kvenvinsamleg, heldur eru trúarvíddirnar kvenlegar þar með. Þau, sem reynast okkur best í lífinu, verða gjarnan fulltrúar Guðs. Þó Anna hafi kannski ekki verið með Guðsorðið á vörunum alla daga varð hún ásjóna himinsins í lífi ykkar margra. Og það hefur verið boðskapur kristninnar frá öndverðu, að við eigum að vera ljósberar, fulltrúar hins góða í samskiptum við annað fólk. Jesús Kristur gekk erinda Guðs í þessari veröld með róttækum hætti. Anna Ósk Sigurðardóttir gekk erinda himinsins með marvíslegu móti – og enn róttækari hætti, en annars hefði orðið því hún reis undir kröfum og væntingum.

Og nú er hún horfin og fædd í himneska Viðey. Hún er óskabarn. Nú er hún horfin inn í hið stóra móðurfang Guðs. Og þú mátt leyfa henni að lifa í þeim himni. Anna sá á eftir manni sínum, en leyfði honum að eiga sér virka nánd í sögu fjölskyldunnar. Leyfið henni að vera nærri í lífi ykkar með sögum, hlátrum, gleði, festu, jákvæðni og skemmtilegheitum. Guð geymi Önnu Ósk, Guð geymi þig og blessi.

Minningarorð við útför 10. maí 2011