Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Jóna M. Snævarr – minningarorð

Hvað er hamingja? Hvað þarf til að líf sé gott og gjöfult? Þessar spurningar hafa laumast að mér þessa daga stríðsfrétta. Myndirnar af fólki á flótta að heiman eru átakanlegar. En íhugun um líf Jónu hefur orðið mér sem sefandi blessun þegar tíðindin af heimshörmungum hafa borist. Það hefur verið nærandi hugsa um gleðiefni hennar og hvernig hún þjónaði af umhyggju og lipurð. Hún var heima, hamingjusöm og veitandi. Heima var auðvitað fyrir norðan, í öndvegi íslenskra dala, eins og segir í svarfdælasálminum. En heima var þar sem Stefán og Jóna voru. Hamingjan var þeim heimafengin og eðlilegur heimilisiðnaður. Heima er þar sem við náum að samstilla krafta hið innra og ytra. Heima er þar sem fólki og ástvinum líður vel, börn dafna og gamla fólkið finnur til öryggis. Heimaslóð er þegar nágrannar hafa frelsi og möguleika til að njóta lífs og búa við gleðilegan frið. Þannig var Svarfaðardalur á uppvaxtartíma Jónu, uppbyggingarsveit og bóklesandi samfélag. Þar var fólk sem bjó til vegi og brýr, efndi til leiksýninga, sagði litríkar sögur, rauk á fjöll til þess að gleðjast eða ná hærri sjónarhóli, greina plöntur, ljóða um lífsins undur, drauma og gróandi þjóðlíf.

Jóna naut þess að vera í fjölmenni og gleðskap. Hún var gleðisækin, hógvær, umhyggjusöm og nærgætin. Í henni bjó djúp mannvirðing. Hún vildi gleðja fólk og gera því vel. Jóna var gestrisin og efndi fúslega til mannfagnaðar. Svo skipulagði hún og framkvæmdi. Þess var aflað sem þurfti, svo var eldað og bakað. Þegar komið var að því að dúka sætti Jóna sig ekki við annað en það besta. Hún hefði auðvitað getað látið nægja að leggja aðeins á borð og undirbúa veitingar og láta þar við sitja. Nei, lágmarksviðbúnaður var ekki hennar stíll. Hún fór lengra, hugsaði um hvað dagurinn gæfi. Hún fór gjarnan út, svipaðist um í garðinum eða umhverfinu og notaði hið óvænta og fagra sem tíminn hafði skapað. Fagrir voru reyniberjaklasarnir, blómin eða haustlaufin sem urðu skraut á borði hennar. Gestir Jónu glöddust yfir yndisaukanum og fegurð borðhaldsins. Íslensk gestrisni, glaðværð og öguð fegurðarsókn fléttaðist saman í Jónu og íslenskir og erlendir gestir fóru frá heimili hennar með fegurð í augum, hlátur í eyrum og vitund um að lífið væri gott. Jóna var velgerðarkona í lífi, störfum, afstöðu og þjónustu við fjölskyldu. Presturinn átti því alltaf stuðning í konu sinni. Jóna var fulltrúi Guðs í veröldinni og verndari heimilis síns og sveitunga.

Sökkuupphafið

Jóna Magnea Snævarr fæddist á Sökku í Svarfaðardal 9. febrúar árið 1925. Foreldrar hennar voru sæmdarhjónin Rósa Þorgilsdóttir og Gunnlaugur Gíslason. Jóna var elst í systkinahópnum. Hin fjögur systkinin eru Dagbjört Stephensen, Halldóra Gunnlaugsdóttir, Þorgils Gunnlaugsson og svo fósturbróðurinn Halldór Arason, sem var tekinn í fóstur sem kornabarn. Af systkinunum eru tvö látin, þau Halldóra og Halldór.

Sökkuheimilið var fjölmennt menningarheimili. Rósa og Gunnlaugur höfðu gestrisni fyrir börnum sínum, vinnusemi, manndóm, sjálfstæði og dug. Uppeldisbragurinn var glaðvær og lífsafstaðan var sókn mót sólu. Sökkubærinn stóð hátt en var þó í skjóli Hamarsins fyrir norðanáttum. Útsýn Sökkufólksins í þessu öndvegi íslenskra dala var glæsileg. Stutt var milli bæja og félagslífið ríkulegt og metnaður ríkti í menningarstarfi þessarar þéttbýlu sveitar. Gunnlaugur var forystumaður í mörgum efnum. Hann beitti sér fyrir vegarlagningu fram dalinn og unga fólkið lærði að ekkert kemur af sjálfu sér. Ég heyrði sögur í bernsku af því þegar fólkið kom af bæjunum á Austurkjálkanum með skóflur og haka til að gera veg saman. Brautin var gerð og til góða fyrir samskipti og búskap. Enn njóta íbúar framsýni hugsjónafólksins fyrir einni öld. Sökkufólkið hafði einnig getu og dug til að vinna með náttúrunni til að auka gróðurvöxt og heyfeng. Áveitukerfi var gert á Sökkubökkum og engjum með stíflum, flóðgáttum og brúm. Hægt var að veita vatni víða. Áveitubakkarnir urðu grasgefnari en ella. Ég fór oft um bakkana í veiðiferðum bernskunnar og alltaf dáðist ég að Sökkumönnum sem voru ekki aðeins dugmiklir heldur urðu fyrirmynd öðrum sveitungum um metnað og stórvirki.

Jóna var efnisbarn og lærði snemma að taka til hendinni. Hún var handlagin og henni var treyst. Faðir hennar vildi gjarnan að hún væri með honum í störfunum. Alla tíð síðan var Jóna atorkusöm, lagin, fyrirhyggjusöm og skilaði því sem henni var falið. Hún var mögnuð Jóna. Í kraftmikilli og fjölmennri stórfjölskyldu varð Jóna læs á fjölbreytileika mannlífsins. Hún var félagslega hæf alla tíð, sem kom henni að notum þegar hún varð ung prestskona á mannmörgu og gestkvæmu heimili á Völlum þar sem þrjár kynslóðir fólks bjuggu saman, sterkir og stöndugir einstaklingar.

Nám og skólar

Svarfdælingar voru svo lánsamir að barnakennar í sveitinni voru góðir fræðarar. Jóna var þakklát fyrir að hafa notið kennslu hins rómaða kennara Þórarins Eldjárns á Tjörn. Eftir skólun í heimabyggð stefndi Jóna í Menntaskólann á Akureyri. Þá var kominn til starfa bráðungur prestur í Velli, Stefán Valdimarsson Snævarr. Hann var svo elskulegur að taka frændsystkin í kennslu til að undirbúa Akureyrarskólagönguna, þau Gísla Jónsson á Hofi og heimasætuna Jónu á Sökku. Eitthvað fleira en skilningsljósin hafa lifnað í þessari prestskennslu því þegar Jóna var kominn í MA nefndi Sigurður skólameistari í hópi fólks Jónu sem kærustu Stefáns Snævars. Jóna roðnaði út að eyrum vegna þessarar opinberunar trúlofunar og vildi helst sökkva í gólf. Jóna var tvö ár í MA og ákvað að ljúka námi með gagnfræðaprófi og fara í húsmæðraskóla. Kannski hefur kærustuparið verið búið að ráðslaga um framtíð á Völlum og álitið að húsmóðurfræðin væru hagnýt ekki síður en beyging latneskra sagna. Jóna hóf nám í nýjum húsmæðraskóla. Hún var ein af 48, sem hófu nám fyrsta árs skólans árið 1945 í nýju húsi sem Guðjón Samúelsson hafði teiknað. Jónu leið vel í þessu nýja umhverfi og var metin að verðleikum. Hannyrðir höfðu verið stundaðar og víða af listfengi á bæjunum í Svarfaðardal. Amma Jónu sem bjó á Hofi vann t.d. til verðlauna á heimilisiðnaðarsýningu í Reykjavík. Jóna lærði að vefa hjá Soffíu, föðursystur sinni, og þegar hún byrjaði nám í húsmæðraskólanum var ljóst að hún var svo vel að sér við vefstólinn að henni var falið að kenna samnemendum sínum.

Stefán og barnalánið

Stríði var lokið. Jóna lauk námi frá húsmæðraskólanum og ástin blómstraði. Þau Jóna og Stefán Snævarr ákváðu að vera ekki bara umtalað par heldur að festa ráð sitt. Það gengu í hjónaband 1. júní árið 1947. Svo hófst liðlega tuttugu ára hamingjutími á Völlum. Þar hafði Guðmundur góði verið prestur, líka Páll Jónsson sálmaskáld og höfundur Ó, Jesú bróðir besti. Einnig höfðinginn Stefán Kristinsson, sem var einn af þremur guðfræðingum sem luku guðfræðiprófi á tuttugustu öld með ágætiseinkunn. Vallaheimilið hafði því verið menningarsetur í uppvexti Jónu. Hún vissi um stærð staðar og dúp sögu. En hún var tilbúin, sagði já við bónorðsósk og flestum lífs- og vinnuóskum Stefáns, bónda síns. Hún var tilbúin að gera fólkinu sem kom til kirkju gott, hvort sem var í gleði-og sorgarerindum. Hún var reiðubúin að þjóna öldruðum tengdaforeldrum og líka föðursystur Stefáns, sóknarfólkinu, sveitungum og ferðafólki. Vellir voru staður um aldir og þau Jóna og Stefán sátu staðinn með sóma og gáskafullri sæmd. Þökk sé þeim og lof.

Þau bjuggu líka við barnalán og voru svo skipulögð að öll börnin fæddust á föstudegi, Gunnlaugur Valdemar m.a.s. á föstudeginum langa! Elst barna þeirra Jónu og Stefáns er Stefanía Rósa. Hún er kennari að mennt. Maður hennar er Ingimar Einarsson, félags- og stjórnmálafræðingur. Börn þeirra eru Stefán Þór og Inga Jóna. Stefán Þór Ingimarsson er lögmaður. Kona hans er Anna Guðrún Birgisdóttir, viðskiptafræðingur, og synir þeirra eru Stefán Gunnar, Birgir Hrafn og Valdemar Björn.

Inga Jóna Ingimarsdóttir er hjartalæknir. Maður hennar er Gunnar Jakob Briem, verkfræðingur. Stjúpsynir hennar, synir Gunnars, eru Baldur Fróði, Jakob Orri og Ari Sigurður.

Gunnlaugur V. Snævarr var annað barn Jónu og Stefáns. Hann lést í september á síðasta ári. Gunnlaugur var kennari og yfirlögregluþjónn. Kona hans var Auður Adamsdóttir, kennari. Dóttir hennar og  stjúpdóttir Gunnlaugs er Þórhildur Erla Pálsdóttir, kennari.

Ingibjörg A. Snævarr, leikskólakennari, er þriðja barn þeirra Jónu og Stefáns. 

Vallaheimilið og prestsheimilið

Heimilislífið á Völlum var litríkt. Þó svarfdælsku Alparnir væru háir vissi Vallafólkið vel að mannlíf og menning væri handa þeirra. Tímarit heimsins komu í bæinn. Vellir voru beintengdir útlöndum. Danir voru gjarnan á heimilinu og börnin lærðu dönsku við bústörf og eldhúsborð. Heimilisandinn var frjáls og opinn. Þau Jóna og Stefán tóku þátt í nýja tímanum og bíll prestshjónanna var einn af þeim fyrstu í dalnum. Ef sækja þurfti ljósmóður eða hjálpa til við fæðingu eða læknisstörf var alltaf hægt að leita til þeirra Stefáns og Jónu. Gamla fólkið á Vallabænum lagði til skólunar ungviðisins. Svo var sungið, hlegið og glaðvær menning ræktuð. Kirkjan var og er við Vallabæinn. Það sem var til á heimilinu var notað í þágu kirkjustarfsins líka. Meira að segja jólatréð var fært út í kirkju í jólamessuna. Einu sinni fauk jólaskrautið í kirkjuferðinni út í buskann þegar verið var að færa tréð milli húsa. Börnin lærðu snemma að hjálpa til og Jónu þótti gott að fá hjálp í bakstri og undirbúningi athafna og hátíða. Til Valla var gefin mikil kirkjuklukka sem kallaði á stórt klukkuport. Á gamlárskvöldi dreif að fólk í Velli til aftansöngs og gleði. Börn sem fullorðnir fengu þá að hringja nærri tveggja tonna Íslandsklukku Svarfdælinga. Það var sjón að sjá þegar krakkapíslir sem hin eldri flugu upp, hangandi í kaðlinum, í kampanólógískum æfingum áramótahringinga. Það er gaman að eiga slíkar og bjartar minningar. Yfir öllu vöktu þau Jóna og Stefán og brostu.

Fyrstu árin ráku þau Vallahjón búskap meðfram prestsstarfinu. Skepnuhaldi var þó sjálfhætt þegar heilsu Stefáns var ógnað. Dalvík stækkaði sem þorp og árið 1968 fluttu þau Jóna til Dalvíkur og bjuggu þar síðan meðan Stefán þjónaði sem prestur og prófastur Eyjafirðinga. Jóna var alla tíð fús að reka fjölbreytilegt og gestrisið prestsheimili. Þangað áttu sóknarbörn fjögurra kirkjusókna oft erindi, í gleði og sorg, og reyndi þá á hlutverk og hæfileika. Jóna hafði áhuga á velferð fólks. Þau hjón voru samstillt um nýta hæfileika beggja í þágu samfélagsins. Þau voru líka samstillt að styðja þau sem þörfnuðust fjáraðstoðar, líka í Frakklandi og í Noregi. Siðferðisafstaða þeirra var hinn klassíska samstöðuafstaða kristninnar. Árið 1984 urðu starfslok Stefáns og Jónu nyrðra. Börn og ástvinir bjuggu fyrir sunnan og þau fluttu suður á Seltjarnarnes. Syðra varð heimili þeirra Jónu dekurreitur fyrir barnabörnin og jafnvel nágranna líka. Eftir lát Stefáns bjó Jóna í skjóli barna sinna þar til hún futti á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund, haustið 2017.

Minningarnar

Hvernig manstu Jónu? Hvað lærðir þú af henni? Hvað var það eftirminnilegasta sem hún sagði við þig? Hvað gildum blés hún þér í brjóst og hvað siðvit hafði hún fyrir þér? Manstu smiðsauga hennar og góða rýmisgreid? Manstu listaverk hennar og handverk? Áttu jafnvel eitthvað sem hún prjónaði og gaf þér? Manstu hreinlæti hennar, þennan ríka og góða arf sem hún hafði frá Sökkuheimilinu. Manstu hvernig hún þjálfaði huga, mundi fréttir og staði og fletti upp í Landabréfabókinni? Svo kunni hún þessi ókjör af ljóðum, öll tuttugu og átta erindin af Sveini dúfu, Gunnarshólma og Skúlaskeið og fleira og fleira. Jóna ræktaði það sem kallað var fásinnisminni, að muna mikið magn af upplýsingum, muna framvindu og samhengi og tengja svo rétt. Jónu þótti gaman að spila. Hún var góð í vist og svo þjónaði hún dóttur sinni og spilaði við hana marías. Jóna var fróð á mörgum sviðum. Hún var eins og margir sveitungar hennar kunnáttusöm um jurtir og gat á gamals aldri sagt frá tugum blóma í Gerðamóunum í suðurhlíðum Hamarsins. Jóna var blómakona og ræktunarkona. Rósirnar hennar blómstruðu fagurlega, Hawairós og hortensíur. Aldrei kvartaði hún, aldrei hrutu styggðaryrði af hennar vörum. Áhugasvið Jónu var breitt. Hún var meira að segja mjög kunnáttusöm um fótbolta og gat romsað upp úr sér nöfn helstu leikmanna Manchester United. Svo gat hún líka upplýst, eins og slyngur umboðsmaður, hvað Ryan Giggs og hinir leikmennirnir höfðu kostað! Svo fylgdi hún KA í handboltanum.

Jóna var eftirminnileg, glæsilegur fulltrúi íslenskrar sveitamenningar og kristni. Mér þótti hún dásamlegur nágranni sem allir virtu og mátu. Hún var þjónn síns svarfdælska samfélags. Hún var heima í menningu Íslands. En nú er Jóna farin inn í birtuna hinum megin stórfjallanna, inn í menningu himinsins. Þar þarf ekki að skafa toppskaflinn lengur til að sjá út í Sökku bernskunnar. Engin skyndileg útköll vegna fæðinga eða slysfara. Ekki lengur sungið, spilað eða hlegið. En hún skilur eftir sig mynd verndara Svarfdælinga. Sú ímynd hvetur okkur til að gera fólki gott og búa til heimlislega og friðsamlega veröld. Glettið bros hennar lifir í minni. Hún fer ekki framar í berjamó eða ræsir út sitt lið til að bjarga aðalberjum fyrir frost. Hún nær ekki framar í fagurrauða reyniberjaklasa til að leggja á borð og gleðja fegurðarskyn heimafólks eða gesta. Hún gleðst ekki lengur yfir árituðum landsliðstreyjum eða spyr um veðrið heima. Hún er heima, hjá Stefáni sínum, Gulla og stórfjölskyldunni – á Völlum eilífðar.

Guð geymi Jónu, Guð styrki þig og efli. Amen.

Minningarorð í útför í Neskirkju 23. mars, 2022. Kistulagning sama dag. LBE, Félagar í Fóstbræðrum, EHH, F&H ÚH. Landslagsmyndir úr Svarfaðardal SÁÞ en hinar myndirnar úr myndabók fjölskyldu Jónu og Stefáns. 

Kveðja frá Þorgils Gunnlaugsyni, bróður Jónu

Til þín sendi tregatón

tengdan dalnum þínum.

Minning  þín fær mæta sjón

í mynd úr huga mínum.

 

Um götu þína glói sól

á grænum hlíðum fjalla,

með ljúfum ilm úr laut og  hól

þér lykti tíma alla.

 

 

Ásthildur Sveinsdóttir – minningarorð

„Mamma var með íslenskuna upp á tíu“ sögðu synir Ásthildar. Í henni bjó rík málvitund, sem hún fékk í arf frá fjölskyldufólki sínu og úr öguðum málheimi hins unga lýðveldis Íslands. Þegar hún fór að vinna fyrir sér varð málageta mikilvæg í starfi hennar. Svo urðu þýðingar að atvinnu hjá henni. Þýðingar: Hvað er það? Er það ekki bara að finna út orð í einu máli og hliðstæðu í öðru? Jú, vissulega í sumum tilvikum er hægt að þýða beint, en við sem höfum prufað google-translate og smellt á þýðingartilboð á vefnum vitum að hráþýðing er grunn, tilfinningaskert og skilar litlu nema vísbendingum. Raunveruleg þýðing krefst fegurðar, næmni, skilnings, innsæis, menningarlæsis og málvitundar upp á tíu – eða alla vega upp á níu. Merking er aldrei einnar víddar og yfirborðsleg. Tilfinningar mannanna verða ekki afgreiddar með einfeldni. Miðlun merkingar er list. Ásthildur lifði áhugaverða tíma þegar íslenskt samfélag breyttist hratt. Hún lifði áhugaverðu lífi og okkar er að ráða í merkingu lífs hennar, þýða viðburði, orð og lífsferli með alúð. Og kveðja hana með fegurð og virðingu.

Sólvallagata og upphafið

Ásthildur Sveinsdóttir fæddist á aðventunni árið 1942, laugardaginn 5. desember. Kjörforeldrar hennar voruhjónin Sveinn Þorkelsson og Jóna Egilsdóttir á Sólvallagötu 9. Þar ólst hún upp ásamt eldri bróður sínum Agli Sveinssyni. Egill var tólf árum eldri en hún, fæddist árið 1930. Í fjölskylduhúsinu á Sólvallagötu var litríkt mannlíf. Sveinn og Jóna höfðu byggt húsið og ráku verslun á jarðhæðinni. Líf fjölskyldunnar var með ýmsu móti bæði hvað varðaði rekstur og mannlíf. Þetta stóra hús, með margar vistarverur, var umgjörð um líf stórfjölskyldunnar. Þau systkin, Ásthildur og Egill, áttu þar lengi athvarf. Egill starfaði sem bankamaður en í honum bjó líka listamaður og hann lærði útskurð hjá Einari Jónssyni og einnig málaralist í Florence.

Bernska Ásthildar var hamingjurík. Foreldrar hennar báru hana á höndum sér. Hún var skemmtilega, fallega barnið í stóra húsinu og naut athygli og aðdáunar. Á hana var hlustað og við hana var talað. Æskuárin voru góð en stóra sorgarefnið var að faðir hennar lést þegar hún var enn ung. Eftir að námi lauk með hefðubundu grunnskólanámi stóðu Ásthildi ýmsar leiðir opnar. Hún fór m.a. til Englands til enskunáms. Málakonan lagði sig eftir málum. Seinna fór hún í kennaraskólann um tíma og enn síðar í sálfræði í HÍ. Áhugasvið hennar var víðfeðmt og Ásthildi var gefinn opinn hugur.

Ásthildur var dugmikil í vinnu og þjónaði vinnuveitendum sínum vel. Hún nýtti hæfni sína og skerpu. Um tíma vann hún hjá Póstinum, þá starfaði hún um tíma í banka og einnig við afgreiðslustörf í búð. Um nokkurra ára skeið vann Ásthildur í Domus Medica, sem þá var á Klapparstíg, og svo hjá Vita-og hafnamálastofnun og var síðan ritari borgarlæknis. Læknaritarinn varð slyngur höfundur og létti læknum og samverkamönnum mjög lífið við frágang á skýrslunum. Svo tóku við þýðingarnar, sem gáfu Ásthildi möguleika á að nýta alla færni sína og gáfur til að opna víddir merkingar og möguleika. Hún miðlaði milli heima mála og menningar.

Hjúskapur og drengirnir

Svo var það ástin. Þau Hilmar Guðjónsson, teiknari, felldu hugi saman. Þau voru ung og atorkusöm og gengu í hjónaband árið 1962. Drengirnir komu svo í heiminn. Fyrstur var Pétur Sævald. Hann er viðskiptafræðingur og kona hans er Margrét K. Sverrisdóttir. Börn þeirra eru Kristján Sævald og Edda. Næstir komu tvíburarnir Axel Viðar og Snorri Freyr. Axel er byggingaverkfræðingur. Dætur Axels og Þórnýjar Hlynsdóttur eru Sunna og Álfrún. Snorri Freyr er leikmyndateiknari og hönnuður. Kona hans er Anna Söderström. Dætur þeirra eru Hilda Sóley og Eyvör. Börn Snorra og fyrri eiginkonu hans, Láru Hálfdanardóttur, eru Skarphéðinn og Unnur.

Þau Ásthildur og Hilmar skildu, en voru áfram vinir þó þau væru ekki lengur hjón. Þau stóðu saman vörð um hag þriggja sona sinna. Það er mikil gæfa þegar skilnaður veldur ekki vinslitum. Hilmar fór en drengirnir voru fyrstu árin hjá móður sinni. Þeir lærðu snemma að bjarga sér, urðu skemmtilegir og nýttu vel möguleika og hæfni. Ásthildur hélt áfram vinnu utan heimilis til að sjá sér og sínum farborða. Svo potuðust drengirnir upp, hún óx í starfi og þeir öxluðu ábyrgð. Svo kom að því að Sævar Þór Sigurgeirsson kom inn í líf hennar. Þau Ásthildur gengu í hjónaband árið 1978. Sævar Þór starfaði við endurskoðun. Sonur þeirra Ásthildar er Ívar Sturla. Hann er húsasmiður og býr með Anastasiu Podara. Þegar Ásthildur og Sævar Þór giftust flutti hún með drengina sína upp í Engjasel í Breiðholti. Þar bjó hún í nokkur ár en flutti, þegar þau Sævar skildu, yfir í Flúðasel. Þar bjó Ásthildur á annan áratug og flutti svo í einbýli við Hamarsbraut í Hafnarfirði. Síðustu árin bjó Ásthildur á Álftanesi.

Minningarnar

Við skil er gjöfult en líka þarft að hugsa um ástvin, sem er horfinn sjónum. Hvað einkenndi Ásthildi? Hvernig manstu hana og hvað sagði hún, sem var þér mikilvægt? Manstu dýravininn Ásthildi? Heyrðir þú hana spila á píanóið ? Drengirnir muna eftir Bach og Chopin-leik er þeir voru að festa svefninn! Manstu smekkvísi hennar í fatavali og hve nákvæm hún var varðandi klæðnað? Manstu eftir einhverju sem hún saumaði? Strákarnir töluðu um röndóttar smekkbuxur og mér þykir skemmtilegt að hugsa um þá bræður dressaða í smekkbuxur og með hatta! Manstu Ásthildi með Burda-snið á milli handa? Manstu Ásthildi á þönum úr vinnu til að tryggja að drengirnir hennar fengju næringu í hádeginu? Manstu fjör og stemmingu þegar hún var með vinkonum sínum heima? Svo var Ásthildur ráðdeildarsöm og komst vel af. Manstu hvað hún var klár, viðræðugóð og að enginn kom að tómum kofum hjá henni?

Litið til baka

Miklar breytingar urðu á lífi íslensks samfélags á líftíma Ásthildar. Einhæfnisþróun úr sveit í borg varð fjölbreytilegri. Vesturbæjarþorpið splundraðist á árum seinni heimsstyrjaldar. Á Melum, Högum og Holtum voru hermenn í stríði. Þó peningarnir flæddu um æðar samfélagsins rötuðu þeir þó ekki alltaf til Ásthildar og drengjanna hennar. Hún lærði að lífið er barátta en líka undursamlegt, fjölbreytilegt og fullt af vonarefnum. Í lífi Ásthildar speglaðist umbreytingarsaga þjóðar hennar. Jafnvel upphaf hennar var flóknara en margra okkar. Ásthildur var lánssöm að eiga natna og elskuríka kjörforeldra. En blóðforeldrar hennar voru Kristín Jóhannesdóttir og Kristján Davíðsson, sem á síðari árum varð kunnur sem einn helsti myndlistarjöfur þjóðarinnar. Hvað merkir það, að vita að þú ert þessara en líka hinna? Ásthildur var þegar í bernsku margra vídda. Svo missti hún föður sinn átta ára gömul. Hvað merkir það í lífi barns og móður hennar þegar pabbinn og eiginmaðurinn deyr? Heimurinn hrundi en lífið hélt þó áfram. Þegar Ásthildur eltist kannaði hún svo tengsl við ættmenni sín sem hún hafði ekki verið í samskiptum við í bernsku og náði að kynnast sumum. Hún tengdist m.a. blóðföður sínum sem hún mat mikils. Við fráfall Kristjáns fyrir tæpum áratug skrifaði Ásthildur í minningargrein. „Við endurnýjum kynnin í samvistum á sæluströnd. Hvíl í friði faðir minn.“ Það er mikilvægt að geta tjáð tilfinningar svo vel og orðað frið með slíkum hætti.

Í lífinu hafði Ásthildur fangið fullt af verkefnum. 22 ára var hún orðin móðir þriggja drengja. Við, sem höfum verið með þrjú börn á heimili, vitum að verkefnin eru mörg og oft krefjandi. Ásthildur varð að læra allt sem þurfti til búrekstrar, líka að sjóða kartöflur, afla fjár til að reka heimili og standa straum af öllu því sem stækkandi strákahópur þurfti. Ásthildur var svo gæfusöm að hún átti athvarf í fjölskylduhúsinu á Sólvallagötunni. Þaðan lá leiðin austur fyrir læk og í Breiðholtið. Ásthildur tók þátt í útþenslu borgarinnar og var ekki bundin bara við velli og götur norðan Hringbrautar. Hún hélt áfram og líka í vinnu- og heimilis-málum. Mögnuð saga merkilegrar konu.

Ásthildur þýddi á milli heimanna. Tengdi og túlkaði og lifði í sjálfri sér umbreytingu alls. Í lífi hennar var aldrei bara fortíð heldur líka opnun. Hún vonaði, hafði löngun, þráði, vildi svo gjarnan – sem sé þorði að lyfta sér upp yfir nútímann og skygnast víðar um. Við getum skilið það með margvíslegum hætti. En þegar dýpst er skoðað má líka túlka það sem trúarlega dýpt. Að tilveran er ekki bara lokuð og læst heldur má vænta einhvers meira. Trúmennirnir tala um handanvídd sem er kennd við Guð og himinn. Þegar synir Ásthildar kveðja móður sína þá mega þeir tengja þrá og von hennar í lífinu við að nú hafi allir draumar hennar ræst og allt gengið upp. Ekkert tapast í yfirfærslunni. Það er þýðingarsnilld himinsins.

Nú þýðir Ásthildur ekki lengur. Dýrin njóta ekki lengur athygli hennar og natni. Hún kemur ekki framar í heimsókn á heimili sona sinna. Nú er hin fallega og glæsilega kona farin inn í málheim himinsins. Þar eru engar ambögur, málvillur eða þýðingarvillur, ekkert „lost in translation.“ Þar er málið og himneskan upp á tíu. Þar eru samvistir á sæluströnd eins og Ásthildur orðaði það sjálf. Og Sólvellir himinsins. Guð geymi Ásthildi og Guð styrki ykkur ástvini.

Kveðjur

Ég hef verið beðinn um að bera ykkur kveðju frá vinkonu Ásthildar, Sofiu Thors, og fjölskyldu hennar sem búsett er í Þýskalandi. Auk Sofiu eru Dieter Wendler-Johannsson, Haukur Thor, Óli og Carola.

Minningarorð í Neskirkju 10. mars. 2022. Kistulagning í kapellunni í Fossvogi 8. mars. Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju. SÞ. GPG og Voces masculorum.

HINSTA KVEÐJA 
Manstu, er saman við sátum 
við sorgþungan úthafsins nið? 
Úr djúpanna dulræðu gátum 
við drógum hinn skammvinna frið,

því eftir var aðeins að skilja, 
og yfir þig skugganum brá 
og eitt er, að unna og dylja, 
og annað, að sakna og þrá. 

 

Jakob J. Smári

Hilda, drottningin í strandhöllinni

Ragnhildur Jóna Magnúsdóttir – minningarorð.

Lambhóll vekur athygli allra sem fara um Ægiussíðuna, hvort sem er akandi eða gangandi á göngugötunni með ströndinni. Strandhöllin er heillandi. Hvaða mannlíf var og er þar? Reglulega sést Lambhóll í dagblaðsmyndum frá Ægissíðu. Meira að segja í síðasta þætti Verbúðarinnar, sl. sunnudagskvöld (4. febrúar), sást Lambhóll, sem er ekki bara í nútíð, heldur tengir við fortíð líka.

Lamhólshöllin var reist í tveimur áföngum, sá fyrri fyrir hundrað árum og svo seinni hlutinn á sjötta áratugnum, eða fyrir 70 árum. Þvílíkur stórhugur. Okkur, sem ólumst upp í hverfinu, fannst að þetta væri ekki bara höll á landi heldur líka sjávarhöll. Úr þessu húsi kom áhugavert og kraftmikið fólk og okkur nágrönnum var ekki alveg ljóst af hverju þau voru svona mögnuð? Var það sjórinn, ströndin eða stíll fjölskyldnanna eða fléttaðist það allt saman? Á Grímsstaðaholtinu spáðu krakkarnir í hól lamba. Þau sem höfðu skilning á landbúnaði töldu að það hlyti hafa verið þarna lambakofi frá einhverju býlinu. Löng hefð var fyrir húsum í dreifbýlinu vestan og sunnan miðbæjarins. Verksmiðjurekstur Alliance, lifrarbræðsla og fiskþurrkun styrkti byggðina í kringum Lambhól og við Starhagann. Heillandi saga sem dýpkaði þegar ég fór að skoða sögu Lambhóls, lesa sagnaþátt Guðfinnu S. Ragnarsdóttur og skoða rit um þau hjón, Ragnhildi og Kristján, sem Trausti Björnsson tók saman. Þá varð ljóst að Lambhóll hafði ekki aðeins verið höll á hjara veraldar á tuttugustu öld, heldur átti sér langa og þykka sögu, sem er eins og lykilsaga Íslands, tákn um baráttu fólks við að lifa, afla sér viðurværis, koma börnum til manns, vera í tengslum við fólk, rækta menningu, stunda sjóróðra og sækja björg í bú, ferja fólk á næsta nes, halda tengslum, sækja vinnu til höfuðstaðarins, sem stundum gekk og stundum ekki, taka þátt í verkalýðsbaráttu, lúta alls konar valdi, verða fyrir sjúkdómum, sækja í menntun og fegurð – og lifa. Lambhóll er eins Íslandssagan í hnotskurn, með öllu litríki Íslands, öllu því dásamlegasta sem lífið gefur en líka skuggunum, sem gefa djúpa dekkingu að baki hinu bjarta.

Þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.

Áður en fjöllin fæddust

og jörðin og heimurinn urðu til,

frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.

Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins

og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“

Því að þúsund ár eru í þínum augum

sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,

já, eins og næturvaka…

Kenn oss að telja daga vora,

að vér megum öðlast viturt hjarta.

Þessi orð urðu Matthíasi Jochumssyni innblástur þegar kóngurinn kom í heimsókn árið 1874 og þá var fyrsti Lambhólsbærinn þegar orðinn til. Kannastu við þessi stef? Getur verið að þau séu til í söng sem þú hefur heyrt eða sungið? Já, versin í Davíðssálminum nr. 90 urðu skáldinu til eflingar og hann fékk frá þeim andagift, til að semja lofsöng, sem var sunginn í Dómkirkjunni í konungsmessunni árið 1874. Síðar varð svo þessi óður að þjóðsöng Íslendinga. Hann á við Lambhól og fólkið sem bjó þar. Verkefni þeirra og hinna í öllum húsum Íslands var og er að vinna að lífinu, stunda lífsleikni og virða mörk og gildi til að öðlast viturt hjarta. Mér sýnist að Ragnhildur Jóna Magnúsdóttir sé okkur öflug fyrirmynd. Hún var kannski ekki fjallkona heldur fremur stranddrottning. Ekkert var mulið undir hana. Hún fékk enga forgjöf í lífinu, þurfti að taka stórar ákvarðanir um öll helstu mál en stóðst, þroskaði með sér getu og lífsfærni sem er til eftirbreytni. Hún vissi um sitt samhengi og gerði það alltaf betra. Hún þekkti skugga lífsins, en varpaði ljósi á þá og gerði gott úr og efldi fólk. Hún þekkti samhengi sitt og átti Guð að vini. Þið megið virða hana, sögu hennar, hæfni hennar og verk. Lofleg og fádæma öflug fyrirmynd hún Hilda, drottningin í strandhöllinni.

Upphafið
Ragnhildur Jóna Magnúsdóttir fæddist í nýja Lambhólshúsinu föstudaginn, 1. ágúst, árið 1924. Hún var dóttir sæmdarhjónanna Sigurlínu Ebenezersdóttur og Magnúsar Helga Jónssonar. Mamman var fædd árið 1893 og uppalin við Lindargötu. Magnús, faðir Ragnhildar, var fæddur á Lambhóli og var tveimur árum yngri en kona hans. Þau áttu fjórar dætur og árið var á milli þeirra elstu svo fjör var í bænum í uppvexti þeirra. Ingibjörg Ebba var elst og fæddist árið 1923. Hilda var næstelst. Unnur var sú þriðja og Helga kom í heiminn árið 1931. Nú eru þær systur allar farnar inn í lambhól himinsins. Lát Hildu lokar því mikilli sögu og lífið heldur áfram.

Ragnhildur Jóna fékk nafn frá föðurömmu sinni og föðurafa. Hún hét Ragnhildur og hann Jón. Lambóll hafði verið kot, en þegar Hilda kom í heiminn höfðu orðið umskipti í lífi fólksins á Lambhóli. Útgerðarumsvif við Skerjafjörð höfðu aukið atvinnu og tekjur fólksins á svæðinu. Alliance rak fiskverkun nærri Lamhólshúsinu og lifur var brædd í lýsi í stóru brennsluhúsi, svokölluðu brenneríi. Hagur fólks fór batnandi eftir fyrri heimsstyrjöld og faðir Hildu var forystumaður prentara í Reykjavík, var raunar lengst allra formaður Prentarafélagsins. Amma og mamma Hildu stunduðu saltfiskverkun á stakkstæði við Lambhól og þar voru líka miklir kartöflugarðar. Fólkið var dugmikið.

Á uppvaxtartíma var enginn Melaskóli né Hagaskóli. Hilda fór í miðbæinn til að sækja sér menntun. Hún var alla tíð námfús, áhugasöm, fróðleiksfús, bóksækin og afar minnug. Fyrst sótti hún forskóla Ragnheiðar Jónsdóttur og síðan Miðbæjarskóla. Eftir það lá leiðin í Ingimarsskóla, sem var gagnfræðaskóli og varð að Gagnfræðaskóla Austurbæjar.

Þótt Hilda væri mikil Reykjavíkurkona átti hún líka ættmenni á landsbyggðinni. Nokkur sumur var hún í sveit hjá frændfólki vestur á Mýrum og lærði að meta og skilja sveitaveruna og menninguna. Svo giftist Ingibjörg eldri systir hennar austur í Árnessýslu. Neðra Apavatn varð mikilvægt tengslaheimili Lambhólsfjölskyldunnar. Hilda lærði ung að vinna og fór snemma að bjarga sér. Hún stundaði barnagæslu og húshjálp bæði í Reykjavík og í Hveragerði.

Hæfni og vinna

Listfengi hefur lifað í ættum Hildu. Dugnaður og hönnunargeta komu snemma fram hjá henni. Það var í frásögur fært í fjölskyldunni að sjálf teiknaði og saumaði Hilda fermingarkjólinn sinn, glæsilegan, hvítan kjól. Hún fermdist í Dómkirkjunni fimmtán ára og hafði beðið í eitt ár eftir Unni systur sinni, en slík systkinabið var algeng um miðja öldina og ástæðan var að einfalda fjölskyldum veisluhaldið. Ragnhildur svaraði listhneigð sinni og sótti í að efla færni sína. Hún sótti námskeið í teikningu árið 1943 og sótti líka námskeið í útsaumi. Á merkilegri mynd af þátttakendum á þessu saumanámskeiði sést að allir þáttakendur voru konur en aðeins tvær þeirra hlutu þann heiður að hafa myndir sínar fyrir framan sig. Hilda var önnur þeirra, enda mikið saumalistaverk sem hún vann.

Magnús faðir Ragnhildar var prentari og þau feðginin voru samrýmd. Eftir fermingu fór Hilda að svipast um eftir atvinnu og prentaradóttirin fór til starfa í bókbandi í Gutenberg. Þetta var um það leyti sem seinni heimsstyrjöldin hófst og bærinn fylltist af hermönnum. Bókaútgáfa á Íslandi jókst þegar vöruúrval minnkaði almennt. Þá seldust bækur betur og ekkert var bertra til jólagjafa en lesefnið. Þá var lagður grunnur að jólabókaflóðum seinni tíma. Síðar fór Hilda svo til afgreiðslustarfa í versluninni Edinborg.

Hjúskapurinn, Kristján og Sorö

Svo var það ástin. Glæsimennið Kristján Kristjánsson vakti athygli stúlknanna á Hótel Borg, líka Hildu. Hann var ekki bara fallegur, heldur líka glaðsinna og ljómandi dansherra. Glæsimennið hæfði glæsilegri Hildu. Kristján gat líka komið henni heilli heim á mótorhjólinu sínu þó bærinn væri fullur af stríði og hermönnum. Þegar þau létu æ betur að hvort öðru fóru þau svo að fara ferðir saman út á land á farskjótanum góða og fóru t.d. sumarið 1943 norður í land. Þau voru bæði ferðaflugur og höfðu gaman af reisunum saman. Kristján var kjötiðnaðarmaður og var verslunarstjóri í verslun Klein við Hrísateig. Stjúpfaðir hans, Klein, hafði vaxandi umsvif á stríðsárunum. Klein og þar með Kristján og annað starfsfólk þjónaði áhöfnum skipa sem komu í mataröflun eða þurftu vistir. Þessi viðskipti lögðu grunn að útþenslu Kleinveldisins. Svo varð líka útþensla heimilis þeirra Hildu og Kristjáns. Elsta barn þeirra, Sigurlín Sjöfn, fæddist á verkalýðsdeginum 1. maí, foreldrunum, verkalýðsforingjanum Magnúsi, og öllum hinum til mikillar ánægju. Hilda var alla tíð stefnuföst. Hún var búin að ákveða að fara til náms í Danmörk og safna fyrir dvölinni. Hún stóð við það þótt flestir hefðu gugnað miðað við aðstæður með kornabarn á armi. Amma í Lambhóli, Sigurlína, tók að sér nöfnu sína og Ragnhildur sigldi utan og fór alla leið til Sorö í Danmörku. Þar var framúrskarandi hússtjórnarskóli stofnaður í lok 19. aldar. Fyrsta bygging skólans líktist mjög Alþingishúsinu í miðbæ Reykjavíkur og Ragnhildi leið vel ytra og fann sig heima.

Þessi för Hildu segir raunar mikla sögu um getu og persónufestu hennar að fara frá ungbarni en líka um samheldni og trausti fjölskyldunnar sem axlaði ábyrgð og stóð saman um stór mál og smá, eins og hún hefur alla tíð gert. Hilda var engin gunga og opin. Sorönámið og árið ytra hafði mikil áhrif á hana. Hilda lærði margt sem varð að gagni, kynntist danskri menningu, sem var ekki aðeins góð, almenn menntun heldur líka hagnýt vegna hjúskaparins við dansk-uppalinn Kristján, mann hennar. Svo var Hilda svo lánssöm að fara ferð frá Danmörku og suður til Parísar, ferðast um vestur Evrópu skömmu eftir stríð og verða vitni að fátækt, svengd, örbirgð og rústum borganna og skilja voða hildarleiksins. Hún hafði jú séð umstang hersins á Íslandi og þmt. Camp Thornhill við Lambhól. Það var mótandi og stælandi fyrir unga konu að sjá allar mannlífsvíddirnar og hún gerði sér grein fyrir ljósi og skuggum, dauða og lífi og hvað væri mikilvægt að standa vörð um.

Stór barnahópur

Já, svo kom hún heim, þroskuð, sigld og tilbúinn til allra lífsmálanna. Byggt var við Lambhól árið 1952 og Stjáni og Hilda fengu íbúðina á annarri hæðinni í höllinni. Þegar húsnæðið var komið, íbúðin og Sylvía Hrönn í gerðinni gengu þau í hjónaband 31. maí 1952. Sulla fæddist svo 11. september sama ár. Kristján fæddist 1. apríl 1954. Ári síðar fæddist Magnús Helgi, 3. maí 1955. Barnaríkidæmið var mikið. Jóhannes Bragi fæddist 7. janúar 1960, Auður Gróa 22. júlí 1963 og síðastur var Unnar Jón 12. maí 1966. Hilda stóð eins og klettur í hafinu í látum, fjöri og viðfangsefnum og var akkeri síns fólks. Hún var glögg og hagsýn og reyndi t.d. ekki að venja pela af þeim eldri þegar pelar voru notaðir hjá þeim yngri. Hún vandi því þrjú sytkinanna af pela á sama tíma. Þrír fyrir einn. Börnin voru dugmikil og döfnuðu, fóru í Melaskóla og Hagaskóla og áfram í nám og störf. Þau áttu miðstöð í Lambhóli og hjá foreldrum sínum.

Atvinnumál og missir

Breytingar urðu hjá Hildu og Sjána þegar kjörbúðafyrirkomulagið hóf innreið í íslenskt samfélag. Verslunin, sem Kristján veitti forstöðu, var lögð niður árið 1967. Kristjáni bauðst eftir það starf á Seyðisfirði og þeir Kiddi fóru austur og síðan öll fjölskyldan og voru eystra liðlega ár. Svo komu þau suður að nýju. Kristján fór að vinna í Síld og fisk og síðan hjá Sláturfélagi Suðurlands og var þar til starfsloka hans. Þegar börnin voru komin fyrir vind og orðin sjálfstæð fór Hilda að vinna utan heimilis. Auk fiskvinnunnar á stakkstæðunum við Lambhól starfaði hún hjá Granda og síðan hjá Nóa-Síríusi og lét þar af störfum þegar hún var sjötug. Mannauðsdeildin reyndi talsvert til að fá hana til að halda áfram en Hilda hafði þörf fyrir að ráða sínum tíma sjálf. Kristján varð fyrir heilsubresti fyrir aldur fram og lést árið 1998. Löngum hefur verið sagt að ekki eigi að leggja á nokkurt foreldri að sjá á eftir börnum sínum. En Ragnhildur hefur séð á eftir þremur. Sigurlína, Magnús og Unnar eru öll látin.

Eigindir og gáfur

Hvernig var Hilda? Í glímu við áföll opinberast styrkur fólks. Missir er þungbær en missir barna er djúpáfall. Þrátt fyrir sársaukann sýndi Hilda fádæma styrk. Hún féll flöt við missinn, en reis svo upp og klofaði yfir áföllin eins og fólkið hennar orðaði svo myndrænt. Hilda var einstaklega ræktarsöm við fólk og áhugasöm um líf allra sem hún kynntist. Hún hafði samband við börn sín, frændfólk, vini og kunningja og spurði um líðan, velferð, áföll, þroska og vöxt. Meira að segja fólk, sem vitjaði hennar í heimahjúkrun, talaði um hve áhugasöm hún hefði verið um fjölskyldur þeirra sem hún tengdist. Hún var afar minnug, kunni mikið af ljóðum, mundi símanúmer og afmælisdaga. Hún vissi hvað hún kunni og hafði húmor til að segja fólkinu sínu að hún hefði nú próf í barnauppeldi, hefði tekið extrakursus i börnpleje. Uppeldismál væru því hennar sérsvið! Svo var Hildu fullkunnugt um hvernig átti að raða hnífapörum á borð og hafði lag á að kenna sínu fólki góða danska borðsiði. Hún þáði fjölskyldurækt í arf frá foreldrum sínum og miðlaði áfram til barna sinna og ástvina. Hún stóð með sínu fólki, dæmdi ekki mistök eða veikleika, en lagði sitt til að bæta úr því sem aflaga fór. Hún skammaðist ekki í uppeldi, en taldi að góð fyrirmynd væri skilvirkari uppeldisaðferð. Hún miðlaði upplýsingum fúslega um líf og viðburði fólks, hélt trúnað um allt sem hljótt mátti fara, spaugaði um skemmtilegheitin, gat verið snögg til, hafði leikni í íslensku í bland við húmor og sneri upp á tungumálið ef hún vildi og notaði dönskuslettur með smekkvísi. Hilda hafði skýrar skoðanir í flestum málum, var upplýst um mjög margt og átti ekki í neinum vandræðum að tjá sig um flest mál, en jafnan með hlýju. Hún hafði lag á að tjá hug sinn með þokka og húmor svo fólk fyrtist ekki við þó það væri annarrar skoðunar en hún. Hilda hafði pólitískar skoðanir. Alþýðuflokkurinn punktur, en þau hjón kusu oftast sitt hvorn flokkinn og varð ekki af ágreiningur á heimilinu. Hilda var vel að sér á mörgum sviðum og hefði getað haldið fyrirlestur um heppilegar heimilislækningar á læknadögum, enda hafði hún búið um marga putta, hreinsað sár og vaktað veik börn. Hilda hafði á langri æfi lært að temja sér æðruleysi. Hún kenndi börnum sínum og ástvinum að varast hættur eins og við sjóinn. Hún hafði þá skynsamlegu afstöðu að miðla þekkingu á nátturunni, kenna ungviðinu að varast hætturnar og þekkja mörk. En hún vissi að aðkomubörnin væru ekki eins kunnáttusöm og þau heimaöldu. Hún hafði getu til að tala við fólk og líka kippa þeim upp sem voru langt niðri með því að ydda einhverjar sögur svo fólk kom úr kafinu. Hilda hafði dásamlega getu til að bæta í, afla sér þekkingar, opna tilveru sína, virða fólk, safna litum, myndum, fingurbjörgum, steinum, viskumolum og staðreyndum um samferðafólk. En hún hafði í sér líka elskudjúp sem umvafði fólk, efldi, nærði, tosaði upp og kætti og skilaði til umhverfis dýrmætum sikringum lífsins.

Lambóll eilífðar

Nú er Hilda farin inn í sumarlandið. Þar er engin hætta við ströndina, engin dauðsföll, aðeins fögnuður, skemmtilegir rúntar, engar áhyggjur, stór ættboginn sem kann að hlægja, segja sögur, gleðjast og njóta. Og svo Guð sem hefur verið athvarf frá kyni til kyns, blessar, gleðst og skilur sitt fólk. Hilda dregur ekki lengur fólk upp úr depurð, segir ekki fleiri sögur með tilþrifum eða reisir sig við þegar hún snertir danska flík. Nú er drottningin úr strandhöllinni komin í Lambhól eilífðar og þar er gott líf fyrir Hildu og þau öll hin sem hún elskaði svo heitt. Þau fara ekki síðust því gleðin verður endalaus, mikið talað og hlegið. Guð geymi Hildu og Guð styrki ykkur ástvini. Amen.

Guðfinna og Magnús biðja fyrir kveðjur, Adda frænka og fjölskylda biðja fyrir kveðjur sömuleiðis, Rabbi frændi í Noregi og fjölskylda sem og Rabbi í Danmörk og fjölskylda.

Kistulagning og útför í Neskirkju 10. feb. 2022. Erfi í safnaðarheimili Neskirkju. Síðan ekin Ægissíða og hjá Lambhóli í sólinni. Jarðsett í fjölskyldureitnum í Gufuneskirkjugarði. ÚRG. Schola cantorum. TG.

 

 

Jóhann Axelsson – minningarorð

Jóhann laðaði að sér fólk. Þar sem hann fór hafði hann áhrif og jafnvel smitaði frá sér hlýju út í mannlífið. Jóhannsáran var slík – og svo sterk. Það var gaman að fylgjast með Jóhanni þegar hann kom á kaffihús. Við urðum mörg vitni að áhrifum hans þegar hann kom á Torgið í Neskirkju meðan þar var hverfiskaffihús. Hið sama varð á Kaffi-Vest við Hofsvallagötu. Þegar Jóhann kom inn breyttist eitthvað. Hann gekk frá kaupum við afgreiðsluskenkinn, settist svo niður, horfði í kringum sig, brosti lítillega en hlýlega og þá byrjaði undraferli. Fyrr en varði kom einhver til hans og gjarnan settist svo niður. Jóhann hlustaði af athygli, sagði nokkrar setningar og fékk bros að launum. Svo komu fleiri og fyrr en varði bættist í hópinn og allt í einu var Jóhann orðinn möndull eða miðja kaffishússins, kraftuppsretta gleðinnar, sögumaðurinn, sjarmörinn og fræðaþulurinn. Jóhann brosti svo óáreitið en umvefjandi og hlýlega – eins og við sjáum framan á sálmaskránni. Hann hafði mikla útgeislun, kraft í sjálfum og bræddi auðveldlega klakann á mannshjörtunum. Honum var svo mikið gefið. Hann hefði getað orðið uppistandari, slík var sagnagetan og húmorinn. Hann hefði vísast geta lagt listmálun fyrir sig því áhuginn, greiningargetan og frumlegheitin voru nægileg til að skapa stórvirki. Hann var sagnamaður af Nóbeltaginu og samfara nákvæmni, öguðum einfaldleika og spunagetu hefði getað þroskast sem öflugur rithöfundur. Það er eiginlega dapurlegt að Jóhann skyldi ekki hafa skrifað prósa heldur aðeins vísindagreinar þar sem ekki var pláss fyrir mörg orð og loftfimleika andans. En hann var raunvísindamaður á heimsmælikvarða. Það nægir. Drengurinn norðan úr myrkri Íshafsins var svo margt. Mjór vísir af heimsenda varð allt annað og meira en búast mátti við af honum sem veikburða barni. Hann varð fulltrúi allra þeirra sem eru miklir af sjálfum sér. Vöggugjöf Jóhanns var ekki staða, kjöraðstæður eða ríkidæmi heldur hæfileikar og vilji til gæða. Hið ytra og aðstæður voru engin forgjöf heldur rammi til að stæla. Saga Jóhanns Axelssonar er eiginlega í samræmi við hina klassísku hetjusögu. Eins og sagt var fyrrum um hina bestu menn: Ingenio ad magna nato – borinn til stórvirkja.

Jóhann fædist inn í sumarbirtuna Alþingisárið 1930, nokkrum dögum eftir gleðskapinn á Þingvöllum. Á þeirri tíð var birta í menningunni og allt var möguleugt. Það var sólskin á Siglufirði daginn sem Inga ól son í Lækjargötu og lagði í vöggu. Axel, pabbinn, var þá í róðri á bát sínum Draupni. Þegar hann var kominn í land og hafði kysst konu sína, stóð hann við vögguna, skoðaði son sinn og sagði: „Mikið ertu ljótur vinur, þú ert víst líkur mér.” Sagan er auðvitað frá Jóhanni sjálfum! Hann hafði gaman af að segja hana.

Foreldrarnir voru Ingiveig Þorsteinsdóttir og Gunnlaugur Axel Jóhannsson. Þau voru fædd sitt hvorum megin Eyjafjarðar. Hún í Grýtubakkahreppi en hann í Svarfaðardal. Síðan urðu þau hjón og bjuggu á Siglufirði fyrstu árin. Jóhann var yngra barn þeirra en eldri var systir hans Selma, sem fæddist réttum þremur árum fyrr en hún lést árið 1932. Þungur skuggi lagðist þá yfir fjölskylduna. Pabbinn var mikið á sjó og Jóhann ólst upp við ást og talsvert dekur sem öflugur kvennafans gat gefið honum. Jóhanni þótti vænt um heimabyggð sína og hún fylgdi honum síðan alla tíð með ýmsum hætti. Og Jóhann lauk opinberu lífi á Íslandi með því að skipa heiðurssæti Sósíalistaflokksins í Norðausturkjördæmi í síðustu alþingiskosningum. Siglufjörður er í því kjördæmi, þetta makalausa pláss sem Hallgrímur Helgason er að lýsa þessi misserin í 60 kílóa-bókaflokki sínum. Jóhann ólst upp á Siglufirði fram á menntaskólaár. Það var meira um sólskin en kjaftshögg á þeim tíma svo lagt sé út af titlum bókaflokksins um Segulfjörð. Þær aðstæður sköpuðust í fjölskyldunni að faðirinn var færanlegur hvað atvinnu varðaði og mamman hafði þörf fyrir og hag af læknisþjónustu á Akureyri. Þangað fóru þau þegar Jóhann var kominn á framhaldsskólaaldur. Jóhann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri í júní 1950.

Og hvað svo? Jóhann hafði kynnst Guðrúnu Friðgeirsdóttur í MA. Þau rugluðu reitum og eignuðust soninn Axel í janúar 1951. Þau vildu búa saman og ákváðu að fara austur í Seyðisfjörð. Þar kenndi Jóhann við barna- og unglingaskólann á Seyðisfirði veturinn 1950- 51og lærði að gera kennslu skemmtilega. Axel var þá í gerðinni. Veturinn var þeim Guðrúnu og Jóhanni góður en þau vildu út. Svo varð. Næstu ár og áratugir urðu lærdómstími Jóhanns. Hann var við nám í frábærum menntastofnunum í Osló og Kaupmannahöfn á árunum 1951-56 og lauk mag. scient.-prófi í lífeðlisfræði árið 1956. Þá hoppaði hann til Parísar og var þar eitt ár, líkaði fræðin og lífið vel í stórborginni. Frá þeim tíma kunni Jóhann á kaffihúsalífið og hafði góðan skilning á gildi bóhemanna í menningunni. Svo fór hann til Lundar og hélt áfram störfum og námi, kom sér alls staðar vel, las, greindi, hlustaði og heyrði hvað var að gerast og tengdi vel við fræði og fræðimenn þeirra skóla sem hann sótti og stofnana sem hann vann við. Lísentiatsprófi lauk hann frá Lundi árið 1958 og doktorsprófi í sömu grein og frá sömu stofnun í Svíþjóð árið 1962.

Jóhann vakti athygli í fræðunum. Ekki aðeins var hann frumlegur og fundvís heldur sérlega kjarnyrtur. Það var í frásögur fært, að hann skrifaði merka doktorsritgerð sem var aðeins sautján blaðsíður að lengd. Jóhann hafði í sér vitundina um að less is more og ekki þyrfti að tíunda hið óþarfa eða teygja lopa. Bara það sem þyrfti samhengis vegna og rökstuðnings ætti erindi í vísindaritgerð. Það er nánast póetískur mínimalismi sem einkenndi fræðaskrif Jóhanns. Jóhanni var veittur eftirsóttur styrkur, sem kenndur var við Riker, til að starfa í Oxford. Þar vann hann við rannsóknir og kennslu í fimm ár. Þá fór hann til Gautaborgar, stundaði rannsóknir og kenndi við háskólann á árunum 1962-65. Jóhann varð svo prófessor við læknadeild Háskóla Íslands frá árinu 1965.

Þegar saga Háskóla Íslands er skoðuð blasir við að kennarar í einstökum greinum voru einyrkjar. Þeir höfðu ekki starfslið sér við hlið eins og við erlendu skólana og stofnanirnar. Jóhann vissi að hverju hann gengi, en væntanlega voru viðbrigðin talsverð að koma að tómu borði, engum tækjum og tólum og enginn var kollegahópurinn í fræðunum. En af ferilskrá Jóhanns má ráða að hann gekk í verkin þrátt fyrir fjárleysi tímans, hafði frumkvæði að stofnun Rannsóknarstofnunar Háskóla Íslands í lífeðlisfræði, sem hann stýrði. Jóhann hélt áfram rannsóknum í faginu og beitti sér mjög fyrir eflingu kennslu og fræða sem tengdust sviði hans. Jóhann var í forystusveit um uppbyggingu og skipulag lífeðlisfræðimenntunar íslenskra heilbrigðisstétta bæði sunnan og norðan heiða. Jóhann var því afar mikilvægur við þróun háskóla á Íslandi og háskólakennslu. Lof sé honum og þökk. Hann hélt áfram að skrifa greinar og var sá íslenski lífeðlisfræðingur, sem oftast var til vitnað í ritrýndum tímaritum. Rannsóknir hans snertu mörg svið taugalífeðlisfræði og  lífeðlisfræði vöðva.

Jóhann var góður félagi í háskólasamfélaginu. Honum var treyst. Hann var óáreitinn, glaðsinna og lausnamiðaður í embætti. Hann hélt gjarnan hlýfiskildi yfir nemendum, sá í þeim gullið fremur en gallana. Hann lagði sig eftir inntakinu fremur en forminu og sá til þess að fyrirferðamiklir nemendur féllu ekki útbyrðis. Mér er spurn hvort Íslensk erfðagreining hefði verið stofnuð eða lyfjaiðnaðurin orðið svo öflugur á Íslandi ef mannvirðingarmannsins Jóhanns hefði ekki notið við? Jóhann var árum saman í kennslunefnd læknadeildar HÍ og í deildarráði. Um skeið var hann deildarforseti. Þá kom hann við sögu uppbyggingar náms í líffræði, landafræði og jarðfræði. Jóhann var fangvíður í fræðunum, hafði breiðan fræðaáhuga, var íhugull og athugull um þróun raunvísinda en líka mannvísinda. Jóhann var m.a. um tíma í stjórn Mannfræðifélagsins og Mannfræðistofnunar HÍ og í stjórn stofnunarinnar var hann formaður í áratug, á árunum 1975- 1986. Vegna kennsluáhugans var Jóhanni falin seta í stjórn norrænu samtakanna um kennslu í læknisfræði. Um tíma var hann forseti þeirra. Þá tók hann þátt í starfi norrænu samtaka lífeðlisfræðinga og lyfjafræðinga. Jóhann var mikils metinn í fræðasamfélaginu og tók þátt í ýmsum félögum vísindamanna. Og svo síðustu árin hafði hann gaman af að vera boðinn að taka þátt í Loka, leynifélagi afburðamanna, sem fundar reglulega. Þar er víst gaman að vera, hafa þátttakendur trúað mér fyrir.

Norðurslóðir voru Jóhanni mikið áhugamál. Siglfirski drengurinn sem horfði í norður vissi að lífið á Norðurslóð væri fjölbreytilegt, áhugavert og spennandi. Og kannski sótti hann alla tíð fremur í norður en suður. Grænland varð honum mikið áhugaefni, norðurslóðir Kanada og svo brotnaði ökli hans þegar hann var á Svalbarða. Jóhann varð einn af forvígismönnum Norðurslóðarannsókna af ýmsu tagi sem nú vaxa og eru hagnýtar og mikilvægar á þessum tíma lofstslagsbreytinga, hagsmunabaráttu stórþjóða varðandi norðursvæði jarðarkúlunnar og pólitískra stefnumörkunar um líffríki, vinnslu, nýtingu, umferð og frið. Alla tíð var Jóhann áhugasamur um sviðin og svæðin utan hrings. Hann var til í að ræða handanveruna og ofurvíddir lífs og heima við fólkið sitt og dugðu stunum kvöldin ekki til samtalanna.

Jóhann var afreksmaður við ritun greina á fræðasviði sínu. Hann skrifaði aðalega um rákótta, viljastýrða vöðva, slétta vöðva meltingarvegs, slétta vöðva æða, faraldsfræði áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma og áhrif umhverfis- og erfðaþátta á tíðni skammdegisóyndis á Íslandi og í Kanada. Fyrir öll þessi vísindastörf sín og akademíska þjónustu var Jóhann maklega sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004.

Fyrri eiginkona Jóhanns var Guðrún Friðgeirsdóttir, síðar skólastjóri í Reykjavík. Þau áttu Axel sem fæddist 15. janúar 1951. Axel er lífefnafræðingur og býr í Sydney í Ástralíu. Kona Axels er Kate McCallum. Börn hans eru Ella, Alexandra, Christopher, Matthias og Selma. Barnabörn Axels eru þrjú. Guðrún og Jóhann skildu að skiptum meðan þau voru í námi erlendis.

Jóhann eignaðist soninn Þór með Kristínu Valdimarsdóttur, sálfræðingi. Þór fæddist 21. desember árið 1969, en lést 11. október árið 1995. Þór átti dótturina Laufeyju Soffíu með Guðrúnu Halldóru Sigurðardóttur.

Seinni eiginkona Jóhanns var Inger R. Jessen, líffræðingur og kennari, sem lést árið 2010. Sonur þeirra er Viggó Karl sem fæddist 3. okt. 1974. Viggó er iðnhönnuður og er búsettur í Reykjavík.

Hvað var það sem þú minnist í fari Jóhanns? Hvað sagði hann sem sat í þér? Hvað gerði hann sem þér þótti mikilvægt eða varð þér lífshvati? Var eitthvað sem snart þig eða særði? Hvernig viltu vinna með? Hvað lifir af því sem hann var, vann eða gerði sem þú vilt temja þér til eigin lífsbóta og til stuðnings umhverfi þínu og fólki?

Jóhann var alla tíð áhugamaður um listir og kynntist mörgum listamönnum og eignaðist verk eftir þá. Má þar nefna Erró, Sverri Haraldsson, Karl Kvaran, Kristján Davíðsson og fleiri. Hann fylgdist vel með listalífinu og sótti sýningar og tónleika og eignaðist marga góða vini í hópi listafólks. Hann var afburða-sögumaður sem sagði svo skemmtilega frá. Hann hafði í sér gáska og gleði til gjörninga. Góður teiknari og nákvæmur í öllu sem hann vildi vanda. Rökvís í fræðunum, en listamaður í samfélagi. Formlegur í akademíunni en bóhem í einkalífinu. Fyrirsjáanlegur í stjórnsýslunni, góður í málafylgju, litríkur í kennslu, frumkvöðull í öllu sem hann hafði áhuga á.

Og nú er hann farinn. Engar nýjar, skapandi útgáfur af sögunum hans framar. Hann brosir ekki afvopnandi á Kaffi-Vest eða kemur á slaginu þegar hann átti að mæta einhvers staðar. Hann kaupir ekki framar módernistamynd eða skrælir vísindaritgerð niður í nakinn kjarnann. Nú er það bara umvefjandi bros Guðs, sem öllu eirir, allt elskar og fagnar góðum fræðum og bóhemískum gjörningum okkar mannanna.

Guð geymi Jóhann Axelsson, Guð styrki ykkur ástvini og blessi og efli fræði, vit og frið í heimi.

Þau sem beðið hafa fyrir kveðjur til ykkar eru Selma Friðfinnsdóttir og Jón Eiður Snorrason, dætur þeirra og fjölskyldur. Ennfremur Kristín, Sveinn og fjölskyldur.

Erfidrykkja í safnaðarheimilinu strax eftir athöfnina. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði við hlið Ingerar Jessen. Útför í Neskirkju, 1. febrúar kl. 13. Steingrímur Þórhallsson og félagar út Schola cantorum. ÚK/LÁ

 

Ófeigur Björnsson, gullsmiður, kvaddur

„Í húsi föður míns eru margar vistarverur“ segir Jesús í textanum sem ég las fyrir ykkur úr Jóhannesarguðspjalli. Meistarinn frá Nasaret minnti á að lífið er ekki smátt heldur mikið, ekki lítilmótlegt heldur stórkostlegt. Möguleikarnir eru ekki takmarkaðir heldur margvíslegir og heimurinn er ekki bara gata í bæ heldur stórveröldin, bæði þessa heims og annars. Og samkvæmt Jesúnálguninni er lífið ekki búið þegar hjarta hættir að slá og blóð að renna um æðar – heldur er listaverk Guðs margra heima og vídda.

Ævintýrahús

Hildur sýndi mér hús þeirra Ófeigs í vikunni. Ég hef oft komið í búðina til þeirra á Skólavörðustígnum, keypt marga skartgripi Ófeigs, gert mér ferð á sýningarnar sem þau Hildur hýstu og meira að segja sótt til þeirra skúlptúr Páls í Húsafelli sem vinir okkar hjóna gáfu okkur og þau Ófeigur höfðu geymt í garði sínum. Ég vissi því að hús Ófeigs og Hildar væri smekklegt og áhugavert. En mig óraði ekki fyrir að það væri eins og ævintýrahús í Harry Potter-bók eða mynd. Verkstæðið með vinnuborðunum er fullt af dóti, staður til að tala, skapa, hlægja, gramsa og jafnvel kíta. Efni og gögn eru upp um alla veggi og ekki auðvelt að sjá reiðuna í öllu magninu. En íbúarnir vita nákvæmlega hvar þetta blaðið eða efnisbúturinn væri. Og svo fórum við lengra, í gegnum herbergi, fram hjá dyrum verslunar Ingu Elínar, upp brattan stiga og í íbúð þeirra Ófeigs. Þar eru stofur, eldhús og herbergi, og ekki öll á sama plani eða með sömu lofthæð sem eykur furðuna. Vistarverur eru fullar af kærleika, listmunum, litum og persónuvíddum húsráðenda. Og svo fóru við enn ofar og þá tók við ríki drengjanna, kjólasauma, hattagerðar og gesta, undraheimur í upphæðum með mörgum litum. Og alla leið niður í kjallarann, þennan útgrafna undraheim í hundrað og fjörutíu ára húsi, hvítmáluð vistarvera, svo snyrtileg, með efni skúlptúristans og gullsmiðsins, dyngja listamannsins sem hefur safnað efni sem gæti komið að notum í framtíðinni – eins og ávísun á framlíf, frekari verk og opinn tíma – eða kannski eilífð.

Skólavörðustígur hér og þar

Í húsi föður míns eru margar vistarverur – já í húsi Ófeigs og Hildar eru margar vistarverur – minningarrými. Og hafa skírskotanir til lífs. Heimili þeirra er eins og tákn um þá lífshætti sem þau Ófeigur hafa iðkað og vinir og fjölskylda hafa notið og við flest síðan þau fluttu á Skólavörðustíginn fyrir þremur áratugum. Þá fóru þau að skapa menningu Skólavörðustígsins sem gerði hann að skemmtilegustu götu Reykjavíkur. Ófeigur var ekki bara húsvörður Skólavörðustígsins eða þau Hildur guðfaðir og guðmóðir menningarinnar, heldur voru þau í hópi metnaðarfulls fólks sem byggði upp samfélag skapandi lista. Í húsi Ófeigs eru margar vistarverur, í samfélagi Skólavörðustígsins eru margar víddir, í menningu miðborgarinnar hafa undrin orðið. Nú er Ófeigur að kanna vistarverur eilífðarinnar – og væntanlega aldeilis flottur lagerinn í þeim kjallaranum og þénanlegt borð til að smíða – og Ófeigur loks algerlerga laus við klukku og tíma. Aðstæður til að skapa. Margar vistarverur – þar sem ég er – segir Jesús. Gott að fá að vera í slíkri búð.

Æfiágrip

Ófeigur Björnsson fæddist á Valentínusardeginum 14. febrúar árið 1948 inn í litríkt menningarheimili margra tenginga. Foreldrar hans voru hjónin Björn Ófeigsson og Jensína E. S. Jónsdóttir. Faðirinn var stórkaupmaður og móðirin húsmóðir. Systkini Ófeigs eru Jón Björnsson, arkitekt, Jóhanna Björnsdóttir, nuddfræðingur og fararstjóri, og Anna Lísa Björnsdóttir, flugfreyja. Systurnar lifa bræður sína. Ófeigur naut frelsis, stuðnings, velvilja og fékk að þroskast að eigin vild, gera tilraunir og vaxa upp og þroska gáfur sínar. Alla tíð var Ófeigur sjálfstæður og var fremur upptekinn af því sem honum sýndist mikilvægt en einhverju almenningsáliti.

Áhrifavaldurinn

Í æsku var Ófeigur drifkraftur í Norðurmýrinni þar sem hann ólst upp og síðar í Brekkugerði. Þegar Ófeigur vildi fara út að leika beitti hann ofurflauti sínu, blístraði svo hvellt og skerandi að krakkarnir heyrðu merkið. Og þau streymdu út úr húsunum til leika. Ófeigur kallaði – hann varð sem sé áhrifavaldur þegar í bernsku. Alla tíð var Ófeigur uppátækjasamur og hætti aldrei að bralla í lífinu. Áhrifavaldur í menningu og samfélagi.

Pabbi Ófeigs var einu sinni á gangi á Carnaby Street í upphafi bítlaaldar. Hann gerði sér grein fyrir stílbreytingunum og vissi að Ófeigur væri maður til að ganga í útvíðum buxum og skræpóttum skyrtum. Svo pabbinn keypti flottustu jakkafötinn og unglingurinn varð aðaltöffarinn og tískulaukur hverfisins. Engum kom á óvart þegar Ófeigur birtist skyndilega á fjólubláum buxum sem var nú aðallega föstulitur í kirkjum á þeim árum. Ófeigur fékk í arf og vegna uppeldis vitund um liti, form, fegurð og föt. En svo var hann sjálfur litsækinn og hugaður. Ófeigur hafði alltaf sinn stíl og þorði að blanda litum, formum og furðum þvert á það sem aðrir myndu gera hvort sem það var heima eða á Spánarströnd. Litríkið fylgdi honum alla leið og í kistu líka.

Gullsmíði og skúlptúrar

Eftir skóla lagði Ófeigur stund á gullsmíðanám og lærði hjá Jóhannesi Jóhannessyni á Skólavörðustígnum. Hann útskrifaðist frá Iðnskólanum árið 1969 – var sá fjögur-þúsundasti sem útskrifaðist frá þeim merka skóla hér við hliðina á Hallgrímskirkju. Ákveðin formleit bjó í Ófeigi og hann stundaði nám í skúlptúrdeild Myndlistarskóla Reykjavíkur. Til að sjá sér og fjölskyldunni farborða starfaði Ófeigur sem slökkviliðsmaður á Keflavíkurflugvelli frá 1973 til 1997. Vinnan, félagsskapurinn og vinnuumhverfið hentaði honum vel og lagði grunn að mörgu í lífi hans, fjárhagslega og félagslega.

Hildur og fjölskyldan

Ófeigur var svo heppinn að Hildur varð drottning lífs hans. Tómas Andrés Tómasson dró vin sinn með sér í bæinn og á rúntinn. Þeir Ófeigur enduðu svo í bíó. Þar var Hildur með skólasystur Tomma sem hann heilsaði. Ófeigur fór inn í bíóið á undan vini sínum og settist si svona hjá stelpunum. Tommi kom svo inn og spurði síðar af hverju hann hefði sest hjá þeim. „Nú þú heilsaðir þeim.“ Ófeigur var alltaf kurteisislega slakur. En þegar kom að málum Hildar sótti hann inn í geislann hennar og þar var allt rétt. Hamingjan heilsaði honum og kærleikur þeirra beið aldrei skipbrot. Ófeigur tilkynnti Tomma að Hildur væri hans. Neistinn kveikti bál og suðan þeirra brast aldrei. Þau Ófeigur og Hildur Bolladóttir gengu í hjónaband í maílok árið 1969 og voru því búin að vera lífsfélagar í meira en hálfa öld þegar Ófeigur lést. Hildur er kjóla- og hattameistari – eins og allir vita sem hafa komið á Skólavörðustíginn. Alla tíð dáðist Hildur að manni sínum og hann að henni og þau styrktu hvort annað. „Hún hló alltaf að honum“ sagði sonur þeirra og tjáði um leið ást þeirra sem er best í aðdáun, vináttu og kátínu. Þau voru ólík og byggðu á styrkleikum, voru samhent og ræktuðu virðinguna. Í því eru þau skínandi fyrirmynd okkur hinum.

Strákarnir tveir komu í heiminn, Bolli í september 1970 og Björn í janúar 1973. Bolli er gullsmíðameistari og rafvirki. Kona hans Þórunn Margrét Gunnarsdóttir, leikskólakennari. Börn þeirra eru Gunnar, Hildur Margrét og Bára María. Björn er grafískur hönnuður. Kona hans er Aníta Rut Harðardóttir, varðstjóri. Fóstursynir Björns eru Lúðvík Marínó Karlsson og Alexander Emil Beck.

Fyrstu hjúskaparárin bjuggu Ófeigur og Hildur austan við Skólavörðuholtið, við Vífilsgötuna. Svo tóku þau þátt í íslenska draumnum og fóru að byggja. Þau unnu sjálf við bygginguna og þá var heppilegt að Ófeigur var einn og heilan sólarhring í vinnunni suður á Velli og svo kom hann heim og átti tvo sólarhringa hjá fjölskyldunni og í byggingavinnunni upp í Vesturbergi 79. Allt gekk þeim að sólu. Þau fluttu inn á þjóðhátíðardeginum 1976. Meira að segja veðrið var dásamlegt þetta sumar og fór upp í yfir 24 gráður rétt eftir að þau voru flutt í þessar upphæðir Reykjavíkur. Drengirnir höfðu næg verkefni og Ófeigur var þeim natinn pabbi, hafði alltaf gaman af skemmtilegheitum og stýrði m.a. brennugerð fyrir áramótin. Vanur slökkviliðsmaðurinn bjó til kyndla fyrir drengina og var hrókur alls fagnaðar sem brennumaður. Hann hvatti sína menn til afreka, átaka og gleðiefna. Gekk sjálfur á undan með góðu fordæmi í alls konar bralli, átti hlut í bát sem hann sigldi á um sundin, fór á skak eða bara í siglingu í dýrð sumarkvöldsins. Ófeigur treysti sonum sínum furðu ungum til átaka á sjónum. Í Ófeigi bjó hugur og geta til ferða, fjörs og upplifana. Það gaf hann sonum sínum í arf.

Ófleygur

Svo var flugmennskan. Ófeigur var flugmenntaður og sótti upp í himininn. Einu sinni sá hann til manns út á túni að setja saman svifdreka. Ófeigur færði sig nær og tók manninn tali. Sá hafði gaman af handverkinu og samsetningunni en var ekki viss um að hann myndi fljúga græjunni. Það þótti Ófeigi næsta einkennilegt svo hann bauð sig fram sem tilraunaflugmann, fór upp á þúfu og flugið tókst. Svo var næsta tilraun í Úlfarsfelli og tókst mæta vel. Síðan varð Ófeigi ekki aftur snúið. Hann varð einn frumkvöðlum og stofnendum Svifdrekafélags Reykjavíkur og fyrsti formaður. Alltaf komst hann lifandi úr flugleiðöngrum sínum en félagar hans grínuðust með þegar hann lenti hastarlega að hann væri ekki Ófeigur heldur Ófleygur. Ófeigur hafði gaman af.

Gripir Ófeigs

Ófeigur átti listamenn að vinum og naut samvista við skapandi fólk. Gullsmíðin og iðja stéttarinnar höfðaði til hans. Hann hafði næmt auga fyrir formum, áferð og litum. Nálgun hans í listgrein hans var skúlptúristans. Munirnir sem hann smíðaði voru eins og smækkaðir skúlptúrar. Ófeigur var alla tíð sjálfstæður og engum háður. Hann þorði að fara eigin leiðir og smíða það sem djúp sálar hans kallaði á. Skartgripir Ófeigs voru því gjarnan sérstakir, einstakir og með sterkum höfundareinkennum. Það fór ekki milli mála hver hafði gert og því urðu munir hans víða samtalsefni því Ófeigur var frumlegur. Í kjallaranum á húsi þeirra Hildar er enn lager af því sem Ófeigur safnaði sér til að smíða úr.

Listamiðstöð og kraftuppspretta

Já, þau fluttu á Skólavörðustíginn. Bæði áttu fjölskylduupphaf í hverfinu. Ófeigur hafði ekki aðeins lært á þessum slóðum heldur líka verið meðlimur í Gallerí Grjót sem hafði aðsetur neðarlega við Skólavörðustíg á níunda áratugnum. Hildur hafði líka tengsl á torfuna. Og þó þeim liði vel í upphæðum Breiðholts voru þau þó með augun á miðbænum. Svo fann Hildur húsið sem þau síðan keyptu. Það hentaði þeim sem vinnustofa og heimili. Þau fluttu í húsið nr. 5 árið 1991 og eru því búin að búa þar í þrjá áratugi, skapa veröld undra og menningar. Þau settu upp verkstæði og sölubúð og bættu við sýningarsal fyrir ofan verslunarrýmið. Gullsmiðju-og listmuna-hús Ófeigs var stofnað árið 1992. Í sýningarsalnum hefur verið himnaríki listanna. Þar hafa verið haldnar um 360 listsýningar. Það er stórkostlegt. Í bakgarðinum og einnig fyrir búðardyrum fyrir framan verslun Ófeigs og Hildar hafa verði haldnir fjölmargir tónleikar og listviðburðir. Þau Ófeigur og fjölskylda hafa verið frumkvöðlar, hugsjónafólk sem hafa unnið kraftaverk í menningarmálum, beitt sér fyrir götuhátíðum, verið gæðahvatar hverfisins. Þau hafa fagnað nýjum listamönnum og verslunarfólki, borið blóm hamingjunnar til fólks sem var að byrja rekstur, lofsungið þau sem hafa skarað fram úr og gert Skólavörðustíginn og miðbæinn betri. Alltaf hvetjandi, alltaf eflandi. Þau Ófeigur sáu aldrei ógn í öðrum listamönnum, handverksmönnum eða verslunareigendum. Þau litu ekki á aðra sem hættu heldur félaga í að gera gott betra, efla mannlíf og gera góðan stíg að bestu götu borgarinnar. Ófeigur stóð gjarnan utan búðar, átti góð orð fyrir alla sem fóru hjá og hvatninu til nágranna, hugmyndir til eflingar eða nýsköpunar. Ófeigur var ekki aðeins góður gullsmiður heldur smíðaði gull í samskiptum og menningu hverfisins. Hann var ekki aðeins handverksmaður heldur menningarlistamaður, gull af manni sjálfur og þau Hildur guðfeðgin hverfisins. Líf þeirra og störf urðu kraftuppspretta mannlífs og menningar. Það er því við hæfi og eðlilegt að þau hafi fengið ýmsar viðurkenningar fyrir framlag til þróunar miðborgarinnar. Og takk fyrir allar götuhátíðirnar, kjötsúpudaginn, blómadaginn, beikonfestivalið, matarhátíðirnar og blúsfestivalið.

Mannvirðing

Ófeigur var meistari mýktarinnar í samskiptum við fólk. Hann kunni ekki að greina fólk í flokka og fór ekki í manngreinarálit. Hann rabbaði við Madeleine Albright með sama hætti og við Helga úrsmið, Egil Ólafs, Jóa í Ostabúðinni eða afgreiðslufólkið í Tösku- og hanskabúðinni. Það var því ekki aðeins merkilegt að skoða handarverk hans heldur ánægjuleg og skemmtileg reynsla að ræða við hann um þau eða lífið. Ófeigur hafði í sér þessa jákvæðu lífssýn að fólk væri dýrmætt og allir væru mikilvægir. Hann var óbeislaður af tímapressu og var eins og spekingur sem fólk laðaðist að. Og svo fór fólk með gleði og fallega muni heim, ekki bara Clinton, Madeleine Albright og Ringo Starr heldur svo mörg okkar sem hér kveðjum í dag og mannfjöldinn sem hefur farið um Skólavörðustíginn.

Mýkt samskipta

Og hvað var Ófeigur þér? Hvað sagði hann eða gerði sem hefur lifað í þér? Manstu hve næmur hann var á fegurð og hræringar náttúrunnar? Og dró með sér heim tilfinningar sem hann tjáði síðan í verkum sínum. Manstu hve slakur hann var gagnvart framrás tímans? Klukkuverk hans var af öðrum heimi. Það var eins og tíminn væri óháður, hann talaði og var. Fólk leitaði því gjarnan til hans, í hafkyrru jákvæðni Ófeigs. Hann reifaði málin, reifst ekki, skapaði ekki óreiðu eða óvild en gat sagt skoðun sína skýrt og án nokkurrar áreitni. Af því hann dæmdi ekki gátu vinir hans og samferðamenn leitað í visku hans.

Ritúal og gjörningar Ófeigs

Ófeigur var ekki allra og bar sjaldan mál sín á torg. Íþyngdi ekki fólkinu sem hann umgekkst og reyndi að leysa úr málum með lausnamiðaðri nálgun. Hann hafði bæði þörf fyrir og lag á að búa til ritúal úr verkefnum sínum eða máltíðum. Þegar hann bjó sig til ferðar var það sem undirbúningur eða skrýðing til trúarlegrar guðsþjónustu. Allt var tilefni til gjörnings og viðburðar. Hann var nægjusamur og gerði jafnan ekki miklar kröfur fyrir sjálfan sig. Hann leyfði öðrum að njóta sín, efldi fólk til lífs og gleði. Svo lyfti hann upp listamönnunum vinum sínum, dáðist að þeim, talaði vel um þá. Ófeigur var manneflandi í samskiptum. Allir urðu meiri í samskiptum við hann því hann var svo stór sjálfur.

Mein

Fyrir áratug fékk Ófeigur mein í háls. Eftir uppskurð vegna flögukrabbameins kom í ljós að taugar höfðu skaddast. Styrkur minnkaði í hægri handlegg hans. Ófeigur varð því gjarnan að hafa höndina í fatla. Þegar handverksmaðurinn hafði ekki lengur handstyrk og stjórn varð minna úr smíðum en hann vildi. Af Ófeigi dró síðustu ár. Hann hætti þó ekki að styðja aðra en varð að viðurkenna eigin mörk. Það varð honum og þeim Hildi happ að Bolli kom til verka á vinnustofu foreldranna. Svo sátu þeir feðgar á verkstæðinu, töluðu, fóru yfir málin, báðir skemmtilegir sagnamenn. Lífið hélt áfram þó flugmaðurinn lenti og handverksmaðurinn stilltist. Kannski vissi Ófeigur að hverju drægi – alla vega vildi hann að þau Hildur færu til Tenerife í haust. Þau fóru jafnan eftir áramót og hittu vini sína úr alþjóðadreifingunni og áttu með þeim góðan tíma. En í þetta skiptið voru þau bara tvö – fóru hinstu ferðina. Ófeigur fór í stóra aðgerð eftir heimkomu – og er eftir hana fór hann inn í listhús eilífðar.

Listsmiðja himinsins

Og þá eru mikil skil. Hann eldar ekki framar sérkennilegt sjávarpasta fyrir drengina sína. Hann fer ekki framar út að borða með Hildi á laugardegi eftir lokun eða til að hitta félagana í Loka. Fallega svuntan hans Ófeigs hangir nú eins og sorgarklæði við kaffimaskínuna á verkstæðinu. Engin hamarshögg framar, engir skúlptúrar – engar búddískar viskuræður við pílagríma heimsins. Engin aðventuasi eða Þorláksmessuþreyta. Hattarnir og kjólarnir hennar Hildar eru til og Bolli heldur áfram að smíða – en Ófeigsgripirnir fæðast ekki framar á Skólavörðustíg. Andinn er farinn – nú er það miðborgin meiri þar sem ekki þarf að lúta neinu valdi nema gæðum – lífsbrallinu – sem er í húsi föður míns – listsmiðju himinsins.

Guð geymi Ófeig og styrki ykkur öll á lífsreisunni. Amen.

Kistulagning 13,30, bænhúsið í Fossvogi, fimmtudaginn 2. des. Hallgrímskirkja: Bálför föstudaginnn, 3. des. Jarðsett í Sólvangi. Engin erfidrykkja var eftir útför vegna sóttvarnasjónarmið ástæðurnar. Vini Ófeigs þótti miður að fjölskylda og félagar gætu ekki hist. Hann hringdi í Hildi og baust til að sjá um veitingar á kirkjutorginu. Hún sagði já takk – Ófeigur var jú lausnamiðaður. Vinurinn var Tómas A. Tómasson, hamborgarakóngur og alþingismaður. Þegar kista Ófeigs hafði verið borin úr kirkju útdeildu vaskir grillarar hamborgurum. Takk Tommi. Steikarlyktin kitlaði nef allra. Einn vina Ófeigs sagði: „Frábær hamborgari. Þetta er algerlega ný tegund af veitingum eftir jarðarför. Og frábær valkostur.“ Kannski að brauðterturnar séu á útleið og hamborgararnir komi í staðinn?