Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Lifa vel og deyja vel – Gunnar Örn minning

Hann var dásamlega opinn, hafði unnið með myrkrið í eigin lífi og gat því ljós í skuggasundum. Mynd hans af heiminum var máluð með ögun, bernskri hrifningu, ákveðni, krafti og vaxtargetu. Minningarorð um Gunnar Örn eru orðmyndir, flutt við útför hans 11. apríl, 2008.

Gunnar Örn tók öllum heiðarlegum spurningum vel, hló hjartanlega þegar spurt var á ská og með gleði. Tæknilegum spurningum svaraði hann með hraði en upplifunar- og dýptar-spurningum með meiri hægð og íhygli en oft með óvæntum hætti.

Á síðustu páskum sátu nafnar, afi og afadrengur saman og sá yngri spurði: “Afi, hvernig heldurðu það sé að deyja?” Og Gunnar Örn svaraði án hiks: “Æðislegt.” Unglingurinn á þetta svar og fylgir afa sínum með allt öðrum hætti en ef hann hefði sagt að það væri átakanlegt, ömurlegt eða fúlt. Sama gildir um þau hin í fjölskyldunni. Afinn var húmoristi, en alltaf heiðarlegur – við sjálfan sig, fólkið sitt, við vini sína, skjólstæðinga, já alla og þar með listina og Guð.

Æðislegt – og svo sagði hann vini sínum, að hann ætti von á “ljósashowi!” Gunnar Örn átti ekki til tepruskap. Hann gat því skellt slanguryrðum að stóru spurningunum um líf og dauða og þar með kallað fram nýja íhugun. Gunnar var dásamlega opinn. Hann hafði unnið með myrkrið í eigin lífi og gat því betur séð tækifæri og ljós í skuggasundum. Mynd hans af heiminum var máluð með ögun, bernskri hrifningu, ákveðni, krafti og vaxtargetu.

Upphaf

Gunnar Örn Gunnarsson fæddist í Reykjavík 2. desember árið 1946. Hann var aðeins 61 árs er hann lést 28. mars sl. Æska hans var flókin og stálið var hert í honum strax í bernsku. Móðir hans var Guðríður Pétursdóttir og faðirinn Gunnar Óskarsson, bæði látin. Gunnar Örn átti einn albróður og sér yngri, Þórð Steinar. Þeir Þórður ólust ekki upp saman, en urðu nánir sem fullorðnir menn. Auk þeirra átti Guðríður Davíð Eyrbekk og Pétur Meekosha. Þá á Gunnar Örn þrjú systkin samfeðra, þau Finnboga, Sigríði Jóhönnu og Sigurð Má.

Foreldrar Gunnars skildu þegar hann var fimm ára. Hann var þá sendur suður í Garð til afa og ömmu. Afinn var ekki alltaf tilfinningalega nálægur en amman, Munda í Höfn, var honum og öðru fólki sínu lífsakkeri. Davíð, sem var eldri en Gunnar, var með honum og mikilvægur bróðurnum. Lítil tengsl voru við pabbann og þegar Guðríður, Gunnarsmóðir, giftist til Englands var Gunnar 14 ára og varð eiginlega sjálfs síns ráðandi og á eigin vegum þaðan í frá.

Gunnar Örn var forkur og snarráður, en fáir fara að vinna og eiga börn rétt fermdir eins og hann. Hann fór á sjó á Gísla Árna og var á loðnu og síld. Gunnar var aðeins 16 ára þegar hann varð pabbi og Sigríður kom í heiminn. Móðir hennar er Þuríður Sölvadóttir og var jafngömul barnsföðurnum. Þau bjuggu saman um tíma en svo slitnuðu tengslin. Gunnar hafði lítið af dótturinni að segja fyrstu árin, en svo urðu þau náin síðar.

Skotið inn í líf hins fullorðna

Gunnari Erni var eiginlega skotið úr hlaupi aðkrepptrar bernsku yfir unglingsárin og inn í fullorðinslíf. Hann tapaði fínstillingartíma persónumótunar. Hann var því eiginlega alla æfi að stilla og tjúna og varð því mun meira spennandi karakter en flest okkar hinna. Hann spurði sjálfan sig: “Hvað vil ég, hvað ætti ég að verða?” Myndlist og músík kölluðu. Hann langaði til að láta reyna á tónlistarnám. Meðan dóttir hans dafnaði í móðurkviði mundaði Gunnar Örn sellóbogann í  Kaupmannahöfn. En fljótt uppgötvaði hann að honum leiddist að spila bara það, sem aðrir sömdu og gerði sér grein fyrir að sellisti gæti ekki bara spilað eigin lög! Það er ekki sjálfgefið að menn viðurkenni á hvaða hillu þeir geta ekki verið á. Allt of margir eru í þeirri stöðu, en þora ekki að hoppa niður og lifa því á skjön við sjálfa sig. Gunnar var ekki þeirrar gerðar. Hann var lesblindur og skólamenning þeirrar tíðar skákaði slíkum mönnum í horn tossanna. En Gunnar Örn lét ekki stúka sig af hvorki þá né nokkurn tíma síðar. Að kreppa er tækifæri var inngreypt í afstöðu hans.

Þar sem allar nánar fyrirmyndir skorti varð Gunnar Örn að gera sínar eigin myndlistartilraunir og að mestu leiðsagnarlaus. En barn, sem ekki brotnar í miklu bernskuálagi, er borið til seiglu. Gunnar vissi að uppgjöf var ekki valkostur og hafði í sér næmi til að hlusta á sinn innri mann, tók mark á tilfinningum og vitjaði drauma sinna með ákefð.

Myndir urðu til

Hann fór að skoða myndir, teiknaði og varð sér út um pensla og liti og æskuverkin urðu til. Allir listamenn eiga einhverja litríka upphafs- og gerninga-sögu og auðvitað á Gunnar sína útgáfu. Hann málaði allt, sem hann náði í, masonít og krossvið, þegar annað var ekki við hendi. Svo fór hann að banka upp á hjá útgerðarmönnum í Garðinum og bauð þeim myndir á kjarakjörum. Þeir brugðust yfirleitt vel við og keyptu af Gunnari skiliríin.

Á þessum árum voru Gunnar og Þorbjörg Birgisdóttir hjón. Vilhjálmur Jón fæddist þeim árið 1965, Gunnar Guðsteinn þremur árum síðar og síðan Rósalind María árið 1972. Á þessum barnsfæðingarárum var Gunnar á fullu í myndlistinni. Hann hélt fyrstu sýningu sína í Unuhúsi 1970. Svo fóru þau Þorbjörg til Danmerkur 1973 og Gunnar vann fyrir sér og sínum. Í frístundum málaði hann svo heima í stofu. En svo fór hann heim 1975 og hélt áfram að sýna.

Líkamsslitur

Skólagangan fór fyrir bí, en íslenskir listmálarar voru nægilega stórir í sér til að þola að sjálfmenntaður maður fengi pláss og inngöngu í gildi listamanna. Þeir dáðust að verkum hans, færni og dug. Margir uppgötvuðu Gunnar Örn sem málara á sýningum í Norræna húsinu í byrjun áttunda áratugarins. Hinar stórkostlegu kviðristumyndir og líkamsslitur voru eins og sprengjur. Unglingar þess tíma, aldir upp við sófamálverk Freymóðs og Matthíasar, urðu fyrir fagurfræðilegu sjokki og tilfinningalegri upplifun. Þótt stöðugt yrðu breytingar í list Gunnar eru margir, sem þekkja myndir hans úr fjarska og í sjónhendingu, svo sérstakt er handbragðið og höfundareinkennin sterk.

Þanið líf

Fyrri hluti lífs Gunnars Arnar var eiginlega tilraun um manninn og þanþol mennskunnar. Gunnar reyndi að sjá fjölskyldunni farborða, halda áfram í málverkinu, finna næði til vinnu, stilla tilfinningavíddirnar og lifa. En drykkjuboltastíll fer illa með alla og verst með hinn innri mann. Aldrei skyldi skýra myndir Gunnars Arnar aðeins með vísan í hvort hann var hátt uppi eða langt niðri. Myndir hans eru ekki vísitölur eða línurit sálar hans. En myndir þessara ára sýna þó að hann var sálarsligaður. Þrátt fyrir velgengnina hallaði undan hjá honum. Leiðir hans, barnanna og Þorbjargar skildu og hann var á krossgötum. Fyrri hálfleik var lokið í lífinu, komið var að skilum og uppgjöri. Ætlaði hann að lifa, vera, mála og gleðjast? Í aðkrepptum aðstæðum voru kostirnir aðeins tveir, annar til lífs og hinn til dauða. Gunnar Örn þorði alltaf að velja, og stefndi í átt að litum og ljósi.

Meðferð og Dísa

Gunnar hitti Dísu og svo fór hann í meðferð. Meðferðin tókst og Dísa var æðisleg. Seinni hálfleikurinn í lífi hans er tími æðruleysis, gleði, sáttar, vaxtar, leitar, hamingju, afkasta og líknar. Vinir Gunnars skildu ekki hvað Þórdís Ingólfsdóttir vildi með þennan erfiða manna hafa. En Dísa elskaði Gunnar og hann hana. Hún sá í honum gullið og hann í henni dýrðina. Gunnar Örn hætti ekki að vera sérsinna og fara sínar leiðir og Dísa hafði enga þörf fyrir að hafa múl á honum. Þegar hann fór í sínar fagurfræðilegu skógarferðir, myndlistarkollhnísa, andlegu langferðir eða langdvalir erlendis var hún kyrr og hún var alltaf viðmið hans og fasti punktur tilverunnar. Af því að hann hafði afhent henni lífsþræði sína gat hann alltaf ratað til baka með því að fara til hennar.

Þau Dísa eignuðust tvær dætur, Maríu Björku 1980 og Snæbjörgu Guðmundu 1991. Þeim reyndist Gunnar góður faðir og við sem nutum þess að fá jólakort frá Kambi vitum vel hversu barnhrifinn Gunnar var. Og hann þjálfaði sig í föðurelskunni og færði út kvíar, teygði sig í átt til barnanna, sem hann hafði farið á mis við eða misst af. Hann eignaðist góð tengdabörn sem hann tók vel og níu mannvænleg barnabörn, sem hann dáði og mat  mikils.

Kambur

Gunnar Örn og Dísa keyptu Kamb í Holtum fyrir 22 árum, fluttu austur og þar varð himnaríki hamingju þeirra. Dísa átti líka nógu stóran faðm til að taka á móti hinum börnum Gunnars. Þau lærðu smám saman og æ betur leiðina austur, lærðu að tengja og meta, virða og elska. Gunnar Örn hellti sér í viðgerðir húsanna á Kambi, í skógrækt og nýbyggingar. Alltaf var stórfjölskyldan velkomin í verkin og furðu margir sóttust í að komast í það, sem þau kalla með brosi “þrælabúðirnar.” En nú er Kambur gróðursæl paradís og að auki listamiðstöð.

Síðasta framkvæmdin var ný vinnustofa. Gunnar sagði mér sjálfur fyrir stuttu að þetta væri hamingjuhús. Það hefði verið gaman að byggja, þau voru svo mörg sem komu að verki, það hefði verið svo glatt á hjalla og hús sem væri byggt með því móti yrði hús hamingjunnar. Þetta var í hnotskurn vinnusálfræði hans: Leggja lífið í gleðina, átökin, ástríðurnar og samfélagið.

Gunnar Örn naut margs góðs í einkalífinu, leitaði alltaf hamingjunnar. Hann gaf mikið af sér og uppskar ríkulega. Hann var alltaf reiðubúinn til að opna fangið fyrir þeim sem leituðu hans. Ólafur Elíasson, myndlistarmaður, sagði mér hvernig Gunnar Örn hefði gengið honum í föður stað þegar faðir hans féll frá. Ólafur harmar að geta ekki fylgt vini sínum en biður fyrir þakkir sínar vegna alls, sem Gunnar var honum og kveðjur til þessa safnaðar.

Dönsku vinirnir, galleristarnir og myndlistarfólkið sem standa að og tengjast Stalkegelleríinu hafa beðið fyrir kveðjur og þakkir fyrir kynni og ljósið sem Gunnar lýsti þeim með. Sömuleiðis biðja Atli Þór Samúelsson og fjölskylda í Danmörk fyrir kveðjur.

Líknarþjónusta

Mörg ykkar þekkið samfélagsþjónustu Gunnars. Hann fór í gegnum sporin sín og vann með sitt innra. Hann opnaði algerlega og var alltaf til reiðu. Hann starfaði í AA hreyfingunni og þjónaði þeim, sem höfðu ratað í ógöngur. Það er stór hópur, sem á Gunnari Erni mikið að þakka fyrir stuðning, viskuyrði, löng símtöl, ferðir til að styðja vímuruglaða og örvæntingarfullar fjölskyldur þeirra. Aldrei taldi hann eftir sér, aldrei hikaði hann, var alltaf tilbúinn. Jafnvel í Bónus borgaði hann reikning fyrir konuna sem var á undan honum í röðinni og átti ekki fyrir innkaupunum. En honum brá þegar hann gerði sér grein fyrir að konan hafði keypt fyrir 23 þúsund kr. og sagði sínu fólki frá með kátlegum hætti.   

Þegar Gunnar Örn kafaði á djúpmið sálarinnar og efldist sem vitringur var hann reiðubúinn að bera fólk á bænarörmum til blessunar og heilsu. Fólk gat ekki annað en treyst þessum manni, sem átti í sér djúp stillingar og kyrru sem Gunnar Örn. Líknarþjónusta hans varðar þúsundir og hér get ég fyrir hönd allra þeirra þakkað elsku hans. Margir eiga honum líf og lán að þakka.

Já það voru skeið í lífi Gunnars, stundum hlé. Og nú gerum við hlé á minningarorðum, hlýðum á hinn rismikla Matthíasarsálm við lag Þorkels Sigurbjörnssonar: Til þín, Drottinn hnatta og heima… 

    Skeiðin og túlkun

    Já það voru skeið í lífi Gunnars og hann gerði myndir af heiminum á öllum skeiðum. Myndirnar hans eru um fleira en plöntu í skógi, kú í engi, fjall í fjarska og hús við ás. Allt lífsins undur er í myndum hans. Heimur, lífið, tilfinningarnar, himinn og skelfing líka. Gunnar var alla tíð maður litríkis. Hann naut sterkra lita og líka spennu í samspili þeirra. Hann gerði tilraunir með form og var alla tíð að prófa nýtt.

    Þegar æskuskeiðinu lauk og líka því, sem hann kallaði stundum í gamni Kviðristukobbaskeiðinu komu ormar inn í list hans. Flatatungufjalirnar eignuðust í honum öflugan nýtúlkanda. Ormurinn leynir á sér, leitar í okkur öll. Gunnar Örn veik sér aldrei undan stóru málunum. Á fyrstu Kambsárunum urðu til margar myndir undir stefinu maður og land. Gunnar fór reglulega í gegnum Kjarval, sem varð hans helsti myndmentor. Gunnar sá landið með augum margsýninnar, sá verur og lífhvata, þetta sem er svo mikilvægt ef við eigum ekki að deyja tæknidauða gagnvart lífsundrinu.

    Frá hinum kraftmiklu og margræðu myndum um mann og land hélt hann inn í tímabil örveranna. Þá kom svarta tímabilið, gamlar hleðslur, mold og tilraunir. Svo komu sálirnar. Þeirra var tímabil einföldunar og könnunar lífsins innan frá. Litirnir dofnuðu, hvítan jókst og einfaldleikinn var strangagaður. Þegar Gunnar Örn var kominn á brún sálarklungra var hann líka á brún málverksins og lengst gekk hann í hvítum myndum, sem voru eins og spádómur um dauða og annað líf. Gunnar Örn skoðaði reglulega nöf.

    Sjö árin

    Gunnar gekk alltaf í gegnum endurnýjun, eiginlega á sjö ára tímabilum. Hraði nýunganna var slíkur að aðdáendur Gunnars voru rétt búnir að sætta sig við nýnæmið þegar hann var komin í allt annað. Breytingarnar voru Gunnari ekki léttúðarmál og reyndu oft mjög á hann. En því stærri er hann sem listamaður að hann gat og þorði. Aldrei á ævinni málaði hann til að selja, hann lét aldrei undan markaðsfreistingum. Ég fylgdist náið með, og las öll bréfin, þegar Gunnar gerði upp við mikilvægan erlendan listhöndlara, sem hefði getað fært honum ríkidæmi og öryggi. Þar ríkti stefnufastur trúnaður við listina. Gunnar var alltaf heill og hefði ekki getað selt frelsi sitt, sálu sína. Þrællyndi var ekki til í honum og því ekki heldur sókn eftir ytri gæðum.

    Nokkur helstu listasöfn heimsins eignuðust myndir Gunnars, hann varð einhver þekktasti málari Íslendinga. Hann málaði mikið í þrjá áratugi, en svo varð þurrð. Gunnar Örn málaði ekkert í tvö ár. Hann losaði sig við megnið af myndunum sínum, sópaði borðið, hreinsaði sálina, gerði upp lífið, sættist við allt og alla. Úr þeirri för kom hann svo nýr og enn betri, hamingjusamur, nýtti vel tímann í faðmi fjölskyldunnar. Hann átti löng samtöl við fólkið sitt um lífið, tilganginn, trúna, sáttina, litina og tengslin. Hann ræktaði kyrruna í sálinni, hugleiddi og bað, hætti að láta tíma angra sig en naut hans og leyfði öðrum að lifa stórar stundir af því hann var svo nálægur viðmælanda sínum tilfinningalega. Eilífiðin hafði sest að í sál hans. Og svo byrjaði hann að mála aftur. Hann var kominn heim og síðustu myndirnar málaði hann eins og upp úr sverðinum heima. Þetta eru myndir af  hjartablóði moldarinnar.

    Kominn heim og í svörðinn

    Myndin á norðurveggnum hér frammi í safnaðarheimilinu, er ein af síðustu myndunum, sem hann málaði, mynd úr mýrinni á Kambi. Farið að henni og sjáið elskuna. Svo eru nokkrar nýlegar myndir þarna líka, merkilegar glímur við stórmálin. Sálirnar hans Gunnars eru ekki myndir af heiminum heldur túlkun á afstöðu. Gunnar Örn var þroskaður maður, hafði unnið sína heimavinnu og var galopinn gagnvart æðri mætti. Það er fallegt, að fólkið hans Gunnars hengdi upp myndir hér frammi, sem þið getið skoðað. Útför hans er líka opnun sýningar.

    Jafnvel kistan er listaverk. Fólkið hans Gunnars elskaði hann. Saman komu afkomendur hans að kistunni, völdu sér lit, máluðu hendur sínar og handþrykktu svo á kistuna hans. Þetta er bernsk og yndisleg tjáning ástarinnar. Svo eru handaför Dísu á gaflinum, sem blasir við söfnuðinum. Þessi litríka tjáning er sefandi þegar Gunnar Örn er slitin úr fangi þeirra, já okkar allra.  

    Myndin af heiminum. Gunnar Örn málar ekki meira en sál hans lifir. Það er vel, að ein sál er á sálmaskránni og sálirnar eru frammi líka. “Afi, hvernig heldur þú að það sé að deyja?” Já, beygurinn var að baki, hann albúinn að verða. Gunnar þorði að opna fyrir litríki lífsins og vissi vel, að maðurinn er ekki algildur mælikvarði alls sem er. “Hvernig getum við þekkt veginn?” spurði Tómas postuli forðum. Jesús sagði honum skýrt og klárlega, að hann væri vegur, sannleikur og lífið.

    Fósturmyndir

    Hvaða hugmynd hafðir þú um veröldina þegar þú varst í móðurkviði? Jú, þú heyrðir einhver hljóð, hátíðnisuð í blóðæðum móður þinnar. En þú hafðir enga hugmynd um liti, hnött, sól, flugur, Kamb eða undur lífsins utan strengds móðurkviðar. Þú fæddist til þessa fjölbreytilega lífs og óháð væntingum. Gunnar hafði skilið þetta fæðingarferli sálna. Hann hafði skilið, að tilveran er stærri en skynjun og vænting eins manns. Jafnvel villtustu draumar fóstursins spanna ekki lífheim okkar hvað þá geiminn allan. Hliðstæðuna megum við hugsa, megum líkja okkur við fóstur gagnvart eilífðinni? Er ekki afstaða Gunnars Arnars sú líflegasta, að búast við fagurfræðilegri reynslu, ríkulegri upplifun, góðu ferðalagi, kátlegum félagsskap og hamingju? Myndríkidæmi trúarbókmenntanna varðar einmitt þessa afstöðu. Þorum við að opna?

    Þegar þessi yndislegi, væni og þroskaði maður Gunnar Örn Gunnarsson var kominn á spítala með verk fyrir brjóstinu, sagði hann gáskafullur: “Ég á eftir að mála eina mynd!” Já, hún var eftir, myndin af sálarferðinni og himninum. Hann var tilbúinn og Kambur eilífðar er stór og góður. Lífið er æðislegt. Lærðu líka að fara þá viskugöngu og hræðstu ekki fæðingu til Guðs góðu veraldar, sem heitir himinn og er eilífð.

    Guð laun fyrir Gunnar Örn. Guð geymi hann eilíflega í ríki sínu. Guð varðveiti þig. Amen.

    Gunnar Örn var jarðsunginn frá Neskirku 11. apríl 2008 og jarðsettur í Hagakirkjugarði í Holtum í Rangárvallaprófastsdæmi.

    Auður Kristjánsdóttir – minningarorð

    Auður hitar ekki lengur handa þér kaffi eða slær í pönsur og ber fyrir þig. Hún bendir þér ekki lengur til vegar með mannviti, skynsamlegum rökum. Hún hlær ekki lengur að skemmtilegheitum lífsins. Nú er hún farin, en hvert? Já, því svara páskarnir. 

    Sunnudagsfólk og páskar

    Við kveðjum Auði Kristjánsdóttur. Við höfum lifað kyrruviku og páska. Fyrst eru dapurlegir dagar dymbilviku og síðan eru dagar gleði. Dagar lægingar og dagar lífs. Já, föstudagurinn langi er víst dagur í lífi flestra. Allir upplifa eitthvað þungt, sorglegt og átakanlegt. Enginn sleppur. En öllu skiptir hvernig með mótdrægnismál er farið og úr þeim unnið. Eftir langan föstudag kemur laugardagur og sunnudagur – og á páskum kemur líf eftir dauða – til að minna okkur á hið raunverulega samhengi, til að kenna okkur að lifa vel.  

    Ótrúlega margir verða föstudagsfólk í lífinu, eins og þjáning, sorgir og sjúkdómar séu það sem einkennir lífið. En við erum kölluð til að vera sunnudagsfólk, sjá undur lífsins, læra að hlægja, fólk sem kann að glíma við bæði gleði og sorg, fólk sem temur sér að sjá hið góða, gjöfula og jákvæða þrátt fyrir dimma daga. Við megum gjarnan minnast þessa þegar við íhugum líf og kveðjum Auði. 

    Hin jákvæða Auður

    Auður var þakklát, hún var sjálfstæð, nægjusöm, kvartaði ekki. Þegar rætt var um aldur, öldrun og aðbúnað minnti hún á, að gamalt fólk samtímans byggi við mun betri aðstæður en áður hefði verið. Auður hafði í sér – já hafði tamið sér og þjálfað jákvæða og raunsæja lífssýn. Hún var gjafmild og rausnarsöm. Hún hafði enga þörf fyrir að lækka aðra til að hefja sig með því, hafði enga þörf fyrir að sjást með því að hreykja sér á annarra kostnað. Hún hafði gildi sitt í sjálfri sér og þarfnaðist þess ekki að fá það frá öðru eða öðrum. Hún hafði náð þroska, sem aðeins verður með því að glíma við bæði umhverfi og innri mann. Hún var ekki lengur föstudagskona í lífinu heldur sunnudagskona, kona lífsins, páskakona.

    Ætt og uppruni

    Auður Kristjánsdóttir fæddist í Ytra-Skógarnesi 19. maí árið 1926. Reyndar fæddust tvær stúlkur þennan dag, því Auður var tvíburi, hin systirin var Unnur, sem lést fyrir tæpum þremur árum. 

    Foreldrar Auðar voru hjónin Kristján Ágúst Kristjánsson, bóndi í Ytra-Skógarnesi og skjalavörður Alþingis, (f. 4. ágúst 1890, d. 4. júlí 1934) og kona hans Sigríður Karítas Gísladóttir, húsfreyja (f. 7. febrúar 1891, d. 15. nóvember 1988).

    Systkini Auðar eru Hanna, Baldur, Jens, Unnur, Arndís, Einar Haukur, Jóhanna og Kristjana Ágústa. Af þessum stóra hóp eru sex látin, en þau er lifa eru Jens, Einar Haukur og Kristjana Ágústa.

    Ströndin stóra og upphaf

    Þær systur Auður og Unnur sem og hin systkinin fæddust við strönd hins mikla hafs. Björtu Löngufjörurnar þeirra minna helst á sæluríki á himnum. En mannlíf í Miklaholtshreppi á fyrstu áratugum 20. aldar var þó engin samfelld sæla og sigurganga. Ströndin og Ytra-Skógarnes eiga líka sögur af áföllum. Fjölskyldusagan spannar hamingju en líka raunir.

    Við erum öll mótuð af upphafi okkar, erfðaefni en líka af aðstæðum og áföllum, sem verða. Auður kunni alveg að orna sér við minningar fortíðar og sagði síðar, að það hefði alltaf verið logn í Skógarnesi bernskunnar! Hún tók það jákvæða og góða með sér, hún hafði getu til að skilja hitt eftir.  

    Fjölskyldan var kraftmikil og farnaðist vel. Húsmóðirin var oft eins og farmannskona því pabbinn hafði mörg járn í eldi. Honum voru falin ýmis ábyrgðarstörf heima í héraði og svo hafði hann störfum að gegna fyrir sunnan, því hann þjónaði Alþingi sem skjalavörður á vetrum. 

    Gott líf en svo missir

    Frjósemin var mikil í Ytra Skógarnesi. Á tólf árum, frá 1922 – 1934, fæddust þeim Sigríði og Kristjáni níu börn. Og þá dundi voðinn yfir. Heimilisfaðirinn, Kristján Ágúst, hafði farið suður til aðgerðar og þvert á allar læknisfræðispár lést hann óvænt, maður í blóma lífsins. Hanna, elsta barnið, var þá aðeins 12 ára og hið yngsta nýfætt. Ekkert annað var í boði en að bíta á jaxlinn og lifa. Að brauðfæða stóran hóp barna var ekki vandalaust, en hópurinn veitti líka skjól og stuðning.  

    Skuggar föðurmissis verða bæði djúpir og langir. Júlídaginn 1934, þegar Kristján féll frá, var upphafið að endinum í Skógarnesi. Sigríður hélt vissulega áfram búskap, með aðstoð aldraðs föður og í krafti samheldni barna. En svo fóru þau að fara að heiman eitt af öðru og líka Auður og Unnur. Smátt og smátt fjaraði undan Skógarnesheimilinu og svo var sjálfhætt í lok fimmta áratugarins.  

    Skóli og vinna

    Auður sótti fyrst skóla á heimaslóð, en fór svo í Reykjaskóla (1944-45). Þær systur Unnur fylgdust að og fóru síðar í húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði (1945-46). Auður var góðum gáfum gædd eins og hennar fólk, en aðstæður og efni leyfðu ekki frekari skólagöngu.

    Eins og dugmikið æskufólk þessa tíma hikaði Auður ekki að fara í aðra landshluta, var m.a. ráðskona vegavinnumanna í fjarlægum landshlutum. Þau, sem eldri eru í þessum söfnuði, muna hvernig búið var að vegavinnufólki í tjaldbúðum á þessum árum. Þetta var ævintýralíf, mikil vinna og gat orðið afar kalsasamt í bleytutíð og illviðrum. Auður lifði þetta allt og lenti jafnvel í, að tjald ráðskvennanna fauk og þær með. Þær sluppu að mestu ólaskaðar úr flugferðinni en skrekk fengu þær!

    Svo var stefnan tekin á höfustaðinn. Í Reykjavík vann Auður lengstum við fatagerð, einkum við saumaskap. Hún vann um tíma hjá hinum kunna skraddara Andrési, vann líka um skeið á prjónastofu en lengst var hún á saumastofu fataverksmiðjunnar Gefjunnar. Vorið 1989 stóð Auður upp frá saumavélinni og fór að starfa við umönnunarstörf á Hrafnistu í Reykjavík eða þar til hún hætti störfum árið 1993. 

    Hugðarefni og B

    Alla tíð var Auður áhugakona um hannyrðir eins og föt hennar og gjafir til barna ættingja hennar vitnuðu um. Hún hafði áhuga á matseld og hafði enda hlotið menntun til þeirrar iðju. Matarboðin hennar Auðar voru góð og enginn fór frá henni svangur eða vansæll. 

    Auður fylgdist ekki aðeins vel með fjölskyldu sinni og venslafólki heldur einnig þróun samfélagsins. Hún studdi gjarnan Framsókn í landsmálum. Einu sinni, þegar Birgir var ungur, fékk hann að laumast með Auði í kjörklefann og þegar hann sá að hún krossaði við B gall við í þeim stutta: “Auður, kýstu B-listann?!” Engir eftirmálar urðu af þessari uppákomu aðrir en, að Birgir fékk aldrei að fara með henni í kjörklefann aftur! 

    Sambúðin með Sigríði

    Auður giftist aldrei. Þegar Sigríður Karitas, móðir hennar, brá búi og kom suður bjuggu þær saman, um tíma í gula fjölskylduhúsinu með svarta þakinu á Laugavegi 171. Þegar Einar, bróðir Auðar, hafði keypt íbúð á Hrísateigi fóru þær mægður þangað. Frá Hrísateig fluttu þær mæðgur suður í Fossvog í skjól Baldurs, bróður Auðar, og voru þar um tíma.  

    Síðan var Sigríður á Selfossi hjá Unni og Jóni, dóttur og tengdasyni. Sigríður lést í hárri elli árið 1988. Auður bjó jafnvel á Dunhaganum um tíma og naut sambýlis með Unnarbörnum. Síðan leigði hún í Kópavogi, inn á Austurbrún og eignaðist svo íbúð í Hörðalandi í Fossvogi og árið 1991 keypti hún íbúð á Bræðaborgarstíg 55 og bjó þar allt þar til hún flutti á Elli- og hjúkrunar-heimilið Grund á síðasta ári. Þá hafði hún kennt sér meins, sem dró hana til dauða 13. mars síðastliðinn. Auði leið vel á Grund og var þakklát öllum þeim sem sneru góðu að henni. Fyrir umhyggju gagnvart henni skal þakkað, bæði fjölskyldu, vinum og þeim sem hlúðu að henni á Grund.  

    Elskusemin

    Þegar skyggnst er yfir líf Auðar sést vel hvernig hún hefur þjónað sínu fólki og alið önn fyrir ástvinum sínum. Auður átti ekki börn en varð hins vegar sem önnur móðir nokkurra systkinabarna sinna. Þau Sigríður Dinah og Birgir Sigmundsson nutu hennar í uppvexti og hún naut þeirra alla tíð. Þá var Auður sömuleiðis sem önnur móðir þeim Öldu og Gísla Unnar- og Jóns-barna. Þau og tengdabörnin nutu umhyggju og elsku Auðar, sem þau endurguldu svo hún naut ríkulegrar hamingju í nærfjölskyldu sinni. Og Auður breiddi sig yfir sitt fólk sem við elskunni vildu taka. Öll þessi, sem hafa verið, sem og Kristjana Ágústa studdu Auði dyggilega allt til enda.

    Auður var félagslynd og félagshæf. Hún hafði unun af hinum mannmörgu vinnustöðum þar sem hún starfaði. Hún tengdist vinnufélögum og fólkinu á þeim stöðum og eignaðist stóran hóp vina og kunningja. Þegar hún hafði orðið næði og tóm á eftirlaunaárum var oft erfitt að ná í hana heima. Hún var á ferð og flugi, sinnti félagslífi af kappi, hitti kunningja sína og spilaði. Það var henni amasamt þegar veikindin herjuðu á hana og hún gat ekki farið allra þeirra ferða, sem hugurinn hvatti til.  

    Páskar í lífinu

    “Skelfist eigi…” segir í páskatextum Biblíunnar. Það voru sorgbitnar konur, sem voru á leið út að gröf, sem þær gátu alls ekki opnað. Þessar konur höfðu upplifað langan föstudag og eru sem fulltrúar allra sem skelfast í lífinu. Köllun okkar er að stranda ekki í vanda og áföllum og daga uppi í föstudagslífi. Nei, mál páskanna er að þegar harmþrungnar konur komu út í garðinn var steinninn frá, gröfin tóm og lík hins látna Jesú Krists var horfið. Konurnar urðu fyrir reynslu, sem síðan var höfð í minnum í frumsöfnuðinum. Já, tilveran breyttist vissulega þegar leiðtoginn féll frá. En svo breyttist allt snarlega og algerlega með boðskap páskadags.

    Hvað gerum við með slíkan boðskap, að dauðanum var snúið í andhverfu sína og sagan endaði vel? Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu. Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Og páskaboðskapurinn verður sem kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar, sem umbreytir okkur með afgerandi móti. Því lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í sólarsamhengi Guðs.

    Nú kveður þú Auði Kristjánsdóttur. Nú verður hún lögð til hinstu hvílu við hlið Sigríðar Karítasar, móður sinnar í Fossvogskirkjugarði.

    Auður hitar ekki lengur handa þér kaffi eða slær í pönsur og ber fyrir þig. Hún getur ekki lengur bent þér til vegar með mannviti, jákvæðni og skynsamlegum rökum. Hún hlær ekki lengur að skemmtilegheitum lífsins og gáskafullum málum. Nú er hún farin, en hvert? Já, því svara páskarnir. Hvað ætlar þú að gera með ágenga spurningu um líf eftir dauða? Er líf að loknu þessu? Lifir Jesús Kristur? Ef þú trúir því máttu líka trúa að Auður lifi, Unnur systir hennar, systkinin sem látin eru, Kristján og Sigríður og Ytra Skógarnes lifni í gleði í umbreytingu himinsins. Það er sunnudagsafstaða, það er páskatrú. Og það er gott að lifa í því samhengi því það er samhengi Guðs. „Skelfist eigi” sagði ljósveran í gröfinni. “Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér.” Guð faðir, sonur og heilagur andi geymi Auði Kristjánsdóttur um alla eilífð og blessi minningu hennar. 

    Útför 28. mars 2008.  

    Guðspjall Mk 16.1-7

    Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér.

    Sól og Sigrid Österby

    Sigrid Österby kom oft hingað í Neskirkju. Henni líkaði fjölbreytni kirkjustarfsins, tók þátt í mörgu og kynntist starfsfólki kirkjunnar. Í unglingastarfinu er margt brallað og víða farið. Fyrir tæpu ári efndi unga fólkið til helgistundar í Vesturbæjarlauginni undir heitinu bjartsýnisbusl. Þetta þótti Sigrid skemmtilegt og fannst upplagt að útbúa trúarlegt tákn til að reisa við laugina. Það gæti verið eins og altaristafla, og skapað óvænt helgirými í almannarýminu. Eftir nokkrar umræður varð niðurstaðan, að sólin væri ljómandi tákn um bjartsýni. Sigrid lá ekki á góðum ráðum um handverkið en svo kom í ljós að enginn treysti sér í sólargerð og sólarskorturinn fréttist. Þegar æskulýðurinn kom í sundlaugina kallaði starfsmaður Vesturbæjarlaugarinnar: „Eruð þið ekki frá Neskirkju? Það er poki hérna handa ykkur fyrir buslið.” Þau urðu hissa, tóku við pokanum og sáu að í honum var eitthvað gult. Já, auðvitað var það sól frá Sigrid. Henni hafði runnið til rifja að góð hugmynd kæmist ekki í framkvæmd, fann gult rúmteppi sem hafði þjónað hlutverki sínu, klippti það til og saumaði úr því sól, sem brosti framan í alla sem busluðu til eflingar bjartsýninni. Þegar lífið kallaði heyrði Sigrid og gerði sitt til að tákn birtunnar brostu í veröldinni.

    Í sköpunarsögu Biblíunnar, frumljóði allrar verðandi, bjartsýni og alls lífs segir Guð: „Verði ljós. Og það varð ljós.” Það sem Guð segir verður, það sem Guð kallar fram er gott. Þegar myrkur grúfir yfir djúpi er Guð nærri til að lýsa. Sköpunarsagan er ekki orð um fortíð heldur nú hverrar tíðar. Sköpunarsagan er orð um líf og það sem er. Sköpunarsagan er um þig og Sigrid. Hún lifði djúpin og myrkur, en líka líf, ljós, börn, gleði, birtu og von.

    Tvenndirnar

    Sigrid Österby fæddist á Jótlandi en var Íslendingur. Hún átti íslenska mömmu en danskan pabba, ólst upp í Danmörk en komst til manns á Íslandi. Hún var tvítyngd og eins og margir aðrir á slíkum mærum átti hún rætur í tveimur heimum. Þeir nærðu hana og toguðu líka. Líklega kallaði Danmörk og dönsk menning æ sterkar til hennar því eldri sem hún varð. Sigrid var borgarkona í Reykjavík en líka sveitakona í margvíslegum skilningi. Hún var alin upp í stórum systkinahóp, átti mörg börn sjálf, en átti sér líka leynivíddir og gat alveg hvílt í kyrru og nánd eigin sálar. Sigrid var því kona margra vídda og það varð henni til hjálpar síðar. Hún strandaði aldrei hvað sem á gekk í lífinu.

    Sigrid fæddist í Hee þann 6. febrúar 1937 og fékk nafn hinnar íslensku ömmu Sigríðar, sem varð henni sterk fyrirmynd, kannski ekki síst fyrir festu og seiglu. Í minningum, sem Sigrid lét eftir sig, sagði hún frá ljósríkum uppvexti og tjáði djúpa virðingu fyrir foreldrunum. Hún sagði, að Ólöf Hallfríður Sæmundsdóttir, móðir hennar, hafi verið verkamikil listakona, sem hafi mikið fyrir sig gert. Hermann Österby Christensen, pabbinn, hafi verið traustur, sagt fátt en hugsað margt. Hann var kunnastur fyrir störf sín hér á Íslandi sem mjólkurfræðingur og starfaði lengstum hjá Mjólkurbúi Flóamanna á Selfossi.

    Sigrid minntist timburhúsanna, sem fjölskyldan bjó í ytra. Bernskan var henni greinilega hamingjutími og síðasta húsið, sem þau bjuggu í áður en þau fluttu til Íslands, var í jaðri furuskógar. Heimsstyrjöld geisaði í nálægð, en þrátt fyrir fátækt og hörmungar er þó birta í bernskuminningunum. Og það er eins og sena í Astrid Lindgren bók, að krakkarnir voru böðuð í balla út í skógi.

    Systkinin Sigrid eru: Ásbjörn (f. 15.9. 1939), Leif (f. 18. 8. 1942), og Eva (f. 5. 1. 1948), sem lifa öll systur sína.

    Menntun

    Sigrid hóf skólagöngu á Jótlandi sex ára gömul og hélt henni síðan áfram þegar hún fluttist til Íslands. Fyrst fór reyndar fjölskyldan til Akureyrar og þá í hús Sigríðar ömmu í Glerárþorpinu þar nyrðra. Þaðan lá leiðin á Selfoss.

    Foreldrarnir voru klókir í þessum breytingaaðstæðum og Sigrid sagði frá, að faðir hennar hefði lofað henni nýju reiðhjóli ef hún yrði hæst í bekknum sínum. Breytingar geta orðið mönnum raun eða tækifæri. Sigrid bjó til sólir úr vandkvæðum í lífinu. Eftir skólagöngu á Selfossi fór hún norður á Akureyri í menntaskólanám, var þar í þrjú ár og eignaðist vini fyrir lífið, en lauk svo stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni.

    Alla ævi var Sigrid að læra. Hún var nútímakona hvað símenntun varðar. Hún stundaði nám og lauk prófum við ýmsa skóla og stofnanir og hélt alltaf áfram. Barneignir og hjúskapur hindruðu hana ekki í að halda áfram námi, en hún teygði bara á tímanum og strekkti nám í staðinn. Sigrid var fjölmenntuð hvað varðar mótun og þekkingu, en líka hvað formlega menntun varðar. Auk framhaldsskólanáms og náms í lýðháskóla, stundaði hún nám í HÍ, Myndlista- og handíðaskólanum, Kennaraskólanum og norrænum stofnunum eða skólum í listmeðferðarfræði. Viðfangsefni hennar voru gjarnan á sviði lista, artterapíu, danskrar menningar auk kennslufræði.

    Björt og skugginn

    Tæplega tvítug og áður en Sigrid lauk stúdentsprófi eignaðist hún dóttur. Trú ljóssókn sinni var hún kennd við birtuna og nefnd Björt. Foreldrar Sigrid voru henni öflug aðstoð, en litla stúlkan dauðveiktist og var að lokum send til Kaupmannahafnar til lækninga en þar slokknaði hennar líf. Allir sem hafa misst gera sér grein fyrir, að það er ekki á nokkurn mann leggjandi að grafa barnið sitt. Og sorgin vistar sig sjálf í djúpi sálar og hverfur ekki fyrr en með hana er unnið. Nú er hringnum náð og Sigrid verður lögð til hinstu hvílu í gröfina við hlið elstu dóttur sinnar. Í fyrstu kastaði Birtumissirinn löngum skugga í veröld Sigrid, en svo gat hún löngu síðar unnið með missinn.

    Konráð, börn, hjúskapur

    Svo kom Konráð Sigurðsson (f. 13. júní – d. 15. 7. 2003) inn í líf hennar. Skólastýra Myndlistaskólans kynnti hann og Sigrid. Þau voru bæði næm, ör og hvatvís – og það blossaði á milli þeirra. Hennar tilvera fléttaðist inn í hans og þar sem hann hafði atvinnu þar var hún líka, á Raufarhöfn og Kópaskeri, í Reykjavík og í Laugarási í Biskupstungum. Þau eignuðust stóra barnahópinn sinn: Atla, Ólöfu Sif, Huld, Ara og Andra. (Um fæðingardaga, störf, maka, afkomendur og tengslafólk sjá yfirlit í lok minningarorðanna)

    Í ástríki, barnríki og litskrúðugt heimilislíf blönduðust vaxandi erfiðleikar í hjúskap. Hópurinn flutti í Kastalagerði við Kópavogskirkjuna. Enn stríkkaði á hjónabandinu og bandið brast að lokum. Sigrid var ein með stóra og kraftmikla hópinn sinn, vann mikið – gjarnan við kennslu, efldi börnin til sjálfstæðis og kom þeim öllum til manns og mennta. Svo sleppti Sigrid, eignaðist sinn eigin tíma, andrúm til að sinna sér og sínum hugðarefnum, skapaði eigin listaverk, hélt æ lengra í listavinnu sinni og kafaði í dýptir sálar og vann með lífsþræði sína og annarra. Hún hélt jafnvel námskeið þegar hún var orðin veik og allt fram að því að hún var lögð inn á sjúkrahús var hún að kenna og þjóna fólki.

    Sátt

    Hún kom til baka úr sinni andlegu pílagrímsferð, tjáði að hún hefði náð sátt við flest það, sem hafði orðið henni þungbært og skuggsett í lífinu. Hún bæði sagði við mig og skrifaði niður hjá sér, að hún væri sátt við sig, sátt við Guð og menn, sátt við hjúskap sinn og allar tilraunir lífsins, sátt við áföllin. Hún gerði upp sorgina, og opnaði svo fangið að nýju gagnvart fólkinu sínu.

    Sigrid þurfti sinn tíma til að endurvinna lífsefnin, sinn tíma til að sníða nýja sól úr gömlu efni, fara inn í sorgarefnin, sem höfðu vistast hið innra á sínum tíma. Þess nutu barnabörnin ekki síst á síðari árum og fjölskyldan öll í mildi hinna síðustu mánaða. Að lifa vel er æviverk og að vinna úr áföllum er áraun pílagrímsins.

    Menning til unaðar

    Sigrid hafði víðfeðman, menningarlegan áhuga. Hún ferðaðist víða og lagði sig eftir innsýn í merkingar- og menningarheima. Hún hlustaði gjarnan og hreifst af tónlist, já allt til loka var hún opin fyrir sterkum upplifunum. Hún sótti gjarnan listasamkomur og sýningar og stælti næmi.

    En hún hafði jafnframt sterkar skoðanir á málefnum, mönnum og flestu, sem fyrir bar í veröldinni. Hún ræddi fúslega um flest, tjáði hugmyndir sínar um pólitík, gjarnan í ljósi félagshyggju og hvatti til að réttindi kvenna yrðu virt. Hún beitti sér líka í þágu fólks sem hún taldi sig geta liðsinnt. Margir í samtökunum Vin og Ljósinu hafa notið sjálfboðaliðsstarfs Sigrid með svo margvíslegu móti. Hún átti orð um nærpólitík og líka heimspólitík. Og svo var jafnan stutt í húmorinn, sem gat orðið beittur. Hvernig getur jósk-íslensk blanda orðið öðru vísi?  

    Lífsgagn

    Ákveðin var hún og fylgin sér. Sigrid hafði líka sterkar skoðanir á eigin útför. Hún vildi að minningarræðan um hana yrði stutt. Það fór jafnan illa ef ekki var tekið mark á fyrirmælum hennar! Því verður henni hlýtt, enda minnumst við Sigrid best með því að lifa vel, leyfa því, sem gladdi okkur í lífi hennar að verða okkur til eflingar.

    Sólin reis við sundlaugina í fyrra, Sigrid leitaði alla tíð ljóssins og eftir getu brá hún ljósi yfir líf okkar, veitti okkur af því, sem henni þótti skemmtilegt, kryddaði líf okkar.

    Fyrir tæpu ári komu Sigrid og dótturdóttir hennar í páskamessu í Neskirkju. Fegurð í samskiptum þeirra var smitandi. Amman var geislandi hamingjusöm í kirkju á þeim táknræna lífsmorgni. Sólin dansar á páskamorgni öllum þeim sem vilja sjá. „Verði ljós“ er orð Guðs um líf allra og líf þitt nú. Hvað ætlar þú að gera í eldsókn þinni? Sigrid mætti vandkvæðum með því að sjá tækifæri en ekki bara ósigra. Hún nýtti gamalt efni til að lýsa lífið. Og nú er líf hennar allt og hún hefur umbreyst í hinni miklu ljósstöð eilífðar. Þar er skapandi elska, þar er ekkert sem letur, slævir, myrkvar eða deyfir. Sigrid og kristinn maður vita, að á bak við tákn er veruleiki, sem er stærri en táknið. Á öllum dögum máttu muna að Guð er lífssól hennar og þín. 

    Í nýjárssálmi Matthíasar Jochumssonar segir:

    Ó, sjá þú Drottins björtu braut,
    þú barn, sem kvíðir vetrarþraut,
    í sannleik hvar sem sólin skín
    er sjálfur Guð að leita þín.

    Því hræðst þú ei, þótt hér sé kalt
    og heimsins yndi stutt og valt,
    og allt þitt ráð sem hverfult hjól,
    í hendi Guðs er jörð og sól.

    Guð varðveiti þig í ljósi sínu. Guði séu þakkir fyrir Sigrid. Guð varðveiti hana í eilífð sinni.

    Útför frá Neskirkju 19. janúar 2008.

    Sigrid Østerby, Dunhaga 15, Reykjavík, fæddist í bænum Hee á Jótlandi 6. febrúar 1937. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 12. janúar síðastliðinn. Sigrid var dóttir hjónanna Ólafar Hallfríðar Sæmundsdóttur húsfreyju á Selfossi, f. 1. 4. 1906, d. 19. 2. 1995 og Hermanns Østerby Christensen mjólkurfræðings á Selfossi, f. 10. 3. 1907, d. 1. 8. 1987. Systkini Sigrid eru a) Ásbjörn, prentari í Svíþjóð, f. 15.9. 1939, b) Leif, rakari á Selfossi, f. 18. 8. 1942, maki Svandís Jónsdóttir ljósmóðir og c) Eva hjúkrunarfræðingur, f. 5. 1. 1948,  maki Einar Oddsson læknir. Eiginmaður Sigrid var Konráð Sigurðsson læknir, f. 13. 6. 1931, d. 15. 7. 2003 en þau skildu 1972. Börn þeirra eru a) Atli, líffræðingur, f. 11. 10. 1959, maki Anne Berit Valnes, kennari. Börn þeirra eru Björk f. 9. 6. 1995, Lilja, f. 14. 12. 1996, Hákon, f. 26. 4. 1998, Tryggvi, f. 18. 7. 2000 og Gauti, f. 8. 1. 2002. Fyrir átti Anne Berit börnin Cecilie, f. 4. 6. 1982 og Fredrik, f. 13. 2. 1988. b) Sif, lögfræðingur, f. 4. 12. 1960, maki Ólafur Valsson dýralæknir. Dóttir Sifjar og Þórðar Hjartarsonar er Helga, f. 18. 7. 1997. Fyrir átti Ólafur börnin Baldvin, f. 12. 3. 1985, Sigríður, f. 5. 11. 1992 og Róshildur, f. 23. 3. 1994.  c) Huld flugfreyja og BA í frönsku, f. 5. 8. 1963, maki Sigurður Tómas Magnússon, lögfræðingur. Börn þeirra eru Sigrún Hlín, f. 20. 3. 1988, Margrét Sif, f. 3. 2. 1994 og Magnús Konráð, f. 22. 6. 1998. d) Ari, læknir f. 14. 9. 1968, maki Þóra Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra Sif, f. 13. 4. 2003 og Arnar, f. 27. 1. 2005. Fyrir átti Þóra dæturnar Helenu, f. 20.6. 1995 og Agnesi, f. 23. júlí 1997. e) Andri læknir, f. 16. 9. 1971. Sigrid átti fyrir hjónaband dótturina Björt Nordquist, f. 6. 1. 1957, d. 2. 8. sama ár. Sigrid bjó með foreldrum sínum á Jótlandi fram til 9 ára aldurs en flutti þá með þeim að Selfossi þar sem Herman faðir hennar starfaði sem mjólkurfræðingur. Sigrid stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1957 og lagði síðan stund á nám í Myndlista- og handíðaskólanum. Hún lauk kennaraprófi 1966 og BA prófi í dönsku frá Háskóla Íslands 1987. Síðar nam hún uppeldis- og kennslufræði og listasögu við Háskóla Íslands. Hún lauk námi sem listmeðferðarfræðingur frá Institut for Kunstterapi í Noregi og Danmörku 2003 og stundaði listmeðferð til æviloka. Sigrid starfaði síðustu áratugina sem framhaldsskólakennari, síðast við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Jafnframt lagði hún stund á myndlist og hélt fjölda einkasýninga og samsýninga hér á landi og erlendis. Sigrid var ötul baráttukona fyrir kvenréttindum og tók virkan þátt í menningarsamskiptum við fjölmargar þjóðir, svo sem, Sovétríkin, Kína, Albaníu og Kúbu. Hún starfaði sem sjálfboðaliði fyrir Vin, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, lagði hvers kyns menningar- og mannúðarmálum lið og ferðaðist víða um heim. Sigrid lagði alla tíð sérstaka rækt við hinar dönsku rætur sínar. Útför Sigrid var gerð frá Neskirkju 19. janúar 2008 kl. 14.00.

    Þórður Jón Pálsson – Minningarorð

    Hvernig getum við lifað vel? Arfi okkar breytum við ekki, en við erum þó öll frjáls að hvernig við lifum. “Réttu úr þér” sagði Þórður við þau sem voru bogin. Okkar ábyrgð er að vinna með það, sem gefið er og ávaxta við hæfi. “Af ávöxtum skuluð þér þekkja þá” var slagorð Silla og Valda sínum tíma. Og af ávöxtum Þórðar Jóns Pálssonar getum við þekkt hann. Börnin hans tala fallega um föður sinn, með ljóma í augun. Hann var glæsilegur, já, en gervileiki tryggir ekki gæfu. Gæfan, hamingjan er heimavinna hvers manns. Hann vann vel með sitt.

    Skógurinn og lífsmerkin

    Þrastarskógur er unaðsreitur, sem flestir þekkja af afspurn, margir hafa horft yfir en of fáir hafa gengið um, því hann er undursamlegur. Vottið Þórði virðingu með því að vitja skógarins, þessa ávaxtar vinnu hans í áratugi. Þar var ræktunarmaðurinn Þórður í essinu sínu, hlúði ekki aðeins að skógarplöntum og sinnti vörslu, heldur kenndi líka fólkinu sínu á lífið, samhengið og veitti þeim gæðatíma.

    Elín brosti út að eyrum þegar hún rifjaði upp skógargöngurnar og sagði: “Það var yndislegt að labba á eftir pabba og spyrja hann um blómanöfn. Honum fannst það gaman líka. Einu sinni stóð hann á gati og sagði brosandi: Þetta er Guðnýjarstrá.” Dótturinni þótti merkilegt, að mömmunafnið tilheyrði svona jurt! Þórður hafði í sér þessa hlýju nálgun gagnvart fólki, nemendum sínum, náttúrunni og sjálfum sér að hann gat spunnið fallega, umbreytt skógargöngu í grasafræðslu og svo þegar hann stóð sjálfur á gati hafði hann í sér spunagetu til að vefa elsku til konu sinnar að upplifun stundarinnar. Við getum lifað lífinu með svo margvíslegu móti – þar sem einn sér ekki annað en ómerkilegan graslubba sér annar færi til að hrífast yfir lífinu. Vinnuferð í skógi getur orðið sem undraferð, sem varpar gleði yfir allt lífið ef ferðalangurinn hefur opin huga og vill lifa með gleði.

    Ávöxtur og Jesúboðskapur

    Fjallræða Jesú er ein frægasta ræða hans og í henni vakti hann meðal annars athygli á trjám, ræktun og árangri. “Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá… …Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu.” Hverju skilum við í lífinu? Er það sem við gerum gott eða slæmt, til góðs eða ills? Við erum ábyrg og þurfum að standa skil. Þórður lifði til góðs. Hann var ekki aðeins góður heimilismaður heldur var ávaxtasamur ræktunarmaður í skólasögu og líka í skógrækt þjóðarinnar.

    Upphafið og áfall

    Þórður Jón Pálsson fæddist 1. apríl 1921 á Eyrarbakka og lést í Reykjavík 12. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðbjörg Elín Þórðardóttir (4. des. 1896 – 25. nóv. 1983) og Páll Guðmundsson (26. september 1895 – d. 5. apríl 1927). Systkinin urðu sjö. Þau er lifa eru Halldór Guðjón (f. 1924) og Pálína (f. 1927). Látin eru Guðmundur Gunnar (f.1919 d. 1997), sem lést fyrir 10 árum, Ingileif en hún dó í bernsku (f. 1923 d.1924), Sigurður (f. 1925) lést árið 1981 og Páll Erlingur (f. 1926) lést árið 1973.

    Dauðinn er vissulega nágranni okkar allra. Öll berum við í okkur endanleikann og þurfum að horfast í augu við hann. En misharkalega slær hann okkur. Þegar Þórður var nýorðinn sex ára stóð hann við innsiglinguna á Eyrarbakka og beið Páls föður síns, sem var á vélbátnum Sæfara. Við hlið hans stóð afi. Saman – og með hönd í hönd – sáu þér hvernig báturinn valt og saman gerðu þeir sér grein fyrir að pabbinn dó. Og smám saman gerðu þeir sér líka grein fyrir að lífið yrði ekki samt. Móðir Þórðar gekk þá með sjöunda barn þeirra Páls en eitt þeirra hafði dáið um þremur árum áður. Þeir Þórður og bræður hans urðu strax eftir föðurmissinn að axla aukna ábyrgð til að barnahópurinn sylti ekki. Þeir föluðust eftir vinnu og mikilvæg laun voru fiskur í soðið.

    Aðalsteinn fóstri og velgerðarmaður

    Alþingishátíðarárið 1930 var tímamótaár í lífi Þórðar. Námsgeta og skapfesta hans hafði vakið athygli Aðalsteins Sigmundssonar, sem var kennari og skólastjóri á Eyrarbakka. Aðalsteinn flutti til Reykjavíkur og bauð Elínu móður Þórðar, að koma honum til manns, sem hún þáði. Það varð honum til happs. Aðalsteinn var mikill menntafrömuður og vildi tryggja að þessi níu ára gamli drengur fengi tækifæri. Hann fóstraði hann og tók hann með sér suður er hann hóf störf í hinum nýja og metnaðarfulla Austurbæjarskóla.

    Margir áttu Aðalsteini mikið að þakka og m.a. segir annar nemandi hans, Sigurjón Ólafsson, myndhöggvari, svo frá þegar hann leit til baka á fimmtugsafmæli sínu: “Aðalsteinn … kenndi mér að glúpna ekki fyrir erfiðleikum,“ Aðalsteinn stappaði sem sé stáli í þá, sem hann treysti. Frá Sigurjóni fáum innsýn í þá uppeldisaðferð, sem Þórður naut og skilaði sér fullkomlega, því aldrei varð honum hug- eða handaskortur gagnvart verkefnum lífsins. Það er sama lífshvötin, starfahvatningin sem börnin hans Þórðar fengu síðar. Leti var ekki í boði, verkefnum skyldi skilað og án nokkurra eftirgagnsmuna. Og engin skyldi óttast þótt vandinn væri talsverður, já viðfangsefni lífsins voru ekki til að lama eða veikja neinn heldur efla og styrkja til starfa og lífs.

    Nám og flug

    Þeir fóstrar Aðalsteinn og Þórður komu sér fyrir í umsjónarmannsíbúðinni í Austurbæjarskólanum. Eftir fullnaðarpróf frá Austurbæjarskólanum fór Þórður vestur í héraðsskólann á Núpi og þaðan í héraðsskólann á Laugarvatni. Hann lauk síðan gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Reykjavíkur.

    Á æskuárum varð Þórður heillaður af flugi og var félagi í hópi, sem fékk aðstöðu í Þjóðleikhúsinu hálfbyggðu og þar smíðuðu félagarnir svifflugu, sem var svo flutt upp á Sandskeið. Í þessum hópi voru nokkrir af frumkvöðlum flugs á Íslandi. Sumir þeirra fóru vestur um haf til flugnáms og stofnuðu svo Loftleiði. Þórður íhugaði um tíma að fara sömu leið, en var ráðið frá því og hvattur til að láta fremur til sín taka á fræðslusviðinu en í skýjaglópsku, eins og margir álitu að flugið væri.

    En auk flugsins gat hann sjálfur nánast flogið af eigin kröftum. Þórður stundaði fimleika í KR og var í sýningarflokki. Eftir stríð fór flokkur hans í frækna sýningaför til Norðurlandanna og Englands. Fimleikarnir stæltu, hann hafði síðan atvinnu af íþróttakennslu og naut hreyfingarinnar með góðri heilsu hið innra sem ytra.

    Starfsárin

    Árið 1942 varð síðan eitt af mikilvægustu árunum í ævi Þórðar því þá kvæntist hann, eignaðist fyrsta barnið og lauk prófi frá Kennaraskóla Íslands. Þaðan í frá og til starfsloka starfaði Þórður við kennslu í Austurbæjarskóla eða frá 1942 og til 1983. Veturinn 1949-1950 fór hann til Danmerkur og nam við hinn kunna íþróttaskóla í Ollerup. Þar höfðu margir Íslendingar verið og voru líka síðar. Heimkominn hélt Þórður áfram kennslu bæði í leikfimi og bóknámsgreinum og var yfirkennari Austurbæjarskóla síðustu árin.

    Til að sjá sístækkandi fjölskyldu farborða sinnti Þórður ýmsum aukastörfum. Hann kenndi leikfimi í Stýrimannaskólanum í nær tvo áratugi, var þjálfari t.d. í fimleikum og handbolta hjá ýmsum íþróttafélögum. Þórður var alla ævi afar heilsugóður og vafalaust gat hann að einhverju leyti þakkað sér þau gæði sjálfur, því hann lifði heilbrigðu og heilsusamlegu lífi. Eftir að hann lauk starfsskyldum í kennslunni vann hann í Kjötmiðstöðinni í nokkur ár hjá Hrafni tengdasyni sínum sem og við fyrirtæki Kjartans, sonar síns, um tíma.

    Guðný og börnin

    Lífsförunautur og lífsgæfa Þórðar var Guðný Eiríksdóttir (15. september 1916 – 8. september 1997). Þau gengu í hjónaband 24. maí 1942, nutu barnaláns og eignuðust sex börn. Þau eru: Elín (f. 1942) gift Reinhold Kristjánssyni, Steinunn (f. 1943) gift Hrafni Bachmann, Aðalsteinn (f. 1945) kvæntur Guðrúnu Jóhannesdóttur, Kjartan (f. 1949) kvæntur Helgu Kristínu Einarsdóttur, Gunnar (f. 1953) kvæntur Hafdísi Kjartansdóttur og Páll (f. 1958) en hann lést á árinu 2006.

    Þórður og Guðný hófu búskap á Sólvallagötu 58 í litlu plássi þar sem ástin ríkti. Hópurinn fyllti vistarverur en leigusalinn vildi ekki að þau færu fyrr en þau færu í sitt eigið. Það gekk eftir, Þórður sló ekki slöku við byggingarstörfin og haustið 1950 fluttu þau að lokum í rúmgóða íbúð á Melhaga 5. Þar sköpuðu þau sér góðan reit um hamingju og börn.

    Barnaskólinn á Melhaga

    Mörgum kom Þórður til manns í kennslunni í Austurbæjarskólanum og margir minnast öflugs kennara. Börnin á Högum og Melum fóru í Melaskóla og þar var þeim raðað í bekki eftir lestrarkunnáttu. Guðný og Þórður gerðu sér grein fyrir að forskóla væri þörf og mörg barnanna þörfnuðust undirbúnings til að verða vel búin til prófs og skóla. Þau stofnuðu smábarnaskóla og starfræktu hann í stofunum heima frá 1951-1970. Allt að tuttugu börn voru að námi samtímis og jafnvel var þrísetið. Að þetta var mikilvægt starf verður ekki efað og þrír forsætisráðherrar Íslendinga fengu sína fyrstu skólakennslu hjá Guðnýju og Þórði.

    Skógræktin

    Þrastarskógur varð drengnum af Eyrarbakkaströndinni ævintýraveröld. Aðalsteinn, fóstri hans, gegndi þar skógarvörslu. Ungur fékk Þórður að fara með honum. Skógurinn og Þórður áttu síðan langa og farsæla samleið. Hann tók við skógarvörslunni af Aðalsteini og sinnti henni frá 1943-1974. Skógurinn varð sælureitur fjölskyldunnar og Guðný og börnin voru eystra þegar Þórður var að byggja í Reykjavík eða sinna öðrum launastörfum. Ræktarsemi og starf þeirra eystra verður ekki nógsamlega lofað og seint fullþakkað. Þau lögðu jafnvel út fyrir plöntum þegar ekki var fé til kaupa eða greiða strax.

    Fyrir hönd þeirra hjóna voru Þórði veitt heiðursverðlaun Skógræktarfélags Íslands árið 1963 fyrir skógræktarstörf. Gullmerki UMFÍ hafa ekki verið veitt nema tveimur utanfélagsmönnum i nær aldarsögu þess. En árið 1985 var Þórður sæmdur merkinu fyrir störf sín í Þrastarskógi. En að baki og með honum var öll fjölskyldan, öll komu þau að plöntun og umönnun skógarins og nutu unaðar og dýrmæta svæðisins, lærðu á Sogið og nutu náttúrfræðikennslu föðurins á vettvangi og fengu ögrandi verkefni að glíma við og fengu innsýn í líf náttúru, lífsbaráttu kynslóða og glímu manna við náttúruöfl. Þau lærðu ekki aðeins að veiða, trjárækt og áralagið, heldur ekki síður hitt sem Þórður kunni svo vel að miðla, að læra áralag lífsins og axla ábyrgð með skyldurækni á sínu ábyrgðarsviði.  

    Lund og verk

    Þórður var natinn faðir, öflugur uppalandi, traustur í samskiptum og glaðsinna. Hann skapaði ásamt Guðnýju gott heimili og vaxtarreit fyrir börnin. Uppeldið var skýrt og hvetjandi og skammalaust. Honum var mjög í mun að koma börnum sínum til manns. Samheldni og samvinna er afrakstur Melhagauppeldisins. Þórður var traustur í öllum verkum sínum og þótt honum byðust vegtyllur í lífinu tók hann ákvörðun um að fara hvergi frá Austurbæjarskólanum. Hann mat líka frelsið til að vera fyrir austan í skógarvinnunni. Þar hafði fjölskyldan líka gott umhverfi og vettvang við hæfi ungviðisins. Þórður var öðrum fyrirmynd um bindindissemi og hollustuhætti. Hann lagði sig eftir að hafa góð áhrif á uppvaxandi fólk, setti sig á skör með börnum og þau hændust að honum. Hann vildi líka, að menn bæru virðingu fyrir sjálfum sér og líkaminn bæri merki innri ögunar. Hann var orðvar en góður sögumaður, kurteis, hugaður og víllaus, ljúfur en þó ákveðinn. Í hinu ytra bar hann merki innri ögunar, ávallt snyrtilegur. Ameríkanar segja að skórnir segi hver þú ert og skórnir hans Þórðar voru alltaf skínandi vel burstaðir.

    Ferðir og missir

    Þegar Þórður lauk störfum í Þrastarskógi urðu skil í lífi fjölskyldunnar. Þá fóru þau hjónin að ferðast meira, bæði innan lands og utan. Guðný var ekki heilsuhraust og Þórður gætti hennar vel. Aldrei kom betur í ljós hve natinn hann var við hana en þegar leið að lífslokum. Skil urðu svo þegar hún lést árið 1997 og ári síðar var Melhaginn seldur. Þórður flutti á Aflagranda 40 og bjó þar til æviloka. Þar eignaðist hann góðan vin í Sigríði Kjartansdóttur, sem reyndist honum vel. Börn Þórðar þakka Sigríði vináttu hennar og stuðning, sem hún sýndi honum síðustu árin.

    Þrekmennið

    Lítil saga var rifjuð upp í síðustu viku sem dregur vel saman mátt Þórðar og er sem táknmynd um styrk hans. Á heitum degi austur við Sog ákvað íþróttamaðurinn að kæla sig ofurlítið. Hann þekkti ána, hafði oft tekið sundtökin og meira segja einu sinni kafað til að bjarga gaddavírsrúllu sem hafði dottið útbyrðis og var á marga metra dýpi. Hann lagði fötin frá sér á bakkann, óð út í á og synti. Þegar hann var komin langleiðina yfir á fékk hann kuldakrampa, náði þó að velta sér á bakið og kraflaði sig upp á bakkann. En þá var honum vandi á höndum. Átti hann að ganga skólaus og berstrípaður niður á brú og síðan langa leið heim í hús, mæta öllum vegfarendum á Adamsklæðunum og reyna bera sig vel? Það þótti Þórði ekki fýsilegt og hann vissi að hann fengi annað krampakast ef hann synti að nýju yfir. Af tveimur kostum var sá síðari skárri og þann tók hann. Fékk krampann á leiðinni en náði landi. Hann var vaskur en þó ekki fífldjarfur, þekkti mörk sín og vissi hvað hann mátti leyfa sér.

    Í Þórði Jóni Pálssyni er genginn góður og öflugur maður, sem bar ríkulega ávexti í einkalíf, kom sínu fólki og gríðarstórum hópi nemenda til manns. Hann þjónaði ræktun lands einnig. Hann var því einn af hinum mikilvægu vormönnum Íslands sem lögðu grunn að velferð og ríkidæmi þjóðarinnar. Í honum bjó andleg festa sem hann stælti alla tíð. Þórður mætti hverri raun sem viðfangsefni til að glíma við. Sálarstyrkur hans, lífskrafturinn, blasti við í víllausri afstöðu hans til manna og málefna. Kyrra hans, óttaleysi og umhyggja eru til fyrirmyndar þeim sem eftir lifa. Trén hans lifa, blöð og barr syngja lífssálma sína austur í Þrastarskógi, og afkomendur hans mega draga heim lærdóm frá Þórði, axla ábyrgð, leyfa hlátri, nánd, skemmtun og styrk hans verða til lífsauka. Okkar er að lifa vel og iðka mennsku okkar, vera ávaxtasöm. Guð geymi Þórð og varðveiti ávallt í eilífð sinni.

    Neskirkja 22. janúar 2008

    Æviágrip Þórðar Jóns Pálssonar.

    Þórður fæddist 1. apríl 1921 að Leifseyri á Eyrarbakka og lést í Reykjavík 12. janúar 2008. Foreldrar hans voru: Guðbjörg Elín Þórðardóttir húsmóðir f. 4. desember 1896 í Reykjavík d. 25. nóvember 1983 dóttir hjónanna Ingileifar Tómasdóttur og Þórðar Sigurðssonar trésmiðs í Bræðraborg í Reykjavík og Páll Guðmundsson vélstjóri f. 26. september 1895 í Eyrarbakkasókn d. 5. apríl 1927 sonur hjónanna Guðmundar Jónssonar rokkasmiðs á Eyrarbakka og konu hans Guðrúnar Þorgrímsdóttur. Eftirlifandi systkini Þórðar Halldór Guðjón f. 1924 og Pálína f. 1927, en látin eru Guðmundur Gunnar f.1919 d. 1997, Ingileif f. 1923 d.1924, Sigurður f. 1925 d. 1981, Páll Erlingur f. 1926 d. 1973. Eiginkona Þórðar var Guðný Eiríksdóttir. Þau gengu í hjónaband 24. maí 1942. Guðný fæddist að Smærnavöllum í Garði 15. september 1921 d. 8. september 1997. Foreldrar hennar voru Guðrún Sveinsdóttir f. 1875 d. 1969 og Eiríkur Guðmundsson f. 1869 d. 1933 útvegsbóndi. Guðný átti 5 systkini sem öll eru látin. Börn þeirra eru: Elín f. 1942 gift Reinhold Kristjánssyni, Steinunn f. 1943 gift Hrafni Bachmann, Aðalsteinn f. 1945 kvæntur Guðrúnu Jóhannesdóttur, Kjartan f. 1949 kvæntur Helgu Kristínu Einarsdóttur, Gunnar f. 1953 kvæntur Hafdísi Kjartansdóttur og Páll f. 1958 d. 2006 ókvæntur. Þórður og Guðný hófu búskap að Sólvallagötu 58 en haustið 1950 fluttu þau að Melhaga 5 þar sem þau bjuggu eftir það. Ári eftir að Guðný dó flutti Þórður að Aflagranda 40 og bjó þar til dauðadags. Þórður var hjá móður sinni til ársins 1930, en þá fluttist hann með Aðalsteini Sigmundssyni, til Reykjavíkur og bjuggu þeir í Austurbæjarskólanum. Eftir fullnaðarpróf frá Austurbæjarskólanum fór Þórður fyrst í héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði og svo í héraðsskólann á Laugarvatni. Gagnfræðaprófi lauk hann árið 1939 frá Gagnfræðaskóla Reykjavíkur og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1942. Veturinn 1949-1950 nam hann við Íþróttaskólann í Ollerup í Danmörk. Þórður var kennari við Austurbæjarskólann frá 1942 til 1983, kenndi bæði bóknámsgreinar og leikfimi. Síðustu árin var hann yfirkennari við skólann. Þórður kenndi einnig leikfimi í Stýrimannaskólanum og á árunum u.þ.b. 1942-1960 var hann þjálfari hjá ýmsum íþróttafélögum m.a. í fimleikum, handbolta o.fl. Í nokkur sumur á yngri árum. var Þórður í byggingarvinnu, vinnu við höfnina o.fl. svo og einnig á ýmsum síldarbátum m.a. Ólafi Magnússyni frá Keflavík. Þórður starfrækti smábarnaskóla að Melhaga 5 veturna 1951-1970 og var skógarvörður í Þrastaskógi, skóglendi UMFÍ, sumrin 1943-1974. Við bæði þessi störf naut hann dyggrar aðstoðar Guðnýjar eiginkonu sinnar. Þórður dvaldi mörg sumur sem drengur í Þrastaskógi með Aðalsteini Sigmundssyni, og hann tók við skógarvarðarstarfinu eftir Aðalstein. Þórður hlaut heiðursverðlaun Skógræktarfélags Íslands árið 1963 fyrir skógræktarstörf í Þrastaskógi og gullmerki UMFÍ árið 1985 fyrir störf sín í Þrastaskógi og er hann annar tveggja utanfélagsmanna sem hlotið hafa gullmerki UMFÍ í nær 100 ára sögu þess. Á fyrstu árum svifflugs hér á landi um 1935 var Þórður í hópi ungra manna sem mættu flest kvöld í Þjóðleikhúsinu sem þá var hálfbyggt og smíðuðu svifflugu sem þeir fluttu síðan upp á Sandskeið, þar sem þeir æfðu svifflug.  Þórður var með svifflugsskírteini nr. 26. Þórður æfði fimleika með KR í mörg ár og fór með fimleikaflokknum í margar sýningarferðir um Ísland og einnig til Norðurlanda og Englands árið 1946. Þórður var meðal fánabera íslenska fánans þegar hann var dreginn að húni í fyrsta sinn á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 1944.

    Geir Helgi Geirsson

    Útför frá Neskirkju 14. desember 2007. Minningarorðin eru hér að neðan. 

    Geir las alltaf notkunarleiðbeiningarnar! Á sálmaskránni er dásamleg mynd af honum að skoða kort og gögn. Hann vildi vita hvernig hlutir voru gerðir og hvernig ætti að fara með þá til að vel gengi og skemmdum væri varnað. Gilti einu hvort það voru notkunarleiðbeiningar Lister-ljósavéla, bíls, þvottavélar eða DVD-spilara. Geir var sjálfur öflugur framkvæmdamaður og mat gott verk, en grunnur þess var að hann flanaði ekki að neinu. Fagmennska er að þekkja gerð og ferla og gera hlutina vel.

    Biblían er leiðarvísir um gott líf. Hana þarf að lesa og nema boðskap hennar til að allt gangi vel upp. Þar er rætt um tilgang lífsins og tengslin við þann sem stýrir þessari stóra veraldarskipi. Í áttunda Davíðssálmi lesum við lýsingu manns, sem er eins og barn, sem starir hrifið upp í glitrandi næturhvelfinguna.

    „Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
    tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
    hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
    og mannsins barn að þú vitjir þess?”

    Þetta eru grunnspurningar. Hvað er maðurinn í þessu stóra ofurgímaldi sem veröldin er? Erum við eitthvað meira en sandkorn á geimströnd – eða kannski fremur eins og ofurlítill blossi í safni tímans? Við lifum ótrúlega stutt, líðum útaf og hverfum í mistur tímans fyrr en varir. Er þá allt búið? Er þetta mannlíf aðeins skyndiferð, eins og snögg strandflutningaferð milli tveggja fjarða, svo allt búið og ekki meir? Á farmennska mannlífs okkar dýpri rök og markmið? Er það “skipafélag” sem við köllum heiminn vel rekið “fyrirtæki” og til góðs? Er eigandinn í brúnni traustsins verður, þessi sem við köllum Guð? Sálmaskáldið forna var sannfært um, að maðurinn er meira en rykkorn í geimnum, sannfærður um að stjörnur, tungl, dýr, fuglar himins og fiskar hafsins, menn, já allt sem fer hafsins vegu nytu elsku og að lífið er gott. Þess vegna getur skáldið haldið fram hinni góðu niðurstöðu um lífið:

     „… Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
    tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
    hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
    og mannsins barn að þú vitjir þess?
    Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
    krýndir hann hátign og heiðri…
    Drottinn, Guð vor,            
    hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.“

    Foreldrar og fjölskylda

    Já Geir fæddist inn heim elskunnar. Og sá heimur var líka veröld farmennskunnar. Pabbinn var vélstjóri á Fossunum og þjónaði Eimskipum. Eybí sá um, að börnin þeirra Geirs Jóhanns fengju gott veganesti, hún hélt vel um hópinn sinn. Allur skarinn fór svo niður að höfn þegar pabbi kom. Þá voru dýrðardagar, þá var hægt að gleðjast þó engin væri hátíð í öðrum húsum.

    Þau Geir Jóhann Geirsson (31.10. 1917 – d. 2.8.2005) og Eybjörg Sigurðardóttir, eða Eybí, (10.04. 1926) eignuðust fyrst Þorvald (13. október 1952). Síðan kom Geir Helgi (18. desember 1953), Lovísa er næst-yngst (21. janúar 1956) og Valgerður yngst (16. maí 1962). Hálfsystir Geirs Helga og elsta barn Geirs Jóhanns er Nína (1. maí 1946).

    Fjörug bernska

    Þeir Þorvaldur og Geir Helgi sýndu snemma, að þeir voru efni í farmenn, létu sig stundum hverfa skyndilega og lögðu upp í miklar ferðir, frá Hagamel og síðan upp alla Hofsvallagötu í átt til afa og ömmu á Brunnstíg. Þetta voru engar skyndiferðir heldur drógu þeir vörubílinn sinn í gengum alla polla og verklegar fyrirstöður á leiðinni. Það má vera gaman á ferðalögum. En mamma þeirra var þó stundum hrædd. Og myndin af þessum litlu ferðamönnum er heillandi. Stundum undrast maður að börnin lifi af allar hættur bernskunnar!

    Hagarnir og Melarnir voru undraland fyrir uppvaxandi ungviði. Barnafjöldin var mikill, ströndin var nærri – upplagt að skella gúmmítuðru á flot. Svo var flugvallarsvæðið líka spennandi vettvangur og höfnin líka. Margt var brallað og engin takmörk hvað gáskafullir krakkar geta upphugsað. Þeir bræður náðu jafnvel að blása upp gúmmíbát inn í flugskýli. Svo var auðvitað dásamlegt að eiga systurnar til að gantast við.

    Skólar og atvinna

    Geir fór í Melaskólann og svo í Hagaskóla. Eftir að skyldunámi lauk tók Geir að lokum frumlega ákvörðun. Hann ætlaði til starfa í sömu vélsmiðju og faðir hans áratugum fyrr, vestur á Þingeyri. Þar með hafði hann kastað sínum lífsteningum. Hann lærði handverkið, fór svo í Vélskóla Íslands og útskrifaðist sem vélstjóri árið 1975. Eins og faðir hans þjónaði hann Eimskipum, byrjaði í sumarafleysingum árið 1972 og var fastráðinn vélstjóri frá 1976. Hann þjónaði svo þessu óskabarni þjóðarinnar allt til lífsloka, fór um heiminn, flutti lífsnauðsynjar til landsins og út það sem skapaði þjóð og fólki tekjur. Hann var í þjónustu okkar. Á síðari árum urðu ferðirnar styttri, en kannski ekki auðveldari. Þegar bilanir urðu og fárviðri geisuðu reyndi á vélstjóra. Þá var reynt í öllu stálið, mönnum og tækjum. Og vélstjórinn mátti alls ekki bregðast, annars væri voðinn næsta vís.

    Mér hefur verið falið að bera ykkur kveðju starfsmanna Eimskipa. Mörg skip eru á sjó og margir félagar Geirs hefðu viljað vera hér í dag en eru fjarri og þó í huga nærri. Eimskip þakka samstarf frábært starf Geirs í 32 ár. Sömuleiðis biðja Auður Rafnsdóttir og Júlíus Bjarnason fyrir kveðjur, en þau eru erlendis.

    Helga – hamingjudísin hans Geirs

    Það var einn kaldan desemberdag, að Helga var með systur sinni að keyra fram hjá Þórskaffi. Þá sá hún mann standa í nepjunni fyrir utan. Ekki veit ég hvaða pick-up línu hún notaði, en hún kippti manninum upp í bílinn og keyrði hann heim. Geir hefur sjálfsagt þótt talsvert um framtak hennar, alla vega vildi hann hitta hana þegar hann var búinn að hugsa um hana í heilan túr. Hann hringdi og svo byrjuðu þau að draga sig saman. Systkinum hans þóttu þetta mikil tíðindi, enda hafði Geir ekki verið í útstáelsi. Og hinar góðu fréttir bárust hratt í fjölskyldunni. Þótt Helga væri ekki alveg viss um stöðu sína fann hún fljótt, að hún var velkomin, enda var og hefur heimili Eybíar og Geirs Jóhanns eldri alltaf verið örugg friðarhöfn. Mosfellssveitarfjölskylda Helgu tók Geir jafn vel og Vesturbæjarfjölskyldan henni. Samheldnin einkenndi báða vængina og það er auðvitað ómetanlegt lífslán að eiga góða að, sem kunna að rækta samhug og gott samkomulag. Það er höfuðstóll, sem nýtist þegar áföllin verða.

    Fyrst bjuggu Geir og Helga í Markholtinu og svo fengu þau lóð á Leirutanganum í Mosfellsbæ og fóru að byggja. Geir var sjálfbjarga á öllum sviðum og svo nutu þau allra hjálpandi ættingja í báðum fjölskyldum. Guðjón og bræður Helgu grófu. Geir lét verkin tala og húsið reis ótrúlega hratt. Svo fluttu þau inn og margt var ógert. Ekki voru allar dyr komnar og Geir hafði engar áhyggjur af þó vaskar og klósett væru ekki tengd þegar þau fluttu inn. Hann bara kippti snarlega slíkum smámálum í lag. Helga þurfti ekki að kvaka í lífinu. Geir gekk í verkin og kunni til allra framkvæmda. Svo færði hann út kvíarnar, studdi Helgu í garðavinnunni og féll að lokum alveg fyrir útivinnunni, við umhirðu runna, trjáa og beða. Veikur var hann í sumar þegar hann var á fullu í að arfahreinsa beðin. Hann var á undan sinni samtíð og smíðaði m.a. fallega beðakanta. Það þarf ekki glöggt auga til að sjá hversu allt er vel og haganlega unnið í Leirutanganum, til að sjá hversu góður verkmaður Geir var. Og svo eru allar hans framkvæmdir líka vitnisburður um heimilismanninn. Hann hafði á heimsferðum sínum lært að meta gæði hins heimafengna, fólksins síns, heimarammans. Hann naut þess að vera heima, naut þess að sýsla við hið einfalda heimilislíf, sjá fólkið sitt, tala við það, vera með því. Atið var nægilegt í vinnunni, og svo þegar hann kom heim skildi hann vinnuna eftir á hafinu og í skipunum. Hann hafði enga þörf fyrir að færa í sögur hættur, rosa og áföll. Hann þurfti að hvíla sig ef ferðirnar höfðu reynt á, en svo var hann algerlega kominn heim, var til reiðu fyrir fólk og verk. Í því er Geir okkur hinum mikil fyrirmynd.

    Helga og Geir voru ástfangið hamingjufólk og nutu barnaláns. Helga var hamingjudísin hans Geirs. Hún kom með Guðjón Reyr Þorsteinsson (18.9. 1978) í sambúðina og Geir gekk honum í föður stað. Síðan eignuðust þau Eybjörgu (5.3. 1982). Hennar sambýlismaður er Tómas Haukur Richarðsson og þau eiga Alexander Aron, sem var augasteinn afa síns. Nína Björk kom svo (4.10. 1983). Hennar sambýlismaður er Pétur Óskar Sigurðsson. Geir Jóhann (20.08. 1993) er yngstur. Leirutangaheimilið einkenndist af samstöðu. Helga og börnin hafa misst mikið. Guð geymi ykkur í ykkar sorgarför.

    Samstaða

    Það hefur verið hrífandi að heyra börnin tala um pabba sinn og tengslin við hann. Guðjóni reyndist Geir ráðhollur faðir og var alltaf til reiðu þegar Guðjón þarfnaðist hans með. Svo var hann föður sínum traustur vinur þegar Geir veiktist og sigldi sína kröppu veikindasiglingu. Þá gat Guðjón miðlað af því hvað hafði orðið honum til hjálpar og þeir ræddu líka um trú, um Guð, um hvað maður getur gripið í þegar allt er komið í strand. Það er ekki sjálfgefið að ástvinir kunni til svona samtals og gagnkvæmrar styrkingar, en gott þegar svo er.

    Geir var stoltur af börnum sínum og hafði efni á því, gladdist þegar vel gekk, studdi þegar þörf var á, fagnaði þegar sigrar unnust, og var þeim stuðningur og gagnrýnir þegar þess var þörf. Hann var samstiga Helgu í að skapa festu í heimilislífinu, beitti sér til að fólkið hans lærði góð samskipti og að læra að leysa mál með friði en ekki látum. Það var góð skikkan á öllum málum. Geir var kannski ekki besti kokkur í heimi, hélt sig við það sem hann vissi að hann gæti gert skammlaust. En hann skilaði sínu af heimilisstörfunum með meiri ágætum en flestir jafnaldrar hans!

    Hæfni og eigindir

    Það er góð samfella og heilindi í lífi Geirs. Hann valdi sér lífsstarf sem heillaði hann, gat notað hæfni sína til að verða öflugur í sínu fagi. Hann hafði áhuga á farmennsku, notaði tímann til að fræðast um lönd og menningu. En á bak við hinn kunnáttusama farmann, vélstjóra og heimilismann var hinn íhuguli Geir. Á tímum asasóttar kunni Geir manna best að núllstilla. Hann gat sest niður í fullkominni yfirvegun, leyst krossgátu, jafnvel tölvuleik, en hæfni hans kom kannski best fram í vinnu við eitthvert ofurpúslið. Geir, fagmaðurinn, kom sér meira að segja upp púslaðstöðu, kenndi sínu fólki þessa góðu slökunaraðferð og Alexander Aron skilur orðið hvað maður gerir og hvernig maður þarf að beita hugsun, yfirsýn og útsjónarsemi.

    Geir kom sér líka upp annarri gæðalind sem var arininn sem þau Helga höfðu í stofunni. Arininn var notaður og Geir kveikti upp, jafnvel á hverjum degi. Allir eldmenn heimsins vita hve dásamlegt er að fylgjast með leik glóðar, stara í litaspilið, hrífast af dansi loganna og nema hlýjuna sem sækir út og inn í húð og huga. Við elda hefur menning heimsins orðið til, sögur verið sagaðar og lífsspeki verið miðlað. Við elda farmanna heimsins hefur kunnátta breiðst út meðal fólks. Við eldinn geta glöggir menn séð í djúp eigin tilveru, numið hvað er gott og hvað má kyrrt liggja.

    Geir hafði í sér eigindir til að rækta innri mann og ná kyrru. Þar með gat hann verið góður og öflugur maki, góður faðir, fagmaður, ferðamaður – já góður maður. Öll erum við kölluð til að skila góðu dagsverki á heimili og í vinnu, en mest og best er að vera góð manneskja, vera það sem maður er í grunninn, iðka það sem maður er kallaður til og hefur hæfni til. Þannig var Geir Helgi Geirsson.

    Hin mikla för

    Geir Helgi fór og farmaðurinn kom alltaf aftur. Nú er hann farinn í ferð, sem er mesta ferð mannsins, ferðin inn á haf eilífðar. Hann vissi að hverju dró. Hann hafði starað upp í himininn, séð tungl og stjörnur, hrifist og verið snortinn, en vissi líka vel að engin ferð verður nákvæmlega með því móti sem menn hugsa sér, allar ferðir verða með öðru móti en áætlað hefur verið. Í því er viska förumannsins fólgin. Ferðir í þessum heimi eru líka æfingar fyrir ferðina inn á haf ljóssins. Munið að leiðbeiningarrit veraldar, Biblían, segir okkur að “vélbúnaður” himinsins er meira en sem við sjáum með berum augum, miklu stórkostlegri. Nú má Geir njóta gangverks eilífðar. Það er gott verkefni og “manualarnir” væntanlega skemmtilegir aflestrar!

    Geir var mikill lýsingarmeistari. Á aðventunni dró hann mikið safn af vírum og ljósaseríum fram, kom fyrir í garðinum sem ljómaði á þessum myrka tíma. Á þessari aðventu gat hann ekki sinnt því skemmtiefni og nú tóku börnin hans við. Kynslóðir koma og fara svo. Nú var það þeirra hlutverk að splæsa saman víra og læra lýsingarlistina. Það var Geir örugglega sárt að finna til vanmáttar síns, en hann vissi vel, að börnin hans höfðu hlotið gott veganesti, gott uppeldi, þau megna öll að axla ábyrgð – í þessu sem öðru. Nú er það þeirra að lýsa, leyfa ljósinu að mæta nóttinni, leyfa ljósinu að minna sig á að pabbi þeirra er í ljósinu himneska.

    Geir kom alltaf til baka, en nú kemur hann ekki aftur. En hann er ekki horfinn. Hann er í ljósríki Guðs, siglir á hafi elskunnar. Í því er undur kristninnar að boða elskandi Guð, sem hefur umhyggju fyrir fólki, leiðir og blessar. Guð huggi ykkur sem syrgið. Guð geymi Geir Helga Geirsson um alla eilífð.

    Jarðsett í Lágafellskirkjugarði. Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju. Fjóla Haraldsdóttir, djákni, las lexíu og bað bæn. Jónas Þórir sá um undirleik. Einsöngur Sigrún Hjálmtýsdóttir og Hanna Guðný Hallgrímsdóttir. Gítarleikur Emil Hreiðar Björnsson. Kórsöngur Karlakórinn Stefnir.