Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Þórólfur Meyvantsson + líf og gleði

þórólfurÞórólfur og Guðrún kynntust á skólaballi í Mýrarhúsaskólanum á Seltjarnarnesi. Guðrún missti hæl undan öðrum skónum og það er bagalegt á balli. Þá snaraði sér að henni myndarlegur piltur. Þar var kominn Þórólfur Meyvantsson – sagðist vera á vörubíl, með græjur til viðgerða. Hann gæti lagað hælinn ef hún nennti að fara með honum út í bíl. Hún fór og hélt á hæl í hendi. Þórólfur brá sér í hlutverk skóarans, mundaði hamar og festi hæl við skó með myndarlegum nagla.

Þessi upphafskynni þeirra eru sjarmerandi. Og svo er broslegt að ungur piltur fékk lánaðan vörubíl pabbans til að fara á ball. Hvers konar flutninga hafði hann í hyggju? Svo sá hann stúlkuna bæði hællausa og ráðalausa. En Þórólfur kunni á dansandi fólk, öll hans fjölskylda sótti út á gólfið og kannski hafði hann fest hæl áður? Það skal vanda sem lengi skal standa. Best að byrja á grunninum og hælfestan dugði þeim vel því þegar minnst er á annað þeirra hjóna þá kemur hitt í hug. Þau voru vinir og bandið milli þeirra var ást, virðing, vinátta og svo auðvitað kátína og hlátur.

Fjölskylda og samhengi

Þórólfur Meyvantsson fæddist í Reykjavík 23. ágúst 1923. Foreldrar hans voru Björg María Elísabet Jónsdóttir og Meyvant Sigurðsson. Hún var að austan og hann fæddist í Selvoginum. Þórólfur var þriðji yngstur í systkinahópnum. Hin eru Sigurbjörn Frímann; Þórunn Jónína; Magdalena Valdís; Sigríður Rósa; Sverrir Guðmundur; Ríkharður; Elísbet og Meyvant.

Meyvant, faðir Þórólfs, var einn af frumkvöðlum vörubílabílaútgerðar í landinu og Þórólfur ólst upp við bílamenningu og gat því farið á rúnt og ball á vörubíl. Þórólfur ólst upp á Eiði – sem sem stóð ekki langt frá þeim stað sem verslunarmiðstöðin á Eiðistorgi stendur nú. Þar bjuggu foreldrar hans og fjölskylda um árabil og ráku bú með kindum og kúm – svo var þar mannlífsmiðstöð líka.

Mýrarhúsaskóli var ekki aðeins góður til að æfa skósmíðar eða dansa. Þangað sótti Þórólfur skóla. Þegar hann hafði aldur til fór hann á sjó og var um áratugi matráður á skipum. Nærri lokum seinni heimsstyrjaldar var hann munstraður á Ólaf Garðar frá Hafnarfirði og svo síðar Mars. Síðan komu nýsköpunartogararnir sem hann var á líka. Þegar stærri togarar voru keyptir til landsins var Þórólfur líka uppfærður. Hann var m.a. á togurunum Bjarna Benediktssyni og Surprise.

Þórólfur var umhyggjusamur félagi skipverja, hafði metnað í starfi og þótti mikilvægt að hlúa vel að félögum sínum því góður kostur á sjó skiptir miklu og gerir oft gæfumun um móral um borð. Þórólfur stundaði stíft gæðaeftirlit í eigin verkahring og hikaði ekki að skila kjötpoka ef heildsalinn sendi hækla og beinahrúgu. Borðnautar hans áttu ekkert nema það besta skilið. Vinnuveitendur Þórólfs virtu hann, vissu að hann kunni að reikna og stýrði innkaupum svo að mötuneyti hans var rekið með hagkvæmni þótt kosturinn væri afbragð. Þórólfur taldi ekki eftir sér að mæta fyrstur um borð til að elda matarmikla kjötsúpu. Allir fengu vel að borða, gátu hvílt sig á ústíminu og voru tilbúnir í atið þegar út var komið. Þórólfur hafði lagt grunn að árangri áhafnar, eldaði með gæðum og natni og kryddaði með glettni og gamansemi. Þórólfur var metinn vegna kosta og visku og naut jafnrar hylli útgerðaraðila og áhafna. Slíkir voru og eru vandfundnir.

Svo átti kokkurinn jafnvel til að toppa góða máltíð með því að lesa fyrir áhöfnina úr dagblaði valda en stórkostlega frétt sem var svo ágeng og beinskeytt að upplesturinn hafði bein áhrif og breytti jafnvel lífi einhvers þeirra til hins betra. Kokkurinn var þá búinn að umbreyta sér í spunameistara og sagnamann. Þórólfur hafði alltaf gaman af að kanna útmörk tiltrúarinnar og kæta glaðsinna efasemdarmenn. Svona vitundarstækkandi húslestra um stórfréttir í lífi tilheyrenda las hann líka við eldhúsborðið heima – sínu fólki til undrunar og skemmtunar.

Síðustu árin á sjó var Þórólfur á björgunarskipinu Goðanum og kom svo í land alkominn árið1990. Hann varð síðan vaktmaður í birgðastöð Pósts og síma og síðan öflugur sendiherra Morgunblaðsins.

Þórólfur hafði lagað hælinn á skó Guðrúnar Eyjólfsdóttur en svo fóru þau í sitt hvora áttina, en gleymdu þó ekki hvoru öðru. Einu sinni þegar Guðrún hafði verið í fjallgöngu með unga fólkinu af Grímsstaðaholti kom Þórólfur í heimsókn heim til hennar. Henni þóttu þær fréttir góðar og Guðrún rataði til Þórólfs. Kannski hélt hællinn og Guðrún sá í Þórólfi andlega getu, ljúflyndi og gleði og hann í henni uppfyllingu drauma sinna. Þau gengu í hjónaband á þjóðhátíðardegi Norðmanna, 17. maí 1949. Þau hófu búskapinn á Eiði og eignuðust þar fyrstu börnin og bjuggu þar í góðu nábýli við nágranna svo íbúunum þykir að þau hafi verið fyrsta kommúnan á Íslandi. Eftir 15 Eiðisár fluttu þau á Dunhaga og eftir það festu þau kaup á húsi foreldra Guðrúnar á Grímsstaðaholtinu, sem var Smyrilsvegur 2 en er nú númer 28 – fallega húsið norðan við Björnsbakarí við Fálkagötu. Meðan þau Þórólfur voru á Dunhaganum bjuggu þau yfir Pétursbókabúð sem þau keyptu og Dúna rak sem Bókabúð Vesturbæjar – og fluttu verslunina svo síðar á Víðimel og ráku til 1986. Árið 1989 keyptu þau Þórólfur og Guðrún íbúð á Aflagranda 40. Þegar hann gat ekki lengur verið heima vegna heilsubrests varð Grund honum athvarf síðustu árin. Guðrún kom til hans alla daga, hressti hann og gladdi. Þórólfur naut góðs atlætis og umönnunar starfsfólks á Grund sem fjölskylda hans metur mikils og þakkar fyrir.

Guðrún var einu sinni í tímaritsviðtali spurð um hvernig þeim Þórólfi hafi tekist að halda sjó í hjónabandinu. Guðrún svaraði skýrt: „Það er ekki velmegun að þakka eða því að við höfum alltaf siglt lygnan sjó í tómri sælu. Síður en svo. Ég orða það stundum við ungt fólk að það sé ekki alltaf rjómagrautur á borðum heldur líka hafragrautur. En ég held að það sé væntumþykja og æðruleysi sem hafi gert útslagið hjá okkur. Það er líka mikilvægt að leysa ágreiningsmálin í staðinn fyrir að hlaupa í burtu frá þeim… …Við erum búin að þekkjast í rúmlega sjötíu ár og vera í hjónabandi í á sjöunda áratug. Það er sterkur strengurinn á milli okkar.“

Þessa þroskuðu visku ástalífsins megum við gjarnan taka til okkar og læra af. Ástarsaga Dúnu og Tóta er hrífandi. Við megum elska mikið og þá getum við kvatt – vissulega með tárum en þó ríkulegu þakklæti eins og Dúna minnti mig á í gær.

Þau Guðrún og Þórólfur eignuðust fimm börn og fjölda afkomenda. Elst var dóttir sem fæddist í maí 1947 en komst ekki til lífs. Gunnar fæddist árið 1949. Kona hans er Jóhanna Friðgeirsdóttir. Þau eiga þrjú börn, níu barnabörn og fjögur barnabarnabörn; Elísabet fæddist árið 1950. Hún á tvö börn og fjögur barnabörn. Meyvant fæddist árið 1951. Kona hans er Rósa Guðbjartsdóttir og þeirra börn eru tvö og fjögur barnabörn. Fimmti og yngstur er Bjarni Þór sem fæddist 1968. Kona hans er Hrefna Sigríður Briem. Þau eiga þrjú börn.

Fyrir átti Guðrún soninn Brynjólf Ásgeir Guðbjörnsson sem fæddist árið 1943. Kona hans er Sigríður Halldórsdóttir og eignuðust þau fjögur börn, átta barnabörn og sjö barnabarnabörn.

Þetta er stór ættbogi og lánlegur. Ég hef verið beðinn að bera ykkur kveðjur frá Madison í Wisconsin, frá þeim Ívari, Emmu og börnum – og einnig frá Stokkhólmi, frá Brynjólfi og Valgerði.

Minningarnar

Hvernig var Þórólfur? Hvað kemur í hugann? Þórólfur var félagslyndur, glaðsinna, glettinn, mildur, nærgætinn og skipulagður. Í honum bjó mikil stærðfræðigeta. Hann hafði gaman af stærðfræðiþrautum eins og mörg ykkar munið. Hvað er bílnúmerið SG fjórðungur af níu hundruð? Og gátuglettnin hljóp í Þórólf og hann horfði niður og beið meðan viðmælendur brutu heilann, stundum með árangri en alltaf með ávinningi, sem jafnvel hjálpaði fólkinu hans í prófum.

Þórólfur hafði þjálfað með sér frásagnarhæfni og lagði gleði við. Hann skemmti sér konunglega þegar tilheyrendur vildu trúa en voru þó ekki viss um hvort hann var að þylja staðreyndir eða krítaði með svo ískyggilega trúverðugu móti að allt gat verið satt en þó líka allt uppspuni. Þórólfur var meistari á þessu Eiði raunheima, kátheima og hvergilands.

Svo var hann talnaglöggur með afbrigðum og stálminnugur. Hann brilleraði í meðferð talna. Og hafði að auki bæði skilning og tilfinningu fyrir flæði og ferlum. Verkefnastjórn hans var því öflug í mötuneytisrekstri og matseld í þágu fjölmennra áhafna. Hann hefði orðið framúrskarandi á öllum sviðum sem þörfnuðust skapandi talnavinnu og lausnaleitar. Og stóra bikarasafnið vegna bridssigra ber þessari samþættingu margra hæfnisþátta vitni. Hann gat beitt skerpu, minni, útreikningum, ferlavitnd, flæði – en líka innsæi í fólk og svo var hann leiftursnöggur að greina sundur og tengja rétt saman. Þetta er það sem heitir greind á venjulegri íslensku.

Þórólfur hafði áhuga á mannlífinu og náði auðveldlega og fljótt að tengjast fólki hvar sem hann fór. Hann var viðkvæmur og hlýr, frómur og þótti miður þegar menn óðu á súðum um menn og málefni. Og hann var nægilega stór til að kunna að þjóna fólki og mikilvægum málum. Hann átti í sér heimafengna lotningu fyrir lífinu, að það er brothætt en fagurt og það sé þess virði að þjóna því. Og hann var svo hreinlyndur gagnvart sjálfum sér og öðrum að hann viðurkenndi eigin víddir og bar virðingu fyrir öðrum og ekki síst Dúnu sinni. Hún svaraði vel og því var hann hamingjumaður. Hann átti ríkidæmi í fólkinu sínu og þau áttu bandamann sinn og lífsins í honum.

Ekki má gleyma pólitíkinni – hún var á hreinu. Þórólfur hefði verið sáttur við að Sjálfstæðismenn halda að nýju um stjórnartauma á Íslandi. Og það skal upplýst að áður en þau Guðrún og Þórólfur gengu í hjónaband hafði hann þegar skráð hana í Sjálfstæðisflokkinn! Þetta var að smella pólitíska hælnum á hana svo göngulagið væri rétt.

Til lífs

Og nú eru skil. Ég minni á að erfidrykkjur eru góður vettvangur til að segja sögur, sem vakna upp í andrúmi kveðjustundar. Segðu sögu af Þórólfi, kynnum við hann, minningu sem gleður og er þess virði að segja frá. Hann vann vel með líf sitt, gerði upp fæðingararf sinn, vann úr lífsefnum sínum, umvafði Dúnu sína, gaf af sér, hleypti gleði að fólkinu sínu, spann og spurði, setti upp gátuglottið, galopnaði faðm og heimili og var í mun að allir nytu gæða sem hann og Dúna gætu veitt.

Nú er hann farinn en minning hans lifir. Og þú mátt trúa að hann lifir í ríki sem við köllum himinn. Þórólfur spurði: Hvað kemst maður langt inn í skóg? Og við getum skipt út og spurt hvað maður komist langt inn í himininn? Sama svarið fyrir skóg og eilífð. Inn í miðju, haldi maður lengra er maður á leiðinni út. Þórólfur leggur ekki lengur fyrir þig gátur. En það er gott að nota svolítið af lífskúnst Þórólfs um himininn. Guð kann spilagaldur lífsins – Guð hefur minni, kunnáttu, útsjónarsemi og ferlavitund bridsspilarans – já í ofurstíl – hefur gaman af slemmum og stórum sögnum. Og ég trúi að Þórólfur geti fengið að krydda hina himnesku kjötsúpu á útstími eilífðar. Þar sé grín, gátuglott, mannúð og friður. Þórólfur rúntar kannski ekki lengur um á vörubíl til að skemmta ástvinum sínum og afkomendum en hin jákvæða bjartsýni kristninnar rímar algerlega við Þórólfslífið. Allt frá Eiði upphafsins var hann blessaður. Og nú má hann búa á hinu himneska Eiði – þar er hann meðal vina. Þar er gott og allir hafa hælana í lagi. Ef ekki þá eru laghentir til reiðu.

Guð geymi hann ávallt og ævinlega og Guð geymi þig, leggi þér til lífsvernd og blessun.

Amen

Guðrún Kristjánsdóttir – tákn og fyrirmynd

Guðrún Kristjánsdóttir 3Rúna var tákn í lífinu – tákn hins góða. Hvernig fólk hefur talað um hana er samhljóða. Ástvinir og samferðafólk minnast góðrar og elskuríkar konu sem var umhugað um aðra, líðan fólks og velferð: „Rúna var góð – hún stóð sig alltaf svo vel – hún var alveg pottþétt.”

Við undirúning útfarar íhuga prestar gjarnan hvernig lífsþættir ríma við biblíustef. Fólkið hennar Rúnu hugsaði stundarkorn þegar presturinn spurði um biblíutenginu. Og svo kom skýrt svar við þeirri spurningu eins og öðrum. Rúnu var annt um upphafsversin í 121. Davíðssálmi:

Ég hef augu mín til fjallanna,

hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni,

skapara himins og jarðar.

Sjón til hæða, upp til fjalla. Hjálp sem kemur úr veruleika hins háleita, góða og fagra. Enginn er alger aðeins af sjálfum sér – við erum tengd, inn á við, til dýpta, við fólk, við djúp og hæðir – og erum kölluð til starfa á þeim reit sem nýtir hæfni. Okkur er falið að annast ungviði og vera í tengslum við ásvini. Hvað verður til lífs, hvaða gildi duga, hvaða lífsafstaða verður til góðs? Og hvað gerum við í erfiðleikum, þegar máttur dvín, minnið daprast og tengingar við veruleikann slitna og hverfa?

Ástvinir Rúnu vissu að hún átti í sér frumvitund trúar, frumtraust til lífsins og Guðs. Hún átti sér athvarf og samhengi. Svo var hún líka sjálf trausts verð í samskiptum. Hún var rún – tákn og fyrirmynd.

Æfi og störf

Guðrún Kristjánsdóttir fæddist 18. október árið 1939 í Reykjavík. Hún var elsta barn hjónanna Emmu Guðmundsdóttur og Kristjáns Gunnarssonar. Pabbinn var á sjó, stýrði skipi en mamman var konan í brúnni heima. Kristján lést árið 1969 en Emma lifir enn – á tíræðisaldri.

Systkini Guðrúnar eru fjögur. Næstelst er Karítas sem fæddist árið 1941. Hún er hjúkrunarfræðingur og búsett í Bandaríkjunum. Gunnar, prestur og fræðimaður, fæddist í ársbyrjun 1945. Ágúst kom svo í heiminn þremur árum síðar – eða árið 1948. Hann lést árið 1989. María Vigdís er yngst. Hún fæddist árið 1954 og starfar við kennslu og þýðingar.

Rúna fæddist við upphaf seinni heimstyrjaldar. Faðir hennar var á sjó öll stríðsárin og Emma, Rúna, Karítas og Gunnar bjuggu við ógn stríðsins. Hver áhrifin urðu á sálarlíf þeirra er enginn til frásagnar um en stríð eru engum lífsbót. Vegna vinnu fjölskylduföðurins bjó fjölskylda Rúnu um tíma á Seyðisfirði og þar sá hún El Grillo fara niður. Svo settist fjölskyldan að í Laugarneshverfi í Reykjavík og Rúna fór í þann metnaðarríka Laugarnesskóla og lauk síðan gagnfræðaprófi frá Austurbæjarskóla árið 1956.

Á sumrin var Rúna send í sveit. Hún var á Akureyjum á Breiðafirði, austur í Mýrdal og best þótti henni að vera hjá ættingjum sínum á Hala í Djúpárhreppi. Þar naut hún sín, fékk laun fyrir vinnusemi, lærði að lesa náttúru og njóta frelsis sveitarinnar, undurs hestamennsku og horfa til fjallanna. Og á Suðurlandi er himininn stór og faðmar fjöll og fólk.

Þegar Rúna hafði aldur til fór hún í Hjúkrunarskóla Íslands og lauk þaðan námi í mars 1963. Hún starfaði um tíma við Sjúkrahúsið á Akranesi og Sjúkrahúsið í Eyjum og síðan á Landspítalanum í Reykjavík. Síðan fór hún til starfa í Kaupmannahöfn sem veitti henni faglegt veganesti. Hún var á barnadeild Köbenhavns Amts Sygehus í Gentofte og síðan á lyflækningadeild Sönderbro Sygehus. Rúna fékk því bæði innsýn og útsýn í heimi hjúkrunar og spítala ytra.

Hún fór svo til starfa á Barnaspítala Hringsins árið 1965 og starfaði þar til 1967. Rúna var afburðanemandi, hafði í sér fræðslufærni og var ráðinn til að kenna við Hjúkrunarskóla Íslands á árunum 1967 til 1968 og var nemendum sínum eftirminnilegur kennari. Síðar starfaði hún á Heilsuverndarstöðinni í nokkur ár og þaðan fór hún til starfa í Melaskólanum – hinum megin Neshagans. Margir Vesturbæingar muna eftir henni sem natinni, viðmótshlýrri skólahjúkrunarkonu. Öllum tók hún með ljúfmennsku og það var ekki óttaefni að fara til Rúnu í skoðun heldur var hún traustsins verð. Síðustu starfsárin helgaði Rúna sig hjúkrun aldraðra. Hún vann á öldrunardeild á Landakotsspítala um tíma. Á meðan börn hennar voru ung tók hún gjarnan nætur- og helgarvaktir til að hámarka samvistatíma með ástvinum heima. Lengst starfaði hún samfellt á Hrafnistu í Reykjavík. Árið 1998 var hún ráðin til Borgarspítala í Fossvogi og vann þar á gjörgæsludeild þar til sumarið 2000 er hún lét af störfum sökum eigin sjúkdóms.

Hjúskapur og fjölskylda

Eggert Sigfússon varð sálufélagi og eiginmaður Rúnu. Þau voru nánast jafngömul – á milli þeirra var aðeins vika og hann yngri en hún. Eggert missti föður sinn ungur og fjölskylda hans flutti frá Hvolsvelli í bæinn. Hann lenti í sama bekk og Rúna. Henni varð á þessum árum starsýnna á hann en honum á hana. Svo skildu leiðir. En þegar Eggert var við lyfjafræðinám í Höfn átti handboltalandslið Íslands erindi til Danmerkur til að keppa við landslið þarlendra. Íslendingar fjölmenntu á leikinn og Eggert var meðal þeirra. Volkswagenrúgbrauð var leigt og einn farþeganna var Rúna, falleg íslensk stúlka sem Eggert hafði auga fyrir. Þá sá hann hana! Svo hittust þau aftur á myndakvöldi til að rifja upp landsleiksviðburðinn. Og þá sáu þau hvort annað enn betur. Ástin kviknaði og þroskaðist og þau fóru að fara út saman. Þau rugluðu reitum og bjuggu hér í Vesturbænum. Svo höfðu þau samband við prest í Neskirkju og gengu fyrir altari þessarar kirkju til að segja sín hjúskaparjá á jóladegi 1967. Þá hófst hamingjuferð þeirra Rúnu og Eggerts og mikið eiga þau íslenskum handbolta að þakka! En sundið varð þó fjölskyldusportið og börnin þeirra sundkappar.

Þau Eggert eignuðust þrjú börn. Sigríður Anna fæddist í október árið 1968. Hún býr í Noregi og er arkitekt. Maður hennar er arkitektinn og jóladrengurinn Eirik Rönning-Andersen. Þau eiga Ylvu og Frey.

Karítas fædddist svo í mars 1971. Hún er tækniteiknari. Maður hennar er Heiðar Einarsson verkfræðingur. Karítas á þrjú börn. Elstur er Hlynur Sigurðarson og síðan eru Rakel og Einar Atli – Heiðarsbörn.

Rúna og Eggert eignuðust Kristján í ágúst 1973. Hann er arkitekt. Kona hans er Theresa Himmer myndlistarmaður og arkitekt.

Það hefur verð hrífandi að hlusta á fjölskylduna tala um Rúnu, finna fyrir virðingunni sem ástvinirnir tjá vel í hennar garð. Hún ól önn fyrir þeim öllum, var þeim traust og gjöful, glöð og stöndug – og skilaði þeim til lífs og hamingju. Ástvinum og söfnuði senda hollsystur samúðarkveðjur. Þær eru útskriftarárgangur Rúnu. Hega Ólafsdóttir vinkona Rúnu biður um að í útfararræðu sé minnst á að sérstakar samúðarkveðjur séu frá þeim hollsystrum sem búsettar eru erlendis (útskriftarárgangurinn úr Hjúkrunarskólanum).

Minningar um Rúnu

Hvernig manstu Rúnu? Mörg ykkar vitið að alzheimer-sjúkdómurinn herjaði á Rúnu síðustu árin sem sleit tengingar hennar við tilveruna. Það nístir að sjá ástvin sinn tærast upp innan frá, styrka konu veiklast og hverfa svo inn í veröld handan tjáningar og tengsla. Hvernig er hægt að vinna úr þeirri upplifun?

Minningar er hægt að orða, færa í tal og segja frá. Til að sefa sorg er gott að segja sögur. Í því er undur fólgið að gæla við nöfn fólks og segja frá minningu í framhaldinu. Nefndu nafnið hennar og segðu sögu.

Þegar fólk verður fyrir áföllum og sorg leitum við í hæðir. Hvaða kemur þér hjálp? Hvað verður til að styktar þegar við líðum. Orð eru mikilvægur farvegur tilfinninga. Ég legg til að þú notir erfirdrykkjuna hér á eftir til að segja sögu um Rúnu. Hvernig kynntistu henni? Gerði hún þér einhvern tíma gott? Að hverju dáðistu í lífi hennar? Mannstu hvað vel hún hjúkraði bróður sínum? Hún var eins og fjölskyldulæknir, greindi vel, var heima í mörgum hjúkrunar- og lækningagreinum og gat því bent til vegar ef áhyggjufull ættmenn vissu ekki hvað gera skyldi.

Mannstu eftir ferðaflugunni Rúnu – hve mikla gleði hún hafði að fræðast og skoða veröldina. Hún fór meira að segja allan heimshringinn með systurinni Karítas. Og hún sótti til fjalla, ekki aðeins í andlegum skilningi heldur til að njóta, tína ber, draga í sig liti og upplifanir – næra sálina. Og þar sem hún hafði góðan skilning á heilsufæði náði hún í fjallagrös fyrir seyði. Og svo bar hún hollustuna á borð og líka heimatilbúna jógurt sem var misvinsæl. Með heilsuræktaráherslu og fæðuvitund var Rúna var tákn um nýjan tíma, á undan sinni samtíð og hefði notið lífrænu vakningar nútímans. Hún var sem rún heilsuræktar.

Manstu eftir ást hennar á dýrum – einkum hestum? Eða dansáhuganum? Rúna naut hreyfingar, fjörs, gleði og fótfimi. Eggert var kannski ekki tangómeistari en það var gaman að sjá blikið og fögnuðinn í augum hans þegar hann talaði um Rúnu dansara.

Hún las mikið, var sólgin í þekkingu og fylgdist vel með. Hún var sá afburðanemandi að hún hefði orðið framúrskarandi í þeim greinum sem hún hefði ákveðið að stunda, fræðilegum sem verklegum. Rúna var handlægin, listfeng og skapaði með höndum ef hún hélt ekki á bók.

Manstu hve umhyggjusöm hún var? Hún var elsta barnið í systkinahóp og gekkst við ábyrgð sinni. Þegar bróðir hennar veiktist á unglingsaldri var hún reiðubúin að þjóna honum og létta undir með móður og ástvinum. Á þessum tímamótum er vert að þakka óeigingjarna þjónustu hennar á sama tíma og börnin hennar voru ung og hún hafði í mörgu að snúast. Henni var ekki aðeins fagmennska eðlileg heldur knúði mannelska, mannúð og umhyggja hana í störfum. Hún var fyrirmyndar hjúkrunarfræðingur og fyrirmynd í hvernig samskipti fólks eiga að vera og hvers ber að gæta. Rúna var umtalsfróm og bar hag fólks fyrir brjósti, á vinnustað, í fjölskyldu og meðal ástvina. Áttu sögu að segja um það efni?

Manstu hvað hún gerði miklar kröfur til sjálfra sín og hve vel hún reis undir þeim? Hún setti markið hátt í flestum efnum og kröfur hennar gerði hún fyrst til sjálfrar sín. Hún var fyrirmynd í því einnig.

Hef augu til fjalla

Svo horfði hún til hæða. Hún þáði í arf jákvæða lífssýn og lífstrú. Guðstrú á heimili Rúnu var eðlileg og því gat fólkið hennar horft á eftir henni inni óminnið og síðan eilífðina því sálin hennar lifir.

Nú eru skil – Rúna er horfin inn í himin handan fjalls. Og svo máttu trúa að hjálpin kemur frá skapara himins og jarðar. Rúna var tákn um allt hið góða sem Guð gefur. Rúna var fyrirmynd um elskusemi, mannúð og fegurð. Í þeim og hennar anda máttu lifa. 121. sálmur endar með stóru faðmlagi: Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

Góður Guð varðveiti Rúnu að eilífu. Guð varðveiti þig – Amen.

Minningarorð við útför i Neskirkju 15. maí, 2013.

Póesía lífsins – Baldur Óskarsson +

Baldur ÓskarssonBókmenntaunnendur þekkja orðið “póesía” – orð sem er í mörgum útgáfum í vestrænum tungumálum. Að baki öllum póetískum ljóðnefnum og ljóðafleggjurum er hið fallega gríska orð poiesis, ποίησις. Það er ekki aðeins snoturt á blaði, heldur þrungið merkingu. Það táknar ekki aðeins það, að stafla orðum í ljóð, heldur líka hið hagnýta, að vinna, búa til með höndum, kalla fram líf og hlúa að því. Að ljóða er að gera – að skapa. Að ljóða er líka það að tengja himin og heim.

Meðal Grikkja og Hebrea var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, starfa, sköpunar, já raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Samkvæmt þessum skilningi var handverk aldrei sálarlaus iðja heldur átti sér líka andlegar víddir. Þessi speki er hagnýt. Handverk við ritvél eða tölvu, í eldhúsi, garði, námi, við bleyjuskipti, já öllu ati lífsins á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki, sem við kunnum að hugsa getur á hinn bóginn heldur aldrei lifað nema hún eigi sér hagnýta skírskotun í pólitík, í listum og í deiglu samfélagsins. Lífið er eitt og fólk fornaldar vissi, að lífið á sér framvindu, bæði andlega og efnislega. Allt er tengt og allt er á hreyfingu. Lífið var og er gjörningur, samfelld póesía.

Og Baldur var maður póesíunnar, altengdur hræringu lífs, músík náttúrunnar, hann sniðlaði texta og vann þar með lífinu. Skáldskapur hans var djúpfundinn, myndmálið kraftmikið en þó einnig torrætt, litríkið mikið í málverki orðanna. Innri rými mannsandans urðu Baldri rannsóknarefni, menningarsagan kitlaði og málverk hrifu og gerningurinn varð í skáldinu, poiesis.

Tíu ára drengur austur í Rangarvallasýslu gat skynjað djúpt, lifað stórt og tengt upplifun við orð. Og í skáldinu -sem túlkaði bernskureynsluna – bjó líka kímni sem gat horft til baka til fólksins sem hann þekkti í uppeldi sem hafði líka gleði af uppátækjum barnsins. Í ljóðinu

Hvert ertú að fara gamli maður? segir skáldið Baldur um sjálfan sig og hina gjafmildu og kímnu Guddu í austurbænum:

Ég var tíu ára

Gamla konan í austurbænum

færði mér gullpening spegilfagran

 

Ég furðaði mig á því

að gömul fátæk kona

skyldi gefa mér slíkan fjársjóð

 

Það var um það leyti

sem ég tók uppá því

að ganga álútur

 

Hvert ertú að fara?

sagði hún stundum

og hermdi eftir mér

Hvert ertú að fara gamli maður?

 

Gudda, ég veit það ekki

 

Kannski upp á veg

Vonandi held ég höfði

þökk sé þér

 

Ég er að fara

 

Ætt og uppruni

Baldur Óskarsson fæddist í Hafnarfirði 28. mars 1932. Hann var gefinn nýfæddur. Hann ólst ekki upp hjá blóðforeldrum sínum Óskari Eyjólfssyni og Ingigerði Þorsteinsdóttur heldur var settur í fang móðurbróður sínum og konu hans. Þau urðu fósturforeldrar hans, hjónin Sigríður Ólafsdóttir frá Austvaðsholti í Landssveit og Þorsteinn Þorsteinsson frá Berustöðum. Þau bjuggu á Ásmundarstöðum í Holtum.

Þegar í frumbernsku var Baldri hliðrað til. Kannski var hann í hliðrun alla tíð síðan? Hann þekkti foreldra sína og var aldrei leyndur uppruna sínum og bjó við ríkulega elskusemi fósturforeldranna sem hann mat og þakkaði. Hann naut tveggja heima sýnar í foreldramálum og varð síðan maður margra heima í lífinu. Hann megnaði að vera eitt en sjá til annars, rækja köllun sína en sinna skyldustörfum einnig.

“Leit inn í heiminn lifandi barn.” Og Baldur var vissulega þegar í bernsku alnæm kvika og teygaði í sig orð aldanna sem hljómuðu í sveitinni, þjálfaði fásinnisminni sem aldrei brást honum síðan, lærði að skynja tónlist í veðri, mosa og fólki, lærði að nema speki íslenskra sagna, gleðjast yfir litríki ljóða og sjúga í sig lífmagn bókmennta.

Á Ásmundarstaðaheimilinu naut Baldur klassísk-íslenskrar menntunar og mótunar. Og einn þáttur þess var að lesa Biblíuna. Fólkið hans Baldurs tók líka á móti öllum gagnrýnum straumum samtímans (Þorsteinn Erlingsson et.al). Baldur lærði því við fóstru – og fóstrakné list hinnar gagnrýnu samstöðu sem dugði honum vel í lífinu. Svo hafði fólkið á Ásmundarstöðum líka tíma til að tala, ræða málin og einnig kenna flókin fræði með einföldum og skýrum hætti.

Í einu ljóðinu segir Baldur frá að hann horfði á fóstru sína stinga prjóni í gegnum bandhnykil sem hún hallaði síðan. Með hjálp þessra einföldu kennslutækja skýrði hún fyrir drengnum möndulhalla og hringekju jarðar og gang pláneta. Og drengurinn lærði ekki aðeins stjörnufræði heldur naut að auki lífsspeki fóstru sinnar – og tók eftir dagsbirtunni í augum hennar þegar hún fræddi hann. Stóru himinvíddirnar og geimmál fylltu hann geig en síðar kom gleði. Hnykill og prjónn urðu tilefni póetísks gernings. Í þess konar hliðrun stækkar vitund, orð raðast saman, hinu efnislega er stefnt til hins óefnislega og ný merking verður til. Við lærum frá hinu þekkta og fikrum okkur til hins óþekkta. Það er póesía náms og menntunar.

Baldur lærði að vinna en uppgötvaði einnig snemma að hann þurfti tíma með sjálfum sér til að sinna eigin innri manni. Hann samdi meira að segja við sitt fólk um að hann fengi einkatíma hluta dags til eigin iðju. Slitsterk menning og viska Íslands seitlaði inn í drenginn, náttúran varð honum ofurfang móður sem hann átti trygga alla tíð.

Og hann var tilbúinn að fara að heiman og fara raunar langt í tíma, rúmi og menningu.

Baldur fór í Skógaskóla, síðar í lýðháskóla í Svíþjóð. Svo heillaðist hann af Barcelona og spænskri menningu, lærði listasögu í Katalóníu, naut lífsins þar syðra, heillaðist af fegurðinni, hljómum málsins og þýddi spænsk skáld.

Baldur var allur í orðum en lifibrauðið hafði hann af einkum af blaðamennsku. Hann var blaðamaður á Tímanum 1957-64, skólastjóri Myndlistarskóla Reykjavíkur 1965-73 og starfaði í áratugi sem fréttamaður og við dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu.

Hjúskapur og börn

Kona Baldurs var Gunnhildur Kristjánsdóttir og þau nutu barnaláns. Börn þeirra eru þrjú:

 

Sigrún er elst og hennar maður er Gunnbjörn Marinósson. Þau eiga Baldur og Björk og tvö barnabörn.

Árni Þormar er í miðið. Hans kona er Valgerður Fjóla Baldursdóttir. Þau eiga dæturnar Valgerði Erlu og Gunnhildu Erlu og eitt barnabarn.

Magnús er yngstur og hans kona er Áslaug Arna Stefánsdóttir. Þau eiga dæturnar Kolku og Tíbrá.

Af Baldri eru því á lífi tólf afkomendur.

Fjölskyldulífið var fjölbreytilegt. Foreldrarnir reru frekar á djúpmið í menningarefnum en á grunnsævið. Listræn kvikmynd var eftirsóknarverðari en teiknuð afþreyingarmynd. Baldur vildi að börnin hans nytu geimupplifunar of fór með þau ung á Stanley Kubrick-myndina 2001 Space Odyssey með þrumandi Also sprach Zarathustra.

Og þor og frelsi náði líka til kosts og matar. Fjölskyldan fór gjarnan í gúrmetískar reisur í Hvalfjörð til tína kræklinga og efna til veislu.

Og heima sagði Baldur sögur, fór með börnin sín og barnabörn í langferðir ævintýra, ljóðheima og furðuheima lífsins. Ljúflyndi og hæglátt ástríki hans smitaði og skilaði. Það hefur hrifið mig mjög þessa síðustu daga að fylgjast með hve góð börnin hans og fólkið hans Baldurs eru hvert við annað – eins ólík og þau eru – þau hafa í sér dýpt virðingar, kímni og elskusemi sem Baldur miðlaði, heimilislífið einkenndist af og þau endurspegla síðan áfram í lífi og starfi.

Bókamaðurinn

Ritferill Baldurs spannar hálfa öld. Ritstörfin voru honum ástríðumál alla tíð og þó hann yrði að fara snemma á fætur til daglaunavinnu sat hann oft við ritstörf fram á nótt. Fyrsta verk hans var smásagnasafnið Hitabylgja sem kom út árið 1960. Þremur árum síðar kom út eftir hann skáldsagan Dagblað. Fyrsta ljóðabókin Svefneyjar kom út árið 1966. Baldur gaf út samtals fjórtán ljóðabækur og sú síðasta kom út árið 2010, Langt frá öðrum grjótum. Enn eru til óútgefin ljóð. Baldur var alltaf að – til hinsta dags.

Baldur var alla tíð á tali við fyrirrennara sína í heimi menningar og opnaði veru sína fyrir snilldinni, leyfði lífsmættinum inn í sig. Ljóðlist hans er myndrík því hann skoðaði myndlist alla tíð og hafði mikinn áhuga á henni. Mörg torræð ljóð opnast þegar myndlistartengslin verða ljós. Baldur var maður lita í ljóðum, hann hafði agað formskyn og vandaði frágang og vann verk sín til enda á blaði. Málfar Baldurs var agað og við sem áttum orðastað við Baldur vitum hve orðaforði hans var ríkulegur sem skilaði sér í ljóðlistinni. Viðfangsefni hans eru fjölbreytileg, náttúra, rök tilverunnar, tíminn, eðli reynslunnar, bernskan og myndmál.

Og kímni Baldurs kemur víða fram og oft sem mjúk stroka elskuseminnar. Og sem guðfræðingur hef ég haft gaman af kíminni hlýju í meðferð Baldurs á hinum trúarlegu stefjum.

Auk eigin ljóðagerðar fékkst Baldur við ljóðaþýðingar og þmt á verkum Federico Garcia Lorca. Baldur hafði löngum mikil samskipti við myndlistarmenn og hafði áhuga á myndlist. Hann skrifaði líka um myndlist í bækur og tímarit.

Baldur Óskarsson hefur í marga áratugi notið virðingar íslenskra orðavina. Þrátt fyrir torræðni póesíu hans hefur hann hefur verið metin og óumdeildur jöfur í íslenskri ljóðlist. Og það var vel og var honum sjálfum gleðiefni er hann hlaut verðlaun úr rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins árið 2011.

Frammi í safnaðarheimilinu eru nokkrar af bókum Baldurs sem þið getið skoðað. Ég veit að talsvert er óútgefið af ljóðum Baldurs og ástæða til að koma út. En ég held einnig að komið sé að því að gefa út safn ljóða hans og koma þeim á einn stað – og líka á vefinn. Baldur Óskarsson er án nokkurs efa einn af hinum stóru í íslenskri ljóðlist tuttugustu aldar.

Baldur ákvað snemma að búa ekki við fé eða skepnur í lífinu heldur við orð. Alla ævi bar hann saman orð og þjónaði orðlistinni. Og hann stóð sig frábærlega í þeim búskap. Æviverk hans er ríkulegt og fjölbreytilegt og við ævilok vil ég þakka hið framlag hans til íslenskrar listar og menningar.

Við skil hef ég verið beðin að bera þessum söfnuði kveðjur frá Baldri og Vallý og einnig afastúlkunni Björk Gunnbjörnsdóttur.

Hinn póetíski Guð

Verðandi veraldar er hrífandi. Í öllum bókum Biblíunnar er minnt á, að Guð er ekki fjarlæg, upphafin vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur, að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur aldrei þrátt fyrir mannabresti. Já, að skilningi trúarinnar er Guð stórskáldið, sem yrkir heiminn, yrkir mennina, nýtur lífsins, er sjálfur hin mikla póesía lífsins, líka þegar allt er þrotið, búið, týnt og brotið.

Fagnaðarerindið er að lífið er góður gerningur, póesía elskunnar. Þegar lífi lýkur og hvíti vegurinn – eins og Baldur kallaði hann – er framundan mætir ljóðmögurinn besti, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himininn. Þar má Baldur búa og hrífast, njóta linda hins lifandi vatns. Veröld Guðs er mögnuð og Guð er hrífandi. Baldur var á heimleið alla ævi – og nú er hann kominn heim.

Guð geymi Baldur um alla eilífð. Guð varðveiti þig.

Amen.

Vegna bálfarar verður ekki jarðsett í dag. Við lok þessarar útfararathafnar verður fallega kistan hans Baldurs borin út og að henni geta allir gengið að til að kveðja. Síðan verður erfidrykkja í safnaðarheimilinu strax. Baldur skrifaði á einum stað um að honum hefði líkað erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju þar sem áfengur drykkur var í boði – og þannig verður það og í samræmi við vilja hans!

Til laugar gengur þú einn skrifaði Baldur í ljóðinu Hóllinn

Hóllinn minn veðraði –

gamalt sker

 

Þar sem brimaldan söng

heyrist mófuglatíst

 

Tönn er

úr manni

í sandinum svarta

Hægt

líður tíminn

og hægt

eyðist hollinn

 

Holurt í renningi –

rökkvar í hjarta

 

…Holurt í renningi…

rennur upp sólin

Þú yfirgefur hið liðna hægt

og hægt tognar á strengnum sem bindur þig –

blóður ertu

 

Til laugar gengur þú einn

Minningarorð um Baldur Óskarsson í Neskirkju 24. apríl, 2013.

Bálför og jarðsett verður í Fossvogsskirkjugarði.

Þorbjörg Þórarinsdóttir – minningarorð

Þorbjörg Þórarinsdóttir2Þorbjörg var síðustu árin á leið heim, heim í Svarfaðardal, heim í fang þess fólks sem hafði elskað hana og hún hafði elskað. Þannig för á sér önnur rök en asaerindi daganna – og er eiginlega tákn um að lifa – gerninginn að lifa.

Ævi manns er ekki aðeins það að fara að heiman, menntast og sinna og ljúka hjúskparerindum og vinnuverkefnum lífins – heldur að lifa vel. Að fara heim er ekki aðeins að snúa til baka til bernskustöðva og vera þar við lok lífs – heldur er æviferðin leiðin heim – en svo er það lífslistarmál hvers og eins með hvaða hætti og í krafti hvers heimferðin er farin og hvernig.

Í 90. Davíssálmi segir:

“Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Bæir og byggð falla – eins og tjáð er í næturljóði úr Fjörðum. Börn fæðast og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað. Lofstýr manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem nú lifnar – “hverfið aftur…”

Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina í þessu ljóði guðsmannsins Móse:

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?”

Ævistiklur

Þorbjörg fæddist á Tjörn í Svarfaðardal 6. mars árið 1914 og var elst systkina sinna. Kristján var næstur í röðinni, Hörtur sá þriðji og Petrína yngst.

Tíma má marka með ýmsu móti. Þorbjörg var nærri tíræðu þegar hún féll frá og nú þegar Tjarnarsystkinin eldri eru öll lýkur eiginlega aldarskeiði í lífi afkomenda Þórarins Eldjárn og Sigrúnar Sigurhjartardóttur á Tjörn.

Þorbjörg naut kennslu heima fyrstu árin enda pabbinn barnakennari. Svo fór hún inn á Akureyri og lauk þar gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum. Síðan fór Þorbjörg einnig á hússtjórnarnámskið austur á Hallormstað.

Heima gekk Þorbjörg í öll verk – og móðursystir mín sagði mér – að Þórarinn hafi treyst Þorbjörgu dóttur sinni sem afleysingakennara þegar hann gat ekki sinnt kennnslu. Svo fór Þorbjörg suður og fór að vinna fyrir sér.

Heimurinn var að breytast, ekki bara að lokast heldur líka að opnast, á fjórða áratugnum. Eins og jafnaldrar hennar horfði Þorbjörg löngunaraugum út fyrir landsteina. Kristján, bróðir hennar fór utan til náms og þegar Þorbjörgu bauðst að fara til Danmerkur tók hún skrefið og var um tíma vinnukona á heimili íslensks sendiráðsstarfsmanns í Kaupmannahöfn. Hún varð vitni að innrás í Dannmörk. Og þá voru góð ráð dýr og amasöm. En þá sem oftar var hún á heimleið og komst með Esjunni í síðustu ferð, sem síðar var kennd við Petsamó. Þessi ferð heim var löng og krókótt, en hún sá Þrándheim og kom við í Skotlandi einnig og naut fjörmikils þröngbýlisins á leiðinni. Og alla leið komst hún.

Áratugurinn 1940-50 var fjölbreytilegur tími í lífi Þorbjargar. Hún hafði löngum huga við nál og handverk. Hún vann um tíma á saumastofu sem bar það rismikla nafn Gullfoss. Og þegar Myndlista- og handíðaskólinn var stofnaður stundaði Þorbjörg nám þar. Og svo kenndi hún einnig um tíma í húsmæðraskólanum á Laugarvatni.

Engum sögum fer af samdrætti þeirra Þorbjargar og Sigurgeirs Stefánssonar. En það hefur varla spillt að hann var Eyfirðingur, frá Kambfelli í Djúpadal. Þegar þau kynntust lauk fyrri hálfleik í lífi Þorbjargar og hinn seinni hófst. Árið 1950 markaði þennan seinni hluta. Það ár gengu þau Þorbjörg og Sigurgeir í hjónaband og Þórarinn fæddist þeim einnig. Arnfríður Anna kom svo í heiminn tveimur árum síðar.

Kona Þórarins er Anna Rögnvaldsdóttir. Þeirra sonur er Ragnar.

Maður Önnu er Ellert Magnús Ólafsson. Þeirra synir eru Þorgeir, Ómar og Arnar Magnús. Kona Ómars er Lára Orsinifranca.

Þorbjög og Sigurgeir hófu búskap á Seljavegi en fluttu síðar á Sólvallagötu 50. Þau keyptu húsið og gerðu upp. Meðan börnin voru ung stundaði Þorbjörg saumavinnu heima, tók á móti fólki sem vildi nýjar flíkur eða hafði séð falleg föt í erlendum tískublöðum. Þorbjörg var listamaður á sínu sviði og kunni líka að breyta gömlu í nýtt. Hún var fengin til að kenna í Námsflokkum Reykjavíkur að sauma upp úr gömlum fötum. Það var hagnýt endurvinnsla sem hún kunni vel. Um tíma vann Þorbjörg á samastofunni Model magazin og síðustu árin nýttist hæfni hennar á saumastofunni á þvottahúsi ríkissítalanna.

Saumsporin hennar nýttust því mörgum í tæpri stöðu.

Þegar aldur færðist yfir seldu þau Þorbjörg húsið á Sólvallagötu og fluttu í Hafnarfjörð. Þau keyptu íbúð í sama húsi og Anna og Ellert og höfðu gleði og gagn af sambýlinu og nut samskipta við afkomendur sína. Þar bjuggu þau þar til Sigurgeir féll frá og Þorbjörg þar til hún flutti vegna heilsubrests í Víðines. Ævigöngunni lauk hún svo í Mörkinni þar sem hún lést.

Við þessi tímamót hafa Páll og Árni synir Stefáns og Petrinu beðið fyrir kveðju frá þeim og fjölskyndum þeirra.

Viturt hjarta

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Hvað er viska? Það er viska að bera virðingu fyrir lífi og lifendum. Það er viturlegt að lifa og lifa vel. Það er mikilvægt að nýta sér gleðiefnin til skemmtunar og vera sterkur hlekkur í keðju kynslóða.

Hvernig var Þorbjörg? Hvernig mannstu hana? Já, hún ar hógvær, ljúf, lítillát, traust, skörp, minnug í níutíu ár, trygg, hjálpsöm, bóngóð, skemmtileg.

Gleymdi ég einhverju? Hún var natin við fólkið sitt, ömmstrákana, umburðarlynd, tillitssöm en líka ákveðin, fróðleiksfús, söngvin, listræn.

Eitthvað fleira? Já, raunar margt. Þú mátt gjarnan bæta í sjóðinn og til þess eru erfidrykkjur góðar. Þar má halda ræður og ykkur Tjarnarfólki verður ekki orða vant ef þið viljið kveða ykkur hljóðs! En mér eru skorður settar og ég virði þann vilja Þorbjargar að umsagnir um hana verði ekki sem vorflóð.

Hún var á heimferð – á leið heim – norður. Fjöllin á Tröllaskaga eru dásamleg og laða. Austurlandsfjöllin handan fjarðar blasa við frá Tjörn og allur fjallahringurinn gælir við augu, Vallafjall, Rimar, Skíðadalsfjöllin með jökuglennu og svo Stóllinn, sem er sannkölluð augnhvíla, hvaðan sem hann er litinn.

Og við sem höfum gengið fjöllin ofar Tjörn vitum hve vel staðurinn er í sveit settur. En Tjörn var og er reitur fyrir líf, ræktun, menningarstarf og virðingu fyrir lífinu. Því get ég tjáð fyrir mína hönd og margra þökk Tjarnarfólki fyrr og síðar fyrir lífsrækt þess. Þau Tjarnarsystkin voru til fyrirmyndar. Þökk sé þeim og Þorbjörgu. Nú er öld lokið. Og Þorbjörg á leið heim.

Ágústínus kirkjufaðir minnti á að lífsgangan er sveigur, Guðssveigur. Hvaða leið sem við förum, hvaða fjöll sem við klífum og hvaða blóm sem við lútum að eru lok – og við hverfum í faðm eilífðar.

Þorbjörg saumar engin spor framar eða brosir við gæðum og góðu fólki. Hun sönglar enga sálma lengur nema þá í einhverjum öflugum Tjarnarkór himinsins. Hún rifjar ekki upp fótraka bernskunnar en kannski öslar hún í einhverju himnesku fergini sem skrjáfar í með eilífðarlagi. Og hvar er heima? Við notum minningar, líðan, fjöll og orð til að túlka heimþrá, djúpsetta löngun – og því getur vísuorð fangað vel. „Hann er öndvegi íslenskra dala“ er ekki aðeins hnyttin tilraun til að fanga líðan eða afstöðu heldur líka staðsetningu á korti förumanns um veröld á leið inn í eilífðina. Tjörn, dalur, fjallafaðmur, – það er heima – en líka áfangi, tákn um hið stærra, stóra, mesta. Nú er Þorbjörg farin heim – heim í Tjörn himinsins.

Guð geymi Þorbjörgu um alla eilífð.

Guð blessi þig.

Amen

Minningarorð við útför sem gerð var frá Fossvogskapellu 28. febrúar 2013.

Halldóra Kristinsdóttir

Það var á aðventunni 2006 og fallegt veður úti. Halldóra fór í yfirhöfn. Hún var á leið í ævintýraferð og eftirvænting kitlaði. Hún tók barnavettlinga sem hún hafði prjónað, kom þeim fyrir í poka og svo kvaddi hún bónda sinn, fór út og gekk upp Neshagann. Þegar hún kom upp á hornið á Hjarðarhaganum kom kona með barnavagn á móti henni. Og það var alveg ljóst að Halldóra átti erindi við konuna sem var með tvíbura í vagninum. „Mig langar til að gefa börnunum vettlinga“ sagði Halldóra. Og svo dró hún upp úr pússi sínu fallega vettlinga og lagði á vagninn. Mamman, sem var á leið í Melabúðina, gladdist yfir þessu undri á gönguför – og varð síðan vinur Halldóru, dáðist að henni og handverki hennar. Svo kom í ljós að þetta var ekki einstakur atburður heldur fór Halldóra út á hverjum vetri – nærri jólum – og gaf fyrstu ungabörnunum sem hún mætti vettlinga. Þetta var eitt af jólaævintýrunum sem Halldóra kallaði fram. Puttar þarfnast hlýju, ungviði þarfnast umhyggju, mæður – og reyndar feður líka – þarfnast stuðnings. Og Halldóra prjónaði ekki aðeins vettlinga heldur varðveitti í sér gleði gjafarans og djörfung til að fara á flakk í vesturbænum og gefa fólki framtíðar gjafir. Og hún hafði gaman af.

Gerningur lífsins

Orðið “póesía” er í mörgum vestrænum tungumálum notað um ljóð. En að baki er hið fallega gríska orð poiesis, ποίησις. Það er ekki aðeins snoturt á blaði, heldur þrungið fallegri merkingu. Það táknar ekki aðeins það að stafla orðum í ljóð, heldur líka að búa til með höndum, vinna, kalla fram líf og hlúa að því. Að ljóða er að skapa og framkvæma.

Meðal Grikkja og Hebrea var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, starfa, sköpunar, raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Þessi speki er hagnýt. Handverk í eldhúsi, við bleyjuskipti, trjáplöntun, prjónaskap og öðrum lífsgerningum á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki getur aldrei lifað nema hún eigi sér hagnýta skírskotun. Halldóra kunni að þjóna fólki með höndum sínum og svo var hún líka handgenginn ljóðlistinni og samdi fjölda ljóða (og orðið hannyrðir getur vísað bæði til handa og orða). Hún endurspeglaði í lífi sínu ástarverðandi Guðs.

Ætt og uppvöxtur

Halldóra Sigríður Kristinsdóttir fæddist í Helguhvammi á Vatnsnesi 9. janúar á Alþingishátíðarárinu 1930. Foreldrar hennar voru Kristinn Jónsson og Halldóra Sigríður Bjarnadóttir, sem lést níu dögum eftir að dóttir hennar fæddist og Halldóra fékk því nafn móður sinnar. Halldóra yngri fæddist á heimili Jóhannesar Guðmundssonar og Þorbjargar Mörtu Baldvinsdóttur[i] sem áttu ekki börn þegar hér var komið sögu. Sorgbitinn ekkill og faðir Halldóru sá ekkert ráð betra en að fela þeim Jóhannesi og Þorbjörgu Mörtu að fóstra barnið. Þau tóku Halldóru í fangið sem eigin dóttur, veittu henni hinar bestu uppvaxaraðstæður og gáfu henni síðan bræður, þá Valdimar,  Guðmund og Eggert.

Halldóra bjó uppvaxtarárin í Helguhvammi, naut ástúðar og umhyggju og fékk gott veganesti. Hún lærði að vinna, draga til stafs, læra og skapa – líka með höndum. Fólkið í Helguhvammi var dugfólk og varð Halldóru fyrirmynd um að standa sig. Hún tamdi sér og sínum að dugnaður væri dyggð sem vert væri að rækta.

Halldóra sótti skóla í heimabyggð á Vatnsnesi. Hún sá snemma gildi félagslífs og góðs mannlífs. Hún fór með fósturmóður sinni á æfingar kirkjukórsins og lærði að meta tónlist til lífsgæða. Svo var Kristinn, blóðfaðir hennar, einnig organisti í Tjarnarkirkju, og í kirkjuferðum gat Halldóra einnig hitt hann. Milli þeirra var eðlilegur samgangur.

Söngur varð Halldóru eiginlegur. Hún sagði börnum sínum að á leið í skólann á næsta bæ hefði hún stoppað á hverjum hól og sungið. Þá var Halldóra orðinn heimssöngvari, söng af innlifun og einlægni fyrir allan heiminn – kannski geiminn og alla vega Guð á himnum. Og það er mikil músík í sköpunarverkinu og dásamlegt þegar hún verður líka að lífssöng smástúlku á Vatnsnesi lífsins.

Þó norðlensk sumur séu björt og oft mjúkfingruð mat Halldóra þó haust og vetur jafnvel enn meira. Þá var hægt að setjast við hannyrðir! Fósturmóðir hennar samnýtti stundirnar. Hún vann og fól samtímis fósturdóttur sinni að skrifa fyrir sig bréf sem hún las fyrir. Og því varð Halldóra snemma vel skrifandi, hafði fagra rithönd og lærði að semja.

Í Helguhvammi var svo hlustað á útvarp og unnið með höndum og þeirra stunda naut Halldóra. Um tíma var Halldóra við störf í Reykjavík. Og svo fór hún þegar hún hafði aldur til í Kvennaskólann á Blöndósi. Þar var hún veturinn 1947 – 48 og þar var byggt ofan á það sem hún þegar kunni úr heimahúsum. Í skóla eignaðist Halldóra vinkonur, sem hún hélt sambandi við alla tíð.

Ólafur og börnin

Þau Ólafur Þórður Þórhallsson vissu af hvoru öðru frá barnæsku, sáu hvort annað „og leist vel á“ sagði Ólafur. Svo fóru þau að leiðast og eftir skólaveru Halldóru á Blöndósi dýpkaði samband þeirra og svo fóru þau að tala um hvar þau ættu að vera og búa. Niðurstaðan var að þau yrðu á Syðri-Ánastöðum og bjuggu þar í tvíbýli við foreldra Ólafs til ársins 1983. Tvo vetur störfuðu þau við skólann á Laugabakka í Miðfirði. Ólafur kenndi, Halldóra sá um næringu barnanna og eiginlega sérkennsluna líka því hún sinnti þeim sem þurftu séraðstoð eða áttu bágt. Hún naut lagni sinnar í samskiptum og börnin nutu mannelsku hennar og natni.

Halldora_og_Olafur

Þau Halldóra og Ólafur fóru svo að búa á Ánastöðum. Þau gengu í hjónaband – ætluðu að hafa vígsluna 1. janúar 1951. Presturinn var á leiðinni til að skíra barn og sjálfsagt að nota ferðina. En þá skall á versta veður svo athöfnin frestaðist til 2. janúar – en þá var klerkur kominn og svaramenn einnig. Þau sögðu bæði já við spurningum og svo áttu þau hvort annað og elskuðu allt til hinstu stundar.

Halldóra og Ólafur eignuðust fimm börn.

Þorbjörg Jóhanna fæddist 1950. Hún er ljósmóðir að mennt. Maður hennar er Jón M. Benediktsson. Þau eiga þrjú börn; Þórólf, Ragnheiði og Þórhildi.

Ólöf Þórhildur fæddist árið 1953. Hún er yfirmaður deildar mennta- og æskulýðsmála hjá Evrópuráðinu í Strassbourg. Maður hennar er Necmi Ergün og þeirra dóttir er Özden Dóra.

Halldór Kristinn var þriðji í röðinni. Hann fæddist árið 1956 og starfaði sem vélstjóri. Kona hans var Gunnhildur Hlöðversdóttir og þau eignuðust Bergrúnu og Halldóru. Kristinn lést árið 1985, aðeins 28 ára að aldri.

Bergur Helgi var fjórði, fæddist 1960. Hann varð flogaveikur þegar sem barn og þau Halldóra og Ólafur brugðu búi til að flytjast suður til að geta sinnt honum sem best og tryggt honum sem besta læknisaðstoð. Bergur lést árið 1988 og var 28 ára þegar hann dó, eins og Kristinn, bróðir hans.

Júlíus Heimir er yngstur þeirra systkina og fæddist  árið 1965. Hann starfar sem kennari í Melaskóla. Kona hans er Vigdís Guðmundsdóttir. Dætur þeirra eru Jóhanna og Matthea. Sonur Júlíusar og Guðlaugar Elísabetar Ólafsdóttur er Ólafur.

Allt þetta fólk umvafði Halldóra með elsku sinni, naut samfélags við þau, tengdabörnin, barnabörn sín og afkomendur. Hún bar hag þeirra mjög fyrir brjósti og fagnaði þeim þegar þau komu í heimsókn. Hún setti þau ekki fyrir framan sjónvarpið heldur hvatti til leikja sem hún tók sjálf þátt í. Það var hrífandi að sjá ungviðið í fjölskyldunni í gær heima á Neshaga. Þau fóru strax að leika sér enda kom margt upp úr gullakassanum hennar Halldóru.

Fráfall bræranna var Halldóru – eins og ástvinum öðrum – mikil raun. En börnin og síðan fjöldi ástvina og afkomenda varð henni hvati til lífs. Hún fagnaði börnunum þegar þau fæddust og þau áttu tryggan aðdáanda og vin í Halldóru, sem vildi hafa fólkið sitt nálægt sér. Af þeim Ólafi og Halldóru eru 25 afkomendur svo lán hennar og þeirra er margvíslegt.

Á kveðjudegi hafa nokkur beðið fyrir kveðjur til ástvina og þessa safnaðar. Þau eru Sveinbjörn J. Tryggvason, Anna Þóra Þórhallsdóttir og Halldór Halldórsson og fjölskylda hans í Noregi.

Og Ólafur og fjölskylda vilja þakka íbúum á Neshaga 14 góða samfylgd allt frá 1983. Góðir grannar eru lífslán.

Eigindir

Halldóra Kristinsdóttir var gefandi í samskiptum. Hún gaf ekki aðeins ástvinum og samferðafólki prjónuð blóm (eins og við berum mörg hér í þessari athöfn í dag), fallega vettlinga eða annað handverk. Hún var gefandi í félagsefnum einnig. Hún tók snemma þátt í félagsstarfi á Vatnsnesinu og hélt áfram alla tíð að vera félagslega virk.

Þegar hún kom suður hafði hún um tíma atvinnu af heimahlynningu og margir nutu natni og þjónustulipurðar hennar. Halldóra naut svo félagsstarfsins í Neskirkju og sótti ekki aðeins athafnir og viðburði í kirkjunni heldur lagði sjálf til. Hún hafði alla tíð áhuga á tónlistinni og gekk í kór eldri borgara sem hét Litli kórinn. Hún söng í þeim kór í mörg ár og var okkur sem störfum í kirkjunni ekki aðeins gleðigjafi þegar hún kom á æfingar heldur samverkamaður í athöfnum og líka í athöfnum á ýmsum stofnunum sem prestur og kór vitjuðu – ekki síst á aðventunni. Og fyrir þjónustu hennar vil ég þakka fyrir hönd Neskirkju.

Allir sem þekktu Halldóru muna handverk hennar. Hún saumaði af snilld, prjónaði af kunnáttu, prufaði postulínsmálun og var alltaf til í skoða með hvaða hætti hún gæti þróað og gert nýtt. Einn handverkskennarinn skrifaði á einn muninn að hann ætti „konan sem færi sínar eigin leiðir.“ Það er hnittið og rétt að Halldóra var óhrædd að prufa nýtt, skoða fleiri hliðar en flestir og þróa áfram það sem hreif hana. Í henni var sköpunargeta. Hún þorði að gera hluti úr því sem aðrir hefðu hent. Þau eru mörg bútasaumsteppinn, sem Halldóra gerði úr afgöngum og gaf síðan börnum til að leika á og umvefja ef þeim var kalt.

Margt af því sem hún gerði vakti athygli og bréfbátar hennar með áhöfn og verkfærum voru fengnir til Safnasafnsins á Svalbarðsströnd í Eyjafirði og hafa vakið verðskuldaða athygli.

Sonarsonur hennar var eitt sumarið í heimsókn í hundlausum bænum fyrir norðan og kvartaði yfir hvuttaskorti. Halldóra brá við og náði í rekaviðarkupp, festi band í og gaf drengnum. Strákur var síðan sæll með sinn hund, dró hann með sér um víðan völl og hundurinn hlýddi! Í Halldóru var spunahæfni og geta til að leysa vandamál með farsælum endi.

Halldóra átti í sér bjarta sýn á fólk og umhverfi. Hún lagði gott til og hafði trú á fólki.

Halldóra og Ólafur seldu ekki frá sér sinn hlut Ánastaða þótt þau flyttu suður. Þau voru fyrir norðan flest sumur, nutu landsins, nýttu sjávarfang, tóku á móti stórfjölskyldunni opnum örmum og tengdu ungviði við upphaf þeirra og sögusamhengi. Svo hóf Halldóra á síðari árum nýtt landnám með skógrækt og nú eru trén hennar að teygja fingur til himins og skógurinn veitir skjól. Verka Halldóru mun fjölskyldan njóta um framtíðarár.

Inn í himin Guðs

Og nú er komið að skilum. Í öllum bókum Biblíunnar er minnt á, að Guð er ekki fjarlæg, upphafin vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur, að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur okkur aldrei þrátt fyrir bresti manna. Guð er stórskáldið, sem yrkir heiminn, prjónar og yrkir mennina og líf. Erindi kristninnar, svonefnt fagnaðarerindi er að lífið er góður gerningur. Þegar lífi lýkur er ljóðmögur mættur, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himininn.

Halldóra gefur ekki fleiri vettlinga, teppi eða prjónuð blóm. Hún opnar ekki lengur faðm mót ástvinum sínum og umvefur með brosi sínu. En hún er komin inn í himininn.

Í fallegu jólaljóði Halldóru sem er sungið í þessari athöfn segir:

Kveiki ég á kerti mínu,

kem með það að rúmi þínu.

Lýsi á litla kollinn minn,

ljúft ég strýk um þína kinn.

Hugsa um löngu liðna daga

lífið, það er önnur saga.

 

Upp til himins augum renni,

eina stjörnu þar ég kenni.

Horfir hún af himni niður,

henni fylgir ró og friður….

Halldóra kveikir ekki á fleiri kertum – eða strýkur kinn þína. Guð mætti henni þar sem mætast líf og dauði með sína værðarvoð og vettlinga til að gefa henni. Halldóra Kristinsdóttir er farin til ástvina, inn í hið heilaga Vatnsnes eilífðar. Söngur hennar hljómar á hólum himins.

Guð geymi Halldóru um alla eilífð.

Guð varðveiti þig.

Í Jesú nafni, Amen.

Minningarorð í útför Halldóru Kristinsdóttur, sem gerð var frá Neskirkju, 8. febrúar, 2013.

Æviágrip

Halldóra Sigríður Kristinsdóttir f. í Helguhvammi á Vatnsnesi 9. janúar 1930. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi fimmtudaginn 31. janúar.  Foreldrar hennar voru Kristinn Jónsson, f. 1. febrúar 1908, d. 30. mars 1998 og Halldóra Sigríður Bjarnadóttir, f. 29. ágúst 1903, d. 18. janúar 1930. Fósturforeldrar Halldóru voru Jóhannes Guðmundsson, f. 30. september 1904, d. 23. maí 1982 og Þorbjörg Marta Baldvinsdóttir, f. 10. nóvember 1897, d. 31. júlí 1980. Fósturbræður Halldóru eru Valdimar, f. 1933, d. 1997, Guðmundur, f. 1934 og Eggert, f. 1939.

Hinn 2. janúar 1951 giftist Halldóra Ólafi Þórði Þórhallssyni, f. 2. júní 1924. Foreldrar hans voru Þórhallur Jakobsson, f. 1896, d. 1984 og Ólöf Ingibjörg Ólafsdóttir, f. 1903, d. 1997. Halldóra og Ólafur eignuðust fimm börn, en börn og afkomendur þeirra eru: 1) Þorbjörg Jóhanna, f. 1950, gift Jóni M. Benediktssyni, f. 1951, börn þeirra eru a) Þórólfur, f. 1974, í sambúð með Nönnu Viðarsdóttur, synir  þeirra eru Jón Ívar og Logi, dóttir Þórólfs og Brynhildar Ólafsdóttur er Þorgerður, dóttir Nönnu er Edda Eik Vignisdóttir, b) Ragnheiður, f. 1979, í sambúð með Anders Dolve, c) Þórhildur, f. 1979, gift Jóni Hákoni Hjaltalín, börn þeirra eru Styrmir og Þorbjörg Sara, 2) Ólöf Þórhildur, f. 1953, gift Necmi Ergün, f. 1950, dóttir þeirra er Özden Dóra, f. 1977, gift Alex Clow, sonur þeirra er Edgar Tristan, 3) Halldór Kristinn, f. 1956, d. 1985, sambýliskona hans var Gunnhildur Hlöðversdóttir, f. 1959, dætur þeirra eru a) Bergrún, f. 1980, í sambúð með Birni Ólafssyni, sonur þeirra er Kristinn Hrafn, b) Halldóra, f. 1983, í sambúð með Sveinbirni J. Tryggvasyni, sonur þeirra er Tryggvi Kristinn; dóttir Gunnhildar er Þorbjörg Ómarsdóttir, f. 1993, 4) Bergur Helgi, f. 1960, d. 1988, 5) Júlíus Heimir, f. 1965, kvæntur Vigdísi Guðmundsdóttur, dætur þeirra eru a) Jóhanna, f. 2005, b) Matthea, f. 2006, sonur Júlíusar og Guðlaugar Elísabetar Ólafsdóttur er Ólafur, f. 1993, í sambúð með Melkorku Eddu Sigurgrímsdóttur.


[i] Mörtunafnið kom reyndar frá þeim mæta Marteini Lúther. Á heimilinu var stór mynd af siðbótarmanninum og nafnberinn íslenski kunnur fyrir trúrækt.