Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Kjartan Magnússon +++

Kjartan settist í bílstjórastólinn, leit í speglana, hægra megin, vinstra megin, skaut augum upp í spegilinn sem sýndi allan vagninn. Og svo enn einu sinni leit hann í hliðarspeglana. Kjartan var yfirvegaður og öruggur bílstjóri, hafði fullkomið yfirlit, næma tilfinningu fyrir hættunum og þar með hvað gæti orðið. Það var ekki pat heldur stefnufesta, ákveðni og yfirvegun. Vagninn leið af stað og var smáum og stórum öruggur strætó. Þessum bílstjóra, þessum vagni, mátti treysta í umferðinni.

Ætt og ástvinir

Kjartan Magnússon fæddist í Reykjavík 11. ágúst, árið 1938. Hann var sonur Margrétar Kjartansdóttur og Magnúsar Þorkelssonar, sem lést um aldur fram (1958). Bróðir Kjartans var Ingi, átta árum eldri. Hann er látinn. Bræðurnir héldu heimili með móður sinni, þegar faðir þeirra lést. Eftir að Ingi kvæntist voru þau tvö eftir Kjartan og Margrét og áttu saman tveggja manna heimili í mörg ár. Þegar Hallfríður Birna Skúladóttir kom inn í líf hans var þeirra heimilisfaðmur opnaður fyrir henni.

Börn Kjartans og Hallfríðar eru Auðunn og Margrét. Auðunn er kvæntur Ingu Dóru Kristjánsdóttur og eiga þau þrjú börn. Þau eru: Kjartan Sölvi, Kristján Einar og Stefán Heiðar. Eiginmaður Margrétar er Þröstur Sívertsen. Börn þeirra eru: Ívar Atli, Hallfríður Birna og Sigurður Snær. Hallfríður og Kjartan gengu í hjónaband á jólum 1968. Tveimur árum síðar keyptu þau íbúð á Hagamel 32. Þar bjuggu þau í 34 ár.

Uppvöxtur

Kjartan ólst upp í Höfðaborginni, sem er á því svæði þar sem Borgartún er nú, og því við Höfða. Gríðarlegur hópur barna var samankomin á svæðinu. Það gekk því mikið á í lífi þeirra Inga og allt þetta litróf mannlífs, sem þeir urðu vitni að og tóku þátt í varð þeim til lærdóms og innsæis. Kjartan lærði að umgangast ólíkt fólk og varð afar hæfur í samskiptum. Hann var alla tíð næmur á eigindir og gerð fólks, gerði sér grein fyrir hvað fólk vildi, hvers það óskaði sér, hvar brestir þess voru, hverjir voru að þykjast og hverjir væru traustsins verðir. Hverjum var í lagi að tengjast og vinna eða leika með. Alla tíð mundi hann hver bjó í hvaða húsi, hafði þetta trausta yfirlit um líf, hver var hver og hvernig þessi eða hinn væri eða við hverju mætti búast. Yfirsýn þroskaðist og innsæi einnig.

Skóli og vinnusókn

Eftir að skylduskóla lauk réð sjálsbjargarhvöt og dugnaður. Kjartan hóf launavinnu og kom víða að verki. Hann vann verkamannavinu við höfnina. Þegar hann hafði aldur til tók hann strax bílbróf og síðan meirapróf og hóf að aka stórbílum. Og það urðu vagnarnir og stórbílarnir, sem voru verkfæri Kjartans í marga áratugi. Hann vann hjá Steindóri, um tíma við akstur vörubíla hjá Hafskip, en síðan hjá Strætisvögnum Reykjavíkur í 35 ár. Samtals var Kjartan yfir fjörutíu ár við akstur, líklega nær 43.  

Skiplagður – snyrtimenni

Kjartan vildi gott skipulag og festu í lífinu. Hann lagði bílnum sínum í sama stæðið hinum megin götunnar. Þar var hægt að sjá til hans. Hann vildi hafa yfirlitið. Hvernig hann vaktaði sjálfur sinn bíl var vottur um aðra yfirsýn og skikkan, sem Kjartan vildi hafa. Hann var reglumaður, skipulagður, fastur fyrir og ákveðinn. Eins og í öllum verkum var hann traustur í heimilishaldinu og stöndugur í vinnunni. Hann var snyrtimenni, hafði allt í röð og reglu. Hann var einnig glæsimenni á velli einnig.

Heilsurækt

Kjartan bar í líkama sínum heilsuveilu. Faðir hans hafði fallið vegna hjartaáfalls í miðju dagsverki. Sonurinn erfði veilu föðurins. En til aðvinna gegn henni sinnti Kjartan líkamsrækt sinni með sömu festu og reglusemi sem í öðru. Þau Hallfríður fóru saman í sund á hverjum degi. Með því juku þau sín lífsgæði og líka lífsgleði. Allir, sem koma úr langri sundferð í laugunum, eru léttir á sál og líkama. Árbæjarlaugin reyndist þeim hjónum vel.

Skemmtun og kímni

Kjartan hafði gaman af fólki. Hann hafði áhuga á málefnum líðandi stundar, tengslum þeirra við fólk og hvar hugur og hugðarefni einstaklinganna fóru saman. Trúnaðinn hafði hann gaman að reyna og nokkrar athugasemdir reyndu á viðmælandann. Ef þeir þutu upp í vörn eða skapi þurfti ekki meira. Þá var áreitið búið frá Kjartans hálfu. Með svolítið bros út í annað gat hann snúið sér að næsta máli eða manni. Hann var stríðinn, en ekki til meins. Honum þótti vænt um viðmælendur og leitaði eftir hvar veilurnar voru. Það var mannelska og leikur fólginn í list hans. Og það er mikilvægt að reyna fólk til þroska án þess að meiða, eins og Jesús og reyndar Sókrates líka sýndu forðum. Þegar dóttir Kjartans þaut ekki lengur upp, vissi hann að hann var að eldast og andvarpaði.

Fjöskyldumaðurinn

Fólksgamanið náði sinni mestu dýpt og bestu vídd gagnvart fjölskyldufólki Kjartans. Hann sinnti uppeldi barna sinn með ákveðni og áhuga. Hann var traustur  eiginmaður. Hann sýndi í hjúskap sínum það, sem er hvað mikilvægast í hjónabandi vináttu og virðingu fyrir maka sínum, sem kom fram í stuðningi og festu. Kjartan var elskur að öllu vensla- og tengsla-fólk sínu, var góður við tengdamóður sína, tengdur mágkonum sínum og mökum þeirra. Hann sóttist eftir að vera þar sem fjölskyldufólk hans var. Honum þótti gott að vera með fólkið sitt í kringum sig. Uppí Munaðarnesi var hann alsæll í faðmi fjölskyldunnar. Hann var gestrisinn og örlátur höfðingi í tengslum. Hann skildi gildi fagnaðarins, vildi halda góðar veislur og hafa hönd í bagga með matarmálin. Hann bakaði sjálfur og fór meira segja á kokkanámskeið til að bæta matargerðina. Faðir hans var honum fyrirmynd. Kjartan notaði sem orðatiltæki þegar einhverjum tókst vel til, að maturinn væri eins góður eins og hjá pabba.

Kjartan var sérlega natinn afi. Hann talaði við barnabörnin, ók þeim þangað sem þau þurftu eða vildu fara. Hann fór með þau í búðarferðir, fræddi þau og var þeim fyrirmynd. Kjartan var dulur en barnabörnin drógu allt það fínasta og besta fram hjá honum. Hann umlauk þau með allri þeirri elsku, sem hann átti. Þau hafa misst mikið og öflugan umboðsmann. Á tímum þegar kynslóðir eru að slitna í sundur var Kjartan skýr vitnisburður um ríkidæmi þess, að hinir eldri séu hinum yngri stoð og stytta, fordæmi og elskunánd. Hann átti tíma fyrir börnin, fara með þeim eða bara vera og spila við þau rommy eða Olsen Olsen, skemmta þeim og hlægja með þeim. Slík afstaða og iðja skapar traust í barnssálum og er í samræmi við fyrirmyndina sem við eigum besta, Jesú.

Hið guðlega samhengi

Mannlífið er undursamlegt og með því að skoða fólk ástaraugum getum við séð ljósbrot af himnum. Með því að skoða líf Kjartans getum við skilið ofurlítið af eigindum Guðs. Í Davíðssálmum segir: “Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. …. Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.” Þessi veröld sem við gistum er góð, mikill salur gæða. Allt hið smæsta sem hið mesta er undursamleg smíð. Allt er á hreyfingu,  í samfelldri verðandi. Hin fornu trúarskáld lifðu og tjáðu þessa grunntilfinningu og sáu í umhverfi, í mannfélagi, í samskiptum fólks og lífsbaráttu þess það sem heitir Guð á máli okkar.

Þegar fegurð fjallasals hrífur og lítil mannsaugu horfa upp í óendanleikann er hægt að orðfæra að Guð hvelfi hásal sinn. Þegar hvelfingin er samfellt sjónarspil ljósa, hræringa og lita er guðlegt drama. Og Guð gerir skýin að vagni sínum. Maðurinn fer um, maðurinn gerir sér farartæki til ferða. Guð er enn öflugri, ljóðmál trúarinnar tjáir að Guð fari um á vængjum vindsins. Allt er í öruggri umsjón, allt er gott, allt er í verðandi þess sem er traust, því Guð er, umspennir alla hvelfingu veraldar, er jafnvel í skýjum, fer um og hefur ástartilsjón með okkur mönnum og lífinu öllu. Veröldin er góður farkostur, í öruggum höndum þess sem er traustsins verður.

Kjartan Magnússon hefur lagt upp í sína hinstu ferð. Hann fer ekki framar leinangra með Hallfríði eða barnabörnin sín í hvíta bílnum. Benzhúfan hans liggur eftir munaðarlaus þar sem hann skildi við hana á lokadegi. Kjartan fer ekki lengur neinar sendiherraferðir hjá Strætó. Þessi ábyrgi og fyrirhyggjusami ferðamaður og bílstjóri ekur nú ekki lengur fjarkan eða sjöuna okkur hinum til gagns og með fullkomnu öryggi. Nú er hann á vagni himinsins, sem er númerslaus, skortir aldrei orku, bilar aldrei, þar sem yfirsýn, öryggi og hreinlæti er algert og engin slys verða. Þar er Kjartan öruggur því þar er Guð, sem er allt og gerir allt kvikt. Guð geymi hann og verndi að eilífu.

“Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd. Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk. Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins. Sálmur 104. 1-3.

  1. júlí 2004

Margrét Pétursdóttir Jónsson +++

„Ég held hún sé að koma,“ segja þau og rýna út í morgunmyrkrið. “Jú þarna er amma.” Svo kemur Margrét með fangið fullt af pinklum í dyragættina. Ef dóttir eða barnabarn átti afmæli kom amma með köku og jafnvel líka nýbökuð rúnnstykki eða horn. Svo var slegið upp veislu. Allt heimilisfólkið settist að morgunverðarborði. Nú var hægt að fagna því afmælið kom ekki í húsið fyrr en amma kom. Amma var boðberi og tákn veislunnar. Hún var eiginlega eins og Babette í lífinu.

Upphafið dramatíska

Margrét Pétursdóttir Jónsson fæddist í Bremen í Þýskalandi 30. maí 1928 og lést þann 17. júní síðastliðinn þá nýorðin 76 ára gömul. Foreldar hennar voru Pétur Árni Jónsson, óperusöngvari og Karen Louise Jónsson, fædd Köhler. Eldri systkini hennar voru Erika Jóhannsson og Per Jónsson. Foreldrar og systkinin eru öll látin.

Heim og heiman

Þegar Hitler komst til valda í Þýskalandi leist Pétri ekki á blikuna. Hann var öndverður naismanum og ákvað að fara til Íslands. Ætlaði að vera í ár heima, en fór hvergi. Þau hjónin settust að á Ásvallagötu og síðan á Sólvallagötu. Margrét sótti barnaskóla í Landakoti og nam hjá prestum og nunnum og dró að sér vísdóm hinnar gömlu kirkju. Þegar hún hafði lokið skyldunámi fór hún síðan bráðung í Verslunarskólann og var amk árinu yngri en hin. Eftir útskrift frá skólanum árið 1944 var hún ráðin í Stjórnarráðið og vann almenn skrifstofustörf.

Frá Lækjatorgi fór Margrét í utanríkisþjónustuna. Hún var aðeins nítján ára þegar henni var boðið að fara til New York og vinna þar á skrifstofu ræðismannsins. Hún bjó á Long Island vestan við Central Park við Broadway. Gekk um allt og kynntist Manhattan með fótunum og skemmti sér við að segja, að hún hefði eyðilagt á sér fæturna í verslunarleiðöngrum. Margrét leigði hjá íslenskri konu. Þar var Íslendinganýlenda, hópur listamanna hélt þar til og glatt var á hjalla. Margrét drakk í sig stórborgarlífið, þræddi traðirnar milli skýjakljúfanna, fór og hlustaði á Benny Goodman og fékk fágæta fjölmenningarlega og listræna útsýn sem fylgdi henni æ síðan. Svo fór hún heim.

Hjúskapur

Í New York hafði Margrét kynnst konu frá Seyðisfirði, sem átti fallegan bróður, Jón Gestsson. Ástin blossaði og þau Margrét gengu í hjónaband árið 1953. Þá var Jón, þrátt fyrir ungan aldur, þegar ráðinn rafveitustjóri á Ísafirði. Margrét hugsaði sig vel um, sagði upp starfi í utanríkisþjónustunni og flutti vestur. Þar bjuggu þau hjónin allan sinn hjúskap og eignuðust tvær dætur.

Dæturnar og hjúskapur

Sú eldri er Hildur Karen Jónsdóttir. Hún er í sambúð með Bjarna Má Bjarnasyni. Börn hennar eru Hneta Rós, Margrét Rán og Jóhann Garðar. Yngri systirin er Hólmfríður Jónsdóttir. Hennar maður er Jón Ólafur Skarphéðinsson. Börn þeirra eru Jón Börkur, sem lést af slysförum, Una Björk og Ása Karen. Margrét átti þriðja barnið, sem var andvana fæddur drengur og var jarðsettur með Pétri afa sínum og átti að bera nafn hans.

Margrét og Jón nutu hjúskaparins í átta ár. Eins og hendi væri veifað var líf Jóns slökkt. Hann lést af slysförum í október 1961. Úr vöndu var að ráða fyrir unga ekkju með tvö börn. Margrét var fyrir vestan í nær ár en flutti síðan suður, fyrst í Hátún. Síðan keyptu þær Margrét og móðir hennar samstæðar íbúðir í nýrri blokk við Kaplaskjólsveg. Þegar Margrét kom suður hóf hún vinnu hjá Sölunefnd Varnarliðseigna, leið vel, bar samstarfsfólki sínu afar góða sögu og gerði eiginlega upp búið þegar fyrirtækinu var slitið. Hún vann því lengur en til sjötugs. Síðan fór hún að gera ekki neitt, eða svo sagði hún og hló við.

Margrét kynntist Ragnari Seindóri Jenssyni og þau gengu í hjónaband 1971. Þau skildu eftir átján ára hjúskap.

Kátína og spuni

Hvernig kona var Margrét? Hún sagðist vera skapgóð eins og faðir hennar og hefur sjálfsagt erft hina æðrulausu skaphöfn hans. Raunar var hún kát, vildi léttleikandi mannlíf og átti í sér léttbeislaðan hlátur. Hún hafði gaman af öllum spuna. Skemmti sér við að ryðja stofugólfið með dóttur eða dætrum til að dansa á föstudagskvöldum. Hún hikaði ekki við að fara með ungviðinu niður á Borg þó hún vissi hvar mörkin voru.

Með fólki og fyrir fólk

Kátínugjörningurinn var tengdur fólki. Margrét hafði gaman af að fara út að borða, en með fólki – dóttur, barnabarni eða vinum. Hún naut þess að fara á kaffihús og tala og gleðjast. Hún hafði gaman af gleði barnanna og gat alveg unnt ungviðinu að mála eldhúsvegginn með skærum vatnslitum. Þá var hún kát þótt það síðan kostaði hana mikla vinnu að þrífa kokkhúsið að nýju. Hún hafði þörf fyrir nánd, knúsaði sitt fólk, tjáði ástríki í orðum, með látæði og líkamlegu móti. Hún var ástúðleg og gjafmild, rausnarleg og minnug á merkisdaga í ævi samferðafólksins síns.  Hún var trygglynd, átti mikið af vinum og kunningjum, sem er ekki undarlegt þar sem hún bar með sér veisluna í sér og í fanginu.

Náttúrutengsl og umhverfisvernd

Margrét var náttúruunnandi, naut þess að horfa á litbrigði veðurs, sjá fegurð staða og árstíða og lét sig umhverfisábyrgð varða. Hún lagði mikið á sig við að koma pappír í endurvinnslu. Engu skipti þótt hún ætti ekki bíl til að flytja dagblaðabunkana, hún bar þá eða hjólaði með þá. Það er einbeitt þátttaka í endurvinnslu. Margrét vildi líka að allir legðust á eitt að viðhalda fágun og snyrtilegu umhverfi. Tyggjóklessur á gangstéttum voru ekki vinir Margrétar og hún vildi að bæði fólk og borg gerði eitthvað í málinu.

Fegurðin

Hún var fagurkeri alla tíð og hefur sjálfsagt þegið eigindirnar frá foreldrunum báðum. Hún vildi góð efni í föt. Hún hafði áhuga á vönduðum húsgögnum og var órög við hönnunarnýjungar. Hún hreifst af fallegum hlutum, fallegum sögum, fegurð í lífinu og lífsmöguleikum. Henni fannst stórkostlegt að geta flutt í nýja íbúð og lagði mikið á sig við að innrétta hana sem best. Hún var fíngerð í sér og hafði ýmigust á öllu því sem var klúrt. Hún var næm á hið vandaða, hafði gaman af Marimekko-efnum löngu áður en dæturnar uppgötvuðu gæðin. Svo féll hún auðvitað fyrir dönsku Poulsen ljósum – jú af því að þau voru góð hönnun. 

Margþætt flétta

Það er góð og væn kona sem við kveðjum í dag. Og þó var líf hennar markað löngum skuggum. Hún sagði að skúrirnar kæmu í lífinu til að hreinsa. Það var margt sem ýrðist yfir daga hennar og líf hennar var eins og margþætt flétta. Hún var samsett að upplagi og lífsreynslu.

Margrét var í senn Íslendingur og heimsborgari. Hún var ekki aðeins tvítyngd þegar hún kom til Íslands heldur eiginlega þrítyngd. Síðan bætti hún enskunni við síðar og varð með veru sinni vestanhafs ekki aðeins Evrópsk heldur vestræn, blanda að því sem var beggja vegna Atlanshafsins.

Svo var hún flétta í sér hvað varðar geðslag, bæði sterk og veik, ákveðin og leitandi. Lífskúnstner og líka jarðbundin, hrifgjörn og stefnuföst. Hún var einstaklega tengd foreldrum sínum báðum og þó var hún alltaf að skapa sér eigin tilveru. Mægðurnar, Mutti og Margrét, þjónuðu hvor annarri með ástúð og innra bandi sem aldrei var rofið hvað sem dreif á daga. Þær voru sjálfsagt afar mikilvæg akkeri fyrir hvor aðra í stórsjó lífsins og ferða yfir landamæri menningar og þjóða. Margrét var alin upp við klassíska tónlist en varð svo heilluð af jazz. Allt eru þetta þræðir í fléttu.

Guð og dauðinn.

Margrét missti karlmennina sína í lífinu. Hún missti drenginn sinn andvana fæddan. Og faðir hennar, sem var henni svo náinn alla tíð, fór á sömu dögunum. Fá ár liðu og þá hrundi tilvera hennar þegar maður hennar dó. Það var óendanlega sárt áfall. Síðari manninum tapaði hún einnig í margvíslegum skilningi. Jón Börk, efnilegan dótturson missti hún svo í Skerjafjarðaslysinu fyrir þremur árum. Sá missir reif upp gömlu sárin.

Margrét var reið við Guð framan af ævinni og skildi ekki þann vísdóm að nema á brott þau, sem hún elskaði. Við getum vel skilið að hrópað sé upp í himininn: Af hverju? En Guð leikur sér ekki að veröldinni og slítur ekki fólkið burt af geðþótta einum. Guð er frelsisforsenda og leggur grunn að gjörningum og tilraunum í þessum heimi frelsis.

Borðið og veislan

Í hverri kirkju er borð í miðju. Kristnin er átrúnaður veislunnar. Meistarinn sjálfur tók þátt í mannfagnaði, talaði þegar fólk kom saman, kenndi í gleðskap, vildi vera meðal lifandi fólks í líflegum aðstæðum.

Og Margrét var veislukona. Eitt af því sem sterkast einkenndi hana var að hún kunni að umbreyta hinu fábreytilega í flottan fagnað, kunni að greina í gráum hvunndeginum tilefni til að gleðjast, mundi merkisdagana, gerði úr hinu litla mikið. Hún litaði afmælisdagana í fjölskyldunni. Hún skapaði samhengi fyrir veislur. Alltaf átti fólkið hennar athvarf í hennar ranni þegar mikið stóð til. Hátíðir ársins voru gjarnan þar haldnar.

Hún vildi fá gott bakkelsi og stelpurnar hjóluðu jafnvel upp á Bergstaðstræti til að kaupa góðgæti. Hún var fyrimyndar kokkur. Á hátíð fengu allir sitt. Ef smekkurinn var ólíkur var alveg hægt að koma til móts við alla. Einn fékk rjúpur, annar kalkún, þriðji svínkjöt og sá fjórði lambakjöt! Allt galdraði hún fram með gleði hins örláta gestagjafa, því hún var veislukona, skapaði veislu, var veislan holdi klædd. Hún hafði gaman af dramanu í lífinu og var órög við að skapa.

Margrétargleði – arfurinn besti

Nú er veislan hennar mömmu og ömmu búin. Fallegu Wedgewood-bollarnir hennar, sem hún keypti smátt og smátt, fara ekki lengur á borð í yndislegu og kátínuríku kaffiboði. Engin amma í leigubíl með köku og anda afmælisins.

Hvað verður nú? Ykkar er að lifa og leyfa afmælum að verða fagnaðarrík, lifa með veisluanda, æfa ykkur í þeirri kúnst að lyfta hinu smáa upp í ljós gamansins. Margrétargleðin þarf að lifa meðal ykkar, því þannig lifir maður vel.

Fullkomið afmæli

En vita skaltu að veislan heldur áfram, því tilveran er grundvölluð á gleðskap og kátínu himinsins. Gestgjafinn mikli, Jesús, býður til sín öllu veislufólki veraldar í samfelldan fögnuð. Við megum trúa að Margrét og Jonni, Jón Börkur, Pétur og Mutti og allt hitt fólkið finnist þar, stemmi hlátur inn í samkór himinsins, skemmti sér við Sonny boy englanna og gleðjist yfir einhverjum krásum sem gætu verið eins og grískar matarfurður!

Það er hin róttæka boðun kristninnar að tilveran er veruleiki veislunnar og það er innrím í lífi Margrétar og lífi kristninnar. Við megum því líka gleðjast í dag. Margrét er ekki töpuð, heldur hefur fæðst til nýrrar tilveru, sem er enn betri en þessi og fullkomlega skuggalaus. Fullkomið afmæli. Hún er komin alla leið og nú er það ekki hún sem skapar afmælishátíð heldur Guð sjálfur. Sú veisla er mest allra.

Minningarorð flutt við útför Margrétar Pétursdóttur Jónsson.

Fossvogskirkja 29. júní 2004.

Dagbjört Svana Hafliðadóttir +++

Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefur þú lagt á mig. Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn. Hvert get ég farið…? Þó ég stigi upp í himininnn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.
Sálm. 139

Hvert get ég farið? Upp í himininn, í undirheima, í dýptir viskunnar, – alls staðar ert þú Guð. Hefur lagt hönd á bak og brjóst – heldur í mig. Þó ég svifi upp, væri lyft af aftureldinu og roða dagrenningar – þá ertu líka þar. Þannig er mörg þúsunda ára gömul lýsing manns á veruleika Guðs – eða kanski návist Guðs. Mannvera á ferð, en með fylgd, á leið en með föruneyti, stundum á hlaupum en þó með skugga, ekki þennan venjulega, heldur einhvern sem fylgir, áreynslulaust og hljótt. Er ekki mannlífið allt ein samfelld sókn í gæði, sókn í gildi, hamingjuleit? Og hvað er okkar í þeirri leit, af hverju óþreyjan og grunur um dýpt; hvað er Guð á þeirri för? Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans, segir sálmaskáldið svo vel og yndislega – og settist við hið ysta haf. Einnig þar mundi hönd þín leiða mig. Það var haldið í hendina á Dagbjörtu. Hún var á ferð í lífinu. Stundum virtist hún fara utan alfaraleiða, en þó var hún aldrei ein.

Dagbjört Svana Hafliðadóttir fæddist á Lokastíg í Reykjavík 16. apríl árið 1929. Foreldrar hennar voru Bjarnheiður Jórunn Þórðardóttir og Hafliði Magnús Sæmundsson. Systkini hennar eru Sjöfn Hafliðadóttir og Þórður Bjarnar Hafliðason. Sjöfn, sem er búsett í Florida í Bandaríkjunum, fæddist tæpu ári á eftir Dagbjörtu, en Þóður tæpum þremur árum síðar. Dagbjört var því elst þeirra þriggja og yngri systkinin lifa systur sína. Á fyrsta ári Dagbjartar reistu foreldrar hennar ásamt móður-afa og ömmu húsið á Sjafnargötu 6. Reyndar var húsið minna þá en það er í dag, því byggt hefur verið við það. Sjafnargatan varð því heimareitur Dagbjartar upp frá því, húsið heimahús og þaðan fór hún i ferðir sínar, hvort sem það var í vinnu, utanlandsferðir í lengri og skemmri dvöl, eða ferðir í heimi sálar og anda.

Húsið varð sem tákn um Reykjavík þessara áratuga. Hafliði hafði stundað nám í Englandi og var ráðinn til hins nýbyggða Austurbæjarskóla. Hann var fulltrúi hinnar nýju menntuðu kennarakynslóðar, sem hafði metnað til að menntast vel til kennslustarfa, til að ala síðan upp nýjar kynslóðir sístækkandi bæjar, til að fleyta inn í framtíð uppbyggingar. Í húsnæðiseklunni kom hver kennarinn á fætur öðrum og leigði herbergi. Þeir urðu vinir fjölskyldunnar og snertu strengi í sálum fólksins í húsinu, tengdust með ýmsum hætti, tóku með sér andblæ, minningar og skildu eftir myndir, hlátur, skop og fróðleik af ýmsu tagi. Húsið var hús skólalífs, hús menningarlífs og hús fjölbreytninnar. En það varð eins og stórfjölskylduhús í sveit með öllum kynslóðum, með öllum kostum stórlífsins en sjálfsagt einnig ókostum og nábýli. Og auðvitað réðu konurnar miklu – mamman var stórveldi og stefnuföst og amman kunni ýmislegt einnig, – og svo voru systurnar. Húið var eiginlega kvennahús en nú er það að breytast í karlahús.

Dagbjört sótti skólann sem pabbi hennar hafði unnið að því að móta, Austurbæjarskóla, einnig Ingimarsskóla og Lindargötuskóla. Síðan hleypti hún heimdraganum og fór nokkrum sinnum til útlanda til náms. Hún var einn vetur ung í Danmörk á húsmæðraskóla i Söborg eftir stríð. Í annan tíma var hún í Frakklandi, var í París og Canne. Þar varð hún meira að segja blómadrottning og af henni voru birtar myndir í blöðum. En fegurðarbrautina hafði hún ekki í hyggju að þræða. Um tíma var Dagbjört í Ameríku, einkum í Toronto, við nám og lagði sig eftir skólun í greinum verslunar. Systir hennar giftist Ameríkana og Dagbjört hafði gaman af að vera hjá tengdafólki systur sinnar, enda lifði það nokkru ævintýralífi.

Á Íslandi stundaði Dagbjört einkum skrifstofu- og verslunarstörf. Hún starfaði m.a. á Ferðaskrifstofunni Sunnu um tíma, á Ríkisútvarpinu einnig, hjá Frama, bókaverslun Ísafoldar og víðar – var eftirsótt í vinnu því hún var lipur, ljúf. Dagbjört hafði útgeislun. Svo kom Guðmundur Ingvi Helgason inn í líf hennar. Þau felldu hugi saman og gengu í hjúskap árið 1950. Guðmundur flutti inn í húsið góða og kom með nýjan gust, með pólitíska orðræðu samtíðar og íþróttaorku úr hverfisfélaginu Val. Þar hafði hann og vinir hans stundað knattspyrnu. Guðmundur var nær tíu árum eldri en Dagjbört. Þau eignuðust eitt barn, soninn Hafliða Magnús, sem fæddist þeim sömuleiðis happaárið 1950. Guðmundur vann lengstum hjá embætti Tollstjóra og síðar á Alþingi. Þau Dagbjört áttu saman mörg góð ár áður en hún veiktist og þau ákváðu að slíta samvistum. Samgangur var áfram góður og einnig milli Guðmundar og fjölskyldu Dagbjartar þó þau væru skilin að skiptum.

Hafliði á Guðbjörn Ingva, Dagbjörtu Ingu, Helgu, Guðmund Sindra, Egil Heiðar og Daníel Magnús. Kona Hafliða er Anna Dóra Sigurðardóttir. Langömmubörnin eru tvö Magnus og Freyja, börn Dagbjartar Ingu.

Hafliði, faðir Dagbjartar, lést skyndilega árið 1940 frá konu og ungum börnum. Alla tíð sat sorgin í viðkvæmu sinni Dagbjartar. Hún var ekki nema um tíu ára gömul. Hún hélt inn í sig, varð dul með tíð og tíma, sveipaði sig blæju hlédrænginnar og fór um eigin lönd. Niður og upp, og tók út þroska einnig til hliðar við skólun í menntastofnunum og mannfélaginu. Hún átti það til að hopa aftur fyrir Sjöfnu, og skýla sér að baki henni, – leitaði líka til hennar þegar að kreppti. Svo þegar hún var á fertugsaldri sprakk eitthvað í sálinni og yfir hana flæddu tilfinningar sem hún réð ekki við og skóku líf hennar og ástvina. Hvert gat hún flúið, hvar var skjól að finna? Líklega varð það mamman sem hún leitaði helst til þegar flóðið var sem verst í sálinni.

En Dagbjört reyndi hvað hún gat að leita sér styrks og aðstoðar. Hún lagði sig eftir “náttúrulegum” meðölum, lagði sig eftir að nýta lækningamátt náttúrunnar, leitaði vísdóms hjá því fólki, sem vildi nota hollráð sem kynslóðirnar höfðu sannreynt að gátu oft hjálpað. Hún var náttúrulækningakona í hófsömum skilningi þess orðs. Hún lagði sig jafnvel eftir að kynna sér nudd. Á síðasta tímabili ævinnar rofaði vel til og þegar hún flutti í Sóltún reyndist það henni góður staður sem stóð undir nafni. 

Dagbjört var á ferðinni í lífinu. Hún fór milli staða, hún hafði gaman af ferðalögum í æsku, gekk á fjöll og fór oft til útlanda á fullorðinsárum. Hún fór með Guðmundi sínum til Spánar einu sinni með Heklunni, í annan tíma með Hafliða til Edinborgar, auk ferðanna sem áður eru nefndar. Hún var í tengslum við allan heiminn, og kanski á undan sinni samtíð í því. Hún var í samskiptum við allan heiminn, allavega vöktu bréfin frá Japan aðdáun á heimilinu, og sonur Dagbjartar horði á þau undrunaraugum. Mamma var í miklum málum.

Dagbjört hafði gaman af hreyfingu og dansaði jafnvel ballet í Þjóðleikhúsinu um tíma á æskuárum. Svo steig hún á svið og lék með Sjöfn systur sinni einu sinni. Hún hafði líka áhuga á ferðum um heima ljóða og skáldverka. Bækurnar urðu athvarf hennar þegar hún þarfnaðist hvíldar og hressingar andans.

Hún hafði áhuga á fegurðinni og var meðvituð um nýjar stefnur og strauma í innanhúsarkitektúr. Hún hannaði umhverfi sitt og lagði jafnvel í nýjungar sem voru á undan samtíð hennar við frágang íbuðarinnar.

Samnefnarinn í lífi Dagbjartar var ljúfmennskan. Hún var góður fulltrúi bernskuhússins sem var hús samheldninnnar. Hún var alla tíð umhyggjusöm móðir og amma. Sonurinn var augasteinninn hennar og hún var vakin og sofin varðandi velferð hans og fjölskyldu hans. Barnabörnin voru vanin við að sinna ömmu sinni, sambandið milli ættliða rofnaði ekki í stórhúsinu á Sjafnargötu. Með minninguna um góða ömmu halda ungir drengir og fullvaxin ömmubörn út í lífið.

Dagbjört leitaði – leitaði heilbrigði og hamingju. Hvert get ég farið…? Svo var spurt til forna. Svarið gaf ljóðskáld sálmanna sem kenndir eru við Davíð: Þó ég stigi upp í himininnn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.

Lífið hennar var ferð um allar lendur myrkurs og ljóss, undirheima og himinsælu. Líf hennar myrkvaðist um tíma, en hún kom upp úr djúpinu, reynd kona, með útsýn og innsýn sem gefur þá vitund að það er fólk sem er dýrmætt, börnin, afkvæmin, ásvinir.

Hvert get ég farið? Mannvera á ferð, en með fylgd, með gott föruneyti, stundum með vanlíðan en ávallt með styðjandi hendi, sem ekki brást. Hvað ætlum við að gera úr okkar göngu? Getur ekki Dagbjört orðið okkur hvati og vegvísir að fara vel með okkar líf, styðja hvert annað til hamingju, sem svo auðvelt er að splundra ef við ekki vöndum okkur. Viljum við eiga þann að á lífsförinni sem ávallt er nærri og aldrei ræðst að? Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans, segir sálmaskáldið svo vel og yndislega – og settist við hið ysta haf. Einnig þar mundi hönd þín leiða mig. Dagbjört hefur farið þá leið, inn í dagrenningu eilífðar. Þar er ekki myrkt heldur má líf hennar vera samfelld birta, samfelldur dagur, í stórhúsinu þar sem samheldnin er alger, Sóltúni himins. Þar er Lokastígur og þar er upphafsbrautin, því Guð geymir hana um alla eilífð.

  1. maí 2004

Sveinn Jónasson +++

Loks eftir langan dag

lít ég þig, helga jörð.

Seiddur um sólarlag

sigli ég inn Eyjafjörð.

Ennþá, á óskastund,

opnaðist faðmur hans.

Berast um sólgyllt sund

söngvar og geisladans.

Sjómaður á leið heim. Grímseyjarsund að baki, Hvanndalir og Héðinsfjörður á stjórnborða, Kaldbakur í austri. Fjörðurinn sléttur í miðnætursól og speglar bæði ský og fjöll. Stillan alger. Smáhvalir leika sér í Austurálnum nærri Hrísey. Múlinn, Rimar, svarfdælskur Stóllinn og Kerling fram í firði hvíla eins og sofandi risar sem í logni dagrenningar. Sjómennirnir skygna lög og láð. Í augum er tilhlökkun, þeir segja ekkert. Fegurðin er umfaðmandi. Hvað hugsar áhöfnin á Snæfellinu, hvað hugsar bátsmaðurinn? Hvað er þetta líf og hvað verður þegar komið er inn á Pollinn og stokkið í land. Er lífið eins og hver annar Kaldbakur eða kannsi fremur einhver Fagriskógur? Þeir þekktu hversu þunnt þilið er milli káetu og brims, milli lífs og dauða. “Förum yfir um vatnið” var sagt forðum og svo skall á stormviðrið á. Allir voru hætt komnir. Hvert var hægt að leita þá. Hvar verður um trúna á slíkum stundum? Turnarnir á guðshúsunum á leið inn fjörðin bentu upp. Reynslan af átökum á sjó og landi líka.

Æviágrip

Sveinn Jónasson fæddist í Bandagerði í Glerárþorpi 16. maí 1924 og lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 19. júní. Foreldrar hans voru Jónas Sveinsson og Ingibjörg Hallgrímsdóttir. Jónas var Húnvetningur, ættaður frá Litla-Dal, en Ingibjörg var Eyfirðingur, frá Flögu í Hörgárdal. Sveinn var annar í röð fjögurra systkina. Sverrir drukknaði ungur, Hallgerður er sömuleiðis látin en Áslaug lifir bróður sinn. Sveinn átti eina hálfsystur samfeðra, Sigurlaugu Margréti, sem einnig er látin.  

Ungur kynntist Sveinn Brynhildi Ólafsdóttur frá Brekku í Glerárþorpi. Hún var fimm árum eldri en bóndi hennar, fædd 23. janúar 1919. Þau eignuðust samtals átta börn. Þau eru Guðrún Sóley, Björg, Jónas, Víglundur, sem lést aðeins tveggja ára, Víglundur Jóhann, Sverrir Hallgrímur, sem er látinn, Sigurveig og Hafdís. Þau Sveinn og Unnur slitu hjúskap 1969 og þá flutti Sveinn suður. Hann eignaðist síðan Ásmund með Ásgerði Ásmundsdóttur. Sveinn gekk að nýju í hjónaband með Unni Guðmundsdóttur. Hún er fædd 7. júlí 1924 og lifir mann sinn.

Sveinn sótti skóla inn í bæ, Barnaskólann á Akureyri. Leiðin var drjúg og enn lengri í myrkri og norðlenskri stórhríð. Skólinn stælti og öflugur strákur vildi lifa á eigin forsendum. Hann var fljótur til með allt í lífinu. Sveinn var bráðþroska og bráðger um allt. Hann fór til sjós um leið og hann hafði möguleika á. Sjómennskan varð hans líf megnið af ævinni. Lengstum þjónaði hann Útgerðarfélagi Akureyringa og var á togurum félagsins, ekki síst Svalbak. Hann gekk í öll störf, stundum var hann bátsmaður og jafnvel kokkur. Túrarnir voru langir, landlegur fáar, kröfur á tíma sjómannsins ríkar og lífið flaug hratt þegar í land var komið. Brynhildur hélt saman búi og var höfðingi sinnar hjarðar eins og margar sjómannskonur voru lengstum.

Bandagerði

Bandagerði var æskuheimili Sveins og Brynhildur fór ekki langan veg frá sínu æskuheimili. Glerárþorpið var skemmtilegur uppeldisstaður fyrir börnin, eiginlega þorp. Víða var smábúskapur stundaður meðfram öðrum störfum til að drýgja tekjur og afla matar. Börnin höfðu víðan vang til leikja. Fóru inn í Glerárgil, niður með á, og svo út og suður, allt eftir þörfum, veðri og ímyndunarafli. Flest hús voru full að tápmiklu fólki og stutt var í liðið suður á Eyri og Brekku. Gagnvart þeim þurfti að gæta sín sérstaklega.

Barnaríki

Barnaskaranum hans Sveins þótti auðvitað skemmtilegt þegar pabbi kom í land og tók sér tíma fyrir þau. Þegar hann sneri sér að þeim var hann natinn og umhyggjusamur faðir. Hann var hagur og smíðaði ímislegt smálegt fyrir þau, sleða fengu þau flest, leikföng ímiskonar telgdi hann eða rak saman. Og hann var það nærri þeimi í aldri að hann var sem næst eins og elsti bróðirinn í hópnum. “Er þetta bróðir þinn,” spurðu ókunnugir þau elstu. Og af því að hann hafði ekki tapað æskunni sjálfur þegar börnin voru ung gætti hann að því, að þau nytu allra þeirra gæða sem æska hans hafði kennt að var til að gleðja. Þau áttu sína skauta og hjól. Svo tuskaðist hann í strákunum sínu og þeir höfðu gaman af föður sínum. Sveinn safnaði blöðum og bókum sem félagar hans á sjónum voru hættir að nota og gáfu honum. Þetta bar hann í bæinn þegar hann kom af hafi. Það var góður afli sem systkinin gátu nýtt sér og höfðu gaman af.

Persónueinkenni

Sveinn var snyrtimenni og fagurkeri. Hann bar sig vel, valdi sitt tau með gaumgæfni í JMJ. Var flottur á velli og sópaði af honum, þegar hann klæddi sig upp og stikaði rösklega frakkaklæddur inn í bæ. Í hinum norðlensku byggðum var talið eðlilegt að karlar kynnu að prjóna og beita nál. Og Sveinn lagði sig jafnvel eftir saumaskap, alla vega saumaði hann koddaver og sængurver í barnarúm heima hjá sér. Hann var dugmikill alla tíð,var vanur að vinna mikið og dró ekki af sér hvorki í eigin vinnutíma eða í þjónustu annarra.

Félagslyndur

Sveinn var glaðsinna og félagslyndur. Hann lærði snemma að láta sér lynda við fólk. Hann var einnig skapfestumaður, sem ekki gaf sig í orðræðu fyrr en fullreynt var. Á sjónum eignaðist hann vini sem hann ræktaði allt til enda. Í landlegum leitaði hann til ættfólks síns og heimsótti fólk konu sinnar einnig. Svo þegar hann flutti suður var hann fljótur að koma sér fyrir í nýju umhverfi og meðal nýs vinahóps.

Vélaútgerð

Sveinn hafði áhuga á vélum alla tíð. Hann var vel í sveit settur til að fylgjast með komu vélaaldar til Íslands. Hann gat fylgst með hvernig flugið byrjaði nyrðra. Hann fuylgdist með hvernig bílamenning kom norður og bílar hafa löngum skipt Akureyinga máli, eins og þeir þekkja sem eitthvað hafa verið nyrðra. Sveinn eignaðist snemma vélhjól og hefur hjólaáhugi haldist í fjölskyldunni. Hann vildi eiga góða bíla, og kannski voru hans eigin bílar alltaf bestir! Alla vega var ljóst að BMW hans var bæði góður og vel glansandi bíll. Tækin hans Sveins sýndu. Hann tók svo að sér að bóna bíla annara þegar hann var kominn suður. Hann sinnti sínu verki með slíkri natni að hann hafði af þeim starfa talsverðar tekjur. Atvinnubílstjóri var hann lengstum syðra og keyrði hjá Nýju sendibílastöðinni.

Förum yfir um vatnið

Jesús fór út í bátinn og vildi sigla. Þegar fiskimennirnir, vinir hans höfðu létt landfestum þá lagðist meistarinn fyrir eins og þreyttur maður á stíminu út á miðin. Þrátt fyrir blikur og óveður svaf hann. Veðrið var slíkt að bátsverjar óttuðust um líf sitt og vöktu Jesú með ópum. Hann reis upp og talaði í storminn, sem lyppaðist niður, logn datt á og aldan mildaðist. Þá sneri Jesús sér að þeim sem voru honum samskipa og spurði: “Hvar er trú ykkar?” Þeir voru bæði orðnir undrandi og hræddir og gátu ekki annað en spurt sjálfa sig: ,,Hver er þessi maður?”

Líf Sveins Jónasssonar var ekki alltaf auðvelt og oft lenti hann í háska. Hann var happamaður á sjó, ekkert skip sökk undan honum, aldrei lenti hann í strandháska. En sigling hans á landi var ekki alltaf auðveld. Stundum stormaði og stundum óttaðist hann um lífslán sitt. Sveinn axlaði ábyrgð á uppvexti barnanna og var öflug fyrirvinna. En stormurinn eða vandinn í lífi hans var áfengið, sem skerti lífsgæði hans og meinaði honum að njóta allra hæfileika sinna sem og fjölskyldu sinnar. Þegar að sverfur læðist óttinn að og að lokum gerði hann sér grein fyrrir í hvaða óefni var komið. Það þarf bæði vilja og vöku til að taka ákvörðun sem staðið er við. Sveinn tókst á við vandann og það var logn á þeim sjónum í langan tíma.

Skilin í lífinu

Þau Brynhildur söðuluðu um og skildu. Sveinn fór suður og hóf nýtt líf. Fyrst starfaði hann hjá Olíufélaginu Esso og  hóf síðan eigin atvinurekstur. Aksturinn lánaðist vel hjá Nýju sendibílastöðinni. Hann náði að koma undir síg fótum og vann auðvitað mikið. Hann eignaðist góðan og öflugan vinahóp, m.a. í AA hreyfingunni. Þetta skeið var umsvifamikið og fjölbreytilegt í lífi hans. Hann nýtti tímann vel síðari árin í þágu síns fólks. Alltaf átti hann tíma  fyrir börn og barnabörn, sagði helst ekki nei og var óþreytandi að þjóta með barnabörnin hingað og þangað eins og með þurfti.

Sveinn kynntist og hóf sambúð með Unni Guðmundsdótur og þau gengu í hjónaband 1994. Hann og Unnur urðu sem afi og amma Rebekku Ragnarsdóttir og önnuðust hana þegar á þurfti að halda. Síðustu árin misstu þau heilsu svo að bæði fóru á dvalar og elliheimilið Grund, Unnur fyrst og síðan Sveinn í kjölfarið síðastliðið haust. Sveinn hafði fengið hjartaáfall áður en hafði þó náð sér að nokkru og gat gengið að nýju. Þó hrakaði honum og hann fékk lungnabólgu fyrir skömmu. Af honum dró og hann lést síðan 19. júní síðastliðinn, áttræður að aldri.

Loks eftir langan dag leit eg þig, helga jörð

“Hver er þessi maður?”spurðu menn á vatni suður í Palestínu forðum. Margt hefur verið hugsað á landi og sjó í gegnum tíðina. Sveinn hafði hlotið sinn skerf að lífsreynslu. Hann vissi hvað var að missa börn. Hann hafði misst ástvini sína, hann missti ástina. Hann var í lífsháska á þurru landi. Og hann var maður til að ganga í sjálfan sig og horfast í augu við hinar miklu spurningar. Hann vissi alveg hver hann sjálfur var og hver meistarinn var sem svaf í bátnum hjá honum.

Hann vissi að hverju dró og þá er gott að geta rifjað upp skyggnistundir ævinnar, rifjað upp þegar himininn vitjaði sjávarins á Eyjafirði, sjófuglarnir kenndu lífið, unnið var úr óveðursspruningum, næturröðull sló gullbirtu á veröldina og hugurinn grét af gleði yfir lífinu, voninni, gáskanum og láninu. Sveinn Jónasson er á leið heim, heim inn í himininn.

Mannleg orð reyna að tjá og skáldamálið að heiman er gott til að reyna að færa í búning tilfinningar og reynslu. Davíð Stefánsson var á leið heim úr langferð og Sveinn var langferðamaður eins og skáldið. Þeir hafa getað skilið hvor annan. Í ljóði um siglingu inn Eyjafjörð segir:

Afram – og alltaf heim,

inn gegnum sundin blá.

Guðirnir gefa þeim

gleði, sem landið sjá.

Loks eftir langan dag

leit eg þig, helga jörð.

Seiddur um sólarlag

sigli ég inn Eyjafjörð.

Sveinn Jónasson, hefur siglt hinsta sinni inn langan fjörðinn. Hann er kominn heim inn á Pollinn eilífa, komin á land á helga jörð handan hliðsins gullna. Þar er gleði, óspillt og hrein. Því þar er sá sem stillir allan ofsa, allt óveður mannlífsins. Þar er sá sem tekur alla í sitt fang og geymir sem góð móðir og góður faðir. Þar er Guð.

28. júní 2004.

Stefanía Jónasdóttir +++

Stefanía beygði sig yfir nýgræðinginn, ýtti frá sinubrúsk og fór mjúkum fingrum um litla trjáplöntu – grannar greinar, brum og nýútsprungin lauf. Hún brosti feimnislega og vissi vel hver hafði potað þessari plöntu niður. Svo benti hún á fleiri. Milli stærri trjáa var fjöldi smárra trjáplantna. Þau höfðu skjól af hinum eldri, voru í góðu vari sunnanmegin í barðinu, höfðu vörn fyrir norðanveðrum. Svo rétti Stefanía úr sér og gleðisvipurinn var um allt andlitið og fögnuður í augunum. “Já, þetta er að koma,” sagði hún. Svo stóð hún þarna og horfði á lundinn sinn, fullviss um að tilraunin hafði heppnast. Jafnvel í Svarfaðardal var hægt að rækta tré, í strekkingnum var hægt að skapa skjól. Svo gekk hún heim, kíkti í garðinn, benti á fleiri trjáplöntur sem voru að leggja upp í ferðalag í Stefaníulund, áttu að eignast nýtt heimili, á nýrri grund, á nýjum hól, við nýjar laugar, á nýjum akri. Það er álag að flytja, jafnvel hættulegt, en það er hægt að dafna ef skjólið er gott, og aðstæður eru til vaxtar. Í skjóli, til lífs, í skjóli og í hæli hins hæsta.

Æviágrip

Stefanía Jónasdóttir fæddist á Smáragrund á Jökuldal 11. maí, 1939. Foreldrar hennar voru Jónas Þórðarson og Þórunn Sigfúsdóttir, hann Jökuldælingur frá Gauksstöðum og hún frá Brekku í Hróarstungu. Þau byggðu nýbýlið Smáragrund á Jökuldal. Börn þeirra voru sjö. Elstur er Sigfús og Stefanía var næstelst. Yngri systkinin eru Stefán, Þórður, Birgir, Þorbjörg og Steinunn. Þau lifa öll systur sína. Jónas lést árið 1987, en Þórunn býr á Grenilundi, heimili aldraðra á Grenivík.

Stefanía var á Smáragrund til tíu ára aldurs og fluttist með fjölskyldunni að Þórðarstöðum í Fnjóskadal. Hinir mörgu munnar þurftu meira en Smáragrund gat framfleytt og Þórðarstaðir reyndust vel. Skólagöngu hóf Stefanía austur á Jökuldal og fór síðan í skóla í Fnjóskadal, fyrst suður í dal og svo í heimavist á Skógum, sem er vestan ár og Vaglaskógar. Síðan tók Laugaskóli við þegar hún var 16 ára og fór þá í þá deild sem var kölluð eldri deild. Stefanía var tvo námsvetur á Laugum og var afbragðsnemandi segir skólastjórinn sem þá var! Eftir að hún tók landspróf var hún síðan einn vetur heima og fór svo í húsmæðraskólann á Löngumýri í Skagafirði. Síðan fór hún að Laugum að nýju og tók að sér bráðung starf húsmóður skólans.

Laugavinnan var henni afdrifarík. Hún hafði vissulega séð skólastjórann á Laugum áður. Hún hafði jú verið nemandi hans, en nú urðu þau samverkamenn, kynntust betur og Stefanía og Sigurður Kristjánsson gengu í hjónaband 17. júní 1961 í kirkjunni á Seyðisfirði.

Á Laugum var Stefanía til 1981 og því samtals í 24 vetur. Þá fór fjölskyldan í Brautarhól og því var Stefanía lengur – samfellt – í Svarfaðardal en á nokkrum öðrum stað, lengur en Laugum og mun lengur en í Fnjóskadal.

Þeim Sigurði og Stefaníu fæddist Kristján Tryggvi 1962, Gunnar Þór 1968, Sólveig Lilja 1971 og Sigurður Bjarni 1976. Kona Kristjáns er Aðalheiður Reynisdóttir og þeirra börn eru: Sigurður Marínó, Martha Malena, og Draupnir Jarl. Kona Gunnar Þórs er Sigríður Arna Sigurðardóttir. Stjúpdóttir Gunnars og dóttir Sigríðar er Sara Alexía. Drengurinn þeirra er Þorri Freyr. Maður Sólveigar er Friðrik Arnarson og eiga þau Þorstein Örn. Ömmubörnin hafa verið Stefaníu mikill gleðigjafi.

Fyrir liðlega einu og hálfu ári kom í ljós að Stefanía gekk ekki heil til skógar og greindist með krabbamein. Meðferðin á Akureyri virtist skila árangri en síðan dró til verri vegar að nýju og Stefanía lést hinn 5. maí síðastliðinn, tæpri viku fyrir afmæli sitt, sem hefði orðið í fyrradag. Hún hefði orðið 64 ára hefði hún lifað.

Lífið í skjóli

Fnjóskadalur var rjóður í veröldinni, paradís fyrir stóran barnahóp, öruggur reitur til leikja og uppvaxtar, ævintýraland með skóg, kristalá, átaksfjöll, dularfulla dali með ævintýrlegum nöfnum. Hún var bara tíu ára þegar hún kom að austan úr Jökuldal með mannfjandsamlega, nagandi jökulána. En Þórðarstaðir urðu hennar ævintýraland og hún tengdist þeim á viðkvæmu berskuskeiði. Hún uppgötvaði í hverju skjól er fólgið, hvernig lífinu, bæði flóru, fánu og mannfólki reynist að vera sólar- og hlémegin. Því talaði Stefanía þannig um Þórðarstaði í mín bernskueyru að það var ljóst að hún talaði um draumalandið. Og það er mikilvægt að eiga sér reynslu af að draumar rætist. Slíkt getur orðið viðmið í lífinu. Jákvæð stefnumarkandi reynsla í bernsku er inntak góðs uppeldis. Þórðarstaðir var sólarreitur, miðja heimsins, en þó líka á hjara veraldar, nærri óbyggðum, við mörkin. 

Mér er nær að halda að hún hafi mótast af þessum aðstæðum og orðið kona skjólsins í rjóðrinu í Fnjóskadal. Svo margt í lífi hennar síðar er atferli skjólmyndunar, skjólræktar, leit í hlé fyrir hvers konar næðingi hvort sem það var nú félagslegur eða tilfinningalegur næðingur. Hamingjusókn Stefaníu á sér skýra mynd í skjólinu sem hún bjó til, skjólinu sem hún bjó plöntunum sínum, og skjólið sem hún sótti í og vildi vera öllum þeim sem henni voru kærir. Hún leitaði vars sem tilfinningavera og vildi skýla öllum sem áttu bágt og kulaði um.

Henni var falin ábyrgð á berskuheimilinu – hún var jú elst systranna og næstelst í hópnum. Hún lærði að vinna bæði innan og utan húss. Hún lærði mikilvægi skógræktargirðingar gagnvart skógi. Tryggja varð að skepnurnar væru á sínum stað og eyðilegðu ekki nýgræðinginn. Hún stóð aðstoðarmóðurvaktina með mömmu sinni, margs var að gæta í galsafengnum systkinahópnum – og hún þurfti að passa upp á þessa stráka sem á eftir henni voru í barnaröðinni. Allar götur síðar var hún brjóstvörn fyrir fólk. Hún var til reiðu á Laugum þegar unglingarnir þörfnuðust hjálpar, hún og hennar heimili var galopin faðmur allra vina og ættingja hennar og manns hennar. Það sem Stefanía festi tryggð við stóð. Þegar einhver í stórum fjölskylduhóp rataði í erfiðleika var víst að Stefanía fylgdist með af umhyggju. Og börn systkina og vina, og afkomendur jafnvel í þriðja lið áttu öruggt hlé hjá Stefaníu – voru alltaf velkomin sem væru hennar eigin börn. Hún spurði um líðan, menntun, um lífsdrama fólks, hafði áhuga á velferð þess og allir næðu því landi og þeim þroska sem hægt væri. Ef hún gat gert eitthvað fyrir fólk var hennar styrkur og verk til reiðu. Jafnvel dauðveik sinnti hún ástvinum sínum.

Það var gaman að vinna með Stefaníu, ekki síst á álagstímum. Hún var atkvæðamikil og vildi að vel gengi þegar út í átökin var komið. Hún dró ekki af sér við að ryðja heyi af stóra vagninum á Brautarhóli, fannst gaman þegar mikið var heyjað, þótti betra að vel gengi, var upprifin á burðartíma, í rúningi og göngum. Naut þess þegar mataraðföng gengu vel og frystikistan fylltist, berjaílátin voru kúfuð, berjarunnarnir svignuðu, kartöflupokarnir voru margir og sultukrukkur og saftflöskur í röðum og snyrtilegum stæðum í búrinu. Hún skríkti af gleði í haustveiðinni þegar silungarnir lágu í breiðu á eyrinni hjá veiðimönnum heimilisins. Svo fannst henni gott að geta laumað að fólki krukku eða fiski. Vinnan var í samhengi, vinnnan var til að efla og vernda lífið. Og kanski er ein af hugstæðustu myndunum af Stefaníu, þegar hún var að hjúkra skepnum, draga út hrútlamb með of umfangsmikinn hornagarð, losa skorðað lamb úr fæðingarvegi, líkna veikri á, eða gefa lyf við júgurbólgu. Skepnurnar áttu vin í Stefaníu, hún var alltaf reiðubúin til að líkna og græða. Það var í fullu samræmi við hneigðir og hæfni hennar að gegna kalli frá nágrönnum, sem höfðu of stórar hendur fyrir ær í lambnauð. Hún hafði granna en sterka fingur og staðfestu fyrir lífsbjörgina. Hún gat oft snúið lambi, þegar aðrir gáfust upp.

Stefanía var næm og hún var námfús. Foreldrar Stefaníu lögðu upp úr að börnin nytu menntunar. Hún hóf skólagöngu austur á Skjöldólfsstöðum, fannst gaman, og svo tók góður og metnaðarfullur skólamaður og  kennari við í Fnjóskadal. Öll Þórðarstaðasystkinin nutu skólagöngu, sem var ekki sjálfgefið á þessum árum. Eins og fleiri fór Stefanía austur að Laugum, sem var auðvitað eins og risastór unglingastöð, suðupottur fyrir tilfinningar.

Þar upplifði hún allt mannlíf í hnotskurn, gleði og sorgir, gæsku og illsku, vonir og áföll. Í Laugaskóla lærði hún að mikilvægt er að gæta vel að sér, tryggja að varnirnar væru í lagi, hleypa ekki þeim að sem væru óábyrgir, tala ekki af sér og halda sínum kúrs, rétta hjálparhönd þegar þess þurfti með, – en ekki síst mikilvægi þess að læra.

Svo fór hún vestur til Ingibjargar á Löngumýri. Þar fékk hún aðra mótun, hina húsmóðurlegu. Það var merkilegt að upplifa Stefaníu í því hlutverki. Hún var kunnáttusöm í matargerð og gat búið til ótrúlega rétti úr einföldu hráefni. Lifur féll til í heimaslátrun og eitt sumarið var hún matreidd í eftiminnilega mörgum útgáfum. Stefanía gekk þá með eitt barnið og hjúkrunarfólkið undraðist hinn ríkulega járnbúskap í blóði hennar – og spurðu hvert væri leyndarmál hreysti hennar á meðgöngutíma. Hún hafði gaman af. Stefanía vildi enga óreiðu í kringum sig og vildi skapa hreina og kyrra veröld. Eins og í bernsku beitti hún sér fyrir að karlarnir í kringum hana sinntu hreinlæti, tækju til, allt væri á sínum stað. Hún sá líka vel um að ílátin í mjólkurhúsi og fjárhúsi væru skínandi hrein.

Það er flókið að reka tvö heimili en staðföst var Stefanía í regluseminni. Laugaheimilið var vetrarhöllin, og andaði af hreinlætislykt og reglu. Brautarhóll var sumarstaður hennar og þar reyndi hún eftir megni að halda öllu vel við og snyrtilegu. Síðar naut Vallakirkja snyrtimennsku hennar. Allt skyldi vel gert og hún var vökul gagnvart leiðum ættmenna bónda síns. Á síðari árum vaktaði Stefanía Gröf, hús og innbú og velferð íbúa. Hún vildi tryggja að vel færi, vel væri um gengið og allt til reiðu fyrir lífið – að öllum liði vel. Hún var nýtin og fyrirhyggjusöm og fór afar vel með.

Á Laugum varð Stefanía húsmóðir. Hún kunni til verkanna og hafði einnig reynslu af góðum heimavistarskóla og hvað hann gat gert mikið gott ef starfsfólkið var vandanum vaxið. Hún hafði sjálf notið skjóls á Skjöldólfsstöðum. Hún var til reiðu fyrir ungviðið á Laugum. Það var ekkert lögmál að skólastjórahjónin byggju í miðri hringiðunni í skólahúsinu. En þar vildi hún vera vegna þess að þá áttu nemendur greiðan aðgang að þeim hjónum. Hún var tilbúin að leggja á sig ónæðið, sívaktina, álagið til að tryggja velferð annarra. Stefanía tók mjög nærri sér ef henni tókst ekki að tengjast og náði ekki hjálpa þeim sem hún vildi. Í því voru stóru sorgirnar hennar, þegar hún var bjargarlaus í mannræktinni. Og kanski var stærsta sorgin hennar síðasta spölin að geta ekki lengur lagt lið þegar börnin hennar þörfnuðust hennar að nýju og barnabörnum fjölgaði. Hún vildi, en gat ekki meira.

Á Laugum kenndi hún stundum og beitti sér í kennslunni. Þar kom í ljós öflugur uppalandi og kennari í henni, sem hún síðan beislaði að nýju heima á Brautarhóli þegar hennar eigin börn voru að læra. Það voru ófáar stundir sem hún sat yfir bókunum, hélt börnunum til náms og hlýddi þeim yfir. Stefanía sætti sig ekki við bókarleti og námsslappleika. Hún vissi að ef menn ekki læra standa þeir á berangri í lífinu. Hún var síðan tilbúin að veita barnabörnunum sama stuðning og aðhald. Hún hafði áhuga á námsverkefnum hvers konar. Henni fannst gaman þegar ljóðakeppni Norðurslóðar kom fyrir jólin og öll fjölskyldan var á kafi í ljóðabókum til að leita að svörunum. Hún var einnig málverndunarkona og mikill Norðlendingur í sér og gladdist þegar hún heyrði norðlensku í öðrum landshlutum!

Hjúskapur

Húsmóðirin á Laugum giftist skólastjóranum. Þó aldursmunur væri á milli þeirra voru þau vaxin úr sama jarðvegi bændasamfélagsins, deildu sömu gildunum í flestu og höfðu líkar skoðanir um meginmál. Þau þekktu vel styrkleika hvors annars og voru því góðir samverkamenn í flestu og oftast samstiga. Orðlaust vissu þau hvað hitt hugsaði og lifði. Þau meira að segja lærðu saman á bíl og tóku prófið saman!

Vegna tvendarbúðar, tveggja heimila þeirra, urðu þau að greiða úr mörgum flækjum. Sigurður var bundinn við skólahaldið fram eftir júní, en Stefanía fór strax í Brautarhól á vorin til starfa. Hún var því oft á undan honum í sveitarstörfin. Hann kom svo á eftir. Rómantíkin þeirra var líka búskaparbundin. Þegar þau komu frá hjónavígslunni eystra fóru þau heim í Brautarhól og ráku saman allan fjárhópinn fram dalinn, og alla leið inn í afrétt. Þetta var eina eiginlega brúðkaupsferðin þeirra! Þar á eftir fór Stefanía eiginmannslaus til Noregs, bóndinn varð eftir til að sinna búinu. Reyndar voru Lilja og Filippía, mágkonur hennar með í för, en ekki var ferð með þeim nein brúðkaupsferð, þó skemmtileg væri.

Á Brautarhóli var fjölskyldulífið annasamt hin fyrri ár, en ekki síður margbrotið á Laugum. Í hinu fjölbreytilega mannfélagi á Laugum opnuðust allar gáttir. Heimili Stefaníu og Sigurðar var í miðju stórfjölskyldu sem taldi á annað hundrað manns. Börnin tóku þátt í því lífi og Stefanía og Sigurður voru í flóknari hlutverkum en flestir gegna í fjölskyldulífi og vinnu. Í því var listin að halda miðjunni heilli en njóta jafnframt hins fjölbreytilega, vera fullveðja einstaklingur og í góðum tengslum við umhverfið jafnframt. Það var líka mikið álag að búa við sumarútleiguna. Hótelreksturinn á sumrin rímaði t.d. illa við heimilislífið. Einu sinni kom lítill Kristján Tryggvi með nýveiddan fisk úr Reykjadalsá, alsæll og rogaðist með fiskinn eftir göngum og stiga og blóðröndin var um öll gólf. Hótelfólkið var ekki hrifið og Stefanía tók nærri sér og leið fyrir. Þegar börnin voru komin var Stefanía fyrst og fremst móðir húss og heimilis. Tími hennar var fyrir hennar fólk.

Sumpart saknaði Stefanía lífsháttabreytingar þegar fjölskyldan flutti alfarin í Brautarhól. Eins og börnin hennar saknaði hún fjölbreytileika skólalífsins. Stefanía tók þátt í félagslífi í sínum sveitum. Hún var söngvin og næm á músík, söng í samkór Reykdæla í nokkur ár og svo söng hún í kirkjukór í Svarfaðardal, sem heitir orðið nú Samkór Svarfdæla. Hún var í kvenfélaginu í Svarfaðardal og lagði mikið af mörkum í þágu kirkjustarfs í Vallasókn.

Gróðurræktin – yrkjandinn

Í mörgum hlutverkum lærðist Stefaníu að finna sér skjól og verja sig. Hún átti skjól í manni sínum, og svo lærðist henni að búa sér til eigin veröld sem hún gat horfið í. Litur þeirrar veraldar var grænn. Stefanía var ræktunarkona í besta skilningi þess orðs. Pottablóm sem aðrir áttu í erfiðleikum með döfnuðu milli handa hennar. Hún hreifst af tilraunum í ræktun og fagnaði skógræktartilraunum. Hún var dugmikil garðakona sem uppskar mikið og fjölbreytilegt grænmeti og þ.m.t. kartöflur.

Allt óx vel hjá henni og eiginlega betur en hjá öðrum. Mér finnst eins og gulræturnar hennar Stefaníu hafi verið bragðbetri og stærri en hjá nokkrum öðrum og þær voru alltaf svo skínandi vel þvegnar. Eitt hið síðasta sem hún ræddi við mig um var garðurinn og ræktunin. Hún þráði að fá að fara út í vorið. Þegar Sigurður Bjarni var búinn að reisa gróðurhús handa móður sinni eignaðist hún góðan reit fyrir ræktun og sýndi stolt plöntupottana sína. Hún hafði eignast undursamlegt skjól gegn hafgolunni í streng inn austurkjálkann. Og Stefanía, trú rjóðurást sinni og bernskureynslu lagði mikið á sig við að rækta skjólbelti. Og nú teygir limið sig til himins og Stefaníulundur vex inn í framtíðina, órækur vitnisburður um lífgjöf hennar. Og kindur Brautarhólsfólksins eiga orðið skjól þar sem ekki var  áður hlé. 

Kveðjur og skil

Ævi fólks er flókin og er oft sem leið eða för. Stefanía hóf sína göngu á grund smáranna í dal með kalt nafn. Foreldrar hennar rötuðu í undrarjóður sunnan Vaglaskógar, síðan fór hún á laugarbakkann í Reykjadal með viðkomu í langri mýri í Skagafirði og svo lenti hún á hól við braut í Svarfaðardal. Þetta eru staðirnir hennar. Og það var hrífandi að fylgjast með henni síðustu mánuðina eða jafnvel árin þegar hún var að kveðja staði og fólk. Hún fór hinstu ferðir til að vitja og kveðja. Hún talaði um skilin. Svo kom hún öll fram úr skjólinu þegar allt var rifið niður fyrir henni, þegar líkami hennar brást lífinu. Alla ævi hafði hún verið byggja upp, rækta, búa til rjóður. Í ljós kom ótrúlega sterk kona í veikindum. Hún vissi mæta vel að hverju dró, átti sína stefnu og vissi vel að hið mannlega skjól er gott en ekki til eilífðar. Hvar er traustið, hvar er festan? Alla ævi var hún að vernda fyrir tilfinningalegum áföllum, vernda ungviði, litla græna sprota, líkna. Alla ævi hafði hún þjálfast í að hlífa. Nú var fokið í skjólin hennar – eða hvað? Nei, hún vissi líka að þegar dauðinn læðist að eins og ísköld hafgolan um jökuldal sjúkdómana er aðeins á einum stað skjól, í Guði, hjá Guði. Hún var ekki hrædd. Guð hafði löngu áður en hún hóf að stinga sínum trjáhríslum í svörð hafið allt aðra ræktun. Fyrir löngu var búið að búa til mannkynsskjólið. Fyrir löngu var búið að ryðja rjóður fyrir lifandi fólk í heiminum í þeirri för sem Guð hafði sjálfur farið um kyrruviku og páska. Stefanía skildi mikla ræktendur og höfund lífsins. Hún var sjálf græðlingur úr þeirri miklu guðlegu ræktunarstöð. Í hina hinstu ferð gat Stefanía trygg og ákveðin falið sitt líf í hendur þess sem er öll vörn, er hæli og háborg. Og Stefanía er nú í hinu mikla himinrjóðri í skjóli, í lófa hins hæsta, Guðs.

Myndin er af Stefaníu og Sigurði. 

  1. maí 2004